Categories
Fréttir

Endurskoðum vegalög

Deila grein

18/08/2020

Endurskoðum vegalög

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir í færslu á Facebook að endurskoða verði vegalög þar sem að allt of margir vegkaflar hafi verið aflagðir þar sem jarðir eða byggingar séu í fullum notum og auðlindanýting enn stunduð. Vegarkaflar mega ekki grotna niður þó engin eigi lögheimili á viðkomandi stöðum.

Alls hafa 262 vegarkaflar verið felldir af vegaskrá á tímabilinu 2014 til 2020. Lengd þeirra er samtals 143 kílómetrar. Þetta kemur fram í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Líneikar Önnu, um niðurfellingu vega af vegaskrá.

Samanlagt hafa flestir kílómetra þjóðvega verið aflagðir í Norðurþingi. Flestir vegkaflar hafa hins vegar verið aflagðir í Skagafirði.

Vegagerðin fellir vegi af vegaskrá ef þeir uppfylla ekki lengur skilyrði vegalaga til þess að geta talist þjóðvegir. Eftir að vegur fellur af vegaskrá er veghald hans ekki lengur á ábyrgð Vegagerðarinnar. 

Categories
Fréttir

Minnisblað um efnahagsleg sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærum

Deila grein

18/08/2020

Minnisblað um efnahagsleg sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærum

Hér að neðan fer minnisblað um efnahagsleg sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærum sem lagt var fram í ríkisstjórn:

Minnisblaðið er unnið að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á sóttvarnaráðstöfunum á landamærum. Minnisblaðið fylgir í kjölfar greinargerðar um efnahagsleg sjónarmið við losun ferðatakmarkana frá því í júní 2020. Þá þótti hvorki rétt að opna né loka landamærum algjörlega heldur beita skimun til að lágmarka eftir fremsta megni líkur á að smit bærust til landsins og leiddu til harðra sóttvarnaaðgerða. Skýrt var frá upphafi að þær ákvarðanir þyrftu að vera í stöðugri endurskoðun í ljósi þeirrar þekkingar sem aflast og vegna þess að faraldurinn tekur sífelldum breytingum.

Niðurstöður

  • Í ljósi stöðu faraldursins alþjóðlega og hérlendis er þjóðhagslega hagkvæmt að skima á landamærum, í þeim skilningi að skimunin virðist svara kostnaði þar sem stórt hlutfall smitaðra er greindur og þeir sem ferðast valda samfélagslegum kostnaði vegna smithættu. Landamæraskimunin hefur auk þess fælingarmátt gagnvart einstaklingum sem vita að þeir kunna að bera veiruna. Ferðalangar ættu að greiða allan kostnað við skimun.
  • Ef gera á breytingar á landamæraskimun nú virðast hin hagrænu rök frekar hníga að því að herða en losa kröfur. Ef of langt er gengið í þeim efnum er einfaldara að vinda ofan af þeim ákvörðunum en að hemja útbreitt smit. Hvort rétta leiðin við smitvarnir á landamærum sé að hefja skimun allra sem hingað koma ásamt sértækri gjaldtöku og stífari kröfum fyrir þá sem hafa sterk samfélagsleg tengsl hér, hefja almenna tvöfalda skimun með sóttkví eða beiting einhverra annarra úrræða ræðst fyrst og fremst að sóttvarnarsjónarmiðum við núverandi aðstæður. Mikilvægt er að skýrt sé við hvaða aðstæður hægt verður að létta ráðstöfunum.
  • Að öllu jöfnu hníga rík hagfræðileg rök að því að þeir sem leggja í ferðalög greiði sérstaklega fyrir þann samfélagslega kostnað sem af þeim hljótast við núverandi aðstæður til viðbótar við greiðslu fyrir kostnað af landamæraskimun.

Samantekt

  • Í grundvallaratriðum hafa forsendur ekki breyst frá því greinargerð um efnahagsleg sjónarmið við sóttvarnaraðgerðir á landamærum var birt í júní. Enn er með öllu óvíst hvenær faraldurinn gengur yfir og hvenær bóluefni verður aðgengilegt. Þó er enn ljósara nú en fyrr að faraldurinn verður viðvarandi á heimsvísu þar til bóluefni kemst í almenna dreifingu. Sú reynsla sem hefur byggst upp í sumar er hins vegar gagnleg við að meta skynsamleg viðbrögð. Við túlkun þeirra upplýsinga ber þó að hafa í huga að faraldurinn er síbreytilegur bæði hérlendis og erlendis.
  • Við núverandi aðstæður heimsfaraldurs felst bæði ábati og kostnaður í því að létta á ferðatakmörkunum. Ábatinn birtist með augljósustum hætti í tekjum ferðaþjónustunnar en ekki er við því að búast að ferðamenn sæki landið heim í teljandi mæli séu þeir krafðir um smitgát eða sóttkví í marga daga eftir komu til landsins. Ferðatakmarkanir hér á landi og erlendis eru þó langt frá því að vera eini ráðandi þátturinn um fjölda ferðamanna því ferðavilji fer ekki síður eftir stöðu faraldursins hér á landi og erlendis.
  • Ábati af opnum landamærum felst einnig – og ekki síst – í því að viðhalda og skapa ný viðskiptatengsl, tryggja frjálst flæði vinnuafls og þeim útflutningsmöguleikum sem felast í þéttriðnu flutningsneti, bæði til og frá landinu. Þessi ábati er þó líklega minni á meðan faraldur geisar á helstu markaðssvæðum. Einnig felst samfélagslegur ábati í því að sá fjöldi Íslendinga sem býr erlendis geti komið til landsins og að einstaklingar geti ferðast erlendis.
  • Frá þjóðhagslegu sjónarhorni hafa minni ferðalög landsmanna erlendis þó þann kost að flytja a.m.k. hluta af erlendri neyslu Íslendinga til landsins sem styður við innlend efnahagsumsvif. Reynsla undanfarinna vikna bendir til þess að tilflutningur neyslu sé síst minni en vænta mátti fyrir. Ekki er þó ljóst hvort að sá stuðningur sem hagkerfið hefur fengið af flutningi neyslu til landsins reynist viðvarandi eftir sumarið.
  • Svo lengi sem einhverjar líkur eru á því að smitaðir ferðalangar komist inn í landið felst ekki aðeins ábati heldur einnig kostnaður af ferðalögum á milli landa. Hann kemur fram í aukinni tíðni harðari sóttvarnaaðgerða, veikindum og hugsanlegum dauðsföllum auk tapaðra vinnustunda vegna sóttkvía. Við það bætist óefnislegur kostnaður vegna ótta og minna ferða- og athafnafrelsis innanlands. Kostnaður einstaklinga við ferðalög ætti að endurspegla þessa áhættu.
  • Reynsla Íslands og annarra eyríkja bendir til að það sé líklega ekki hægt að koma algjörlega í veg fyrir að veiran berist til landsins. Aðgerðir á landamærum geta þó haft veruleg áhrif. Efnahagsleg áhrif ólíkra aðgerða á landamærunum ráðast ekki síst af því hversu mikið þær draga úr líkunum á því að veiran berist til landsins, að hún dreifist hér og að smit leiði til harðra sóttvarnaaðgerða. Svör við þessum grundvallarspurningum eru frekar í fórum sérfræðinga í smitsjúkdómum en hagfræðinga. Þó má leiða af því líkur að fjórðungur þeirra sem var með veiruna við komuna til landsins hafa ekki greinst við fyrstu skimun. Af fjórum hópsýkingum í sumar hefur svo ein endað í faraldri.
  • Ákvörðun um sóttvarnaráðstafanir á landamærum verður að byggja á fjölþættu hagsmunamati, sem einskorðast ekki við efnahagslega greiningu, og endurspegla þá grundvallaróvissu sem er um þróun faraldursins. Nú er ljóst að eftirspurn er meðal ferðamanna og Íslendinga að ferðast til og frá landinu. Reynslan sýnir einnig að þessum ferðalögum fylgir áhætta sem mikilvægt er að lágmarka og að skimun á landamærum hefur dregið verulega úr mögulegum samfélagslegum kostnaði ferðalaga milli landa þótt hún sé áfram nokkur nema frekar verði að gert. 

