Verkmenntaskólarnir sprungnir – 800-1.000 nemendur komast ekki að
Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, lagði í ræðu á Alþingi áherslu á að brýnt væri að ráðast tafarlaust í stækkun verkmenntaskóla víða um land. Hann benti á að 800–1.000 einstaklingar sæktust eftir inngöngu í verknám en kæmust ekki að vegna þess að aðstaða skólanna væri sprungin.
„Við fórum í átak til að auka áhuga á verknámi, enda mikil þörf á iðnmenntuðu starfsfólki. Átakið virkaði, en nú bíða 800–1.000 einstaklingar eftir inngöngu vegna þess að skólarnir ráða ekki við álagið,“ sagði Stefán Vagn.
Hann benti á að fjármögnun hefði þegar verið tryggð að hluta og að samkomulag hefði náðst við sveitarfélög um þeirra hlut. Nú hefði hins vegar verið ákveðið að færa fjármagn út með fjáraukalögum.
„Ég spyr hvort ráðherra sé ekki sammála því að þetta sé bagalegt, þegar ljóst er hversu mikilvægt þetta er fyrir íslenskt atvinnulíf,“ sagði Stefán Vagn að lokum.
Mennta- og barnamálaráðherra sagði í svari sínu að fjármagni hefði verið „hliðrað“ yfir á næsta ár en kom ekki beint að því hvort ráðast ætti tafarlaust í framkvæmdir.
Sjávarútvegur hefur verið lykilstoð í atvinnulífi Hornafjarðar í áratugi og gegnir þar ómetanlegu hlutverki í að tryggja stöðugleika, verðmætasköpun og búsetu. Með tilkomu hátækni, bættrar nýtingar og nýsköpunar, hefur greinin þróast hratt og skapað ný tækifæri.
Sjávarútvegurinn stendur nú frammi fyrir áskorunum, ekki síst vegna fyrirhugaðrar hækkunar veiðigjalda. Áforn ríkisstjórnarinnar hafa vakið áhyggjur, sérstaklega í minni samfélögum þar sem atvinnulífið byggir að stórum hluta á sjávarútvegi. Á Hornafirði skapar sjávarútvegurinn ekki aðeins bein störf við veiðar og vinnslu, heldur einnig fjölda afleiddra starfa í flutningum, þjónustu, viðhaldi og tækniþróun. Þessi störf eru mikilvægur burðarás í samfélaginu og gríðalega mikilvæg fyrir áframhaldandi uppbyggingu, þróun og búsetu í sveitarfélaginu.
Sveitarfélagið Hornafjörður hefur í umsögn sinni um frumvarpið skorað á stjórnvöld að:
Fresta frekari afgreiðslu frumvarpsins þar til ítarlegt áhrifamat liggur fyrir.
Tryggja raunverulegt samráð við sveitarfélög áður en ákvörðun er tekin.
Innleiða breytingar í áföngum, ef af þeim verður, til að vernda byggðafestu og atvinnulíf á landsbyggðinni.
Í umsögn bæjarráðs kemur jafnframt fram að frumvarpið, í núverandi mynd, fullnægi hvorki kröfum um lög og góðar stjórnsýsluvenjur né stuðli að jafnvægi í byggðaþróun á Íslandi.
Á Hornafirði er vilji til framtíðaruppbyggingar og nýsköpunar í sjávarútvegi, en slík þróun krefst öflugs samspils fyrirtækja, stjórnvalda og samfélagsins. Það er því brýnt að ákvarðanir sem snerta grunnstoðir atvinnulífs í sjávarbyggðum séu teknar af ábyrgð, með skýru samráði og markmiðum um jafnvægi og framtíðarhugsun.
Ásgerður Kristín Gylfadóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Frumvarp til breytinga á lögum um veiðigjald hefur nú verið lagt fyrir Alþingi. Því miður hefur það verið gert án nægilegs samráðs við þau sveitarfélög sem kunna að verða fyrir mestum afleiðingum — sjávarútvegssveitarfélögin. Við í Suðurnesjabæ höfum lýst miklum áhyggjum yfir þessu ferli sem við teljum bæði ófullnægjandi og að sumu leyti ábyrgðarlaust.
