Categories
Fréttir

Breyta þarf ósanngjörnum reglum um ferðakostnað sjúklinga

Deila grein

19/03/2025

Breyta þarf ósanngjörnum reglum um ferðakostnað sjúklinga

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, hefur mælt fyrir tillögu á Alþingi um að endurskoða reglur um endurgreiðslu ferðakostnaðar fyrir sjúklinga sem þurfa að ferðast til að sækja heilbrigðisþjónustu. Tillagan gengur út á að tryggja rétt sjúklinga til endurgreiðslu ferðakostnaðar þegar heilbrigðisstofnanir aflýsa skipulögðum læknistímum með stuttum eða ólögmætum fyrirvara.

Ósanngjarnt að sjúklingar beri allan kostnaðinn

Samkvæmt núverandi reglum geta sjúklingar fengið endurgreiddar allt að fjórar ferðir á ári, en einungis ef þeir framvísa staðfestingu á að læknisheimsókn hafi átt sér stað. Þessi regla hefur reynst ósanngjörn þegar heilbrigðisstofnanir aflýsa tímum með skömmum fyrirvara. Sjúklingar þurfa þá að bera kostnað af ferðalögum, gistingu og öðrum tilfallandi útgjöldum.

Mismunun eftir búsetu

Ingibjörg bendir á að þetta fyrirkomulag mismuni sjúklingum eftir búsetu og sé sérstaklega íþyngjandi fyrir tekjulága eða þá sem búa afskekkt. Núverandi kerfi veldur óþarfa fjárhagsáhyggjum hjá fólki sem nú þegar glímir við erfiðleika vegna veikinda.

Skref í átt að auknu jafnrétti

Með samþykkt tillögunnar yrði tekið mikilvægt skref í átt að auknu jafnrétti til heilbrigðisþjónustu. Tryggt yrði að sjúklingar fengju ferðakostnað endurgreiddan óháð því hvort læknistími hafi farið fram eða ekki, þegar um afbókun frá heilbrigðisstofnun er að ræða. Slíkar breytingar myndu létta verulega á fjárhagslegum áhyggjum sjúklinga og bæta raunverulegt aðgengi íbúa landsbyggðar að heilbrigðisþjónustu.

Categories
Fréttir

Stefán Vagn vill létta álögum af sveitarfélögum – leggur til undanþágu frá virðisaukaskatti

Deila grein

19/03/2025

Stefán Vagn vill létta álögum af sveitarfélögum – leggur til undanþágu frá virðisaukaskatti

Sveitarfélög standa frammi fyrir miklum fjárhagslegum áskorunum sem þarf að mæta með víðtækum aðgerðum. Þetta kom fram hjá Stefáni Vagni Stefánssyni, alþingismanni, sem ræddi stöðu sveitarfélaganna í störfum þingsins. Stefán Vagn benti á að erfiðlega hefði gengið að finna lausnir sem báðir aðilar, ríki og sveitarfélög, gætu sætt sig við til framtíðar.

Ófjármögnuð verkefni bitna á sveitarfélögum

Stefán Vagn sagði að lagafrumvörp sem samþykkt væru á Alþingi ættu að innihalda ítarlega kostnaðargreiningu fyrir sveitarfélögin, en því miður hefði framkvæmdin verið misjöfn. Sveitarfélög hefðu á undanförnum árum þurft að takast á við aukinn kostnað vegna yfirfærslu grunnskólanna og málefna fatlaðs fólks, auk þess sem málefni barna með fjölþættan vanda hafi valdið auknum útgjöldum án þess að ríkið hafi bætt það að fullu.

Leggur til undanþágu frá virðisaukaskatti

Til að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna lagði Stefán Vagn til að þau yrðu undanþegin virðisaukaskatti af framkvæmdum, lögbundnum verkefnum og leikskólum. Slík undanþága myndi bæta getu sveitarfélaganna til nauðsynlegrar uppbyggingar innviða.

Engin einföld lausn til

Stefán Vagn sagði enga eina töfralausn vera til staðar, heldur þyrfti að ráðast í margar aðgerðir samhliða til að skapa betra jafnvægi milli ríkis og sveitarfélaga. Hann hvatti ríkisstjórnina til að leita lausna í samvinnu við sveitarfélögin, þannig að unnt væri að tryggja stöðugleika og aukna getu til að sinna lögbundnum verkefnum.

