Categories
Fréttir

„Vinna þarf gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu“

Deila grein

24/08/2023

„Vinna þarf gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur kynnt í ríkisstjórn þá ákvörðun að setja af stað vinnu sem miðar að því að gefa út reglur um farsímanotkun í grunnskólum landsins, en hún er óvíða eins mikil og hér á landi. Verða reglurnar unnar í víðtæku samráði við foreldra og börn, sveitarfélög, skólastjórnendur, kennara og aðra hagaðila, og gert ráð fyrir að þær verði nýttar sem leiðbeinandi viðmið fyrir grunnskóla við setningu skólareglna um farsímanotkun. Eitt meginstefið þar sé að tryggja fullnægjandi fræðslu um símanotkun og forvarnir til að stuðla gegn þeim mögulegu neikvæðu áhrifum sem hún getur haft í skólum.

„Tækninni fleygir fram og ljóst að henni fylgja ekki eingöngu kostir. Vinna þarf gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu. Skjánotkun er mikil hérlendis og fer vaxandi. Skoðanir eru skiptar í samfélaginu og skólareglur misjafnar eða jafnvel ekki til staðar. Við ætlum að skilgreina viðmið fyrir grunnskóla og auka fræðslu í þessum efnum til að bregðast við þessari þróun með farsæld barna að leiðarljósi, og hjálpa þeim þannig að bregðast við,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Í nýrri rannsókn Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands kemur fram að næstum öll íslensk börn í grunnskóla eigi eigin farsíma, eða 95% barna í 4.–7. bekk og 98% barna í 8.–10. bekk. Hlutfall barna og ungmenna sem nota netið til að leysa skólaverkefni er lágt í yngstu bekkjunum en eykst með aldrinum, frá því að vera 7% sem gera það daglega í 4.–7. bekk, 38% í 8.–10. bekk og í framhaldsskóla stendur hlutfallið í 74%.

Notkun upplýsinga- og samskiptatækni gegnir mikilvægu hlutverki í skólastarfi en samhliða þarf að vinna markvisst gegn neikvæðum afleiðingum tækninnar á börn og ungmenni í íslensku menntakerfi. Nýjar rannsóknir benda til þess að mikil aukning sé í skjátíma, sérstaklega hjá börnum og að aukningin hafi meðal annars neikvæð áhrif á svefn, andlega og líkamlega heilsu barna. Þá hafa rannsóknir sýnt að takmarkanir á notkun farsíma í skólum bæta námsárangur, sérstaklega hjá nemendum sem eru með slakan námsárangur.

📲Flest börn á Íslandi eiga snjallsíma og þeim fylgja fjölmörg tækifæri sem við eigum að nýta. En þessari miklu…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Fimmtudagur, 24. ágúst 2023

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Íbúakosningar sveitarfélaga

Deila grein

23/08/2023

Íbúakosningar sveitarfélaga

Drög að reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga á grundvelli 133. gr. sveitarstjórnarlaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 1. september nk.

Ný reglugerð fjallar um allar tegundir íbúakosninga sveitarfélaga en markmiðið er að einfalda og minnka umfang íbúakosninga sveitarfélaga og veita sveitarfélögum meira vald hvað kosningarrétt varðar í ráðgefandi íbúakosningum. Reglugerðinni er jafnframt ætlað að auka lýðræðisþáttöku og sjálfbærni sveitarfélaga og efla þannig sveitarstjórnarstigið. 

Alþingi samþykkti í júní 2022 lög sem fólu í sér breytingar á ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem fjalla um íbúakosningar sveitarfélaga. Lögin fela m.a. í sér að íbúakosningar sveitarfélaga færu ekki lengur fram á grundvelli meginreglna kosningalaga heldur á grundvelli reglna sem sveitarfélög skyldu setja sér sjálf um framkvæmd slíkra kosninga. Ráðherra sveitarstjórnarmála ber samkvæmt lögunum að setja reglugerð um þau lágmarksatriði sem geta þyrfti um í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar til að tryggja örugga framkvæmd þeirra. Breytingarnar höfðu þau markmið að skýra og einfalda framkvæmd íbúakosninga og að minnka umfang þeirra og kostnað án þess að vega að öryggi og vandaðri framkvæmd slíkra kosninga.

