Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Norðaustur samþykktur

Deila grein

26/10/2024

Framboðslisti Framsóknar í Norðaustur samþykktur

Kjördæmissamband Framsóknar í Norðausturkjördæmi (KFNA) hefur samþykkt framboðslista Framsóknarflokksins í Norðaustur á fjölmennu kjördæmisþingi á Hótel Seli, Mývatnssveit, rétt í þessu.

Listinn samanstendur af Framsóknarfólki með mikla reynslu og þekkingu vítt og breitt um kjördæmið.

Í fyrsta sæti er Ingibjörg Ólöf Isaksen, alþingismaður, Akureyri

Í öðru sæti er Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður og bóndi, Grýtubakkahreppi

Í þriðja sæti er Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, Múlaþingi.

Í fjórða sæti er Skúli Bragi Geirdal, verkefnisstjóri Fjölmiðlanefndar, Akureyri.

Í fimmta sæti er Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bóndi og bæjarfulltrúi, Fjarðarbyggð.

,,Ég er stolt af því að fá að leiða þennan öfluga lista okkar Framsóknarfólks í kjördæminu. Við byggjum á góðri reynslu, dýrmætum mannauð og breiðri þekkingu á kjördæminu öllu. Við höfum átt í góðu samtali við fólkið í kjördæminu og göngum full tilhlökkunar til samtals við kjósendur, enda eru tækifærin mörg og fjölbreytt. Við viljum halda áfram að efla heilbrigðisþjónustu um land allt, vinna að orkuöryggi, húsnæðismálum og ekki síst að vinna að lækkun vaxta og verðbólgu fyrir fólkið í landinu. Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur í flóknu samstarfi á síðustu árum og hlökkum til samtalsins næstu vikna,“ sagði Ingibjörg Isaksen, oddviti listans og alþingismaður.  

Listi Framsóknar í Norðausturkjördæmi í heild sinni:

  1. Ingibjörg Ólöf Isaksen, alþingismaður, Akureyri.
  2. Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, Grýtubakkahreppi.
  3. Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, Múlaþingi.
  4. Skúli Bragi Geirdal, verkefnisstjóri Fjölmiðlanefndar, Akureyri.
  5. Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bóndi og bæjarfulltrúi, Fjarðabyggð.
  6. Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi, Norðurþing.
  7. Ásdís Helga Bjarnadóttir, yfirverkefnastjóri, Múlaþingi.
  8. Jón K. Ólafsson, forstöðumaður, Fjallabyggð. 
  9. Eiður Pétursson, vélfræðingur, Norðurþingi.
  10. Halldóra Magnúsdóttir, kennari, Eyjafjarðarsveit.
  11. Elís Pétur Elísson, framkvæmdastjóri, Fjarðarbyggð.
  12. Kristjana Louise Friðbjarnardóttir, starfsmaður á hjúkrunarheimili,  Vopnafirði.
  13. Eggert Stefánsson, bóndi, Langanesbyggð.
  14. Patrycja Maria Reimus, námsráðgjafi, Þingeyjarsveit.
  15. Halldóra Hauksdóttir, lögmaður, Akureyri.
  16. Monika Margrét Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, Dalvíkurbyggð.
  17. Snæbjörn Sigurðson, verkefnastjóri,  Akureyri.
  18. Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, ritari, Múlaþingi.
  19. Egill Olgeirsson, ellilífeyrisþegi, Norðurþingi.
  20. Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, Fjarðarbyggð.
Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Suður samþykktur

Deila grein

26/10/2024

Framboðslisti Framsóknar í Suður samþykktur

Kjördæmissamband Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) hefur samþykkt framboðslista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi á fjölmennu kjördæmisþingi á Hótel Örk í Hveragerði rétt í þessu.

Listinn samanstendur af reynslumiklu fólki með mikla reynslu auk nýrra aðila sem styrkja hóp Framsóknarfólks verulega um land allt.

Í fyrsta sæti er Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri Orkustofnunar.

Í öðru sæti er Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, fjármála- og innviðaráðherra.

Í þriðja sæti er Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður.

Í fjórða sæti er Fida Abu Libdeh, orku- og umhverfistæknifræðingur.

Í fimmta sæti er Sigurður E. Sigurjónsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi.

Á fundinum sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, meðal annars:

,,Ég er stoltur yfir sterkum lista Suðurkjördæmis með öflugu fólki sem er fjölbreyttur með sterkri liðsheild og var samþykktur á kjördæmisþingi Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi. Framsókn er tilbúin til að takast á við áskoranir og halda áfram að vinna að lausnum sem bæta samfélagið. Hlakka til næstu daga og vikna.“

Halla Hrund Logadóttir, nýr oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi, sagði í ræðu sinni meðal annars:

,,Ég tek við fyrsta sæti í Suðurkjördæmi full af auðmýkt og þakklæti. Hér í dag samþykktum við frábæran framboðslista af fólki sem er tilbúið að vinna af krafti fyrir samfélagið og ég hlakka til að starfa með ásamt öflugu fólki um allt land. Við verðum að passa uppá auðlindir okkar, eignarhald þeirra og ábyrga nýtingu fyrir samfélög um allt land. Það er mitt stóra erindi í pólitík. Hjartað slær sömuleiðis ört fyrir landbúnað með nýsköpun og samvinnu að leiðarljósi. Einnig vil ég leggja áherslu á húsnæðismál og geðheilbrigði ungs fólks. Það þurfa allir að fá tækifæri til að finna sinn farveg óháð bakgrunni, þannig verðum við sterkari sem heild.

