Categories
Greinar

Uppkaup á landi

Deila grein

06/08/2019

Uppkaup á landi

Síðastliðna daga hef ég sem sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar fengið upphringingar frá blaðamönnum vegna sölu á jörðinni Atlastöðum í Svarfaðardal til fyrirtækis í eigu erlendra aðila. Spurt er hvort sveitarfélagið hafi áhyggjur af sölunni og innt er eftir viðbrögðum.

Sveitarfélagið hefur ekki forkaupsrétt að jörðum í sveitarfélaginu og því kom salan ekki inn á borð sveitarstjórnar. Aukin heldur er það ekki á stefnuskrá sveitarstjórnar að kaupa jarðir. Því getur sveitarstjórn ekki annað en setið hjá og vonað að nýir eigendur muni rækta sína jörð, standa við þær skuldbindingar sem felast í jarðareign í sveit og verði virkir þátttakendur í samfélagi sveitarinnar.

Hins vegar hefur þetta mál vakið mig til enn frekari umhugsunar um jarðasölur almennt. Hér bæði austan og vestan við eru dæmi þar sem stórfelld uppkaup á jörðum hafa átt sér stað og eru að eiga sér stað. Þar erum við að tala um uppkaup eignamanna ótengdum búskap. Margar jarðir safnast á fárra hendur og falla í flestum tilfellum úr hefðbundnum búskap. Þetta er ógn við byggðir landsins, við atvinnuuppbyggingu í sveitum og við sjálfstæði þjóðar.

Tilraunir ráðamanna til að koma lagasetningu á þessar gjörðir spannar nú nokkur ár. Við höfum dæmi frá nágrannaþjóðum um það hvernig þær hafa brugðist við og sett reglur og lög sem ætti að vera styðjast við eða heimfæra með einhverjum hætti upp á okkur hér á landi. Að jarðir þurfi að vera í ákveðnum búskap eða nýtingu, að einn og sami aðili og tengdir aðilar megi ekki eiga fleiri en X jarðir, að eigandi þurfi að vera með lögheimili á jörðinni o.s.frv.

Hversu erfiða ætlum við að gera okkur þessa lagasetningu og hversu langt ætlum við að láta málið ganga áður en gripið verður í taumana? Hversu illa ætlum við að láta vaða yfir sjálfstæði okkar áður en við spyrnum við fótum? Eða ætlum við yfirleitt ekki neitt að gera?

Ég er ein af þeim sem þoli illa að sitja hjá og horfa á þetta gerast fyrir framan nefið á mér. Ég veit að þannig er með margan Íslendinginn. Því hvet ég núverandi ríkisstjórn til lagasetningar á haustþingi sem vonandi tekur fyrir uppkaup á landi með þeim hætti sem er að gerast í dag. Ég bind vonir við samstarf sem samgöngu– og sveitarstjórnarráðherra segir komið á undir forystu forsætisráðuneytis sem á að leita að ásættanlegri lausn í málinu fyrir komandi kynslóðir.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð og formaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.

Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Guðveig Lind Eyglóardóttir

Deila grein

06/08/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Guðveig Lind Eyglóardóttir

Í Borgarbyggð leiddi Guðveig Lind Eyglóardóttir lista Framsóknar í Borgarbyggð fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018. Guðveig Lind er fædd 1976 og uppalinn í Borgarnesi og er með BA gráða í Ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum. „Ég starfa á Icelandair Hótel Hamar og og er í meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst. Ég hef leitt lista Framsóknar í Borgarbyggð síðan 2014. Ég er gift Vigfúsi Friðrikssyni verslunarmanni í Kaupfélagi Borgfirðinga og saman eigum við þrjú börn Ásdísi Lind, Hilmar Karl og Hallgrím.“
„Eftir að ég flutti aftur heim í Borgarnes árið 2013, eftir að hafa verið í burtu í nokkur ár, fann ég hvað taugarnar við gamla sveitarfélagið voru sterkar og tækifærin mikil til að efla svæðið. Þrátt fyrir að sveitarstjórnarstörfin taki mikinn tíma og orku oft á tíðum þá dvínar eldmóðurinn ekki fyrir því að vinna með sveitarstjórnarfólki af öllu landinu til að efla byggðir landsins og auka lífsgæði íbúa og starfsumhverfi fyrirtækja. Ég er sérstaklega þakklát fyrir það hversu heppin ég hef verið með öfluga félaga á lista Framsóknar hér í Borgarbyggð og ég er auðmjúk yfir því trausti sem mér hefur verið sýnt með því að gefa mér það tækifæri að leiða listann annað kjörtímabil.“

Mikil ábyrgð og áskorun að sitja í sveitarstjórn – ég er auðmjúk yfir traustinu

„Á kjörtímabilinu 2014-2018 kynntist ég öllum málaflokkum og starfsemi sveitarfélagsins vel. Ég hef setið í byggðarráði, fræðslunefnd og umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd ásamt því að taka þátt í fjölmörgum starfs- og vinnuhópum. Einnig hef ég setið í stjórn SSV (Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi).
Á síðasta kjörtímabili naut ég þess að fá frekari innsýn í fjölbreytt verkefni og starfsemi sveitarfélagsins sem hefur gert mig enn áhugasamari nýta krafta mína á vettvangi sveitarstjórnarmála.
Því fylgir mikil ábyrgð og áskorun að sitja í sveitarstjórn og vinna að því að tryggja stöðugleika í rekstrarumhverfi sveitarfélagsins samfara því að viðhalda góðri grunnþjónustu og vera framsækið hreyfiafl breytinga og framfara.
Fyrst og fremst hef ég áhuga á að nýta krafta mína til að vinna að framgangi góðra stefnumála og verkefna í þágu samfélagsins,“ segir Guðveig Lind.

