Categories
Greinar

Börnin eiga að vera hjartað í kerfinu – breyting í þágu barna

Deila grein

30/11/2020

Börnin eiga að vera hjartað í kerfinu – breyting í þágu barna

Allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur forgangsverkefni mitt verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Í víðtæku samráði og samstarfi fjölmargra aðila, leikinna, lærðra, innan þings og utan, hefur verið unnið að því í hartnær þrjú ár að smíða undirstöður undir kerfi sem tryggir að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og verði ekki send á eigin ábyrgð milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Verkefnið er risavaxið og felur sennilega í sér einhverjar mestu breytingar sem gerðar hafa verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Ég er því gríðarlega stoltur og ánægður að kynna frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpið ef afurð þessa víðtæka og góða samstarfs þar sem markmiðið er samþætting þjónustu í þágu barna til þess að auka samvinnu og bæta samfellu þjónustu við börn með hagsmunir þeirra að leiðarljósi.

Stefnan sem ég legg til í frumvarpinu er að láta mismunandi kerfi tala betur saman og loka gráum svæðum í þjónustu við börn og fjölskyldur. Í íslensku samfélagi eru of mörg dæmi um að ekki sé gripið nógu snemma inn í aðstæður barna. Einnig hefur verið skortur á því að börnum sé boðinn samþættur stuðningur þvert á stofnanir og kerfi. Í nýju kerfi á barnið, en ekki hver stofnun fyrir sig að vera útgangspunkturinn, þannig að barnið sé hjartað í kerfinu.

Frumvarpið tekur til allrar þjónustu sem fer fram innan skólakerfisins, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, á frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum. Það tekur einnig til þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins, í heilsugæslu, á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum og félagsþjónustu sem er veitt innan sveitarfélaga, barnaverndarþjónustu og þjónustu við börn með fatlanir, svo dæmi séu til tekin.

Í frumvarpinu er lögð rík áhersla á að börn og foreldrar hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana, ef á þarf að halda. Með breytingunum er leitast við að tryggja að barn og fjölskylda þess fái upplýsingar um þjónustu í þágu barnsins og þjónustuveitendur, fjölskyldan og barnið sjálft, eftir atvikum, móti í sameiningu markmið, úrræði og meti árangur.

Lagabreytingar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, og uppbygging stofnana til að styðja við samþættinguna eru mikilvæg fyrstu skref, en jafnframt eru breytingar á annarri löggjöf sem tengjast veitingu þjónustu í þágu barna nauðsynlegar. Þar má meðal annars nefna breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, barnaverndarlögum, löggjöf um heilbrigðisþjónustu og skólamál. Þegar frumvörpin verða komin í höfn og orðin að lögum, verður Ísland svo sannarlega ekki eftirbátur annarra ríkja hvað varðar þjónustu við börn og fjölskyldur, heldur forysturíki.

Fyrir áhugasama er hægt að horfa á kynninguna á frumvörpunum á vef Stjórnarráðsins. Kynningin hefst kl. 13.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Jöfnum aðgengi að húsnæðismarkaðnum

Deila grein

04/11/2020

Jöfnum aðgengi að húsnæðismarkaðnum

Þann 1. nóvember tóku lög um hlutdeildarlán gildi sem er mikið fagnaðarefni. Með þessum lánum er verið að grípa inn í og rétta hlut tekjulágra einstaklinga og jafna aðgengi fólks að húsnæðismarkaðnum. Um allt of langt skeið hefur fjöldi einstaklinga ekki átt möguleika á því að eignast sitt eigið húsnæði af því að þeir höfðu ekki einhvern sem gat aðstoðað við fyrstu kaupin. Þessi lán munu því hjálpa fólki að búa við aukið öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum, hvar sem það býr á landinu.

Markmiðið með hlutdeildarlánum er bæði að auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu skrefin á fasteignamarkaði sem og að hvetja byggingaraðila til að byggja hagkvæmt íbúðarhúsnæði sem hentar þessum hópum. Kannanir hafa sýnt að á undanförnum árum hafa nýjar byggingar ekki verið í samræmi við eftirspurn þar sem þær hafa verið of stórar og of dýrar. Mikil þörf er fyrir uppbyggingu hagkvæms húsnæðis um allt land og eru hlutdeildarlánin einmitt hugsuð til þess að styðja við uppbyggingu á kaldari markaðssvæðum á landsbyggðinni.