Innviðaráðherra staðfesti reglugerð um íbúakosningar nr. 323/2023 þann 14. mars sl. á grundvelli laganna. Vinna við gerð reglugerðarinnar leiddi þó í ljós að til staðar væru ákvæði í sveitarstjórnarlögum sem gerðu það að verkum að framkvæmd íbúakosninga væri enn óþarflega þung í vöfum og takmarkaði möguleika sveitarfélaga á að nýta sér það úrræði að halda íbúakosningar til að leita eftir vilja íbúa í einstöku málum. Af þeirri ástæðu hafði innviðaráðaráðherra frumkvæði að því að í frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á kosningalögum, sem lagt var fram á Alþingi á vordögum, voru lagðar til frekari breytingar á þeim ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem fjalla um íbúakosningar.

Frumvarp þess efnis var samþykkt á Alþingi í júní sl. þar sem gerðar voru ýmsar breytingar sem höfðu það markmið að einfalda og minnka umfang íbúakosninga ásamt því að sveitarfélögum var veitt meira vald hvað kosningarrétt varðar í ráðgefandi íbúakosningum og var litið til þess að breytingin væri til þess fallin að auka sjálfbærni sveitarfélaga, auka lýðræðisþátttöku og efla þannig sveitarstjórnarstigið.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Ofanflóðavarnir til að verja íbúðabyggð hafa sannað gildi sitt

Deila grein

21/08/2023

Ofanflóðavarnir til að verja íbúðabyggð hafa sannað gildi sitt

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, var í liðinni viku á ferð um Múlaþing og Fjarðabyggð og átti ánægjuleg samtöl við sveitarstjórnarfólk og aðra fulltrúa byggðarlaganna.

„Við Íslendingar þekkjum flestum betur hvernig er að búa við náttúruvá. Hér verða reglulega stórir jarðskjálftar, eldsumbrot og aftakaveður koma hér af og til. Landsmenn hafa aðlagað sig þessum aðstæðum og umfangsmikið rannsóknar- og vöktunarstarf er unnið í því skyni að tryggja hér lífvænleg skilyrði til búsetu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson

Ofanflóðavarnir til að verja íbúðabyggð hafa sannað gildi sitt. Slíkar aðgerðir munu áfram vera í forgangi stjórnvalda. Jafnframt er nú tímabært og nauðsynlegt að huga að undirbúningi á atvinnusvæðum og skipulagi m.t.t. náttúruvá ásamt aukinni vöktun á snjóflóðahættusvæðum.

„Því er mikill fengur að vandaðri samantekt frá Veðurstofunni um þörf fyrir varnir á atvinnusvæðum og eiga fundi með íbúum um niðurstöður hennar. Auk þess gæti eldri þekking sem er við það að falla í gleymskunar dá komið að góðum notum. Útfærslan er eftir, áskorunin stór sem unnin er í samráði við heimamenn,“ segir Sigurður Ingi.

Við Íslendingar þekkjum flestum betur hvernig er að búa við náttúruvá. Hér verða reglulega stórir jarðskjálftar,…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Föstudagur, 18. ágúst 2023
Categories
Greinar

Áfram Árneshreppur og hvað svo?

Deila grein

18/08/2023

Áfram Árneshreppur og hvað svo?

Árneshreppur á Ströndum tók þátt í verkefni Byggðastofnunar „Brothættar byggðir“. Um er að ræða verkefni sem byggir á byggðaáætlun og er hluti af áætlun Byggðastofnunar til að aðstoða byggðarlög sem standa höllum fæti. „Áfram Árneshreppur“ en svo kallast verkefnið í Árneshreppi, var hrundið af stað árið 2018 og er nú komið á loka metrana.