Við tökum undir að auðlindir í þjóðareigu eigi að vera nýttar á sanngjarnan hátt og að rétt sé að greiða fyrir afnot af þeim. Hins vegar má ekki gleyma því að sjávarútvegur er burðarstoð í atvinnulífi margra bæjarfélaga víðs vegar um landið. Í Suðurnesjabæ eru fiskveiðar og fiskvinnsla gríðarlega mikilvægar atvinnugreinar – þær vega um 14% í útsvarsgrunni bæjarins samkvæmt greiningu KPMG. Þar fyrir utan eru fjölmörg störf og þjónusta sem byggjast beint eða óbeint á sjávarútvegi. Þetta skiptir samfélagið hér miklu máli.
Við gagnrýnum harðlega að þegar frumvarpið var kynnt voru engar greiningar á áhrifum þess á sveitarfélög lagðar fram af hálfu ríkisins – þvert á það sem lögin kveða á um. Í 129. grein sveitarstjórnarlaga segir skýrt að slík áhrif þurfi að liggja fyrir þegar frumvörp eru lögð fram sem snerta hagsmuni sveitarfélaga.
Við höfum ítrekað bent á þetta – bæði í fyrri umsögnum og nú á ný. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga hafa þurft að grípa til þess ráðs að fá utanaðkomandi aðila til að greina áhrifin þar sem ríkið hefur ekki sinnt skyldum sínum. Þetta er ekki ásættanlegt. Og þrátt fyrir loforð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um bætt samráð og stuðning við dreifðar byggðir hefur það samráð ekki átt sér stað í þessu máli.
Við hvetjum Alþingi eindregið til að staldra við. Endurskoðið frumvarpið. Takið mark á gögnunum og talið við okkur – þau sveitarfélög sem lifa og hrærast í þeirri atvinnugrein sem verið er að leggja auknar byrðar á. Við viljum öflugt samfélag með fjölbreyttu atvinnulífi en til þess þarf að tryggja stöðugleika og réttláta meðferð í lagasetningu.
Þetta er ekki aðeins barátta um krónur og aura – þetta snýst um framtíð byggða, störf fólks og traust á stjórnsýslu.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. júní 2025.
Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð – loksins orðin að veruleika
4. júní 2025 markaði stór tímamót fyrir okkur í Suðurnesjabæ, því þá opnaði ný heilsugæsla í Vörðunni í Suðurnesjabæ. Þetta er árangur sem margir hafa beðið eftir lengi og sannar að samvinna, staðfesta og skýr forgangsröðun skilar raunverulegum árangri fyrir samfélagið okkar.
Frá fyrsta degi höfum við í Framsóknarflokknum barist fyrir því að bæta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Okkar sýn hefur verið skýr: Fólk á rétt á góðri þjónustu, sama hvar það býr. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2022 hófum við tafarlaust samtal við Willum Þór Þórsson, þáverandi heilbrigðisráðherra, sem og þingmenn Framsóknar í Suðurkjördæmi. Þau tóku vel í málið og sýndu því þann skilning sem það átti skilið, meðal annars með þingsályktunum.
Það samtal leiddi til viljayfirlýsingar sem var undirrituð 30. ágúst 2024 af þáverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni. Þar var markmið okkar skýrt: að opna nýja heilsugæslu fyrir 1. maí 2025. Þótt opnunin drægist um skamman tíma, var markmiðinu í raun náð – því nú í júní 2025 er heilsugæslan opin og tilbúin að veita íbúum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á.
Það er staðföst trú mín að samtal á milli sveitarstjórnarmanna, þingmanna og ráðherra skipti gríðarlega miklu máli. Við, sem störfum í sveitarstjórn, erum í nánum tengslum við byggðarkjarnana og þekkjum þarfir heimafólks betur en margir. Þess vegna er mikilvægt að við miðlum því sjónarhorni áfram inn í landsmálin – svo allir rói í sömu átt.
Ég vil líka sérstaklega þakka þeim sem hafa staðið með okkur í þessu mikilvæga verkefni: þingmönnum og ráðherrum Framsóknarflokksins fyrir öfluga liðveislu og skilning, Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, fyrir faglega og drífandi forystu, og Magnúsi Stefánssyni, bæjarstjóra, fyrir eindreginn stuðning. Allt þetta fólk lagði sitt af mörkum til að verkefnið gæti raungerst með skjótum hætti.
