Categories
Fréttir Greinar

Spara og spara, oj bara

Deila grein

11/03/2023

Spara og spara, oj bara

Seðlabankastjóri tilkynnti að finna þyrfti leiðir sem hafa það að markmiði að aðstoða landsmenn við að auka sparnað sinn. Hefur hann því lagt til að afnumdar verði reglur um verðtryggingu inn- og útlána. Þetta þýðir að heimilt verður að verðtryggja innlán án tímatakmarkana frá og með fyrsta júní næstkomandi. Fram hefur komið að raunávöxtun á innlánsreikningum í fyrra var neikvæð í nánast öllum tilfellum. Fé á verðtryggðum reikningum hélt í við verðbólgu en þegar búið er að taka tillit til fjármagnstekjuskatts er raunávöxtun þeirra líka neikvæð.

Þessar reglur eru barn síns tíma og í raun er það ekki eðlilegt að Seðlabankinn hlutist til um hvernig innlán séu í boði á Íslandi. Afnám reglnanna er því jákvætt og tímabær aðgerð. Með breytingu á reglum um verðtryggingu er verið að búa til hvata til aukins sparnaðar og fjölga möguleikum á sparnaði. Markmiðið er því eftir sem áður að auka sparnað og draga úr þenslu í efnahagskerfinu okkar.

Innflutningur og viðskiptahalli

Það er halli á vöruviðskiptum, sem skýrist af öflugri innlendri eftirspurn. Það hefur m.a. keyrt áfram verðbólguna hér á landi og ljóst er að framhald verði á þeirri þróun. Verðbólgan byrjaði að aukast af miklum krafti fyrir rúmu ári síðan og er nú yfir 10%. Við flytjum inn meira en við flytjum út og mikil eftirspurn er eftir bæði vörum og vinnuafli, sem kyndir undir verðbólguna og hefur myndað mikla spennu á vinnumarkaði undanfarna mánuði.

Verðbólga er merki um mikla innlenda eftirspurn og verðhækkanir á innfluttum vörum koma bersýnilega fram í viðskiptahalla. Of mikil innlend eftirspurn myndar innflutningsverðbólgu hér á landi, sem hefur áhrif á verðlag, vísitölu og þar með verðbólguna. Ljóst er að núverandi verðbólga er að mestu leyti innflutt.

Sameina krafta gegn verðbólgu

Í kringum árið 1990 var gerð þjóðarsátt sem tók til allra aðila vinnumarkaðarins og hafði hún það að leiðarljósi að allir settu sér raunhæf markmið um kaupmátt, eyðslu og skynsemi samfélagsins. Ríkisstjórnin þarf að stíga föst skref og byggja þá brú sem til þarf svo eins konar þjóðarsátt náist. Við þurfum að taka saman höndum, spara meira og eyða minna, en þó á þann hátt að tannhjól samfélagsins stöðvist ekki á meðan. Til þess þurfa almenningur, vinnumarkaðurinn, ríkið og sveitarfélögin að ganga öll saman í takt, svo árangur náist í þessari baráttu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023.

Categories
Greinar

Að standa vörð um íslenskan landbúnað

Deila grein

06/03/2023

Að standa vörð um íslenskan landbúnað

Nýverið fór fram Búgreinaþing og fram undan er Búnaðarþing og því er vert að ræða komandi endurskoðun búvörusamninga. Nauðsynlegt er að samningar séu bændum og matvælaframleiðslu landsins til hagsbóta, og því vil ég brýna hæstvirtan matvælaráðherra í þeim efnum. Hlusta þarf á þarfir og kröfur bænda. Það skiptir ekki bara þá máli heldur einnig samfélagið allt. Við viljum búa við fæðuöryggi þar sem framleiðsluhvatar eru miklir og við líðum aldrei skort á innlendum matvælum.

Augljós þörf fyrir meiri stuðning og aukna tollvernd

Við sjáum augljósa þörf fyrir stuðning frá ríkinu bæði í formi fjárframlaga og tollverndar. Öll umræða um að breyta kerfinu og taka út greiðslur sem eru beintengdar framleiðslu er aðeins til þess fallin að veikja stoðir landbúnaðarins og þá sérstaklega þegar kemur að nautgriparækt og sauðfjárrækt. Óframleiðslutengdur stuðningur eða grænar greiðslur tryggja ekki næga framleiðslu með skilvirkum hætti.

