Síðastliðinn þriðjudag voru orkumál landsins sérstaklega rædd á Alþingi. Umræðan fór fram fyrir tilstilli undirritaðrar og var umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til andsvara. Ásamt okkur mættu fulltrúar allra þingflokka til að útskýra afstöðu sína varðandi orkuþörf landsins og orkuöryggi okkar til framtíðar. Umræðan var lífleg og áhugaverð og kom vægast sagt á óvart á köflum.
Er orkuskortur á Íslandi?
Þrátt fyrir að sérfræðingar innan orkuiðnaðarins hafi lengi bent á aukna orkuþörf þjóðarinnar og yfirvofandi orkuskort hér á landi þá eru greinilega aðilar sem enn eru ekki sannfærðir um vandann.
Eftirspurn eftir raforku hér á landi er orðin meiri en framboð og samfélagið er hvatt til þess að spara orku, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða heimili. Æ oftar gerist það að fyrirtæki neyðast til þess að brenna olíu til að halda daglegri starfsemi sinni gangandi í samræmi við samninga vegna ótryggrar orku, sem mikilvægir eru til að fullnýta kerfið. Í þessu felst kostnaður fyrir okkur öll ásamt þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem slík brennsla hefur í för með sér.
Heimilin í forgangi
Í núverandi ástandi hefur ríkisstjórnin sett það í algjöran forgang að yfirvofandi orkuskortur hafi lítil sem engin áhrif á heimili fólks né lítil og meðalstór fyrirtæki.
Þingið hefur nú til meðferðar frumvarp um raforkuöryggi, en þar kemur fram að notendur sem kaupa raforku til heimilisnota, mikilvægir samfélagsinnviðir og fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn og ársveltu eða efnahagsreikning sem er ekki yfir 1,5 milljörðum kr. og hafa ekki samið sérstaklega um skerðanlega notkun skuli njóta forgangs ef skerðing á raforku á sér stað. Miðað við ræðurnar í framangreindum umræðum býst ég ekki við öðru en að allir þingmenn, þvert á flokka, ýti á græna takkann þegar frumvarpið fer í atkvæðagreiðslu.
Stöðnun atvinnulífsins vegna skerðinga
Þó svo að heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki verði að mestu óhult ef til skömmtunar á raforku kemur þá þurfum við að horfa á stóru myndina. Ef við öflum ekki meiri raforku og dreifum henni á sem bestan máta þá mun það hafa talsverð áhrif á atvinnulíf hér á landi. Stórnotendur raforkunnar okkar bera þungann af skerðingum á raforku. Um er að ræða þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem skila samfélaginu talsverðum útflutningstekjum og það kom nokkuð á óvart að talsmenn sumra flokka á Alþingi hefðu takmarkaðar áhyggjur af því að slíkar skerðingar eigi sér stað í rekstri þeirra, með tilheyrandi áhrifum á vöru þeirra og þjónustu.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá verðum við að ákveða í hvernig samfélagi við viljum búa. Viljum við takmarka orku fyrir stórnotendur og þar með gera þá nauðbeygða til að nýta óhreina raforkukosti í sínum rekstri eða viljum við tryggja að stór og stöndug fyrirtæki hafi nægjanlega orku fyrir hendi til að skapa útflutningstekjur, sem skila sér til framkvæmda á mikilvægum innviðum og í velferð samfélagsins? Hér er átt við öflug fyrirtæki sem flokkast sem stórnotendur og bjóða upp á haldbærar vörur og/eða þjónustu. Hér þurfum við að gera greinarmun á milli slíkra fyrirtækja og annarra stórnotenda á borð við rafmyntagröft, en ekki setja alla stórnotendur undir sama hatt.
Aukin öflun í þágu umhverfissjónarmiða
Í umræðunni um orkumál virða sumir áhyggjur um orkuskort að vettugi. Almennt er sagt að við eigum nóg af hreinni raforku í dag og að aukin eftirspurn þýði ekki endilega að orkuskortur sé yfirvofandi.
Sú útbreidda skoðun að við eigum nóg stenst ekki þegar um 40% af þeirri orku sem við notum í dag til verðmætasköpunar kemur í formi innfluttrar olíu líkt og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í viðtali við Morgunblaðið 24. janúar sl. Það getur varla talist jákvætt með tilheyrandi umhverfisáhrif og markmið Íslands í loftlagsmálum til hliðsjónar. Það er umhugsunarvert að höfuðáhersla er lögð á að fólk fari frekar á rafmagnsbílum og breyti daglegum neysluvenjum þegar skerðingar verða fleiri og óhreinir orkugjafar eru notaðir í talsverðu magni.
Niðurstaðan hlýtur að vera sú að aukin virkjun og framleiðsla á raforku ásamt betra dreifikerfi þjóni hagsmunum okkar allra í stóra samhenginu.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.