Stefna Framsóknarflokksins í heilbrigðismálum undirstrikar vel þá sýn sem við höfum haldið á lofti:
„Heilbrigðiskerfið er hornsteinn samfélagsins og byggir undir hagsæld þjóðarinnar. Framsókn leggur áherslu á að tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu.“
Með opnun heilsugæslunnar í Vörðunni í Suðurnesjabæ erum við að sjá þessa stefnu verða að veruleika. Þetta er ekki bara sigur fyrir Framsókn – þetta er sigur fyrir allt samfélagið okkar í Suðurnesjabæ.
Við í Framsókn trúum á samvinnu, ábyrgð og árangur. Og við munum halda áfram að vinna af heilindum fyrir bæjarbúa – því verkefnin eru fleiri og framtíðin björt þegar við vinnum saman.
Til hamingju með þennan áfanga, kæru íbúar Suðurnesjabæjar.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.
Óvissa, sundurlyndi og uggur einkennir umræðuna um hækkun veiðigjalda. Þar sem hún mun hafa mest áhrif. Vilji ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur er skýr um að gjöldin skuli hækka. Og um það virðist stór hluti þjóðarinnar sammála. Að í sameiginlega sjóði renni með beinum hætti aukin renta af fiskveiðiauðlindinni. En það hvernig þessum réttlætisskatti skal komið á er önnur saga. Markmiðið virðist vera að ná meira af þeim fyrirtækjum sem hafa það best og mest en stefnir í að hafa mest áhrif á þau fyrirtæki sem síst geta brugðist við á svo skömmum tíma. Tilraun til að jafna tekjumun sem mun leiða til aukinnar samþjöppunar og einhæfni, draga úr nýsköpun til skemmri tíma með alvarlegum afleiðingum á minni byggðarlög. Því hvaða fyrirtæki eða útgerðir eru líklegust til að geta keypt minni fyrirtæki eða útgerðir. Umræðan má ekki hverfast aðeins um þann stærsta og hinn minnsta heldur allt þar á milli.
Raufarhöfn
Skilningur á mikilvægi sjávarútvegs í mörgum sjávarplássum, líkt og Raufarhöfn, virðist vera takmarkaður hjá þeim ráða för. Enn síður um þau afleiddu störf sem styðja þessa mikilvægu atvinnugrein. Þar sem sjávarútvegur og fiskvinnsla er grunnurinn að öðru atvinnulífi. En mest öll þjónusta á Raufarhöfn er háð þessum eina stóra vinnustað í kaupstaðnum. Það eitt og sér er ekki eftirsótt ábyrgð að bera. Staðan er engu að síður þannig. Í frystihúsinu á Raufarhöfn, þessu nyrsta kauptúni sem lengst er frá þjónustumiðju ríkisins, starfa um 35 einstaklingar. Þeirri aðferðafræði sem nú er beitt, að keyra hækkun veiðigjalda í gegn skapar óvissu um þessi störf, um stærsta vinnustaðinn. Ekki hefur gengið vel að fá ríkisvaldið til að klára verkefni og fjárfesta í innviðum eins og Heimskautsgerði eða opinberum störfum. Því skyldi útgerðin gera það þegar herða skal ólina og auka skattbyrði fyrirtækja um 47%?
Meiri gjöld → minni hagnaður → minna útsvar → minni fjárhagur sveitarfélaga.
Þvert á tilgang frumvarpsins. Tekjur ríkisins munu hinsvegar aukast. Það er vel. Um 81% af skattspori sjávarútvegsins verður til utan höfuðborgarsvæðisins. Verði af óðahækkun ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur mun það skerða getu fyrirtækja til skamms tíma. Það veldur óvissu í hinum dreifðu byggðum. Þetta vita þingmenn landsbyggðanna hvar í flokki sem þeir standa og þau sem til þekkja. Leiðir til minna útsvars og lækkar tekjur sveitarfélaga. Það eru mögulega afleiðingar sem einhver telja ásættanlegar?
