Categories
Fréttir Greinar

Sjó­kvíeldi, með eða á móti

Deila grein

09/10/2023

Sjó­kvíeldi, með eða á móti

Það má segja að stormur ríki um þessar mundir í umræðu um sjókvíeldi. Stór orð látin falla og þá skal skunda á Austurvöll og hafa hátt.

Það er líkt og þegar mikil hávaði ríkir á samkomu í stórum sal þá komast aðalatriðin illa til skila. Gífuryrði og misskilningur situr eftir, engum til framdráttar. Ennþá er talað um örfá störf í sjókvíeldi sem unnin eru að erlendum farandverkamönnum sem engu skipta máli og eldið allt eitt umhverfisslys.

Slysaslepping

Kveikjan að þessum stormi núna er slysaslepping sem varð í Patreksfirði í síðasta mánuði sem hafði alvarlegar afleiðingar þar sem fiskurinn var nær kynþroska og leitaði upp í veiðiár á vestanverðu landinu og norðan. Slysasleppingu á alltaf að taka alvarlega, sérstaklega þegar áhrifin verða slík sem hafa verið og það þarf að rannsaka ofan í kjölinn. Fiskeldisfyrirtækin þurfa að bæta sína ferla og opinbert eftirlit þarf að bæta verulega.

Öruggt viðbragð

Við höfum byggt upp öruggt viðbragð við alls kyns atburðum, hvort sem um ræðir mengunarslys, smitsjúkdómar eða náttúruvá. Allt byggir það á að lágmarka mögulegan skaða og áhrif til framtíðar. Því þarf að vera til staðar öruggt viðbragð og eftirlit sem virkjað er strax og slepping verður. Til þess að það megi verða þarf eftirlit að færast nær sjókvíeldinu, bæði til að flýta viðbragði og ekki síst til að byggja upp þekkingu á svæðinu. Þegar upp kemur riða í sauðfé eru allir ferlar þekktir og gengið í verkið. En við erum því miður ansi svifasein í þegar kemur að viðbrögðum við slysasleppingu. Í Noregi eru þeir með lært viðbragð og eldislaxi hefur fækkað í norskum veiðiám þökk sé þeim mótvægisaðgerðum sem virkjaðar hafa verið þar. Mikilvægt er að við horfum til þróunar í nágrannalöndum og nýtum okkur þá reynslu sem þar hefur orðið til, svo hægt verði að byggja upp heilbrigða starfsemi hér á landi.

Eftirlit á staðnum

Því er mikilvægi eftirlits á þeim stöðum sem sjókvíeldið er staðsett mikið. Það má líkja því við að ef Ísfirðingar yrðu uppvísir að slæmri umferðamenningu, keyrðu ítrekað yfir hámarkshraða eða undir áhrifum áfengis, það kynni ekki góðri lukka að stýra og ákall yrði eftir auknu eftirliti lögreglu en stjórnvöld myndu bregðast við með því að ráða fleiri í lögregluna á Selfossi. Hvaða áhrif myndi það hafa á umferðamenningu á Ísafirði? Einnig þarf nýsköpun, rannsóknir og þróun á sviði sjókvíeldis að vera til í nærumhverfi eldisins sem og annarsstaðar.

Aukið og virkt eftirlit

Með breytingu á lögum um fiskeldi frá árinu 2019 var gert ráð fyrir að áhættumatið skuli samkvæmt lögum taka tillit til mótvægisaðgerða, sem annarsvegar skal lámarka hættu á stroki úr kvíum og hins vegar aðgerðir sem grípa skuli til þegar mögulegt strok verður. Er lögfesting þessara mótvægisaðgerða algjört lykilatriði, þar sem þær draga enn frekar úr líkum á skaðlegum áhrifum eldisins og stuðla þannig að umhverfisvænni rekstri og betri sátt við aðra hagsmuni. Þessar mótvægisaðgerðir þarf að virkja enn frekar.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir komandi ár er gert ráð fyrir aukinni fjárveitingu upp á 126 milljónir króna vegna eftirlits í sjókvíeldi auk þess sem til stendur að hækka verðmætagjald sjókvíeldis. Áætlað er að verðmætagjald fyrirtækja í sjókvíeldi verði komið í 2,1 milljarð á komandi ári og það rennur í fiskeldisjóð. Auk þess greiða rekstraraðilar sem ala lax í sjókví árlegt gjald í umhverfissjóð sem greiðir kostnað við rannsóknir vegna burðaþolsmats, vöktunar og annarra eftirlitsverkefna.

Stefna um lagareldi

Matvælaráðherra hefur lagt fram tillögu um stefnu í uppbyggingu og umgjörð lagareldis, stefnu til ársins 2040 sem nú er komin í samráðsgátt. Tillagan hefur að markmiði að skapa greininni skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Lagareldið nær yfir sjókvíeldi, landeldi, úthafseldi og þörungarækt.

Þegar horft er til sjókvíeldis segir í tillögunni að áskoranirnar séu vissulega til staðar og til þess að greinin geti áfram verið mikilvæg stoð í efnihag landsins verður áfram að vinna að því að mæta þeim áskorunum með festu. Það er bæði verkefni þeirra fyrirtækja sem stunda greinina, samfélaganna þar sem greinin er stunduð og stjórnvalda sem halda utan um eftirlit og lagaumgjörð. Það er raunverulegur möguleiki með því að hafa vísindin í forgrunni sem byggja á að lágmarka umhverfisáhrif greinarinnar. Þannig byggjum við upp sameiginlegan ábata með nýtingu auðlinda til verðmætasköpunar .

