Categories
Fréttir

Sýnum skynsemi

Deila grein

28/11/2018

Sýnum skynsemi

„Hæstv. forseti. Nú liggja mörg áhugaverð mál frá þingmönnum fyrir þinginu. Segja má að þau snerti flesta þætti mannlegs samfélags og eins og gengur er nálgun manna misjöfn, en þegar allt kemur til alls vilja allir bæta samfélagið og styrkja stoðir þess. Umhverfismál eru eðlilega mikilvægur þáttur og í raun sá þráður sem ætti að tengja okkur öll saman því að á okkur hvílir sú ábyrgð að skila landinu okkar í betra ástandi en við tókum við því.
Mikil áhersla er á umhverfismál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar kemur fram að Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og að tryggja eigi áframhaldandi samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum. Skipuð hefur verið verkefnisstjórn til að móta matvælastefnu fyrir Ísland og það er vel. Meðal þátta sem horfa ber til við mótun stefnunnar er bætt aðgengi að hollum matvælum.
Hæstv. forseti. Það háttar svo til að matvælaframleiðsla á Íslandi er með eindæmum metnaðarfull og gæði hennar mikil. Ríki og sveitarfélög geta haft mikil áhrif á framboð og neyslu þar sem ætla má að hátt í 150.000 manns, nemendur, starfsfólk hjá hinu opinbera, vistmenn á dvalar- og öldrunarheimilum o.fl., hafi aðgang að mötuneytum hins opinbera. Ekki er fjarri lagi að um 100.000 manns nýti sér það daglega.
Í samræmi við metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum er eðlilegt að horfa til kolefnisspors, vega og meta um hve langan veg matvæli eru flutt og fleira því tengt. Er nauðsynlegt að flytja inn mat sem framleiða má innan lands með færri kolefnissporum?
Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á tillögu sem þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram í liðinni viku um opinber vistvæn innkaup. Með tillögu þessari er lagt til grundvallar að ávallt verði tekið tillit til umhverfisverndar og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru. Þannig geta ríki og sveitarfélög lagt þungt lóð á vogarskálar vistvænnar matvælaframleiðslu og stuðlað að bættri lýðheilsu.“ –
Þórunn Egilsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarmanna, í störfum þingsins 27. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Lögreglan efld

Deila grein

28/11/2018

Lögreglan efld

Á síðasta ári var bætt við stöðugildum hjá flestum lögregluembættum um landið til að styrkja skilvirkni lögreglunnar í kynferðisbrotamálum. Þar með var hafin vinna við að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttavörslukerfisins. Sú aðgerðaáætlun felur m.a. í sér að renna styrkari stoðum undir samstarf milli lögreglu og ákæruvalds til að bæta stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum og styrkja réttarstöðu þeirra.

Lögreglan er oftast fyrsti staðurinn sem brotaþolinn leitar til. Það er mikilvægt fyrir brotaþola að móttaka og þekking þeirra sem þeir mæta sé sem faglegust og það sé hægt að treysta á að málin fari í öfluga og skjóta rannsókn. Sérþekking á þessum málum er nauðsynleg hjá þeim sem fyrstir taka á móti brotaþolum því fyrstu viðbrögð skipta miklu máli um hvernig brotaþolinn kemur út úr málinu.

Efling rannsóknar

Þegar kemur að málefnum brotaþola skiptir áreiðanleg og fljótvirk rannsókn þessara mála innan lögreglunnar höfuðmáli. Það er líka mikilvægt fyrir samfélagið að tryggja nægilegt svigrúm svo hægt sé að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum eins og eftirliti með nettælingum og barnaníðsefni. Forvarnir þarf að efla með því að byggja upp enn frekari faglega þekkingu þeirra aðila sem vinna með þessi mál. Það byggir upp traust og hvetur brotaþola frekar til að leita réttar síns í erfiðum málum.