***

Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Mig langar í ræðu minni í dag að ræða stöðu sveitarfélaga landsins og aðeins tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hefur verið til umræðu árum saman. Erfiðlega virðist ganga að ná saman um lausn til sáttar og til framtíðar fyrir báða aðila. Lagafrumvörp sem við samþykkjum hér á Alþingi á að kostnaðargreina með tilliti til kostnaðar sveitarfélaganna en allur gangur hefur verið á því að það sé gert og þeim sé bættur sá kostnaður sem af þeim hefur hlotist. Ljóst er að lagabreytingar hafa haft áhrif á kostnað sveitarfélaga á undangengnum árum svo um munar og má þar nefna yfirfærslu grunnskóla og málefni fatlaðs fólks, svo eitthvað sé nefnt. Viðbætur hafa komið til en samkvæmt sveitarfélögum landsins er það ekki nægjanlegt til að mæta þeim kostnaðarauka síðustu ára. Málefni barna með fjölþættan vanda eru annað mál sem vert er að nefna sem hefur verið sveitarfélögunum verulega kostnaðarsamt.

En hvað er til ráða, hæstv. forseti? Ég held að það sé engin ein töfralausn til í þessu máli. Við þurfum að fara í margar aðgerðir til þess að stjórnsýslustigin tvö geti náð jafnvægi sín á milli. Ein þeirra leiða er að gera sveitarfélögin undanþegin virðisaukaskatti af framkvæmdum, mögulega lögbundnum verkefnum ásamt leikskólum. Má færa fyrir því mjög sterk rök að óeðlilegt sé að sveitarfélög landsins borgi virðisaukaskatt af sínum framkvæmdum en hitt stjórnsýslustigið, ríkið, fái sinn virðisaukaskatt til baka af framkvæmdum. Með slíkri breytingu myndi hagur sveitarfélaga vænkast og geta þeirra til uppbyggingar mikilvægra innviða fyrir sín samfélög aukast verulega.“

Categories
Fréttir

„Þurfum við stöðugleikareglu eða sveigjanleika í innviðamálum?“

Deila grein

19/03/2025

„Þurfum við stöðugleikareglu eða sveigjanleika í innviðamálum?“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, gagnrýndi í störfum þingsins tillögu ríkisstjórnarinnar um nýja stöðugleikareglu og aðrar breytingar á lögum um opinber fjármál. Tillagan miðar að því að tryggja stöðugleika í ríkisrekstri, en Þórarinn Ingi telur mikilvægt að skýra betur hvaða áhrif reglan muni hafa áður en gengið sé til svo viðamikilla breytinga.

„Það vekur athygli að svokallaðir grundvallarútgjaldaþættir eru undanskildir stöðugleikareglunni. Það opnar fyrir mjög víða túlkun á hugtakinu fjárfestingar,“ sagði Þórarinn Ingi og benti á að slík óskýrleiki gæti haft neikvæð áhrif á fjármálastefnu ríkisins.

Hann velti jafnframt upp þeirri spurningu hvort of langt sé gengið með því að lögfesta ítarlegar reglur um hagstjórn í stað þess að treysta ríkisstjórnum til að fylgja settum grunnreglum.

Þá lagði Þórarinn Ingi áherslu á mikilvægi þess að horfa til innviðaskuldar þjóðarinnar. Hann nefndi Þýskaland sem dæmi, þar sem nýlega var ákveðið að auka útgjöld til innviða og varnarmála. Þar væri ekki rætt hvort fylgja ætti stöðugleikareglum, heldur hvernig hægt sé að víkja þeim í þágu nauðsynlegrar uppbyggingar.