Eitt er að hafa sýn og markmið og annað að geta bent á gögn og útreikninga. Jú, markmiðið er skýrt og gott; að hækka veiðigjöld, að fólk telji sig fá meira í sameiginlega sjóði af auðlind í sinni eigu. En á kostnað hvers kæra Kristrún Frostadóttir? Heilu byggðalögin, sveitarfélögin og fólk víða um land spyr og fær ekki svör. Það skapar óvissu sem verður að eyða svo hægt sé að halda áfram með málið.
Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings.
Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, vakti máls í störfum þingsins á stöðu verknámsskóla landsins og þeim niðurskurði sem nú blasir við. Hann minnti á að undanfarin ár hafi verið lögð mikil áhersla á að efla verknám á framhaldsskólastigi vegna mikils skorts á iðnmenntuðu starfsfólki. „Það var því afar mikilvægt að ráðast í þetta átaksverkefni og fjölga iðnmenntuðum einstaklingum og auka og styrkja verknám í skólum landsins,“ sagði hann.
Stefán Vagn sagði að verkefnið hefði skilað árangri: „Það bar árangur því að nú er svo komið að um 800-1.000 einstaklingar sem sækjast eftir að komast inn í verknám fá ekki inngöngu sökum þess að verknámsskólar landsins eru sprungnir og geta því ekki tekið við þeim sem við þurfum svo sannarlega á að halda.“
Hann lagði áherslu á að á síðasta kjörtímabili hafi verið unnið markvisst að stækkun verknámsskólanna. „Við fórum í vinnu við að stækka Verkmenntaskólann á Akureyri, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, á Ísafirði og í Reykjanesbæ,“ sagði Stefán Vagn. „Búið var að ná samkomulagi við sveitarfélögin um þeirra hluta, 40%, og komið fjármagn til þess að fara af stað ríkismegin með 60% hluta, og verkefnin voru komin af stað í stjórnsýslunni.“
Stefán Vagn gagnrýndi harðlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar í frumvarpi til fjárauka III um að fjármagn til verkefnisins hafi verið tekið út á þessu ári. „Verkefninu er slaufað. Það er ekki hægt að tala um stefnuleysi því að stefnan er komin fram: Þetta er ekki í forgangi hjá þessari ríkisstjórn. Uppbygging verknámsskólanna á landsbyggðinni á ekki upp á pallborðið hjá ríkisstjórninni.“
Hann spurði einnig hvort samráð hefði verið haft við viðkomandi skóla eða sveitarfélög. „Var haft samráð við umrædda skóla varðandi þessa ákvörðun? Er búið að ræða við sveitarfélögin sem eru með þetta fjármagn inni í sínum fjárhagsáætlunum á þessu ári og sínum langtímaplönum?“ spurði hann. „Eftir því sem ég kemst næst er svarið nei, ekkert.“
Stefán Vagn áréttaði að allar vangaveltur um fjármögnun verkefnisins væru úr sögunni. „Öllum vangaveltum um það hvort verkefnið hafi verið fjármagnað á síðasta kjörtímabili hefur nú verið svarað, virðulegur forseti, og plan nýrra stjórnvalda er ljóst: Verknámsskólarnir hafa verið slegnir af.“
Á næsta fundi borgarstjórnar munum við í Framsókn leggja fram tillögu um að stofnaður verði stýrihópur skipaður fulltrúum allra flokka í borgarstjórn til þess að móta framtíðarsýn Reykjavíkurborgar um Heiðmörk. Verkefnið er að tryggja að hagsmunir almennings séu tryggðir í þeirri vinnu sem stendur yfir vegna krafna um aukna vernd vatnsbóla sem Veitur starfrækja.
Aðgengi að grænum svæðum er meðal mikilvægustu gæða nútíma borgarsamfélaga. Vinsældir Heiðmerkur hafa aukist mikið á síðustu árum. Því er mikilvægt að huga að betri stýringu gesta Heiðmerkur til þess að tryggja vatnsvernd en um leið þarf að tryggja lýðheilsusjónarmið og aðgengi að útivistarsvæðum Heiðmerkur.