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hugum að heyrn

Deila grein

22/09/2023

Hugum að heyrn

Sagt er að menn hafir fimm skilningarvit eða skynfæri: Sjón, heyrn, lyktarskyn, snertiskyn og bragðskyn. Öll eru þau jafn mikilvæg. Þeir sem fæðast með heyrn reiða sig mikið á hana og vilja halda í hana sem lengst. Með snemmtækri íhlutun og forvörnum er hægt að kortleggja og bregðast við ef svo sé ekki raunin. Fólk á öllum aldri býr við skerta heyrn og með hækkandi aldri minnkar heyrnin, um eftirlaunaaldur má búast við tvöföldum fjölda heyrnarskertra einstaklinga. Einn af hverjum sex Íslendingum með skerta heyrn.

Mennta þarf fólk í heyrnarfræðum

Það er bagalegt fyrir þá sem búa við heyrnarskerðingu að geta ekki gengið að þeirri þjónustu sem byggð hefur verið upp á síðustu áratugum með vissu. Eins og staðan er í dag eru um 2000 manns á biðlista hjá Heyrnar og talmeinastöð Íslands (Hér eftir HTÍ). Ástæðan er margvísleg, það vantar sérmenntað fólk til starfa auk þess sem húsnæðið sem stofnunin hefur verið í síðastliðin 50 ár er ekki hentug fyrir starfsemi af þessu tagi og fyrir utan að það er löngu sprungið. Einstaklingar með kuðungsígræðslu geta ekki leitað annað eftir sérfræðiaðstoð líkt og þeim sem sinna greiningu og talmeinaþjónustu. HTÍ gegnir skyldum og hefur þjónustað einstaklinga sem búa við heyrnarskerðingu sl. 40 ár. HTÍ sér um heyrnarmælingu nýbura, greiningu, meðferð og endurhæfingu heyrnarskertra barna og fullorðinna. Þá sinnir HTÍ einnig ráðgjafahlutverk til foreldra, skóla og dvalarheimila svo eitthvað sé nefnt. Heyrnarskert börn og unglingar sem eru undir reglulegu eftirliti HTÍ eru um 300 talsins.

Nú stendur HTÍ frammi fyrir þeirri erfiðu stöðu að ekki fæst fólk með þá sérmenntun sem til þarf svo hægt sé að halda svona starfsemi gangandi. Með hækkandi aldri þjóðarinnar má gera ráð fyrir að í hópi fullorðinna með væga eða slæma heyrnarskerðingu fjölgi um 20 – 30 þúsund manns á næstu 20 árum. Því er brýnt að fara í átak að mennta fólk í heyrnarfræðum hér á landi bæði í framhaldsskólum og í háskólum. Í vor fól Heilbrigðisráðuneytið Landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu að skoða leiðir til að skapa námstækifæri á þessu sviði. Heilbrigðisbraut Fjölbrautaskólans í Ármúla hefur þegar hafið undirbúning námsins en til þess að byggja upp heildstætt nám skiptir máli skiptir máli að HTÍ sé í stakk búin að taka sinna nemendum sem fari í nám í heyrnartækni.

Heyrumst!

Það er mikilvægt að heildstæð þjónusta sé tryggð og það er þjóðhagslega hagkvæmt að halda henni uppi, því það fjölgar stöðugt í þeim hópi sem þarf á þessari þjónustu að halda. Við verðum að koma í veg fyrir að fólk einangrast félagslega og sé jafnvel frá vinnu vegna skorti á viðeigandi úrræðum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. september 2023.

Categories
Greinar

Áfram Árneshreppur og hvað svo?

Deila grein

18/08/2023

Áfram Árneshreppur og hvað svo?

Árneshreppur á Ströndum tók þátt í verkefni Byggðastofnunar „Brothættar byggðir“. Um er að ræða verkefni sem byggir á byggðaáætlun og er hluti af áætlun Byggðastofnunar til að aðstoða byggðarlög sem standa höllum fæti. „Áfram Árneshreppur“ en svo kallast verkefnið í Árneshreppi, var hrundið af stað árið 2018 og er nú komið á loka metrana.

Undirrituð sat íbúafund í Árnesi í gær þar sem farið var yfir hvernig verkefnið hefur tekist til og hvernig íbúar sæju fyrir sér þau tækifæri sem komin eru í gang mættu lifa til framtíðar. Það var augljóst á fundinum að íbúar töldu verkefnið hafa heppnast vel og að þeir styrkir sem fengist hafa í tengslum við það hafi ýtt á stað frjóum hugmyndum sem þegar eru farnar að blómstra. Auk þess hefur krafturinn nýst við að ýta á stað ljósleiðaravæðingu í hreppnum og þrífösun rafmagns sem nú er langt á veg komin. Við slíkan innblástur og kraft vaknar bjartsýni og vilji til að viðhalda uppbyggingu. Verkefni brothættra byggða er ætlað að aðstoða byggðarlög sem hafa glímt við viðvarandi fólksfækkun ásamt því að atvinna og þjónusta hafi veikst. Í Árneshreppi hafði verið viðvarandi fækkun síðustu áratugi en frá því að verkefnið hófst árið 2018 hefur þróunin snúist við og aftur fjölgað í hreppnum. Það má því segja að verkefnið hafi farið vel af stað.

Bættar samgöngur

Já markmiðinu er náð. En hvert er þá framhaldið? Líklega að viðhalda því sem náðst hefur og halda svo áfram.

Það voru því mikil vonbrigði að sjá að framlögð samgönguáætlun gerir ráð fyrir að fresta enn frekar framkvæmdum á Veiðileysuhálsi sem hefjast átti á árinu 2024 til ársins 2029. Það er algjörlega taktlaust í kjölfar vel heppnaðra aðgerða hins opinbera á síðustu fimm árum í byggðarlaginu að bregðast svo á ögurstundu. Áfram Árneshreppur hefur skilað tugmilljóna styrkjum frá hinu opinbera í lífvænleg verkefni og gildandi samgönguáætlun algjörlega í takti við það markmið að efla byggðarlagið.

