Categories
Greinar

Við getum og eigum að gera betur

Deila grein

21/02/2017

Við getum og eigum að gera betur

Undanfarin ár hefur það verið skýr og sanngjörn krafa landsmanna að allir hafi góðan og greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Krafan er að allir hafi aðgang, óháð stöðu, búsetu eða efnahag. Krafan er mjög skiljanleg. Því þrátt fyrir að á síðasta kjörtímabili hafi verið gefið verulega í til málaflokksins, þá þarf meira til. Enn betur þarf að laga starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna, aðstöðu sjúklinga og síðast en ekki síst þarf stefnumótun í heilbrigðismálum. Í því samhengi þarf að líta til þjóðarsjúkrahúss okkar, LSH og einnig til þeirra öflugu heilbrigðisstofnana sem eru víða um landið.

Forgangsmál Framsóknarmanna á þessum þingvetri er þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun. Markmið tillögunnar er að heilbrigðisráðherra vinni heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Þessa áætlun skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Hjá því liggur þekkingin, það er fólkið sem þekkir til aðstæðna, sóknarfæra og þess sem betur má fara í kerfinu. Okkur Framsóknarmönnum finnst mikilvægt að fagfólkið komi víða af landinu, því aðstæður geta verið mismunandi eftir því hvort um er að ræða heilsugæslu á landsbyggðinni eða Landspítalann.

Við gerð heilbrigðisáætlunar skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Það er nauðsynlegt að okkar mati, því undanfarin ár hafa heilbrigðisstofnanir víða um landið verið sameinaðar. Þær sinna nú margar heilu landsfjórðungunum og oft er um erfiðan veg um að fara milli starfsstöðva stofnananna. Samkvæmt tillögunni skal einnig taka tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo að eitthvað sé nefnt. Auk þess skal jafnframt líta til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala.

Við, þingmenn Framsóknarflokksins vonum að samstaða náist um þessi mikilvægu mál. Við þurfum að svara: hver er framtíðarsýn fagfólks og stjórnmálamanna um heilbrigðismál? Hvert ætlum við að stefna? Viljum við efla heilbrigðisstofnanir víða um landið eða á að bjarga málunum með auknum einkarekstri? Hvað vilja landsmenn? Hér er um að ræða stórar spurningar en taka þarf ákvörðun. Það er löngu tímabært.

Elsa Lára Arnardóttir og Þórunn Egilsdóttir. 

Greinin birtist á Visir.is 21. febrúar 2017. 

Categories
Fréttir

Nýr formaður SUF Sandra Rán Ásgrímsdóttir

Deila grein

20/02/2017

Nýr formaður SUF Sandra Rán Ásgrímsdóttir

42. Sambandsþing Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) var haldið 17.-18. febrúar í Kópavogi og gekk þingið fram úr björtustu vonum. Ný stjórn var kjörin ásamt nýjum formanni. Nýr formaður SUF Sandra Rán Ásgrímsdóttir er 26 ára sjálfbærniverkfræðingur. Sandra Rán er fimmta konan til að gegna embætti formanns SUF í 79 ára sögu sambandsins.
Sandra Rán útskrifaðist með B.Sc. gráðu í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands 2013 og meistaragráðu í sjálfbærniverkfræði frá háskólanum í Cambridge 2015. Hún starfar í dag sem verkfræðingur. Sandra er fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði en hefur búið í Reykjavík og erlendis frá 2010. Hún hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum innan SUF síðustu ár, verið ritari, gjaldkeri og formaður alþjóðanefndar. Hún hefur sótt viðburði erlendis fyrir sambandið og er varaformaður Ungliðahreyfingar norrænna miðjuflokka (NCF). Þá á hún sæti í miðstjórn og hefur verið á framboðslista flokksins í Suðurkjördæmi í síðustu tvennum þingkosningum.
Aðrir sem voru kosnir í aðastjórn SUF á nýliðnu þingi eru eftirfarandi:
Páll Marís Páls­son – Suðvestur 
Guðmund­ur Há­kon Her­manns­son – Suðvestur
Fjóla Hrund Björns­dótt­ir – Suður
Lilja Rann­veig Sig­ur­geirs­dótt­ir – Norðvestur
Hinrik Bergs­son – Reykjavík
Ró­bert Smári Gunn­ars­son – Norðvestur
Snorri Eld­járn Hauks­son – Norðaustur 
Tanja Rún Krist­manns­dótt­ir – Norðaustur
Bjarni Dag­ur Þórðar­son – Suðvestur
Gauti Geirs­son – Norðvestur
Hild­ur Guðbjörg Bene­dikts­dótt­ir – Suður
Marta Mirjam Krist­ins­dótt­ir – Reykjavík
Málefnaályktanir SUF 2017

