Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Reykjanesbæ samþykktur

Deila grein

28/02/2014

Framboðslisti Framsóknar í Reykjanesbæ samþykktur

Félagsfundur Framsóknarfélags Reykjanesbæjar hefur samþykkt framboðslista framsóknarmanna í Reykjanesbæ vegna sveitarstjórnakosninganna í vor. Framboðslistinn er fléttulisti skipaður 11 konum og 11 körlum.

Framsokn-i-Reykjanesbae

Kristinn Þór Jakobsson, viðskiptafræðingur, leiðir listann en hann er núverandi oddviti og bæjarfulltrúi Framsóknar. Í ræðu sinni hvatti Kristinn Þór frambjóðendur og félagsmenn til þess að reka kosningabaráttuna á jákvæðan, uppbyggilegan og málefnalegan hátt.

Framboðslistann skipa:
1. Kristinn Jakobsson, bæjarfulltrúi og viðskiptafræðingur
2. Halldóra Hreinsdóttir, viðskiptafræðingur
3. Halldór Ármannsson, skipstjóri og formaður landssambands smábátaeigenda
4. Bjarney Rut Jensdóttir, lögfræðingur
5. Guðmundur Gunnarsson, íþróttakennari og stuðningsfulltrúi
6. Kolbrún Marelsdóttir, þroskaþjálfi og framhaldsskólakennari
7. Baldvin Gunnarsson, framkvæmdarstjóri
8. Magnea Lynn Fisher, sálfræðinemi
9. Einar Friðrik Brynjarsson, umhverfisiðnfræðingur og skrúðgarðyrkjumeistari
10. Þóra Lilja Ragnarsdóttir, háskólanemi
11. Freyr Sverrisson, knattspyrnuþjálfari
12. Jóhanna María Kristinsdóttir, söngnemi
13. Eyþór Þórarinsson, búfræðingur og slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður
14. Magnea Herborg Björnsdóttir, leikskólakennari og frístundabóndi
15. Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi
16. Ólafía Guðrún Lóa Bragadóttir, sjúkraliði og snyrtifræðingur
17. Birkir Freyr Guðbjörnsson, framhaldsskólanemi
18. Kristrún Jónsdóttir, verkakona
19. Ingvi Þór Hákonarson, slökkviliðsmaður
20. Oddný J.B. Mattadóttir, leiðsögumaður
21. Hilmar Pétursson, fv. bæjarfulltrúi
22. Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður og varabæjarfulltrúi

Categories
Fréttir

Alþjóðadagur móðurmálsins – virkt tvítyngi

Deila grein

28/02/2014

Alþjóðadagur móðurmálsins – virkt tvítyngi

Líneik Anna Sævarsdóttir vakti máls á Alþingi um viku móðurmálsins og hvernig hægt sé að koma til móts við nemendur, er tala annað móðurmál en íslensku, við að læra sitt móðurmál. Nefndi Líneik Anna að í heiminum væru talin 6700 lifandi tungumál og að 70% jarðarbúa tali fleiri en eitt tungumál daglega.

Categories
Fréttir

Hjarta- og æðasjúkdómar

Deila grein

28/02/2014

Hjarta- og æðasjúkdómar

Haraldur Einarsson vakti máls í vikunni á Alþingi á umfangsmikilli heilsufarskönnun og samspil við ýmsa sjúkdóma, sérstaklega hjarta- og æðasjúkdómum.

Categories
Greinar

Ísland og Japan: Tækifæri í jarðhita

Deila grein

28/02/2014

Ísland og Japan: Tækifæri í jarðhita

Sigurður Ingi JóhannssonMörg ríki reyna nú að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis til orkuframleiðslu, sem er helsta orsök skaðlegra loftslagsbreytinga á heimsvísu. Japan er þar engin undantekning og býr raunar við meiri vanda en mörg önnur ríki, því dregið hefur mjög úr notkun kjarnorku eftir slysið í Fukushima-verinu. Japan nýtur þess hins vegar að óvíða er meiri gnótt jarðhita. Hann er þó vannýttur og japönsk stjórnvöld hafa nýlega ákveðið að grípa til ýmissa aðgerða til að efla jarðhitanýtingu. Meðal annars er litið til Íslendinga og þekkingar okkar í þessu sambandi.

