Categories
Fréttir

Afnám verðtryggingar – opinn fundur

Deila grein

13/02/2014

Afnám verðtryggingar – opinn fundur

Opinn fundur um niðurstöður verðtryggingarnefndar í Framsóknar-salnum í Kópavogi Digranesvegi 12 laugardaginn 15. febrúar kl. 11.00. Frummælendur verða Ingibjörg Ingvadóttir og Vilhjálmur Birgisson. Auk þeirra verða þeir Frosti Sigurjónsson og Willum Þór Þórsson alþingismenn í pallborði að loknum framsögum.
 
framsokn-auglysing-verdtrygging

Categories
Fréttir

„Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna 6,9 milljarðar – tæpar 7 þús. milljónir“

Deila grein

13/02/2014

„Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna 6,9 milljarðar – tæpar 7 þús. milljónir“

Í störfum þingsins í gær, miðvikudag, tóku Jóhanna María, Willum og Vigdís til máls. Vigdís fór m.a. yfir hvað það eru orðnar „óheyrilegar upphæðir sem lífeyrissjóðirnir taka í rekstrarkostnað, sérstaklega í ljósi þess að launþegar eiga sjóðina“ og ekki eru þeir ofaldnir.
Jóhanna María Sigmundsdóttir: ræddi framtíð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og áhyggjur fólks af framtíðarskipan hans. Ekki er hægt að skera meira niður innan stofnunarinnar án þess að það komi niður á náminu eða komi til algjörrar uppstokkunar á starfsemi skólans. „Við sem sinnum hlutverki stjórnvalda þurfum að svara kalli starfsmanna og nemenda skólans, byggðarinnar á Hvanneyri og fólksins í Borgarfirði. Við þurfum að taka af vafann með hag Landbúnaðarháskólans fyrir brjósti og sækja fram.“

 
Willum Þór Þórsson: ræddi fyrirhugað afnám verðtryggingar á neytendalánum. „Verðtryggð neytendalán eru hluti af tilbúnu kerfi þar sem neytendur taka langvarandi kostnað á sig tengdan almennum verðlagsbreytingum í skiptum fyrir lægri greiðslubyrði en borga á endanum fasteignir sínar of dýru verði.“ Og síðar sagði hann: „Tækifærið er núna. Það er einsýnt þessu samkvæmt að fara verður í skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar samhliða.“

 
Vigdís Hauksdóttir: fór yfir ævintýralegar fréttir af lífeyrissjóðum landsmanna. Á fundi þingmanna með stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða „kom fram að 0,26% af heildareignum lífeyrissjóðanna eru rekstrarkostnaður. Heildareignir lífeyrissjóðanna er 2.656 milljarðar og gerir því rekstrarkostnaðurinn 6,9 milljarða, tæpar 7 þús. milljónir.“ Síðar sagði hún: „Vilhjálmur Birgisson, sem minnst var á hér áðan, verkalýðsforingi af Akranesi, hefur sett fram á bloggsíðu sinni að þetta sé samanlögð sú upphæð sem fer í lögreglu og landhelgisgæslu samkvæmt fjárlögum 2014.“

 

Categories
Fréttir

Formaður Framsóknar tekur á móti háskólanemum frá Akureyri

Deila grein

13/02/2014

Formaður Framsóknar tekur á móti háskólanemum frá Akureyri

IMG_4824Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, tók á móti yfir 100 nemendum frá Háskólanum á Akureyri (HA) í vísindaferð s.l. laugardag. Móttakan fór fram í Framsóknarhúsinu við Hverfisgötu og eru myndir frá móttökunni hér.

Categories
Greinar

Karlar geta allt!

Deila grein

13/02/2014

Karlar geta allt!

Eygló HarðardóttirHefur ljósfaðir tekið á móti barninu þínu? Hversu líklegt er að karl taki á móti barninu þínu í leikskólanum? Eða í grunnskólanum?

