Categories
Greinar

Barnasáttmálinn brotinn – óþarfar aðgerðir á kynfærum barna

Deila grein

22/11/2020

Barnasáttmálinn brotinn – óþarfar aðgerðir á kynfærum barna

Dagur mannréttinda barna er í dag, 20. nóvember. Dagurinn er helgaður fræðslu um mannréttindi barna en Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur þennan dag fyrir 31 ári. Fyrir rúmu ári síðan skrifaði ég grein í tilefni þessa dags um þá tímaskekkju sem umskurður drengja er og hvernig slíkar aðgerðir samræmast ekki Barnasáttmálanum. Á Íslandi eru óþarfar og óafturkræfar aðgerðir á kynfærum barna enn leyfðar á börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og drengbörnum sem fæðast með dæmigerð kyneinkenni. Ódæmigerð kyneinkenni (intersex) er meðal annars þegar einstaklingur fæðist með kynfæri, æxlunarfæri og/eða litningamynstur sem falla ekki að dæmigerðum skilgreiningum á karl- eða kvenkyni. Aðgerðir á drengbörnum með dæmigerð kyneinkenni (umskurður) er þegar forhúð er skorin af lim oftast á nýfæddu drengbarni með beittum hníf. Hins vegar var umskurður stúlkubarna gerður refsiverður árið 2005.

Það sem er barninu fyrir bestu?

Umskurður drengja er varanleg og óafturkræf aðgerð sem felur í sér mikil inngrip á kynfærum barns ásamt því að geta valdið barninu sársauka, hættu á sýkingum og varanlegum skaða. Í vissum tilfellum getur verið nauðsynlegt að framkvæma umskurð, til dæmis ef forhúðin er of þröng eða í kjölfar alvarlegra sýkinga. Annað gildir hins vegar um læknisfræðilega óþarfan umskurð þar sem fullkomlega eðlilegur vefur sem gegnir mikilvægu hlutverki í kynfæra- og kynlífsheilbrigði drengabarna er fjarlægður af kynfærum þeirra. Á Íslandi er ekkert regluverk um umskurð drengja og geta því forsjáraðilar tekið ákvörðun um slíka aðgerð.

Rauði þráðurinn í íslenskum barnalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, er að ávallt skuli hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi þegar teknar eru ákvarðanir um hag þess. Barnasáttmálinn kveður einnig á um að börn eigi rétt á að tjá sig um öll þau málefni er þau varða og því samræmist það illa sáttmálanum að foreldrar taki ákvarðanir um óafturkræfar aðgerðir á líkama barns, líkt og umskurður drengja og aðgerðir á intersex börnum án læknisfræðilegrar nauðsynjar eru.

Það kann að vera að drengir vilji láta umskera sig af til að mynda trúar- eða menningarlegum ástæðum en ákvörðun um það verða þeir sjálfir að taka þegar þeir hafa náð aldri og þroska til þess að skilja hvað slíkar aðgerðir geta haft í för með sér. Í því samhengi er vert að árétta að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verndar börn gegn hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði þeirra og skyldar aðildarríki sáttmálans til þess að ryðja slíkum hefðum úr vegi. Hið sama gildir um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Ákvörðun um hvort framkvæma eigi aðgerð á þeirra kynfærum ætti vera þeirra.

Nýlega lagði forsætisráðherra fram frumvarp til breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði. Frumvarpið tryggir sjálfsákvörðunarrétt barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni (intersex) yfir eigin líkama. Um er að ræða mikilvægt og þarft framfaraskref sem ber að fagna. Hins vegar kemur fram í greinargerð frumvarpsins að það nái ekki til barna sem fæðast með dæmigerð kyneinkenni. Læknisfræðilega óþarfur umskurður drengbarna sem fæðast með dæmigerð kyneinkenni hefur því verið undanskilinn breytingartillögunni.

Óþarfar aðgerðir á kynfærum barna eru tímaskekkja

Íslendingar ættu að standa fremst þjóða í að verja rétt barna til yfirráða yfir eigin líkama. Ótækt er að forsjáraðilar barna hafi heimild til þess að taka svo afgerandi ákvörðun um kynfæri barna sinna sem eru enn of ung til þess að tjá sig um aðgerðina, séu ekki knýjandi heilsufarsrök fyrir aðgerðinni. Réttur barna yfir eigin líkama og einstaklingsfrelsi á að ganga framar rétti forsjáraðila til að taka óafturkræfar trúar-, tilfinningalegar-, og menningarlegar ákvarðanir um líkama barna. Börn á Íslandi eiga að hafa öruggt skjól og vernd í íslenskum lögum fyrir óþarfa og óafturkræfu inngripi á líkama þeirra.