Aukin þjónusta

Í fjárlögum fyrir árið 2019 er gert ráð fyrir framlagi sem nemur einu stöðugildi til að styrkja málsmeðferð lögreglunnar á Norðurlandi vestra í rannsóknum. Þar með er búið að bæta við stöðugildi hjá öllum lögregluembættum á landinu vegna þessa. Lögreglan um allt land hefur ekki verið ofalin síðustu ár þrátt fyrir fjölda verkefna sem hafa bæst við. Mikil aukning á fjölda ferðamanna hefur stóraukið umferð á vegum landsins. Aukið umferðareftirlit lögreglunnar á Norðurlandi vestra hefur leitt af sér 28% fækkun umferðarslysa í umdæminu sem af er ári sem er afar jákvæð þróun. Lögreglunni á Norðurlandi vestra var falið það verkefni að hafa umsjón með fíknaefnahundum hjá lögregluembættum landsins og verður áhugavert að fylgjast með hvernig það verkefni mun þróast á komandi árum.

Þessi styrking á embættinu ætti að bæta þjónustu lögreglunnar í umdæminu verulega. Nú getur lögreglan einbeitt sér betur að þjónustu við borgarana og sinnt umferðagæslu betur þar sem búið er að bæta við stöðugildi fyrir sérþjónustu og rannsóknir.

Umferð um svæðið hefur aukist mikið allt árið og því mikilvægt að lögreglan sinni því með auknum þunga svo íbúar og aðrir vegfarendur finni sig öruggari auk þess sem hægt er að sinna forvörnum og almennri gæslu. Ég fagna þessari eflingu á lögregluembættinu á Norðurlandi vestra.  Lögreglan ætti að hafa betri tíma til að vera sýnilegri og sinna frekari forvörnum og gæslu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á feykir.is 27. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Dynjandisheiðin – vetrarþjónusta

Deila grein

28/11/2018

Dynjandisheiðin – vetrarþjónusta

Nú er innan við ár þangað til slegið verður í gegn í framkvæmdum við Dýrarfjarðargöng. Þá erum við farin að eygja gríðarlega samgöngubót á Vestfjörðum. Heilsárssamgöngur milli norður- og suðursvæðis er að verða að veruleika. Það verða liðnir tveir áratugir af þessari öld þegar við sjáum þetta raungerast. Ótrúlegt! En gott og vel við fögnum þessu ákaft.

Fyrir liggur að farið verður í  uppbyggingu á Dynjandisheiðinni meðfram og í framhaldi á framkvæmdum við Dýrafjarðargöng. Mörgum finnst þær framkvæmdir fái ekki nægjanlega áherslu í framlagðri samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi. Það má taka undir þær áhyggjur og er það augljóst að hraða þarf eins og hægt er uppbyggingu heiðarinnar.

Samvinnuleið í vegamálum

Nokkuð hefur verið talað um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja. Til að hraða samgönguframkvæmdum er unnið að útfærslu gjaldtökuleiða sem nýtist á ákveðnum mannvirkjum. Slík gjaldtaka á einstaka mannvirkjum býr til svigrúm í samgönguáætlun og því hægt að ráðast fyrr í einstök verkefni en gert er ráð fyrir í áætluninni.  Fyrr í haust var hætt gjaldtöku við Hvalfjarðargöng en hún er dæmi um góða samvinnuleið í úrbótum á samgöngumálum. Til þessa er horft og vonir eru bundnar við að framkvæmdir við Dynjandisheiðina verði hægt að þoka fram um leið og samvinnuleiðir í vegamálum verða að raunveruleika.

Vetrarþjónusta

Vetrarþjónusta á Dynjandisheiði fylgir nú G-reglu Vegagerðarinnar. Samkvæmt henni er mokað tvisvar í viku, haust og vor, á meðan snjólétt er en ekki mokað frá 1. nóv. til 20. mars. Þessi regla endurspeglar þá órjúfanlegu leið sem þær systur  Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar byggja. Aðstæður á Hrafnseyrarheiðinni hafa stýrt þessari reglu, eðlilega.

Nú skilja leiðir og sá erfiði fjallvegur yfir Hrafnseyrarheiðina verður ekki til staðar eftir opnun ganga og þá er eðlilegt að vetrarþjónusta á Dynjandisheiði verði endurskoðuð. Sá þrýstingur er þegar komin fram og ekkert sem bendir til þess að svo verði ekki. Vetrarþjónusta þarf ekki að haldast í hendur við framkvæmdalok við heiðina og jafnvel nauðsynleg að auka þjónustuna strax til að fá reynslu hvernig eigi að festa hana í sessi í framtíðinni.

Það er ekkert sem staðfestir þann orðróm sem virðist vera uppi að ekki verði farið í aukna vetrarþjónustu á Dynjandisheiðinni eftir opnun Dýrafjarðarganga. Hvorki í samgönguáætlun eða í umræðu um hana eða endurspeglar það áætlun Vegagerðarinnar né stjórnvalda.

