Categories
Fréttir Greinar

Raunsæis þörf í öryggismálum

Deila grein

30/01/2025

Raunsæis þörf í öryggismálum

Alþjóðamál­in hafa ekki verið jafn þýðing­ar­mik­il í ár­araðir og það reyn­ir á rík­is­stjórn Íslands að tryggja hags­muni lands­ins. Það eru viðsjár­verðir tím­ar. Enn sér ekki fyr­ir end­ann á hrika­legu stríði í Úkraínu. Norður­skautið er komið í hringiðu alþjóðaum­ræðunn­ar vegna áhuga Banda­ríkja­for­seta á að styrkja stöðu sína á Græn­landi. For­sæt­is­ráðherr­ar Norður­land­anna funduðu vegna stöðunn­ar og danski for­sæt­is­ráðherr­ann er far­inn í ferðalag um Evr­ópu til að tryggja stuðning við þeirra málstað. Í mín­um huga snýst málið um vilja Græn­lend­inga og sjálf­stæði þeirra til framtíðar, sem og virðingu fyr­ir alþjóðalög­um. Land­fræðileg staða Íslands og Græn­lands er mik­il­væg sem fyrr og gott að rifja upp margtil­vitnuð orð fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, Winst­ons Churchills: „Hver sá sem hef­ur yf­ir­ráð yfir Íslandi held­ur á byssu miðaðri á Eng­land, Am­er­íku og Kan­ada,‘‘ sagði hann um hernaðarlegt mik­il­vægi Íslands í seinni heims­styrj­öld­inni. Æ síðan hef­ur lega Íslands skipað grund­vall­arsess í varn­ar­mál­um vest­rænna ríkja.

Frelsi og ör­yggi er grund­vall­arþátt­ur í vel­ferð okk­ar. Það var því fram­sýni þegar ís­lensk stjórn­völd ákváðu að Ísland yrði stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu. Þar sem herlaus þjóð gat ekki varið sig fór banda­lagið þess á leit við Ísland og Banda­rík­in að þjóðirn­ar gerðu ráðstaf­an­ir sín á milli með varn­ar­samn­ingn­um árið 1951. Á þeim tíma var varn­ar­leysi lands­ins talið stofna ör­yggi þess sjálfs og friðsamra ná­granna þess í voða eins og það er orðað í samn­ing­um. Staðfesta stjórn­valda þá tryggði aðstöðu hér á landi til að sinna vörn­um og varðveita þannig frið og ör­yggi á svæðinu.

Það er því afar brýnt að haldið sé vel utan um stöðu Íslands og tryggt áfram­hald­andi vest­rænt sam­starf. Lega Íslands hef­ur í för með sér að tryggja verður áfram­hald­andi sam­starf við Banda­rík­in í sam­ræmi við sögu­leg­an varn­ar­samn­ing, ásamt því að rækta sam­starfið við hinar Norður­landaþjóðirn­ar og sam­starfið inn­an Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins. Okk­ar vel­gengni grund­vall­ast á þess­um styrku stoðum í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Ýmsir hafa fært rök fyr­ir því að nauðsyn­legt sé að ganga í Evr­ópu­sam­bandið til að tryggja varn­ir lands­ins en það á ekki við. Ég minni á að Finn­land og Svíþjóð gerðust aðilar að NATO, ein­mitt vegna þess að þau töldu að varn­ir ESB dygðu ekki til. Evr­ópu­sam­bands­sinn­ar á Íslandi telja að best sé fyr­ir landið okk­ar að ganga í ESB út af stefnu Trumps og eru þar með til­bún­ir til að fórna sjálf­stæði þjóðar­inn­ar og eign­ar­haldi á auðlind­um okk­ar. Ég geld var­hug við þess­ari nálg­un, því ber­in eru súr. Ísland hef­ur átt í far­sælu sam­starfi við Banda­rík­in allt frá lýðveld­is­stofn­un ásamt því að stunda frjáls viðskipti inn­an EES. Þessi leið hef­ur skilað mik­illi verðmæta­sköp­un og góðum lífs­kjör­um. Það er afar brýnt að rík­is­stjórn­in vandi sig og mæti til leiks.

Reglu­lega verða at­b­urðir sem und­ir­strika mik­il­vægi þess að huga vel að varn­ar­mál­um. Þá vakt þurf­um við ávallt að standa og taka virk­an þátt með vinaþjóðum okk­ar í að standa vörð um þá sam­fé­lags­gerð sem við þekkj­um. Þrátt fyr­ir að Ísland sé lítið skipt­ir fram­lag okk­ar miklu máli í þessu sam­hengi – rétt eins og Winst­on Churchill benti rétti­lega á.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. janúar 2025.

Categories
Greinar

Um trén og flugvöllinn

Deila grein

29/01/2025

Um trén og flugvöllinn

Að halda land­inu í byggð og tryggja at­vinnu um allt land kall­ar ekki ein­ung­is á innviðaupp­bygg­ingu held­ur kall­ar það líka á að sam­göngu­innviðum sé haldið við og rekstr­arör­yggi ekki raskað. Hér vísa ég auðvitað til umræðunn­ar um Reykja­vík­ur­flug­völl sem hef­ur þjónað Íslend­ing­um í ára­tugi – bæði sem sam­göngumiðstöð og lend­ing­arstaður sjúkra­flugs enda staðsett­ur í ná­vígi við Land­spít­al­ann. Í dreif­býlu landi skipt­ir trygg­ur rekst­ur flug­valla máli fyr­ir hraðar og greiðar sam­göng­ur á milli lands­hluta, sér í lagi til höfuðborg­ar­inn­ar þar sem mik­il þjón­usta við lands­menn alla hef­ur byggst upp.

Sitt sýn­ist hverj­um um staðsetn­ingu Reykja­vík­ur­flug­vall­ar og deilt hef­ur verið um staðsetn­ingu hans frá því áður en ég fædd­ist. Staðreynd­in er þó sú að árið 2019 skrifuðu ríki og borg und­ir sam­komu­lag um rekstr­arör­yggi flug­vall­ar­ins. Í því felst að rekstr­arör­yggi Reykja­vík­ur­flug­vall­ar verði tryggt á meðan und­ir­bún­ing­ur og gerð nýs flug­vall­ar, á jafn­góðum eða betri stað, stend­ur yfir. Sam­komu­lagið bind­ur þannig báða aðila til þess að gera ráðstaf­an­ir svo að Reykja­vík­ur­flug­völl­ur geti áfram þjónað inn­an­lands­flugi á full­nægj­andi hátt. Jafn góður eða betri staður hef­ur ekki enn verið fund­inn og jafn­vel þótt svo væri er ljóst að upp­bygg­ing á nýj­um flug­velli tek­ur mjög lang­an tíma. Þar af leiðandi er ekki út­lit fyr­ir að nýr flug­völl­ur verði kom­inn í gagnið í bráð. Það ligg­ur í hlut­ar­ins eðli að ríki og borg verða áfram að viðhalda flug­vell­in­um og tryggja rekstr­arör­yggi hans.

