Categories
Fréttir

Lækka skatta og tryggingagjald á landsbyggðinni.

Deila grein

06/10/2016

Lækka skatta og tryggingagjald á landsbyggðinni.

elsa-lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem nokkrir hv. þingmenn hafa talað um hér og fagna því að samkomulag sé að takast milli formanna stjórnarflokkanna. Ég tel það mjög mikilvægt upp á ásýnd þingsins. Þó eru þarna mál sem er mjög mikilvægt að klára og nefni ég t.d. almannatryggingar og að einhver skref verði stigin, helst sem stærst, í breytingum á útreikningi vísitölu.
Það er samt annað sem ég ætlaði að ræða í dag. Mig langar að ræða þá byggðastefnu sem við framsóknarmenn leggjum áherslu á í þeirri kosningabaráttu sem nú er hafin. Við viljum nýta skattkerfið á ívilnandi hátt fyrir íbúa landsins. Má þar helst nefna afslátt af ferðakostnaði til og frá vinnu, að þeir sem þurfa að sækja vinnu um langan veg fái skattafslátt á móti ferðakostnaði. Þetta fyrirkomulag þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við, t.d. á Norðurlöndunum, og því er tilvalið fyrir okkur Íslendinga að skoða hvað gefist hefur vel og taka upp þær aðgerðir. Þessi aðgerð mun án efa styrkja hin ýmsu atvinnusvæði landsins.
Auk þess viljum við skoða hvort hægt sé að hafa lægra tryggingagjald fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni sem hvata fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir til að færa starfsemi út á land. Auk þessa viljum við nýta skattkerfið á ívilnandi hátt fyrir íbúa landsins. Má þar helst nefna það að nýta námslánakerfið á ívilnandi hátt fyrir landsmenn. Það væri hægt að gera þannig að þeir sem fastráði sig til starfa, t.d. á heilbrigðisstofnunum þar sem skortur er á læknum eða öðrum sérfræðingum, fái afslátt af námslánum sínum. Þetta væri stórt skref í þá átt að auka aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu.
Það er gaman að segja frá því að þetta var eitt af fyrstu verkum hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins, Gunnars Braga Sveinssonar, hjá Byggðastofnun eftir að hann tók við sem ráðherra landbúnaðar- og sjávarútvegsmála í vor. Það verður mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 6. október 2016.

Categories
Fréttir

Það verður kosið um stöðugleika

Deila grein

06/10/2016

Það verður kosið um stöðugleika

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því, eins og aðrir hv. þingmenn, að formenn flokkanna eru alla vega í þann mund, trúi ég, að koma sér saman um það hvernig við háttum okkar störfum hér og getum lokið mikilvægum málum og klárað þingið. Það skiptir okkur öll máli vegna þess að ásýnd þingsins er ásköpuð. Þess vegna skiptir það okkur öll máli. Kosningabaráttan er löngu hafin, það má kannski segja að það sé viðvarandi barátta og eigi ekki að fela í sér nein tímabundin skil, upphaf eða endi, en auðvitað hefur maður skynjað hér á umræðunni og ekki síst í fundarstjórn forseta að leikar æsast.
Um hvað ætli verði kosið? Það má velta því fyrir sér. Málefnin, stefnan, loforðin. Ég tek með beinum hætti þátt í slíkri baráttu nú í annað sinn og get sagt það eitt að þetta er skemmtilegt og spennandi. Ég hlakka auðvitað bara til. Mikið hefur verið rætt um málefnin, um innviðauppbyggingu, húsnæðismál, heilbrigðis- og velferðarmál, menntamál jafnvel. Þetta hefur verið áberandi í umræðunni og það er skiljanlegt, en verður raunverulega kosið um það? Er það það sem skiptir máli, að við trompum hvert annað í loforðum og útgjaldaauka? Ég held ekki, ég held að raunverulega verði kosið um stöðugleika. Það orð eitt og sér felur það í sér að sá árangur sem náðst hefur á þessu kjörtímabili í efnahagslegri uppbyggingu, heimilin hafa lækkað skuldir sínar, atvinnulífið er á traustum grunni, býr við stöðugleika — ég held að það verði raunverulega kosið um áframhald á stöðugleika.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 6. október 2016.

