Categories
Fréttir

Jafnara aðgengi að háskólanámi – inntökupróf nú haldin bæði í Reykjavík og Akureyri

Deila grein

04/03/2025

Jafnara aðgengi að háskólanámi – inntökupróf nú haldin bæði í Reykjavík og Akureyri

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, vakti athygli á framfaraskrefi sem væri verið að taka í menntakerfinu. Í fyrsta sinn verður inntökupróf í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði haldið bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þetta framfaraskref í menntakerfinu er liður í að jafna aðgengi að háskólanámi óháð búsetu.

„Á síðasta ári fékk ég ábendingu frá foreldri sem óttaðist að barn þess myndi ekki komast í inntökupróf í læknisfræði vegna veðurs. Þetta var ekki einstakt tilfelli. Margir nemendur á landsbyggðinni hafa þurft að leggja í langar og kostnaðarsamar ferðir til Reykjavíkur til að taka próf og veðuraðstæður hafa jafnvel komið í veg fyrir að þeir geti mætt,“ sagði Ingibjörg.

„Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn um fjölgun próftökustaða og nú er fyrsta skrefið tekið með því að bjóða upp á inntökupróf á Akureyri. Þetta er mikilvægt fyrir landsbyggðina og fyrir jafnrétti til náms. Með þessu skrefi erum við að mæta fólki og efla tækifæri þess til að sækja sér menntun óháð því hvar það býr.“

Nú verður prófunum sinnt samhliða í Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands með rafræna prófakerfinu Inspera, sem tryggir samræmi í framkvæmd prófanna. Ingibjörg telur þetta vera fyrsta skrefið í stærri breytingum og hvetur til þess að í framtíðinni verði inntökupróf einnig haldin á fleiri stöðum, eins og Ísafirði, Egilsstöðum og Hornafirði, þar sem aðstaða til háskólanáms og prófaumsýslu er þegar til staðar í samstarfi við Háskóla Íslands.

„Það er brýnt að við höldum áfram að þróa menntakerfi með þarfir nemenda að leiðarljósi og tryggjum að allir hafi sömu möguleika.

Þessi breyting er sönnun þess að þegar hlustað er á raddir fólks og unnið markvisst að lausnum er hægt að ná árangri. Ég vil þakka rektor Háskóla Íslands og öllum þeim sem hafa unnið að þessari breytingu. Höldum áfram á þessari braut, að tryggja að menntakerfið okkar taki mið af þörfum allra landsmanna,“ sagði Ingibjörg að lokum.

***

Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í dag vil ég vekja athygli á mikilvægu framfaraskrefi sem verið er að taka í menntakerfinu okkar. Í fyrsta sinn verður inntökupróf í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði haldið bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þetta er breyting sem lengi hefur verið barist fyrir og er hún skref í átt að jöfnun aðgengis að háskólanámi óháð búsetu. Á síðasta ári fékk ég ábendingu frá foreldri sem óttaðist að barn þess myndi ekki komast í inntökupróf í læknisfræði vegna veðurs. Þetta var ekki einstakt tilfelli. Margir nemendur á landsbyggðinni hafa þurft að leggja í langar og kostnaðarsamar ferðir til Reykjavíkur til að taka próf og veðuraðstæður hafa jafnvel komið í veg fyrir að þeir geti mætt. Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn um fjölgun próftökustaða og nú er fyrsta skrefið tekið með því að bjóða upp á inntökupróf á Akureyri. Þetta er mikilvægt fyrir landsbyggðina og fyrir jafnrétti til náms. Með þessu skrefi erum við að mæta fólki og efla tækifæri þess til að sækja sér menntun óháð því hvar það býr. Próf verða nú haldin samhliða í Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands með rafræna prófakerfinu Inspera sem tryggir samræmi í framkvæmd prófanna og verður gaman að fylgjast með hvernig til tekst. En við skulum líta á þetta sem fyrsta skrefið í stærri breytingum. Í framtíðinni væri eðlilegt að horfa til fleiri staða, eins og Ísafjarðar, Egilsstaða, Hornafjarðar, sem nú þegar hafa aðstöðu til að sinna háskólanámi og prófaumsýslu í samstarfi við Háskóla Íslands. Það er brýnt að við höldum áfram að þróa menntakerfi með þarfir nemenda að leiðarljósi og tryggjum að allir hafi sömu möguleika.

Virðulegi forseti. Þessi breyting er sönnun þess að þegar hlustað er á raddir fólks og unnið markvisst að lausnum er hægt að ná árangri. Ég vil þakka rektor Háskóla Íslands og öllum þeim sem hafa unnið að þessari breytingu. Höldum áfram á þessari braut, að tryggja að menntakerfið okkar taki mið af þörfum allra landsmanna.“

Categories
Fréttir

Aðhald í ríkisrekstri ekki nóg eitt og sér

Deila grein

04/03/2025

Aðhald í ríkisrekstri ekki nóg eitt og sér

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins mikilvægi þess að horfa á stóru myndina og lagði áherslu á að hagstjórn snúist um meira en einungis sameiningu stofnana og niðurskurð útgjalda. Var hann þarna að vísa til væntanlegs blaðamannafundar forsætisráðherra um hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar.

Þórarinn Ingi benti á að þótt aðhald í opinberum útgjöldum sé mikilvægt, sé það ekki eina leiðin til að ná fram efnahagslegri stöðugleika. Hann undirstrikaði að stjórnvöld verði að horfa á stærri myndina og stuðla að heilbrigðu efnahagsumhverfi þar sem atvinnulíf getur vaxið og dafnað.