Græn svæði eru ómet­an­leg verðmæti fyr­ir okk­ur öll. Í Öskju­hlíðinni hef­ur vaxið fal­leg­ur skóg­ur sem íbú­um, þar á meðal mér sjálfri, þykir vænt um. Staðan er þó sú að trén eru tal­in hafa náð hæð sem hef­ur áhrif á flu­gör­yggi. Þegar horft er til þeirra hags­muna sem hér veg­ast á, ann­ars veg­ar að trén fái áfram að vaxa og hins veg­ar flu­gör­ygg­is fólks, hlýt­ur það síðar­nefnda að vega þyngra. Afstaðan er því skýr: ef það þarf að fella tré til að tryggja flu­gör­yggi, þá ber að fella þau tré sem nauðsyn kref­ur en tryggja um leið með mót­vægisaðgerðum að Öskju­hlíðin sé áfram grænt svæði. Þau tré sem þarf að fella verða því felld svo að flu­gör­yggi verði ekki teflt í tví­sýnu. Í staðinn mætti gróður­setja lág­reist­an skóg á ný og byggja upp fal­legt leik- og úti­vist­ar­svæði fyr­ir alla ald­urs­hópa. Það mætti til að mynda vinna í sam­starfi við skóla borg­ar­inn­ar, sem jafn­framt býður upp á tæki­færi til að fræða börn um mik­il­vægi skóg­rækt­ar og land­græðslu. Jafn­vel mætti þar staðsetja úti­kennslu­stofu. Lyk­il­atriðið er að þetta mál endi ekki sem enn eitt þolgott þrætu­epli á milli rík­is og borg­ar held­ur sé leyst með sam­vinnu þess­ara aðila far­sæl­lega og fljótt.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Nýtt upphaf?

Deila grein

28/01/2025

Nýtt upphaf?

Þann 4. fe­brú­ar næst­kom­andi verður Alþingi sett og hefst þar með nýtt kjör­tíma­bil nýrr­ar rík­is­stjórn­ar. Rétt er í upp­hafi að óska þeirri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um fyr­ir land og þjóð. Í stefnu­yf­ir­lýs­ingu nýrr­ar rík­is­stjórn­ar seg­ir að fyrsta verk henn­ar sé að ná stöðug­leika í efna­hags­lífi, lækka vexti og vinna að auk­inni verðmæta­sköp­un í at­vinnu­lífi. Það er vel, en hins veg­ar er lítið fjallað um það í meðfylgj­andi 23 aðgerðum hvernig þessu skuli náð. Þó er sagt að ný rík­is­stjórn muni rjúfa kyrr­stöðu í at­vinnu­líf­inu.

Hvað er kyrrstaða?

Óneit­an­lega vakn­ar þá spurn­ing­in um hvað kyrrstaða er í hug­um odd­vita rík­is­stjórn­ar­inn­ar, þegar at­vinnuþátt­taka hef­ur sjald­an verið meiri á Íslandi síðustu miss­eri. At­vinnu­leysi er lítið. Á síðustu 7 árum hafa 25 þúsund nýj­ar íbúðir komið á markað. Meiri kraft­ur hef­ur verið í bygg­inga­geir­an­um hér­lend­is en á nokkru byggðu bóli í Evr­ópu. Á sama tíma hef­ur stærsta ein­staka fjár­fest­ing rík­is­ins verið í full­um gangi, þ.e.a.s. bygg­ing nýs Land­spít­ala með um 20 millj­arða fjár­fest­ingu á síðasta ári. Á bil­inu 20-30 millj­arðar ár­lega hafa farið í upp­bygg­ingu vega, t.a.m. Reykja­nes­braut­ar, Arn­ar­nes­veg­ar, Vest­ur­lands­veg­ar um Kjal­ar­nes, Suður­lands­veg­ar og tengi­vega um land allt, stór­fellda fækk­un ein­breiðra brúa m.a. yfir Horna­fjarðarfljót og ekki síst upp­bygg­ingu á Vest­fjörðum á Dynj­and­is­heiði og um suðurf­irði Vest­fjarða. Þá eru ótal­in verk­efni á veg­um Höfuðborg­arsátt­mál­ans og und­ir­bún­ing­ur Sunda­braut­ar. Metnaðarfull jarðganga­áætl­un lá fyr­ir í sam­göngu­áætlun, m.a. með Fjarðar­heiðargöng­um og flýti­rann­sókn­um á Siglu­fjarðarsk­arðsgöng­um og um Súðavík­ur­hlíð. Mik­il og löngu þörf upp­bygg­ing var á flug­völl­um lands­ins, m.a. á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum. Komið var á vara­flug­vall­ar­gjaldi og stuðnings­kerf­inu Loft­brú. Hafna­bóta­sjóður var stór­auk­inn og mörg verk­efni eru orðin að veru­leika eða að verða eins á Ísaf­irði, Njarðvík, Sauðar­króki og Þor­láks­höfn. Það er von­andi að ný rík­is­stjórn nái að halda vel á spöðunum áfram og jafn­vel bæti í – það er þörf á því, en allt tal um kyrr­stöðu síðustu ára hljóm­ar í besta falli eins og lé­leg öf­ug­mæla­vísa á þorra­blóti.