Undirrituð sat íbúafund í Árnesi í gær þar sem farið var yfir hvernig verkefnið hefur tekist til og hvernig íbúar sæju fyrir sér þau tækifæri sem komin eru í gang mættu lifa til framtíðar. Það var augljóst á fundinum að íbúar töldu verkefnið hafa heppnast vel og að þeir styrkir sem fengist hafa í tengslum við það hafi ýtt á stað frjóum hugmyndum sem þegar eru farnar að blómstra. Auk þess hefur krafturinn nýst við að ýta á stað ljósleiðaravæðingu í hreppnum og þrífösun rafmagns sem nú er langt á veg komin. Við slíkan innblástur og kraft vaknar bjartsýni og vilji til að viðhalda uppbyggingu. Verkefni brothættra byggða er ætlað að aðstoða byggðarlög sem hafa glímt við viðvarandi fólksfækkun ásamt því að atvinna og þjónusta hafi veikst. Í Árneshreppi hafði verið viðvarandi fækkun síðustu áratugi en frá því að verkefnið hófst árið 2018 hefur þróunin snúist við og aftur fjölgað í hreppnum. Það má því segja að verkefnið hafi farið vel af stað.

Bættar samgöngur

Já markmiðinu er náð. En hvert er þá framhaldið? Líklega að viðhalda því sem náðst hefur og halda svo áfram.

Það voru því mikil vonbrigði að sjá að framlögð samgönguáætlun gerir ráð fyrir að fresta enn frekar framkvæmdum á Veiðileysuhálsi sem hefjast átti á árinu 2024 til ársins 2029. Það er algjörlega taktlaust í kjölfar vel heppnaðra aðgerða hins opinbera á síðustu fimm árum í byggðarlaginu að bregðast svo á ögurstundu. Áfram Árneshreppur hefur skilað tugmilljóna styrkjum frá hinu opinbera í lífvænleg verkefni og gildandi samgönguáætlun algjörlega í takti við það markmið að efla byggðarlagið.

Vetrarþjónusta mikilvæg

Frá Bjarnarfirði norður í Norðurfjörð eru liðlega 75 km. Það er vissulega áskorun að halda uppi öruggri vetrarþjónustu um vegi sem liggja um krappar hlíðar, háls og vegslóða sem liggja með landslaginu en eru ekki uppbyggðir. Hluti leiðarinnar er þó með ágætum og ekki snjóþungur. Nú síðustu tvo vetur hefur vetrarþjónustan verið aukin þegar fallið var frá G-reglu snjómoksturs og hefur það gefist vel. Var um tilraunaverkefni að ræða og mikilvægt er að ekki verið fallið aftur í sama farið heldur frekar horft á þörf og aðstæður. Flug á Gjögur er mikilvægt en getur þó aldrei komið í stað samgangna á landi.

Það er ekki bara vilji íbúa Árneshrepps að halda uppi góðu mannlífi í byggðarlaginu, það hlýtur að vera vilji okkar allra að blása í glæðurnar og efla enn frekar kraftinn sem býr á Ströndum. Því verður áfram að vera Áfram Árneshreppur!

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Deila grein

17/08/2023

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Framtíð háskólamenntunar felst ekki í nafnlausum nemendum sem einangrast bak við skjáinn. Framtíð háskólamenntunar utan höfuðborgarsvæðisins verður ekki tryggð nema með því að nýta tæknina og bjóða upp á öflugt og fjölbreytt fjarnám. Þessar tvær fullyrðingar eru ekki í trássi hver við aðra en við þurfum að finna stofnunum okkar form þar sem sá sannleikur sem er fólginn í þeim báðum nær að raungerast og, allt í senn, treysta búsetu, efla samfélög og auka lífsgæði yngri kynslóða.