„Sjávarútvegur, landbúnaður og aðrar atvinnugreinar eru grunnstoðir hagkerfisins og án þeirra verður ekki til það skattfé sem rekstur ríkisins byggir á,“ sagði hann og bætti við að stjórnvöld verði að tryggja skilyrði fyrir nýsköpun, fjárfestingar og sjálfbæran vöxt í atvinnulífi.

Jafnvægi milli ríkisreksturs og atvinnulífs

Þórarinn Ingi lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að tryggja jafnvægi í samspili ríkisreksturs og atvinnulífs. Hann varaði við því að of miklar álögur og íþyngjandi reglugerðir gætu kæft vöxt fyrirtækja, dregið úr fjárfestingum og leitt til færri starfa. Stjórnvöld verði að hlusta á atvinnulífið og tryggja að stefna ríkisins styðji við verðmætasköpun í samfélaginu.

„Hagstjórn má ekki snúast einkum um skammtímalausnir eins og niðurskurð á útgjöldum eða skattahækkanir. Aðstæður atvinnulífsins þurfa að vera þannig að fyrirtæki sjái sér hag í að fjárfesta, skapa störf og bæta afkomu þjóðarinnar til framtíðar,“ sagði Þórarinn Ingi.

Atvinnulíf og ríkisfjármál þurfa að haldast í hendur

„Stjórnvöld verða að líta á heildarmyndina í hagstjórn. Bæði opinber útgjöld og rekstrarskilyrði atvinnulífsins skipta máli. Ef atvinnulífið dafnar þá hefur ríkið meira svigrúm til að sinna samfélagslegum verkefnum,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum.

***

Ræða Þórarins Inga í heild sinni á Alþingi:

„Frú forseti. Í dag mun forsætisráðherra að kynna hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar kl. 14:45 í dag og verður áhugavert að fylgjast með þeim lestri. Hagstjórn snýst um meira en bara sameiningu stofnana. Ríkisstjórnin getur ekki einungis horft inn á við þegar kemur að hagræðingu innan stofnanakerfisins og ríkisverkefna. Aðhald í opinberum útgjöldum er mikilvægt en það kemur ekki til með að nægja eitt og sér. Það þarf að skoða stærri myndina og styðja við heilbrigt efnahagsumhverfi þar sem atvinnulíf getur vaxið og dafnað. Sjávarútvegur, landbúnaður og aðrar atvinnugreinar eru grunnstoðir hagkerfisins og án þeirra verður ekki til það skattfé sem rekstur ríkisins byggir á. Ríkisstjórnin verður að tryggja skilyrði fyrir nýsköpun, fjárfestingar og sjálfbæran vöxt í atvinnulífi. Regluverk, skattkerfi og aðgengi að fjármagni eru lykilþættir í að skapa samkeppnishæft umhverfi fyrir fyrirtækin. Samspil ríkisreksturs og atvinnulífs þarf að vera í jafnvægi. Of miklar álögur og íþyngjandi reglugerðir geta kæft vöxt fyrirtækja sem dregur úr fjárfestingum og störfum. Stjórnvöld þurfa að hlusta á atvinnulífið og tryggja að stefna ríkisins styðji við verðmætasköpun í samfélaginu. Hagstjórn má ekki snúast einkum um skammtímalausnir eins og niðurskurð á útgjöldum eða skattahækkanir. Aðstæður atvinnulífsins þurfa að vera þannig að fyrirtæki sjái sér hag í að fjárfesta, skapa störf og bæta afkomu þjóðarinnar til framtíðar.

Virðulegur forseti. Stjórnvöld verða að líta á heildarmyndina í hagstjórn. Bæði opinber útgjöld og rekstrarskilyrði atvinnulífsins skipta máli. Ef atvinnulífið dafnar þá hefur ríkið meira svigrúm til að sinna samfélagslegum verkefnum.“

Categories
Fréttir Greinar

Fagnaðarskref – dropinn holar steininn

Deila grein

04/03/2025

Fagnaðarskref – dropinn holar steininn

Það er ánægjulegt að sjá jákvæðar breytingar eiga sér stað í menntakerfinu okkar. Það er mikilvægt að sjá að þegar mál eru tekin af festu og af einlægum áhuga er hægt að ná fram raunverulegum breytingum. Á síðasta ári fékk ég símtal frá áhyggjufullu foreldri þar sem útlit var fyrir að barnið hans kæmist ekki í inntökupróf í læknisfræði sökum veðurs. Í framhaldi af þessu sendi ég inn fyrirspurn til fyrrverandi háskóla og nýsköpunarráðherra í tengslum við fjölgun próftökustaða til háskólanáms sem tengjast læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði en núverandi fyrirkomulag krefst þess að allir próftakar mæti til Reykjavíkur.

Fyrsta skrefið í fjölgun próftökustaða

Nú ári síðar er verið að bregðast við þeirri áskorun og fyrsta skrefið verður tekið í vor að fjölga próftökustöðum.

Þetta er mikilvægt framfaraskref fyrir nemendur á landsbyggðinni. Það skiptir miklu máli að menntakerfið sé í stakk búið að taka tillit til námsmanna, hvar sem þeir eru staddir á landinu enda er tækni og þekking á slíkum aðstæðum til staðar.

Nemendur leggja í langar og kostnaðarsamar ferðir til Reykjavíkur til að þreyta inntökupróf og það er staðreynd að langar vegalengdir, aukinn ferðakostnaður og ófyrirsjáanleg veðurskilyrði geta skapað verulegar hindranir fyrir landsbyggðarnema sem vilja sækja háskólanám.