Vetrarþjónusta mikilvæg

Frá Bjarnarfirði norður í Norðurfjörð eru liðlega 75 km. Það er vissulega áskorun að halda uppi öruggri vetrarþjónustu um vegi sem liggja um krappar hlíðar, háls og vegslóða sem liggja með landslaginu en eru ekki uppbyggðir. Hluti leiðarinnar er þó með ágætum og ekki snjóþungur. Nú síðustu tvo vetur hefur vetrarþjónustan verið aukin þegar fallið var frá G-reglu snjómoksturs og hefur það gefist vel. Var um tilraunaverkefni að ræða og mikilvægt er að ekki verið fallið aftur í sama farið heldur frekar horft á þörf og aðstæður. Flug á Gjögur er mikilvægt en getur þó aldrei komið í stað samgangna á landi.

Það er ekki bara vilji íbúa Árneshrepps að halda uppi góðu mannlífi í byggðarlaginu, það hlýtur að vera vilji okkar allra að blása í glæðurnar og efla enn frekar kraftinn sem býr á Ströndum. Því verður áfram að vera Áfram Árneshreppur!

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Sögulegir tímar í dag

Deila grein

17/05/2023

Sögulegir tímar í dag

Helstu þjóðarleiðtogar Evrópu eru nú saman komnir í Hörpu til viðræðna og það má með sanni segja að sagan sé að skrifa sig hér á Íslandi, enda ekki oft sem fundir af þessari stærðargráðu eru haldnir hérlendis. Það eru 17 ár síðan Evrópuráðið fundaði með þessum hætti en þetta er í fjórða sinn í 74 ára sögu stofnunarinnar sem leiðtogar aðildarríkja koma saman undir merkjum ráðsins. Umstangið er verulegt og eitthvað sem við höfum svo sannarlega ekki vanist hér áður. Af öllu er að merkja að skipulagið er gott og þeir sem hafa staðið að baki fundinum eiga hrós skilið.

Mikilvæg skilaboð

Evrópuráðið er ekki sprottið upp úr engu, það var sett á fót í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar með það að markmiði að stuðla að stöðugleika, auka samvinnu innan álfunnar og koma í veg fyrir annað stríð. Á fundi sem þessum leggja leiðtogar pólitískan ágreining til hliðar, byggja upp persónuleg tengsl og móta sameiginlega sýn fyrir frið í Evrópu.

Evrópuráðið hefur mikilvæga hlutverki að gegna við að gæta að mannréttinum, lýðræði og að alþjóðareglur séu virtar. Það er ekki er hægt að ofmeta mikilvægi funda sem þessa. Þegar leiðtogar þjóða safnast saman á einum stað fá þeir einstakt tækifæri til þess að efla skilning, tengjast og byggja upp traust. Á sama tíma senda þeir öflug skilaboð til borgaranna og alþjóðasamfélagsins um mikilvægi þess að standa saman um grundvallar mannréttindi.

Rússar þurfa að bera ábyrgð

Helsta málefni fundarins er að ræða innrás Rússa í Úkraínu, hvernig bæta megi það tjón sem Rússar hafa valdið og hvernig draga megi þá til ábyrgða fyrir þau voðaverk sem framin hafa verið. Eitt af því sem stefnt er að er að koma á fót svokallaðri tjónaskrá þar sem þau sem hafa orðið fyrir tjóni af völdum innrásarinnar fá það skráð og síðar bætt, en sömuleiðis verður leitað leiða til að draga þau til ábyrgðar sem framið hafa glæpi í Úkraínu. Ef viðræður ganga vel er gert ráð fyrir að undirrituð verði sameiginleg yfirlýsing sem líklega fær nafnið Reykjavíkuryfirlýsingin (e. Reykjavík Declaration).

Ísland eyja friðar

Við eigum að vera stolt yfir því að Ísland hafi verið valið til þess að hýsa þennan merka viðburð, alveg eins og Ísland var valið á sínum tíma til þess að hýsa leiðtogafund milli Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjev, en sá fundur er talin hafa gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki og markaði tímamót þar sem tekin voru skref í átt að friði og endalokum kalda stríðsins.

Enn á ný er Ísland og Reykjavík sameiningartákn friðar, það er ekki að ástæðulausu sem Yoko Ono fann Friðarsúlunni heimili á Íslandi, Ísland á að vera, og er, hlutlaus staður þar sem helstu leiðtogar eiga að geta komið saman og lagt áhyggjur sínar á borð og leitað lausna. Það er heiður fyrir okkur að hýsa þessa mikilvægu samkomu, vonandi munu fulltrúar fundarins finna fyrir þeim góða anda sem hér ríkir og hann skili sér áfram í góðri vinnu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Fæðingarorlof – börn í forgangi

Deila grein

11/05/2023

Fæðingarorlof – börn í forgangi

Það eru rétt um 20 ár frá gildistöku laga um fæðingarorlof, frá því að lögin voru fyrst sett hafa þau tekið breytingum í takt við þarfir og auknar kröfur um fjölskylduvænni samfélag. Nú síðast árið 2021 þegar ný lög um fæðingar- og foreldraorlof tók gildi en þar var fæðingarorlofið lengt í 12 mánuði. Þegar breytingin var lögð fram á Alþingi voru miklar umræður um skiptinu réttinda á milli foreldra. Háværar raddir voru um að rétt væri að hafa frjálst val foreldra um skiptingu en niðurstaðan varð sú að hvort foreldrið ætti rétt á 6 mánuðum en 6 vikur væru framseljanlegar, þannig að annað gæti tekið 7 og hálfan mánuð.

