Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, gagnrýndi harðlega forsætisráðherra í ræðu á Alþingi og lýsti yfir miklum áhyggjum af nýlegri skipan í stjórnir ríkisfyrirtækja. Hann velti því upp hvort ríkisstjórnin væri að víkja frá eigin stefnu um gegnsæi og fagmennsku í stjórnarkjörum.
„Ég verð að viðurkenna að eftir síðustu samskipti hér í óundirbúnum fyrirspurnum er ég enn meira hugsi yfir svörum forsætisráðherra heldur en ég var fyrir,“ sagði Sigurður Ingi og vísaði til þeirra breytinga sem ný ríkisstjórn hefur gert á verklagi við stjórnarskipanir.
Sigurður Ingi rifjaði upp að fyrri ríkisstjórn hefði sett fram „ágætisplan“ um að opna fyrir umsóknir og tryggja að hæfustu einstaklingarnir kæmust að. „Ekki þannig að skilja að það hafi ekki setið hæft fólk í stjórnum ríkisfyrirtækja hingað til,“ bætti hann við. „En engu að síður hefur þetta verklag nú vikið fyrir kerfi sem einkennist af einsleitni og takmörkuðum samfélagslegum þverskurði.“
Sérstaklega gagnrýndi hann að fulltrúar af landsbyggðinni væru nær alfarið undanskildir í nýrri skipan. „Það var næstum því forskrift,“ sagði hann. „Þó að ríkisfyrirtækin mörg hver starfi fyrst og fremst úti á landsbyggðinni […] þá virtist meginlínan vera að velja einsleita menn.“
Þá lýsti hann furðu á því að ráðherra hefði skipað eingöngu flokksmenn í stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. „Það var ekki gert í síðustu stjórn HMS,“ sagði hann. „Þar var tekið tillit til ólíkra sjónarmiða ólíkra flokka.“
Að lokum beindi Sigurður Ingi spurningu að forsætisráðherra:
„Var þetta planið, að gera eitt í dag og annað á morgun og undanskilja algerlega landsbyggðina?“
Ræða Sigurðar Inga í heild sinni á Alþingi:

05/05/2025
Samvinnuhreyfingin á alþjóðavísuÁrið 2025 hjá Sameinuðu þjóðunum er tileinkað samvinnuhreyfingum um heim allan undir yfirskriftinni: „Samvinna um betri heim“. Lögð er áhersla á jákvæð áhrif samvinnufélaga og hvernig þeim hefur tekist að koma lausnir á mörgum áskorunum samtímans.
Samvinnuhreyfingin á rætur sínar að rekja til þess uppróts sem kom í kjölfar iðnbyltingarinnar. Mestu efnahagslegu framfarir hagsögunnar eiga uppruna sinn að rekja til iðnbyltingarinnar en þar fer hagvöxtur samfélaga fyrst af stað. Hins vegar voru vinnuaðstæður og kjör verkafólksins oft afar bágborin og sem svar við þessu ástandi tók fólk sig saman og stofnaði samvinnufélög, þ.e. fyrirtæki í eigu og undir stjórn félaganna, sem tóku ákvarðanir og deildu jafnt arði félagsins. Fæðingarstaður samvinnuhreyfingarinnar er í Rochdale á England en árið 1844 stofnaði hópur 28 vefara og handverksmanna verslun sem seldi gæðavörur á sanngjörnu verði. Í Frakklandi boðaði Charles Fourier samfélagslega samhjálp og samvinnu. Í Þýskalandi störfuðu Friedrich Raiffeisen og Hermann Schulze-Delitzsch að stofnun lánasamvinnufélaga til stuðnings bændum og handverksmönnum. Í Bandaríkjunum voru sett á laggirnar samvinnufélög í tengslum við landbúnað, þar sem bændur tóku sig saman til að fá betra verð á vörum sínum og samninga um innkaup og dreifingu. Samvinnuhreyfingin á Íslandi á rætur sínar að rekja til ársins 1882, þegar stofnað var Kaupfélag Þingeyinga. Kjör bænda höfðu farið versnandi, og einkenndust af háu vöruverði og einokun kaupmanna. Samvinnuhreyfingin á Íslandi hefur verið veigamikill þáttur í atvinnu- og félagsmálum þjóðarinnar í yfir eina og hálfa öld. Níu kaupfélög eru starfrækt á Íslandi í dag.
Um 3 milljónir samvinnufélaga eru starfandi í heiminum í dag. Allt frá stórfyrirtækjum í velferðarsamfélögum til samyrkjufélaga í fátækum löndum. Félagsmenn eru um 1,2 milljarðar og starfsfólk er um 280 milljónir. Til hins félagslega hagkerfis teljast svo margvísleg önnur félagsdrifin fyrirtæki og óhagnaðardrifin félög sem samanlagt eru verulegur hluti af efnahagsumsvifum heimsins.
