Categories
Fréttir Greinar

Verkin og vinnusemin tala sínu máli

Deila grein

03/11/2024

Verkin og vinnusemin tala sínu máli

Ég hef hrifist af þeim fjölmörgu verkum sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur komið til leiða á undanförnum árum til að efla menningu og skapandi greinar á Íslandi, ásamt viðurkenningunni á að um sé að ræða alvöru atvinnugreinar sem skila verulegum efnahagslegum áhrifum til samfélagsins líkt og nýlegar úttektir á hafa staðfest. Það er frábært að eiga menningarmálaráðherra sem tilbúin að taka slaginn í þágu menningarmála, standa með menningunni í blíðu jafnt sem stríðu eins og í heimsfaraldrinum, og er tilbúin að bretta upp ermar og koma hlutum í verk líkt og listinn hér að neðan er til vitnis um, en hann er langt í frá tæmandi.

Taktfastari tónlistarumhverfi

Ný tónlistarstefna til ársins 2030 markaði vatnaskil fyrir umhverfi tónlistar á Íslandi, þar sem hlúð er meðal annars að tónlistarmenntun og markvissum útflutningi á íslenskri tónlist. Ný heildarlög um tónlist urðu að veruleika og langþráð Tónlistarmiðstöð sömuleiðis. En hlutverk hennar er að stuðla að og styðja við samstarf milli tónlistarfólks, menntastofnana og atvinnulífsins, með það að markmiði að auka samkeppnishæfni og sýnileika íslenskrar tónlistar bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Nýr og öflugri Tónlistarsjóður leikur þar lykilhlutverk sem er hluti af þessum breytingum.

Kvikmyndagerð á Íslandi orðin heilsársatvinnugrein

Það hefur nánast verið lygilegt að fylgjast með þeim mikla krafti sem hefur ruðst fram umliðnum árum í kvikmyndagerð á Íslandi víða um land. Ný kvikmyndastefna til ársins 2030 hefur eflt umhverfi kvikmyndagerðar hér á landi til muna og velta stóraukist. Endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð var hækkað úr 25% í 35%. Fyrstu kvikmyndadeild landsins á háskólastigi við Listaháskóla Íslands var komið á laggirnar og framlög til náms í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi voru hækkuð. Starfslaunasjóður kvikmyndahöfunda verður að veruleika á næsta ári eftir breytingar á lögum um starfslaun listamanna og unnið er að menningarframlagi streymisveitna sem er ætlað að efla innlenda kvikmyndagerð svo dæmi séu tekin. Það hefur síðan líka bara verið gaman að sjá svo mikið af hæfileikaríku fólki hérlendis getað unnið allt árið um kring í kvikmyndagerð og tengdum greinum.

Bókaþjóðin

Að sama skapi hefur verið hrint til framkvæmdar aðgerðum til þess að efla bókmenntaumhverfið hér á landi. 25% endurgreiðslur vegna bókaútgáfu á íslensku hafa skipt þar sköpum, styrking listamannalauna, efling bókasafna og stofnun barna- og ungmennabókasjóðs eru dæmi um aðgerðir sem ráðist hefur verið í. Þá mun ný bókmenntastefna til ársins 2030 varða leiðina lengra fram á við en meginmarkmið hennar er að stuðla að sköpun á íslensku, aðgengi að fjölbreyttu efni á og treysta með því stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu ásamt því að auknum lestur sem víðast í samfélaginu, með sérstakri áherslu á unga lesendur.

Ofangreind atriði eru dæmi um verulegar breytingar á umgjörð menningarmála sem ráðist hefur verið í. Sem reyndur umboðsmaður sem hefur séð tímanna tvenna í þessum bransa get ég ekki annað en glaðst, enda grundvallast sjálfsmynd okkar að stórum hluta á menningu okkar og tungu og það skiptir því máli að hlúa að þeim af einhverri alvöru, en ekki mæta bara í partýin þegar vel gengur. Til gamans má beitti Lilja sér líka af fullum þunga fyrir því að ChatGPT tali íslensku með snilldarbrag. 12 stig á það.

Hún kynnti myndlistarstefnu til 2030 og stofnaði nýja myndlistarmiðstöð sem hefur stærra hlutverk innanlands. Einnig var sviðslistamiðstöð stofnuð og unnið að sviðslistastefnu til 2030.

Lilja lagði einnig fram frumvarp um Þjóðaróperu fyrir Alþingi og tryggði fyrsta kjarasamninginn fyrir danshöfunda í Þjóðleikhúsinu. Hún hefur stutt við starfsemi Íslenska dansflokksins og aðstöðu sjálfstæðra sviðslistahópa í Reykjavík.

Á sviði kvikmynda kynnti hún kvikmyndastefnu til 2030 og lagði frumvarp um menningarframlag streymisveitna til að styrkja kvikmyndasjóð. Endurgreiðsla til stærri kvikmyndaverkefna hækkaði í 35%, og nýr styrkjaflokkur fyrir sjónvarpsefni var stofnaður innan kvikmyndasjóðs.

