Categories
Fréttir Greinar

Framfarir í úrgangsmálum

Deila grein

13/10/2023

Framfarir í úrgangsmálum

Hvernig við komum frá okkur sorpi snertir hvert einasta heimili og er lögbundið verkefni sveitarfélaga. Það verða því flestir varir við það þegar verða breytingar í málaflokknum.

Á síðustu mánuðum hafa verið innleiddar mestu breytingar í úrgangsmálum sem orðið hafa um langa hríð á höfuðborgarsvæðinu. Aukin flokkun sorps frá heimilum er stórt verkefni sem hefur, þegar á heildina er litið, gengið mjög vel og er strax farið að skila miklum árangri.
Það má þó ekki gleyma því að íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru vanir að flokka en 60% af þeim úrgangi sem kemur frá heimilum er skilað á endurvinnslustöðvar Sorpu og 40% er sótt í tunnur við heimili.

Áframhaldandi starfsemi í Álfsnesi – raunhæf markmið um lokun

En hvað verður svo um sorpið? Það er kannski viðfangsefni sem Mosfellingar hafa haft meiri áhyggjur af á síðustu árum og sú staðreynd að urðunarstaðurinn í Álfsnesi er kominn ansi nálægt byggðinni okkar. Síðasta áratuginn hefur verið í gildi samkomulag milli eigenda Sorpu, sem eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, um að hætta urðun í Álfsnesi.
Á þessum tíma hefur ýmislegt verið gert. Það verður þó að viðurkennast að framfarirnar hafa ekki verið nægar til að raunhæft sé að loka urðunarstaðnum í lok þessa árs. Leit að nýjum urðunarstað fyrir höfuðborgarsvæðið er umfangsmikið verkefni á meðan við urðum ennþá eins mikið magn og raun ber vitni.

Annar viðauki hefur því verið gerður við þetta samkomulag og teljum við í bæjarstjórn Mosfellsbæjar raunhæft að við náum árangri í því að loka urðunarstaðnum innan næstu fimm ára eins og markmið samkomulagsins er.

Samkomulagið kveður þó ekki á um óbreytt ástand. Í fyrsta lagi tökum við stórt skref með aukinni flokkun. Sorpa hefur gert samninga við önnur sorpsamlög og fyrirtæki um móttöku á lífrænum úrgangi frá fyrirtækjum enda verður bannað að urða lífrænt í Álfsnesi frá og með næstu áramótum. Þar verður eingöngu leyfilegt að urða óvirkan úrgang sem gefur ekki frá sér lykt.

Annar stór áfangi er að hefja útflutning á blönduðum brennanlegum úrgangi. Útflutningur hefur verið boðinn út og hefst núna á allra næstu vikum. Bara þetta tvennt breytir starfseminni í Álfsnesi gríðarlega.

Gætum hagsmuna Mosfellinga

Samþykkt annars viðauka varðandi lokun urðunarstaðarins og enn frekari frestun á því er ekki eitthvað sem bæjarfulltrúar í Mosfellsbæ eru sátt við eða ánægð með. Við komumst hins vegar að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að það væri óábyrgt að ganga ekki til samninga um framhaldið en að öðrum kosti hefði skapast ófremdarástand í úrgangsmálum á höfuðborgarsvæðinu.

Við gerðum okkar allra besta til að tryggja hagsmuni Mosfellinga í samkomulaginu og meðal annars með því að fá eigendur Sorpu og landeiganda Álfsness, sem er Reykjavíkurborg, til að samþykkja að ekki verði byggð sorpbrennsla í Álfsnesi. Auk þess sem farið verður í umfangsmiklar mótvægisaðgerðir til að ná tökum á lyktarmengun frá þeim úrgangi sem þegar hefur verið urðaður þarna. Lykilatriði er að fylgja þessum ákvæðum eftir og það munum við gera.

Aldís Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi og stjórnarkona í Sorpu BS

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 12. október 2023.

Categories
Fréttir

Höldum við virkilega að við séum bættari með landbúnaðinn á Íslandi á hnjánum?

Deila grein

12/10/2023

Höldum við virkilega að við séum bættari með landbúnaðinn á Íslandi á hnjánum?

„Mér er sagt að lítið sé að frétta af endurskoðun búvörusamninga en þeim er ætlað að tryggja fæðuöryggi og efla innlenda landbúnaðarframleiðslu, styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis, náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, í störfum þingsins. Sagði hann að huga verði að tollvernd og sambærilegum stuðningi við landbúnaðinn líkt og í löndunum í kringum okkur.

„Miklar verðhækkanir á aðföngum eru staðreynd og háir vextir og verðbólga hafa gríðarleg áhrif á bændur en reksturinn er oft mjög skuldsettur. Það hljóta allir að skilja að sterkur íslenskur landbúnaður er allra hagur, líka neytenda,“ sagði Jóhann Friðrik og hélt áfram, „við höfum verið minnt á mikilvægi fæðuöryggis í tengslum við þjóðaröryggi, ekki bara í kjölfar heimsfaraldurs heldur einnig vegna stríðsátaka“.

Sagði hann Íslendinga verða að efla fæðuöryggi og setja sérstakan stuðning við það í endurskoðun búvörusamninga. Bændastéttin væri ein sú lægst launaða, meðalaldur væri hár og nýliðun stéttarinnar mjög erfiða. Fagna bæri auknum stuðningi við kornrækt en það eitt breyti ekki stöðu annarra í greininni.

„Útgjöld stjórnvalda til landbúnaðar standa nokkurn veginn í stað, sýnist mér, á næstu árum að öllu óbreyttu. Höldum við virkilega að við séum bættari með landbúnaðinn á Íslandi á hnjánum?“

Minnti Jóhann Friðrik á að búvörusamningar séu gerðir til næstu 10 ára og því mikilvægt að framkvæmd slíks samnings tekist vel til. Bændur ráði ekki við vaxtaumhverfið í dag, vegna fjárfestinga sem farið hefur verið í og hvatt hefur verið til á undanförnum árum.

