Categories
Greinar

Vefjagigt – heildræn meðferð

Deila grein

23/03/2021

Vefjagigt – heildræn meðferð

Á haustþingi 2019 var samþykkt þings­álykt­un­ar­til­laga sem und­ir­rituð lagði fram. Með til­lög­unni var heil­brigðisráðherra falið að beita sér fyr­ir fræðslu til al­menn­ings um vefjagigt og láta fara fram end­ur­skoðun á skip­an sér­hæfðrar end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu. Mark­miðið með sér­hæfðri end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu er að styrkja grein­ing­ar­ferlið og geta boðið upp á heild­ræna meðferð byggða á niður­stöðum gagn­reyndra rann­sókna.

Það er ánægju­legt að sjá að heil­brigðisráðuneytið hef­ur brugðist við þess­ari til­lögu með ýms­um hætti. Ráðuneytið end­ur­nýjaði samn­ing við Þraut – miðstöð vefjagigt­ar og tengdra sjúk­dóma. Við end­ur­nýj­un samn­ings­ins var lögð sér­stök áhersla á þrennt, þar á meðal var fræðsla til al­menn­ings og starfs­fólks heilsu­gæslu um vefjagigt og er gert ráð fyr­ir að sú vinna hefj­ist á þessu ári. Þá var einnig lögð áhersla á að stytta biðlista eft­ir grein­ing­armati þannig að hefja megi end­ur­hæf­ing­armeðferð fyrr ásamt snemm­tæk­um inn­grip­um til að fyr­ir­byggja fram­gang sjúk­dóms­ins og koma í veg fyr­ir ör­orku.

End­ur­hæf­ing­ar­stefna var sett á síðasta ári og í fram­haldi lögð fram aðgerðaráætl­un til fimm ára. Í aðgerðaráætl­un­inni má finna áhersl­ur um að styrkja þátt end­ur­hæf­ing­ar í grunn­námi heil­brigðis­stétta. Þá er lögð áhersla á stofn­un end­ur­hæf­ing­ar­t­eyma í hverju heil­brigðisum­dæmi sem leggja áherslu á að beita heild­rænni nálg­un við end­ur­hæf­ingu og fyrst um sinn þjón­usta ein­stak­linga með þráláta verki vegna stoðkerf­is­vanda.

Það skipt­ir máli að bjóða upp á heild­ræna meðferð við vefjagigt. Síðastliðið haust var skipaður þverfag­leg­ur starfs­hóp­ur um lang­vinna verki. Hlut­verk hóps­ins er að taka sam­an tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um fjölda, ald­ur og kyn skjól­stæðinga; meðferðir sem veitt­ar eru, hvar og af hverj­um og gera til­lög­ur að úr­bót­um í þjón­ustu og skipu­lagi sem auðveld­ar aðgengi og ferli sjúk­linga í kerf­inu. Það stend­ur til að starfs­hóp­ur­inn muni skila stöðuskýrslu í næsta mánuði sem mun verða inn­legg í frek­ari vinnu við sér­hæfðari end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu vegna lang­vinnra verkja, þ.m.t. þjón­ustu vegna vefjagigt­ar.

Vefjagigt­ar­grein­ing var tal­in meðvirk­andi þátt­ur í 75% ör­orku hjá 14% allra kvenna sem voru á ör­orku. Örorka vefjagigt­ar­sjúk­linga or­sak­ast oft af sam­verk­andi þátt­um vefjagigt­ar, annarra stoðkerf­is­sjúk­dóma og geðsjúk­dóma. Þetta er lang­vinn­ur sjúk­dóm­ur sem ekki lækn­ast og því fjölg­ar í hópi vefjagigt­ar­sjúk­linga með hækk­andi aldri. Því skipt­ir máli að bregðast við með heild­rænni meðferð sem held­ur sjúk­ling­um virk­ari eins lengi og hægt er.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2021.

Categories
Greinar

Hinn þögli faraldur

Deila grein

09/03/2021

Hinn þögli faraldur

Ákominn heilaskaði og afleiðingar hans hafa ekki fengið mikið pláss í umræðunni hér á landi. Það sinnuleysi hefur leitt af sér skilningsleysi á afleiðingum hans, bæði innan velferðar- og menntakerfisins sem og á vinnumarkaðnum. Það er því ekki að undra að hann hafi verið kallaður, Hinn þögli faraldur. Í síðustu viku stóð ég fyrir sérstökum umræðum á Alþingi um endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákomin heilaskaða. Ég tel það brýnt og mikilvægt að ræða þessi mál.

