Categories
Fréttir

Gunnar Bragi mælir fyrir breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum

Deila grein

18/05/2016

Gunnar Bragi mælir fyrir breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraGunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mælti í dag fyrir breytingum á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum en þessar breytingar eru forsenda nýgerðra búvörusamninga.

Í framsöguræðunni sagði Gunnar Bragi að samningarnir mörkuðu tímamót – þetta væri í fyrsta skipti sem samið er um alla búvörusamninga og búnaðarlagasamning í einu. Það þyrfti að breyta núverandi kerfi, auðvelda nýliðun í stétt bænda og gera stuðningsformin almennari og minna háð einstökum búgreinum til að opna möguleika á nýtingu nýrra tækifæra.

Helstu markmið samninganna væru að stuðla að aukinni framleiðslu búvara og bæta samkeppnishæfni landbúnaðarins og afkomu bænda. Þannig væri tryggt fjölbreytt framboð heilnæmra gæðaafurða á sanngjörnu verði til neytenda og fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar aukið.

Í samningnum eru aukin framlög til aðlögunar að lífrænni framleiðslu og tekinn verður upp stuðningur við mat á gróðurauðlindum, geitfjárrækt, fjárfestingastuðningi í svínarækt og stuðning við framleiðslu skógarafurða. Þá væri mikilsvert að efla landbúnað sem atvinnugrein í dreifðum byggðum og stuðla að sjálfbærri landnýtingu. Á samningstímabilinu er gert ráð fyrir endurskoðun samninganna tvisvar, þ.e. árin 2019 og 2023.

Samningarnir voru undirritaðir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands 19. febrúar sl. af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis.

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is

Categories
Fréttir

Þingflokki Framsóknarmanna færð falleg gjöf

Deila grein

18/05/2016

Þingflokki Framsóknarmanna færð falleg gjöf

Þingflokkur Framsóknarmanna fékk góðan flokksmann í heimsókn í síðustu viku. En Hallgrímur Pétursson, útskurðarmeistari, frá Árhvammi í Suður-Þingeyjasýslu, færði þingflokknum að gjöf íslenska skjaldarmerkið og gjöfinni fylgdu þessi góðu orð:
Að ofan halda um skjöldinn vörð
ógurlegi drekinn og örninn.
Til hliðanna nautið og jötunn á jörð
jöfn er öll landsins vörnin.
 
13151409_10208540873192292_5664611837749132255_nIMG_658013174070_10208540873272294_3988780724892060337_n
 

Categories
Greinar

Stóraukið framboð á leigumarkaði

Deila grein

18/05/2016

Stóraukið framboð á leigumarkaði

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁnægjulegt er að segja frá því að mikil uppbygging er framundan á leigumarkaði. Reyndar er um að ræða eina þá mestu uppbyggingu sem verið hefur frá árinu 1965 eða frá því Breiðholtið var byggt.

Eitt af fyrstu verkum félags – og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, var að skipa Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Stjórnin hafði það verkefni að koma með tillögur að bættu húsnæðisumhverfi á Íslandi, m.a. hvernig ætti að stuðla að uppbyggingu á leigumarkaði. Verkefnastjórnin skilaði af sér og nú hafa verið lögð fram frumvörp þessa efnis. Eitt þeirra er frumvarp um almennar leiguíbúðir sem felur í sér uppbyggingu á 2300 leiguíbúðum. Búið er að mæla fyrir málinu í annarri umræðu í þinginu og innan skamms verður frumvarpið að lögum. Þessar íbúðir sem hér um ræðir verða byggðar með stofnframlagi ríkis og sveitarfélaga og ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum í tveimur lægstu tekjufimmtungunum. Markmið þessara aðgerða er að leiguverð verði ekki hærra en 20 – 25 % af ráðstöfunartekjum þeirra sem í kerfinu búa. Með þessum aðgerðum er stuðlað að félagslegri blöndun innan kerfisins.