Í Gufunesi er spennandi verkefni þegar komið af stað þar sem Þorpið vistfélag er að reisa 65 íbúðir sem eru byggðar með ný lög um hlutdeildarlán í huga. Íbúðirnar, sem kosta á bilinu 19-37 milljónir, eru hluti af þeim fjölmörgu íbúðum sem við munum sjá koma inn á markaðinn á næstu misserum sem ungt fólk og tekjulágt mun geta keypt með stuðningi frá ríkinu í gegnum hlutdeildarlánin. Ég er mjög ánægður og stoltur af því að hlutdeildarlánin séu orðin að veruleika. Með þeim erum við að stíga myndarlegt skref til þess að aðstoða ungt fólk og lágtekjuhópa til að komast inn á fasteignamarkaðinn, og um leið erum við sem samfélag að segja að við sættum okkur ekki við að einungis þeir sem eru með sterkt bakland eigi að geta eignast eigið húsnæði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Styrkjum stöðu aldraðra og drögum úr einmanaleika

Deila grein

16/10/2020

Styrkjum stöðu aldraðra og drögum úr einmanaleika

Frá upp­hafi Covid-19-far­ald­urs­ins hef ég og starfs­fólk fé­lags­málaráðuneyt­is­ins lagt áherslu á að styðja við ýmsa viðkvæma hópa, en það eru þeir hóp­ar sem verða fyr­ir hvað mest­um áhrif­um af far­aldr­in­um. Það er al­veg ljóst í mín­um huga að við verðum að hafa þessa hópa áfram í for­gangi og við vilj­um alls ekki að þeir þurfi aft­ur að loka sig af til lengri tíma með til­heyr­andi áhrif­um á and­lega líðan.

Und­an­farið höf­um við í fé­lags­málaráðuneyt­inu styrkt fjöl­mörg verk­efni sem miðast að því að vinna gegn fé­lags­legri ein­angr­un og ein­mana­leika aldraðra. Ein­mana­leiki og fé­lags­leg ein­angr­un er al­geng hjá öldruðum og er styrkj­un­um ætlað að bregðast við þeirri stöðu og styðja við fjölþætt­ar aðgerðir til að draga úr fé­lags­legri ein­angr­un og ein­mana­leika þessa hóps. Aðgerðunum er bæði ætlað að bregðast við þeim áhrif­um sem Covid-19-far­ald­ur­inn hef­ur haft á hóp­inn en einnig að styrkja stöðu aldraðra og draga úr ein­mana­leika til lengri tíma.

Meðal verk­efna sem við höf­um stutt má nefna styrki til sveit­ar­fé­laga lands­ins til að efla fé­lags­starf full­orðinna í sum­ar vegna Covid-19. Rík­is­stjórn­in ákvað að verja um 75 millj­ón­um króna í átaks­verk­efni til að efla fé­lags­starf full­orðinna í sum­ar en marg­ir aldraðir hafa upp­lifað mikla fé­lags­lega ein­angr­un í far­aldr­in­um. Það er mik­il­vægt að sporna gegn því með því að bjóða upp á frí­stundaiðkun, geðrækt og hreyf­ingu meðal ann­ars og hvatti ég sveit­ar­fé­lög­in sér­stak­lega til að efla fé­lags­starf full­orðinna enn frek­ar í sum­ar.

Rauði kross­inn á Íslandi hlaut styrk til að efla hjálp­arsím­ann og net­spjall 1717, en þau gegna mik­il­vægu hlut­verki við að veita virka hlust­un og ráðgjöf um sam­fé­lags­leg úrræði til fólks á öll­um aldri sem þarf á stuðningi að halda og sér­stak­lega á tím­um sem þess­um. Alzheimer­sam­tök­in hlutu styrk til þess að geta brugðist við auknu álagi í þjón­ustu sam­tak­anna við viðkvæma hópa sem hafa orðið fyr­ir áhrif­um vegna Covid-19. Sam­tök­in fengu einnig styrk vegna verk­efn­is­ins Styðjandi sam­fé­lag, þar sem mark­miðið er að gera fólki með heila­bil­un kleift að lifa í sam­fé­lagi sem skil­ur aðstæður þess, mæt­ir því af virðingu og aðstoðar eft­ir þörf­um.

