Categories
Greinar

Glataðir snillingar

Deila grein

16/07/2016

Glataðir snillingar

Karl_SRGBFæreyski rithöfundurinn William Heinesen skrifaði fyrir margt löngu sögu sem nefndist „Glataðir snillingar“ í íslenskri þýðingu.

Oft hefur þessi titill komið upp í hugann þegar ég hef hlustað á snillinga hinnar íslensku þjóðfélagsumræðu. Ekki það að ég telji þá glataða, miklu frekar snillinga. Slíkt fólk tjáir sig daglega á samfélagsmiðlum, sumir úr ræðustól Alþingis.  Þetta er fólk sem hefur ekki bara skoðanir, heldur líka réttu skoðanirnar. Það verður gjarnan pirrað og reitt ef aðrir eru með efasemdir. Þetta er fólk sem vill stjórna og veit betur.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins fyrir nokkru sagði að tilhneigingin væri sú að að hinir stjórnlyndu teldu sig gjarnan eiga meira erindi í stjórnmál og opinbera umræðu en aðrir, enda grundvöllur stefnunnar ekki síst sá að telja sig vita betur en almenningur hvað honum er fyrir bestu. Þetta valdi því að viðhorf stjórnlyndis fái mikið vægi í umræðunni.

Það er mikið til í þessu. Sjálfur hef ég ekki hundsvit á fjölmörgum þeirra mála sem rædd hafa verið á þingi. Í þeim tilvikum hef ég reynt að halda mig til hlés í stað þess að blaðra ábyrgðarlaust út í loftið. Þannig hef ég valið fá, en það sem ég tel vera góð mál, og barist fyrir þeim. Þar get ég nefnt baráttu gegn skattaundanskotum og kennitöluflakki,  að geðheilbrigði barna og ungmenna sé bætt, að stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra o.sv.frv.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um að þessi mál hafa ekki verið samþykkt, nema að heilbrigðisráðherra taldi tilvalið að taka geðheilbrigðishugmyndina inn í langtímaáætlun sína. Það var gott. Öðrum málum hefur samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, ekki haft áhuga á – frelsi einstaklingsins til að haga sér eins og hann vill er ofar öllu öðru í hugmyndafræði þess flokks. Þess vegna er ekki vilji til að taka á skattaundanskotum og kennitöluflakki. Þá er lítill áhugi þar innandyra á embætti umboðsmanns aldraðra – vegna þess að það myndi þýða enn eina stofnunina. Það vegur þyngra en notagildi hennar.

Ég lít á mig sem talsmann einstaklingsfrelsis. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga. Hagsmunir fjöldans eru alltaf mikilvægari en einstaklingsins.

Það líður að kosningum. Enn og aftur er enginn skortur á þeim sem vilja leiðbeina okkur hinum sem hafa villst af leið. Ég dáist innst inni af þeim sem vita betur. Þeim sem telja sig vita best hvernig náunginn á að lifa lífinu – hvað honum sé fyrir bestu. Það er ekki öllum gefið.

Sú hugsun hlýtur að vera áleitin hvort ekki sé rétt að hleypa þessu fólki að.

Allavega gengur ekki að hafa glataða snillinga í þingsal.

Karl Garðarsson

Greinin birtist á www.blog.pressan.is/karlg 15. júní 2016.

