Categories
Fréttir Greinar

Sam­vinnu­verk­efni um lægri verð­bólgu og vexti

Deila grein

08/01/2024

Sam­vinnu­verk­efni um lægri verð­bólgu og vexti

Jákvæður tónn var sleginn í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og stærstu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði þegar sameiginleg yfirlýsing var send út nú rétt fyrir áramót. Í yfirlýsingunni er sérstaklega tiltekið mikilvægi þess að semja til lengri tíma svo auka megi fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Þessi yfirlýsing er skynsamlegt innlegg í okkar mikilvægasta verkefni sem er að ná niður verðbólgu og háum vöxtum og hefur hvarvetna fengið jákvæð viðbrögð. Mesta kjarabótin fyrir fólk og fyrirtæki í landinu er óumdeilt að ná niður vöxtum.

Það er svo sannarlega ánægjulegt að finna hversu rík samstaða er á meðal aðila vinnumarkaðsins í þessu stóra verkefni því hér er enginn eyland ef svo má segja, heldur þurfa allir aðilar að taka þátt, allt samfélagið og þá gildir einu hvort horft sé til aðildarfyrirtækja SA, ríkis eða sveitarfélaga; allir þurfa að ganga í takt og sameinast um þetta mikilvæga verkefni svo vel takist til. Þetta finna allir og með jákvæðu viðhorfi til verkefnisins eru auknar líkur á að markmið okkar takist. Haldi þessi taktur áfram er nokkuð víst að við munum ná tökum á vöxtum og verðbólgu á þessu ári.

Hvað þarf til?

Það er til mikils að vinna að lenda farsælum langtímakjarasamningum. Þó svo að ríkisstjórnin eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni hafa aðilar vinnumarkaðarins kallað eftir því að stjórnvöld liðki fyrir gerð kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin krefst þess að ríkið auki útgjöld sín til barna-, húsnæðis- og vaxtabóta um 20-25 milljarða króna. Stjórnvöld hafa líkt og áður ríkan vilja til þess að koma að kjaraviðræðum með einhverjum hætti. Horfa má til þess að ríkisstjórnin hefur nú þegar komið inn með aðgerðir á húsnæðismarkaði þegar kemur að almennum íbúðum og veitingu hlutdeildarlána til kaupa á hagkvæmu húsnæði, en aðra hópa þarf nú að taka inn. Stjórnvöld hafa markvisst verið að auka framboð af húsnæði fyrir tekju- og eignaminni fjölskyldur og einstaklinga ásamt því að hækka húsaleigubætur. Þá hafa barnabætur hækkað og unnið er að fyrirkomulagi á greiðslu samtíma barnabóta.

Þessu til viðbótar er nauðsyn á samstilltu átaki þegar kemur að verð- og gjaldskrárhækkunum í samfélaginu en þar hefur ríkið stigið nokkuð varfærin skref á meðan sveitarfélögin mörg hver stigu stærri og verri skref. Það er þó jákvætt að heyra síðustu daga forystufólk hinna ýmsu sveitarfélaga taka jákvætt í þátttöku í þessu mikilvæga samvinnuverkefni og boða gjaldskrárlækkanir sem innlegg í gerð skynsamlegra langtímakjarasamninga. Gerum þetta saman, það er allra hagur.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Þar sem er vilji, þar er vegur

Deila grein

08/11/2023

Þar sem er vilji, þar er vegur

Undirritaður var í Silfrinu á RÚV á mánudagskvöldið og ræddi þar um húsnæðismál og hvernig okkur á að takast að byggja nægilegt magn íbúða svo mæta megi þeim áskorunum sem nú blasa við okkur. Það er hægt.

Til að byrja með þá er rétt að segja að í þessu verkefni er enginn eyland; ekki ríkið, ekki Seðlabankinn, ekki sveitarfélög og ekki framkvæmdaaðilar. Ábyrgðin er allra.

Ég hef áður gagnrýnt Seðlabankann á þeim nótum sem ég gerði í þættinum á mánudagskvöldið. Mér þykir rörsýn Seðlabankans of mikil og of mikill skortur vera á sýn á stóru myndina, heildarsamhengi hlutanna til framtíðar, og hvert við erum raunverulega að stefna. Við þurfum framtíðarsýn og getu til að sjá fyrir okkur hvernig við ætlum að hafa hlutina eftir 2, 3, 5 eða 10 ár?

Varðandi Seðlabankann, þá er það auðvitað augljóst að vaxtahækkanir hafa haft neikvæð áhrif á framboðshliðina og hert lánþegaskilyrði hafa það einnig, en gera það á hinni hlið peningsins. Annars vegar er dýrt að framkvæma íbúðir vegna hárra vaxta og hins vegar er nær ógerningur að selja íbúðir vegna hertra lánþegaskilyrða Seðlabankans. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp og er í raun stórhættulegur kokteill sem hefur letjandi áhrif á framkvæmdaaðila, þvert á það sem við þurfum nú. Samdrátturinn í byggingu nýrra íbúða er augljós á milli ára, eða um 70%. Það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn.

1) Seðlabankinn þarf vegna þessa að stíga skref til baka þegar kemur að lánþegaskilyrðum.

2) Aðgerðir innviðaráðherra er varða aðgerðir í almenna íbúðakerfinu, þar sem stofnframlög voru tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána voru aukin hafa skilað góðum árangri og styðja við markmið um aukið framboð á húsnæðismarkaði.

Í heimsfaraldrinum var samþykkt að veita sveitarfélögunum heimild til að víkja frá fjármálareglum sveitarstjórnarlaga þar sem markmiðið var að tryggja sveitarfélögum aukið svigrúm til að ráðast í auknar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra aðstæðna sem faraldrinum fylgdi.