Ég skora á Alþingi að banna öll læknisfræðileg óþörf inngrip í líkama barna og tryggja þar með öllum börnum sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, laganemi og í stjórn SUF, Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Fjölskylduflokkurinn

Deila grein

22/11/2020

Fjölskylduflokkurinn

Í dag, 21. nóvember, á Landssamband Framsóknarkvenna 39 ára afmæli. Í 39 ár hafa konur innan Framsóknarflokksins barist ötullega fyrir réttindum kvenna, bæði innan flokksins sem utan hans. Hlutverk kvennahreyfingarinnar er að stuðla að og hvetja konur til þátttöku og ábyrgðar í stjórnmálum. Jafnframt jafna tækifæri kvenna til virkrar þátttöku í félagsstarfi sem og atvinnulífi. Aðeins með virkri þátttöku kvenna í stjórnmálum og á vinnumarkaði náum við fram raunverulegu jafnrétti kynjanna.

Fyrstu lögin um fæðingar- og foreldraorlof var pólitísk aðgerð og til þess fallin að auka jafnrétti og möguleika kvenna til þátttöku á vinnumarkaði. Innleiðing á rétti feðra til fæðingarorlofs var einnig pólitísk aðgerð og þá í þágu jafnréttis karla og kvenna, bæði á vinnumarkaði sem og á heimilum með því að jafna fjölskylduábyrgð og þátttöku í uppeldi barna. Það voru fjölskyldugildi Framsóknar sem komu þessu á legg og nú heldur Framsókn áfram veginn og bætir um betur með frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra. Aukin þátttaka og ábyrgð feðra í uppeldi og umönnun barna sinna styður við stöðu kvenna á vinnumarkaði. Feður, mæður og börn græða á auknu jafnræði eða jafnvægi í töku fæðingarorlofs. Lögin eru ekki óbrigðul og einn helsti galli þeirra er líklega sú kynjaða mynd sem dregin er upp af fjölskyldumynstri, foreldrar eru tveir, karl og kona. Þó það sé sannarlega algengasta formið er það langt frá því það eina. Núgildandi lög gera ráð fyrir því nýja normi sem fjölbreytt fjölskyldumynstur er og halda áfram að gera það í nýju frumvarpi.

En nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Helstu breytingarnar frá fyrri lögum eru þær að um lengingu orlofstímans er að ræða. Hrein viðbót við núverandi kerfi. Lengi hefur verið kallað eftir þessari breytingu og nú er þessi lenging í augsýn. Því fögnum við Framsóknarkonur! Með nýjum lögum geta foreldrar verið í 12 mánuði heima með barni sínu í stað 9 mánaða í núgildandi lögum. Sjálfstæðir foreldrar fá 12 mánaða orlof til að verja með sínu barni. Skýr réttur feðra í núverandi lögum er áfram staðfestur en með lengingu orlofsréttar þeirra til jafns við orlofsrétt mæðra.

Rannsóknir sýna að löng fjarvera mæðra frá vinnumarkaði hafði og hefur enn neikvæð áhrif á stöðu þeirra innan vinnumarkaðar. Jafnframt að auknar líkur eru á að mæður snúi aftur í fullt starf eftir barneign eftir að sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs kom til.

Með jöfnun sjálfstæðs réttar feðra og mæðra til orlofstöku styrkist staða feðra til að nýta rétt sinn á vinnumarkaði, en rannsóknir sýna að viðhorf launþega er jákvæðara í garð fæðingarorlofs en viðhorf atvinnurekenda. Feður, hvort sem þeir búa með barnsmóður eður ei, verja nú mun meiri tíma í samveru og umönnun barna sinna en áður. Með lengingu á fæðingarorlofinu og auknum rétti feðra til orlofstöku má ætla að verið sé að tryggja betur rétt barna til samvista við við báða foreldra, enda er jafnrétti börnum fyrir bestu.

Frekari fróðleik um breytingar á lögum um fæðingarorlof má finna á www.betrafaedingarorlof.is.

Til hamingju Íslendingar með framsækið frumvarp!

Fyrir hönd stjórnar Landssamband Framsóknarkvenna.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, varaformaður Landssambands framsóknarkvenna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2020.

Categories
Fréttir

Framtíðin ræðst á miðjunni

Deila grein

21/11/2020

Framtíðin ræðst á miðjunni

Miðstjórnarfundur Framsóknar var haldinn með rafrænum hætti í dag. Hátt á annað hundrað manns tóku þátt í góðum fundi. Tekin var ákvörðun um að halda flokksþing dagana 23.-25. apríl á næsta ári.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, fór yfir sviðið í ræðu sinni en lagði sérstaka áherslu á atvinnumál og þá sérstaklega um þau tækifæri sem liggja í skapandi greinum eins og kvikmyndagerð og tölvuleikjagerð. „Ég sé stórt tækifæri í því að styðja enn frekar við kvikmyndagerðina með því að hækka endurgreiðslur í 35% líkt og gert er í þeim löndum sem keppa við okkur um verkefni. Það skref, í viðbót við metnaðarfulla kvikmyndastefnu sem Lilja Dögg hefur lagt fram, myndi gera kvikmyndagerðina enn öflugri atvinnuveg fyrir Ísland. Þar með yrði lagður hornsteinn að fjórðu stoð efnahagslífsins, stoð skapandi greina. Árið 2019 störfuðu um 26 þúsund manns við ferðaþjónustu á Íslandi. Getum við sett okkur markmið um það að 10-15 þúsund muni starfa í kvikmyndum og tölvuleikjum innan fárra ára og veltan fari úr tæpum 30 milljörðum króna í 300 milljarða? Það er hægt með markvissri stefnu.“