Categories
Fréttir

Ferskvatn og loftslagsbreytingar

Deila grein

14/07/2016

Ferskvatn og loftslagsbreytingar

sigrunmagnusdottir-vefmyndLoftslagsbreytingar og áhrif þeirra á vatnsbúskap voru í brennidepli á fundi evrópskra umhverfisráðherra í Bratislava í Slóvakíu 11.-12. júlí. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Ráðherra sagði að hröð rýrnun jökla væri áhyggjuefni, en hún gæti meðal annars haft áhrif á vatnsbúskap og nýtingu vatnsorku.
Umhverfis- og auðlindaráðherra sagði að Ísland ætti gnægð af ferskvatni og ekki væri fyrirsjáanlegur vandi hvað það varðar. Loftslagsbreytingar hefðu þó áhrif á vatnsbúskap á Íslandi, því vísindamenn spá að jöklar landsins gætu horfið að mestu leyti á einni eða tveimur öldum ef ekki tekst að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda. Jöklar Íslands væru sýnileg birtingarmynd loftslagsbreytinga og unnið sé að verkefni til að fræða þá sem heimsækja þjóðgarða um samspil jökla og loftslags.
Ráðherra sagði að skoða þyrfti votlendi sérstaklega í samhengi við ferskvatn og loftslagsmál. Endurheimt votlendis gæti haft jákvæð áhrif með því að draga úr losun koldíoxíðs.
Ráðherra vakti athygli á rannsóknum og nýsköpun í loftslagsvænum lausnum á Íslandi. Nýjar niðurstöður úr tilraunaverkefni sýndu að niðurdæling koldíoxíðs og binding þess í steindum væri raunhæfur kostur í baráttu gegn loftslagsbreytingum. Tilraunaverkefni varðandi græna skipatækni væru líka að skila árangri. Ísland hefði áhuga á samstarfi við önnur ríki á þessum og fleiri sviðum.

Þurrkar, flóð og flóttamannavandi

Fram kom á fundinum að búist væri við miklum breytingum á úrkomu og vatnafari í Evrópu á þessari öld vegna loftslagsbreytinga. Tjón vegna bæði flóða og þurrka myndu aukast. Spár gera ráð fyrir aukinni úrkomu í norðanverðri Evrópu, en minni úrkomu í sunnanverðri álfunni. Sérstaklega er óttast að þurrkar á sumrum verði mikill vandi í suður-Evrópu þegar líður á öldina. Í lok 21. aldar gæti úrkoma þar verið svipuð og er í norður-Afríku nú. Þetta kallar á miklu betri nýtingu vatns, ekki síst í landbúnaði til að viðhalda fæðuframleiðslu.
Horfur varðandi ferskvatn væru slæmar í mörgum heimshlutum vegna aukinna þurrka og álags vegna fólksfjölgunar. Hætta væri á þurrkum og vatnsskorti í Miðausturlöndum og stórum hlutum Afríku, sem gæti stóraukið á flóttamannavanda.
Fundinn í Bratislava sóttu umhverfisráðherrar ríkja Evrópusambandsins og EFTA, auk Tyrklands og Albaníu.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Aukin atvinnutækifæri og fjölbreyttari störf fyrir fólk með fötlun

Deila grein

07/07/2016

Aukin atvinnutækifæri og fjölbreyttari störf fyrir fólk með fötlun

 
eyglooggissurEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur veitt Vinnumálastofnun sjö milljóna króna framlag í verkefni sem hefur þann tilgang að fjölga starfstækifærum fyrir fólk með fötlun og auka fjölbreytni starfstilboða. Féð er veitt á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks.
Eygló Harðardóttir og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, hafa undirritað samning um verkefnið en Vinnumálastofnun ber ábyrgð á framkvæmd þess. Byggt er á þeirri áherslu að nýta vinnuframlag sem flestra og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og útilokun fatlaðs fólks frá vinnumarkaði og virkri samfélagsþátttöku. Sérstök áhersla verður lögð á atvinnutækifæri fyrir ungt fatlað fólk sem lokið hefur námi á starfsbrautum framhaldsskólanna eða diplómanámi frá Háskóla Íslands. Stefnt er að því að hlutaðeigandi fái starf og stuðning til að sinna því til lengri tíma.
Leitast verður við að þróa ráðgjöf og stuðning við atvinnuleitendur með fötlun sem eru í atvinnuleit, m.a. með valdeflingu og fræðslu og starfsþjálfum á vinnustöðum. Einnig verður efnt til fræðslu fyrir atvinnurekendur til að kynna tækifæri og áskoranir sem felast í því að ráða fatlað fólk til vinnu.
Markmið að til verði 30 ný störf fyrir fatlað fólk
Skipulag og undirbúningur verkefnisins hefst 1. september en verklok eru áætluð 1. september 2017. Stefnt er að því að í lok tímabilsins hafi orðið til 30 ný störf fyrir fötluð ungmenni sem lokið hafa námi á starfsbrautum eða diplómanámi frá Háskóla Íslands.
Samstarfsaðilar Vinnumálastofnunar í verkefninu verða Festa – miðstöð um samfélagslega ábyrgð, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og opinberar stofnanir og sveitarfélög sem tekið hafa virkan þátt í verkefninu Virkjum hæfileikana.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Ferð þú í framboð?

