Categories
Greinar

Borgarbyggð í fremstu röð til framtíðar

Deila grein

10/12/2019

Borgarbyggð í fremstu röð til framtíðar

Verkefni okkar sem sveitarfélags er að festast ekki í fortíðinni og hræðast ekki breytingar og áskoranir sem fylgja framtíðinni. Sveitarstjórnar fólk má ekki vera ákvarðanafælið og óttast að styggja þá sem vilja toga í tauminn þegar framtíðin eru rædd. Til að hægt sé að taka ábyrgar ákvarðanir inn í framtíðina þarf langtímasýn að liggja fyrir.

Í þeirri framkvæmdaáætlun sem nú liggur fyrir til afgreiðslu með fjárhagsáætlun sveitarfélagsins til næstu 4 ára er gert ráð fyrir 550 milljónum í skólahúsnæði og er það viðbót við milljarð sem þegar hefur verið framkvæmt fyrir síðust 2-3 ár. Þrátt fyrir það liggur enginn áætlun fyrir hjá meirihluta sveitarstjórnar um framtíðarskipulag skólamála í sveitarfélaginu. Nú liggur fyrir mat hönnuða um að húsnæði Grunnskólans á Kleppjárnsreykjum sé það illa farið að hagkvæmast sé að rífa það og byggja nýtt skólahúsnæði. En áætlanir hafa legið uppi síðust ár um að fara í nauðsynlegar endurbætur á grunnskólanum á Kleppjárnsreykjum. Kostnaðaráætlanir síðustu tveggja ára í framkvæmdaáætlun hafa farið langt fram úr öllu áætlunum, skortur er á aðhaldi og yfirsýn og útlit fyrir að sveitarfélagið sé komið langleiðina með efni í nýtt „Braggamál“ hér í Borgarbyggð.

Enginn áætlun eða framtíðarsýn hefur verið lögð fram af meirihluta sveitarstjórnar um nýtingu eigna sveitarfélagsins. En næstum allar eignir sveitarfélagsins hafa verið í mikilli viðhaldsþörf síðust ár.  Mikill tími, fjármagn og orka hefur farið í það síðustu ár að stofna vinnuhópa sem hafa skilað af sér ágætum skýrslum um nýtingu húsnæðis í eigu sveitarfélagsins og eru hópar starfandi í dag í tengslum við skipulag leikskólamála og framtíðarskipulag íþróttahússins í Borgarnesi. Ljóst er að núverandi meirihluta skortir sameiginlega sýn á framtíðina og því dettur botninn sífellt úr umræðunni þegar kemur að þeim hluta að taka ákvarðanir. Þrátt fyrir að íbúar hafi haft aðkomu að öllum vinnuhópum og skýrslum síðustu ár hefur það engu breytt um ákvarðanatökufælni meirihlutans.

Sveitarstjórnar fulltrúar meirihlutans forðast allar umræður sem krefjast niðurstöðu um langtímasýn þar sem ljóst er að þverpólitískt samkomulag næst ekki um málefni er snerta hagsmuni sveitarfélagsins til framtíðar. Þau hafa nýtt tímann vel frá síðustu kosningu til að þakka sjálfum sér fyrir jákvæða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, sem helgast eingöngu af jákvæðum hagrænum áhrifum sem auknar útsvarstekjur og aukið framlag úr jöfnunarsjóði hafa haft síðustu ár, ásamt því að klappa sér á bakið fyrir þau verkefni sem var unnið að á síðasta kjörtímabili eins og undirbúning að byggingu skólahúsnæðis Grunnskóla Borgarnes, nýtt deiliskipulag og ljósleiðaraverkefnið svo eitthvað sé nefnt.  Ég óttast að ekkert af þeim fjölmörgu málum sem legið hafa í loftinu ókláruð síðustu ár verði afgreidd á þessu kjörtímabili, tækifæri til uppbyggingar verði ekki nýtt og engar ákvarðanir teknar sem koma okkur á braut vaxtar fyrir sveitarfélagið. Meirihlutanum hefur ekki enn þá tekist að fanga nema lítið brot af þeim ágætu málum sem þau settu fram í málefnasamning sínum árið 2018. Á meðan engin sýn er til staðar og engin geta og eldmóður til þess að leiða verkefni áfram og klára dæmið munum við fylgjast með tekjum sveitarfélagsins ausið stefnulaust.

