Categories
Fréttir

Upplýsingar frá landsstjórn

Deila grein

04/09/2016

Upplýsingar frá landsstjórn

Framsoknarhusid-02Landsstjórn Framsóknarflokksins kom saman miðvikudaginn 31. ágúst til að ræða ákvörðun þriggja kjördæmisþinga um boðun flokksþings í aðdraganda alþingiskosninga í samræmi við gr. 9.1. í lögum flokksins. Fyrir fundinn hafði verið óskað eftir áliti laganefndar flokksins um hvernig mætti bregðast við ákvörðun kjördæmisþinganna þriggja, þar sem engin fordæmi lágu fyrir.
Niðurstaða laganefndar var að í lögum Framsóknarflokksins væri miðstjórn einni falið það hlutverk að boða til flokksþings, hvort sem um reglulegt eða annarskonar flokksþing væri að ræða.
Þegar hefur verið boðað til haustfundar miðstjórnar á Akureyri þann 10. sept. 2016, samkvæmt ákvörðun landsstjórnar. Áður hafði landsstjórn ákveðið að leggja til við miðstjórn að haustfundurinn tæki afstöðu til þess hvort flokksþing yrði haldið á reglulegum tíma eða fyrir alþingiskosningar.
Nú þegar ákvörðun kjördæmisþinganna liggur fyrir um að boða skuli til flokksþings í aðdraganda kosninganna, samþykkti landsstjórn að leggja til við haustfund miðstjórnar þann 10. sept nk að flokksþing Framsóknarflokksins verði haldið í fyrsta lagi dagana 1. og 2. október og síðasta lagi 8. og 9. október á höfuðborgarsvæðinu í ljósi þegar boðaðra funda kjördæmissambandanna vegna forvals flokksins á framboðslista. Skrifstofunni var jafnframt falið að yfirfara dagskrá miðstjórnarfundarins í ljósi breyttra verkefna.
Á fundi landsstjórnar var jafnframt samþykkt að skipa starfshóp til undirbúnings kosningunum sem muni skila tillögum til landsstjórnar. Í starfshópnum eigi sæti formenn kjördæmissambandanna ásamt þingflokksformanni, formanni málefnanefndar og framkvæmdastjóra flokksins.

Categories
Fréttir

Mikilvægt að fullgilda Parísarsamninginn

Deila grein

02/09/2016

Mikilvægt að fullgilda Parísarsamninginn

líneik„Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa ánægju minni með gang þingstarfanna frá því að þing kom saman í ágúst, bæði hér í þingsal og ekki síður við vinnu í nefndum með fjölda mála. Staðreyndin er að þingmenn allra flokka vinna af krafti í nefndum, sækja nefndarfundi og lesa heilu doðrantana milli nefndarfunda. Það kemur hins vegar fyrir að ekki er fjölmenni í þingsalnum enda vitum við það öll sem hér störfum að þegar þingmenn hafa ekki í hyggju að blanda sér í umræður í þingsal um einstök máls getur tími þeirra nýst mun betur í vinnu sé vinnunni sinnt annars staðar en í þingsalnum. Enginn vandi er að fylgjast með umræðum í þingsal nokkurn veginn hvar í heiminum sem þingmenn eru staddir.
Það skiptir okkur öll máli sem hér störfum að mest af þeirri vinnu sem við höfum lagt í skili sér áfram með einhverjum hætti í gegnum þingið. Eitt af þeim málum sem mér er mikið í mun að Alþingi taki fyrir og ljúki með formlegum hætti sem fyrst er heimild til fullgildingar Parísarsamningsins í loftslagsmálum. Þrátt fyrir að fullgildingin krefjist ekki lagabreytingar er mikilvægt að Alþingi taki samninginn til umfjöllunar. Parísarsamningurinn er það mikilvægur fyrir framtíð okkar allra að æskilegt er að Alþingi samþykki sérstaka heimild til fullgildingar samningsins fyrir Íslands hönd. Því fyrr sem Ísland fullgildir samninginn því betra, því að Parísarsamningurinn tekur fyrst gildi 30 dögum eftir að 55 aðilar sem eru ábyrgir fyrir a.m.k. 55% af útblæstri í heiminum hafa fullgilt samninginn. Fullgilding af Íslands hálfu á árinu 2016 yrði því lóð á vogarskálar þess að samningurinn öðlist sem fyrst fullt gildi.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

