Categories
Fréttir Greinar

Vor á Vestfjörðum

Deila grein

05/03/2024

Vor á Vestfjörðum

Það var fal­legt að fljúga inn til lend­ing­ar á Ísaf­irði í gær þar sem ég varði deg­in­um í að funda með Vest­f­irðing­um um hin ýmsu mál. Það er eng­um blöðum um það að fletta að mik­il breyt­ing hef­ur orðið til batnaðar á Vest­fjörðum á und­an­förn­um árum; kraft­mik­il upp­bygg­ing hef­ur átt sér stað í at­vinnu­líf­inu á svæðinu, fjár­fest­ing hef­ur verið í betri vega­sam­göng­um og auk­in bjart­sýni og til­trú á framtíð svæðis­ins er til­finn­an­leg.

Ferðaþjón­usta hef­ur vaxið á Vest­fjörðum líkt og ann­ars staðar á land­inu. Það var mik­il viður­kenn­ing fyr­ir lands­hlut­ann þegar alþjóðlegi ferðabóka­út­gef­and­inn Lonely Pla­net valdi Vest­f­irði sem besta áfangastað í heimi árið 2022. Slíkt varð til þess að beina hinu alþjóðlega ferðak­ast­ljósi að svæðinu með já­kvæðum áhrif­um enda hef­ur svæðið upp á margt að bjóða. Hef­ur þetta meðal ann­ars birst í mik­illi ásókn í að heim­sækja Vest­f­irði und­an­far­in sum­ur og hef­ur gist­ing selst upp í fjórðungn­um.

Brýn­asta áskor­un­in í ferðaþjón­ustu í lands­fjórðungn­um er hins veg­ar að lengja ferðatíma­bilið, en mark­miðið er að heils­árs­ferðaþjón­usta verði starf­rækt á svæðinu. Lögð hef­ur verið áhersla á að draga úr árstíðasveiflu í öll­um lands­hlut­um und­an­far­inn ára­tug með þónokkr­um ár­angri, þó við get­um gert tals­vert bet­ur í þeim efn­um. Leng­ing ferðatíma­bils­ins stuðlar að betri nýt­ingu innviða, eins og hót­ela og veit­ingastaða, og skap­ar betri skil­yrði fyr­ir auk­inni fjár­fest­ingu í ferðaþjón­ustu.

Á opn­um fund­um mín­um að und­an­förnu um nýja ferðaþjón­ustu­stefnu til árs­ins 2030 og aðgerðaáætl­un henni tengda, sem farið hafa fram um allt land, hef­ur átt sér stað gagn­legt sam­tal við hag­hafa í grein­inni. Þar hafa fyrr­nefnd sjón­ar­mið meðal ann­ars verið reifuð sem mik­il­vægt er að hlýða á og nýta í því verk­efni að styrkja um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar. Þannig hafa Vest­f­irðing­ar til dæm­is sam­mælst um að vinna að og kynna hina svo­kölluðu Vest­fjarðaleið, 950 kíló­metra langa ferðamanna­leið um Vest­f­irði og Dal­ina sem opnaðist með til­komu Dýra­fjarðarganga í októ­ber 2020. Á leiðinni er að finna marga af fal­leg­ustu áfanga­stöðum Vest­fjarða sem gam­an er að heim­sækja.

Stjórn­völd munu leggja sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar til að styðja heima­menn í því að klára verk­efnið með sóma en metnaðarfull vinna ligg­ur að baki verk­efn­inu sem verður til þess að vekja auk­inn áhuga á að heim­sækja Vest­f­irði.

Vest­f­irðing­ar hafa einnig lagt kapp á að hlúa að tungu­mál­inu og aðgengi að því í gegn­um verk­efni Gef­um ís­lensku séns. Með því er leit­ast við að virkja fólk í nærsam­fé­lag­inu sem er til­búið að veita fólki af er­lend­um upp­runa hjálp við að til­einka sér ís­lensku í sam­vinnu við fyr­ir­tæki, stofn­an­ir og ein­stak­linga. Það skipt­ir meðal ann­ars at­vinnu­lífið miklu máli sem og sam­fé­lagið allt.