Sigurður Ingi beindi einnig sjónum að hlutverki bankanna í kórónuveirukreppunni. „Seðlabankinn sendi bönkunum skýr skilaboð í vikunni og lækkaði stýrivexti en fram að því höfðu bankarnir hækkað vextina. Vaxtahækkun bankana er ekki til þess fallin að hvetja til fjárfestinga – fjárfestinga sem þarf til að komast út úr krísunni. Hvar liggur þá ábyrgð bankana? Bankarnir segja aukinn fjármagnskostnað vera að sliga þá, – gott og vel. Við lækkuðum reyndar bankaskattinn hraðar til að lækka kostnað bankanna – En ég spyr á móti: Ætlar einhver að græða og hámarka hagnað sinn í krísu sem þessari? Hér verða allir að koma að borðinu sem eru aflögufærir. Bankarnir líka.  Það er grundvöllur þess að snúa hagvexti úr mínus í plús og fá hjólin aftur til að snúast. Seðlabankinn hefur staðið við sitt, ríkissjóður hefur sett fram aðgerðir og stuðningslán verða framlengd. Nú er komið að bönkunum að sýna á spilin.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, sagði í ræðu sinni að Framsókn væri flokkur sem stæði við sín fyrirheit og benti því til staðfestingar að flokkurinn hefði nánast stýrt öllum sínum áherslumálum í höfn. „Við höfum gjörbylt námslánakerfinu, til hagsbóta fyrir nemendur með nýjum Menntasjóði. Við höfum hafið kennara til vegs og virðingar og veitt auknu fé til framhalds- og háskóla. Við höfum mótað og fjármagnað kvikmyndastefnu, sem er nauðsynlegur áburður fyrir ört vaxandi list- og atvinnugrein. Og nú hyllir undir byggingu nýrra þjóðarleikvanga, sem aðrir hafa talað um í áratugi.“

Hún lagði einnig mikla áherslu á breytingar í sambandi við starfsmenntanám. „Við erum að ryðja úr vegi kerfislægum hindrunum í starfsmenntakerfinu og viðbrögðin birtast í ótrúlegum áhuga á starfsmenntun sem kallast á við áhugasvið nemenda og þarfir samfélagsins. Iðnmenntaðir munu fá aðgang að háskólum frá og með næsta skólaári, rétt eins og bókmenntaðir framhaldsskólanemar. Tillaga um lagabreytingu í þessa veru er í samráðsgátt stjórnvalda. Aðferðafræði við vinnustaðanám iðn- og starfsnema hefur verið endurskoðuð og námið endurskipulagt, svo skólakerfið tryggi námslok en þau ráðist ekki af aðstæðum nemenda til að komast á starfssamning. Reglugerð í þessa veru verður gefin út á næstunni, en þetta er líklega stærsta breytingin sem orðið hefur á starfsmenntakerfinu í áratugi.“

Í lok ræðu sinnar fjallaði Sigurður Ingi um framtíðina. „Framtíðin ræðst á miðjunni. Það vitum við og það held ég að flestir Íslendingar viti innst inni. Öfgar til hægri og vinstri eru eins og hver önnur tískusveifla. Öfgar til hægri nærast á öfgum til vinstri, þær ýkja ástand og sundra samfélögum. Okkar flokkur, okkar Framsókn, og stefna okkar boða umbætur en ekki byltingar. Við leiðum saman ólík öfl og ólíka hagsmuni til að samfélagið verði á morgun betra en það var í gær. Veturinn verður erfiður fyrir marga en með krafti samfélagsins, með krafti samvinnunnar þá mun hann verða auðveldari. Og eftir vetur kemur vor og þá verðum við vonandi aftur farin að faðma fólkið okkar og getum horft grímulaus fram á veginn.“

Categories
Greinar

Nú er öldin önnur

Deila grein

20/11/2020

Nú er öldin önnur

Við megum vera þakklát fyrir að lifa á árinu 2020, einhverjir eru ekki sammála mér um að árið 2020 sé endilega gott ár og það er ég heldur ekki að segja. En farsóttir hafa áður gengið yfir heimsbyggðina, við getum verið þakklát fyrir að það sé ekki árið 1918 þegar spænska veikinn gekk yfir Ísland. Í spænsku veikinni létust um 490 Íslendingar fólk á öllum aldri. Vanmáttugt heilbrigðiskerfi ásamt því að lyf og sóttvarnarráðstafanir voru að skornum skammti.