Framsókn sem er í mínum huga holdgervingur hins dugmikla Íslendings, rödd skynsemi og seiglu á miðjunni sem hefur sýnt að getur unnið þvert á hagsmuni og pólitík. Það er akkúrat það sem við þurfum til sóknar og sátta í heimi þar sem átök og öfgar í umræðu eru sífellt algengari.“

Listi Framsóknar í Suðurkjördæmi í heild sinni:

1. Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, Reykjavík.
2. Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og innviðaráðherra, Hrunamannahrepp.
3. Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður og lýðheilsufræðingur, Reykjanesbæ.
4. Fida Abu Libdeh, orku- og umhverfistæknifræðingur og frumkvöðull, Reykjanesbæ.
5. Sigurður E. Sigurjónsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, Kirkjubæjarklaustri.
6. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs og varaþingmaður, Reykjanesbæ.
7. Lilja Einarsdóttir, hjúkrunarforstjóri, Rangárþing eystra.
8. Geir Jón Þórisson, fyrrv. yfirlögregluþjónn, Vestmannaeyjum.
9. Vilhjálmur R. Kristjánsson, þjónustustjóri, Grindavík.
10. Iða Marsibil Jónsóttir, sveitarstjóri og varaþingmaður, Grímsnes og Grafningshreppi.
11. Margrét Ingólfsdóttir, kennari, Sveitarfélagið Hornafjörður.
12. Anton Kristinn Guðmundsson, bæjarfulltrúi, Suðurnesjabæ.
13. Ellý Tómasdóttir, forvarna- og bæjarfulltrúi, Árborg.
14. Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri, Vík í Mýrdal.
15. Ingibjörg Ingvadóttir, lögmaður og háskólakennari, Þorlákshöfn.
16. Hafdís Ásgeirsdóttir, deildarstjóri á leikskóla, Rangárþingi ytra.
17. Jón K. Bragason Sigfússon, matreiðslumeistari, Bláskógabyggð.
18. Drífa Sigfúsdóttir, heldri borgari, Reykjanesbæ.
19. Eiríkur Vilhelm Sigurðsson, sviðsstjóri, Kömbum, Rangárþingi ytra.
20. Silja Dögg Gunnarsdóttir, viðskiptastjóri og fyrrv. alþingismaður, Reykjanesbæ.

Categories
Fréttir

Lilja Dögg leiðir lista Framsóknar í Reykjavík suður

Deila grein

26/10/2024

Lilja Dögg leiðir lista Framsóknar í Reykjavík suður

Kjördæmissamband Framsóknar í Reykjavíkur (KFR) hefur samþykkt framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík suður á fjölmennu aukaþingi sambandsins að Nauthóli í Reykjavík rétt í þessu.

Í fyrsta sæti er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Í öðru sæti er Einar Bárðarson, sjálfstætt starfandi ráðgjafi.

Í þriðja sæti er Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi og formaður ungs framsóknarfólks í Reykjavík.

Í fjórða sæti er Þorvaldur Daníelsson, framkvæmdarstjóri og 1. varaborgarfulltrúi.

Í fimmta sæti er Dagbjört S. Höskuldsdóttir, fyrrum kaupmaður og útibússtjóri.

,,Ég er stolt af því að leiða þennan öfluga lista Framsóknar í Reykjavík suður. Listinn er fjölbreyttur og samanstendur af vinnusömu og góðu fólki sem vill láta gott af sér leiða fyrir samfélagið. Stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja er að ná niður verðbólgu og vöxtum. Það voru jákvæð tíðindi þegar að Seðlabankinn lækkaði vexti með síðustu ákvörðun sinni, en algjört forgangsmál er að tryggja af festu og ábyrgð að sú þróun haldi áfram,‘‘ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, oddviti listans og varaformaður Framsóknar.  

Listi Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi suður í heild sinni:

1. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
2. Einar Bárðarson, sjálfstætt starfandi ráðgjafi.
3. Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi og formaður Ungs Framsóknarfólks í Reykjavík.
4. Þorvaldur Daníelsson, framkvæmdarstjóri og 1. varaborgarfulltrúi.
5. Dagbjört S. Höskuldsdóttir, fyrrum kaupmaður og útibússtjóri.
6. Ólafur Hrafn Steinarsson, stofnandi Esports Coaching Academy.
7. Helena Ólafsdóttir, knattspyrnuþjálfari og þáttastjórnandi.
8. Hafdís Inga Helgudóttir Hinriksdóttir, klínískur félagsráðgjafi MA.
9. Ágúst Guðjónsson, lögfræðingur.
10. Aron Ólafsson, markaðsstjóri.
11. Jóhanna Sóley Gunnarsdóttir, sjúkraliði.
12. Björn Ívar Björnsson, fjármálastjóri KR.
13. Ásta Björg Björgvinsdóttir, tónlistarkona og forstöðukona í félagsmiðstöð.
14. Jón Finnbogason, sérfræðingur.
15. Emilíana Splidt, framhaldskólanemi.
16. Stefán Þór Björnsson, viðskiptafræðingur.
17. Gunnar Guðbjörnsson, óperusöngvari og skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz.
18. Lárus Sigurður Lárusson, lögmaður.
19. Inga Þyrí Kjartansdóttir, f.v. framkvæmdastjóri.
20. Níels Árni Lund, f.v. skrifstofustjóri og varaþingmaður.
21. Hörður Gunnarsson, f.v. ráðgjafi og glímukappi.
22. Sigrún Magnúsdóttir, f.v. ráðherra.

Categories
Fréttir

Ásmundur Einar leiðir lista Framsóknar í Reykjavík norður

Deila grein

26/10/2024

Ásmundur Einar leiðir lista Framsóknar í Reykjavík norður

Kjördæmissamband Framsóknar í Reykjavík (KFR) hefur samþykkt framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður á aukaþingi sambandsins að Nauthóli í Reykjavík.

Í fyrsta sæti er Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Í öðru sæti er Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður.

Í þriðja sæti er Brynja M Dan Gunnarsdóttir, fyrirtækjaeigandi.

Í fjórða sæti er Sæþór Már Hinriksson, háskólanemi og formaður Vöku.

Í fimmta sæti er Þórunn Sveinbjörnsdóttir, skógarbóndi og fv. formaður Landssambands eldri borgara.

„Ég er stoltur af því að leiða þennan magnaða lista inn í kosningabaráttuna og hlakka til hennar með þessum öfluga hóp. Við höfum áorkað miklu á undanförnum árum þegar kemur að málefnum barna. Það er áfram mikið undir þegar kemur að mikilvægi þess að forgangsraða og fjárfesta í málefnum barna í samfélaginu. Börnin okkar eiga skilið að við höfum mál þeirra á dagskrá enda eru þau í þeirri stöðu að geta ekki valið sér aðstæður og það er okkar að aðstoða þau við að ná farsæld,“ segir Ásmundur Einar Daðason oddviti listans og mennta- og barnamálaráðherra

Listi Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi norður í heild sinni:

1. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
2. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður
3. Brynja M Dan Gunnarsdóttir, fyrirtækjaeigandi
4. Sæþór Már Hinriksson, háskólanemi og formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta
5. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, skógarbóndi og fv. formaður LEB
6. Oksana Shabatura, kennari
7. Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamanna
8. Ásrún Kristjánsdóttir, hönnuður
9. Lárus Helgi Ólafsson, kennari og handboltamaður
10. Þórdís Arna Bjarkarsdóttir, læknir
11. Hnikarr Bjarmi Franklínsson, fjármálaverkfræðingur
12. Gerður Hauksdóttir, skrifstofustjóri
13. Hrafn Splidt Þorvaldsson, viðskiptafræðingur
14. Berglind Sunna Bragadóttir, stjórnmálafræðingur
15. Jón Eggert Víðisson, ráðgjafi
16. Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndagerðarmaður
17. Unnur Þöll Benediktsdóttir, nemi og varaborgarfulltrúi
18. Stefán Stefánsson, framkvæmdastjóri Krabbameinsf. Framför
19. Jóhann Karl Sigurðsson, ellilífeyrisþegi
20. Hulda Finnlaugsdóttir, kennari
21. Bragi Ingólfsson, efnafræðingur
22. Guðmundur Kristján Bjarnason, fyrrv. ráðherra

Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Suðvestur samþykktur

Deila grein

26/10/2024

Framboðslisti Framsóknar í Suðvestur samþykktur

Kjördæmissamband Framsóknar í Suðvesturkjördæmi (KFSV) hefur samþykkt framboðslista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi á fjölmennu aukaþingi sambandsins í Bæjarlind í Kópavogi rétt í þessu.

Listinn samanstendur af reynslumiklu fólki sem býr og starfar um allt kjördæmið.

Í fyrsta sæti er Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Kópavogi.

Í öðru sæti er Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður, Hafnarfirði.

Í þriðja sæti er Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur, Mosfellsbæ.

Í fjórða sæti er Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðumaður og bæjarfulltrúi, Hafnarfirði.

Í fimmta sæti er Heiðdís Geirsdóttir, félagsfræðingur, Kópavogi.

„Ég er í senn auðmjúkur og þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt og er fullur tilhlökkunar fyrir baráttunni fram undan með þessum öfluga hópi fólks sem skipar lista Framsóknar í kjördæminu,“ segir Willum Þór Þórsson oddviti listans.