Meginmál

Efnahagslegur ávinningur er almennt af opnum landmærum. Íslenska hagkerfið er háð utanríkisverslun og íslenskur vinnumarkaður er þéttofinn þeim evrópska, enda búa hér um 50.000 erlendir ríkisborgarar og þúsundir Íslendinga búa utan landsteinanna. Auknar tengingar við útlönd stuðla að hagsæld; einangrun til lengdar hefur í för með sér margvíslegan kostnað. Efnahagslegur ávinningur af tíðum og fjölbreyttum samgöngum er þó líklega minni við núverandi aðstæður þar sem víðtækar sóttvarnaaðgerðir eru í öllum okkar helstu viðskiptalöndum.

Efnahagslegur kostnaður af smitum, ótta við smit og sóttvarnaráðstöfunum er verulegur. Kostnaðurinn felst að miklu leyti í tekjutapi vegna minni umsvifa. Einnig fylgir því beinn kostnaður að aðlagast smithættu, vegna sóttkvía og ekki síst vegna veikinda og dauðsfalla en langtímaáhrif af því að veikjast af COVID-19 eru enn óþekkt. Niðurstaða rannsóknar í Bandaríkjunum var sú að samfélagslegur kostnaður af hverju COVID-19 smiti væri jafnvirði um 40 milljóna króna á núverandi gengi.

Efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna á ársgrundvelli. Mun meiri kostnaður er af almennum sóttvarnaaðgerðum, svo sem samkomubanni, en sértækum aðgerðum á borð við smitrakningu og sóttkví. Þegar faraldurinn stóð sem hæst var kortavelta Íslendinga innanlands um 10 milljörðum króna minni á mánuði en hún hefði verið án faraldursins eða sem samsvarar um 4% af landsframleiðslu hvers mánaðar. Í mörgum Evrópulöndum þar sem beitt var harðari aðgerðum en á Íslandi dróst landsframleiðsla saman um 10-20% á öðrum ársfjórðungi.

Óefnislegur kostnaður af því að faraldurinn geisi er einnig verulegur. Það er til dæmis lýjandi að þurfa að búa við ótta við að veikjast, að lúta sóttvarnareglum í langan tíma og geta ekki hitt vini og vandamenn. Margir væru tilbúnir að greiða háar fjárhæðir fyrir að komast hjá þessu ef það væri mögulegt. Við stefnumótun ber að taka tillit til þessa kostnaðar ekki síður en beina efnahagslega kostnaðarins.

Fá smit, jafnvel aðeins eitt, geta haft í för með sér mikinn kostnað. Ástæðan er sú að einstaka smit sem ekki reynist unnt að rekja geta dreifst með veldisvexti nema gripið sé til kostnaðarsamra ráðstafana. Þannig eru um 700 manns í sóttkví þegar þetta er skrifað og stór hluti þeirra vegna smita sem líklega má rekja til eins smitaðs einstaklings sem kom til landsins. Kostnaður samfélagsins vegna þeirra sóttkvía sem hefur þurft að beita í sumar hleypur líklega á hundruðum milljóna króna.

Kostnaður af faraldrinum og sóttvarnaaðgerðum dreifist ekki jafnt og ræðst m.a. af starfstétt, aldri og kyni. Ríkissjóður hefur hlutverki að gegna við að dreifa þessum kostnaði og hefu r gert það m.a. með hlutabótum, greiðslum launa í sóttkví, verulega auknum útgjöldum til menntakerfisins auk hefðbundinna atvinnuleysisbóta.

Í sumar hefur innlend eftirspurn tekið hraðar við sér en búist var við í fyrstu. Árangur í sóttvörnum skiptir þar miklu máli. Vísbendingar eru um að einkaneysla hafi verið mun sterkari á 2. ársfjórðungi en talið var fyrr í sumar. Batinn í innlendri eftirspurn hefur vegið þungt á móti samdrætti í útfluttri ferðaþjónustu. Að hluta til er þessi hagstæða þróun vegna hagstjórnaraðgerða en einnig vegna þess að fyrr í sumar gat verslun og þjónusta átt sér stað án smithættu. Loks hefur stór hluti þeirrar neyslu Íslendinga sem hefði ella átt sér stað erlendis flust til landsins. Í júní var kortavelta Íslendinga erlendis 9 mö.kr minni en í fyrra en innanlands var hún 13 mö.kr meiri. Ekkert bendir til annars en að neysla landsmanna erlendis haldi áfram að flytjast til landsins á meðan ferðalög eru takmörkunum háð, þótt enn sé erfitt að spá fyrir um hve mikill hluti hennar kemur fram í aukinni neyslu innanlands og hve stórum hluta er varið í sparnað.