Deila grein

06/07/2016

Ferð þú í framboð?

Kjördæmasamband Framsóknarfélaganna í Reykjavík (KFR) óskar eftir framboðum á lista flokksins í komandi alþingiskosningum. Röðun á lista flokksins í Reykjavík fer fram á tvöföldu kjördæmaþingi í Reykjavík laugardaginn 27. ágúst 2016.
Kosið er um fimm efstu sætin í hvoru kjördæmi í Reykjavík.
Frambjóðendur verða að hafa verið skráðir í Framsóknarflokkinn a.m.k. frá 27. júlí 2016. Það á einnig við um fulltrúa á kjördæmaþinginu sem valdir eru á félagsfundi félaganna í Reykjavík.
Framboðum skal skila á netfangið frambod-reykjavik@framsokn.is eigi síðar en föstudaginn 12. ágúst 2016, kl. 12:00.
Framboð-Reykjavík
 

Categories
Greinar

Jöfn kjör kynjanna

Deila grein

05/07/2016

Jöfn kjör kynjanna

SGMAnna-Kolbrun-ArnadottirNúna er til umsagnar á heimasíðu velferðarráðuneytisins drög að frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á almannatryggingum. Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar sem unnið hefur verið að um árabil.

Áhugavert er að skoða áhrif frumvarpsins á kynin en undirritaðar vilja benda sérstaklega á jafnréttismarkmið frumvarpsins sem miða að því að jafna stöðu kynjanna og tækifæri með auknu efnahagslegu jafnræði. Það þýðir að markmiðin ná til efnahagslegs jafnræðis kynjanna, jafnrar félagslegrar virkni og sjálfstæðis ásamt jöfnum tækifærum til góðrar heilsu.

Ein af þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir er að stærra hlutfall þjóðarinnar mun eiga rétt á lífeyrisgreiðslum. Því er nauðsynlegt að hækka lífeyristökualdurinn í áföngum í 70 ár. Í þessum drögum er tekið á því en meðfram þessari breytingu verður sveigjanleiki við starfslok aukinn og hvati skapaður til þess að einstaklingar geti haldið áfram á vinnumarkaði allt eftir getu hvers og eins.

Einnig er ætlunin að einfalda kerfið; sameina bótaflokka og fækka, afnema frítekjumörk og einfalda útreikninga. Þessar breytingar snerta sérstaklega konur þar sem bæta á kjör þeirra sem hafa áunnið sér lítinn eða engan rétt í lögbundna lífeyrissjóðakerfinu og þurfa því að reiða sig á almannatryggingakerfið hvað varðar framfærslu á efri árum. Með þessari breytingu verður fest í sessi lágmarksfjárhæð sem uppbótin tryggir þeim sem lægstar tekjur hafa og bætir þar með kjör þeirra.