„Þetta er vonlaust án þess að við stígum inn í. Stjórnvöld verða að stíga fastar inn í og standa með bændunum í landinu,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég er þungt hugsi eftir kjördæmavikuna. Ég hef heyrt í bændum víðs vegar um landið. Einn mikilvægasti grunnatvinnuvegur landsins er landbúnaður. Mér er sagt að lítið sé að frétta af endurskoðun búvörusamninga en þeim er ætlað að tryggja fæðuöryggi og efla innlenda landbúnaðarframleiðslu, styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis, náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Það er alveg klárt að huga verður að tollvernd og sambærilegum stuðningi við landbúnaðinn eins og á sér stað í löndunum í kringum okkur. Miklar verðhækkanir á aðföngum eru staðreynd og háir vextir og verðbólga hafa gríðarleg áhrif á bændur en reksturinn er oft mjög skuldsettur. Það hljóta allir að skilja að sterkur íslenskur landbúnaður er allra hagur, líka neytenda. Við höfum verið minnt á mikilvægi fæðuöryggis í tengslum við þjóðaröryggi, ekki bara í kjölfar heimsfaraldurs heldur einnig vegna stríðsátaka. Við verðum að efla fæðuöryggi á Íslandi og setja sérstakan stuðning við það í endurskoðun búvörusamninga.

Forseti. Bændur eru ein lægst launaða stétt landsins. Meðalaldur bænda er hár og nýliðun er mjög erfið. Það er nánast ómögulegt í sumum tilfellum fyrir bændur að koma búrekstri sínum til nýrrar kynslóðar. Auðvitað fagna ég auknum stuðningi við kornrækt en það breytir ekki stöðu annarra í greininni. Útgjöld stjórnvalda til landbúnaðar standa nokkurn veginn í stað, sýnist mér, á næstu árum að öllu óbreyttu. Höldum við virkilega að við séum bættari með landbúnaðinn á Íslandi á hnjánum? Búvörusamningar eru til 10 ára og því mikilvægt að vel til takist. Vaxtaumhverfið er að drepa greinina. Bændur standa ekki undir þeirri fjárfestingu sem farið hefur verið í og hvatt hefur verið til á undanförnum árum.

Virðulegi forseti. Þetta er vonlaust án þess að við stígum inn í. Stjórnvöld verða að stíga fastar inn í og standa með bændunum í landinu.“

Categories
Greinar

Atvinnustefna Mosfellsbæjar

Deila grein

12/10/2023

Atvinnustefna Mosfellsbæjar

Nú á dögunum staðfesti bæjarstjórn Mosfellsbæjar atvinnustefnu fyrir sveitarfélagið, þótti starfandi meirihluta tímabært að mörkuð yrði skýr stefna í þeim málaflokki.

Mikil samstaða var um að farið yrði af stað í stefnumótunarvinnu í kjölfar síðustu kosninga og greinilegt að þörf var á skerpingu í atvinnumálum. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar leiddi stefnumótunarvinnuna sem hófst í byrjun árs og lauk nú á sumarmánuðum, fékk nefndin utanaðkomandi ráðgjafa til að halda utan um verkefnið frá byrjun.
Það var mikið lagt upp úr því að stefnan yrði hnitmiðuð og auðlesin, markmiðin raunhæf og hægt að ýta sem flestum aðgerðum úr vör á næstu 1-3 árum. Ásamt því að árangur aðgerða yrði mælanlegur til að gera alla eftirfylgni skilvirkari og markvissari.

Vel heppnaður íbúafundur

Það komu fjölmargir að stefnumótunarvinnunni en mikilvægur partur af ferlinu var að opna umræðuna með íbúum og var vel heppnaður íbúafundur haldinn í Fmos á vormánuðum. Mætingin var mjög góð og umræður gagnlegar í meira lagi. Það bar þess greinilega merki að íbúum og öðrum hagsmunaaðilum þótti þörf á því að bærinn kæmi markvisst að því að efla enn frekar atvinnulíf í sveitarfélaginu.

Öflugu atvinnulífi fylgir aukin þjónusta fyrir íbúa og frekari tækifæri, íbúafjöldinn í Mosfellsbæ er farinn að nálgast 14 þúsund og það væri kærkomið að sjá jafn kröftugan vöxt í atvinnuuppbyggingu samhliða hröðum íbúavexti. Þrátt fyrir að höfuðborgarsvæðið sé skilgreint sem eitt atvinnusvæði þá skapar sérstaða Mosfellsbæjar fjöldamörg sóknarfæri sem í enn frekara mæli ber að nýta. Hér eru vissulega fjöldi öflugra fyrirtækja starfandi sem má ekki gleyma í þessu samhengi, en að sama skapi á sveitarfélagið mikið inni í atvinnumálum.

Öflug upplýsingamiðlun og markaðssetning

Megininntak atvinnustefnunnar er annars vegar hvernig sveitarfélagið geti stutt sem best við atvinnuuppbyggingu og hins vegar helstu áherslu atvinnugreinar. Það kemur fram að mikilvægt sé að huga vel að upplýsingamiðlun og þá helst varðandi framboð atvinnulóða og móttöku fyrirspurna, nauðsynlegt að ferlið sé sem einfaldast og að allar helstu upplýsingar séu aðgengilegar á vef Mosfellsbæjar.

Hin hliðin á peningnum er öflug markaðssetning, í stefnunni er fjallað um frumkvæði sveitarfélagsins, t.d. með gerð markaðsáætlunar og skilgreiningu á ábyrgðaraðilum vegna þeirra verkefna sem bíða við innleiðingu á stefnunni.

Næstu skref

Nú tekur við innleiðingarferli á atvinnustefnunni þar sem hægt verður að hrinda fyrstu aðgerðum í framkvæmd og undirbúa jarðveginn fyrir frekari uppbyggingu. Stefnan hefur ekki verið birt, en það má búast við að hún verði birt á vef Mosfellsbæjar á næstunni. Eru áhugasamir hvattir til að kynna sér innihaldið þegar að því kemur.

Að lokum vill undirritaður þakka öllum þeim sem komu að vinnunni við stefnumótunina fyrir hönd Atvinnu- og nýsköpunarnefndar, þar er okkar trú að þetta verði farsælt skref fyrir Mosfellsbæ sem blæs frekara lífi í atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður atvinnu- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar.