80 milljarða fjárfestingu stefnt í voða

Deila grein

02/09/2016

80 milljarða fjárfestingu stefnt í voða

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Nú er verulega illt í efni svo ekki sé meira sagt. Staðan sem komin er upp vegna framkvæmda í tengslum við Bakkaverkefni svokallað er með fádæmum slæm. Nú standa menn frammi fyrir því að uppbygging og ferli sem hefur verið unnið að árum saman er í hættu. Um er að ræða 80 milljarða fjárfestingu sem stefnt er í voða vegna kærumála.
Helst dettur mér í hug að hér sé um meinbægni að ræða því samfélagslegir hagsmunir eru gríðarlegir og margir eiga mikið undir. Menn hafa unnið samkvæmt öllum reglum á öllum stigum málsins. Sveitarfélög sem að málinu koma hafa unnið samkvæmt ákvæðum skipulagslaga og í þeim öllum er aðalskipulag í gildi. Vera má að menn sem stóðu fyrir kærumálum hafi ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þeirra og hafi hugsað þessa aðgerð sem prófmál inn í framtíðina. Ef svo er er þetta algerlega út í hött og fráleitt að koma inn á lokastigi í þessu verkefni til að fá framtíðarsýn í meðferð framkvæmda.
Ákvæði um hraun sem njóta sérstakrar verndar hafa verið í lögum frá 1999 og því einkennilegt að nú vilji menn kollvarpa öllu sem gert hefur verið á grunni nýrra laga. Þetta mál snýst í raun um stutta línulögn yfir eldhraun. Við skulum hafa í huga að eldhraun hefur verið brotið víðsvegar og við þurfum ekki að horfa lengra en til nágrannasveitarfélaga höfuðborgarinnar til að sjá það. Skiptir máli hvar á landinu er verið að framkvæma, spyr sá sem ekki veit?
Þetta verkefni hefur verið unnið í breiðri sátt og pólitískri samstöðu fram að þessu. Það er því ekki undarlegt að heimamönnum sé brugðið og finnist það jafnvel sorglegt þegar einstaka þingmenn gleðjast yfir því að framkvæmd skuli vera komin í uppnám og menn standi frammi fyrir miklu tjóni. Nú er mál að linni. Við verðum að finna leiðina út úr þessum ógöngum og koma þessum málum í þann farveg að hægt sé að vinna áfram í breiðri sátt að uppbyggingu til framtíðar og við glötum ekki trúverðugleika okkar.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Nýfrjálshyggjukapítalistagræðgisvæðing Steingríms J