Frá 15. júní hafa um 70 þúsund ferðamenn komið til landsins. Því til viðbótar hafa komið um landamærin 45 þúsund íslenskir ríkisborgarar. Upplýsingar úr þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands benda til þess að framlag hvers ferðamanns til hagkerfisins geti legið á bilinu 100 til 120 þúsund. Því má áætla að þeir ferðamenn sem hafa sótt landið heim undanfarna tæpa tvo mánuði hafi lagt um 8 ma.kr. til efnahagslífsins á þeim tíma, en júní, júlí og ágúst eru mikilvægustu mánuðirnir fyrir íslenska ferðaþjónustu. Til samanburðar getur útbreiðsla faraldursins ásamt hörðum sóttvarnaráðstöfunum dregið úr neyslu innlendra aðila um 10 ma.kr. á mánuði, líkt og greint er frá að framan.

Það er forsenda fyrir komum ferðamanna til Íslands að landamærin séu tiltölulega opin, en einnig að stjórn hafi náðst á faraldrinum hérlendis og í heimalandi ferðamanna. Við núverandi aðstæður heimsfaraldurs felst bæði ábati og kostnaður í því að létta á ferðatakmörkunum. Ábatinn birtist með augljósustum hætti í tekjum ferðaþjónustunnar en ekki er við því að búast að ferðamenn sæki landið heim í teljandi mæli séu þeir krafðir um smitgát eða sóttkví í marga daga eftir komu til landsins. Má t.a.m. líta til þess að ríflega helmingur ferðamanna dvelur hér á landi í fimm nætur eða skemur en víst má telja að jafnvel þeir sem hyggjast dvelja hér lengur hugsi sig tvisvar um séu þeir krafnir um smitgát eða sóttkví. Ferðatakmarkanir hér á landi og erlendis eru þó langt frá því að vera eini ráðandi þátturinn um fjölda ferðamanna því ferðavilji fer ekki síður eftir stöðu faraldursins hér á landi og erlendis.

Óvissa um horfur í ferðaþjónustu á heimsvísu næstu mánuði er alger. Ógerningur er að spá fyrir um komur ferðamanna þegar aðstæður geta breyst verulega milli daga og því ekki gerð tilraun til þess hér. Ef hins vegar gert er ráð fyrir óbreyttum aðstæðum út árið má nota komur ferðamanna í júlí ásamt árstíðasveiflu í fjölda ferðamanna árið 2019 til að framreikna fjölda ferðamanna það sem eftir lifir árs. Slík æfing bendir til þess að fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja landið það sem eftir lifir árs gæti legið á bilinu 165 til 200 þúsund. Reynist nauðsynlegt að beita harðari sóttvarnaráðstöfunum til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar sem draga verulega úr eða koma í veg fyrir komur ferðamanna gæti þjóðarbúið orðið af 20-24 mö.kr til ársloka vegna minni umsvifa í ferðaþjónustu. Þá störfuðu um 28 þúsund einstaklingar í einkennandi greinum ferðaþjónustu á síðasta ári, sem ætla má að verði fyrir beinum áhrifum af hörðum sóttvarnaaðgerðum. Hafa ber í huga í fyrsta lagi að alger óvissa um fjölda ferðamanna næstu mánuði leiðir af sér mikla óvissu um framangreint mat og í öðru lagi að ábati þjóðarbúsins af opnum landamærum er víðtækari en svo að hann megi aðeins rekja til ferðaþjónustu. Þá ber einnig að líta til þess að Íslendingar hafa flutt til landsins neyslu sem ella hefði átt sér stað erlendis. Þannig vó 13 ma.kr. vöxtur í kortaveltu Íslendinga hér á landi í júní samanborið við sama mánuð í fyrra að hluta á móti 23 ma.kr. samdrætti í veltu erlendra ferðamanna hér á landi yfir sama tímabil.

Landamæraskimun dregur verulega úr líkunum á því að smitaðir ferðamenn komi inn í landið, en þrátt fyrir það eru vísbendingar um að einhver fjöldi smitaðra ferðalanga hafi komist hingað. Með landamæraskimun næst í fyrsta lagi að bera kennsl á stóran hluta þeirra sem koma smitaðir með flugi til landsins, en greinst hafa um 40 smit á landamærum og er hlutfall smitaðra um 0,05%. Í öðru lagi er ólíklegra að einstaklingar sem eru líklega sýktir leggi í ferðalag til landsins þar sem þeir eiga í hættu á að lenda í sóttkví. Í um mánuð hefur tiltekinn hópur þurft að undirgangast tvöfalda skimun, þ.e. sýnatöku við landamæri og aftur nokkrum dögum síðar. Í þessum hópi hafa nú 14 greinst í fyrri sýnatökunni (0,2%) en 2 í seinni sýnatökunni (0,02%). Með öðrum orðum eru vísbendingar um að flestir þeir smituðu greinist strax við landamærin en að einhverjir komist smitaðir inn í landið. Leiða má að því líkur að svo sé einnig hjá þeim hópi sem þarf aðeins að undirgangast landamæraskimun, þ.e. fólki frá lágáhættusvæðum og þeim sem dvelja hér skemur en í 10 daga. Ekki má draga of víðtækar ályktanir af þessum tölum þar sem þess má vænta að hlutfall smitaðra ferðamanna sé mjög háð stöðu faraldursins í upprunalandi þeirra og hún tekur sífelldum breytingum. 

Landamæraskimun er líklega til þess fallin að minnka verulega líkur á útbreiðslu veirunnar þrátt fyrir að hlutfall smitaðra á landamærunum sé lágt. Sem fyrr segir er hlutfall einstaklinga sem bera virkt smit við komuna til landsins aðeins um 0,05% af fjölda skimaðra á landamærunum. Það er þó við því að búast að einstaklingar sem koma til landsins vitandi að þeir verða skimaðir og sæta sóttkví reynist þeir smitaðir séu ólíklegri en aðrir til að hafa virkt smit. Landamæraskimun verður því varla hætt með vísan í tölfræði um fá smit við landamærin, enda fá smit líklega bein afleiðing fyrirkomulags sóttvarna á landamærum. Má þannig reikna með að hlutfall smitaðra frá tilteknu ríki vaxi um leið og skimun er aflögð á farþega frá viðkomandi ríki. Þess utan fylgir því í einhverjum tilvikum lítill kostnaður fyrir ferðamenn að einfaldlega fljúga til landsins frá ríkjum sem eru undanþegin skimun jafnvel þótt þeir séu ekki búsettir þar.

Svo lengi sem einhver hætta er á því að fólk sem kemur erlendis frá smiti út frá sér felst efnahagslegur kostnaður í komum fólks til landsins. Þessi kostnaður er óviss og háður aðstæðum. Væntur kostnaður á hvern ferðalanga er háður hættunni á því að þeir séu smitaðir, hættunni á því að þeir smiti aðra innanlands og hversu líklegt er að þau smit kalli á víðtækar sóttvarnaaðgerðir. Efnahagslegur kostnaður af smithættu vegna ferðalaga til landsins fer meðal annars eftir stöðu faraldursins hér á landi. Ef á annað borð er búið að ná stjórn á faraldrinum innanlands og sóttvarnaaðgerðum hefur verið aflétt getur kostnaður af völdum smithættu við ferðalög til landsins verið meiri en ella.

