Categories
Fréttir

Framlag til jafnréttis kynjanna heima og heiman

Deila grein

28/10/2014

Framlag til jafnréttis kynjanna heima og heiman

photo 1 (1)Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flutti ávarp á kvennafrídeginum og degi Sameinuðu þjóðanna, við árlegt málþing Jafnréttissjóðs. Afhenti af því tilefni fjóra styrki til rannsóknarverkefna á sviði jafnréttismála samtals að upphæð kr. 8.600.000.
Sigmundur Davíð sagði í ávarpi sínu að við stofnun Jafnréttissjóðs, á þrjátíu ára afmæli kvennafrídagsins 2005, hafi sjóðurinn verið kynntur sem gjöf til jafnréttis- og kvennahreyfingarinnar í landinu og þakklætisvottur fyrir það afl, frumkvæði og nýsköpun sem í henni hefur falist til framfara, mannréttinda og almennrar velsældar í samfélagi okkar.
„Í fimm ár í röð hefur Ísland skipað efsta sætið á lista Alþjóða efnahagsráðsins yfir stöðu jafnréttis kynjanna í heiminum, en það mat byggir á sextán mælikvörðum á sviði vinnumarkaðar, menntunar, heilbrigðismála og stjórnmálaþátttöku.
Um margra ára skeið hafa erlendir blaðamenn, fræðimenn og áhugafólk líka, leitað hingað og spurt: Hvernig getur það verið að hér á landi er atvinnuþátttaka kvenna mest miðað við OECD löndin, vinnutíminn einna lengstur, fæðingartíðnin hæst og konur hafa náð svo langt sem raun ber vitni í forystusætum?“
photo 2 (1)Forsætisráðherra vék m.a. einnig að fyrirhugaðri karlaráðstefnu sem Ísland og Surinam hyggjast standa fyrir í New York á næsta ári og kvað hann tíðindin sem felast í þeirri ráðstefnu fyrst og fremst vera þau að þar verða karlar kallaðir til umræðu um kynbundið ofbeldi.
Styrkina til rannsóknarverkefna á sviði jafnréttismála samtals að upphæð kr. 8.600.000 hlutu:

  • Björg Hjartardóttir, doktorsnemi við University of British Columbia í Kanada til rannsóknar á Vestur-íslenska kvenréttindablaðinu Freyja, 
  • Guðný Björk Eydal prófessor og Ingólfur V. Gíslason dósent við Háskóla Íslands til rannsóknarinnar Jafn réttur til fæðingarorlofs: Hvernig haga pólskir og íslenskir foreldrar atvinnuþátttöku og umönnun barna sinna?
  • Guðný Gústafsdóttir doktorsnemi við Háskóla Íslands til rannsóknar á mótsögnum kvenleikans, kyngervi og þegnrétti á Íslandi,
  • Marta Einarsdóttir sérfræðingur við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri til rannsóknar á íslensku ofurfjölskyldunni – samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs. 

Í mörgum tilvikum vinna nemar og aðrir samstarfsmenn að rannsóknum með styrkþegum.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Staða barnaverndar í landinu

Deila grein

28/10/2014

Staða barnaverndar í landinu

Í síðustu viku fór fram sérstök umræða á Alþingi um stöðu barnaverndar í landinu. Jóhanna María Sigmundsdóttir, alþingismaður, var málshefjandi en Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra var til andsvara.
Jóhanna maría_SRGB_fyrir_vefJóhanna María Sigmundsdóttir fór yfir að í ársskýrslu Barnaverndarstofu fyrir árin 2012–2013 komi fram að fyrir árin 2009–2013 var töluverð aukning í beiðnum um fósturheimili fyrir börn. „Algengast er að barnaverndarnefndir ráðstafi 15 ára börnum í tímabundið fóstur, 16 ára börnum í varanlegt fóstur og 15 ára börnum í styrkt fóstur.“
En einnig kemur fram í skýrslunni að umsóknum um „meðferð á meðferðarheimili fyrir börn á aldrinum 12–18 ára hefur fækkað töluvert í heildina á milli áranna 2009 og 2013 þótt fjöldi barna sem eru í meðferð á þessum árum endurspegli ekki þá fækkun. Hjá þeim sem hafa lagt inn umsókn um meðferð er algengasta fjölskyldugerðin einstæð móðir og reyndar áberandi hærri en hjá öðrum fjölskyldugerðum.“
„Eitt frábært framtak Barnaverndarstofu er Barnahús. Það er hannað sérstaklega til að mæta þörfum barna. Mjög góð aðstaða er í húsinu, bæði fyrir börn og þá sem þeim fylgja. Í húsinu er sérútbúið viðtalsherbergi til að framkvæma rannsóknarviðtöl og skýrslutökur. Þar er einnig hægt að taka könnunarviðtöl og gera læknisskoðanir.
Fjöldi barna sem kom í rannsóknarviðtöl í Barnahúsi jókst á milli áranna 2012 og 2013 um meira en 40 tilfelli. Þá hefur aukist að börn segi frá kynferðislegu ofbeldi í rannsóknarviðtölum á milli áranna úr 37,8% í 51,8%. Er þessi aukning samferða þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur í þjóðfélaginu um þessi mál.“
Eygló HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði „óumdeilt að velferð barna á fyrstu æviárunum leggur grunn að allri þeirra framtíð. Þar kemur til umhyggja foreldra og almenn þjónusta, svo sem öflug mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit, góðir leikskólar og grunnskólar sem tryggja flestum börnum farsæla æsku og uppvaxtarár, en einstaka barn þarf meiri aðstoð.“
Eygló telur Íslendinga verða að bæta sig „verulega til að tryggja að þau þjónustukerfi sem við höfum í velferðarsamfélagi okkar vinni mun betur saman. Þá er ég að tala um heilbrigðiskerfið, skólakerfið, félagsþjónustuna og barnaverndina, að ógleymdu að sjálfsögðu samstarfi við foreldrana og börnin sjálf. Við erum ekki að mínu mati með nægilega heildstætt þjónustuferli.“
„Úrræði barnaverndarnefnda eru margþætt, þar með talin leiðsögn til foreldra, að stuðla að því í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir að börn njóti þjónustu samkvæmt öðrum lögum, útvega barni viðeigandi stuðning eða meðferð eða útvega barni eða fjölskyldu persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu. Einnig geta barnaverndarnefndir beitt úrræðum utan heimilis, svo sem fóstri, styrktu fóstri eða vistun á meðferðarheimili.
Á vegum Barnaverndarstofu eru sem sagt rekin úrræði sem barnaverndarnefndir geta nýtt sér, meðferðarheimili og einnig MST-fjölkerfameðferðin, sem felur í sér aðstoð utan stofnana fyrir börn og fjölskyldur þeirra vegna alvarlegs hegðunar- og fíkniefnavanda. Markmiðið er að efla og styðja fjölskylduna til að takast á við vandann og bregðast við bakslögum. Það er unnið þétt í umhverfi barnsins og eru samstarfsaðilar meðal annarra skólakerfið, Barna- og unglingageðdeild, Fjölsmiðjan og lögreglan.
Í dag er þessi þjónusta, MST-þjónustan, aðeins í boði í 100 km radíus frá Reykjavík. Ég er núna að leita leiða til að tryggja að við getum tryggt börnum alls staðar á landinu MST eða sambærilega þjónustu.“
„Varðandi tilkynningarnar hjá okkur tel ég jákvætt að við sjáum að tikynningum hefur fjölgað jafnt og þétt vegna þess að fólk lætur vita. Það er það sem vitundarvakningin gekk út á, að hafa í huga að félagsþjónustan og barnaverndin eru þarna til að hjálpa fólki.“
Hægt er að kynna sér umræðuna í heild sinni hér.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Flokksmálaályktun framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

