Categories
Greinar

Framfarir í flugmálum

Deila grein

02/03/2022

Framfarir í flugmálum

Stundum er sagt að flugsamgöngur séu lestarsamgöngur okkar Íslendinga. Það gefur auga leið að með flugi styttist ferðatími milli áfangastaða og með greiðari aðgengi að flugi styttist ferðatíminn enn meira. Því var sérlega ánægjulegt þegar fregnir bárust af ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur ferðamálaráðherra um að verja 40 milljónum króna til Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar til þess að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og setja aukinn slagkraft í markaðssetningu á Norður- og Austurlandi sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Í þessu eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu stjórnvalda í ferðaþjónustu; hana skal efla um allt land.

Hluti af nútímasamfélagi

Um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir atvinnuþróun á svæðunum og ekki síður íbúa þeirra. Beint millilandaflug er ein skilvirkasta leiðin við að dreifa ferðamönnum betur um landið. Því má líkja við vítamínsprautu fyrir svæðisbundna ferðaþjónustu, meðal annars með betri nýtingu innviða utan háannatíma. Að sama skapi breytir miklu máli fyrir íbúa svæðanna að geta flogið beint úr heimabyggð í stað þess að ferðast í fjölda klukkustunda á alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Í nútímasamfélagi er það hluti af lífsgæðum að eiga kost á greiðum samgöngum til útlanda – hvort sem er í leik eða starfi.

Aðgerðir og árangur

Undanfarin ár hefur gangskör verið gerð í flugmálum og er fyrrnefndur stuðningur við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum liður í því. Þannig kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fyrstu flugstefnuna fyrir Ísland – en hún gildir til ársins 2034. Með henni var lögð fram heildstæð stefna í flugmálum, sem hafist hefur verið handa við að hrinda í framkvæmd. Má þar meðal annars nefna Loftbrúna, sem notið hefur mikilla vinsælda. Með henni eiga íbúar á landsbyggðinni sem búa fjarri höfuðborginni kost á lægri flugfargjöldum. Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu, þrjár ferðir á ári. Innviðir hafa einnig verið bættir en fjármagn var tryggt í stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri, meðal annars með millilandaflug í huga, en framkvæmdum mun ljúka árið 2023. Endurbætur hafa einnig átt sér stað á Egilsstaðaflugvelli, en árið 2021 var nýtt malbik lagt á flugbrautina og unnið er að tillögum um stækkun flughlaðs og lagningu akbrauta. Einnig hefur flugþróunarsjóður verið starfræktur til þess að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja bein flug til Akureyrar og Egilsstaða. Allt þetta skiptir máli.

Nýverið bárust gleðitíðindi um stofnun flugfélagsins Niceair, sem mun hefja beint áætlunarflug frá Akureyri til útlanda í sumar. Bætist það við félagið Voigt Travel sem einnig er á markaðnum.

Áfram veginn

Það eru fjölmörg tækifæri fólgin í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi rétt eins og fjölmargir Íslendingar hafa kynnst á ferðalögum sínum um landið undanfarin tvö sumur. Gæði gisti- og veitingastaða, innviði og afþreying hafa aukist og eru eitthvað sem við getum verið stolt af. Þessum gæðum viljum við deila með erlendum gestum og breiða út fagnaðarerindinu. Að sama skapi hlakka ég sem íbúi til þess að geta bókað mér flug úr kjördæminu til útlanda og njóta þess hægðarauka sem því fylgir. Ég er því bjartsýn á framtíð innlendrar sem og erlendrar ferðaþjónustu í kjördæminu okkar og er sannfærð um að hún muni vaxa vel og dafna.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 2. mars 2022.

Categories
Greinar

Komdu inn úr kuldanum

Deila grein

17/02/2022

Komdu inn úr kuldanum

Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar mun eins og und­an­far­in ár leggja upp með metnaðarfulla fundaröð í kjör­dæm­a­viku. Við verðum með opna fundi Fram­sókn­ar í kjör­dæm­a­viku um land allt. Það er okk­ur mik­il­vægt að ná að nálg­ast og hlusta á radd­ir kjós­enda, ekki aðeins á fjög­urra ára fresti, held­ur með reglu­bundn­um hætti. Þannig leggj­um við okk­ar af mörk­um til að hlusta á fólkið okk­ar og skapa okk­ur öll­um sam­fé­lag sem við erum stolt af, tryggja fólki góð lífs­kjör og treysta bú­setu í land­inu. Það er og verður meg­in­verk­efni okk­ar í þing­flokki Fram­sókn­ar nú sem endra­nær.