Listi Framsóknar í Suðvestur í heild sinni:

1. Willum Þór Þórsson, ráðherra, Kópavogi
2. Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður, Hafnarfirði
3. Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur, Mosfellsbæ
4. Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðumaður og bæjarfulltrúi, Hafnarfirði
5. Heiðdís Geirsdóttir, sérfræðingur, Kópavogi
6. Svandís Dóra Einarsdóttir, leikkona, Kópavogi
7. Einar Þór Einarsson, framkvæmdastjóri, Garðabæ
8. Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri, Garðabæ
9. Sigrún Sunna Skúladóttir, lektor við hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild og  form. Beinverndar, Kópavogi
10. Kjartan Helgi Ólafsson, meistaranemi, Mosfellsbæ
11. Eyrún Erla Gestsdóttir, skíðakona og nemi, Kópavogi
12. Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, kennari og form. Kvenna í Framsókn, Garðabæ
13. Urður Björg Gísladóttir, löggiltur heyrnarfræðingur, Garðabæ
14. Árni Rúnar Árnason, tækjavörður, Hafnarfirði
15. Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri, Kópavogi
16. Guðmundur Einarsson, fyrrv. forstjóri og eftirlaunaþegi, Seltjarnarnesi
17. Björg Baldursdóttir, skólastjóri og bæjarfulltrúi, Kópavogi
18. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, Garðabæ
19. Valdimar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri, Hafnarfirði
20. Kristján Guðmundsson, læknir, Kópavogi
21. Linda Hrönn Þórisdóttir, kennari, Hafnarfirði
22. Gunnar Sær Ragnarsson, lögfræðingur, Kópavogi
23. Halla Karen Kristjánsdóttir, íþróttakennari og bæjarfulltrúi, Mosfellsbæ
24. Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri, Kópavogi
25. Valdimar Víðisson, skólastjóri og bæjarfulltrúi, Hafnarfirði
26. Baldur Þór Baldvinsson, rftirlaunaþegi, Kópavogi
27. Eygló Þóra Harðardóttir, verkefnastjóri og fyrrv. ráðherra, Mosfellsbæ
28. Úlfar Ármannsson, framkvæmdastjóri, Garðabæ

Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Norðvestur samþykktur

Deila grein

25/10/2024

Framboðslisti Framsóknar í Norðvestur samþykktur

Kjördæmissamband Framsóknar í Norðvesturkjördæmi (KFNV) hefur samþykkt framboðslista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi á fjölmennu aukaþingi sambandsins að Þinghamri í Borgarfirði rétt í þessu.

Listinn samanstendur af reynslumiklu fólki sem býr og starfar um allt kjördæmið.

Í fyrsta sæti er Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður og varaformaður fjárlaganefndar, Skagafirði.

Í öðru sæti er Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður, Borgarfirði.

Í þriðja sæti er Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður, Holti í Önundarfirði.

Í fjórða sæti er Ragnar Baldvin Sæmundsson, oddviti Framsóknar og frjálsra á Akranesi.

Í fimmta sæti er Þorgils Magnússon, varaþingmaður, Húnabyggð.

Stefán Vagn Stefánsson oddviti listans sagði af því tilefni: „Það er heiður að leiða þennan öfluga og reynslumikla hóp Framsóknarfólks úr kjördæminu. Við hlökkum til að hitta kjósendur næstu daga og vikur fram að kosningum. Framsókn er og verður öflugur samvinnuflokkur með sterkar rætur í kjördæminu og við ætlum að halda okkar þremur þingmönnum í kjördæminu.

Listi Framsóknar í Norðvestur í heild sinni:

SætiNafn Starfsheiti Staður 
1Stefán Vagn StefánssonAlþingismaðurSauðárkróki 
2Lilja Rannveig SigurgeirsdóttirAlþingismaðurBorgarnesi
3Halla Signý KristjánsdóttirAlþingismaðurFlateyri 
4Ragnar Baldvin Sæmundsson BæjarfulltrúiAkranesi 
5Þorgils Magnússon ByggingatæknifræðingurBlönduósi 
6Gunnar ÁsgrímssonKennaranemi og formaður SUFSauðárkróki
7Steinunn GuðmundsdóttirVélvirkjanemi og nemi í Véliðnfræði við HRAkranesi 
8Garðar Freyr VilhjálmssonMjólkurfræðingurDalabyggð
9Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir Málstjóri farsældarbarna Bolungarvík 
10Sigurbjörn Rafn Úlfarsson FramkvæmdastjóriHólmavík
11Gauti Geirsson FramkvæmdastjóriÍsafirði 
12Jóhanna María SigmundsdóttirStaðgengill sveitarstjóraDalabyggð
13Elsa Lára Arnardóttir Aðstoðarskólastjóri Akranesi 
14Sveinn Bernódusson StálsmíðameistariBolungarvík 
Categories
Greinar

