Categories
Fréttir

Farsælir þingmenn Framsóknar á landsmóti UMFÍ

Deila grein

10/07/2013

Farsælir þingmenn Framsóknar á landsmóti UMFÍ

haraldur-landsmot-UMFIÞrír þingmenn Framsóknar tóku þátt í 27. Landsmóti UMFÍ á Selfossi um liðan helgi. Þau Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorsteinn Magnússon, varaþingmaður, en hann tók sæti á Alþingi rétt fyrir þinglok í fjarveru Frosta Sigurjónssonar.

Unnu þau til nokkurra verðlauna á landsmótinu:

  • Haraldur Einarsson vann til tveggja silfurverðlauna, annars vegar fyrir 400 m. hlaup og hins vegar fyrir 1000 m. boðhlaup.
  • Þá vann lið Haraldar og Þorsteins í heildarstigakeppninni í frjálsum en þeir kepptu fyrir HSK.
  • Silja Dögg vann svo til gullverðlauna fyrir starfshlaupið.

Auk þess að vera farsæl á verðlaunapöllunum voru Haraldur og Silja Dögg fánaberar við setningu Landsmótsins.setning-landsmots-UMFI
 

Categories
Greinar

Að loknu sumarþingi

Deila grein

10/07/2013

Að loknu sumarþingi

Þorsteinn SæmundssonÞað hefur sannarlega verið viðburðaríkt og upplýsandi fyrir nýliða á Alþingi að taka þátt í nýliðnu sumarþingi. Það er vissulega mikil upphefð og mikil ábyrgð að setjast á Alþingi Íslendinga sem kjörinn fulltrúi. Nýliðar þurfa að meðtaka mikinn fróðleik á stuttum tíma, bæði hvað varðar starfsemi þingsins og ekki síður við að setja sig inn í þau mál sem til meðferðar eru hverju sinni. Margt hefur komið á óvart og reynst með öðrum hætti en maður vænti.

Eins og margir hef ég fylgst með störfum Alþingis fyrst og fremst í gegnum umfjöllun og fréttir fjölmiðla en einnig með því að lesa blaðagreinar og kynna mér mál á heimasíðu þingsins. Það hefur komið mér á óvart hversu mikill hluti starfs þingmanna fer fram utan við þingsalinn, einkum í nefndum. Starf í nefndum þingsins er afar yfirgripsmikið, flókið og krefjandi. Starfið er þaulskiplagt sem er nauðsynlegt vegna þeirra erinda, umsagna en ekki síst fjölda gesta sem nefndirnar taka á móti.

Nýliðar á Alþingi fá afskaplega góðar móttökur hjá starfsfólki þingsins sem er boðið og búið að veita okkur aðstoð við hvað sem vera skal. Þar er sannarlega valinn maður í hverju rúmi. Við sem höfum fengið þann heiður að setjast í forsætisnefnd þingsins höfum gaumgæft þingsköpin og verður ærið verkefni að reyna að verða fullnuma í öllu því sem starfandi forseti þarf að kunna skil á. Það er því ómetanlegt að þiggja leiðsögn og fróðleik frá því ágæta fólki sem heldur í höndina á okkur varaforsetunum meðan við erum að byrja að fóta okkur.

Það hefur verið ánægjulegt og fróðlegt að kynnast eldri og reyndari þingmönnum, bæði meðal fulltrúa meirihluta og minnihluta. Þar fara margir reyndir bardagamenn sem búa yfir mikilli þekkingu. Margt má af þeim læra, bæði góða siði og verri. Nokkuð góð samstaða virðist annars ríkja innan þings þó að hart sé tekist á um mikilvæg mál þar sem pólitískar átakalínur liggja. Ekki eigum við eftir að komast fram hjá slíkum átökum en von mín er þó sú að á haustþingi mæti allir undirbúnir og reiðubúnir að afgreiða þau brýnu hagsmunamál fólksins í landinu, kjósenda okkar sem bíða í ofvæni eftir lausnum. Ég vona að vel megi takast til og að breið samstaða myndist.

Þorsteinn Sæmundsson

Categories
Greinar

Apabúrið

Deila grein

10/07/2013

Apabúrið

Silja Dögg GunnarsdóttirAfi minn horfir reglulega á útsendingar frá Alþingi. Hann er með dyggari áhorfendum. Hann talar yfirleitt um Alþingi sem apabúrið. Ég verð að viðurkenna að þessi samlíking særði mig örlítið eftir að ég hlaut kosningu sem alþingismaður.

