Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2020.
06/03/2020
Bókmenntir, listir og skipasmíðarLilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2020.
06/03/2020
Barnvænt ÍslandBarnasáttmálinn er loforð sem við gáfum öllum heimsins börnum fyrir 30 árum, loforð sem var lögfest á Íslandi 2013. Samkvæmt því loforði skulu öll börn njóta jafnræðis, það sem barni er fyrir bestu skal vera leiðandi forsenda við allar ákvarðanir stjórnvalda og börn og ungmenni skulu höfð með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar fyrir þeirra hönd um málefni sem þau varðar.Á alþjóðlegum mælikvarða hafa börn á Íslandi það afar gott og sýna rannsóknir okkur að landið okkar er eitt besta land í heimi fyrir börn til að búa á. Slíkur samanburður gefur okkur vissulega hugmynd um hvar við stöndum í stóra samhenginu en við megum ekki dvelja við það of lengi. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hvetur ríki til að bera sig saman við sig sjálf, rýna og skoða stöðu barna á hverjum tíma og fylgjast sérstaklega með þróun og velferð hópa barna sem standa höllum fæti eða málefnum sem reynslan og gögnin segja okkur að huga þurfi betur að. Þegar kemur að uppfylla þessar forsendur skiptir gríðarlega miklu máli að ríki og sveitarfélög vinni markvisst saman að því að innleiða forsendur Barnasáttmálans. Sáttmálinn á að vera vegvísir okkar og áttaviti þegar kemur að öllum málum er varða börn með einum eða öðrum hætti.
Hinn 25. febrúar síðastliðinn fengu bæjarráð allra sveitarfélaga á Íslandi erindi frá mér og UNICEF á Íslandi með tilboði um þátttöku í verkefninu Barnvænt Ísland og taka skref til þess að fá vottun sem barnvæn sveitarfélög. Um er að ræða verkefni sem aðstoðar sveitarfélög með markvissum hætti að innleiða barnasáttmálann inn í starfsemi þeirra. Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga er byggð á alþjóðlegu verkefni, Child Friendly Cities Initiative (CFCI), sem hefur verið innleitt í þúsundum sveitarfélaga út um allan heim frá árinu 1996. Sveitarfélög sem taka þátt og innleiða Barnasáttmálann geta hlotið viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög. Innleiðingarferlið tekur tvö ár og skiptist í átta skref sem sveitarfélag stígur, með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna.Akureyri, Kópavogur og Hafnarfjörður hafa þegar hafið innleiðingu verkefnisins við góðan orðstír og eru þau fyrstu sveitarfélögin á Íslandi til að taka þátt í verkefninu, en skrifað var undir samstarfssamning við Borgarbyggð um þátttöku í verkefninu fyrr í þessari viku. Á þessu ári er stefnt að því að fimm sveitarfélög bætist í hópinn og tólf sveitarfélög til viðbótar árið 2021. Viðtökur við tilboði félagsmálaráðuneytisins og UNICEF um þátttöku í verkefninu hafa verið vonum framar og er ég þess fullviss að á næstu árum muni öll sveitarfélög á landinu vera komin vel á veg við markvissa innleiðingu Barnasáttmálans. Markmiðið er að gera Ísland allt barnvænt samfélag.
Verkefni þetta rímar vel við þær áherslur sem ég hef lagt í embætti mínu frá upphafi núlíðandi kjörtímabils. Réttindi barna og fjölskyldna þeirra hafa verið þar í forgrunni og miklar breytingar í farvatninu til þess að tryggja fullnægjandi og samræmda þjónustu fyrir börn og fjölskyldur hérlendis. Markmiðið er að fjölskyldur barna sem þurfa stuðning verði gripnar snemma á þeirri vegferð, umvafðar stuðningi og veitt viðeigandi þjónusta eftir eðli hvers tilviks fyrir sig.Sú vinna hófst með því að fá fjöldann allan af hagsmunaaðilum að borðinu til þess að rýna í þá umgjörð sem þegar er til staðar þegar kemur að börnum og fjölskyldum þeirra. Hvað væri að ganga vel og hvað þyrfti að laga að einhverju leyti, í takt við breyttan tíðaranda, breyttar kröfur og breytt samfélag frá þeim tíma sem kerfið var sett upp. Margir hópar fólks, bæði notenda þjónustu, fjölskyldum sem hafa hagsmuna að gæta eða hafa haft hagsmuna að gæta, fagfólk og fræðimenn komu að vinnunni á upphafsstigum. Hlustað var á allar raddir.