Fjárfest í framtíð íslenskunnar

Deila grein

24/10/2024

Fjárfest í framtíð íslenskunnar

Mik­il­vægt skref hef­ur verið stigið í átt að því að tryggja betri aðlög­un og inn­gild­ingu er­lendra íbúa í Mýr­dals­hreppi og vinna mark­visst að efl­ingu ís­lenskukunn­áttu. Sveit­ar­stjórn hef­ur ákveðið að setja fjár­magn í ráðningu verk­efna­stjóra ís­lensku og inn­gild­ing­ar í fjár­hags­áætl­un næsta árs. Mark­miðið er að bæta stöðu þess fjölda íbúa sveit­ar­fé­lags­ins sem hafa annað móður­mál en ís­lensku og stuðla að sterk­ari sam­fé­lags­legri teng­ingu. Fjár­veit­ing­in í stöðu verk­efna­stjóra er beint fram­hald af öfl­ugu starfi ensku­mæl­andi ráðs sveit­ar­fé­lags­ins og er mik­il­vægt skref til að efla stöðu er­lendra íbúa og auka sam­fé­lags­lega virkni.

Mik­il­vægi ís­lensk­unn­ar

Íslensk­an er lyk­ill­inn að sam­fé­lag­inu og for­senda þess að íbú­ar geti tekið full­an þátt í dag­legu lífi og störf­um inn­an sveit­ar­fé­lags­ins. Sér­stak­lega er öfl­ug og mark­viss ís­lensku­kennsla mik­il­væg þegar kem­ur að því að tryggja fjöltyngd­um börn­um jöfn tæki­færi á við aðra til framtíðar litið. Sveit­ar­fé­lagið vinn­ur um þess­ar mund­ir að mót­un inn­gild­ing­ar­stefnu og hef­ur með þessu markað þá stefnu að fjár­fest verði í mannauði til þess að fylgja henni eft­ir og vinna mark­visst að efl­ingu ís­lensk­unn­ar. Einnig er mik­il­vægt að mótuð verði mál­stefna og henni fylgt eft­ir til þess að styðja við og hvetja sem flesta til að efla ís­lenskukunn­áttu sína.

Viðbragð við breyt­ing­um

Sam­fé­lagið í Vík og ná­grenni hef­ur tekið mikl­um breyt­ing­um á síðustu árum. Mik­il­vægt er að hið op­in­bera sé sveigj­an­legt til þess að bregðast við slík­um breyt­ing­um og sveit­ar­fé­lagið hef­ur eft­ir fremsta megni lagt sig fram um að gera það með hag allra íbúa að leiðarljósi.

Sam­hliða er ekki síður mik­il­vægt að ríkið haldi áfram að þróa og bæta sína þjón­ustu. Þjón­ustu­stig af hálfu rík­is­ins hef­ur staðið í stað eða dreg­ist sam­an á sama tíma og sam­fé­lagið vex. Sú staða er eng­an veg­inn ásætt­an­leg og mik­il­vægt að ríkið rétti af kúrsinn og vinni með sveit­ar­fé­lög­um að efl­ingu þjón­ustu í sam­ræmi við vöxt á öðrum sviðum.

Framtíðar­sýn

Mýr­dals­hrepp­ur er staðráðinn í að vera sveit­ar­fé­lag sem tek­ur vel á móti öll­um íbú­um sín­um, óháð þjóðerni og bak­grunni. Með þess­ari fjár­fest­ingu í framtíð ís­lensk­unn­ar er mörkuð skýr framtíðar­sýn um að öll­um íbú­um séu tryggð jöfn tæki­færi til að taka full­an þátt í sam­fé­lag­inu.

Einar Freyr Elínarson, sveit­ar­stjóri Mýr­dals­hrepps.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Höfnum gamal­dags að­greiningu

Deila grein

24/10/2024

Höfnum gamal­dags að­greiningu

Árið 1974 var fyrst talað um í lögum að skólinn væri fyrir öll börn. Allar götur síðan hafa íslenskir stjórnmálamenn, að mestu, sammælst um þá framtíðarsýn. Í umræðum undanfarið hafa verið settar fram hugmyndir um að aðgreina eigi skóla eftir uppruna barna. Jafnframt hefur því verið fleygt fram að skynsamlegt sé að gera slíkt varðandi fleiri hópa barna. Þetta er ekki bara gamaldags hugsunarháttur, þetta eru líka hættulegar hugmyndir sem munu ekki gera neitt annað en að ýta undir ójöfnuð í okkar samfélagi.

Rannsóknir á Norðurlöndunum hafa sýnt fram á að börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn ná oft bestum námsárangri í sínum hverfisskóla. Með því að efla stuðning og nám fyrir börn af erlendum uppruna innan hefðbundins skólakerfis og í sínu nærumhverfi næst mun betri árangur, fyrir hvert barn, og þar með fyrir samfélagið í heild. Aðgreining með sérstökum móttökuskólum er ekki endilega sú leið sem skilar mestum árangri. Auk þess er þetta ekki raunhæf af þeim augljósu ástæðum að landið er dreifbýlt.