Samvinnuformið má nýta mun betur. Á síðasta þingvetri var samþykkt löggjöf um samvinnufélög. Þetta er fyrsta heildarendurskoðunin á lögunum í áratugi. Ein veigamesta breytingin var að auðvelda stofnun samvinnufélags. Lágmarksfjöldi stofnenda var lækkaður í þrjá úr 15. Þessi breyting endurspeglar að sum verkefni nútímans geta hafist með fámennum hópi sem þó hefur þörf fyrir samvinnuformið. Ég hvet landsmenn til að kynna sér samvinnuhreyfinguna betur á ári hennar hjá Sameinuðu þjóðunum og hvaða tækifæri felast í henni. Sameinuðu þjóðirnar leggja mikið upp úr getu samvinnufélaga til að stuðla að velsæld sem flestra í samfélaginu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. maí 2025.

03/05/2025
Nýjar rætur – framtíð íslenskrar matvælaframleiðslu byrjar hérÍsland geymir ríkulegar náttúruauðlindir og landið er stórt. Umfram allt eigum við kraftmikla og unga, skapandi kynslóð sem vill leggja sitt af mörkum.
En sú spurning vaknar æ oftar: hverjir fá raunverulega tækifæri til að nýta landið okkar og byggja upp verðmæti fyrir framtíðina? Þingsályktunartillagan „Nýjar rætur“ leggur fram nýja sýn – og nýtt tæki – til að gefa ungu fólki á landsbyggðinni raunhæfan möguleika til að hefja sjálfbæra matvælaframleiðslu, fóðurframleiðslu eða skógrækt.
Kaupréttur sem opnar dyr
„Nýjar rætur“ snýst um að styðja við ungt fólk – yngra en 45 ára – sem hefur hug og metnað til að kaupa jörð og hefja starfsemi og framleiðslu. Hugmyndin er þessi: Ef ungt athafnafólk fær samþykkt kauptilboð í tiltekna jörð, getur ríkissjóður í gegnum Byggðastofnun gengið inn í kaupin, orðið tímabundinn eigandi jarðarinnar, og jafnframt gert leigusamning við nýliðann með kauprétti að fimm árum liðnum. Á þeim tíma fær viðkomandi tækifæri til að þróa rekstur, afla sér reynslu og fjárhagslegs bolmagns til að nýta kaupréttinn.
Viðbragð við markaðsbresti
Fyrirkomulagið er svarið við augljósum markaðsbresti – of fáir ungir einstaklingar hafa ráð á að kaupa land eða jörð í rekstri, þrátt fyrir að þar sé forsenda matvælaframleiðslu, skógræktar og sjálfbærrar byggðarþróunar. Tillagan snýst ekki um niðurgreiðslur heldur raunverulegt svigrúm til að hefja starfsemi með ábyrgum hætti.
Verndun lands og auðlinda
Tillagan fellur að stefnu Framsóknarflokksins um skýrt eignarhald og ábyrga nýtingu náttúruauðlinda. Íslenskar jarðir geyma vatnsréttindi, jarðhita og aðgang að verðmætum vistkerfum. Með „Nýjum rótum“ er stigið mikilvægt skref til að tryggja að þessi verðmæti sem jarðir eru nýtist samfélaginu en þróist ekki í eyðijarðir, eyðidali eða verði að sumarleyfissvæðum fyrir erlenda auðmenn.
Samstaða
Hugmyndin hefur vakið jákvæð viðbrögð úr breiðum hópi þvert á flokka. Hún snýst ekki einungis um landbúnað, heldur sameinar skógrækt, landgræðslu, nýsköpun og ábyrga samfélagslega uppbyggingu. „Nýjar rætur“ gætu orðið lykilþáttur í heildstæðri sýn fyrir vistvæna uppbyggingu í dreifðum byggðum.
Ræktum saman framtíðina
Það sem skiptir mestu máli er að fólk með vilja og hæfileika fái raunverulegt tækifæri til þátttöku í verðmætasköpun og þróun byggða. Þetta verkefni getur verið leiðarljós nýrrar nálgunar á nýliðun og sjálfbærni. Við getum – með ábyrgri stefnu og markvissri framkvæmd – ræktað nýjar rætur sem verða til hagsbóta fyrir samfélagið allt.
Hóflegt umfang, en mikil áhrif
Að lokum er rétt að hafa í huga að hér er einungis um eitt skref að ræða í átt að aukinni verðmætasköpun. Gert er ráð fyrir að ekki fleiri en 5–20 jarðir verði teknar inn í verkefnið árlega. Það sýnir að þetta er hófstillt í umfangi, en metnaðarfullt í tilgangi – og getur reynst dýrmæt tilraun sem leiðir af sér frekari lausnir til framtíðar.
Fleiri hugmyndir Framsóknar verða kynntar á komandi mánuðum.
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 1. maí 2025.

02/05/2025
Varar við grafalvarlegum afleiðingum lokunar Janusar endurhæfingarIngibjörg Isaksen, alþingismaður, lýsti í störfum þingsins yfir miklum áhyggjum af alvarlegri stöðu sem skapast hefur vegna fyrirhugaðrar lokunar á áframhaldandi þverfaglegri endurhæfingu fyrir ungmenni með flókin geðræn og félagsleg vandamál.
Stjórn Janusar endurhæfingar hefur óskað eftir formlegum samningaviðræðum við VIRK, heilbrigðisráðuneytið, félags- og húsnæðismálaráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið til að tryggja að starfsemin haldi áfram og að viðkvæmasti hópur ungs fólks haldi áfram að fá þá aðstoð sem hann þarfnast.