Áframhaldandi þróun og metnaður til framtíðar

Það er nauðsynlegt að við höldum áfram á þessari braut og metum árangurinn af þessari breytingu. Fyrstu skrefin eru tekin með því að bjóða upp á próftöku á Akureyri í vor, og það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi reynsla nýtist sem vonandi leiðir til þess að próftökustöðum verður fjölgað enn frekar í framtíðinni. Staðir eins og m.a. Ísafjörður, Egilsstaðir og Hornafjörður hafa þegar reynslu af því að veita háskólaþjónustu og sjá um prófaumsýslu í samstarfi við Háskóla Íslands og aðrar háskólastofnanir. Markmiðið hlýtur að vera að byggja upp kerfi sem tryggir að nemendur um allt land hafi sömu möguleika til náms, óháð búsetu þeirra.

Jákvæð þróun í menntamálum

Stefna okkar í Framsókn er alveg skýr hvað þetta varðar, að tryggja öllum sama rétt og tækifæri til menntunar óháð aðstæðum. Þessi jákvæðu skref sýna að þegar tekið er á málum af festu og vilja er hægt að ná raunverulegum árangri. Ég vil þakka rektor Háskóla Íslands og öðrum sem hafa unnið að þessari breytingu fyrir að hlusta og grípa til aðgerða. Það er von mín að þessi þróun haldi áfram og að fleiri framfaraskref verði tekin á næstu árum til að tryggja enn betra aðgengi að háskólanámi fyrir alla landsmenn.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 3. mars 2025.

Categories
Fréttir

Velheppnuð kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

03/03/2025

Velheppnuð kjördæmavika Framsóknar

Þingflokkur Framsóknar lagði upp með mjög metnaðarfulla kjördæmaviku að þessu sinni. Var farið réttsælis hringinn í kringum landið og haldnir opnir fundir um land allt og auk þess að eiga fundi með fulltrúum stofnana og fyrirtækja.

Starfsáætlun Alþingis gerir ráð fyrir kjördæmaviku að hausti og vori. Sú hefð hefur skapast að skipulag kjördæmaviku að vori er í höndum stjórnmálaflokkanna sjálfra. En kjördæmavika að hausti fer í formlegar heimsóknir þingmanna í hverju kjördæmi til sveitarstjórna.

Það er ekkert launungarmál að kjördæmavika, hvort sem er að hausti eða vori, er alþingismönnum í stóru landsbyggðarkjördæmum mjög heppilegt tækifæri til að rækta og hitta kjósendur.

Þingflokkurinn var með upptakt að kjördæmavikunni á rafrænum fundi með flokksfólki á Teams.

Fyrsti fundurinn fór fram sunnudaginn 23. febrúar sl. í Borgarbyggð. Þaðan var haldið á Patreksfjörð og fundað þar um kvöldið. Á mánudeginum voru haldnir fundir á Ísafirði, Blönduósi og á Sauðárkróki. Á þriðjudeginum voru fundir haldnir á Siglufirði, Dalvík, Akureyri, Eyjafjarðarsveit og á Húsavík. Á miðvikudaginn voru fundir á Egilsstöðum, Reyðarfirði og á Hornafirði. Á fimmtudeginum voru haldnir fundir á Kirkjubæjarklaustri, Vík í Mýrdal, Hvolsvelli og á Selfossi. Á laugardaginn var svo haldinn fundur í Kópavogi.

Umræðuefnin á fundunum voru fjölmörg, s.s. eignarhald á bújörðum, ESB og aðild að bandalaginu, ferðaþjónustan, ferjusiglingar, fiskeldi, fjarskipti, fjárfestingar á landsbyggðinni og viðhorf fjármálafyrirtækja, flutningskostnaður – jöfnuður á milli landsbyggða, gullhúðun reglna ESB, hafnamál, heilbrigðismál, húshitunarkostnaður, húsnæðismál, jarðgangaáætlun, jöfnunarsjóðurinn, kjarasamningar, kolefnisbinding, landbúnaðarmál og kynslóðaskipti, lífeyrissjóðsmál, Loftbrúin, loftslagsmál, matvælaframleiðsla og mikilvægi hennar vegna óvissu í alþjóðamálum, menning og stuðningur við hana á landsbyggðinni, menntamál og ívilnun fyrir ungt fólk sem vill setjast að annarsstaðar en á Hvítár/Hvítár svæðinu, náttúruvá, orkumál, raforkuverð og lækkun kostnaðar til bænda, Rammaáætlun, Reykjavíkurflugvöllur, sameining banka, samgönguáætlun, sjávarútvegsmál, sjóeldisfyrirtæki og eignarhald þeirra, skattheimta og dreifing fjármagns til uppruna, sóknaráætlanir landshluta, strandveiðar, sveitarstjórnarstigið og styrking þess, sýslumannsembættin og ásetningur um sameiningu þeirra, tollamál, verðtryggingin, vextir og verðbólga, vindorka, öryggis- og alþjóðamál og samskipti Íslands austan- og vestanhafs.

Þingflokkurinn mund halda kjördæmavikunni áfram næstu daga, en framundan eru fundir í Hafnarfirði, Reykjavík og Reykjanesbæ.

Categories
Greinar

Er lýðræðið í Suðurnesjabæ í frjálsu falli?

Deila grein

02/03/2025

Er lýðræðið í Suðurnesjabæ í frjálsu falli?

