Categories
Greinar

Róttæk en ábyrg stjórnmál skila árangri

Deila grein

29/10/2016

Róttæk en ábyrg stjórnmál skila árangri

lilja____vef_500x500Rétt eins og metnaðarfullt fólk, fyrirtæki og félög vilja metnaðarfull samfélög sífellt bæta sig. Ísland er slíkt samfélag, sem þjóðin hefur mótað með dugnaði, framfaratrú og metnaði.

Samkvæmt mælikvörðum alþjóðastofnana af ýmsu tagi er Ísland í fremstu röð, í samanburði við önnur samfélög. Þar viljum við vissulega vera, en föllum vonandi aldrei í þá gryfju að halda að öll samfélagsverkefni hafi verið leyst. Við viljum gera betur og halda áfram að bæta líf hvert annars. Við viljum nýta svigrúmið sem skapast hefur á undanförnum árum til að færa ýmislegt til betri vegar; huga betur að öldruðum, bæta heilbrigðisþjónustu og styrkja innviðina.

Í þeirri vinnu eigum við að horfa til þess sem vel hefur tekist. Styðjast við aðferðir sem hafa virkað, en ávallt leita að skapandi lausnum. Þannig vill Framsóknarflokkurinn vinna eins og nýleg dæmi sanna. Við erum í senn róttækur flokkur og ábyrgur flokkur, með skýra sýn á hvernig við bætum samfélagið og efnahagslífið. Við hikum ekki við að fara óhefðbundnar leiðir og fáum til liðs við okkur færustu sérfræðinga hverju sinni, í stað þess að þykjast vita allt best sjálf. Þannig hefur okkur tekist að leysa flókin verkefni og þannig munum við áfram ná árangri fyrir Ísland.

Vinna, vöxtur, velferð
Við trúum því, að fjölbreytt atvinnulíf og útflutningur á vörum og þjónustu sé forsenda velferðar í landinu. Við viljum veg allra atvinnugreina sem mestan, en fögnum sérstaklega þeim ótrúlega árangri sem náðst hefur á sviði nýsköpunar og skapandi greina. Við viljum skapa verðmæt störf og tryggja að menntakerfið standist samanburð við það sem best gerist í heiminum. Við viljum bæta kjör meðaltekjufólks, lækka tekjuskatt og einfalda skattkerfið. Við viljum stuðla að góðri heilsu þjóðarinnar og byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á aðgengilegum stað.

Hagsmunir Íslands í öndvegi
Framsóknarflokkurinn hefur farið með utanríkismál í fimmtán ár af síðasta 21 ári. Markmiðið hefur allan þann tíma verið skýrt: að tryggja hagsmuni Íslands og stuðla þannig að velsæld heima fyrir. Við viljum eiga góð samskipti við aðrar þjóðir, en halda sjálfstæði okkar. Við viljum eiga gagnkvæm viðskipti við aðrar þjóðir og skapa gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Við höfum trú á Íslandi. Við vitum að efnahagsstjórn í fámennu landi er krefjandi, en reynslan sýnir að árangurinn getur verið góður. Við trúum á dugnað, fagmennsku og elju, en ekki töfralausnir. Við trúum því að vextir geti lækkað með ábyrgri hagstjórn.

Við stöndum á krossgötum
Með skýrri sýn og markvissri stefnu hefur orðið alger viðsnúningur á Íslandi á síðustu árum undir forystu Framsóknarflokksins. Orð og efndir hafa farið saman og fyrir vikið stöndum við á traustum grunni til að bæta samfélagið enn frekar. Framtíð Íslands er björt ef rétt er á málum haldið.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. október 2016.

Categories
Greinar

Tryggjum stöðugleika

Deila grein

28/10/2016

Tryggjum stöðugleika

160218-Sigurður Ingi JóhannssonUndanfarin ár hafa verið viðburðarík. Margt hefur breyst til hins betra í samfélaginu vegna víðtækra aðgerða sem ráðist var í á kjörtímabilinu, heimilum og þjóð til heilla. Þar fóru saman orð og efndir. Ber þar hæst Leiðréttinguna, afléttingu hafta og uppgjör slitabúa fallinna banka. Allt mál sem skiptu gríðarlegu máli fyrir velferð þjóðarinnar. Má fullyrða að efnahagslegt sjálfstæði okkar hafi verið endurheimt; við stóðum fast á rétti okkur þótt hart hafi verið að okkur sótt. Til þess þurfti kjark og óhefðbundnar leiðir.