Deila grein

02/09/2016

Nýfrjálshyggjukapítalistagræðgisvæðing Steingríms J

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ein af aukaafurðum þess þegar viðskiptabankarnir voru á sínum tíma afhentir kröfuhöfum var sú að 3% eignarhlutur í Landsbanka Íslands var afhentur völdum starfsmönnum. Það má segja að þetta sé framlag hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar til nýfrjálshyggjukapítalistagræðgisvæðingarinnar, svo notuð séu hans eigin orð. Þessi 3% klíka hefur síðan stjórnað Landsbankanum þrátt fyrir þessa litlu eignaraðild og þjóðin sem á þennan banka hefur ekki haft nein tækifæri til að hafa áhrif á rekstur hans eða hvernig hann fer fram. Hvernig hefur þetta kristallast? Þetta hefur m.a. kristallast í því hvernig farið var með eignarhluta ríkisins í Borgun sem var seldur fyrsta manni sem bankaði á dyrnar með hörmulegum afleiðingum sem síðan hafa kristallast. Þetta hefur líka komið fram í því að það mál ætlar engan endi að taka.
Nú hefur komið í ljós að það virðist svo sem það sé einhvern leyniþráður á milli Landsbankans og eigenda Borgunar. Þannig bárust fréttir af því mjög nýverið að Landsbanki Íslands hefði selt einbýlishús á höfuðborgarsvæðinu til eins af lykilstjórnendum Borgunar undir því verði sem Landsbankinn hafði áður fengið tilboð í, þ.e. Landsbankinn hafði fengið tilboð í þessa eign mánuði áður og seldi hana mánuði síðar lykilstjórnanda í Borgun á lægra verði.
Ég hlýt að spyrja: Hversu lengi á þetta mál að ganga svona án þess að Fjármálaeftirlitið geri neitt? Hversu lengi á þetta mál að ganga svona án þess að kjörnir fulltrúar á Alþingi hafi neitt um það að segja? Hversu lengi eiga menn sem sitja í skjóli 3% eignaraðildar og víla og díla, afsakið orðbragðið, um málefni þjóðarinnar sem á eign þessa í bankanum? Er ekki kominn tími til að hreinsa út þessa bankastjórn?“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu

Deila grein

02/09/2016

Skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Aðalfundur eignarhaldsfélags Kaupþings fór fram í gær. Þar voru bónusgreiðslur til um 20 starfsmanna félagsins samþykktar með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þessa ákvörðun nema að nú er nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Þær hugmyndir sem voru ræddar í þinginu í gær voru margar hverjar mjög áhugaverðar. Ég hef því óskað eftir því að eiga sérstaka umræðu við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um málið og ég vona svo sannarlega að sú umræða fari fram sem fyrst.
Það var samt annað sem ég ætlaði að ræða í dag. Í dag eru fréttir af verulegri aukningu umferðar um Hvalfjarðargöngin það sem af er þessu ári. Þetta er í samræmi við upplifun fólks sem keyrir þessa leið um göngin og Vesturlandsveg og margir hverjir á hverjum degi. Mikill þungi umferðar kemur úr þeim sveitarfélögum sem liggja hvað næst Hvalfjarðargöngunum norðan megin en eins og fram kom fyrir nokkru síðan aka um 2.000 bílar þessa leið dag hvern úr þeim sveitarfélögum. Þar er m.a. um að ræða fólk sem sækir vinnu og skóla í höfuðborginni. Þessir einstaklingar borga talsvert í ferðakostnað til að komast til og frá vinnu eða skóla. Það er óhætt að segja að mörgum finnist þessi kostnaður ósanngjarn þar sem þetta er eina leiðin úr höfuðborginni þar sem gjaldtaka fer fram. Öll gerum við okkur grein fyrir því að umferðarþunginn er orðinn mikill um Hvalfjarðargöngin og Vesturlandsveg og nauðsynlegt verður áður en langt um líður að fara í úrbætur á þessum vegum. Auk þess hafa átt sér stað umræður um fyrirhugaða Sundabraut sem verður vonandi að veruleika innan einhverra ára og tel ég að hún verði mikil samgöngubót fyrir svæðið.
Í þessu samhengi langar mig að minnast á þingsályktunartillögu sem ég lagði fram í þinginu 5. október 2015. Hún fjallaði um að þeim skattskyldu mönnum sem þurfa að greiða háan kostnað vegna ferða til og frá vinnu verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Tel ég að það fyrirkomulag sem tillagan kveður á um, þ.e. að taka upp skattafslátt vegna ferða til og frá vinnu, gæti verið skref í rétta átt við að styrkja atvinnusvæði víða um landið og jafnframt jákvætt fyrir fólk sem þarf að greiða talsverðar upphæðir til að komast til og frá vinnu eða í skóla. Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga nái fram að ganga, hún væri mikið framfaraskref.“
Elsa Lára Arnardóttir 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Verk ríkisstjórnarinnar tala sínu máli