Við fulltrúar framsóknarflokksins í sveitarstjórn erum orðin langþreytt á að sitja fundi þar sem mikið er talað vilja til móta stefnu um hin ýmsu mál en ekkert gerist. Fyrirtækjum er ekki að fjölga, engin áform um uppbyggingu leiguhúsnæðis og engar framkvæmdir í gangi. Þær tillögur sem nú liggja fyrir alþingi um styrkingu sveitarstjórnarstigsins kalla enn fremur á það að sýn sveitarstjórnarfulltrúa sé skýr á heildarhagsmuni. Tillögur sveitarstjórnarráðherra fela í sér tækifæri til styrkingar á fjárhagslegri stöðu sveitarfélaga ásamt því að hafa jákvæð áhrif á styrk sveitarfélaganna til að takast á við þróun og eflingu á hverju svæði. Við sveitarstjórnarmenn þurfum einnig að móta okkur sýn í tengslum við þær tillögur sem liggja fyrir í samráði við íbúa.

Við getum sem sveitarfélag hvar sem landfræðileg mörk okkar munu liggja á næstu árum  verið í fremstu röð. Mikilvægt er að stöðugt endurmat sé á nýtingu tækifæra til að hagræða og framsýni sé viðhöfð í takast á við nýjar áskoranir og byggja upp til framtíðar. Það er lykilatriði að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvörðunum með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi. Verum ábyrg, á tánum, full af eldmóði og óhrædd við það að vera framsækin.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarmanna í Borgarbyggð.

 

Categories
Greinar

Hugarfar framtíðarinnar

Deila grein

09/12/2019

Hugarfar framtíðarinnar

Í fram­haldi af niður­stöðum alþjóðlegra könn­un­ar­prófa Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (e. PISA) sem kynnt­ar voru í vik­unni hef ég kynnt aðgerðir sem miða að því að efla mennta­kerfið, ekki síst með auk­inni áherslu á námsorðaforða og starfsþróun kenn­ara. Þær aðgerðir verða út­færðar í góðu sam­starfi við skóla­sam­fé­lagið, sveit­ar­fé­lög­in og heim­il­in í land­inu. Það er sam­fé­lags­legt verk­efni okk­ar allra að bæta læsi en það verk­efni snýr að tungu­máli okk­ar og menn­ingu.

Mennt­a­rann­sókn­ir sýna að ár­ang­ur í próf­um eins og PISA ræðst fyrst og fremst af færni nem­enda í rök­hugs­un og hæfi­leik­an­um til að nýta sér þekk­ingu sína til að meta og túlka texta. Góður málskiln­ing­ur og orðaforði er for­senda þess að nem­end­ur geti til­einkað sér þann hæfi­leika. Rann­sókn­ir benda til þess að orðaforði og orðskiln­ing­ur ís­lenskra barna hafi minnkað á und­an­förn­um árum og því verðum við að mæta. Niður­stöður PISA-próf­anna segja okk­ur að við get­um gert bet­ur. Ég trúi því að við get­um það með góðri sam­vinnu, eft­ir­fylgni og aðgerðum sem skilað hafa ár­angri í ná­granna­lönd­um okk­ar.

PISA-próf­in mæla fleira en lesskiln­ing og stærðfræði- og nátt­úru­læsi. Auk skýrslu með niður­stöðum próf­anna birt­ir Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­in (e. OECD) fleiri gögn sem varpa ljósi á stöðu mennta­kerf­is­ins út frá viðhorf­um, líðan og fé­lags­legri stöðu nem­enda og eru þær niður­stöður ekki síður fróðleg­ar. Sú töl­fræði bend­ir meðal ann­ars til þess að færri ís­lensk­ir nem­end­ur búi við einelti en nem­end­ur gera að meðaltali í sam­an­b­urðarlönd­um OECD og að hærra hlut­fall þeirra sé ánægt með líf sitt. Þá sýna þær niður­stöður að 73% ís­lensku nem­end­anna sem svöruðu PISA-könn­un­inni sl. vor séu með vaxt­ar­viðhorf (e. growth mind­set), það er að þau trúa því að með vinnu­semi, góðum aðferðum og hjálp frá öðrum geti þau þróað hæfni sína og getu. Þetta hlut­fall er tíu pró­sentu­stig­um hærra hér á landi en meðaltal í OECD-ríkj­un­um. Niður­stöður PISA sýna að slík­ir nem­end­ur hafa sterk­ari hvöt til þess að ná góðum tök­um á verk­efn­um, meiri trú á getu sinni, setji sér metnaðarfyllri mark­mið, leggi meira upp úr mik­il­vægi mennt­un­ar og séu lík­legri til þess að klára há­skóla­nám.