Framsóknarmenn hræðast ekki að taka á erfiðum málum. Við setjum okkur skýr markmið og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að ná í áfangastað. Framsóknarflokkurinn fagnar nú 100 ára afmæli en markmið hans hefur alltaf verið það sama; að bæta lífskjör allra sem hér búa.

Lægri skatta á meðaltekjur
Nú taka við ný verkefni. Við þurfum að efla enn frekar mátt hins almenna launamanns með því að lækka skatta á meðaltekjur. Við þurfum að endurskoða peningamálastefnuna því vextir eru of háir á Íslandi. Þeir voru háir í aðdraganda bankahrunsins, rétt eftir það og eru enn. Þessi tvö mál munu skila heimilum og atvinnulífi miklum ávinningi.
En til þess að koma þeim á rekspöl þurfum við að halda áfram á braut framfara og ábyrgrar stjórnunar í efnahagsmálum og með því tryggja stöðugleika. Það gengur vel og nú er ekki rétti tíminn fyrir kollsteypu. Val kjósenda stendur um áframhaldandi trausta efnahagsstjórn og kraftmikið atvinnulíf öllum til heilla, eða endurnýjaða vinstri stjórn með stuðningi Pírata.

Manngildi ofar auðgildi
Fyrsta hreina vinstri stjórnin klauf þjóðina í herðar niður með umsókn að Evrópusambandinu og margt bendir til þess að nú eigi að endurtaka þann leik. Manngildi ofar auðgildi er leiðarstef Framsóknarflokksins. Því verður haldið til haga. Ég hvet kjósendur til að kjósa með sínum hagsmunum.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. október 2016.

Categories
Greinar

Ísland ljóstengt

Deila grein

27/10/2016

Ísland ljóstengt

einar-freyr-elinarsonLjóstenging allra landssvæða hefur verið eitt af áhersluatriðum í stefnu Framsóknarflokksins um árabil.

Gott fjarskiptanet um land allt er hornsteinn nútímasamfélags og styrkir samkeppnisstöðu landsins. Útbreiðsla góðra nettenginga er því ein af meginforsendum ákvörðunar um búsetu og hefur því verulega áhrif á þróun byggðar. Framsóknarflokkurinn vill byggja upp fjölbreytt atvinnulíf um land allt, og þar spilar ferðaþjónustan stórt hlutverk. Stór og smá fyrirtæki þurfa að geta treyst á góða nettengingu og síðast en ekki síst, hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni.

Auka fjármuni til verkefnsins
Á liðnu kjörtímabili var farið í landsátak, undir forystu Framsóknarflokksins, um uppbyggingu ljósleiðaranets sem ber heitið „Íslands ljóstengt“. Markmið verkefnsins var að gera áætlun um að ljóstengja allt landið. Starfshópurinn lauk sínu starfi í vor og kynnti verkefnið. Á fjárlögum 2016 var gert ráð fyrir 500 milljónum til verkefnisins á árinu. Þeir fjármunir eru ekki nægir ef við ætlum að ná markmiðum okkar að ljóstengja allt landið, innan fárra ára. Við verðum að bæta fjármunum í þetta verkefni svo við náum að ljúka því sem fyrst. Miklir hagsmunir eru í húfi.

Fámennari svæði
Huga þarf sérstaklega að þeim svæðum þar sem kostnaður við tengingar er mun dýrari en í þéttbýli m.a. vegna landfræðilegra aðstæðna, dreifbýlis og fámennis. Í því skyni þarf að auka fjármagn í verkefnasjóðinn „Ísland ljóstengt“ og koma þannig í veg fyrir að slík svæði dragist aftur úr. Einnig þarf að hraða uppbyggingu farsímakerfa. Svæði sem enn eru langt á eftir í fjarskiptum skulu vera í forgangi uppbyggingar.

Tækifæri fyrir unga fólkið
Til þess að samfélög þrífist verður að eiga sér stað nýliðun og til þess að ungt fólk vilji setjast að vítt og breitt um landið þurfa innviðir og þjónusta að vera í takt við samtímann. Ungt fólk vill geta stundað fjarnám, til þess þarf nettengingu. Ungt fólk vill hafa fjölbreytta starfsmöguleika, þeir aukast gríðarlega með góðri nettengingu. Ungt fólk vill búa í dreifbýlinu og byggja upp fyrirtæki, til þess þarf net og aðgang að þrífösuðu rafmagni.