Vinnunni var ætlað að samþætta alla þjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra á Íslandi, tryggja aukið þverfaglegt samstarf innan viðeigandi þjónustukerfa og tryggja að hagsmunir barna verði ávallt í fyrirrúmi svo og alþjóðlegar skuldbindingar. Í vinnunni hefur heildarsýn, sem tekur mið af aðkomu allra þeirra aðila sem veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu, verið höfð að leiðarljósi.
Ég mun á næstu vikum leggja inn í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp sem unnið hefur verið þvert á alla þingflokka, þvert á mörg ráðuneyti og í miklu samráði við alla helstu hagsmunaaðila. Vil ég færa þeim aðilum sem að vinnunni hafa komið mínar allra bestu þakkir fyrir afar gott samstarf og mjög gagnlegar tillögur. Án þeirra hefði ekki verið mögulegt að ná utan um öll þau atriði sem við höfum unnið með.Ofangreint frumvarp hefur það að meginmarkmiði að búa til umgjörð í lögum sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að velferðarþjónustu við hæfi án hindrana. Efni frumvarpsins miðar að því að formfesta samstarf um veitingu þjónustu við börn og barnafjölskyldur og skapa þannig skilyrði til að unnt sé að bregðast fyrr við tilteknum aðstæðum eða erfiðleikum í lífi barns með viðeigandi stuðningi þegar þörf þykir. Lögð er áhersla á að stjórnsýsla og eftirfylgni mála sé skilvirk og eins einföld í framkvæmd og mögulegt er út frá sjónarhorni barna og foreldra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2020.
05/03/2020
Glötum ekki norræna gullinuTraust er ein af mikilvægustu undirstöðum lýðræðislegra samfélaga. Traust mælist hátt til opinberra stofnana á Norðurlöndum í samanburði við mörg önnur ríki. Norðurlöndin tala stundum um traustið sem „norræna gullið“. Falskar fréttir og upplýsingaóreiða eru raunveruleg ógn við lýðræðið. Þegar fólk getur ekki treyst þeim upplýsingum sem það fær þá er ómögulegt að taka upplýsta ákvörðun og uppfylla lýðræðislega skyldu sína. Við höfum ekki efni á að glata gullinu okkar.
Stöndum vörð
Ísland fer með formennsku í Norðurlandaráði 2020. Yfirskrift formennskuáætlunar okkar er „Stöndum vörð“ og þar undir eru gildi sem Norðurlöndin leggja alla jafna áherslu á; þ.e. lýðræði, líffræðileg fjölbreytni og norrænu tungumálin. Nýlega bárust þær fréttir frá fréttamiðlinum NRK í Noregi að Aftenposten, Dagbladet, NRK, TV 2 og VG notuðu efni frá Internet Research Agency, sem er rússneskur falsfréttamiðill.
Saman erum við sterkari
Dreifing villandi og falskra upplýsinga er aðferð sem hefur oft verið skipulega beitt í deilum og átökum. Með þeirri byltingu sem orðið hefur í net- og upplýsingatækni, ekki síst með tilkomu og hröðum vexti samfélagsmiðla, hefur þessi ógn tekið á sig uggvænlegri mynd.
Hægt er að safna margvíslegum upplýsingum um notendur miðlanna og beina í kjölfarið að þeim sérsniðnum falsfréttum og áróðri sem ætla má að þeir séu móttækilegir fyrir. Ljóst er að stjórnvöld geta ekki ein ráðið fram úr þessum vanda. Við þörfum öll að taka höndum saman og verjast þessari nýju ógn.