Þetta vaxt­ar­hug­ar­far er afar dýr­mætt því rann­sókn­ir sýna að viðhorf til eig­in getu og vits­muna ræður miklu um ár­ang­ur. Þeir nem­end­ur sem telja að hæfi­leik­ar þeirra og hæfni sé föst stærð eru þannig lík­legri til þess að gef­ast upp á flókn­ari verk­efn­um og vilja forðast erfiðleika og áskor­an­ir. Ég kalla þetta hug­ar­far framtíðar­inn­ar. Okk­ar bíða sann­ar­lega spenn­andi verk­efni og mörg þeirra flók­in. Árang­ur­inn mun ráðast af viðhorfi okk­ar og trú. Setj­um markið hátt og vinn­um að því sam­an.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. desember 2019.

Categories
Fréttir

Samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni

Deila grein

06/12/2019

Samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, segir nýja samgönguáætlun bera þess glögg „merki að við erum komin á gott skrið með að greiða niður innviðaskuldina í vegakerfinu eftir hrunið og þar er stórauknu fjármagni varið til vegagerðar.“ Þetta kemur fram í grein hennar á vikudagur.is.
Líneik Anna bendir á að nýframkvæmdum sem nema um 214 milljörðum króna sé flýtt frá fyrri áætlun.
„Á landsbyggðinni er ætlunin að flýta framkvæmdum um 125 milljarða. Samgöngusáttmáli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er birtingarmynd sameiginlegrar sýnar og heildarhugsunar fyrir fjölbreyttar samgöngur á svæðinu og er liður í því að leysa ríkjandi og fyrirsjáanlegan umferðarvanda. Þá er lagt upp með samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni,“ segir Líneik Anna.
Skýr stefna um uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum
„Það eru líka stigin stór skref í fluginu. Flugstefna hefur verið mótuð  í fyrsta sinn í 100 ára sögu flugsins. Lykilatriðið í henni er að millilanda– og varaflugvellirnir verða á einni hendi, Isavia sem á að taka ábyrgð á varaflugvöllunum.“
„Notendur millilandaflugvalla verða að taka þátt í rekstri varaflugvalla fyrir millilandafarþega. Uppbygging varaflugvalla á Íslandi er mikilvægt flugöryggismál fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll, s.s. þegar aðstæður breytast skyndilega vegna veðurs eða óhappa. Þörfin fyrir framkvæmdir og þjónustu miðast við að skapa aðstöðu til að taka við nægum fjölda véla í neyðarástandi,“ segir Líneik Anna.

Categories
Greinar

Þjóð undir þaki

Deila grein

05/12/2019

Þjóð undir þaki

Íslenski húsnæðismarkaðurinn hefur einkennst af miklum sveiflum í gegnum tíðina. Ýmist hefur verið skortur á húsnæði eða offramboð og það sama má segja um aðgang að lánsfé. Núverandi stjórnvöld leggja áherslu á að draga úr því ójafnvægi sem ríkt hefur og kappkosta að mynda traustari umgjörð um húsnæðismál.

Frá því ég tók við embætti hefur það verið stefna mín að tryggja nægjanlegt framboð húsnæðis fyrir alla, óháð efnahag og búsetu. Þjóð undir þaki – jafnrétti og jafnvægi var yfirskrift Húsnæðisþings sem haldið var í síðustu viku. Þar var farið yfir stöðuna, þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í og framhaldið.

Þegar hefur farið fram mikil endurskipulagning og umbótavinna á sviði húsnæðismála. Stjórnskipulag hefur verið einfaldað með tilfærslu mannvirkjamála yfir til félagsmálaráðuneytisins, þar sem húsnæðismál voru fyrir. Þá hef ég mælt fyrir frumvarpi um sameiningu Íbúða­lánasjóðs og Mannvirkjastofnunar í nýja Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem er ætlað að stuðla að betri heildarsýn yfir málaflokkinn.

Umfangsmikil vinna við gerð húsnæðisáætlana sveitarfélaga hefur átt sér stað. Þeim er ætlað að tryggja að byggt sé í samræmi við þörf en á það hefur skort. Þá hefur hlutverk Íbúðalánasjóðs tekið mikilvægum breytingum en sjóðurinn ber ábyrgð á framkvæmd húsnæðismála og gerir nú reglulegar og ítarlegar greiningar á húsnæðismarkaði. Þannig geta stjórnvöld tekið skilvirkari ákvarðanir sem tryggja að stuðningur skili sér þangað sem þörfin er mest.