Byggj­um upp traust og sam­heldni

Hin nýja rík­is­stjórn seg­ist ein­setja sér að vinna gegn sundr­ung og tor­tryggni og byggja und­ir traust og sam­heldni í ís­lensku sam­fé­lagi. Það vek­ur því furðu að sama fólk ætl­ar sér – þrátt fyr­ir enga umræðu í aðdrag­anda kosn­inga – að draga þjóðina inn í umræðu um aðild að tolla­banda­lagi ESB, þar sem vitað er að þjóðin er djúpt klof­in gagn­vart þeirri veg­ferð. Meiri­hluti þjóðar­inn­ar mun aldrei gefa af­slátt á að missa for­ræði yfir auðlind­um lands­ins. Evr­ópu­sam­bandið er í stór­kost­legri krísu þessi miss­er­in, hag­vöxt­ur nær eng­inn, at­vinnu­leysi vax­andi, kaup­mátt­ur al­menn­ings rýrn­ar, eng­inn kraft­ur í ný­sköp­un eða nýt­ingu gervi­greind­ar til hags­bóta fyr­ir sam­fé­lagið. Ólíkt Íslandi, þar sem síðustu 10 ár hafa verið saga mik­ils hag­vaxt­ar og auk­ins kaup­mátt­ar launa­fólks – ekki síst þeirra sem lægstu laun­in hafa. Veru­leg ný­sköp­un hef­ur átt sér stað á öll­um sviðum og upp­bygg­ing nýrra verðmætra skap­andi út­flutn­ings­greina eins og lyfjaiðnaðar, fisk­eld­is og ekki síst skap­andi greina.

Sem fyrsta markverða skrefið til að draga úr tor­tryggni og auka traust mætti benda nýrri rík­i­s­tjórn á að hætta strax við öll ESB-áform. Ólíkt því sem birt­ist í aðgerðaplani nýrr­ar rík­is­stjórn­ar væri rétt­ara að leggja mesta áherslu á sam­starf við okk­ar helstu vinaþjóðir, á Norður­lönd­um, í stað þess að setja Evr­ópu­sam­bandið þar fremst. Norður­landa­rík­in eru öll í NATO og ásókn stórþjóða í áhrif á norður­slóðum vex. Mik­il­vægi ná­ins sam­starfs Norður­landa­ríkj­anna hef­ur aldrei verið meira. Sam­vinna okk­ar við önn­ur nor­ræn ríki hef­ur hjálpað til við að skapa fé­lags­legt rétt­læti og aukið lífs­gæði og sam­keppn­is­hæfni á alþjóðavísu. Græn­land, Fær­eyj­ar og Álands­eyj­ar eru á sama veg nauðsyn­leg­ir sam­starfsaðilar.

Fjár­mál stjórn­mála­flokka og gegn­sæi

Til að auka traust á lýðræðinu og stjórn­kerf­inu væri einnig gott næsta skref að yf­ir­fara fjár­mál stjórn­mála­flokka. Rann­saka hverj­ir eiga rétt á slík­um greiðslum og krefjast end­ur­greiðslu frá þeim sem upp­fylla ekki skil­yrði til að fá greiðslur frá fólk­inu í þessu landi til að standa straum af rekstri og kosn­inga­bar­áttu síns flokks. Auka gegn­sæi. Þannig væri hægt að byggja upp traust og sam­heldni og eyða tor­tryggni og sundr­ung.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður og formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2025.

Categories
Greinar

Glópagullið villir mörgum sýn

Deila grein

24/01/2025

Glópagullið villir mörgum sýn

Laug­ar­dag­inn 30. nóv­em­ber síðastliðinn rann út til­boðsfrest­ur í toll­kvóta vegna inn­flutn­ings á land­búnaðar­af­urðum frá Evr­ópu­sam­band­inu sam­kvæmt reglu­gerð nr. 1168/​2024 fyr­ir tíma­bilið 1. janú­ar til 30. júní 2025.

Og nú ný­verið lauk útboðsferli vegna toll­kvóta á land­búnaðar­vör­um, sem veit­ir heim­ild til inn­flutn­ings á kjöti, ost­um og plönt­um með eng­um eða lægri toll­um en al­mennt er kveðið á um. Toll­kvót­um er út­deilt með útboði, og hef­ur eft­ir­spurn oft reynst langt um­fram fram­boð.

Um þess­ar mund­ir sést gríðarleg aukn­ing á inn­flutn­ingi á lamba­kjöti sem kem­ur mest­megn­is frá Írlandi og er selt á mat­vörumarkaði og á veit­inga­stöðum hér­lend­is. Hins veg­ar hef­ur þessi inn­flutn­ing­ur, og þær aðferðir sem sum­ir aðilar nota til áfram­vinnslu og sölu, leitt til blekk­ing­ar gagn­vart ís­lensk­um neyt­end­um.

Al­gengt er að minni kjötvinnsl­ur sem ekki eru afurðastöðvar á Íslandi kaupi frosið lamba­kjöt sem flutt er inn að utan, þíði kjötið upp, kryddi það og selji afurðirn­ar á markaði und­ir eig­in merki. Pakkn­ing­ar geta oft verið vill­andi fyr­ir neyt­end­ur, þrátt fyr­ir er­lend­an upp­runa eru þær merkt­ar á þann veg að gefið er til kynna að um inn­lenda fram­leiðslu sé að ræða, jafn­vel með ís­lensk­um fánarönd­um eða und­ir ís­lensku vörumerki.

Slík­ar aðferðir grafa und­an trausti neyt­enda og skapa sam­keppn­isójöfnuð fyr­ir ís­lenska bænd­ur og fram­leiðend­ur. Mik­il­vægt er að tryggja skýr­ar og gagn­sæj­ar merk­ing­ar á mat­vöru til að neyt­end­ur geti tekið upp­lýst­ar ákv­arðanir um kaup sín. Reglu­verki þarf að fylgja fast eft­ir til að koma í veg fyr­ir rang­ar upp­lýs­ing­ar.

Sem neyt­andi get­ur þú ekki verið þess full­viss þegar þú borðar á veit­inga­húsi eða í mötu­neyti á þínum vinnustað, að lamba­kjötið sé frá Íslandi. Þetta er sá veru­leiki sem við búum við í dag.

Með því að setja skorður við inn­flutn­ingn­um og hækka vernd­artolla stuðlum við að því sem þjóð að byggja und­ir betri starfs­skil­yrði fyr­ir bænd­ur og vinn­um mark­visst að því að tryggja sjálf­bærni og um leið fæðuör­yggi ís­lensku þjóðar­inn­ar.

Sérstaða ís­lenskra mat­vara er ein­stök á heimsvísu þar sem lyfja- og varn­ar­efna­notk­un í land­búnaði á Íslandi er með því minnsta sem þekk­ist í heim­in­um auk þess sem notk­un vaxt­ar­horm­óna er bönnuð. Það er brýnt heil­brigðismál að komið sé í veg fyr­ir út­breiðslu sýkla­lyfja­ónæmra bakt­ería á Íslandi með ströng­um ráðstöf­un­um, en sýkla­lyfja­ónæmi er ört vax­andi ógn í heim­in­um.

