Categories
Greinar

Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar

Deila grein

06/02/2020

Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar

Mik­il­vægt er að fram­kvæmd­um við tvö­föld­un Reykja­nes­braut­ar­inn­ar, frá gatna­mót­un­um við Krýsu­vík að Hvassa­hrauni, ljúki hið fyrsta. Á sín­um tíma, þegar uppi voru áform um stækk­un ál­vers­ins í Straums­vík, keypti ál­verið land und­ir þá stækk­un og á því landi ligg­ur Reykja­nes­braut­in í dag. Sam­kvæmt gild­andi aðal­skipu­lagi átti Reykja­nes­braut­in því að fær­ast frá ál­ver­inu um leið og ál­verið þyrfti lóðina til stækk­un­ar. Þau áform um stækk­un voru naum­lega felld í íbúa­kosn­ingu árið 2007 og ekk­ert hef­ur því orðið af til­færslu braut­ar­inn­ar.

Fram­kvæmd­um flýtt

Ný­leg skýrsla Vega­gerðar­inn­ar og Mann­vits sýndi að hag­kvæm­ast er að breikka Reykja­nes­braut­ina í nú­ver­andi veg­stæði í stað þess að færa hana líkt og gild­andi aðal­skipu­lag ger­ir ráð fyr­ir. Góð og lausnamiðuð sam­töl hafa verið við Sig­urð Inga Jó­hanns­son sam­gönguráðherra og full­trúa Vega­gerðar­inn­ar og ál­vers­ins í Straums­vík. Samstaða og skiln­ing­ur er á milli aðila um að vinna í sam­ræmi við þær for­send­ur sem fram koma í skýrsl­unni, ásamt því – og um leið – að treysta at­hafna­svæði ál­vers­ins til framtíðar. Þetta hef­ur gefið okk­ur raun­hæf­ar vænt­ing­ar, líkt og ráðherra hef­ur boðað, um að fram­kvæmd­um á þess­um veg­kafla verði flýtt um nokk­ur ár og kom­ist inn á fyrsta tíma­bil sam­göngu­áætlun­ar. Um­ferðarör­yggi er mál­efni sem snert­ir okk­ur öll og eru þetta því mik­il gleðitíðindi fyr­ir okk­ur Hafn­f­irðinga og lands­menn alla. Í ljósi þessa og í sam­ræmi við það sem fram kem­ur í skýrsl­unni og eft­ir sam­ráð við full­trúa ál­vers­ins í Straums­vík er nú haf­in vinna við breyt­ing­ar á aðal­skipu­lagi Hafn­ar­fjarðar og mun bæj­ar­fé­lagið, eðli máls­ins sam­kvæmt, vera í sam­starfi við fyr­ir­tækið í allri þeirri vinnu.

Óboðleg­ur mál­flutn­ing­ur um ál­verið

Öflugt at­vinnu­líf er hverju sam­fé­lagi mik­il­vægt og höf­um við lagt ríka áherslu á að skapa fyr­ir­tækj­um í bæn­um aðlaðandi og traust um­hverfi. Slíkt hef­ur gefið okk­ur mögu­leika á að fjár­festa í innviðum og létta und­ir með íbú­um bæj­ar­fé­lags­ins. Ný­verið sagði Tóm­as Guðbjarts­son lækn­ir ál­verið í Straums­vík vera dauðvona og á líkn­andi meðferð. Það er dap­ur­legt að skynja þau viðhorf sem fram koma í um­mæl­um lækn­is­ins til þessa stóra vinnustaðar í land­inu og þeirra ein­stak­linga sem þar starfa. Í ál­ver­inu í Straums­vík starfa um 400 starfs­menn með ólíka mennt­un og reynslu, ásamt því að ál­verið er einn stærsti út­flytj­andi vara frá Íslandi. Það gef­ur því auga­leið að fyr­ir­tækið er sam­fé­lag­inu mik­il­vægt og er eitt af okk­ar góðu og traustu fyr­ir­tækj­um. Mál­flutn­ing­ur sem þessi er því óá­sætt­an­leg­ur og í raun með öllu óboðleg­ur.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæj­ar­ráðs í Hafnar­f­irði. ag­ustg@hafn­ar­fjor­d­ur.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2020.