Nú eru uppi hugmyndir um að loka fyrir aðgengi akandi umferðar að stórum hluta Heiðmerkur vegna vatnsverndar. Þó að mikilvægi hreins neysluvatns sé óumdeilt hafa tillögur Veitna sætt gagnrýni frá fjölmörgum hagaðilum – sérstaklega vegna þess að þær fela í sér lokun aðgengis að vinsælum svæðum. Þetta hefði í för með sér að gestir þyrftu að ganga 3-4 kílómetra til að komast að vinsælum stöðum í Heiðmörk, á borð við Furulund og Vígsluflöt. Í raun væri verið að takmarka aðgengi stórs hóps að Heiðmörk – sér í lagi fólks sem á erfitt með gang, fjölskyldna með lítil börn og hreyfihamlaðra. Samkvæmt rannsókninni „Virði Heiðmerkur“ sem Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði í HÍ, gerði ásamt hópi fræðimanna árið 2013 kom fram að 92% gesta Heiðmerkur fara á bíl í Heiðmörk og 30% gesta eru eldri en 60 ára.
Heiðmörk hefur fylgt okkur í gegnum kynslóðir. Þar fór amma með mömmu um lágreistan skóg og ég með mömmu um þéttan og töluvert hærri skóg. Við viljum öll geta áfram notið Heiðmerkur um ókomna tíð og á sama tíma viljum við öll vernda upptökustað vatns, enda er aðgengi að öruggu og hreinu vatni ein undirstaða lífs. Tímabært er að mótuð sé heildstæð framtíðarsýn fyrir svæðið og að kjörnir fulltrúar fái ítarlegar greiningar á því hvaða ákvarðanir þurfi að taka til þess að tryggja öryggi neysluvatns sem sótt er á svæðið sem og aðgengi íbúa að Heiðmörk. Slík vinna þarf að byggja á samráði við hagaðila og mati á áhrifum á vatnsgæði, náttúru og samfélagið allt – með langtímasýn að leiðarljósi.
Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, lýsti í störfum þingsins eftir stuðningi stjórnvalda við Grindvíkinga og kallaði eftir ábyrgð og fyrirsjáanleika eftir náttúruhamfarir sem hafa haft mikil áhrif á atvinnulíf og fjölskyldur í bænum.
„Það er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld standi áfram með samfélaginu í Grindavík, annars er hætt við að ljósin í bænum slokkni og vonin reki á haf út,“ sagði Halla Hrund. Hún sagðist hafa upplifað einstaka samheldni og sóknarhug meðal íbúa þegar hún heimsótti Grindavík á sjómannadaginn um síðustu helgi.
„Ég hitti smið í bænum sem rekur hönnunarverslun. Ég var hreint út sagt orðlaus að sjá nýsköpun hans og metnað,“ sagði hún og bætti við að það hefði minnt hana á „hvernig blómlegt samfélag er byggt upp, bæði af íbúum og fjölbreyttum fyrirtækjum, akkúrat eins og það var í Grindavík.“
Halla Hrund gagnrýndi harðlega ákvörðun stjórnvalda í mars síðastliðnum um að hætta rekstrarstuðningi við fyrirtæki í bænum með tveggja vikna fyrirvara. „Fyrir fyrirtækin var þessi niðurstaða í mars um að hætta rekstrarstuðningi með tveggja vikna fyrirvara eitthvað sem verulega þyngdi róðurinn,“ sagði hún.
Halla Hrund sagði enn fremur að þau fyrirtæki sem nú sætu uppi með „svartapétur“ hefðu ekki unnið sér inn þá stöðu vegna mistaka í rekstri heldur vegna náttúruhamfara. „Þessi fyrirtæki þurfa ekki auknar skuldir og þau þurfa ekki ráðgjöf – þau þurfa bara fyrirsjáanleika og stuðning til að geta hjálpað sér sjálfum að sækja fram.“
Að lokum skoraði Halla Hrund á fjármálaráðherra að bregðast hratt við og tryggja að Grindavík fái þann stuðning sem þarf, svo „ljósin logi í Grindavík á ný“.
Sveitarfélög gagnrýna frumvarp um tvöföldun veiðigjalda
Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins um tvöföldun veiðigjalda. Hann vakti athygli á fjölda umsagna frá sveitarfélögum víða um land þar sem lýst er áhyggjum af áhrifum frumvarpsins á atvinnulíf og tekjur sveitarfélaga.