Horfum til reynslunnar

Ein best heppnaða tilraun síðustu ára til að skapa lifandi náms- og rannsóknarumhverfi á forsendum nærsamfélagsins er í mínum huga Háskólasetur Vestfjarða. Setrið er markverð miðstöð fyrir fjölda nemenda og starfsmanna, er segull fyrir erlenda gesti frá háskólasamfélögum víða um heim, sinnir áríðandi rannsóknum í samstarfi við stofnanir innan og utan Vestfjarða, og stendur fyrir merkilegri húsnæðisuppbyggingu heima í héraði í formi stúdentagarða. Háskólinn á Akureyri er að sjálfsögðu dæmi um aðra framúrskarandi vel heppnaða byggðaaðgerð, enda var skólinn brautryðjandi í að færa námstækifæri nær íbúum landsbyggðanna. Skólinn hefur haft afgerandi áhrif á framtíðarbúsetu og búsetuþróun í krafti þeirra tækniframfara sem hafa gert fjarnám mögulegt. Ekki aðeins á Akureyri heldur mun víðar. Þannig naut Austurland t.a.m. góðs af vaxandi fjölda hjúkrunarfræðinga og kennara sem voru staðráðin í að lifa, læra og starfa í sinni heimabyggð. Það er mikilvægt að halda upp á þessa sögu, horfa til reynslunnar og byggja á henni til framtíðar.

Vert er að geta þess að fyrrnefndar stofnanir eiga í gjöfulu samstarfi um sjávartengt meistaranám á Vestfjörðum. Fjölmargar aðrar mennta- og rannsóknastofnanir víða um land koma með einum eða öðrum hætti að námi á háskólastigi. Við eigum að leiða krafta þeirra saman undir því sameiginlega markmiði að fjölga tækifærum til náms, og því höfuðmarkmiði að gera ungu fólki um allt land kleift að starfa í lifandi, frjóu og skemmtilegu námsumhverfi. Okkur sem þjóð hefur hingað ekki borið sú gæfa að ná þessu markmiði nema að takmörkuðu leyti, enda hafa tilraunir til þess verið brotakenndar enn sem komið er. Háskóli Íslands hefur ekki sinnt þessu hlutverki og ef til vill eigum við ekki að gera slíka kröfu til stofnunarinnar. Þau verkefni, og með þeim það hlutverk, sem við ætlum Háskóla Íslands eru ærin og má vel vera að byggðaleg sjónarmið samræmist ekki að öllu leyti starfsemi skólans. Stofnun rannsóknasetra HÍ um allt land er sannarlega viðleitni í þá átt en þrátt fyrir gott starf er ljóst að tækifæri hafa líka glatast allt of víða.

Landsbyggðarháskóli með víðfeðmt starfssvæði

Það er af þessari ástæðu sem ég fagna ekki að öllu leyti nýjustu fregnum af hugsanlegri sameiningu Háskóla Íslands og Hólaskóla, þótt eflaust megi finna í því skrefi samlegð og tækifæri til eflingar. Og af þessari ástæðu sömuleiðis sem ég spyr mig, hvort ekki hefði verið nær að fela stjórnendum Hólaskóla táknrænt umboð þess efnis að leiða samtal mennta- og rannsóknastofnana sem flestra landshluta utan höfuðborgarsvæðisins? Stofnun sérstaks landsbyggðarháskóla myndi skerpa á markmiðum sem eru, eða ættu að vera, sameiginleg. Háskóli sem hefði víðfeðmt starfssvæði og tengdi saman starfsemi fjölbreyttra stofnana, stuðlaði að auknu framboði fjarnáms, gerði það aðgengilegra og ýtti undir virkara rannsóknasamstarf.

Hólaskóli – Háskóli landsbyggðanna er ef til vill ekki verra nafn en hvað annað, með vísan í merka sögu sem hægt er að sameinast um. Leiðandi og framsækin stofnun, drifkraftur heima í héraði – sem víðast!