Áfram er hægt að fagna opnun Dýrafjarðarganga og horfa fram á heilsárssamgöngur milli norður og suðursvæðis Vestfjarða eftir árið 2020.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður Norðvesturkjördæmis

Greinin birtist fyrst á bb.is 28. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Heima er best

Deila grein

28/11/2018

Heima er best

Flest vonumst við til að fá að eldast, halda heilsu og geta búið áfram á eigin heimili. Tölfræðin sýnir okkur að lífaldur Íslendinga er að hækka og heilsa eldra fólks að batna.

Hugtakið velferðartækni er tiltölulega nýtt á Íslandi en það nær yfir fjölmargar tæknitengdar lausnir í þágu notenda sem eru til þess fallnar að viðhalda eða auka færni, samfélagsþátttöku og lífsgæði. Velferðartækni getur fyrirbyggt eða verið viðbót við þá stuðningsþörf sem veitt er. Einnig getur hún aukið skilvirkni í þjónustunni og auðveldað samskipti milli notenda, aðstandenda og starfsfólks. Hugtakið er einkum notað á Norðurlöndunum en þau hafa unnið markvisst að því að kanna hvernig nýta megi nútímatækni til að þróa velferðarþjónustu. Velferðartækni er eitt af áherslumálunum í norrænu samstarfi og er nefnt sérstaklega í formennskuáætlun Noregs í Norðurlandaráði fyrir árið 2018. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áhersla lögð á nýsköpun í heilbrigðismálum með því að nýta nýjustu tækni á því sviði og að styrkja þjónustu fyrir aldraða, þ.e. heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.

Velferðartækni hluti af heilbrigðisstefnu

Íslendingar geta nýtt sér reynslu nágranna okkar á Norðurlöndum og útfært verkefni sem þar hafa verið framkvæmd með góðum árangri. Undirrituð hefur því ásamt hópi þingmanna úr flestum flokkum lagt fram þingsályktunartillögu sem fjallar um að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem meti með hvaða hætti velferðartækni nýtist í þjónustu við eldra fólk og fólk með fatlanir. Hópurinn á að leggja áherslu á að skoða hvernig aðferðir, t.d. í fjarþjónustu, geti nýst hér á landi með hliðsjón af reynslu annars staðar á Norðurlöndum. Lagt er til að hópurinn skili áliti sem nýtist við gerð heilbrigðisstefnu sem nú er unnin í heilbrigðisráðuneytinu.

Ég er sannfærð um að í velferðartækni felast fjölmörg tækifæri fyrir okkur til að bæta þjónustu við aldraða og fólk með fatlanir, sem gerir fólki kleift að búa lengur heima hjá sér og njóta bestu þjónustu og lífsgæða.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. nóvember 2018.

Categories
Fréttir

Stjórnmálin hafa farið fram úr almenningi – verðum að stoppa hér

Deila grein

25/11/2018

Stjórnmálin hafa farið fram úr almenningi – verðum að stoppa hér

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar ræddi þriðja orkupakkann við Heimi Má Pétursson, fréttamann, í þættinum Víglínan á Stöð 2, á laugardaginn.
Sjá nánar: Víglínan á Stöð 2
Fram kom á fundi miðstjórnar Framsóknar mikil umræða um þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Löggjöfin hefur m.a. verið gagnrýnd með þeim orðum að upptaka hans hér myndi fela í sér valdaframsal til erlendra stofnana umfram það sem stjórnarskráin heimilar.
Miðstjórnin ákvað að álykta sérstaklega um þriðja orkupakkan á fundi sínum að Smyrlabjörgum í Suðursveit á dögunum:

Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn telur slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Því skal fá undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.