Sóttvörnum sem þá var beitt var meðal annars að setja á samgöngubann milli landshluta, bæði þekking og úrræði voru veik. Þegar leið á farsóttina var það gagnrýnt að almennir samkomustaðir hafi ekki verið lokaðir þegar í byrjun farsóttarinnar. Í dag árið 2020 höfum við meiri þekkingu og reynslu, ásamt tækninýjungum sem hjálpar okkur að berjast við hinn ósýnilega vágest.

Tækninýjungar og þétt samfélag

Fyrir réttri öld var auðvelt að beita þeirri aðferð að stöðva ferðir fólks milli landshluta og einhver samfélög fóru í sjálfskipaða sóttkví til að varna því að sjúkdómurinn næði inn. Í dag er erfiðra að nota þá aðferð þar sem samfélagsgerðin er ólík. En hún kallar á aðrar leiðir.

Smitrakningarappið er ein af þeim tækninýjungum sem við höfum nýtt okkur í baráttunni við dreifingu kórónuverunnar. Það voru íslensk fyrirtæki og forritarar frá íslenskri erfðagreiningu sem buðu fram aðstoð sýna við uppbyggingu forritsins án endurgjalds. Það ber að þakka. Þessi íslenska uppfinning hefur komið sér vel við að rekja smitleiðir og mögulega komið í veg fyrir einhver hópsmit sem og varpað ljósi á þá snertifleti veirunnar sem annars hefði tekið drjúgan tíma að finna.

Smitrakningarteymi almannavarna hefur unnið mikið og þarft verk við að greina og finna ferðir veirunnar um samfélagið og stjórnvöld hafa brugðist við með snöggum hætti með að setja upp varnir sem hafa sýnt að duga. Þó er það alltaf einstaklingurinn sem ber mesta ábyrgð við að halda niðri útbreiðslu sjúkdómsins. Það hefur gengið alla vega að fara eftir tilmælum en heilt yfir stöndum við okkur vel.

Við skrifum söguna

Atferli okkar og viðbrögð skrifa söguna og með hverjum degi aukum við þekkingabrunninn sem kynslóðir framtíðar leita í, í sínum verkefnum. Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvort við höfum brugðist rétt við í öllum þeim áskorunum sem við höfum staðið fyrir í þessu faraldri. En við erum að gera okkar besta.

Sóttvarnir og einstaklingsfrelsið

Nokkrir hafa stigið fram og mótmælt sóttvarnarráðstöfum stjórnvalda. Telja það sé verið að hefta einstaklingsfrelsið og það sé einfaldlega hægt að beina vörnum einungis að viðkvæmum hópum en aðrir geti um frjálst höfuð strokið í samfélaginu. Frelsið er yndislegt en því fylgir ábyrgð. Hvað með frelsi þess hóps sem telja má til viðkvæmra hópa í samfélaginu? Því hafa frjálshyggjupostularnir ekki svarað. Með þeirra hugmyndum yrði frelsi þess hóps ekkert auk þess sem líkur eru á að okkar góða heilbrigðiskerfi standist ekki þá raun og þá á eftir að sinna öðrum sjúkdómum og slys sem tíðkast samhliða heimsfaraldrinum.

Hvernig við högum okkur hvert og eitt í sóttvörnum er mikilvægt í þessari baráttu. En ábyrgð okkar í stjórnsýslunni er ekki síður mikilvæg og því ættum við haga orðræða okkar í samræmi við það.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Minnumst myndhöggvarans Bertels Thorvaldsens

Deila grein

19/11/2020

Minnumst myndhöggvarans Bertels Thorvaldsens

Íslensk-danski mynd­höggv­ar­inn Bertel Thor­vald­sen var einn þekkt­asti listamaður Evr­ópu um sína daga og hlotnaðist á langri ævi nán­ast hver sá heiður sem lista­manni get­ur fallið í skaut. Í dag, 19. nóv­em­ber, eru 250 ár liðin frá fæðingu hans. Af því til­efni er ærin ástæða til að minn­ast veg­lega þessa stór­merka mynd­höggv­ara hér á landi bæði vegna upp­runa hans og rækt­ar­semi sem hann sjálf­ur sýndi „Íslandi, ætt­ar­landi sínu“.