Með minni stuðningi komum við í veg fyrir nauðsynlega endurnýjun í greininni. Öflugur stuðningur og skilvirkt kerfi tryggir grundvöll til upphafs og áframhalds matvælaframleiðslu. Við sjáum að fjárfestingin búskap er töluverð. Vextir eru kringum 10% af jarðalánum, sem er virkilega mikið umhugsunarefni. Hvernig ætlumst við til þess að tryggja endurnýjun undir þessum forsendum?

Tryggja þarf öfluga tollvernd og endurskoðun verðlagsgrunnsins, sem er bæði hagsmunamál bænda og neytenda. Öll umræða um að það hækki verð til neytenda er á villigötum og markmiðið á að vera að tryggja framleiðslu afurða.

Stígum stöndug skref

Þá eflum við ekki landbúnað með því að draga úr stuðningi við eina grein í þágu annarrar. Íslendingar stæra sig af því að við búum við gæði og heilnæmi í matvælunum okkar. Það jú byggir á íslenskum landbúnaði. Hættan er að sú gæði hverfa ef landbúnaðurinn fær ekki þá virðingu og þann stuðning sem hann á  skilið. Gerum þetta almennilega í eitt skipti fyrir öll!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á dfs.is 6. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­mála eða ekki

Deila grein

17/02/2023

Sam­mála eða ekki

Þeir tímar sem við lifum á virðast kalla á það að skoðanir fólks þurfi allar að vera af einum meiði og helst þannig að allir geti fellt sig við þær.

En hvað ef ég er ekki sammála? Heilbrigð skoðanaskipti og rökræður um málefni samfélagsins eru það sem drífur áfram breytingar og snúast um að finna bestu mögulegu niðurstöðuna hverju sinni.

Ef allir væru sammála um eina ríkisskoðun á öllu – myndum við þá vera að sjá þær breytingar sem hafa átt sér stað í hinum ýmsu málefnum?

Tökum samtalið

Við þurfum að eiga þetta samtal og þurfum að þora að eiga þessi skoðanaskipti og rökræður, því að mínu viti er ljóst að ef allir ætla að fella sig við sömu skoðanirnar og sömu sjónarmiðin, þá kaffærum við framþróun í samfélaginu og það viljum við ekki.

Við þurfum að þora að vekja athygli á öðrum hliðum umræðunnar, þora að taka rökræðuna og þora að skiptast á skoðunum um málefnin.

Miðlum málum

Það er ekki til sá einstaklingur sem er sérfræðingur í öllu. Það hefur hingað til reynst ágætlega að miðla málum til að komast að heilbrigðri og skynsamari lausn og við ættum að vera að gera meira af því í staðinn fyrir að hugsa alltaf „mín skoðun er rétt“.

Skoðanaskipti eru góð

Skoðanaskipti og að hlusta á sjónarmið annarra eru alltaf af hinu góða. Með því að taka allar hliðar umræðunnar og mætast á miðri leið tel ég að við komumst að niðurstöðu sem er til hagsbóta fyrir heildina.

Fjarlægjum blöðkurnar frá augunum

Við megum ekki eingöngu horfa á verkefnin út frá sjónarhorni vagnhestsins – verum tilbúin að horfa til hliðar og líta á það sem tækifæri til að vera víðsýnni.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Stuðningur við börn sem verða fyrireða beita ofbeldi

Deila grein

01/02/2023

Stuðningur við börn sem verða fyrireða beita ofbeldi

Í haust bárust fréttir af ofbeldi og einelti meðal barna, því miður er ekki um einsdæmi að ræða, það eru til börn sem beita ofbeldi og þá eru börn sem verða fyrir ofbeldi. Um er að ræða samfélagslegt mein sem mikilvægt er að uppræta með öllum tiltækum ráðum. Ekki eru vísbendingar um að börn sem beita ofbeldi í barnæsku verði ofbeldisfull þegar þau verða eldri. Þörf er á að grípa inn í ofbeldi barna ásamt því að leita allra leiða til þess að stöðva ofbeldi í samfélaginu á öllum stigum.

Aukin áhersla á að leysa vanda

Lengi hefur aðaláherslan verið á að veita þeim sem verður fyrir ofbeldi aðstoð. Það er vissulega nauðsynlegt enda er það gríðarlegt áfall að verða fyrir ofbeldi. Þá er það engu að síður mikilvægt að veita viðeigandi fræðslu og stuðning til þeirra sem beita ofbeldi. Þeir sem beita ofbeldi eiga oft og tíðum við einhvern vanda að stríða og því er mikilvægt að þeir einstaklingar fái rétta leiðsögn og stuðning út í lífið. Með öðrum orðum, það er jafn mikilvægt að aðstoða þá sem beita ofbeldi og þá sem verða fyrir ofbeldi.