Fram­sókn vill auka toll­vernd í þágu ís­lensks land­búnaðar og tryggja að verklag og eft­ir­lit með út­hlut­un toll­kvóta sé í sam­ræmi við ákvæði samn­inga um toll­vernd. Upp­færa þarf gjöld toll­skrár og tryggja að toll­kvót­ar séu verðlagðir í sam­ræmi við til­gang sinn. Tolla­samn­ing­ur við Evr­ópu­sam­bandið á að sæta end­ur­skoðun með það að mark­miði að tryggja jafn­vægi í skuld­bind­ing­um samn­ingsaðila út frá ávinn­ingi. Fram­sókn tel­ur brýnt að styrkja tolla­eft­ir­lit veru­lega og gera það sam­bæri­legt því sem þekk­ist í sam­an­b­urðarríkj­um.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. janúar 2025.

Categories
Greinar

Við þurfum þjóðar­stefnu

Deila grein

23/01/2025

Við þurfum þjóðar­stefnu

Öryggi er ein af grunnþörfum fólks. Einn mikilvægur þáttur í öryggiskennd fólks er skjól gegn veðri og vindum. Okkur sem samfélagi ber að tryggja að þeir sem leita aðstoðar og verndar geti fengið húsaskjól. Á hverju ári leita um 300 einstaklingar, á aldrinum 18 til 70 ára, í neyðarskýli Reykjavíkurborgar fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Neyðarskýli eru, eins og nafnið gefur til kynna, neyðarúrræði. Þau eru ekki hönnuð sem langtímalausn, hvað þá varanleg heimili. Í dag rekur Reykjavíkurborg þrjú neyðarskýli – tvö fyrir karla og eitt fyrir konur. Árið 2023 voru samtals 21.168 gistinætur skráðar í neyðarskýlum borgarinnar. Þó sumir dvelji þar aðeins í nokkra daga, dvelja aðrir þar árum saman. Til að bregðast við þessu hefur Reykjavíkurborg hafið uppbyggingu á þrepaskiptri þjónustu með það að markmiði að stuðla að varanlegri búsetu. Slík þjónusta hefur gefist vel erlendis og byggir á hugmyndafræðinni „húsnæði fyrst“ (e. Housing First).

Húsnæði fyrst

Hugmyndafræðin „húsnæði fyrst“ viðurkennir grunnþörf manna til húsaskjóls. Þegar henni er mætt dregur úr örvæntingu fólks og fólk getur þá betur ráðið við aðrar áskoranir lífsins, en heimilislausir einstaklingar glíma oft við geð- eða vímuefnavanda eða afleiðingar alvarlegra áfalla. Nágrannalönd okkar líta ekki á neyðarskýli sem langtímalausn og hafa byggt upp „húsnæði fyrst“ úrræði með góðum árangri. Reykjavíkurborg hefur verið að þróa þetta áfram á síðustu árum meðal annars með smáhýsum og búsetukjörnum með stuðningi.

Þrepaskipt þjónusta – endurskoðuð aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar

Í gær var endurskoðuð aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar með stefnu í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir samþykkt í borgarstjórn með öllum greiddum atkvæðum. Þar er meðal annars lagt upp með að auka uppbyggingu á varanlegu húsnæði og þrepaskipta þjónustu við heimilislaust fólk. Markmiðið er að koma fólki í sjálfstæða búsetu eða húsnæði með stuðningi í stað neyðarskýla. Þjónustan skiptist í fjögur þrep og má líkja því við tröppugang. Fólk fær fyrst um sinn mikla þjónustu á meðan það vinnur úr ýmsum áskorunum og hefur sjálfstæða búsetu. Sú þjónusta minnkar ef fólk vill og er tilbúið að fara í næsta þrep í átt að sjálfstæðri og varanlegri búsetu. Samhliða aukinni áherslu á uppbyggingu varanlegs húsnæðis dregur oftast nær smám saman úr þörfinni fyrir neyðarrými. Fólk er þá alltaf í þjónustukeðjunni og fókusinn færist frá bráðalausnum yfir í sjálfbær úrræði sem styðja einstaklinga til sjálfshjálpar og leggja áherslu á skaðaminnkun.

Þörf fyrir samstarf milli sveitarfélaga

Heimilisleysi er ekki bundið við eitt sveitarfélag. Um þriðjungur þeirra sem dvelja í neyðarskýlum Reykjavíkur eru annaðhvort skráðir með lögheimili í öðrum sveitarfélögum eða án kennitölu. Þó flest sveitarfélög séu með samning við Reykjavíkurborg um greiðslu kostnaðar sem fellur til vegna dvalar íbúa í neyðarskýlum eru dæmi um að sveitarfélög hafni því að greiða fyrir þessa þjónustu. Þau hafa jafnvel hvatt til þess að lögheimili íbúa sé fært til Reykjavíkur. Þá mun ofangreind húsnæðisuppbygging Reykjavíkurborgar einungis þjóna íbúum Reykjavíkurborgar enda fá einstaklingar einungis úthlutað húsnæði á félagslegum grundvelli í þeirra lögheimilissveitarfélagi. Hér er markmiðið ekki að lasta önnur sveitarfélög. Heldur að varpa ljósi á þá stöðu sem kann að skapast samhliða aukinni uppbyggingu á „húsnæði fyrst“ úrræðum þ.e. að notendur neyðarskýla borgarinnar verði að mestu íbúar annarra sveitarfélaga ráðist önnur sveitarfélög ekki í sambærilega uppbyggingu fyrir sína íbúa. Slíkt fyrirkomulag væri ekki sjálfbært og ekki til þess að skapa fólki mannsæmandi líf.

Þjóðarstefna – hagur allra

Fólk sem býr við heimilisleysi eru mun líklegri en aðrir til að glíma við geðrænar áskoranir, líkamleg veikindi, vímuefnavanda og þunga áfallasögu. Aukinheldur eru þau líklegri til að eiga mál innan réttarvörslukerfisins og þurfa á aðkomu heilbrigðiskerfisins að halda fremur en einstaklingar sem tilheyra ekki þessum hópi. Veikindi geta leitt til þess að sumir þurfa á hjúkrunarrými á að halda þrátt fyrir að vera undir aldursviðmiðun hjúkrunarheimila. Heimilislausar konur eru þá mun líklegri til að verða fyrir kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum er ein algengasta orsök heimilisleysis kvenna. Það er því nauðsynlegt að samþætta þjónustu kerfa til að mæta þörfum fólks á heildstæðan hátt.