Framsóknarflokkurinn vill halda áfram að beita sér í þessum þjóðþrifamálum.

Framsókn fyrir fólkið. X-B.

Einar Freyr Elínarson skipar 4.sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

Birtist á sunnlenska.is þann 27. október 2016.

Categories
Greinar

Vinátta í verki

Deila grein

27/10/2016

Vinátta í verki

Tuttugu og fimm ár eru í dag liðin frá sögulegum fundi í Reykjavík, þar sem stjórnmálasamband Íslands við Eystrasaltsríkin var formlega skjalfest. Fáeinum dögum áður hafði Ísland orðið fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháens eftir að löndin höfðu sagt sig úr sambandi Sovétríkjanna. Athöfnin fór fram í Höfða, þar sem leiðtogar stórveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, höfðu setið fimm árum fyrr og lagt grunninn að endalokum kalda stríðsins. Þetta voru tímar sögulegra umbreytinga.

Endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna átti sér nokkurn aðdraganda, samhliða því sem innviðir Sovétríkjanna veiktust. Vilji íbúa við Eystrasalt var ótvíræður eins og sást þegar tvær milljónir manna tókust í hendur og mynduðu nærri 700 kílómetra langa keðju milli höfuðborganna þriggja, Tallinn, Riga og Vilnius – tákn um órofa samstöðu – í ágúst 1989. Íslenskir ráðamenn fylgdust náið með þróuninni og ræktuðu vel tengslin við löndin þrjú. Þegar þjóðirnar lýstu yfir sjálfstæði hver á eftir annarri haustið 1991 stóð Ísland þétt við bakið á þeim og ævarandi vinátta var innsigluð.

Eystrasaltsríkjunum hefur vegnað vel. Öll breyttu hagskipan sinni, úr miðstýrðum áætlunarbúskap í átt að markaðsbúskap með sterk tengsl við Norðurlöndin og hafa á skömmum tíma skapað umtalsverða hagsæld. Þjóðartekjur á mann hafa aukist mikið, tekjudreifing er nokkuð jöfn, aðhald í ríkisfjármálum er mikið og skilyrði til fjárfestinga góð. Umskiptin eru til vitnis um mikilvægi þess, að ríki ráði sínum örlögum sjálf.

Samband Íslands við Eistland, Lettland og Litháen er einstakt. Í höfuðborgum landanna þriggja eru margar götur og torg kennd við Ísland og á vettvangi stjórnmálanna störfum við vel saman, til dæmis innan Atlantshafsbandalagsins og Eystrasaltsráðsins þar sem Ísland fer nú með forystu. Ríkin eru öll aðilar að NB8, samstarfsvettvangi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, og raunar vill svo til að í dag funda utanríkisráðherrar landanna átta í Riga í Lettlandi. Þótt málefni líðandi stundar verði þar til umræðu er ljóst að dagurinn gefur tilefni til að horfa um öxl og fagna þeim árangri sem hefur náðst.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. ágúst 2016.

Categories
Greinar

Forgangsmál – staða eldri borgara

Deila grein

27/10/2016

Forgangsmál – staða eldri borgara

lilja____vef_500x500Málefni aldraðra standa upp úr í þessari kosningabaráttu. Ég hef farið víða í kosningabaráttunni, gengið í hús í Breiðholtinu og fundað út um allan bæ. Málefni eldri borgara koma upp í nánast öllum samtölum. Hvort sem það tengist lífeyrismálum, húsnæðismálum eða heilbrigðisþjónustu. Frásagnir fjölda fólks hafa komið við mig. Það hefur opnað augu mín enn frekar fyrir því að stærsta mál þessara kosninga eru þeir málaflokkar sem snúa að öldruðum.

Eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að leiðrétta þá skerðingu sem eldri borgarar höfðu orðið fyrir. Lífeyrisréttindi hafa einnig verið aukin og margt hefur áunnist á kjörtímabilinu. Þessar breytingar sem kynntar voru nýverið leiða til mikillar hækkunar á bótum almannatrygginga á næstu tveimur árum. Til dæmis munu bætur eldri borgara sem býr einn og hefur engar aðrar tekjur hækka um 22% á næstu tveimur árum. Hins vegar er það svo að fjöldi fólks býr við bág kjör og kvíðir framtíðinni. Þetta er sorglegt og sér í lagi þar sem þetta er fólkið sem hefur byggt landið okkar upp og veitt okkur þeim sem yngri eru tækifæri sem þau gátu ekki látið sig dreyma um.