3) Það má horfa á sambærilega aðgerð þegar kemur að skynsamlegu og tímabundnu fráviki frá svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins enda hefur fólksfjölgun verið langt umfram allar spár frá þeim tíma þegar vaxtarmörk voru ákvörðuð fyrir höfuðborgarsvæðið í kringum árin 2014-2015. Slík endurskoðun myndi tryggja lóðir á nýbyggingarsvæðum í bland við nauðsynlega þéttingu byggðar og verða til þess að markmið um aukna uppbyggingu húsnæðis muni raungerast um land allt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. nóvember 2023.

Categories
Greinar

Sporin hræða

Deila grein

30/10/2023

Sporin hræða

Í morgun, fimmtudaginn 26. október, fór fram opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þar sem til umræðu var skýrsla peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Í lögum um Seðlabanka Íslands er kveðið svo á að peningastefnunefnd bankans skuli gefa Alþingi skýrslu um störf sín tvisvar á ári. Nýlega ræddi aðalhagfræðingur Íslandsbanka um stöðu heimilanna í útvarpsviðtali þar sem hann sagði að stjórnvöld þyrftu að vera búin undir það að hlutirnir geti breyst svolítið hratt. Verðbólga hefur áhrif á samfélagið allt þar sem fólk og fyrirtæki finna fyrir hækkandi vöxtum. Nú liggur það fyrir að stór hluti lána er á föstum vöxtum sem losna nú á komandi ársfjórðungum og það getur breytt stöðunni nokkuð hratt til hins verra. Stjórnvöld þurfa því að fylgjast náið með stöðunni, greina hana og bregðist við með aðgerðum fyrir þá hópa sem verða hvað verst úti með ábyrgum og öruggum hætti. Annað mál er svo húsnæðismarkaðurinn í heild þar sem sporin hræða.

Langtíma kjarasamningar og aðkoma stjórnvalda

Kjarasamningar á vinnumarkaði losna nú um áramótin og þar er allra hagur að vel takist til. Þar er sérstaklega mikilvægt að lenda farsælum langtíma kjarasamningum sem styðja við það mikilvæga verkefni að ná hér niður verðbólgu og vöxtum sem er óumdeilt mesta kjarabót heimila og fyrirtækja í landinu. Þó svo að stjórnvöld eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni er ljóst að aðilar vinnumarkaðarins munu kalla eftir því að stjórnvöld liðki fyrir samningsgerð. Þar er líklegt að háværust verði krafan um frekari úrræði til að stuðla að auknu húsnæðisöryggi og að barnafjölskyldur og þeir sem lakast standa verði varin. Stjórnvöld átta sig á hlutverki sínu í komandi kjarasamningum og mikilvægi þess að vel takist til. Nú þegar hefur ríkisstjórnin stigið inn með aðgerðir á húsnæðismarkaði þar sem stutt hefur verið við uppbyggingu með opinberum stuðningi og má þar nefna uppbyggingu almennra íbúða og veitingu hlutdeildarlána til kaupa á hagkvæmum íbúðum. Eins hefur verið stutt við barnafjölskyldur með hækkun barnabóta með hærri grunnfjárhæð og skerðingarmörkum. Þessu til viðbótar er hér rétt að nefna að húsaleigubætur hafa verið hækkaðar um fjórðung frá miðju ári 2022 auk þess sem frítekjumörk voru hækkuð til jafns við hækkun bóta.

Áhyggjur af sýn Seðlabankans þegar kemur að stöðunni á húsnæðismarkaði

Tryggt framboð og öryggi á húsnæðismarkaði er mikið hagsmunamál í íslensku samfélagi. Langtímaskortur á íbúðum á Íslandi hefur valdið því að bæði leigu- og fasteignaverð hefur hækkað mikið. Það er aðeins ein leið sem mun koma í veg fyrir að leigu- og fasteignaverð muni halda áfram að hækka óeðlilega mikið líkt og verið hefur á undanförnum árum. Sú leið er aukið framboð af húsnæði. Markmið innviðaráðherra um aukna húsnæðisuppbyggingu og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til er mikilvægt innlegg í þá vegferð. Hins vegar er það svo að húsnæðismarkaðurinn hefur fundið verulega fyrir aðgerðum Seðlabankans, þar sem kaupendum hefur verið gert erfiðara um vik með að komast inn á markaðinn, vegna hertra lánþegaskilyrða, og fjármögnun nýframkvæmda er orðin dýrari. Þvert á það sem við þurfum nú, og þegar allt er saman tekið, þá hefur þetta letjandi áhrif á framkvæmdaaðila til að halda áfram að framkvæma íbúðir. Ég hef verulegar áhyggjur af sýn Seðlabankans þegar kemur að stöðunni á húsnæðismarkaði og það virðist vera að bankinn haldi að hann sé eyland þegar að þessum málum kemur og það sé allra annarra að leysa úr stöðunni. Það er bara ekki svo einfalt, því allt hangir þetta saman.

Ég er full meðvitaður um þann línudans sem þetta er á tímum hárra vaxta og verðbólgu, en okkur verður að bera gæfa til þess að setjast niður og tryggja að við komumst saman út úr núverandi ástandi sem mun einungis leiða til hærra leiguverðs og auka þrýsting á mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástandi slotar. Það er engum til góðs og að mínu mati er það algjörlega ljóst að gera þarf sérstakar ráðstafanir til að leysa þann hnút sem við erum komin í. Við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum lenda á sama stað og árin eftir hrun þegar framkvæmdir svo gott sem stöðvuðust sem síðar leiddi til umframeftirspurnar. Afleiðingarnar af slíku þekkjum við of vel.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á eyjan.is 26. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tilbúin að bregðast við breyttum aðstæðum