Sem betur fer hefur undanfarin misseri orðið þó nokkur vitundarvakning varðandi afleiðingar ákomins heilaskaða. Hér á landi hljóta árlega um 2000 manns heilaáverka, af þeim glíma 200-300 manns við langvarandi afleiðingar og fötlun af þeim sökum. Þá bætast við á ári hverju um 10 einstaklingar sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda eftir heilaskaða. Þörf er á átaki í forvörnum til þess að koma í veg fyrir slys sem þessi. Íþróttahreyfingin hefur hrint af stað átaki þar sem slagorðið er: Ekki harka af þér höfuðhögg! Þar er mælt er með að einstaklingar leiti strax til bráðamóttöku vegna þess að afleiðingarnar koma oft og tíðum fram síðar.

Það þarf að bregðast við

Heilaskaði getur haft víðtæk og truflandi áhrif á einbeitingu, minni, mál, persónuleika, tilfinningar, hegðun, hæfni til samskipta, innsæi, framtakssemi og geðslag. Önnur möguleg einkenni í kjölfar heilaskaða geta verið flog, skert hormónaframleiðsla, höfuðverkur, svimi, skert hreyfigeta, truflun á skyni og samhæfingu vöðva. Einstaklingar með heilaskaða og sérfræðingar á því sviði hafa haft uppi ákall síðustu ár að bæta þurfi greiningu og skráningu á heilaáverkum og efla sérhæfa íhlutun, meðferð og stuðning við þá sem hafa orðið fyrir skaða af völdum heilaáverka. Hér á landi vantar sárlega heildstæða meðferð og endurhæfingaúrræði.

Það eru fleiri sem sitja uppi með afleiðingarnar

Þeir sem standa næst einstaklingi með ákominn heilaskaða, fjölskylda og vinir sitja einnig uppi með vanda og koma að lokuðum dyrum í samfélaginu. Heilaskaða getur fylgt geðræn vandamál, mörg heilsufarsleg vandamál og félagsleg einangrun. Þessir einstaklingar einangrast þegar þeir fá ekki hvorki meðferð né endurhæfingu. Auka þarf fræðslu, rannsóknir og vitundarvakningu hjá almenningi og innan heilbrigðisgeirans um afleiðingar ákomins heilaskaða.

Eins og fyrr segir eru um 10 einstaklingar sem bætast við árlega sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda eftir heilaskaða. Þetta eru einstaklingar sem eiga í miklum félagslegum erfiðleikum, missa tengsl við fjölskylduna og oft eru fangelsin þeirra eina skjól. Við þekkjum flest sögu einstaklinga sem falla alls staðar á milli kerfa eftir áföll og ekkert úrræði virðist passa. Mál þessara einstaklinga falla bæði undir félagsleg úrræði sveitarfélaga, heilbrigðiskerfisins og menntakerfis. Flestir þessir einstaklingar eiga sér sögu innan lögreglunnar og búsetuúrræðin eru fá.

Meðferðir hafa sýnt árangur

Atferlistengd taugaendurhæfing hefur gefist vel erlendis og í því samhengi er hægt að horfa til Kanada. Þar er miðað við að endurhæfa færni og sjálfstjórn með það að markmiði að auka sjálfstæði og lífsgæði. Meðferðin felst í því að þjálfa þessa einstaklinga í félagslega viðeigandi hegðun með aðferðum atferlisgreiningar þannig að þeir geti lifað í sátt og samlyndi við aðra í samfélaginu.

Við Háskóla Íslands er í bígerð að setja á fót þverfaglegt nám á MS stigi í endurhæfingavísindum sem ætlað er að taka á m.a. endurhæfingu einstaklinga með ákominn heilaskaða. Það er mikilvægt að mennta upp starfsfólk sem vinnur með einstaklinga á öllum stigum og í allri þjónustu til þess að endurhæfa einstaklinga sem hafa orðið fyrir ákomnum heilaskaða. Það er mikilvægt fyrir líðan þeirra og aðstandanda og ekki síst heildarábati fyrir samfélagið allt.

Við vitum hvað þarf að gera, nú þarf bara að stíga næstu skref.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. mars 2021.