Helstu atriðin sem frumvarpið felur í sér eru:

– Uppbygging á 2300 leiguíbúðum.
– Einstaklingar þurfa að tilheyra tveimur lægstu tekjufimmtungunum þegar flutt er inn í kerfið. Ef laun hækka umfram það þá má búa áfram í kerfinu og borga hóflegt álag á leigu.
– Markmið að leigugreiðslur fari ekki yfir 20 – 25% af ráðstöfunartekjum. Þá er miðað við að frumvarp um húsnæðisbætur nái fram að ganga.
– 18% stofnframlag frá ríki og 12% frá sveitarfélögum. Stofnframlag sveitarfélaga geta t.d. verið í formi lóða eða afsláttar af gatnagerðagjöldum.
– Heimilt að veita 6% viðbótarstofnframlag frá ríki og 4% frá sveitarfélögum vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leigu­húsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði á því að fá fjármögnun á al­mennum markaði.
– Heimilt að veita 4% viðbótarstofnframlag til leiguíbúða á vegum sveitarfélaga eða til íbúðarhúsnæðis sem er ætlað námsmönnum eða öryrkjum.
– Sveitarfélög og fyrirtæki geta tekið sig saman og byggt upp leigufélög.

Viltu vera með?
Það er Íbúðarlánasjóður sem mun halda utan um stofnframlög ríkisins og meta umsóknir. Ég hvet sveitarfélög um land allt að kynna sér málið, fá upplýsingar og meta hvort þörf er á og eða áhugi á að taka þátt.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. maí 2016.

 

Categories
Fréttir

Betra eftirlit með ferðaþjónustu

Deila grein

17/05/2016

Betra eftirlit með ferðaþjónustu

Jóhanna María - fyrir vef„Hæstv. forseti. Nú eru aðeins tveir dagar frá því að við ræddum í þessum sal öryggi ferðamanna. Færst hefur í aukana að fyrirtæki hvetji ferðamenn til að ferðast um Ísland yfir vetrartímann á bílum sem hafa jafnvel svefnaðstöðu en eru ekki búnir undir fjallvegi, mikinn snjó eða þá miklu hálku og það veðravíti sem oft verið getur hér á landi. Það er lítið um aðstöðu fyrir þá sem ferðast um á slíkum bílum til að stoppa næturlangt. Fyrir valinu verða því oft afleggjarar, bæði heim að bæjum og inn á tún, og plön, m.a. við útsýnisstaði og á almennum ferðamannastöðum.
Það er mjög alvarlegt að svo virðist sem þessir ferðamenn fái mjög villandi upplýsingar frá þeim sem skipuleggja þessar ferðir. Það kemur oft í hlut hins almenna borgara að þurfa að leiðrétta þann misskilning en stundum þurfa menn að vísa þessu fólki burt af landareign sinni og útskýra fyrir því að ekki megi vaða um eignarland, keyra um tún o.s.frv.
Það snertir öryggi ferðamanna að gefa þeim réttar upplýsingar þegar þeir koma til landsins; gefa þeim upplýsingar um þá aðstöðu sem býðst og útskýra fyrir þeim þau lög sem eiga við. Þetta er dæmi um að við erum að missa yfirsýnina yfir þá miklu ferðamennsku sem orðin er á Íslandi. Rökin með ferðamennsku eins og ég nefni hér, á þessum bílum, hafa verið þau að hótel séu oft uppbókuð, en við þurfum þá að gæta þess að þessir aðilar séu ekki á ferð við aðstæður sem við Íslendingar mundum jafnvel ekki leggja út í.
Ég tel að við þurfum að setja á fót betra eftirlit með þeirri ferðaþjónustu sem verið er að koma af stað og þeirri nýsköpun sem í gangi er. Þó að það sé gott að skapa atvinnu þá megum við ekki leggja líf fólks að veði.“
Jóhanna María Sigmundsdóttir í störfum þingsins 12.05.2016.