Reynsla erlendis frá bendir til að þó ferðatakmarkanir geti dregið verulega úr hættunni á smitum milli landa geti þær ekki komið alveg í veg fyrir hana. Í Færeyjum og Nýja-Sjálandi hafa þannig nýlega komið upp smit eftir að tekist hafði að svo gott sem útrýma veirunni. Allir sem koma til Færeyja þurfa að undirgangast landamæraskimun en þar virðist engu að síður vera kominn af stað talsverður faraldur eftir margar vikur þar sem fá sem engin smit greindust. Í Nýja-Sjálandi hefur enn harðari ferðatakmörkunum verið beitt en þar greindust innanlandssmit fyrr í mánuðinum í fyrsta sinn í 102 daga.

Frá hagfræðilegu sjónarmiði væri eðlilegt að farþegar til landsins greiði gjald til að koma til móts við samfélagslegan kostnað vegna hættu á að smit berist til landsins. Skimun við landamæri minnkar smithættuna og þar með kostnað af hennar völdum. Eðlilegt er að ferðalangar greiði sjálfir að fullu fyrir beinan kostnað af landamæraskimun. Að auki hníga hagræn rök til þess að gjald sé lagt á komur farþega til að koma til móts við þann samfélagslega kostnað sem fylgir hættu á að smit berist til landsins við núverandi aðstæður og endurspeglast ekki í verðlagningu ferðalaga á markaði, en of lágt verð leiðir til óhagkvæmrar áhættutöku sem slíku gjaldi er falið að leiðrétta. Markmið gjaldsins er því hliðstætt markmiði kolefnisgjalds sem ætlað er að draga úr kolefnisútblæstri fremur en að fjármagna ríkissjóð. Eins og áður segir er vandkvæðum bundið að meta þennan samfélagslega kostnað sem er breytilegur eftir stöðu faraldursins. Hann gæti þó verið umtalsverður í samanburði við t.d. flugverð og meðaltekjur þjóðarbúsins af hverjum ferðamanni. Ekki er að merkja mun á komum ferðamanna síðan þeir þurftu sjálfir að greiða fyrir skimunina. Hins vegar benda komur ferðamanna í júlí til þess að samdrátturinn frá þeim ríkjum sem hafa verið undanþegin skimun sé minni en í fjölda ferðamanna frá öðrum ríkjum. Slíkur samanburður er þó verulega vandasamur þar sem fjölmargir þættir spila inn í ákvörðun einstaklinga um að hefja ferðalög um þessar mundir, s.s. efnahagur, staða faraldurs í heimalandi, fjarlægð frá áfangastað o.fl.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Greinar

Virkni mikilvægust

Deila grein

17/08/2020

Virkni mikilvægust

Á liðnu vori var kór­ónu­veir­an bremsa á sam­fé­lags­lega virkni. Leik­hús­um var lokað. Tón­leik­um var af­lýst. Mörg­um skóla­bygg­ing­um læst. Vinnustaðir sendu starfs­fólk heim og göt­urn­ar tæmd­ust. Samstaða ríkti um að kveða veiruna í kút­inn og aðgerðir skiluðu ár­angri.

Þótt veir­an hafi upp­vak­in minnt á sig á und­an­förn­um vik­um er mik­il­vægt að halda sam­fé­lag­inu virku. Finna ábyrg­ar leiðir til að lifa líf­inu; halda skól­um opn­um, fyr­ir­tækj­um gang­andi, list­a­lífi kviku. Heilsa þjóðar­inn­ar ræðst nefni­lega af mörg­um þátt­um, and­legri nær­ingu og líðan, sam­skipt­um við aðra, já­kvæðum hugs­un­um og frelsi.

Sótt­varn­a­regl­ur taka í aukn­um mæli mið af því. Í fram­halds- og há­skól­um eru nánd­ar­mörk nú einn metri í stað tveggja í vor. Börn í grunn- og leik­skól­um þurfa ekki að lúta nánd­ar­regl­um og heim­ild hef­ur feng­ist til æf­inga og keppni í íþrótt­um. Hár- og snyrti­stof­ur standa opn­ar að upp­fyllt­um ákveðnum skil­yrðum og þjón­usta af ýms­um toga blómstr­ar. Listviðburðir eru enn tak­mörk­un­um háðir, þar sem nánd­ar- og fjölda­sam­komu­regl­ur gera menn­ing­ar­starf ým­ist ómögu­legt eða fjár­hags­lega óráðlegt. Slíkt get­ur menn­ing­arþjóð ekki látið stöðva sig og við get­um fundið leiðir til að njóta menn­ing­ar og lista. Til dæm­is standa von­ir til að gild­andi nánd­ar­regl­ur í skól­um og íþrótt­a­starfi fá­ist fyrr en síðar yf­ir­færðar á leik­húsið, svo leik­ar­ar á sviði geti hafið æf­ing­ar. Með bein­um stuðningi hins op­in­bera gæti viðburðahald haf­ist, þrátt fyr­ir regl­ur um há­marks­fjölda. Hug­mynd­ir í þá veru hafa verið rædd­ar, þar sem stuðning­ur­inn fæli frek­ar í sér hvata til auk­inn­ar menn­ing­ar­virkni frek­ar en bæt­ur vegna glataðra tæki­færa. Sam­hliða þarf að tryggja lista­mönn­um rétt­indi sam­bæri­leg þeim sem launþegar al­mennt njóta, en sjálf­stætt starf­andi lista­fólk hef­ur í mörg­um til­vik­um fallið milli skips og bryggju þegar kem­ur að rétti til at­vinnu­leys­is­bóta.

Al­menn­ar sótt­varn­a­regl­ur, aðgerðir á landa­mær­um, per­sónu­legt hrein­læti og ábyrg hegðun hvers og eins okk­ar er for­senda þeirr­ar sam­fé­lags­legu virkni sem við æskj­um. Við get­um með rétt­um viðhorf­um og lausnamiðaðri hugs­un blásið lífi í menn­ing­ar­starf og þannig sam­fé­lagið allt. Við get­um fylgt ís­lenska ferðasumr­inu eft­ir með ís­lensk­um menn­ing­ar­vetri. Und­an­farn­ir mánuðir hafa sýnt að við búum í sterku sam­fé­lagi, því þrátt fyr­ir for­dæma­laus­ar aðstæður er staðan al­mennt góð. At­vinnu­stig er betra en ótt­ast var, kaup­mátt­ur og einka­neysla er meiri, op­in­ber­ar fram­kvæmd­ir að aukast og skólastarf er að hefjast. Með sam­stöðu og bjart­sýni að leiðarljósi mun­um við sigr­ast á aðstæðunum.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. ágúst 2020.