Nobuteru Ishihara, umhverfisráðherra Japans, kom síðastliðið sumar til Íslands í vinnuheimsókn að kynna sér jarðhitamál og sýndi reynslu Íslendinga mikinn áhuga. Í fyrri viku var heimsókn Ishihara endurgoldin og var tækifærið notað til að ræða efld samskipti ríkjanna við hann og fleiri ráðamenn og talsmenn atvinnulífs í Japan.

Í heimsókninni til Japans ávarpaði undirritaður málþing í Tókýó um möguleika á samstarfi í jarðhitamálum, sem nær 100 þátttakendur sóttu. Þar kom fram mikill áhugi á nýtingu jarðhita og mögulegu samstarfi. Japönsk fyrirtæki framleiða meirihluta af hverflum í jarðhitaverum á heimsvísu og eru framarlega í allri tækni á þessu sviði. Nýting jarðhita til rafmagnsframleiðslu er þó takmörkuð og nær engin til húshitunar. Þar liggja tækifæri fyrir okkur, því hvergi í heiminum er jafn víðtæk og fjölbreytt nýting á jarðhita og á Íslandi. Reynsla okkar þar er verðmæti.

Grálúða, æðardúnn og norðurljós
Viðskiptatækifæri í Japan eru ekki einungis á sviði jarðhita. Japan er annað helsta viðskiptaland Íslands utan Evrópu og þangað fara yfir 2% af útflutningi okkar að verðmæti um 12-15 milljarða króna árlega. Þar ber hæst ýmsar sjávarafurðir, sem eru 80% af útflutningi okkar til Japans, s.s. grálúða, karfi og loðnuafurðir. Líklega hefur engin þjóð ríkari og fjölbreyttari hefðir í matreiðslu sjávarfangs og Japanar og þar er mikil eftirspurn eftir hágæðafiski og hvers kyns sjávarfangi. Eftirspurn eftir íslenskri gæðavöru er þó ekki bundin við sjávarafurðir, því Japan er stærsti markaður fyrir æðardún, sem er seldur þangað fyrir um 300 milljónir króna.

Japanskir ferðamenn koma til Íslands í stórauknum mæli, ekki síst á veturna, meðal annars til að sjá norðurljós. Áhugavert er að reyna að efla enn frekar samgöngur og viðskipti við Japan og kom áhugi Japana á því skýrt fram í heimsókninni. Meðal annars er áhugi á norðursiglingum, en Japan fékk á fyrra ári áheyrnaraðild í Norðurskautsráðinu. Ef siglingaleið opnast yfir norðurpólinn myndi það stytta vöruflutninga milli Yokohama og Rotterdam um 40%. Japan opnar nú í vor fullmannað sendiráð með sendiherra staðsettum í Reykjavík. Teikn um aukin samskipti Íslands og Japans eru því víða á lofti, sem er vel, því þessar tvær eyþjóðir eiga margt sameiginlegt þótt siðir og saga séu ólík og höf og heimsálfur beri í milli.

Jarðhiti – lausn á heimsvísu
Auk tvíhliða samskipta Íslands og Japans er áhugavert að skoða hvort ríkin geti eflt samstarf í umhverfismálum á alþjóðavettvangi, svo sem með að styrkja græn verkefni í þróunarríkjum. Mögulega geta legið tækifæri í samstarfi Japana og Íslendinga við að auka útbreiðslu jarðhitanýtingar þar, enda er víða að finna jarðvarmaver sem byggja á japanskri tækni og íslenskri þekkingu.

Loftslagsvandinn er að langmestu leyti til kominn vegna bruna kola, olíu og gass til orkuframleiðslu. Endurnýjanleg orka er ekki laus við vandamál, en er þó margfalt betri lausn á heimsvísu í ljósi loftslagsváarinnar. Í jarðhitanum liggja gífurleg tækifæri. Sérfræðingur á fyrrnefndu málþingi taldi að e.t.v. væru aðeins um 6% jarðhita á heimsvísu nýtt nú. Þarna getur Ísland beitt sér til góðra verka og ekki er verra ef við getum unnið að þeim í samvinnu við Japan og önnur ríki sem vilja efla veg loftslagsvænnar orku.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. febrúar 2014.)