Categories
Greinar

Stórt skref til framtíðar

Deila grein

14/05/2016

Stórt skref til framtíðar

Elsa-Lara-mynd01-vefurUppbygging á 2300 leiguíbúðum er rétt handan við hornið en önnur umræða um frumvarp um almennar félagsíbúðir fór fram á Alþingi í vikunni. Þessi mikilvæga uppbygging er því rétt handan við hornið. Þetta er ein sú mesta uppbygging sem verið hefur á leigumarkaði frá árinu 1965 eða þegar Breiðholtið var byggt. Nú er tekið stórt skref til framtíðar með gríðarlegri uppbyggingu og stöðugleika á leigumarkaði. Hér er um að ræða uppbyggingu á kerfi þar sem stuðlað er að félagslegri blöndun íbúanna.

Uppbygging og stöðugleiki
Þessar íbúðir eru ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum í tveimur lægstu tekjufimmtungunum og þurfa því að uppfylla þau skilyrði þegar flutt er inn í kerfið. Markmið aðgerðanna er að leiguverð fari ekki yfir 20 – 25 % af ráðstöfunartekjum. Hins vegar er það svo að ef að tekjur hækka þá er borgað hóflegt álag á leiguna. Það er gert svo hægt sé að búa áfram í húsnæðinu og búa áfram við stöðugleika þrátt fyrir ögn hærri tekjur. En það er afar mikilvægt fyrir alla að hafa öruggt þak yfir höfuðið.

Markmiðið að lækka leiguverð
Uppbygging þessa leigukerfis er að stofnuð verða leigufélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Þar veitir ríkið 18 % stofnframlag, sveitarfélögin 12 % og 70 % eru fjármögnuð í gegnum lánakerfið með lánum til allt að 50 ára. Þessu fyrirkomulagi er ætlað að lækka leigugreiðslur frá núverandi kerfi sem byggist upp á 90 % lánum og vaxtaniðurgreiðslu. Ríkið hefur þó heimild til að veita 4 % viðbótarstofnframlag til leiguíbúða á vegum sveitarfélaga eða til íbúðarhúsnæðis sem er ætlað námsmönnum eða öryrkjum. Þessi heimild er sett inn til að ná markmiði laganna um að leiguverð fari ekki yfir 20 – 25 % af ráðstöfunartekjum.

Litið til byggðarsjónarmiða
Heimilt er að líta til byggðarsjónarmiða við mat á umsóknum um stofnframlög. Það gæti t.d. átt við ef skortur á leigu­húsnæði stæði atvinnuuppbyggingu í byggðarlagi fyrir þrifum.  Einnig er heimild til viðbótarstofnframlags, 6 % frá ríki og 4 % frá sveitarfélögum vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leigu­húsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði á því að fá fjármögnun á al­mennum markaði. Auk þessa er heimilt fyrir sveitarfélög til að byggja upp leigufélög í samstarfi við aðra, t.d. fyrirtæki.

Viltu vera með?
Það er Íbúðarlánasjóður sem mun halda utan um stofnframlög ríkisins og meta umsóknir. Ég hvet sveitarfélög um land allt að kynna sér málið, fá upplýsingar og meta hvort þörf er á og eða áhugi á að taka þátt.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á www.huni.is 14. maí 2016.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi og Lilja Dögg á leiðtogafundi Norður­land­anna og Banda­ríkj­anna

Deila grein

14/05/2016

Sigurður Ingi og Lilja Dögg á leiðtogafundi Norður­land­anna og Banda­ríkj­anna

Sigurður Ingi JóhannssonSig­urður Ingi Jó­hanns­son for­sæt­is­ráðherra og Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra sátu í dag leiðtoga­fund Norður­land­anna og Banda­ríkj­anna í Hvíta hús­inu í boði Baracks Obama for­seta Banda­ríkj­anna.