Deila grein

22/10/2023

Tilbúin að bregðast við breyttum aðstæðum

„Stjórn­völd þurfi að vera búin und­ir það að hlut­irn­ir geti snú­ist svo­lítið hratt,“ sagði Jón Bjarki Bents­son aðal­hag­fræðing­ur Íslands­banka í Morg­unút­varp­inu á Rás 2 á mánu­dag­inn spurður um stöðu heim­il­anna og hvernig hún geti tekið breyt­ing­um á næstu mánuðum. Það eru krefj­andi aðstæður uppi um þess­ar mund­ir og brýn verk­efni fram und­an. Verðbólga hef­ur áhrif á sam­fé­lagið allt þar sem fólk og fyr­ir­tæki finna fyr­ir hækk­andi vöxt­um sem reyn­ist mörg­um þung­ur baggi að bera. Það ligg­ur fyr­ir að stór hluti lána er á föst­um vöxt­um sem losna nú á kom­andi árs­fjórðung­um og það get­ur breytt stöðunni nokkuð hratt til hins verra. Því er sér­stak­lega mik­il­vægt að stjórn­völd fylg­ist náið með stöðunni, greini hana og bregðist við með aðgerðum fyr­ir þá hópa sem verða hvað verst úti með ábyrg­um og ör­ugg­um hætti.

Lægri verðbólga og fyr­ir­sjá­an­legra vaxtaum­hverfi

Stjórn efna­hags­mála verður mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­mál­anna og sam­fé­lags­ins alls á næstu mánuðum með það að mark­miði að ná hér tök­um á verðbólgu og vöxt­um. Það ger­um við fyrst og fremst með ábyrg­um rekstri og aðhaldi í rík­is­fjár­mál­um, um leið og viðkvæm­ir hóp­ar eru varðir með aðgerðum fyr­ir áhrif­um verðbólg­unn­ar. Kjara­samn­ing­ar á vinnu­markaði losna nú um ára­mót­in og þar er allra hag­ur að vel tak­ist til. Höfuðmark­miðið er að lenda far­sæl­um lang­tíma­kjara­samn­ing­um sem styðja við það mik­il­væga verk­efni að ná hér niður verðbólgu og vöxt­um sem er óum­deilt mesta kjara­bót heim­ila og fyr­ir­tækja í land­inu. Heilt yfir er staðan nokkuð góð á vinnu­markaði, þar sem at­vinnu­leysi er í lág­marki og nýj­um at­vinnu­tæki­fær­um fjölg­ar stöðugt í fjöl­breytt­ara at­vinnu­lífi um land allt.

Þó svo að stjórn­völd eigi ekki form­lega aðkomu að kjara­samn­ings­gerðinni er ljóst að aðilar vinnu­markaðar­ins munu kalla eft­ir því að stjórn­völd liðki fyr­ir samn­ings­gerð. Þar er lík­legt að há­vær­ust verði kraf­an um frek­ari úrræði til að stuðla að auknu hús­næðis­ör­yggi og að barna­fjöl­skyld­ur og þeir sem lak­ast standa verði var­in. Stjórn­völd átta sig á hlut­verki sínu í kom­andi kjara­samn­ing­um og mik­il­vægi þess að vel tak­ist til. Nú þegar hef­ur rík­is­stjórn­in stigið inn með aðgerðir á hús­næðismarkaði þar sem stutt hef­ur verið við upp­bygg­ingu með op­in­ber­um stuðningi og má þar nefna upp­bygg­ingu al­mennra íbúða og veit­ingu hlut­deild­ar­lána til kaupa á hag­kvæm­um íbúðum. Eins hef­ur verið stutt við barna­fjöl­skyld­ur með hækk­un barna­bóta með hærri grunn­fjár­hæð og skerðinga­mörk­um. Þessu til viðbót­ar er hér rétt að nefna að húsa­leigu­bæt­ur hafa verið hækkaðar um fjórðung frá miðju ári 2022 auk þess sem frí­tekju­mörk voru hækkuð til jafns við hækk­un bóta.

Hús­næðismarkaður á kross­göt­um

Tryggt fram­boð og ör­yggi á hús­næðismarkaði er mikið hags­muna­mál í ís­lensku sam­fé­lagi. Lang­tíma­skort­ur á íbúðum á Íslandi hef­ur valdið því að bæði leigu- og fast­eigna­verð hef­ur hækkað mikið. Það er aðeins ein leið sem mun koma í veg fyr­ir að leigu- og fast­eigna­verð muni halda áfram að hækka óeðli­lega mikið líkt og verið hef­ur á und­an­förn­um árum. Sú leið er aukið fram­boð af hús­næði. Mark­mið innviðaráðherra um aukna hús­næðis­upp­bygg­ingu og þær aðgerðir sem gripið hef­ur verið til er mik­il­vægt inn­legg í þá veg­ferð. Hins veg­ar er það svo að hús­næðismarkaður­inn hef­ur fundið veru­lega fyr­ir aðgerðum Seðlabank­ans, þar sem kaup­end­um hef­ur verið gert erfiðara um vik að kom­ast inn á markaðinn og fjár­mögn­un ný­fram­kvæmda er orðin dýr­ari. Þvert á það sem við þurf­um nú, og þegar allt er sam­an tekið, hef­ur þetta letj­andi áhrif á fram­kvæmdaaðila til að halda áfram að fram­kvæma íbúðir.