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 12. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Betri tíð í samgöngumálum

Deila grein

12/10/2023

Betri tíð í samgöngumálum

Þau sem fylgst hafa með um­ræðum um sam­göngu­mál á höfuð­borgar­svæðinu síðustu árin og ára­tugina hafa orðið vitni af stöðugum á­greiningi milli ríkis og sveitar­fé­laga og þá sér­stak­lega á milli ríkis og Reykja­víkur­borgar. Ég ætla hér í þessum greinarstúf að beina athygli að samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega að samgöngusáttmálanum sem undirritaður var af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Fyrir undirritun samgöngusáttmálans hafði ríkt al­gjör stöðnun í sam­göngum hér á þessu fjöl­mennasta svæði landsins og af­leiðingarnar voru aug­ljósar; sí­fellt þyngri um­ferð, meiri tafir og meiri mengun.

Almennt séð þá tel ég að það séu ekki ýkja margir sem gera sér grein fyrir því af­reki sem Sigurður Ingi Jóhanns­son, innviðaráðherra, vann með því að ná þessum samningi í gegn á sínum tíma. Þar er mikilvægast að sveitarfélögin er nú sameinuð í sinni framtíðarsýn þegar kemur að samgöngumálum. Því miður er umræðan um samgöngusáttmálann ekki á þeim stað sem hún þarf að vera. Umræðan snýst eingöngu um fjármagn en ekki stóru myndina og þá miklu framtíðarsýn sem hann samgöngusáttmálinn staðfestir. Það er nú þannig að ekkert gert án fjármuna um leið og tæknin þróast á ógnarhraða. Að því sögðu er að sjálfsögðu eðlilegt og nauðsynlegt að allar áætlanir, hvort sem um er að ræða kostnaðar- eða framkvæmdaáætlanir, séu stöðugt til skoðunar með það að markmiði að fjármunir séu vel nýttir og að við séum að styðjast við bestu tækni. Viðræðuhópur hefur verið skipaður fulltrúum ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú að því að rýna í áætlanir sáttmálans með það fyrir augum að uppfæra forsendur hans og undir­bún­ing á viðauka við hann.

Samvinna skilar betri árangri

Sam­göngu­sátt­málinn sem skrifað var undir árið 2019 markaði tíma­mót að mörgu leyti. Með sáttmálanum sameinuðust ríki og sveitarfélögin á höfuð­borgarsvæðinu um framtíðarsýn og markmið fyrir samgöngur á svæðinu. Sú leið var ekki ein­föld, eða niðurstaðan auðsótt, enda ólík sjónar­mið uppi milli sveitarfélaga. En með þessu sam­tali ráð­herrans við sveitar­fé­lögin og Vega­gerðina var ísinn brotinn og við í­búar á höfuð­borgar­svæðinu öllu erum farin að sjá fram á betri tíð í sam­göngum. Mikilvægar framkvæmdir hafa nú þegar klárast, svo sem á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, Suður­landsvegi milli Vesturlandsvegar og Hádegismóa og á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Þá hafa einnig verið lagðir rúmlega 13 km af hjólastígum.

Á höfuðborgarsvæðinu er nú unnið að stórfelldri uppbyggingu innviða fyrir alla ferðamáta. Tímabærar framkvæmdir á stofnvegum þar sem umsvifa­mest er lagning stórra umferðaræða í stokka, munu greiða fyrir umferð, draga úr umhverfis­áhrifum og skapa mannvænni byggð í grennd við umferðaræðar. Þróun hágæðaalmenn­ings­samgangna ásamt nýju stofnleiðakerfi hjólreiða er svo lykilþáttur í þróun svæð­isins í átt að sjálfbærara borgarsamfélagi. Aukin hlutdeild almenningssamgangna í ferðamáta­vali á svæðinu mun greiða fyrir umferð og halda aftur af aukningu umferðartafa á svæð­inu. Sjálfbærara samfélag er mikilvægur þáttur í að auka lífsgæði og efla samkeppnis­hæfni svæðisins, en höfuðborgarsvæðið er í samkeppni um mannauð við stórborgir í nágranna­lönd­um. Niður­staðan er fjöl­breyttar sam­göngur þar sem stofn­brautir verða byggðar upp, göngu- og hjóla­stígar lagðir og inn­viðir al­vöru al­mennings­sam­gangna verða að veru­leika. Allt styður þetta við heil­brigðara sam­fé­lag, styttir ferða­tíma á svæðinu, minnkar mengun og eykur allt umferðaröryggi.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ófriðartímar í heiminum

Deila grein

12/10/2023

Ófriðartímar í heiminum

Tíðar frétt­ir af ófriði og átök­um um heim all­an hafa birst okk­ur á und­an­förn­um miss­er­um. Auk­inn ófriður í heim­in­um er óheillaþróun með til­heyr­andi slæm­um áhrif­um fyr­ir íbúa heims­ins. Bentu Sam­einuðu þjóðirn­ar meðal ann­ars á fyrr á ár­inu að fjöldi átaka hef­ur ekki verið meiri síðan á tím­um seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar en um 2 millj­arðar manna, fjórðung­ur mann­kyns­ins, búa á svæðum sem hafa orðið fyr­ir áhrif­um af átök­um. Það má segja að sjald­an hafi reynt jafn­mikið á þau helstu grund­vall­ar­gildi sem Sam­einuðu þjóðirn­ar voru reist­ar á; að viðhalda alþjóðleg­um friði og ör­yggi.

Far­ald­ur vald­arána í Afr­íku, þar sem vald­arán hafa verið fram­in í átta ríkj­um á þrem­ur árum og bæt­ist við ófrið sem þar var fyr­ir, deil­ur Aser­baís­j­an og Armen­íu, ólög­legt inn­rás­ar­stríð Rússa í Úkraínu og nú síðast; stríð Ísra­ela og Ham­as-liða í kjöl­far grimmi­legra árása Ham­as-liða í Ísra­el um liðna helgi.

