Categories
Greinar

Samvinna er lykillinn að árangri

Deila grein

31/08/2020

Samvinna er lykillinn að árangri

„Það sem gerist er að það verður þessi gríðarlega samvinna og samskipti. Okkar fremstu vísindamenn á alþjóðavísu og fyrirtæki á þessum markaði fara að deila upplýsingum. Þetta er einstakt – sigur fyrir mannkynið, ef ég má orða það sem svo,“ var haft eftir Birni Rúnari Lúðvíkssyni, yfirlækni ónæmisdeildar Landspítalans í frétt Vísis í síðustu viku. Það viðhorf er orðið ríkjandi að samvinnan og samskiptin muni leiða okkur út úr þessu ástandi sem ríkir í heiminum um þessar mundir. Þetta er viðhorf sem er inngróið í stefnu Framsóknar enda hefur flokkurinn í gegnum tíðina verið boðberi samvinnunnar sem leysir úr læðingi helstu framfaramál í sögu þjóðarinnar.

Leiðin til eðlilegs lífs

Þegar þessi orð eru rituð stöndum við enn í ströngu við að koma í veg fyrir vöxt veirunnar á Íslandi eftir að hafa lifað tiltölulega eðlilegu lífi framan af sumri. Barátta okkar gegn veirunni hafði gengið vel en eins og sóttvarnarlæknir hefur ítrekað í máli sínu frá upphafi faraldursins verðum við að læra að lifa með veirunni í mánuði eða ár áður en við getum aftur snúið til eðlilegs lífs.

Hagur heimilanna

Veiran hefur haft áhrif á líf okkar allra. Ríkisstjórnin hefur auk baráttunnar við heilbrigðisvána komið fram með umfangsmiklar aðgerðir til að milda efnahagslegt högg á fjölskyldur og fyrirtæki. Þær aðgerðir hafa verið mikilvægar en áfram verður unnið að frekari viðbrögðum til að vernda hag heimilanna, til þess að skapa ný störf og auka verðmætasköpun svo samfélagið nái sínum fyrri styrk.

Uppgangur öfga

Á síðustu misserum höfum við upplifað uppgang öfga í heiminum og við förum ekki varhluta af því hér á Íslandi. Leiðtogar stjórnmálaafla hafa sumir stigið fram með lýðskrumið að vopni og höggvið skörð í samfélagið til þess eins að ná aukinni áheyrn og með það að markmiði að öðlast meiri völd. Það gera þeir með því að etja hópum gegn hver öðrum, skapa óánægju og fylla fólk þannig vanmætti. Það er öndvert við það sem ég trúi að stjórnmál eigi að gera því ég lít á stjórnmál sem tæki til að efla fólk og samfélög og til að búa til betri og hamingjuríkari heim.

Samvinnuleiðin í stjórnmálum

Öfgar til hægri og vinstri eru okkur vel kunn í samtímasögunni og hafa þær ekki fært okkur betri samfélög. Það hefur hins vegar samvinnan gert. Ef við lítum yfir sögu Íslands sem lýðveldisins sjáum við að stjórn landsins hefur verið í höndum samsteypustjórna og þar hefur Framsókn oftar en ekki verið þátttakandi. Þessi samvinnuleið í íslenskum stjórnmálum hefur getið af sér samfélag sem ætíð er ofarlega ef ekki efst á listum þjóða sem þykja skara fram úr þegar kemur að almennum lífsgæðum í heiminum. Þau stjórnmálaöfl sem við sjáum nú yst til hægri og yst til vinstri bjóða engum til samtals heldur miða að því að níða skóinn af öðrum, oft með því að hafa uppi stór orð um svik, prinsippleysi og jafnvel landráð ef það yljar eigin sjálfsmynd þá stundina.

Skynsemin sigrar alltaf að lokum

Yfirlýsingar sem eingöngu er ætlað að ögra og etja fólki saman eru að sönnu ekki mikils virði en þær eru eyðileggjandi. Segja má að öfgarnar næri hvor aðra en leiði aldrei til niðurstöðu því það eru aðrar og skynsamari stjórnmálahreyfingar sem leiða fólk saman og hreyfa samfélagið til betra horfs.

Samtal, samvinna: framfarir

Á síðasta degi þingsins voru samþykkt lög og þingsályktanir sem gera fjárfestingu í samgöngum upp á 900 milljarða króna mögulega. Í þeim pakka var, auk fjölmargra brýnna verkefna um allt land, samgöngusáttmáli um uppbygginu á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að algjör stöðnun hefur ríkt í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár og áratugi. Það var eitt af helstu markmiðum mínum þegar ég settist í stól samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að stórauka samgönguframkvæmdir og þar með talið að höggva á þann hnút sem hefur verið í samskiptum ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Með markvissu samtali og samráði tókst það og íbúar höfuðborgarsvæðisins sjá fram á bjartari tíma í samgöngum og á það jafnt við um þá sem nota fjölskyldubílinn, almenningssamgöngur eða eru gangandi og hjólandi.

Sundrað samfélag er veikt samfélag

Stjórnmál verða alltaf samvinna og samkomulag nema við viljum búa í sundruðu samfélagi. Þeir sem mest níða niður stjórnmálin virðast líta svo á að málamiðlanir milli ólíkra sjónarmiða séu óásættanlegar og að öll samvinna sé svik. Þegar þessar raddir verða ráðandi í umræðunni, hjá fjölmiðlum og álitsgjöfum, þá eykst krafan um enginn flokkur gefi neitt eftir og þá verður ekkert samtal, engin samvinna og þar af leiðandi engin framþróun; bara stöðnun, tortryggni og ófullnægja allra. Allra nema þeirra sem njóta þess að segja að allir séu prinsipplausir; allir nema þeir sjálfir.

Heimsfaraldurinn getur leitt til sundrungar og átaka en líkt og þegar kemur að því að ráða niðurlögum veirunnar sjálfrar þá þurfum við samvinnu til að byggja upp sterkara samfélag. Framsókn mun hér eftir sem hingað til vinna að sátt um framþróun samfélagsins. Sú sátt verður ekki til með öfgum til hægri eða vinstri. Framtíðin ræðst á miðjunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. ágúst 2020.