Ekki sérlega líklegt, segja tölurnar okkur. Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur og endurspegla tölur frá menntastofnunum á framhalds- og háskólastigi kynbundið námsval ungmenna. Enginn karl hefur útskrifast með menntun ljósmóður á Íslandi. Aðeins 2% félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eru karlar, 12% starfandi félagsráðgjafa og hlutfall karla af heildarfjölda nemenda í kennaradeild menntavísindasviðs HÍ er innan við 20%.

Í störfum kennara, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga er þjónusta við almenning ríkur þáttur starfsins og snertir því stráka og stelpur, karla og konur. Því er mikilvægt að þjónustan taki mið af báðum kynjum og starfsumhverfið sé aðlaðandi vettvangur fyrir einstaklinga óháð kyni. Ástæður fyrir námsvali ungmenna eru vísast jafn ólíkar og þær eru margar. Staðalmyndir um það hvað sé æskilegt starfsval fyrir konur og karla virðast hins vegar enn vera ráðandi og sýna tölurnar að karlar eiga enn langt í land hvað varðar jafna þátttöku á við konur í umönnunar- og kennslustörfum.

Rannsóknir sýna að þegar annað kynið er í miklum meirihluta í ákveðinni stétt er eins og varnargarðar hafi verið reistir utan um viðkomandi stétt sem virkar hamlandi á hitt kynið. Þannig verður það nær óyfirstíganlegt fyrir einstakling af hinu kyninu að velja sér það nám og starf sem hugur þeirra og hæfileikar standa til. Einstaklingarnir fá ekki að njóta sín og samfélagið líður fyrir.

Eitt verkefna aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti er að stuðla að aðgerðum sem draga úr kynjaskiptingu starfa. Engin ein aðgerð er talin líklegri til að minnka launamun karla og kvenna en uppbrot hins kynskipta vinnumarkaðar. Það staðfesta bæði innlendar og erlendar rannsóknir. Aðgerðahópurinn efnir því til opins umræðufundar þar sem rætt verður um mögulegar leiðir til að fjölga körlum í umönnunar- og kennslustörfum á Grand Hóteli Reykjavík, 13. febrúar.

Brjótum upp hinn kynbundna vinnumarkað og sýnum að karlar geta allt!

 

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Norrænt samstarf í öryggismálum

Deila grein

12/02/2014

Norrænt samstarf í öryggismálum

Gunnar Bragi SveinssonNorræn samvinna byggir á gömlum merg en á síðustu árum hefur samstarfi í utanríkis- og öryggismálum vaxið fiskur um hrygg. Í þessu sambandi mörkuðu skýrsla Thorvalds Stoltenbergs um aukið samstarf landanna á þessu sviði og norræn samstöðuyfirlýsing um gagnkvæma aðstoð á hættu- og neyðartímum tvímælalaust þáttaskil.

Það fer vel á því að í dag hittist utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar Norðurlandanna í Keflavík á sama tíma og flugsveitir Norðmanna, Svía og Finna stunda æfingar á Íslandi. Æfingarnar byggja á tillögum Stoltenbergs um norræna loftrýmisgæslu og gefa þátttökulöndunum tækifæri til að samhæfa aðgerðir og efla tengslin sín á milli. Þannig styrkja Norðurlöndin samvinnu sína á heimaslóð en efla jafnframt getu sína til að starfa saman í alþjóðlegum verkefnum.

Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin gegna lykilhlutverki í varnarmálum Íslands. Norræna samstarfið er mikilvæg viðbót vegna þess að það nær til margra og ólíkra áhættuþátta, m.a. hernaðarógna, skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka, umhverfisöryggis og netöryggis, svo fátt eitt sé nefnt. Samstarf og æfingar með grannríkjunum gera okkur betur í stakk búin til að vinna með frændþjóðunum og styrkir jafnframt staðarþekkingu erlendu gestanna en hvort tveggja getur reynst mikilvægt ef hætta steðjar að.

Dagskrá ráðherrafundarins í dag endurspeglar þessa auknu breidd í samvinnu landanna. Við munum ræða framtíðarþróun norræna samstarfsins, öryggishorfur á norðurslóðum, verkefni Atlantshafsbandalagsins og hvernig Norðurlöndin geta í sameiningu lagt sín lóð á vogarskálar alþjóðlegrar friðaruppbyggingar.