Það sem þessi átök eiga sam­eig­in­legt er að ekki sér fyr­ir end­ann á þeim. Deil­an fyr­ir botni Miðjarðar­hafs er ára­tuga löng en full­yrða má að at­b­urðir síðustu helg­ar séu mesta stig­mögn­un henn­ar í ára­tugi. Hætta er á enn frek­ari stig­mögn­un átak­anna, en viðvör­un­ar­ljós í þá veru eru þegar far­in að blikka með skær­um á landa­mær­um Ísra­els og Líb­anon milli Ísra­els­hers og Hez­bollah-sam­tak­anna. Svæðinu öllu svip­ar til púðurtunnu. Það þarf fyr­ir alla muni að kom­ast hjá frek­ari stig­mögn­un á svæðinu, með til­heyr­andi óstöðug­leika fyr­ir alþjóðasam­fé­lagið.

Að sama skapi sér ekki enn fyr­ir end­ann á árás­ar­stríði Rússa í Úkraínu, sem haft hef­ur skelfi­leg áhrif á millj­ón­ir í Úkraínu og Rússlandi. Mikið mann­fall hef­ur verið hjá báðum lönd­um, á sama tíma og Rúss­ar eru langt frá því að ná upp­haf­leg­um hernaðarmark­miðum sín­um. Efna­hag­ur beggja landa hef­ur gjör­breyst og skaðast mikið með til­finn­an­leg­um áhrif­um á alþjóðahag­kerfið. Hækk­an­ir á orku- og mat­væla­verði í kjöl­far stríðsins smituðust í alþjóðleg­ar virðiskeðjur og urðu helsti or­saka­vald­ur­inn í hærri verðbólgu margra ríkja og eins og gjarn­an ger­ist eru það þeir sem minnst mega sín sem helst finna fyr­ir þessu. Það er mik­il­vægt að Vest­ur­lönd standi áfram af full­um þunga með Úkraínu og tryggi land­inu nauðsyn­lega aðstoð til þess að vernda frelsi og sjálf­stæði sitt.

Við erum lán­söm á Íslandi. Það að búa við frið og ör­yggi er því miður ekki sjálfsagt í heim­in­um eins og við þekkj­um hann líkt og millj­arðar jarðarbúa finna á eig­in skinni. Bless­un­ar­lega hafa heilla­drjúg­ar ákv­arðanir verið tekn­ar í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um Íslands í gegn­um tíðina sem við búum að í dag. Þá stefnu þarf að rækta áfram af alúð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Gervigreind á þingi

Deila grein

12/10/2023

Gervigreind á þingi

Hvernig geta þing­menn notað gervi­greind til dag­legra starfa? Þetta var ein af spurn­ing­un­um sem spurt var á ný­af­stöðnu heimsþingi framtíðar­nefnda þjóðþinga. Á fund­inn mættu þing­menn alls staðar að úr heim­in­um til þess að ræða tæki­færi og hætt­ur gervi­greind­ar og hvernig við gæt­um nýtt hana okk­ur í hag. Gervi­greind­in get­ur nefni­lega gert ótrú­lega hluti. Hún get­ur aðstoðað okk­ur við ræðuskrif, frum­varpa­gerð og reiknað út svör við ýms­um fyr­ir­spurn­um. Ég tók þátt í pall­borði á heimsþing­inu um mögu­leika gervi­greind­ar­inn­ar á þjóðþing­um. Ég talaði um þær hætt­ur sem fæl­ust í því ef þing­menn færu að nota gervi­greind­ina í þessa vinnu án þess að gjalda var­hug við henni. Gervi­greind­in er byggð á gögn­um sem eru nú þegar til á net­inu, mörg ár aft­ur í tím­ann. Stór hluti þess­ara gagna er þó mjög nei­kvæður í garð sumra hópa, t.d. kvenna og hinseg­in fólks. Því meira af nei­kvæðum gögn­um sem gervi­greind­in finn­ur, því lík­legra er það til þess að end­ur­spegl­ast í svör­un­um sem gervi­greind­in gef­ur okk­ur. Ef við leggj­um fullt traust á gervi­greind­ina til að aðstoða okk­ur þá gæti það leitt til auk­inn­ar upp­lýs­inga­óreiðu því gervi­greind­in met­ur ekki mann­lega þátt­inn og sann­leik­ann í þeim gögn­um sem hún vinn­ur úr.

Ég ræddi einnig um stöðu barna gagn­vart gervi­greind­inni í pall­borðinu. Fyrr á heimsþing­inu höfðu starfs­menn stærstu tæknifyr­ir­tækja heims mætt í pall­borð til að segja af­stöðu sinna fyr­ir­tækja gagn­vart gervi­greind­inni og töluðu um hana nær al­farið á já­kvæðu nót­un­um. Sú staðreynd að þessi fyr­ir­tæki hafa safnað gögn­um um hvert ein­asta manns­barn sem not­ar sam­fé­lags­miðla þeirra í mörg ár var lítið rædd í pall­borði tæknifyr­ir­tækj­anna. Áhugi þeirra á laga­setn­ingu í kring­um gervi­greind var líka mjög tak­markaður. En það er líka mjög erfitt að setja lög í kring­um gervi­greind. Ég nefndi að við gæt­um þó ein­blínt á þá hluta sem við gæt­um sett lög um; eins og per­sónu­vernd og gagna­söfn­un stór­fyr­ir­tækja. Á Íslandi nota 98% barna, eldri en 9 ára, síma. Sem þýðir að gagna­söfn­un um þau hefst mjög snemma og það er mjög lítið um alþjóðleg lög til að tak­ast á við það. Það er mik­il­vægt að all­ar þjóðir fari að huga að því að setja tækn­inni höml­ur – án þess þó að stöðva ný­sköp­un og tækni­fram­far­ir. Miðlalæsi, laga­setn­ing og alþjóðlegt sam­starf skipta sköp­um þegar kem­ur að gervi­greind­inni. Gervi­greind­in get­ur verið eitt af okk­ar helstu verk­fær­um til framþró­un­ar en ef við ger­um ekk­ert þá get­ur þetta orðið vopn sem snýst í hönd­un­um á okk­ur.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2023.

Categories
Fréttir

„Staðan er grafalvarleg“

Deila grein

12/10/2023

„Staðan er grafalvarleg“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, ræddi stöðu bænda í störfum þingsins og vitnaði hann til forsíðu síðasta tölublaðs Bændablaðsins þar sem segir í fyrirsögn: „Búrekstur nautgripabænda verulega þyngst.“

Sagði Þórarinn Ingi að verð á afurðum hafi ekki haldið í við hækkanir á aðföngum og vaxtahækkanir hafi bæst þar ofaná.