Deila grein

26/10/2014

Flokksmálaályktun framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

logo-framsokn-gluggi14. Kjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi (KFNA) haldið á Hallormsstað 18. október 2014 ályktar um flokksmál.

Flokksmálaályktun

Framsóknarfélögin
Kjördæmisþingið fagnar þeim fjölda fólks er bauð sig fram á listum flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar s.l. vor og þeim góða árangri sem þar náðist. Framsóknarfélögin gegndu lykilhlutverki í þessum árangri.
Þingið leggur áherslu á að starf félaganna um land allt eflist enn frekar þar sem þau sinna mikilvægu hlutverki í að gera stjórnmál áhugaverð og standa fyrir öflugri þjóðfélagsumræðu. Kjördæmisþingið hvetur félögin til aukinnar sameiningar/samstarfs til eflingar starfsins. Mikilvægt er að þingflokkur og þingmenn kjördæmisins taki þátt í starfi félaganna með ábyrgum hætti og sýni þannig gott fordæmi ef vel á til að takast í þessum efnum.
Ásýnd og ímynd
Kjördæmisþingið minnir á að flokkurinn hefur í starfi sínu unnið markvisst að því að efla ásýnd og ímynd í stjórnmálum almennt. Framsóknarflokkurinn innleiddi fyrstur flokka siðareglur fyrir sitt innra starf. Kjördæmisþingið leggur áherslu á að þetta góða starf haldi áfram og flokkurinn verði leiðandi afl í að endurheimta traust þjóðarinnar á Alþingi. Framsóknarflokkurinn var fyrstur flokka til að setja fram samræmdar framboðsreglur fyrir Alþingis- og sveitarstjórnarkosningar.
Kjördæmisþingið leggur á það áherslu að kjörnir fulltrúar Framsóknarflokksins hafi stefnuskrá og siðareglur flokksins ætíð að leiðarljósi í starfi sínu.
Fyrirkomulag kjördæmisþinga KFNA
Kjördæmisþing skal haldið til skiptis á Akureyri og Fljótsdalshéraði, þó skal í aðdraganda kosninga til Alþingis halda kjördæmisþing í Mývatnssveit. Stjórn kjördæmissambandsins ber ábyrgð á að ályktunum þingsins verði fylgt eftir til flokksþings og birtar á heimasíðu flokksins.
Fjáröflun
Þingið felur stjórn kjördæmissambandsins og skrifstofu flokksins að vinna að samræmdri fjáröflun kjördæmasambanda Framsóknarflokksins.

*****

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

Deila grein

26/10/2014

Stjórnmálaályktun framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi haldið á Hallormsstað 18. október 2014 fagnar þeim árangri sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur náð í ríkisrekstri frá því að stjórn hans tók við. Mælikvarðar sem stuðst er við, til að vega og meta hagsæld þjóða, stefna upp á við. Það er ekki tilviljun. Þeirri stöðu hefur verið náð undir forystu Framsóknarflokksins sem hefur haldið fast í gildi sín sem frjálslyndur félagshyggjuflokkur.