Lýðræði og gagn­sæi eru grunnstoðir lýðveld­is­ins og eiga að vera tryggð í öll­um stjórn­sýslu­ein­ing­um lands­ins, þar á meðal á sveit­ar­stjórn­arstig­inu. Síðustu breyt­ing­ar sem urðu á stjórn­skipu­lagi Suður­nesja­bæj­ar voru þegar nýr meiri­hluti tók við sum­arið 2024 þar sem meiri­hlut­inn tók yfir öll lyk­il­hlut­verk í bæj­aráði. Minni­hlut­inn hef­ur því ekki aðkomu að áhrifa­mikl­um ákvörðunum í sveit­ar­fé­lag­inu og ég verð að viður­kenna að það vek­ur al­var­leg­ar áhyggj­ur um framtíð lýðræðis­ins í sveit­ar­fé­lag­inu.

Bæj­ar­ráð ein­ung­is skipað full­trú­um meiri­hlut­ans – brot á lýðræðis­leg­um venj­um?

Eft­ir meiri­hluta­skipt­in sum­arið 2024, þar sem Sjálf­stæðis­flokk­ur, Sam­fylk­ing og Bæj­arlist­inn tóku við stjórn­artaum­un­um, var tek­in ákvörðun um að bæj­ar­ráð Suður­nesja­bæj­ar yrði ein­göngu skipað full­trú­um meiri­hlut­ans. Minni­hlut­an­um, sem sam­an­stend­ur af tveim­ur bæj­ar­full­trú­um Fram­sókn­ar­flokks­ins og ein­um óháðum bæj­ar­full­trúa sem áður var í Sjálf­stæðis­flokkn­um, var aðeins út­hlutað ein­um áheyrn­ar­full­trúa í bæj­ar­ráði, án at­kvæðis­rétt­ar.

Hlut­verk bæj­ar­ráðs er eitt það mik­il­væg­asta inn­an sveit­ar­stjórn­ar, þar sem það hef­ur eft­ir­lit með fjár­mál­um sveit­ar­fé­lags­ins, sem­ur drög að fjár­hags­áætl­un, legg­ur fram til­lög­ur um viðauka við hana og hef­ur fullnaðar­ákvörðun­ar­vald í mál­um sem ekki varða veru­lega fjár­hags­lega hags­muni sveit­ar­fé­lags­ins. Þetta þýðir að all­ar þess­ar ákv­arðanir eru nú tekn­ar af meiri­hlut­an­um ein­um, án þess að minni­hlut­inn hafi nokk­urt raun­veru­legt aðhald eða aðkomu að mál­um.

Það þekk­ist ekki á byggðu bóli á Íslandi að minni­hlut­inn hafi ekki aðgang að bæj­ar­ráði með at­kvæðis­rétti. Þessi breyt­ing er því eins­dæmi og gref­ur und­an lýðræðis­legu eft­ir­liti með ákv­arðana­töku bæj­ar­ráðs.

Fækk­un bæj­ar­full­trúa: Skref aft­ur á bak í lýðræðis­legri þróun?

Annað um­deilt skref sem meiri­hlut­inn hef­ur tekið er að fækka bæj­ar­full­trú­um í Suður­nesja­bæ úr níu í sjö í næstu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um. Á 160. fundi bæj­ar­ráðs lögðu full­trú­ar meiri­hlut­ans, Sig­ur­sveinn Bjarni Jóns­son (Sam­fylk­ingu), Lauf­ey Er­lends­dótt­ir (Bæj­arlist­an­um) og Ein­ar Jón Páls­son (Sjálf­stæðis­flokki), fram til­lögu um fækk­un bæj­ar­full­trúa. Þar sem minni­hlut­inn hafði ekki at­kvæðis­rétt í bæj­ar­ráði var til­lag­an samþykkt sam­hljóða, án mót­atkvæða eða tæki­fær­is til rök­stuðnings gegn henni.

Sam­kvæmt 11. gr. sveit­ar­stjórn­ar­laga skal fjöldi bæj­ar­full­trúa í sveit­ar­fé­lagi með 2.000-9.999 íbúa vera á bil­inu 7-11. Með 4.284 íbúa fell­ur Suður­nesja­bær um miðbik þessa bils og ætti sam­kvæmt eðli­legri stjórn­sýslu að halda í níu full­trúa, þar sem það trygg­ir víðari sjón­ar­mið og meiri fjöl­breytni í lýðræðis­legri umræðu og ákv­arðana­töku sveit­ar­fé­lags­ins, sem er ört stækk­andi.

Sam­an­b­urður við önn­ur sveit­ar­fé­lög

Sé litið til sam­bæri­legra sveit­ar­fé­laga er ljóst að níu full­trú­ar er al­geng­asta fyr­ir­komu­lagið í sveit­ar­fé­lög­um af svipaðri stærð:

Vest­manna­eyj­ar (4.703 íbú­ar) – níu bæj­ar­full­trú­ar

Skaga­fjörður (4.428 íbú­ar) –
níu bæj­ar­full­trú­ar

Ísa­fjarðarbær (3.965 íbú­ar) –
níu bæj­ar­full­trú­ar

Borg­ar­byggð (4.363 íbú­ar) –
níu bæj­ar­full­trú­ar

Norðurþing (3.226 íbú­ar) –
níu bæj­ar­full­trú­ar

Þessi gögn sýna að fækk­un bæj­ar­full­trúa í Suður­nesja­bæ er ekki í sam­ræmi við venj­ur annarra sveit­ar­fé­laga af svipaðri stærð. Með því að fækka full­trú­um minnk­ar lýðræðis­legt aðhald og dreg­ur úr fjöl­breytni sjón­ar­miða í umræðum og ákv­arðana­töku.

Er Suður­nesja­bær í frjálsu falli lýðræðis­ins?