Aukinn réttur foreldra til fæðingarorlofs var tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Kannanir meðal foreldra hafa sýnt að sjálfstæður réttur foreldra til orlofstöku sé sérstaklega mikilvægur sér í lagi þegar fjölskyldur deila ekki lögheimili, en stór hluti feðra sem deilir ekki lögheimili með börnum sínum nýtir sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Sem betur fer tókst að halda þessari skiptingu því það sýnir að með henni hvetur það til þess að báðir foreldrar taki jafna ábyrgð á fyrstu mánuðum barnsins.

Fleiri feður taka fæðingarorlof

Frá því að ný lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi í janúar fyrir tveimur árum hafa aldrei fleiri feður nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs og þar með erum við að færast nær markmiði laganna, sem er að tryggja börnum samvistir við báða foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Frelsið er yndislegt en á meðan launajafnrétti hefur ekki verið náð verðum við að beita þeim aðferðum sem gilda til að jafna nýtingu fæðingarorlofs milli foreldra, því alltaf þurfum við að horfa út frá hagsmunum barnsins. Í nýlegri skýrslu frá félags- og vinnumarkaðsráðherra um hvernig hafi tekist til með að uppfylla markið fæðingarorlofslaganna sem voru samþykkt voru árið 2020, sem þá verandi félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason lagði fram, kemur fram að fleiri feður taki fæðingarorlof. Þá segir jafnframt að framseljanlegur réttur til hins foreldrisins fyrir árin 2021 og 22 hafi nær undantekningalítið verið nýttur af móður.

Þróum þetta áfram

Lenging fæðingarorlofs auðveldar foreldrum að brúa bilið eftir að fæðingarorlofi líkur þar til börnin fá leikskólapláss. Best er að samspilið sé á pari, þess vegna verðum við að halda áfram við að þróa orlofið. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er talað um að unnið verði áfram í samvinnu við sveitarfélögin við að brúa þetta bil. Núverandi mennta- og barnamálaráðherra heldur á þessum málum og hefur þegar hafið vinnu við þetta verkefni. Þetta verður alltaf að vera samvinnuverkefni milli ríkis og sveitarfélaga og skiptir verulegu máli fyrir , foreldra, börn og atvinnumarkaðinn að vel takist til.

Fæðingum fækkar

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur dregið verulega úr fæðingum barna og þurfum við að fara aftur á miðja 19. öld til að finna sambærilega fjölda fæddra barna á ári. Við erum hætt að viðhalda okkur til lengri tíma. Árið 2022 var frjósemi íslenskra kvenna 1,59 en talið er að það þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda.

Það þýðir lítið fyrir konu sem komin er úr barneign að hvetja til barneigna, jæja! Ég er búin að skila mínu. Mitt verkefnið og stjórnvalda er þó að búa svo í haginn að hvati til fjölgunar sé til staðar því daufur er barnlaus bær. Því er mikilvægt að koma því svo fyrir að foreldrar geti treyst því að á sama tíma og foreldrum sé búið öruggt umhverfi til að njóta fyrstu mánuðina með barninu sé afkomu og atvinnuöryggi ekki ógnað.  Að lokum langar mig að hvetja pör hér á landi að taka sér smá kósí-kvöld um helgina, það er víða spáð rigningu og aðeins kólnandi veðri á laugardagskvöldið og því tilvalið að fara snemma undir sæng.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á dv.is 11. maí 2023.

Categories
Greinar

Straum­hvörf fyrir sauð­fjár­bændur

Deila grein

05/05/2023

Straum­hvörf fyrir sauð­fjár­bændur

Í lok liðins mánaðar voru staðfest þau gleðilegu tíðindi að Íslensk Erfðagreining muni taka þátt í því að rannsaka riðu í íslensku sauðfé, en riða er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur sem leggst á sauðfé og veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Sjúkdómurinn er erfiður viðureignar og ekki hefur verið fundið upp bóluefni til þess að verjast honum. Sú aðferð sem hefur verið notuð hér á landi, þegar upp hefur komið riða á bæ, hefur verið að slátra öllu fé á bænum, fara í jarðvegsskipti, hreinsa, brenna og sótthreinsa. Hér er um er að ræða verulega íþyngjandi aðgerð með tilheyrandi áfalli fyrir alla sem málið snertir.

Verndandi arfgerð

Fram til þessa höfum við ekki haft önnur úrræði við að uppræta sjúkdóminn en að aflífa stofninn. Í kjölfarið á því að fundist hefur arfgerð sem er verndandi gegn riðu eru nú loksins möguleikar á breyttri aðferðarfræði við útrýmingu á riðuveiki. ARR-arfgerðin hefur hlotið viðurkenningu sem verndandi arfgerð en til eru fleiri arfgerðir sem ekki eru viðurkenndar en unnið er að rannsóknum á þeim. Það er mat þeirra sem hér skrifa undir að mikilvægt sé að styðja við enn frekari rannsóknir og vinnu við að greina íslenska fjárstofninn. Þannig má rækta upp stofn sem er ónæmur gegn riðunni. Á þeim forsendum hefur Íslensk Erfðagreining nú komið að borðinu.

Aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar mikilvæg

Það er mikið fagnaðarefni að fá Íslenska Erfðagreiningu til liðs við sauðfjárbændur, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins (RML) og fleiri sem hafa látið sig málið varða. Aðkoma Íslenskrar Erfðagreiningar er mjög mikilvæg þar sem hægt er setja aukinn þunga í að arfgerðagreina íslenska fjárstofninn með öflugra og ódýrari hætti þar sem fyrirtækið hefur yfir að ráða aflmiklum tækjum og sérfræðingum á þessu sviði. Það þekkjum við frá heimsfaraldri covid. Íslensk Erfðagreining sannar nú enn og ný mikilvægi sitt en nú í þágu íslensku sauðkindarinnar.