Ég er fullmeðvitaður um þann línu­dans sem þetta er á tím­um hárra vaxta og verðbólgu, en nú­ver­andi ástand mun ein­ung­is leiða til hærra leigu­verðs og auka þrýst­ing á mjög hátt fast­eigna­verð þegar nú­ver­andi ástandi slot­ar. Það er eng­um til góðs og að mínu mati ljóst að gera þarf sér­stak­ar ráðstaf­an­ir til að leysa þann hnút sem við erum kom­in í. Slíkt mætti gera með tíma­bundn­um og sér­tæk­um lána­skil­mál­um hjá fjár­mála­fyr­ir­tækj­um til að tryggja áfram nauðsyn­lega upp­bygg­ingu. Með slíku myndu fjár­mála­fyr­ir­tæk­in rísa und­ir þeirri ábyrgð sem á þeim hvíl­ir um þess­ar mund­ir. Þessu til viðbót­ar tel ég skyn­sam­legt að ráðast í nauðsyn­leg­ar laga­breyt­ing­ar á fjár­fest­inga­heim­ild­um líf­eyr­is­sjóða sem myndi gera þeim heim­ilt að eiga meira en 20% í fé­lagi sem myndi sinna fast­eigna­verk­efn­um fyr­ir líf­eyr­is­sjóði og gæti þar með styrkt okk­ur sem sam­fé­lag í því verk­efni að hér á landi verði til traust­ur og heil­brigður leigu­markaður.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. vara­formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Betri tíð í samgöngumálum

Deila grein

12/10/2023

Betri tíð í samgöngumálum

Þau sem fylgst hafa með um­ræðum um sam­göngu­mál á höfuð­borgar­svæðinu síðustu árin og ára­tugina hafa orðið vitni af stöðugum á­greiningi milli ríkis og sveitar­fé­laga og þá sér­stak­lega á milli ríkis og Reykja­víkur­borgar. Ég ætla hér í þessum greinarstúf að beina athygli að samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega að samgöngusáttmálanum sem undirritaður var af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Fyrir undirritun samgöngusáttmálans hafði ríkt al­gjör stöðnun í sam­göngum hér á þessu fjöl­mennasta svæði landsins og af­leiðingarnar voru aug­ljósar; sí­fellt þyngri um­ferð, meiri tafir og meiri mengun.

Almennt séð þá tel ég að það séu ekki ýkja margir sem gera sér grein fyrir því af­reki sem Sigurður Ingi Jóhanns­son, innviðaráðherra, vann með því að ná þessum samningi í gegn á sínum tíma. Þar er mikilvægast að sveitarfélögin er nú sameinuð í sinni framtíðarsýn þegar kemur að samgöngumálum. Því miður er umræðan um samgöngusáttmálann ekki á þeim stað sem hún þarf að vera. Umræðan snýst eingöngu um fjármagn en ekki stóru myndina og þá miklu framtíðarsýn sem hann samgöngusáttmálinn staðfestir. Það er nú þannig að ekkert gert án fjármuna um leið og tæknin þróast á ógnarhraða. Að því sögðu er að sjálfsögðu eðlilegt og nauðsynlegt að allar áætlanir, hvort sem um er að ræða kostnaðar- eða framkvæmdaáætlanir, séu stöðugt til skoðunar með það að markmiði að fjármunir séu vel nýttir og að við séum að styðjast við bestu tækni. Viðræðuhópur hefur verið skipaður fulltrúum ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú að því að rýna í áætlanir sáttmálans með það fyrir augum að uppfæra forsendur hans og undir­bún­ing á viðauka við hann.

Samvinna skilar betri árangri

Sam­göngu­sátt­málinn sem skrifað var undir árið 2019 markaði tíma­mót að mörgu leyti. Með sáttmálanum sameinuðust ríki og sveitarfélögin á höfuð­borgarsvæðinu um framtíðarsýn og markmið fyrir samgöngur á svæðinu. Sú leið var ekki ein­föld, eða niðurstaðan auðsótt, enda ólík sjónar­mið uppi milli sveitarfélaga. En með þessu sam­tali ráð­herrans við sveitar­fé­lögin og Vega­gerðina var ísinn brotinn og við í­búar á höfuð­borgar­svæðinu öllu erum farin að sjá fram á betri tíð í sam­göngum. Mikilvægar framkvæmdir hafa nú þegar klárast, svo sem á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, Suður­landsvegi milli Vesturlandsvegar og Hádegismóa og á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Þá hafa einnig verið lagðir rúmlega 13 km af hjólastígum.

Á höfuðborgarsvæðinu er nú unnið að stórfelldri uppbyggingu innviða fyrir alla ferðamáta. Tímabærar framkvæmdir á stofnvegum þar sem umsvifa­mest er lagning stórra umferðaræða í stokka, munu greiða fyrir umferð, draga úr umhverfis­áhrifum og skapa mannvænni byggð í grennd við umferðaræðar. Þróun hágæðaalmenn­ings­samgangna ásamt nýju stofnleiðakerfi hjólreiða er svo lykilþáttur í þróun svæð­isins í átt að sjálfbærara borgarsamfélagi. Aukin hlutdeild almenningssamgangna í ferðamáta­vali á svæðinu mun greiða fyrir umferð og halda aftur af aukningu umferðartafa á svæð­inu. Sjálfbærara samfélag er mikilvægur þáttur í að auka lífsgæði og efla samkeppnis­hæfni svæðisins, en höfuðborgarsvæðið er í samkeppni um mannauð við stórborgir í nágranna­lönd­um. Niður­staðan er fjöl­breyttar sam­göngur þar sem stofn­brautir verða byggðar upp, göngu- og hjóla­stígar lagðir og inn­viðir al­vöru al­mennings­sam­gangna verða að veru­leika. Allt styður þetta við heil­brigðara sam­fé­lag, styttir ferða­tíma á svæðinu, minnkar mengun og eykur allt umferðaröryggi.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hagræðing í bankakerfinu hefur ekki skilað sér til fólksins

Deila grein

02/10/2023

Hagræðing í bankakerfinu hefur ekki skilað sér til fólksins

Mik­il­væg­ar og gagn­leg­ar upp­lýs­ing­ar koma fram í nýrri skýrslu starfs­hóps er Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, skipaði til að meta gjald­töku og arðsemi viðskipta­bank­anna. Hópn­um var ætlað að greina tekju­mynd­un, þar á meðal þókn­an­ir, þjón­ustu- og vaxta­tekj­ur og vaxtamun viðskipta­bank­anna þriggja í nor­ræn­um sam­an­b­urði. Á manna­máli er spurn­ing­in hvort ís­lensk heim­ili greiði hlut­falls­lega meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili ann­ars staðar á Norður­lönd­um.