  • Þingið leggur áherslu á að við afgreiðslu fjárlaga verði þess gætt að fyrirhugaðar skattabreytingar auki kaupmátt, lækki almennt verðlag og bæti sérstaklega stöðu lág- og millitekjuhópa.
  • Þingið leggur áherslu á að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum.
  • Þingið mótmælir öllum hugmyndum um tilflutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni. Núverandi staðsetning hans er eitt stærsta byggðamál samtímans og er grundvallarforsenda þess að Reykjavík sé höfuðborg landsins alls.
  • Tryggja verður fjármuni í viðhald smærri flugvalla.
  • Þingið styður flutning aðalstöðva Fiskistofu til Akureyrar. Þingið hvetur ríkisstjórnina til að flytja fleiri störf á vegum hins opinbera í landsbyggðirnar.
  • Þingið leggur áherslu á að góðar samgöngur eru grunnur að allri samfélagsþróun í kjördæminu og hvetur til aukinna framkvæmda á því sviði. Ástand fjarskiptamála er víða í algjörum ólestri. Þingið leggur áherslu á að sú vinna sem nú stendur yfir á vegum ríkisstjórnarinnar skili úrbótum sem allra fyrst.
  • Trygg raforka og aðgangur að öruggu háhraða netsambandi eru mikilvægar forsendur á þessu sviði. Mikilvægt er að litið verði á innanlandsflug sem einn lið í almenningssamgöngum og brýnt að tryggja rekstraröryggi þess til framtíðar. Jafnframt þarf að halda áfram að þróa almenningssamgöngur á landi.
  • Það er verulegt áhyggjuefni hve litlu fjármagni hefur verið varið til viðhalds á vegakerfinu til fjölda ára. Viðhald og endurbætur malarvega í kjördæminu er sérlega brýnt, ásamt áframhaldandi uppbyggingu vegakerfisins. Þær stórframkvæmdir sem nú standa yfir við Norðfjarðar- og Vaðlaheiðargöng eru fagnaðarefni. Nauðsynlegt er að halda áfram undirbúningsrannsóknum fyrir göng undir Fjarðarheiði annars vegar og endurbótum á Ólafsfjarðargöngum hins vegar.
  • Mikilvægt er að opna Ísland betur fyrir ferðamönnum og skapa aukinn grundvöll fyrir vöxt í ferðaþjónustu. Liður í því er að opna fleiri gáttir inn í landið s.s. með eflingu Akureyrar- og Egilsstaðaflugvalla.
  • Þingið leggur árherslu á trausta heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Standa þarf vörð um starfsemi sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana í kjördæminu með áherslu á heilsugæslu- og heimaþjónustu.
  • Mikilvægt er að unnið verði markvisst að áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma og þróun öldrunarþjónustu sem taki mið af aðstæðum á hverjum stað.
  • Þingið leggur áherslu á að Háskólinn á Akureyri haldi sjálfstæði sínu og fjárhagslegum styrk til að þjóna hlutverki sínu. Samhliða flutningi aðalstöðva Fiskistofu til Akureyrar gefst kostur á eflingu sjávarútvegsdeildar Háskólans. Jafnframt verði hugað að því að hefja kennslu í dreifbýlislækningum við Háskólann sem lið í eflingu heilbrigðisdeildar.
  • Þingið leggur áherslu á mikilvægi framhaldsskóla fyrir þróun samfélagsins. Jafnframt er bent á nauðsyn öflugrar iðn- og verkmenntunar í ljósi vaxandi umsvifa í kjördæminu og á Norðurslóðum. Þingið lýsir yfir miklum áhyggjum, komi til aldurstakmarkana í framhaldsskólum og leggur þunga áherslu á sérstöðu og sjálfstæði smærri framhaldsskóla í kjördæminu sem lið í jafnrétti til búsetu.
  • Þingið undirstrikar stefnu flokksins um mikilvægt hlutverk LÍN til að tryggja jafna möguleika til náms óháð efnahag og búsetu.
  • Þingið undirstrikar mikilvægi öflugrar atvinnuþróunar og nýsköpunar. Mikilvægt er að fjármunir sem ætlaðir eru til þessara verkefna nýtist sem best.

*****

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Sárt bítur soltin lús

Deila grein

23/10/2014

Sárt bítur soltin lús

Þorsteinn sæmundsson_SRGB_fyrir_vefFulltrúar þeirra sem þorðu ekki, gátu ekki og vildu ekki leiðrétta verðtryggð húsnæðislán heimilanna meðan þeir áttu þess kost, eiga bágt með að sætta sig við að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar stendur með heimilunum í landinu og vinnur markvisst að því að niðurstaða fyrirhugaðrar skuldaleiðréttingar liggi fyrir innan tíðar. Fremstur í flokki úrtölumanna fer háttvirtur þingmaður Helgi Hjörvar, sár og svekktur. Eins og fyrri daginn lætur þingmaðurinn staðreyndir ekki flækjast fyrir sér heldur veður elginn og ruglar út í eitt. Sá sem hér ritar hefur áður látið þá skoðun sína í ljós að háttvirtur þingmaður Helgi Hjörvar sé ekki töluglöggur. Sá Akkillesarhæll þingmannsins kom berlega í ljós á Alþingi í síðustu viku. Þar fór hann að vanda rangt með tölur og ruglaði saman óskyldum hlutum. Þegar að því var fundið bar þingmaðurinn sig aumlega og birti „gögn“ á Eyjunni í því augnamiði að styðja við bullið en „gögnin“ leiddu einmitt í ljós veilurnar í málflutningi hans. Meðal þess sem háttvirtur þingmaður kom inn á var fjármögnun leiðréttingarinnar. Hann heldur því fram að heimilin í landinu séu sjálf að borga leiðréttinguna.

Þrotabúin skattlögð
Hið rétta er að það hefur ávallt legið fyrir að ríkið gæti þurft að vera milliliður, sérstaklega ef menn vildu flýta leiðréttingunni. Það hefur einnig legið fyrir frá því framkvæmd leiðréttingarinnar var kynnt að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, svokallaður bankaskattur, hefur verið hækkaður og undanþága fjármálastofnana í slitameðferð frá skattinum verið afnumin. Gert er ráð fyrir að þessi breyting á bankaskattinum auki árlegar tekjur ríkissjóðs um 92 milljarða á fjórum árum. Í fyrsta sinn eru þrotabúin skattlögð, nokkuð sem fyrrverandi ríkisstjórn heyktist á að koma í verk allan sinn starfstíma. Þingmaðurinn heldur því fram að meðalleiðrétting skulda verði um 5%. Í þessu dæmi tekur þingmaðurinn mið af heildarskuldum heimilanna, þ.m.t. yfirdráttar- og Visa-skuldir. Vissulega stendur núverandi ríkisstjórn með heimilunum í landinu en aldrei stóð til að leiðrétta Visa-skuldir.