„Það er ágætt að sjá hversu mörg sveitarfélög hafa sent inn umsagnir þar sem þau lýsa sínum áhyggjum af þeim áhrifum sem þetta frumvarp getur haft,“ sagði Þórarinn Ingi.
„Mig langar hér, virðulegur forseti, með þínu leyfi, að grípa niður í nokkra punkta í umsögnum þessara sveitarfélaga sem sent hafa inn umsögn og þá byrja ég bara á lestrinum hvað það varðar.
Suðurnesjabær segir að núverandi ríkisstjórn sé ekki að bæta samskipti ríkis og sveitarfélaga eins og lofað hafi verið.
Grindavíkurbær: Aðgerðirnar „veiki forsendur atvinnulífs í bænum …“
Vestmannaeyjar koma þarna á eftir og segja óásættanlegt að ráðherra og ríkisstjórn leggi fram frumvarp um tvöföldun veiðigjalda án þess að hafa betri upplýsingar.
Sveitarfélagið Hornafjörður: Frumvarpið fullnægi ekki „kröfum um lög og góðar stjórnsýsluvenjur …“
Fjarðabyggð: Frumvarpið geti „grafið undan rekstrarhæfni útgerða í brothættum byggðum …“
Langanesbyggð sér fram á að missa bróðurpartinn af útsvarstekjum sínum.
Norðurþing: Þar skortir að þeirra mati mat á fjárhagslegum áhrifum, m.a. vegna þess að vinnslan fer oft fram í öðrum sveitarfélögum en þar sem útgerðin á t.d. lögheimili.
Hjá Grýtubakkahreppi kemur fram að of seint sé að fara í ákveðna greiningarvinnu þegar neikvæð áhrif hafi þegar komið fram.
Þórarinn Ingi tók skýrt fram í ræðu sinni: „Ég neita að trúa því að svo sé komið fyrir ríkisstjórnarflokkunum að ekki eigi að hlusta á þessar áhyggjur fyrrgreindra sveitarfélaga.“
Efnahagsmynd Íslands allt önnur en stjórnin kynnti
„Efnahagsmynd Íslands er allt önnur en sú sem núverandi stjórnarflokkar kynntu fyrir kosningar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í störfum þingsins.
Lífskjör í hæsta gæðaflokki
Sigurður Ingi sagði að samkvæmt mælikvörðum Sameinuðu þjóðanna væru lífskjör almennings á Íslandi í fyrsta sæti á heimsvísu. Hann benti jafnframt á að þegar litið væri til fleiri þátta en hagvaxtar, samkvæmt velsældarmælikvörðum, þá skipaði Ísland einnig efsta sætið.
Kaupmáttur hefur aukist en raunvextir hækkað
„Kaupmáttur hefur aukist meira hér en annars staðar, og ársreikningar sveitarfélaga sýna betri afkomu en búist var við,“ sagði Sigurður Ingi. Hins vegar vakti hann athygli á að raunvextir væru mjög háir og hefðu verið það lengi.
Endurmetin hagvaxtarspá
Þingmaðurinn minnti á að ríkisrekstur hefði verið í miklu aðhaldi á síðasta ári, sem leiddi til samdráttar í ýmsum þáttum. „Hagvexti var spáð 2,5 prósent í fjárlögum, en nú hefur sú spá verið lækkuð í 1,6 prósent, jafnvel aðeins 1 prósent fyrir yfirstandandi ár,“ sagði hann. Hann benti á að þessi þróun eigi sér stað eftir aðeins 100 daga í starfi nýrrar ríkisstjórnar.
Ríkisstjórnin gagnrýnd fyrir skattabreytingar
Sigurður Ingi gagnrýndi einnig ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur fyrir að hafa lofað því að lækka verðbólgu með „sleggju og látum,“ án þess að það hafi gengið eftir. Þvert á móti, sagði hann, boði ríkisstjórnin skattabreytingar sem muni bitna á sveitarfélögunum sem nú sýni góða afkomu.
Hætta á minni verðmætasköpun
„Það er hætta á að dregið verði úr verðmætasköpun og þrótti samfélaganna vítt og breitt um landið,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.