Það er nefnilega þannig að þetta snertir konur sem eru nú 56% ellilífeyrisþega og því er ánægjulegt að í frumvarpinu eru breytingar sem ætlað er að auka réttindi þeirra þar sem staðreyndin hefur lengi verið að konur hafa lakari rétt til framfærslu en karlar. Að þessu sögðu er rétt að benda á að karlar í sömu stöðu munu njóta sambærilegra breytinga en þar sem konur eiga almennt minni rétt í lífeyrissjóðakerfinu má ætla að breytingarnar komi þeim til góða í meiri mæli og dragi úr mun á kjörum kynjanna.

Það er því með sanni hægt að segja að með þessu frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra til breytinga á lögum um almannatryggingar, sé stigið ákveðið og mikilvægt skref í þá átt að jafna stöðu kynjanna, í því felast möguleikar til félagslegrar virkni, sjálfstæði og góðrar heilsu og vert er að þakka fyrir það.

Anna Kolbrún Árnadóttir og Sunna Gunnars Marteinsdóttir

Greinin birtist á www.visir.is 1. júlí 2016.

Categories
Fréttir

Skýrsla starfshóps um Friðland að fjallabaki

Deila grein

02/07/2016

Skýrsla starfshóps um Friðland að fjallabaki

sigrunmagnusdottir-vefmyndStarfshópur sem Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði hefur skilað skýrslu sinni um Friðland að Fjallabaki. Í skýrslunni eru ýmsar tillögur um hvernig megi styrkja innviði friðlandsins, efla stjórnun og starfsemi auk þess sem hópurinn telur áhugavert og unnt að skapa skilyrði til stækkunar svæðisins.
Friðland að Fjallabaki, sem friðlýst var árið 1979 og í raun Suðurhálendið allt, er einstakt svæði og hefur hátt verndargildi á heimsvísu. Innan Friðlandsins eru Landmannalaugar, eitt af mest sóttu ferðamanna og útivistarsvæðum á hálendi Íslands og þaðan liggur ein vinsælasta gönguleið landsins, Laugavegurinn, sem er gönguleið milli Landmannalaugar og Þórsmerkur. Á þessu svæði eru því bæði merk og viðkvæm náttúruverðmæti, en jafnframt mikið og ört vaxandi álag vegna ferðaþjónustunnar.
Ráðherra skipaði starfshópinn í lok júlí 2015 og fól honum með því að leita leiða til að styrkja stöðu svæðis, efla rekstur þess og kanna hvort tækifæri væru til að stækka svæðið.
Í starfshópnum sátu fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar auk þeirra sveitarfélaga sem friðlandið nær til. Í niðurstöðum starfshópsins er bent á fjölmörg umbótaverkefni sem nýtast ráðuneytinu og Umhverfisstofnun við forgangsröðun verkefna og að leita leiða til að efla starfssemi og stjórnun á svæðinu. Í sumar hefur verið aukið við landvörslu á svæðinu og eins er unnið að ýmsum verkefnum á svæðinu sem falla vel að tillögum skýrslunnar. Umhverfisstofnun vinnur nú jafnframt að gerð verndaráætlunar fyrir svæðið og munu  niðurstöður skýrslunnar nýtast við þá vinnu.
Þá mun skýrsla starfshópsins með hugmyndum um stækkun friðlandsins gagnast við vinnunefndar  sem kanna á forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs innan svokallaðrar miðhálendislínu, en þar er ætlað að draga saman helstu sjónarmið og fyrirliggjandi þekkingu er varðar nýtingu og vernd miðhálendisins.
Friðland að Fjallabaki – Skýrsla starfshóps (pdf)