Þingmaðurinn „gleymir“
Hið rétta er að áætlanir gera ráð fyrir að meðallækkun verðtryggðra húsnæðisskulda samkvæmt leiðréttingunni verði um 11% en það hlutfall er háð fjölda þeirra sem rétt eiga á leiðréttingu. Heildarupphæð húsnæðislána í lok árs nam 1.242 milljónum króna skv. Hagstofunni. Þingmaðurinn segir að hækkun neðra þreps VSK úr 7 í 12% muni hækka matarverð um 5%. Þarna „gleymir“ þingmaðurinn að taka inn í myndina afnám vörugjalda m.a. af matvælum. Einnig „gleymir“ þingmaðurinn að taka tillit til lækkunar efra þreps VSK og áhrifa hennar. Hið rétta er að verð á nauðsynjum mun skv. núverandi frumvarpi hækka um 3,4% en að teknu tilliti til áhrifa af niðurfellingu vörugjalda og lækkun efra þreps mun kaupmáttur heimila aukast.

Sá fræjum tortryggni
Auk þessa kýs þingmaðurinn að líta fram hjá fyrirhugaðri hækkun barnabóta og annarra mótvægisaðgerða við fimbulfamb sitt. Þingmaðurinn fer mikinn vegna vaxtabóta og velur að sjálfsögðu að nota árið 2011 sem viðmiðunarár en þá voru vaxtabætur hæstar. Vaxtabætur hafa farið lækkandi vegna bættrar eiginfjárstöðu heimilanna. Þannig lækka þær milli áranna 2014 og 2015 um rúmar 400 milljónir. Bætt eiginfjárstaða heimilanna varð þingmanninum raunar að umræðuefni nýlega þar sem hann taldi skuldaleiðréttinguna ónauðsynlega hennar vegna. Erfitt er að gera sér grein fyrir hvað þingmaðurinn nákvæmlega vill. En talnablekkingavefurinn sem hann hefur spunnið þvælist líklega fyrir honum. Þingmaðurinn vakti ítrekað athygli á því á síðasta kjörtímabili að nauðsynlegt væri að leiðrétta skuldir heimila. Hann bjó þá við þá ógæfu að styðja ríkisstjórn sem hélt sérstakan blaðamannafund til að tilkynna að ekki væri ráðrúm til að gera meira fyrir skuldsett heimili.

Þingmaðurinn og skoðanabræður hans virðast ekki geta sætt sig við að núverandi ríkisstjórn er að standa við kosningaloforð sín. Sárast er að með málflutningi sínum reyna þessir sömu menn að grafa undan aðgerðum ríkisstjórnarinnar og sá fræjum tortryggni í brjóst þeirra sem munu njóta góðs af þeim í stað þess að gleðjast yfir því að hagur heimilanna í landinu sé bættur.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 23. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

„Baunabyssur“, viðskiptasaga, rjúpnaveiðitímabilið, leiðréttingin og einangrunnarsinnnar á Alþingi

Deila grein

23/10/2014

„Baunabyssur“, viðskiptasaga, rjúpnaveiðitímabilið, leiðréttingin og einangrunnarsinnnar á Alþingi

Í störfum þingsins í vikunni voru þingmenn Framsóknarflokksins áberandi.
Karl GarðarssonKarl Garðarsson ræddi „baunabyssurnar“ og sagði lögregluna hafa í „haft yfir að ráða skotvopnum í tugi ára“. Þó flestum þingmönnum og jafnvel fyrrverandi ráðherrum hafi yfirsést það. „Við lifum nefnilega ekki í neinu Disneylandi þó að stjórnarandstaðan haldi svo. Hlutverk lögreglu felst ekki bara í því að mæla umferðarhraða eða hjálpa gömlu fólki yfir götu. Við lifum ekki í heimi barnaævintýra þar sem allir eru innst inni vinir þó að einstaka sinnum slettist upp á vinskapinn.“ Karl bætti við að hans mati hafi „bullkvóti ársins hafi verið fylltur í umræðu um þessi mál á þingi í gær“.

Elsa-Lara-mynd01-vefurElsa Lára Arnardóttir fór yfir svör við skriflegri fyrirspurn sinni „varðaði skráningu viðskiptasögu einstaklinga hjá fjármálastofnunum“. Viðskiptasaga einstaklinga eru mjög persónulegar upplýsingar sem geta verið viðkvæmar, upplýsingar sem eiga ekki að fara neitt án samþykkis þess er þær varða. Fram kemur í svari fjármálaráðherra að bankar hafi „aðgang að gagnasöfnum upplýsingastofa og í því samhengi má benda á skuldastöðukerfi og vanskilaskrá Creditinfo hf“. Eins fóru öll gagnasöfn með upplýsingum um viðskiptasögu einstaklinga frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana.
„Í þessu samhengi hef ég velt fyrir mér nokkrum þáttum. Hvað varð um stöðu neytandans í þessu máli? Hvað varð um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga?
Gerum okkur grein fyrir að margir íslenskir neytendur á íslenskum heimilum fóru jafnframt illa út úr því sem gerðist hér haustið 2008, m.a. vegna ýmissa þátta innan fjármálakerfisins. Það veit Framsóknarflokkurinn og hann hefur ítrekað bent á þá staðreynd hve erfið staða heimilanna er. Þessa dagana berjast samt sem áður aðilar er samþykktu neyðarlögin, hv. þingmenn er samþykktu neyðarlögin, á móti því að heimilin fái eitthvað að gert í sínum málum og að komið verði á móts við skuldastöðu þeirra. Mér finnst það til skammar.“