Samningur við VERU

Ofbeldi barna er enn aðeins lítill hluti mála sem skila sér til lögreglu og barnaverndar. Því miður hefur allt of lengi verið litið á ofbeldi barna sem vandamál sem hægt er að leysa heima fyrir en sem betur fer eru tímarnir að breytast. Fyrir áramót undirritaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, samning til styrktar VERU, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun. Samningurinn snýr að stuðningi við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi. VERA er heildstætt langtíma meðferðarúrræði fyrir unglinga í fikti og neyslu sem rekin eru af Vímulausri æsku, en samtökin stofnuðu Foreldrahús árið 1999 og kjarnastarfsemi þess er ráðgjöf, meðferð og fræðsla. Í Foreldrahúsi er starfrækt fjölskylduráðgjöf, foreldrahópar og foreldranámskeið, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga og stuðningsmeðferð fyrir ungmenni í vímuefnavanda.

Mikilvægi forvarna

Þessi samningur sem gerður var við VERU er stórt og mikilvægt skref í áttinni að því að bæta líðan barnanna okkar. Hér er um að ræða lið í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið stjórnvalda gegn ofbeldi er meðal annars að koma á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi. En mikilvægt er að allar aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki sérstaklega til forvarna og fræðslu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Fram­farir í þágu þol­enda of­beldis

Deila grein

26/01/2023

Fram­farir í þágu þol­enda of­beldis

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra í samstarfi við dómsmálaráðherra, hafa tekið höndum saman í að tryggja brotaþolum kynferðisofbeldis viðeigandi stuðning hjá sálfræðingi að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu. Meðfram því á að stuðla að aukinni samvinnu lögreglu og heilbrigðiskerfisins um þjónustu vegna kynferðisofbeldis í samræmi við tillögur starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi. Framangreint er ein af áherslum ríkisstjórnarinnar og einnig kemur þetta fram í aðgerðaráætlun um bætta meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu sem gildir til lok árs 2022. Þar segir að tryggja þurfi brotaþolum viðeigandi stuðning innan kerfisins, s.s. sálfræðimeðferð innan heilbrigðiskerfisins eða önnur úrræði óháð búsetu og efnahag, meðal annars eftir skýrslutöku hjá lögreglu.

Reglubundið samráð

Dómsmálaráðherra mun síðan styrkja reglubundið samráð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og starfsmanna neyðarmóttöku og áfallateymis LSH um þjónustu við brotaþola kynferðisofbeldis. Það felur m.a. í sér hvernig lögregla skuli standa að tilvísun sem tryggir brotaþolum stuðningsviðtal sálfræðings að lokinni skýrslutöku og tryggja þar með rétta miðlun upplýsinga um meðferð mála innan réttarvörslukerfisins til brotaþola. Þá skal Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri framkvæma úttekt á árangri samstarfsins auk þess sem gerð verður úttekt á reynslu lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks af því aukna samstarfi sem hér er lýst.

Þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis

Þá hefur félags- og vinnumarkaðsráðherra, í samvinnu við heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra, ákveðið að ráðast í greiningu á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis. Kortlögð verður aðkoma, hlutverk og ábyrgð ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila, einkum þolendasamtaka að rekstri þeirra og leggja á að því drög að fyrirkomulagi til framtíðar. Vinnan hefur það markmið að finna hentugustu leiðina til að tryggja framtíðarstarfsemi þolendamiðstöðva á Íslandi, bæði út frá skiptingu verkefna milli ráðuneyta og stjórnsýslustiga og við að móta stefnu um aðkomu lögreglunnar að þjónustumiðstöðvum. Einnig verður tekin inn í vinnuna samræming við verklag lögreglu í heimilisofbeldismálum sem og við rannsókn á öðrum ofbeldisbrotum. Þá hefur verið ákveðið að veita lögregluembættum sem hafa beina aðkomu að stjórnun þjónustumiðstöðva 18 millj. kr. styrk til að þróa áfram þverfaglegt og svæðisbundið samstarf í því skyni að efla stuðning og vernd brotaþola en það er í samræmi við ákvæði Istanbúlsamningsins. Embættunum er svo falið að veita nauðsynlega aðstoð við greiningu á framtíðarfyrirkomulagi þjónustumiðstöðva og huga að því að samræma og kynna starfsemi miðstöðvanna með það fyrir augum að samræma og kynna starfsemina út um allt land.