Bertel sótti inn­blást­ur til klass­ískr­ar mynd­list­ar Forn-Grikkja og Róm­verja og er tal­inn einn helsti full­trúi nýklass­íska stíls­ins í högg­myndal­ist ásamt hinum ít­alska Ant­onio Canova. Thor­vald­sen var lengst af bú­sett­ur í Róm og vann þar meðal ann­ars verk fyr­ir páfann, Napó­leon og marg­ar af kon­ungs­fjöl­skyld­um álf­unn­ar. Er hann eini mynd­höggv­ar­inn sem á verk í Pét­urs­kirkj­unni í Róm sem er ekki kaþólsk­ur. Finna má verk Thor­vald­sens um all­an heim, ým­ist í söfn­um, kirkj­um eða ut­an­dyra. Thor­vald­sen-safnið í Kaup­manna­höfn varðveit­ir verk Bertels Thor­vald­sens og held­ur minn­ingu hans á lofti. Er listamaður­inn jarðsett­ur í garði safns­ins.

Fagnað sem þjóðhetju

Bertel Thor­vald­sen fædd­ist í Kaup­manna­höfn árið 1770 og ólst þar upp. Faðir hans, Gott­skálk Þor­valds­son, prests­son­ur úr Skagaf­irði, var fædd­ur árið 1741. Fór hann ung­ur til iðnnáms í Kaup­manna­höfn og lærði myndsk­urð í tré og vann síðar við að skera út stafn­mynd­ir á skip og höggva í stein. Móðir Bertels hét Kar­en Dagnes, fædd á Jótlandi 1735 þar sem faðir henn­ar var djákni. Þau hjón­in bjuggu við frek­ar þröng­an kost en snemma komu list­ræn­ir hæfi­leik­ar einka­son­ar­ins í ljós og hóf hann nám við Kunstaka­demiet eða Kon­ung­lega lista­há­skól­ann í Kaup­manna­höfn árið 1781, aðeins 11 ára að aldri, og lauk þar námi árið 1793. Hlaut hann fjölda verðlauna og viður­kenn­inga fyr­ir verk sín, meðal ann­ars ferðastyrk sem gerði hon­um kleift að fara til Róm­ar árið 1796. Borg­in var þá há­borg menn­ing­ar og lista og bjó Thor­vald­sen þar við góðan orðstír allt til árs­ins 1838 er hann flutti aft­ur til Dan­merk­ur og var hon­um þá fagnað sem þjóðhetju.

Eft­ir­sótt­asti mynd­höggv­ari Evr­ópu

Bertel Thor­vald­sen gerði rúm­lega 90 frístand­andi högg­mynd­ir, tæp­lega 300 lág­mynd­ir og yfir 150 brjóst­mynd­ir auk mik­ils fjölda af teikn­ing­um, skiss­um og mód­el­um. Í safni Thor­vald­sens eru varðveitt­ar upp­runa­leg­ar gifs­mynd­ir af flest­um verka hans, en þar má einnig sjá mörg verk hans höggv­in í marm­ara eða steypt í brons. Thor­vald­sen varð á sín­um tíma einn eft­ir­sótt­asti mynd­höggv­ari Evr­ópu og fékk pant­an­ir frá kon­ungs­hirðum og aðals­fólki víðs veg­ar að. Mörg helstu verka hans sækja efnivið sinn og fyr­ir­mynd­ir í grísk-róm­verska goðafræði og kenn­ing­ar Winckel­manns og Less­ings um yf­ir­burði grískr­ar klass­ískr­ar högg­myndal­ist­ar þar sem lögð var áhersla á hrein­leika marm­ar­ans og full­komn­un forms­ins.

Fjöldi verka á Íslandi

Í Reykja­vík eru þrjár bronsaf­steyp­ur af verk­um Thor­vald­sens í al­manna­rými auk þess sem þrjú verka Thor­vald­sens höggv­in í marm­ara eru í op­in­berri eigu. Í kirkju­görðum lands­ins má sjá lág­mynd­ir Thor­vald­sens á fjöl­mörg­um leg­stein­um og í söfn­um lands­ins eru varðveitt­ar ýms­ar eft­ir­gerðir af vin­sæl­ustu verk­um hans. Nálg­ast má upp­lýs­ing­ar um verk Bertels Thor­vald­sens á ís­lensk­um söfn­um á vefn­um sarp­ur.is. Ekk­ert verk Thor­vald­sens hef­ur enn verið sett upp úti við á slóðum ætt­menna hans í Skagaf­irði þó að sú til­laga hafi verið bor­in upp. Til að heiðra minn­ingu hins mikla lista­manns væri ekki úr vegi að koma því í verk, „í rækt­ar­skyni“ eins og hann sjálf­ur orðaði það þegar hann gaf Dóm­kirkj­unni í Reykja­vík skírn­ar­font eft­ir sig árið 1827. Það má líka með sanni segja að rekja megi hina list­rænu æð Thor­vald­sens til Íslands að hluta en ævi­starf hans varpaði skær­um ljóma á danska kon­ungs­ríkið.