Þórunn EgilsdóttirÞórunn Egilsdóttir ræddi rjúpnaveiðitímabilið, er stendur yfir í 12 daga, þar sem má veiða í þrjá daga í senn, frá föstudegi til sunnudags, fjórar helgar í röð, síðasti veiðidagur er 16. nóvember. „Það er ekki víst að veðrið verði veiðimönnum hliðhollt alla daga og því er mikilvægt að huga vel að undirbúningi. Ég hvet alla sem ætla að ganga til veiða að huga vel að þeim undirbúningi. Menn þurfa að þekkja vopnin sín, vita hvað þeir eru með í höndunum, hvernig á að fara með það og gæta varúðar í öllu. Það er mjög mikilvægt að menn kanni landslagið, þekki til staðhátta og láti vita af sér. Áður en farið er af stað er mjög mikilvægt að vera í vatnsheldum skóm með grófum sóla því að maður veit aldrei í hverju maður lendir. Ef maður villist af leið er mjög gott að hafa áttavita, kort og fjarskiptatæki til að láta vita af sér. Þannig er það með mörg verkefni sem við förum í því að það er árviss viðburður að björgunarsveitir eru ræstar út til að bjarga rjúpnaskyttum í vanda. Veiðimönnum ber skylda til að gera sitt ýtrasta til að fyrirbyggja slíkt. Því er undirbúningurinn það sem öllu máli skiptir og ég hvet okkur til að gæta vel að honum.“

Silja-Dogg-mynd01-vefSilja Dögg Gunnarsdóttir fór yfir leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum. „Á sumarþingi 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Það sem ég vil draga fram í dag er að samþykkt tillaga er í tíu liðum. Leiðréttingin sjálf er aðeins einn liður af þessum tíu.
Ég verð að segja að mér finnst dálítið einkennilegt að heyra suma hv. þingmenn sem kenna sig við jöfnuð og réttlæti tala þessa aðgerð niður, gera hana jafnvel tortryggilega. Það er eiginlega bara sorglegt. Þetta gera jafnvel sömu þingmenn og vildu fara í slíkar aðgerðir á síðasta kjörtímabili en án árangurs. Hvað hefur breyst? Eru menn heiðarlegir í málflutningi sínum eða ástunda þeir lélega pólitík? Spyr sá sem ekki veit.“
„Ég er mjög stolt af því að tilheyra þeim hópi þingmanna sem hefur barist fyrir heimilin í landinu. Rökin fyrir leiðréttingunni eru bæði sanngirnisrök og efnahagsleg rök. Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 var ráðist í stórar efnahagsaðgerðir. Skuldir fyrirtækja voru færðar að því sem greiðslugeta þeirra sagði til um og gengistryggð lán voru endurreiknuð vegna dóma Hæstaréttar. Þá hafa fjármagnseigendur verið í sterkri stöðu þar sem skuldarar bera verðbólguáhættuna vegna verðtryggingar. Þeir sátu eftir sem skulduðu verðtryggð lán á meðan holskeflan reið yfir.“

Þorsteinn SæmundssonÞorsteinn Sæmundsson vék athygli á hverjir væru hinu einu sönnu einangrunarsinnar á Alþingi. „Árið 1982 var sett á sérsveit á Keflavíkurflugvelli sem hafði yfir að ráða hríðskotavopnum. Af hverju? Vegna þess að hér er alþjóðaflugvöllur. Það kemur kannski úr óvæntri átt en flokkurinn sem ég tilheyri hefur verið sakaður um einangrunartilburði. En hvað mundi það þýða ef við stæðumst ekki kröfur sem alþjóðaflugvellir þurfa að búa yfir? Þá væri hér ekkert millilandaflug. Hverjir eru einangrunarsinnar hér?
Annað er það að hér hafa hreiðrað um sig glæpasamtök sem hafa alþjóðlegar tengingar. Ætlum við að senda lögreglumennina okkar, þetta fólk sem fórnar fjölskyldulífi sínu og öðru, berhenta á vettvang? Er það svo? Höfum við meiri áhyggjur í þessum sal af góðkunningjum lögreglunnar en lögreglunni sjálfri? Á sú stétt sem stóð vörð um þessa stofnun hér þegar hart var í ári það skilið að verið sé að sá fræjum tortryggni í hennar garð í þessu húsi? Ég held ekki, þingmenn góðir.“

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Húsum okkur upp með skynseminni

Deila grein

22/10/2014

Húsum okkur upp með skynseminni

Eygló HarðardóttirEnn fjölgar sveitarfélögum sem telja skort á leiguhúsnæði. Á höfuðborgarsvæðinu telur aðeins Garðabær að framboð leiguíbúða í sveitarfélaginu sé nóg. Samtímis eru um 1.800 manns á biðlista hjá sjö stærstu sveitarfélögunum, þorrinn á höfuðborgarsvæðinu.
Stuttu eftir að ég tók við ráðherraembætti minnti ég á júlísamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 1965 um stórátak til að leysa brýnan húsnæðisskort. Samkomulagið var liður í lausn erfiðrar vinnudeilu og var samið um byggingu 1.250 íbúða fyrir lágtekjufólk í Reykjavík. Benti ég á að í aðdraganda erfiðra kjarasamninga gætu samningar af þessum toga reynst skynsamlegir.

Verkalýðshreyfingin hefur nokkra reynslu af samkomulagi við atvinnurekendur um framlög í fræðslusjóði, orlofssjóði og sjúkrasjóði og síðast árið 2011 náðist samkomulag við atvinnurekendur um að þeir greiddu árlega rúman einn milljarð króna í starfsendurhæfingarsjóði. Hvers vegna ekki að semja við atvinnurekendur um sérstakt framlag í húsnæðissjóði á vegum verkalýðsfélaganna til uppbyggingar leiguhúsnæðis fyrir félagsmenn?