Lilja hefur einnig unnið að því að efla menningu og skapandi greinar um allt land, með áherslu á að tryggja aðgengi að listsköpun og menningu fyrir alla. Hún hefur lagt áherslu á jafnrétti í lista- og menningarstarfi, og að styðja listsköpun fatlaðs fólks.

Með þessum aðgerðum hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir stuðlað að vexti og þróun menningar og skapandi greina á Íslandi, sem hefur jákvæð áhrif á samfélagið í heild.

Einar Bárðarson, skipar 2. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hagvöxtur, lækkun skulda og húsnæðismarkaðurinn

Deila grein

03/11/2024

Hagvöxtur, lækkun skulda og húsnæðismarkaðurinn

Heims­hag­kerfið hef­ur sýnt um­tals­verðan viðnámsþrótt, þrátt fyr­ir óvenju­mikla áraun síðustu ár. Fremst ber þar að nefna far­sótt og stríðsrekst­ur í Evr­ópu. Því til viðbót­ar hafa vax­andi viðskipta­deil­ur á milli stærstu efna­hags­kerf­anna markað mik­il um­skipti á gang­verki heimsviðskipta. Ísland er að mörgu leyti í góðri stöðu. Mik­ill hag­vöxt­ur, hátt at­vinnu­stig, sterk er­lend staða þjóðarbús­ins og verðbólg­an fer nú lækk­andi. Stærsta viðfangs­efni hag­stjórn­ar­inn­ar á næst­unni verður að lækka hinn háa fjár­magns­kostnað sem hef­ur verið ein­kenn­andi fyr­ir ís­lenska hag­kerfið. For­send­ur eru að skap­ast fyr­ir lækk­un vaxta og þar af leiðandi fjár­magns­kostnaðar vegna auk­ins sparnaðar. Mik­il­vægt er að hag­stjórn­in styðji við áfram­hald­andi hag­vöxt, lækk­un skulda og að ná mun betri tök­um á hús­næðismarkaðnum.

Hag­vöxt­ur for­senda vel­ferðar

Hag­vöxt­ur er viðvar­andi aukn­ing efna­hags­legr­ar hag­sæld­ar sem mæld er í heild­ar­fram­leiðslu á vör­um og þjón­ustu í hag­kerf­inu. Hag­vöxt­ur skipt­ir miklu máli til að auka vel­ferð þjóða. Hag­vöxt­ur á Íslandi hef­ur á síðustu ára­tug­um verið þrótt­mik­ill og at­vinnu­leysi lítið. Hag­vöxt­ur síðustu fimm ár hef­ur að meðaltali verið rúm 2,5% og fjöldi nýrra starfa hef­ur orðið til á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins. Til sam­an­b­urðar hef­ur hag­vöxt­ur í Banda­ríkj­un­um verið 2% og á evru­svæðinu 1%. Flest ríki vilja vera í stöðu Íslands, þar sem hag­vaxt­ar­horf­ur eru góðar. Lyk­ill­inn að slíku um­hverfi er að sam­keppn­is­staða at­vinnu­lífs­ins sé sterk og um­gjörðin traust og fyr­ir­sjá­an­leg. Fram­sókn horf­ir til þess að auka tekju­öfl­un rík­is­ins með aukn­um vexti og verðmæta­sköp­un frem­ur en með auk­inni skatt­heimtu á fólk og fyr­ir­tæki. Horfa þarf til þess að fjölga enn stoðum hag­kerf­is­ins, en á und­an­förn­um ára­tug­um hef­ur þeim fjölgað úr einni í fjór­ar. Það þarf áfram að horfa til skap­andi greina og hug­vits til að tryggja vax­andi hag­sæld. Í því sam­hengi skipt­ir meðal ann­ars sköp­um að fyr­ir­sjá­an­leg, fjár­mögnuð og skil­virk hvata­kerfi til auk­inn­ar verðmæta­sköp­un­ar verði fest í sessi og má þar nefna end­ur­greiðslur vegna rann­sókna, þró­un­ar og kvik­mynda­gerðar. Það er þó ekki síður mik­il­vægt að styðja áfram vöxt þeirra at­vinnu­greina sem fyr­ir eru, enda hafa þær lagt grunn­inn að ein­um bestu lífs­kjör­um meðal ríkja heims. Stærð og gerð hag­kerf­is­ins ger­ir það að verk­um að ut­an­rík­is­viðskipti eru afar mik­il­væg og tryggja þarf sam­keppn­is­hæfni at­vinnu­veg­anna í sam­an­b­urði við helstu viðskipta­lönd. Áhersla skal lögð á virka þátt­töku í alþjóðastofn­un­um og að rækta sam­bönd við ná­granna­lönd­in beggja vegna Atlantsála.