Categories
Greinar

Vísindi fólksins í landinu

Deila grein

06/02/2020

Vísindi fólksins í landinu

Hug­mynda­fræði lýðvís­inda bygg­ist á sjálfsprottn­um áhuga al­menn­ings á að taka þátt í vís­ind­um, oft­ast í sjálf­boðaliðastarfi. Hug­takið er til­tölu­lega nýtt af nál­inni en lýðvís­indi á Íslandi hafa nú þegar skilað miklu til rann­sókna. Gott dæmi um slíkt sam­starf vís­inda­manna og al­menn­ings er starf­semi Jökla­rann­sókna­fé­lags Íslands. Þetta sam­starf hef­ur notið verðugr­ar at­hygli og eflt jökla­rann­sókn­ir á Íslandi. Sjálf­boðaliðar á veg­um fé­lags­ins hafa stundað mæl­ing­ar á hopi og framskriði jökla frá miðri síðustu öld, og þannig safnað mik­il­væg­um gögn­um um áhrif lofts­lags­breyt­inga á ís­lenska jökla um ára­tuga skeið.

Auk þess má nefna mörg dæmi um frjáls fé­laga­sam­tök og fé­lög aðstand­enda sjúk­linga sem hafa lagt mikið af mörk­um til vís­inda með því að safna fé og hvetja til umræðu um al­genga jafnt sem sjald­gæfa sjúk­dóma og þannig stutt dyggi­lega við og hvatt til rann­sókna á þeim. Vís­inda- og tækni­ráð hef­ur í stefnu sinni jafn­framt lagt sterka áherslu á opin vís­indi og miðlun vís­inda­legra gagna og niðurstaðna til sam­fé­lags­ins. Þess má einnig geta að ný stefna ráðsins er nú í smíðum og mun birt­ast á vor­mánuðum. Þar er miðlun vís­inda­starfs og þátt­taka al­menn­ings í vís­inda­starfi eitt af leiðandi stef­um stefn­unn­ar.

Það er hlut­verk okk­ar sem störf­um á þess­um vett­vangi, hvort sem það er við stefnu­mót­un um vís­inda­mál eða fram­kvæmd rann­sókna, að virkja og efla þekk­ingu al­menn­ings á vís­inda­starfi og hvetja til sam­tals milli vís­inda­manna og borg­ar­anna. Ég tel einnig mik­il­vægt að auka sýni­leika lýðvís­inda í vís­indaum­ræðunni og hvetja til þátt­töku al­menn­ings í vís­inda­starfi í breiðasta skiln­ingi þess orðs.

Ísland stend­ur jafn­framt framar­lega í alþjóðlegu vís­inda­sam­starfi og hafa stjórn­völd lagt áherslu á að bæta stoðkerfi rann­sókna og vís­inda enn frek­ar ásamt því að auka mögu­leika ís­lenskra vís­inda­manna í alþjóðlegu sam­starfi. Íslensk­ir vís­inda­menn og stofn­an­ir búa yfir dýr­mætri reynslu og þekk­ingu á fjöl­mörg­um sviðum. Það eru mikl­ir hags­mun­ir fólgn­ir í því fyr­ir Ísland að taka þátt í alþjóðlegu vís­inda­sam­starfi tengdu norður­slóðum.

Rann­sókn­ir, vís­indi og hag­nýt­ing hug­vits eru for­send­ur fjöl­breytts at­vinnu­lífs, vel­ferðar og styrkr­ar sam­keppn­is­stöðu þjóða. Á tím­um fjórðu iðnbylt­ing­ar­inn­ar og lofts­lags­breyt­inga verða lýðvís­indi þjóðum sí­fellt mik­il­væg­ari. Þau hvetja til læsis á vís­inda­leg­um upp­lýs­ing­um, þjálfa gagn­rýna hugs­un og færa vís­ind­in til fólks­ins í land­inu. Einnig geta lýðvís­indi vakið áhuga unga fólks­ins okk­ar á vís­ind­um og starfs­frama inn­an þeirra. Síðast en ekki síst eru lýðvís­indi mik­il­væg í að auka færni vís­inda­manna í að miðla upp­lýs­ing­um um rann­sókn­ir og niður­stöður þeirra til al­menn­ings og eins að hlusta á radd­ir hins al­menna borg­ara um áhersl­ur í vís­inda­starfi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2020.