Heilbrigðisráðherra einn mælir með lokun
„Það er augljóst að enginn mælir með lokun Janusar – nema heilbrigðisráðherra. Tugir fagfélaga, sérfræðinga, geðlækna og hagsmunasamtaka, auk yfir 3.000 einstaklinga, hafa stigið fram og krafist þess að starfsemin haldi áfram. Þetta snýst ekki um rekstrarform. Þetta snýst um réttindi. Þetta snýst um lífsbjargandi úrræði sem okkar viðkvæmasti hópur ungs fólks hefur þörf fyrir,“ sagði Ingibjörg.
Árangur í aldarfjórðung
„Fram er komið tilboð frá Janusi um áframhaldandi samstarf – en það vantar vilja stjórnvalda til að taka við því og bregðast skjótt við. Við erum að tala um úrræði sem hefur í aldarfjórðung skilað árangri – þar sem yfir helmingur þátttakenda hefur komist aftur út í samfélagið í nám eða vinnu. Samt er verið að loka þessu úrræði án þess að nokkuð sambærilegt komi í staðinn.“
Áskorun til stjórnvalda
„Verður þessi ríkisstjórn sú sem tók við útréttri lausnarhönd – en gerði ekkert? Mun hún bera ábyrgð á því að úrræði sem hefur bjargað mannslífum verði lagt niður? Verða viðbrögðin áfram þögnin ein?
Tíminn er að renna út. Ég skora á ráðherra hér og nú að taka þessa beiðni til formlegrar afgreiðslu. Ég skora á þingmenn stjórnarflokka að beita sér. Það er enn hægt að finna lausnir – en það krefst pólitísks vilja,“ sagði Ingibjörg að lokum.
Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

02/05/2025
Netárás getur lamað samfélagið á augabragðiHalla Hrund Logadóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins afleiðingar umfangsmikils rafmagnsleysis á Spáni og í Portúgal, þar sem samfélög urðu fyrir alvarlegum truflunum – símalaus, netlaus og með almenningssamgöngur í ólestri.
„Ég þekki vel úr mínum fyrri störfum sem orkumálastjóri að kerfið okkar, með aukinni sjálfvirkni og snjallmælavæðingu, er að verða viðkvæmara fyrir slíkum árásum. Strangt til tekið má með slíkum árásum slökkva á hverfum, bæjarhlutum eða -félögum, jafnvel stórum parti landsins, og það má líka ráðast á lykilinnviði eins og flug,“ sagði Halla Hrund. Þó að bilunin ytra hafi ekki stafað af netárás, undirstrikar atvikið hvernig sambærileg áhrif gætu orðið hérlendis með alvarlegum afleiðingum.
Viðbúnaður þarf að vera raunhæfur – og fjármagnaður
Þrátt fyrir að ýmis jákvæð skref hafi verið stigin – svo sem samvinna Samorku, KraftCERT og almannavarna – segir Halla Hrund að núverandi viðbragðsáætlun dugi skammt. Hún tekur sérstaklega fram að:
- Raunhæfar viðbragðsáætlanir: Þær þurfa að vera yfirgripsmiklar og reglulega æfðar.
- Fjármagn til allra lykilstofnana: Ekki einungis Fjarskiptastofu, heldur einnig Samgöngustofu, raforkueftirlits og embættis landlæknis.
- Mat á varaafli mikilvægra innviða: Sérstaklega þarf að meta hvort varaafl Landspítalans og annarra lykilstofnana dugi við stórfelldum truflunum.
Netöryggi er þjóðaröryggismál
„Ég skora á ríkisstjórnina að setja þetta mál í forgang,“ sagði hún að lokum. „Netöryggi er ekki einungis tæknilegt viðfangsefni heldur beinlínis þjóðaröryggismál – og megi því ekki sinna af hálfkáki.“
Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:
Íslenskan – lífæð þjóðarinnar

02/05/2025
Íslenskan – lífæð þjóðarinnarÍslenskan er æðasláttur þjóðarinnar. Í gegnum aldirnar hafa mæðurnar kennt börnum sínum fyrstu orðin, þau orð sem verða undirstaða allrar hugsunar, allrar menningar og allra framfara. Í móðurmálinu býr sá kraftur sem heldur þjóð í heilu lagi, bindur saman fortíð, samtíð og framtíð.
Nú, á þessum tímum örra breytinga, þegar erlend mál ryðja sér til rúms í huga og máli ungu kynslóðarinnar, ber okkur skylda – já, heilög skylda – til að standa vörð um tungu okkar. Sótt er að íslenskunni bæði úr menningu og tækni, með erlendum áhrifum sem smám saman vinna á þolinmóðri, en þrautseigri, tungu okkar.
Það verður ekki nægilegt að mæla fagurgala um gildi íslenskunnar – við verðum að bretta upp ermarnar og grípa til aðgerða. Eflum íslenskukennslu í skólum landsins. Gefum kennurum okkar betri aðbúnað og öflugri verkfæri til að efla málvitund barna og ungmenna.