***

Ræða Þórarins Inga í heild sinni á Alþingi:

„Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögu um svokallaða stöðugleikareglu. Þá eru nokkrar aðrar breytingar fyrirhugaðar á lögum um opinber fjármál. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið rétt að greina áhrif og nytsemi laga um opinber fjármál áður en farið er í grundvallarbreytingar á lögum um afkomumarkmið og rekstur hins opinbera. Þá vekur athygli að grundvallarútgjaldaþættir eru undanskildir stöðugleikareglunni. Þannig má túlka hugtakið fjárfestingar mjög vítt. Það getur átt við bæði hefðbundna innviðauppbyggingu og óljósa þætti eins og fjárfestingar í mannauði eða öðrum ófjárhagslegum þáttum. Þá er ágætt að hafa í huga meiri háttar innviðaskuld þjóðarinnar. Ef tekist verður almennilega á við innviðaskuldina hlýtur það að hafa áhrif á aðrar forsendur fjármálastefnu og hagstjórnar. Þá er spurning hvort við séum að ganga of langt við að lögfesta hvernig staðið er að hagstjórn. Getum við ekki treyst hverri ríkisstjórn til að fylgja grunnreglum laga um opinber fjármál, svo sem varfærni, festu og sjálfbærni?

Frú forseti. Að lokum: Í fyrradag tilkynnti Þýskaland meiri háttar aukningu útgjalda til innviða og varnarmála. Þar er ekki verið að ræða stöðugleikareglu heldur hvernig megi víkja frá henni í ljósi nauðsynlegrar uppbyggingar innviða, auk varna landsins.“

Categories
Fréttir

Pólitísk samvinna um hag barna er ríkari en einhverjar pólitískar keilur

Deila grein

18/03/2025

Pólitísk samvinna um hag barna er ríkari en einhverjar pólitískar keilur

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, fagnar því að ríkið ætli að taka ábyrgð á þriðja stigs þjónustu fyrir börn með fjölþættan og alvarlegan vanda. Hún bendir á að þessi vinna hafi hafist undir forystu fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra.

„Það er mikilvægt að fagna því sem vel er gert og mig langar að gera það hér í dag. Ríkið hefur upplýst um að það ætli að taka ábyrgð á þriðja stigs þjónustu fyrir börn með fjölþættan og alvarlegan vanda,“ sagði Ingibjörg.

Ingibjörg svaraði orðum Örnu Láru Jónsdóttur um húsnæðið við Blönduhlíð sem var hugsað sem viðbót við Stuðla og bæta þannig úrræðin. Hún bendir á að það hefði verið skynsamlegra að vinna málið betur. En minnir á að leigusamningurinn við Blönduhlíð kveður á um að ef húsnæðið reynist ekki hæft börnum á fyrstu sex mánuðunum, megi rifta samningnum. Ingibjörg leggur áherslu á að núverandi ríkisstjórn hafi valdið til að leysa málefni barna með fjölþættan vanda og spyr hvað ríkisstjórnin ætli að gera í þessum málum.

„Við í Framsókn höfum ávallt nálgast þessi málefni með þeim hætti að þau séu ekki til þess að slá einhverjar pólitískar keilur heldur snýst þetta um pólitíska samvinnu um að vinna að hag barna í þessum málaflokki. Ég vona að við berum gæfu hér í þessum þingsal að vinna að sameiginlegum lausnum og ekki vera endilega að benda á hvert annað heldur finna lausnir, því að það er mjög brýnt að finna þær sem allra fyrst,“ sagði Ingibjörg að lokum.

***

Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að fagna því sem vel er gert og mig langar að gera það hér í dag. Ríkið hefur upplýst um að það ætli að taka ábyrgð á þriðja stigs þjónustu fyrir börn með fjölþættan og alvarlegan vanda. Þessi vinna hófst undir forystu fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra sem vann að því, með skýra sýn, að ríkið tæki að sér ábyrgð og kostnað við þau úrræði sem eru þyngst og flóknust í þessum málaflokki.

Ég vil bregðast við orðum hv. þm. Örnu Láru Jónsdóttur sem kom hér áðan inn á húsnæðið við Blönduhlíð, húsnæði sem átti klárlega að vera viðbót við Stuðla og bæta úrræði í tengslum við málefni barna með fjölþættan vanda. Ég held að við getum öll verið sammála því að skynsamlegra hefði verið að vinna málið betur. Hins vegar er mikilvægt líka að koma því á framfæri að það stendur í leigusamningnum að komi í ljós á fyrstu sex mánuðunum að húsnæðið sé ekki hæft börnum af einhverjum ástæðum þá sé það ekki leigutakanum kenna og þá megi rifta leigusamningnum. Það hefur ekki verið gert af núverandi ríkisstjórn og hefur hæstv. ráðherra komið því á framfæri að húsnæðið muni fara í aðra notkun.