Categories
Greinar

Öflug samvinna um farsæld barna

Deila grein

05/03/2021

Öflug samvinna um farsæld barna

Þessa dagana er til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis frumvarp frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Með fylgir frumvarp um stofnun Barna- og fjölskyldustofu og frumvarp um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Frumvarpið um samþættingu á þjónustu í þágu farsældar barna hefur fengið góðan undirbúning með aðkomu margra sérfræðinga og hagsmunaaðila í málefnum barna. Breytingarnar sem lagt er upp með eru að efla stuðningsteymi næst barninu og að samhæfing og vöktun á þjónustu allra kerfa tali saman. Gert er ráð fyrir öflugu farsældarráði, samráðsvettvangi sveitarfélagi með ráðgjöf og eftirlitið með þjónustunni er bætt.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Þegar barn fæðist færum við því hamingjuóskir með vonum um að því farnist vel í lífinu og megi ganga áfallalítið um lífsins götu. Á fyrstu árum barns er lagður sá grunnur sem einstaklingur byggir líf sitt á. Mikilvægt er að heimilið, skólinn, íþrótta- og félagslífið og heilbrigðiskerfið myndi heildstæða umgjörð. Það þarf að horfa heildstætt á þjónustu allan lífsferil barns til fullorðinsára. Mikilvægt er að ábyrgð og frumkvæðisskylda stjórnvalda sé tryggð á öllum stigum. Til þess að tryggja heildstæða umgjörð þarf að fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra, bregðast við þörf þeirra fyrir þjónustu með skilvirkum hætti strax í upphafi og að tryggja að kerfin tali saman með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt. Um þetta snýst frumvarpið. Það skref sem nú er verið að stíga er mikilvægt til farsældar barna.

Samvinna skilar árangri

Búast má við miklum framförum í þjónustu við börn þegar þetta frumvarp verður að lögum. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið. Hér er um að ræða hugmyndir um að þjónusta við börn verði sniðin með það í huga að nálgast hvert barn með þarfir þess og réttindi í huga. Samvinna aðila sem koma að farsæld barna á eftir að borga sig fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið sjálft. Til að ná hámarksábata með breytingunni þarf að auka forvarnir og snemmbæran stuðning.  Koma í veg fyrir áföll í barnæsku sem skilar sér síðar með því að draga úr frekari áföllum á fullorðinsárum. Vissulega liggur nokkur kostnaður bæði fyrir ríki og sveitarfélög með innleiðingunni en ábatinn til lengri tíma er óumdeildur og fer stigvaxandi meðan fleiri einstaklingar hafa fengið þennan grunn. Hagfræðingar tala um að þetta verkefni flokkist með arðbærari verkefnum sem hið opinbera hefur ráðist í. Mesti  ábatinn er sterkari einstaklingur sem hefur vaxið upp til fullorðinsára samhliða traustu neti þjónustu sem hefur gripið einstaklinginn þegar þörf reyndist. Samvinna skilar okkur betri einstaklingum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 4. mars 2021.

Categories
Greinar

ORKUBÚIÐ ER KJÖLFESTUFYRIRTÆKI Á VESTFJÖRÐUM

Deila grein

04/03/2021

ORKUBÚIÐ ER KJÖLFESTUFYRIRTÆKI Á VESTFJÖRÐUM

Á samráðsgátt stjórnvalda má finna drög Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra að aðgerðum til umbóta á regluverki á sviði raforkumála. Þar er sett fram tillaga um að starfshópur hefji könnun á sameiningu RARIK og Orkubús Vestfjarða. Vitnað er í skýrslu Deloitte og bent á að hagræða megi með sameiningu dreifiveitna, og að í því skyni sé fyrsti kostur að sameina RARIK og Orkubú Vestfjarða, í ljósi þess að þær dreifiveitur eru báðar í ríkiseigu.

Orkubú Vestfjarða var stofnað árið 1978 og var þá sameignarfélag sveitarfélaga á Vestfjörðum og ríkisins en frá árinu 2002 hefur Orkubúið verið í fullu í eigu ríkisins og þar með opinbert hlutafélag. Fyrirtækið býr að áratuga reynslu við virkjun vatnsafls og jarðhita og er eina orkufyrirtækið í landinu sem hefur enn bæði dreifingu og sölu raforku á sömu hendi. Fyrirtækið framleiðir um 60% af orkunotkun Vestfjarða og í pípunum eru áætlanir um frekari virkjanir á Vestfjörðum. Við fyrirtækið starfa um 70 manns bæði við framleiðsluna og dreifikerfið og líta Vestfirðingar á fyrirtækið sem kjölfestufyrirtæki í heimabyggð.