Höf­und­ur er for­seti Norður­landaráðs og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins. silja­dogg@alt­hingi.is

Categories
Fréttir

Frábært skref – menntastefna fyrir árin 2020-2030

Deila grein

18/11/2020

Frábært skref – menntastefna fyrir árin 2020-2030

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti máls á framkominni menntastefnu, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir árin 2020-2030 í störfum þingsins í dag.

„Stefnan er metnaðarfull og leiðarljós hennar eru þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja. Ég tel afskaplega mikilvægt að stefnan fái ítarlega og markvissa umfjöllun á Alþingi, en einnig að hún verði afgreidd hratt og vel þannig að hún fari að skila árangri sem fyrst. Við þurfum skýra menntastefnu á hverjum tíma,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna fagnaði því sérstaklega að texti menntastefnunnar væri stuttur og hnitmiðaðar. Það væri merki um vel ígrundaða og skýra stefnu. Jafnframt væri það góð tilbreyting fyrir skólafólk að fá hnitmiðaðan texta til að vinna eftir á máli sem allir skyldu.

„Ég vil líka nota þetta tækifæri og vekja athygli á tengslum menntastefnunnar við vinnu að umbótum í málefnum barna sem fram fer á vegum félags- og barnamálaráðherra. Áhersla menntastefnu um snemmbæran stuðning sem lið í jöfnum tækifærum fyrir alla og áhersla á ábyrgð og samhæfingu þjónustukerfa til að tryggja gæði er einmitt í fullu samræmi og beinum tengslum við vinnu að umbótum í málefnum barna,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Categories
Fréttir

Er ekki boðið í hlaðborð bænda!

Deila grein

18/11/2020

Er ekki boðið í hlaðborð bænda!

„Hæstv. forseti. Fuglar eru bæði fallegir og skemmtilegir og gaman er að fylgjast með þeim í náttúrunni. En aukið fæðuframboð veldur fjölgun í stofnum. Síðustu ár hefur álft og gæs fjölgað gríðarlega. Fuglarnir vita sínu viti. Þeir sækja í hlaðborð af góðu grasi og kornið sem er í boði bænda en hlaðborðið er reyndar ekki þeim ætlað. Á vissum svæðum hafa álft og gæs hreinlega gleypt í sig alla uppskeruna. Þær eru gjörsamlega lausar við allar áhyggjur af beitarstýringu og lúta eðlilega engum reglum mannanna,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins í dag.

„Ágangur álfta og gæsa veldur bændum miklu fjárhagslegu tjóni. Bændur hafa reynt að verjast ágangi fugla með ýmsum hætti, bæði með sjónrænum og hljóðrænum aðferðum. Þær duga þó skammt þar sem fuglinn er fljótur að venjast fælunum og kemur fljótt aftur í tún og akra. Með vörnunum er aðeins verið að hrekja fuglana tímabundið af ákveðnum svæðum en þeir leita þá gjarnan til næsta bónda. Slík tilfærsla á vandamálinu er ekki skynsamleg lausn til lengdar og er því nauðsynlegt að bregðast við. Þess vegna hefur sú sem hér stendur ásamt fleirum lagt fram þingsályktunartillögu. Þar er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra útbúi tillögu til tímabundinna og skilyrtra veiða á álft og gæs utan hefðbundins veiðitíma,“ sagði Þórunn.

„Ef ekki verður brugðist við ákalli bænda, um verkfæri til að verja ræktarlönd, má jafnvel búast við að kornrækt leggist af á ákveðnum svæðum. Það fellur engan veginn að hugmyndum um Matvælalandið Ísland. Hér er ekki lögð fram tillaga um að heimila veiðar úti um allt land alla daga heldur einskorðast tillagan við tjónveiðar á afmörkuðu tímabili þegar sýnt er fram á þungar búsifjar. Hér er um að ræða undanþágu til veiða á þeim svæðum þar sem þörf er talin á aðgerðum vegna ágangs og fugla á tún og akra. Samhliða þessu verður einnig gerð áætlun um að tryggja vernd stofnanna. Nýting og vernd þurfa alltaf að vera í jafnvægi,“ sagði Þórunn að lokum.

Categories
Greinar

Fjár­fest í heilsu íbúa Norður­landanna

Deila grein

18/11/2020

Fjár­fest í heilsu íbúa Norður­landanna

Fyrr á árinu birti norræna rannsóknastofnunin NordForsk skýrsluna The Nordic Commons, sem er sýn um örugga stafræna innviði heilsufarsgagna. Í skýrslunni er lögð til innleiðing í skrefum við að safna saman heilsufarsgögnum í hverju landanna fyrir sig. Það myndi síðan opna á stækkunarmöguleika fyrir Norðurlöndin sem heild, þar sem auðveldara væri að greina og deila gögnum sem tekin yrðu saman og þau greind sameiginlega til að gera Norðurlöndin samkeppnishæfari á þessu sviði.