Ákall um betri ásýnd Alþingis hefur verið hávært og mér heyrðist fyrir kosningar að allir flokkar væru einhuga um að svara því kalli. Ég hugsaði því með mér þegar afi kallaði Alþingi enn einu sinni apabúrið að ég ætlaði nú aldeilis að sýna honum að svona yrði þetta ekki. Nú væru breyttir tímar runnir upp.

Lifandi umræða
Við síðustu þingsetningu tóku rúmlega 40% þingmanna sæti á Alþingi í fyrsta sinn. Við fengum í upphafi kynningu á störfum Alþingis og spurðum nánast öll út í frammíköllin og um reglur um hegðun í þingsal, því öll vildum við jú standa okkur vel. Við fengum þau svör að frammíköll væru leyfileg en þau ættu að vera örstutt og helst hnyttin. Þau hleyptu lífi í umræðuna og því vildu menn ekki banna þau. Gott og vel.

Ein af öpunum
Þinghald hófst. Það fór kröftuglega af stað. Gagnrýnisraddir um svikin kosningaloforð strax í fyrstu viku þingsins voru háværar. Mikil gagnrýni var á forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar og svo framvegis.

Þegar leið á þingið versnaði heldur í því. Apabúrið birtist ljóslifandi og því miður var ég ein af öpunum í búrinu. Ég var ekki stolt. Ég vil þó ekki setja alla undir sama hatt. Þingmenn Samfylkingarinnar höguðu sér langverst í þingsal. Stundum heyrðist ekki í ræðumönnum vegna frammíkalla þingmanna Samfylkingarinnar. Oft voru frammíköllin, að mínu mati, alveg á mörkunum að vera dónaleg.

Hinir nýju þingmenn litu hver á annan og trúðu varla sínum eigin eyrum. Þingmenn Samfylkingar eru allir „reynslumiklir“ þingmenn og ég velti því fyrir mér hvort sú reynsla sé til bóta. Þeir virðast allavega eiga mjög erfitt með að bæta hegðun sína í þingsal.

Þingmenn verða að standa saman í að bæta ásýnd Alþingis. Það er ekki verkefni ríkisstjórnarinnar heldur ALLRA þingmanna. Skiptumst á skoðunum, en verum kurteis, jákvæð og málefnaleg.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Categories
Fréttir

Við munum reyna til þrautar, þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna samþykkt

Deila grein

01/07/2013

Við munum reyna til þrautar, þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna samþykkt

OLYMPUS DIGITAL CAMERAAlþingi hefur samþykkt

Þar er kveðið á um markvissar aðgerðir til þess að mæta skuldavanda íslenskra heimila, sem til er kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra húsnæðislána, sem leiddi af hruni fjármálakerfisins.

„Ég fagna því að Alþingi hafi afgreitt þingsályktunartillöguna sem gerir ráð fyrir því að með heildstæðum hætti verði nú tekið á stöðu mála varðandi skuldavanda heimila hér á landi. Nú förum við á fulla ferð á næstu vikum og mánuðum við að vinna frekar á grundvelli samþykktar Alþingis en um mjög viðamikið og brýnt málefni er að ræða. Við munum reyna til þrautar að koma fram með lausnir sem koma ekki síst til móts við skilvísa skuldara sem hafa lengi mátt búa við óréttlæti og ójafnræði“, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Frétt forsætisráðuneytisins um málið