Categories
Fréttir

Það er ekki verið að veita lán af einskærri góðmennsku

Deila grein

08/02/2017

Það er ekki verið að veita lán af einskærri góðmennsku

eyglo_vef_500x500„Virðulegi forseti. Að undanförnu hafa borist fréttir af því að verið sé að bjóða allt að því 95% lán til kaupa á fasteignum. Ég vil fá að koma hér og lýsa yfir áhyggjum af þeirri þróun. Það kom fram í máli hagfræðings ASÍ í gær að í þeim lánum felst umtalsverð áhætta. Það þarf mjög lítið til að kaupandi lendi í vandræðum. Það hefur oft verið þannig og það verið rökstutt að erfitt sé fyrir ungt fólk að kaupa sér húsnæði. Tölur sýna hins vegar að í dag eru nýir kaupendur 20–25%, um fjórðungur til fimmtungur, af þeim kaupsamningum sem verið er að gera. Vandinn sem við erum að fást við snýr ekki að eftirspurn, hún er næg, heldur að framboði á húsnæði. Ég vil því minna þá sem hafa í hyggju að bjóða upp á þess háttar lánveitingar að þann 20. október sl. samþykkti Alþingi ný lög um fasteignalán. Þau taka gildi 1. apríl 2017. Þar er m.a. fjallað um slíkar lánveitingar þannig að það er ekki aðeins verið að eyrnamerkja þær sem eru með veði í fasteign heldur líka lán sem eru veitt í þeim tilgangi að kaupa eða viðhalda eignarrétti á fasteign. Þar er Fjármálaeftirlitinu, að fenginni tillögu frá fjármálastöðugleikaráðinu, sem ég vona svo sannarlega að Fjármálaeftirlitið hafi fengið, ætlað að setja reglur um hámark veðsetningarhlutfalls, sem getur verið 60–90%, og líka reglur um takmörkun í hlutfalli við tekjur neytanda, þess sem tekur lánið, annars vegar varðandi heildarfjárhæð og hins vegar greiðslubyrðina. Þessi ákvæði eru nokkuð sem Seðlabankinn hafði kallað eftir sem hluta af þeim þjóðhagsvarúðartækjum sem þyrftu að vera til að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika.
Það er ekki verið að veita lán af einskærri góðmennsku, við verðum að hafa það í huga, og það hefur svo sannarlega sýnt sig að lán er ekki sama og lukka.“
Eygló Harðardóttir í störfum þingsins 7. febrúar 2017:

Categories
Fréttir

„Við leggjumst gegn þessari tillögu og það er í sjálfu sér sorglegt að hún skuli vera komin fram enn og aftur“

Deila grein

08/02/2017

„Við leggjumst gegn þessari tillögu og það er í sjálfu sér sorglegt að hún skuli vera komin fram enn og aftur“

elsa_vef_500x500„Hæstv. forseti. Ég kem hér til að eiga samtal við hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um margumrætt áfengisfrumvarp. Frá því að frumvarpið var lagt fram hefur m.a. landlæknir stigið fram og sagt, með leyfi forseta:
„Mitt álit og álit embættisins er alfarið á móti. Við leggjumst gegn þessari tillögu og það er í sjálfu sér sorglegt að hún skuli vera komin fram enn og aftur.“
Einnig segir hann að eðlilegt sé að þeir sem vinna að því að stuðla að bættri heilsu landsmanna leggist á móti þessu frumvarpi. Allar rannsóknir sem liggja fyrir bendi til að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu. Hann tekur jafnframt fram að hann sé sérstaklega að tala um viðkvæma hópa líkt og ungt fólk og þá sem þola ekki áfengi og þar af leiðandi aukið tjón fyrir heilsu fólks og aukinn kostnað fyrir þjóðfélagið.
Þegar við skoðum síðan umsagnir um umrætt mál frá fyrri kjörtímabilum þá varar fjöldi fagaðila úr heilbrigðis- og félagsvísindum við samþykkt frumvarpsins en þeir sem mæla með því koma úr verslun og þjónustu.
Virðulegur forseti. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir meðal annars:
„Mótuð verður heilbrigðisstefna sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu og stuðlar að heilbrigði landsmanna.“
Þar segir jafnframt:
„Við stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda verði gætt að áhrifum á heilsu og líðan íbúa. Dregið skal til framtíðar úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu.“
En nú spyr ég: Hvernig geta þessir ólíku þættir farið saman, þ.e. að bæta lýðheilsu en auka um leið aðgengi að áfengi? Þar sem ég veit að bæði ég og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson höfum báðar áhuga á aukinni lýðheilsu og heilbrigði landsmanna, spyr ég hana: Ætlar hún að samþykkja umrætt frumvarp eða er hún sammála okkur sem erum á móti og hlustum á orð fagfólks í heilbrigðis- og félagsvísindum?“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 7. febrúar 2017:

Categories
Fréttir

Nauðsyn stuðnings við foreldra vegna fæðingarþjónustu

Deila grein

08/02/2017

Nauðsyn stuðnings við foreldra vegna fæðingarþjónustu

lilja_vef_500x500„Hæstv. forseti. Ég er hér í dag til að ræða málefni sem snertir barnafólk á landsbyggðinni. Á síðastliðnum árum og áratugum hefur fæðingarþjónusta á landsbyggðinni verið skert gríðarlega mikið og er í dag aðeins hægt að fæða börn á örfáum stofnunum á landinu. Þessum skerðingum hefur ekki verið fylgt eftir hvað varðar stuðning við foreldra sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu langa leið og þurfa jafnvel að halda tvö heimili á meðan beðið er eftir fæðingu, sem geta verið nokkrir dagar og allt upp í nokkra mánuði.
Hv. þm. Framsóknarflokksins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, hefur lagt fram frumvarp sem snýr að því að lögum verði breytt svo að þeir foreldrar sem búa fjarri fæðingarstað og þurfa að bíða fæðingar fjarri heimili fái þann tíma sem viðbót við fæðingarorlof. Þetta frumvarp er mikilvægur hluti í að bæta úr þessu vandamáli en það þarf að huga að fleiri þáttum. Röskun á heimilislífi, kostnaður við að halda tvö heimili, barnapössun, vinnutap — þetta eru aðeins nokkur atriði sem þarf að huga að. Í dag er enginn styrkur í boði fyrir fólk í þessum aðstæðum nema hægt er að fá greiddan ferðakostnað frá heimili að fæðingardeild og til baka. Ástæðan sem er gefin er sú að fólk velur sjálft að búa á stað fjarri fæðingardeild og því er þetta á þeirra kostnað. Það er að mínu mati ekkert jafnrétti í því.
Einn kostur í stöðunni væri að hafa sérstaka verðskrá fyrir fólk í þessari stöðu á sjúkrahóteli en í dag þarf barnsfaðir að greiða 6 þús. kr. á sólarhring á meðan móðir, sjúklingurinn, greiðir tæpar 1.500 kr á sólarhring. Þarna þarf líka að huga að jafnrétti.
Ég vil biðla til þingsins að hafa þetta í huga og koma þessum málum í góðan farveg. Það er alveg nógu mikið álag að koma nýju lífi í þennan heim án þess að fjárhagsáhyggjur og fleira bætist þar ofan á.“
Lilja Sigurðardóttir í störfum þingsins 7. febrúar 2017:

Categories
Fréttir

Viðvörunarbjöllur klingja

Deila grein

08/02/2017

Viðvörunarbjöllur klingja

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Líkt og þorrinn kemur alltaf með sín þorrablót, mikla gleði og spenning en óhjákvæmilega timburmenn í kjölfarið í sumum tilfellum, þá rennur hið svokallaða áfengisfrumvarp út frá Sjálfstæðismönnum með reglubundnum hætti. Enn er það komið fram.
Hæstv. forseti. Ég ætlaði svo sem ekkert að næra þetta mál með mikilli athygli en get þó ekki orða bundist. Það er yfirlýst stefna núverandi ríkisstjórnar að setja heilbrigðismálin í forgang. Það er vel. En það skýtur verulega skökku við að hér ætli menn að leggja fram þetta mál sem, eins og rannsóknir sýna, mun skaða þjóðina bæði heilsufarslega og fjárhagslega. Þurfum við ekki að taka mark á sérfræðingum og fræðimönnum þegar kemur að áfengi og meðferð þess? Hverjir munu græða á þessu? Hverjum er það hagfellt að hafa aukið aðgengi að áfengi?
Það munu fáir græða á því ef af verður. Viðvörunarbjöllur klingja. Landlæknir varar við og bendir á ýmsar rannsóknir máli sínu til stuðnings. En hér eru menn bara hressir og finnst upplagt að ganga á móti t.d. tillögu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem felur m.a. í sér bann á auglýsingum og takmörkuðu aðgengi að áfengi til að varna ofneyslu þess.
Við höfum ágætt fyrirkomulag sem aðrar þjóðir horfa til sem fyrirmyndar. Ég sé ekki ástæðu til að koma á breytingum sem lýðheilsurannsóknir benda til að auki neyslu í öllum hópum samfélagsins og muni hafa skaðleg áhrif á heilsufar þjóðarinnar.
Í ljósi þess að það kostar sitt og í ljósi þess að flutningsmenn hafa talað fyrir ráðdeildarsemi og góðri nýtingu fjármuna ríkisins skil ég ekki þetta framtak sem aukið gæti kostnað þjóðarinnar um 35 milljarða, samkvæmt því sem fram kom í fréttum í gær.
Hæstv. forseti. Mér sýnist ekki veita af því að heilbrigðisáætlun okkar Framsóknarmanna komist til framkvæmda.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 7. febrúar 2017.

Categories
Fréttir

Sandra Rán býður sig fram í formann SUF

Deila grein

08/02/2017

Sandra Rán býður sig fram í formann SUF

file
Sandra Rán Ásgrímsdóttir býður sig fram til formanns Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) á komandi sambandsþingi SUF 17.-18. febrúar n.k.  í Kópavogi. Sandra Rán yrði þá fimmta konan til að gegna embætti formanns SUF í 79 ára sögu sambandsins. Áður hafa Siv Friðleifsdóttir, Dagný Jónsdóttir, Bryndís Gunnlaugsdóttir og Ásta Hlín Magnúsdóttir gegnt embætti formanns SUF.
Framboðsyfirlýsing Söndru Ránar:
Í gegnum árin hef ég öðlast góða þekkingu á fjölbreyttu starfi SUF, styrkleikum þess og veikleikum. Við búum yfir fjölbreyttum hópi ungmenna um allt land og þessi hópur gefur okkur góða yfirsýn yfir málefni sem snúa að ungu fólk.  Með það að markmiði að gera gott starf enn betra hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formanns Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) á komandi Sambandsþingi þann 18. febrúar.
Ég lauk B.Sc. námi í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands 2013 og mastersnámi í sjálfbærniverkfræði frá Cambridge háskóla í Englandi árið 2015. Í dag starfa ég sem verkfræðingur í Reykjavík en er fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði. Ég hef verið virk í starfi Sambands ungra Framsóknarmanna frá því að ég flutti í höfuðborgina og hef komist í kynni við fjölbreytt störf innan sambandsins. Ég hef meðal annars gengt embætti ritara og gjaldkera, verið formaður alþjóðanefndar ásamt því að vera almennur meðlimur í stjórn og varastjórn SUF. Ég hef sótt viðburði erlendis fyrir sambandið og er í dag varaformaður ungliðahreyfinga norrænna miðjuflokka (NCF) fyrir hönd SUF. Ég hef einnig gengt trúnaðarstörfum innan flokksins, átt sæti í miðstjórn og verið á lista flokksins í Suðurkjördæmi í síðustu tvennum þingkosningum.
Ég tel að það sé mikilvægt að við eflum samband SUF við ungt fólk um allt land en einnig við aðrar stofnanir flokksins. SUF á að vera málsvari ungs fólks í Framsóknarflokknum og því er mikilvægt að vera í góðu sambandi við forsvarsmenn flokksins ásamt því að veita þingflokknum gott aðhald í þeim málefnum sem að okkur snúa.
Sandra Rán Ásgrímsdóttir