 

Gunnar Bragi Sveinsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. febrúar 2014.)

Categories
Fréttir

„Leyft sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er“

Deila grein

12/02/2014

„Leyft sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er“

Þingmenn Framsóknar slógu ekki slöku við í ræðustól Alþingis í gær þriðjudag og tóku upp hin ýmsu mál til umfjöllunar líkt og sjá má hér að neðan. Flutti m.a. Fjóla Hrund Björnsdóttir jómfrúarræðu sína og ræddi hugmynd um að leyft sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er, enda hafi það reynst vel í þeim löndum þar sem það sé leyfilegt.
Jóhanna María Sigmundsdóttir: „Síðustu vikur hefur verið mikið rætt um sýklalyf og áhrif þess á menn og dýr. Þetta er þörf umræða og ég hef lengi haft áhyggjur af því í hvað stefnir í þessum málum. Í Bændablaðinu fyrir um þremur vikum var góð samantekt á samspili sýklalyfja og matvæla. Það er áhugavert að skoða þessa umfjöllun um notkun sýklalyfja í samhengi við vaxandi kröfur hagsmunaaðila í verslunum á Íslandi sem eru að stórauka innflutning og losa um skilyrði er varða bæði frosið og ferskt kjöt frá Evrópu.“

 
Silja Dögg Gunnarsdóttir: „Atvinnuleysisdraugurinn hefur gert Suðurnesjamönnum lífið leitt um langa hríð. Nú hillir undir jákvæðar breytingar í þeim efnum. Ýmis atvinnuverkefni eru í undirbúningi og önnur eru nú þegar farin af stað. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði til dæmis fyrir skömmu fjárfestingarsamning við forsvarsmenn líftæknifyrirtækisins Algalíf. Algalíf er staðsett í Reykjanesbæ og framleiðir örþörunga. Úr þeim er unnið virka efnið astaxanthin. Það er sterkt andoxunarefni sem notað er í fæðubótarefni og vítamínblöndur auk þess að vera neytt sérstaklega í hylkjaformi.“

 
Willum Þór Þórsson: „Samtökin Regnbogabörn hafa verið lögð niður. Það hefur ekki farið fram hjá okkur. Það hefur verið greint frá því í flestum miðlum undanfarna daga. Ástæðan er hefðbundin: Peningaskortur og enginn opinber stuðningur. Viðbrögðin eru sterk. Fólk tjáir sig meðal annars á fésbókarsíðu samtakanna og finnst fréttirnar hræðilegar og sorglegar. Viðbrögðin eru kannski ekki víðtæk en þau eru sterk. Einstaklingar þakka samtökunum bætt líf, hjálp við að komast út úr sálrænni áþján þunglyndis og hryllilegum afleiðingum eineltis.“

 
Þorsteinn Sæmundsson: „Fyrir um það bil þremur vikum fór fram hér í þingsal mjög góð umræða, sérstök umræða, um verslun og viðskipti í landinu og vöruverð og þar á meðal þá staðreynd að þrátt fyrir verulega styrkingu krónunnar undanfarin ár hefur verð á innfluttum vörum ekki lækkað. Umræðan var mjög góð og þörf en svo vill til að hennar var hvergi getið í nokkrum einasta fjölmiðli á Íslandi, það heyrðist ekki tíst um þessa umræðu. Ég velti fyrir mér af hverju. Meira að segja á RÚV, sem kallar sig fjölmiðil í almannaþágu, var ekki bofs um þetta mál. Ég velti fyrir mér hvort Ríkisútvarpið telji að umræða um hátt verð á innfluttum vörum, og það að þær lækki ekki þegar krónan styrkist, sé ekki frétt sem eigi erindi við almenning.“

 
Karl Garðarsson: „Flokksráðsfundur vinstri grænna um helgina sendi frá sér merkilega ályktun sem ég held að eigi erindi við alla. Með leyfi forseta, langar mig að lesa hana og er þetta ekki löng lesning.“