Þess­ar tvær stóru breyt­ing­ar, ein­ræðis­legt bæj­ar­ráð og fækk­un bæj­ar­full­trúa, leiða til meiri samþjöpp­un­ar valds í hönd­um færri aðila og veita minni­hlut­an­um lít­il sem eng­in áhrif á ákv­arðana­töku í sveit­ar­fé­lag­inu. Með því að úti­loka minni­hlut­ann frá áhrif­um er búið til um­hverfi þar sem stjórn­má­laum­ræða og gagn­rýni á ákv­arðanir meiri­hlut­ans verður veik­b­urða.

Spurn­ing­in sem blas­ir við er: Er Suður­nesja­bær í frjálsu falli lýðræðis­ins? Ef bæj­ar­stjórn ætl­ar að viðhalda trausti al­menn­ings og tryggja lýðræðis­lega stjórn­ar­hætti verður hún að staldra við og end­ur­skoða ákv­arðanir sín­ar. Íbúar sveit­ar­fé­lags­ins eiga skilið stjórn­sýslu sem trygg­ir lýðræðis­legt aðhald og fjöl­breytt sjón­ar­mið í ákv­arðana­töku.

Al­ex­is de Tocqu­eville, fransk­ur stjórn­mála­heim­spek­ing­ur, sagn­fræðing­ur og rit­höf­und­ur, þekkt­ur fyr­ir grein­ingu sína á lýðræði og sam­fé­lags­legri þróun, bend­ir á að lýðræði sé ekki sjálf­gefið held­ur bygg­ist á virku aðhaldi og þátt­töku borg­ar­anna. Á sama hátt lagði Platón, grísk­ur heim­spek­ing­ur og einn áhrifa­mesti hugsuður sög­unn­ar, áherslu á að jafn­vægi í stjórn­kerfi væri for­senda stöðug­leika. Það er því und­ir bæj­ar­stjórn Suður­nesja­bæj­ar komið að hlúa að þess­um grunn­gild­um og tryggja að lýðræðið hald­ist sterkt í verki.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Efnahagsleg staða Íslands er sterk

Deila grein

28/02/2025

Efnahagsleg staða Íslands er sterk

Rík­is­stjórn Íslands hef­ur í hyggju að efna til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um hvort Ísland eigi að hefja að nýju aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið. Fram kem­ur reynd­ar í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­flokk­anna að at­kvæðagreiðslan snú­ist um fram­hald viðræðna við ESB. Ég á erfitt með að sjá að þetta sé fram­hald, þar sem hvert og eitt ríki Evr­ópu­sam­bands­ins verður að samþykkja aft­ur að aðild­ar­viðræður hefj­ist að nýju. Þannig að erfitt er að halda því fram að þetta sé beint fram­hald enda er hag­kerfi Íslands búið að breyt­ast mikið frá því að rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur sett­ist við samn­inga­borðið árið 2009. Fernt í hag­kerf­inu okk­ar hef­ur tekið mikl­um um­skipt­um til batnaðar síðasta ára­tug eða svo: Lands­fram­leiðsla á mann, hag­vöxt­ur, staða krón­unn­ar og skuld­ir þjóðarbús­ins.

Ragn­ar Árna­son, pró­fess­or emer­it­us í hag­fræði við Há­skóla Íslands, varpaði ljósi á þessa stöðu nú á dög­un­um og staðfest­ir þær hag­töl­ur sem liggja fyr­ir og hafa gert í nokk­urn tíma. Í fyrsta lagi er lands­fram­leiðsla á mann í aðild­ar­ríkj­um ESB mun lægri en á Íslandi og hef­ur verið í nokk­urn tíma. Bilið á lands­fram­leiðslu á mann á Íslandi ann­ars veg­ar og evru­ríkj­um hins veg­ar hef­ur auk­ist stöðugt frá því að evr­an var tek­in upp um alda­mót­in. Árið 2023 var lands­fram­leiðsla á mann á Íslandi 19% meiri en á evru­svæðinu og 24% meiri en hjá ESB. Í öðru lagi hef­ur hag­vöxt­ur á Íslandi verið meiri á ár­un­um 2000-2023 eða um 1,5% meðan vöxt­ur­inn á evru­svæðinu er 0,9%. Hér er um­tals­verður mun­ur á og skipt­ir öllu máli þegar horft er til framtíðar. Í þriðja lagi hef­ur krón­an verið að styrkj­ast frá 2010-2024 miðað við SDR-mæli­kv­arðann en evr­an hef­ur veikst. Það ber hins veg­ar að hafa í huga að krón­an er ör­mynt og get­ur hæg­lega sveifl­ast ef hag­stjórn­in er ekki í föst­um skorðum og veg­ur út­flutn­ings­greina þjóðarbús­ins sterk­ur. Að lok­um, þá hef­ur skuld­astaða Íslands verið að styrkj­ast og nema heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs um 40% af lands­fram­leiðslu. Þetta sama hlut­fall hjá Frakklandi er 110% og hjá Þýskalandi 63%.

Sök­um þess að Íslandi hef­ur vegnað vel í efna­hags­mál­um mun það einnig þýða að Ísland þurfi að greiða meira til sjóða Evr­ópu­sam­bands­ins en þegar síðast var sótt um. Pró­fess­or Ragn­ar Árna­son hef­ur reiknað út að þetta geti numið á bil­inu 35-50 millj­örðum eða um 100 þúsund krón­um á hvern lands­mann. Rík­is­stjórn Gro Har­lem Brund­t­land sótti um aðild að ESB árið 1992 og svo höfnuðu Norðmenn því að ganga inn í ESB árið 1994. Ein megin­á­stæða þess var ná­kvæm­lega þessi, að kostnaður við ESB-þátt­töku væri þjóðarbú­inu mun meiri en ávinn­ing­ur­inn.