Úrræði eins og „húsnæði fyrst“ og markviss stuðningur getur dregið úr kostnaði í heilbrigðis- og réttarkerfinu. Erlendis hefur það reynst draga úr fjölda bráðakoma og innlagna á sjúkrahús, notkunar á neyðarathvörfum sem og tíðni fangelsunar og vímuefnameðferða. Mikilvægast er þó að varanlegt húsnæði bætir lífsgæði einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Það er því hagur ríkisins að taka með virkari hætti þátt í slíkri uppbyggingu.

Þjóðarstefna sem byggir á skaðaminnkun og samþættingu á þjónustu fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir sem og skilgreiningu á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er þjóðþrifamál. Ekki aðeins fyrir hag þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda, heldur fyrir allt samfélagið.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. janúar 2025.

Categories
Greinar

Hverjir munu búa á Blikastaðalandi?

Deila grein

23/01/2025

Hverjir munu búa á Blikastaðalandi?

Lögð hefur verið fram til kynningar deiliskipulagstillaga á vinnslustigi um uppbyggingu á Blikastaðalandi í Mosfellsbæ. Tillagan er líkt og kemur fram í yfirheiti hennar á vinnslustigi en þannig er gengið lengra en lög gera ráð fyrir í lýðræðslegu skipulagsferli. Tillagan kemur fram í kjölfar, og í samræmi við, uppbyggingarsamning sem gerður var milli Mosfellsbæjar og landeiganda Blikastaðalandsins í maí 2022. Til að setja hlutina aðeins í samhengi þá hefur umræða um uppbyggingu á Blikastaðalandi staðið yfir í áratugi. Þetta fallega svæði hefur farið á milli eigenda og oft skapað deilur vegna verðmætis. Rammaskipulag á Blikastöðum var lagt fram upphaflega fyrir 20 árum. En síðan hefur margt – ef ekki flest – breyst.

Uppbygging á Blikastaðalandi er mikilvægur hluti af íbúðaframboði á höfðuborgarsvæðinu sem mikið hefur verið rætt um á síðustu misserum. Á svæðinu er nú gert ráð fyrir því að byggðar verði um 3500 íbúðir þannig að um þriðjungur íbúa í Mosfellsbæ mun búa þar þegar hverfið verður fullbyggt.

Búið er að skipta svæðinu upp í þrjá áfanga og þær tillögur um deiliskipulag fyrsta áfanga sem hafa verið lagðar fram –á vinnslustigi – verða ekki lagðar fram fullunnar fyrr en í fyrsta lagi í haust. Þá mun fara fram hefðbundið samráðsferli samkvæmt skipulagslögum. Þegar skipulag hefur verið samþykkt og gengið frá öllum lausum endum er ljóst að uppbygging á Blikastaðalandi mun taka að minnsta kosti 15 ár.

Það felst mikil ábyrgð í því að brjóta nýtt land undir byggð og líka mikil tækifæri að geta hannað heilt hverfi frá grunni. Hverfi sem mun þjóna íbúum framtíðarinnar. Við þessa vinnu þarf að taka tillit til þarfa íbúa svæðisins eins og þær eru í dag en fyrst og fremst er byggt til framtíðar og leitast við að taka mið af því samfélagi sem við munum búa í eftir 20 ár. Það þarf að tryggja að verkefnið sé eins sjálfbært og auðið er og gangi ekki um of á gæði umhverfis og þjónustu þeirra sem búa í Mosfellsbæ í dag. Það er þó ljóst að umfangið er slíkt að það mun að sjálfsögðu breyta bæjarbragnum og þeirri þjónustu sem hér er að fá – vonandi til hins betra.

Talsvert hefur verið rætt um þéttleika byggðarinnar sem tillagan felur í sér. Það er áskorun að rýna í skipulag og reyna að sjá fyrir sér hvernig götur og hús munu raunverulega líta út fullbyggð og hvernig gæði umhverfisins verður í raun og veru. Eitt er allavega víst en það er að þetta hverfi verður ekki byggt eins og gömlu hverfin í Mosfellsbæ. Enda aðrar forsendur uppi nú, bæði þegar kemur að kostnaði og líka þegar kemur að þörfum íbúa – þörfum íbúa framtíðarinnar – sem munu búa á svæðinu.

Ein leið til að átta sig á því hvort svæði er of þétt eða nógu þétt er að bera það saman við önnur svæði. Það liggur beinast við að bera uppbyggingu á Blikastöðum saman við uppbyggingu á Keldnalandi. Þessi svæði liggja nálægt hvort öðru og munu verða borin saman. Sú tillaga sem unnið er með við skipulag á Keldnalandinu gerir ráð fyrir 5700 íbúðum. Keldnaland er 20% stærra landsvæði en Blikastaðir eða tæpir 117 hektarar. Heildar uppbyggingarmagn á Keldnalandi er þó um 80% meiri.

Förum við úr sveit í borg?

Ungt fólk í dag og kynslóðin sem er að koma inn á vinnumarkaðinn núna er með aðrar hugmyndir og aðrar áherslur en voru uppi þegar eldri hverfi í Mosfellsbæ voru byggð. Hvernig hverfi vill þetta fólk byggja? Ef það á að spyrja einhvern þá ætti að spyrja þau. Ef ég á að setja mig að einhverju leiti inn í þeirra hugarheim þá held ég að einhver myndu að minnsta kosti svara því til að þau vilji einfaldlega eiga kost á því að kaupa sér fasteign og flytja að heiman.

Unga fólkið á höfuðborgarsvæðinu hefur stækkað radíusinn og kemur sér í meira mæli fyrir í nágrannasveitarfélögum eins og Akranesi, Hveragerði og Þorlákshöfn. Það er nákvæmlega það sem fólk fyrir 40 árum gerði þegar það flutti í Mosfellsbæ. Verðmiðinn hefur þar langmest áhrif. Þau eru ekki að flytja úr Mosó á Akranes af því að þar eru meiri rólegheit. Þau fara af því að þau fá meira fyrir peninginn og fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu – sem Mosfellsbær tilheyrir – er of hátt.