Skilvirkt og gegnsætt ferli

Norræna rannsóknastofnunin NordForsk, styrkir rannsóknarsamstarf á landsbundnum áherslusviðum þar sem norrænir rannsóknarhópar starfa saman til að ná sameiginlegum virðisauka. NordForsk vinnur náið með alþjóða rannsóknarfjárfestum við útboð á rannsóknarsamvinnuverkefnum. Til þess að bjóða út rannsóknarstyrki verður alltaf að vera aukafjárfesting frá að lágmarki þremur norrænum löndum eða tveimur löndum og eitt af sjálfstjórnarsvæðunum Færeyjum, Grænlandi eða Álandseyjum. NordForsk getur aldrei lagt meira en 1/3 til af fjárhagsáætlun í hverju útboði. Það sem upp á vantar, 2/3 koma frá þjóðarframlagi. Árangur NordForsk fer eftir góðri samvinnu milli stofnunarinnar og þjóðarfjárfestum ásamt því að þeir hafi áhuga á samvinnu þvert á Norðurlöndin. Til þess að svo sé verður NordForsk að vera viðeigandi á hverjum tíma ásamt því að vera skilvirkt og gegnsætt í sínum ferlum.

Ryðja þarf hindrunum úr vegi

Norðurlöndin eru framarlega á heimsvísu á sviði heilbrigðisrannsókna og hafa möguleika á að verða leiðandi á ákveðnum sviðum eins og í sérsniðnum lyfjum. Í slíkum rannsóknum er nýst við heilsufars- og lífsýnagögn sem mikið er til af í norrænu löndunum. Samt sem áður eru hindranir sem gera norrænum vísindamönnum erfitt fyrir að nýta sér þennan möguleika til fullnustu til þess að geta orðið leiðandi á heimsvísu. Reyndin er sú að það er erfitt að fá heilsufarsupplýsingar út úr skrám í hverju landi og það er erfitt að nota gögn þvert á landamæri. Heilsufarsupplýsingar eru mjög viðkvæmar og því er mikilvægt að tryggja persónuverndina. Öll norrænu löndin hafa löggjöf og vinnureglur sem gera rannsóknarfólki erfitt fyrir að nálgast þessar upplýsingar, deila þeim eða stunda samstarf þvert á landamæri.

Stjórnmálamenn þurfa að stíga skrefið

Stjórnmálamenn og gagnaeigendur á Norðurlöndunum ættu að vinna betur saman við að gera notkun heilsufarsupplýsinga auðveldari í norrænum verkefnum. Í dag eru til góðar tæknilausnir sem gerir samstarfið vel gerlegt án þess að persónuverndinni sé ógnað. Það er þetta viðfangsefni sem Nordic Commons-skýrslan, sem kom út fyrr á árinu, setur fram í dagsljósið. Norræna ráðherranefndin hefur nú veitt í kringum 300 milljónum íslenskra króna til að fylgja skýrslunni eftir og er okkar von að í kjölfarið verðum við duglegri á Norðurlöndunum við að vinna saman með heilsufarsupplýsingar. Til þess að við náum árangri með það verða stjórnmálamenn í norrænu löndunum að stíga skrefið og sýna vilja til samstarfs með því að taka ákvarðanir sem gerir það löglegt og einfalt að deila og vinna saman með heilsufarsupplýsingar til að stunda rannsóknir sem gagnast öllum íbúum landanna.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Arne Flåøyen

Höfundar eru forseti Norðurlandaráðs og framkvæmdastjóri NordForsk.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. nóvember 2020.

Categories
Fréttir

Lilja kynnir nýja menntastefnu!

Deila grein

17/11/2020

Lilja kynnir nýja menntastefnu!

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu um menntastefnu til ársins 2030. Þingsályktunin er afrakstur yfirgripsmikils samráðs við skólasamfélagið og aðra hagaðila sem hófst veturinn 2018/2019 þegar haldnir voru 23 fræðslu- og umræðufundir um menntamál vítt og breitt um landið. Drög menntastefnunnar voru síðan til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda sl. vetur og bárust margar gagnlegar umsagnir og athugasemdir sem unnið var úr. Þá hafa sérfræðingar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) verið til ráðgjafar við mótun stefnunnar og skilgreiningar markmiða hennar.

„Á tímum umskipta, óvissu og örra tæknibyltinga verða þjóðir heims að búa sig undir sífellt flóknari áskoranir. Framtíðarhorfur okkar samfélags velta á samkeppnishæfni og sjálfbærni íslenska menntakerfisins. Ný menntastefna tekur mið af því hvernig menntun styrkir, verndar og vekur viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga. Það gleður mig að hún er nú til umræðu hér á Alþingi og fagna umræðu um inntak hennar og framtíðarsýn,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. 

Markmið nýrrar menntastefnu er að veita framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem allir geta lært og allir skipta máli. Því eru leiðarljós hennar: þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja. 