Sérstaða Orkubúsins

Sérstaða OV á raforkumarkaði er sú að ekki hefur verið aðskilið að fullu á milli flutningshluta fyrirtækisins, sem er dreifiveitan, frá framleiðslu, öflun og sölu á raforku. Með breytingu á raforkulögum fyrir nokkrum árum var gerð krafa um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisþáttum raforku. Því má ætla að ef að sameiningu Orkubúsins og RARIK verði þá liggi það fyrir að það þurfi að skipta því upp samkvæmt lögum.

Hvert fer samkeppnishlutinn?

Í 40 ára sögu Orkubúsins hefur verið byggð upp mikil þekking og reynsla innan fyrirtækisins. Ef af sameiningu á dreifihlutanum verður hjá Orkubúinu og RARIK er ljóst að áfram verði starfskraftur staðsettur í fjórðungnum eins og nú er til að reka og viðhalda dreifikerfinu. Hinsvegar er ósvarað hvað verði um samkeppnishlutann sem er öflun og sala raforkunnar. Við í Framsóknarflokknum leggjum höfuðáherslu á að sá hluti verði  áfram í þjóðareigu og að yfirstjórn og starfskraftur þess hluta sé áfram á Vestfjörðum. Ekki síst í ljósi þess  að sveitarfélögin á svæðinu lögðu virkjunarréttindi sín inn í Orkubúið við stofnun þess og því má það ekki verða að framkvæmdum og uppbyggingu sé miðstýrt úr Reykjavík eins og þróunin er í alltof mörgum tilfellum.

Orkusalan ehf er dótturfyrirtæki RARIK og sér um framleiðslu og sölumál innan þess. Það er því í eigu ríkisins en er staðsett í Reykjavík. Ef horft væri til þess að sameina samkeppnishluta Orkubúsins við Orkusöluna þá væri upplagt að flytja það sameiginlega fyrirtæki til Vestfjarðar þar sem þekking og starfskraftar eru til staðar. Með því væri starfsemin einnig nær starfssvæðinu sem er eingöngu útá landsbyggðinni.

Framundan eru því umræður um breytingar á Orkubúinu. Stöndum vörð um hlutverk þess og starfsstöðvar og tryggjum að það geti unnið áfram að meiri raforkuöflun og bættu raforkuöryggi á Vestfjörðum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á bb.is 4. mars 2021.

Categories
Greinar

Nýr Mennta­sjóður lands­byggðinni í vil

Deila grein

25/02/2021

Nýr Mennta­sjóður lands­byggðinni í vil

Frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um Menntasjóð námsmanna var samþykkt á Alþingi sl. vor. Hér er um að ræða heildarendurskoðun námslánakerfisins og miðar að því að jafna stuðning ríkisins til námsmanna. Þessar breytingar eiga sér langan aðdraganda, fyrri menntamálaráðherrum hefur ekki tekist að koma þeim í gegn en Lilja Alfreðs fékk málið í sínar hendur og náði því áfram.

Nýtt nafn á þessu gamla kerfi segir til um hversu miklar breytingar eru gerðar, með þeim erum við að færast nær því sem gerist í nágrannalöndum okkar í þeim efnum og tímabært var að færa nær nútímaviðmiðum.

Helstu breytingar

Helstu nýmælin eru að inn kemur styrkjakerfi, beinn stuðningur og ívilnanir sem eru undanþegnar lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu af höfuðstól námsláns þeirra ásamt verðbótum, að loknu námi. Þá verður það meginregla að bæði útgreiðsla og afborganir námslána verða mánaðarlegar. Sem styðjandi aðgerðir má nefna beinan stuðning vegna framfærslu barna, en námsmaður á rétt á styrk til framfærslu barns/barna undir 18 ára aldri sem nemur einföldum barnalífeyri á mánuði með hverju barni. Námsmenn sem greiða meðlag með barni undir 18 ára aldri geta einnig fengið styrk vegna meðlagsgreiðslna sem nemur sömu upphæð. Mikilvæg breyting er að ábyrgðamannafyrirkomulag LÍN er afnumið og ábyrgðir á námslánum falla niður að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Byggðasjónarmiðin eru áberandi

Fyrir síðustu kosningar lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á að byggðajöfnunaraðgerðir væri að finna sem víðast og hægt væri að beita sérstökum íviljunum vegna afborgana á námslánum og þær séu hagstæðari að hluta fyrir þá sem búa í hinum dreifðari byggðum. Þetta atriðið má finna í reglum hins nýja Menntasjóðs. Þar er að finna heimild til að veita rétt til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina, og vegna endurgreiðsla námslána hjá lánþegum sem eru búsettir og starfa á svæðum sem skilgreind eru í samráði við Byggðastofnun. Uppleggið er að lánþegi sem hefur lokið námi og er búsettur á skilgreindu svæði nýti i menntun sína þar að lágmarki í 50% starfshlutfalli í a.m.k. tvö ár.