Aðgerðir í þágu þolenda og samstarf milli stofnana

Í Samráðsgátt Stjórnvalda þann 21. desember síðastliðinn birtust áform um fyrirhugað lagafrumvarp frá heilbrigðisráðuneytinu um það að lögfesta skýra heimild fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldismál sem rata inn á borð heilbrigðisstarfsmanna að höfðu samráði við þolanda og til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til lögreglu í málum vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga. Þar kemur einnig fram að ef um ítrekaðar komur vegna heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnun er að ræða, ef ófrísk kona kemur á heilbrigðisstofnun í kjölfar heimilisofbeldis og/eða ef þolandi greinir frá því að hafa verið tekinn kyrkingartaki í tengslum við heimilisofbeldi myndi samræmt verklag heilbrigðisstofnana vegna móttöku þolenda heimilisofbeldis virkjast og lögregla þegar í stað upplýst um málið að höfðu samráði við þolanda. Það er mikilvægt að slíkt samráð sé til staðar svo það verði ekki fælandi fyrir þolendur að leita sér heilbrigðisþjónustu og að heilbrigðisstarfsmenn líti ekki á það sem þvingun því rannsóknir hafa sýnt fram á að skyldutilkynning er slæm ef hún er ekki í samráði við sjúklinginn bæði fyrir þolanda og heilbrigðisstarfsmanninn.

Með fyrirhuguðu lagafrumvarpi yrði sett skýr lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að taka við og til að miðla upplýsingum til lögreglu vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga að fengnu rökstuddu mati lögreglu um að viðkomandi einstaklingur sé verulega hættulegur. Miðlun þeirra upplýsinga færi þá fram á lokuðum fundum í formi þverfaglegs samráðs og að frumkvæði lögreglu. Þetta er almannaheillamál og mikilvægt skref því samkvæmt 2. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þá ber okkur að vernda rétt hvers manns til lífs með lögum.

Eins og staðan er í dag þá eru heilbrigðisstarfsmenn bundnir fyllstu þagmælsku samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn og mega aðeins víkja frá þagnaskyldunni vegna brýnnar nauðsynjar, á grundvelli samþykkis sjúklings eða ákvæðum annarra laga líkt og barnaverndarlaga o.þ.h. Skilyrðið um þessa brýnu nauðsyn getur talist uppfyllt í heimilisofbeldismálum en það hefur reynst vera mjög matskennt og ekki til þess fallið að hagur og öryggi þolenda sé í forgrunni. Það skiptir máli vegna alvarleika heimilisofbeldismála gagnvart þolendum og jafnvel þeim börn sem á heimilinu búa, stöðu þolenda almennt og í ljósi þess að heimildir til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi eru óljósar er brýnt að endurskoða lögin og veita heilbrigðisstarfsfólki sérstaka heimild til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi. Slík lagabreyting myndi hafa það í för með sér að lögreglu yrði í auknum mæli gert kleift að veita aðstoð sína, þar sem líkur eru á að þolendur heimilisofbeldis veigri sér oft við að leita réttar síns og þekki jafnvel réttindi sín ekki nægilega vel við þær aðstæður. Án lagabreytingar geta lög og reglur hvað varðar þagnarskyldu hamlað framgangi mála hjá lögreglu og jafnvel komið í veg fyrir að þolandi fái viðunandi aðstoð í réttarkerfinu og réttar upplýsingar um réttarstöðu sína.

Undirrituð lagði fram þingsályktunartillögu á haustþinginu þar sem dómsmálaráðherra yrði falið að setja á fót starfshóp sem myndi móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Fyrirhugað frumvarp er fagnaðarefni í þessu samhengi, skýrt og mikilvægt skref í rétta átt til að tryggja öryggi þolenda heimilisofbeldis og þeirra barna sem verða fyrir áhrifum þess.