En ekki aðeins það: við verðum að horfast í augu við að framtíð íslenskunnar ræðst einnig á vettvangi tækni og nýsköpunar. Við verðum að styðja dyggilega við íslenska tungu í stafrænum heimi; fjárfesta í þróun máltækni, sjálfvirkrar þýðingar, talgreiningar og annarra lausna sem tryggja að íslenskan verði lifandi og aðgengileg á öllum sviðum nútímasamfélags.
Þá ber okkur einnig að gæta þess, að með tilkomu erlends vinnuafls hingað til lands verðum við sem þjóð að sýna festu og ræktarsemi. Við verðum að tala íslensku við þá sem hingað koma, svo þeir læri tungu þjóðarinnar og verði virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Mál þeirra og menning á virðingu skilið – en hér á landi skal íslenskan vera sameiningartáknið sem allir stefna að.
Ef við vanrækjum þetta, ef við sofnum á verðinum, glötum við ekki aðeins tungunni heldur sjálfum okkur. Því án móðurmálsins verður þjóðin rótlaus og upprunalítil, eins og tré sem missir sínar dýpstu rætur.
Megum við öll, ung sem gömul, axla þá ábyrgð að varðveita íslenskuna sem dýrmætasta arf þjóðarinnar – og skila henni áfram, sterkari og ríkari, til þeirra sem á eftir okkur koma.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst í Morgnblaðinu 2. maí 2025.

01/05/2025
140 ára fæðingarafmæli Jónasar Jónssonar frá HrifluVið minnumst 140 ára fæðingarafmælis Jónasar Jónssonar frá Hriflu, sem var einn áhrifamesti stjórnmálamaður og hugsuður Íslands á sinni tíð. Jónas frá Hriflu, eins og hann er jafnan kallaður, var leiðandi afl í Framsóknarflokknum og gegndi lykilhlutverki á umbrotatímum íslenskrar þjóðar. Jónas var tákn og andlit flokksins í huga Íslendinga á 20. öldinni.
Jónas frá Hriflu
Jónas Jónsson fæddist í Bárðardal árið 1885, 1. maí. Hann ólst upp við sveitastörf á bænum Hriflu, æskuheimili sínu, og kynntist þar af eigin raun þeim lífskjörum og áskorunum sem íslenskir bændur og alþýða stóðu frammi fyrir á þessum tíma. Þrátt fyrir bág kjör sóttist Jónas eftir menntun. Hann stundaði nám bæði í Danmörku og Englandi. Menntavegur hans var nokkuð óhefðbundinn en mótaði hann og varð til þess að hann fékk brennandi áhuga á uppbyggingu íslensks samfélags. Að námi loknu sneri Jónas aftur heim uppfullur af hugmyndum um félagslegar framfarir og framsókn. Hann hóf störf sem kennari og fræðimaður og lét strax að sér kveða í umræðu um þjóðfélagsmál.
Stofnun Framsóknarflokksins og pólitískar línur lagðar
Pólitísk arfleifð Jónasar frá Hriflu spannar marga þætti samfélagsins og má skilgreina hann sem róttækan umbótamann. Jónas Jónsson fæðist um svipað leyti og samvinnuhugsjónin festi hér rætur. Hann lagðist snemma á sveif með henni. Samvinnuhreyfingin var í hans augum meginstoð félagshyggjuþjóðfélagsins. „Stofnun Framsóknarflokksins var beinlínis skipulögð af honum,“ sagði Jón Sigurðsson í Ystafelli um Jónas Jónsson frá Hriflu. Framsóknarflokkurinn var stofnaður 16. desember árið 1916. Að auki var hann einn af frumkvöðlunum að stofnun Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins haustið 1916. Jónas hafði mjög skýra sýn á það hvernig hið pólitíska landslag ætti að vera á Íslandi á þessum tíma. Hann taldi að það sem myndi henta Íslandi best væri „eðlileg flokkaskipting“, þ.e. þrískipting í íhaldsflokk, frjálslyndan flokk og jafnaðarmannaflokk.
Pólitískur ferill Jónasar
Jónas fer að starfa með Framsóknarflokknum og var driffjöðrin að stofnun dagblaðsins Tímans, 17. mars 1917. Jónas var kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn árið 1922. Jónas var þekktur fyrir skelegg viðhorf sín og kröftugar ræður þar sem hann mælti fyrir félagslegu réttlæti, menntun almennings og fullu sjálfstæði Íslands. Árið 1927 varð hann dóms- og kirkjumálaráðherra í ríkisstjórn og gegndi því embætti til 1932. Sem forystumaður í Framsóknarflokknum mótaði Jónas stefnuna á þessum umbrotatímum. Hann var formaður flokksins árin 1934 til 1944 og stýrði Framsókn í gegnum kreppuárin og síðari heimsstyrjöldina. Á þeim tíma festi flokkurinn sig í sessi sem einn af burðarásum íslenskra stjórnmála.
Menntun þjóðarinnar
Menntamál þjóðarinnar voru Jónasi einkum hugleikin og uppbygging menntakerfisins. Hann átti stóran þátt í stofnun og eflingu margra menntastofnana. Má þar nefna Menntaskólann á Akureyri, Menntaskólann á Laugarvatni, Samvinnuskólann og Héraðsskólann á Laugum. Þá gegndi hann um tíma starfi skólastjóra Samvinnuskólans, fræðslustofnun samvinnuhreyfingarinnar. Húsnæðismál Háskóla Íslands voru honum einnig mikilvæg og í byrjun fjórða áratugarins beitti hann sér fyrir setningu laga sem heimiluðu byggingu nýs háskólahúss. Með þessu lagði Jónas sitt af mörkum til að auka menntun bæði í þéttbýli og dreifbýli, í samræmi við þá sannfæringu sína að þekking og framfarir ættu að ná til allra landsmanna.