Það er ekki hægt að hanna ný hverfi á Blikastaðalandi eða Keldnalandi með þarfir fólks í huga eins og þær voru fyrir 40 árum síðan þegar mikil uppbygging var í Holtum og Teigum. Eða fyrir 30 árum þegar Hlíðar og Tangar voru í uppbyggingu. Þá var land ekki verðlagt með þeim hætti sem það er í dag. Fólk fékk úthlutuðum lóðum og byggði sér hús eða verktakar fengu lóðir og byggðu hús fyrir fólk. Stórar fjölskyldur komu sér fyrir í Mosfellsbæ og hér hefur verið gott að ala upp börn – og vera barn. Þannig verður það að sjálfsögðu áfram. Líka fyrir nýju íbúana á Blikastaðalandi. En þeir hafa aðrar þarfir. Fjölskyldur eru að minnka. Við erum að eignast færri börn og fjölskylda í dag er mun fjölbreyttari eining en fjölskyldan var fyrir 30 árum. Fólk kýs í meira mæli að búa eitt og eins og talsvert hefur verið rætt undanfarið þá er þjóðin að eldast. Þetta býr til þarfir fyrir minni íbúðir þar sem fleiri deila kostnaði fyrir landið og innviðina.

Þá komum við að verðmiðanum. Hvernig fólk á að geta búið á Blikastaðalandi? Ungt fólk sem er að hefja búskap, eldra fólk sem vill minnka við sig, allskonar fólk er það ekki? Þétting byggðarinnar og fjöldi húsa mun hafa mikið um það að segja. Ekki bara vegna fjölbreytni í húsakosti heldur einnig út af verði. Því færri íbúðir sem við byggjum á svæðinu því dýrari verða þær. Það er bara rekstrarleg staðreynd. Það þarf að byggja upp alla innviði og það skiptir máli hvað íbúðirnar eru margar til að greiða fyrir þá innviði.

Byggð á Blikastaðalandi mun að sjálfsögðu ekki hafa áhrif á þéttleika þegar byggðra hverfa í Mosfellsbæ. En umfang verkefnisins gerir það að verkum að þau sem að þessari ákvarðanatöku koma verða að stefna að eins mikilli sjálfbærni þessa hverfis eins og unnt er. Nútímakröfur og framtíðarkröfur gera það að verkum að byggðin þarna verður þéttari en þau hverfi sem þegar eru byggð. Hún verður hinsvegar lágreist og græn og þannig í samhengi við aðra byggð í bænum. Í flestu samhengi myndi ég telja að við eigum áfram eftir að upplifa að Mosfellsbær er sveit í borg – en bæði sveitin og borgin eru að breytast og þurfa að þróast til framtíðar til að við getum boðið börnunum okkar upp á að njóta gæða umhverfisins á sinn hátt – eins og við gerðum á sínum tíma.

Aldís Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ábyrg ríkisfjármál lykill að framþróun

Deila grein

23/01/2025

Ábyrg ríkisfjármál lykill að framþróun

Við lif­um á einkar áhuga­verðum tím­um í alþjóðamál­um. Valda­skipti í Bretlandi og Banda­ríkj­un­um, yf­ir­vof­andi kosn­ing­ar í Þýskalandi, þrengri efna­hags­staða Evr­ópu­sam­bands­ins, áfram­hald­andi stríðsátök í Úkraínu og stór­merki­leg­ar vend­ing­ar í Mið-Aust­ur­lönd­um skapa flókið og sí­breyti­legt lands­lag í alþjóðamál­un­um. Þjóðríki og ríkja­sam­tök und­ir­búa sig fyr­ir harðnandi sam­keppni í alþjóðaviðskipt­um, þar sem tolla- og viðskipta­hindr­an­ir kunna að setja svip sinn á þró­un­ina. Á sama tíma eiga mörg ríki enn í vök að verj­ast eft­ir áföll­in sem covid-19-heims­far­ald­ur­inn olli í efna­hags­lífi þeirra, og hef­ur það haft af­ger­andi áhrif á rík­is­fjár­mál víða um heim.

Ísland kom hins veg­ar vel út úr þess­um áskor­un­um og hef­ur sýnt mikla seiglu í efna­hags­stjórn sinni. Lær­dóm­ur­inn af hag­stjórn lýðveld­is­ár­anna hef­ur sannað sig enn á ný: nauðsyn­legt er að rík­is­sjóður sé ávallt vel und­ir­bú­inn til að mæta efna­hags­leg­um áföll­um, bæði innri og ytri. Þannig nema nú nettóskuld­ir rík­is­ins um 30% af vergri lands­fram­leiðslu (VLF), sem er afar hag­stæð staða í sam­an­b­urði við önn­ur ríki. Til sam­an­b­urðar nema skuld­ir ríkja á evru­svæðinu um 90% af VLF og í Bretlandi um 100%, þar sem leit­in að sjálf­bær­um hag­vexti er áfram helsta áskor­un­in.

Eitt af brýn­ustu verk­efn­um op­in­berra fjár­mála hér á landi er að halda áfram á þeirri braut sem síðasta rík­is­stjórn lagði, með það að mark­miði að draga úr fjár­magns­kostnaði rík­is­sjóðs. Tryggja þarf að láns­kjör rík­is­ins end­ur­spegli hina sterku stöðu lands­ins á alþjóðavísu. Þessi ár­ang­ur hef­ur þegar skilað sér í hækk­un láns­hæf­is­mats ís­lenska rík­is­ins á síðasta ári, sem er vitn­is­b­urður um sterka und­ir­liggj­andi stöðu hag­kerf­is­ins.

Á hinn bóg­inn standa mörg lönd frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um. Í Bretlandi er hag­vöxt­ur hæg­ur á sama tíma og skuld­ir aukast. Alþjóðleg­ir fjár­fest­ar, eins og Ray Dalio, stofn­andi fjár­fest­inga­sjóðsins Bridgewater, hafa lýst yfir áhyggj­um af stöðu breskra rík­is­fjár­mála og bent á að landið gæti lent í nei­kvæðum skulda­spíral. Slík þróun gæti þýtt sí­vax­andi láns­fjárþörf til að standa straum af vöxt­um. Dalio bend­ir á hækk­andi ávöxt­un á 30 ára rík­is­skulda­bréf­um og veikt pund sem merki um aukna erfiðleika í rík­is­fjár­mál­um Bret­lands. Við þetta bæt­ist að fjár­laga­hall­inn þar nem­ur rúm­um 4% af lands­fram­leiðslu, sem dreg­ur úr fjár­hags­legu svig­rúmi stjórn­valda.

