Categories
Fréttir Greinar

Verðmætasköpun þjóða ákvarðar lífskjör og hagvöxt

Deila grein

03/04/2025

Verðmætasköpun þjóða ákvarðar lífskjör og hagvöxt

Það sem ræður mestu um lífs­kjör þjóða og getu þeirra til að byggja upp vel­ferðarsam­fé­lög og fjár­festa til framtíðar, er get­an til að skapa verðmæti. Þessi verðmæta­sköp­un er kjarni hag­vaxt­ar, at­vinnu og auk­inna lífs­gæða. Kenn­ing­ar hins skoska hag­fræðings Adams Smith, sem birt­ust árið 1776 í verki hans Auðlegð þjóðanna, leggja grunn­inn að efna­hags­legri hugs­un um hvernig þjóðir auka hag­sæld. Smith lagði mikla áherslu á sér­hæf­ingu og verka­skipt­ingu sem und­ir­stöðu fram­leiðniaukn­ing­ar. Með því að leyfa ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um að sér­hæfa sig í því sem þau gera best og eiga frjáls viðskipti sín á milli skap­ast hvat­ar til ný­sköp­un­ar, auk­inn­ar fram­leiðni og betri nýt­ing­ar auðlinda. Í þessu sam­hengi gegn­ir sam­keppn­is­hæfni þjóðar lyk­il­hlut­verki.

Af hverju að rifja upp þessa klass­ísku hag­fræðikenn­ingu Smiths? Tvennt kem­ur þar til. Ann­ars veg­ar fer Trump-stjórn­in mik­inn þessa dag­ana og hef­ur í hyggju að setja af stað mikið tolla­stríð um heim all­an. Ný-merkan­tíl­ismi Trumps virðist vera að ryðja sér til rúms. Af­leiðing­arn­ar hafa birst okk­ur á öll­um helstu mörkuðum, þar sem hluta­bréfa­verð hef­ur hríðlækkað og gull­verð er í hæstu hæðum. Óvissa á mörkuðum er ráðandi. Af­leiðing­arn­ar fyr­ir ís­lenska hag­kerfið eru óljós­ar en óviss­an dreg­ur úr hag­vexti. Hins veg­ar, þá hef­ur rík­is­stjórn Íslands kynnt aukn­ar álög­ur á okk­ar helstu út­flutn­ings­grein­ar. Mér finnst rétt að greidd séu auðlinda­gjöld í auðlinda­hag­kerfi, en það skipt­ir máli hvernig það er gert og á hvaða tíma­punkti. Eins skipt­ir máli að af­leidd áhrif séu skoðuð gaum­gæfi­lega og ábata­grein­ing sé gerð. Það er ábyrgðarleysi að sinna ekki þess­ari vinnu og líka virðing­ar­leysi gagn­vart þeim sam­fé­lög­um sem reiða sig á af­komu þess­ara at­vinnu­greina. Sam­vinna er lyk­ill­inn að vel­gengni. Ríkið þarf að vera til fyr­ir­mynd­ar í þeim efn­um.

Auðlegð Íslands velt­ur á því að sam­keppn­is­staða grunn­atvinnu­greina okk­ar sé sterk. Alþjóðahag­kerfið er á fleygi­ferð þessa dag­ana og óviss­an mik­il. Þess vegna er svo brýnt að vandað sé til verka og ekki sé efnt til óvinafagnaðar. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in sem kynnt var í vik­unni reiðir sig á hóf­leg­an hag­vöxt og lækk­andi verðbólgu. Ef ekki rætt­ist úr hag­vext­in­um, þá er rík­is­fjár­mála­áætl­un­in kom­in í upp­nám.

Vel­sæld á Íslandi hef­ur auk­ist veru­lega síðustu ára­tugi. Allt bygg­ist þetta á því að verðmæta­sköp­un eigi sér stað í vöru- og þjón­ustu­út­flutn­ingi. Ef þreng­ir að út­flutn­ingi þjóðar­inn­ar, þá minnk­ar hag­sæld hratt. Á óvissu­tím­um þarf að þétta raðirn­ar og styðja við ís­lenska hags­muni, ekki skaða þá. Ef Ísland ætl­ar að tryggja áfram­hald­andi vöxt og lífs­gæði þarf að leggja áherslu á aukna verðmæta­sköp­un. Með því að hlúa að sam­keppn­is­hæfni get­ur þjóðin tryggt sér betri framtíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­arlilja­alf@gmail.com

Greinin birtit fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl 2025.

Categories
Fréttir

„Frjáls Palestína“

Deila grein

02/04/2025

„Frjáls Palestína“

Fida Abu Libdeh, varaþingmaður, gagnrýndi ríkisstjórnina í störfum þingsins á Alþingi fyrir að standa ekki við yfirlýst markmið sín um að vera málsvari mannréttinda og alþjóðalaga. Hún sagði ríkisstjórnina hafa brugðist loforðum sínum varðandi stuðning við Palestínumenn eftir að Ísrael rauf vopnahlé þann 18. mars síðast liðinn.