Categories
Greinar

Óvinsæl ríkisstjórn

Deila grein

06/02/2017

Óvinsæl ríkisstjórn

SigurdurIngi_vef_500x500 (1)Stuðningur landsmanna við nýja ríkisstjórn hefur nú verið mældur og er fjórðungur ánægður með hana. Þeir sem eru mjög ánægðir eru innan við 10%. Það sem vekur nokkra athygli þegar rýnt er í niðurstöðu Maskínu, sem gerði könnunina, er að ríkisstjórnin nýtur mikillar hylli hjá þeim sem háar tekjur hafa. Þar er hlutfall ánægðra um þriðjungur. Og enn hækkar hlutfall ánægðra þegar hópurinn sem telur sig hafa hærri tekjur en meðaltekjur heimila í landinu er veginn. Þar er ánægjan um 40%. Þetta er í sjálfu sér ekkert vandamál en segir okkur kannski eitthvað um þá skírskotun sem hin nýja stjórn hefur.

Annar kostur
Það var ekki augljóst eftir kosningar hvernig ríkisstjórn yrði mynduð, svokallað flækjustig var hátt, aðallega vegna þess að ýmsir höfðu verið með ótímabærar og stórkarlalegar yfirlýsingar fyrir kosningar og jafnvel eftir. Ég vil þó segja hér að ég tel, og er þess raunar fullviss, að aðrir möguleikar hafi verið uppi á borðum. Hægt hefði verið að mynda annars konar stjórn sem hefði haft mun breiðari pólitíska skírskotun en sú hægri stjórn sem var mynduð undir stjórn og forystu þeirra Engeyjarfrænda. Forsætisráðherra er mætavel kunnugt um það. En sá á kvölina sem á völina og 25% ánægja er niðurstaðan með það val. En það sem er liðið er liðið. Framtíðin er það sem mestu máli skiptir. Nú er bara að vona að þær traustu undirstöður, sem lagðar voru fyrir efnahagslegar framfarir og hagsæld á tíma síðustu ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins, haldi.

Þjónar, ekki herrar
Vinna, vöxtur og velferð, manngildi ofar auðgildi eru einkunnarorð Framsóknarmanna. Til þess að tryggja velferð verður að vera örugg atvinna um allt land, fyrir alla. Það er ekki ástæða til að örvænta um framtíð Íslands. Nú sem fyrr höfum við úr miklu að spila og enginn á að þurfa að líða skort. Við munum væntanlega fá meira af því sama á næstu árum. Verðbólga verður lág, hagvöxtur mun halda áfram, kaupmáttur launa mun vonandi styrkjast enn frekar. En það mun koma að því að um hægist. Því er mikilvægt að tryggja hagsmuni okkar sem þjóðar til framtíðar. Það verður best gert í sátt. Fólk má ekki fá þá tilfinningu að sumir séu jafnari en aðrir, vegna ákvarðana sem teknar eru á vettvangi stjórnvalda. Stjórnmálamenn eiga að vera þjónar fólksins, ekki herrar.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Dagskránni 2. febrúar 2017. 

Categories
Greinar

Kæruleysi stjórnvalda

Deila grein

03/02/2017

Kæruleysi stjórnvalda

lilja____vef_500x500Sjómenn og fjölskyldur þeirra finna verulega fyrir verkfallinu sem staðið hefur í yfir sjö vikur. Fiskverkafólk í landi er að lenda í alvarlegum vandræðum vegna tekjumissis. Að auki hefur verkfallið víðtæk áhrif á þau sveitarfélög sem eru háð sjávarútvegi. Í sumum tilfellum koma um 40% tekna sveitarfélaganna beint eða óbeint frá sjávarútvegi. Af þessu má ljóst vera að talsverð óvissa ríkir hjá mörgum sveitarfélögum, þar sem þau halda að sér höndum varðandi fjárfestingar og samneyslu. Erlendir markaðir eru að glatast þar sem afhendingaröryggi ferskra sjávarafurða er ekki lengur tryggt. Samkvæmt greiningu Sjávarklasans tapast á hverjum degi 640 milljónir króna í útflutningstekjum og daglegt heildartap er nærri milljarði króna, ef deilan leysist ekki von bráðar. Miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru í húfi og tjónið mikið á meðan fiskiveiðiflotinn liggur óhreyfur við bryggju.