Categories
Fréttir

Vúdú-aðferðir Seðlabankans

Deila grein

06/10/2016

Vúdú-aðferðir Seðlabankans

160218-Þorsteinn Sæmundsson„Hæstv. forseti. Mig langar að fjalla ögn áfram um þá ákvörðun Seðlabanka Íslands í gær að halda stýrivöxtum óbreyttum, í 5,25%. Ákvörðun stýrivaxta á hverjum tíma er tilraun Seðlabankans til að draga úr eftirspurn, en það dugar ekki, því að nánast öll heimili landsins eru með verðtryggð lán og stýrivextir Seðlabankans á hverjum tíma hafa ekki áhrif á það.
Hverjir hagnast? Jú, krónan hækkar. Verðbólgan er lág. Krónan hækkar en verðbólgan ætti að vera miklu lægri vegna þess að áhrif af hærri krónu skila sér ekki til neytenda að fullu, en alla vega hagnast þá kaupmenn á ákvörðun Seðlabankans. Há króna hefur einnig áhrif á útflutningsatvinnuvegi, s.s. sjávarútveg og ferðamennsku. Þess vegna þarf Seðlabankinn að grípa til eins konar vúdú-aðferða til að halda öllu í skefjum, m.a. með því að kaupa gjaldeyri sem aldrei fyrr til að halda aftur af hækkun krónunnar, sem er bein afleiðing af stýrivaxtaákvörðununum.
En það er kannski einn hópur sem hagnast öðrum fremur verulega á því að stýrivextir séu hér háir, það eru erlendir aflandskrónueigendur. Það vill nú þannig til að Alþingi þurfti að hysja sérstaklega upp um Seðlabankann í vor með því að setja á nokkurs konar bindiskyldu til þess að koma í veg fyrir flæði kviks fjármagns inn í landið. Það dugði ekki alveg til. En erlendir aflandskrónueigendur eru í þeim sporum að vera eins og unglingur sem vill ekki yfirgefa heimili pabba og mömmu því að það fer svo vel um hann þar. Þess vegna liggja þessir aflandskrónueigendur uppi á okkur Íslendingum og vilja ekki yfirgefa fang Más Guðmundssonar. Það sér hver einasti maður að það er t.d. ekkert vit í öðru fyrir mann sem býr í Svíþjóð og er með sænska krónu, sem er fallandi, en að koma til Íslands og kaupa íslenskar krónur, sem eru jú vaxandi, og vera á 5,5% vöxtum í staðinn fyrir -0,25 í Svíþjóð. Þetta er náttúrlega galið. Stýrivextir verða að lækka.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 6. október 2016.

Categories
Fréttir

Mikilvægt að afgreiða frumvarpið um LÍN

Deila grein

05/10/2016

Mikilvægt að afgreiða frumvarpið um LÍN

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um að í umræðu um málefni flóttamanna og innflytjenda er mjög mikilvægt að kynna sér málin til hlítar. Að því sögðu langar mig að ræða um eitt af þeim málum sem ég tel mjög mikilvægt að við afgreiðum hér á þessu þingi. Það er frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
Nú liggur frumvarpið fyrir þinginu eftir umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd ásamt breytingartillögu þaðan. Ég tel að sú kerfisbreyting sem felst í frumvarpinu sé mjög mikilvæg fyrir íslenska námsmenn og fyrir menntakerfið í heild sinni. Þessu frumvarpi fylgir hvati til þess að stunda nám miðað við fulla námsframvindu. Því fylgir viðbótarhvati við það sem verið hefur til þess að stunda iðnnám, sem er mjög mikilvægur hluti frumvarpsins. Fyrir meiri hluta námsmanna mun þetta leiða af sér minni og fyrirsjáanlegri afborganabyrði og mun leiða af sér gagnsærri og skýrari mynd af því hverjir njóta styrks. Í breytingartillögum allsherjar- og menntamálanefndar felst mjög viðamikil og mikilvæg breyting, þ.e. að námsmenn geti fengið greidda út styrki og lán samhliða námi eftir að fyrsta missiri lýkur, en það hefur verið baráttumál íslenskra námsmanna frá árinu 1992 og getur skipt sköpum fyrir marga.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 5. október 2016.