Í kosn­inga­bar­átt­unni síðasta haust fund­um við vel að fólk vill sjá alþing­is­menn sinna brýn­um hags­mun­um sam­fé­lags­ins. Kjós­end­ur vildu heyra að við ynn­um að lausn­um, um­bót­um og jafn­vel rót­tæk­um kerf­is­breyt­ing­um. Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar hef­ur sýnt fram á að hann er hóp­ur fólks er hef­ur fólk í fyr­ir­rúmi, við fjár­fest­um í fólki og mun­um halda því áfram. Við fór­um m.a. í rót­tæk­ar kerf­is­breyt­ing­ar á mál­efn­um barna. Slík­ar breyt­ing­ar og fleiri til hafa og munu skipta fólk máli, um land allt.

Í grunn­stef­inu Fram­sókn­ar seg­ir að við aðhyll­umst frjáls­lynda hug­mynda­fræði og að far­sæl­ast sé að ná fram niður­stöðu með sam­vinnu ólíkra afla og hags­muna sem byggð er á hóf­semi og heiðarleika. Það er aldrei mik­il­væg­ara en nú að hlusta vel á ólík­ar radd­ir og leiða mál til lykta með sam­vinnu. Við tryggj­um öfl­ugri og sterk­ari þing­flokk Fram­sókn­ar með því að hlusta á þarf­ir og vænt­ing­ar fólks á brýn­um hags­muna­mál­um.

Við erum nefni­lega rétt að byrja!

Okk­ur alþing­is­mönn­um er kjör­dæm­a­vika sér­stak­lega mik­il­væg. Okk­ur gefst tími og ráðrúm til að sinna hags­mun­um kjör­dæm­anna, það þarf sterka full­trúa með skýra sýn til að styðja og styrkja það val fólks að halda byggð í land­inu. Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar vill áfram vera for­ystu­afl í brýn­um hags­mun­um lands­byggðar. Við vilj­um tryggja áfram að sam­göng­ur, mennt­un, menn­ing og síðast en ekki síst fjöl­breytt tæki­færi á at­vinnu­markaði séu fyr­ir hendi.

Ég vil nefna sér­stak­lega gríðarlega mik­il­vægt tæki­færi er við upp­götvuðum í heims­far­aldr­in­um; að fólk gat unnið heim­an frá sér, og þetta eig­um við að nýta og skapa já­kvæðan hvata til að fram­kvæma í frek­ari mæli. Nýta okk­ur þekk­ing­una og tækn­ina og skapa um leið sterk­ari byggðir. Fram­sókn er stjórn­mála­aflið til að standa við orð sín og gerðir.

Skyn­sem­in ligg­ur á miðjunni.

Ingibjörg Isaksen, formaður þing­flokks Fram­sókn­ar.

ingi­bjorg.isak­sen@alt­hingi.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. febrúar 2022.

Categories
Fréttir

Þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum

Deila grein

03/02/2022

Þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi notkun á blóðsykurslækkandi lyfjum í störfum þingsins á Alþingi. Fleiri og fleiri einstaklingar eru að greinast með sykursýki 2 og eru lyf notuð í auknum mæli til að meðhöndla sykursýki 2 og hefur fjöldi notenda nærri tvöfaldast frá árinu 2015. Þá voru þeir nærri 9.000 en eru orðnir meira en 16.000 árið 2021.

„Allt of oft erum við að bregðast við afleiðingum í stað þess að einbeita okkur frekar að forvörnum. Rannsóknir sýna okkur að fjölgun sykursjúkra hér á landi er sambærileg Bandaríkjunum fyrir 20 árum síðan. Innlendar rannsóknir hafa einnig sýnt að aukning á sykursýki dreifist yfir allan aldur fullorðinna og eykst hjá báðum kynjum,“ sagði Ingibjörg.

„Lyf og inngrip með skurðaðgerðum mega ekki vera fyrsti valkostur. Við þurfum að mæta fólki af virðingu og fordómaleysi og veita þeim þá þjónustu og stuðning sem það þarf til að ná markmiðum sínum. Þá þurfum við sem þjóð að líta í eigin barm. Hvað er það sem veldur því að þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum? Það er mikilvægt að heilsuefling og bætt lýðheilsa fái stuðning frá stjórnvöldum og heilbrigðisþjónustan, þá sérstaklega heilsugæslan, taki áfram virkan þátt í því starfi,“ sagði Ingibjörg.