Ljósið við endann

Verkefnið nú er að finna allar þær kindur sem bera riðuþolna arfgerð. Í framhaldi af því verður svo hægt að dreifa þeim um landið og byggja upp sterkan fjárstofn sem tekur ekki riðu. Fyrirséð er að þetta verkefni komi til með að taka nokkur ár. Þrátt fyrir dimma daga sem gengið hafa yfir sjáum við nú loks ljósið við enda ganganna, og í kjölfarið breytt vinnubrögð sömuleiðis. Niðurskurður mun vonandi von bráðar tilheyra fortíðinni. Framtíðin er samvinnuverkefni bænda, vísindamanna og stjórnvalda.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Stefán Vagn Stefánsson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. maí 2023.

Categories
Greinar

Lofts­lags­mark­mið – að­gerða er þörf

Deila grein

02/05/2023

Lofts­lags­mark­mið – að­gerða er þörf

Markmið núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum eru metnaðarfull. Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið og stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Auk þess er stefnt að því að Ísland nái að verða óháð jarðefnaeldsneyti í lofti, láði og legi árið 2050. Til að þessi markmið ríkisstjórnarinnar verði að veruleika þurfa allir Íslendingar að leggjast með stjórnvöldum á árarnar.

Sameiginleg markmið

Það er ekki ágreiningur um að við þurfum að ná þessum markmiðum og það er sátt um orkuskipti í samgöngum. Við erum sammála um að tími aðgerða er runninn upp og ég held að við séum meðvituð um ábyrgð okkar allra að þessum markmiðum. En það er ágreiningur um hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum. Við erum sammála um að við viljum halda áfram að byggja upp velferðarþjóðfélag en það verður ekki gert nema að halda áfram að treysta raforkuöryggi um allt land ásamt því að huga að frekari orkuöflun með grænni orku.

Ljóst er að það þarf að fara í umtalsverðar fjárfestingar í orkuskiptum, nýsköpun og tækniinnleiðingu svo markmiðin náist. Raforkuöryggi samanstendur af framboði á raforku, eftirspurn og flutningskerfi. Allt þetta þarf að vera til staðar og er stór þáttur í að við getum náð loflagsmarkmiðum stjórnvalda. Það er að tryggja nægjanlega raforku um allt land.

Hlaða rafmagnsbílinn með jarðefnaeldsneyti

Það virðist sem margir gerir sér ekki grein fyrir að við erum ekki búin að tryggja raforkuöryggi hringinn í kringum landið. Því miður er staðreyndin sú að á sama tíma og við ætlum okkur að verða kolefnishlutlaus erum við að nota milljónir tonna af jarðeldsneyti. Á Vestfjörðum hafa verið brennd yfir 2,1 milljónir lítra af olíu milli áranna 2021-2022 til þess að til að kynda fjarvarmaveitur og tryggja upphitun húsnæðis á svæðinu. Þá er ótalin olían sem fór í að tryggja raforkuöryggi í öflugri varaaflsstöð í Bolungarvík, það má því leiða líkur að því að einhver hafi hlaðið rafmagnsbílinn sinn fyrir vestan með jarðefniseldsneyti.

Raforkuöryggi og framboð á nægri raforku er forsenda efnahagslegra framfara. Auk þess sem nægjanleg græn orkuframleiðsla leiðir okkur að markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og er nauðsynleg fyrir orkuskipti í samgöngum og hjá fiskiskipum. Til þess þarf að vera aðgengi að grænni orku hringinn í kringum landið.

Kolefnislosun frá landbúnaði

Þá er kolefnislosun frá landbúnaði metin töluverð, en hún er metin út frá tveimur þáttum, annars vegar kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna. Það þarf því að kortleggja sem næst raunverulega langtímakolefnislosun í framræstu ræktarlandi á Íslandi og þörf er á átaki í að mæla hana skipulega sem víðast. Væntanlega þarf að mæla út frá mismunandi jarðvegi og á mismunandi landsvæðum. Það er mjög mikilvægt að frekari og stöðug vöktun fari fram á kolefnislosun frá landbúnaði um allt land, ekki síst til þegar horft er til markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.

Það þarf samtakamátt til að ná árangri í loftslagsmálum og það eru margir þættir sem þarf að horfa til, það er ekki nein ein lausn. Fyrst og fremst þurfum við samvinnu og samtal til þess að komast áfram.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Á­fall í kjöl­far riðu

Deila grein

28/04/2023

Á­fall í kjöl­far riðu

Áfallið þegar riðusmit kemur upp í fjárstofni getur verið verulegt og afleiðingarnar af riðusmiti geta verið mjög miklar og erfiðar fyrir bændur. Við sem stöndum hjá sýnum samkennd en getum lítið gert í þessum aðstæðum. Þær reglur og aðferðir sem nú eru í gildi þegar riðuveiki greinist í sauðkind miða að því að aflífa allan fjárstofninn á bænum. Verkferlar MAST snúa að því að greina sjúkdóminn og með staðfestu smiti þarf að aflífa stofninn, ráðast í smitrakningu og hefja hreinsunaraðgerðir á bænum sem tekur nokkurn tíma.

Með nýrri tækni verður vonandi hægt að ráða niðurlögum þessa erfiða sjúkdóms, það er með öflugri arfgerðargreiningu á fjárstofni landsins. Til að það geti talist raunveruleg lausn þarf að setja á stað verkefni við að kortleggja stofninn og vinna sig þannig upp frá grunni.