Menningarmál ætíð veigamikil
Menningarmál þjóðarinnar voru honum ætíð ofarlega í huga. Hann var eindreginn talsmaður íslenskrar tungu, bókmennta og lista og lagði áherslu á að menning þjóðarinnar byggðist á þjóðlegum grunni. Oft var Jónas gagnrýninn á listamenn eða strauma í menningu sem honum þóttu of framandlegir eða í andstöðu við hefðir þjóðarinnar. Deilur hans við ýmsa fræðimenn og rithöfunda vöktu talsverða athygli á sínum tíma, enda þótti sumum sem Jónas gengi of langt í menningarmálum. Hins vegar beitti hann sér ötullega fyrir því að styrkja umgjörð menningarmála og má nefna Menningarsjóð, stofnun Ríkisútvarpsins, styrki til listamanna úr ríkissjóði og að reist yrði Þjóðleikhús.
Lokaorð
Nú, 140 árum eftir fæðingu Jónasar frá Hriflu, má sjá að margt í framtíðarsýn hans hefur orðið að veruleika og var til þess fallið að efla íslenskt samfélag. Auðvitað hefur tíminn einnig fært samfélaginu breytingar sem Jónas gat vart séð fyrir, en grunnstef hans um menntun, samvinnu og þjóðlega sjálfsvirðingu má enn greina víða. Arfleifð Jónasar lifir þannig góðu lífi og minnir okkur á mikilvægi framtíðarsýnar og hugsjóna við uppbyggingu þjóðar. Segja má að áhrif Jónasar á íslenskt samfélag á mikilvægu mótunarskeiði eigi sér fáar hliðstæður.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. maí 2025.
Þegar innflutningurinn ræður ríkjum

29/04/2025
Þegar innflutningurinn ræður ríkjumÍ kosningabaráttunni töluðu forystumenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins fjálglega um velferð, sjálfbærni og þjóðaröryggi. Nú blasir við óþægileg mynd: algjört stefnuleysi í landbúnaðarmálum og áhugaleysi gagnvart fæðuöryggi þjóðarinnar.
Íslenskur landbúnaður glímir við gríðarlegar áskoranir. Bændur búa við hækkandi framleiðslukostnað, hörð samkeppni frá innfluttum vörum og sífellt meiri kröfur um umhverfisvænan rekstur – án raunverulegs stuðnings stjórnvalda. Þrátt fyrir að umhverfisvæn ræktun og innlend framleiðsla ættu að vera hornsteinar grænnar framtíðar, hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar verið fáar og kraftlausar.
Það sem er enn alvarlegra er að ríkisstjórnin virðist ekki skilja hvernig íslenskur landbúnaður virkar. Samkeppni í íslenskum landbúnaði kemur ekki á milli innlendra afurðarstöðva – heldur erlendis frá, með linnulausum innflutningi sem ryður íslenskum vörum út af markaðnum.
Ríkisstjórnin hefur frekar kosið að líta undan gagnvart linnulausum innflutningi sem grefur undan íslenskum bændum og traustum stoðum samfélagsins. Meðal annars er nú flutt inn lambakjöt frá Írlandi sem selt er undir villandi merkjum, og þannig blekktir íslenskir neytendur, meðan bændur eiga í vaxandi basli.
Samfylkingin lofaði að tryggja sjálfbærni og framtíðaröryggi en hefur hvorki mótað skýra matvælastefnu né sýnt vilja til að efla íslenskan landbúnað. Viðreisn hélt á lofti stefnum um ábyrga markaðsstefnu, en hefur horft aðgerðalaus á innflutninginn vaxa. Flokkur fólksins hét því að vera rödd fólksins en hefur þagað þegar kemur að því að verja lífsviðurværi bænda og grunnþætti íslensks fæðuöryggis.
Þegar markaðsöfl, án nokkurra skilyrða, fá að grafa undan grunnstoðum landsins verður Ísland sífellt háðara öðrum ríkjum um að brauðfæða sitt eigið fólk. Slík þróun er ekki ábyrg, heldur skammsýn og hættuleg.
Í heimi sem einkennist af loftslagsbreytingum, vaxandi spennu í alþjóðaviðskiptum og óútreiknanlegum náttúruvá, verður fæðuöryggi þjóðar mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Ef alþjóðlegir flutningsstraumar stöðvast – eins og gerðist í heimsfaraldrinum – stendur Ísland berskjaldað eftir ef innlend framleiðsla hefur verið látin grotna niður. Það eru ekki aðeins sveitirnar sem tapa ef íslenskur landbúnaður tapar. Öll þjóðin tapar – sjálfstæðið, öryggið og geta landsins til þess að framfleyta þjóð sinni þegar á reynir.