Categories
Greinar

Orkuskortur – sorgleg staða sem varðar okkur öll

Deila grein

31/01/2022

Orkuskortur – sorgleg staða sem varðar okkur öll

Und­an­farn­ar vik­ur höf­um við fengið frétt­ir af yf­ir­vof­andi orku­skorti hér á landi. Í des­em­ber fengu fiski­mjöls­verk­smiðjur þá til­kynn­ingu frá Lands­virkj­un að ekki væri hægt að veita þeim hreina raf­orku í upp­hafi loðnu­vertíðar. Þær neyðast til að skipta yfir í óákjós­an­lega orku­gjafa, eins og olíu, með til­heyr­andi kostnaði og um­hverf­isáhrif­um. Áætlað er að um 20 millj­ón­um lítra af olíu verði brennt á yf­ir­stand­andi vertíð.

Neyðarkall

Á þriðju­dag­inn í síðustu viku sendu um­hverf­is- og auðlindaráðuneytið og Orku­stofn­un neyðarkall til ís­lenskra raf­orku­fram­leiðenda. Óskað var eft­ir auk­inni orku­fram­leiðslu um­fram þær skuld­bind­ing­ar sem áður höfðu verið gerðar. Of­an­greint neyðarkall varðar hús­hit­un á köld­um svæðum því vegna raf­orku­skorts búa t.d Orku­bú Vest­fjarða og RARIK sig und­ir að brenna millj­ón­um lítra af olíu á næstu mánuðum til þess að tryggja hús­hit­un á Vest­fjörðum og á Seyðis­firði. Þessu fylg­ir tölu­verður kostnaður fyr­ir íbúa og fyr­ir­tæki þess­ara svæða. Og nú ber­ast fregn­ir af því að til standi að skerða raf­orku til ferj­unn­ar Herjólfs og mun ol­íu­notk­un skips­ins þá marg­fald­ast.

Þetta er sorg­leg og ótrú­leg staða sem við eig­um ekki að þurfa að búa við sem ís­lensk þjóð með all­ar okk­ar end­ur­nýj­an­legu orku­auðlind­ir. Þetta get­ur ekki verið svona til fram­búðar. Þetta er ástand sem við vilj­um ekki búa við, svo ein­falt er það.

Ástandið er al­var­legt

Staðan í orku­mál­um er al­var­leg og kom meg­inþorra lands­manna lík­leg­ast veru­lega á óvart. Þessi staða hef­ur hins veg­ar haft sinn aðdrag­anda. Landsnet varaði í skýrslu um afl- og orku­jöfn­um 2019-2023 við mögu­leg­um aflskorti árið 2022. Þar var bent á að á tíma­bil­inu myndi ekki nægi­lega mikið af nýj­um orku­kost­um bæt­ast inn á kerfið til að duga fyr­ir sí­vax­andi eft­ir­spurn eft­ir raf­magni sam­kvæmt raf­orku­spá.

Skilj­an­lega spyrja lands­menn sig; hvað kem­ur til? Hvernig end­ar þjóð, sem er þekkt fyr­ir sjálf­bæra hreina orku, í ástandi sem þessu? Staðreynd­in er sú að mörg ljón eru á veg­in­um. Nauðsyn­legt er að kljást við þau til að leysa orku­mál, tryggja orku­ör­yggi og hag­sæld þjóðar­inn­ar. Tryggja þarf nægt fram­boð af grænni orku fyr­ir heim­il­in í land­inu, at­vinnu­lífið og orku­skipt­in. Upp á síðkastið hef­ur í umræðunni verið rætt um hvort þörf sé á meiri raf­orku fyr­ir orku­skipt­in. Ég spyr, hvernig get­ur verið að ekki þurfi meiri orku fyr­ir orku­skipt­in þegar svo lítið má út af bera til að ekki sé næg raf­orka fyr­ir nú­ver­andi not­end­ur?

Glöt­um bæði orku og tæki­fær­um

Styrk­ing flutn­ings­kerf­is raf­orku þolir enga bið. Í viðtali við fjöl­miðla áætlaði for­stjóri Landsnets að ork­an sem tap­ast í flutn­ings­kerf­inu á hverju ári sam­svari af­kasta­getu Kröflu­virkj­un­ar sök­um ann­marka flutn­ings­kerf­is­ins. Á hverju ári tap­ast millj­arðar króna vegna þess og enn meira vegna glataðra at­vinnu og upp­bygg­ing­ar­tæki­færa um allt land.

Í dag er verið að leggja nýj­ar raflín­ur á hinum ýmsu stöðum. Þó eru sum­ir hlut­ar kerf­is­ins hátt í 50 ára gaml­ir og því er aug­ljóst að þörf er á bráðnauðsyn­legri upp­færslu. Sí­fellt fleiri gíga­vatt­stund­ir tap­ast á þenn­an hátt og í fyrra var talið að um 500 gíga­vatt­stund­ir hefðu glat­ast sök­um ann­marka flutn­ings­kerf­is­ins. Það sam­svar­ar meðal­orku­notk­un 100.000 heim­ila, sem eru tveir þriðju allra heim­ila á Íslandi. Sér­fræðing­ar telja þá tölu ein­ung­is fara vax­andi í óbreyttu ástandi. Af þessu er ljóst að bregðast þarf hratt við. Viðfangs­efnið er stórt en ekki óyf­ir­stíg­an­legt.