„Það er orðið svo að stór hluti þeirra bænda sem hafa staðið í fjárfestingum eiga verulega þungt um vik þessi misserin og það blasir við hjá mörgum ákveðið svartnætti, við skulum bara orða það þannig. Staðan er grafalvarleg hvað þetta varðar.“

Þórarinn Ingi sagði það ekki einkamál bænda að standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar, heldur væri það sameiginlegt verkefni ríkis og bænda.

„Nýliðun er því miður orðin orð sem maður heyrir allt of sjaldan. Það að gerast bóndi í dag er því miður bara ekki aðlaðandi verkefni. Það er ekki aðlaðandi fyrir ungt fólk að takast á við allar þær skyldur sem fylgja því að vera í búskap og þurfa síðan fyrir utan hefðbundinn vinnudag að fara í aðra vinnu til þess eins að geta framfleytt fjölskyldu sinni.“

Kallar Þórarinn Ingi eftir því að brugðist verði við, staðan greind og leiðir til ráða.

„Ef ekkert verður að gert þá mun fara illa og við eigum eftir að sjá á eftir þeirri matvælaframleiðslu sem við stundum í dag,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum.


Ræða Þórarins Inga í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Ég ætla að eyða þessum tveimur mínútum í að ræða stöðu bænda í dag hér á þessu landi. Fyrirsögn á forsíðu Bændablaðsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Búrekstur nautgripabænda verulega þyngst.“

Það er svo að verð á afurðum hefur ekki haldið í við hækkanir á aðföngum og þessar miklu vaxtahækkanir sem hafa verið. Það er orðið svo að stór hluti þeirra bænda sem hafa staðið í fjárfestingum eiga verulega þungt um vik þessi misserin og það blasir við hjá mörgum ákveðið svartnætti, við skulum bara orða það þannig. Staðan er grafalvarleg hvað þetta varðar.

Það er ekkert einkamál bænda að standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar. Fæðuöryggi þjóðarinnar er sameiginlegt verkefni ríkis og bænda. Nýliðun er því miður orðin orð sem maður heyrir allt of sjaldan. Það að gerast bóndi í dag er því miður bara ekki aðlaðandi verkefni. Það er ekki aðlaðandi fyrir ungt fólk að takast á við allar þær skyldur sem fylgja því að vera í búskap og þurfa síðan fyrir utan hefðbundinn vinnudag að fara í aðra vinnu til þess eins að geta framfleytt fjölskyldu sinni. Við þessu verðum við að bregðast með ýmsum ráðum og það eru væntanlega til mörg ráð. En fyrst þurfum við að setjast niður með bændum og fara yfir stöðuna, hvað er til ráða, því að ef ekkert verður að gert þá mun fara illa og við eigum eftir að sjá á eftir þeirri matvælaframleiðslu sem við stundum í dag.“

Categories
Fréttir

Samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038

Deila grein

11/10/2023

Samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mætli fyrir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 á Alþingi. Er hún lögð fram í einu lagi til 15 ára og aðgerðaáætlun fyrir fyrstu fimm árin, sérstaklega skilgreind.

„Fjárfesting í samgönguinnviðum er fjárfesting í samfélaginu og sýnir trú á framtíð þess. Hún styrkir grundvöll búsetu og eykur samkeppnishæfni. Landsmenn allir njóta ávaxtanna með beinum og óbeinum hætti. Þess vegna er mikilvægt að í samgönguáætlun sé unnið að því að ábati samfélagsins verði sem mestur.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

„Stefnumótunarferlið hófst í byrjun árs 2021 með vinnslu grænbókar, stöðumats um málaflokkinn ásamt tillögum að valkostum til framtíðar. Því næst var unnin hvítbók, en í henni birtust drög að stefnu málaflokksins. Við vinnslu beggja bóka voru haldnir opnir fundir í hverjum landshluta þar sem fram fóru umræður um áherslumál hvers þeirra og þátttakendum gafst færi á að koma áherslum sínum og skoðunum á framfæri. Bæði grænbókin og hvítbókin fóru í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda og að endingu fóru drög að þingsályktun um samgönguáætlun einnig í samráðsgátt nú í sumar,“ sagði Sigurður Ingi.

Samgönguáætlun er unnin með fjármálaáætlun til hliðsjónar fyrir árin 2024–2028. Aukist svigrúm munu arðbær verkefni og forgangsröðun framkvæmda breytast. Þar eru undir viðhald, þjónustustig vetrarþjónustu, almenna þjónustu og almenningssamgöngur.

„Við vinnslu áætlunarinnar var tekið tillit til niðurstaðna verkefnahópa um árangursmat umferðaröryggisaðgerða og áhrif loftslagsbreytinga á samgöngur og forsendur aðlögunar að þeim. Einnig niðurstöður fimm mismunandi starfshópa sem fjölluðu um eftirfarandi málefni: Stöðu barna og ungmenna í samgöngum, öryggi lendingarstaða, smáfarartæki, stöðu fatlaðs fólks í samgöngum og stöðu reiðvegamála. Þá var einnig horft til stöðugreiningar á samgöngum og jafnrétti,“ sagði Sigurður Ingi.

Markmiðin eru að samgöngur séu greiðar, öruggar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.

„Lykilviðfangsefni næstu ár verða áfram öryggi og fækkun slysa sem og uppbygging, viðhald og þjónusta samgöngumannvirkja. Þá skal þróun samgangna mæta þörfum samfélagsins þar sem áhersla er á umhverfis- og loftslagsmál, breyttar ferðavenjur, ólíkar þarfir barna, ungmenna og fatlaðs fólks í samgöngum sem og nýsköpun og þróun í samgöngumálum,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við, „stefnan, áherslur og aðgerðirnar í samgönguáætlun fela í sér mikil tækifæri til framfara fyrir bæði almenning og atvinnulíf og munu efla samkeppnishæfni einstakra landshluta og landsins í heild“.