Það er tímabært að krefjast raunverulegra aðgerða: leggja fram skýra stefnu í þágu innlendrar matvælaframleiðslu, tryggja bændum sanngjörn starfsskilyrði, umbuna þeim fyrir umhverfisvænan rekstur og gera fæðuöryggi að hluta af þjóðaröryggisstefnu Íslands, og hjálpa ungu fólki að hefja búskap.
Þetta snýst ekki um að setja fram fallegar yfirlýsingar – heldur um að framkvæma. Ef ríkisstjórnin bregst áfram skyldum sínum, verður Ísland sífellt veikara.
Þegar innflutningurinn ræður ríkjum, er það ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á því.
Stórauka þarf innlenda matvælaframleiðslu. Íslensk matvæli eru einstök og teljast meðal þeirra hreinustu í heiminum. Hvergi í veröldinni er minna notað af sýklalyfjum í landbúnaði en hér á Íslandi. Og nóg eigum við að hreinu og tæru vatni á íslandi , sem er okkar stærsta auðlind. Það er skylda okkar að nýta þessa sérstöðu til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar – fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst á visir.is 29. apríl 2025.

28/04/2025
Reykur og speglar – Sjónhverfingar í ÁrborgÁ núlíðandi kjörtímabili hefur mikið verið rætt og ritað um rekstur í Sveitarfélaginu Árborg. Margt misjafnt verið sett fram og misgáfulegt.
Við lok síðasta kjörtímabils var sjálfstæðismönnum tíðrætt um að rekstur Sveitarfélagsins Árborgar væri á versta veg og að reksturinn væri ekki sjálfbær og að fráfarandi meirihluti hefði búið svo um hnútana að eftirlitsnefnd sveitarfélaganna væri í startholunum í Innviðaráðuneytinu til að taka yfir reksturinn. Því var haldið fram að í Árborg hefði verið farið of geist í framkvæmdir og að aðhald í rekstri væri slakt. Það sem gerðist var að ráðist var í byggingu skóla, leikskóla og íþróttahöll var byggð fyrir rúmar 1.300 mkr. Var það allur glæpurinn en sennilega gleymdist að senda inn spurningarlista upp í Valhöll hvort þetta væri í lagi og hvort ekki væru réttir verktakar ráðnir til verkanna.
Hvað sem því líður þá er rétt að halda sig við staðreyndir mála. Skuldaviðmið sveitarfélagsins fór í 156,6% í lok árs 2022 en var 147,4% árið 2023 og er nú 107,6% samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2024. Skuldaviðmið skv. reglugerð sem er sett í þeim tilgangi að setja skýr viðmið um rekstur og fjárhagsstöðu sveitarfélaga, svo þau uppfylli kröfur um fjárhagslega sjálfbærni skv. sveitarstjórnarlögum.
Skuldahlutfallið sem reiknast sem heildarskuldir af reglulegum tekjum skal ekki vera hærra en 150% enda ef hlutfallið er umfram fyrrnefnt hámark til lengri tíma er rekstur sveitarfélaga ekki sjálfbær. Hinsvegar er vert að hafa í huga að á tímum mikilla fjárfestinga kann hlutfallið að kíkja tímabundið yfir hámarksviðmiðið en ef horfur eru á að tekjur aukist í náinni framtíð þá er mögulegt að réttlæta slíka ráðstöfun.
Hvað gerðist eiginlega í Árborg?
Er nú von að fólk spyrji sig þeirrar spurningar. Hvernig gat staða sveitarfélagsins farið úr því að vera ágæt, í hræðilega og aftur í ágæta á innan við einu kjörtímabili? Undirritaður ætlar að gera tilraun til að svara þessari ágætu spurningu.
Á síðasta kjörtímabili var fjárfest verulega í innviðum og íþróttaaðstöðu til handa íbúum sveitarfélagsins. Vel var í lagt til að mæta fyrirsjáanlegri þörf á innviðum vegna fólksfjölgunar og fyrirhugaðri fólksfjölgun. Núverandi meirihluti málaði upp svo dökka mynd af fjárhagsstöðunni að ritað var um bága fjárhagsstöðu í Málgagninu og öðrum fréttamiðlum eins og að sveitarfélagið væri nánast gjaldþrota. Með 156,6% skuldaviðmið. Er það mjög hæpin túlkun á alvarleika stöðunnar.
Nefna ber að lánveitendur héldu mjög að sér höndum í lánveitingum til sveitarfélagsins, svo mjög, að sveitarfélagið þurfti að glíma tímabundið við lausafjárkreppu. Má segja að lausafjárkreppa sveitarfélagsins hafi eingöngu verið meirihluta sjálfstæðismanna um að kenna því svo dökk mynd var á borð borin. Þessi atlaga sjálfstæðismanna að sveitarfélaginu hefur haft það í för með sér að lánakjör sem sveitarfélagið hefur þurft að una við hafa verið mun óhagstæðari en efni stóðu til um og má því segja að málflutningur þeirra hafi stórskaðað lánshæfismat sveitarfélagsins til lengri tíma.
Á undanförnum árum hefur sveitarfélagið því greitt hærri vexti en eðlilegt getur talist vegna lækkaðs lánshæfismats lánveitenda. Vert er að benda á að lánveitendur eru ekki einhverjar ónafngreindar verur. Lánveitendur eru venjulegt fólk úti í bæ sem les sömu fréttir og þú, lesandi góður, og verður fyrir sömu áhrifum og allir aðrir sem fylgja fréttum líðandi stundar. Því ber að tala um rekstur Sveitarfélagsins af yfirvegun en ekki léttúð.