Óundirbúin ríkisstjórn

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í vikunni kom fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki látið meta hve mikið þjóðhagslegt tjón hlýst af deilunni. Það er heldur ekki búið að kanna hvort þörf sé á mótvægisaðgerðum fyrir þau sveitarfélög sem koma verst út. Raunar er engu líkara en að sjómannaverkfallið komi ráðherra sjávarútvegsmála ekkert við, því þótt málið hafi ekki verið krufið til mergjar hefur ráðherra útilokað allar sértækar aðgerðir sem gætu liðkað fyrir lausn deilunnar. Slíkt kæruleysi er varasamt og getur valdið meiri þjóðhagslegum skaða af hinu langvinna verkfalli.

Mikilvægt að leysa deiluna án lagasetningar

Sjómenn hafa staðið vaktina fyrir íslenska þjóð í aldaraðir og því er mikilvægt að deilan leysist á farsælan og sanngjarnan hátt án lagasetningar. Allir hlutaðeigandi – útgerðarfyrirtæki, sjómenn og stjórnvöld – þurfa að skoða með opnum huga allar leiðir sem gætu liðkað fyrir lausn deilunnar. Mikil ábyrgð hvílir á þeim öllum og brýnt er að þessi meginstoð atvinnulífsins skaðist ekki til langframa. Stjórnvöld mega ekki stinga höfðinu í sandinn heldur verða þau að meta hið þjóðhagslega tjón strax. Sjómannadeilan ætti að vera helsta viðfangsefni stjórnvalda þessa dagana. Ríkisstjórnin getur ekki látið reka á reiðanum þegar helsta atvinnugrein landsins er í lamasessi og veldur þjóðbúinu ómældu tjóni. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er skelegg í allri sinni framgöngu og lætur vonandi til sín taka í þessu erfiða deilumáli.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. febrúar 2017. 

Categories
Fréttir

Ríkisstjórnin hefur ekkert aðhafst vegna sjómannaverkfallsins

Deila grein

02/02/2017

Ríkisstjórnin hefur ekkert aðhafst vegna sjómannaverkfallsins

lilja____vef_500x500,,Virðulegi forseti. Mig langar að fara aðeins aftur yfir eitt mál sem var til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnum í gær. Þá kom í ljós að ríkisstjórnin hefur ekkert haft fyrir því að meta hið þjóðhagslega tap sem verður vegna sjómannaverkfallsins. Ráðherrann kom í pontu og hún gat ekki sagt mér neitt um hvert tapið væri. Mér fannst ótrúlegt að heyra ráðherrann segja að ekki stæði til að fara í neinar aðgerðir, ekki stæði heldur til að íhuga lagasetningu er varðar þetta mál, en hins vegar var heldur ekki búið að skoða málið hjá ríkisstjórninni. Ég verð að segja eins og er að þegar maður skoðar þær tölur sem um er að ræða þá sér maður að á meðan allur íslenski skipaflotinn liggur óhreyfður þá glatast auðvitað verðmæti. Ég leit aðeins á greiningu Sjávarklasans sem var birt 27. janúar sl. og þar segir, með leyfi forseta:
„Þó má ætla að því lengra sem líður á verkfallið og bæði viðskiptasambönd glatast og framleiðsla minnkar geti það numið allt að 900–1.300 milljónum króna á dag …“
Verið er að tala um tapaðar útflutningstekjur upp á 640 millj. kr. Fyrir utan það er mjög dýrt að hafa skip, verksmiðjur og fólk iðjulaust svo dögum skiptir. Tæknifyrirtæki hafa verulegar áhyggjur af þessu, að verkefni tefjist, og flutningafyrirtæki eru sögð hafa orðið fyrir tapi eða samdrætti frá 20% til 90%. Alvarlegustu afleiðingarnar eru þó þær að við glötum erlendum mörkuðum.
Það verður að segjast eins og er að fyrri ríkisstjórnir hafa skipað vinnuhópa og starfshópa vegna málefna sem ekki eru jafn umfangsmikil. Ég held að það sé afskaplega brýnt að ríkisstjórnin átti sig á því um hversu stórt mál er að ræða. Ég er hins vegar sammála því sem hv. þm. Gunnar I. Guðmundsson segir, auðvitað skiptir alveg gríðarlegu máli að sjómenn og allir geti samið um sín kjör, en við getum ekki horft fram hjá því hversu alvarleg staðan er.”
Lilja Dögg Alfreðsdóttir í störfum þingsins 1. febrúar 2017.