Föstudagskvöldið 10. nóvember 2023 mun aldrei líða Grindvíkingum úr minni. Aldrei áður hafa allir íbúar heils bæjarfélags á Íslandi fengið þau fyrirmæli frá almannavarnayfirvöldum að þeir verði að yfirgefa heimili sín innan þriggja klukkustunda vegna yfirvofandi ógnar. Á þessu augnabliki og öllum síðan hafa allir Íslendingar fundið til samkenndar með Grindvíkingum. Viðbrögð þjóðarinnar hafa verið sterk og allir lagst á árarnar við að létta undir með Grindvíkingum og eyða eftir megni þeirri óvissu sem ríkir.
Grindvíkingar eru ekki heima hjá sér þessa dagana. Samfélag þeirra er dreift um landið en ég finn í samtölum mínum við Grindvíkinga að hugurinn er heima. Auðvitað.
Frá því að Grindvíkingar þurftu að yfirgefa bæinn sinn hefur ríkisstjórnin lagt alla áherslu á að styðja við bæjaryfirvöld í þeim flóknu verkefnum sem við blasa. Það er mikilvægt að forsvarsfólk sveitarfélagsins stjórni ferðinni þegar um bæjarfélagið þess er að ræða. Ríkisstjórnin og öll stjórnsýsla ríkisins er þeim til stuðnings. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með bæjarstjóra og öðrum þeim sem standa í stafni sveitarfélagsins. Og þakkarvert að sjá þá miklu vinnu sem viðbragðsaðilar hafa lagt af mörkum síðustu vikur.
Ríkisstjórnin hefur verið í góðu sambandi við bæjarstjóra Grindavíkur um þau verkefni sem snúa að stjórnvöldum. Við höfum stutt við boranir eftir neysluvatni vegna hættunnar af því að vatnsból Suðurnesjamanna spillist. Við höfum veitt allar þær undanþágur sem þarf til að sveitarstjórn Grindavíkur starfi utan ráðhúss Grindavíkur. Stærsta verkefnið er þó annars vegar að tryggja öryggi og framfærslu og húsnæði. Að öllu þessu hefur verið unnið hörðum höndum í samvinnu við Grindavíkurbæ þá sólarhringa sem liðnir eru frá rýmingu.
Fyrsti þáttur húsnæðismálanna var að koma öllum Grindvíkingum í öruggt skjól. Almannavarnir í samstarfi við Rauða krossinn unnu þann þátt hratt og vel. Nú hafa þau rétt keflið til ríkisstjórnarinnar sem hefur lagt nótt við dag að vinna að lausnum til næstu mánaða. Auðvitað í samstarfi við Grindvíkinga. Annars vegar er unnið að því að HMS með leigufélaginu Bríeti og íbúðafélaginu Bjargi kaupi húsnæði sem getur hýst allt að 200 grindvískar fjölskyldur á allra næstu vikum. Hins vegar er annar hópur sem hefur það hlutverk að finna einingahús sem henta Grindvíkingum og finna staðsetningu þar sem slíkum húsum er hægt að koma niður hratt og örugglega. Vonir standa til að slíkt ferli geti skilað því að á fyrstu mánuðum nýs árs geti Grindvíkingar flutt tímabundið inn í þau hús.
Afkoma fólksins í Grindavík hefur ásamt húsnæðismálunum verið í algjörum forgangi hjá ríkisstjórninni. Sérstakt frumvarp um tímabundinn stuðning til greiðslu launa var lagt fyrir Alþingi fyrr í vikunni og verður vonandi afgreitt sem lög í upphafi næstu viku. Þá var einnig samþykkt í ríkisstjórn í gær frumvarp um sértækan húsnæðisstuðning við Grindvíkinga.
Samfélag er meira en póstnúmer. Það er allt skólastarfið, félagslífið, vinnustaðirnir. Nú er þetta samfélag tvístrað um stund. En ekki samkenndin. Það fann ég sterkt þegar ég heimsótti miðstöð Grindvíkinga í Tollhúsinu fyrr í vikunni. Þar ríkti samhugur og von um að geta snúið aftur heim. Heim í Grindavík.
Ég get ekki lofað því að næstu vikur og mánuðir verði auðveldur tími fyrir Grindvíkinga. En ég get lofað því að ríkisstjórnin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að draga úr óvissu og standa vörð um Grindvíkinga þar til þeir snúa heim.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2023.