Áherslumál Framsóknar í Borgarbyggð

Skapa trausta sveitarstjórn og stöðugleika í rekstri sveitarfélagsins. • Fagleg afgreiðsla nefnda og sveitarstjórnar er nauðsynleg til að vinna embættismanna og starfsmanna sveitarfélagsins geti verið góð og geti gengið greiðlega fyrir sig. • Að skapa jarðveg fyrir frekari uppbyggingu á atvinnustarfsemi og byggingu leiguíbúða. • Forsendur fyrir því að hægt sé að ráðast fyrir alvöru í kynningu og markaðssetningu á búsetukostum Borgarbyggðar er að grunnþættir innviða séu til staðar. • Við stefnum að lækkun gatnagerðargjalda og gerð húsnæðisáætlunar fyrir sveitarfélagið, stórátak í uppbyggingu á leiguhúsnæði í Borgarnesi, Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. • Framsóknarfólk trúir því að góð þátttaka allra aldurshópa í fjölbreyttum tómstundum og íþróttum hafi forvarnargildi, breyti samfélaginu til hins betra og auki lífsgæði íbúa. Við viljum því hefjast handa við undirbúning að skipulagi og byggingu á fjölnota íþróttahúsi í Borgarnesi. • Við leggjum áherslu á metnaðarfulla menntastefnu í leikskóla, grunnskóla og upp í framhaldsskóla. Hér þarf að stórefla sérfræðiþjónustu skólanna til að standast reglugerðir og koma til móts við ólíkan hóp nemenda. • Framsókn leggur áherslu á að þjónusta við eldri borgarar verði eins góð og kostur er og að fólk geti búið heima hjá sér eins lengi og unnt er. • Gera þarf gangskör í að bæta aðgengismál í sveitarfélaginu og huga sérstaklega að því við gerð nýrra gangstétta og gatna.

Fréttir og greinar

„Ég er algjörlega háð útivist“


„Ég á stóra fjölskyldu sem er mér afar kær og áhugamálin snúa helst að samveru með fjölskyldunni og vinum. Ég er algjörlega háð útivist og finnst ekkert betra en að ganga úti í náttúrunni allan ársins hring. Nýtt áhugamál datt inn í sumar en ég fór að sækja tíma í golfi og finn að það á vel við mig, enda ekki annað hægt en að njóta þar sem við eigum einn fallegasta golfvöll á landinu í Hamarslandi í Borgarnesi. Ég hef mikinn áhuga á jarðfræði Íslands og hef sérstaklega gaman að því að lesa og fræðast um allt sem því við kemur,“ segir Guðveig Lind.

Categories
Greinar

Virði tungumálsins og sjálfsmynd þjóðar

Deila grein

03/08/2019

Virði tungumálsins og sjálfsmynd þjóðar

Þegar við hugs­um til þess sem helst hef­ur mótað lýðveldið okk­ar og það sem skil­grein­ir okk­ur sem þjóð berst talið oft að menn­ing­unni; að tungu­mál­inu, bók­mennt­un­um og nátt­úr­unni. Í sjálf­stæðis­bar­átt­unni var þjóðtung­an ein helsta rök­semd þess að Íslend­ing­ar væru sér­stök þjóð og sjálf­stæðis­kröf­ur okk­ar rétt­mæt­ar. Tungu­málið er þannig lyk­ill­inn að sjálfs­mynd okk­ar og sjálfs­skiln­ingi. Íslensk stjórn­völd hafa í þessu sam­hengi kynnt heild­stæða áætl­un sem miðar að því að styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar. Mik­il­væg­ur áfangi á þeirri veg­ferð náðist þegar Alþingi samþykkti sam­hljóða þings­álykt­un um mik­il­vægi ís­lenskr­ar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungu­málið verði áfram notað á öll­um sviðum ís­lensks sam­fé­lags.

Víðtæk sam­vinna

Tug­ir um­sagna bár­ust um þings­álykt­un­ina en á grunni henn­ar er unn­in aðgerðaáætl­un til þriggja ára, í víðtækri sam­vinnu og sam­starfi. All­ir sem bú­sett­ir eru á Íslandi skulu eiga þess kost að læra og nota ís­lensku til virkr­ar þátt­töku í ís­lensku sam­fé­lagi. Helstu mark­mið þings­álykt­un­ar­inn­ar eru í fyrsta lagi að ís­lenska verði notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, í öðru lagi að ís­lensku­kennsla verði efld á öll­um skóla­stig­um ásamt mennt­un og starfsþróun kenn­ara og í þriðja lagi að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi verði tryggð. Aðgerðaáætl­un­inni er skipt í fimm liði: Vit­und­ar­vakn­ingu um ís­lenska tungu, mennt­un og skólastarf, menn­ingu og list­ir, tækniþróun, aðgengi og ný­sköp­un og að lok­um stefnu­mót­un fyr­ir stjórn­sýslu og at­vinnu­líf.

I. Vit­und­ar­vakn­ing um ís­lenska tungu

Stuðlað verði að vit­und­ar­vakn­ingu um mik­il­vægi ís­lenskr­ar tungu, gildi henn­ar og sér­stöðu. Áhersla verði lögð á mik­il­vægi þess að ís­lenska sé lif­andi tungu­mál í stöðugri þróun og helsta sam­skipta­mál sam­fé­lags­ins. Þessi vit­und­ar­vakn­ing, und­ir yf­ir­skrift­inni Áfram ís­lenska!, teng­ist flest­um sviðum þjóðlífs­ins og spegl­ast í þeim aðgerðum sem hér fara á eft­ir.

II. Mennt­un og skólastarf

Mik­il­vægi læsis. Læsi er lyk­ill að lífs­gæðum á alþjóðavísu og unnið verður áfram í skóla­sam­fé­lag­inu að verk­efn­um sem tengj­ast Þjóðarsátt­mála um læsi og leit­ast við að tryggja virka aðkomu heim­ila, bóka­safna, rit­höf­unda og fjöl­miðla að því verk­efni.