Categories
Fréttir

Fyrir frumkvæði og vinnu Þingflokks Framsóknarmanna – ætlað að styrkja grunnrannsóknir í sýklalyfjaónæmi vegna matvælaöryggis og vernd búfjárstofna

Deila grein

05/02/2020

Fyrir frumkvæði og vinnu Þingflokks Framsóknarmanna – ætlað að styrkja grunnrannsóknir í sýklalyfjaónæmi vegna matvælaöryggis og vernd búfjárstofna

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir í yfirlýsingu í dag að það sé fyrir frumkvæði og vinnu Þingflokks Framsóknarmanna að á koppinn sé kominn sjóður í samræmi við aðgerðaráætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Þórarinn Ingi Pétursson og Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismenn Framsóknar, unnu ötullega að verkefninu í atvinnuveganefnd Alþingis s.l. vor. En stofnaður var í dag „Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóður“ og hafa úthlutunarreglur sjóðsins verið birtar með formlegum hætti.
Tilgangur sjóðsins er að fjármagna verkefni undir formerkjum „Einnar heilsu“ (e. One Health) í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Sjóðurinn mun, meðal annars, styrkja grunnrannsóknir í sýklalyfjaónæmi, auk þess að greiða fyrir skimun og vöktun á sýklalyfjaónæmi í dýrum, matvælum, umhverfi og fóðri. Sjóðurinn er settur á laggirnar í samræmi við aðgerðaráætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna og sameiginlegt átak ráðherranna um að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
Í greininni „matvælalöggjöf“ eftir Þórarinn Inga og Höllu Signý í Bændablaðinu frá því í sumar segir m.a.:

„Framsóknarflokkurinn hefur í vetur tekið sér stöðu og verið óhræddur við að benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Þessar áhyggjur eru ekki gripnar úr lausu lofti. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag.
Undir þetta taka fjölmargir sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Við afgreiðslu lagabreytinga um innflutning ferskra matvæla náðist góð samvinna í atvinnuveganefnd sem skilaði niðurstöðu sem rímar vel við landbúnaðarkafla stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Þar segir að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum en auk þess boðar ríkisstjórnin metnaðarfull áform í loftslagsmálum.“

Categories
Fréttir

Tvímælalaust hvatning fyrir mikilvæga starfsemi – ávinningur af starfi þriðja geirans til almannaheilla getur styrkt samfélagið allt

Deila grein

05/02/2020

Tvímælalaust hvatning fyrir mikilvæga starfsemi – ávinningur af starfi þriðja geirans til almannaheilla getur styrkt samfélagið allt

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, fór yfir, í störfum þingsins á Alþingi í gær, starf starfshóps er Willum Þór Þórsson, alþingismaður, leiddi um skattumhverfi almannaheillastarfsemi sem fellur undir þriðja geirann. Starfshópurinn skilaði af sér nýlega tillögu til ríkisstjórnarinnar.
„Þar er átt við starfsemi sem fellur hvorki undir einkageirann né opinbera geirann, svo sem eins og starfsemi íþróttafélaga, björgunarsveita, góðgerðarfélaga og mannúðarsamtaka.“

„Starfshópurinn leggur áherslu á aukna skattalega hvata til að efla starfsemi þessara aðila með því að útvíkka núverandi hvata og lögfesta nýja. Meðal nýmæla eru tillögur um:

  • hvata til einstaklinga til að styrkja félög,
  • fjárstuðning á móti útlögðum kostnaði vegna viðhalds eða endurbóta á mannvirkjum undir starfsemi til almannaheilla, og
  • niðurfellingu á fjármagnstekjuskatti aðila sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla.“

„Þá er lögð áhersla á að almannaheillafélagaskrá verði komið á, eins og raunar er lagt til í frumvarpi sem nú þegar liggur fyrir Alþingi, og lagðar eru til breytingar á:

  • erfðafjárskatti,
  • fasteignaskatti,
  • fjármagnstekjuskatti,
  • stimpilgjaldi,
  • tekjuskatti og
  • virðisaukaskatti.“