Í aðdraganda kosninga lýstu ráðherrar yfir að Ísland myndi beita sér fyrir mannréttindum, réttlæti og styðja við börn og aðra varnarlausa hópa á átakasvæðum. Fida minnti sérstaklega á yfirlýsingar forsætisráðherra og utanríkisráðherra um að Ísland myndi taka leiðandi hlutverk meðal Norðurlandanna í viðbrögðum við mannréttindabrotum Ísraels.

„En hvað höfum við séð? Þögn. Frá 18. mars, þegar Ísrael rauf vopnahlé, hafa yfir 1.000 manns verið drepnir, þar af 355 börn. Þau sem lifa eru svelt af ásetningi. Ísrael hindrar að matur og lyf og hjálp berist,“ sagði Fida. Hún benti á að nýjustu fréttir greindu frá pyndingum og aftökum heilbrigðisstarfsfólks sem væri dæmi um alvarlega stríðsglæpi. Fida sagði það ekki samræmast yfirlýstri utanríkisstefnu Íslands að þegja þegar slík voðaverk eiga sér stað.

„Virðulegi forseti. Sem kona, sem móðir, sem þingkona fædd og alin upp í Palestínu get ég ekki horft á þessa þögn lengur. Hvað þýðir að vera málsvari mannréttinda ef við þegjum þegar börn eru drepin?“ spurði hún og bætti við að tími orða væri liðinn og nú væri kominn tími aðgerða.

Fida kallaði eftir því að ríkisstjórnin stæði við loforð sín og gripi til markvissra aðgerða. Hún hvatti sérstaklega til þess að Ísland tæki virkan þátt með Suður-Afríku í kærumáli gegn Ísrael og ynni að samræmdum viðskiptalegum þvingunum í samstarfi við Norðurlöndin. Fida sagði þetta skyldu Íslands sem smáríkis sem viðurkenndi sjálfstæði Palestínu árið 2011 og sæti á í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

„Frjáls Palestína,“ sagði Fida að lokum.

***

Ræða Fidu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Nú eru 100 dagar liðnir frá því að ný ríkisstjórn tók við. Í aðdraganda kosninga hétu ráðherrar því að Ísland myndi standa fyrir réttlæti, fyrir mannréttindi, standa með börnum í stríði, með þeim sem ekkert hafa nema vonir. Þar var sagt að Ísland yrði málsvari mannréttinda og alþjóðalaga. En hvað höfum við séð? Þögn. Frá 18. mars, þegar Ísrael rauf vopnahlé, hafa yfir 1.000 manns verið drepnir, þar af 355 börn. Þau sem lifa eru svelt af ásetningi. Ísrael hindrar að matur og lyf og hjálp berist. Nýjustu fréttir segja frá pyndingum og aftökum á heilbrigðisstarfsfólki. Líkin eru falin, merki glæpsins þurrkuð út. Þetta eru ekki bara staðreyndir, þetta eru stríðsglæpir. Ísland, sem segist byggja utanríkisstefnu sína á mannréttindum, þegir.

Virðulegi forseti. Sem kona, sem móðir, sem þingkona fædd og alin upp í Palestínu get ég ekki horft á þessa þögn lengur. Hvað þýðir að vera málsvari mannréttinda ef við þegjum þegar börn eru drepin? Við megum ekki leyfa afskiptaleysi að verða að stefnu Íslands. Tími orða er liðinn. Tími aðgerða er kominn. Ríkisstjórnin verður að standa við eigin loforð. Forsætisráðherra hefur kallað eftir því að Ísland leiði Norðurlöndin í samtali um viðskiptaþvinganir gegn Ísrael. Utanríkisráðherra segir að hernaðurinn beri merki þjóðarmorðs. En ef það er raunin, hvar eru aðgerðirnar? Ísland verður að taka virkan þátt með Suður-Afríku í kærumálinu gegn Ísrael. Við verðum að vinna að samræmdum viðskiptalegum þvingunum með Norðurlöndunum. Það er okkar skylda sem smáríkis sem viðurkenndi sjálfstæði Palestínu árið 2011 og á sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Frjáls Palestína.“

Categories
Fréttir

Ókynntur varnarsamningur við Bandaríkin?

Deila grein

02/04/2025

Ókynntur varnarsamningur við Bandaríkin?

Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmaður, vakti athygli í störfum þingsins á breytingum sem gerðar voru á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna árið 2017. En málið er til umræðu eftir umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kveiks á RÚV, þar sem fram kom að breytingarnar hafi hvorki verið ræddar opinberlega né birtar.