Íslenska sem annað móður­mál. Þeir sem bú­sett­ir eru á Íslandi og hafa annað móður­mál en ís­lensku, börn jafnt sem full­orðnir, fái jafn­gild tæki­færi til ís­lensku­náms og stuðning í sam­ræmi við þarf­ir sín­ar. Skipaður hef­ur verið verk­efna­hóp­ur sem ætlað er að marka heild­ar­stefnu í mál­efn­um nem­enda með annað móður­mál en ís­lensku.

Kenn­ara­mennt­un. Vægi ís­lensku verði aukið í al­mennu kenn­ara­námi og áhersla lögð á að örva áhuga verðandi kenn­ara á tungu­mál­inu. Stuðlað verði að því að efla sköp­un­ar­gleði til að byggja upp hæfni nem­enda og stuðla að já­kvæðu viðhorfi til ís­lensk­unn­ar á öll­um skóla­stig­um.

Starfsþróun kenn­ara. Stutt verði við starfsþróun og símennt­un kenn­ara í þeim til­gangi að efla lær­dóms­sam­fé­lag skól­anna. Áhersla verði lögð á að auka hæfni kenn­ara í ís­lensku og að þeir hafi tök á fjöl­breytt­um kennslu­hátt­um til að kenna ís­lensku bæði sem móður­mál og sem annað mál.

Há­skóla­kennsla og rann­sókn­ir. Haldið verði áfram uppi öfl­ugri há­skóla­kennslu og rann­sókn­ar­starf­semi í ís­lensku bæði í grunn­rann­sókn­um og hag­nýt­um rann­sókn­um.

Kennsla á ís­lensku. Kennsla í mennta­kerf­inu á 1.-6. þrepi hæfniramma fari fram á ís­lensku.

Náms­gagna­út­gáfa. Stuðlað verði að góðu aðgengi nem­enda á öll­um skóla­stig­um að fjöl­breyttu og vönduðu náms­efni á ís­lensku á sem flest­um náms­sviðum.

Íslensku­nám full­orðinna inn­flytj­enda. Sett­ur verði hæfnirammi um ís­lensku­nám inn­flytj­enda og viðeig­andi náms­leiðir þróaðar með auknu fram­boði nám­skeiða og náms­efn­is á öll­um stig­um. Sam­hliða verði út­búið ra­f­rænt mat­s­kerfi til að meta hæfni full­orðinna inn­flytj­enda í ís­lensku.

Íslensku­kennsla er­lend­is. Styrkja skal stoðir ís­lensku­kennslu á er­lendri grundu. Nýta skal nýj­ustu tækni til hags­bóta fyr­ir þá fjöl­mörgu sem vilja læra ís­lensku, með sér­stakri áherslu á börn og ung­menni.

III. Menn­ing og list­ir

Bók­menn­ing. Sköpuð séu skil­yrði fyr­ir fjöl­breytta út­gáfu bóka svo tryggt sé að áfram geti fólk á öll­um aldri lært, lesið og skapað á ís­lensku. Alþingi hef­ur nú þegar samþykkt lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku með því að heim­ila end­ur­greiðslu 25% kostnaðar vegna út­gáfu þeirra. Þá verður sér­stök áhersla lögð á efni fyr­ir yngri les­end­ur, meðal ann­ars með nýj­um styrkt­ar­sjóði fyr­ir barna- og ung­menna­bæk­ur. Sjóðnum, sem gefið var nafnið Auður, hef­ur þegar verið komið á lagg­irn­ar og var út­hlutað úr hon­um í fyrsta sinn í sum­ar. Einnig verður hugað bet­ur að hlut­verki og mik­il­vægi þýðinga fyr­ir þróun tungu­máls­ins, ekki síst í upp­lýs­inga­tækni, ve­f­efni, hug- og tækni­búnaði.

Lögð verði áhersla á notk­un ís­lensku í list­grein­um s.s. tónlist, mynd­list, sviðslist­um, kvik­mynda­gerð og fram­leiðslu sjón­varps­efn­is. Þar verði stuðlað að auk­inni frumsköp­un á ís­lensku, kynn­ingu og grein­ingu list­ar á ís­lensku og skap­andi notk­un tungu­máls­ins á öll­um sviðum. Áfram verði dyggi­lega stutt við gerð kvik­mynda og sjón­varps­efn­is á ís­lensku og hugað sér­stak­lega að efni fyr­ir yngri áhorf­end­ur með áherslu á þýðing­ar, textun og tal­setn­ingu.

Fjöl­miðlar gegna mik­il­vægu hlut­verki þegar kem­ur að efl­ingu ís­lensk­unn­ar. Stefnt verði að því að efla inn­lenda dag­skrár­gerð fyr­ir ljósvakamiðla og einnig tryggja aðgengi að fjöl­breyttu efni á ís­lensku, ís­lensku tákn­máli eða texta. Þá verði stutt við starf­semi einka­rek­inna fjöl­miðla vegna öfl­un­ar og miðlun­ar frétta og frétta­tengds efn­is á ís­lensku.

Bóka­söfn. Starf­semi skóla­bóka­safna og al­menn­ings­bóka­safna verði efld og þjón­usta við nem­end­ur og al­menn­ing bætt. Áhersla verði lögð á aðgang að nýju og fjöl­breyttu les­efni á ís­lensku.

IV. Tækniþróun, aðgengi og ný­sköp­un

Mál­tækni – sta­f­ræn framtíð tung­unn­ar. Framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi verði tryggð. Unnið verði sam­kvæmt ver­káætl­un um mál­tækni fyr­ir ís­lensku 2018-2022. Verk­efnið end­ur­spegl­ist í fjár­mála­áætl­un og braut­ar­gengi þess verði tryggt til framtíðar.