Tilgangurinn helgar meðalið, allir áttu að fá það á tilfinninguna að rekstrarvandi sveitarfélagsins væri alvarlegur en nú væru sjálfstæðismenn komnir í verkið og það yrði lagað. Þó var það svo að þegar rætt var um leiðir benti núverandi meirihluti ávallt á ráðgjafa KPMG og firrtu sig allri ábyrgð á lausnunum. Þau væru einfaldlega að gera það sem sérfræðingarnir væru að leggja til. Hinsvegar ber einnig að nefna í samhengi við rekstraraðhald hjá sveitarfélaginu þá hafa starfsmenn Árborgar sýnt mikla þrautsegju og bera að þakka þeim fyrir einstakt framlag á kjörtímabilinu.
Reksturinn stökkbreytist með íbúafjölgun
Nú er svo komið að fréttir um andlát sveitarfélagsins hafa verið stórlega ýktar. Svo komst skáldið góða að orði um eigið andlát og má beita sömu kómík um málflutninginn sem að framan er rakin. Skuldaviðmið hefur lækkað niður í 107%. Rekstrartekjur hafa tvöfaldast á fjórum árum. Á árinu 2020 voru heildar rekstrartekjur Sveitarfélagsins 11.000 mkr. en voru 23.000 mkr. á árinu 2024. Hér er mismunur um 12.000 mkr. eða ríflega tvöföldun á fjórum árum. Eru breytingarnar núverandi meirihluta að þakka? Svarið er einfalt, nei. Hér er um að ræða breytingar vegna verulegrar aukningar á skattheimtu og vegna íbúafjölgunar. Til viðbótar, njótum við fjárfestinga sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili því svigrúmið til að taka við fjölgun íbúa á núverandi kjörtímabili er mögulegt án verulegra fjárútláta.
Sjálfstæðismenn hafa á kjörtímabilinu staðið fyrir stóraukinni skattlagningu á íbúa og fyrirtæki í formi útsvarshækkunar, hækkunar á fasteignaskatti og gjaldskrám. Nefna ber að einskiptisgreiðslur sem sveitarfélaginu bárust á árinu 2024 voru aukaútsvar vegna tímabundinnar hækkunar, sem nam 1.200 mkr. og nam sala á byggingarétti í Björkurstykkinu svokallaða um 1.200 ma.kr. Samanlagt eru þessir skattar um 2.400 mkr. sem innheimtir voru á árinu 2024 í eitt skipti. Langtímaskuldir hafa jafnframt verið auknar um tæpar 1.900 mkr. á kjörtímabilinu, frá árinu 2022.
Byggingaréttargjaldinu hefur nú verið breytt á miðbæjarsvæði Selfoss til lækkunar og tekin hefur verið ákvörðun um að halda ekki áfram með innheimtu á viðbótarálagi á útsvar á núlíðandi ári. Enda er tæplega lagaheimild fyrir því.
Það má spyrja sig hvort slíkar íþyngjandi álögur fyrir íbúa hafi verið nauðsynlegar í ljósi stöðunnar nú eða hvað heldur þú lesandi góður?

Arnar Freyr Ólafsson, oddviti Framsóknar og bæjarfulltrúi í Árborg.
Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 28. apríl 2025.

28/04/2025
Betri nýting á tíma og fjármunum Reykjavíkurborgar 2/3Ábyrgur og sjálfbær rekstur Reykjavíkurborgar er grundvöllur þess að hægt sé að þjónusta borgarbúa með þeim hætti sem þeir eiga skilið. Áætlaðar skuldir og skuldbindingar samstæðu borgarinnar árið 2025 nema um 558 milljarða króna. Það er upphæð sem flestir myndu telja óásættanlega háa. Skuldahlutfall borgarinnar var 158% samkvæmt ársreikningi 2023 sem er yfir hámarksviðmiði nýrra ákvæða í sveitarstjórnarlögum sem taka gildi árið 2026. Áætlanir gera ráð fyrir að hlutfallið fari lækkandi og brýnt er að það gangi eftir.
Borgarfulltrúar Framsóknar hafa beitt sér fyrir aukinni hagræðingu og umbótum í rekstri borgarinnar, forgangsröðun verkefna og betri þjónustu í þágu borgarbúa. Á þeim tíma sem við vorum í meirihluta náðist, með samstilltum og skýrum aðgerðum, að snúa rekstri A-hluta borgarsjóðs úr 15,6 milljarða halla í áætlaðan afgang árið 2024. Ljóst er að meira þarf að koma til svo hægt sé að mæta auknum útgjöldum og greiða niður skuldir borgarinnar.