Umbætur í húsnæðismálum voru ein grunnforsenda lífskjarasamninga sem undirritaðir voru fyrr á þessu ári. Því lögðu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins í mikla vinnu við að greina stöðu húsnæðismála og skilgreina aðgerðir til úrbóta. Rúmlega 40 húsnæðistillögur voru lagðar fram og eru nú í úrvinnslu en þær fela meðal annars í sér stóraukin framlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins, bætta réttarstöðu leigjenda og innleiðingu hlutdeildarlána fyrir ungt fólk og tekjulága.

Ekki stendur til að skilja landsbyggðina eftir í þessum efnum og síðustu misseri hafa verið kynntar lausnir til að mæta ólíkum áskorunum sveitarfélaga á landsbyggðinni. Erum við þegar farin að sjá árangur þess og uppbyggingu á stöðum þar sem ríkt hefur stöðnun um lengri tíma. Ég bind vonir við að þessar aðgerðir, og fleiri til, styrki húsnæðismarkaðinn svo um munar til framtíðar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. desember 2019.

Categories
Fréttir

„Sígandi lukka er best“

Deila grein

03/12/2019

„Sígandi lukka er best“

„Mér hefur reynst vel að sígandi lukka sé best. Það á þá vel við þegar talað er um uppbyggingu samgöngumannvirkja. Nýverið skrifuðu borgarstjóri og ráðherra samgöngumála undir samkomulag sem má skilja á tvo vegu með góðum vilja. Áfram verður haldið með athuganir á flugvallarkostum í Hvassahrauni og framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni er tryggð a.m.k. næstu tvo áratugi. Eitthvað virðist þetta samkomulag hafa farið öfugt ofan í suma og litið svo á að frekari uppbyggingu á öðrum flugvöllum, eins og t.d. á Akureyri, væri slegin af. En svo er nú aldeilis ekki,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
Skoska leiðin
„Öflugt innanlandsflug er mikilvægt byggðamál og einn lykillinn að jafnræði byggðanna. Samhliða bættu viðhaldi á flugvöllum landsins þarf að jafna aðstöðumun landsmanna. Skoska leiðin er mikilvægt skref í þá átt. Flugfargjöld eru há í samanburði við það sem býðst í millilandaflugi. Tíðni flugferða er ekki alltaf hentug og sætanýting breytileg. Greiðsluþátttaka stjórnvalda hefur reynst vel til að mæta þessum vanda í Skotlandi og er ætlunin að hrinda henni í framkvæmd hér á landi seinni hluta næsta árs. Næsta skref varðandi Akureyrarflugvöll er að útfæra leiðir til að nýta fjárlagaheimildir um stækkun flugstöðvarinnar og útfæra rekstur hennar þannig að það nýtist byggðunum og markmiðum stjórnvalda um nýja gátt inn í landið.
Stöndum saman að því að klára það sem byrjað hefur á, t.d. eins og flughlaðið á Akureyrarflugvelli. Innviðir Norðurlands eru til staðar og meira en tilbúnir til að taka á móti erlendum gestum sem vilja dvelja hjá okkur og njóta þess sem hin rómaða fegurð og náttúruperlur Norðausturlands hafa upp á að bjóða. Breið samvinna er lykill að árangri í þeim efnum.
Virðulegi forseti. Eins og svo oft er sagt í Þistilfirði: Sígandi lukka er best,“ sagði Þórarinn Ingi.