Það er hins vegar hárrétt að við höfum alls ekki stutt nógu vel við kennara og skólasamfélagið í að taka á móti fjölbreyttari hópi barna, ekki síst hvað varðar börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn. Í nýrri úttekt OECD, sem var birt í byrjun september, kemur skýrt fram að það sé mikilvægt að forgangsraða fjármunum í inngildingu innflytjenda. Þarna felast tækifæri til framfara. Ekki í aukinni aðgreiningu og stéttaskiptingu. Mikilvægast er að forgangsraða fjármagni þannig að það mæti fjölbreyttum þörfum barna. Þetta hafa kennarar og skólastjórnendur meðal annars bent á og þetta hef ég lagt áherslu á sem menntamálaráðherra.

Aðgerðir okkar í menntamálum sýna að við þorum að setja menntun allra barna í forgang – þau eiga það skilið! Í maí var undirritað samkomulag um þróunarverkefnið MEMM. Þar er markmiðið að koma á samræmdu verklagi um móttöku og menntun barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn á landsvísu; í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og frístundastarfi. Reykjavíkurborg, Reykjanesbær og fleiri sveitarfélög hafa meðal annars þróað fjölbreyttar leiðir til að mæta ólíkum þörfum nýkominna barna, til dæmis með því að setja upp íslenskuver og með því að bjóða upp á markvissan stuðning, bjargir og starfsþróun þegar kemur að vinnu með málaflokkinn í skóla- og frístundastarfi. Með því að þróa lausnir sem mæta íslenskum veruleika og byggja á leiðum sem hafa reynst árangursríkar náum við bestu niðurstöðinni, bæði fyrir börnin og samfélagið.

Leiðin fram á við er ekki að boða gamaldags hugmyndafræði aðgreiningar sem lausn á áskoruninni. Þannig stuðlum við ekki að betri samfélagsgerð. Börnin sem hingað koma eru á okkar ábyrgð og okkar verkefni er að þau sem eru með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn verði ekki sjálfkrafa jaðarsett. Að aðgreina börn enn frekar gerir ekkert annað en að ýta þeim lengra út á jaðarinn. Um þetta snúast þær breytingar sem nú er unnið að í íslensku menntakerfi; að ná betur utan um þessi börn.

Aflið og hraðinn á breytingunum ræðst hins vegar af því hvort við sem samfélag erum tilbúin að forgangsraða fjármagni í þágu þessara aðgerða. Við þurfum að viðurkenna það sem skólasamfélagið hefur sagt og það sem OECD sagði: Við þurfum að vera tilbúin að fjárfesta í börnunum!

Við skuldum þeim sem vinna með börnum í okkar samfélagi betri bjargir, stuðning og ráðgjöf til að mæta þessum hröðu samfélagsbreytingum. Við skuldum þeim líka að störf þeirra séu metin að verðleikum.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Þing­menn verða að vita að Lilja segir satt

Deila grein

23/10/2024

Þing­menn verða að vita að Lilja segir satt

Frjáls og virk skoðanaskipti eru grundvöllur hins sterka lýðræðisþjóðfélags sem við búum í. Í gær birtist einmitt áhugaverð skoðanagrein eftir Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmann undir yfirskriftinni Þingmenn verða að vita að Lilja segir ekki satt. Björn fer þar mikinn í umræðunni um Kvikmyndasjóð og meintrar ,,slátrunar‘‘ undirritaðar á sjóðnum þar sem hann rekur hvernig framlög ríkisins til Kvikmyndasjóðs hafa lækkað að undanförnu. Um er að ræða lækkun sem skýrist að stærstum hluta af því að tímabundin framlög sem sett voru í sjóðinn vegna Covid heimsfaraldurs, á grundvelli kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030, eru fallinn niður, líkt og önnur slíkt Covid framlög í öðrum málaflokkum.

Tímabundin framlög eru tímabundin

Björn virðist ekki meðtaka það að tímabundin framlög vegna heimsfaraldurs eru tímabundin framlög ef marka má orð hans: ,,Lilja segir að þessi niðurskurður sé vegna þess að framlög í sjóðinn á árunum 2020 og 2021 hafi verið tímabundin framlög vegna covid. En þetta er því miður ekki satt. Aukin framlög í kvikmyndasjóð á þessum árum komu til vegna nýrrar kvikmyndastefnu sem ætlað var að stórefla greinina – eins og Lilja sagði margoft á þessum tíma í ræðum og riti. Hvergi sagði hún einu orði að þessi framlög væru tímabundin og vegna kóvid – og hvergi er stafkrókur um slíkt í opinberum skjölum.‘‘

Það er hinn eðlilegasti hlutur að berjast fyrir hagsmunum sínum í ræðu og riti, en það hlýtur að vera sanngjörn krafa að fara ekki með staðlausa stafi á þeirri vegferð – sér í lagi áður en menn fara að ásaka aðra um slátranir og lygar. Má ég því til með að benda Birni á þessa fréttatilkynningu frá ráðuneyti mínu þann 8. október 2020 svo dæmi sé tekið, þar sem farið var yfir hluta af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs. Þar stendur skýrum stöfum:

,,Samkvæmt nýrri Kvikmyndastefnu verður 412 milljónum kr. varið til að efla kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð en alls nema framlög vegna nýrrar kvikmyndastefnu 550 milljónum kr. í frumvarpinu. Framlagið er liður í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar.‘‘

Birni hefði verið í lófa lagið að nenna að leita stundarkorn eftir staðreyndum áður en hann reisti hús sitt á sandi, nema hann hafi einfaldlega kosið að líta fram hjá staðreyndum málsins. Leiðréttist þessi misskilningur og yfirsjón Björns hér með.