Jóhann Friðrik benti á að samkvæmt 24. grein þingskapa skuli utanríkismálanefnd Alþingis vera ríkisstjórninni til ráðgjafar varðandi meiri háttar utanríkismál. Stjórnvöldum beri skylda til að kynna slík mál fyrir nefndinni jafnt á þingtíma sem í þinghléi.

Viðmælendur Kveiks lýstu því að umrædd breyting hefði átt að vera kynnt utanríkismálanefnd, þar sem hún fól í sér ákveðnar skuldbindingar milli ríkjanna. Utanríkisráðuneytið hafi hins vegar metið svo að breytingarnar væru einungis tæknilegs eðlis og þyrfti því ekki að leggja fyrir Alþingi. Jóhann Friðrik vakti sérstaklega athygli á því að undirritun samningsins hefði farið fram í október 2017, á þeim tíma sem starfsstjórn var við völd. Hann lýsti því yfir að venjan sé sú að meiri háttar ákvarðanir séu ekki teknar við slíkar aðstæður.

Jóhann Friðrik hefur óskað eftir því að utanríkismálanefnd Alþingis fái fullnægjandi skýringar á ferlinu til að eyða allri óvissu. Hann undirstrikaði mikilvægi þess að opinská umræða um varnar- og öryggismál fari fram á vettvangi Alþingis, ekki síst til að tryggja traust þjóðarinnar og bandalagsþjóða Íslands.

„Við eigum ekki að forðast að ræða mikilvæg varnar- og öryggismál,“ sagði Jóhann Friðrik og lagði áherslu á að öryggishagsmunir Íslands væru í húfi og að öllum skuldbindingum yrði að vera skýrt og greinilega miðlað.

***

Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Frú forseti. Það má með sanni segja að umfjöllun Kveiks í gær um öryggis- og varnarmál hafi vakið upp ýmsar spurningar. Það kom fram að breyting hafi verið gerð á varnarsamningi Bandaríkjanna og Íslands árið 2017 sem hvorki var rædd opinberlega né birt hérlendis svo vitað sé. Samkvæmt viðmælendum Kveiks var þarna um að ræða skuldbindingu sem sannarlega hefði átt að vera kynnt utanríkismálanefnd þingsins. Ég lagði til við hv. utanríkismálanefnd í morgun að nefndin fengi skýringar á því ferli sem þarna fór fram og var því vel tekið. En af hverju er ég að velta þessu fyrir mér? Jú, það er vegna þess að skv. 24. gr. þingskapa skal utanríkismálanefnd vera ríkisstjórn til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál, enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál, jafnt á þingtíma sem og í þinghléi. Svo virðist sem utanríkisráðuneytið hafi á þeim tíma talið óþarft að leggja samninginn fyrir Alþingi, í honum fælust einungis tæknilegar útfærslur. Ég ætla ekki að setja mig í dómarasæti hvað það varðar en ég tel mikilvægt að við komumst til botns í því og eyðum allri óvissu. Ef upplýsingar mínar reynast réttar, að skrifað hafi verið undir samninginn í október 2017, var það á þeim tíma sem starfsstjórn var í landinu. Hingað til höfum við haft það þannig að meiri háttar ákvarðanir eru ekki teknar við slíkar aðstæður.

Virðulegi forseti. Bandaríkin eru og verða ein af okkar helstu bandalagsþjóðum. Ég vænti þess að jafnvel muni samstarf ríkjanna varðandi öryggis- og varnarmál aukast á næstu misserum. Við eigum ekki að forðast að ræða mikilvæg varnar- og öryggismál. Ég tel að ríkisstjórnin sé að setja aukinn þunga í málaflokkinn vegna þeirra öryggishagsmuna sem fyrir liggja. Það má ekki vera vafi um skuldbindingar okkar. Við eigum að taka virkan þátt í varnarsamstarfinu og skapa traust meðal þjóðarinnar og bandalagsþjóða okkar með opinni umræðu.“

Categories
Fréttir

Ákvörðun um lokun Janusar – hugmyndafræðileg aðför að einkaframtakinu

Deila grein

02/04/2025

Ákvörðun um lokun Janusar – hugmyndafræðileg aðför að einkaframtakinu

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi í störfum þingsins ákvörðun heilbrigðisráðherra um að loka Janusi endurhæfingu, úrræði sem þjónar ungmennum með fjölþættan geðrænan og félagslegan vanda. Sagði hún þetta sérstaklega kaldhæðnislegt einmitt í dag á degi einhverfra.

Janus endurhæfing hefur starfað með árangri og hjálpað mörgum ungmennum sem hafa ekki fundið viðeigandi aðstoð annars staðar innan kerfisins. „Hjá Janusi eru fræðimenn og fagfólk sem hefur byggt upp úrræði sem skilar árangri og nú á að leggja þessa endurhæfingu niður þrátt fyrir að engin sambærileg lausn sé tilbúin í staðinn. Við höfum fengið að heyra rangfærslur um árangur en starfsemi Janusar hefur skilað 56% árangri,“ sagði Ingibjörg.