Með framangreindum aðgerðum er markmiðið að tryggja sem jafnast aðgengi þolenda að stuðningi og heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu, efnahag eða öðrum aðstæðum. Þá hefur einnig verið lagt til að ráðist verði í vinnu á skipulagðri fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og það er yfirleitt einstaklingarnir sem fyrst mæta þolendum eftir ofbeldi. Lengi hefur verið kallað eftir skýrum aðgerðum í þessum málaflokki og því mikið fagnaðarefni að við séum að sjá breytingar og alvöru aðgerðir í þágu þolenda. Okkur ber að tryggja faglega og trausta þjónustu við þolendur og með þeim hætti að þeir upplifi raunverulega og trygga aðstoð eftir áfallið því þarna er um einstaklinga að ræða þar sem traust þeirra hefur verið brotið með mjög grófum hætti. Þessar aðgerðir eru sannarlega þáttur í því að tryggja öryggi og þjónustu við þolendur heimilisofbeldis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. janúar 2023.

Categories
Greinar

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar

Deila grein

14/12/2022

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar

Þær fréttir bárust í dag að innviðaráðuneytið hefði náð samkomulagi við Flugfélagið Erni um áætlunarflug til Vestmannaeyja þrisvar sinnum í viku. Lengi hefur verið ákall frá íbúum í Vestmannaeyjum um að bæta samgöngur til og frá eyjum og er framangreint samkomulag við Flugfélagið Erni liður í því að efla samgöngur að mati ráðuneytisins. Þá er það einnig afar mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Eyjum, að tryggja lágmarksþjónustu í vetur.

Aðdragandinn

Á árunum 2010-2020 var áætlunarflug til Vestmannaeyja í höndum Flugfélagsins Ernis og í september 2020 þótti ástæða til að leggja flugið niður vegna minnkandi eftirspurnar í kjölfar Cov-19 faraldursins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið samdi við flugfélagið í desember 2021 um svokallað lágmarksflug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja sem var í gildi fram til 1. júní 2022. Reglulegt flug hefur verið í miklu uppnámi frá því það lagðist af.

Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020 þegar ekki var annað í stöðunni en að leggja niður flug sökum minnkandi eftirspurnar. Það er því mikið fagnaðarefni að félagið hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar og með fleiri flugferðum í viku hverri.

Öryggismál

Þó að hér sé um tímabundið samkomulag að ræða þá megum við ekki gleyma því að við þurfum að leita leiða til að koma þessum málum í réttan farveg, þetta er fyrsta skrefið. Ef það er fullreynt að flug til eyja á markaðslegum forsendum geti gengið upp þá þarf strax að líta til þess hver séu næstu skref um framhaldið. 

Það er í grunninn öryggismál að það séu tvær samgönguleiðir til Eyja og er gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa sveitarfélagsins. Margir þeirra hafa kosið að nýta sér áætlunarflug yfir vetrartímann þegar það hefur verið í boði vegna óvissu í áætlunarferðum Herjólfs. Við þurfum svo til framtíðar að finna varanlega lausn á þessum málum en hér er engu að síður um að ræða mikilvægt skref í þá átt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. desember 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Skýr skref í þágu lög­gæslunnar

Deila grein

06/12/2022

Skýr skref í þágu lög­gæslunnar

Við höfum öll orðin vör við aukna hörku og breyttar aðstæður í glæpastarfsemi á Íslandi. Síðustu vikur hafa fregnir af hrottalegum árásum og auknum umsvifum glæpasamtaka verið daglegt brauð. Lögreglan gerir allt sem hún getur með þann mannafla og þá tækni sem hún hefur í höndum sér, en þó sjáum við íbúa óttaslegna við þróun skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi. Með stöðugri þróun glæpasamtaka, t.d. með aukinni notkun internetisins, hefur reynst sífellt erfiðara að rannsaka starfsemi þeirra og fara í viðeigandi aðgerðir. Það er öllum ljóst að taka þurfi á þessum málaflokki af krafti og styðja löggæsluna í sínum viðbrögðum við nýjan veruleika. Til þess að halda uppi reglu og koma í veg fyrir glæpi þarf að stíga ákveðin skref í rannsóknum, greiningum og viðbrögðum.

Löggæslan komin að þolmörkum

Allir fasar löggæslunnar eru komnir að þolmörkum. Lögreglustjórar hafa þurft að hagræða hverri krónu, lögreglan er undirmönnuð og fangelsin þarfnast umbótunar. Verkefnin eru fjölmörg og við þurfum að klára þau svo að hægt sé að bregðast við breyttum aðstæðum af ákveðni. Ríkisstjórnin hefur brugðist við þessu með auknum fjárveitingum til almennrar löggæslu, Landhelgisgæslunnar og fangelsanna. Með auknum fjárveitingum geta viðbragðsaðilar okkar og rannsakendur verið betur í stakk búnir til að mæta sífellt flóknari verkefnum.