Orðasöfn og orðanefnd­ir. Stuðlað verði að opnu aðgengi al­menn­ings að upp­lýs­inga­veit­um um ís­lenskt mál, svo sem orðabók­um, orðasöfn­um og mál­fars­söfn­um. Þá verði stutt við starf orðanefnda til að tryggja að ís­lensk­ur fræðiorðaforði efl­ist.

V. Stefnu­mót­un, stjórn­sýsla og at­vinnu­líf

Viðmið um mál­notk­un. Sett verði viðmið um notk­un ís­lensku og annarra tungu­mála í upp­lýs­inga- og kynn­ing­ar­efni á veg­um stjórn­valda og at­vinnu­lífs. Þar höf­um við að mark­miði að ís­lenska sé ávallt notuð „fyrst og fremst“, þ.e.a.s. kynn­ing­ar­texti á ís­lensku komi á und­an er­lend­um þýðing­um. Þetta á ekki síst við um ís­lensk ör­nefni en borið hef­ur á því í aukn­um mæli að nöfn sögu­frægra staða á Íslandi hafi verið þýdd á er­lend tungu­mál eða stöðunum jafn­vel gef­in ný er­lend heiti sem ratað hafa inn á landa­kort á net­inu.

Mál­stefna um ís­lenskt tákn­mál. Gerð verði mál­stefna um ís­lenskt tákn­mál og skal hún liggja fyr­ir eigi síðar en í árs­lok 2020. Mál­nefnd um ís­lenskt tákn­mál hafi um­sjón með því verk­efni.

Íslensk mál­stefna. Mál­stefn­an sem samþykkt var árið 2009 – Íslenska til alls – verði end­ur­skoðuð til sam­ræm­is við breytta tíma og byggt verði á mati á nú­ver­andi mál­stefnu. Ný mál­stefna skal liggja fyr­ir eigi síðar en í árs­lok 2021. Íslensk mál­nefnd hafi um­sjón með því lög­bundna verk­efni. Hvatt sé til þess að sem flest­ar stofn­an­ir, fyr­ir­tæki og fé­laga­sam­tök marki sér mál­stefnu.

Loka­orð

Það hlýt­ur hverj­um manni að vera ljóst að ís­lensk­an þarf öt­ula mál­svara og fylg­is­menn ef við ætl­um að nota hana áfram hér á landi. Við þurf­um öll að leggj­ast á árar til að tryggja að svo megi verða. Tungu­málið varðveit­ir sögu okk­ar og menn­ingu, svo ekki sé talað um ör­nefn­in sem að sjálf­sögðu eiga að vera rituð á ís­lensku um ald­ur og ævi. Ég vitna oft í orð fyrr­ver­andi for­seta, frú Vig­dís­ar Finn­boga­dótt­ur, sem sagði: „Ef ís­lensk­an hverf­ur tap­ast þekk­ing og við hætt­um að vera þjóð.“ Því setj­um við ís­lensk­una í önd­vegi með því að nota hana fyrst og fremst og átt­um okk­ur á því að virði henn­ar er okk­ur ómet­an­legt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. ágúst 2019.

Categories
Fréttir

„Bara einn olíubrúsann í viðbót til að hafa tiltækan þegar græna orkan svíkur“

Deila grein

25/07/2019

„Bara einn olíubrúsann í viðbót til að hafa tiltækan þegar græna orkan svíkur“

„Mótmælendur streyma vestur til að mótmæla bættum vegi frá Ingólfsfirði yfir í Ófeigsfjörð. Mótmælendur þurfa á leið sinni vestur að fara um tvíbreiða vegi sem liggja um einkalönd til að setja sig upp á móti vegabótum á Vestfjörðum.“ Þetta segir Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í yfirlýsingu í gær.
Tilefni þessa er að í fréttum hefur komið fram. hjá andstæðingum Hvalárvirkjunar. að stór hópur fólks sé á leið vestur til að mótmæla. Vesturverk hefur hafið undirbúning í Seljanesi í Árneshreppi vegna Hvalárvirkjunar, en unnið er að lagfæringum á veginum í firðinum.
„Kannski eru þau ekki að mótmæla vegi, heldur virkjun, eða kannski ekki, heldur bara breytingum. Því við hér fyrir vestan erum svo mikið krútt og breytingar fara okkur ekki vel. Fara svo heim og kveikja ljós í ágústhúminu og sjóða sér ýsu á rafeldavélinni, þau geta það. Hafa trausta græna orku allt árið til sinna tilbúnu þarfa.
Við hérna fyrir vestan pöntum okkur bara einn olíubrúsann í viðbót til að hafa tiltækan þegar græna orkan svíkur.
En verið velkomin, þau þurfa að borða, gista og spjalla, Vestfirðingar eru gestrisnir.
Alltaf gaman að fá gesti,“ segir Halla Signý.

Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Stefán Vagn Stefánsson

Deila grein

23/07/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Stefán Vagn Stefánsson

Í Skagafirði leiddi Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og formaður byggðaráðs, framboðslista Framsóknarflokks 2018. Stefán Vagn er fæddur 17. janúar 1972 og er sonur Hrafnhildar Stefánsdóttur frá Hjaltastöðum í Blönduhlíð í Skagafirði og Stefáns Guðmundssonar fyrrverandi alþingismanns frá Sauðárkróki.
Stefán Vagn hóf störf í lögreglunni á Sauðárkróki 1997 og starfaði þar til ársins 1998 er hann hóf störf í lögreglunni í Reykjavík. Hóf nám í lögregluskóla ríkisins árið 1998 og að skóla loknum hóf Stefán störf hjá lögreglunni í Reykjavík. Árið 2001 hóf hann störf í sérsveit ríkislögreglustjóra og starfaði þar til ársins 2007. Hóf störf í greiningardeild ríkislögreglustjóra árið 2007 til 2008 þegar hann hóf störf sem yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki. Stefán starfaði samhliða lögreglustarfinu hjá utanríkisráðuneytinu og fór til Afganistan sem friðargæsluliði 2006 til 2007. Stefán Vagn er giftur Hrafnhildi Guðjónsdóttur og eiga þau þrjú börn.
Stefán var kjörinn til setu í sveitastjórn sveitafélagsins Skagafjarðar 2010 en hann var oddviti lista Framsóknar. Eftir sveitastjórnarkosningarnar 2010 var hann kjörinn formaður byggðarráðs sveitarfélagsins.