Í ljós kem­ur að vaxtamun­ur viðskipta­bank­anna hef­ur verið að aukast. Það kem­ur fram í töl­um og gögn­um þegar upp­gjör bank­anna það sem af er ári eru skoðuð. Það verður að vera krafa okk­ar neyt­enda að bank­arn­ir minnki vaxtamun­inn og skipti þannig ávinn­ingn­um á sann­gjarn­ari hátt. Þá eru sum þjón­ustu­gjöld ógagn­sæ og ekki alltaf ljóst hvað neyt­end­ur eru að greiða fyr­ir. Það er óviðun­andi staða. Nefnt er dæmi um að gjald­taka ís­lensku bank­anna af kortaviðskipt­um í er­lendri mynt sé dul­in en hún veg­ur engu að síður þungt í út­gjöld­um heim­il­anna fyr­ir fjár­málaþjón­ustu. Þá seg­ir að geng­isálag bank­anna á korta­færsl­um skeri sig tölu­vert úr ann­arri gjald­töku því að álagið kem­ur hvergi fram í verðskrám bank­anna og virðist vera breyti­legt milli gjald­miðla og frá ein­um tíma til ann­ars. Um er að ræða 6,6 millj­arða geng­isálag á ís­lenska neyt­end­ur fyr­ir að nota greiðslu­kort sín í er­lend­um færsl­um.

Hærri kostnaður vegna greiðslumiðlun­ar

Í skýrsl­unni kem­ur fram að kostnaður þjóðfé­lags­ins vegna greiðslumiðlun­ar sé mun hærri hér á landi en ann­ars staðar á Norður­lönd­um. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun hef­ur í för með sér hærra verð á vöru og þjón­ustu til ís­lenskra neyt­enda, sem á end­an­um bera kostnaðinn. Seðlabank­inn áætl­ar að kostnaður sam­fé­lags­ins af notk­un greiðslumiðla hér á landi á ár­inu 2021 hafi verið um 47 millj­arðar króna eða um 1,43% af vergri lands­fram­leiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslu­korta ríf­lega 20 millj­arðar króna. Lang­stærst­ur hluti af færsl­un­um fer í gegn­um innviði er­lendra korta­fyr­ir­tækja.

Í skýrsl­unni seg­ir að það geti marg­borgað sig að kanna hvað sé í boði og í hverju kostnaður viðkom­andi liggi helst við bankaþjón­ustu. Vil ég hvetja alla til að skoða þetta gaum­gæfi­lega í sín­um viðskipt­um því það má vera að tæki­færi séu til að lækka til­kynn­ing­ar- og greiðslu­gjöld. Þá seg­ir að einnig sé hægt að at­huga hvort ódýr­ara sé að nota kred­it­kort, de­bet­kort eða kaupa gjald­eyri áður en farið er til út­landa.

Bank­arn­ir standi með fólki og fyr­ir­tækj­um

Það mun verða sam­fé­lags­leg­ur ávinn­ing­ur fólg­inn í öfl­ugri neyt­enda­vakt en sú vakt þarf að vera sam­vinnu­verk­efni okk­ar allra. Starfs­hóp­ur­inn legg­ur fram eft­ir­far­andi til­lög­ur til úr­bóta í skýrsl­unni:

 Sett verði á fót sam­an­b­urðar­vef­sjá með verði fjár­málaþjón­ustu að norskri og sænskri fyr­ir­mynd.

 Kannaðir verði mögu­leik­ar á að draga úr kostnaði í inn­lendri greiðslumiðlun í sam­ræmi við ábend­ing­ar Seðlabanka Íslands í ný­leg­um skýrsl­um.

 Auk­in áhersla verði lögð á fjár­mála­fræðslu fyr­ir al­menn­ing frá hlut­laus­um aðilum til að efla fjár­mála­læsi neyt­enda.

 Stjórn­völd búi til ramma og skýr­ar leik­regl­ur og fyr­ir­tæki setji fram upp­lýs­ing­ar og val­mögu­leika á skilj­an­leg­an hátt.

Bönk­un­um hef­ur tek­ist að auka hagnað og bæta arðsem­ina með auk­inni hagræðingu en í upp­gjör­um bank­anna er ekki að finna jafn skýr merki um lækk­un gjalda til viðskipta­vina. Okk­ur Íslend­ing­um er vita­skuld nauðsyn­legt að eiga sterkt banka­kerfi. En til að styðja og styrkja öfl­ugt at­vinnu- og efna­hags­líf verða viðskipta­bank­ar að njóta al­menns trausts í sam­fé­lag­inu. Ljóst má vera að hér má gera mikið mun bet­ur. Inn­heimta ým­issa gjalda, þókn­ana og vaxta­kostnaðar á ekki að vera neyt­end­um tor­skil­in á all­an hátt. Þá er það jú skýrt dæmi um að sam­keppni skorti á markaðnum og eins það að við neyt­end­ur séum ekki nægi­lega á verði. Það er hins veg­ar að breyt­ast og það er gott. Það er til mik­ils að vinna að ná sam­an um að hér verði spilaður sann­gjarn leik­ur.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. vara­formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hvers vegna má ekki ræða hag­ræðingu?

Deila grein

21/09/2023

Hvers vegna má ekki ræða hag­ræðingu?

Síðustu daga hefur sprottið upp mikil og ekki síður mikilvæg umræða um framtíð menntunar og menntastofnana. Menntamálaráðherra ákvað í lok apríl síðastliðnum að setja af stað könnun um aukið samstarf eða sameiningu nokkurra framhaldsskóla á landinu. Markmið þeirrar vinnu hefur ávallt verið að styrkja faglega umgjörð námsins og rekstrarleg málefni skólanna. Það getur í einhverjum tilfellum þýtt sameiningu einstakra skóla til að búa til nýjar og öflugri einingar þar sem það er bæði hægt, og á við, til að takast á við þær breytingar og áskoranir sem fram undan eru á sviði menntamála. Sameining má hins vegar aldrei vera sameiningarinnar vegna, heldur verður að standa traustum fótum og það þarf að vera tryggt að slíkt stuðli að betra námi og traustari umgjörð nemenda og starfsfólks til framtíðar. Það er leiðarljós okkar og ég veit að slíkt er leiðarljós ráðherra málaflokksins.