Sjaldséð aukning

Ríkisstjórnin hyggst auka fjárframlög um 2,5 milljarða króna frá því sem upphaflega var áætlað. Af þessu eiga 900 milljónir króna að fara í aukið öryggi, aukinn viðbragðstíma og málsmeðferðarhraða og 500 milljónir í sérstakar aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta eru skýr skilaboð frá ríkisstjórninni að styðja skuli við löggæslu landsins. Slíkur stuðningur við löggæsluna hefur ekki sést í langan tíma, marga áratugi, og gerir okkur kleift að bregðast við ástandinu í dag af krafti.

Mikilvægi frumkvæðislöggæslu

Ásamt þessu mun lögreglan geta unnið enn frekar í þágu forvarna. Oft er horft fram hjá mikilvægi forvarnarstarfs lögreglunnar, en bestu aðgerðirnar eru fyrirbyggjandi aðgerðir. Með öflugu forvarnarstarfi er hægt að koma í veg fyrir að ungmenni taki ranga beygju á lífsleiðinni. Það er ungmennum og samfélaginu í heild til hagsbóta.

Undirrituð fagnar því að efla skuli löggæslu landsins og tryggja það að við Íslendingar búum í enn öruggara landi.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. desember 2022.

Categories
Greinar

Vörðusteinar

Deila grein

16/11/2022

Vörðusteinar

Verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála hefur reynst vel, samstarf við fagaðila heftur aukist og þolendum verið tryggð betri þjónusta. Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldi enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hvern annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. En til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari lagaheimildir til upplýsingamiðlunar. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola. Þegar ástæða er til að ætla að barn hafi orðið vitni að heimilisofbeldi eða orðið þolandi þess þarf þó að tryggja að skilyrði um þátttöku og samþykki brotaþola komi ekki í veg fyrir inngrip stjórnvalda sem sé andstætt hagsmunum barnsins. Kanna þarf hvort rýmka þurfi og skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda, sem hafa afskipti af málum barna, til barnaverndarnefndar og lögreglu og kerfin utan um barnið geti miðlað upplýsingum sín á milli til að grípa börnin betur í þeim aðstæðum sem þau eru því miður alltof oft sett í.

Fleiri steinar styrkja vörðuna.

Í lok síðustu viku bárust fréttir frá Heilbrigðisráðuneytinu um að unnið sé að því að innleiða samræmt verklag og bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins við þolendur heimilisofbeldis. Markmið þeirrar vinnu er að þolendum heimilisofbeldis verði tryggð sem best þjónusta og þjónustan þróuð og efld til lengri tíma litið. Vinnan er gerð í samstarfi við embætti Landlæknis í kjölfar niðurstaðna skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið á síðasta ári. Skýrslan fól í sér mat á því hvernig heilbrigðisþjónusta mætir ólíkum þörfum kynjanna og tillögur að úrbótum. Ein tillagan var ákvörðun um að móta samræmt og bætt verklag. Þjónustan felur m.a. í sér þær breytingar að framvegis geti allir þeir sem þurfa að leita til heilbrigðisþjónustunnar í kjölfar heimilisofbeldis fengið tilvísun til félagsráðgjafa sem hefur sérfræðiþekkingu í málaflokknum. Einnig bætist við boð um þjónustu sálfræðings. Þá er hafin vinna við að setja upp rafrænt skráningarform í sjúkraskrá sem áætlað er að verði komið inn hjá öllum heilbrigðisstofnunum á næsta ári. Þar verða skráðar niðurstöður á réttarlæknisfræðilegum skoðunum á þolendum ofbeldis þegar svo ber við og framkvæmdar eru í alvarlegustu tilfellunum.