Grunnnet samgangna — samgöngumannvirki sem bera meginþunga samgangna eru:

  • 5.000 km. af vegum sem m.a. tengja allar byggðir með yfir 100 íbúa,
  • 37 umferðamestu hafnirnar,
  • 13 flugvellir sem áætlunarflug er flogið á,
  • ferjuleiðir og
  • gáttir við útlönd.

Fjárhagsrammi fyrstu fimm ára áætlunarinnar tekur mið af fjármálaáætlun 2024–2028.

  • Á fimmtán ára tímabili áætlunarinnar er gert ráð fyrir að varið sé um 909 milljörðum kr. af fjárlögum til málaflokksins í heild.
  • Lagt er til að stærstum hluta verði varið til vegamála, eða um 710 milljörðum.
  • Á fyrsta fimm ára tímabilinu, 2024–2028, er gert ráð fyrir að 263 milljörðum verði ráðstafað til samgöngumála og þá í heild sinni, bæði til fjárfestinga og stofnana, viðhalds og þjónustu.

Á fyrstu fimm árunum fara:

  • 206 milljarðar til Vegagerðarinnar,
  • 21,5 milljarðar til flugvalla,
  • 14 milljarðar til Samgöngustofu,
  • 7,7 milljarðar til Hafnabótasjóðs og
  • 0,9 milljarðar til rannsóknarnefndar samgönguslysa.

„Mesta breyting á framlögum frá fyrri samgönguáætlunum er til flugvalla, en þar er gert ráð fyrir að upptaka varaflugvallagjalds muni auka til muna svigrúm til framkvæmda. Með því móti verður mögulegt að ráðast í mikilvægar framkvæmdir á varaflugvöllunum á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík. Þá munu framlög til framkvæmda og viðhalds flugvalla um land allt aukast til muna,“ sagði Sigurður Ingi.

Ræða Sigurðar Inga í heild sinni á Alþingi:


Gott að vita!

Vert er að nefna að hluti tillagna í samgönguáætluninni er settur fram með fyrirvara. Ástæður þess eru:

a) að niðurstöðu viðræðuhóps um samgöngusáttmála sem vinnur að uppfærslu á forsendum sáttmálans er að vænta á haustmánuðum, næstu vikum.

b) að heildstæðri endurskoðun á tekjuöflun ríkisins af farartækjum og umferð á vettvangi sameiginlegrar verkefnastofu innviðaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og forsætisráðuneytisins. Fjármögnun samgöngusáttmála, samvinnuverkefna og jarðgangaáætlunar mun taka mið af niðurstöðum þessarar verkefnastofu.

Um árabil hefur fjárfesting í viðhaldi þjóðvega hér á landi verið lægri en talið er nauðsynlegt svo ástand þeirra hraki ekki. Samhliða hefur umferðarálag, bæði í fjölda ökutækja og þyngd, aukist hratt sem enn eykur á viðhaldsþörfina.

Vegagerðin hefur áætlað að árlega þurfi að verja um 15 milljörðum kr. til viðhalds þjóðvega til þess að halda í við niðurbrot. Í tillögunni er lagt til að framlög til viðhalds vega verði samtals 68 milljarðar á tímabilinu 2024–2028.

Framlög til hafna um land allt eru nokkuð hærri en í síðustu áætlun. Samtals verður 7,7 milljörðum varið til málaflokksins á fyrsta tímabili samgönguáætlunarinnar.

Gangi áform þessarar þingsályktunartillögu að samgönguáætlun eftir munu leiðir styttast, svo sem með nýrri Hornafjarðarbrú, nýrri Ölfusárbrú, Sundabraut, Axarvegi, á Vestfjarðavegi í Gufudalssveit auk auðvitað þeirra jarðganga sem ráðast á í. Ábati samfélagsins af slíkum verkefnum er talinn í styttingu á ferðatíma, fækkun slysa og minni umhverfisáhrifum. Í krónum og aurum mælist hann í milljörðum og verður varanlegur um leið og ný mannvirki opna fyrir umferð.

Á næstu fimmtán árum verður lagt bundið slitlag á 619 km af tengivegum og 212 km af stofnvegum utan hálendis, eða á samtals 831 km af vegum sem í dag eru malarvegir.

Einbreiðum brúm á hringveginum verður útrýmt. Þar að auki mun einbreiðum brúm í vegakerfinu fækka um 79.

Þá munu 80 km af stofnvegum verða breikkaðir og akstursstefnur aðskildar með vegriði.

Þessi uppbygging mun stuðla að fækkun slysa og um leið draga úr þeim mikla kostnaði sem þau valda samfélaginu. Þá dregur stytting leiða og aukið bundið slitlag úr umhverfisáhrifum samgangna og kostnaði vegfarenda vegna slits ökutækja, eldsneytis og tíma.

Í áætluninni er lögð áhersla á það að koma á samvinnu milli einkaaðila og hins opinbera við uppbyggingu innviða og tryggja þannig að þjóðhagslegur ábati þeirra skili sér hraðar en ella. Samvinnuverkefnin, Hornafjarðarfljót, Ölfusá, Öxi, Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga, eiga það sameiginlegt að skapa mikinn samfélagslegan ábata með styttri ferðatíma, að ógleymdum vegi um láglendi Mýrdals og göngum í gegnum Reynisfjall.

Félagshagfræðilegt mat á Sundabraut hefur m.a. sýnt fram á gríðarlegan samfélagslegan ábata upp á 186–236 milljarða eftir útfærslu, auk þess sem heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150.000 km á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar. Í tillögunni er fjármagn til undirbúnings Sundabrautar tryggt, en gert er ráð fyrir að framkvæmdir við brautina hefjist árið 2026 og að hún opni fyrir umferð 2031. Unnið er að því að framkvæmdir og fjármögnun Sundabrautar verði samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila.

Í þessari samgönguáætlun er gert ráð fyrir því að innheimta veggjalda muni standa undir fjármögnun í heild eða að hluta framkvæmda við framkvæmdir samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðis, nýjan veg og brú yfir Hornafjarðarfljót, Axarveg, nýjan veg og brú yfir Ölfusá, Sundabraut og jarðgöng samkvæmt jarðgangaáætlun. Áformuð gjaldtaka samvinnuverkefna mun taka mið af ábata verkefnanna og þeim greiðsluvilja sem hann skapar.

Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins

Með samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sameinuðust ríki og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um framtíðarsýn og markmið fyrir samgöngur á svæðinu. Markmið samgöngusáttmála eru:

  • að auka lífsgæði á höfuðborgarsvæðinu með því að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu,
  • einnig að stuðla að því að ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda um sjálfbært, kolefnislaust borgarsamfélag,
  • stuðla að auknu umferðaröryggi, og
  • tryggja skilvirka framkvæmd og umgjörð verkefnisins.

Nú er unnið að uppfærslu á forsendum samgöngusáttmála og gerð viðauka við hann. Í tillögunni er því gerður fyrirvari á framkvæmdatöflu sáttmálans. Viðbúið er að niðurstöður viðræðuhóps ríkis og sveitarfélaga um málið munu hafa áhrif á hana.

Jarðgangaáætlun til 30 ára

Lögð er til forgangsröðun næstu tíu jarðganga á Íslandi ásamt fjórum öðrum jarðgangakostum til nánari skoðunar. Jarðgöngin eiga öll það sameiginleg að vera lykilþáttur í að treysta búsetuskilyrði um land allt og veita umferð fram hjá hættulegum og óáreiðanlegum fjallvegum. Um er að ræða flest jarðgöng sem komið hafa til umfjöllunar á síðustu árum. Stefnt er að því að allir jarðgangakostir komi til framkvæmda á næstu 30 árum og eru sett fram áform um árlega fjárfestingu, utan fjárhagsramma, á bilinu 12-15 milljarðar í jarðgangagerð til ársins 2038. Fjármögnun þeirrar fjárfestingar er hluti af heildstæðri endurskoðun tekjuöflunar af farartækjum og umferð.

Stöðug aukning umferðar

Þjóðvegir landsins eru samtals um 13.000 kílómetrar og á undanförnum árum hefur stöðug aukning umferðar og ekki síst aukin umferð þungra ökutækja á þjóðvegum aukið þörf á fjárfestingu, bæði nýframkvæmdum, viðhaldi og þjónustu. Sem dæmi má nefna að það stefnir í 7% aukningu á umferð um hringveginn á þessu ári samanborið við árið 2022 og umferð á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu níu mánuðum ársins hefur aukist um 4,7% frá áramótum miðað við sama tímabil árið á undan.

Í samgönguáætlun eru lagðar fram margar mikilvægar vegaframkvæmdir sem leiða til vegstyttinga og fækkunar einbreiðra brúa sem er hvort tveggja í þágu öryggis og umhverfis eins og ég nefndi áður. Meðal helstu vegaframkvæmda í tillögu að samgönguáætlun 2024–2038 eru:

  • lokaáfangar við tvöföldun Reykjanesbrautar,
  • framkvæmdir við Suðurlandsveg og
  • Kjalarnesveg þar sem akstursstefnur verða aðskildar.

Þá skal nefna stórfellda uppbyggingu á:

  • Skógarstrandavegi,
  • Vestfjarðavegi,
  • Vatnsnesvegi,
  • Norðausturvegi um Brekknaheiði og
  • Skjálfandafljót,
  • Bárðardalsvegi og
  • á hringvegi um Suðurfirði og
  • Lagarfljót,
  • um Lón og
  • við Skaftafell.

Fækkun einbreiðra brúa

Stefnt er að fækkun einbreiðra brúa um land allt. Nú er unnið að framkvæmdum við hringveg um Hornafjarðarfljót þar sem einbreiðum brúm fækkar um þrjár. Þá verður á næsta ári unnið að framkvæmdum utan hringvegar á Vestfjarðavegi og Bárðardalsvegi vestri um Öxará þar sem einbreiðum brúm mun fækka um níu.

Átak í lagningu bundins slitlags á tengivegi

Haldið verður áfram með átak í lagningu bundins slitlags á tengivegi út gildistíma áætlunarinnar með 2,5 milljarða kr. framlögum á ári. Áfram verður unnið að uppbyggingu á hjóla- og göngustígum um land allt, en framlög til stígakerfa á höfuðborgarsvæðinu eru hluti samgöngusáttmálans. Loks verður áfram hugað að uppbyggingu reiðstíga ásamt því að mótuð verður stefna um uppbyggingu og viðhald þeirra.

Öryggi í samgöngum

Áfram er unnið að metnaðarfullu markmiði um að öryggi í samgöngum á Íslandi verði á meðal þess sem best gerist hjá nágrannaþjóðunum og ekki verra en hjá þeim fimm bestu.

Gerðar eru öryggisáætlanir um flug, siglingar og umferð sem Samgöngustofa heldur utan um. Sérstök umferðaröryggisáætlun fyrir árin 2024–2038 sem og öryggisáætlun sjófarenda 2024–2038 eru fylgiskjöl með samgönguáætlun.

Áætlað er að umferðarslys og óhöpp kosti samfélagið milli 40 og 60 milljarða árlega. Mikil og góð greiningarvinna er unnin á gögnum um slys og brugðist við í árlegri framkvæmdaáætlun umferðaröryggisáætlunar sem unnin er í samvinnu ráðuneytisins, lögreglunnar, Vegagerðarinnar og Samgöngustofu.

Losun gróðurhúsalofttegunda

Eitt af brýnustu verkefnum næstu ára er svo að draga svo úr neikvæðum áhrifum samgangna að þau falli innan marka sjálfbærrar þróunar án þess þó að kostir góðra samgangna skerðist. Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum er einn af lykilþáttunum í að árangur náist í loftslagsmálum. Árið 2022 orsökuðu vegasamgöngur um þriðjung losunar gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands og var stærsti einstaki losunarflokkurinn.

Orkuskipti

Orkuskipti í samgöngum skapa mikil tækifæri í atvinnuþróun og í tillögunni er t.d. dregið fram að endurnýjun á ferjum ríkisins er brýn og að á fyrri hluta tímabilsins þurfi að undirbúa og hanna það skip sem næst verður endurnýjað og huga að útskiptum á orkugjöfum. Lögð er fram orkuskiptaáætlun í ferjum.