Þetta verkefni liggur ekki núna hjá fyrrverandi ríkisstjórn heldur liggur það hjá núverandi ríkisstjórn. Valdið er þar. Því spyr ég til baka: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í málefnum barna með fjölþættan vanda? Við í Framsókn höfum ávallt nálgast þessi málefni með þeim hætti að þau séu ekki til þess að slá einhverjar pólitískar keilur heldur snýst þetta um pólitíska samvinnu um að vinna að hag barna í þessum málaflokki. Ég vona að við berum gæfu hér í þessum þingsal að vinna að sameiginlegum lausnum og ekki vera endilega að benda á hvert annað heldur finna lausnir, því að það er mjög brýnt að finna þær sem allra fyrst.“

Categories
Fréttir

Tillaga um neyðarbirgðir matvæla

Deila grein

18/03/2025

Tillaga um neyðarbirgðir matvæla

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, hefur mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða á Alþingi. Tillagan felur í sér að atvinnuvegaráðherra verði falið að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2026. Markmiðið er að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni.

Skilgreining á neyðarbirgðum

Nauðsynlegt er að skýra hvað átt er við með neyðarbirgðum, til hve langs tíma sé horft og hvaða aðstæðna. Mismunandi vá sem steðjað getur að getur kallað á mismunandi viðbúnað. Bæði þarf að horfa til birgða af vörum sem tilbúnar eru til neyslu auk aðfanga eins og orku, eldsneytis, áburðar, fóðurs og umbúða. Þá er trygg greiðslumiðlun einnig mikilvæg forsenda þess að útvega megi lykilaðföng eins og fóður, lyf og umbúðir.

Reynsla af áföllum og framtíðarsýn

„Mikilvægt er, þegar litið er til framtíðar, að horfa til reynslu af þeim áföllum sem á okkur hafa dunið á undanförnum árum. Ýmsar hamfarir, heimsfaraldrar og stríðsátök geta gert það að verkum að flutningsleiðir til landsins stöðvist. Við þær aðstæður þarf að tryggja að lágmarksbirgðir séu til af matvælum í landinu á hverjum tíma,“ sagði Þórarinn Ingi. Samkvæmt skýrslu um neyðarbirgðir sem flutt var á Alþingi í byrjun október árið 2022 er staða neyðarbirgða í landinu ekki viðunandi. Kortleggja þarf stöðuna betur og leggja til áhrifaríkar aðgerðir og leiðir til að tryggja að lágmarksbirgðir matvæla séu til fyrir þjóðina á hverjum tíma.

Inngrip ríkisvaldsins og geymslugjald

Byggja þarf upp fyrirkomulag sem tryggir að nægilegt magn afurða sé til á hverjum tíma sem og að jafnvægi ríki á markaði með landbúnaðarafurðir. Fyrirkomulagið getur falið í sér inngrip ríkisvaldsins í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum/framleiðendum til að tryggja birgðahald. Slíkt fyrirkomulag þekkist í öðrum löndum til að tryggja lágmarksbirgðahald og jafnvægi á mörkuðum. Slíkar aðgerðir þurfa að miða að mismunandi tegundum framleiðsluvara og geymslutíma þeirra þar sem beita þarf ólíkum leiðum fyrir mismunandi tegundir landbúnaðarafurða.

Uppbygging kornræktar á Íslandi

Skoða þarf einnig sérstaklega uppbyggingu kornræktar og geymslu á kornbirgðum hér á landi. Byggja þarf upp viðamikil kornsamlög þar sem fjárfest yrði í innviðum vegna kornræktar til manneldis og skepnufóðurs. Talsverðir fjármunir verða settir í að auka kornrækt á Íslandi á næstu árum, en tveir milljarðar króna eiga að fara í kynbætur á plöntum, þróun á jarðbótum og fjárfestingu í innviðum. Það er mikilvægt fyrsta skref en gera þarf meira. Flutningsmenn telja að skoða þyrfti svipað fyrirkomulag og með hin hefðbundnu matvæli hvað varðar geymslugjald til þess að tryggja að umframbirgðir yrðu til staðar á hverjum tíma. Með þessu fyrirkomulagi væri hægt að festa kornrækt í sessi sem búgrein hér á landi, bæta fæðuöryggi þjóðarinnar og efla innlenda framleiðslu til framtíðar.