Byggð um allt land

Ívilnandi aðgerðir sem stjórnvöld setja eru mikilvægt tæki til að hafa áhrif á byggðaþróun og ekki síst til að hafa áhrif á að efla þjónustu í veikum byggðum og styrkja nærsamfélagið. Í Noregi byggir byggðastefna á því að halda öllu landinu í byggð og áhersla lögð á valfrelsi einstaklinga til að velja sér búsetu. Það er mikilvægt að byggja undir sterka samfélagsgerð og fjölbreytta þjónustu. Í Noregi hafa verið notað ívilnandi skattaaðgerðir til að efla byggð. Þar með talið með niðurfellingu eða lækkun á endurgreiðslu námslána með ágætum árangri. Það verður fróðlegt að fylgjast með næstu ár hvort þessar aðgerðir eigi eftir að skila sér með jafn góðum árangri og hjá frændum okkar í Noregi. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Sundabraut í samvinnu og sátt

Deila grein

18/02/2021

Sundabraut í samvinnu og sátt

Hugmyndin um Sundabraut er ekki ný af nálinni, hún var fyrst sett fram fyrir nærri 50 árum síðan og náði hún inn í aðalskipulag Reykjavíkur fyrir 35 árum. Frá því Sundabraut komst inn á aðalskipulag eru liðin um níu kjörtímabil bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Enn á eftir að útfæra nánar lagningu og hönnun Sundabrautar en þau tímamót eru þó runninn upp að við getum treyst því að af henni verði. Sundabraut kemur til með að auðvelda umferð milli miðborgar og Grafarvogs, létta á umferð á höfuðborgarsvæðinu og stytta leiðir út á land sem og inn á höfuðborgarsvæðið.

Mikilvægi þessa samgöngumannvirkis er ekki bara samgöngubót fyrir höfuðborgina heldur er þetta mikilvæg samgöngubót fyrir Vestlendinga, Vestfirðinga sem og Norðlendinga. Sundabraut hefur áhrif á daglegt líf margra sem búa á Vesturlandi og aka daglega til vinnu eða skóla á höfuðborgarsvæðið og öfugt. Sundabraut styttir vegalengdir og eykur umferðaröryggið, þá mun Sundabraut vafalaust koma til með að bæta almenningssamgöngur.

Víðtæk áhrif

Samkvæmt nýlegri íbúakönnun býr hamingjan á Snæfellsnesi, enginn dregur það í efa. Allar líkur eru á að Sundabraut komi til með að breyta miklu fyrir Vestlendinga en hvort hamingja þeirra aukist mikið skal ekki segja en lengi getur gott batnað. Í könnuninni kom fram að það sem íbúar töldu hamla góðri búsetu sé ástand vegakerfisins. Þrátt fyrir að heimavinna hafi aukist til muna og störf án staðsetningar hafi raungerst í COVID 19, þá hafa samgöngur sífellt meiri áhrif á daglegt líf fólks nú en áður. Af því leiðir að val um búsetu verður metin út frá því. Tvöföldun Vesturlandsvegar og lagning Sundabrautar styrkir val fólks til búsetu á Vesturlandi öllu og þau áhrif gætir lengra. Með Sundabraut opnast einnig auknir möguleikar fyrir nýja staðsetningu fyrirtækja og stofnanna.

Samvinnuverkefni

Framkvæmdir við Sundabraut gætu hafist árið 2025 og lokið fyrir árið 2030 og það er það sem að er stefnt. Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir samvinnuverkefnum hins opinbera og einkaaðila, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra lagði fram frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Sundabraut er eitt þeirra sex verkefna sem talað var um sem samvinnuverkefni og hefur Alþingi heimilað Sundabraut sem samvinnuverkefni. Með samvinnuverkefni væri Vegagerðinni heimilt að undangengnu útboði að gera samning við einkaaðila um samvinnuverkefni um framkvæmd um þau verkefni sem tilgreind eru í þeim lögum og hafa í för með sér aukið umferðaröryggi.