„Við fengum strax í upphafi ýmsar undanþágur í orkusamningnum og satt best að segja er að við skiptum upp fyrirtækjunum þá gengum við lengra en nauðsynlegt var kveðið á um í tilskipuninni,“ sagði Sigurður Ingi.
Sigurður Ingi vill fá undanþágu frá þriðja orkupakkanum með fyrirvara um framhaldið. Hann yrði um að Ísland undirgangist ekki ákvæði um sameiginlegan orkumarkað Evrópu fyrr en og ef Íslendingar ákveddu einhvern tímann í framtíðinni að þeir vildu tengjast Evrópu með sæstreng.
„Það er engin spurning í mínum huga að EES-samningurinn hefur verið Íslandi ákaflega hagfelldur,“ sagði Sigurður Ingi. Það hefði birst í viðskiptum og margvíslegum öðrum ávinningi. Hann sagði að sífellt hefði orðið erfiðara að innleiða reglur ESB í EES-samninginn vegna minnkandi áherslu ESB á tveggja stoða kerfi EES-samningsins, margt hefði verið samþykkt þó að það byggði aðeins á einni stoð, Evrópusambandinu.
Sigurður Ingi segir mikinn mun á íslenskum og erlendum orkumarkaði. Hér væru orkufyrirtæki flest í opinberri eigu og orka ein sú ódýrasta sem völ væri á. Hann sagðist á sínum tíma hafa spurt sig hvers vegna Íslendingar hefðu gengið lengra í að aðskilja orkuvinnslu og dreifingu en flestar þjóðir Evrópu, og það þrátt fyrir að Ísland væri ekki hluti af orkumarkaði Evrópu sem orkupakkar Evrópusambandsins snúist um.
Reynslan sýnir að orkuverð hefði lækkað en dreifingarkostnaður hækkað.

Categories
Fréttir

Almannahagsmunir að styrkja samfélög og tapa ekki eignarhaldi á auðlindum

Deila grein

24/11/2018

Almannahagsmunir að styrkja samfélög og tapa ekki eignarhaldi á auðlindum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, kom inn á heitt mál í þjóðfélagsumræðunni í sérstökum umræðum á Alþingi á dögunum. En eignarhald á bújöðrum í höndum erlendra aðila hefur skapað áhyggjur af því að Íslendingar séu með andvaraleysi að tapa eignarhaldi á auðlindum á landi.
Verðmæti í ræktun, húsnæði og fleiru tapast er jörð fer í eyði, sveitarfélagið og samfélagið sjálft stendur eftir veikara, eignarhald, ráðstöfunarréttur og ábyrgð á landi verður óljós. Bújarðir á Íslandi eru nú 6.000-7.000 og hefur ásókn fólks sem ekki er búsett á Íslandi eftir eignarhaldi á jörðum aukist á síðustu árum. Við það hafa vaknað spurningar um eignasöfnun á fárra hendur og vandi komið upp vegna óþekkts og óljóss fyrirsvars jarða.
Áhrif á ráðstöfun lands er í höndum stjórnvalda og geta til þess beitt ýmsum tækjum. „Ég álít allt land vera auðlind, landið sjálft, jarðveginn og gróðurinn sem þar þrífst. Sumt land nýtist til matvælaframleiðslu, annað til útivistar og auk þess geta fylgt landi önnur gæði sem enn auka verðmæti þess, t.d. veiði og vatnsréttindi. Meðferð og notkun alls lands skiptir alla landsmenn máli, bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign,“ sagði Líneik Anna.
Hugmyndir að ráðstöfunum stjórnvalda:

  • Að lögfesta búsetuskilyrði,
  • setja skilyrði um nýtingu lands í landbúnaðarnotum,
  • takmarkanir á stærð eða fjölda fasteigna í eigu sama aðila,
  • fyrirframsamþykki opinberra aðila fyrir eignaskiptum og að unnin verði hlutlæg viðmið fyrir slíka ákvarðanatöku, verðstýringarheimildir og skýrari reglur um fyrirsvar.

„Sú leið sem ég tel fært að ganga beint í að festa í lög eða reglugerð eru skilyrði um að einstaklingar sem öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir landi í landbúnaðarnotum skuli hafa lögheimili hér á landi eða hafa haft það áður í tiltekinn tíma. Ég tel að slíkar takmarkanir eigi ekki að vera bundnar við land í landbúnaðarnotum, heldur ná yfir allt land“, sagði Líneik Anna.
Stjórnvöld og almenningur hafa áhrif á landnýtingu í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga og „sveitarfélög geta skilgreint landbúnaðarland sem halda skal í ræktanlegu ástandi og líka jarðir þar sem heilsársbúseta telst æskileg og geta þar komið inn fleiri sjónarmið en nýting til landbúnaðar, svo sem styrking samfélaga, öryggissjónarmið, eftirlit lands, eftirlit minja og náttúruvernd. Bætt skráning landeigna er líka forsenda þess að hægt verði að beita stjórntækjum við markvissa ráðstöfun“, sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Fjölmörg ný tækifæri í íslensku samfélagi – fjárfestum í menntun