Nú stendur til að færa þjónustuna til VIRK, en fagfólk, þar á meðal geðlæknar og aðrir sérfræðingar, hafa lýst yfir efasemdum um að nauðsynleg fagþekking sé þar til staðar.

Ingibjörg lýsti yfir alvarlegum áhyggjum af því að engin sambærileg lausn væri tilbúin til að taka við hlutverki Janusar. Hún bendir á að ákvörðunin virðist byggð á hugmyndafræðilegum grundvelli gegn einkareknum úrræðum, þar sem líklegt sé að öðruvísi yrði staðið að málum ef Janus væri ríkisrekið. Hún gagnrýnir einnig þögn stjórnarþingmanna sem áður hafa talað fyrir eflingu geðheilbrigðisþjónustu. „Þögn ríkisstjórnarflokkanna er ærandi. Stjórnarþingmenn sem hafa barist fyrir eflingu í geðheilbrigðismálum þegja nú þunnu hljóði.“

Ingibjörg sagði þetta væri „ekki spurning um kerfi heldur um fólk, ungt fólk sem hefur reynt allt annað í kerfinu“. Hún lýsti örvæntingu foreldra yfir því að missa þetta mikilvæga úrræði og spurði hver bæri ábyrgð þegar ungmennin myndu standa án stuðnings og falla milli skips og bryggju.

Ingibjörg kallaði eftir því að ríkisstjórnin myndi tryggja áframhaldandi rekstur og eflingu úrræðisins fremur en að leggja það niður. „Það á aldrei að kasta ungu fólki út í óvissuna,“ sagði hún. „Og ef ríkisstjórnin ætlar að þegja munum við tala og við munum hafa hátt.“

***

Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það er kaldhæðni í því að í dag, á degi einhverfra, stöndum við frammi fyrir grafalvarlegri ákvörðun sem snertir einn viðkvæmasta hóp samfélagsins, ungmenni með fjölþættan geðrænan og félagslegan vanda. Úrræðinu sem hefur veitt þeim von, Janusi endurhæfingu, á að loka. Hjá Janusi eru fræðimenn og fagfólk sem hefur byggt upp úrræði sem skilar árangri og nú á að leggja þessa endurhæfingu niður þrátt fyrir að engin sambærileg lausn sé tilbúin í staðinn. Við höfum fengið að heyra rangfærslur um árangur en starfsemi Janusar hefur skilað 56% árangri. Við höfum horft upp á heilbrigðisráðherra reyna að réttlæta sína ákvörðun með því að færa þjónustuna til VIRK, þrátt fyrir að fagfólk, m.a. geðlæknar og fagaðilar sem vinna beint með þessum hópi, hafi lýst yfir að þar liggi ekki sú fagþekking sem þarf. Þetta er hættulegt skref.

Þögn ríkisstjórnarflokkanna er ærandi. Stjórnarþingmenn sem hafa barist fyrir eflingu í geðheilbrigðismálum þegja nú þunnu hljóði. Það er grunsemd sem læðist að mörgum, og hún er ekki úr lausu lofti gripin, að ef Janus hefði verið ríkisrekið úrræði værum við eflaust ekki að kljást við þetta. Það lítur út fyrir að vera hugmyndafræðileg aðför að einkaframtakinu. Það er hætt að styðja það sem virkar, einfaldlega af því að það er ekki hluti af kerfinu. En þetta er ekki spurning um kerfi, þetta er spurning um fólk, ungt fólk sem hefur reynt allt annað í kerfinu. Foreldrar lýsa því að hafa fyrst fundið von í Janusi og nú eru þeir örvæntingarfullir og hræddir um börnin sín. Við getum ekki sett okkur í spor þeirra en við verðum að hlusta á þau. Hver ber ábyrgð þegar ungmenni falla milli skips og bryggju, þegar þau sitja eftir tómarúmi og án stuðnings? Það á ekki að leggja niður úrræði sem virkar. Það á að efla það og það á aldrei að kasta ungu fólki út í óvissuna. Það á að tryggja aðgengi að þjónustu sem virkilega skiptir máli. Og ef ríkisstjórnin ætlar að þegja munum við tala og við munum hafa hátt.“

Categories
Fréttir

Áfram Grindavík!

Deila grein

02/04/2025

Áfram Grindavík!

Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmaður, ræddi í störfum þingsins ellefta gosið á gostímabilinu á Reykjanesi og að Grindavík hafi verið rýmd enn einu sinni.