Hvers vegna í stjórnmál?

„Ég vil vinna að öflugum byggðum um land allt og að sjálfsögðu sérstaklega hér í Skagafirði. Ég segi það hreint út að við þurfum öfluga byggðarstefnu fyrir Ísland, við verðum að lyfta grettistaki. Það verður að jafna þann aðstöðumun sem hefur myndast á milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar og fyrir því berst ég,“ segir Stefán Vagn.

Áherslumál Framsóknar í Skagafirði

Hjá sveitarfélaginu verði viðhöfð ábyrg og gegnsæ stjórnsýsla líkt og undanfarin ár og öll framtíðarstörf auglýst eins og verið hefur. • Áfram verði sýnt aðhald og ábyrgð í rekstri sveitarsjóðs. Undir forystu Framsóknarflokksins hefur verið rekin ábyrg fjármálastjórn sem hefur skilað sér í mikilli innviðauppbyggingu á sama tíma og skuldahlutfall sveitarsjóðs hefur lækkað. • Í tengslum við endurskoðun á gildandi aðalskipulagi verði unnin sérstök stefnumörkun fyrir atvinnu- og byggðaþróun í Sveitarfélaginu Skagafirði í samvinnu við heimamenn á hverju svæði. • Tryggja þarf nægt framboð íbúðalóða á Hofsósi, í Varmahlíð og á Sauðárkróki. • Tryggja þarf íbúum Skagafjarðar aðgang að öflugri félagsþjónustu og að allir aldraðir íbúar sveitarfélagsins njóti lögbundinnar þjónustu. • Farið verði í viðræður við samgönguyfirvöld um að tryggja viðhald safn-, tengi- og þjóðvega um allt héraðið. • Sveitarfélagið á að standa vörðu um hagsmuni bænda enda landbúnaður einstaklega mikilvægur þáttur í atvinnulífi héraðsins. • Halda þarf merki Skagafjarðar á lofti sem eins öflugasta matvælaframleiðsuhéraðs landsins.

Fréttir og greinar

Hvítabjörninn á Þverárfjalli þann 2. júní 2008


Lögregla fékk tilkynningu um hvítabjörn og fór á staðinn til að staðfesta upplýsingarnar en á undan hafði fjölmiðlum verið tilkynnt um komu hvítabjarnarins. Þegar fréttist af hvítabirninum streymdi mikið af fólki á vettvanginn og voru margir komnir á undan lögreglu á staðinn. Byrjað var á að loka veginum við afleggjara Þverárfjallsvegs og Hrauns á Skaga en fólk var staðráðið í því að sjá dýrið og taka myndir af því þannig að sumir notuðu hjáleið sem lögreglumaður vissi ekki af og komst því nær. Af upplýsingum sjónarvotta að dæma virtist fólk ekki gera sér nokkra grein fyrir þeirri hættu sem stafaði af dýrinu.
Lögregla kallaði til fjórar skyttur sem komu á vettvang skömmu á eftir lögreglu. Einnig var leitað aðstoðar Náttúrustofu Norðurlands vestra (NNV). Þegar hér var komið reyndi lögreglan að tryggja vettvang eftir föngum en það var erfitt þar sem mikið af fólki var á staðnum nokkur hundruð metra frá dýrinu. Lögregla og skyttur fylgdust með dýrinu en fljótlega kom að því styggð og dýrið fór á hreyfingu. Hvarf dýrið í um fimm mínútur og sást aftur þar sem það var komið töluvert lengra til suðvesturs og útfyrir þá lokun sem lögregla hafði sett. Mikil þoka var ofar í hlíðum Þverárfjalls og af öryggisástæðum og ótta við að dýrið myndi týnast í þokunni var tekin ákvörðun um að fella dýrið.
Stefáni Vagni varð á orði á dögunum: „Rakst aftur á þennan, nú í Perlunni.“

Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Ásgerður K. Gylfadóttir

Deila grein

19/07/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Ásgerður K. Gylfadóttir

Á Hornafirði leiddi Ásgerður K. Gylfadóttir, hjúkrunarfræðingur og formaður bæjarráðs, lista Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Ásgerður er 50 ára, fædd 10. desember 1968, í Hnífsdal í Ísafjarðardjúpi. Hún hefur búið á Höfn í Hornafirði frá árinu 2002 og „vil ég hvergi annars staðar búa“. Ásgerður er gift Jónasi Friðrikssyni rafvirkja, á þrjú börn á aldrinum 30 til 13 ára og einn sonarson sem er 6 ára.
Ásgerður er menntaður hjúkrunarfræðingur og starfaði sem hjúkrunarstjóri á hjúkrunarsviði hjá HSU Hornafirði. Í dag er hún hjúkrunarfræðingur í hlutastarfi en ekki hjúkrunarstjóri enda hefur pólitíkin tekið aukinn tíma frá öðru. Ásgerður er einnig leiðbeinandi í skyndihjálp og kennir jóga eldsnemma á morgnanna þegar flestum finnst best að sofa. Ásgerður hefur verið í bæjarráði, fræðslu- íþrótta- og tómstundanefnd og skipulagsnefnd auk þess sem hún gegndi embætti bæjarstjóra um tíma. Einnig situr Ásgerður í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Ásgerður er á sínu þriðja kjörtímabili í bæjarstjórn og jafnframt er hún varaþingmaður Suðurkjördæmis frá 2017 og hefur tekið sæti á Alþingi í maí-júní 2018 og nóvember 2018 til mars 2019.