„Leitað er fyrirmynda í nágrannalöndunum og tillögur hópsins eru greinilega vel ígrundaðar og vandaðar. Þær munu styrkja rekstrarleg skilyrði almannaheillastarfsemi og færa starfsskilyrði nær nágrannaríkjum okkar.
Ég hef væntingar til þess að ríkisstjórnin fylgi tillögunum eftir og ég legg áherslu á að við fáum frumvörp til þingsins sem allra fyrst til að tryggja nauðsynlegar lagabreytingar til að hrinda tillögunum í framkvæmd. Skýr umgjörð um starfið og skýrir hvatar geta tvímælalaust orðið hvatning fyrir mikilvæga starfsemi því að ávinningur af starfi þriðja geirans til almannaheilla getur styrkt samfélagið allt og haft mikil áhrif á samfélagsþróun í smáum og stórum byggðum um land allt. Á síðustu vikum höfum við einmitt upplifað hvað bjargir samfélaganna sem liggja í almannaheillasamtökunum eru mikilvægar,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Skattalegt umhverfi þriðja geirans – tillögur um ívilnun

Deila grein

05/02/2020

Skattalegt umhverfi þriðja geirans – tillögur um ívilnun

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, stýrði starfshópi um skattalegt umhverfi þriðja geirans sem m.a. snýr að íþróttafélögum, björgunarsveitum, góðgerðarfélögum og mannúðarsamtökum. Markmið vinnu starfshópsins var að leggja fram tillögur til að styrkja skattalegt umhverfi þriðja geirans og hefur starfshópurinn skilað af sér skýrslu til ríkisstjórnarinnar.
Einkum var horft til þess í vinnu starfhópsins að finna leiðir til þess að auka skattalega hvata gefenda til lögaðila sem starfa að almannaheillum, styrkja starfsemi þeirra lögaðila sem starfa að almannaheillum með skattalegum ívilnunum og efla og styrkja skattalega umgjörð og skráningu slíkra lögaðila hjá Skattinum, m.a. með skráningu í almannaheillafélagaskrá.
Alþjóðlegur samanburður leiddi í ljós að víðast hvar í nágrannaríkjum okkar væru skattalegir hvatar víðtækari fyrir gefendur vegna fjárframlaga eða annarra framlaga til slíkrar starfsemi. Auk þess væru slíkir hvatar víðtækari fyrir þiggjendur slíkra framlaga. Var það mat starfshópsins að tækifæri væru til þess að útvíkka skattalega hvata, annars vegar fyrir gefendur og hins vegar fyrir þau félög sem teljast til almannaheilla.
Auk þess var það mat starfshópsins að rétt væri að nýir skattalegir hvatar yrðu lögfestir til að stuðla enn frekar að eflingu þeirrar mikilvægu starfsemi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann.
Með auknum skattalegum hvötum fyrir starfsemi til almannaheilla og framlaga til slíkrar starfsemi munu skattaleg og rekstrarleg skilyrði slíkrar starfsemi verða efld og færast nær skattalegum ívilnunum í nágrannaríkjum okkar.

Helstu tillögur starfshópsins:

Erfðafjárskattur. Að kannað verði hvort undanþága félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum frá greiðslu erfðafjárskatts af dánargjöfum geti tekið til lögaðila í öðrum félagaformum.
Fasteignaskattur. Að kannað verði að veita undanþágu, lækka eða fella niður fasteignaskatt hjá lögaðilum sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði sínu samkvæmt samþykktum sínum.
Fjármagnstekjuskattur. Að lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði sínum samkvæmt samþykktum sínum verði undanþegnir greiðslu tekjuskatts af fjármagnstekjum.
Stimpilgjald. Að lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla verði undanþegnir, að öllu leyti eða að hluta, frá greiðslu stimpilgjalds af kaupsamningum sem þeir eru aðilar að.
Stuðningur vegna útlagðs byggingarkostnaðar. Að þeim lögaðilum sem starfa til almannaheilla og hlotið hafa staðfestingu frá Skattinum í kjölfar skráningar á almannaheillafélagaskrá verði veitt heimild til að óska eftir fjárstuðningi af útlögðum kostnaði upp að ákveðnu hámarki vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á mannvirki undir starfsemi til almannaheilla, að uppfylltum ítarlegum skilyrðum.
Tekjuskattur. Að ákvæði 2. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga verði endurskoðað með tilliti til hlutfalls og gildissviðs heimils frádráttar frá tekjum af atvinnurekstri. Jafnframt verði einstaklingum gert heimilt að draga frá tekjum sínum sambærilegar gjafir og framlög upp að ákveðnu hámarki. Samhliða verði skoðað hvort ákjósanlegt sé að miða frádráttarheimild ákvæðisins við tiltekna fjárhæð og/eða ákveðið hlutfall af tekjum.
Virðisaukaskattur. Að undanþáguákvæði 5. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga er varðar góðgerðarstarfsemi verði endurskoðað auk þess sem það verði útvíkkað þannig að undanþágan nái jafnframt til ráðstöfunar hagnaðar til almannaheilla en ekki aðeins til líknarmála. Þá er lagt til að þau tímamörk sem sett eru fyrir undanþágu góðgerðarstarfsemi samkvæmt ákvæðinu verði endurskoðuð.