Stoðir stefnunnar eru: 

I. Jöfn tækifæri fyrir alla
II. kennsla í fremstu röð
III. hæfni fyrir framtíðina
IV. vellíðan í öndvegi
V. gæði í forgrunni

Ráðgert er að innleiðingu menntastefnunnar verði skipt í þrjú tímabil og að við upphaf hvers tímabils verði lögð fram slík áætlun ásamt aðgerðum og árangursmælikvörðum. Fyrirhugað er að fyrsta áætlunin verði lög fram og kynnt af mennta- og menningarmálaráðherra innan sex mánaða frá samþykkt þingsályktunarinnar.

Hér má lesa þingsályktunartillöguna.

Heimild: stjr.is

Categories
Greinar

Þrautseigja og þekking, hugrekki og hamingja

Deila grein

17/11/2020

Þrautseigja og þekking, hugrekki og hamingja

Eng­inn kemst á áfangastað nema vita hvert ferðinni er heitið! Skýr mark­mið eru for­senda þess að ár­ang­ur ná­ist. Við gerð nýrr­ar mennta­stefnu hafa þau sann­indi verið höfð að leiðarljósi. Ég mun í dag mæla fyr­ir þings­álykt­un um mennta­stefnu til árs­ins 2030. Það er mín von að þing­heim­ur verði sam­stiga í því brýna sam­fé­lags­verk­efni að varða mennta­veg­inn inn í framtíðina.

Meg­in­mark­miðið er að tryggja Íslend­ing­um framúrsk­ar­andi mennt­un alla ævi. Stefn­an bygg­ist á fimm stoðum, sem sam­an mynda traust­an grunn til að byggja á. Við vilj­um 1) jöfn tæki­færi fyr­ir alla, 2) að kennsla verði í fremstu röð, 3) að nem­end­ur öðlist hæfni fyr­ir framtíðina, 4) að vellíðan verði í önd­vegi í öllu skóla­starfi og 5) gæði í for­grunni. Und­ir stoðunum fimm hafa 30 áhersluþætt­ir verið skil­greind­ir, sem eiga að skapa öfl­ugt og sveigj­an­legt mennta­kerfi – kerfi sem stuðlar að jöfn­um tæki­fær­um til náms, enda geta all­ir lært og all­ir skipta máli. Verði þings­álykt­un­ar­til­lag­an samþykkt verður unn­in aðgerðaáætl­un með ár­ang­urs­mæli­kvörðum til þriggja ára í senn, sem met­in verður ár­lega.

Mennta­stefn­an var unn­in í víðtæku sam­ráði, með aðkomu fjöl­margra aðila úr skóla­sam­fé­lag­inu. Stefnu­mót­un­in byggðist m.a. á efni og umræðum á fund­um með skóla­fólki og full­trú­um sveit­ar­fé­laga um allt land, sam­ræðum á svæðisþing­um tón­list­ar­skóla, sam­starfi við for­eldra, börn og ung­menni, at­vinnu­líf, Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ina (e. OECD) og fleiri hags­munaaðila. Stefnu­drög fengu já­kvæð viðbrögð í sam­ráðsgátt stjórn­valda, þaðan sem gagn­leg­ar ábend­ing­ar bár­ust og voru þær m.a. notaðar til að þétta stefn­una og ein­falda fram­setn­ing­una. Fyr­ir vikið er text­inn aðgengi­leg­ur og skýr, sem er ein af for­send­um þess að all­ir hlutaðeig­andi skilji hann á sama hátt og sam­mæl­ist um mark­miðin.

Mennt­un er lyk­ill­inn að tæki­fær­um framtíðar­inn­ar. Hún er eitt helsta hreyfiafl sam­fé­laga og á tím­um fá­dæma um­skipta, óvissu og örra tækni­bylt­inga verða þjóðir heims að búa sig und­ir auk­inn breyti­leika og sí­fellt flókn­ari áskor­an­ir. Framtíðar­horf­ur ís­lensku þjóðar­inn­ar velta á sam­keppn­is­hæfni og sjálf­bærni ís­lenska mennta­kerf­is­ins. Vel­gengni bygg­ist á vel menntuðum ein­stak­ling­um með skap­andi og gagn­rýna hugs­un, fé­lags­færni og góð tök á ís­lensku og er­lend­um tungu­mál­um til að tak­ast á við hnatt­ræn­ar áskor­an­ir.

Mennt­un styrk­ir, vernd­ar og efl­ir viðnámsþrótt ein­stak­linga og sam­fé­laga. Með mennta­stefnu verður lögð áhersla á að styrkja viðhorf Íslend­inga til eig­in mennt­un­ar með vaxt­ar­hug­ar­far að leiðarljósi. Þekk­ing­ar­leit­inni lýk­ur aldrei og mennt­un, form­leg sem óform­leg, er viðfangs­efni okk­ar allra, alla ævi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. nóvember 2020.