Tæki­fær­in eru sann­ar­lega til staðar vest­ur á fjörðum sem og út um allt land, nú er bara að vinna sam­an að því að nýta þau til hags­bóta fyr­ir sam­fé­lagið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2024.

Categories
Fréttir

Seinni hálfleikur kjördæmavikunnar!

Deila grein

01/03/2024

Seinni hálfleikur kjördæmavikunnar!

Í gær var fjórði dagur kjördæmavikunnar. Þingmenn okkar og ráðherrar hafa heldur betur ferðast víða og nýtt þennan dýrmætan tíma vel. Það skiptir máli bæði fyrir þá og kjósendur að hitta sem flesta, viðhalda mikilvægu samtali og kynnast öllum sjónarhornum um þau málefni sem eru helst í deiglunni í okkar samfélagi. Gærdagurinn var þar engin undantekning og voru m.a. haldnir fjórir opnir fundir á vegum Framsóknar.

Á Selfossi héldu Ásmundur Einar, Jóhann Friðrik og Hafdís Hrönn opinn fund þar sem m.a. var rætt um frístundaverkefnið „Frá vanvirkni til þátttöku“, málefni hælisleitenda, landbúnaðarmál og aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna stöðunnar í Grindavík. Með þeim á fundinum voru bæjarfulltrúar Framsóknar í Árborg, þau Arnar Freyr Ólafsson og Ellý Tómasdóttir.

Á Skagafirði voru Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý ásamt sveitarstjórnarfulltrúum Framsóknar í Skagafirði, þeim Einari Eðvald Einarssyni, formanni byggðaráðs, Hrund Pétursdóttur og Hrefnu Jóhannesdóttur. Þar var m.a. rætt um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, raforkumál, verðbólgu og vexti, Skagafjarðarhöfn, búvörulög, og blóðmerar.

Á Reyðarfirði héldu Willum Þór, Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna og Þórarinn Ingi opinn fund ásamt Jóni Birni Hákonarsyni, Þuríði Lillý Sigurðardóttur og Birgi Jónssyni, bæjarfulltrúum Framsóknar í Fjarðabyggð. Þar var m.a. rætt um strandveiðikvóta, samgönguáætlun, bráðaheilbrigðisþjónustu, verðtrygginguna, Reykjavíkurflugvöll og verkefnið „Það er gott að eldast“.

Willum Þór og Líneik Anna héldu svo áfram og mættu á Egilsstaði seinna um daginn. Þar var m.a. rætt um hjúkrunarheimili, veiðigjöld, heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, liðskiptaaðgerðir og þjónustugjöld á flugvöllum. Með þeim voru sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Múlaþingi, þau Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, Vilhjálmur Jónsson og Björg Eyþórsdóttir.

Nú eru aðeins tveir opnir fundir eftir:

  • Í dag, klukkan 16 verða Willum Þór og Líneik Anna með fund í félagsheimili eldri borgara, Hlyn, á Húsavík. Sérstakir gestir verða sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Norðurþingi þau Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar, og Eiður Pétursson.
  • Á morgun, laugardag, er opinn fundur í Kiwanissalnum í Hafnarfirði. Þar verður Ágúst Bjarni með bæjarfulltrúum okkar í Hafnarfirði, þeim Margréti Völu Marteinsdóttur og Valdimar Víðissyni, formanni bæjarráðs og verðandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar.
Categories
Greinar

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Deila grein

29/02/2024

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Eftir 1. júlí 2024 mega bændur ekki endurnota eyrnamerki/ örmerki sín í sauðfé, geitur og nautgripi samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar, á grundvelli EFTA-löggjafar.

Anton Guðmundson.

Í reglugerð 916/2012, með tilskipun 2008/71/EB, kemur fram að ekki sé heimilt að endurnýta einstaklingsmerki. Komi endurnýtt eyrnamerki á sauðfé, geitum og nautgripum inn í sláturtíð haustið 2024 verður þeim, skv. ákvörðun Matvælastofnunar (MAST), fargað í sláturhúsi.

Sé um nautgrip að ræða verður skepnunni fargað og kjötinu eytt, en í tilfelli sauðkindar eða geitar verður merkinu eytt en dýrið samþykkt til slátrunar. 