Á þessu kjörtímabili voru stóru málin leiðrétting húsnæðislána og losun fjármagnshafta. Í báðum tilfellum var lagt upp með vel skilgreind markmið og áætlun teiknuð upp um hvernig væri hægt að ná þeim. Ég legg til að sama aðferðafræði verði viðhöfð til að ná mun betur utan um stöðu eldri borgara. Ég legg til að okkar helstu sérfræðingar í þessum málaflokki verði kallaðir til verks með það að markmiði að bæta stöðu eldri borgara. Í fyrsta lagi þarf að auka kaupmátt þeirra sem verst standa, í öðru lagi þarf að fara með skipulegri hætti í húsnæðismál aldraðra, og í þriðja lagi þarf að halda áfram að auka fé í hjúkrunarrými. Allt þetta er gerlegt ef viljinn er fyrir hendi. Ég hef viljann og mun beita mér fyrir því á næsta kjörtímabili, að þessi mál fái þá athygli sem nauðsynleg er.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. október 2016.

Categories
Greinar

Er eitthvað að óttast við faglegt mat?

Deila grein

27/10/2016

Er eitthvað að óttast við faglegt mat?

lilja____vef_500x500Meirihluti Íslendinga vill að nýtt þjóðarsjúkrahús verði byggt á besta stað, þar sem aðgengi er gott og framkvæmdir trufla ekki sjúklinga, starfsfólk og íbúa. Af því má leiða að meirihluti landsmanna vilji hlífa sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki við ærandi hávaða frá loftpressum, jarðvegssprengingum, umferð steypubíla og annarra stórvirkra vinnutækja. Að meirihluti þjóðarinnar vilji vissu fyrir því, að faglegar forsendur liggi til grundvallar ákvörðun um staðsetningu þjóðarsjúkrahússins.
Þótt fyrirhuguð framkvæmd sé ein sú stærsta sem Íslendingar hafa tekist á hendur eru forsendur fyrir núverandi staðarvali hæpnar. Raunar hefur aldrei farið fram ítarlegt faglegt mat á öðrum kostum en spítalalóðinni við Hringbraut og lóð Borgarspítalans við Fossvog. Upphaflega þótti síðarnefndi kosturinn langtum betri en síðar varð Hringbrautin ofan á, enda væri þá ráðist í miklar skipulags- og vegaframkvæmdir til að tryggja gott aðgengi að spítalanum. Nú er ljóst að þær framkvæmdir verða ekki að veruleika. Aðrar mikilvægar forsendur hafa líka breyst, t.d. spár um fjölda þeirra sem þurfa þjónustu. Þá bendir ýmislegt til að Alþingi hafi ekki fengið trúverðugar áætlanir um alla verkþætti og því þurfi að yfirfara fjárhagsáætlanir sem liggja til grundvallar verkefninu. Samt er því haldið til streitu, að framtíðarsjúkrahús þjóðarinnar skuli staðsett í þéttri íbúabyggð í miðborg Reykjavíkur og hvergi annars staðar.
Ofsafengin viðbrögð
Óskin um faglega úttekt á bestu mögulegu staðsetningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús hefur kallað fram mjög sterk viðbrögð hjá hagsmunaaðilum sem vilja lagfæra gamla Landspítalann við Hringbraut, byggja fjölda nýbygginga og tengja sjúkrahúsþyrpingu í miðbænum saman með flóknu neti tengibygginga og undirganga. Tólf síðna kynningarrit var sent með Fréttablaðinu inn á heimili landsmanna í vikunni, á kostnað hins opinbera, og í Morgunblaði gærdagsins bregst Þorkell Sigurlaugsson, varaformaður landssamtakanna Spítalinn okkar, harkalega við óskum um faglega úttekt á málinu. Viðbrögðin komu reyndar ekki á óvart, því hugmyndum um faglega nálgun hefur ítrekað verið mætt af mikilli hörku og þeir gjarnan taldir skemmdarvargar sem vilja skoða málið.
Okkar hugmynd er einföld: Að hópur færustu erlendra og óháðra sérfræðinga geri faglega úttekt og skili stjórnvöldum tillögum að staðarvali fyrir 30. apríl 2017. Á meðan haldi framkvæmdir áfram við Hringbraut samkvæmt áætlun, enda geti þær sannarlega nýst þótt framtíðarsjúkrahúsinu verði fundinn annar staður. Ef Hringbraut verður metinn heppilegasti staðurinn hafa engar tafir orðið á framkvæmdum. Ef ekki getum við afstýrt hroðalegum og dýrum mistökum. Vandséð er að opnun nýs sjúkrahúss myndi tefjast, þar sem framkvæmdir á opnu og aðgengilegu svæði eru bæði fljótlegri og ódýrari en innan um sjúklinga og íbúa í Þingholtunum.
Hinn fullkomni spítali
Ég vil að Íslendingar eignist fullkomið þjóðarsjúkrahús. Heildstæða og nútímalega byggingu þar sem byggt er frá grunni samkvæmt þörfum þjóðarinnar en ekki úreltum forsendum. Ég vil byggja miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðgengi er gott, samgönguæðar koma saman og ónæði fyrir almenning á framkvæmdatíma er lágmarkað. Ég vil að fjárveitingar til verkefnisins nýtist sem best og horft sé til framtíðar, t.d. varðandi mögulega stækkunarþörf sjúkrahússins. Verði niðurstaða óháðra sérfræðinga sú að best sé að byggja við Hringbraut mun ég una henni. Viðbrögð Hringbrautarmanna við áherslum Framsóknarflokksins gefa hins vegar til kynna að þeir óttist niðurstöðuna.
Lilja Alfreðsdóttir 
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. október 2016.
Categories
Greinar