Categories
Fréttir

Lilja ávarpar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

Deila grein

12/05/2016

Lilja ávarpar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

Lilja Dögg Alfreðsdóttir-sþLilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra ávarpaði í dag öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, en haldinn var opinn fundur í ráðinu um öfgahyggju og hryðjuverk. Í máli sínu lagði ráðherra áherslu á samvinnu og heildstæða nálgun í baráttunni gegn öfgaöflum. Sagði ráðherra engar einfaldar lausnir í boði, en mikilvægt væri að ráðast að rótum vandans. „Ég benti ennfremur sérstaklega á samfélagsmiðla sem hryðjuverkasamtök á borð við ISIL notast við, en Youtube hefur t.a.m. lokað 14 milljón myndbanda á síðustu tveimur árum og Twitter lokað fyrir rúmlega 2000 áskrifta á síðustu mánuðum sem rekja má til samtakanna,” segir Lilja.
Utanríkisráðherra átti fund með Jan Eliasson, varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og voru jafnréttismál, loftslagsmál, umbætur á starfsemi stofnunarinnar og tilnefning nýs framkvæmdastjóra, sem nú er í ferli, meðal annars til umfjöllunar. Á fundi með Lakshmi Puri, varaframkvæmdastjóra UN Women, áréttaði Lilja áframhaldandi stuðning Íslands við stofnunina, en Ísland er meðal helstu framlagaríkja UN Women og er stofnunin meðal fjögurra helstu samstarfsaðila á sviði þróunarsamvinnu. Þá átti ráðherra fund með Richard Wright, yfirmanni svæðisskrifstofu Palestínuflóttamannaaðstoðar SÞ, UNRWA, í New York, og fékk kynningu á starfsemi stofnunarinnar sem Ísland hefur stutt við bakið á en hún starfar m.a. í Jórdaníu, Líbanon, á Gaza og Vesturbakkanum.
Lilja flutti einnig lokaorð á málþingi um mikilvægi þátttöku kvenna í friðarviðræðum og sáttaumleitunum, en Norðurlöndin hafa hrundið af stað átaki um að fjölga konumsem taka virkan þátt í friðarviðræðum og uppbyggingu á alþjóðavettangi og styrkja stöðu kvenna meðal sáttasemjara í stríðshrjáðum löndum. Sagði Lilja konur ekki einungis eiga skýlausan rétt á að taka þátt í friðarumleitunum sem helmingur mannkyns, heldur hefðu þær mikilsverða þekkingu og hæfni fram að færa. Einnig sagði ráðherra mikilvægt að brjóta niður múra í jafnréttisbaráttunni og fá karlmenn til að taka þátt í umræðunni um jafnan hlut kynja, en Ísland hefur á undanliðnum mánuðum staðið fyrir svokölluðum Rakarastofuráðstefnum hjá Sameinuðu þjóðunum og Atlantshafsbandalaginu í því augnamiði.
„Tölurnar tala sínu máli. Á síðustu tveimur áratugum hafa konur einungis skrifað undir 4% friðarsamninga og konur leitt samningaviðræður í 9% tilvika. Hér virðist dropinn ekki hola steininn. Sérstaka hugarfarsbreytingu þarf til og ég bind vonir við að átak Norðurlandanna beri árangur”, segir Lilja.
Ræða utanríkisráðherra í öryggisráði SÞ

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Greinar

Vinnumálastofnun virkjar hæfileikana – alla hæfileikana

Deila grein

12/05/2016

Vinnumálastofnun virkjar hæfileikana – alla hæfileikana

Eygló HarðardóttirÁkvörðun um að færa ábyrgð á atvinnumálum fatlaðs fólks til Vinnumálastofnunar um síðustu áramót markaði tímamót. Með þessu var settur lokapunktur við langt ferli og umræður um fyrirkomulag þessara mála. Allir landsmenn ganga nú um sömu dyr þegar óskað er aðstoðar við atvinnuleit. Þetta er góð niðurstaða í anda jafnræðis og áherslunnar á eitt samfélag fyrir alla.

Vinnumálastofnun og sveitarfélögin deila ábyrgðinni í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks. Vinnumálastofnun tekur við umsóknum um vinnumarkaðsaðgerðir fyrir fatlað fólk, þar með talin er vernduð vinna og hæfing, og sérfræðingar stofnunarinnar leggja mat á vinnufærni og þjónustuþörf umsækjenda. Sveitarfélögin aftur á móti fjármagna og reka vinnumarkaðsúrræðin og bera ábyrgð á áframhaldandi uppbyggingu vinnu- og hæfingarstöðva.