Áfram veginn með Sundabraut.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 17. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Ef við viljum í al­vöru standa með neyt­endum og inn­lendri fram­leiðslu þá er til leið

Deila grein

18/02/2021

Ef við viljum í al­vöru standa með neyt­endum og inn­lendri fram­leiðslu þá er til leið

Í útvarpsþættinum á Sprengisandi fyrr í vikunni var rætt við Pál Gunnar Pálsson forstjóra Samkeppniseftirlitsins um samkeppnismál. Páll Gunnar ræddi m.a. um mikilvægi þess að samkeppnislögin væru virt, það væri mikilvægt fyrir heildarhagsmuni neytenda. Hann talaði um að það væri lenska í efnahagskreppu að taka samkeppnislögin úr sambandi og grípa til verndartolla sem kæmi síðan niður á nýsköpun, vöruþróun og vöruverði til neytenda.

Undirrituð hafa lagt fram frumvarp til breytinga á búvörulögum þess efnis að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga þá sé afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Þetta frumvarp fæddist ekki í þeirri efnahagslægð sem nú ríkir heldur var það fyrst lagt fram á haustdögum 2018, löngu áður efnahagskreppa af völdum COVID 19 var í kortunum. Þessar breytingar eiga sér sannarlega tilverurétt nú sem aldrei fyrr.

Samræmist EES og ESB

Verði tillagan að lögum er fullvíst að mikil hagræðing getur átt sér stað bæði í slátrun sem og vinnslu á kjöti. Allar líkur eru á að hagræðing sem þessi muni skila betri afkomu afurðastöðva, hærra afurðaverði til bænda og lægra vöruverði til neytenda. Það er ekkert í EES rétti sem kemur í veg fyrir að slíka breytingu megi leiða í lög hér á landi og mikilvægt er að hafa í huga að landbúnaður innan ESB er undanþeginn samkeppnislögum að miklu leiti.

Við erum ekki að finna upp hjólið

Árið 2004 var starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins gerbreytt með breytingu á 71. gr. búvörulaga. Sú breyting veitti afmarkaða undanþágu til afurðarstöðva í mjólkuriðnaði frá gildissviði samkeppnislaga. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur orðið mikil nýsköpun og stórfelld hagræðing í söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurvara. Árangurinn sést meðal annars af því að heildarþáttaframleiðni í greininni hefur vaxið um 2,2% á ári frá 2000-2018. Til samanburðar má nefna að í grónum atvinnugreinum er slíkur vöxtur að jafnaði um 1% á ári. Árlegur ávinningur af þessum breytingum er um 3 milljarðar króna á ári á verðlagi ársins 2020. Þessum ábata hefur verið skilað til bænda í gegnum afurðaverð og til neytenda í gegnum heildsöluverð mjólkurvara. Þessi undanþága er þannig forsenda stöðugleika og stórfelldrar hagræðingar sem fylgt hefur verið eftir með vöruþróun og nýsköpun sem aftur er forsenda þess að hafa traustan markað fyrir mjólkurvörur meðal neytenda.

Nærsamfélagsframleiðsla og hagsmunir neytenda.

Síðustu misseri hafa kröfur neytenda tekið verulegum breytingum. Margt kemur þar til s.s. aukin vefverslun, kröfur um að draga úr notkun umbúða, minni matarsóun auk áherslu á að minnka kolefnisspor afurða. Neytendur og bændur eru samstíga að horfa í átt til þess að framleiða heilnæmar og hreinar afurðir í nærumhverfi markaðarins. Þetta á jafnt við þau sem neyta dýraafurða sem og grænkera. Hagsmunir bænda og neytenda fara þannig saman og stjórnvöld verða hlýða því kalli. Innlend framleiðsla á það skilið að staðið sé vörð um um hana til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Aukin hagkvæmni í virðiskeðju búvara er mikilvægt lóð á þær vogarskálar, og stjórnvöld geta lagt lið með breyttri löggjöf. Aukin samvinna í afurðavinnslu mun leiða af sér aukna vöruþróun og hagræðingu þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda til framtíðar. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Ekkert „Hakuna Matata“ með verndun íslenskunnar

Deila grein

08/02/2021

Ekkert „Hakuna Matata“ með verndun íslenskunnar

Nokkur umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum síðustu daga um skort á talsettu efni á efnisveitunni Disney+, sem varð aðgengilegt Íslendingum í fyrra. Undanfarið hafa íslenskusérfræðingar og ráðamenn vakið athygli á þessu og sent áminningu til Disney um málið. Þar má benda á formlegt bréf mennta- og menningarmálaráðherra til stjórnenda fjölmiðlaveitunnar Vissulega er þetta jákvætt þar sem vilji flestra landsmanna er að vernda skuli íslenska tungu, en tungumálið er í hættu ef við stöndum ekki vörð um það. Sú hætta er margumtöluð og staðfest í hugum sérfræðinga.