Categories
Fréttir

„Í áratugi var táknmálið bannað“

Deila grein

05/02/2020

„Í áratugi var táknmálið bannað“

„Í næstu viku fagnar Félag heyrnarlausra 60 ára afmæli. Félagið er hagsmunafélag sem veitir hvers konar ráðgjöf og álit er snýr að málefnum heyrnarlausra. Heyrnarlausir eru málminnihlutahópur og þurfa því að reiða sig mikið á aðstoð túlka í sínum samskiptum í samfélaginu þar sem þeirra tungumál er lítt þekkt í þeirra umhverfi,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í gær.

„Baráttusaga heyrnarlausra er merkileg og hreint ótrúleg og baráttan fyrir tungumáli þeirra hefur ekki verið áfallalaus í gegnum tíðina. Í áratugi var táknmálið bannað og það var ekki fyrr en 1980 að því banni var aflétt. Svo var það árið 2011 að táknmál varð löglegt hér á landi sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og aðstandenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Þar með skuldbundu stjórnvöld sig til að hlúa að því og styðja. Þarna var mikilvægum áfanga náð.“

„Þó að þessum áfanga sé náð eru baráttumálin mörg. Þrátt fyrir að íslenskt táknmál sé opinbert mál hér á landi er lítil sem engin fræðsla eða kennsla í skólum landsins um það. Lítið sem ekkert er gert til að kynna og kenna íslenskt táknmál fyrir nemendum. Ég er sannfærð um að táknmálið yrði útbreiddara og viðurkennt að fullu ef það yrði kennt í grunnskólum landsins. Sjónvarpsefni er sjaldan textað eða túlkað og þeir sem lifa ekki nálægt döffsamfélaginu þekkja sjaldnast táknmálið. Þess vegna eru heyrnarlausir háðir túlkaþjónustu í sínu hversdagslega lífi,“ sagði Halla Signý.
„Táknmál er ekki einkamál heyrnarlausra. Það er tungumál stórs hóps og opinbert mál hér á landi og ætti auðvitað að vera gert hærra undir höfði en nú er gert. Öll opinber þjónusta ætti að huga betur að þessu.
Ég vil nota tækifærið og færa Félagi heyrnarlausra árnaðaróskir í tilefni af þessum tímamótum og þakka því fyrir baráttuna fyrir réttindum þessa málminnihlutahóps,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Skólaakstur og malarvegir

Deila grein

04/02/2020

Skólaakstur og malarvegir

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, vekur athygli á svari við fyrirspurn um „skólaakstur og malarvegi“ í yfirlýsingu í dag.

„Lengsti skólaakstur á möl er 43,5 km um Bárðardal, á Norðurlandi vestra eru flest börn sem fara langar leiðir daglega á möl en of mörg börn á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi fara allt of langa leið á möl daglega. Hver eru ásættanleg viðmið; 10, 15, 20 km aðra leiðina?,“ segir Líneik Anna.

En samgönguáætlun hefur verið viðfangsefni Líneikar Önnu þessa dagana. Og bendir hún jafnframt á hversu ábyggilegar rauntölur séu fengnar aðeins úr lögregluskýrslum er slysaskráning Samgöngustofu byggjast á.

„Hvað þá með slys þar sem björgunarsveitir, bændur eða aðrir vegfarendur redda málum?“

 

Categories
Fréttir

Skoska þingið sótt heim!

Deila grein

31/01/2020

Skoska þingið sótt heim!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og formaður Norðurlandaráðs, segir Skota vera „að kanna hvaða leiðir þeir geta farið inn í framtíðina og ekki síst í utanríkismálum.“ Þetta kemur í fram í viðtali á ruv.is í dag.
„Utanríkismál eru þó enn í höndum breska ríkisins. Breska stjórnin hefur sagt að það komi ekki til greina að heimila Skotum að efna til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði,“ segir Silja Dögg.

„Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, og Oddný G. Harðardóttir, varaforseti, fóru í dag í opinbera heimsókn í skoska þingið í Edinborg. Þetta er í fyrsta skipti sem forseti Norðurlandaráðs heimsækir Skotland formlega,“ segir í frétt ruv.is.

Categories
Fréttir

Jarðgöng á Tröllaskaga

Deila grein

31/01/2020

Jarðgöng á Tröllaskaga

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar á Alþingi í gær.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga. Ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir árslok 2020.

Í greinargerð segir að Tröllaskagagöng hafi komið til umræðu við og við á liðnum árum. „Hefur þá einkum verið rætt um tvo valkosti, annars vegar göng frá Hofsdal yfir í Barkárdal og hins vegar tvenn jarðgöng sem færu fyrst úr Hörgárdal yfir í Skíðadal, sem er inn af Svarfaðardal, og þaðan vestur í Kolbeinsdal í Skagafirði.
Í riti Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra frá árinu 2017, Samantekt um samgöngumál, áherslur og forgangsröðun verkefna á Norðurlandi vestra, kemur fram að jarðgöng á Tröllaskaga eru meðal helstu áhersluverkefna samtakanna í samgöngumálum og leggja þau til að hafin verði rannsókn á hagkvæmni þess að grafa slík göng.
Í ritinu segir enn fremur: „Ekki er nokkur vafi á að þessi göng myndu styrkja landshlutann. Fjallvegurinn um Öxnadalsheiði getur verið verulegur farartálmi yfir vetrarmánuðina. Það þarf varla að tíunda þá kosti sem þessi göng hefðu í för með sér fyrir öruggara aðgengi íbúa Norðurlands vestra að sjúkrahúsinu á Akureyri. Auk þess að stytta leiðina yrði ekki um fjallveg að fara úr Skagafirði til Akureyrar. Rétt er að minna á í þessu samhengi að engin fæðingarþjónusta er á Norðurlandi vestra og þar með er samkeppnisstaða landshlutans sem ákjósanlegur búsetukostur fyrir ungt fólk verulega skert. Áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra þarf heldur varla að tíunda í þessu sambandi en með áætluðu millilandaflugi til Akureyrar skiptir það landshlutann verulegu máli að leiðin milli landshlutanna verði stytt og gerð greiðfærari. Stækkun vinnusóknarsvæða er landshlutanum einnig mikilvæg og möguleikar á sókn í ýmsa þjónustu myndu snarbreytast við tilkomu þessara ganga. Það er afar mikilvægt fyrir landshlutann að kostir þessarar leiðar verði skoðaðir, ekki eingöngu út frá hagkvæmni vegna styttingar vegar og minni þjónustuþarfar heldur líka hver hin samfélagslegu og efnahagslegu áhrif verða á samfélögin á Norðurlandi vestra en einnig á Eyjafjarðarsvæðinu.“
Í tengslum við aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar í upphafi þessarar aldar var ýmissa gagna aflað frá Lendisskipulagi ehf., m.a. um Tröllaskagagöng. Í gögnunum kemur fram að vegalengdir milli þéttbýlisstaða á Norðurlandi myndu styttast mikið með tilkomu ganganna. Þannig yrði vegalengdin frá Laugarbakka í vestri til Akureyrar 185 km ef farið er um Þverárfjall og göng milli Hjaltadals og Hörgárdals. Vegalengdin milli Hóla og Akureyrar yrði með tilkomu ganga kringum 60 km en er nú um 130 km. Vegur milli Sauðárkróks og Akureyrar myndi styttast úr um 119 km í um 90 og milli Blönduóss og Akureyrar úr 145 km í um 136 km og niður í 127 km með vegstyttingum á þeirri leið. Þannig lægju leiðir manna milli Reykjavíkur og Akureyrar um nær allar fjölmennustu byggðir á Norðurlandi vestra. Vegalengd milli Sauðárkróks og Húsavíkur yrði 167 km með tilkomu þessara ganga og Vaðlaheiðarganga. Verði þessi leið farin þarf ekki að fara yfir Öxnadalsheiði en vegurinn um hana liggur hæst í 540 m hæð. Einnig færðist aðalleiðin frá Vatnsskarði þar sem vegurinn fer í um 400 m hæð og yfir á Þverárfjall þar sem vegurinn fer hæst í 320 m. Tvenn styttri göng, úr Hörgárdal yfir í Skíðadal og úr Skíðadal yfir í Kolbeinsdal, koma einnig til greina en þau gætu gefið enn frekari möguleika á styttingu milli þéttbýliskjarna og byggðarlaga báðum megin Tröllaskagans með tilheyrandi stækkun vinnusóknar- og þjónustusvæða.
Í febrúar 2019 samþykktu bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Skagafjarðar áskorun til stjórnvalda um að fjármagna grunnrannsóknir og samanburð á kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum slíkra ganga.
Áskorun sveitarfélaganna er svohljóðandi:

„Bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykktu á fundum sínum fyrr í þessari viku áskorun til stjórnvalda um að tryggja í nýrri samgönguáætlun fjármögnun grunnrannsókna og samanburðar á bestu kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélags- og efnahagslegum áhrifum sem leiða af nýjum Tröllaskagagöngum.
Tröllaskagagöng munu ótvírætt hafa mikinn ávinning í för með sér í formi styttri vegalengda á milli allra stærstu þéttbýlisstaða á Norðurlandi, aukins öryggis vegfarenda þar sem til yrði ný leið sem sneiðir fram hjá hæstu fjallvegum, stækkunar vinnusóknarsvæða, styrkingar almennrar þjónustu og eflingar ferðaþjónustu, auk bættrar samkeppnisstöðu landshlutans. Slík jarðgöng myndu breyta svo miklu á svo stóru svæði að örðugt er að sjá áhrifin fyrir án ítarlegrar og faglegrar athugunar.
Bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggja þunga áherslu á að nauðsynlegur undirbúningur og frumrannsóknir vegna nýrra Tröllaskagaganga hljóti fjármögnun innan nýrrar samgönguáætlunar.“

Eins og rakið hefur verið myndu göng undir Tröllaskaga fela í sér gríðarlega samgöngubót fyrir íbúa Norðurlands og aðra sem þar fara um. Öryggi vegfarenda yrði stórbætt auk þess sem slík framkvæmd myndi m.a. leiða af sér stækkun vinnusóknarsvæða og eflingu ferðaþjónustu á svæðinu.
Leggja flutningsmenn til að samgöngu– og sveitarstjórnarráðherra verði falið að láta hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga. Í þeirri vinnu verði lagt mat á bestu leiðina sem og kostnað framkvæmdarinnar. Þá verði samfélagsleg og efnahagsleg áhrif slíkrar gangagerðar jafnframt könnuð. Lagt er til að ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir árslok 2020.“

Categories
Fréttir

„Loðnubrestur hefur mikil áhrif á þjóðarbúið í heild“

Deila grein

31/01/2020

„Loðnubrestur hefur mikil áhrif á þjóðarbúið í heild“

Nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000-2019 var til umræðu á Alþingi í gær. Ásgerður K. Gylfadóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, sagði að þó sveiflur í stærð loðnustofnsins séu þekktar, þá hafi það ekki gerst áður að tvær vertíðir í röð bregðist og veiði ekki heimiluð. Íslendingar hafa veitt loðnu við strendur landsins frá árinu 1963. „Hafrannsóknastofnun gefur út heimild til veiða og hefur byggt á því árlega að skilin séu eftir um 350.000–400.000 tonn af kynþroska loðnu á hverri vertíð en rannsóknir Hafrannsóknastofnunar fyrir síðustu loðnuvertíð gáfu til kynna að þau viðmið myndu ekki nást ef veiðar væru heimilaðar og því var ekki gefinn út neinn kvóti þá vertíðina,“ sagði Ásgerður.