Áfallahjálp

Sem betur fer erum við komin á þann stað að þegar áfall ríður yfir grípur okkur stuðningsnet sem hjálpar okkur aftur á fætur. Þegar stærri áföll eða hamfarir í samfélögum verða eins og náttúruhamfarir þá taka yfir verkferlar í almannahjálp. Áföll geta haft varanleg áhrif og mikið tilfinningalegt álag. Það er því mikilvægt að sækja sér aðstoð sem fyrst til að vinna úr alvarlegum atburðum og koma þannig í veg fyrir vandamál í framtíðinni. Rauði krossinn hefur umsjón með áfallahjálp hér á landi í skipulagi almannavarna á Íslandi. Þetta teymi hefur verið virkjað við stór og smá tilfelli með aðkomu ýmissa fagaðila með góðum árangri.

Samfélag í sárum

Það skiptir máli að hafa hraðar hendur þegar riðutilfelli koma upp, Setja ferlið á stað hratt og örugglega. Hvert tilfelli er einstakt og þegar upp kemur riðutilfelli í einu hólfi getur farið á stað atburðarás sem erfitt er að sjá fyrir endann á. Það er mikið álag á starfsmönnum MAST við slíkar aðstæður. Gæta þarf sérstaklega að því að hafa góð samskipti við fólk sem er að missa lífsviðurværið sitt auk þess sem aðstæður fjölskyldna eru settar í algjört uppnám. Ekki bara á einum bæ, heldur er allt samfélagið undir. Atvinnuörygginu er ógnað, menning og samskipti fara úr skorðum.

Því er mikilvægt að samhliða verkferlum MAST sem eru virkjað þegar riðutilfelli koma upp sé áfallateymi Rauða krossins virkjað til að veita áfallahjálp og veita samfélaginu ráðgjöf. Í nýuppkomnum riðutilfellum í Miðfjarðarhólfi er allt samfélagið undir. Þessu hefur verið líkt við hamförum því þarf að mæta með þeim verkfærum sem þekkt eru til að draga úr afleiðingum sem af þeim hlýst.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Staða heimila á húsnæðismarkaði

Deila grein

19/04/2023

Staða heimila á húsnæðismarkaði

Undanfarið hefur borið á gagnrýni á Framsókn vegna aðgerðaleysis eins og það er orðað í húsnæðismálum. Það er eðlilegt að Framsókn sé gagnrýnd því flokkurinn hefur farið með húsnæðismálin síðustu 10 ár en staðreyndin er sú að Framsókn hefur virkilega látið sig húsnæðismál varða því þau eru grundvöllurinn sem heimili landsins byggja sig í kringum.

Þessi grein er ekki til þess falinn að slá út af borðinu að það séu erfiðleikar á húsnæðismarkaði í dag, við gerum okkur fulla grein fyrir því og unnið er hörðum höndum að því að tryggja eðlilega húsnæðisuppbyggingu. En til að við getum metið aðgerðir og aðgerðarleysi þá er mikilvægt að draga saman heildarmyndina og sjá hvort við séum á réttri leið.

Gríðarleg fjölgun íbúa

Við berum okkur jafnan saman við Evrópu og viljum hafa húsnæðismálin í sama ef ekki betra horfi en þar. En til að sjá hvernig við erum að standa okkur er mikilvægt að bera saman rauntölur. Ef við byrjum á íbúaþróun þá þarf ekki að skoða lengi til að sjá að íbúaþróun á Íslandi er í engu samhengi við íbúaþróun í Evrópu. Íbúum Evrópu hefur fjölgað um 2,8% frá aldamótum á meðan íbúum á Íslandi hefur fjölgað um nærri 40% (ca. 50.000 erlendir ríkisborgarar og 58.000 íslenskir ríkisborgarar) og ef einungis eru skoðuð síðustu ár þá er fækkun í Evrópu, fækkun meðan hraðinn í fjölgun eykst á Íslandi. Ísland er því á allt öðrum stað en þau lönd sem við berum okkur helst saman við, en þar eru tölur um fjölgun eftirfarandi; Danmörk (9,8% fjölgun), Þýskaland (3% fjölgun), Noregur (24,4%), Finnland (8,4%), Bretland (17,3%) og Svíþjóð (16,2%).

Vinsældum og vexti í íbúafjölda fylgja vissulega áskoranir og ein þeim er að tryggja nægilegan fjölda íbúða á hverjum tíma. Hér í töflu frá HMS og Hagstofunni sést hvernig íbúðauppbyggingin síðustu ára hefur verið. Þetta eru íbúðir sem tekur að jafnaði 2 ár að skila fullbúnum frá því að sótt er um byggingarleyfi. Það er allavega ljóst að í tíð þeirra ríkisstjórna sem sátu á árunum 2007 til 2013 varð til gríðarleg snjóhengja í húsnæðismálum sem við erum enn að glíma við. Ef við hliðrum því tímabili um 2 ár (Sem tekur að byggja) þá sjáum við að tímabilið frá 2009 til 2015 eru met ár í skorti á íbúðum. Aðgerðir síðustu ára hafa því fyrst og fremst miðað að því að mæta þessari uppsöfnuðu þörf til að tryggja nægilegt húsnæði.

Fleiri eignast húsnæði

Gagnrýnt hefur verið að stór hlut þeirra íbúða sem byggðar hafa verið hafi endað hjá eignafólki og leigufélögum í einkaeigu og þannig hafi ávinningurinn í aukinni húsnæðis uppbyggingu fyrst og fremst farið í að okra á leigjendum. Staðreyndir vísa í aðra átt líkt og þessi mynd sýnir, en hér hefur verið tekin saman þróun á eigin húsnæði, einkareknu leiguhúsnæði (einstaklingar, ættingjar og vinir, einkarekin leigufélög, vinnuveitendur og aðrir) og opinberu/félögum (Sveitarfélög, óhagnaðardrifið leiguhúsnæði, búseturéttur og stúdentagarðar).