Eldra fólk deilir frekar fölskum fréttum
Það kom m.a. fram á málþingi Þjóðaröryggisráðs, utanríkisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, sem haldið var fyrir skömmu að fólk 60 ára og eldra er líklegast til að deila fölskum fréttum á samfélagsmiðlum. Börn og ungmenni eru almennt tæknilæsari en eldra fólk og alast upp við að birtar upplýsingar séu ekki endilega sannar. Við erum því að fást við breytta heimsmynd og nýjar ógnir. Alltaf þarf að velta fyrir sér með gagnrýnum hætti hvaðan upplýsingarnar koma, hvort heimildin sé áreiðanleg.
Með því að setja lýðræði og falskar fréttir á dagskrá í formennskuáætlun okkar árið 2020 vonumst við til að skapa meiri umræðu um málefnið og auka meðvitund og þekkingu almennings.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar og forseti Norðurlandaráðs.
Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 4. mars 2020.
04/03/2020
Samskipti Íslands og Póllands styrktÍsland og Pólland hafa bundist sterkum böndum á undanförnum áratugum. Tæplega 21 þúsund Pólverjar búa á Íslandi og hafa verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Þeir hafa auðgað íslenska menningu, sinnt mikilvægum störfum í hagkerfinu og almennt komið sér vel fyrir í nýju landi.
Á hverju ári fæðast pólskum foreldrum um 600 börn á Íslandi. Það er mikilvægt að ríki og sveitarfélög tryggi að þau njóti sömu þjónustu og tækifæra og börn íslenskra foreldra, ekki síst í menntakerfinu. Nú eru um 3.000 pólskumælandi börn í íslenskum skólum, sem eru misvel búnir til að mæta þörfum þeirra. Það á líka við um börn með önnur móðurmál og dæmi eru um að í einum og sama skólanum séu töluð yfir 30 tungumál. Skýrsla starfshóps, sem settur var á fót í byrjun síðasta árs, um úrbætur og aðgerðir til að styðja við þennan hóp er á lokametrunum. Hvernig við mætum þessum nýju Íslendingum í skólum landsins getur skipt sköpum, ekki einungis fyrir einstaklingana sjálfa heldur einnig fyrir samfélagið í heild.
Málefni og menntun pólskra skólabarna á Íslandi hefur verið til umræðu í opinberri heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, til Póllands í vikunni. Þjóðirnar hafa unnið vel saman og í gær rituðu íslensk og pólsk menntamálayfirvöld undir samstarfsyfirlýsingu um að efla enn frekar samstarf landanna á sviði menntunar. Lögð verður áhersla á að nemendur af pólskum uppruna hafi aðgang að menntun á móðurmáli sínu, hvatt er til aukins samstarfs menntastofnana og samskipta ungmenna, kennara og skólastarfsfólks.
Góð móðurmálsþekking er forsenda þess að barn nái góðum tökum á öðru tungumáli. Góð íslenskukunnátta tryggir börnum af erlendum uppruna betri tækifæri en ella, eykur þekkingu þeirra á samfélaginu, félagsfærni og hjálpar börnum að blómstra. Það er markmið okkar allra, að börnin okkar verði hamingjusöm og njóti jafnra tækifæra í lífinu, hver sem bakgrunnur þeirra kann að vera. Það á að vera eitt af einkennum Íslands.
Lillja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. mars 2020.
04/03/2020
„Jarðvegur er mikilvæg auðlind“Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, mælti fyrir tillögu til þingsályktun um þjóðarátak í landgræðslu, á Alþingi í gær.
Tillögugreinin hljóðar svo:
Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að koma fyrir lok árs 2020 á samstarfi stjórnvalda, bænda, Landgræðslunnar, atvinnulífs og almennings sem miði að því að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu og hefja þar með þjóðarátak í landgræðslu.