Það er mikilvægt að fjölga tækifærum fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði. Til þess þarf útsjónarsemi, víðtækt samráð og aukinn skilning á því að fjölbreytni er styrkur hvers samfélags og það gildir líka um vinnumarkaðinn. Það þarf að horfa á styrkleika hvers og eins og virkja hæfileika allra.
Vinnumálastofnun leggur áherslu á að veita faglega þjónustu í samræmi við þarfir umsækjenda og beita aðferðum sem vel hafa gefist í þjónustu við fatlað fólk samhliða því að skapa og þróa nýjar leiðir og lausnir sem greiða götu fatlaðs fólks út í atvinnulífið. Ég veit að stofnunin axlar þetta verkefni með sóma.

Það eiga allir að fá séns!
Árið 2015 var efnt til átaksverkefnisins »Virkjum hæfileikana, alla hæfileikana« sem skilaði fjölmörgum störfum um allt land, skapaði mikilvæg tengsl milli aðila og jók skilning og þekkingu á þeim starfskröftum og tækifærum sem hægt er að virkja í samfélaginu.

Í dag eru um 1.200 fatlaðir einstaklingar í vinnu og virkni hjá vinnu- og hæfingarstöðvum á landinu. Flestar stöðvanna eru reknar af sveitarfélögum, aðrar af félagasamtökum eða einkaaðilum samkvæmt þjónustusamningum við sveitarfélög eða Vinnumálastofnun.

Um 800 vinnusamningar öryrkja eru í gildi en Vinnumálastofnun tók við umsjón þeirra frá Tryggingastofnun ríkisins um síðustu áramót. Flest fatlað fólk á vinnumarkaði er með slíkan samning en einnig margt fólk með skerta starfsgetu þótt það sé ekki með fötlunargreiningu.

Ársfundur Vinnumálastofnunar er í dag. Yfirskrift fundarins er »Eiga allir séns? Fjölbreytileiki á vinnumarkaði.« Það er því miður ekki þannig í dag að allir eigi séns, en engu að síður stefnum við í rétta átt og augu samfélagsins eru hægt en örugglega að opnast fyrir því að fjölbreytileikinn er styrkur og að víða leynast hæfileikar sem geta blómstrað fái þeir svolítinn áburð og gott atlæti.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. maí 2016.

Categories
Greinar

Upplýsingar um eignir og skattgreiðslur

Deila grein

11/05/2016

Upplýsingar um eignir og skattgreiðslur

Sigmundur-davíðUndangengin ár hefur það verið viðtekin krafa að stjórnmálamenn geri gein fyrir eigum sínum og ýmsir telja að eðlilegt sé að einnig sé gerð grein fyrir skuldum. Færa má sterk rök fyrir því. Það er ekki jafn augljóst að gera eigi kröfu um að stjórnmálamenn birti upplýsingar um fjármál fjölskyldu sinnar. Ég hef þó lýst mig reiðubúinn til þess að birta slík gögn ef aðrir forystumenn í stjórnmálum gerðu slíkt hið sama.

Ekki er að sjá að félagar mínir á Alþingi telji ástæðu til að birta upplýsingar um fjármál maka sinna en örfáir hafa að undanförnu birt takmarkaðar upplýsingar um eigin fjármál umfram það sem hagsmunaskráning þingmanna gerir ráð fyrir.  Engu að síður hef ég ákveðið, að veittu samþykki eiginkonu minnar, að birta nú ítarlegar upplýsingar um eignir og skattgreiðslur okkar hjóna  um áratug aftur í tímann.

Þær persónuupplýsingar sem hér eru birtar  eru langt umfram það sem ég hefði nokkurn tímann átt von á að verða krafinn um.