Þessi reglugerð hefur það í för með sér að gríðarlegur kostnaðarauki er settur yfir á íslenska bændur sem berjast nú víðast hvar við að halda lífi í sveitum landsins sem snýr að byggðastefnu og matvælaöryggi í landinu.

Sem dæmi þá þýðir þetta fyrir bónda sem hefur tæplega 1.000 númer á ári og hvert örmerki kostar 320 krónur, að hann þarf að kaupa á hverju ári 800 hnappa, gerir það 256 þúsund krónur í hreinan aukakostnað fyrir bóndann sem bætist síðan við heildarkostnað á númerum en margir bændur hafa ákveðið að hætta að marka lömbin sín, aðallega vegna dýraverndunarsjónarmiða, og samkvæmt reglugerð verða bændur þá að setja tvö númer, sem sagt númer í bæði eyrun.

Þetta þýðir í raun að bændur þurfa að kaupa merkingar á rúmlega 300 þúsund krónur á hverju ári sem er svo fargað. Hreinleiki íslensks landbúnaðar er einstakur á heimsvísu og það þekkjum við sem byggjum þetta land. Því má með sanni segja að það þykir undrun sæta að íslensk stjórnvöld skuli hleypa reglugerðinni í gegn.

Þau sjónarmið eru ekki höfð að leiðarljósi í ákvörðun þessari að landbúnaður hérlendis er mun faglegri en þekkist víðast hvar í Evrópu. Reglugerð þessi á þess vegna ekki erindi við íslenskan landbúnað. Hún mun hafa í för með sér gríðarlegan kostnaðarauka fyrir íslenska bændur.

Um er að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir bændur og þarf því að endurskoða ákvörðunina út frá því sjónarmiði. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í sjálfstæðu lýðveldi og á ekki ávallt að renna þeim EFTA-tilskipunum sem vinna gegn hagsæld þjóðarinnar áreynslulaust í gegn.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 22. febrúar 2024.

Categories
Fréttir

Þriðji dagur í kjördæmaviku!

Deila grein

29/02/2024

Þriðji dagur í kjördæmaviku!

Í gær var þriðji dagur kjördæmavikunnar. Áfram ferðast þingmenn okkar og ráðherrar um landið og eiga áfram í dýrmætu samtali í gegnum heimsóknir og á opnum fundum. Það hefur verið dásamlegt að sjá hvað þingmenn og ráðherrar Framsóknar hafa fengið góðar viðtökur. Auk þess hafa opnu fundirnir gengið vel og umræður á þeim verið fróðlegar, skemmtilegar og opinskáar. Í gær voru haldnir þrír slíkir fundir. 

Í Kópavogi héldu Willum Þór og Ágúst Bjarni opinn fund í húsnæði Siglingafélagsins Ýmir. Orri Hlöðversson, formaður bæjarráðs, og Sigrún Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi, voru með þeim í slagtogi. Þar var m.a. rætt um málefni ungra fíkla, farsældarlögin, bráðaheilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og breytingar á leikskólakerfi Kópavogsbæjar.

Á Akranesi voru Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý ásamt Ragnari Baldvini Sæmundssyni og Liv Åse Skarstad, bæjarfulltrúum. Á þeim fundi var m.a. rætt um núverandi kjaraviðræður, almannatryggingakerfið, stuðning til atvinnurekenda í Grindavík, námslánakerfið, öflun raforku og veiði á grásleppu.

Á Vopnafirði héldu Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna og Þórarinn Ingi opinn fund þar sem m.a. var rætt um laxeldi, veiði á grásleppu, uppbyggingu samgangna, uppbyggingu hafnar á Langanesi, styttingu framhaldsskólans og landbúnað.

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar eru alls ekki hættir að eiga í samtali við kjósendur og í dag heldur ferðin áfram.

