Gott að vita!
Vert er að nefna að hluti tillagna í samgönguáætluninni er settur fram með fyrirvara. Ástæður þess eru:
a) að niðurstöðu viðræðuhóps um samgöngusáttmála sem vinnur að uppfærslu á forsendum sáttmálans er að vænta á haustmánuðum, næstu vikum.
b) að heildstæðri endurskoðun á tekjuöflun ríkisins af farartækjum og umferð á vettvangi sameiginlegrar verkefnastofu innviðaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og forsætisráðuneytisins. Fjármögnun samgöngusáttmála, samvinnuverkefna og jarðgangaáætlunar mun taka mið af niðurstöðum þessarar verkefnastofu.
Um árabil hefur fjárfesting í viðhaldi þjóðvega hér á landi verið lægri en talið er nauðsynlegt svo ástand þeirra hraki ekki. Samhliða hefur umferðarálag, bæði í fjölda ökutækja og þyngd, aukist hratt sem enn eykur á viðhaldsþörfina.
Vegagerðin hefur áætlað að árlega þurfi að verja um 15 milljörðum kr. til viðhalds þjóðvega til þess að halda í við niðurbrot. Í tillögunni er lagt til að framlög til viðhalds vega verði samtals 68 milljarðar á tímabilinu 2024–2028.
Framlög til hafna um land allt eru nokkuð hærri en í síðustu áætlun. Samtals verður 7,7 milljörðum varið til málaflokksins á fyrsta tímabili samgönguáætlunarinnar.
Gangi áform þessarar þingsályktunartillögu að samgönguáætlun eftir munu leiðir styttast, svo sem með nýrri Hornafjarðarbrú, nýrri Ölfusárbrú, Sundabraut, Axarvegi, á Vestfjarðavegi í Gufudalssveit auk auðvitað þeirra jarðganga sem ráðast á í. Ábati samfélagsins af slíkum verkefnum er talinn í styttingu á ferðatíma, fækkun slysa og minni umhverfisáhrifum. Í krónum og aurum mælist hann í milljörðum og verður varanlegur um leið og ný mannvirki opna fyrir umferð.
Á næstu fimmtán árum verður lagt bundið slitlag á 619 km af tengivegum og 212 km af stofnvegum utan hálendis, eða á samtals 831 km af vegum sem í dag eru malarvegir.
Einbreiðum brúm á hringveginum verður útrýmt. Þar að auki mun einbreiðum brúm í vegakerfinu fækka um 79.
Þá munu 80 km af stofnvegum verða breikkaðir og akstursstefnur aðskildar með vegriði.
Þessi uppbygging mun stuðla að fækkun slysa og um leið draga úr þeim mikla kostnaði sem þau valda samfélaginu. Þá dregur stytting leiða og aukið bundið slitlag úr umhverfisáhrifum samgangna og kostnaði vegfarenda vegna slits ökutækja, eldsneytis og tíma.
Í áætluninni er lögð áhersla á það að koma á samvinnu milli einkaaðila og hins opinbera við uppbyggingu innviða og tryggja þannig að þjóðhagslegur ábati þeirra skili sér hraðar en ella. Samvinnuverkefnin, Hornafjarðarfljót, Ölfusá, Öxi, Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga, eiga það sameiginlegt að skapa mikinn samfélagslegan ábata með styttri ferðatíma, að ógleymdum vegi um láglendi Mýrdals og göngum í gegnum Reynisfjall.
Félagshagfræðilegt mat á Sundabraut hefur m.a. sýnt fram á gríðarlegan samfélagslegan ábata upp á 186–236 milljarða eftir útfærslu, auk þess sem heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150.000 km á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar. Í tillögunni er fjármagn til undirbúnings Sundabrautar tryggt, en gert er ráð fyrir að framkvæmdir við brautina hefjist árið 2026 og að hún opni fyrir umferð 2031. Unnið er að því að framkvæmdir og fjármögnun Sundabrautar verði samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila.
Í þessari samgönguáætlun er gert ráð fyrir því að innheimta veggjalda muni standa undir fjármögnun í heild eða að hluta framkvæmda við framkvæmdir samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðis, nýjan veg og brú yfir Hornafjarðarfljót, Axarveg, nýjan veg og brú yfir Ölfusá, Sundabraut og jarðgöng samkvæmt jarðgangaáætlun. Áformuð gjaldtaka samvinnuverkefna mun taka mið af ábata verkefnanna og þeim greiðsluvilja sem hann skapar.
Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins
Með samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sameinuðust ríki og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um framtíðarsýn og markmið fyrir samgöngur á svæðinu. Markmið samgöngusáttmála eru:
- að auka lífsgæði á höfuðborgarsvæðinu með því að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu,
- einnig að stuðla að því að ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda um sjálfbært, kolefnislaust borgarsamfélag,
- stuðla að auknu umferðaröryggi, og
- tryggja skilvirka framkvæmd og umgjörð verkefnisins.
Nú er unnið að uppfærslu á forsendum samgöngusáttmála og gerð viðauka við hann. Í tillögunni er því gerður fyrirvari á framkvæmdatöflu sáttmálans. Viðbúið er að niðurstöður viðræðuhóps ríkis og sveitarfélaga um málið munu hafa áhrif á hana.