Hefur eitthvað verið gert fyrir kvikmyndagerð á Íslandi?

Af lestri greina eins og Björn ritar mætti halda að íslensk menning væri í dauðateygjunum. Því fer víðsfjarri. Staðreynd málsins er sú að mjög margt hefur áunnist á síðastliðnum árum til þess að efla kvikmyndagerð á Íslandi og er ég verulega stolt af því. Raunar er staðan sú að mörgum af þeim aðgerðum sem kynntar voru í kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030 hefur verið hrint til framkvæmdar, og enn eru 6 ár eftir af líftíma hennar. Hér eru nokkur dæmi um það sem hefur verið áorkað.

  • 1,3 milljarði króna, eitt þúsund og þrjú hundruð milljónum króna, hefur verið veitt í tímabundin viðbótarframlög í kvikmyndasjóð frá árinu 2020.
  • Endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð var hækkað úr 25% í 35%
  • Velta í kvikmyndagerð hefur stóraukist
  • Fyrstu kvikmyndadeild landsins á háskólastigi við Listaháskóla Íslands var komið á laggirnar. Þar er nú boðið upp á 180 eininga BA nám með kjörsvið í leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu eða hljóðtækni.
  • Framlög til náms í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi voru hækkuð
  • Starfslaunasjóður kvikmyndahöfunda verður að veruleika á næsta ári eftir breytingar á lögum um starfslaun listamanna
  • Löggjöf um nýjan fjárfestingarsjóð sjónvarpsefnis ( framleiðslustyrki til lokafjármögnunar) var kláruð
  • Frumvarp um menningarframlag sem unnið hefur verið að er á lokametrunum. Með því yrði lögfest ný skylda á hendur streymisveitum til að greiða fjárframlag, sem rennur til Kvikmyndasjóðs (áætlað allt að 260 m.kr. á ári) eða skyldu til að fjárfesta með beinum hætti í framleiðslu í innlendu hljóð- og myndefni.
  • Efnahagslegt mikilvægi kvikmyndagerðar á Íslandi kortlagt, sbr. úttekt Olsberg
  • Stutt hefur verið sérstaklega við að varðveislu og stafvæðingu á íslenskum kvikmyndaarfi
  • Stutt hefur verið myndarlega við sjálfsprottin verkefni eins og kynningu á íslenskum myndum erlendis, innlendar kvikmyndahátíðir og menningarleg kvikmyndahús
  • Stutt hefur Kvikmyndatengda fræðslu, til dæmis fyrir ungt fólk
  • Sjálfbærni í kvikmyndagerð hefur verið stutt með gerð handbókar þar um

Rúmir 7 milljarðar áætlaðir til kvikmyndamála árið 2025

Heildarframlög til kvikmyndamála á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins 2016-2025.

Áætluð fjárframlög til þeirra kvikmyndatengdu mála sem heyra undir menningar- og viðskiptaráðuneytið eru áætluð rúmir 7 milljarðar á næsta ári. Fellur þar undir, Kvikmyndasjóður, Kvikmyndamiðstöð, Kvikmyndasafn Íslands og endurgreiðslukerfi kvikmynda. Endurspeglar upphæðin þau auknu umsvif sem orðið hafa í kvikmyndagerð hér á landi á undanförnum árum, sem birtast meðal annars í hækkun á endurgreiðslum. Á undanförnum árum hafa upphæðir úr þeim skipst nokkuð jafnt á milli innlendra og erlendra verkefna.

Lægri verðbólga stærsta forgangsmál samfélagsins

Lækkun verðbólgu og þar með vaxta er stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Jákvæð teikn eru á lofti þar en til að ná markmiði um lækkun verðbólgu þarf aðhald í ríkisfjármálum. Fyrir næsta ár birtist þetta meðal annars í sértæku aðhaldi á samkeppnissjóði hjá öllum ráðuneytum. Kvikmyndasjóður er var þar ekki undanskilinn, en hann er einn af 14 sjóðum á sviði menningarmála. Framlög í hann á næsta ári munu nema rúmum milljarði en áform um menningarframlag streymisveita er meðal annars ætlað að efla hann inn til framtíðar.

Þróun framlaga í Kvikmyndasjóð 2016-2025. Eftirstöðvum fjárfestingaráttaksins var dreift inn á árið 2024. Árið 2023 var sérstak 250 m.kr aukaframlag sett í sjóðinn til að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar höfðu hlotið vilyrði eða sjóðurinn var skuldbundinn gagnvart með samningi.