Categories
Fréttir

Kjördagur sveitarstjórnarkosninga 31. maí auglýstur

Deila grein

27/02/2014

Kjördagur sveitarstjórnarkosninga 31. maí auglýstur

logo-xb-14Innanríkisráðuneytið hefur auglýst formlega kjördag sveitarstjórnarkosninganna í vor og er hann ákveðinn laugardaginn 31. maí næstkomandi. Þá hefur kosningavefur ráðuneytisins, kosning.is, verið uppfærður og verða þar birtar hvers kyns fréttir og tilkynningar er varða kosningarnar. Einnig eru almennar upplýsingar á nokkrum erlendum tungumálum.
Hverjir mega kjósa?
Kosningarétt við sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014 eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi þremur vikum fyrir kjördag, 10. maí 2014.
Einnig eiga kosningarétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag, sem og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, enda hafi þeir náð 18 ára aldri á kjördag og eiga skráð lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi þremur vikum fyrir kjördag, 10. maí 2014.
Íslenskir ríkisborgarar sem stunda nám á hinum Norðurlöndunum, og sem þurft hafa að flytja lögheimili sitt þangað vegna ákvæða samnings Norðurlandanna um almannaskráningu, glata ekki kosningarétti sínum vegna þess.
Helstu dagsetningar:
5. apríl
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar má hefjast hjá kjörstjórum innan lands og utan.

  • Innanríkisráðuneytið auglýsir atkvæðagreiðsluna.
  • Utanríkisráðuneytið auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram erlendis.
  • Kjörstjóri (sýslumaður) á hverjum stað auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram.

10. maí
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hjá kjörstjórum innan lands má hefjast á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, stofnunum fyrir fatlaða, í fangelsum, og í heimahúsum fyrir kjósendur vegna sjúkdóma, fötlunar og barnsburðar.

  • Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal hafa borist kjörstjóra eigi síðar en fjórum dögum fyrir kjördag, þ.e. 27. maí.

10. maí
Framboðsfrestur rennur út.

  • Framboðum skal skila skriflega til hlutaðeigandi yfirkjörstjórna eigi síðar en kl. 12 á hádegi laugardaginn 10. maí.

10. maí
Viðmiðunardagur kjörskrár.
Framboðsfrestur rennur út.
13. maí
Yfirkjörstjórn hvers sveitarfélags auglýsir framkomin framboð.
16. maí
Innanríkisráðuneytið auglýsir, eigi síðar en þennan dag, í Ríkisútvarpi og dagblöðum framlagningu kjörskráa. Í auglýsingunni komi fram að þeir sem vilja koma að athugasemdum við kjörskrá skuli senda þær hlutaðeigandi sveitarstjórn.
22. maí
Sveitarstjórnir skulu leggja kjörskrár fram almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða á öðrum hentugum stað eigi síðar en þennan dag. Kjörskráin skal liggja frammi á almennum skrifstofutíma til kjördags. Leiðréttingar má gera á kjörskrá fram á kjördag.
31. maí
Kjördagur.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Af fundarstjórn forseta

Deila grein

26/02/2014

Af fundarstjórn forseta

Karl GarðarssonKarl Garðarsson fór yfir í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag að síðastliðna tvo sólarhringa, mánudag og þriðjudag, hafi stjórnarandstaðan kvatt sér hljóðs 292 sinnum undir liðnum fundarstjórn forseta í tengslum við umræðuna um ESB og talað í 321 mínútu.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur flutt flestar ræður undir þessum lið eða sextán. Skammt undan eru Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Valgerður Bjarnadóttir hefur reyndar komið mjög sterk inn á síðustu klukkustundum og nálgast topp þrjú.
Karl fór yfir að samkvæmt þingsköpum mætti hver þingmaður koma upp tvisvar sinnum, eina mínútu í senn, til að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Hann sagði að gera yrði þá lágmarkskröfu að þingmenn kæmu upp til að ræða það sem þessi liður snérist um – fundarstjórn forseta.
Miklar deilur hafa verið á Alþingi í vikunni vegna ákvörðunar stjórnvalda um að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert það sem þeir geta til að koma í veg fyrir að utanríkisráðherra nái að mæla fyrir þingsályktunartillögunni í þessari viku en í næstu viku verða ekki þingfundir vegna nefndadaga.
„Eitt stærsta vandamál þingsins er vantraust – vantraust almennings sem hefur fengið nóg af innantómu pexi þingmanna. Það er alltaf stutt í málþófið og það er til skammar,“ sagði Karl Garðarsson.