 
Fjóla Hrund Björnsdóttir: „Mikilvægt er að halda umferðinni gangandi og að umferðarmannvirki standist tímans tönn. Nú til dags þegar aukning á bílum á götum borgarinnar fer sífellt vaxandi og umferðin verður sífellt þyngri er rétt að leita leiða til að láta umferðina ganga betur en hún gerir.“

 
Haraldur Einarsson: „Ég vil nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Fjólu Hrund Björnsdóttur sem sagði í jómfrúrræðu sinni áðan að leyfa ætti hægri beygjur á rauðu ljósi. Ég hef velt þessu fyrir mér í talsverðan tíma og komist að sömu niðurstöðu og hv. þingmaður. Efasemdaraddir geta að sjálfsögðu vaknað og eru skiljanlegar.“

 

Categories
Fréttir

Aðalfundur Framsóknarfélags Reykjavíkur

Deila grein

11/02/2014

Aðalfundur Framsóknarfélags Reykjavíkur

logo-framsokn-gluggiAðalfundur Framsóknarfélags Reykjavíkur verður haldinn miðvikudaginn 19. febrúar í Framsóknarhúsinu að Hverfisgötu 33, 3. hæð, í Reykjavík, kl. 19.30.
Dagskrá:
1. Fundarsetning.
2. Tilnefning eða kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Formaður gefur skýrslu um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.
4. Gjaldkeri flytur skýrslu um fjárhag félagsins og leggur fram endurskoðaða reikninga.
5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
6. Reikningar bornir upp til samþykktar.
7. Lagabreytingar, löglega fram bornar.
8. Kosin stjórn félagsins:

8.1.  Formaður.
8.2.  Varaformaður.
8.3.  5 (fimm) meðstjórnendur.
8.4.  2 (tveir) menn í varastjórn.
8.5.  Kosnir 2 (tveir) skoðunarmenn reikninga.
8.6.  Kosnir 2 (tveir) skoðunarmenn reikninga til vara
8.7.  Kosnir fulltrúar á kjördæmisþing KFR.

9. Önnur mál.
10. Fundarslit.
Framboð til þeirra trúnaðarstarfa sem kosið er um á aðalfundi skulu berast stjórn eigi síðar en 3 sólarhringum fyrir aðalfund. Framboð síðar fram komin skulu einungis tekin gild sé ekki neitt framboð í umrædda ábyrgðarstöðu, sbr. 5.4 í lögum félagsins.
Flokksfélagar eru hvattir til að fjölmenna á aðalfundinn.
*****
Úr lögum Framsóknarfélags Reykjavíkur:
5. gr. Boðun, lögmæti og seturéttur.
5.1. Boða skal til aðalfundar með minnst viku fyrirvara á sannanlegan hátt. Í fundarboði skal getið dagskrár.
5.2. Aðalfundur er löglegur sé löglega boðað til hans.
5.3. Seturétt á aðalfundi með fullum atkvæðisrétti hafa þeir félagar, sem skráðir eru í félagið a.m.k. þrjátíu dögum fyrir aðalfund samkvæmt félagatali á skrifstofu flokksins og hafa lögheimili í Reykjavík. Allir félagar í Framsóknarfélagi Reykjavíkur hafa seturétt á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt.
5.4. Framboð til þeirra trúnaðarstarfa sem kosið er um á aðalfundi skulu berast stjórn eigi síðar en 3 sólarhringum fyrir aðalfund. Framboð síðar fram komin skulu einungis tekin gild sé ekki neitt framboð í umrædda ábyrgðarstöðu.
5.5. Fulltrúar á kjördæmisþing KFR skulu hafa greitt félagsgjöld FR fyrir yfirstandandi ár og vera með lögheimili í Reykjavík.
*****
STJÓRN FRAMSÓKNARFÉLAGS REYKJAVÍKUR

Categories
Greinar

Lífhagkerfið – dýrmæt auðlind

Deila grein

09/02/2014

Lífhagkerfið – dýrmæt auðlind

Sigurður Ingi JóhannssonÍsland er með formennsku í samstarfi Norðurlandanna árið 2014. Samkvæmt venju hafa verið skipulögð ákveðin formennskuverkefni og hafa þrjú ráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunar-, umhverfis- og auðlinda- og mennta- og menningarmálaráðuneyti, sameinast um framkvæmd forgangsverkefnis sem kallað er Norræna lífhagkerfið og fengið hefur vinnuheitið NordBio. Verkefninu er ætlað að standa yfir í þrjú ár.