Þórarinn Ingi sagði markmið tillögunnar að auka kolefnisbindingu, „koma í veg fyrir jarðvegsrof og græða upp örfoka land með aukinni þátttöku almennings í landgræðslu. Samstarfsvettvangurinn hafi að fyrirmynd átakið „Bændur græða landið“, samstarfsverkefni bænda og Landgræðslunnar um uppgræðslu heimalanda, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1990 og gefið góða raun.“
„Með aukinni umhverfisvitund og fræðslu almennings hafa æ fleiri fyrirtæki boðið viðskiptavinum upp á að kolefnisjafna viðskipti sín. Þátttaka atvinnulífsins í verkefninu gæti falist í því að bjóða upp á kolefnisjöfnun viðskipta með landgræðslu. Þannig yrði þátttaka almennings tvíþætt, annars vegar með beinni þátttöku í landgræðslu undir leiðsögn Landgræðslunnar, hins vegar með kolefnisjöfnun viðskipta sinna.
Markmið þessarar þingsályktunartillögu falla vel að loftslagskafla stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir árin 2018–2030 sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, markmiði nr. 13: Aðgerðir í loftslagsmálum.
Aðrir alþjóðasamningar sem samvinnuverkefnið gæti verið liður í að uppfylla eru:
Parísarsáttmálinn,
Samningur Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun sem hefur verið í gildi hér á landi frá árinu 1996,
alþjóðlegir samningar um líffræðilega fjölbreytni sem fullgiltir voru á Alþingi árið 1994 og
rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem tók gildi hér á landi árið 1994.
Jarðvegur er mikilvæg auðlind. Hann er undirstaða mestallrar matvælaframleiðslu heimsins en jarðvegseyðing er ein mesta ógn mannkyns. Eyðing gróðurs og jarðvegs hefur um langa hríð verið eitt helsta umhverfisvandamál á Íslandi. Flutningsmenn leggja því til að farið verði í þjóðarátak í landgræðslu enda hafi fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi,“ sagði Þórarinn Ingi.
04/03/2020
„Samfélagið þarf á tækifærum alls landsins að halda“Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, ræddi stuðning við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins á Alþingi á dögunum.
Fram hafði komið í umræðunni að það væri hrópandi mismunur á dreifingu fjármagns milli landshluta. Sagði Líneik Anna mikilvægt að það fjármagn sem úr er að spila verði að nýtast öllum landshlutum. Og Líneik Anna bætti við, „samfélagið þarf á tækifærum alls landsins að halda.“
„Við þurfum og verðum að stunda nýsköpun og rannsóknir um land allt. Þannig tryggjum við samkeppnishæfni landsins í heild. Nýsköpun byggir m.a. á grunni atvinnulífs og náttúru sem nú þegar er til staðar. Svo bætum við hugvitinu við. Ekki var teljandi munur á árangurshlutfalli umsækjenda milli landsvæða en mikið misræmi er í sókn í sjóðina milli landshluta. Þá heyrist oft: Tja, þeir fiska sem róa. En það blasir við að það eru þeir sem fá bát og árar sem fiska. Þeir sem standa á bakkanum gera það ekki. Landshlutar án staðbundinnar háskólastarfsemi og ráðgjafar standa verr að vígi,“ sagði Líneik Anna.
„Í allt of mörg ár hef ég rætt hvernig mögulegt sé að auka rannsóknarstarf og nýsköpun í landsbyggðunum. Niðurstaða mín er að þrennt skipti mestu máli og það þarf að bæta.
Það þarf staðbundið háskólanám og háskólastarf í öllum landshlutum.
Við verðum að leggja skyldur á háskólana til að það gerist.
Það þarf líka að búa til hvata og áhersluverkefni hjá opinberu sjóðunum sem stuðla að eða setja jafnvel í forgang umsóknir beint tengdar landshlutunum og það þarf virkt stoðkerfi um land allt.
Bætum því við góða nýsköpunarstefnu og þar er FabLab¹ góð byrjun,“ sagði Líneik Anna.