Í dag höldum við fjóra opna fundi:

  • Klukkan 17:30 í Þórðarbúð á Reyðarfirði verða Willum Þór, Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna og Þórarinn Ingi á opnum fundi. Með þeim verða bæjarfulltrúar Framsóknar í Fjarðabyggð.
  • Klukkan 20:00 í Tehúsinu á Egilsstöðum halda Willum Þór og Líneik Anna opinn fund ásamt sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Múlaþingi.
  • Klukkan 20:00 á Kaffi Krók í Skagafirði verður opinn fundur með Stefáni Vagni, Lilju Rannveigu og Höllu Signýju. Með þeim verða sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Skagafirði.
  • Klukkan 20:00 á Hótel Selfossi á Selfossi verða Ásmundur Einar, Jóhann Friðrik og Hafdís Hrönn. Með þeim á fundinum verða bæjarfulltrúar Framsóknar í Árborg.
Categories
Greinar

Einn af eld­hugum hag­fræðinnar: Joseph Stiglitz

Deila grein

28/02/2024

Einn af eld­hugum hag­fræðinnar: Joseph Stiglitz

Bandaríski hagfræðingurinn Joseph Stiglitz er einn virtasti hagfræðingur samtímans. Hann er þekktur fyrir framlag sitt til hagfræðinnar, einkum á sviði upplýsingahagfræði, opinberrar stefnumótunar og þróunarhagfræði.

Stiglitz hlaut doktorsgráðu í hagfræði frá Massachusetts Institute of Technology (MIT). Hann er þekktastur fyrir rannsóknir sínar um hagfræði upplýsinga sem varð til þess að hann hlaut Nóbelsverðlaunin fyrir í hagfræði árið 2001. Framlag Stiglitz á þessu sviði breytti skilningi manna á markaðsöflum með því að varpa ljósi á mikilvægi ófullkominna upplýsinga með því að varpa ljósi á það hvernig ójafn aðgangur að upplýsingum getur haft efnahagsleg áhrif.

Áhrif Stiglitz ná langt út fyrir háskólasamfélagið þar sem hann hefur tekið virkan þátt í stefnumótun í efnahagsmálum. Hann fór fyrir efnahagsráðgjafanefnd Bill Clinton Bandaríkjaforseta og talaði meðal annars fyrir stefnu sem mótaðist á svokallaðri „þriðju leið“. Hann gerðist síðar aðalhagfræðingur og aðstoðarforstjóri Alþjóðabankans. Á starfstíma sínum beitti hann fyrir því breyttum áherslum hjá bankanum í þágu fátæktar og sjálfbærrar þróunar sem á þeim tíma viku frá hefðbundnum efnahagslegum venjum. Stiglitz hefur verið íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar, en árið 2000 fékk Seðlabanki Íslands hann til að gera úttekt á íslensku hagkerfi, með áherslu á stýringu peninga- og gengismála í litlum, opnum hagkerfum.

Stiglitz hefur ritað fjölmarar bækur á sviði hagfræði og þjóðfélagsmála. Í bók sinni „Globalization and Its Discontents“ frá árinu 2002 benti hann annmarka ríkjandi efnahagsstefnu varðandi hnattvæðingu þar sem hann gagnrýndi svokallaða eftirlitslausa hnattvæðingu og færði rök fyrir því að hnattvæðingin ýtti undir ójöfnuð og skaðaði í raun þá sem veikast standa. Ákall Stiglitz um jafnari og félagslega meðvitaðri nálgun á hnattvæðingu vakti talsverða athygli á sínum tíma og vakti upp umræður um hlutverk alþjóðlegra stofnana í þeim efnum og nauðsyn sanngjarns alþjóðlegs efnahagskerfis Á undanförnum árum hefur Stiglitz verið ötull talsmaður þess að dregið yrði úr tekjuójöfnuði, sem hann telur eitt mikilvægasta viðfangsefni samtímans. Í bókinni: „The Price of Inequality“ frá árinu 2012 fór hann ofan í rætur og afleiðingar vaxandi tekjumunar og varpaði fram tillögur um hvernig draga úr þeirri þróun. Stiglitz heldur því fram að sanngjörn og réttlát dreifing fjármagns sé ekki aðeins siðferðilega rétt heldur einnig nauðsynleg til að viðhalda hagvexti til lengri tíma.

Hér að ofan eru eingöngu nefndar tvær bækur eftir Stiglitz, en hann hefur ritað fjölda bóka og er von á nýrri bók í apríl nk. og mun hann meðal annars fjalla um efni hennar á fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands á föstudaginn.