„Varnargarðar hafa hingað til sannað gildi sitt en náttúran er óútreiknanleg og sú sprunga sem opnaðist í morgun stendur þvert á varnargarð fyrir ofan bæinn. Kvikugangurinn sem myndaðist í morgun er um 11 kílómetra langur og einn sá lengsti frá því að atburðir hófust. Skjálftavirkni er töluverð og heldur áfram og er ófyrirséð. Við erum vanmáttug gagnvart afli náttúrunnar,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Eftir allt sem á undan hefur gengið var ég að vonast til þess að þessu færi að ljúka en við erum ekki svo heppin. Enn á ný, virðulegi forseti, eru vinir okkar í Grindavík barðir niður.“

„Enn á ný tökum við skref aftur á bak eftir góð skref fram á við,“ sagði Jóhann Friðrik.

Í Grindavík höfðu fyrirtæki hafið takmarkaða starfsemi, bæjarskrifstofur opnað ekki alls fyrir löngu og von um bjartari tíma var farin að skjóta rótum.

„Við eigum öfluga viðbragðsaðila og ég er þess fullviss að þeir muni gera allt sem þeir geta á næstu klukkutímum til að verja innviði ef svo þarf. Sem fyrr munum við Suðurnesjabúar þétta raðirnar og halda áfram að takast á við þær áskoranir sem við okkur blasa. Þó að óvissan sé mikil þá má hún ekki hafa lamandi áhrif á okkur. Stjórnvöld verða að halda áfram að standa með Grindavík og við verðum að sýna samkennd og æðruleysi í ljósi aðstæðna og því vil ég segja, kæri þingheimur, virðulegi forseti: Áfram Grindavík,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Ný nálgun í samgöngumálum – ekki „flækja einfalda hluti“

Deila grein

02/04/2025

Ný nálgun í samgöngumálum – ekki „flækja einfalda hluti“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, kallaði eftir nýrri nálgun í fjármögnun og viðhaldi vegakerfisins í ræðu í störfum þingsins á Alþingi. Hann benti á að núverandi fjármögnun væri ófullnægjandi og að aukinn kostnaður vegna hækkunar á hráefni og aðföngum hefði gert stöðuna enn erfiðari.

„Ég held að við öll sem erum hér í þessum sal séum sammála því að ástand vegakerfisins sé ábótavant. Uppsöfnuð viðhaldsþörf er orðin slík að nánast er ógerningur að vinna á henni með þeim fjármunum sem ætlaðir eru til viðhalds í fjárlögum hvers árs,“ sagði Stefán Vagn og bætti við að boðuð aukning upp á 7 milljarða kr. í nýrri fjármálaáætlun væri engan veginn nægjanleg.

Stefán Vagn lagði fram tillögu um að nýta svokallað „Hvalfjarðargangamódel“ sem fyrirmynd við gjaldtöku og fjármögnun samgönguframkvæmda. Hann sagði módel þetta hafa sýnt fram á árangur bæði hérlendis og í Færeyjum, þar sem það hefur verið notað með góðum árangri.

„Við vitum hvaða leið við þurfum að fara. Hún hefur verið farin hér áður með góðum árangri, svo góðum að vinir okkar í Færeyjum ákváðu að taka hana upp og nota sem fyrirmynd við sína jarðgangagerð. Það er vissulega kaldhæðnislegt að við skulum síðan tala um að taka módel upp eftir þeim,“ sagði Stefán Vagn og bætti við að Íslendingar ættu stundum til að „flækja einfalda hluti“.

***

Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Mig langar hér í dag að ræða aðeins um samgöngumál og fjármögnun vegakerfis á Íslandi. Ég held að við öll sem erum hérna inni í þessum sal séum sammála því að ástandi vegakerfisins sé ábótavant, enda hefur komið fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf vegakerfisins sé af þeirri stærðargráðu að nánast er ógerningur að vinna á henni svo heitið getur með þeim fjármunum sem ætlaðir eru til viðhalds vega í fjárlögum hvers árs. Krafa um mikilvægar og ábatasamar nýjar framkvæmdir um allt land eru sömuleiðis kostnaðarsamar og því ljóst að fjármagn sem ætlað er til samgöngumála, viðhalds og nýframkvæmda dugir skammt. Taka verður inn í reikninginn að hækkanir á hráefni og aðföngum hafa orðið verulegar á síðustu árum sem eru ekki til þess fallnar að hjálpa okkur í þessu verkefni. Sú aukning sem boðuð er í nýrri fjármálaáætlun upp á 7 milljarða kr. á tímabili áætlunarinnar dugar því skammt. Samgönguáætlun er ekki enn fram komin og því ómögulegt að reyna að átta sig á hvernig einstökum framkvæmdum líður. Þó má vera ljóst að allt tal og hugmyndir um að hafa tvenn eða jafnvel þrenn jarðgöng í framkvæmd á hverjum tíma eru ekki að fara að ganga eftir og varla ein miðað við þetta.