Tími aðgerða er núna

Mik­il­vægt er að ráðast í efl­ingu fyr­ir­liggj­andi virkj­ana þar sem það er hægt, hefja und­ir­bún­ing að þeim orku­kost­um sem auðveld­ast er að hrinda í fram­kvæmd fljót­lega og ein­falda svo ferlið frá hug­mynd að fram­kvæmd þannig að nýt­ing orku­kosta sem sam­fé­lagið þarfn­ast gangi bet­ur og hraðar fyr­ir sig í framtíðinni. Á Íslandi hef­ur það sýnt sig að tím­inn sem það tek­ur frá hug­mynd um hefðbundna orku­kosti þar til fram­kvæmd­ir verða að veru­leika er um 10-20 ár. Sag­an sýn­ir að það er of lang­ur tími ef tryggja á orku­ör­yggi þjóðar­inn­ar. Vissu­lega eru til aðstæður þar sem það er vel skilj­an­legt og alltaf þarf að vanda til verka. En oft og tíðum eru óþarfa taf­ir sem sóa dýr­mæt­um tíma án þess að það skili sér í betri fram­kvæmd með til­liti til um­hverf­is­ins. Við okk­ur blas­ir að úr­bóta er þörf og tími aðgerða er núna.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.

Categories
Greinar

Hvað er sam­úðar­þreyta?

Deila grein

25/01/2022

Hvað er sam­úðar­þreyta?

Mannauður er ein mikilvægasta auðlind hverra fyrirtækja. Þessa auðlind ber að nýta af virðingu og líkt og aðrar auðlindir þá geta þær tæmst ef við skiljum ekkert eftir. Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að heilbrigðis- og menntakerfinu stafi ógn af samúðarþreytu. En hvað er það? Segja má í mjög einfölduðu máli að samúðarþreyta sé þegar fagfólk gefi meira af eigin orku til vinnu sinnar en það fær til baka.

Samúðarþreytu má greina í tvennt, annars stigs áfall og kulnun. Annars stigs áfall á við þegar starfsmaðurinn, finnur að vinnan hefur veruleg áhrif á líðan hans. Þetta getur meðal annars komið fram í endurupplifunum tengt atviki sem hann vann með í starfi, óöryggi, vonleysi, forðun, kvíða, depurð og /eða tilfinningalegum doða. Það getur komið í kjölfar staks atburðar eða vegna endurtekinna atburða. Samkvæmt skilgreiningu áfalls þá eru það ekki eingöngu þeir sem hafa sjálfir upplifað áfallaatburð sem geta þróað með sér áfallastreituröskun heldur einnig þeir sem heyra um eða verða vitni að atburði. Kulnun er talin þróast smám saman yfir langvarandi tímabil sé ekki brugðist við afleiðingum streitu eða áfalla í vinnu. Áður en heimsfaraldurinn skall á okkur bentu rannsóknir til þess að samúðarþreyta væri að aukast meðal heilbrigðisstarfsfólks, ætla má að samúðarþreyta sé enn meiri eftir Covid-19 þar sem öryggi fagfólks hefur verið ógnað og starfsaðstæður verið óvenjulega krefjandi.

Við þurfum að stuðla að samúðarsátt

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að greina ástandið, því hefur undirrituð lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að skipaður verði starfshópur sem hafi það að markmiði að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til þess að efla andlega heilsu fagfólks sem vinnur við að hjálpa öðrum s.s. starfsfólk heilbrigðiskerfisins, lögreglu, slökkviliðs og í leik-grunn og framhaldsskólum o.fl.

Við þurfum að stuðla að samúðarsátt ef svo mætti kalla. Samúðarsátt væri þá verndandi þáttur gegn samúðarþreytu. Hægt er að láta starfsmann upplifa samúðarsátt með nokkrum leiðum. Meðal annars þegar honum líður vel í vinnu, upplifir öryggi á vinnustað, að það ríki traust á meðal samstarfsfélaga, að það sem hann gerir skipti máli fyrir einstaklinginn sem hann þjónar, aðstandendur og samfélagið. Þá fær starfsmaðurinn orku til baka frá umhverfinu sem vegur á móti orkunni sem hann gaf af sér við það að hjálpa öðrum. Hægt er að stuðla að samúðarsátt með íhlutun, t.d. með fræðslu og námskeiðum, fá handleiðslu frá fagaðila, hafa skýr mörk á milli einkalífs og vinnu, gefa svigrúm fyrir slökun, hugleiðslu og núvitundaræfingar og loks með því að taka eftir því sem vel er gert og veita styrkleikum athygli.