Categories
Fréttir

Framboðsreglur vegna sveitarstjórnarkosninga

Deila grein

24/02/2014

Framboðsreglur vegna sveitarstjórnarkosninga

logo-framsokn-256x300Framboðsnefnd Framsóknar hefur skilað af sér drögum að framboðsreglum vegna sveitarstjórnarkosninga. Í lögum Framsóknarflokksins segir að reglur um val frambjóðenda til sveitarstjórnarkosninga geti verið af fjórum gerðum: Póstkosning; lokað prófkjör; uppstilling og opið prófkjör.
Landsstjórn ákvað á fundi sínum þann 29. janúar í samræmi við skoðun framboðsnefndarinnar að landsstjórn setji ekki samræmdar reglur heldur verði þetta leiðbeinbandi reglur og til höfð til hliðsjónar við val á framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar. Enda eru allmörg sveitarfélög farin af stað með sína vinnu fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar og sá ferill verður ekki tekin upp.
Við smíði reglna um framboð til sveitarstjórna var byggt á grunni reglna um val á framboðslista til Alþingis, en ákveðið að tillit yrði tekið til sérstöðu sveitarstjórnarkosninga og venja sem hafa skapast í kringum framkvæmd þeirra í gegnum árin hjá flokknum.
Þau drög að reglum við val á framboðslista til sveitarstjórna er hér liggja fyrir leggur nefndin til að viðhaft skuli beint lýðræði við ákvörðun um framboðsleið og endanlega samþykkt framboðslista, þannig fá allir flokksbundnir framsóknarmenn sem eiga lögheimili í sveitarfélagi, þ.m.t. þeir sem hafa skráð sig í flokkinn 30 dögum fyrir valdag, seturétt og atkvæðisrétt á kjördæmaþingi; fulltrúaráðsfundi; félagsfundi.
Þetta leiðir af sér að boða skal alla félagsmenn með lögheimili í sveitarfélaginu til þings/fundar við endanlega samþykkt framboðslistans.
Fram kom mjög skýr krafa á kjördæmisþingunum og á síðasta miðstjórnarfundi að þessar reglur mættu ekki vera of íþyngjandi fyrir fólk. Hér eru fyrst og fremst mjög góðar reglur til stuðnings í störfum við val á framboðslista.
FRAMBOÐSREGLUR TIL SVEITARSTJÓRNAR

Categories
Greinar

Við vorum kosin til að gera breytingar

Deila grein

23/02/2014

Við vorum kosin til að gera breytingar

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSíðustu alþingiskosningar snerust fyrst og fremst um þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera til að koma samfélagi okkar upp úr hjólförunum. Það er vel þekkt staðreynd að í djúpri niðursveiflu felast tækifæri til að ná snöggri uppsveiflu. En á Íslandi varð biðin eftir viðsnúningi löng, enda voru mörg tækifæri vannýtt og árum saman fylgt stefnu sem var síst til þess fallin að ýta undir vinnu, vöxt og velferð. Óþreyjan eftir framförum var því orðin mikil.

Margar þeirra breytinga sem kallað var eftir við kosningar eru gríðarlega stórar og mikilvægar fyrir framtíð Íslands. Þar má meðal annars nefna leiðréttingu á verðtryggðum lánum heimilanna, einföldun skattkerfisins, breytingu á samskiptum Íslands og Evrópusambandsins, bætt viðhorf stjórnvalda til atvinnulífsins, grundvallarbreytingar á fjármálaumhverfinu, m.a. vegna afnáms verðtryggðra neytendalána, skuldaskil þrotabúa gömlu bankanna og afnám fjármagnshafta.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar fengu mjög afdráttarlaus skilaboð í alþingiskosningunum. Þau skilaboð tökum við alvarlega. Við vorum kosin til að gera breytingar. Það erum við að gera og munum gera áfram.

Breytingar mæta iðulega mótspyrnu. Miklar breytingar mæta mikilli mótspyrnu og hún getur tekið á sig ýmsar myndir. Gagnrýni og rökræða eru nauðsynleg í lýðræðissamfélagi. Þegar ráðist er samtímis í margar stórar og afgerandi samfélagslegar breytingar sem skipta máli fyrir afkomu heimilanna, skipan fjármálakerfisins, samskipti okkar við umheiminn og komið í veg fyrir að kröfuhöfum bankanna séu tryggð þau sérkjör sem einhverjir þeirra virðast hafa haft væntingar um, þá þarf ekki að koma á óvart að mótstaðan verði bæði mikil og áköf og gangi jafnvel lengra en talist getur til eðlilegrar gagnrýni.