Í dag boðar íslenska verkefnisstjórnin til opnunarfundar um NordBio í Norræna húsinu í Vatnsmýrinni. Þar munu koma saman um 100 manns frá Norðurlöndunum, að meðtöldum sjálfstjórnarsvæðum, og ræða framkvæmd verkefnisins.

Í NordBio endurspeglast norræn samvinna eins og hún gerist metnaðarfyllst. Verkefnið sameinar krafta sérfræðinga, stofnana og fyrirtækja sem starfa á sviði lífrænna auðlinda.

Því er ætlað styrkja norrænt atvinnulíf og bæta umhverfislegan, hagrænan og félagslegan afrakstur af nýtingu auðlinda úr lífríkinu, bæði til lands og sjávar. Þá er því einnig ætlað að styrkja byggðaþróun, þekkingarlegan grunn að stefnumörkun í atvinnulífinu og umhverfismálum með því að efla samstarf á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar í lífhagkerfinu. NordBio er ennfremur ætlað að leggja bættan grunn að orkuvinnslu, fæðuöryggi og lýðheilsu og opna norrænni framleiðslu aðgang að mörkuðum sem komi til góða vaxandi fólksfjölda í heiminum.

Hugmyndafræðin bak við NordBio-verkefnið tengist vel við opinbera stefnumótun íslenskra stjórnvalda, eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og Byggðaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi.

Ljóst er að lífrænar auðlindir eru ein helsta undirstaða velferðar á Íslandi sem og hjá hinum norrænu ríkjunum. Mikil verðmæti eru falin í lífrænum auðlindum landanna og löndin hafa góðar forsendur til að ryðja brautina í varðveislu og bættri nýtingu þeirra og er verkefninu meðal annars ætlað að tryggja Norðurlöndunum leiðandi hlutverk á þessu sviði. Til marks um áhuga annarra þjóða á verkefninu má nefna að samtök á vegum Breska samveldisins munu eiga áheyrnarfulltrúa á fundinum.

Það er von mín að formennska Íslands á þessum vettvangi verði til þess að opna augu fólks fyrir þessari miklu og dýrmætu auðlind, sem lífhagkerfið er.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. febrúar 2014)

Categories
Greinar

Þarf fjórðungur stúlkna aðstoð vegna þunglyndis eða kvíða?

Deila grein

06/02/2014

Þarf fjórðungur stúlkna aðstoð vegna þunglyndis eða kvíða?

Karl GarðarssonSpurningin vaknar í kjölfar könnunar sem Þjónustumiðstöð Breiðholts gerði í 9. bekk í grunnskólum hverfisins árið 2012. Könnunin leiddi í ljós að 26,2% stúlkna voru yfir viðmiðunarmörkum vegna kvíða 2012. Hlutfallið hafði lækkað í 15,5% á síðasta ári. Þá mældust 12,6% stúlkna vera yfir viðmiðunum vegna þunglyndis 2012. Hlutfallið hafði lækkað í 10,2% 2013. Það gæti meðal annars verið vegna þess að gripið var inn í þau tilfelli sem komu upp og rætt við nemendur og foreldra og bent á úrræði til hjálpar.

Það breytir hins vegar ekki stóru myndinni að heildartölurnar eru áhyggjuefni og vekja upp spurningar um geðheilbrigði þeirrar kynslóðar sem nú er að vaxa úr grasi.

Vandamálið virðist vera til staðar og nauðsynlegt fyrir borgaryfirvöld og stjórnvöld að bregðast skjótt við. Athygli vekur að mun lægri tölur mælast hjá drengjum í Breiðholtinu. Aðeins 4,1% þeirra var yfir viðmiðunarmörkum þegar kom að kvíða 2009 en 1,9% 2013. Þá voru 6,8% yfir mörkum vegna þunglyndis 2009 og 3,9% á síðasta ári.