Hanna þarf gagnalíkan út frá rannsóknum um hverjir séu í meiri áhættu til að þróa með sér samúðarþreytu. Ef til vill má þannig grípa fyrr inn í með því að samlesa gögn og þekkja formerkin um veikindadaga og draga ályktanir um hverjir séu í mestri þörf fyrir handleiðslu og úrvinnslu annars stigs áfalla.

Forvarnir eru mikilvægar

Mikilvægt er að huga að forvörnum og tryggja heilbrigða vinnustaði. Við þurfum að skoða hvernig kerfið hlúir að þeim sem vinna við að hjálpa öðrum og bregðast við. Kostnaður vegna veikinda, ofþreytu og neikvæðra afleiðinga álagseinkenna er hár, hvort sem er fyrir einstaklinginn eða kerfið. Við erum með margra ára reynslu sem sýnir okkur að forvarnir skipta máli, en við erum alltaf að tileinka okkur forvarnir á nýjum sviðum, nú þurfum við að einbeita okkur að þessum starfsstéttum.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. janúar 2022.

Categories
Greinar

Allir landshlutar sækja fram

Deila grein

18/01/2022

Allir landshlutar sækja fram

Rétt fyrir áramótin voru fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar samþykkt á Alþingi. Þar má finna mörg jákvæð mál sem gefa tilefni til bjartsýni inn í nýja árið. Meðal þeirra mála má sérstaklega nefna að samþykkt var 100 milljóna króna styrking á verkefninu um sóknaráætlanir landshluta.

Mikilvægi sóknaráætlana landshluta er óumdeilt, og umrædd styrking samræmist efni nýs stjórnarsáttmála. Þar kemur fram að unnið verði áfram að eflingu sóknaráætlana allra landshluta.

Uppbygging heima fyrir

Sóknaráætlanir og uppbyggingarsjóðir gegna lykilhlutverki í eflingu nýsköpunar og menningarstarfs á landsbyggðinni. Þessar sóknaráætlanir hafa nú þegar sannað sig. Þær hafa stuðlað að því að fjármunir nýtast hratt og á áhrifaríkan hátt í öflugri byggðaþróun. Í hverjum samráðsvettvangi fyrir sig eru fengnir fulltrúar frá því svæði sem hver áætlun varðar. Þar fá heimamenn að viðra sínar áherslur og uppbygging fer fram í takt við þær. Það er mikilvægt, enda vita fáir betur en heimamenn hvað vænlegast er til árangurs á sínu svæði.

Mikilvæg verkefni

Hér fyrir okkur, heimamenn í Norðausturkjördæmi, standa mikilvæg verkefni. Tækifærin til frekari uppbyggingar bæði hvað varðar menningu og atvinnu eru heldur betur til staðar. Með auknum fjárstuðningi til sóknaráætlana landshluta stuðlum við að frekari framsókn á Austurlandi og Norðurlandi eystra, þar sem fjármagnið er nýtt í takt við áherslur heimamanna.

Frekari efling og uppbygging flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum, þróun þekkingarsamfélagsins á Austurlandi og NÍN (Nýsköpun í norðri) verkefnið eru dæmi um áhersluverkefni sóknaráætlana landshluta. Þessi verkefni, ásamt fleirum, stuðla að fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifærum í Norðausturkjördæmi, og gerir svæðin meira aðlaðandi fyrir íbúa kjördæmisins sem og einstaklinga sem hafa hug á því að flytja hingað.

Framsækni um allt land

Það er ánægjulegt að hafa fengið að kjósa með auknum fjárstuðningi til sóknaráætlana landshluta. Þessar áætlanir boða frekari sókn um allt land. Slíkar aðgerðir ríma vel við áherslur Framsóknar um öfluga byggðastefnu og velsæld um alla landshluta. Mikilvægt er að á kjörtímabilinu verði enn aukið samstarf milli landshlutasamtaka og allra ráðuneyta til þess að tryggja að stærri aðgerðir sóknaráætlana nái fram að ganga. Þannig tryggjum við aukin gæði um allt Ísland.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 17. janúar 2022.