Í tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála eru gerðar ýmsar tillögur til að liðka fyrir starfsemi húsnæðisfélaga sem byggja eða kaupa íbúðir til langtímaleigu til að lækka kostnað og auka hagkvæmni, meðal annars að vaxtaniðurgreiðslum verði breytt í stofnstyrki og með skattaívilnunum fyrir félögin. Unnið er að fjórum frumvörpum í velferðarráðuneytinu fyrir yfirstandandi þing sem öll styðja við þessar hugmyndir um nýtt júlísamkomulag.

Þessu til viðbótar má benda á að lífeyrissjóðirnir fjármagna stóran hluta húsnæðislána og í stjórnum þeirra sitja fulltrúar launafólks og atvinnurekenda. Því ætti að vera lag til að semja um hagstæða fjármögnun í þágu launafólks.
Í mínum huga er enginn betur til þess fallinn að stofna og reka leigufélög án gróðasjónarmiða fyrir almenning í landinu en verkalýðsfélögin sjálf, ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er hvað mest. Þau hafa reynsluna, þau hafa árum saman rekið leigufélög í gegnum orlofssjóðina og þekkja hvernig á að standa að þessu.

Í dag koma saman fulltrúar verkalýðsfélaganna um allt land á ársfund ASÍ, kjósa sér forseta og marka stefnuna í aðdraganda kjarasamninga. Ég trúi því og treysti að niðurstaðan verði í þágu framtíðarinnar.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. október 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

B – hliðin

Deila grein

22/10/2014

B – hliðin

sigrunmagnusdottir-vefmyndVið eigum marga góða þingmenn og það er Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarmanna, sem sýnir okkur B – hliðina í þetta sinn.
Fullt nafn:  Sigrún Magnúsdóttir.
Gælunafn:  Didda (nánast allir hættir að nota það, en gekk undir því í æsku minni).
Aldur:  70 ára.
Hjúskaparstaða?  Gift.
Börn?  2 dætur, svo fékk ég 3 með Páli mínum = 5.
Hvernig síma áttu?  Samsung.
Uppáhaldssjónvarpsefni?  Landinn.
Uppáhalds vefsíður:  Á enga. Sinni því lítið að vafra.
Besta bíómyndin?  Á hverfanda hveli.
Hvernig tónlist hlustar þú á?  Hlusta lítið nema í bílnum. Þjóðlagatónlist.
Uppáhaldsdrykkur:  Kaffi.
Hvað finnst þér best að borða?  Skötuna á Þorláksmessu.
Hvaða lag kemur þér í gírinn?  Frjáls eins og fuglinn.
Ertu hjátrúarfull?  Já… trúi á tölur og tákn.
Hverslags viðfangsefni myndirðu ekki leggja nafn þitt við?  Einelti.
Hver var fyrirmyndin þín á yngri árum?  Pabbi.
Hver er fyrirmyndin þín í dag?  Pabbi.
Hverjir eru sessunautar þínir á Alþingi?  Ásmundur Einar Daðason (hef bara einn).
Hver eru helstu áhugamálin?  Fjölskyldan. Stjórnmál. Handavinna. Þjóðfræði.
Besti vinurinn í vinnunni?  Vigdís og Þórunn.
Helsta afrekið hingað til?  Koma á laggirnar Sjóminjasafni í Reykjavík.
Uppáhalds manneskjan?  Barnabörnin 17.
Besti skyndibitinn?  Harðfiskur með smjöri.
Það sem þú borðar alls ekki?  Ég sniðgeng innflutt hormónakjöt. (Hinsvegar borða ég bæði roð og bein, kæst og sigið ha ha).
Lífsmottóið?  Seigla. Aldrei gefast upp.
Þetta að lokum:
Stolt af flokknum mínum. Ánægð með víðsýni félagana að velja bæði yngstu og elstu konuna sem inn á Alþingi hafa sest vorið 2013. Nánast hálf öld skilur þær að í aldri. Hamingjusöm að hafa fengið þetta tækifæri – að fá að taka þátt í endurreisn landsins. Allt að dafna á ný.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Þú getur gefið annað líf

Deila grein

22/10/2014

Þú getur gefið annað líf

Silja-Dogg-mynd01-vefÞað að fá líffæri að gjöf er annað tækifæri til lífs og aukinna lífsgæða. Líffæraígræðslur hafa verið stundaðar frá því snemma á 6. áratugnum en fyrsta ígræðslan var gerð í Boston árið 1954. Á árunum 1972 til 1991 voru Íslendingar einungis þiggjendur af Norrænu ígræðslustofnuninni (Scandiatransplant) án þess að gefa sjálfir líffæri í staðinn. Það breyttist árið 1991 þegar lög voru sett á Alþingi um brottnám líffæra og ákvörðun dauða. Frumvörp hafa verið lögð fram á Alþingi um breytingar á núgildandi lögum í ætlað samþykki. Vorið 2014 var málinu vísað til ríkisstjórnarinar og nú hefur heilbrigðisráðherra sett saman starfshóp sem á að skila niðurstöðum fyrir 1. mars 2015. Verkefni hópsins felst í að finna leiðir að því markmiði að fjölga líffæragjöfum á Íslandi.

Viljugir líffæragjafar en eru ekki skráðir

Flestir vilja láta gott af sér leiða og gefa líffæri sín ef mögulegt er en þó eru ýmsar siðferðislegar og praktískar spurningar sem vakna þegar til umræðu er að breyta lögum á þann veg að gert verði ráð fyrir ætluðu samþykki fyrir líffæragjöf. Í 10.tbl. Læknablaðsins 2014 var birt rannsókn  Karenar Rúnarsdóttur meistaranema um viðhorf Íslendinga til ætlaðs samþykkis við líffæragjöf. Þar kemur m.a. fram að meirihluti Íslendinga er hlynntur því að gert verði ráð fyrir ætluðu samþykki (rúmlega 80%) við líffæragjöf. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þá voru aðeins 5% þátttakenda í rannsókninni skráðir líffæragjafar.