Categories
Fréttir

„Það þarf pólitískan stöðugleika, ekki óstöðugleika“

Deila grein

11/10/2023

„Það þarf pólitískan stöðugleika, ekki óstöðugleika“

„Við verðum að halda áfram að vinna, stjórnmálin hér, ríkisstjórnin og Alþingi allt, við verðum að taka höndum saman í þessu mikilvæga verkefni, að ná hér niður verðbólgu og vöxtum vegna þess að það er allra hagur, hvort sem litið er til fólksins í landinu eða fyrirtækja,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi.

Ræddi hann áskoranir er samfélagið þarf að takast á við í efnahagsmálum. Allt of margt sé að hækka, lán, matarkarfan, tryggingarnar o.s.frv.. Jafnframt sé verkefni framundan í vetur hjá aðilum vinnumarkaðarins að koma á nýjum kjarasamningum.

„Nú koma tíðindi af því að við þurfum jafnvel að byggja enn meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta er annað verkefni sem við þurfum að takast á hendur og verkefnin eru ærin,“ sagði Ágúst Bjarni og bætti við, „verðbólgan mun lækka, vextir munu lækka og til þess að svo megi verða þá þarf pólitískan stöðugleika, ekki óstöðugleika.“

„Svo er það alveg ljóst að á einhverjum tímapunkti í þessu þá munu verkin dæma og ég er alveg viss um það að þegar þau verk eru skoðuð til hlítar þá fær núverandi ríkisstjórn góða dóma,“ sagði Ágúst Bjarni.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Þrátt fyrir fréttir morgunsins og ákvörðun hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, ákvörðun sem ég ber virðingu fyrir, þá blasa við okkur áskoranir í efnahagsmálum, áskoranir sem við þurfum að takast á við. Hér er verðbólga, hér eru vextir háir. Það er allt að hækka, við finnum það hvert sem við förum, lánin okkar, matarkarfan, tryggingarnar o.s.frv., en það eru ýmis merki á lofti um að við séum þó að stefna í rétta átt. Húsnæðismarkaðurinn er annað. Nú koma tíðindi af því að við þurfum jafnvel að byggja enn meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta er annað verkefni sem við þurfum að takast á hendur og verkefnin eru ærin. Ofan á þetta koma kjarasamningar. Þetta er brýnt mál, mjög brýnt. Verðbólgan mun lækka, vextir munu lækka og til þess að svo megi verða þá þarf pólitískan stöðugleika, ekki óstöðugleika. Við verðum að halda áfram að vinna, stjórnmálin hér, ríkisstjórnin og Alþingi allt, við verðum að taka höndum saman í þessu mikilvæga verkefni, að ná hér niður verðbólgu og vöxtum vegna þess að það er allra hagur, hvort sem litið er til fólksins í landinu eða fyrirtækja. Svo er það alveg ljóst að á einhverjum tímapunkti í þessu þá munu verkin dæma og ég er alveg viss um það að þegar þau verk eru skoðuð til hlítar þá fær núverandi ríkisstjórn góða dóma.“

Categories
Fréttir Greinar

Byggðir í sókn í 10 ár

Deila grein

10/10/2023

Byggðir í sókn í 10 ár

Í síðustu viku fór fram kjördæmavika og þingmenn voru á ferð og flugi að heimsækja fyrirtæki, fólk og stofnanir. Margt stendur upp úr en sérstaklega ánægjulegt var að taka þátt í afmælismálþingi um byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir sem var haldið á Raufarhöfn. Verkefnið stendur á þeim tímamótum að fagna tíu ára starfsafmæli. 

Jákvæðni og samheldni

Allt frá fyrstu skrefum vakti verkefnið athygli stjórnvalda og hefur öðlast fastan sess í stefnu ríkisins í byggðamálum. Verkefnið er fjármagnað sem ein af 44 aðgerðum byggðaáætlunar sem ætlað er að styðja við blómleg byggðarlög um land allt. Það má með sanni segja að margt hafi breyst á áratug og mikilvægt er að nýta þessi tímamót til að meta árangurinn og halda áfram að finna leiðir til að efla smærri þorp og sveitir landsins. Hugmyndafræðin og vinnulagið sem unnið er eftir hefur hins vegar unnið sér verðskuldaðan sess. Sú hugmyndafræði gengur út á að efla þátttöku og frumkvæði íbúa. Á Norðausturlandi höfum við séð hvernig verkefni Brothættra byggða getur ýtt undir jákvæðni og samheldni íbúa. Byggðarlögin eru ólík að stærð og gerð, atvinnuvegirnir geta verið ólíkir en alltaf eru það íbúarnir sjálfir sem vita best á hverju skal byggja. 

Næg verkefni fram undan

Landsbyggðirnar eiga mikið inni og víða eru fræ í jörðu sem geta sprottið með næringu og alúð. Fjórtán byggðarlög hafa tekið þátt í Brothættum byggðum frá upphafi og í gegnum þetta átak hafa um 650 frumkvæðisverkefni íbúa fengið stuðning við að verða að veruleika. Þessir styrkir hafa hvatt fólk til dáða og leitt af sér alls kyns framtak sem hefur ekki bara auðgað nærsamfélögin, heldur auðgað íslenska menninguog sannarlega átt þátt í því að gera hvern landshluta enn skemmtilegri heim að sækja. 

Það eru næg verkefni eftir þegar horft er fram á við, verkefni sem stjórnvöld þurfa að koma að með einum eða öðrum hætti. Sameiginlegt viðfangsefni í öllum byggðum, svo eitthvað sé nefnt, eru húsnæðismálin. Þar er þörf á átaki svo húsnæðisskortur standi ekki uppbyggingu fyrir þrifum, hvorki í þessum landshluta né annars staðar. Samgöngur og aðrir innviðir eru grunnstoð samfélaga og forsenda uppbyggingar atvinnulífs. Núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu í þessum málaflokki en margt óunnið enn. Eins þurfum við að skipuleggja fiskveiðar við landið þannig að þær styðji við atvinnulíf og uppbyggingu sem víðast. Þessi og mörg önnur verkefni eru fram undan, og gott að hafa í huga nú þegar við fögnum þessum tímamótum. Brothættar byggðir eru frábært verkfæri og nú þurfum við bara að bæta í verkfærakistuna.

Til hamingju – byggðir í sókn í 10 ár!

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður NA.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 10. október 2023.