Categories
Greinar

Þjóðhagslegt mikilvægi skóla

Deila grein

07/08/2020

Þjóðhagslegt mikilvægi skóla

Við mót­un far­sæll­ar efna­hags­stefnu þjóðríkja er ein­blínt á að auka sam­keppn­is­hæfni og styrkja viðnámsþrótt­inn. Þeim ríkj­um sem hafa þetta tvennt að leiðarljósi vegn­ar vel.

Ísland hef­ur verið þeirr­ar gæfu aðnjót­andi að efna­hag­ur heim­ila, fyr­ir­tækja og staða hins op­in­bera hef­ur styrkst mikið á und­an­förn­um árum. Vegna þess­ar­ar hag­felldu stöðu hef­ur rík­is­stjórn­in getað mótað mark­viss­ar aðgerðir til að styðja við hag­kerfið, lyk­ilþætt­ir í þeirri stefnu eru að fjár­festa í mennt­un og menn­ingu.

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar kem­ur fram að öf­ugt mennta­kerfi sé meg­in­for­senda fram­fara og kjarn­inn í ný­sköp­un þjóðar­inn­ar til framtíðar.

Við vilj­um að stærri hlut­ur hag­kerf­is­ins sé drif­inn áfram af hug­viti og stuðlað sé að auk­inni verðmæta­sköp­un í öllu hag­kerf­inu. Með því fæst meira jafn­vægi í þjóðarbú­skap­inn og minni sveifl­ur verða í gjald­eyr­is­sköp­un. Til þess að búa til slíkt um­hverfi, þar sem ný­sköp­un blómstr­ar og verkvit, þarf skýra stefnu í mennta­mál­um og ár­ang­ur. Mennta­stefn­an tek­ur mið af þessu hug­ar­fari og ég hlakka til að kynna hana.

Stærsta sam­fé­lags­verk­efnið okk­ar er að skól­arn­ir komi sterk­ir inn í haustið. Um all­an heim eru skól­ar ekki að opna með hefðbund­um hætti í haust og skaðinn sem hlýst af því til lengri tíma er ómet­an­leg­ur. Við verðum öll sem eitt að leggja mikið af mörk­um til að tryggja sterka stöðu allra skóla­stiga í land­inu. Á næstu dög­um fer af stað um­fangs­mikið sam­ráð og sam­vinna við alla lyk­ilaðila til að stuðla að því að það verði að raun­inni.

Skól­ar gegna þjóðhags­lega mik­il­vægu hlut­verki og lengri tíma skóla­lok­un er óæski­leg. Það er þjóðahags­lega mik­il­vægt að for­gangsraða í þágu skóla­kerf­is­ins. Stjórn­völd hafa aukið veru­lega fjár­veit­ing­ar til mennta­kerf­is­ins. Ég full­yrði að slík ráðstöf­un sé ein sú arðbær­asta sem sam­fé­lagið legg­ur í og við for­gangs­röðum í þágu mennt­un­ar. Öll heims­byggðin stend­ur frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um á tím­um far­sótt­ar og sótt er að grunn­sam­fé­lags­gerðinni.

Á Íslandi höf­um við alla burði til þess að sækja fram á þeim sviðum sem eru okk­ur dýr­mæt­ust. Við höld­um áfram að for­gangsraða í þágu framtíðar­inn­ar í sam­vinnu hvert við annað.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2020.

Categories
Fréttir

„Störfin heim!“

Deila grein

17/07/2020

„Störfin heim!“

„Það er gamaldags að hugsa sem svo að hið opinbera geti ekki rekið stofnanir og þjónustu úti á landi til jafns við höfuðborgarsvæðið. Úti á landi býr mikill mannauður sem getur vel sinnt þeim verkefnum sem þeim er falið af hinu opinbera. Aukinn fjölbreytileiki starfa eflir landsbyggðina og byggir upp sterkari samfélög,“ segir Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar, í grein á visir.is, „Störfin heim!“.

„Það er ákvörðun að halda byggð í landinu. Til þess að svo megi vera þarf að huga að samgöngum, menntun, menningu og síðast en ekki síst að fjölbreytt tækifæri á atvinnumarkaði séu til staðar,“ segir Ingibjörg Ólöf.

Í Bítinu á Bylgjunni í morgun sagði Ingibjörg Ólöf:

„Við þurfum að færa okkur til nútímans og ég tel það gríðarlega mikilvægt. Við sáum það í kóvinu, þar sem kom í ljós að fólk gat unnið heiman frá sér, og að við getum hugsað þetta lengra. Við eigum að nýta okkur þekkinguna og tæknina og fara í það markvisst að flytja opinber störf út á land.“

Það ætti að ganga enn lengra!

„Það ætti reyndar að mínu mati að ganga enn lengra og miða við það að opinber störf væru almennt frekar úti á landi en í höfuðborginni þar sem fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri eru á höfuðborgarsvæðinu en víða úti á landi,“ segir Ingibjörg Ólöf.

„Við viljum öll sjá blómlega byggð í landinu, við getum öll verið sammála um það. Og til að svo megi verða þurfum við að breyta til, við þurfum að efla landsbyggðina og þá m.a. að fjölga atvinnutækifærum. En við erum að sjá það allt of oft að unga fólkið okkar fer til Reykjavíkur eða erlendis að mennta sig. Það vill síðan koma til baka í sína heimabyggð en hefur ekki haft tækifæri til þess þar sem það er engin atvinna til staðar fyrir það við hæfi,“ segir Ingibjörg Ólöf í Bítinu.

Categories
Greinar

Sjónvarpsefni selur súkkulaði

Deila grein

17/07/2020

Sjónvarpsefni selur súkkulaði

Sala á íslenskum vörum og þjónustu fyrir erlendan gjaldeyri hefur sjaldan verið mikilvægari en nú. Með slíkri gjaldeyrisöflun verða til verðmæti sem halda samfélaginu gangandi, leggja grunninn að hagsæld og velferð okkar allra. Tjónið af samdrætti í útflutningstekjum vegna kórónuveiru-faraldursins er ómælt. Tekjur af erlendum ferðamönnum hafa minnkað, mikilvægir markaðir fyrir íslenskan fisk breyst og verðlækkanir hafa orðið á áli og kísilmálmi síðustu misseri vegna breyttrar neysluhegðunar um allan heim. Áhrif þess á hagkerfið eru veruleg.