Sama hvar í flokki við erum hljótum við að vera sammála um að það þurfi nýja nálgun á verkefnið. Við þurfum að horfa á nýjar leiðir í gjaldtöku og fjármögnun á nýframkvæmdum. Með þeim hætti væri hægt að setja mun meira af fjármagni til viðhalds og vinna þannig betur á innviðaskuldinni. Ég held við vitum nokkuð hvaða leið við þurfum að fara. Hún hefur verið farin hér áður og gekk vel, svo vel að vinir okkar í Færeyjum ákváðu að taka hana upp og nota sem módel í jarðgangagerð þar. Ég er að tala um Hvalfjarðargangamódelið, virðulegur forseti, módel sem við bjuggum til, Færeyingar tóku upp eftir okkur og við tölum síðan um að taka upp eftir Færeyingum. Við eigum það til að flækja einfalda hluti.“

Categories
Fréttir

„Þegar hallar á landsbyggðina þá hallar á konur og hallar á konur í nýsköpun“

Deila grein

01/04/2025

„Þegar hallar á landsbyggðina þá hallar á konur og hallar á konur í nýsköpun“

Fida Abu Libdeh, varaþingmaður, flutti í dag jómfrúarræðu sína á Alþingi þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi stuðnings við nýsköpun og menntun á landsbyggðinni, sérstaklega á Suðurnesjum. Hún benti á að konur í nýsköpun hafi oft misst af tækifærum vegna ójafnræðis og takmarkaðs aðgengis að fjármagni og ráðgjöfum.

Fida sagði Keili – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, hafi verið lykilstofnun fyrir menntun og nýsköpun á Suðurnesjum. „Ef stuðningur við skólann hverfur, hvaða tækifæri höfum við á Suðurnesjum? Þetta er ekki bara mál landsbyggðarinnar heldur mál kvenna. Þegar hallar á landsbyggðina þá hallar á konur og hallar á konur í nýsköpun,“ sagði hún.

Hún lagði áherslu á nauðsyn þess að háskólanám, starfsnám, endurmenntun og frumkvöðlasetur verði áfram aðgengilegt á Suðurnesjum. Það væri forsenda þess að ungt fólk og frumkvöðlar, sérstaklega konur, fái tækifæri til að vaxa og blómstra á svæðinu.

„Ég skora á hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnina í heild að horfa til landsbyggðarinnar og stöðu kvenna sem lykilatriðis í framtíðarsýn þjóðarinnar og hefja alvöruuppbyggingu þar sem nýsköpun, menntun og jafnrétti mynda órofa heild,“ sagði Fida að lokum.

***

Ræða Fidu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég stíg hér í dag í ræðustól með eldmóð í hjarta og þrá eftir breytingum, ekki aðeins fyrir nýsköpun heldur fyrir alla þá sem hafa staðið utan kerfis. Ég er að tala fyrir landsbyggðina, ég er að tala fyrir nýsköpun, ég er að tala fyrir konur í nýsköpun. Þær hafa oft misst af tækifærum vegna ójafnræðis. Ég flutti til Suðurnesja sem ung kona með drauma og vonir eftir að hafa barist fyrir því að fá tækifæri til að öðlast menntun. Í Keili – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, opnaðist leið mín til nýsköpunar og framtíðar en nú ríkir óvissa í okkar heimabyggð. Keilir sem hefur verið lykilstofnun menntunar og nýsköpunar berst fyrir tilveru sinni. Ef stuðningur við skólann hverfur, hvaða tækifæri höfum við á Suðurnesjum? Þetta er ekki bara mál landsbyggðarinnar heldur mál kvenna. Þegar hallar á landsbyggðina þá hallar á konur og hallar á konur í nýsköpun. Við höfum takmarkað aðgengi að fjármagni, við höfum takmarkað aðgengi að ráðgjöfum. Við höfum líka lítið tengslanet. Við verðum að tryggja að háskólanám, starfsnám, endurmenntun og frumkvöðlasetur verði aðgengileg í okkar heimabyggð á Suðurnesjum þar sem ungt fólk og frumkvöðlar, ekki síst konur, konur af erlendum uppruna, fá tækifæri til að vaxa og blómstra. Það þarf skýra áætlun um menntasetur á Suðurnesjum sem byggir undir framtíðarsýn svæðisins.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnina í heild að horfa til landsbyggðarinnar og stöðu kvenna sem lykilatriðis í framtíðarsýn þjóðarinnar og hefja alvöruuppbyggingu þar sem nýsköpun, menntun og jafnrétti mynda órofa heild. — Takk fyrir.“

Categories
Fréttir Greinar

Fram­tíð Öskju­hlíðar

Deila grein

01/04/2025

Fram­tíð Öskju­hlíðar

Nú þegar búið er að ljúka við nauðsynlegar trjáfellingar í Öskjuhlíð til að tryggja flugöryggi Reykjavíkurflugvallar myndast tækifæri til að endurhugsa svæðið sem stendur eftir og skapa þar skilyrði fyrir aukna útivistarmöguleika fyrir almenning. Í dag leggur Framsókn fram tillögu í borgarstjórn um að vinna við framtíðarskipulag á því svæði í Öskjuhlíð þar sem tré hafa verið felld vegna Reykjavíkurflugvallar verði unnin í samstarfi við skóla- og frístundasvið og menningar- og íþróttasvið og miði að því að þar verði leik- og útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa.