Deila grein

02/09/2016

Verk ríkisstjórnarinnar tala sínu máli

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Þegar dregur nær kosningum eykst eðlilega spenna og pólitískur titringur. Það mátti og greina í umræðunni á Alþingi í gær um búvörulög og búvörusamning, við greinum þetta í opinberri umræðu. Í umræðu um búvörulögin var að greina slíkan spennutón en þrátt fyrir allt fannst mér sú umræða afar góð og málefnaleg og mun vafalítið taka á sig frekari mynd þegar við ræðum það mál áfram og svo síðar um tollasamninginn.
Þessi spenna kristallast vel í þeirri pólitísku spurningu hversu mörg mál og hvaða mál þingið ætti að klára og mikilvægt er að klára eða yfir höfuð ástæða til að klára áður en yfir lýkur, áður en þingið lýkur störfum, við klárum hina pólitísku baráttu og þjóðin kýs sína fulltrúa.
Virðulegi forseti. Ég mundi auðvitað helst vilja að þessi hæstv. ríkisstjórn sæti sem lengst. Verk hennar tala sínu máli en fyrst og síðast er þessari hæstv. ríkisstjórn umhugað um að klára þann sáttmála sem hún gerði og lofaði þjóð sinni.
Það hefur þessi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sannarlega gert og er umhugað um að ljúka vel við. Það er ástæða til að benda á það hér hver verk þessarar hæstv. ríkisstjórnar hafa verið því að stóra myndin er afar hagfelld. Auðvitað erum við í kapphlaupi við tímann en þannig verður það ekki alltaf. Þrátt fyrir að nú séu uppi óvenjulegar aðstæður með styttra kjörtímabil hefur hingað til, hæstv. forseti, verð ég að segja, í góðri samvinnu við þingflokksformenn, stjórn og stjórnarandstöðu, sem ég vil jafnframt hrósa, verið haldið uppi góðum vinnubrag og það er engin ástæða til annars en að ætla að við klárum þetta með sóma.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Styðja og styrkja litla fjölmiðla

Deila grein

02/09/2016

Styðja og styrkja litla fjölmiðla

Karl_SRGB„Virðulegi forseti. Undanfarið hefur heyrst sú skoðun að samkeppnisstaðan á fjölmiðlamarkaði sé ójöfn, hún sé ósanngjörn og komi í veg fyrir að einkareknir fjölmiðlar sem flestir eða allir verða að reiða sig á auglýsingatekjur geti vaxið og dafnað og þar með sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Ég er sammála þessu viðhorfi. Það er þó nauðsynlegt að hafa eitt í huga. Ef við ætlum að taka RÚV út af auglýsingamarkaði eða skerða tekjur félagsins kannski um milljarð eða meira verður að svara þeirri spurningu hvort og þá hvernig bæta eigi félaginu upp tekjumissinn. Á að auka framlög úr ríkissjóði eða draga úr þjónustu? Þetta er lykilspurning sem verður að svara. Það er ekki hægt að ákveða einhliða að breyta tekjumódeli RÚV nema ákveða framtíð þess í leiðinni.
Rekstur einkarekinna, lítilla fjölmiðla er þungur og það verður að styðja þá og styrkja. Fjölmiðlun er einn af hornsteinum lýðræðis og lýðræðislegrar umræðu í þjóðfélaginu. Það er skylda okkar að hlúa að þessum miðlum þótt ekki sé nema til að tryggja að sem flestar raddir fái að heyrast í þjóðfélagsumræðunni.
Það er hins vegar ekki sjálfgefið að sú aðgerð að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði með einu pennastriki gagnist nógu vel. Það er t.d. ekki víst að auglýsendur beini auglýsingum sínum jafnt á alla aðra miðla. Það er hætta á að þeir smæstu verði út undan.
Annar möguleiki er að hækka verðskrá RÚV á auglýsingum verulega til að gefa öðrum á þessum markaði aukið rými til athafna. Það er of lítill munur á verði auglýsinga sem leiðir til þess að auglýsendur velja oft RÚV.
Loks vil ég nefna þann möguleika að setja þak á auglýsingatekjur RÚV. Í dag nema þessar tekjur um 2,2 milljörðum á ári. Hægt væri að setja þak á þessa upphæð þannig að hún verði t.d. 1,5 milljarðar á ári og síðan gæti sú upphæð smám saman lækkað. Þá yrði að bæta félaginu upp tímabundið þennan tekjumissi. Þetta er umræða sem við verðum að taka í tengslum við framtíð Ríkisútvarpsins.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Fyllast ótta um starfsöryggi