Þessi mynd sýnir okkur hver þróunin hefur verið í heimilum landsins á árunum 2015-2022 (ath. gögn frá 2016 skortir). Þá sýnir líkindalínan hvert við stefnum, það er í rétta átt. Því miður eru ávallt einhverjir sem reyna að nýta sér erfiða stöðu annarra en grafið sýnir augljóslega að einkaaðilum á leigumarkaði hefur fækkað mikið síðustu ár öfugt við það sem einhverjir halda fram og varanlegt húsnæði í eigu hins opinbera og félaga hefur aukist. Það segir okkur að markaðurinn hefur hægt og rólega verið að lagast og þróast í þá átt sem við viljum sjá.

Aðgerðir í þágu heimila

Margvíslegar breytingar hafa verið gerðir síðustu ár með það að markmiðið að auka framboð á íbúðum og bæta stöðuna á húsnæðismarkaði. Má þar nefna lög um almennar íbúðir sem tóku gildi 15. júní 2016 en með þeim var sett á fót nýtt kerfi húsnæðisstuðnings með það að markmiði að bæta húsnæðisöryggi og lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignaminni leigjenda. Árið 2020 komu síðan inn í lögin breytingar til batnaðar varðandi stofnframlög. Þá voru sett árið 2016 lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð og tóku þau í gildi 1. júlí 2017. Auk þess hefur verið lögð mikil vinna í að kortleggja markaðinn ásamt því að einfalda reglugerðir og auka samvinnu við sveitarfélögin í sambandi við lóðaúthlutun.

Ef við skoðum hvað þessi lög hafa gert fyrir markaðinn er nokkuð ljóst að þau hafa haft gríðarleg áhrif, sérstaklega hvað varðar leigumarkaðinn. Leigumarkaðurinn náði hámarki árið 2018 þegar 32,2% heimila á Íslandi var á leigumarkaði eða 47.900 heimili. Í fyrra var þetta hlutfall komið niður í 21% og heimilin einungis 34.100. 

Það er alveg ljóst að þær aðgerðir sem farið hefur verið í til að fjölga íbúðum, hjálpa fólki að komast í eigið húsnæði og byggja fleiri leiguíbúðir í óhagnaðardrifnu eða samvinnuformi hafa tekist vel. En þá er ekki þar með sagt að björninn sé unninn. Við erum enn að ráða niður afleiðingar á skorti á stefnu í húsnæðismálum í tíð fyrri ríkisstjórna sem komið var inn á hér að framan. Því til viðbótar erum við að glíma við alþjóðlega verðbólgu sem klárlega mun hafa áhrif á markaðinn til styttri tíma, en okkar markmið ætti núna að vera fyrst og fremst að tryggja við séum ekki að safna í aðra snjóhengju með frekari skort í framtíðinni. Mikilvægast núna er að halda áfram að byggja nægilegt húsnæði yfir höfuð og halda áfram að fjölga íbúðum í óhagnaðardrifnu leigukerfi.

Uppbygging um land allt

Að lokum verðum einnig að ræða um mikilvægi þess að byggja upp íbúðir á sem flestum stöðum á landinu. Við sjáum sveitarfélag eins og Árborg og áður Reykjanesbæ sem hafa glímt við þann vanda að byggja upp nauðsynlega innviði í kjölfarið á fjölgun íbúa, sem dæmi þá hefur frá aldamótum íbúum Árborgar fjölgað um 100% og í Reykjanesbæ um 110% á meðan íbúum Íslands hefur fjölgað um 40%. Víða um land eru nægir innviðir til að taka á móti fleiri íbúum og sum staðar þarf kannski einungis að byggja upp eða við hluta af innviðunum en ekki alla innviði eins og í þeim sveitarfélögum sem vaxið hafa hvað hraðast. Víða um land eru fyrir götur, vatnsveitur, fráveitur, leikskólar, grunnskólar, íþróttamannvirki og önnur þjónusta og það er hagkvæmt að byggja þar upp og fjölga íbúum um allt land. Fyrir utan að nýta þá innviði sem þegar eru til staðar mun það skila sér í bættri þjónusta fyrir þá íbúa sem fyrir eru.

Eitt af því sem hægt væri að bæta við þær aðgerðir sem eru nú þegar komnar í gang er að kortleggja hvaða sveitarfélög eða byggðakjarnar geta tekið við fleiri íbúum án þess að leggja í mikla innviðauppbyggingu. Sem dæmi má taka að nú er verið að byggja stúdentagarða á Flateyri fyrir lýðskólann. Þar er verið að tryggja leiguhúsnæði á góðum kjörum, við gamla götu með alla innviði, þar er vannýtt pláss bæði á leikskóla og í grunnskóla og þar er sundlaug og íþróttahús til staðar.

Framsókn hefur staðið fyrir öflugum aðgerðum í húsnæðismálum sem skilað hafa árangri, en það er þó nóg eftir, við getum öll verið sammála því að við séum ekki komin á áfangastað og árið 2023 verður erfitt í kjölfar alþjóðlegrar verðbólgu. Það sem þjóðin þarf að spyrja sig er hvort hún sé tilbúin að kjósa yfir sig aðgerðaleysi líkt og var árin 2007-2013 eða halda áfram með þær aðgerðir sem nú eru í gangi, bæta frekar í og tryggja að ekki verði stopp í húsnæðisuppbyggingu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefni

Deila grein

18/04/2023

Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefni

Á dögunum bárust okkur þær hræðilegu fréttir að riðusmit hafi greinst Miðfjarðarhólfi, en það svæði hefur verið talið musteri sauðfjárræktar í landinu. Það er ávallt áfall þegar riða greinist í sauðfé og aflífa þarf allan stofninn, áfall sem ekki nokkur bóndi á að þurfa að ganga í gegnum. Miðfjarðarhólf var fram að þessu talið hreint svæði og því er erfitt að kyngja þessum nýju tíðindum og hugur okkar er hjá bændum sem nú þurfa að drepa allt sitt fé nokkrum dögum fyrir sauðburð.