Ég hef því tekið saman um 25 tillögur, stórar sem smáar, sem miða að betri nýtingu tíma og fjármuna í rekstri Reykjavíkurborgar. Tillögunum er skipt í 3 þemu; Samvinnu og skipulag, aukið aðhald og forgangsröðun verkefna og að lokum umbætur í þjónustu. Þær snúa meðal annars að skipulagsbreytingum, endurskoðun á verkefnum, auknu samstarfi milli eininga, fækkun stöðugilda, frestun og fækkun verkefna, hagkvæmari innkaupum og útvistun verkefna, bættu skipulagi og eftirliti með framkvæmdum og viðhaldi, auknu aðhaldi í rekstri og skilvirkari verkferlum. Tillögurnar verða sendar inn í samráðsgátt Reykjavíkurborgar.
Hér birtist annar hluti tillögupakkans sem snýr að auknu aðhaldi og forgangsröðun verkefna. Tillögunum er ekki raðað eftir mikilvægi, enda er markmiðið að skoða allar leiðir sem geta leitt til hagræðingar í rekstri borgarinnar – í því samhengi skiptir máli að velta hverjum steini við.
ÞEMA 2: AUKIÐ AÐHALD OG FORGANGSRÖÐUN VERKEFNA – 12 tillögur
Tillaga 9 – Endurskoða samninga við verktaka og arkitekta
Farið verði í greiningu á samningum borgarinnar við verktaka og arkitekta og meta hvort tilefni sé til þess að draga úr umfangi þeirra og kanna hversu hátt hlutfall þeirra fer í útboð. Meta hvort ekki felist hagræði í því að setja fleiri samninga í útboð með það að markmiði að fá hagstæðari tilboð. Dæmi um útboð sem hefur leitt til hagstæðra kjara er útboð vegna trjáfellinga í Öskjuhlíðinni en með útboðinu sparaði borgin hundruði milljóna króna. Einnig mætti skoða tímamörk samninga og hversu oft slíkir samningar fela í sér opna tékka til útgjalda.
Tillaga 10 – Bílastæðastefnan fryst
Bílastæðastefnan og fækkun bílastæða verði fryst þar til Borgarlínan hefur hafið akstur. Þannig sparast tími borgarstarfsmanna og fjármagn tímabundið á meðan unnið er að öðrum brýnum verkefnum.
Tillaga 11 – Hætta með Hverfið mitt tímabundið
Hætta með Hverfið mitt tímabundið þar til fjárhagsstaða borgarinnar er betri.
Tillaga 12 – Vetrargarðurinn settur á ís
Setja áform um Vetrargarð í Reykjavík á ís þangað til að búið er að létta á skuldum borgarinnar.
Tillaga 13 – Kerfið hugsað til langs tíma (með áherslu á forvarnir)
Aukið fjármagn verði sett í fyrirbyggjandi aðgerðir svo sem forvarnir og lýðheilsu og fyrsta stigs þjónustu til að draga úr þeim kostnaði sem hlýst af því af að grípa ekki fyrr inn í vanda barna og ungmenna. Þetta styður einnig við markmið laga um farsæld barna. Með þessu er hægt að minnka kostnaðinn við þjónustu á öðru og þriðja stigi við börn og félags- og virkniþjónustu við fullorðna til langs tíma.
Tillaga 14 – Skorður settar við uppfærslur á húsakynnum
Verklag við uppfærslur á vinnurýmum og húsakynnum verði endurskoðað og skorður settar við uppfærslur sem ekki brýn nauðsyn er á.
Tillaga 15 – Halda betur utan um eignir borgarinnar
Stofna B-hlutafélag sem heldur utan um eignir borgarinnar og viðhald á þeim.
Tillaga 16 – Auka eftirlit með viðhaldi borgarinnar
Eftirlit með viðhaldi í borginni verði eflt með það að markmiði að halda kostnaði við viðhaldsframkvæmdir í lágmarki og tryggja hraðan framgang verklegra framkvæmda.
Tillaga 17 – Óháð greining á rekstri fagsviða og málaflokka
Fá óháða greiningaraðila til að fara í greiningu á rekstri einstakra sviða og málaflokka með það að markmiði að kanna hvort tækifæri séu að til þess að hagræða í rekstri t.a.m. með því að hætta ólögbundnum verkefnum, minnka yfirbyggingu og fækka stöðugildum.
Tillaga 18 – Innkaupin byrja í geymslunum
Ráðast þarf í tiltekt í geymslum borgarinnar með það að markmiði að draga úr kostnaði við innkaup og rekstur geymsluhúsnæðis. Farið verði í að skrásetja það sem til er, nýta það sem hægt er og meta hvað er þarft að eiga. Öðru verði komið strax í hringrásarhagkerfið.
Tillaga 19 – Fækka eignum borgarinnar
Farið verði í kortlagningu á eignum borgarinnar og þær eignir sem óþarfi er fyrir Reykjavíkurborg að eiga verði seldar.
Tillaga 20 – Draga úr kostnaði við smávægilegt viðhald
Móta verklag um húsverði eða teymi í skólahverfum borgarinnar sem sér um minniháttar viðhald t.a.m. að hengja upp hillur, skipta um ljósaperur og mála minni fleti. Með því væri hægt að tryggja að hugað sé betur að húsakynnum borgarinnar svo sem skólum. Markmiðið er að draga úr kostnaði við verktakakaup vegna smávægilegra viðhaldsverkefna og tryggja að brugðist sé hratt við minniháttar viðhaldsþörf áður en vandamálið verður umfangsmeira.
Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 28. apríl 2025.