Categories
Fréttir

„Var lofað og það áður en sól væri næst hæst á lofti“

Deila grein

03/12/2019

„Var lofað og það áður en sól væri næst hæst á lofti“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, benti á í störfum þingsins á Alþingi í dag, að í skýrslu Byggðastofnunar um atvinnutekjur áranna 2008-2018 eftir landshlutum, komi fram „að launagreiðslur fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum losuðu um 1 milljarð kr. á síðasta ári og um þriðjungur allra atvinnutekna af fiskeldi féll til á Vestfjörðum. Umfang fiskeldis á landinu er langmest í þeim fjórðungi. Nýjar tölur frá Hagstofunni sýna einnig að fiskeldi á töluverðan hluta af þeim varnarsigri sem hagkerfið er í þessa dagana“.
„Vöxtur síðustu ára hefur fyrst og fremst átt sér stað á Vestfjörðum í sjókvíaeldi og fyrirsjáanlegt er að á næstu árum muni áfram verða mikill uppgangur í laxeldinu þar. Gera má ráð fyrir að fiskeldi geti orðið stærsti hluti af efnahagsumsvifum á Vestfjörðum innan fárra ára. Í vor voru samþykkt lög um fiskeldi hér á Alþingi. Ein veigamesta breytingin með frumvarpinu er lögfesting á því að Hafrannsóknastofnun meti möguleika á fjölda eldislaxa í ám og gefi út ráðgjöf byggða á því mati sem kallað er áhættumat. Fyrir tveimur árum hélt Hafrannsóknastofnun opinn fund fyrir vestan þar sem nýja áhættumatinu fyrir Ísafjarðardjúp var lofað og það áður en sól væri næst hæst á lofti. Síðan þá hefur jörðin farið einn og hálfan hring í kringum sólina. Í lögum er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun gefi út nýtt áhættumat svo fljótt sem auðið er og að tekið verði tillit til mótvægisaðgerða sem ekki hefur verið gert áður. Nú er aðeins örstutt eftir af árinu 2019 og ekki bólar enn á uppfærðu áhættumati.
Virðulegi forseti. Samfélög á Vestfjörðum, og þá sérstaklega í Ísafjarðardjúpi, og á Austfjörðum, bíða eftir uppfærðu áhættumati og vil ég hvetja Hafrannsóknastofnun til að fylgja lögum og gefa út uppfært áhættumat sem allra fyrst þannig að áfram verði hægt að byggja upp fiskeldi í sátt við náttúruna og til hagsbóta fyrir samfélögin,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Heimilisofbeldi er samfélagsmein“

Deila grein

03/12/2019

„Heimilisofbeldi er samfélagsmein“

„Heimilisofbeldi er samfélagsmein. Því fylgir skömm – ótti og sorg. Ofbeldið er yfirleitt vel falið og ofbeldi þrífst í þögninni. Skaðinn sem ofbeldið veldur er ekki bara alvarlegur heldur ferðast hann með fólki á milli kynslóða,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.

„En hvers vegna er ég að tala um þetta í dag og hvers vegna hér í sal Alþingis? Þetta er jú þekktar staðreyndir, ekki satt?

Ég er að tala um þetta nú því að við, löggjafinn, getum bætt kerfið þannig að það verji þolendur betur en nú er.

Ég lagði fram þingsályktunartillögu fyrir nokkru. Hugmyndin með henni er að kerfið takið betur utan um þolendur ofbeldis og taki þungann af þeim. Tillagan felur í sér að Alþingi feli dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem leggi fram tillögur um bætt verklag um miðlun um heimilisofbeldismál á milli kerfa félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum á einnig að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli sömu aðila og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni síðan Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2020.

Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldið enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hver annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola.

Þingsályktunartillagan hefur ekki komist á dagskrá enn þá en umsagnir hafa borist, allar mjög jákvæðar,“ sagði Silja Dögg.

Categories
Greinar

Á flugi í samgöngumálum

Deila grein

03/12/2019

Á flugi í samgöngumálum

Ný samgönguáætlun ber þess glöggt merki að við erum komin á gott skrið með að greiða niður innviðaskuldina í vegakerfinu eftir hrunið og þar er stórauknu fjármagni varið til vegagerðar.

Samgönguáætlun var samþykkt á vorþingi og nú er uppfærð áætlun lögð fram í þinginu. Stærsti munurinn er sá að nýframkvæmdum sem nema um 214 milljörðum króna er flýtt frá fyrri áætlun, í kjölfar umfjöllunar umhverfis- og samgöngunefndar og áherslu Alþingis um mikilvægi þess. Með þessu er verið að stíga stærri skref en áður hefur tíðkast. Á landsbyggðinni er ætlunin að flýta framkvæmdum um 125 milljarða. Samgöngusáttmáli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er birtingarmynd sameiginlegrar sýnar og heildarhugsunar fyrir fjölbreyttar samgöngur á svæðinu og er liður í því að leysa ríkjandi og fyrirsjálanlegan umferðarvanda. Þá er lagt upp með samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni. lina

Skýr stefna um uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum

Það eru líka stigin stór skref í fluginu. Flugstefna hefur verið mótuð  í fyrsta sinn í 100 ára sögu flugsins. Lykilatriðið í henni er að millilanda- og varaflugvellirnir verða á einni hendi, Isavia sem á að taka ábyrgð á varaflugvöllunum.

Notendur millilandaflugvalla verða að taka þátt í rekstri varaflugvalla fyrir millilandafarþega. Uppbygging varaflugvalla á Íslandi er mikilvægt flugöryggismál fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll, s.s. þegar aðstæður breytast skyndilega vegna veðurs eða óhappa. Þörfin fyrir framkvæmdir og þjónustu miðast við að skapa aðstöðu til að taka við nægum fjölda véla í neyðarástandi.