Rík­is­stjórn­in hef­ur boðað að í upp­hafi kjör­tíma­bils­ins verði óháðum er­lend­um sér­fræðing­um falið að vinna skýrslu um kosti og galla krón­unn­ar og val­kosti Íslands í gjald­miðlamál­um. Ég hvet rík­is­stjórn­ina til að vanda veru­lega til þess­ar­ar vinnu, opna fyr­ir þátt­töku inn­lendra aðila og meta einnig efna­hags­leg­an ávinn­ing Íslands í heild sinni og út frá lyk­il­mæli­kvörðum hag­kerf­is­ins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. febrúar 2025.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

20/02/2025

Á ferð um landið – kjördæmavika Framsóknar

Þingflokkur Framsóknar er að leggja upp með metnaðarfulla fundaröð í kjördæmaviku. Við verðum með opna fundi Framsóknar um land allt ásamt því að heimsækja fólk og fyrirtæki.

Þingflokknum er mikilvægt að hlusta á raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Þannig byggjum við okkur öllum samfélag sem við erum stolt af, tryggjum fólki góð lífskjör og treystum búsetu í landinu. Það er og verður meginverkefni okkar í þingflokki Framsóknar nú sem endranær.

Drög að dagskrá opinna funda (nánar í einstaka viðburðum og á framsokn.is):

Sunnudagur 23. febrúar:

Kl. 14:00 – Borgarbyggð – Hótel Vesturland
Kl. 20:00 – Patreksfjörður – Félagsheimilið

Mánudagur 24. febrúar:

Kl. 10:30 – Ísafjörður – Edinborgarhúsið
Kl. 17:00 – Blönduós – Glaðheimar
Kl. 20:00 – Sauðárkrókur – Kaffi Krókur

Þriðjudagur 25. febrúar:

Kl. 08:00 – Fjallabyggð – Aðalbakaríið, Siglufirði
Kl. 10:15 – Dalvík – Hóllinn, menningarhúsinu Bergi
Kl. 12:00 – Akureyri – Lionssalurinn, Skipagötu
Kl. 16:00 – Eyjafjarðarsveit – Hrafnagilsskóli
Kl. 20:00 – Húsavík – Hlynur, salur eldri borgara

Miðvikudagur 26. febrúar:

Kl. 12:00 – Egilsstaðir – Tehúsið
Kl. 14:00 – Reyðarfjörður – Þórðarbúð, björgunarsveitarhúsið
Kl. 20:00 – Hornafjörður – Golfskálinn

Fimmtudagur 27. febrúar:

Kl. 12:00 – Kirkjubæjarklaustur – Systrakaffi
Kl. 14:30 – Vík í Mýrdal – Félagsheimilið Leikskálar
Kl. 17:00 – Hvolsvöllur – N1, Hlíðarenda
Kl. 20:00 – Selfoss – Framsóknarhúsið, Eyravegi

Laugardagur 1. mars:

Kl. 11:00 – Kópavogur – Framsóknarsalurinn, Bæjarlind 14

Mánudagur 3. mars:

Kl. 17:00 – Hafnarfjörður – Kænan veitingastofa

Fimmtudagur 6. mars:

Kl. 17:00 – Reykjavík – Grand Hótel, Sigtúni

Mánudagur 10. mars:

Kl. 19:30 – Reykjanesbær – Framsóknarhúsið, Hafnargötu

Categories
Fréttir Greinar

Ný ríkisstjórn og framtíð orkumála á Íslandi

Deila grein

20/02/2025

Ný ríkisstjórn og framtíð orkumála á Íslandi

Að lok­inni þing­setn­ingu, sem fram fór 4. fe­brú­ar sl. og þar sem ný rík­is­stjórn hef­ur lagt fram þing­mála­skrá vorþings, er rétt að minna á eina mik­il­væg­ustu áskor­un sam­tím­ans: orku­mál. Orku­mál hafa um langa hríð verið mikið deilu­efni á Alþingi, en í ljósi þjóðar­hags­muna er nauðsyn­legt að nálg­ast þau af meiri skyn­semi og trausti en verið hef­ur, bæði varðandi nýt­ingu auðlinda og nátt­úru­vernd. Það er von mín að umræða um orku­mál á kom­andi árum verði mark­viss og lausnamiðuð og byggi á sam­eig­in­leg­um lang­tíma­sjón­ar­miðum, öll­um til hags­bóta.

Hraðar breyt­ing­ar á orku­markaði

Ef við horf­um til síðasta ára­tug­ar sést glöggt hversu sveiflu­kennd þróun eft­ir­spurn­ar og fram­boðs á orku get­ur verið. Á þessu tíma­bili var ál­verið í Helgu­vík blásið af. Fram­boð á raf­orku var nægt og orku­verð lágt. Heims­far­ald­ur­inn sem skall á árið 2020 dró enn frek­ar úr eft­ir­spurn eft­ir orku.

Eft­ir COVID-19 far­ald­ur­inn tók orku­markaður­inn stakka­skipt­um. Verð á áli og ra­f­ræn­um gjald­miðlum hækkaði, iðnaður sótti fram og stríð í Evr­ópu ýtti enn frek­ar und­ir eft­ir­spurn eft­ir raf­orku. Á sama tíma varð raf­orku­skort­ur hér á landi vegna verstu vatns­ára í sögu Lands­virkj­un­ar. Nú hef­ur staðan aft­ur lag­ast vegna auk­inna rign­inga, en þessi öfga­fullu og sveiflu­kenndu tíma­bil minna okk­ur á að breyt­ing­ar ger­ast hratt og geta haft víðtæk áhrif. Á kjör­tíma­bil­inu munu svo verða enn frek­ari breyt­ing­ar. Þannig mun ís­lenski raf­orku­markaður­inn þró­ast til sam­ræm­is við reglu­gerðir Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB). Síðast en ekki síst munu sum­ar þeirra virkj­ana sem fyrri rík­is­stjórn samþykkti koma til fram­kvæmda.