Kröfuhafar sleikja útum

Deila grein

26/10/2016

Kröfuhafar sleikja útum

160218-Þorsteinn SæmundssonEitt helsta baráttumál Framsóknar fyrir þessar kosningar er breytt stefna í vaxtamálum. Ljóst er að núverandi peningastefna er ekki að virka með ofurháum stýrivöxtum sem enginn hagnast á nema fjármagnseigendur. Þar fara fremstir í flokki erlendir fjárfestar sem komið hafa hér fyrir kvikum krónum sem þeir munu fara með úr landi aftur fyrr en varir og um leið og það hentar þeim. Fyrir utan að vera einn mesti dragbítur á heimkomu Íslendinga sem búa erlendis býður hávaxtastefnan upp á að áhættufjárfestar hrúgi inn í landið milljarðatugum til að hagnast á vaxtamismun. Svo vel virkar núverandi vaxtastefna fyrir áhættufjárfesta að þeir sem eiga s.k. aflandskrónur hér kæra sig ekki um að fara vegna þess gróða sem þeir hafa af dvölinni. Þvert á móti hafa þeir enn bætt í. Krónuútboðið í vor var til að losna við um 230 milljarða í krónueignum. Það mistókst af framangreindum ástæðum. Auk þeirrar krónueigna sem hér hafa verið í höftum hafa streymt inn í landið rúmlega 70 milljarðar á síðustu 15 mánuðum. Alþingi þurfti að bregðast við í vor og setja lög um bindiskyldu og bindingu erlendra eigna til að koma í veg fyrir að holskefla erlends fjármagns riði hér yfir.

Það er fróðlegt og nauðsynlegt að rifja upp hverjir það eru sem hafa varað ítrekað við þessu ástandi undanfarin tæp fjögur ár. Þingmenn Framsóknar eru þeir einu sem haft hafa uppi gagnrýni á stýrivaxtastefnu Seðlabankans. Þingmenn Framsóknar eru þeir einu sem bent hafa á þann skaða sem hávaxtastefnan veldur fólki og fyrirtækjum í landinu. Framsókn er eini flokkurinn sem nú á sæti á þingi sem hefur baráttuna gegn hávaxtastefnunni í kosningaáherslum sínum. Það er hægt að taka undir með Vilhjálmi Birgissyni verkalýðsforingja þegar hann undrast að enginn svokallaðra félagshyggjuflokka hefur svo mikið sem minnst á vaxtaokrið hvort sem er á Alþingi eða nú í aðdraganda kosninga.

Ljóst er að eigendur aflandskróna hugsa sér gott til glóðarinnar nú þegar hætta er á að vinstri stjórn verði mynduð eftir kosningar. Þeir muna þá sæludaga á síðasta kjörtímabili þegar þáverandi stjórnvöld voru titrandi á beinunum gagnvart erlendu valdi. Sem betur fer komst hér á stjórn undir forystu Framsóknarflokksins sem lengst af hafði staðið einn gegn valdi kröfuhafa. Það er því í þágu erlendra kröfuhafa að draga úr áhrifamætti Framsóknar því þeir vita hverjir eru líklegastir til að standa upp í hárinu á þeim og hverjir eru líklegastir til að guggna undan kröfum og hótunum. Ítrekaðar heilsíðuauglýsingar sem eru nánast dónaskapur við lýðveldið Ísland eru upptakturinn að þeirri baráttu sem kröfuhafar eru nú að undirbúa. Það skiptir Ísland öllu máli að flokkur sem stendur í lappirnar gagnvart kröfuhöfum sé sterkur og áhrifamikill í stjórnmálum. Það skiptir því öllu máli að stuðningur við Framsóknarflokkinn í þessum kosningum verði ótvíræður.

