Alvarlegur heimsfaraldur er að baki, en hagkerfið á Íslandi náði að rétta út kútnum á skemmri tíma en nokkur þorði að vona og það er áfram góður gangur í efnahagskerfinu. Hér er mikill hagvöxtur og hátt atvinnustig, en hins vegar læddist inn óvelkominn gestur í formi verðbólgu. Stærsta verkefni hagstjórnarinnar er að ná tökum á henni. Þetta er verkefni númer eitt, tvö og þrjú. Mestu máli skiptir fyrir samfélagið okkar að verðbólgan lækki.
Sögulega skaðleg áhrif verðbólgu
Áhrif mikillar verðbólgu eru neikvæð, kaupmáttur launa dvínar og verðskyn dofnar. Íslendingar þurfa ekki að leita langt aftur í tímann til að rifja upp afleiðingar þess að þjóðfélagið missti tök á verðbólgunni. Fyrir fjörutíu árum mældist verðbólga á 12 mánaða tímabili um 100% með tilheyrandi gengisfellingum og óróa í samfélaginu. Tveimur árum áður, árið 1981, höfðu farið fram gjaldmiðilsskipti þar sem verðgildi krónunnar var hundraðfaldað og ný mynt og seðlar kynnt til sögunnar. Á þessum tíma horfði almenningur upp á virði þessarar nýju myntar hverfa hratt. Ég get fullyrt að enginn sem man þá tíma vill hverfa þangað aftur. Sama ástand er ekki upp á teningnum núna, en við verðum hins vegar að taka á verðbólguvæntingum til að vernda heimilin. Verðbólgan mældist 9,5% í síðasta mánuði. Ég er sannfærð um að með aðgerðum Seðlabanka Íslands og stjórnvalda muni draga úr verðbólgunni. Peningamálin og fjármál hins opinbera eru farin að vinna betur saman. Það styður einnig við þessi markmið að ríkisfjármálin eru þannig hönnuð að þau búa yfir sjálfvirkri sveiflujöfnun og grípa þennan mikla hagvöxt eins og sjá má í auknum tekjum ríkissjóðs og vinna þannig á móti hagsveiflunni og styðja við baráttuna við verðbólguna. Útflutningsatvinnuvegirnir hafa staðið sig vel og krónan hefur verið stöðug og með hjaðnandi verðbólgu erlendis ætti að nást jafnvægi og við getum smám saman kvatt þennan óvelkomna gest.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar styðja við lækkun verðbólgu
Eitt helsta markmið ríkisstjórnarinnar er að auka velsæld og ná tökum á verðbólgunni. Þess vegna hefur verið lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að lögum verði breytt þannig að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins hækki um 2,5% í stað 6% hinn 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu embættismanna skapi ekki aukinn verðbólguþrýsting, enda miðar breytingin við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þessi aðgerð er mjög mikilvæg til að vinna gegn háum verðbólguvæntingum. Til að treysta enn frekar sjálfbærar verðbólguvæntingar hefur verið ákveðið að flýta gildistöku fjármálareglunnar, sem þýðir að hámark skulda ríkissjóðs getur ekki verið meira en 30% og að sama skapi þarf að vera jákvæður heildarjöfnuður á hverju fimm ára tímabili. Skuldastaða ríkissjóðs Íslands hefur verið að þróast í rétta átt, skuldir ríkissjóðs eru ekki miklar í samanburði við aðrar þjóðir og er það mikilvægt fyrir lánshæfið að svo verði áfram.
Auk þessa er verið að bæta afkomu ríkissjóðs um 36,2 milljarða króna á næsta ári með sparnaði í rekstri ríkisins, þar með talið niðurskurði í ferðakostnaði, frestun framkvæmda, nýjum tekjum og með því að draga úr þensluhvetjandi skattaívilnunum. Tekjur ríkissjóðs eru einnig rúmlega 90 milljörðum meiri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Vegna þessa tekjuauka er aðhaldsstigið að aukast. Í þessu felst meðal annars að framkvæmdum fyrir um 3,6 milljarða króna er frestað til að draga úr þenslu. Sökum skaðlegra áhrifa mikillar verðbólgu á okkar viðkvæmustu hópa ákvað ríkisstjórnin að verja kaupmátt örorku- og ellilífeyrisþega og því hefur lífeyrir almannatrygginga verið hækkaður um tæp 10% frá upphafi árs. Einnig hefur frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda verið hækkað um 10%. Þessar aðgerðir eru afar mikilvægar til að verja kaupmátt þeirra sem standa verst.