Þó getum við ekki einungis horft erlendis varðandi textun á sjónvarps- og kvikmyndaefni. Íslendingar bera meginábyrgð á verndun íslenskunar, þ.e. að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Textun á innlendu sjónvarpsefni hér á landi heyrir nánast til undantekninga, og það getur verið mörgum einstaklingum til vandræða. Textun innlends efnis myndi gagnast tugþúsundum landsmanna, og þá sérstaklega heyrnaskertum einstaklingum. Heyrnaskertir kunna málið en eiga oft erfitt með að heyra allt talmál í sjónvarpi. Jafnvel erlent barnaefni vantar stundum textun og við það eiga heyrnaskert börn erfitt með að fylgjast með talmáli og missa því af barnaefni. Það eru um 200 börn og unglingar sem þurfa heyrnatæki hér á landi. Einnig eru kringum 15% þjóðarinnar heyrnarskert að einhverju leiti.

Það hefur lengi verið baráttumál heyrnaskertra að íslenskur texti fylgir því myndefni sem innlendar fjölmiðlaveitur miðla, og þá texti sem endurspeglar texta hljóðrásar myndefnisins eins nákvæmlega og kostur er. Frumvarp þess efnis hefur nokkrum sinnum verið lagt fram á Alþingi en ekki náð fram að ganga, sem er miður.

Þá er einnig vert að benda á umræðu um læsi barna í þessu samhengi. Töluleg gögn um læsi barna á Íslandi hafa bent til þess að læsi hefur farið hnígandi. Við þurfum að leita alla leiða til að bæta úr þeirri stöðu, sem er vissulega mjög alvarleg í stóru myndinni og til framtíðarinnar litið. Það er ekki ásættanlegt að læsi t.d. leiðtoga, frumkvöðla og kennara framtíðarinnar sé ábótavant. Textun efnis getur eflt læsi barna, eðli máls samkvæmt. Það er samt ekki aðeins textun á barnaefni sem kemur þar til greinar heldur einnig textun á öðru íslensku efni svo sem kvikmyndum og þjóðfélagslegri umræðu í sjónvarpi.

Í byrjun Covid-19 faraldursins var meiri áhersla lögð á gæðaefni í sjónvarpi til afþreyingar landsmanna. Þá var ánægjulegt að sjá meiri textun og meiri áherslu á táknmál þannig að allir gætu notið þess efnis sem birtist á skjáum landsmanna. En betur má ef duga skal og er því mikilvægt að nýta þá reynslu sem fékkst af þessu og halda áfram á sömu braut. Sjónarmið um erfiði og kostnað við textun eru vísað á bug. Hér erum við að tala um hagsmuni fólks og þá sérstaklega barna. Í dag eru meira að segja komnar ýmsar gerðir hugbúnaðar sem textar og jafnvel þýðir talmál jafnóðum og verður sífellt fullkomnari með hverju árinu.

Óskastaðan væri sú að við stjórnmálamenn gætum sagt „Hakuna Matata“ í þessu málum, en þangað til er það okkar að þrýsta á þetta réttlætismál.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Ónýtir vegir á sunnanverðum Vestfjörðum

Deila grein

05/01/2021

Ónýtir vegir á sunnanverðum Vestfjörðum

Síðustu daga höfum við fylgst með fréttum af miklum slitlagsskemmdum á Bíldudalsvegi, á Mikladal og í Tálknafirði. Þessar fréttir koma líklega ekki á óvart þar sem Bíldudalsvegur í heild sinni var metin ónýtur fyrir nokkru. Þá hefur verið haft eftir svæðisstjóra Vegagerðarinnar að það kosti milljarð að koma veginum í samt lagt aftur. En hvað kostar að gera það ekki?