Deila grein

02/09/2016

Fyllast ótta um starfsöryggi

Páll„Virðulegi forseti. Greinilegt er á umræðunni hér á Alþingi að kosningar eru í nánd. Margir þingmenn býsnast yfir því hvað útgerðin greiðir lítið til samfélagsins og hóta að hækka það svo um munar svo hægt verði að bæta í heilbrigðiskerfið eða eitthvað annað sem nauðsynlegt er að bæta. Ekki þarf annað en að skoða skipasölurnar til að sjá að kosningar eru í nánd því að sjaldan hafa fleiri litlar útgerðir verið til sölu. Ég trúi því ekki að þeir þingmenn sem á tyllidögum vilja að hér þrífist blönduð útgerð, allt frá smábátum til togara, geri sér grein fyrir því hvað neikvæð umræða um fjölskylduútgerð sægreifa, eða hvaða nöfn þeir kunna að nota, geta haft á þessa útgerðarflóru sem er þó enn við lýði, sem betur fer.
Eftir því sem við sáum fleiri óvissufræjum fyrir kosningar fjölgar þeim einyrkjum sem fyllast ótta um starfsöryggi sitt og aðkomu og selja. Hverjir kaupa? Það eru þeir stóru. Mikið hefur verið rætt undanfarið um svokallaða uppboðsleið, líkt og Færeyingar gerðu tilraun með. Hver var útkoman þar? Örfá fyrirtæki keyptu sem voru meira og minna í eigu útlendinga. Er það það sem við viljum?
Hvar endar markaðshyggja vinstri manna? Reynum að sjá fyrir okkur hver útkoman verður hér á landi. Hverjir koma til með að kaupa? Verða það litlu fjölskyldufyrirtækin, einyrkjarnir eða kannski bara stóru fyrirtækin sem eru meira og minna í eigu lífeyrissjóða og stórra fjárfesta?
Hvert er eðli markaðarins? Það er að þeir sterku kaupa. Hvað gerist hjá þeim sem ekki fær? Bíður hann með sinn bát í ár eða lengur og vonar að hann fái næst? Hver hefur efni á því? Er það einyrkinn sem hefur engar aðrar tekjur eða sá stóri sem hefur fleiri tekjuleiðir? Hvað þarf sá stóri að kaupa oft til að sá litli keppi ekki oftar um veiðiheimildir?
Tölum skýrt en ekki í blekkingum. Það er pólitísk ákvörðun ef við viljum fækka einyrkjum í útgerð og hafa fá og stór sjávarútvegsfyrirtæki sem geta vafalaust greitt talsvert hærri veiðigjöld. Uppsjávarfyrirtækin hafa fengið að hagræða að vild og standa vel. Viljum við sjá þá þróun í bolfiskinum?“
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 31. ágúst 2016.

Categories
Greinar

Selt undan flugvellinum

Deila grein

01/09/2016

Selt undan flugvellinum

Sigmundur-davíðNú er liðið eitthvað á annan áratug frá því ég birti myndir af því í sjónvarpi hvernig verið væri að þrengja að Reykjavíkurflugvelli með því að sækja að honum úr öllum áttum og sneiða búta af landinu í kringum flugvöllinn jafnt og þétt. Áformað var að flytja götur og vegi nær flugvellinum og skipuleggja lóðir undir hina ýmsu starfsemi allt um kring. Loks yrði búð að byggja meðfram flugbrautunum og inn á milli þeirra og þá yrði loks bent á að það gengi ekki að vera með flugvöll inn á milli húsanna.