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Norrænir jafnréttisvísar

Deila grein

30/06/2016

Norrænir jafnréttisvísar

fæðingarorlofsdagar hjá feðrumÁ vef Norrænu ráðherranefndarinnar, www.norden.org, eru aðgengilegar margvíslegar tölfræðiupplýsingar sem varpa ljósi á líf og aðstæður fólks á Norðurlöndunum og gera mögulegan samanburð milli landa. Jafnréttisvísar eru hluti þessara upplýsinga en um þá segir á vef ráðherranefndarinnar: „Jafnrétti kvenna og karla er grundvallargildi á Norðurlöndum. Söfnun og notkun tölfræðiupplýsinga um jafnrétti kynjanna er lykilþáttur í því að stuðla að jafnrétti kynjanna í samfélaginu. Samstarf Norðurlanda um jafnrétti kynjanna, meðal annars hvað varðar tölfræðiupplýsingar, hefur stuðlað að því að gera Norðurlönd að þeim heimshluta þar sem jafnrétti kynjanna er mest.“
Sem dæmi um jafnréttisvísa má nefna vísa sem varpa ljósi á heilsu karla og kvenna, menntun, atvinnuþátttöku, fjárhag og tekjur, fjölskyldu og umönnun, áhrif og völd.

Íslenskir og sænskir feður taka flesta fæðingarorlofsdaga

Ef skoðaðar eru t.d. upplýsingar um fæðingarorlof  kemur fram að fæðingarorlof á Norðurlöndunum er lengst í Svíþjóð en styst á Íslandi. Danmörk er eina landið þar sem ekki er sérstakur feðrakvóti og feðrakvótinn er lengstur á Íslandi. Feður á Íslandi og í Svíþjóð taka flesta fæðingarorlofsdaga, eins og sést á myndinni hér að ofan. Hlutur feðra í fæðingarorlofi hefur aukist hjá öllum Norðurlandaþjóðunum hefur aukist og sömuleiðis fjöldi fæðingarorlofsdaga á hvert barn á árabilinu 2000 – 2013.

Meðalaldur kvenna við fæðingu fyrsta barnsForeldrar eignast börn æ síðar á ævinni

Karlar og konur eignast börn síðar á ævinni en fyrri kynslóðir og meðalaldur við fæðingu fyrsta barns hækkar stöðugt. Árið 1961 var meðalaldur íslenskra kvenna 22 ár þegar þær eignuðust sitt fyrsta barn en árið 2013 var meðalaldurinn rúm 27 ár. Meðalaldur íslenskra karla sem eignuðustu sitt fyrsta barn var 30 ár árið 2013. Íslenskir foreldrar eru að meðaltali nokkru yngri þegar þeir eignast sitt fyrsta barn en foreldrar annars staðar á Norðurlöndunum, líkt og jafnréttisvísarnir sýna .

Vísar sem varða heilsu karla og kvenna

Í jafnréttisvísunum má m.a. skoða kyngreindar upplýsingar um lífslíkur við fæðingu, daglegar reykingar, dánartíðni vegna krabbameins og vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi, sjálfsvíg, fjarvistir frá vinnu vegna veikinda, fóstureyðingar o.fl. Þar kemur t.d. fram að á Norðurlöndunum veldur krabbamein um fjórðungi allra dauðsfalla og að dánartíðni er hærri hjá körlum og konum á Norðurlöndunum að Færeyjum og Grænlandi undanskildum.

Categories
Greinar

Mikilvæg endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni kynnt

Deila grein

29/06/2016

Mikilvæg endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni kynnt

Eygló HarðardóttirVerulegar breytingar á almannatryggingakerfinu eru áformaðar eins og sjá má í drögum að frumvarpi sem birt hafa verið til umsagnar á vef velferðarráðuneytisins.

Allt frá árinu 2005 hefur verið unnið að heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar og ófáar nefndir og verkefnahópar komið að þeirri vinnu. Haustið 2013 skipaði ég nefnd undir forystu þingmannanna Péturs Blöndal heitins og Þorsteins Sæmundssonar og eru frumvarpsdrögin byggð á vinnu þeirrar nefndar.
Helstu markmið fyrirhugaðra breytinga eru að einfalda og skýra almannatryggingakerfið, bæta samspil þess við lífeyrissjóðina og auka stuðning við þann hóp aldraðra sem hefur lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga. Horft er til þess að styðja aldraða til sjálfsbjargar og hvetja til atvinnuþátttöku.