Þegar litið er til samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum erum við enn stödd á síðust öld og þarf ekki að fjölyrða frekar um það. Til þess að komast á milli byggðakjarna á svæðinu þarf að fara yfir fjallvegi sem eru erfiðir á veturna. Núverandi vegir eru engan veginn byggðir fyrir þá umferð sem þar er. Þungaflutningar eru miklir og almenn umferð hefur aukist vegna atvinnu og þjónustu. Þá eru lokanir á vegum algengar yfir veturna bæði á milli byggðarlaganna þriggja og á Kleifaheiði á Barðastrandavegi. Þessar lokanir hafa mikil áhrif, enda er um eitt vinnusóknarsvæði að ræða.

Jarðgöng er lausnin

Það þarf að skoða af alvöru áætlanir um jarðgöng milli byggðarkjarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Með tilliti til byggðaþróunar, daglegrar vinnusóknar og ekki síður vegna aukinnar umsvifa fiskeldis sem skila þjóðarbúinu tugi milljarða í útflutningstekjur þá þurfa samgöngur að vera skilvirkar, öruggar og heilsárs. Jarðgöng frá Patreksfirði yfir í Tálknafjörð yrðu rétt um 3.5 km. og myndu leysa af hólmi umferðamikinn og ónýtan veg um Mikladal. Fleiri jarðgöng eru möguleg og eiga vera á áætlun.

Það er dýrara fyrir þjóðarbúið að aðhafast ekkert í vegamálum á Bíldudalsvegi en að fara í uppbyggingu. Þá er ótalin sú slysahætta sem hlýst af því að hafa slæma vegi. Já vissulega kostar milljarða að byggja upp vegi, en ef þjóðarbúið hefur hug á að nýta sér ágóðann af mikilvægri útflutningsgrein sem stunduð er á svæðinu þarf að byggja upp góðar samgöngur. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. janúar 2021.

Categories
Greinar

Vegna villandi um­ræðu um fæðingar­or­lof og nálgunar­bann

Deila grein

21/12/2020

Vegna villandi um­ræðu um fæðingar­or­lof og nálgunar­bann

Mjög villandi umræða og beinlínis röng, hefur fengið vængi í fjölmiðlum hvað varðar rétt til töku fæðingarorlofs undir nálgunarbanni. Að því tilefni er ég knúin til að rita nokkur orð til þess að leiða umræðuna á rétta braut.

Í frumvarpi til nýrra laga um fæðingar- og foreldraorlof, eins og það var lagt fram fyrir Alþingi var í upphafi að finna ákvæði sem hljóðaði á um að þegar annað foreldri lúti nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili skyldi réttur þess foreldris til töku orlofs samkvæmt lögunum færast yfir til hins foreldrisins. Undir meðferð málsins fyrir velferðarnefnd Alþingis var vakin athygli á því að vegna þess hvernig framkvæmd sé háttað í málum er varði nálgunarbann væri sjaldgæft að foreldri sætti nálgunarbanni gagnvart ungu barni sínu. Mögulega þyrfti að breyta ákvæðinu á þá leið að einnig féllu undir ákvæðið þær aðstæður þegar foreldri sætir nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu.

Rétt skal vera rétt

Við þriðju umræðu málsins á Alþingi lagði meirihluti velferðarnefndar fram breytingartillögu sem hljóðar á um að ákvæði þetta nái einnig til þess þegar annað foreldrið sæti nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu. Sú breytingartillaga var samþykkt og gildir því ákvæðið nú um bæði nálgunarbann gagnvart barni og/eða foreldri. Umræða síðustu daga hefur haldið öðru fram og skal það leiðrétt hér.

Þessu til viðbótar var með samþykkt breytingartillögunnar sett inn bráðabirgðaákvæði sem hljóðar upp á það að starfshópur verði skipaður á vegum félags- og dómsmálaráðuneyta. Starfshópurinn hefur það verkefni að skoða hvort og/eða hvernig breyta skuli lögum í því skyni að ákvæðið nái markmiðum sínum. Störfum starfshópsins skal ljúka eigi síðar en 1. apríl 2021, með frumvarpi að lagabreytingum verði þess þörf.

Með þessari breytingatillögu sem samþykkt var af Alþingi er tryggt að ákvæðið gildir um foreldri sem sætir nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða hinu foreldrinu. Tilgangur skipunar starfshópsins er að kanna frá öllum hliðum hvort og þá hvernig betur megi skerpa á bæði lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um nálgunarbann í þeim tilgangi að markmiðum og tilgangi beggja laga sé náð með sem bestum hætti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. desember 2020.