Categories
Fréttir

Efnahagslegur stöðugleiki hlýtur að skipta mestu máli

Deila grein

05/10/2016

Efnahagslegur stöðugleiki hlýtur að skipta mestu máli

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða stöðugleika. Efnahagsmál og innviðauppbygging fer hátt í umræðunni og það sem hefur einkennt umræðuna er viljinn til að auka ríkisútgjöld og setja meiri fjármuni t.d. í heilbrigðis- og velferðarmál og aðra innviðauppbyggingu. Ég ætla ekki að mæla gegn því að fjárþörf sé til staðar víða en vil þó segja hér að efnahagslegur stöðugleiki hlýtur að skipta mestu máli, verðlagsstöðugleiki, gengisstöðugleiki, pólitískur stöðugleiki fyrir atvinnulífið og fyrir heimilið, til þess að við verðum áfram og í frekari færum til að styrkja innviðina.
En af hverju er stöðugleikinn svo mikilvægur? Í mjög einföldu máli erum við, heimilin og atvinnulífið, frekar tilbúin til að hreyfa okkur til athafna við slíkar aðstæður, til nýbreytni og nýsköpunar. Við verðum öruggari í stöðugu umhverfi. Í óstöðugu umhverfi höldum við að okkur höndum, bíðum átekta og leitum í skjól. Við mikinn öldugang úti á sjó þá stígum við annaðhvort ölduna eða leggjumst í koju. Við náttúruhamfarir, storma og hvirfilbylji leitum við skjóls og bíðum það af okkur. Þegar allt er á hreyfingu í kringum okkur stoppum við og bíðum af okkur þá hreyfingu. Það sama á við um efnahagsmálin. Hinar miklu skattbreytingar á síðasta kjörtímabili eru dæmi um það. Fyrirtæki halda að sér höndum í mannaráðningum, fjölskyldan dregur saman útgjöldin, ekki til uppbyggilegs sparnaðar heldur neyðarsparnaðar.
Hér boða flestir flokkar stóraukin útgjöld, uppskurð kerfa, kerfisbreytingar á grundvallaratvinnuvegum. Staðreyndin er að samhliða stöðugleika hefur atvinnulífið dafnað, kaupmáttur aukist og ráðstöfunargeta heimilanna sem og efnahagslega staða þjóðarinnar batnað á þessu kjörtímabil og sjaldan verið betri.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 5. október 2016.

Categories
Fréttir

Engar fréttir úr Seðlabanka

Deila grein

05/10/2016

Engar fréttir úr Seðlabanka

160218-Þorsteinn Sæmundsson„Hæstv. forseti. Þeim fjölgar óðum sem koma fram og gagnrýna þá hávaxtastefnu sem rekin er á Íslandi. Samkvæmt fréttum sem bárust úr Seðlabankanum í morgun er ekkert að frétta þaðan. Þar er sami kjarkurinn og framsýnin, núll. Mig langar að vekja athygli á því sem einn af mikilvægustu mönnum í íslensku viðskiptalífi, Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sagði um vaxtastefnu Seðlabankans á fundi sem var haldinn á Hilton nýlega. Með leyfi forseta, sagði forstjórinn:
„Mér finnst það gjörsamlega út í hött að við séum að horfa á þetta háa vaxtastig. Horfum á allt aðra stöðu í nágrannalöndum sem við erum að berjast við. Ég tel að Seðlabankinn hafi gert afdrifarík mistök á undanförnum mánuðum.“
Hann sagði svo seinna í ræðu sinni:
„Ég er ekki svartsýnn fyrir hönd míns félags en mér finnst styrking á gengi krónunnar og vaxtastefnan galin. Punktur.“
Maður tekur eftir þegar menn af þessum kalíber stíga fram og taka til máls með þessum hætti. Það er því ekki að ófyrirsynju að sá sem hér stendur hefur farið fram á sérstaka umræðu um vaxtakjör á Íslandi við hæstv. fjármálaráðherra þar sem m.a. yrði farið yfir stýrivextina eins og þeir eru reiknaðir á Íslandi, hvernig vísitalan er reiknuð hér á landi, sem er öðruvísi en alls staðar annars staðar. Ég held að mjög mikilvægt sé að slík umræða sé tekin nú í aðdraganda kosninga vegna þess að alla vega er það stefna okkar framsóknarmanna að taka til í fjármálakerfinu. Ég held að nauðsynlegt sé að sú umræða komist á dagskrá áður en þingi lýkur, sé innlegg inn í þá baráttu.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 5. október 2016.