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri og sérfræðingur á sviði byggðaþróunar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Nýr tónn sleginn með nýrri miðstöð

Deila grein

17/08/2023

Nýr tónn sleginn með nýrri miðstöð

Tíma­mót urðu fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf í vik­unni þegar ný Tón­list­armiðstöð var form­lega stofnuð. Stofnaðilar henn­ar eru menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið f.h. rík­is­sjóðs, STEF, Fé­lag hljóm­plötu­fram­leiðenda, Fé­lag ís­lenskra hljómlist­ar­manna, Fé­lag kenn­ara og stjórn­enda í tón­list­ar­skól­um og Tón­skálda­fé­lag Íslands.

Hlut­verk Tón­list­armiðstöðvar er fjöl­breytt en mun hún bæði sinna fræðslu og stuðningi við tón­listar­fólk og tón­list­artengd fyr­ir­tæki, styðja við upp­bygg­ingu tón­list­ariðnaðar­ins, kynna ís­lenska tónlist og tón­listar­fólk á er­lendri grundu og vera nótna­veita fyr­ir ís­lensk tón­verk. Tón­list­armiðstöð mun styðja við upp­bygg­ingu sprota og hlúa að ferli lista­fólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjöl­breytni og grósku og að starfs­um­hverfið verði nú­tíma­legt og hvetj­andi fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf. Með til­komu miðstöðvar­inn­ar mun tón­list­ar­lífið eign­ast sína eig­in kynn­ing­armiðstöð líkt og aðrar list­grein­ar.

Tón­list­armiðstöð er sjálf­seign­ar­stofn­un sem rek­in er á einka­rétt­ar­leg­um grunni með sjálf­stæðri fjár­hags­ábyrgð og starfar sam­kvæmt sér­stakri skipu­lags­skrá sem stjórn set­ur og staðfest­ir.

Stofn­un Tón­list­armiðstöðvar var ein af til­lög­um starfs­hóps sem ég skipaði á degi ís­lenskr­ar tón­list­ar, hinn 1. des­em­ber 2020. Hlut­verk hóps­ins var að rýna um­hverfi tón­list­ar­geir­ans á Íslandi, skoða hvernig stuðnings- og sjóðakerfi tón­list­ar yrði best skipu­lagt, vinna drög að tón­list­ar­stefnu og skil­greina hlut­verk og ramma Tón­list­armiðstöðvar. Það er óneit­an­lega skemmti­legt að sjá þann mikla ár­ang­ur sem náðst hef­ur fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu frá 1. des­em­ber 2020. Síðastliðið vor var þings­álykt­un­ar­til­laga um tón­list­ar­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030 samþykkt á Alþingi ásamt fyrstu heild­ar­lög­un­um um tónlist. Á þeim grunni rís hin nýja Tón­list­armiðstöð sem stofnuð var í gær.

Ég vil þakka starfs­hópn­um fyr­ir sína frá­bæru vinnu en hann skipuðu Jakob Frí­mann Magnús­son, Bald­ur Þórir Guðmunds­son, Bragi Valdi­mar Skúla­son, Bryn­dís Jónatans­dótt­ir, Eiður Arn­ars­son, Gunn­ar Hrafns­son, María Rut Reyn­is­dótt­ir, Sól­rún Sum­arliðadótt­ir og Val­gerður Guðrún Hall­dórs­dótt­ir.

Ég legg á það þunga áherslu að styrkja um­gjörð menn­ing­ar í land­inu og stuðla að aukn­um at­vinnu­tæki­fær­um og verðmæta­sköp­un henni tengdri. Til marks um það er ráðgert að sam­tals 600 millj­ón­ir renni af fjár­lög­um 2023-2025 til stofn­un­ar Tón­list­armiðstöðvar og til efl­ing­ar sjóða tón­list­ar til viðbót­ar við þau fram­lög sem renna nú þegar til tón­list­ar.