Deila grein

24/11/2018

Fjölmörg ný tækifæri í íslensku samfélagi – fjárfestum í menntun

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er lögð mikil áherslu á öflugt menntakerfi, enda eru menntun, vísindi og rannsóknir forsenda nýsköpunar og framfara og ávísun á framtíðarhagvöxt.
Við Framsóknarmenn viljum byggja á að íslenska skólakerfið verði áfram skapandi og að gagnrýnin hugsun ásamt því að efla læsi og þátttöku í lýðræðissamfélagi miði að því að styrkja áfram allar undirstöður þess með margvíslegum hætti. Einkum er aðkallandi að tryggja öllum aðgengi að menningu, íþróttum og æskulýðsstarfi og efla skapandi greinar sem atvinnuveg.
Rúmlega 11% af heildarútgjöldum ríkissjóðs
Það eru rúmlega 11% af heildarútgjöldum ríkissjóðs renna til málefnaflokka sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðherra. Málefnasviðin eru fimm talsins og skiptast í menningu, listir, íþrótta- og æskulýðsmál, fjölmiðlun, framhaldsskólastigið, háskólastigið og loks önnur skólastig.
„Heildarfjárframlög háskólastigsins munu nema tæpum 47 milljörðum kr. á næsta ári en að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum er það hækkun um 2,2 milljarða eða um 5% milli ára. Þetta eru háar fjárhæðir en sýnt er að hver króna sem fer í fjárfestingu á háskólastiginu skilar sér áttfalt til baka til samfélagsins. …
Markmiðið með auknum framlögum til kennslu og rannsókna á háskólastigi er fyrst og fremst að auka gæði náms. Sé miðað við nýjasta meðaltal Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) um framlag á hvern háskólanemanda stefnir í að árið 2020 hafi Ísland náð því markmiði eins og ráðgert er í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Menntun er forsenda samkeppnishæfni okkar til framtíðar og því þurfa fjárfestingar okkar að taka mið af,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Fjárfestum í framtíðinni
Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð staðið vörð um jafnan rétt fólks til menntunar, óháð búsetu og efnahag. Mikilvægt er að tryggja þennan rétt til framtíðar, standa vörð um menntakerfið í landinu og tryggja að við frekari uppbyggingu þess verði hvergi hvikað frá þeim
Miklar breytingar hafa verið gerðar á íslensku skólakerfi á undanförnum misserum og mikilvægt að staldra við og gefa fagfólki skólanna svigrúm til að innleiða þær og þróa skólastarfið. Það er einnig mikilvægt að starfsumhverfi skóla miði að því að einfalda daglegt líf barna og fjölskyldna þeirra og draga úr álagi á fjölskyldufólk og starfsfólk skóla.
Byggjum betra og manneskjulegra samfélag
Efling menntakerfisins og framþróun, aukinn stuðningur við kennara og starfsfólk skóla, styrking innviða skólasamfélagsins, og samþætting skólastarfs og tómstunda, eru allt mikilvægir þættir til að byggja upp betra og manneskjulegra samfélag. Í því ljósi er rétt að hafa í huga að aukin menntun dregur úr fordómum samhliða því að auka skilning á því alþjóðaumhverfi sem Ísland er hluti af.
Með öflugu menntakerfi, fjárfestingu í hugverka- og þekkingariðnaði og með auknu rannsókna- og þróunarstarfi má skapa fjölmörg ný tækifæri í íslensku samfélagi.
Framsókn er flokkur fjölskyldunnar og vill á tímum efnahagslegrar velgengni fjárfesta sérstaklega í innviðum samfélagsins með það að leiðarljósi að tryggja velferð og hagsæld okkar allra til framtíðar.
Sjá nánar: Tillögur menntastefnuhóps Framsóknarflokksins
Sjá nánar: Hlutfall háskólamenntaðra aldrei hærra á Íslandi – ný skýrsla um menntatölfræði