Samkvæmt áætlun
Smátt og smátt hefur þetta svo gengið eftir. Hringbrautin var færð þannig að nú er beinlínis ekið undir lendingarljós einnar flugbrautarinnar og lóðaúthlutanir hafa farið fram af meira kappi en forsjá. Valsmenn hf. hafa til dæmis búið við óvissu í meira en áratug vegna lóðasamkomulags við borgina. Stundum hefur virst sem borgaryfirvöldum þætti það bara ágætt ef hremmingar Valsmanna mættu verða til þess þrýsta á um lokun flugvallarins. Það er varla hægt annað en að hafa samúð með Valsmönnum vegna þeirra fyrirheita sem borgin hefur gefið byggingafélaginu og ætlað svo ríkinu að uppfylla.
Háskólinn í Reykjavík fékk líka að kynnast því að borgaryfirvöld eiga það til að fara fram úr sér þegar kemur að lóðaúthlutunum í kringum flugvöllinn. Þegar þau óttuðust að skólinn kynni að flytja í annað sveitarfélag fékk hann snarlega lóð við flugvöllinn. Eftir að skipulag uppbyggingarinnar var kynnt kom í ljós að borgin hafði óvart lofað að gefa skólanum hluta af landi ríkisins og land innan öryggisgirðingar flugvallarins. Það gerðist þrátt fyrir að nægt pláss hefði verið fyrir skólann og aðrar byggingar á landi borgarinnar og það utan flugvallargirðingar. Málið var svo leyst með því að sópa því undir veg sem lagður var inn á flugvallarsvæðið og með því að færa öryggisgirðinguna nær flugbrautinni. Þannig gerðist það að eitt af flugskýlum Reykjavíkurflugvallar stendur nú á umferðareyju utan flugvallargirðingarinnar.
Samkomulagið
Stærsti áfanginn í því að bola flugvellinum burt átti að vera lokun NA/SV-flugbrautarinnar sem í daglegu tali er kölluð neyðarbrautin vegna þess að flugvélar lenda þar þegar ekki er talið eins öruggt að lenda á hinum flugbrautunum tveimur.
Í október 2013 var þess farið á leit við mig sem forsætisráðherra að ég undirritaði samkomulag ríkisins, Reykjavíkurborgar og Flugfélags Íslands (eða Icelandair Group) um að gerð yrði enn ein úttekt á því hvar best væri að hafa Reykjavíkurflugvöll. Fyrir vikið sögðust fulltrúar borgarinnar til í að eyða óvissu um flugvöllinn af sinni hálfu a.m.k. til ársins 2022. Óvissuna höfðu þeir reyndar skapað sjálfir með því að leggja fram tillögu að aðalskipulagi þar sem gert var ráð fyrir að norður/suðurbrautin, önnur af stóru brautum flugvallarins, viki árið 2016.
Í drögum að samkomulaginu var tekið fram að aðilar féllust á að NA/SV-brautinni yrði lokað. Þetta sagði ég vera fráleitt skilyrði sem ekki kæmi til greina að samþykkja. Auk þess sem ég gerði athugasemdir við fleiri atriði í drögunum. Ég kvaðst svo reiðubúinn að undirrita samkomulagið gegn því skilyrði að umrædd atriði yrðu tekin út og það væri á hreinu að ekki væri verið að samþykkja lokun NA/SV-brautarinnar. Þvert á móti væri ég að fallast á þátttöku í undirrituninni til að tryggja að ekki yrði samið um lokun brautarinnar.
Fallist var á þetta og samkomulagið undirritað í viðurvist ljósmyndara og blaðamanna. Það kom mér því mjög á óvart að dómstólar skyldu telja ríkið skuldbundið til að loka neyðarbraut flugvallarins þegar ég sem forsætisráðherra hafði beinlínis gert það að skilyrði fyrir undirritun samkomulags við borgina að horfið yrði frá því að semja um það.
Lokun neyðarbrautarinnar