Tækifæri í mótvægisaðgerð

Með tillögunni er verið að bregðast við því að fella þurfti tré við enda austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar til þess að tryggja rekstaröryggi flugvallarins. Ákveða þarf hvað á að gera við það svæði sem eftir stendur: hvort að þar eigi að gróðursetja aftur tré sem síðar gæti þurft að fella til að tryggja flugöryggi eða hvort við eigum að nýta tækifærið og skipuleggja svæðið til framtíðar sem aðlaðandi grænt svæði fyrir almenning án þess að stofna flugöryggi í hættu?

Það síðarnefnda leggjum við í Framsókn til.

Tækifæri til að skipuleggja leik- og útivistarsvæði

Öskjuhlíðin er vinsælt útivistarsvæði enda staðsett í nálægð við miðbæ Reykjavíkur og fjölmenn hverfi borgarinnar. Það er því mikilvægt að svæðið sé áfram aðlaðandi og nýtist raunverulega sem grænt svæði fyrir almenning. Með vel skipulögðu leiksvæði í Öskjuhlíðinni sem er hannað fyrir alla aldurshópa og í takt við hið náttúrulega umhverfi mætti bregðast við ákalli um fleiri leiksvæði í nálægð við miðbæ Reykjavíkur samhliða því að skapa jákvæða upplifun af þessu græna svæði fyrir ólíka aldurshópa. Ömmur og afar gætu þannig notið svæðisins til jafns við barnabörnin, til dæmis með rólum fyrir börn og fullorðna og svæðum fyrir lautarferðir.

Skipulagsmál hafa bein áhrif á lýðheilsu og hreyfingu. Gott aðgengi að grænum svæðum eykur útivist og góð aðstaða til hreyfingar eykur hreyfingu. Í Öskjuhlíðinni eru göngu- og hjólaleiðir en þar mætti koma upp aðstöðu fyrir hópa sem vilja stunda aðra hreyfingu svo sem jóga eða stunda hugleiðslu í náttúrunni. Mikilvægt er því að framtíðarskipulag svæðisins sé unnið í samstarfi við menningar- og íþróttasvið borgarinnar og sé unnið í samræmi við lýðheilsustefnu borgarinnar. Með skipulaginu væri þannig hægt að skapa frekari aðstæður í nærumhverfinu sem auðvelda fólki að stunda heilbrigða lífshætti og verja tíma úti í náttúrunni.

Tækifæri til útikennslu

Með því að skipuleggja svæðið í samstarfi við skóla- og frístundasvið skapast einstakt tækifæri til að nýta svæðið fyrir skóla- og frístundastarf. Þannig geta börn fengið að taka þátt í að byggja upp svæðið og notað það fyrir leik- og útivist ásamt því að læra um skógrækt og landgræðslu í Öskjuhlíðinni. Í samstarfi við leik- og grunnskóla í nágrenni Öskjuhlíðar væri þá hægt að byggja þar upp útikennslusvæði. Útikennsla er þverfagleg kennsluaðferð sem felur meðal annars í sér tækifæri til að tengja náttúruna við viðfangsefni úr ýmsum námsgreinum samhliða því að stunda hreyfiþjálfun. Í útikennslu læra nemendur að þekkja, skilja og virða náttúruna og nærumhverfið sitt. Einnig væri hægt að koma upp matjurtagörðum á svæðinu til að kenna börnum að rækta matjurtir.

Tækifæri til fræðslu um svæðið

Auk náttúrufegurðar býr Öskjuhlíðin yfir merkilegri sögu og þar eru meðal annars staðsettar jarð- og mannvistarminjar frá stríðsárunum. Sögunni mætti gera hærra undir höfði með því að setja upp sögugöngur eða ratleiki fyrir börn og fullorðna í Öskjuhlíðinni. Þannig gæfist tækifæri til að miðla sögu svæðisins til borgarbúa og gesta borgarinnar ásamt því að styrkja heildarmynd svæðisins í tengslum við þá menningarupplifun sem staðsett er í Perlunni. Á svæðinu mætti einnig koma upp upplýsingaskiltum fyrir almenning um gróðurfar, fuglalíf og dýralíf í Öskjuhlíð.