Categories
Fréttir

Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna tjóns bænda?

Deila grein

18/03/2025

Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna tjóns bænda?

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, beindi fyrirspurn til forsætisráðherra á Alþingi vegna verulegs tjóns sem bændur urðu fyrir á síðasta ári, einkum vegna kals í túnum og erfiðra skilyrða í grænmetis- og kartöfluræktun.

Tjón bænda metið allt að 1,5 milljörðum

Í máli Sigurðar Inga kom fram að tjónið hjá ræktendum væri metið á milli 1,3 og 1,5 milljarða króna. Hann benti jafnframt á að slíkur stuðningur væri ekki hluti af hinu almenna stuðningskerfi landbúnaðarins og því væri staðan sérlega erfið fyrir bændur sem nú þyrftu að fjárfesta í útsæði, fræi og áburði fyrir komandi ræktunarár.

„Ég sá að eðlilegar landgræðslubætur og tjónabætur vegna ágangs álfta og gæsa voru greiddar út 12. febrúar, eða það var alla vega frétt um það úr Stjórnarráðinu, en hérna er um að ræða annars konar mál sem kemur sem betur fer ekki upp nema endrum og eins.“

Stuðningskerfi bændum ekki nægilegt

Sigurður Ingi sagði ríkisstjórnina á hverjum tíma oft hafa tekið slík mál til umfjöllunar þegar þau kæmu upp.

Sigurður Ingi spurði forsætisráðherra hvort núverandi ríkisstjórn hefði fjallað um málið og hvaða aðgerðir væru fyrirhugaðar. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að brugðist yrði við tjóninu með hraði, enda væri staða bænda orðin afar bágborin þegar kæmi að undirbúningi næsta ræktunartímabils.

Forsætisráðherra vill styrkja tryggingakerfi bænda

Forsætisráðherra svaraði því til að hún væri meðvituð um alvarlega stöðu bænda og nefndi að því miður væru engar tryggingar sem gætu gripið þennan hóp. Hún staðfesti að atvinnuvegaráðherra væri með málið til skoðunar, meðal annars með tilliti til hugsanlegs fjárauka. Hún lagði jafnframt áherslu á nauðsyn þess að koma á tryggingakerfi fyrir bændur til framtíðar, þar sem slíkar aðstæður gætu reglulega komið upp.

Notið varasjóðinn

Sigurður Ingi brást við svari forsætisráðherra með því að túlka svar hennar á jákvæðan hátt en sagði jafnframt óþarft að skjóta á fyrri ríkisstjórn fyrir að hafa ekki gert ráð fyrir slíkum atburðum í fjárlögum. Hann benti á að varasjóður væri einmitt ætlaður til að bregðast við ófyrirséðum aðstæðum og að ríkisstjórnin ætti nú að nota hann til að koma bændum til hjálpar.

Categories
Fréttir

Breið samstaða um ítarlega rannsókn á orsökum sjálfsvíga og óhappaeitrana

Deila grein

17/03/2025

Breið samstaða um ítarlega rannsókn á orsökum sjálfsvíga og óhappaeitrana

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi um ítarlega rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Markmið tillögunnar er að safna og samhæfa umfangsmikil gögn sem geti nýst við greiningu áhættuhópa og mótun fyrirbyggjandi aðgerða.

Nauðsynlegt að safna betri gögnum

Í ræðu sinni á Alþingi benti Ingibjörg á mikilvægi þess að samfélagið standi saman gegn þessum alvarlegu málum og hvatti almenning til að vera vakandi fyrir merkjum andlegrar vanlíðanar. „Við verðum að bregðast við af festu og ábyrgð,“ sagði hún. „Það er tímabært að við höfum betri gögn til að skilja undirliggjandi orsakaferli og móta markvissari aðgerðir. Í því skyni felur þessi tillaga í sér stuðning við rannsóknarverkefni sem starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, hefur þegar hafið.“

Samstarf ríkis og félagasamtaka lykilatriði

Ingibjörg lagði áherslu á mikilvægi samstarfs ríkisins og félagasamtaka á borð við Rauða krossinn, Píeta samtökin, Bergið Headspace, Geðþjónustu Landspítalans og BUGL, sem vinna mikilvægt starf í forvörnum. Hún sagði enn fremur nauðsynlegt að bæta úr þeim annmörkum sem eru á núverandi gagnasöfnun, svo hægt verði að grípa fyrr inn í og bjarga mannslífum.