Þeir sem annast sjúkraflug og ýmsir aðrir talsmenn íslenskra flugmanna og fyrirtækja í flugrekstri hafa varað við lokun neyðarbrautarinnar og bent á að ekki hafi verið rétt staðið að öryggismati sem lá þar til grundvallar. Nú síðast lýsti öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna yfir vonbrigðum með drög að samgönguáætlun meðal annars með vísan til lokunar brautarinnar. Bent er á að ekki sé hægt að lenda flugvél á suðvesturhorni landsins í stífri suðvestanátt eftir lokunina.
Brautin seld
Ég læt vera að fjalla um tæknilegar forsendur lokunarinnar þótt ærið tilefni sé til að leiða þá umræðu til lykta eins fljótt og auðið er. En á meðan sú umræða stendur enn berast þær óvæntu og óskemmtilegu fréttir að ríkið hafi selt Reykjavíkurborg rúmlega 110.000 fermetra land sem nú er undir suðurenda umræddrar neyðarbrautar fyrir 440 milljónir króna. Þetta er algjörlega óskiljanleg ráðstöfun eftir það sem á undan er gengið í átökum ríkisvaldsins við núverandi borgaryfirvöld um Reykjavíkurflugvöll og með hliðsjón af stöðunni sem uppi er í þeirri deilu.
Þar fyrir utan er verðið fáránlega lágt fyrir svo stórt og verðmætt land. Vandfundnar eru verðmætari lóðir í Reykjavík og ekki óvarlegt að ætla að verðmæti þessarar ríkiseignar nemi 8 til 10 milljörðum króna sé litið til söluverðs byggingarréttar annars staðar í borginni, m.a. verðlagningar borgarinnar sjálfrar á lóðum sem ekki eru jafnverðmætar og þær sem hér um ræðir.
Að vísu mun ríkið eiga að fá einhvern hlut í þeim tekjum sem fást af sölu byggingarréttar en ekki hefur komið fram hversu mikill sá hlutur verður að öðru leyti en því að tekið er fram að því meira sem fáist fyrir lóðirnar þeim mun stærri verði hlutdeild Reykjavíkurborgar.
Óheimil sala
Þessi sérkennilega sala, sem að óbreyttu mun kosta ríkið veikari stöðu í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og milljarða króna, er sögð gerð á grundvelli samnings sem tveir fyrrverandi varaformenn Samfylkingarinnar gerðu rétt fyrir kosningar 2013. Þ.e. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Katrín Júlíusdóttir, þáverandi fjármálaráðherra. Vísað er í heimild í fjárlögum ársins 2013 til að réttlæta söluna nú.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, lýsti því reyndar yfir fyrir þremur árum að til stæði að vinda ofan af þessum gjörningi og heimildin var ekki endurnýjuð. Auk þess hafa lögmenn, þ.m.t. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, bent á að salan nú standist ekki lög. Jafnvel þótt fjallað hefði verið um málið í fjárlögum þessa árs (sem ekki var gert) dygði það ekki til. Samþykkja þyrfti sérstök lög um söluna.
Ljóst má vera að sala á flugvallarlandi ríkisins í Skerjafirði stenst hvorki lagalegar forsendur né fjárhagslegar forsendur og hún vinnur gegn því markmiði að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll og öruggar flugsamgöngur milli höfuðborgarinnar og landsins alls. Annað getur því vart talist forsvaranlegt en að rifta hinum ólögmæta samningi. Sú riftun myndi vonandi marka umskipti í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og sýna að ríkisvaldið sé reiðubúið að gera það sem þarf til að stöðva tilraunir borgaryfirvalda til að fjarlægja flugvöllinn sneið fyrir sneið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. september 2016. 