Alþjóðleg­ar áskor­an­ir og áhrif á Ísland

Örar breyt­ing­ar á orku­markaði und­ir­strika mik­il­vægi þess að við séum vak­andi fyr­ir þróun á alþjóðleg­um mörkuðum. Banda­rík­in og Evr­ópa hafa til­kynnt gríðarleg­ar fjár­fest­ing­ar í orku­fram­leiðslu og innviðum fyr­ir gervi­greind og spurn­ing­ar vakna um hvaða áhrif þær muni hafa á Ísland. Verðum við eft­ir­sótt­ara land fyr­ir orku­frek­an iðnað? Hver verður sam­keppn­is­hæfni Íslands í ljósi auk­inn­ar fjár­fest­ing­ar í orku­geir­an­um ann­ars staðar? Þetta eru spurn­ing­ar sem við þurf­um að ræða og svara af yf­ir­veg­un og skyn­semi.

Setj­um sam­fé­lags­áhersl­ur í for­gang

Orku­saga Íslands er sam­tvinnuð sögu ungr­ar sjálf­stæðar þjóðar sem leitaði leiða til að bæta lífs­kjör. Við byggðum hita­veit­ur, virkj­an­ir og byggðalínu og tryggðum orku­ör­yggi al­menn­ings í lög­um. Gleym­um ekki sam­fé­lags­áhersl­um nú þegar frjáls orku­markaðar ryður sér til rúms.

Tryggj­um orku­ör­yggi al­menn­ings á nýj­an leik til að koma í veg fyr­ir verðhækk­an­ir líkt og í Evr­ópu. For­gangs­röðum fjár­magni með áherslu á hita­veit­ur og jarðhita­leit, sér­stak­lega á köld­um svæðum. Ýtum und­ir að ein­angraðir staðir, eins og Vest­f­irðir og Vest­manna­eyj­ar, fái sterk­ara flutn­ings­kerfi, sem skipt­ir lyk­il­máli fyr­ir at­vinnu­líf og íbúa. Sköp­um hvata þannig að ný orku­fram­leiðsla efli at­vinnu­tæki­færi um allt land, í takt við ólík mark­mið stjórn­valda, allt frá mat­væla­fram­leiðslu til orku­skipta, en fari ekki til hæst­bjóðenda hverju sinni. Að setja slík­ar sam­fé­lags­áhersl­ur í for­gang kall­ar á skýra póli­tíska sýn og ná­kvæmni í inn­leiðingu stefnu. Þær geta hins veg­ar eflt mögu­leika íbúa og aukið verðmæta­sköp­un at­vinnu­lífs um allt land.

Ný­sköp­un og nátt­úru­vernd í orku­stefnu

Ný­sköp­un, ork­u­nýtni og nátt­úru­vernd þurfa einnig að vera lyk­il­hug­tök í orkupóli­tík framtíðar­inn­ar, ekki síst nú þegar umræðan um vindorku er að aukast. Vindorka get­ur orðið mik­il­væg viðbót við orku­fram­leiðslu lands­ins, en henni fylgja nýj­ar áskor­an­ir sem þarf að tak­ast á við af ábyrgð á grunni heild­stæðrar stefnu­mót­un­ar með verðmæti nátt­úru í huga.

Sam­vinna í orku­mál­um

Orku­mál eiga ekki að vera vett­vang­ur fyr­ir skot­graf­ir og upp­hróp­an­ir. Við þurf­um sam­vinnu, fag­lega nálg­un og lausnamiðaða stefnu sem trygg­ir hags­muni bæði nú­ver­andi og kom­andi kyn­slóða. Framtíð Íslands á það skilið.

Megi traust ríkja í nýt­ingu okk­ar ein­stöku og fjöl­breyttu auðlinda á grunni virðing­ar fyr­ir nátt­úru og um­hverfi.

Ég óska nýrri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Friður felst í því að efla varnir

Deila grein

20/02/2025

Friður felst í því að efla varnir

Þess er minnst um heim all­an að 80 ár eru síðan seinni heims­styrj­öld­inni lauk en hún fól í sér mestu mann­fórn­ir í ver­ald­ar­sög­unni. Víða hef­ur verið háð stríð eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina en ekk­ert í lík­ind­um við hana. Öll vit­um við að friður er far­sæl­ast­ur og býr til mesta vel­meg­un í sam­fé­lagi manna.

Mikið upp­nám hef­ur ríkt í alþjóðastjórn­mál­un­um eft­ir ör­ygg­is­ráðstefn­una í München um síðustu helgi. Ýmsir hafa haft á orði að heims­mynd­in sé gjör­breytt vegna hvatn­ing­ar stjórn­ar Banda­ríkj­anna um að Evr­ópa taki á sig aukn­ar byrðar í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. En á þessi afstaða Banda­ríkj­anna að koma á óvart?