Mér telst til að þær upplýsingar sem hér fylgja séu þær ítarlegustu sem nokkur íslenskur stjórnmálamaður hefur veitt  um eigin fjármál eða fjölskyldu sinnar. Ég hvet aðra kjörna fulltrúa til að gera slíkt hið sama, einkum þá sem hafa haft frumkvæði að því að gera fjármál annarra að pólitísku bitbeini hvort sem þeir ætla að bjóða sig áfram fram til opinberra starfa eða ekki.

Ég  ítreka að eftirfarandi upplýsingar eru að sjálfsögðu birtar með leyfi Önnu, eiginkonu minnar.

 

Vakin er athygli á eftirfarandi atriðum :

1. Erlendu félagi Önnu  hefur aldrei verið leynt og eignir aldrei verið í skattaskjóli. Gerð er grein fyrir félaginu, skráningarlandi þess og öllum eignum á skattframtali.

2. Félagið eða skráningarland þess eru ekki notuð til að draga úr skattbyrði. Anna hefur ætíð greitt fullan skatt af eignum sínum og tekjum í samræmi við íslensk lög.

3. Við framtalsgerð hefur verið horft í gegnum félagið eins og það hafi aldrei verið til og eignir þess skráðar sem bein eign Önnu frá því ári áður en svo kallaðar CFC-reglur tóku gildi. Sú varfærna leið að greiða skatta af öllum eignum, hverri fyrir sig, í stað þess að nýta félagið og líta á það sem fyrirtæki í atvinnurekstri (og skila CFC-framtali) hefur skilað sér íhærri skattgreiðslum til ríkisins en ef stuðst hefði verið við atvinnurekstrar-/CFC-leiðina. Sú leið myndi auk þess þýða að komast mætti hjá skattgreiðslum næstu árin vegna uppsafnaðs taps.

4. Anna nýtti ekki tækifæri til að fresta skattlagningu söluhagnaðar þegar hún seldi hlut sinn í fjölskyldufyrirtækinu.

5. Hjálögð gögn sýna að á umræddu tímabili námu skattgreiðslur okkar hjóna tæpum 300 milljónum króna. Reiknað til núvirðis má áætla að skattgreiðslur af eignum eiginkonu minnar nemi hátt í 400 milljónum.

6. Leiðrétting umsýslufélags á skráðu eignarhaldi 31. desember 2009 breytir engu um skattgreiðslur vegna Wintris.

7. Á yfirlitinu má sjá að Anna hefur ekki hagnast á því að geyma fjármagn sitt erlendis eins og hún hefur gert til að forðast árekstra við stjórnmálastörf mín. Ljóst má vera að hún hefði  hagnast á því að geyma peninga í verðtryggðum íslenskum hávaxtakrónum eða íslenskum hlutabréfum.

8. Skattayfirvöld hafa aldrei gert athugasemd við með hvaða hætti talið er fram. Eins og sjá má í töflu 5 í hjálögðum gögnum hefur sú leið sem farin var við framtalsgerð enda skilað ríkissjóði hærri skattgreiðslum heldur en ef gert hefði verið upp eins og um félag í atvinnurekstri væri um að ræða, þ.e. hin svokallaða CFC-leið.

 

Hér að neðan fylgir yfirlit um skattgreiðslur tekið saman fyrir okkur af KPMG sem haldið hefur utan um skattskil okkar hjóna allan þann tíma sem um ræðir:

Eignarhlutur í Wintris Inc. hefur verið skráður til eignar í skattframtölum á kaupverði, 337.995 kr., frá því hann komst í eigu Önnu árið 2008.

Verðbréf sem skráð hafa verið sem eign Wintris Inc. hafa verið færð á skattframtöl Önnu og sameiginleg skattframtöl frá því ASP og SDG voru fyrst samsköttuð með sama hætti og hún hefði átt verðbréfin beint. Tekjur af verðbréfunum hafa verið færðar til tekna á skattframtölin með sama hætti og ef Anna hefði átt verðbréfin beint. Við framtalsgerðina hefur því verið horft í gegnum Wintris Inc. eins og félagið hafi aldrei verið til.