Samverkandi úrræði til að fjölga líffæragjöfum

Á sl. fimm árum á Íslandi voru 39 einstaklingar úrskurðaðir heiladauðir  og komu því til álita sem gjafar. Þeir sem samþykktir voru sem líffæragjafar voru 18 talsins. Í 11 tilvikum var líffæragjöf ekki möguleg af læknisfræðilegum ástæðum og aðstandendur neituðu í 6 tilvikum. Hlutfall þeirra líffæragjafa sem hafnað er hefur haldist svipað undanfarin ár. En hvaða úrræði væru heppilegust til að fjölga mögulegum líffæragjöfum hér á landi? Í umræddri rannsókn Karenar Rúnarsdóttur og í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá undirritaðri, kemur fram að reynsla annarra þjóða sýni að grípa þurfi til fjölþættra aðgerða í þeim tilgangi. Breytingar á núverandi löggjöf er ein leið en samhliða þarf að auka upplýsingagjöf til almennings og þjálfa heilbrigðisstarfsmenn. Einnig væri nauðsynlegt að auðvelda þeim sem þess að óska að skrá vilja sinn til líffæragjafar á einfaldan hátt í rafrænan miðlægan gagnagrunn. Að sögn heilbrigðisráðherra er smíð á rafrænum gagnagrunni er langt á veg komin hjá embætti landlæknis.

Lagabreytingar ekki tímabærar

Þinglegur ferill málsins um að breyta lögum nr.16/1991 um brottnám líffæra í ætlað samþykki hefur verið ansi langur. Haustið 2013 lagði undirrituð fram frumvarp þess efnis en þá hafði það verið gert tvívegis áður. Undir lok vorþings var ályktun Velferðarnefndar um að vísa verkefninu til ríkisstjórnarinnar, samþykkt á Alþingi. Í nefndaráliti kemur fram að nefndin telji ekki tímabært að leggja til grundvallarlagabreytingu á núgildandi lögum þar sem breytingin ein og sér hefur ekki tilætluð áhrif, skv. reynslu annarra þjóða og einnig gæti hún getur vegið að sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga.

Skýrt markmið

Velferðarnefndin lagði enn fremur til að ráðherra skilaði skýrslu á vorþingi 2015 um niðurstöður vinnunnar ásamt tillögum um framhald málsins. Í framhaldinu  ákvað ráðherra að skipa starfshóp. Hópnum verður falið að skila skýrslu til ráðherra fyrir 1. mars 2015 þar sem fram koma niðurstöður hópsins ásamt tillögum um framhald málsins. Það sem hópurinn á að taka til sérstakrar skoðunar er:

–     hvernig eigi að fjölga líffæragjöfum frá látnum einstaklingum.
–     að efnt verði til víðtækrar þjóðfélagsumræðu um mikilvægi líffæragjafa.
–     að útbúið verði fræðsluefni um líffæragjöf.
–     að markvisst verði unnið að þjálfun og fræðslu heilbrigðisstarfsfólks.
–     reynslu annarra þjóða af lagabreytingum í átt til ætlaðs samþykkis.
–     að kannað verði hvort aðrar leiðir séu mögulegar til fjölgunar á líffæragjöfum, m.a. verði skoðaðar leiðir um krafið svar, skráningu í ökuskírteini, skattskýrslu eða á annan sambærilegan hátt.
–     að hugað verði að réttarstöðu þeirra sem vegna andlegs eða líkamlegs ástands eru ekki færir um að taka ákvarðanir um líffæragjöf.
–     að aðgengilegt verði fyrir einstaklinga að skrá vilja sinn til líffæragjafar.
–     að ráðherra skili Alþingi skýrslu á vorþingi 2015 þar sem fram komi niðurstaða þeirrar vinnu sem lögð er til hér og með tillögum um framhald málsins.
–     að 29. janúar ár hvert verði dagur líffæragjafa.
Enn er ekkert í hendi varðandi niðurstöður enda um afar flókið og viðkvæmt mál að ræða. En þó eru blikur á lofti og mikill áhugi bæði hjá stjórnvöldum og almenningi að fjölga líffæragjöfum á Íslandi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 21. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

 

Categories
Fréttir

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Norðvesturkjördæmi (KFNV)

Deila grein

20/10/2014

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Norðvesturkjördæmi (KFNV)

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar ánægjulegum árangri á mörgum sviðum á fyrsta starfsári núverandi ríkisstjórnar. Má þar nefna:

  • aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna,
  • hallalaus fjárlög,
  • aukinn verðlagsstöðugleika,
  • aukinn kaupmátt heimilanna,
  • lækkun skatta,
  • hækkun barnabóta,
  • aukin framlög í þágu eldri borgara og öryrkja,
  • aukin framlög til heilbrigðismála,
  • aukin framlög til hvatningar rannsókna og nýsköpunar og þannig mætti áfram telja.