Þegar til framtíðar er litið, og þegar efnahagsástand og fjármál hins opinbera leyfa, hljótum við að líta til þess að bæta í Kvikmyndasjóð að nýju, enda er sjóðurinn einn af burðarásum íslenskrar menningar. Ég sé fyrir mér að fyrirsjáanleiki í fjármögnun sjóðsins yrði aukin, til að mynda með samkomulagi til fjögurra ára í senn. Slíkt yrði þó alltaf háð fjárveitingu hvers árs.

Kvikmyndagerð orðin heilsárs atvinnugrein

Meiri háttar breyting sem hefur orðið á kvikmyndagerð hér á landi er að hún er orðin heilsársatvinnugrein og verkefnum, stórum sem smáum, hefur fjölgað. Hér hefur byggst upp dýrmæt sérþekking á öllum sviðum kvikmyndagerðar, hvort sem það snýr að listræna þættinum eða hinum tæknilega og umsóknum í kvikmyndasjóð hefur fjölgað verulega. Í úttekt breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg kom til að mynda fram að 4.200 bein, óbein og afleidd störf hefðu verið til vegna kvikmyndagerðar hér á landi árið 2022 og að heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu við kvikmyndaverkefni hér á landi hafi numið 48,9 milljörðum króna á árunum 2019 -2022Þá er gríðarlega ánægjulegt að sjá stór verkefni í kvikmyndagerð raungerast á landsbyggðinni sem styrkir stoðir greinarinnar og smærri byggðir á landinu. Þá hafa upphæðir úr endurgreiðslukerfinu skipst nokkuð jafnt á milli innlendra og erlendra verkefna undanförnum árum, eins og rakið er í úttekt Olsberg.

Skipting endurgreiðslna í kvikmyndagerð

Ég hef lagt mig alla fram við að efla menningarlífið á Íslandi og umhverfi kvikmyndagerðar þar á meðal. Í virkilega góðu samráði við haghafa greinarinnar höfum við náð að stíga stór framfaraskref skömmum tíma. Ég vil meina að ekki hefur jafnmikið gerst á jafn stuttum tíma frá því að Kvikmyndasjóður var settur á laggirnar árið 1979 og endurgreiðslukerfinu í kvikmyndagerð var komið á fót árið 1999. Til gamans má geta var hvorug tveggja komið á fót af ráðherrum úr Framsóknarflokknum, sem segir kannski ákveðna sögu. Það breytir því ekki að við viljum sjá enn frekari árangur, og kvikmyndasjóð eflast út líftíma kvikmyndastefnunnar til ársins 2030 og enn lengra inn framtíðar. Íslensk kvikmyndagerð getur treyst því að undirrituð verði áfram góður liðsmaður í því verkefni, sama hvað rangfærslum Björns B. Björnssonar líður.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bleikur dagur

Deila grein

23/10/2024

Bleikur dagur

Í dag, 23. október, er Bleikur dagur, sem er hluti af októberátakinu. Á þessum degi fögnum við styrknum og seiglunni sem einkennir baráttuna gegn brjóstakrabbameini. Það er tilefni til að íhuga mikilvægi forvarna, klæðast bleikum litum til stuðnings, og hvetja konur til að mæta í skimun. Október er tími umhyggju þar sem við minnumst samstöðu og sýnum stuðning í baráttunni gegn þessum alvarlega sjúkdómi.

Lægri kostnaður

Krabbamein er eitt helsta heilsufarsvandamál okkar tíma, og sérstaklega brjóstakrabbamein, sem er algengasta krabbameinið meðal kvenna. Rannsóknir hafa leitt í ljós að regluleg skimun getur lækkað dánartíðni brjóstakrabbameins um allt að 20%. Skimun auðveldar greiningu á sjúkdómnum á fyrri stigum, sem býður upp á betri meðferðarúrræði og auknar lífslíkur.

Til að auka aðgengi að skimun hefur heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson ákveðið að lækka kostnað við brjóstaskimun niður í 500 krónur. Þetta er mikilvægur áfangi í því að tryggja að þátttaka í skimanir verði ekki háð fjárhagslegri stöðu, og sömuleiðis að fleiri konur sjái sér fært að taka þátt.

Sveigjanleiki atvinnurekenda

Stuðningur atvinnurekenda er einnig ómetanlegur í þessari baráttu. Með átakinu „Skrepp í skimun“ er hvatt til þess að konur njóti sveigjanleika á vinnustöðum til að sækja þessa mikilvægu þjónustu. Það þarf skýra stefnu í að mynda svigrúm fyrir konur svo þær geti nýtt sér skimun sem oft gefst aðeins möguleiki á úti á landsbyggðinni í nokkra daga í einu.

Við höfum öll hlutverk að gegna í því að hvetja konur í okkar nærumhverfi – í vinnunni, innan fjölskyldur og í vinahópum – til að nýta sér skimun. Með hvatningu og samstöðu sýnum við ekki bara stuðning okkar, heldur tökum þátt í að tryggja heilsu fyrir framtíðina.

Tökum þátt, sýnum kærleik og vitund – skreppum í skimun.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2024.