Stiglitz er einn áhrifamesti hagfræðingur og hugsuður samtímans. Arfleifð Stiglitz liggur ekki aðeins í þeim viðurkenningum sem hann hefur hlotið heldur í þeim áhrifum sem hugmyndir hans hafa á alþjóðlegt efnahagslandslag undangengna áratugi. Hann heldur áfram að móta bæði fræðilega umræðu og efnahagslega stefnumótun sem leggur áherslu á félagslega samvinnu og sjálfbærni.

Haldið verður málþing með Joseph Stiglitz föstudaginn 1. mars í Veröld, húsi Vigdísar, kl. 12-13:30. Áhugasamir eru hjartanlega velkomnir!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. febrúar 2024.

Categories
Fréttir

Góður dagur í kjördæmaviku 

Deila grein

28/02/2024

Góður dagur í kjördæmaviku 

Dagur tvö í kjördæmavikunni.  

Þingmennirnir okkar og ráðherrar ferðast um landið og fara víða í heimsóknir. Í lok dags eru opnir fundir, en í gær voru þrír fundir haldnir í Bláskógabyggð, Borgarnesi og Mosfellsbæ. Að venju var vel mætt á fundina, en samtöl af þessu tagi eru verðmæt. Þá sérstaklega sem veganesti fyrir þingmenn okkar og ráðherra í áframhaldandi vinnu þeirra. 

Í Efsta Dal í Bláskógabyggð var haldinn opinn fundur með Sigurði Inga, Jóhanni Friðriki og Hafdísi Hrönn. Þar var m.a. rætt um búvörusamninga, framleiðslustyrki til bænda, álag á vegakerfið á Suðurlandi, samgönguáætlun, dreifikerfi raforku og orkuskipti. 

Í skátaheimili Mosverja í Mosfellsbæ mættu Willum Þór, Ásmundur Einar og Ágúst Bjarni á opinn fund. Með þeim voru bæjarfulltrúar Framsóknar í Mosfellsbæ þau Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs, Sævar Birgisson og Örvar Jóhannsson. Þar var m.a. rætt um málefni hælisleitenda, uppbyggingu hjúkrunarheimila, blóðmerahald, almannavarnir í kjölfar jarðhræringa í Grindavík og núverandi kjaraviðræður. 

Í Landnámssetrinu í Borgarnesi ræddu Lilja Dögg, Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý við kjósendur á opnum fundi. Með þeim voru sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar í Borgarbyggð þau Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar og formaður Kvenna í Framsókn, Davíð Sigurðsson, Eva Margrét Jónudóttir og Sigrún Ólafsdóttir. Rætt var um framtíð Reykjavíkurflugvallar, núverandi kjaraviðræður, uppkaup ríkisins í íbúðarhúsnæði í Grindavík, málefni ferðaþjónustunnar, inngildingu innflytjenda og orkuþörf hér á landi. 

Í dag höldum við þrjá opna fundi, á Vopnafirði kl. 18.00 og í Kópavogi og Akranesi kl. 20.00.

  • Í húsnæði Siglingafélagsins Ýmir í Kópavogi verða Willum Þór og Ágúst Bjarni ásamt bæjarfulltrúum Framsóknar í Kópavogi. 
  • Í safnaðarheimilinu á Vopnafirði verða Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna og Þórarinn Ingi. 
  • Á Dalbraut 4 á Akranesi verða Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý ásamt bæjarfulltrúum Framsóknar á Akranesi. 
Categories
Fréttir Greinar

Annar heims­far­aldur

Deila grein

27/02/2024

Annar heims­far­aldur

Við í Framsókn höfum síðustu misseri tekið okkur stöðu og verið óhrædd við að benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Þessar áhyggjur eru ekki úr lausu lofti gripnar. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði að þessu tilefni starfshóp í samvinnu við matvælaráðherra og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Fyrir þessum hópi var fyrrum sóttvarnarlæknir Þórólfur Guðnason. Hópurinn skilaði af sér fyrr í þessum mánuði.