Categories
Greinar

Ísland er í einstakri stöðu

Deila grein

08/11/2021

Ísland er í einstakri stöðu

Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hófst þann 31. október sl. og stendur nú yfir í Glasgow, í Skotlandi. Hún er eðlilegt, og um leið nauðsynlegt, framhald af loftslagsráðstefnunni COP21, sem var haldin í París árið 2015. Þar undirrituðu þau 197 ríki, sem eru aðilar að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, hið svokallaða Parísarsamkomulag. Í því koma fram fögur fyrirheit um kolefnishlutleysi og sett voru markmið um að takmarka hnattræna hlýnun við innan við 1,5°C fyrir 2050 og 2°C á þessari öld.

Ísland og Evrópusambandið stefna á 55% samdrátt í losun fyrir 2030

Með Parísarsamkomulaginu skuldbundu ríki sig einnig til að setja sér sín eigin landsmarkmið um samdrátt í losun. Gert er ráð fyrir að ríki uppfæri markmið sín á fimm ára fresti. Þannig var upphaflegt markmið Evrópusambandsins, sem Ísland tekur þátt í ásamt Noregi, 40% samdráttur í losun fyrir árið 2030, en núna stefnir sambandið á 55% samdrátt í losun.

Mörg ríki hafa þegar kynnt langtímasýn um hvernig þau ætla að ná kolefnishlutleysi og hafa uppfært losunarmarkmið sín. Helsta áhyggjuefnið er samt það að Kína og Indland eru ekki í þeim hópi en þau eru ásamt Bandaríkjunum stærstu losendur gróðurhúsalofttegunda í heiminum.

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar (IPCC) sem kom út í ágúst var bent á að jafnvel þó að ríki skeri hratt niður losun á gróðurhúsalofttegundum gæti hnattræn hlýnun náð 1,5°C strax á næsta áratug en þar kom einnig afdráttarlaust fram að lausnir séu mögulegar og að hver gráða umframhlýnunar skipti verulegu máli um alvarleika afleiðinga loftslagsbreytinganna.

Kolin og farartæki knúin áfram af jarðefnaeldsneyti heyri sögunni til

Í umræðunni fyrir loftslagsráðstefnuna var ekki gert ráð fyrir stórum ákvörðunum á COP26 en þó eru bundnar vonir við að ríkin sem taka þátt í ráðstefnunni skrifi undir yfirlýsingu þar sem ítrekuð verði stefna um mikinn samdrátt í losun fyrir 2030 og mikilvægi markmiða um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 verði staðfest.

Mikilvægast fyrir okkur Íslendinga er að mikið er rætt um að mikilvægasta niðurstaða COP26 verði að ríkin einsetji sér að henda kolum og að farartæki sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði skipt út.

Vandamálið er þó það að allar ákvarðanir sem eru teknar á ráðstefnunni þurfa að vera samhljóða og það getur verið vatn á myllu þeirra sem eiga mikið undir framleiðslu á jarðefnaeldsneyti eins og Sádi-Arabía, Ástralía og Rússland. Enda hefur komið nýlega fram að þessi lönd hafa í gegnum tíðina þrýst á Sameinuðu þjóðirnar að draga úr áherslunni á að ríki heims hætti notkun jarðefnaeldsneytis.

Hreinir orkugjafar eru að taka yfir

Þó að margir séu ekki bjartsýnir á niðurstöðu loftslagsráðstefnunnar í Glasgow hljótum við Íslendingar að fagna því að hreinir orkugjafar eru að taka yfir. Enda fylgja breytingunum margvíslegur ávinningur fyrir land og þjóð. Mikill gjaldeyrissparnaður verður við að keyra allar innlendar samgöngur á grænni innlendri orku í stað innfluttra og mengandi orkugjafa. Einnig hjálpa breytingarnar okkur að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og tryggja að við verðum í farabroddi í þessum málaflokki á meðal þjóða heims.

Ísland í einstakri stöðu

Ísland er í einstakri stöðu til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að loftslagsvánni. Hér á landi er orkan okkar stærsta auðlind og við höfum sýnt að við höfum þekkingu og reynslu að virkja náttúruna á sama tíma og við umgöngumst landið okkar af virðing og varfærni.

Því er eitt brýnasta umhverfisverndarmál næstu ára að halda áfram að nýta græna orku og hraða orkuskiptum í samgöngum á landi, í lofti og á sjó með rafknúnum bifreiðum og orkuskiptum í sjávarútveginum og flugsamgöngum. Til þess þurfum við að hraða uppbyggingu innviða um allt land og ræða af fullri alvöru hvaðan við eigum að fá innlendu grænu orkuna sem á að koma í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Þar eru orkuauðlindirnar okkar, vatns-, jarðvarma- og vindorka augljóslega þeir möguleikar sem vænlegastir eru.