Af hverju áhugi á bæjarmálefnum?

„Ég vil búa í góðu og heilbrigðu samfélagi. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að gera gott samfélag fjölskylduvænt og skilvirkt. Tækifærin séu enn betri fyrir okkur sem hér búum og það það sé eftirsóknarvert fyrir aðra að setjast hér að, og það fyrir fólk á öllum aldri,“ segir Ásgerður.

Áherslumál Framsóknar og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði

Við leggjum áherslu á að bæjarstjórinn, ásamt öðru forystufólki sveitarfélagsins, láti að sér kveða og tali máli sveitarfélagsins, þannig að eftir sé tekið á landsvísu. • Byggð verði upp öflug og opin stjórnsýsla með skýrum verkferlum. • Auka þátttöku íbúa í ákvarðanatöku með auknu íbúalýðræði og viðhorfskönnun meðal íbúa um ýmsa þætti í þjónustu sveitarfélagsins. • Sveitarfélagið verði eftirsóttur vinnustaður þar sem meðal annars er vel hugað að sí- og endurmenntun starfsmanna auk heilsueflandi þátta. • Lækka fasteignaskatta á heimili í sveitarfélaginu. • Sveitarfélagið eigi gott samstarf við hagsmunafélög atvinnugreina í heimabyggð. • Stutt verði dyggilega við rannsóknir, nýsköpun og þróun. • Haldið verði áfram uppbyggingu á tækjakosti Matarsmiðjunnar í samvinnu við fyrirtæki og einstaklinga. • Gerð verði könnun á húsnæðisþörf í sveitarfélaginu í heild, á meðal allra aldurshópa. • Nægt fé fáist til rannsókna á Grynnslunum. • Gerð verði verkáætlun um varanlega lausn á innsiglingunni með hliðsjón af rannsóknum. • Fylgt verði eftir samningi ríkis og sveitarfélagsins um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis. • Stutt verði við frumkvöðla í menningarstarfsemi í sveitarfélaginu. • Sveitarfélagið verði í fararbroddi í loftslagsmálum og náttúruvernd.

Fréttir og greinar

„Njótum lífsins í náttúruperlum Suðausturlands“

„Að gegna stjórnunarstöðu og vera oddviti í bæjarstjórn auk annarra trúnaðarstarfa getur verið ansi tímafrekt. Því hef ég undanfarin ár unnið markvisst að því að njóta hverrar einustu stundar og einfalda líf mitt. Liður í því var að skella mér í yogakennaranámYoga, núvitund og hugleiðsla er mín leið til að hlaða mig orku og krafti.
Fjölskyldan er nú orðin nokkuð vön því að ég hlaupi milli funda eða sé á flakki milli landshluta vegna starfa minna en ferðalög og útivist með þeim innan lands og utan eru bestu stundirnar sem við erum alltaf að reyna að fjölga,“ segir Ásgerður.
„Í sumar setjum við fókusinn sérstaklega á nærumhverfið og njótum lífsins í náttúruperlum Suðausturlands.“
 

Ljósmynd: Ásgerður K. Gylfadóttir, við  Svartafoss í Skaftafelli í  Vatnajökulsþjóðgarði, sem er nú kominn á heimsminjaskrá UNESCO.

Categories
Fréttir

„Get­ur ekki leng­ur beðið í tækni­leg­um öngstræt­um stjórn­sýsl­unn­ar“

Deila grein

19/07/2019

„Get­ur ekki leng­ur beðið í tækni­leg­um öngstræt­um stjórn­sýsl­unn­ar“

Land er og hef­ur verið auðlind í aug­um Íslend­inga frá upp­hafi byggðar og bera marg­ar af Íslend­inga­sög­un­um þess merki að bar­átta um land og eign­ar­hald á því hafi verið einn af megin­á­steyt­ings­stein­um í gegn­um sögu okk­ar. Þetta segir Jón Björn Hákonarson, for­seti bæj­ar­stjórn­ar Fjarðabyggðar og rit­ari Fram­sókn­ar, í grein í Morgunblaðinu 18. júlí sl.
Frá landnámsöld hefur það verið metnaður Íslendinga að það sé skýrt hvað landeigendur eiga með rétti, segir Jón Björn. „Skap­ast hef­ur mik­il umræða í kjöl­far upp­kaupa bresks auðmanns á jörðum í Vopnafirði og Norður-Þing­eyj­ar­sýslu, þar sem búið er að kaupa upp allt að því heilu laxveiðiárn­ar og vatna­svæði þeirra. Hef­ur því eðli­lega fylgt mik­il gagn­rýni á laga­setn­ingu og þann ramma sem skapaður hef­ur verið vegna jarðakaupa á Íslandi í kjöl­far breyt­inga á jarðalög­un­um sem gerð voru í upp­hafi þess­ar­ar ald­ar. Þá hef­ur hluti af gagn­rýni þeirri sem komið hef­ur fram vegna inn­leiðing­ar orkupakka þrjú, hér á landi, einnig snúið að eign­ar­haldi á auðlind­um og vatns­rétt­ind­um á Íslandi.“
„Nauðsyn­legt er því í þessu ljósi að fara að styrkja þær stoðir sem snúa að laga­setn­ingu vegna búj­arða og slíkt get­ur ekki leng­ur beðið í tækni­leg­um öngstræt­um stjórn­sýsl­unn­ar eins og verið hef­ur síðustu ár. Jarðalög­um þarf að breyta þannig að hægt sé að setja ákveðnar regl­ur varðandi eign­ar­hald á jörðum og að ekki sé hægt að selja auðlind­ir okk­ar úr landi,“ segir Jón Björn.