Ekki hafa þó allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar verið unnar með nægjanlega faglegum hætti eða hlotið eðlilegan framgang. Má þar nefna sameiningar heilbrigðisstofnana í þremur heilbrigðisumdæmum, þ.e. á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi en þær sameiningar voru keyrðar í gegn án samráðs við heimamenn á hverjum stað og á grundvelli órökstuddra markmiða með einfaldri reglugerðarbreytingu heilbrigðisráðherra. Þingið telur með ólíkindum að jafn viðamikil breyting skuli geta verið háð duttlungum og ákvörðun eins manns og lýsir yfir megnri óánægju með hvernig að þessum sameiningum var staðið. Mikilvægt er að sú þjónusta sem veitt var á þeim stofnunum sem sameinaðar voru skerðist ekki frá því sem nú er heldur verði lögð áhersla á að bæta hana þannig að landsmenn njóti sömu grunnþjónustu, óháð búsetu.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði lýsir yfir andstöðu við fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á matvæli en með þeirri hækkun er fyrst og fremst vegið að innlendri matvælaframleiðslu og fjöldi starfa á landsbyggðinni sett í hættu. Þeim mun meiri undrun vekur að um leið og álögur á matvæli eins og grænmeti skuli vera hækkaðar leggi fjármálaráðherra til að svokallaður sykurskattur verði felldur niður en þar er um að ræða tekjustofn sem styður við markmið um lýðheilsu og forvarnir. Hækkun virðisaukaskatts á almenn matvæli gengur einfaldlega gegn þeim er lakari hafa kjörin og stríðir gegn stefnu flokksins um jöfnuð og velferð í íslensku þjóðfélagi.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði leggur áherslu á að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar í byggðamálum þar sem lögð er áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi. Minnir þingið þar sérstaklega á að mjög víða á landsbyggðinni búa íbúar við algjörlega óviðunandi aðstöðu hvað varðar fjarskipti, s.s. aðgengi að ljósleiðara, auk bágra samgangna og ótryggs raforkuöryggis. Auk þess sem veitt verði auknu fjármagni til vegamála í kjördæminu og áætlunarflug til Bíldudals, Gjögurs og Sauðárkróks verði tryggt með framlagi úr ríkissjóði. Sömuleiðis verði staðið við núverandi samgönguáætlun.
Nauðsynlegt er við breytingar á húsnæðislánakerfi að gætt verði að jöfnuði er kemur að aðgengi íbúa landsins að lánsfé til íbúðakaupa og nýbygginga.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði krefst þess að orkukostnaður heimila og fyrirtækja verði jafnaður til fulls.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar áformum um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni sem eðlilegu mótvægi við opinbera þjónustu og stjórnsýslu á höfuðborgarsvæðinu. Minnir þingið í því sambandi á að í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að mikilvægt sé að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi um allt land.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar skipan Norðvesturnefndar og væntir mikils af niðurstöðum hennar. Í kjölfarið verði ráðist í sambærilegar úttektir og tillögugerðir fyrir önnur landssvæði sem glíma við fólksfækkun og veikt atvinnustig, svo sem kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði leggur áherslu á að vel verði gert við menntastofnanir í kjördæminu og aðrar þær aðgerðir sem hækka menntunarstig íbúa landsins. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir að fjölbreytileiki í skólastarfi sé lykill að kraftmiklu og skapandi samfélagi. Fjárlög ársins 2015 eru í hróplegu ósamræmi við þessa yfirlýsingu. Þar er boðuð algerlega óásættanleg fækkun nemendaígilda í framhaldsskólum og verulega þrengt að háskólunum að Bifröst, Hólum og Hvanneyri. Þingið krefst þess að samræmi verði milli orða og efnda þannig að þessar mikilvægu stofnanir geti áfram sinnt hlutverki sínu og treyst undirstöður búsetu og aukna samkeppnisfærni landsbyggðarinnar.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði heitir á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að tryggja samkeppnis- og rekstrarhæfi íslensks sjávarútvegs við fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og búi greininni rekstrarlegan stöðugleika, sérstaklega verði gætt að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þingið hvetur ráðherra til að tryggja að hluti af sértæku veiðigjaldi renni beint til viðkomandi sveitarfélags. Þá skorar þingið á ríkisvaldið að efla rannsóknir á sviði fiskeldis, s.s. burðarþolsmats sem er forsenda þess að atvinnugreinin geti þróast í sátt við umhverfið.
Þingið skorar á ráðherra að bregðast nú þegar við mikilli ýsugengd á grunnslóð sem gerir mönnum ókleift að sækja þorskinn. Ýsan er nú ráðandi í afla bátanna. Ýsukvótinn er í engu samræmi við allt það magn sem er á veiðislóðinni og því nauðsynlegt að grípa til sértækra aðgerða strax.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði hvetur til rannsókna á mögulegum virkjanakostum í kjördæminu sem stuðlað geta að aukinni uppbyggingu fjölbreyttra og vel launaðra starfa. Sérstaklega skal þar horfa til Blönduvirkjunar, Hvalárvirkjunar og mögulegrar nýtingar fallvatnanna í Skagafirði. Tengigjald frá virkjunum verði afnumið í Norðvesturkjördæmi og farið verði nú þegar í hringtengingu raforku og ljósleiðara í Norðvesturkjördæmi.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði hvetur til áframhaldandi uppbyggingar í ferðaþjónustu. Mikilvægt er að vekja athygli á og stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða um land allt til að dreifa ferðamönnum víðar um landið og draga úr álagi á þá staði sem fjölsóttastir eru. Vinna þarf áfram að lengingu ferðamannatímabilsins svo ferðaþjónusta verði atvinnugrein sem veitt getur starfsfólki vel launaða atvinnu árið um kring og skilað enn auknum tekjum til þjóðarbúsins.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði minnir á grunngildi flokksins sem eru m.a. byggð á frjálslyndri hugmyndafræði þar sem leitast er við að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika. Framsóknarflokkurinn hefur ávallt unnið að hugmyndum og lausnum sem miða að því að koma til móts við heimilin, standa vörð um velferðarkerfið, skapa jákvætt umhverfi fyrir atvinnulíf, fjárfestingar og nýta tækifæri sem eru allt í kringum okkur. Með slík grunngildi að leiðarljósi er ljóst að bjartari tímar eru framundan í íslensku samfélagi.

*****

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.