Nú er stigið stórt skref í átt að bættum rekstri og uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli. Frá og með áramótum tekur Isavia við rekstri hans og þá skapast svigrúm strax á næsta ári til aukins viðhalds á öðrum flugvöllum. Framkvæmdir eru orðnar aðkallandi víða og of lítið fjármagn fer í flugvelli sem eru mikilvægir innviðir.

Það er mörkuð skýr stefna um að byggja flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum upp sem alþjóðlegar fluggáttir, samhliða varaflugvallahlutverkinu. Við 2. umræðu fjárlaga var samþykkt breytingartillaga um að leigja eða kaupa húsnæði til stækkunar á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli, sannarlega mikilvægt skref og staðfesting á vilja samgönguyfirvalda.

Samvinna er lykill að árangri

Öflugt innlandsflug er mikilvægt byggðamál og einn lykillinn að jafnræði byggðanna. Samhliða bættu viðhaldi á flugvöllum landsins þarf að jafna aðstöðumun landsmanna. Skoska leiðin er mikilvægt skref í þá átt. Flugfargjöld eru há í samanburði við það sem býðst í millilandaflugi, tíðni flugferða er ekki alltaf hentug og sætanýting breytileg. Greiðsluþátttaka stjórnvalda hefur reynst vel til að mæta þessum vanda í Skotlandi og er ætlunin að hrinda henni í framkvæmd hér á landi seinni hluta næsta árs.

Næsta skref varðandi Akureyarflugvöll er að útfæra leiðir til að nýta fjárlagaheimildina um stækkun flugstöðvarinnar og útfæra rekstur hennar þannig að hann nýtist byggðunum og markmiðum stjórnvalda um nýja gátt inn í landið. Breið samvinna er lykill að árangri í þeim efnum.

Að lokum: Isavia verður ekki einkavætt á meðan Framsóknarflokkurinn stendur vaktina í samgöngumálum.   Áfram veginn.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á vikudagur.is 29. nóvember 2019.

Categories
Greinar

Aðgerðir og árangur á tveimur árum

Deila grein

02/12/2019

Aðgerðir og árangur á tveimur árum

Fyr­ir tveim­ur árum boðaði ný rík­is­stjórn stór­sókn í mennta­mál­um. Síðan þá hef­ur varla liðið sú vika að ekki hafi borist frétt­ir af aðgerðum eða ár­angri. Ráðist var í aðgerðir til að fjölga kenn­ur­um, sem skiluðu sér í auk­inni aðsókn í kenn­ara­nám sl. haust. Þeim bolta mun­um við halda á lofti og tryggja að sett mark­mið ná­ist. Flæði kenn­ara milli skóla­stiga mun aukast með ein­föld­un á leyf­is­bréfa­kerfi og ný lög þar um taka gildi um ára­mót. Til­lög­ur að breyttu fyr­ir­komu­lagi starfsþró­un­ar kenn­ara og skóla­stjórn­enda liggja fyr­ir og vinna við mót­un stefnu í mál­efn­um nem­enda með annað móður­mál en ís­lensku er í full­um gangi. Drög nýrr­ar mennta­stefnu til árs­ins 2030 verða kynnt á næst­unni, en mark­mið henn­ar er skýrt: Við vilj­um framúrsk­ar­andi mennta­kerfi. Þessi verk­efni, og mörg fleiri, munu með tím­an­um skila mikl­um ár­angri, en áfram þarf að hlúa að þeim fræj­um sem sáð hef­ur verið, svo þau skjóti rót­um og beri góðan ávöxt.

Íslensk­an í önd­vegi

Tungu­málið er for­senda hugs­un­ar og án þess verður eng­in þekk­ing til. Án góðrar ís­lenskukunn­áttu kom­um við hug­mynd­um okk­ar ekki í orð, hætt­um að fá nýj­ar hug­mynd­ir og drög­um úr færni okk­ar til að breyta heim­in­um. Það er því ekki að ástæðulausu sem rík­is­stjórn­in hef­ur sett ís­lenska tungu í önd­vegi. Orðaforði og málskiln­ing­ur ligg­ur til grund­vall­ar öllu námi og það er brýnt að snúa vörn í sókn, svo ís­lensk börn séu reiðubú­in þegar framtíðin bank­ar upp á. Stuðning­ur við út­gáfu bóka á ís­lensku er liður í því, sem og fjár­fest­ing í mál­tækni svo börn­in okk­ar þurfi ekki að tala ensku við tölv­ur og tæki. Þings­álykt­un um ís­lensk­una varðar veg­inn og hvet­ur okk­ur áfram, hvort sem horft er til notk­un­ar á ís­lenskri tungu eða fram­kvæmda sem hugsaðar eru til vernd­ar menn­ing­ar­arf­in­um okk­ar.