Categories
Greinar

Parísarsamningnum fylgt eftir

Deila grein

01/09/2016

Parísarsamningnum fylgt eftir

sigrunmagnusdottir-vefmyndRíkisstjórnin hefur óskað eftir heimild Alþingis til að fullgilda Parísarsamninginn um aðgerðir í loftslagsmálum. Vonandi gengur það hratt og vel fyrir sig, svo Ísland geti verið meðal ríkja sem fullgilda hann snemma og stuðla þannig að því að samningurinn taki gildi á heimsvísu. Nú hafa yfir 20 ríki fullgilt samninginn, en hann gengur í gildi þegar 55 ríki með 55% af losun á heimsvísu hafa fullgilt hann.

Tímamót í loftslagsmálum
Parísarsamningurinn markar tímamót. Viðræður í loftslagsmálum höfðu árum saman verið í hnút, þar sem hver benti á annan. Nú er í fyrsta sinn kominn samningur þar sem öll ríki heims leggja sín lóð á vogarskálarnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem ríki munu hjálpast að við að bregðast við breytingum sem verða óhjákvæmilega. Reynt verður að halda hlýnun innan við 2°C, en jafnframt leitað leiða til að halda henni innan við 1,5°C. Framlög ríkja til að draga úr losun eru sjálfviljug, en ríkjum er ætlað að setja metnaðarfull markmið og efla þau reglulega. Í samningnum felst bókhalds- og aðhaldskerfi, sem mun krefja ríki til að fylgja eftir settum markmiðum.

Áskoranir og tækifæri
Ísland býr um margt við óvenjulegar aðstæður í loftslagsmálum. Flest ríki setja á oddinn að draga úr orkuframleiðslu með jarðefnaeldsneyti. Hér er orka til rafmagns og hitunar nær 100% með endurnýjanlegum orkugjöfum.
Draga þarf úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum og fiskveiðum. Einnig þarf að minnka kolefnisfótspor landbúnaðar og minnka losun frá úrgangi. Ekki má gleyma því að möguleikar Íslands til að binda kolefni með skógrækt og landgræðslu eru miklir og þarf að nýta.

Töluleg markmið Íslands eru sett á alþjóðlegum vettvangi og í ákvæðum EES-samningsins. Nú er í gildi áætlun um að ná markmiðum Kýótó-bókunarinnar til 2020, sem þarf að uppfæra til 2030. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur óskað eftir sérfræðiskýrslu um möguleika til þess, sem byggir m.a. á nýrri orku- og eldsneytisspá sem kom út nú í sumar.

Sóknaráætlun komin á skrið
Stjórnvöld vildu hefjast handa strax í anda Parísarsamningsins. Sóknar­áætlun í loftslagsmálum var kynnt í fyrra og er komin á fullan skrið. Innan hennar eru sextán verkefni sem miða að minnkun losunar á Íslandi og með alþjóðlegri samvinnu og að eflingu margvíslegs starfs í loftslagsmálum.

Sóknaráætlunin er fyrsta heildstæða aðgerðaáætlunin í loftslagsmálum sem byggir á fjármögnuðum verkefnum. Fé er sett til eflingar innviða fyrir rafmagnsbíla, efldrar skógræktar og endurheimtar votlendis. Aðilar í sjávarútvegi, landbúnaði og háskólasamfélaginu eru fengnir að borðinu til að gera vegvísa um minnkun losunar á landi og sjó. Eitt verkefnið miðar að því að gera jökla Íslands að lifandi kennslustofum um áhrif loftslagsbreytinga. Annað vinnur gegn matarsóun, sem veldur verulegri og óþarfri losun.

Ég er ánægð að sjá þessi verkefni komast á skrið og bind vonir við að þau muni laða fleiri heila og hendur til góðra verka og leiða til raunverulegs árangurs í loftslagsmálum. Ég tel einnig skipta miklu máli að við sendum skýr skilaboð til samfélags þjóðanna um að við viljum fylgja eftir tímamótasamningnum í París. Með skjótri fullgildingu Parísarsamningsins leggjum við okkar af mörkum til að tryggja bætta framtíð afkomenda okkar.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. september 2016.