Við Íslendingar eigum því að hefjast strax handa að ákveða til framtíðar hvernig við viljum nýta orkuauðlindirnar okkar og hraða uppbyggingu innviða. Ef við Íslendingar getum sýnt fram á árangur þegar kemur að orkuskiptum munum við leggja enn meira af mörkum til loftslagsmála á alþjóðavísu en við gerum í dag. 

Ingibjörg Isaksen, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. nóvember 2021.

Categories
Greinar

Það þarf að afla grænu orkunnar

Deila grein

21/09/2021

Það þarf að afla grænu orkunnar

Breytingum í átt til grænna at­vinnu­lífs og um­hverfis­vænna sam­gangna fylgir marg­vís­legur á­vinningur fyrir land og þjóð. Þótt mest sé horft á lofts­lags­málin þarf vart að tíunda hver gjald­eyris­sparnaðurinn verður af því að keyra allar inn­lendar sam­göngur á grænni inn­lendri orku í stað inn­fluttra og mengandi orku­gjafa. Fyrir­séð er að á næstu árum þurfum við að taka enn stærri skref en áður í átt til grænnar at­vinnu­starf­semi og grænna sam­fé­lags.

En ef allt þetta á að verða að veru­leika þarf að fram­leiða alla þessa grænu orku. Það er því for­gangs­mál að skoða hvaða mögu­leikar eru fýsi­legir til að út­vega aukna græna orku og mikil­vægt að greina og velja hag­kvæmustu kostina. Við megum ekki vera feimin við að ræða málin, spyrja erfiðra spurninga og taka fum­lausar á­kvarðanir til hags­bóta fyrir um­hverfið og komandi kyn­slóðir. Hér á Ís­landi eru vatns-, jarð­varma- og vindorka þeir mögu­leikar sem væn­legastir eru.

Orkan er ein stærsta auð­lind Ís­lendinga og hana þarf að nýta. En ef við ætlum að vera for­ystu­þjóð á sviði grænnar orku – þá þurfum við að afla hennar. Það liggur í augum uppi. Ís­lendingar hafa sýnt það í gegnum árin að við höfum þekkingu og reynslu í að virkja náttúruna og á sama tíma um­gangast landið okkar og jörðina af virðingu og var­færni. Nú þarf að ræða hvar, hvernig og hversu hratt.

Traustir orku­inn­viðir um land allt eru lykillinn að árangri í lofts­lags­málum og þeirri grænu um­breytingu í at­vinnu og sam­göngu­málum sem er í burðar­liðnum. Það er mikil­vægt að hugsa og nálgast málin af skyn­semi, vega og meta þá kosti sem eru í boði og taka á­kvarðanir sem koma sér vel fyrir fram­tíðar­kyn­slóðir í landinu til lengri tíma.

Ingibjörg Isaksen.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. september 2021.

Categories
Greinar

Grænn ávinningur fyrir land og þjóð

Deila grein

15/09/2021

Grænn ávinningur fyrir land og þjóð

Eitt brýnasta umhverfisverndarmál næstu ára er að nýta græna orku og hraða orkuskiptum í samgöngum á landi, í lofti og á sjó. Rafknúnar bifreiðar seljast vel, orkuskipti eru hafin í sjávarútveginum og það hillir undir að slíkt muni einnig eiga sér stað í flugsamgöngum áður en langt um líður. Þetta er jákvæð þróun og við hljótum öll að fagna því að hreinir orkugjafar eru að taka yfir.

Breytingunum fylgir margvíslegur ávinningur fyrir land og þjóð. Mikill gjaldeyrissparnaður verður við að keyra allar innlendar samgöngur á grænni innlendri orku í stað innfluttra og mengandi orkugjafa. Einnig hjálpa breytingarnar okkur að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og tryggja að við verðum í farabroddi í þessum málaflokki á meðal þjóða heims.

Hálendisþjóðgarður – ekki gætt að heildarmyndinni

Í frumvarpi um stofnun Hálendisþjóðgarðs, sem var til umræðu á Alþingi á kjörtímabilinu, var alveg horft fram hjá því hvernig tryggja ætti endurnýjun flutningslína á rafmagni og lokað var á möguleika til nýtingar á endurnýjanlegum orkugjöfum á svæðinu til framtíðar. Þannig var ekki gætt að heildarmyndinni og í raun girt fyrir að Íslendingar uppfylli markmið sín um orkuskipti og geti staðið við skuldbindingar í loftslagsmálum.

Þannig virðist mikilvægasta atriðið oft gleymast í umræðunni. Ef allt þetta á að verða að veruleika, og ef það er markmið okkar að vera forystuþjóð á sviði grænnar orku – þarf að framleiða græna orku. Því er forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.