Við fyll­umst öll stolti þegar sam­lönd­um okk­ar vegn­ar vel á þessu sviði og ná langt meðal ann­ars á er­lendri grundu. Þeir nýju tón­ar sem við slá­um nú fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu munu skila sér marg­falt til baka. Ég óska tón­listar­fólk­inu okk­ar inni­lega til ham­ingju með þenn­an áfanga, og hlakka til að hlusta á afrakst­ur­inn í framtíðinni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Afl til allra átta

Deila grein

16/08/2023

Afl til allra átta

Margs konar tækifæri og áskoranir fylgja aukinni ferðaþjónustu. Áherslur hafa breyst og uppbygging hefur á sér ýmsar myndir líkt og fjölbreytt verkefni hringinn í kringum landið bera með sér. Við getum nú skoðað fleiri minjar, höfum aðgengi að nýjum stöðum og aðkoma að dýrmætum náttúruperlum hefur bæst til muna. Ásamt þessu hefur aðstaða fyrir gesti aldrei verið betri.

Mikilvægt er að brugðist sé við óskum um innspýtingu vegna uppbyggingar efnislegra innviða á ferðamannastöðum í kjölfar mikillar fjölgunar ferðamanna. Frá árinu 2018 hefur yfir 4,7 milljörðum verið veitt úr landsáætlun til uppbyggingar í fjölmörgum verkefnum. Því fjármagni hefur verið skipt á um 170 staði um allt land. Umsjónaraðilar hafa unnið vel að því undirbúa svæðin betur svo þau geti tekið á móti þeim aukna gestafjölda sem framtíðin ber í skauti sér. Það er því gott að sjá að gert er ráð fyrir um 2,7 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára, en betur má ef duga skal.

Mikilvægt fjármagn

Þann 11. ágúst sl. bárust fréttir frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um að 908 milljónum króna yrði úthlutað úr Landsáætlun til uppbyggingar innviða á þessu ári skv. úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum. Fjármagnið veitir mikilvæg tækifæri til að setja fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, eflingu öryggis, skipulag og hönnun við ferðamannastaði. Hins vegar er þörf á endurskoðun á skiptingu þess milli landshluta.

Þörf á jafnri skiptingu

Þegar litið er til úthlutunar fjármagns úr Landsáætlun eftir landshlutum kemur í ljós að veruleg misskipting er milli landsvæða. Bróðurpartur fjármagnsins, 71%, hefur farið í eina átt, þ.e. til Suðurlands. Þetta er annað árið í röð sem meirihluti fjármagnsins er úthlutað til Suðurlands. Árið 2022 fór rétt um 50% af 908 milljónum króna í verkefni tengd uppbygginu innviða á Suðurlandi.

Barist er fyrir stöndugri ferðaþjónustu um allt land, en á mörgum stöðum er nauðsynlegt að frekari uppbygging innviða eigi sér stað á fjölförnum stöðum svo að það gangi upp. Það á við á allri landsbyggðinni þar sem auðlindir eru víða og tækifæri í ferðaþjónustu eru fjölmörg en að mörgu leyti vanýtt. Tenging milli úthlutunarinnar og stefnu stjórnvalda um dreifingu ferðamanna er ekki auðsýnileg. Sérstaklega ekki þegar kemur að þeim verkefnum, sem finnast um land allt og kalla á frekari uppbyggingu. Fjölmörg verkefni bíða okkar og ákallið kemur úr öllum áttum. Það skiptir sköpum að fjármunir séu nýttir með þeim hætti að þeir efli spennandi uppbyggingu í öllum landshlutum á jafnan máta.

Samfélagið, þingmenn og ráðherrar þurfa að átta sig á að misskipting fjármagns á milli landshluta af þessu tagi ýtir sannarlega ekki undir það markmið að allir hafi jöfn tækifæri óháð búsetu.

Þarna þurfum við að gera betur.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. ágúst 2023.

Categories
Fréttir

Ný Tónlistarmiðstöð!

Deila grein

16/08/2023

Ný Tónlistarmiðstöð!

Tónlistarmiðstöðin mun verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og tónlistariðnaðar, sinna bæði fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Til hamingju með daginn íslenskt tónlistarfólk – og við öll!

Í dag fór fram stofnfundur Tónlistarmiðstöðvar í Hörpu. Stjórn Tónlistarmiðstöðvar var kynnt á fundinum en formaður stjórnar miðstöðvarinnar er Einar Bárðarson.