Hér er um að ræða mikilvægan stein í vörðuna og þetta ýtir áfram þingmáli sem ég lagði fram um að starfshópur yrði settur á fót sem yrði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldi á milli kerfa. Markmiðið með þingsályktunartillögunni er að endurskoðun fari fram á núverandi kerfum með það fyrir augum að einfalda upplýsingamiðlun milli barnaverndaryfirvalda, félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntamálayfirvalda við að miðla upplýsinga milli stofnana og til lögreglu. Skoðanir og skráning áverka í heimilisofbeldismálum og skráning sönnunargagna sem fást hjá heilbrigðisyfirvöldum þurfa að fara fram með óyggjandi hætti svo þær upplýsingar séu nothæfar ef til sakamáls kemur.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Lyfti­stöng fyrir heil­brigðis­þjónustu á Suður­nesjum

Deila grein

19/10/2022

Lyfti­stöng fyrir heil­brigðis­þjónustu á Suður­nesjum

Undanfarin ár hefur orðið hröð fólksfjölgun á Suðurnesjum með tilheyrandi vaxtarverkjum. Lýðheilsuvísar sem Embætti Landlæknis birtir reglulega hafa sýnt að ýmsir þættir í daglegu lífi sem hafa áhrif á líðan og heilsu hafa verið óhagstæðari á Suðurnesjum en annar staðar á landinu. Í dag búa um 30 þúsund íbúar á svæðinu og það hefur blasað við um tíma að Heilsugæslan á Suðurnesjum nái ekki að anna öllum þessum fjölda. Íbúar á svæðinu hafi um tíma barist yfir bættri heilsugæslu á svæðinu og hefur sú barátta nú skilað árangri.

Tvær nýjar heilsugæslustöðvar

Heilbrigðisráðuneytið fékk það verkefni að bæta heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum eftir að þverfaglegur starfshópur sem hafði það að markmiði að gera stöðumat og aðgerðaráætlun um eflingu þjónustu ríkisins á svæðinu skilaði skýrslu sinni. Til þess að bregðast við stöðunni þá fól Heilbrigðisráðherra Sjúkratryggingum Íslands að auglýsa eftir rekstraraðila til þess að reka nýja heilsugæslustöð í Reykjanesbæ. Sjúkratryggingar hafa nú gengið að tilboði Heilsugæslunnar Höfða í rekstur nýrrar einkarekinnar heilsugæslustöðvar í Reykjanesbæ. Samkvæmt útboðsgögnum skal heilsugæslustöðin vera opnuð 4-6 mánuðum eftir undirritun samnings, en undirritun er fyrirhuguð á allra næstu dögum. Það er því ljóst að ný heilsugæslustöð mun líta dagsins ljós á vormánuðum.

Hér er um að ræða fyrstu einkareknu heilsugæslustöðina utan höfuðborgarsvæðisins og má svo sannarlega segja að hér sé um að ræða lyftistöng fyrir alla heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Mikilvægt er að tryggja heilsugæslu fyrir alla, enda er heilsugæslunni ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustunni við landsmenn samkvæmt lögum. Samhliða þessu mikilvæga skrefi hefur verið tekin ákvörðun um byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ sem á að þjóna um 15.000 íbúum. Húsnæði stöðvarinnar verður um 1.350 fermetrar. Ríkissjóður fjármagnar framkvæmdina að fullu en Reykjanesbær leggur til lóðina og liggur fyrir ákvörðun um að heilsugæslustöðin verði reist við Tjarnarbraut/Njarðarbraut.

Blandaður rekstur er leið til bættrar þjónustu

Reynslan af einkareknum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið góð og njóta þær trausts meðal notenda sinna og auka val. Við í Framsókn með Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í fararbroddi teljum það vera skynsamlega þróun að hafa einkareknar heilsugæslustöðvar samhliða ríkisreknum. Með því má tryggja að fleiri læknar sæki sér menntun sem heilsugæslulæknar og aukin þjónusta verður í boði. Erfitt hefur verið að fá lækna til þess að fara í sérnám í heimilislækningum. Meðal annars vegna þess að þeir hafa bara eitt form til að fara inn í, það er að starfa á ríkisreknum heilsugæslum á meðan aðrir sérgreinalæknar hafa farið í rekstur með ólíkum hætti. Horfa þarf heildstætt á allan rekstur í heilbrigðiskerfinu en þó er mikilvægast af öllu að allir geti sótt sér heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Alþingismaður fyrir Framsókn í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. október 2022.

Categories
Greinar

Tímamót í heilsufarssögu Íslendinga

Deila grein

26/09/2022

Tímamót í heilsufarssögu Íslendinga

Ný Brjóstamiðstöð á Landspítala við Eiríksgötu hefur verið starfandi frá því í apríl á seinasta ári en var með formlegum hætti opnuð af Willum Þór, heilbrigðisráðherra í gær. 