Á þess­um tíma­mót­um skipt­ir höfuðmáli að ís­lensk stjórn­völd taki skyn­sam­leg­ar og fram­sýn­ar ákv­arðanir í rík­is­fjár­mál­um. Mik­il­vægt er að viðhalda þeim góða ár­angri sem þegar hef­ur náðst og stuðla að áfram­hald­andi stöðug­leika. Forðast þarf all­ar ákv­arðanir sem gætu ógnað lækk­un­ar­ferli vaxta Seðlabank­ans eða skapað nei­kvæðan þrýst­ing á at­vinnu­lífið.

Lyk­ill­inn að far­sælli framtíð er að lækka fjár­magns­kostnað rík­is­sjóðs, skapa aukið svig­rúm til upp­bygg­ing­ar og tryggja að fyr­ir­tæki og ein­stak­ling­ar hafi góðar aðstæður til að skapa verðmæti og stuðla að hag­vexti.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Deila grein

22/01/2025

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Okkur berst til eyrna að loka eigi annarri af tveimur eftirstandandi flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Veruleg skerðing, með öðrum orðum, á bæði flugöryggi og nýtingarmöguleikum flugvallarins. Á sama tíma heyrum við að vel gæti þurft að loka hinni brautinni – í lengri eða skemmri tíma – meðan unnið er að uppbyggingu nýrrar brúar yfir Fossvoginn. Af hverju er það svo, að við þurfum trekk í trekk að minna á þá staðreynd að flugsamgöngur til og frá höfuðborgarinnar eru hryggjarstykkið í byggðaþróun og byggðastefnu landsins?

Sitjum ekki hljóð hjá

Við á landsbyggðunum getum ekki setið hljóð hjá. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir okkur að tryggja rekstur og öryggi flugvallarins á meðan í gildi er samkomulag um að hann verði áfram í Vatnsmýrinni, enda enginn annar augljós kostur í sjónmáli. Innanlandsflugið er mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðunum, bætir almenn lífsgæði og er nauðsynlegt öryggi okkar og heilsu. Þess vegna verðum við að þrýsta á alla hlutaðeigendi aðila að leysa þennan hnút strax. Nóg hefur verið saumað að flugvellinum í gegnum tíðina.

Áskorun til allra hlutaðeigenda

Bæjarfulltrúar Framsóknar hafa óskað eftir umræðu um stöðu Reykjavíkurflugvelli á bæjarstjórnarfundi og hyggjast leggja þar fram eftirfarandi bókun til samþykktar:

Bæjarstjórn Akureyrar skorar á bæði Reykjavíkurborg og Samgöngustofu, sem og ráðuneyti samgangna, að tryggja öryggi og rekstur Reykjavíkurflugvallar. Sú óvissa sem er uppi vegna fyrirhugaðrar lokunar á annarri tveggja flugbrauta er ólíðandi. Því ættu málsaðilar ekki að bíða boðanna heldur leiða öll ágreiningsefni skjótt til lykta, svo sem eðli málsins og alvarleiki býður.

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 21. janúar 2025.

Categories
Greinar

Samvinna – lykill að árangri

Deila grein

16/01/2025

Samvinna – lykill að árangri

Sam­vinnu­hug­sjón­in á ræt­ur að rekja til Bret­lands árið 1844 og barst til Íslands á 19. öld. Grunn­hug­mynd­in er ein­föld: með sam­eig­in­legu átaki ná menn lengra en í ein­angruðum verk­efn­um.

Þetta viðhorf hef­ur aldrei verið mik­il­væg­ara en nú í krefj­andi alþjóðlegu sam­hengi. Sam­vinna er ómiss­andi þátt­ur í stjórn­un lands, og Fram­sókn hef­ur beitt henni til að ná ár­angri fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag í yfir heila öld.

Leið að sjálf­bær­um hag­vexti

Einn áhrifa­mesti hag­fræðing­ur sög­unn­ar, Al­fred Mars­hall (1842-1924), sem er tal­inn einn af feðrum nú­tíma­hag­fræði, lagði mikla áherslu á sam­vinnu og gerði rann­sókn­ir á efna­hags­leg­um ávinn­ingi sam­vinnu­fé­laga.

Niðurstaða hans var að sam­vinnu­fé­lög gætu aukið fram­leiðni og bætt lífs­kjör með því að sam­eina hags­muni vinnu­afls og stjórn­enda. Hann benti einnig á að sam­vinna og sér­hæf­ing inn­an ákveðinna land­fræðilegra svæða gætu aukið fram­leiðni.

Áhuga­vert er einnig að skoða hag­fræðikenn­ing­ar nó­bels­verðlauna­haf­ans Ed­munds Phelps en hann hef­ur bent á mik­il­vægi sam­vinnu fyr­ir sjálf­bær­an hag­vöxt. Kenn­ing­ar hans leggja áherslu á tengsl ný­sköp­un­ar, menn­ing­ar og efna­hags­legs vaxt­ar.

Hag­vöxt­ur bygg­ist ekki ein­göngu á fjár­fest­ingu og vinnu­afli held­ur einnig á hug­viti, sköp­un­ar­gáfu og þátt­töku ein­stak­linga. Sam­vinna auðveld­ar miðlun hug­mynda og þróun lausna, sem er und­ir­staða ný­sköp­un­ar. Í markaðshag­kerfi verður sam­vinna milli ein­stak­linga og fyr­ir­tækja að afli sem stuðlar að fram­leiðniaukn­ingu og tækniþróun.

Sam­kvæmt hagrann­sókn­um eyk­ur fé­lags­legt traust skil­virkni í fram­leiðslu­ferl­um og skap­ar sam­eig­in­leg mark­mið og verðmæti sem gagn­ast sam­fé­lag­inu. Sér­stak­lega á tím­um tækniþró­un­ar er sam­vinna milli rík­is, fyr­ir­tækja og rann­sókna lyk­ill að stöðugum hag­vexti.

Án henn­ar hætt­ir hag­kerf­um til að staðna, en með henni verður til um­hverfi sem hvet­ur til ný­sköp­un­ar og hag­sæld­ar fyr­ir alla.

Hug­sjón sem höfð verður í brenni­depli

Sam­vinnu­hug­sjón­in er því grund­vall­ar­atriði, bæði í stjórn­mál­um og efna­hags­lífi, þar sem hún legg­ur grunn að nýj­um lausn­um og sjálf­bærri þróun. Sam­vinna er hug­mynda­fræði sem á er­indi við sam­tím­ann og mun Fram­sókn leggja áherslu á að sú hug­sjón haldi áfram að skapa fé­lags­leg­an og efna­hags­leg­an auð á Íslandi.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. janúar 2025.