Skila­boðin hafa alltaf verið skýr um að Evr­ópa þyrfti að koma frek­ar að upp­bygg­ingu í eig­in ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Í kjöl­far stór­felldr­ar inn­rás­ar Rúss­lands í Úkraínu fyr­ir þrem­ur árum hef­ur Evr­ópu ekki tek­ist að styrkja varn­ir sín­ar í takt við um­fang árás­ar Rúss­lands, að und­an­skild­um ríkj­um á borð við Pól­land og Eystra­salts­rík­in. Evr­ópa hef­ur held­ur ekki náð að styðja við Úkraínu í þeim mæli sem þurfti til að stöðva Rúss­land. Í merki­legu viðtali sem tekið var við Jens Stolten­berg við brott­hvarf hans úr stóli fram­kvæmda­stjóra Atlants­hafs­banda­lags­ins lagði hann ríka áherslu á mik­il­vægi þess að ríki í Evr­ópu myndu styrkja og auka sam­starf í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um ásamt því að staða Atlants­hafs­banda­lags­ins yrði styrkt.

Fyr­ir Ísland er mik­il­vægt að vera með sterka banda­menn beggja vegna Atlantsála. Varn­ar­sam­starfið við Banda­rík­in hef­ur auk­ist und­an­far­in miss­eri. Ísland hef­ur tryggt nauðsyn­lega varn­araðstöðu og -búnað fyr­ir loft­rýmis­eft­ir­lit og aðrar NATO-aðgerðir. Banda­rík­in hafa tekið þátt í loft­rým­is­gæslu og stutt við varn­ir Íslands. Báðar þjóðir hafa einnig aukið upp­lýs­ingaflæði, sam­ráð og sam­eig­in­leg­ar æf­ing­ar, m.a. í neyðaraðstoð og tölvu­ör­yggi. Meg­in­mark­miðið hef­ur verið að efla tví­hliða varn­ar­sam­starf og tryggja ör­yggi á Norður-Atlants­hafi.

Ísland er ekki und­an­skilið í þeim efn­um að veita auk­inn stuðning til ör­ygg­is- og varn­ar­mála. Það er brýnt að við sinn­um okk­ar hlut­verki til þess að sinna og efla varn­ir lands­ins inn­an þeirr­ar getu sem er fyr­ir hendi. Við höf­um átt í far­sælu sam­starfi og sam­vinnu við helstu banda­lagsþjóðir okk­ar og mik­il­vægt er að fram­hald verði á því til að styðja við sjálf­stæði þjóðar­inn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ó­verð­tryggð hús­næðis­lán til 25 ára

Deila grein

19/02/2025

Ó­verð­tryggð hús­næðis­lán til 25 ára

Í gær mælti ég fyrir þingsályktun á Alþingi þess efnis að fasteignakaupendur geti tekið óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma. Um er að ræða gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir heimili landsins. Þessi möguleiki er sjálfsagður hjá öðrum Norðurlandaþjóðum en hefur ekki verið tryggður íslenskum neytendum. Stórar fjárhagslegar ákvarðanir á borð við fasteignakaup ættu að byggja á fyrirsjáanleika í afborgunum og hagstæðum kjörum, en íslenskir bankar bjóða ekki upp á sambærileg lán og gerist erlendis.

Þessar aðgerðir hafa verið til umfjöllunar innan fjármálaráðuneytisins og voru hluti af skoðun sem ég hóf fljótlega eftir að ég kom í fjármálaráðuneytið á síðasta ári. Nú liggur fyrir skýrsla, grundvölluð á þeirri vinnu sem ég setti af stað, og mikilvægt að afrakstur þeirrar vinnu nái nú fram að ganga. Við eigum að tryggja íslenskum heimilum sömu valmöguleika og fasteignakaupendur hafa í nágrannalöndunum í stað þess að vera föst í úreltu fjármálafyrirkomulagi sem vinnur gegn þeirra hagsmunum.

Íslenskir bankar eru of smáir og bundnir eigin fjármagnskostnaði, sem gerir þeim erfitt fyrir að veita óverðtryggð lán á hagstæðum kjörum til lengri tíma. Á hinn bóginn er íslenska ríkið og lífeyrissjóðir í sterkari stöðu til að veita slíka fjármögnun, sem gæti útvegað heimilum stöðugri og hagstæðari lánskjör.

Til að bankar geti veitt óverðtryggð fasteignalán til lengri tíma, það er yfir 20 ár, þarf íslenski fjármálamarkaðurinn að þróast. Stjórnvöld hafa hér tækifæri til að bæta regluverk og gera fjármálamarkaðinn sveigjanlegri, svo fjármálastofnanir geti boðið upp á slík lán líkt og í nágrannalöndunum. Áhrif þessarar kerfisbreytingar gæti einnig haft í för með sér lægri vaxtakostnað fyrir ríkissjóð þannig að þar er til mikils að vinna.

Gríðarlegur samfélagslegur ávinningur

Með innleiðingu óverðtryggðra langtímalána á hagstæðum föstum vöxtum fá fasteignakaupendur fyrirsjáanlega fjármögnun og eru ekki berskjaldaðir fyrir hækkandi vöxtum eða verðbólgu. Það veitir heimilum stöðugleika og dregur úr áhættu. Önnur áhrif þessarar kerfisbreytingar að fólk mun síður taka verðtryggð húsnæðislán og færa sig í stöðugra umhverfi.

Eins og áður sagði þá liggja nú fyrir útfærslur á þessari leið en þeirri vinnu var skilað til fjármálaráðuneytisins fyrir nokkrum vikum. Ríkisstjórninni er því ekkert að vanbúnaði að hefja innleiðingu þessarar kjarabótar fyrir íslensk heimili. Við í Framsókn munum fylgja þessu máli fast eftir og kalla eftir aðgerðum til þess að þetta markmið okkar náist.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. febrúar 2025.