Hagræðing eða sparnaður?

Með sparnaði er verið að skera niður fjármagn eða færa fjármagn úr einum málalfokki yfir í annan. Hagræðing innan málaflokks snýst hins vegar um að nýta þá fjármuni sem til staðar á betri hátt. Hún snýst um að nýta fjármuni á þá staði þar sem þeir eiga raunverulega heima. Í menntamálum eiga fjármunir að fara í að styrkja menntun nemenda, umgjörð þeirra og umgjörð starfsfólks. Þeir eiga ekki að fara í óþarfa steinsteypu eða rekstrarlega yfirbyggingu. Þetta virðist Sjálfstæðisflokknum hugnast illa. Flokki sem oft og iðulega tala í orði fyrir því að fara vel með og nýta fjármuni með skynsamlegum hætti. Óli Björn Kárason, þingmaður flokksins, skrifaði sérkennilega grein um eina af þessum umræddu tillögum í Morgunblaðið á dögunum og tók það sérstaklega fram að þau áform sem ráðherra hefði kynnt, og þingmaðurinn væri alfarið á móti og aðrir þingmenn flokksins tekið undir, væru ólík öðrum sambærilegum áformum eins og sameiningu annarra stofnana hér á landi. Hvernig má það vera? Þessi rök halda auðvitað engu vatni, ekki dropa, og jaðra við að vera hlægileg frá jafn skynsömum manni og Óla Birni. Hugmyndin er ekki að skera niður, hugmyndin er að nýta fjármuni betur og styrkja menntun. Það er allra hagur. Sjálfstæðisflokkurinn er bara flokkur hins opinbera, líður vel að þenja kerfið út, leggja auknar álögur á fólk í stað þess að fara vel með og sækja fjármuni á þá staði þar sem þeir raunverulega eru. Og standa með venjulegu fólki. Einhvern tímann hefði þetta kallast að vera kominn út í horn, eða jafnvel að magalenda út í skurði. Ég skal ekki segja.

Áskoranir í menntamálum fram undan

Bóknámsnemum er að fækka en nemendum í iðn- og tæknimenntun er að fjölga. Það er áskorun og það þarf kjark til að bregðast við þeirri áskorun. Fyrir um ári síðan var staðan sú að um 700 einstaklingar komust ekki inn í iðnnám. Staðan er einfaldlega þessi að við þurfum að fjárfesta í verknámi, starfsnámi og þá nemendum og umgjörð þeirra sem slíkt nám velja. Við þurfum sérfræðinga og öfluga einstaklinga til að taka þátt í þessum áskorunum sem fram undan eru við að byggja upp, virkja, skapa og taka þátt í nýsköpun og orkuskiptum. Þetta er að gerast mjög hratt. Ljósið í þessu öllu saman, raunar sé ég litla birtu vegna umræðunnar, er að nú hljóta kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að styðja við auknar fjárveitingar til framhaldsskólanna svo að þeir nemendur sem fari í dýrara nám fái tækifæri til að njóta þeirrar nauðsynlegu fjölbreytni sem um er rætt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Raunverulegar aðgerðir í húsnæðismálum sem skipta máli

Deila grein

08/06/2023

Raunverulegar aðgerðir í húsnæðismálum sem skipta máli

Síðustu misseri hef ég fjallað mikið um stöðuna í húsnæðismálum og viðrað áhyggjur mínar af stöðunni á húsnæðismarkaði til framtíðar ef ekkert yrði að gert. Það er að afleiðingarnar yrðu á endanum hátt fasteigna- og leiguverð sem leiða myndi að óbreyttu til aukins þrýstings á verðbólgu. Það er því mjög jákvætt að ríkisstjórnin hafi nú kynnt raunverulegar og skynsamlegar aðgerðir um kröftuga húsnæðisuppbyggingu inn í úrræði sem munu gagnast þeim hópum samfélagsins sem hafa átt hvað erfiðast með að koma sér þaki yfir höfuðið á undanförnum árum.

Fleiri leiguíbúðir og framlög til hlutdeildarlána verða aukin enn frekar

Framboð af húsnæði fyrir tekju- og eignaminni fjölskyldur og einstaklinga verður stóraukið með auknum framlögum til hlutdeildarlána ásamt því að stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins verða tvöfölduð. Það þýðir að 1000 íbúðir verða byggðar árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins í stað 500. Til viðbótar verða byggðar tæplega 800 íbúðir á þessu ári sem er fjölgun um 250 frá fyrri áformum. Hér er um tvíþættar aðgerðir að ræða þar sem annars vegar stofnframlög eru veitt til byggingar og kaupa á hagkvæmum leiguíbúðum og hins vegar aukin framlög til hlutdeildarlána sem veitt eru til kaupa á nýjum íbúðum og standa fyrstu kaupendum undir tilteknum tekjumörkum til boða. Á manna máli þýðir þetta að það verður farið í stórátak við að byggja hagkvæmar íbúðir fyrir þann hóp samfélagsins sem hefur staðið einna verst og hefur átt erfitt uppdráttar við að komast inn á fasteignamarkaðinn.  Þá er mikilvægt að ná höndum yfir þá stöðu sem ríkt hefur á leigumarkaði og koma þar á stöðugleika. Samhliða þeim aðgerðum sem ég hef hér farið yfir er unnið að lagabreytingum sem munu tryggja betur réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði, en búast má við tillögum þess efnis fyrir 1. júlí næstkomandi.