Þorsteinn Sæmundsson.

Greinin birtist á Visir.is 26. október 2016.

Categories
Greinar

Aðildarumsókn og samskipti við Evrópusambandið

Deila grein

24/10/2016

Aðildarumsókn og samskipti við Evrópusambandið

sigurduringi_vef_500x500Í samantekt hér í Kjarnanum um helgina eru tínd til nokkur mál er ritstjórn Kjarnans telur vera afleiki ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þar með er reynt að leita skýringar á því af hverju stjórnin nýtur ekki meira fylgis í aðdraganda kosninga þó að á ,,… Íslandi ríkir efnahagsleg velsæld um þessar mundir,“ eins og segir í samantektinni. Óhætt er að segja að fleiri undrist það en ritstjórn Kjarnans.

Eitt atriði er tínt til sem mér finnst að lesendur Kjarnans eigi skilið að fá betri útlistun á. Það lítur að afdrifum ESB umsóknarinnar sem síðasta ríkisstjórn hrinti af stað. Það vekur reyndar eftirtekt að í sambærilegri samantekt ritstjórnar Kjarnans á afleikjum vinstri stjórnarinnar 2009-2013 telst umsóknin ekki til afleikja! Og er þó öllum fullljóst að hún telst nú til mestu svika sem kjósendur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa orðið að þola. Það er rakið með skýrum hætti í nýrri bók Jóns Torfasonar, Villikettirnir og vegferð VG: Frá vænt­ingum til vonbrigða. VG lofaði kjósendum sínum að ekki yrði sótt um aðild að ESB og stóð svo að aðildarviðræðum strax eftir kosningar. Skýrari verða svikin varla. Og svo virðist reyndar sem VG sé nú þegar komið í viðræður um myndun nýrrar stjórnar; fróðlegt verður að vita hvort VG gerir grein fyrir stefnu sinni gagnvart ESB fyrir kosningar, eða hvort það verður látið bíða betri tíma. Og svo öllu sé til haga haldið, þá klufu þessi svik fyrir kosningarnar 2009 þjóðina í herðar niður. Á að endurtaka þann leik með „Reykjavíkurstjórninni“ 2016?

Hvað um það – við skulum rifja upp þau skilaboð sem ESB fékk frá ríkisstjórninni sem tók við á vormánuðum 2013:

  • að ríkisstjórnin hyggist ekki endurvekja aðildar­ferlið,
  • að skuldbindingar fyrri ríkisstjórnar í aðildarferli séu ekki lengur gildar í ljósi nýrrar stefnu,
  • að Ísland teljist ekki lengur umsóknarríki, og
  • óskað að ESB geri ráðstafanir sem taki mið af því.

Á sama tíma var áhersla lögð á að styrkja framkvæmd EES samningsins og nánara samstarf við ESB á grunni hans. En af hverju kaus ríkisstjórnin að enda aðildarferlið? Tínum til nokkur atriði:

  • Stefna beggja stjórnarflokka var skýr fyrir kosningar. Hag Íslands yrði best borgið utan ESB og að ekki skyldi haldið áfram í viðræðum án þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Niðurstaða stjórnarsáttmála er alveg skýr. Viðræður í hlé og ekki framhaldið án þjóðaratkvæðis. Jafnframt að úttekt yrði gerð á viðræðum og stöðunni innan ESB og þróun þess.
  • Framsóknarmenn hafa fylgt þessari stefnu í einu og öllu og staðið við það sem lofað var í kosningabaráttunni.
  • Það var ekkert sagt um það í okkar kosningabaráttu að það ætti að kjósa á kjörtímabilinu.

Mikilvægt er að hafa í huga að á fundum forsætisráðherra með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og forseta leiðtogaráðsins í júlí 2013 var þessi nýja stefna útskýrð. Á þeim fundum kom skýrt fram að þessir tveir leiðtogar stofnana ESB myndu fagna skýrri stefnu varðandi aðildarferlið enda mátti öllum vera ljóst að það var komið í ógöngur og óásættanlegt að hafa málið í þeim farvegi sem það var þegar ríkisstjórnin tók við.