Flestir kannast við frásögur af því þegar sýklalyf fóru að gagnast mannkyninu það er upp úr 1940, fyrir þann tíma voru berklar, blóðeitrun, lungnabólgur og fleiri sjúkdómar virkilega ógn við líf og heilsu. Það var því bylting þegar sýklalyfin voru uppgötvuð og nýtt í baráttunni við áður lífsógnandi sjúkdóma. Á síðust árum hafa sérfræðingar verið að vara við vaxandi sýklalyfjaónæmi og það er enn vaxandi og er orðið verulegt heilbrigðisvandamál. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum takmarka meðferðarúrræði. Í sumum löndum greinast sýkingar af völdum baktería sem engin sýklalyf vinna á sem skapar ástand sem minnir á aðstæður eins og þær voru áður en sýklalyfin voru fundin upp.

Hvað getum við gert?

Starfshópurinn skilaði af sér fjögurra ára aðgerðaráætlun sem inniheldur sex meginaðgerðir sem samanstanda að því að bæta þekkingu á sýklalyfjaónæmi, auka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum. Markmið fylgir hverri aðgerð og verkefni. Því fyrr því betra er að ráðist verði af alvöru í þetta verkefni, því betra er að byrgja brunninn og svo framvegis.

Þá kemur það einnig fram í skýrslu hópsins að fæðuöryggi mun enn fremur minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun í landbúnaði hér á landi er með því minnsta sem þekkist í heiminum og hefur það verið staðfesti í eftirliti evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landbúnaði.

Sérstaða íslenskrar matvælaframleiðslu

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu. Undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða og hafa þeir brýnt fyrir okkur að verja þessa einstöku sérstöðu sem við búum við hér á landi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Við þurfum nú og framvegis að styrkja þann grunn sem íslensk matvælaframleiðsla byggir á en ýmsar ógnir steðja að.

Það er því miður staðreynd að innflutningur á nautakjöti jókst um 48% á sl. ári og á kjöti í heild um 17%. Á sama tíma og kjötframleiðsla innanlands var svipuð og árinu á undan og sala í kinda- og nautakjöti dróst saman um 2%. Raunin er sú að innflutt kjötvara er nú byrjuð að taka yfir markaðinn og er orðin að stærri hluta af sölunni í heild. Við þurfum að spyrja okkur, er þetta í takti við tillögur sem áhyggjufullur stýrihópur um aðgerðir til varna útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería bendir á?

Halla Signý Kritjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. febrúar 2024.

Categories
Fréttir

Kjördæmavikan byrjar vel!

Deila grein

27/02/2024

Kjördæmavikan byrjar vel!

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar eru á ferð og flugi um land allt þessa dagana. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti og koma víða við.

Fyrstu fundir Framsóknar í kjördæmaviku voru haldnir í gær. Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason sátu opinn fund í Grósku í Reykjavík ásamt Einari Þorsteinssyni, nýjum borgarstjóra. Á sama tíma sátu Sigurður Ingi Jóhannsson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir opinn fund í samkomuhúsinu í Sandgerði. Anton Kristinn Guðmundsson, formaður bæjarráðs Suðurnesjabæjar, og Úrsúla María Guðjónsdóttir bæjarfulltrúi voru með þeim í slagtogi.

Á báða fundina var vel mætt og umræðurnar voru líflegar. Í Reykjavík var aðallega rætt um mannúðaraðstoð til Gasa, móttöku hælisleitenda, hjúkrunarheimili, samgöngur og úrræði fyrir einstaklinga með geðrænan vanda. Í Sandgerði var góð umræða um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna stöðunnar í Grindavík, málefni útlendinga, heilbrigðismál, landbúnaðarmál og málefni barna.

Þessa vikuna eru þingmenn okkar og ráðherrar á ferðinni um allt land og í dag höldum við þrjá opna fundi á sama tíma, kl. 20.00.

  • Í Skátaheimili Mosverja í Mosfellsbæ verða Willum Þór, Ásmundur Einar og Ágúst Bjarni.
  • Í Efsta Dal í Bláskógarbyggð verða Sigurður Ingi, Jóhann Friðrik og Hafdís Hrönn.
  • Í Landnámssetrinu í Borgarnesi verða Lilja Dögg, Stefán Vagn, Lilja Rannveig og Halla Signý.
Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Varnarmál í brennidepli

Deila grein

26/02/2024

Varnarmál í brennidepli

Tvö ár eru liðin í dag frá því að við fylgd­umst agndofa með því þegar Rúss­ar hófu ólög­lega inn­rás sína inn í frjálsa og full­valda Úkraínu. Stríð var hafið í Evr­ópu. Dag­legu lífi Úkraínu­manna, þess­ar­ar fjöl­mennu Evr­ópuþjóðar, var á einni nóttu snúið á hvolf, með þeim af­leiðing­um að millj­ón­ir hafa neyðst til að rífa sig upp með rót­um og flýja heim­ili sín vegna árása Rúss­lands­hers.