***
¹Hvað er Fab Lab? Fab Lab kemur af ensku orðunum Fabrication Laboratory, eins konar framleiðslu tilraunastofa. Fab Lab á rætur sínar að rekja til Center for Bits and Atoms hjá MIT háskólanum í Massachusetts í Bandaríkjunum. Þeirri stofnun stýrir prófessor Neil Gershenfeld sem auk þess að stunda miklar rannsóknir á þessu sviði kennir hann áfanga hjá MIT sem heitir How to Make (Almost) Anything. Árið 2008 þegar fyrsta Fab Lab smiðjan á Íslandi var sett á laggirnar í Vestmannaeyjum höfðu 38 Fab Lab smiðjur verið stofnaðar. Nú árið 2019 er fjöldi Fab Lab smiðja yfir 1700 talsins og fjöldi starfandi Fab Lab smiðja á Íslandi er nú 7. Fab Lab er smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.
03/03/2020
Fjárfest í menntun framtíðarMenntatækifæri hafa margfeldisáhrif í samfélaginu en ekki síst fyrir smærri byggðarlög. Þegar foreldrar ákveða búferlaflutninga leika menntunartækifæri barna þeirra og ungmenna stórt hlutverk, og það sama gildir um aðgengi þeirra að íþrótta- og tómstundastarfi.
Nú blasir við mikill slaki í efnahagslífinu og hagkerfinu. Töluverð óvissa ríkir um innlenda efnahagsþróun á komandi misserum, af innlendum orsökum en ekki síður vegna aukinnar óvissu um alþjóðlegar hagvaxtarhorfur.
Til þess að koma í veg fyrir lítinn eða jafnvel engan hagvöxt á næsta ári þarf að grípa til aðgerða og veita viðspyrnu. Það er því rétti tíminn fyrir öll sveitarfélög og ríkisvaldið að forgangsraða í þágu menntunar.
Ríkisstjórnin hefur nú þegar á teikniborðinu áform um aukna fjárfestingu í menntakerfinu hér á landi. Nýtt frumvarp um Menntasjóð námsmanna felur í sér grundvallarbreytingu á stuðningi við námsmenn. Það mun leiða til betri fjárhagsstöðu námsmanna og skuldastaða þeirra að námi loknu mun síður ráðast af fjölskylduaðstæðum, þar sem foreldrar í námi fá fjárstyrk en ekki lán til að framfleyta börnum sínum. Það stuðlar að betri nýtingu fjármuna, aukinni skilvirkni og þjóðhagslegum ávinningi fyrir samfélagið.
Meðal annarra mikilvægra fjárfestingaverkefna má einnig nefna máltækniáætlun stjórnvalda, sem þegar hefur verið fjármögnuð. Það er afar mikilvægt að gera íslenskuna gjaldgenga í stafrænum heimi og þróa tæknilausnir sem gera okkur kleift að eiga samskipti við snjalltækin okkar á íslensku. Jafnframt hefur verið fjárfest ríkulega í framhaldsskólamenntun og þá hefur rekstrarforsendum starfsmenntaskóla verið gjörbreytt.
Meðal innviðafjárfestinga sem eru einnig fram undan í menntakerfinu má nefna byggingu Húss íslenskunnar sem nú er í fullum gangi, byggingu félagsaðstöðu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, viðbyggingu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og uppbyggingu við Menntaskólann í Reykjavík. Jafnframt er á teikniborðinu undirbúningur að nýjum listaháskóla og nýjum Tækniskóla.
Menntun er lykillinn að framtíðinni. Á okkur hvílir nú sú skylda að horfa fram á við, setja metnaðarfull markmið og grípa til verka. Það er dauðafæri til að koma með meiri innspýtingu og flýta framkvæmdum. Margar þessara framkvæmda eru löngu tímabærar og markmið þeirra allra er að efla menntun og menningu í landinu. Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar og geti fundið nám við sitt hæfi. Við viljum tryggja öllum börnum og ungmennum slík tækifæri.
Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson alþingismenn Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. mars 2020.