Riða hefur verið greind hér á landi í sauðfé í meira en öld, um er að ræða banvænan og ólæknandi sjúkdóm sem ekki hefur fundist lækning við. Því þarf þegar riða greinist á býli að fella allan stofninn auk þess sem mikillar varúðar þarf að gæta í mörg ár því smit getur dvalið í umhverfi og legið sem falin eldur í áratugi.

Á sama tíma er förgun á dýrahræjum í ólestri og einungis ein brennslustöð til taks á landinu til að taka við dýrahræjum til brennslu. Brennsla er nauðsynleg þegar um sýktar afurðir er að ræða. Þá er heldur ekki ásættanlegt að flytja sýkt dýrahræ milli varnarhólfa til förgunar með tilheyrandi áhættu.

Hin verndandi arfgerð

Þau tímamót urðu á síðasta ári að verndandi arfgerð gegn riðu var fundin í kind hér landi, það er að fundist hafa kindur hér á landi með ákveðnar stökkbreytingar sem eru ónæmar fyrir sjúkdómnum. Þessi breytileiki erfist og því væri hægt að rækta riðu úr íslenska sauðfjárstofninum á nokkrum árum. Til þess að það geti talist raunveruleg lausn þarf að setja á stað öflugt verkefni við að kortleggja stofninn og vinna sig þannig upp frá grunni. Því eru það ánægjulegar fréttir að Kári Stefánsson og Íslensk erfðagreining hafa sýnt því áhuga að leita að hinni verndandi arfgerð gegn riðu í öllu íslensku sauðfé. Íslensk erfðagreining er öflugt fyrirtæki með færa sérfræðinga og tæki og tól til að vinna að slíku verkefni.

Íslenski sauðfjárstofninn er nærri 100 % skrásettur og því hægt að vinna hratt og örugglega við að rækta upp riðþolinn stofn hér á landi. Öflug greining gæti líka komið í veg fyrir að það þyrfti að farga heilbrigðu fé og eins og nú er gert. Hægt yrði að grisja úr sýkt fé og koma þannig í veg fyrir sársaukafullar aðgerðir.

Mikilvægt frumkvæði

Fyrir tveimur árum síðan var farið í að safna sýnum úr kindum. Þetta er vinna sem bændur sjálfir hrundu á stað og kostuðu að frumkvæði og forystu Karólínu Elísabetardóttur sauðfjárbónda í Hvammshlíð í Skagabyggð. Þróunarsjóður sauðfjárræktarinnar styrkti verkefnið og tekin voru sýni úr tæplega 30.000 kindum víða um land. Með Karólínu hafa unnið fulltrúar frá þýskri rannsóknarmiðstöð, riðusérfræðingar frá Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins auk þess sem fleiri erlendir sérfræðingar hafa komið að verkefninu. Um er að ræða frumkvöðlastarf sem getur verið upphafið að breytingu sem beðið hefur verið eftir í áratugi við að útrýma riðu í sauðfé hér á landi.

Verkefni sem skiptir máli

Riðutilfelli hér á landi eru ávallt alvarleg, sérstaklega nú þegar sauðfjárræktun stendur höllum fæti vegna annarra ytri komandi þátta. Síðasta áratug hefur verið erfiður rekstrargrundvöllur í sauðfjárrækt og þær aðstæður sem eru nú uppi í efnahagsmálum hvetja bændur enn frekar til að bregða búi og leita á önnur mið. Riðusmit á öflugustu sauðfjársvæðum landsins er fráhrindandi raunveruleiki fyrir unga bændur að búa við.

Undirrituð telja að ríkið verði því að stiga inn með fjármagn í arfgerðargreingar. Við búum við þá góðu stöðu að hér á landi er til staðar þekking og vilji til þess að vinna á þessum vanda. Það er arðsamt verkefni fyrir ríkið að fara í slíkt verkefni enda fylgir því nokkur kostnaður að fara í niðurskurð á þúsundum kinda á nokkrum árum ásamt því að greiða tilheyrandi bætur.

Íslenska lambakjötið er dýrmæt afurð

Íslenska lambakjötið er merkileg vara og það hefur nýlega verið staðfest en í síðasta mánuði fékk íslenska lambakjötið, fyrst íslenskra afurða, upprunatilvísun og er eina matvaran á landinu sem hlotið hefur slíka merkingu. Um er að ræða PDO-merkingu (e. Protected designation of origin), sem er hæsta stig verndaðra upprunatilvísana í Evrópu og er íslenska lambakjötið er þar með komið í hóp með þekktum evrópskum landbúnaðarafurðum líkt og parmaskinku, parmesanosti, kampavíni og fetaosti. Hér er um að ræða gríðarlega stóra viðurkenningu sem kemur til með að skapa aukin verðmæti íslensk lambakjöts ásamt því að festa í sessi stöðu þess á erlendum mörkuðum.

Viðurkenningin er afrakstur mikillar vinnu sem hófst hjá Bændasamtökunum fyrir sex árum og hún kemur til með að auka virði lambakjötsins og eftirspurn. Hér er um að ræða gríðarmikla sönnun á því sem við þó vissum fyrir, að við erum með dýrmæta afurð hérlendis sem við verðum með öllu hætti að vernda. Þessi viðurkenning blæs okkur vonandi byr í seglin við að styðja frekar við og auka framleiðslu á íslensku lambakjöti til þess að standast aukinni eftirspurn. Ásamt því að leita allra leiða til þess að uppræta riðu hérlendis í eitt skipti fyrir öll.

Þórarinn Ingi Pétursson og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmenn Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. apríl 2023.