Stjórnina skipa auk Einars þau Sólrún Sumarliðadóttir, Ásmundur Jónsson, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Hrafnsson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal. Varamenn í stjórn verða Arna Kristín Einarsdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson, Sölvi Blöndal, Bragi Valdimar Skúlason, Margrét Eir Hönnudóttir, Bergrún Snæbjörnsdóttir og Aron Örn Óskarsson.

Á viðburðinum í Hörpu tóku meðal annars til máls Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Steindór Dan Jensen formaður bráðabirgðastjórnar og Einar Bárðarson nýr formaður Tónlistarmiðstöðvar. Einnig ávarpaði Jakob Frímann Magnússon gesti fyrir hönd starfshópsins sem vann að nýsamþykktri tónlistarstefnu og stofnun Tónlistarmiðstöðvar.

„Þetta er mikill gleðidagur og einstaklega mikilvægur áfangi fyrir tónlist og tónlistarfólk hér á landi. Þetta er löngu tímabært skref sem mun styrkja tónlistargeirann til framtíðar. Tónlistarmiðstöðin getur orðið einn af hornsteinum tónlistarlífs og -iðnaðar og það er mín von og trú að tónlistarsenan hér á landi muni blómstra sem aldrei fyrr,“ sagði menningar- og viðskiptaráðherra í Hörpu í dag.

Stofnaðilar Tónlistarmiðstöðvar eru STEF, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Tónskáldafélag Íslands auk menningar- og viðskiptaráðherra f.h. ríkissjóðs. Öll félögin eiga fulltrúa í stjórninni. Tónlistarmiðstöð starfar samkvæmt nýjum tónlistarlögum, nr. 33/2023.

Hornsteinn í íslensku tónlistarlífi

Tónlistarmiðstöð er stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Á árunum 2023-2025 er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum til stofnunar Tónlistarmiðstöðvar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar.

„Ég þakka starfshópnum og bráðabirgðastjórninni fyrir vel unnið starf. Tónlistarmiðstöð er afrakstur samstarfs tónlistargeirans og ráðuneytisins og byggir á tillögum grasrótarinnar. Með góðu samstarfi má svo sannarlega hrinda stórum hugmyndum í framkvæmd á tiltölulega skömmum tíma,“ sagði ráðherra meðal annars í ávarpi sínu í dag.

Ný stjórn Tónlistarmiðstöðvar tekur við af bráðabirgðastjórn en hana skipuðu Steindór Dan Jensen, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Hrafnsson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal.

Starfshópinn sem vann að undirbúningi stofnunar Tónlistarmiðstöðvar skipuðu Jakob Frímann Magnússon, Baldur Þórir Guðmundsson, Bragi Valdimar Skúlason, Bryndís Jónatansdóttir, Eiður Arnarsson, Gunnar Hrafnsson, María Rut Reynisdóttir, Sólrún Sumarliðadóttir og Valgerður Guðrún Halldórsdóttir,

Uppbygging tónlistariðnaðar

Tónlistarmiðstöðin mun bæði sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð mun styðja við uppbyggingu sprota og hlúa að ferli listafólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjölbreytni og grósku og að starfsumhverfið verði nútímalegt og hvetjandi fyrir íslenskt tónlistarlíf.

Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og til að greiða leið íslensks tónlistarfólks, innan lands sem utan.

Tónlistarmiðstöð er sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá sem stjórn setur og staðfestir.

Gleðidagur! 🎶🎼🎵 Ný Tónlistarmiðstöð var formlega stofnuð í dag. Tilkoma hennar mun marka vatnaskil í stuðningi við…

Posted by Lilja Dögg Alfreðsdóttir on Þriðjudagur, 15. ágúst 2023
Categories
Fréttir

Ný framkvæmdaráætlun í barnavernd!

Deila grein

16/08/2023

Ný framkvæmdaráætlun í barnavernd!