Mikilvægi ríkisfjármála í væntingastjórnun
Eitt það markverðasta sem fram hefur komið á vettvangi hagfræðinnar á þessu ári er bók hagfræðingsins Johns F. Cochranes, en í nýútgefinni bók sinni Ríkisfjármálakenningin og verðlag (e. Fiscal Theory and the Price Level) beinir hann spjótum sínum að verðbólguvæntingum á sviði ríkisfjármála. Kjarni ríkisfjármálakenningarinnar er að verðlag ráðist af stefnu stjórnvalda í opinberum fjármálum. Samkvæmt þessari kenningu hefur ríkisfjármálastefna, þar með talið útgjalda- og skattastefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á ríkisrekstri ætti að leiða til lægra raunvaxtastigs sem ætti síðan að ýta undir meiri fjárfestingar. Þar með verða til auknar fjármagnstekjur, sem myndast við meiri fjárfestingu, sem er ein helsta uppspretta framleiðni vinnuafls. Þetta skapar svo grunninn að hærri raunlaunum og þannig má segja að minni fjárlagahalli sé óbein leið til að auka raunlaun og bæta lífskjör. Staðreyndin er sú að ef ríkissjóður er rekinn með halla, þá þarf hann að fjármagna þann halla með útgáfu nýrra skuldabréfa. Þannig eykst framboð ríkisskuldabréfa á markaði, sem aftur lækkar verð þeirra og leiðir til þess að vextir hækka. Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bills Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum undanfarna mánuði vinna einmitt að því að styðja við lækkun vaxta og hefur ávöxtun ríkisskuldabréfa verið á niðurleið.
Framboðshlið hagkerfisins
Ég hef áður ritað um að meira þurfi að gera á framboðshliðinni í hagkerfinu til að koma til móts við eftirspurnina til að milda högg aðhaldsaðgerða og leysa úr læðingi krafta í hagkerfinu. Það má gera með aðgerðum í húsnæðismálum og aðgerðum á atvinnumarkaðnum, t.d. gera auðveldra að fá sérfræðinga til landsins og með því að hækka aldur þeirra sem vilja vinna. Það má einnig liðka til frekar í almannatryggingakerfinu til að fá fólk frekar út á atvinnumarkaðinn, en ríkisstjórnin hefur verið að framkvæma ýmislegt í þessa veru á undanförnum mánuðum.
Jákvæð teikn á lofti í baráttunni gegn verðbólgu
Hagvöxtur árið 2022 mældist 6,4% og hefur ekki verið meiri en síðan 2007 og Seðlabankinn spáir nærri 5% hagvexti á þessu ári. Þessi mikil þróttur í hagkerfinu er jákvæður en verðbólgan er enn of há. Hagvöxturinn var knúinn áfram af miklum vexti innlendrar eftirspurnar en hún óx á síðasta ári um 8,6%. Allt bendir til þess að það hægist á vexti einkaneyslu, meðal annars vegna versnandi aðgengis heimila og fyrirtækja að lánsfé. Teikn eru á lofti um að það sé að raungerast, þar sem einkaneysla jókst hóflega á fyrsta ársfjórðungi eða um 2,5%. Að sama skapi hefur atvinnuvegafjárfesting dregist saman um 14%. Að lokum má nefna að kortavelta hefur dregist saman að raunvirði og er það í fyrsta sinn í langan tíma. Það er jafnframt mikilvægt að halda því til haga að gengi krónunnar hefur verið stöðugt og heldur að styrkjast. Það er meðal annars vegna öflugra útflutningsgreina og ekki síst vegna ferðaþjónustunnar. Af þeim sökum ætti hjöðnun verðbólgu á erlendum mörkuðum að skila sér beint inn í íslenska hagkerfið. Mikilvægt er að allir taki höndum saman um að svo verði.
Lokaorð
Verðbólgan er mesti vandinn sem stjórnvöld standa frammi fyrir og mikilvægt er að ná niður verðbólguvæntingum. Ólíkt því sem áður gerðist er Ísland hins vegar ekki eyland þegar kemur að verðbólgu um þessar mundir. Verðbólgan í Evrópu er á bilinu 3-24%, en það eru ákveðin merki um að verðbólga fari hjaðnandi erlendis þótt langt sé í að ástandið verði aftur ásættanlegt. Það sem skilur Ísland frá öðrum þróaðri hagkerfum er þessi mikli þróttur sem er í hagkerfinu og gerir hann hagstjórn að sumu leyti flóknari. Ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa tekið höndum saman um að taka á þessum vanda með þeim tækjum sem þau ráða yfir. Einn liður í því að er vextir endurspegli verðbólguna. Það er ljóst að Seðlabanki Íslands hefur farið mjög bratt í hækkun vaxta og var m.a. fyrsti bankinn til að hækka vexti á Vesturlöndum. Það má færa rök fyrir því að seðlabankar beggja vegna Atlantsála hafi haldið vöxtum of lágum of lengi. Christine Lagarde lýsti því yfir við síðustu vaxtahækkun hjá ECB að bankinn væri hvergi nærri hættur vaxtahækkunum. Í Bandaríkjunum hafa vextir náð verðbólgunni. Hér er það sama að gerast og eru vextir Seðlabankans mjög nærri verðbólgunni. Með því hefur ákveðnum tímamótum verið náð. Það er sannfæring mín að aðgerðir í ríkisfjármálum muni leggja sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni við verðbólguna.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2023.