Skattframtalsgerðin hefur byggt á þeirri meginforsendu að starfsemi Wintris Inc. hafi ekki verið atvinnustarfsemi, enda um að ræða verðbréfaeign, í vörslu og fjárstýringu banka, og tekjur af verðbréfunum. Því hefur ekki verið skilað svokölluðum CFC-framtölum, sem ætluð eru vegna eignarhalds á atvinnustarfsemi í lágskattaríkjum.

Í yfirliti um skattstofna og skattgreiðslur er meðal annars sýnt hverjar skattgreiðslur hefðu orðið ef starfsemi Wintris Inc. hefði verið talin atvinnustarfsemi.

Það hefði ekki haft áhrif á auðlegðarskattsstofn, hvort starfsemi Wintris Inc. hefði verið talin atvinnustarfsemi eða ekki.

 

Tafla 1

 

Tafla 2

 

Tafla 3

 

Tafla 4

 

Tafla 5

 

Tafla 6

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist á www.sigmundurdavid.is 11. maí 2016.

Categories
Greinar

Breytt greiðslufyrirkomulag fyrir þjónustu á hjúkrunarheimilum

Deila grein

11/05/2016

Breytt greiðslufyrirkomulag fyrir þjónustu á hjúkrunarheimilum

Eygló HarðardóttirGreiðsluþátttaka íbúa í dvalar- og hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimilum hefur lengi verið gagnrýnd og þess krafist að sjálfræði aldraðra yrði virt og hið svokallaða vasapeningakerfi afnumið. Núgildandi greiðslufyrirkomulag byggist á greiðslu daggjalda til hjúkrunarheimila úr ríkissjóði. Jafnframt greiða einstaklingar sem eru með tekjur yfir 82 þúsund krónum á mánuði eftir skatt, allt að 380 þúsund krónur á mánuði til heimilisins. Lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar til íbúa á hjúkrunarheimilum falla jafnframt niður en þeir fá í dag lágmarksgreiðslur, eða svokallaða „vasapeninga“ sem eru tæplega 60 þúsund krónur á mánuði.

Rætt hefur verið um að breyta kerfinu þannig að íbúar á hjúkrunarheimilum greiði milliliðalaust fyrir almenna þjónustu, þ.e. fyrir mat, þrif, þvott, tómstundastarf og húsaleigu. Um heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. lyf og aðra umönnun myndu gilda almennar reglur. Er þetta í samræmi við fyrirkomulag sem tíðkast t.d. í Danmörku. Húsaleiga tæki mið af stærð og gæðum húsnæðisins en einnig af tekju- og eignastöðu einstaklinganna. Fólk ætti jafnframt rétt á húsnæðisbótum.

Á fjárlögum 2016 er gert ráð fyrir 27,9 milljörðum króna í rekstur hjúkrunarheimila. Áætlað er að greiðslur vistmanna nemi 1,3 milljörðum króna. Þar fyrir utan er kostnaður vegna byggingar nýrra heimila en í nýrri ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir 4,7 milljörðum króna framlagi úr ríkissjóði og Framkvæmdasjóði aldraðra til þriggja nýrra hjúkrunarheimila á næstu fimm árum. Verkefnið er stórt og mikilvægt. Virða verður sjálfræði aldraðra og gæta jafnræðis á milli þeirra sem búa heima og þeirra sem fara á hjúkrunarheimili. Jafnframt þarf að fara vel yfir kosti og galla núverandi fyrirkomulags og hugmynda um breytt kerfi.

Því hef ég, að höfðu samráði við heilbrigðisráðherra, skipað starfshóp til að gera nánari tillögur um breytt greiðslufyrirkomulag. Komið verði á sérstöku tilraunaverkefni í samvinnu við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili. Hópurinn er skipaður fulltrúum frá Landssambandi eldri borgara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands og fulltrúum ráðuneytisins.

Eygló Harðardóttir

Grein birtist í Fréttablaðinu 11. maí 2016.