Íslendingar hafa áður tekist á við áskoranir af þessu tagi. Við höfum dregið lærdóm þeim og vitum hversu mikilvæg fjölbreytni í atvinnulífinu er. Með fleiri útflutningsgreinum minnkar höggið af stórum áföllum, rétt eins og sannast hefur á undanförnum vikum.

Íslensk kvikmyndagerð er ein þeirra greina sem skapar verðmæti. Íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsefni hafa vakið mikla athygli erlendis og Ísland er upptökustaður á heimsmælikvarða. Náttúrufegurð á þar hlut að máli en fagþekking og metnaður þeirra sem starfa í greininni skiptir enn meira máli. Nýjasta rósin í hnappagat þeirra snýr að flutningi og upptöku á kvikmyndatónlist, en á undanförnum árum hafa tugir Netflix- og Hollywood-framleiðenda tekið upp kvikmyndatónlist á Akureyri í samstarfi við SinfoniaNord.

Um heim allan hefur sjónvarpsáhorf verið í hæstu hæðum vegna samkomutakmarkana. Ísland er í aðalhlutverki í sumu því efni sem notið hefur mestra vinsælda og efnahagsleg áhrif þess gætu orðið veruleg. „Husavík“ er nú eitt vinsælasta leitarorðið á netinu og íslenskt lúxus-súkkulaði er rifið úr hillum verslana í Bandaríkjunum, eftir að þarlendar stjörnur heimsóttu framleiðandann í vinsælum umhverfisþætti. Frá því að þátturinn var frumsýndur hafa 30 þúsund súkkulaðiplötur verið sendar með hraði vestur um haf.

Súkkulaði bjargar ekki hagkerfinu eitt og sér, en er (bragð)gott dæmi um samhengi hlutanna. Í fjölbreyttu hagkerfi leiðir eitt af öðru, menning skapar tækifæri sem vekur áhuga á landi og þjóð. Þannig mun fjárfesting í menningarstarfi skila ávinningi til allra.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. júlí 2020.

Categories
Greinar

Áhyggjulaust ævikvöld

Deila grein

17/07/2020

Áhyggjulaust ævikvöld

Eitt af grunn­gild­um Fram­sókn­ar­flokks­ins er að efla mennta­kerfið í land­inu. Mennt­un er hreyfiafl fram­fara og því brýnt að jafn­ræði ríki í aðgengi að mennt­un fyr­ir alla. Ný lög um Mennta­sjóð náms­manna tóku gildi 1. júlí. Þessi alls­herj­ar kerf­is­breyt­ing hef­ur verið bar­áttu­mál ára­tug­um sam­an. Afar brýnt var að bæta kjör náms­manna, auka rétt­indi og jafna tæki­færi til náms. Ég brenn fyr­ir það að ung­menni lands­ins njóti góðs aðgeng­is að mennt­un óháð efna­hag og staðsetn­ingu.

Eitt af því sem hef­ur ætíð staðið í mér er hvernig ábyrgðar­kerfi lána­sjóðs náms­manna þróaðist, þ.e. að ekki var veitt náms­lán án þess að ábyrgðarmanna nyti við. Í þessu fólst mis­mun­un á aðstöðu fólks í gegn­um lífs­leiðina. Marg­ar fjöl­skyld­ur hafa þurft að end­ur­skipu­leggja fjár­mál efri ár­anna vegna þessa. Marg­ir hafa þurft að tak­ast á við þá staðreynd að erfa gaml­ar ábyrgðir á náms­lán­um, jafn­vel án þess að gera sér grein fyr­ir því. Þetta hef­ur eðli máls­ins sam­kvæmt verið fólki þung­bært. Þessu hef­ur, sem bet­ur fer, verið breytt með nýju lög­un­um þegar 35.000 ábyrgðir á náms­lán­um féllu niður.

Þessi lög bera því með sér um­bylt­ingu á náms­lána­kerfi hér á landi. Ný lög kveða á um að ábyrgðir ábyrgðarmanna á náms­lán­um, tekn­um í tíð eldri laga, falli niður við gildis­töku lag­anna, enda sé lánþegi í skil­um á láni sínu. Mark­miðið er að hver lánþegi skuli sjálf­ur vera ábyrg­ur fyr­ir end­ur­greiðslu eig­in náms­lána og sam­ræma þannig náms­lán sem veitt eru fyr­ir og eft­ir árið 2009. Þá er til­tekið að ábyrgðir ábyrgðar­manns falli niður við and­lát hans enda sé lánþegi í skil­um. Þessi breyt­ing er í sam­ræmi við reglu sem lengi hef­ur gilt um lánþeg­ann sjálf­an, þ.e. að skuld­in falli niður við and­lát en erf­ist ekki. Þetta er gríðarlega mik­il­vægt enda hef­ur verið vak­in at­hygli á ágöll­um á þessu fyr­ir­komu­lagi í fjölda ára af hálfu þeirra sem hafa fengið láns­ábyrgð í arf.

Mark­mið mitt með þess­um laga­breyt­ing­um er að draga úr aðstöðumun í sam­fé­lag­inu ásamt því að tryggja jafna mögu­leika og jöfn tæki­færi til náms. Þannig á mögu­leiki á mennt­un að vera án til­lits til land­fræðilegra aðstæðna, kyns eða efna­hags­legra og fé­lags­legra aðstæðna. Það hef­ur mynd­ast góð samstaða á Alþingi um að ráðast í þess­ar kerf­is­breyt­ing­ar sem voru löngu tíma­bær­ar. Kerf­is­breyt­ing sem þessi leiðir af sér aukið rétt­læti í sam­fé­lag­inu ásamt því að auka verðmæta­sköp­un sem felst í því að fleiri hafa tæki­færi á því að mennta sig án þess að reiða sig á góðvild annarra. Eitt af mark­miðum nýrra laga var að náms­lána­kerfið væri sann­gjarn­ara og rétt­lát­ara. Þessi kerf­is­breyt­ing mun einnig greiða leiðina að áhyggju­lausu ævikvöldi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júlí 2020.

Categories
Greinar

Störfin heim!

Deila grein

15/07/2020

Störfin heim!

Það er ákvörðun að halda byggð í landinu. Til þess að svo megi vera þarf að huga að samgöngum, menntun, menningu og síðast en ekki síst að fjölbreytt tækifæri á atvinnumarkaði séu til staðar.