Aðstaðan á Brjóstamiðstöðinni er til fyrirmyndar en þjónustu miðstöðvarinnar er ætlað að ná yfir alla skimun og klíníska brjóstamyndagreiningu, göngudeildarþjónustu tengdra sérgreina, meðferð og eftirlit allra brjóstameina. Miðstöðin mun einnig sinna þjónustu úti á landi og fólki sem er í áhættuhópi á að fá krabbamein vegna stökkbreytinga í genum. Henni er því ætlað að vera miðpunktur í þjónustu við þá sem greinast með mein eða sjúkdóm í brjóstum. 

Grundvallarþáttur við undirbúning og skipulagningu þjónustu brjóstamiðstöðvarinnar var að sameina á einum stað sérfræðinga á sviði krabbameinslækninga, brjóstaskurðlækninga, geislalækninga og lýtalækninga. Brjóstamiðstöðin felur í sér fordæmi og fyrirmynd sem byggt verður á við áframhaldandi þróun göngudeildarþjónustu í starfsemi Landspítala.

Framtíðarsýn miðstöðvarinnar er að gera þeim sem á þurfa að halda auðveldara að leita aðstoðar, að tryggja notendum samfellda og samþætta þjónustu við greiningu brjóstameina. Heildræn lausn fyrir öll vandamál frá brjóstum. Hér er um að ræða afar stórt framfaraskref í þjónustu og raun eru þetta tímamót í heilsufarssögu Íslendinga.

Krabbamein er óboðinn gestur

Að meðaltali greinast um 240 einstaklingar með mein í brjóstum á ári. Konum á Íslandi er boðin reglubundin skimun fyrir krabbameini í brjóstum. Konum á aldrinum 40 til 69 ára er boðin skimun fyrir brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti og konum á aldrinum 70 til 74 ára á þriggja ára fresti. Einkennalausar konur 40 til 74 ára geta pantað tíma í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Ekki nærri því allar konur þiggja þessi boð og við á Íslandi þurfum að bæta okkur þar. Algengasta krabbamein hjá konum á Íslandi er brjóstakrabbamein og því fyrr sem sjúkdómurinn greinist því betri eru lífslíkurnar. Skipuleg skimun er því afar mikilvæg til þess að finna og greina sjúkdóminn snemma. Við megum heldur ekki gleyma að skoða brjóstin okkar sjálfar, t.d. þegar við undirbúum okkur fyrir daginn eða í sturtunni. Ef við gerum þetta einu sinni til tvisvar í hverjum mánuði er mögulega auðveldara að gera sér grein fyrir breytingum á milli skipta og grípa óboðna gestinn áður en hann fer að valda alvöru ónæði.

Við í Framsókn viljum halda áfram að tryggja að heilbrigðisþjónusta hérlendis verði í fremstu röð. Við viljum leggja áherslu á að gæði heilbrigðisþjónustu sé ávallt eins og best verður á kosið með því að leita hagkvæmra og skilvirkra lausna. Einstaklingsmiðuð þjónusta, teymisvinna og nýsköpun eru lykilatriði í þjónustu nýrrar brjóstamiðstöðvar sem byggir á nútímalegri nálgun við skipulag og veitingu göngudeildarþjónustu. Brjóstamiðstöðin við Eiríksgötu felur í sér fordæmi og fyrirmynd sem hægt verður að byggja á við áframhaldandi þróun göngudeildarþjónustu í starfsemi Landspítala.

Landspítala appið

Önnur tímamót í heilbrigðismálum á Íslandi er smáforrit í boði Landspítala. Smáforritið er enn í þróun en í nokkrum áföngum er verið að innleiða það. Upplýsingar sem finna má í appinu eru t.d. innlagnir/komur, tímabókanir, staða rannsókna o.fl. Upplýsingar sem birtast í smáforritinu og tengjast dvöl þinni á spítalanum eru t.d. upplýsingar um lífsmarkamælingar, lyf, starfsmenn, feril dvalar þinnar og svo framvegis. Nýtt Landspítala smáforrit verður einnig tekið til notkunar á brjóstamiðstöðinni fljótlega og verður það bylting í stafrænni upplýsingagjöf og öllu utanumhaldi fyrir einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda.

Hér er því sannarlega um að ræða tímamótaskref í heilsufarssögu Íslendinga og berum við öll miklar vonir og væntingar við áframhaldandi velgengni á þessu sviði og öllum öðrum sviðum heilbrigðismála. Með Willum Þór í forsvari heilbrigðismála á Íslandi erum við sannarlega á réttri leið.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2022.