Möguleikarnir í Öskjuhlíðinni eru óþrjótandi og trjáfellingarnar hafa skapað tækifæri til að skipuleggja leik- og útivistarsvæði sem mætir þörfum fólks á öllum aldri. Með því að fela umhverfis- og skipulagssviði að vinna framtíðarskipulag svæðisins í samstarfi við skóla- og frístundasvið og menningar- og íþróttasvið er hægt að móta heildstæða sýn fyrir svæðið sem tekur mið af þekkingu fagsviðana.

Ég vona að borgarstjórn sjái tækifærin sem felast í því að til að skipuleggja framtíðar útivistarperlu í Öskjuhlíð sem eykur útivist, samveru og eflir lýðheilsu.

Það er tækifæri sem ætti að nýta!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. apríl 2025.

Categories
Fréttir

Rauði krossinn hvetur landsmenn til að vera viðbúna neyðarástandi

Deila grein

31/03/2025

Rauði krossinn hvetur landsmenn til að vera viðbúna neyðarástandi

Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmaður, ræddi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi um nýtt átak Rauða krossins á Íslandi, „3 dagar“, sem hvetur landsmenn til að undirbúa sig fyrir neyðarástand.

Jóhann Friðrik benti á að átakið leggi áherslu á að fólk geti verið án rafmagns og vatns í að minnsta kosti þrjá daga og sé undirbúið fyrir mögulegt rof á net- og símasambandi. Hann lýsti efasemdum um að landsmenn séu almennt með nauðsynlegan búnað til staðar og taldi verkefnið því mjög þarft.

Rauði krossinn á Íslandi, í samstarfi við almannavarnir og með stuðningi frá Rio Tinto, stendur að átakinu. Markmiðið er að bæta viðnámsþrótt almennings með því að hvetja fólk til að útbúa heimilisáætlun og viðlagakassa með helstu nauðsynjum eins og útvarpi, rafhlöðum, kertum, prímus, vasaljósi og skyndihjálparkassa.

Jóhann Friðrik benti á að umræða um slíkan undirbúning hafi verið í gangi á Norðurlöndunum í töluverðan tíma og að Ísland sé að hreyfa sig hægt í þessum efnum. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að mæla árangur verkefnisins og tryggja að það nái til allra í auglýsingum.

Jóhann Friðrik spurði dómsmálaráðherra hvort nóg sé gert varðandi undirbúning almennings og neyðarbirgðir, með vísun í nýlega skýrslu um stöðu neyðarbirgða eldsneytis, íhlutun í orkuframleiðslu og stöðu lyfja á Íslandi.

Categories
Fréttir

Lokun Janusar endurhæfingar veldur óvissu fyrir ungmenni með geðrænan vanda

Deila grein

31/03/2025

Lokun Janusar endurhæfingar veldur óvissu fyrir ungmenni með geðrænan vanda

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi harðlega ákvörðun stjórnvalda um að loka Janusi endurhæfingu í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Janus endurhæfing hefur í áraraðir veitt lífsbjargandi þjónustu fyrir ungmenni með alvarlegan og flókinn geðrænan vanda.

Ingibjörg benti á að lokun Janusar endurhæfingar skilji eftir viðkvæman hóp ungmenna í óvissu, þar sem engin sambærileg þjónusta er til staðar. Foreldrar þessara ungmenna eru í mikilli óvissu og óttast um velferð barna sinna.

„Fagfélög sem bera ábyrgð og hafa þekkingu í málinu, m.a. stjórn Geðlæknafélags Íslands, Geðhjálp, Einhverfusamtökin og fleiri, hafa sameinast um harða áskorun til ríkisstjórnarinnar að draga til baka ákvörðun um að loka Janusi,“ sagði Ingibjörg. Þau benda á að Virk starfsendurhæfingarsjóður, sem lífeyrissjóðir, stéttarfélög og aðrir aðilar sem standa að, eigi ekki að bera ábyrgð á þjónustu sem ríkinu ber að veita.

Janus endurhæfing hefur veitt einstaklingsmiðaða geðendurhæfingu fyrir ungmenni með langa sögu um geðræna erfiðleika, taugaþroskaraskanir og áfallasögu. Þjónustan hefur verið veitt af fjölbreyttum hópi fagaðila, þar á meðal geðlæknum, sálfræðingum og iðjuþjálfum. Lokun úrræðisins mun leiða til þess að þessi viðkvæmi hópur verður skilinn eftir án nauðsynlegrar aðstoðar.

Hefur verið skorað á ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að axla ábyrgð og tryggja áframhaldandi þjónustu fyrir þennan hóp. Ingibjörg spurði heilbrigðisráðherra hvort réttlætanlegt sé að loka lífsbjargandi úrræði án þess að sambærileg þjónusta sé tilbúin og hvort meintir samskiptaörðugleikar eigi að hafa meiri áhrif en raunverulegar þarfir ungmenna.