Aukinn sveigjanleiki við starfslok
Markmiðið er einnig að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna hækkandi hlutfalls eldri borgara af mannfjölda og lengingar meðalævinnar. Lagt er til að auka sveigjanleika við starfslok og upphaf lífeyristöku og skapa þannig hvata fyrir aldraða til áframhaldandi atvinnuþátttöku eftir vilja og getu hvers og eins. Auk þessa verði lífeyristökualdur hækkaður í skrefum um þrjú ár á næstu 24 árum.

Aukinn sveigjanleiki felur í sér tillögu um heimild fólks til að fresta lífeyristöku allt til áttræðs og möguleika á að flýta lífeyristöku hjá almannatryggingum til 65 ára aldurs. Miðað er við að lífeyrisþegar fái hærri lífeyri ef lífeyristöku er frestað, en lægri lífeyri ef lífeyristöku er flýtt. Til lengri tíma er stefnt að því að lífeyrisþegum verði gert kleift að taka hálfan ellilífeyri frá lífeyrissjóði en fresta töku hins helmingsins sem hækkar þá í samræmi við reglur sjóðsins. Samhliða geti fólk tekið hálfan ellilífeyri frá almannatryggingum.

Einfaldara kerfi og færri bótaflokkar
Lagt er til að bótaflokkarnir grunnlífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót til framfærslu verði sameinaðir í einn bótaflokk; þ.e. ellilífeyri. Frítekjumörk verða afnumin og mun fjárhæð ellilífeyris almannatrygginga lækka um sama hlutfall, eða 45%, vegna tekna frá öðrum en almannatryggingum, en í dag er þetta hlutfall mismunandi eftir tegund tekna. Áfram er gert ráð fyrir að ákveðnar tegundir tekna, s.s. greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, verði undanskildar við útreikning á tekjuviðmiðinu.

Jákvæð efnahagsleg áhrif
Áætlað er að kostnaður þessara breytinga á almannatryggingakerfinu nemi 5,3 milljörðum króna fyrsta árið. Greiningarfyrirtækið Analytica lagði mat á efnahagsleg áhrif breytinganna. Niðurstaðan er sú að breytingarnar hafi á heildina litið jákvæð efnahagsleg áhrif. Gera megi ráð fyrir að hækkun á lífeyristökualdri leiði til fjölgunar fólks á vinnumarkaði og auki þannig með beinum hætti framleiðslu og auknar skatttekjur. Þá megi reikna með að sveigjanleg starfslok stuðli að hagkvæmara fyrirkomulagi framleiðslu sem geti aukið hana enn frekar.

Sú kynslóð kvenna sem nú er á lífeyrisaldri hefur frekar en karlar gert hlé á atvinnuþátttöku sinni á vinnualdri, t.d. vegna fjölskylduábyrgðar, á almennt minni réttindi í lífeyrissjóðum, hefur búið við kynbundinn launamun þorra starfsævinnar og treystir því frekar á almannatryggingakerfið sér til framfærslu. Lagðar eru til breytingar í því skyni að auka réttindi allra þeirra sem hafa áunnið sér lítinn eða jafnvel engan rétt í lífeyrissjóðakerfinu vegna lítillar atvinnuþátttöku, jafnt karla sem kvenna, en konur munu hagnast meira á því en karlar vegna lægri tekna. Gangi þessar breytingar eftir er áætlað að tæplega 68% aukinna útgjalda muni fara til kvenna en um 32% til karla.

Samstarfsverkefni um starfsendurhæfingu og innleiðingu starfsgetumats
Í niðurstöðu nefndarinnar um endurskoðun almannatrygginga var samstaða um breytingar á bótakerfi aldraðra en ágreiningur um breytingar sem snúa að öryrkjum. Því er lagt til að komið verði á fót tilraunaverkefni um starfsendurhæfingu og innleiðingu starfsgetumats í samstarfi ríkis, sveitarfélaga, samtaka aðila vinnumarkaðarins og helstu hagsmunasamtaka fólks með skerta starfsgetu í þeim tilgangi að efla atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu.