Það þarf að framleiða græna orku

Eigi Ísland að verða forystuþjóð í nýtingu grænnar orku er nauðsynlegt að ræða af fullri alvöru hvaðan við eigum að fá innlendu grænu orkuna sem á að koma í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Hér á Íslandi eru vatns-, jarðvarma- og vindorka þeir möguleikar sem vænlegastir eru. Þessir valkostir eru ein stærsta auðlind Íslendinga og hana þarf að nýta. Við Íslendingar höfum sýnt það í gegnum árin að við búum yfir mikilli þekkingu og reynslu við að virkja náttúruna en það þarf að umgangast hana og landið okkar af virðingu og varfærni.

Traustir orkuinnviðir um allt land allt eru lykillinn að grænni umbreytingu í atvinnu og samgöngumálum. Á næstu árum þarf að taka enn stærri skref en áður í átt til grænnar atvinnustarfsemi og grænna samfélags. Við getum og eigum að vera í forystu á heimsvísu í þessum málaflokki en til þess að það geti orðið þarf að horfast í augu við þá staðreynd að græn orka, og orkuskipti í landinu, verða ekki að veruleika nema að við framleiðum græna orku.

Ingibjörg Isaksen skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við alþingiskosningar 25. september.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 13. september 2021.

Categories
Greinar

Ný tæki­færi í þjónustu eldra fólks

Deila grein

09/09/2021

Ný tæki­færi í þjónustu eldra fólks

Samsetning mannfjöldans á Íslandi er að þróast á þann veg að hlutfall eldra fólks hækkar frá því sem áður var. Brýnt er þess vegna að við horfum til mögulegra nýrra tækifæra og breytinga í málefnum eldra fólks. Frá því að lög um málefni aldraðra voru sett árið 1982 hefur legið fyrir það stefnumið að eftir því sem þarfir fólks til stuðnings og þjónustu aukast, því mikilvægara er að öll þjónusta og skipulag taki mið af samfellu og heildarsýn fyrir notandann í þjónustukeðjunni.

Flest viljum við geta búið heima hjá okkur eins lengi og kostur er án þess að þurfa að reiða okkur á aðra. Þó frekari þörf á aðstoð og öryggi fylgi almennt hækkandi aldri, þá hefur margt eldra fólk aðstæður til að búa með lágmarksþjónustu. Þjónustuþörfum eldra fólks þarf að mæta með því að þróa fjölbreytileg úrræði til að mæta mismunandi þörfum einstaklinga innan þessa sístækkandi hóps með þau markmið að bæta lífsgæði, valdefla einstaklingana. Ljóst er að þörf er á nýjum áherslum og nýju viðhorfum í þjónustu við aldraða þar sem aukin áhersla er lögð á aldursvænt og styðjandi samfélag.

Dagþjálfun

Eitt þeirra úrræða sem þarf að bæta og efla er dagþjálfun, en í dag er slík þjónusta í flestum stærri sveitarfélögum. Dagþjálfun er tímabundið stuðningsúrræði við eldra fólk sem býr í heimahúsum með það að markmiði að viðhalda færni og getu fólks til að búa áfram heima. Hún getur verið margskonar með mismunandi þjónustustigi eftir einstaklingsbundnum þörfum, en dagþjálfun þarf a.m.k. að bjóða upp á tómstundaiðkun, aðstöðu til léttra líkamsæfinga, máltíð, hvíldaraðstöðu og aðstoð við böðun.

Tækifæri finnast í dagþjálfun

Það er enginn vafi að tækifæri eru til að þróa ný úrræði og bæta það sem er til staðar. Og það verður að gera, sérstaklega þegar horft er til þróunar á hækkandi hlutfalli eldra fólks hér á landi. Dagþjálfun sem stuðningsúrræði hefur upp á ýmsa valmöguleika að bjóða og tækifæri til að bæta þjónustu því Með dagþjálfun er hægt að styðja aukinn fjölda eldra fólks með viðeigandi stigskiptingu þjónustunnar. Marka þarf skýra framtíðarsýn og heildarstefnu þar sem m.a. er lögð áhersla á að skipulag þjónustunnar sé með þeim hætti að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru. Okkar verkefni er að finna tækifærin og hámarka nýtingu og ávinning fyrir einstakling og samfélag. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur hvatt til alþjóðlegra viðbragða í að þróa nýjar leiðir og úrræði til samþættingar þjónustu við aldraða, með það að markmiðil að stuðla að samfellu í þjónustunni og ná þannig fram aukinni hagkvæmni fyrir samfélagið allt.

Ingibjörg Isakesn, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við næstu Alþingiskosningar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. september 2021.