Þá hlaut Lands­sam­band eldri borg­ara fjár­fram­lag sem ann­ars veg­ar er ætlað að styrkja sam­tök­in í því að bregðast við auknu álagi í þjón­ustu við viðkvæma hópa sem far­ald­ur­inn hef­ur haft áhrif á og berj­ast gegn ein­mana­leika og ein­angr­un eldri borg­ara. Hins veg­ar fengu sam­tök­in styrk í tengsl­um við gerð upp­lýs­ingasíðu fyr­ir eldri borg­ara. Verk­efnið Ald­ur er bara tala hlaut styrk, en það miðar að því að opna upp­lýs­inga­veitu á vefn­um þar sem stefnt er að því að ná til fólks sem er eldra en 60 ára auk starfs­fólks í öldrun­arþjón­ustu. Er vef­ur­inn liður í því að inn­leiða vel­ferðar­tækni bet­ur inn í þjón­ustu við elstu ald­urs­hóp­ana.

Aldraðir og aðrir viðkvæm­ir hóp­ar upp­lifa marg­ir hverj­ir mikla fé­lags­lega ein­angr­un og Covid-19-far­ald­ur­inn hef­ur aukið fé­lags­lega ein­angr­un þess­ara hópa. Það er því gríðarlega mik­il­vægt fyr­ir okk­ur sem sam­fé­lag að styðja við fjöl­breytt­ar aðgerðir til þess að vega á móti ein­mana­leika og fé­lags­legri ein­angr­un og það er ánægju­legt að fá að styðja við bakið á fjöl­mörg­um góðum verk­efn­um sem gera ná­kvæm­lega það. Þær ákv­arðanir sem við tök­um til að bregðast við far­aldr­in­um verða alltaf að miðast að því að vernda viðkvæma hópa í sam­fé­lag­inu. Annað er ekki í boði að mínu mati.

Ásmundur Einar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2020.

Categories
Fréttir

Ræða Ásmundar Einars

Deila grein

02/10/2020

Ræða Ásmundar Einars

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi fimmtudaginn 1. október 2020.

***

Góðir landsmenn. Þrátt fyrir þær fjölmörgu áskoranir sem íslenskt samfélag hefur staðið frammi fyrir síðustu mánuði og tengjast heimsfaraldri Covid-19 er mikilvægt að gleyma ekki öðrum stórum verkefnum sem kannski einmitt vegna afleiðinga Covid-19 á samfélag okkar eru mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Ég ætla að koma inn á eitt þessara verkefna. Á haustþingi sem nú er að hefjast mun ég leggja fram stórar kerfisbreytingar er varða börn og fjölskyldur þeirra. Þar vil ég sérstaklega nefna nýja og stóra löggjöf sem á að stuðla að aukinni farsæld barna, grípa fjölskyldur sem þess þurfa og tryggja samtal á milli ólíkra kerfa þegar kemur að þjónustu við börn.

Samhliða þessari stóru kerfisbreytingu verða lagðar til fjölmargar aðrar lagabreytingar sem tengjast þessu. Að undirbúningi þeirra breytinga hefur komið afar stór hópur fólks með breiða og mikla þekkingu á málefnum barna. Þar má m.a. nefna sérfræðinga sem starfa með börnum okkar á hverjum einasta degi og bera kennsl á þau tækifæri sem til staðar eru til að gera betur og einstaklinga sem þekkja þjónustu kerfisins á eigin skinni, annaðhvort frá eigin æsku eða gegnum börnin sín. Og síðast en ekki síst hefur þverpólitísk þingmannanefnd með fulltrúum allra þingflokka gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki í þessari vinnu allri og hefur sýnt að við getum unnið saman þvert á flokka. Það er nefnilega svo að þessi mál snerta okkur öll og börn í viðkvæmri stöðu eiga ekki að eiga allt sitt undir flokkspólitískum línum. Við vildum hefja þau yfir þessar flokkspólitísku línur og það hefur tekist vel.