27/02/2020
Ísland í fararbroddi gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmisÁvorþingi 2019 varð breyting á löggjöf um innflutning á matvælum, vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins, sem heimilar innflutning á hráu kjöti og ferskum matvælum. Í kjölfarið tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að Íslendingar yrðu fyrsta þjóðin í heiminum til að banna dreifingu og sölu á matvælum sem innihalda ákveðnar tegundir af sýklalyfjaónæmum bakteríum. Samhliða samþykkti Alþingi aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna í 17 liðum til að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Málið er nú í höndum viðkomandi ráðherra sem vinna að kortlagningu á umfangi sýklalyfjaónæmra baktería á íslenskum matvælamarkaði.
Mikilvægur áfangi í þeirri vegferð náðist á dögunum þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra skrifuðu undir samkomulag um stofnun sýklalyfjaónæmis- og súnusjóðs. Sjóðnum er ætlað að fjármagna verkefni undir formerkjum „One health“, sem snúa að grunnrannsóknum á sýklalyfjaónæmi. Þetta er mikilvægt skref í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi en betur má ef duga skal. Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð unnið ötullega að því að tryggja heilnæmi matvæla, gæta að heilsu fólks, aðbúnaði og heilsu búfjár. Við breytingu á lögum um innflutning matvæla settu þingmenn Framsóknarflokksins það skilyrði að aðgerðaáætlunin yrði samþykkt fyrir afgreiðslu málsins og þar með að Ísland verði í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Sýklalyfjaónæmi er ein stærsta ógnin við heilsu manna og dýra nú og næstu áratugina. Rannsóknir hafa sýnt að skýrt samhengi er á milli mikillar notkunar á sýklalyfjum við framleiðslu matvæla og tíðni sýkinga með sýklalyfjaónæmum bakteríum í fólki. Hefðbundin sýklalyf eru hætt að virka á ákveðnar bakteríur og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Við Íslendingar erum í einstakri stöðu þar sem notkun á sýklalyfjum við matvælaframleiðslu hérlendis er með því minnsta sem gerist í heiminum. Okkur ber skylda til að vernda sérstöðu okkar nú sem endranær. Aukin tíðni sýkinga af völdum sýklalyfjaónæmis í heiminum er ógn við lýðheilsu. Framsókn vill tryggja að íslenskir neytendur fái á sitt borð matvöru í hæsta gæðaflokki og mun fylgja aðgerðaráætluninni fast eftir, með lýðheilsu að leiðarljósi.
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. febrúar 2020.
26/02/2020
Viðbrögð við kólnandi hagkerfiÞað er staðreynd að við erum að ganga inn í kólnandi hagkerfi eftir uppsveifluna undanfarin ár. Líkt og í þeim lægðum sem dunið hafa á okkur skiptir undirbúningurinn mestu máli. Ennþá er hægt að draga úr niðursveiflunni með réttum ákvörðunum. Ríkisstjórnin hefur nú þegar brugðist við með því að fjárfesta í innviðum og margvíslegum framkvæmdum en það þarf meira að koma til. Auka þarf verðmætasköpun í landinu.
Fiskeldið er ný atvinnugrein sem hefur verið að byggjast upp á undanförnum áratug. Á síðasta ári var útflutningsverðmæti um 25 ma.kr. og hefur því tvöfaldast á milli ára. Talið er að ef framleiðslan fari í það magn sem burðaþolsgeta þeirra svæða sem fiskeldinu er afmarkað segir til um verði útflutningsverðmætið nær 65 ma.kr. Þá væri einnig hægt að auka umsvif og verðmæti fiskeldisins með því að auka fullvinnslu aflans og fjölga þar með þeim störfum sem snúa að þessari atvinnugrein, líkt og Færeyingum hefur tekist. Fjárfesting upp á tugi milljarða liggur í greininni og frekari fjárfesting bíður eftir frekari leyfum til rekstrar.
Það þarf líka að huga að uppbyggingu samgangna í þeim byggðarlögum sem byggja á fiskeldi svo atvinnugreinin geti eflst enn frekar. Samgönguáætlun gerir ráð fyrir að grunnnet samgangna á Vestfjörðum verði fært til nútímans innan fimm ára en við eigum ekki að stoppa þar, heldur að huga enn frekar að viðhaldi og endurgerð vega á milli þéttbýlisstaða. Þannig tryggjum við leiðslurnar sem veita aukið vítamín í efnahagslífið.