Breytt stefna kallar alltaf á andstöðu þeirra sem vildu halda óbreyttri stefnu (eða stefnuleysi) og þeirra sem hafa hag af óbreyttu ástandi.

Strax og þessi ríkisstjórn tók við kom í ljós að þær breytingar sem boðaðar voru í kosningum, og ríkisstjórnin var mynduð um, mættu mikilli mótspyrnu. Sú mikla varnarbarátta sem nú er háð gegn hreyfiafli breytinganna, bæði í fjölmiðlum og annars staðar í samfélaginu, hefur ekki farið fram hjá neinum og er skýrt merki þess að breytingarnar séu byrjaðar að skila árangri.

Upp úr hjólförunum

Um allt land sjást þess nú merki að íslenskt samfélag er að vakna af þyrnirósarsvefni áranna eftir bankahrunið. Efnahagslífið er að taka við sér með verulega auknum hagvexti, hvarvetna eru framkvæmdir hafnar eða að hefjast. Merki um framfarir blasa víða við.

Ný þjóðhagsspá Arion banka var kynnt á ráðstefnu í vikunni með yfirskriftinni »komin upp úr hjólförunum«. Í fyrra var yfirskrift sömu ráðstefnu »föst í fyrsta gír« og sést ágætlega á þeirri breytingu að mikið hefur gerst á undanförnu ári.

Hagvöxtur tók stökk á afgerandi og jákvæðan hátt síðastliðið haust, hagvaxtarspá Seðlabankans fyrir næsta ár er nú mun jákvæðari en von var á. Fjárfesting hefur aukist meðal smærri fyrirtækja á árinu og byggingariðnaðurinn er að taka verulega við sér. Talið er að um 2.000 störf bætist við í byggingariðnaði á næstu árum og því er spáð að atvinnuleysi muni lækka niður undir 3% – eða nálægt atvinnuleysistölum í venjulegu árferði á Íslandi. Auk þess er því nú spáð að verðbólga muni fara lækkandi fram eftir árinu sem er sérstaklega mikilvægt vegna þess að brýna nauðsyn ber til að auka kaupmátt heimilanna.

Ekkert lát er á fjölgun erlendra ferðamanna og um allt land er uppbygging á spennandi tækifærum í ferðaþjónustu í fullum gangi. Við þetta bætist að hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum okkar fara nú batnandi, lánshæfi landsins er orðið stöðugt og ýmsar vísbendingar eru um bætt vaxtakjör og meira traust á íslenska ríkinu.

Það er því full ástæða til að gleðjast yfir þeim áberandi jákvæðu breytingum sem hafa orðið á stöðu landsins og aðstæðum í samfélaginu síðastliðið ár.

Ísland er land tækifæranna

Framundan eru stór verkefni og mikilvægar breytingar.

Ein þeirra er afnám fjármagnshafta, sem nú er unnið að með skipulegum hætti. Um er að ræða grundvallarmál sem snertir líf allra landsmanna og komandi kynslóða Íslendinga. Inn í það mál blandast gífurlegir hagsmunir vogunarsjóða sem eiga kröfur í þrotabú föllnu bankanna. Skuldaskil þeirra eru eitt þeirra verkefna sem leysa þarf af kostgæfni og með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í fyrirrúmi, svo að hægt sé að afnema fjármagnshöft. Það kemur ekki til greina af hálfu stjórnvalda að íslenskur almenningur og íslenskt atvinnulíf taki á sig auknar byrðar til að leysa einn hóp úr höftum á meðan aðrir eru skildir eftir með enn stærri vanda. Lausn þarf því að vera til þess fallin að leyfa almenna afléttingu fjármagnshaftanna.

Það er skiljanlegt að þeir sem eiga gífurlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta við uppgjör föllnu bankanna reyni að verja þá hagsmuni með kjafti og klóm. En ríkisstjórnin mun ekki undir nokkrum kringumstæðum fórna langtímahagsmunum komandi kynslóða við skuldaskil fallinna banka. Því er óhætt að treysta.

Það er ástæða til að vera mjög bjartsýnn á framtíð Íslands. Íslendingar hafa á liðnum áratugum oft fengið storminn í fangið en í hvert sinn staðið uppréttir eftir. Þjóðin hefur sýnt að hún er fullfær um að standa gegn hvers konar þrýstingi til að verja framtíðarhagsmuni sína.