Afnám vasapeningakerfis á öldrunarheimilum
Í frumvarpsdrögunum er lögð til sérstök heimild til að hefja tilraunaverkefni um breytt fyrirkomulag greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum um afnám gildandi vasapeningakerfis. Þetta hefur lengi verið baráttumál samtaka aldraðra, en með því myndu íbúar á þessum heimilum halda lífeyrisgreiðslum sínum og greiða milliliðalaust fyrir veru sína á heimilunum að undanskildum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Ég hvet fólk til að kynna sér efni frumvarpsins sem er aðgengilegt á vefnum www.vel.is og koma athugasemdum á framfæri, en umsagnarfrestur er til 31. júlí næstkomandi.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júní 2016.

Categories
Fréttir

Náið samráð EFTA-ríkja vegna ákvörðunar Breta

Deila grein

27/06/2016

Náið samráð EFTA-ríkja vegna ákvörðunar Breta

utanríkisráðherrar norðurlandannaEFTA-ríkin munu eiga með sér náið samráð til að viðhalda nánum efnahags- og viðskiptatengslum við Bretland, samkvæmt ákvörðun ráðherrafundar EFTA sem haldinn er í Bern í Sviss. Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, situr fundinn fyrir hönd Íslands.
Á fundinum var í dag rætt um þá stöðu sem upp er komin í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, þar sem meirihluti kjósenda var fylgjandi úrsögn úr Evrópusambandinu.
EFTA-ríkin munu leita lausna samhliða viðræðum Breta við Evrópusambandið, eftir því sem frekast er unnt, til að koma í veg fyrir lagalegt tómarúm þegar útgöngusamningur Breta við ESB tekur gildi. Að svo stöddu telja þau hins vegar ótímabært að staðhæfa hvaða leiðir skili EFTA-ríkjunum bestum árangri.
Á fundinum ræddi Lilja um mikilvægi góðs viðskiptasambands Íslands við Bretland og fagnaði áhuga EFTA-ríkjanna á að ráðfæra sig við hvert annað til að tryggja sem bestan árangur.
Ísland í forystu EFTA og EES
Ísland tekur við forystu í EFTA þann 1. júlí. Samband aðildarríkjanna við Bretland verður efst á baugi í formennskutíð Íslands, en að auki bíður það samtakanna að halda áfram og ljúka fríverslunarviðræðum sem eru í gangi við lönd utan EFTA. Þá lýsti utanríkisráðherra því yfir, að setning jafnréttisstefnu fyrir EFTA verði meðal forgangsverkefna í formennskutíð Íslands og er undirbúningur þess þegar hafinn. Rætt var um þá fyrirætlan Íslands á fundinum í dag og ákveðið að hefja undirbúning að gerð slíkrar stefnu.
Samhliða forystu í EFTA gegnir Ísland forystu í EES frá 1. júlí, sem skapar góð tækifæri til samræmingar í áherslum.
Ráðherrafundinum lýkur í kvöld.

Categories
Greinar

Loftslagsvænn landbúnaður

Deila grein

23/06/2016

Loftslagsvænn landbúnaður

sigrunmagnusdottir-vefmyndÁ dögunum skrifuðu undirrituð og Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) á Hvanneyri, undir tvo samninga um verkefni sem eru hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Annar samningurinn snýr að því að fá yfirlit og upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu koldíoxíðs í gróðri og jarðvegi. Hinn samningurinn lýtur að útreikningum á kolefnislosun í landbúnaði. Upplýsingar og gögn frá þessum verkefnum munu gagnast við gerð vegvísis, þar sem stefna og markmið um að útfæra minnkun í losun frá landbúnaði er mótuð í samvinnu við Bændasamtökin.