Það þarf að styrkja stofnanir sem sjá um eftirlit og leyfisveitingar svo þær geti sinnt starfi sínu, þannig sjáum við til þess að leikreglurnar byggist alltaf á bestu fáanlegu vísindum og rannsóknum. Við yfirvofandi efnahagslægð verðum við að gefa fiskeldinu meiri gaum og þar með aukum við innspýtingu í hagkerfið.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. febrúar 2020.
26/02/2020
Nýir tímar í starfs- og tækninámiMarkmið ríkisstjórnarinnar er að styðja við nýsköpun og hugvitsdrifið hagkerfi til framtíðar. Við ætlum að efla íslenskt menntakerfi með markvissum aðgerðum í samstarfi við skóla og atvinnulíf, þannig að færniþörf samfélagsins verði mætt á hverjum tíma. Hraðar tæknibreytingar auka þörfina á skilvirkari menntun.
Eitt af því sem hefur verið einkennandi fyrir menntakerfið okkar er að mun færri sækja starfs- og tækninám á Íslandi en í samanburðarlöndum. Á Íslandi útskrifast um 30% úr starfs- og tækninámi en það hlutfall er 50% í Noregi. Afleiðingin er sú að efla þarf færnina á íslenskum vinnumarkaði í þágu samfélagsins. Samkvæmt Efnahags- og framfarastofnuninni (e. OECD) er framleiðni á Íslandi undir meðaltali Norðurlandaríkjanna, sem skýrist af færnimisræmi á vinnumarkaði. Fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2017 að yfirvöld menntamála hafi í gegnum tíðina eytt miklum tíma og fjármunum í greiningar en illa hafi gengið að koma aðgerðum til framkvæmda. Ríkisendurskoðun segir jafnframt að brýnt sé að stjórnvöld grípi til markvissra aðgerða sé raunverulegur vilji til þess að efla starfsnám eins og ítrekað hafi verið lýst yfir.
Á síðustu árum höfum við verið að forgangsraða fjármunum og áherslum í þágu starfs- og tæknináms og séð verulega aukningu í aðsókn víða, eins og til að mynda rafiðn, húsasmíði, pípulögnum og fleiri greinum. Jafnframt sjáum við fram á aukna innviðafjárfestingu í uppbyggingu í skólunum okkar ásamt því að starfs- og tækniskólarnir hafa verið að fjárfesta í nýjum tækjum og búnaði. Þetta er fagnaðarefni.
Við viljum fylgja enn frekar eftir þessari sókn sem við sjáum. Við boðum aðgerðir sem eru til framtíðar og til þess fallnar að auka færni í samfélaginu okkar. Við ætlum að efla verk-, tækni og listgreinakennslu í grunnskólum. Við viljum veita ungu fólki og foreldrum betri innsýn í starfs- og tækninám á framhaldsskólastigi og hvaða möguleika og tækifæri slíkt nám veitir til framtíðarstarfa. Jafnframt ætlum við að jafna aðgengi framhaldsskólanema að háskólum, svo dæmi séu nefnd. Við ætlum að vinna að því að einfalda skipulag starfs- og tæknináms, svo að námið verði í auknum mæli á ábyrgð skóla frá innritun til útskriftar. Jafnframt þarf að auka fyrirsjáanleika í starfsnámi á vinnustað og að það verði án hindrana.
Breytingar verða aðeins gerðar ef margir taka höndum saman. Slíkt samstarf er nú í burðarliðnum, þar sem lykilaðilar hafa sammælst um markvissar aðgerðir til að fjölga starfs- og tæknimenntuðum á vinnumarkaði. Nú verður farið í enn markvissari aðgerðir til að efla starfs- og verknám til að auka færni í samfélaginu okkar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtst fyrst í Morgunblaðinu 25. febrúar 2020.