„Eins og sjá má af gögnum skýrslunnar hefur göngumynstur loðnunnar breyst. Ástæða er til að ætla að breytt hitafar sjávar með hærri yfirborðshita og breyttum skilum kaldari strauma úr norðri og hlýsjávar úr suðri á svæðinu norðan og austan landsins hafi haft áhrif á göngu loðnu á því svæði. Er breytt göngumynstur loðnunnar að hluta til rakið til þessara breytinga á hita sjávar og strauma.“

„Ég vil taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni að mikilvægt er að auka rannsóknir á þeim breytingum sem hafa orðið í hafinu og áhrifum þeirra á nytjastofna við landið. Ég vil spyrja ráðherra hvort beitt hafi verið fjarkönnun í haf- og loðnurannsóknum eða hvort það sé til skoðunar. Í skýrslunni kemur fram það álit Hafrannsóknastofnunar að í ljósi þess hve loðnan er skammlíf tegund og miklar sveiflur í stærð stofnsins sé ógjörningur að spá fram í tímann um þróun hans. Miðað við breytingarnar sem hafa verið síðustu ár er í mínum huga talsvert erfitt að vera bjartsýnn á styrkingu stofnsins. Í skýrslunni kemur fram það mat Hafrannsóknastofnunar að horfur fyrir næstu vertíð séu ekki góðar miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi. Mælingar á magni eins árs loðnu haustið 2018 gefa ekki miklar vonir en vísitalan sem mældist 10,8 milljarðar er með þeim lægstu sem sést hafa undanfarin ár. Ekki var óalgengt á tíunda áratug síðustu aldar að hún væri yfir 100 milljarðar eins og sýnt er á mynd í skýrslunni.

Auk þess sem loðna er með verðmætustu nytjategundum hér við landið er hún einnig mikilvæg fæðutegund annarra lífvera, svo sem fiska, hvala og fugla. Erfitt er þó að gera sér grein fyrir áhrifum þess á stærð stofnsins og hefur verið farið mjög vel yfir það í þessari umræðu.

Loðnubrestur hefur mikil áhrif á þjóðarbúið í heild en hvaða áhrif hefur hann á þau samfélög þar sem uppsjávarveiði er hvað mest? Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga fékk RR ráðgjöf til þess að greina áhrif loðnubrestsins á sveitarfélögin. Sú greining kom út í júlí 2019 og byggir á gögnum sem samtökin öfluðu hjá sveitarfélögunum Fjarðabyggð, Langanesbyggð, Sveitarfélaginu Hornafirði, Vestmannaeyjabæ og Vopnafjarðarhreppi. Markmið þessarar greiningar var að meta bein áhrif loðnubrestsins á fjárhag og rekstur sveitarfélaganna. Þá er litið til tekjutaps vegna lægri launatekna íbúa og vegna minni umsvifa í hafnarstarfsemi. Í greiningu RR ráðgjafar kemur fram, með leyfi forseta:

„Bein áhrif loðnubrests á tekjur þeirra sveitarfélaga eru áætlaðar rúmar 500 millj. kr. á árinu 2019, eða bilinu 4,5–6,7% af skatttekjum og tekjum hafnarsjóða. Í sveitarfélögunum búa samtals tæplega 13.000 íbúar. Áætlað tekjutap er því um 40.000 kr. á hvern íbúa. Slíkt tekjutap hefur mikil áhrif á rekstur sveitarfélaganna og dregur úr möguleikum þeirra til að veita lögbundna þjónustu við íbúa sína. Áhrifin koma misjafnlega niður og harðast á þeim sveitarfélögum sem búa við einhæft atvinnulíf. Tækifæri þeirra sveitarfélaga til að afla annarra tekna til að vega á móti tapinu eru takmörkuð og fá tækifæri fyrir íbúa til að finna aðra atvinnu við hæfi.“

Það eru fordæmi fyrir því að fram komi mótvægisaðgerðir þegar aflabrestur verður með þessum hætti og ætti það ekki síst við í þeim sveitarfélögum sem byggja atvinnulíf sitt á uppsjávarveiðum og -vinnslu. Einnig er vert að benda á að samhliða þessum loðnubresti hefur verið mikil niðursveifla í sumargoti síldar vegna þeirrar sýkinga sem hún er að ganga í gegnum. Sá tekjubrestur sem sveitarfélögin, útgerðirnar, sjómennirnir og síðast en ekki síst landverkafólkið hefur mátt þola undanfarin misseri, bæði vegna loðnubrests og síldarsýkingar, er mjög mikill. Því hvet ég ráðherra til að skoða úrlausnir til að bæta þeim samfélögum sem hafa orðið fyrir þessum óvænta tekjumissi það upp á einhvern hátt og eru mörg dæmi þess að slíkt hafi verið gert í gegnum tíðina á Íslandi,“ sagði Ásgerður.