Undanfarna daga hefur umræða um opinber störf á landsbyggðinni verið á áhugaverðum stað. Fjaðrafok hefur verið vegna ákvörðunar Félagsmálaráðherra að færa störf úr Reykjavík norður á Sauðárkrók en á sama tíma finnst mörgum það sjálfgefið að þau störf sem fylgt hafa fangelsinu á Akureyri verði flutt suður. Þarna skekkist myndin. Við búum öll í einu og sama landinu og það á að vera metnaðarmál hjá okkur að dreifa störfum frá hinu opinbera vítt og breytt um landið. Það ætti reyndar að mínu mati að ganga enn lengra og miða við það að opinber störf væru almennt frekar úti á landi en í höfuðborginni þar sem fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri eru á höfuðborgarsvæðinu en víða úti á landi. Það er eðli höfuðborga að þangað safnist mikið af fyrirtækjum sem starfa á frjálsum markaði með fjölbreytta flóru vöru og þjónustu. Þess vegna væri það sanngjarnt gagnvart landsbyggðinni að opinber störf væru almennt frekar úti á landi til þess að styrkja byggðirnar og auka fjölbreytileika starfa sem þar eru. Langskólagengið fólk á oft í vandræðum með að finna störf við sitt hæfi úti í minni byggðakjörnum þar sem ekki svo margir möguleikar eru í boði. En það er eðli opinberra stofnana að oft þurfa þær á vel menntuðu fólki að halda til þess að sinna starfsemi sinni.

Öll vötn falla til Reykjavíkur

Á undanförnum áratugum höfum við sem búum á landsbyggðinni séð á eftir mörgum störfum suður á bóginn. Tilhneigingin hefur verið sú að þegar kemur að hagræðingu hjá opinberum fyrirtækjum og hinu opinbera þá er niðurskurðarhnífurinn dreginn fyrst upp úti á landi. Stofnanir sem hafa verið með starfsemi hingað og þangað eru sameinaðar á einn stað á höfuðborgarsvæðinu og eftir sitjum við sem búum úti á landi með sárt enni og horfum á eftir störfunum í burtu og einnig oft á tíðum töluverða þjónustuskerðingu. Við þekkjum öll dæmi þess að flutningur stofnana út á land hafi haft jákvæð áhrif á þjónustu og byggðirnar. Þar má meðal annars nefna Fæðingarorlofssjóð á Hvammstanga, Matvælastofnun á Selfossi og Jafnréttisstofu á Akureyri. Í nútíma samfélagi sem byggir á tækni og þekkingu á það að vera metnaðarmál að tryggja að íbúar á landsbyggðinni hafi jafnan aðgang að opinberum störfum og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Við viljum jú öll að landið sé í byggð.

Gamaldags hugsun

Síðast liðið mánudagskvöld var viðtal við Ásmund Einar Daðason Félags og barnamálaráðherra þar sem verið var að gagnrýna ákvörðun hans um að flytja störf út á land og minntist hann á að það væri gamaldags hugsun að öll opinber störf þyrftu að vera á höfuðborgarsvæðinu og þá helst í póstnúmeri 101. Þessari nálgun gæti undirrituð ekki verið meira sammála. Það er gamaldags að hugsa sem svo að hið opinbera geti ekki rekið stofnanir og þjónustu úti á landi til jafns við höfuðborgarsvæðið. Úti á landi býr mikill mannauður sem getur vel sinnt þeim verkefnum sem þeim er falið af hinu opinbera. Aukinn fjölbreytileiki starfa eflir landsbyggðina og byggir upp sterkari samfélög. Við sem úti á landi búum viljum gjarnan taka þátt í starfsemi hins opinbera og gerum það með miklum sóma. Við erum ekki að biðja um sér meðferð í íslensku samfélagi þó við búum úti á landi. Við erum bara að biðja um að jafnræðis sé gætt.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. júlí 2020.

Categories
Greinar

RÚV og þúfnahyggjan

Deila grein

14/07/2020

RÚV og þúfnahyggjan

Í fréttum RÚV í vikunni var teiknuð upp sú mynd að flutningur opinberra starfa frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar væri eðlileg þróun og ef að æðstu ráðamenn þjóðarinnar reyndu að andæfa gegn þessari þróun væri það kjördæmapot og spilling, helst í boði framsóknarmanna. Fréttin hleypti út á mér ofnæmisviðbrögðum, bæði var hún ónákvæm og einnig var uppleggið skakkt, sjónarhornið var að störfin eiga heima í Reykjavík og einungis þangað sé hægt að ráða hæft fólk. Framsóknarráðherrar áttu að sitja eftir með skaðann en niðurstaðan er sú að fréttastofa Ríkisútvarps landsmanna situr uppi með skömmina.

Ríkisstofnanir á Íslandi eru ríflega 160 talsins, opinber störf á vegum ríkisins eru rúm 20.000 þá á eftir að telja þau störf sem eru á vegum sveitarfélaga. Á landsbyggðinni fer fram margvísleg verðmætasköpun svo sem í matvælaframleiðslu og iðnaði og þar er líka uppspretta nýsköpunar, hugvits, menningar og mannlífs sem svo allir landsmenn njóta og eigum að njóta að jöfnu. Til þess að vel geti orðið þarf að dreifa þjónustu hins opinbera sem víðast og staðsetning ríkisstarfa skiptir miklu máli og ætti það að vera forgangsmál stjórnvalda að dreifa þeim sem mest um landið, ekki bara framsóknarmanna. Efling opinberra starfa á landsbyggðinni hefur til dæmis verið í flestum ríkisstjórnarsáttmálum, en frétt RÚV afhjúpar hverjir hafa látið verkin tala.

En það er ekki nóg gert, undanfarin ár og áratugi hafa stofnanir á vegum ríkisins dregið til sín fleiri og fleiri störf til höfuðborgarsvæðisins. Í nýlegri samantekt Byggðastofnunar kom fram að á höfuðborgarsvæðinu búa 64% landsmanna en þar eru 71% starfa ríkisins. Til samanburðar búa í Noregi liðlega 23% landsmanna á Óslóar svæðinu. Í Noregi er reglulega uppi umræða um að landið megi ekki verða að borgríki. Samstaða er þar um að veita ýmiskonar ívilnanir og flytja ýmis störf og stofnanir út á land, nokkuð sem við mættum tileinka okkur meira og standa saman að. Þvert á móti standa hér um landið tómar byggingar sem minnismerki margra horfinna stofnanna eða deilda á vegum ríkisins sem hafa verið flutt á höfuðborgarsvæðið.