Categories
Fréttir

Skerðingar afnumdar og frítekjumark hækkað

Deila grein

26/06/2013

Skerðingar afnumdar og frítekjumark hækkað

Eygló Þóra HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags-og húsnæðismálaráðherra, segir að nýtt frumvarp sem á að afnema skerðingar á greiðslum til lífeyrisþega, sé eitthvað sem þessum hópi hafi verið lofað. Hún segir mjög mikilvægt að taka þetta fyrsta skref núna á sumarþingi. Greiðslur um 7.000 lífeyrisþega munu hækka, frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkar verulega og lífeyristekjur munu ekki lengur skerða grunnlífeyri.
Árið 2009 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem leiddu til umtalsverðra skerðinga á kjörum aldraðra og öryrkja. Breytingarnar fólust meðal annars í því að fjármagnstekjur voru látnar skerða að fullu tekjutengdar greiðslur í stað 50% skerðingar áður og eins var frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna lækkað umtalsvert. Lífeyrissjóðstekjur voru teknar inn í útreikning við ákvörðun grunnlífeyris og gátu þannig skert grunnlifeyrinn.
Hætt verður að skerða grunnlífeyri vegna lífeyristekna
Verði frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra að lögum aukast framlög ríkisins til almannatrygginga um 850 milljónir króna á þessu ári og um 1,6 milljarða árið 2014 þegar áhrif breytinganna eru komin fram að fullu. Greiðslur hækka hjá um 7.000 lífeyrisþegum, þar af eru um 2.500 einstaklingar sem ekki hafa fengið greiðslur að undanförnu vegna tekjuskerðinga en öðlast rétt til lífeyris á ný.
Frumvarp ráðherra er fyrsta skrefið til þess að draga til baka skerðingar frá árinu 2009 í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Auk þess er hafin vinna við afnám annarra skerðinga og á það meðal annars við um lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar úr 45% í 38,35%. Heildaráhrif af væntanlegum bótahækkunum þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda árið 2014 eru áætluð um 4,6 milljarðar króna.
Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra til breytinga á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra eru þessar:

  • Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar hækkar úr 480.000 kr. á ári í 1.315.200 kr. á ári.
  • Lífeyrissjóðstekjur munu ekki lengur skerða grunnlífeyri almannatrygginga.
  • Eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar eru auknar og aðgangur stofnunarinnar að upplýsingum sem taldar eru nauðsynlegar við ákvörðun bóta er rýmkaður. Með því móti er stuðlað að því að greiðslur til lífeyrisþega verði réttari og að draga megi úr bótasvikum.
  • Hækkanir á greiðslum til lífeyrisþega samkvæmt framantöldum breytingum taka gildi 1. júlí næstkomandi og koma til framkvæmda 1. ágúst.

Alþingi:
Almannatryggingar og málefni aldraðra (Fylgjast með ferli málsins)
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum (frítekjumörk, tekjutengingar og eftirlitsheimildir). (Frumvarpið í pdf-skjali)

Fjölmiðlaumfjöllun:
Í Bítið – Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sat fyrir svörum
Eygló: Þetta er það sem við lofuðum
„Skýr skilaboð til aldraðra“
Frítekjumörk ellilífeyrisþega þrefaldist

 

Categories
Fréttir

Útvarpsþáttur um Rannveigu Þorsteinsdóttur

Deila grein

21/06/2013

Útvarpsþáttur um Rannveigu Þorsteinsdóttur

Rannveig PálsdóttirÞann 19. júní sl. var útvarpsþáttur á Rás1 um Rannveigu Þorsteinsdóttur, fyrstu þingkonu Framsóknarflokksins. Hann nefnist „Baldursbráin í hvers manns barmi“ og má finna hér: https://www.ruv.is/sarpurinn/%C2%ABbaldursbrain-i-hvers-manns-barmi%C2%BB/19062013
Í þættinum er meðal annars upptaka frá 23. febrúar sl.  en þá var haldin vegleg dagskrá um Rannveigu Þorsteinsdóttur á Hallveigarstöðum.  Þar vörpuðu fram fulltrúar félaga sem Rannveig starfaði með og var í forystu fyrir svipmyndum um hana og störf hennar: Kvenfélagssamband Íslands, Kvenstúdentafélagið, Kvenréttindafélag Íslands, Reykjavíkurklúbbur Soroptimista, UMFÍ, Lögfræðingafélagið og Glímufélagið Ármann.
 
 

Categories
Fréttir

Framsókn breytti nefndarskipan til að jafna kynjahlutföll

Deila grein

14/06/2013

Framsókn breytti nefndarskipan til að jafna kynjahlutföll

althingiGerðar voru breytingar á nefndarskipunum hjá  stjórnarflokkunum til þess að leiðrétta kynjahlutföll í fasta- og alþjóðanefndum Alþingis.

  • Allsherjar- og menntamálanefnd: Elsa Lára Arnardóttir tekur sæti í stað Willums Þórs Þórssonar.
  • Efnahags- og viðskiptanefnd: Willum Þór Þórsson verður 2. varaformaður í stað Páls Jóhanns Pálssonar, Líneik Anna Sævarsdóttir tekur sæti í stað Páls Jóhanns Pálssonar. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tekur sæti í stað Brynjars Níelssonar.
  • Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd: Willum Þór Þórsson tekur sæti í stað Líneikar Önnu Sævarsdóttur.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd: Brynjar Níelsson tekur sæti í stað Ragnheiðar Ríkharðsdóttur.
  • Velferðarnefnd: Páll Jóhann Pálsson tekur sæti í stað Elsu Láru Arnardóttur.
  • Íslandsdeild Evrópuráðsins: Unnur Brá Konráðsdóttir tekur sæti varamanns í stað Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.
  • Íslandsdeild þings ÖSE: Guðlaugur Þór Þórðarson tekur sæti varamanns í stað Unnar Brár Konráðsdóttur.