Categories
Fréttir

Upplagt að endurskoða vísitöluna

Deila grein

05/10/2016

Upplagt að endurskoða vísitöluna

elsa-lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Hagstofan hefur vanreiknað vísitölu neysluverðs í hálft ár. Ástæðan er sú að í útreikningum Hagstofunnar var reiknuð húsaleiga vanmetin. Í 12 mánaða útreikningum Hagstofunnar, áður en mistökin komu fram, var verðbólga mæld 0,9% þar sem stuðst er við vísitölu neysluverðs. En ef reiknað væri út frá samræmdri vísitölu neysluverðs, líkt og gert er í OECD-ríkjunum, hefði verðbólgan verið -0,9%. Ástæðan er sú að í samræmdri vísitölu neysluverðs er húsnæðisliðurinn ekki inni. Þar er hann hugsaður sem fjárfesting en ekki neysla líkt og hér á landi. Í nýjum tölum Hagstofunnar mælist verðbólga síðustu 12 mánaða 1,8%, ef stuðst er við vísitölu neysluverðs, en 0,4%, ef reiknað væri út frá samræmdri vísitölu neysluverðs. Þarna er um gríðarlegan mun á útreikningum að ræða og birtast þessi áhrif m.a. á verðtryggðum fjárskuldbindingum heimila í landinu. Vegna þessara mistaka er upplagt að endurskoða þau viðmið sem við reiknum vísitöluna út frá. Því þarf að minnast á þingsályktunartillögu mína sem ekki hefur komist á dagskrá þingsins og hljómar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs (SVN) í stað vísitölu neysluverðs (VNV). Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti.“

Við framsóknarmenn viljum koma þessu máli á dagskrá fyrir þinglok og við trúum ekki öðru en að aðrir flokkar séu okkur sammála. Það tekur enga stund að koma þessu máli í ferli. Hér er um afar hógværa tillögu að ræða en hún getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir heimili landsins.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 5. október 2016.

Categories
Fréttir

Frumvarp um forkaupsrétt sveitarfélaga

Deila grein

04/10/2016

Frumvarp um forkaupsrétt sveitarfélaga

Páll Jóhann Pálsson„Virðulegi forseti. Mig langar undir þessum lið, um störf þingsins, að vekja athygli á frumvarpi sem við, tveir framsóknarmenn, höfum lagt fram um breytingu á forkaupsrétti sveitarfélaga. Eins og segir í greinargerð er með frumvarpinu lagt til að sveitarstjórn eigi einnig forkaupsrétt samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða þegar aflahlutdeildir eru framseldar útgerð sem hefur heimilisfesti í öðru sveitarfélagi. Samkvæmt gildandi lögum á sveitarstjórn aðeins forkaupsrétt ef fiskiskip er selt og því geta aflahlutdeildir færst í hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi án þess að sveitarstjórn eigi þess kost að njóta forkaupsréttar. Það má kannski segja að full seint sé í rassinn gripið að koma með þetta frumvarp á þessum síðustu dögum þingsins en við teljum þó rétt að vekja athygli á þessu hér í von um að kannski verði drifið í þessu þjóðþrifamáli á næsta þingi.
Mörg þingmannamál liggja í nefndum og þar á meðal eitt þingmannamál sem mig langar að vekja athygli á sem ég lagði fram ásamt nokkrum öðrum þingmönnum. Það er um að sjómenn sitji við sama borð og aðrir, t.d. alþingismenn, og fái skattfrjálsa fæðispeninga rétt eins og aðrir landsmenn, eins og alþingismenn, opinberir starfsmenn, flugfreyjur og flugmenn, þegar þeir fara erlendis. Ef alþingismenn fara út í kjördæmi fá þeir dagpeninga og þeir fá dagpeninga ef þeir fara til útlanda. Mér þykir miður að það mál liggi í nefnd og verði ekki afgreitt þaðan.“
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 4. október 2016.

Categories
Fréttir

Jafnvel launað starfsnám?

Deila grein

04/10/2016

Jafnvel launað starfsnám?