Tryggja þarf nægt lóðaframboð

Við vitum það og þekkjum að ef raunveruleg uppbygging á hér að eiga sér stað og standast þann metnaðarfulla tímaramma sem innviðaráðherra hefur kynnt, þá þarf að tryggja nægjanlegt framboð lóða á næstu misserum. Sveitarfélög þurfa að hafa svigrúm og getu til að brjóta nýtt land og byggja, samhliða því að þétta byggð. Þannig og einungis þannig munum við komast í mark í því verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt og ég hef hér farið yfir eru raunverulegar og góð skref í þá átt að tryggja áframhaldandi nauðsynlega uppbyggingu húsnæðis til næstu ára. Nú þurfa allir að taka höndum saman, því með samhentu átaki er hægt að koma í veg fyrir þá sviðsmynd sem ég hef ítrekað haldið á lofti; að aukinn skortur og samdráttur í uppbyggingu muni koma í bakið á okkur með miklum áhrif á fasteigna- og leiguverð sem síðar muni leiða til hárrar verðbólgu. Það er ástand sem við megum ekki undir neinum kringumstæðum láta raungerast.

Verkefni næstu mánaða

Það er auðvitað þannig að húsnæði er ein af grunnþörfum mannsins og hefur áhrif á allt okkar daglega líf, allt frá andlegri heilsu okkar til efnahagslegs stöðugleika og aukinnar samheldni í samfélaginu. Það er því óumflýjanlegt að staðan á húsnæðismarkaði verður áfram eitt af okkar stærstu viðfangsefnum næstu mánuði og þá sérstaklega í því verkefni að ná tökum á verðbólgunni til lengri tíma. Þrýstingur og ójafnvægi á húsnæðismarkaði snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti og okkur sem störfum á vettvangi stjórnmálanna verður að bera gæfa til þess að horfa til framtíðar og tryggja stöðugleika í húsnæðismálum. Með því að byggja meira um land allt munum við ná tökum á verðbólgunni, annars ekki. Þessar aðgerðir eru því stórt skref í hárrétta átt og þeim ber að fagna.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis

Greinin birtist fyrst á eyjan.is 7. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Við búum í góðu samfélagi

Deila grein

02/06/2023

Við búum í góðu samfélagi

Árið 2020 var samþykkt tillaga í ríkisstjórn Íslands um notkun svokallaðra velsældarvísa. Velsældarvísar eru mælingar sem gefa yfirsýn yfir hagsæld og lífsgæði á Íslandi og eru mikilvægir til að tryggja að árangur sé mældur út frá velsæld samfélaga en ekki eingöngu á efnahagslegum forsendum. Mælingar sýna að Ísland stendur sig mjög vel og hér er gott að búa.

Markvisst hefur verið unnið að því að draga úr fátækt og byggja upp sterkt velferðarkerfi. Auk þess getum við státað okkur af því að Ísland er í fararbroddi þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Heilt yfir höfum við verið á góðri leið þó svo að ýmsar áskoranir blasi við okkur vegna yfirstandandi verðbólgu sem við þurfum að ná niður. Það er hægt og það er forgangsverkefni okkar allra.

Tölulegar staðreyndir

Búið er að greina álagningu opinberra gjalda eftir tekjutíundum út frá skattframtölum. Í tekjutíund felst að búið er að skipta einstaklingum í 10 jafn stóra hópa þar sem sú fyrsta er með lægstu tekjurnar og sú tíunda með þær hæstu. Þegar litið er til baka til síðustu ára og skattframtöl rýnd má glögglega sjá að heildartekjur allra hópa á Íslandi hafa hækkað, almenningur greiðir minna í skatt fyrir utan þá allra tekjuhæstu sem borga meira en aðrir. Þessi greining sýnir fram á að þær tekjuskattsbreytingar sem ráðist hefur verið í hafa dregið úr skattbyrði lág- og millitekjuhópa en það hefur verið sú vegferð sem ríkisstjórnin hefur haft að leiðarljósi síðustu ár. Velsældarvísarnir eru á sama máli en þegar rýnt er í þá kemur fram að jafnvægi milli vinnu og einkalífs hafi aukist jafnt og þétt síðustu ár, tekjur og ráðstöfunartekjur hafa hækkað auk þess sem hlutfall skulda heimila sem hlutfall af hreinni eign hafi farið lækkandi. Með öðrum orðum, við höfum búið við verulega aukinn kaupmátt. Þetta er hreint ekki svo slæm saga.

Stuðningur við barnafjölskyldur

Samkvæmt tölum OECD er óvíða meiri stuðningur við barnafjölskyldur en á Íslandi. Hér á landi beinast barnabætur sérstaklega að tekjulægri fjölskyldum, þeim fjölskyldum sem þurfa mest á þeim að halda. Á síðasta ári voru gerðar breytingar á barnabótakerfinu sem tryggðu barnafjölskyldum enn hærri barnabætur auk þess sem skerðingarmörk voru lækkuð. Það kemur kannski einhverjum á óvart en staðreyndin er sú að óskertur stuðningur til tekjulágra barnafjölskyldna er næstum því í öllum tilfellum hæstur hér miðað við annars staðar á Norðurlöndum. Þrátt fyrir að einhverjir hafi hátt og segi að lítið hafi verið gert fyrir barnafjölskyldur í landinu þá sýnir veruleikinn annað. Staðreyndin er sú að það er gott að ala upp barn á Íslandi í samanburði við önnur lönd.