Ég hef átt samtöl við embættismenn ríkistofnanna sem hafa fullyrt að það þýði ekki að flytja opinber störf út á land eða starfrækja stofnanir þar því það fáist ekki menntað fólk í störfin. Sérfræðingarnir eru nefnilega fyrir sunnan. Þetta er alls ekkert náttúrulögmál og stenst auðvitað enga skoðun.  Einkageirinn áttar sig betur á þessu. Um landið allt eru mörg einkarekin fyrirtæki í hátækniiðnaði sem þarfnast hámenntaðs starfsfólks.

Frétt RÚV hefur haft þó einn jákvæðan fylgifisk, umræða hefur skapast um byggðamál og byggðastefnu, nokkuð sem við ættum að vera stöðugt að ræða. Þar er staðsetning opinberra starfa auðvitað bara einn angi af mjög stóru máli en samt mikilvægur. Framsókn hefur og mun standa með hinum dreifðu byggðum landsins. Í stað þess að gera andæfi okkar gagnvart þróuninni og kerfinu tortryggileg væri æskilegra að það legðust allir á eitt að halda úti blómlegri byggð, landið um kring.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á feykir.is 14. júlí 2020.

Categories
Greinar

Passar landsbyggðin hvergi inn í excel?

Deila grein

14/07/2020

Passar landsbyggðin hvergi inn í excel?

Þrátt fyrir að sumarið leiki um okkur landsmenn þessa dagana og áhyggjur hverfi um stund hjá okkur þá stinga upp kollinum fréttir um lokun og hagræðingar víða í samfélaginu. Nú ætla ég ekki að draga á nokkurn hátt úr þeim alvarleika sem við stöndum frammi fyrir í efnahagslífinu og nauðsyn þess að bregðast við.

Engu að síður er það mjög merkilegt að sjá ýmsar tillögur þess efnis sem verið er að vinna að nú. Stendur þar uppúr, sem dæmi, boðuð lokun fangelsisins á Akureyri sem tilkynnt var um á dögunum. Sá rekstur hefur þótt, í gegnum tíðina, hafa haft gott yfirbragð mannúðar og sem slíkur verið talinn af þeim sem til þekkja gott dæmi um betrunarúræði sem fangelsi eiga að vera.

Þá hefur það verið til fyrirmyndar að slíkur rekstur sé út á landi og þannig gefið þeim sem þurfa að afplána refsingu að gera það nær fjölskyldu. Að ógleymdu því að mikil samlegðaráhrif hafa verið með löggæslu á Akureyri sem nú hlýtur að þurfa að bæta upp með auknu fjármagni til hennar. Maður hefði haldið að allir þessir þættir yrðu til þess að skynsamlegt þætti að halda þessum rekstri áfram en svo er víst ekki. 

Í þokkabót var svo exeljafnan sett upp þannig að með þeim fjármunum sem myndu sparast með lokun á Akureyri yrði hægt að gera svo margfalt meira fyrir með því að flytja störfin á suðvesturhornið. Helst minnti lýsingin mann á söguna af Jóa og baunagrasinu þar sem fræin fáu urðu að slíkum kynjum sem baunagrasið varð.

Störfin reiknuð suður

Og þarna er mergur málsins kominn svo berlega í ljós. Á síðustu árum hefur markvisst verið dregið úr þjónustu og störfum á landsbyggðinni undir merkjum reiknaðra stærða að með ólíkindum er. Á sama tíma hefur landsbyggðin ekkert slegið af þeirri miklu verðmætasköpun sem sannarlega fer þar fram fyrir þjóðarbúið og skyldi maður ætla að með henni ætti að myndast einhver innistæða fyrir því að halda úti sanngjarni grunnþjónustu sem allir íbúar ættu að njóta óháð efnahag og staðsetningu. 

Þá ríma hagræðingaraðgerðir eins og þessar ekki síður illa við það stef sem stjórnvöld hafa slegið nú með störfum án staðsetningar. Það hefði farið betur að öll orkan, sem fer í þessar aðgerðir, hefði farið í að efla sókn á þeim vettvangi og gera fólki kleyft að starfa óháð staðsetningu og efla nýsköpun og klasasetur um land allt í þeim tilgangi frekar en reyna nú enn að klípa af störf út um land til að efla suðvesturhornið. Við erum nefnilega svo heppinn að þar er til staðar þensla sem þarf ekki að efla heldur gera því kleift að hún berist um landið allt.

Það þarf kjark til að breyta

Þá varð mikill stormur í fjölmiðlum nú þegar vitnaðist að ráðherra Framsóknarflokksins hyggðist fara með nokkur störf út á land. Farið var í mikla fréttskýringar hvernig sá flokkur hefði vogað sér að storka náttúruöflunum í gegnum tíðina og hafa þá sýn að rétt gæti verið að stofnanir þjóðarinnar ættu nú kannski að bjóða upp á að hluti sinnar landsdekkandi starfsemi gæti hugsanlega unnist úti á landi. Var það auðheyrt að hér væri á ferðinni slík ósvinna að annað eins hefur ekki heyrst enda engar líkur á að hægt væri að vinna sérhæfð störf í fásinninu úti á landi. Þar ættu menn bara að sinna grunnatvinnuvegum og ekki að vera að heimta alltaf eitthvað meira. Það er nefnilega svo að störf fyrir langskólagengið fólk eru uppistaðan hjá mörgum opinberum stofnunum. 

Ég vona svo sannarlega að heimsmynd þeirra sem þetta gagnrýna mest verði stærri og ferðasumarið innanlands sem nú stendur yfir geri þeim kleift að fara nú út um land og sjá að Ísland er stærra en suðvesturhornið. Það er blómlegt og út um land allt er kraftur og áræðni til að takast á við aukin verkefni og eflaust líka til fólk sem vill flytja þangað ef það hefur tækifæri til með aukinni og fjölbreyttari atvinnu. Framsóknarflokkurinn trúir allavega á slíkt og að hér geti þrifist gott samfélag um land allt með öflugri höfuðborg og landsbyggð. Ég er stoltur af þeirri sýn og tilbúinn til að vinna að henni með öllum sem henni deila.

Svo vona ég sannarlega að fjölmiðlar sinni sínu aðhaldshlutverki jafnvel næst þegar ákveðið verður að leggja niður opinber störf í litlu samfélagi út á landi sem hafa meiri margfeldisáhrif á það samfélag heldur en þau sem um hefur verið rætt síðustu daga í öllum fréttatímum.

Svo vona ég að landsmenn allir njóti sumarsins á okkar magnaða landi sem við viljum öll að sé í sem blómlegastri byggð um ókomna framtíð.

Jón Björn Hákonarson, er ritari Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. júlí 2020.