Categories
Fréttir

„Við erum með gott fjárlagafrumvarp“

Deila grein

23/11/2018

„Við erum með gott fjárlagafrumvarp“

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, mælti fyrir nefndaráliti meiri hlutans í annari umferð um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.
Willum Þór fór yfir að áhrif breytingartillagna, milli fyrstu og annarar umræðu, séu að nettóbreytingin á tekjuhlið sé hækkun tekna um 364,2 milljónir og nettóbreytingin á gjaldahlið til aukningar um 396,4 milljónir. Eftir sem áður er áætlað að afgangur verði 1% af vergri landsframleiðslu eins og lagt er upp með í fjármálastefnu og fjármálaáætlun.
Ríkissjóður hefur skilað afgangi á hverju ári frá og með árinu 2014 og einskiptis- og tímabundnar tekjur hafa verið nýttar til að greiða niður skuldir. „Á sex árum hefur tekist að lækka heildarskuldir ríkissjóðs úr 86% af vergri landsframleiðslu í 31% nú í árslok,“ sagði Willum Þór.

„Endurmat tekjuáætlunar frumvarpsins hefur tekið óverulegum breytingum frá uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofunnar frá 2. nóvember, tæpum 400 milljónum með frávikum í báðar áttir. Þar munar mest um lækkun virðisaukaskatts um 4 milljarða vegna minnkandi einkaneyslu og minnkandi eyðslu ferðamanna hérlendis sem hefur áhrif á hann. Á móti vegur 1,7 milljarða kr. hækkun tekjuskatts einstaklinga og 2,7 milljarða kr. tekjur af sölu losunarheimilda“, sagði Willum Þór.
Lagt er til að fjárheimildir aukist um 3,8 milljarða kr. vegna endurmats á launa-, gengis- og verðlagsforsendum frumvarpsins. Á móti vega endurmat og ýmsar ráðstafanir ríkisstjórnar til lækkunar á ýmsum útgjaldaskuldbindingum sem leiða til 4,3 milljarða kr. lækkunar.
Willum Þór fór yfir að landsmenn verði að vera á vaktinni og að við þurfum að vanda okkur þegar kemur að efnahagsmálum og horfum í nýjustu efnahagsspá. „Það hefur hægst á í hagkerfinu en við erum með hagvöxt. Það er ánægjulegt að geta lagt til útgjaldaaukningu og innviðauppbyggingu á öllum málefnasviðum, til allt að því allra málefnaflokka, og standa við loforð um að fjárfesta í velferð, menntun, samgöngum og aðgerðum vegna loftslagsbreytinga og taka þátt í því verkefni jafn myndarlega og gert er. Þetta er ávísun á hagvöxt til framtíðar og uppbyggingu fyrir komandi kynslóðir“, sagði Willum Þór.
 

Categories
Greinar

Samgöngur til framtíðar

Deila grein

23/11/2018

Samgöngur til framtíðar

Það má sjá bætt vinnubrögð í nýrri samgönguáætlun því hér í fyrsta skipti er hún í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun frá Alþingi. Samgönguáætlun skal stefna að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Auka á aðgengi fólks að vörum og þjónustu og bæta hreyfanleika.

Meginstoðir
Samgönguáætlun skal stefna að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Það er ánægjulegt að sjá þær meginstoðir sem samgönguáætlun byggir á en lögð er áhersla á þær stóru stofnbrautir sem eru út úr höfuðborginni og nú á líka að klára grunnnet vegakerfisins á Vestfjörðum.

Strax á næsta ári skal hefja framkvæmdir við 2+1 veg á Kjalarnesi. Það er verkefni sem kallað hefur verið eftir og er mjög brýnt þar sem núverandi vegur uppfyllir engan veginn öryggiskröfur eða stendur undir þeirri gríðarlegu umferðaraukningu sem orðið hefur á undanförnum árum. Grunnnet á Vestfjörðum er í forgangi og búið að tryggja fjármagn í uppbyggingu á vegum á Dynjandisheiði um leið og hönnun á vegstæðinu er lokið og sú leið hefur farið í gegnum umhverfismat. Einnig er búið að tryggja fjármagn í uppbyggingu á vegum í Gufudalssveit. Þá geta Vestfirðingar loksins sagt að þeir búi við eðlilegt samgöngukerfi að mestu.