Enn að húsnæðismálum

Sá sem hér skrifar þreytist ekki á að skrifa um húsnæðismálin. Fólki á Íslandi er að fjölga hratt, hraðar en spár hafa gert ráð fyrir og það er fyrirséð að hér þurfi að byggja meira. En á sama tíma er að hægjast verulega á markaðnum, fjármagnskostnaður hefur hækkað og byggingaraðilar halda að sér höndum. Af þessum ástæðum er samdráttur að verða í uppbyggingu íbúða á landinu sem er algjörlega þvert á það sem við þurfum á að halda. Ég hef bent á það í fjöldanum öllum af greinum síðustu misseri að keðjan er að rofna og ef ekkert er að gert muni ástandið nú aðeins leiða til mun hærra fasteignaverðs og hærra leiguverðs en við erum að horfa fram á í dag. Þetta mun auka þrýsting á verðbólguna.

Undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, hafa verið kynnt metnaðarfull markmið um uppbyggingu 35 þúsund íbúða til ársins 2032 í samvinnu við sveitarfélögin í landinu. Vinnan felst m.a. í að kortleggja lóðir sem til staðar eru, hvort sem það eru nýbyggingarsvæði eða þéttingarreitir, og gera kostnaðarmat svo hægt sé að framkvæma íbúðir á viðráðanlegu verði fyrir almenning. Hér er um að ræða mikla vinnu þar sem verið er að greina stöðuna á íslenskum íbúðamarkaði og nú í fyrsta skipti eru til haldbær gögn sem hægt er að styðjast við og vinna út frá. Sá sem hér skrifar telur afar mikilvægt til að ná tökum á núverandi ástandi verði að gefa í húsnæðisuppbygginu frekar en hitt og það með fleiri íbúðum byggðum með stofnframlögum. Íbúðir byggðar með stofnframlögum er ætlað að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Hér þarf einnig að rýmka viðmið þegar kemur að hlutdeildarlánum. Við sjáum að með þessari leið eiga fleiri einstaklingar möguleika á að fjárfesta í eigin húsnæði og á sama tíma fá byggingaraðilar aukna tiltrú á að halda áfram með framkvæmdir. Um þetta hef ég auðvitað skrifað áður og lagt til ýmsar tillögur til að tryggja nauðsynlega uppbyggingu húsnæðis.

Það kemur sumar eftir kaldan vetur

Verðbólgan hefur vissulega sett allar okkar áætlanir upp í loft og sú góða saga sem við höfum haft frá að segja síðustu ár er fljót að gleymast. Líkt og ég hef áður fjallað um er verðbólgan sameiginlegt verkefni okkar allra og eitt helsta verkefni stjórnvalda í dag er að draga úr opinberum útgjöldum án þess þó að skerða heilbrigðis- og grunnþjónustu í landinu. Almenningur getur tekið þátt með því að draga saman seglin og þá hafa fyrirtæki landsins ákveðnu hlutverki að gegna og mega ekki falla í þá freistni að ýta öllum hækkunum út í verðlagið. Samkvæmt nýlegu verðlagseftirliti ASÍ hefur verð á matvöru hækkað um 14% á einu ári. Ég veit að ástandið er snúið ef svo má segja. Við erum að glíma við erfiða verðbólgu en við megum ekki missa augun af boltanum. Ég hef fullan skilning á að almenningur sé þreyttur á stýrivaxtahækkunum og sólarleysi en það má þó ekki vera þannig að við gleymum hversu gott við höfum það í raun og veru. Þegar öllu er á botninn hvolft þá búum við í góðu samfélagi, með sameiginlegu átaki allra höfum við möguleika til þess að halda áfram þeirri góðu vegferð sem við höfum verið á.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tvö­földun Reykja­nes­brautarinnar, takk fyrir!

Deila grein

23/05/2023

Tvö­földun Reykja­nes­brautarinnar, takk fyrir!

Það var á sumarmánuðum 2019 sem þáverandi bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hófu viðræður við innviðaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, um að flýta framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að mislægum gatnamótum við Krýsuvík. Þetta krafðist mikillar vinnu og meðal annars góðs samstarfs við Vegagerðina, Carbfix og álverið í Straumsvík um skipulagsmál á svæðinu.

Á sínum tíma voru áform uppi um stækkun álversins í Straumsvík og keypti álverið þá land undir þá fyrirhuguðu stækkun. Á því landi sem álverið keypti liggur núverandi vegstæði Reykjanesbrautarinnar. Vegna þessa var vegstæði Reykjanesbrautarinnar á aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar fært ofar og átti sá flutningur brautarinnar að eiga sér stað um leið og álverið þyrfti landið og lóðina til stækkunar. Áform álversins um stækkun voru hins vegar felld naumlega í vel þekktri íbúakosningu árið 2007 og varð því ekkert af tilfærslu brautarinnar.

Skýrsla Vegagerðarinnar og Mannvits sýndi að hagkvæmast væri að breikka Reykjanesbrautina í núverandi vegstæði í stað þess að færa hana líkt og aðalskipulagið gerði ráð fyrir. Góð og lausnamiðuð samtöl við Sigurð Inga Jóhannsson innviðráðherra, fulltrúa Vegagerðarinnar og álversins í Straumsvík urðu svo til þess að þessari mikilvægu framkvæmd var flýtt og aðalskipulagi bæjarfélagsins breytt. Hér er um að ræða 5,6 kílómetra vegkafla, en einnig byggingu brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi. Fyrir alla þessa vinnu og skilning ber að þakka og þar set ég undir alla þá aðila sem að þessum málum komu með einum eða öðrum hætti.

Þann 17. maí skrifuðu Vegagerðin og ÍAV undir verksamning um þessa mikilvægu framkvæmd. ÍAV bauð tæpa fjóra milljarða í verkið sem er talsvert undir þeirri kostnaðaráætlun sem lagt var upp með. Undirbúningur hefst strax og framkvæmdir munu hefjast í sumar. Umferðaröryggi er málefni sem snertir okkur öll og nú hyllir undir að kláraðar verði framkvæmdir við tvo slysamestu vegi landsins, Suðurlandsveg og svo Reykjanesbraut. Þetta eru því mikil gleðitíðindi fyrir okkur Hafnfirðinga og landsmenn alla.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. maí 2023.