Fjögurra ára árangurslaust ferli

Það birtist skýrt í úttekt Hagfræðistofnunar HÍ sem var kynnt 2014. Ekki verður annað séð af skýrslunni en að hún styðji við það að umsóknarferlið passi okkur ekki. Skýrslan staðfestir að ríki hafi notað ferlið til að beita okkur þvingunum í óskyldum málum. Engar lausnir voru á borðinu eftir fjögurra ára ferli í okkar helstu hagsmunamálum. Úttekt aðila vinnumarkaðarins sem unnin var af Alþjóðamálastofnun HÍ sagði í raun sömu sögu þó að nálgunin hafi verið önnur.

Það var því eðlilegt og sanngjarnt gagnvart ESB, aðildarríkjum þess og íslensku þjóðinni að skýrleiki ríkti í þessu máli á vakt þessarar ríkisstjórnar. Engin ástæða var til að halda lífi í ferli um aðild að sam­bandi sem engin vissa er fyrir hvernig muni þróast. Þessu til viðbótar blasir við að sjaldan hefur verið meiri óvissa um hverslags samband ESB verður innan fárra missera.

Stefna Framsóknarflokksins er skýr í þessum málaflokki. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins og hafnar því aðild að sambandinu. Framsóknarflokkurinn fagnar því að ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins afturkallaði aðildarumsóknina að ESB. Flestum, þó ekki öllum, var ljóst að forsendur þeirrar umsóknar voru brostnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist á kjarninn.is 24. október 2016.

Categories
Greinar

Þarf að bíða 100 ár eftir launajafnrétti?

Deila grein

24/10/2016

Þarf að bíða 100 ár eftir launajafnrétti?

Anna-Kolbrun-ArnadottirsgmKvennafrídagurinn er í dag mánudaginn 24. október og eru konur hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14.38 og fylkja liði á samstöðufundi sem haldnir eru um allt land. Í þessu sambandi er gott að minnast þess að íslenskar konur vöktu athygli um allan heim 24. október árið 1975 þegar þær lögðu niður vinnu. Segja má að þessi samstöðufundur sem þá var haldinn hafi markað djúp spor í söguna enda setti hann samfélagið nánast á hliðina og muna flestir sem þá voru fæddir hvar þeir voru þennan dag.
Á þessum tíma var kallað eftir launajafnrétti og núna er það því miður ennþá sama krafan. Því það hefur gengið hægt að bregðast við launamismun kynjanna. Hófst það árið 1961 þegar samþykkt voru lög um launajöfnuð kvenna og karla sem átti að ná að fullu 1967. Síðan með setningu jafnréttislaga 1976 var kveðið á um sömu laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Samt er töluvert launamisrétti enn staðreynd.
Það sem þó hefur breyst er, að í dag verða kynnt fyrstu fyrirtækin og stofnanirnar sem hafa tekið þátt í tilraunaverkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar um launajafnrétti með innleiðingu jafnlaunastaðalsins.
Þetta verkfæri er stórt skref í þá átt að eyða kynbundnum launamun með raunverulegum aðgerðum.
Jafnlaunastaðalinn hefur það að markmiði að auka gagnsæi og mun vonandi breyta landslaginu á vinnumarkaði til framtíðar. og segja má að nú loksins sé komið fram alvöru tæki sem byggir, m.a. á opinberri staðlavottun.
Þessu ber að fagna en á sama tíma þarf að hafa það hugfast að áfram þarf að velta við hverjum steini til þess að jafna kjör kynjanna. Áfram eru þættir sem hafa áhrif, sömu þættir og höfðu áhrif fyrir 41 ári síðan og er kynskiptur vinnumarkaður enn talinn einn af aðal orsakaþáttum launamunar kynjanna.

Anna Kolbrún Árnadóttir og Sunna Gunnars Marteinsdóttir, Landssambandi Framsóknarkvenna.

Categories
Greinar

Lækkum skatta á meðallaun

Deila grein

22/10/2016

Lækkum skatta á meðallaun

sigurduringi_vef_500x500Tillögur framsóknarmanna í skattamálum hafa vakið athygli. Stórar kerfisbreytingar vekja þó ætíð spurningar og því er ástæða til að skýra nánar hvað felst í þessari róttæku aðgerð sem ætlað er að einfalda skattkerfið og gera það sanngjarnara.