„Er ótrúlega ánægður með áframhaldandi róttækar breytingar í málefnum barna. Þessar breytingar eru mikilvægt framhald af vinnu sem nú er í gangi og  byggja á þeim grunni sem lagður er með niðurlagningu pólitískra barnaverndarnefnda og þeim áhrifum sem lög um farsæld barna eru byrjuð að hafa.

Það er ánægjulegt að í fyrsta skipti var haft sérstakt samráð við börn sem hafa reynslu af barnaverndarkerfinu og þeirra innlegg voru mjög mikilvæg,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Morgunverðarfundur mennta- og barnamálaráðuneytisins um nýja framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2023 til 2027 fór fram í vikunni og voru á fundinum kynntar tillögur að aðgerðum og fyrirkomulagi þjónustu við börn með fjölþættan vanda.

Upptöku frá fundinum má nálgast hér.

Ný framkvæmdaráætlun felur m.a. í sér:

  • Fjölgun úrræða fyrir börn og fjölskyldur þeirra þar sem m.a. verða sett upp ný meðferðarúrræði.
  • Öll alvarleg atvik í lífi barna verði könnuð í þeim tilgangi að koma auga á tækifæri til úrbóta í þjónustu við börn.
  • Heildarendurskoðun barnaverndarlaga þar sem sérstaklega verði endurskipulögð öll úrræði í málefnum barna og settur verði hámarksbiðtími eftir nauðsynlegri þjónustu.
  • Samhæfing í vinnslu allra barnaverndarmála verður aukin.
  • Endurskipulagningu verklags í þjónustu við fylgdarlaus börn.
  • Umhverfi barnaverndarstarfsmanna verði bætt með ýmsum aðgerðum.
  • Unnið verði að því að stofnanir og þjónustuaðilar í málefnum barna sameinist á einum stað með það að markmiði að stytta boðleiðir og auka skilvirkni.
  • Samstarf verði aukið við fjölskyldur, börn, nærumhverfi barna og kerfa sem hafa aðkomu að málefnum barna.

„Takk allir sem komu að þessari vinnu – Saman erum við að breyta kerfinu fyrir okkar mikilvægustu borgara.“

Ný framkvæmdaráætlun í barnavernd! Er ótrúlega ánægður með áframhaldandi róttækar breytingar í málefnum barna. Þessar…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Þriðjudagur, 15. ágúst 2023
Categories
Greinar

Blómlegum bæ í uppbyggingu fylgir alls konar rask

Deila grein

15/08/2023

Blómlegum bæ í uppbyggingu fylgir alls konar rask

Við í Framsókn Akureyri viljum sjá bæinn okkar blómstra og þeirri uppbyggingu fylgir eðlilega alls konar tæki og tól. Það getur verið kostnaðarsamt fyrir t.d. minni fyrirtæki að koma sér upp lóðum/stæðum fyrir þau tæki sem fylgja starfseminni, enda gera gatnagerðargjöld ráð fyrir miklu byggingarmagni og gjaldskráin eftir því. Þá þarf að leita annarra lausna sem eru sniðnar að mismunandi þörfum.

Ég hef talað fyrir því að koma til móts við fyrirtæki og einstaklinga með því að bjóða upp á vaktað geymslusvæði eins og tíðkast í mörgum sveitarfélögum. Á síðasta skipulagsráðsfundi var samþykkt þessi tillaga mín: Haldinn verður opinn fundur með verktökum, atvinnurekendum og félagasamtökum þar sem rætt verður um hvort grundvöllur sé fyrir því að koma upp vöktuðu geymslusvæði í bæjarlandinu þar sem einstaklingar og fyrirtæki geti leigt pláss fyrir svo sem ökutæki, gáma, hjólhýsi og vinnuvélar.

Það er von mín að fyrirtæki og einstaklingar í bænum taki vel í þessar hugmyndir og mæti í samtalið svo við getum í sameiningu fundið lausn á málum. Hvort sem þetta verður niðurstaðan, eða ef önnur betri finnst, þá getum við ekki látið stöðuna óáreitta.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 14. ágúst 2023.