Hús ís­lensk­unn­ar er dæmi um slíka fram­kvæmd. Bygg­ing þess er loks­ins haf­in og það er ánægju­legt að sjá það langþráða hús rísa á Mel­un­um í Reykja­vík. Það mun hýsa fjöl­breytta starf­semi Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og Íslensku- og menn­ing­ar­deild Há­skóla Íslands. Und­an­far­in ár hef­ur ekki verið unnt að halda sýn­ing­ar á hand­rit­um sem varðveitt eru hjá Stofn­un Árna Magnús­son­ar en með til­komu húss­ins verður bylt­ing í aðstöðu stofn­un­ar­inn­ar til að varðveita, rann­saka og miðla menn­ing­ar­arfi þeim sem hand­rit­in geyma. Gert er ráð fyr­ir að fram­kvæmd­um við húsið ljúki um sum­ar­lok 2023 og verður húsið verðugur heima­völl­ur fyr­ir fjör­egg ís­lenskr­ar menn­ing­ar, tungu­málið okk­ar.

Betri kjör náms­manna

Í stjórn­arsátt­mála er því heitið að ráðast í löngu tíma­bæra end­ur­skoðun á náms­lána­kerf­inu. Nú sér fyr­ir end­ann á því mik­il­væga verk­efni, þar sem nú ligg­ur fyr­ir Alþingi frum­varp um Mennta­sjóð náms­manna, bylt­ing­ar­kennt og full­fjár­magnað stuðnings­kerfi fyr­ir náms­menn, sem fel­ur í sér gagn­særri og rétt­lát­ari stuðning hins op­in­bera við náms­menn. Frum­varpið miðar að því að jafna stuðning og dreif­ingu styrkja rík­is­ins til náms­manna og er sér­stak­lega hugað að hóp­um sem þurfa mest á stuðningi að halda, s.s. ein­stæðum for­eldr­um, fjöl­skyldu­fólki og náms­mönn­um utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Höfuðstóll náms­láns verður lækkaður um 30% við út­skrift, beinn fjár­stuðning­ur veitt­ur vegna fram­færslu barna og boðið upp á vexti á bestu mögu­legu kjör­um. Mark­miðið er að bæta veru­lega skulda­stöðu náms­manna við út­skrift, svo hún hafi sem minnst trufl­andi áhrif á líf að loknu námi, og skapa hvata til að nem­ar ljúki námi.

Meiri fjöl­breytni

Fjöl­breytni er mennta­kerf­inu mik­il­væg. Nem­end­ur hafa ólík­ar þarf­ir og eiga að hafa val um sitt nám. Eins­leitni í námsvali og -fram­boði er ein ástæða brott­hvarfs úr fram­halds­skól­un­um og því er vel að fjöl­breytni náms­fram­boðs sé að aukast, ekki síst á fram­halds­skóla­stig­inu og að fleiri nem­end­ur séu opn­ir fyr­ir náms­kost­um t.d. á sviði verk- og tækni­greina. Fyrr á ár­inu var í fyrsta sinn sett lög­gjöf um starf­semi lýðskóla hér á landi sem skap­ar um­gjörð um fjöl­breytt­ari val­kosti í ís­lensku mennta­kerfi og nú í haust hófst nám í tölvu­leikja­gerð á fram­halds­skóla­stigi sem og sta­f­rænni versl­un og viðskipt­um, svo dæmi séu tek­in um nýj­ung­ar í skóla­starfi. Slík­um breyt­ing­um ber að fagna.

Menn­ing blómstr­ar

Á sviði menn­ing­ar og lista má nefna laga­frum­varp um sviðslist­ir og stuðning við safn­astarf, bætt aðgengi að menn­ingu og list­um, mót­un nýrr­ar menn­ing­ar­stefnu, hækk­un fram­laga til bóka­safns­sjóðs og ný lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku. Skýr­ar vís­bend­ing­ar eru um að stuðning­ur við bóka­út­gáfu sé þegar far­inn að stuðla að fjöl­breytt­ara les­efni, ekki síst fyr­ir yngstu les­end­urna því sam­kvæmt Bókatíðind­um fjölg­ar titl­um um 47% milli ára í flokki skáld­verka fyr­ir börn. Þá benda nýj­ustu kann­an­ir til þess að lest­ur sé al­mennt að aukast hér á landi, sem er afar ánægju­legt.