Nú, þegar við erum loks komin upp úr hjólförunum, eru landinu allir vegir færir. Þjóðir um allan heim hafa áhuga á Íslandi og líta á Ísland sem land tækifæra. Við eigum að nýta þau tækifæri vel og leggja áherslu á að eiga viðskipti og uppbyggileg samskipti við öll þau lönd sem vilja vinna með okkur á slíkum grundvelli.

Þó að breytingar mæti alltaf mótstöðu, þeim mun meiri mótstöðu eftir því sem hagsmunirnir eru meiri, þá mun ríkisstjórnin hvergi hvika. Við vorum kosin til að gera breytingar og það munum við gera.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar 2014.)

Categories
Fréttir

LFK hvetur konur áfram!

Deila grein

21/02/2014

LFK hvetur konur áfram!

lfkmerkiliturFramkvæmdastjórn LFK hefur samþykkti eftirfarandi ályktun:
„Framkvæmdarstjórn LFK starfar fyrir allar konur í flokknum til að auka veg þeirra til áhrifa í stjórnmálum, en vill ekki skapa fordæmi þess eðlis að taka stöðu í einstökum framboðsmálum. Framkvæmdastjórn LFK fylgist með hlut kvenna innan Framsóknarflokksins og mun hvetja uppstillingarnefndir og kjörnefndir áfram í sinni vinnu við að tryggja hlut kvenna í forystusætum. Hvetur Framkvæmdastjórn LFK konur áfram um allt land til þess að auka hlut kvenna, fylgjast með og vera í sambandi við framkvæmdastjórnina um gang mála. Að lokum vill framkvæmdastjórn LFK taka undir þau skilaboð sem bárust öllum formönnum félaga frá Jafnréttisnefnd flokksins varðandi jöfn kynjahlutföll.“
Categories
Greinar

Gagnaver á Blönduósi

Deila grein

20/02/2014

Gagnaver á Blönduósi

Sigrún MagnúsdóttirAlþingi ályktaði 15. janúar sl að fela stjórnvöldum að koma á samstilltu átaki með sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Jafnframt ber að vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Með þessari ákvörðun Alþingis er stigið stefnumarkandi skref til þess að gagnaver rísi á Blönduósi. Forráðamenn sveitarfélagsins hafa undirbúið málið með því að bjóða fram mjög hentugt landsvæði í eigu sveitarfélagsins og komið því á aðalskipulag. Staðhættir bjóða þar upp á flesta hugsanlega kosti til starfrækslu gagnavers. Þar er mjög vítt og hentugt landrými, orkuflutningur frá Blönduvirkjun mjög öruggur og um skamma leið að fara svo orkutap er lágmarkað. Engin hætta er af eldgosum, jarðskjálftum eða annarri náttúruvá. Þá er veðrátta svo sem ákjósanlegust er, köld en ekki stórviðrasöm. Ljósleiðaratengingar auðveldar, samgöngur greiðar bæði norður og suður. Lítill flugvöllur er á Blönduósi sem með litlum endurbótum gæti greitt enn betur fyrir samgöngum.

Svo háttar til að Landsnet vill leggja nýja orkuflutningslínu frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Gert er ráð fyrir 220 volta línu á möstrum. Íbúar þeirra sveita sem fyrir mestri röskun yrðu eru þessum áformum mjög andvígir. Þegar af þeirri ástæðu er einboðið að nýta fremur orku Blönduvirkjunar á heimaslóð en að standa í stórdeilum við íbúa annarra sveita. Blöndulínu þrjú þarf því ekki að reisa í bráð og sparast við það ríkisfé sem kemur að góðum notum við atvinnuuppbygginguna í Austur-Hún.

Íslendingar hafa varið geipifé til lagningar sæstrengjanna Farice og Danice. Þeir eru mjög vannýttir og rekstur þeirra er mikill baggi. Gagnaflutningar sem verða með tilkomu gagnavers/gagnavera myndu skipta þar sköpum.

Stjórnvöld hafa það á valdi sínu hvar þau kjósa að iðnaðaruppbygging verði sem og hvar iðjuver rísa í landinu og nægir að benda á álver í Reyðarfirði. Því ber stjórnvöldum nú að beita sér af alefli við að laða þá sem fjárfesta vilja í gagnaverum hingað til lands og fá því stað á Blönduósi, öllum til hagsbóta.

 

Sigrún Magnúsdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2014)