Samvinnuleið í vegamálum
Nokkuð hefur verið talað um um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja þegar horft er í einkaframkvæmdir. Til að hraða samgönguframkvæmdum er unnið að útfærslu gjaldtökuleiða sem nýtist á ákveðnum mannvirkjum. Slík gjaldtaka á einstaka mannvirkjum býr til svigrúm í samgönguáætlun og hægt að ráðast fyrr í einstök verkefni en gert er ráð fyrir í áætluninni. Nú um mánaðamótin var hætt gjaldtöku við Hvalfjarðargöng en hún er dæmi um góða samvinnuleið í úrbótum á samgöngumálum. Í þessu sambandi gætum við nefnt jarðgöng og stórar framkvæmdir í kringum höfuðborgina eins og Sundabraut og tvöföldun Reykjanesbrautar.

Tengivegir og vetrarþjónusta
Um land allt býr fólk við malarvegi sem eiga að þjóna samgöngum til skóla og í vinnu dagsdaglega. Oft eru þetta vegir sem uppfylla ekki kröfur um burðarþol og alls ekki þeær öryggiskröfur sem nútíminn gerir til slíkra samgangna. Dæmi eru um að börn þurfi að heiman og heim að hristast á holóttum malarvegi langan veg í skóla. Það skiptir miklu máli að lögð verði áhersla á að leggja bundið slitlag á tengivegi. Í þessu sambandi vil ég nefna Vatnsnesveg í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar hefur umferð stóraukist á undanförnum árum, enda má finna á þeirri leið eina ferðamannaperlu okkar sem er Hvítserkur. Núverandi vegur hefur ekki staðið undir þeirri miklu umferð og getur því ekki talist til nútíma samgöngumannvirkja.

Í tillögu að nýrri samgönguáætlun er gert ráð fyrir að veita aukið fjármagn til að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi. Það er vonandi að hægt verði að leggja aukna áherslu á tengivegina og vetrarþjónustu með því að horfa á samvinnuleiðir í nýframkvæmdum á stórum framkvæmdum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. nóvember 2018.

Categories
Fréttir

Gott hús er gestum heill

Deila grein

22/11/2018

Gott hús er gestum heill

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur fengið samþykkt í ríkisstjórn tillögu um skipun starfshóps sem á að útfæra ákveðnar aðgerðir til að gera ungu og tekjulágu fólki kleift að kaupa sér íbúðarhúsnæði, sem gefist hafa vel hjá grannþjóðum.
Ákvörðunin er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem sérstaklega kveðið á um að ríkisstjórnin muni fara í aðgerðir til að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn og endurskoða í því skyni stuðningskerfi hins opinbera þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verði skoðaðir möguleikar á því að nýta lífeyrissparnað til þessa.
Velferðarráðuneytið í samvinnu við Íbúðalánasjóð hefur um skeið unnið að kortlagningu ýmissa úrræða sem stjórnvöld í nágrannalöndum okkar bjóða tekjulágum á húsnæðismarkaði og hafa gefið góða raun. Þessi kortlagning hefur beint sjónum sérstaklega að tilteknum leiðum sem farnar hafa verið í Sviss og Noregi.
Ásmundur Einar segir tíma aðgerða að renna upp: „Nú er mikil greiningarvinna að baki og komið að því að stíga fyrstu skref til aðgerða. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að kalla fleiri að borðinu til að útfæra þær nánar og hrinda þeim í framkvæmd.“
Í Sviss er heimilt að nýta uppsafnaðan lífeyrissparnað til að afla eiginfjárframlags vegna íbúðakaupa. Ýmist er hægt að fá sparnaðinn fyrirframgreiddan eða veðsetja hann. Almennur lífeyrissparnaður má vera allt að 90% kaupverðs en viðbótarlífeyrissparnaður allt að 100%.
Husbanken, sem er systurstofnun Íbúðalánasjóðs í Noregi, býður upp á sérstakan húsnæðisstuðning, svokölluð startlán, til að aðstoða afmarkaðan hóp tekjulágra heimila við að kaupa eigin íbúð. Startlán eru íbúðalán með lægri vöxtum og lægri eiginfjárkröfu en tíðkast á markaði. Þau eru aðeins veitt þeim sem geta ekki aflað sér fjármögnunar fyrir íbúð með hefðbundnum hætti. Stærsti hópur lántaka eru fjölskyldur sem búa við slæma fjárhagslega stöðu en startlán hafa einnig verið veitt m.a. til fyrstu kaupenda, flóttafólks, fólks með fötlun og fólks sem býr við félagsleg vandamál.