Niðurstöður og umræður úr ýmsum könnunum um líðan skólabarna hafa verið birtar að undanförnu. Setja þarf spurningarmerki við margar þeirra, enda skortir oft upp á faglega nálgun á viðfangsefnið.

Átak á landsvísu
Könnunin í Breiðholti er hluti af svokölluðu Breiðholtsmódeli, sem þróast hefur í hverfinu á síðustu sjö árum. Þetta módel byggist meðal annars á því að reynt er að greina vandann eins fljótt og hægt er og veita síðan bestu mögulega þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Þá sinna sálfræðingar bráðamálum sem koma upp. Hönnuð hafa verið sérstök námskeið þar sem boðið er upp á fyrstu inngrip við uppeldis- og tilfinningavanda og eru þau hluti af þeim úrræðum sem boðið er upp á í Breiðholti. Námskeiðin eru ætluð foreldrum og börnum og þau ná allt niður til foreldra 3ja ára barna sem eru í áhættuhópi. Góð samvinna er við geðdeild Landspítala, BUGL og fleiri aðila.

Niðurstaða vinnulags Þjónustumiðstöðvar Breiðholts gefur tilefni til að staldra við. Hún bendir til mjög vaxandi tilfinningavanda unglinga á árunum eftir kreppu. Sú niðurstaða þarf ekki að koma á óvart í ljósi reynslu annarra þjóða, t.d. Finnlands, en Finnar glímdu við alvarlegar afleiðingar kreppu, sem birtist m.a. í auknum tilfinningavanda barna.

Nauðsynlegt er að ráðast í átak á landsvísu með því markmiði að skima fyrir tilfinningavanda unglinga og bjóða þeim sem þurfa viðeigandi hjálp. Það er fjárfesting til framtíðar.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 6. febrúar 2014.)

Categories
Fréttir

Bætt kjör námsmanna á oddinn

Deila grein

05/02/2014

Bætt kjör námsmanna á oddinn

Stjorn-SUF-2014Á 39. Sambandsþingi Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) sem haldið er um helgina á Hótel Selfossi var Helgi Haukur Hauksson kjörinn nýr formaður sambandsins. Helgi tekur við af Hafþóri Eide Hafþórssyni sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Helgi Haukur er 29 ára gamall nemi við Háskólann á Bifröst.
Jafnframt var kjörin ný 12 manna stjórn SUF, hana skipa:
Alex Björn Bülow
Kjartan Þór Ingason
Davíð Freyr Jónsson
Ásta Hlín Magnúsdóttir
Kristjana Louise
Páll Maris Pálsson
Ágúst Bjarni Garðarsson
Sóley Þrastardóttir
Fjóla Hrund Björnsdóttir
Einar Freyr Elínarson
Jónína Berta Stefánsdóttir
Heiðrún Sandra Grettisdóttir
Varastjórn skipa:
Sandra Rán Ásgrímsdóttir
Sigurjón Nordberg Kjærnested
Marteinn Eyjólfur Sigurbjörnsson
Steinunn Anna Baldvinsdóttir
Gissur Kolbeinsson
Diljá Helgadóttir
Ísak Traustason
Elka Hrólfsdóttir
Magnús Arnar Sigurðsson
Tanja Kristmannsdóttir
Hafþór Eide Hafþórsson
Hulda Margrét Birkisdóttir
Ungir Framsóknarmenn vilja bæta kjör námsmanna
Á þinginu voru lagðar línur og áherslur fyrir komandi starfsár. Mikil umræða var um kjör námsmanna á þinginu og stóð vilji fundarmanna til að forysta sambandsins myndi leggja mikla áherslu á að bæta kjör námsmanna hið fyrsta. Umræða um hækkun frítekjumarks námslána var hávær og ljóst að ungir framsóknarmenn telja að það geti verið ein skilvirkasta leiðin til að bæta kjör námsmanna.
Hér eru ályktanir frá þinginu.