Categories
Greinar

Í upphaf árs; samfélag tækifæra

Deila grein

13/01/2025

Í upphaf árs; samfélag tækifæra

Framtíðin gerist ekki af sjálfu sér. Við mótum hana. Eitt er víst að breytingar eiga sér ekki stað í aðgerðarleysi. Það kallar á samtal, samstöðu og kjark til að taka ákvarðanir. Hvert er þitt framlag í að móta þessa framtíð? Að skapa tækifæri fyrir komandi kynslóðir, bregðast við áskorunum, nýta auðlindir, laða að fólk og fjárfestingar, styrkja samstöðu, byggja upp traust og stuðla að jákvæðni.

Börn og ungmenni

Í fjárhagsáætlun Norðurþings fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir ráðdeild í rekstri, eflingu grunnþjónustu og forgangsraða í þágu barna og ungmenna. Nýtt húsnæði fyrir félagsmiðstöð og frístundaþjónustu verður boðið út með hækkandi sól. Starfshópur mun skila niðurstöðu um leikskólaþjónustu til framtíðar, hvar og hvernig henni verður best fyrir komið. Í framhaldi þarf að huga að uppbyggingu íþróttamannvirkja og aðstöðu fyrir menningarviðburði. Til stendur að byggja upp stúku á PCC vellinum og skipta um gervigras sem mun gjörbylta íþróttaiðkun og keppnishaldi á vellinum. Unnið verður að hönnun og útboði vegna endurnýjunar sundlaugar í Lundi.

Það hyllir undir raunverulegan framgang í uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Húsavík en unnið er að því að koma verkefninu í útboðsferli.

Stóra myndin sem sameinar

Til að standa undir velferðinni og uppbyggingunni þarf að auka tekjur og einn helsti tekjustofn sveitarfélaga er að fjölga fólki. Í hvernig samfélagi vill fólk búa? Vinna, vöxtur og velferð. Góð kjörorð sem eiga alltaf við. Fólk þarf atvinnu til að skapa tekjur. Nýlega var iðnaðarfyrirtæki úthlutað lóð á Bakka og áfram unnið að því að byggja upp þetta iðnaðarsvæði. Áhugaverð verkefni eru til skoðunar og verði þau að veruleika mun það styrkja og treysta iðnaðarsvæðið á Bakka í sessi til framtíðar. Því samhliða þurfum við að treysta innviði eins og orkuöflun og heitt vatn. Áfram verður borað eftir heitu vatni til hverskonar nýtingar og unnið að því að koma hitaveitu á iðnaðarsvæðið á Bakka. Skynsamleg nýting auðlinda er lykill að sjálfbærri uppbyggingu og velsæld samfélaga. Hvort sem um ræðir náttúruauðlindir; fiskimið og sjávargróður, vindinn, jörðina sjálfa og landið eða mannauðinn og nýsköpun með langtímahugsun og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Sameinumst um stóru myndina en látum ekki litlu myndina sundra okkur.

Nýting auðlinda

Til stendur að stækka virkjunina á Þeistareykjum, Landsvirkjun kannar nýtingu vindauðlindarinnar í Krubbsfjallsmóum, áform eru um vindorkuver á Hólaheiði, uppbygging á fiskeldi hefur verið gríðarlega mikil í og við Öxarfjörðinn, eitt stærsta sauðfjársláturhús landsins er staðsett við Húsavík, GPG seafood hefur styrkt stöðu sína í sjávarútvegi og áform eru uppi um nýtingu stórþara við strendur Norðurlands. Ferðaþjónustan er sterk og vaxandi stoð í atvinnulífi Norðurþings og verður það áfram enda sveitarfélagið ríkt af kunnum náttúruperlum. Að nýta auðlindir til að skapa störf, styrkja grunninn, stunda nýsköpun sem skilur eftir bæði tekjur og þekkingu.

Tækifæri í myrkrinu?

Áhersla er lögð á uppbyggingu Heimskautsgerðisins til að styrkja innviði ferðaþjónustu á svæðinu. Heilsársferðaþjónusta og góðar samgöngur þurfa að fara saman hvort sem um ræðir þjónusta á Dettifossvegi eða að hverskonar þjónustuseglar séu aðgengilegir og opnir bæði heimafólki og gestum. Það eru mikil tækifæri til áframhaldandi áfangastaðaþróunar. Hér eru einhver merkilegustu undur íslenskrar náttúru eins og Ásbyrgi, Dettifoss, Kópaskersmisgengið eða Rauðinúpur og Hraunhafnartangi, nyrstu punktar meginlandsins. Hver veit, kannski leynast í myrkrinu mikil tækifæri?

Lóðir fyrir fólk og fyrirtæki

Áfram verður unnið að gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið. Þéttbýlið á Kópaskeri hefur verið deiliskipulagt hvar finna má lóðir til áframhaldandi uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Unnið er að þéttingu byggðar með mjög spennandi byggingarmöguleikum innan þéttbýlisins á Húsavík suður frá Hjarðarholti og í Reitnum. Um leið opnast spennandi tækifæri í miðbæ Húsavíkur að fjölga þar íbúum þar sem skapast líflegra og spennandi mannlíf sem stuðningur við verslun og þjónustu. Þá nýtast innviðir betur og dregur úr bílaumferð sem skapar félagslega samheldni með skilvirkari landnýtingu.

Framsýni og stolt

Fjárfestum áfram í innviðum fyrir fjölskyldur, menningu, íþróttir og tómstundir. Verum stolt af því góða sem gerist og rýnum til gagns. Verum stolt af fyrirtækjunum okkar og þeim auðlindum sem þau nýta. Sækjum fleiri og nýtum auðlindirnar okkar til að fjölga störfum og skapa tekjur til að byggja upp samfélagið okkar.

Framtíðin ræðst ekki af því sem við ætlum að gera, heldur því sem við gerum í dag. Framtíðin bíður ekki – hún mótast af ákvörðunum okkar í dag. Með samstöðu, framsýni, seiglu og kjarki getum við byggt upp öflugt og sjálfbært samfélag þar sem tækifæri blómstra. Hvernig getur þú tekið þátt í að byggja samfélag sem við getum öll verið stolt af?

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 9. janúar 2025.