Jarðgangaáætlun til 30 ára
Lögð er til forgangsröðun næstu tíu jarðganga á Íslandi ásamt fjórum öðrum jarðgangakostum til nánari skoðunar. Jarðgöngin eiga öll það sameiginleg að vera lykilþáttur í að treysta búsetuskilyrði um land allt og veita umferð fram hjá hættulegum og óáreiðanlegum fjallvegum. Um er að ræða flest jarðgöng sem komið hafa til umfjöllunar á síðustu árum. Stefnt er að því að allir jarðgangakostir komi til framkvæmda á næstu 30 árum og eru sett fram áform um árlega fjárfestingu, utan fjárhagsramma, á bilinu 12-15 milljarðar í jarðgangagerð til ársins 2038. Fjármögnun þeirrar fjárfestingar er hluti af heildstæðri endurskoðun tekjuöflunar af farartækjum og umferð.
Stöðug aukning umferðar
Þjóðvegir landsins eru samtals um 13.000 kílómetrar og á undanförnum árum hefur stöðug aukning umferðar og ekki síst aukin umferð þungra ökutækja á þjóðvegum aukið þörf á fjárfestingu, bæði nýframkvæmdum, viðhaldi og þjónustu. Sem dæmi má nefna að það stefnir í 7% aukningu á umferð um hringveginn á þessu ári samanborið við árið 2022 og umferð á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu níu mánuðum ársins hefur aukist um 4,7% frá áramótum miðað við sama tímabil árið á undan.
Í samgönguáætlun eru lagðar fram margar mikilvægar vegaframkvæmdir sem leiða til vegstyttinga og fækkunar einbreiðra brúa sem er hvort tveggja í þágu öryggis og umhverfis eins og ég nefndi áður. Meðal helstu vegaframkvæmda í tillögu að samgönguáætlun 2024–2038 eru:
- lokaáfangar við tvöföldun Reykjanesbrautar,
- framkvæmdir við Suðurlandsveg og
- Kjalarnesveg þar sem akstursstefnur verða aðskildar.
Þá skal nefna stórfellda uppbyggingu á:
- Skógarstrandavegi,
- Vestfjarðavegi,
- Vatnsnesvegi,
- Norðausturvegi um Brekknaheiði og
- Skjálfandafljót,
- Bárðardalsvegi og
- á hringvegi um Suðurfirði og
- Lagarfljót,
- um Lón og
- við Skaftafell.
Fækkun einbreiðra brúa
Stefnt er að fækkun einbreiðra brúa um land allt. Nú er unnið að framkvæmdum við hringveg um Hornafjarðarfljót þar sem einbreiðum brúm fækkar um þrjár. Þá verður á næsta ári unnið að framkvæmdum utan hringvegar á Vestfjarðavegi og Bárðardalsvegi vestri um Öxará þar sem einbreiðum brúm mun fækka um níu.
Átak í lagningu bundins slitlags á tengivegi
Haldið verður áfram með átak í lagningu bundins slitlags á tengivegi út gildistíma áætlunarinnar með 2,5 milljarða kr. framlögum á ári. Áfram verður unnið að uppbyggingu á hjóla- og göngustígum um land allt, en framlög til stígakerfa á höfuðborgarsvæðinu eru hluti samgöngusáttmálans. Loks verður áfram hugað að uppbyggingu reiðstíga ásamt því að mótuð verður stefna um uppbyggingu og viðhald þeirra.
Öryggi í samgöngum
Áfram er unnið að metnaðarfullu markmiði um að öryggi í samgöngum á Íslandi verði á meðal þess sem best gerist hjá nágrannaþjóðunum og ekki verra en hjá þeim fimm bestu.
Gerðar eru öryggisáætlanir um flug, siglingar og umferð sem Samgöngustofa heldur utan um. Sérstök umferðaröryggisáætlun fyrir árin 2024–2038 sem og öryggisáætlun sjófarenda 2024–2038 eru fylgiskjöl með samgönguáætlun.
Áætlað er að umferðarslys og óhöpp kosti samfélagið milli 40 og 60 milljarða árlega. Mikil og góð greiningarvinna er unnin á gögnum um slys og brugðist við í árlegri framkvæmdaáætlun umferðaröryggisáætlunar sem unnin er í samvinnu ráðuneytisins, lögreglunnar, Vegagerðarinnar og Samgöngustofu.
Losun gróðurhúsalofttegunda
Eitt af brýnustu verkefnum næstu ára er svo að draga svo úr neikvæðum áhrifum samgangna að þau falli innan marka sjálfbærrar þróunar án þess þó að kostir góðra samgangna skerðist. Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum er einn af lykilþáttunum í að árangur náist í loftslagsmálum. Árið 2022 orsökuðu vegasamgöngur um þriðjung losunar gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands og var stærsti einstaki losunarflokkurinn.
Orkuskipti
Orkuskipti í samgöngum skapa mikil tækifæri í atvinnuþróun og í tillögunni er t.d. dregið fram að endurnýjun á ferjum ríkisins er brýn og að á fyrri hluta tímabilsins þurfi að undirbúa og hanna það skip sem næst verður endurnýjað og huga að útskiptum á orkugjöfum. Lögð er fram orkuskiptaáætlun í ferjum.