Eins og ég nefndi áðan og kynnt verður nánar á næstu vikum munu þessar kerfisbreytingar umbreyta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra þvert á þjónustukerfi. Ég hef fengið utanaðkomandi sérfræðinga til að meta áhrif af þessum kerfisbreytingum og í því mati kemur skýrlega fram að þær muni hafa mjög jákvæð áhrif á þjónustu við börn, tryggja snemmtæka íhlutun og eftirfylgd auk þess sem yfirsýn yfir velsæld barna verður margfalt betri.

Markmiðið með frumvarpinu er að börnum og fjölskyldum þeirra líði betur og vegni þar af leiðandi betur og tekið verði fyrr en ella á hindrunum sem verða mögulega á vegi þeirra. Allt sem aldrei er mikilvægara en einmitt á tímum sem þessum.

Það sem kemur einnig skýrlega fram í þessari vinnu og úttekt á lagafrumvarpinu er að fjárhagslegur ávinningur af því að koma þessum breytingum í gegn er gífurlegur. Þó að umtalsverða fjárfestingu muni þurfa á næstu árum til að tryggja að breytingarnar skili væntum árangri er ábati af þessum breytingum fyrir samfélagið í heild og þar með talið ríkissjóð ekki talinn í milljörðum heldur tugmilljörðum króna. Raunar yrði þessi fjárfesting, fjárfesting í börnunum okkar, sú allra ábatasamasta í sögu Íslands og það án neikvæðra umhverfisáhrifa eða annars fórnarkostnaðar. Á næstunni mun ráðast hvort við sem samfélag verðum tilbúin í slíka sögulega vegferð.

Góðir Íslendingar. Þessi vetur verður erfiður fyrir marga, við vitum það. Það er okkar hlutverk hér á Alþingi og í ríkisstjórn að standa vörð um fólkið í landinu, þétta möskvana í öryggisnetum og sjá til þess að í sameiningu komumst við í gegnum þetta. Um leið og ég hef fulla trú á því að okkur takist það tel ég mjög mikilvægan þátt í því að tryggja fullnægjandi þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, bæði vegna núverandi aðstæðna og sem hagsmuni okkar til allrar framtíðar. Ég hlakka til að ræða það frekar í þinginu hér á þessu þingi sem nú er að hefjast.

***

Categories
Fréttir

Hlutdeildarlán samþykkt á Alþingi

Deila grein

03/09/2020

Hlutdeildarlán samþykkt á Alþingi

„Ég er gríðarlega ánægður með að hlutdeildarlánin hafi verið samþykkt á Alþingi í dag og með því erum við að stíga mikilvægt skref í þá átt að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á fasteignamarkaðinn, og þar með auka öryggi fjölskyldna landsins þegar kemur að húsnæðismálum. Þessi aðgerð hefur reynst afskaplega vel í Skotlandi og lánin munu hafa jákvæð áhrif á byggingu húsnæðis á landsbyggðinni,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.

Alþingi samþykkti í dag frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um hlutdeildarlán sem ætlað er að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hlutdeildarlánin eru að skoskri fyrirmynd og brúa bilið á milli lána veittum af fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum annars vegar og kaupverðs hins vegar. Hægt verður að sækja um lánin frá 1. nóvember næstkomandi á vefnum.

Hlutdeildarlánin virka þannig að kaupandi leggur til að lágmarki 5% eigið fé og tekur 75% fasteignalán hjá lánastofnun. Ríkið lánar síðan einstaklingum sem eru að kaupa sína fyrstu eign, að vissum skilyrðum uppfylltum, ákveðið hlutfall af verði þess íbúðarhúsnæðis sem þeir hyggjast kaupa. Hámarkslánstími hlutdeildarlána er 25 ár. Að þeim tíma liðnum skal endurgreiða ríkinu lánið hafi íbúðin ekki þegar verið seld. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum. Lántakendurnir endurgreiða hlutdeildarlánið þegar íbúðin er seld.