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Síðustu daga hafa komið fram upplýsingar í fjölmiðlum sem segja okkur að í kennaranámi eru nú allt of fáir einstaklingar til þess að viðhalda kennarastéttinni. Þá hafa líka komið fram upplýsingar um að aðeins um helmingur þeirra sem eru með kennsluréttindi starfi í raun við kennslu. Í dag var sú staða sérstaklega rædd á opnum fundi í Háskóla Íslands. Það liggur fyrir að það þarf fjölþætta lausn til þess að vinna gegn þeim vanda sem við blasir, það þarf samtal háskólasamfélagsins, kennarafélaga, ríkisins og sveitarfélaga. Í því samtali þarf að fara yfir inntak námsins, starfsvettvang og kjör.
Varðandi inntak námsins tel ég mjög mikilvægt að ræða hvort nauðsynlegt sé að lokaverkefni í kennaranámi til starfsréttinda séu akademísk, hvort allir þurfi rannsóknarmenntun. Ætti meistaranámið eða meiri hluti þess frekar að vera starfsnám úti í skólunum, jafnvel launað starfsnám? Gætu betri tengingar við skólana og það að allir verðandi kennarar færu í gegnum heilt skólaár í sínu námi tryggt betri tengsl og áhuga á skólastarfinu? Þá tel ég að sú kerfisbreyting sem lögð er til í fyrirliggjandi frumvarpi um Lánasjóð íslenskra námsmanna skapi tækifæri til að þróa hvata til að fjölga nemendum í greinum eins og kennaranámi fyrir öll skólastig. Þessir hvatar gætu annars vegar komið í gegnum styrkjakerfið eða skattalega hvata, eins og lagt er til í breytingartillögum meiri hlutans að skoðað verði sérstaklega.
Varðandi starfsumhverfið vill umræðan um starfsumhverfi í skólum oft verða misvísandi og hana þarf að dýpka í nánustu framtíð.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 4. október 2016.

Categories
Fréttir

Ásýnd og virðing Alþingis

Deila grein

04/10/2016

Ásýnd og virðing Alþingis

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Eins og hæstv. forseti kynnti verður eftir þennan dagskrárlið gert hlé að nýju til kl. 17 og var búið að fresta þingfundi þegar um tvær klukkustundir, væntanlega vegna viðræðna formanna um tilhögun starfa okkur á þingi fram undan og það er vel. Ég hef sagt það hér og segi enn að samstarfið hefur gengið vel og virðulegur forseti hefur haldið vel á málum. Samráðið hefur verið þétt um framvindu þingstarfa og samvinna þingmanna þvert á flokka í nefndum hefur verið góð.
Ég vil segja vegna þeirrar umræðu og athugasemda undir liðnum um fundarstjórn forseta um starfsáætlun að auðvitað er ekkert að því að stjórnarandstöðuþingmenn geri athugasemd við fundarstjórn forseta og komi sjónarmiðum sínum að. Ég hefði líklegast gert það sjálfur við þessar aðstæður á leið í kosningar og spennan að aukast. En það er líka mikilvægt, af því að við ræðum gjarnan um ásýnd og virðingu Alþingis, að þrátt fyrir umræðu og athugasemdir stjórnarandstöðunnar, og ég ítreka að þær eiga fullan rétt á sér, finnst mér rétt að koma því að að ríkt hefur gagnkvæmur og einlægur vilji til samráðs og samvinnu og til þess að ljúka mikilvægum málum þannig að við viðhöldum skilvirkni og verjum ásýnd Alþingis, verjum faglega vinnu og tíma sem fer í undirbúning málefna, umræðu málanna í þinginu, umsagnir sérfræðinga og hagsmunaaðila og eftirfylgni þeirra í nefndum, viðbrögð í nefndum, undirbúning og málatilbúnað nefndarmanna og framsögumanna.
Auðvitað glatast ekki öll sú vinna, en dýrmætum tíma er sóað og ekki er séð fyrir endann á framgangi margra hverra. Það er því ekkert síður vegna skilvirkni Alþingis en ásýndar þess að ég fagna því að við náum saman um stóru málin og ljúkum þessu þingi og kjörtímabili á þeim nótum að Alþingi sé sómi að.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 4. október 2016.