Categories
Greinar

Sterkari staða námsmanna eflir samfélagið

Deila grein

19/07/2019

Sterkari staða námsmanna eflir samfélagið

Í Sam­fé­lags­sátt­mála Rous­seaus er fjallað um ein­kenni góðs stjórn­ar­fars. Fram kem­ur að ef íbú­um þjóðrík­is fjölg­ar og þeir efl­ast sem ein­stak­ling­ar væri um að ræða skýra vís­bend­ingu um gott stjórn­ar­far. Ísland hef­ur á síðustu öld borið gæfu til þess að upp­fylla þessi skil­yrði, þ.e. fjölg­un íbúa, auk­in tæki­færi fyr­ir ein­stak­linga ásamt því að þjóðar­tekj­ur hafa hækkað. Hins veg­ar þurf­um við stöðugt að vera á tán­um og til­bú­in til að styrkja grunnstoðir sam­fé­lags­ins.

Sam­keppn­is­hæfni auk­in

Ný­verið voru kynnt frum­varps­drög um Stuðnings­sjóð ís­lenskra náms­manna (SÍN), nýtt náms­styrkja- og lána­kerfi. Lánsþegum hjá Lána­sjóði ís­lenskra náms­manna hef­ur fækkað veru­lega á und­an­förn­um árum á sama tíma og marg­ir ís­lensk­ir náms­menn á Norður­lönd­um kjósa frek­ar að taka lán hjá nor­ræn­um lána­sjóðum en þeim ís­lenska. Auka þarf sam­keppn­is­hæfni ís­lenska kerf­is­ins, því ann­ars er hætta á spekileka vegna þessa, þ.e. að nem­ar hugi frek­ar að því að setj­ast að þar sem þeir hafa fjár­hags­leg­ar skuld­bind­ing­ar.

30% niður­fell­ing náms­lána

Með nýju frum­varpi munu lánþegar sem ljúka próf­gráðu inn­an til­greinds tíma geta fengið náms­styrk sem nem­ur 30% af höfuðstóli náms­láns. Þetta er grund­vall­ar­breyt­ing frá nú­ver­andi kerfi sem mun gera stuðning við náms­menn skýr­ari og jafn­ari. Í nú­ver­andi kerfi felst styrk­ur­inn í niður­greidd­um vöxt­um og af­skrift­um náms­lána en hon­um er mjög mis­skipt milli náms­manna. Stærst­ur hluti styrks­ins hef­ur farið til þeirra náms­manna sem taka hæstu náms­lán­in og fara seint í nám. Á sama tíma eru þeir sem hefja nám ung­ir og taka hóf­legri náms­lán lík­legri til að fá eng­ar af­skrift­ir. Nýtt frum­varp mun breyta þessu en að auki munu náms­menn njóta bestu vaxta­kjara sem rík­is­sjóði Íslands bjóðast á lána­mörkuðum að viðbættu lágu álagi.

Barna­styrk­ir í stað lána

Önnur grund­vall­ar­breyt­ing sem felst í frum­varp­inu er styrk­ur vegna barna. Í nú­ver­andi náms­lána­kerfi er lánað fyr­ir fram­færslu barna en með nýju fyr­ir­komu­lagi geta lánþegar fengið styrk vegna slíkr­ar fram­færslu. Mark­miðið með barna­styrkn­um er að jafna aðstöðu lánþega sem eiga börn og annarra lánþega. Gert er ráð fyr­ir að styrk­ur til fram­færslu hvers barns sé í sam­ræmi við náms­tíma náms­manns að há­marki 96 mánuðir. Styrk­ur­inn kem­ur til viðbót­ar við 30% niður­fell­ing­una sem náms­mönn­um býðst við lok próf­gráðu á til­sett­um tíma.

Nýja frum­varpið boðar rót­tæka breyt­ingu á nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi sem mun stuðla að sterk­ari stöðu náms­manna og mun fjöl­skyldu­vænna um­hverfi. Mark­mið allra stjórn­valda á að vera að styrkja sam­fé­lagið sitt, þannig að það sé eft­ir­sókn­ar­vert til bú­setu. Frum­varps­drög til nýrra laga um Stuðnings­sjóð ís­lenskra náms­manna er liður í því að efla sam­fé­lagið okk­ar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. júlí 2019.

Categories
Fréttir

Skapa áform um friðlýsingu ný tækifæri á Úthéraði?

Deila grein

18/07/2019

Skapa áform um friðlýsingu ný tækifæri á Úthéraði?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, segir að vel hafi tekist til við með uppbyggingu aðstöðu ferðamanna við Goðafoss í Þingeyjarsveit og að áform um friðlýsingu jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaóss í Hjaltastaðarþinghá gætu skapað ný tækifæri á Úthéraði. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
Líneik Anna spyr, „skapa áform um friðlýsingu ný tækifæri á Úthéraði“ og „hvaða tækifæri og áskoranir fylgja friðlýsingu þessara jarða.“
Á áformuðu friðlýstu svæði jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaóss í Hjaltastaðarþinghá er afar fjölbreytt landslag þar sem fjöll, klettar og björg, víkur og tangar setja mikinn svip á landslagið. Víða má sjá berghlaup og grjótjökla, en frægast þeirra er Stórurð undir Dyrfjöllum. Að Stórurð liggur vinsæl gönguleið frá Vatnsskarði.