Við framsóknarmenn viljum nýta tekjuskattskerfið til að draga úr byrðum millitekjufólks en í þeim hópi eru flestir launþegar. Það hefur meðal annars í för með sér að breiðu bökin taka aðeins meira á sig en um leið þurrkum við út óæskileg jaðaráhrif. Í dag er það þannig að fólk með meðaltekjur stendur frammi fyrir mjög háu tekjuskattsþrepi og of litlum hvata til að auka tekjur sínar með meiri vinnu. Jaðarskatturinn svokallaði, eða sá skattur sem greiddur er af næstu viðbótarkrónu í launaumslagið, er of hár. Við viljum breyta þessu. Það gerum við með millistéttaraðgerð í skattamálum líkt og með Leiðréttingunni sem var millistéttaraðgerð í skuldamálum og Fyrstu fasteign sem er vinnuhvetjandi úrræði fyrir ungt fólk til að létta því kaupin á sinni fyrstu fasteign.

Framsókn vill lækka tekjuskattsprósentuna, þ.e. staðgreiðslu opinberra gjalda, fyrir einstaklinga með lágar tekjur og millitekjur samhliða því að tekjutengja persónufrádrátt þannig að hann falli niður þegar ákveðnum tekjum er náð. Barnabætur verði réttur barnsins og fylgi barninu. Þær hækki verulega en skerðingarhlutfall hækki á móti þannig að barnabætur komi tekjulágum best. Vaxtabætur falli niður í núverandi mynd en sparnaði vegna þessa verði beint til lágtekjuhópa með útborganlegum persónufrádrætti. Jafnframt viljum við taka upp einstaklingsframtöl og hætta samsköttun hjóna. Með öllum þessum aðgerðum er hægt að lækka skatta hjá meginþorra almennings og auka hvatann til vinnu.

Einfalt í framkvæmd 

Þetta er einfalt í framkvæmd. Neðra tekjuskattsþrep í staðgreiðslu skatta, 25%, gerir það að verkum að einstaklingur með 600 þúsund króna tekjur á mánuði greiðir 150 þúsund krónur í skatta. Skattþrepið er aðeins eitt og enginn persónufrádráttur af þessum tekjum. Taki viðkomandi ákvörðun um að vinna sér inn 40 þúsund króna viðbótartekjur greiðir hann fjórðunginn, eða 10 þúsund krónur, í skatt eftir breytingu. Einstaklingur með 100 þúsund króna tekjur á mánuði greiðir engan skatt heldur fær um 50 þúsund króna persónufrádrátt útborgaðan. Ráðstöfunartekjur beggja hækka frá núverandi kerfi.

Með þessari róttæku einföldun á skattkerfinu vinnst þrennt:

  1. Tekjujöfnun eykst enn frekar. Íslendingar standa mjög framarlega í tekjujöfnun í alþjóðlegum samanburði. Með frekari tekjujöfnun gerum við enn betur á því sviði.
  2. Aukinn hvati til vinnu. Lægri jaðarskattur á millitekjur er vinnuhvetjandi fyrir mikinn meirihluta launafólks.
  3. Jafnréttismál. Samsköttun dregur úr hvata maka með lægri laun til að fara út á vinnumarkaðinn en í meirihluta tilvika eru það konur. Afnám samsköttunar er því jafnréttismál. Atvinnuþátttaka 16-74 ára karla er nú um 86% en 79% hjá konum. Væri ekki afnám samsköttunar gott tækifæri til að minnka þennan mun og auka enn frekar á forskot okkar Íslendinga í jafnréttismálum?

Framsókn hefur unnið að útfærslu þessara hugmynda um alllangt skeið. Þeirri vinnu, sérstaklega samspili við almannatryggingakerfið, er ekki lokið og viljum við vinna með öðrum flokkum að nánari útfærslu á nýja kjörtímabilinu. Við teljum að fjármálaáætlun hins opinbera, sem leggja skal fram næsta vor, geti tekið mið af þessum hugmyndum og þær þannig komið til framkvæmda strax 1. janúar 2018. Tillögurnar eiga rætur sínar að rekja til hugmynda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem síðar voru nánar útfærðar af verkefnisstjórn Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.

Það er mér mikil ánægja að geta kynnt þessar hugmyndir fyrir landsmönnum og við framsóknarmenn vonumst til þess að fá styrk til þess að geta hrinnt þessum mikilvægu úrbótum í framkvæmd.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í  Morgunblaðinu 22. október 2016.