„Við höfum séð hve mikilvægt það er að grípa inn í tímanlega. Öflugt forvarnastarf skiptir sköpum og aðdáunarverð vinna á sér stað dag hvern hér á landi, bæði hjá stofnunum og hjá félagasamtökum. Margir aðilar hafa lagt sitt af mörkum, þar á meðal heilbrigðisstofnanir, félagasamtök á borð við Rauða krossinn, Píeta samtökin, Bergið Headspace, Geðþjónustu Landspítalans og BUGL. Samstarf ríkis og félagasamtaka er lykilatriði í því að ná til þeirra sem þurfa mest á stuðningi að halda.“

Tillagan gerir ráð fyrir því að starfshópur Lífsbrúar fái stuðning til að afla allra nauðsynlegra gagna, greina þau ítarlega og skila niðurstöðum með tillögum um markvissar forvarnaraðgerðir.

„Vinna starfshópsins sem um er fjallað í tillögu þessari getur skipt sköpum í baráttu okkar gegn sjálfsvígum og dauðsföllum vegna óhappaeitrana. Við eigum að verða okkur úti um og nota öll þau tól sem hægt er að nýta í baráttunni og með tillögu þessari erum við að tryggja okkur mikilvæg tól til framtíðar. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn í kjölfar sjálfsvígs eða dauðsfalls vegna óhappaeitrana.“

Breiður stuðningur þvert á flokka

Að baki tillögunni stendur allur þingflokkur Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins ásamt fjölmörgum öðrum þingmönnum.

Mikilvægt að ræða andlega heilsu opinskátt

Ingibjörg minnti að lokum á að andleg vellíðan eigi aldrei að vera feimnismál og hvatti þá sem líður illa til að nýta sér þau hjálparúrræði sem eru í boði. Hægt er að hringja í hjálparsíma Rauða krossins 1717, fara á netspjallið 1717.is, hringja í 1700 hjá Heilsuveru eða í Píeta símann 552-2218.

Categories
Greinar

Verður Frelsið full­veldinu að bráð?

Deila grein

16/03/2025

Verður Frelsið full­veldinu að bráð?

Viðreisn hefur ítrekað talað fyrir frelsi og lýst sig sem flokkur sem berst fyrir opnu, frjálsu þjóðfélagi. Flokkurinn hefur þó jafnframt sett Evrópusambandsaðild á oddinn í sínum málflutningi og telur hana nauðsynlega fyrir framtíð Íslands. En hver er raunveruleg merking frelsis í þeirra huga? Getur Ísland verið frjálst og fullvalda innan Evrópusambandsins, eða felst í þeirri stefnu ákveðin mótsögn?

Viðreisn og Evrópusambandið – frelsi eða fjötrar?

Viðreisn leggur áherslu á mikilvægi þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu til að tryggja viðskiptafrelsi og stöðugleika. Það er auðvitað gild röksemd að aðgangur að stærri mörkuðum geti haft efnahagslega kosti, en er verðmiðinn á slíku aðildarferli ekki of hár?

Evrópusambandið er ekki bara viðskiptasamfélag það er pólitískt valdakerfi sem hefur stöðugt verið að auka yfirráð sín yfir aðildarríkjum þess. Með inngöngu í sambandið myndi Ísland þurfa að lúta ákvörðunum framkvæmdastjórnar ESB, þar sem íslensk stjórnvöld hefðu hverfandi áhrif á stefnumótun og lagasetningu. Hvar er þá frelsið sem Viðreisn talar fyrir?

Ísland nýtur nú þegar aðgangs að mörkuðum Evrópu í gegnum EES-samninginn, en samt heldur landið fullveldi sínu og sjálfstæði í ýmsum mikilvægum málaflokkum. Það að afhenda Evrópusambandinu stjórnun yfir íslenskum málefnum, eins og sjávarútvegi, landbúnaði og gjaldmiðli, myndi takmarka getu okkar til að taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Fullveldi er forsenda raunverulegs frelsis

Viðreisn virðist vilja skilgreina frelsi fyrst og fremst í ljósi viðskipta og efnahagslegs samstarfs. En frelsi er ekki aðeins efnahagslegt það er einnig pólitískt og menningarlegt. Ísland hefur byggt upp sjálfstæði sitt og fullveldi í meira en 100 ár, eftir harða baráttu fyrir því að ráða eigin örlögum. Að fórna þessu sjálfstæði í nafni frjálshyggju er ekki frelsi heldur fjötrar. Hefur núverandi Ríkisstjórn gleymt þeim atburðum sem áttu sér stað á Þingvöllum að Lögbergi við Öxará 17.júní 1944 ?