Það skiptir miklu máli að bæta tölulegar upplýsingar varðandi þátt landbúnaðar og landnotkunar í kolefnislosun og -bindingu hér á landi. Samningarnir við LBHÍ eru þýðingarmikið skref í því að auka vísindaþekkingu innan skólans á þessu sviði um leið og þeir styrkja þessa mikilvægu stoð í stefnu Íslands í loftslagsmálum.

Samvinna
Sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er til þriggja ára og samanstendur af 16 fjölbreyttum verkefnum sem unnin verða í samstarfi við atvinnulífið og stofnanir. Ekki hefur áður verið lagt jafn mikið fé til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum hérlendis. Sóknaráætlunin miðar að því að virkja atvinnulíf og stofnanir því loftslagsmál tengjast nær öllum atvinnugreinum. Því þarf samstillt átak til að takast á við þær áskoranir sem eru samfara þeim auk þess sem loftslagsmál hafa gríðarleg áhrif á efnahagslífið.

Mikilvægt er að allir beri ábyrgð í loftlagsmálum, en mikil vakning hefur orðið í samfélaginu um að finna raunhæfar lausnir. Til að vel megi takast og standa undir væntingum þeirra kynslóða sem á eftir okkur koma þarf því að örva og virkja samfélagið, fyrirtæki sem og einstaklinga til þátttöku og aukinnar vitundar. Sóknaráætlunin tekur mið af þess konar samvinnu og má nefna eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu, átak gegn matarsóun, vegvísi í sjávarútvegi, endurheimt votlendis og loftslagsvænan landbúnað.

Kolefnisútreikningar
Landbúnaður og landnotkun hefur vissulega áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda en þar eru jafnframt tækifæri til að binda koldíoxíð úr andrúmslofti með skógrækt, landgræðslu og fleiri aðgerðum. Nauðsynlegt er að fá betri kortlagningu og útreikninga á hvernig losunin dreifist innan geirans og hvar tækifæri í bindingu liggja svo markmið og áætlanir um samdrátt í losun nái fram að ganga.

Bestu vörslumenn landsins
Bændur gegna miklu hlutverki varðandi endurheimt landgæða og hafa verið ötulir talsmenn þess að græða landið frá fjöru til fjalla. Ríkisstjórnin hefur veitt aukið fjármagn til skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis. Fyrr í vor setti ég af stað verkefni um endurheimt votlendis í samræmi við sóknaráætlun í loftslagsmálum og fól Landgræðslu ríkisins framkvæmdina. Verkefnin verða unnin í náinni samvinnu við landeigendur en margir sjá aukna möguleika fyrir svæði sem ekki eru nýtt til búskapar og geta með endurheimt haft aukið útivistargildi, m.a. í fjölbreyttara fuglalífi og fiskgengd.

Þá er skógrækt viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Margir bændur eiga land sem ekki nýtist við búskapinn og gæti hentað vel til skógræktar. Með skógræktaráætlun skapast möguleikar á nýrri skógarauðlind og sjálfbærni í nýtingu lands samhliða bættri ímynd.

Minna kolefnisfótspor
Framundan eru áskoranir í loftslagsmálum sem þarf að mæta með breyttu og jákvæðu hugarfari. Fjöldi þeirra 175 ríkja sem skrifuðu undir Parísarsamkomulagið styrkir okkur í þeirri trú að þjóðir heims hafi tekið ákvörðun um að hefjast handa við að sporna gegn loftslagsbreytingum. Tillaga um fullgildingu samningsins af Íslands hálfu verður lögð fram á Alþingi að loknu sumarfríi – efndir munu fylgja orðum. Markmiðum Íslands verður fylgt eftir, kolefnisfótsporið þarf að minnka og mun stefna Íslands í loftslagsmálum leiða okkur að loftslagsvænum lausnum og nýsköpun.

Sigrún Magnúsdóttir

Grein birtist í Fréttablaðinu 23. júní 2016.