Á kjör­tíma­bil­inu hef­ur gengið vel að efla þá mála­flokka sem heyra und­ir mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið. Það er ánægju­legt að finna fyr­ir þeim mikla meðbyr sem mál­efn­in njóta í sam­fé­lag­inu og hvetj­andi til framtíðar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. nóvember 2019.

Categories
Greinar

Lengra fæðingaorlof tryggt

Deila grein

29/11/2019

Lengra fæðingaorlof tryggt

Í vik­unni mælti fé­lags- og barna­málaráðherra fyr­ir frum­varpi um fæðing­ar- og feðra­or­lof þar sem lagðar eru til breyt­ing­ar um leng­ingu á fæðing­ar­or­lofi í 12 mánuði og er það í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar og lífs­kjara­samn­inga á al­menn­um vinnu­markaði frá því í vor. Að sama skapi er lagt til að sá tími sem for­eldr­ar eiga rétt á greiðslu fæðing­ar­styrks leng­ist um þrjá mánuði.

Hér er verið að stíga mik­il­vægt skref sem verður að fullu komið á árið 2021. Þetta er í sam­ræmi við til­lög­ur starfs­hóps um framtíðar­stefnu í fæðing­ar­or­lofs­mál­um sem skilaði í mars 2016 til­lög­um sín­um til þáver­andi fé­lags- og hús­næðismálaráðherra.

Það kem­ur ekki á óvart að þetta sé komið til fram­kvæmda núna á vakt Fram­sókn­ar­flokks­ins í ráðuneyt­inu. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hef­ur á sinni vakt í þessu ráðuneyti stigið stór skref til að bæta rétt­indi verðandi for­eldra og það var Páll Pét­urs­son þáver­andi fé­lags­málaráðherra sem kom því í lög árið 2001 að feður skyldu líka eiga rétt á að taka for­eldra­or­lof. Það þótti mik­il­vægt að binda í lög rétt barns­ins að fá að um­gang­ast báða for­eldra sína á fyrstu mánuðum lífs síns.

Tíma­móta­áfangi

Í sam­eig­in­legri um­sögn pró­fess­ors í fé­lags­ráðgjöf og dós­ents í fé­lags­fræði við Há­skóla Íslands um frum­varpið kem­ur meðal ann­ars fram að leng­ing­in á rétti for­eldra til fæðing­ar­or­lofs sem gert er ráð fyr­ir í frum­varp­inu sé tíma­móta­áfangi til hags­bóta fyr­ir fjöl­skyld­ur í þágu hags­muna barna og for­eldra­jafn­rétt­is. Jafn­framt kem­ur fram að ít­rekaðar kann­an­ir meðal for­eldra sýni að sjálf­stæður rétt­ur for­eldra til fæðing­ar­or­lofs sé sér­stak­lega mik­il­væg­ur þegar fjöl­skyld­ur deila ekki lög­heim­ili, en stór hluti feðra sem deil­ir ekki lög­heim­ili með börn­um sín­um nýt­ir sjálf­stæðan rétt til fæðing­ar­or­lofs.

Bilið brúað

Leng­ing fæðinga­or­lofs auðveld­ar for­eldr­um að brúa bilið eft­ir að fæðing­ar­or­lofi lýk­ur þar til börn­in fá leik­skóla­pláss. Þetta bil hef­ur verið streitu­vald­andi fyr­ir for­eldra og valdið því að for­eldr­ar og þá sér­stak­lega kon­ur hafa dottið út af vinnu­markaði um tíma. Víða um land eru sveit­ar­fé­lög­in far­in að bjóða upp á leik­skóla­pláss allt niður í 12 mánaða ald­ur.

Á næsta ári verða 20 ár liðin frá gildis­töku laga um fæðinga­or­lof. Það er því við hæfi að þess­um áfanga verði náð í lok næsta árs. Fé­lags- og barna­málaráðherra hef­ur sett af stað vinnu við heild­ar­end­ur­skoðun fæðinga­or­lofslag­anna í sam­ráði við hags­munaaðila. Sú end­ur­skoðun er í sam­ræmi við stefnu stjórn­valda um að efla fæðing­ar­or­lofs­kerfið. Þess er vænst að þeirri vinnu verði lokið á næsta ári og breyt­ing­ar verði sett­ar fram í nýju frum­varpi í lok árs­ins.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. nóvember 2019.