Við í Framsókn teljum að hið raunverulega frelsi sé að vera fullvalda ríki. Sjálfstætt Ísland hefur sannað getu sína til að blómstra án þess að lúta yfirþjóðlegu valdi. Aðild að ESB myndi grafa undan þessari getu og veikja stöðu okkar sem sjálfstæðs ríkis.

Framtíð Íslands – utan ESB

Sjálfstætt Ísland hefur sýnt að það getur blómstrað án aðildar að Evrópusambandinu. Við höfum sveigjanleika til að laga okkur að breytingum, sjálfstæða stefnu í atvinnuvegum og getu til að verja hagsmuni okkar án þess að lúta yfirþjóðlegu valdi.

Ef frelsi er virkilega forgangsmál, eins og Viðreisn heldur fram, ætti flokkurinn þá ekki að horfa á leiðir til að styrkja fullveldi Íslands frekar en að selja það undir yfirráð evrópskra embættismanna?

Sannkallað frelsi er að geta sjálfur tekið ákvarðanir um framtíð sína. Ísland hefur staðið vörð um það frelsi í áratugi. Fullveldi og frelsi eru samofin – annað getur ekki verið án hins. Við skulum áfram standa saman sem sjálfstæð þjóð, verja arfleifð okkar og tryggja að komandi kynslóðir megi njóta sama frelsis og forfeður okkar börðust svo hart fyrir.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Deila grein

15/03/2025

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Hver hefði trúað því fyr­ir aðeins nokkr­um miss­er­um að orku­ör­yggi al­menn­ings á Íslandi yrði mál mál­anna? En þannig er staðan á Íslandi í dag.

Hinn 13. mars sl. lagði ég fram til­lögu til þings­álykt­un­ar um að tryggja orku­ör­yggi al­menn­ings. Orku­ör­yggi al­menn­ings verður að vera eitt af for­gangs­mál­um Alþing­is. Það er fátt sem skipt­ir meira máli fyr­ir lífs­gæði lands­manna en ör­uggt aðgengi að raf­orku á hag­kvæmu verði.

Við höf­um nú orðið vitni að mestu hækk­un­um á raf­orku­verði til al­menn­ings í ára­tugi, og þess­ar hækk­an­ir eru alls ekki vegna skorts á raf­orku. Skýr­ing­in ligg­ur í reglu­verki sem vernd­ar ekki venju­lega not­end­ur, okk­ur al­menn­ing. Hér áður fyrr var þessi laga­lega vörn skýr og Lands­virkj­un gegndi því hlut­verki að tryggja orku­ör­yggi heim­ila. Með nýrri orku­lög­gjöf var þessi for­gang­ur felld­ur niður, án þess að koma í stað annarra úrræða sem styðja við okk­ur sem not­um inn­an við fimmt­ung raf­orku­fram­leiðslunn­ar.

Heim­il­in, ein­stak­ling­ar í rekstri og minni fyr­ir­tæki mega ekki lenda í sam­keppni við stór­not­end­ur sem eru með trausta lang­tíma­samn­inga, á sama tíma og við hin, al­menn­ing­ur og minni fyr­ir­tæki, erum varn­ar­laus fyr­ir hækk­un­um.

Eft­ir­spurn eft­ir end­ur­nýj­an­legri orku eykst stöðugt bæði hér­lend­is og er­lend­is, og í dag er ekk­ert sem kem­ur í veg fyr­ir að stærri aðilar bjóði ein­fald­lega hærra verð í ork­una en al­menn­ing­ur get­ur staðið und­ir. Þetta er óá­sætt­an­leg staða fyr­ir heim­ili, bænd­ur og minni fyr­ir­tæki sem eru upp­spretta fjöl­breyti­leika í at­vinnu­lífi og mik­il­vægt mót­vægi gegn samþjöpp­un valds á markaðnum. Hags­mun­ir þess­ara hópa eru um leið hags­mun­ir lands­byggðar­inn­ar; fólk sem býr á köld­um svæðum og sem þarf raf­orku til upp­hit­un­ar hús­næðis býr við tvö­falda áhættu.