Var þetta tilkynnt við upphaf þingfundar í gær, 13. júní.

Categories
Fréttir

Jómfrúrræður þingmanna

Deila grein

14/06/2013

Jómfrúrræður þingmanna

IMG_0021Nýir þingmenn Framsóknar hafa verið að stíga í ræðustól Alþingis og flytja sínar fyrstu ræður en þær eru gjarnan kallaðar jómfrúrræður.
Á þessu er þó ein undantekning á þinghópnum. En það er Sigrún Magnúsdóttir er flutti sína jómfrúrræðu fyrir 31 ári síðan þegar hún tók sæti sem varaþingmaður.
Hægt er að smella á nöfn þingmanna hérna fyrir neðan til þess að horfa á/lesa jómfrúrræðu viðkomandi þingmanns.
 
Elsa Lára Arnardóttir
Frosti Sigurjónsson
Haraldur Einarsson
Jóhanna María Sigmundsdóttir (á eftir að flytja sína fyrstu ræðu)
Karl Garðarsson
Líneik Anna Sævarsdóttir
Páll Jóhann Pálsson
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Willum Þór Þórsson
Þorsteinn Sæmundsson
Þórunn Egilsdóttir
 
 

Categories
Fréttir

Baldursbráin í hvers manns barmi

Deila grein

13/06/2013

Baldursbráin í hvers manns barmi

rannveigÞann 19. júní næstkomandi verður útvarpsþáttur á Rás1 um Rannveigu Þorsteinsdóttur, fyrstu þingkonu Framsóknarflokksins
Þátturinn hefst kl 13:00 og heitir “Baldursbráin í hvers manns barmi”
Í þættinum verður meðal annars upptaka frá 23. febrúar sl.  en þá var haldin vegleg dagskrá um Rannveigu Þorsteinsdóttur á Hallveigarstöðum.  Þar vörpuðu fram fulltrúar félaga sem Rannveig starfaði með og var í forystu fyrir svipmyndum um hana og störf hennar: Kvenfélagssamband Íslands, Kvenstúdentafélagið, Kvenréttindafélag Íslands, Reykjavíkurklúbbur Soroptimista, UMFÍ, Lögfræðingafélagið og Glímufélagið Ármann.
 
Hægt er að sjá myndir af viðburðinum hér

Categories
Fréttir

Aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimila

Deila grein

12/06/2013

Aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimila

frambjodendurFram er komin á Alþingi aðgerðaáætlun í tíu liðum til þess að taka á skuldavanda heimila á Íslandi. Hún tiltekur markvissar aðgerðir til að taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er tilkominn af hinni ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010. Um er að ræða almennar aðgerðir óháðar lántökutíma með áherslu á jafnræði og skilvirkni úrræða.
Nokkrir af þeim þáttum sem nauðsynlegt er að horfa til við útfærslu og framkvæmd tillagna um skuldaleiðréttingu eru:

  • Kostnaður við aðkomu ríkissjóðs.
  • Peningamagn í umferð og áhrif á verðbólgu.
  • Áhrif á fjármálakerfið.
  • Kostnaður fjármálakerfisins við framkvæmd tillagnanna.

Gert er ráð fyrir að ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna hafa eftirlit með verkefninu í heild en einstakir ráðherrar sem eiga sæti í henni beri ábyrgð á tilteknum aðgerðum. Við vinnuna verður lögð áhersla á að leita eftir víðtækri sátt um þær leiðir sem farnar verða til að ná því markmiði að leysa skuldavanda íslenskra heimila.
Aðgerðirnar eru annars vegar beinar og snúast um framlagningu frumvarpa á næstu vikum og mánuðum og hins vegar tímasettar athuganir sem miða að því að skila skýrum aðgerðaáætlunum í kjölfar greininga sérfræðinga á þeim leiðum sem mögulegar eru til þess að ná því marki að leiðrétta forsendubrestinn sem varð með hruni fjármálakerfisins.
Hér er tillagan í heild sinni, adgerdir-vegna-skuldavanda-heimila.