Þó að upp­haf­leg­ar áætlan­ir Rússa um að her­taka alla Úkraínu á nokkr­um dög­um hafi bless­un­ar­lega eng­an veg­inn gengið eft­ir hef­ur þeim tek­ist að her­taka um 18% af landsvæði Úkraínu. Úkraínu­mönn­um tókst að hrekja Rússa á brott frá stór­um landsvæðum fram­an af en á und­an­förn­um mánuðum hef­ur víg­lín­an lítið hreyfst í hörðum átök­um, þar sem mann­fall hef­ur verið mikið.

Áhrif inn­rás­ar­inn­ar hafa hríslast út um víða ver­öld með nei­kvæðum efna­hags­áhrif­um og varpað ljósi á and­vara­leysi í varn­ar­mál­um Evr­ópu­ríkja. Veru­leiki í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um gjör­breytt­ist á svip­stundu og í fyrsta sinn í ára­tugi var mála­flokk­ur­inn aft­ur kom­inn á dag­skrá í þjóðfé­lagsum­ræðunni. Þannig hafa ríki Evr­ópu stór­aukið sam­starf og fram­lög til varn­ar­mála og aðild­ar­ríkj­um Atlants­hafs­banda­lags­ins hef­ur fjölgað með inn­göngu Finna og inn­göngu­ferli Svía sem er á loka­metr­un­um en þau skref telj­ast til sögu­legra stefnu­breyt­inga í lönd­un­um tveim­ur. Þær ákv­arðanir sem tekn­ar hafa verið í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um Íslend­inga hafa verið far­sæl­ar og staðist tím­ans tönn, má þar nefnda stofnaðild okk­ar að Atlants­hafs­banda­lag­inu árið 1949 og tví­hliða varn­ar­samn­ing­inn við Banda­rík­in árið 1951.

Ísland hef­ur tekið virk­an þátt í sam­hæfðum aðgerðum vest­rænna ríkja til að styðja við Úkraínu. Tekið hef­ur verið á móti öll­um þeim Úkraínu­mönn­um sem hingað hafa leitað í skjól, ásamt því að margþætt­ur efna­hags­leg­ur og póli­tísk­ur stuðning­ur hef­ur verið veitt­ur svo dæmi séu tek­in. Það er gríðarlega mik­il­vægt að það verði ekki rof í stuðningi Vest­ur­landa við Úkraínu og sér­stak­lega brýnt að fundn­ar verði leiðir til þess að tryggja öfl­uga hernaðaraðstoð til Úkraínu­manna. Þar eru meðal ann­ars bundn­ar von­ir við að sátt ná­ist milli Re­públi­kana og Demó­krata í full­trúa­deild Banda­ríkjaþings um 60 millj­arða dala hernaðaraðstoð við Úkraínu.

Lang­tíma­hugs­un með marg­háttuðum stuðningi við Úkraínu skipt­ir máli. Sag­an kenn­ir okk­ur að ef ein­ræðis­herr­ar verða ekki stöðvaðir, halda þeir yf­ir­gangi sín­um ótrauðir áfram. Í amstri hvers­dags­ins vill það kannski gleym­ast að sú þjóðfé­lags­gerð sem við og þjóðirn­ar í kring­um okk­ur þekkj­um er ekki sjálf­sögð. Tug­millj­ón­ir manna létu lífið í seinni heims­styrj­öld­inni í bar­átt­unni fyr­ir því frelsi, lýðræði og mann­rétt­ind­um sem við búum við í dag. Inn­rás­in í Úkraínu er grimmi­leg áminn­ing um að þessi gildi eiga und­ir högg að sækja í heim­in­um. Það er óheillaþróun sem sporna verður við.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. febrúar 2024.