Ég trúi því og treysti að Alþingi lag­færi þetta órétt­læti. Því bind ég von­ir við að um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra und­ir­búi laga­breyt­ing­ar sem tryggi stöðu og hags­muni al­menn­ings. Við þurf­um að tryggja for­gang heim­ila og viðhalda hag­kvæmu raf­orku­verði sem hef­ur verið grund­vall­ar­hluti af lífs­kjör­um lands­manna.

Á sama tíma þurf­um við einnig að taka upp­lýst­ar og ábyrg­ar ákv­arðanir um nýj­ar virkj­an­ir til að styðja við fjöl­breytt­an iðnað og vöxt sam­fé­lags­ins. Það er efni í aðra grein.

Tryggj­um ör­ugga raf­orku til allra lands­manna.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2025.

Categories
Fréttir

Orkuöryggi almennings verður að vera forgangsmál

Deila grein

14/03/2025

Orkuöryggi almennings verður að vera forgangsmál

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um að tryggja orkuöryggi almennings á Íslandi. Hún leggur áherslu á að hátt raforkuverð til almennings stafi ekki af skorti á orku heldur skorti á regluverki sem tryggi réttindi heimila og minni notenda. „Orkuöryggi almennings verður að vera eitt af forgangsmálum Alþingis. Það er fátt sem skiptir meira máli fyrir lífsgæði landsmanna en öruggt aðgengi að raforku á hagkvæmu verði.“

Halla Hrund bendir á að orkuþörf heimila á Íslandi sé innan við 5% af raforkuframleiðslu þjóðarinnar og minni notendur, s.s. hárgreiðslustofur, bændur og minni fyrirtæki, noti samtals um 20% orkunnar. Aftur á móti fari 80% raforkunnar til stórnotenda eins og álvera og gagnavera sem njóta langtímasamninga.

Regluverk veikir stöðu almennings

Samkvæmt Höllu Hrund var tryggt orkuöryggi almennings áður fyrr lagalega verndað. „Landsvirkjun gegndi því hlutverki að tryggja orkuöryggi heimila. Með nýrri orkulöggjöf var þessi forgangur felldur niður, án þess að koma í staðinn öðrum úrræðum sem styðja við almenning,“ segir hún.

Hún telur óásættanlegt að heimili og minni fyrirtæki þurfi að keppa við stórnotendur sem bjóði einfaldlega hærra verð í raforkuna en almenningur getur staðið undir. Þetta skapi sérstaklega ótryggar aðstæður fyrir fólk á köldum svæðum sem er háð rafmagni til upphitunar húsnæðis.

Brýn þörf á lagabreytingum

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra leggi fram frumvarp á yfirstandandi vorþingi sem tryggi stöðu almennings og stuðli að stöðugu og hagkvæmu raforkuverði.

„Við höfum orðið vitni að mestu hækkunum á raforkuverði til almennings í áratugi, og þessar hækkanir eru alls ekki vegna skorts á raforku. Við þurfum að tryggja forgang heimila og viðhalda hagkvæmu raforkuverði sem hefur verið grundvallarhluti af lífskjörum landsmanna,“ segir Halla Hrund.

„Tryggjum raforkuöryggi fyrir alla landsmenn“

Halla Hrund leggur áherslu á að Alþingi verði að lagfæra þetta óréttlæti með skýrum lagabreytingum sem setja almenning í forgang.

„Ég trúi því og treysti að Alþingi lagfæri þetta óréttlæti. Við verðum að tryggja orkuöryggi heimila, bænda og minni fyrirtækja sem eru uppspretta fjölbreytileika í atvinnulífi og mikilvægt mótvægi gegn samþjöppun valds á markaðnum,“ segir hún.

Að lokum bendir hún á að þótt forgangur heimila sé brýnn, þurfi einnig að taka upplýstar ákvarðanir um nýjar virkjanir til að styðja við fjölbreyttan iðnað og vöxt samfélagsins. „Það er efni í aðra umræðu. En fyrst og fremst verðum við að tryggja örugga raforku til allra landsmanna.“