Svæðið er að hluta innan Úthéraðs þar sem fuglalíf er mjög fjölbreytt og meðal annars að finna tegundir sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum. Enn fremur eru á svæðinu merkar sögulegar minjar, m.a. gamall verslunarstaður og höfn við Krosshöfða og Stapavík.
Frestur til að skila athugasemdum og ábendingum við áformin er til 18. september 2019, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Categories
Greinar

Með lögum skal land tryggja

Deila grein

18/07/2019

Með lögum skal land tryggja

Land er og hef­ur verið auðlind í aug­um Íslend­inga frá upp­hafi byggðar og bera marg­ar af Íslend­inga­sög­un­um þess merki að bar­átta um land og eign­ar­hald á því hafi verið einn af megin­á­steyt­ings­stein­um í gegn­um sögu okk­ar. Þá ber Jóns­bók þess merki að Íslend­ing­ar hafi frá fyrstu tíð haft metnað til þess að ramma skýrt inn rétt­indi jarða og land­eig­enda. Þetta end­ur­spegl­ar vel þá stöðu sem land og auðlind­ir þess hafa fyr­ir al­menn­ing á Íslandi og nauðsyn þess að um það sé staðinn vörður. En jarðeign­ir og land eru ekki bara mæld í hekt­ur­um eða fer­metr­um, því landi fylgja oft ríku­leg hlunn­indi og auðlind­ir. Þar má meðal ann­ars nefna vatns- og mal­ar­rétt­indi, veiðihlunn­indi, dún- og eggja­tekju ásamt reka. Ekki síst eru ekki upp­tald­ar þær auðlind­ir sem fel­ast í góðu rækt­ar- og beitilandi sem er ómet­an­legt fyr­ir framtíð bú­skap­ar á Íslandi sem er for­senda mat­væla­ör­ygg­is þjóðar­inn­ar og órjúf­an­leg­ur hluti menn­ing­ar okk­ar og sögu sem þjóðar.

Með manni og mús

Búj­arðir og land al­mennt hef­ur ríku­legt gildi fyr­ir ís­lenska þjóð. Landið með sín­um auðlind­um er grund­völl­ur bú­setu og at­vinnu víða á lands­byggðinni. Það er því allá­huga­vert að fylgj­ast með þeirri þróun sem hef­ur átt sér stað á und­an­förn­um árum þar sem jarðir hafa verið keypt­ar upp í stór­um stíl, jafn­vel heilu dal­irn­ir, með hurðum og glugg­um. Skap­ast hef­ur mik­il umræða í kjöl­far upp­kaupa bresks auðmanns á jörðum í Vopnafirði og Norður-Þing­eyj­ar­sýslu, þar sem búið er að kaupa upp allt að því heilu laxveiðiárn­ar og vatna­svæði þeirra. Hef­ur því eðli­lega fylgt mik­il gagn­rýni á laga­setn­ingu og þann ramma sem skapaður hef­ur verið vegna jarðakaupa á Íslandi í kjöl­far breyt­inga á jarðalög­un­um sem gerð voru í upp­hafi þess­ar­ar ald­ar. Þá hef­ur hluti af gagn­rýni þeirri sem komið hef­ur fram vegna inn­leiðing­ar orkupakka þrjú, hér á landi, einnig snúið að eign­ar­haldi á auðlind­um og vatns­rétt­ind­um á Íslandi. Það er rétt­mæt gagn­rýni sem hlusta þarf á vegna þess að sag­an hér á Íslandi og ná­granna­lönd­um okk­ar kenn­ir okk­ur það að fjár­magn leit­ar sér far­vegs þar sem um mikl­ar og öfl­ug­ar auðlind­ir er að ræða og þar eru ekki alltaf hags­mun­ir heild­ar­inn­ar hafðir að leiðarljósi, því miður.

Styrkja þarf ramm­ann strax

Nauðsyn­legt er því í þessu ljósi að fara að styrkja þær stoðir sem snúa að laga­setn­ingu vegna búj­arða og slíkt get­ur ekki leng­ur beðið í tækni­leg­um öngstræt­um stjórn­sýsl­unn­ar eins og verið hef­ur síðustu ár. Jarðalög­um þarf að breyta þannig að hægt sé að setja ákveðnar regl­ur varðandi eign­ar­hald á jörðum og að ekki sé hægt að selja auðlind­ir okk­ar úr landi. Frændþjóðir okk­ar hafa stigið slík skref þannig að for­dæm­in eru til þannig að nú verða verk­in að tala á lög­gjaf­arþingi þjóðar­inn­ar þegar það kem­ur sam­an á haust­dög­um. Slíkt þolir enga bið. Ekki er held­ur eðli­legt að búið sé að rýra byggðir víða um land með þeim hætti að sveit­ar­fé­lög hafa misst stór­an hluta út­svar­stekna sinna vegna þess að stór hluti jarðanna er í eigu fólks sem býr í öðrum sveit­ar­fé­lög­um eða er­lend­is og borg­ar því ekki skatta í viðkom­andi sveit­ar­fé­lagi. Þá um leið er líka búið að kippa und­an heilu sam­fé­lög­un­um grund­velli þess að byggð þar hald­ist áfram og sam­hjálp­ar­hug­sjón­in sem sveit­ir þurfa á að halda get­ur ekki þrif­ist vegna fá­menn­is.

Það er ekki síst brýnt nú á tím­um að við hyggj­um að arf­leifð okk­ar og því sem við ætl­um að skila til kom­andi kyn­slóða. Ábyrgðin er okk­ar að tryggja að land sé í eigu þeirra sem landið ætla að byggja og nýta til framtíðar og það fylgi því ýms­ar skyld­ur að eiga land. Það er óviðun­andi að heilu sveit­irn­ar á Íslandi séu með lög­heim­ili í London.

Jón Björn Hákonarson, for­seti bæj­ar­stjórn­ar Fjarðabyggðar og rit­ari Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júlí 2019.