Áfram­hald­andi lækk­un skulda

Fram­sókn hef­ur lagt mikla áherslu á lækk­un skulda rík­is­sjóðs og ber aðhalds­samt fjár­laga­frum­varp þess merki. Ein stór breyta í því að lækka verðbólgu er að rík­is­fjár­mál­in styðji við pen­inga­stefnu, en það er kjarn­inn í svo­kallaðri rík­is­fjár­mála­kenn­ingu, sem geng­ur út á að verðþróun hag­kerf­is­ins ráðist af stefnu stjórn­valda í op­in­ber­um fjár­mál­um. Sam­kvæmt þess­ari kenn­ingu hef­ur rík­is­fjár­mála­stefna, þar með talið út­gjalda- og skatta­stefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á rík­is­rekstri ætti að leiða til lægra raun­vaxta­stigs, sem ætti síðan að ýta und­ir meiri fjár­fest­ing­ar. Þar með verða til aukn­ar fjár­magn­s­tekj­ur, sem mynd­ast við meiri fjár­fest­ingu, sem er ein helsta upp­spretta fram­leiðni vinnu­afls. Þetta skap­ar svo grunn­inn að hærri raun­laun­um og þannig má segja að minni fjár­laga­halli sé óbein leið til að auka raun­laun og bæta lífs­kjör. Eitt skýr­asta dæmið um að til­tekt í rík­is­fjár­mál­um og trú­verðug stefna hafi skilað vaxta­lækk­un var að finna í for­setatíð Bills Cl­int­ons í Banda­ríkj­un­um, en þar var slag­orðið: „Minni fjár­laga­halli býr til störf“! Á þeim tíma lækkuðu skuld­ir veru­lega og fóru niður í 30% af vergri lands­fram­leiðslu (VLF), sem leiddi til þess að vaxta­álag lækkaði og á sama tíma var verðbólga lág. Skuld­ir rík­is­sjóðs Íslands mæl­ast nú ein­mitt 30% af VLF, hafa lækkað á und­an­för­um árum og eru lág­ar í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Hins veg­ar er fjár­magns­kostnaður rík­is­sjóðs áfram hár og það er lyk­il­atriði að hann lækki til að hægt sé að styðja enn frek­ar við heil­brigðis- og mennta­kerfið. Við út­færslu á þeirri veg­ferð þarf að tryggja að hið op­in­bera geti áfram fjár­fest í fólki og innviðum um allt land með ábyrg­um og skyn­sam­leg­um hætti. Viðfangs­efnið fram und­an er að lækka fjár­magns­kostnað rík­is, heim­ila og fyr­ir­tækja. Lækk­andi verðbólga og stýri­vext­ir skipta þar sköp­um en horfa þarf til fleiri þátta í þeim efn­um. Fram­sókn legg­ur áherslu á að skulda­hlut­föll verði lækkuð enn frek­ar til framtíðar ásamt því að mark­visst verði unnið að því að bæta láns­hæfi rík­is­sjóðs. Þá þarf til að horfa til kerf­is­breyt­inga sem gera kleift að lækka fjár­magns­kostnað.

Hús­næðismarkaður­inn er eitt stærsta efna­hags­málið

Mikið hef­ur verið byggt á und­an­förn­um árum og aldrei hef­ur hlut­fall þeirra sem eiga eigið hús­næði verið hærra. Vegna mik­illa um­svifa í hag­kerf­inu hef­ur hús­næðismarkaður­inn hins veg­ar ekki náð að anna eft­ir­spurn­inni. Þessi skort­ur hef­ur leitt til veru­legr­ar hækk­un­ar á hús­næðis­verði og leigu, sem hef­ur haft áhrif á lífs­kjör al­menn­ings og stöðug­leika á hús­næðismarkaði ásamt því að verðbólg­an hef­ur mælst hærri en ella. Þetta er stór­mál í efna­hags­stjórn­inni og þarf að ná enn bet­ur utan um. Far­sæl­asta leiðin er að hið op­in­bera, ríki og sveit­ar­fé­lög, mæti þess­ari eft­ir­spurn­in sam­eig­in­lega, auki lóðafram­boð veru­lega og stuðli að hag­kvæmu reglu­verki á hús­næðismarkaði. Aukið lóðafram­boð dreg­ur úr verðhækk­un­um á hús­næði og yngra fólk á auðveld­ara með að kom­ast inn á markaðinn. Einnig hef­ur það já­kvæð áhrif á hag­vöxt, þar sem bygg­ing­ariðnaður­inn skap­ar fjölda starfa ásamt því að koma meira jafn­vægi á hús­næðismarkaðinn. Fyrr á þessu ári var samþykkt frum­varp mitt um að draga veru­lega úr fram­boði íbúða í heimag­ist­ingu (Airbnb) án þess að gengið yrði á eigna­rétt fólks­ins í land­inu. En þrátt fyr­ir að aldrei í Íslands­sög­unni hafi verið byggt meira en á ár­un­um 2019-2024 þarf að byggja meira. Fram­sókn legg­ur mikla áherslu á að tryggt verði nægt magn af bygg­ing­ar­hæf­um lóðum til hraðrar upp­bygg­ing­ar og þarf að setja enn meiri kraft í sam­starf rík­is og sveit­ar­fé­laga í þeim efn­um til að auka fram­boðið.

Þar skipt­ir höfuðmáli að stóru sveit­ar­fé­lög­in á höfuðborg­ar­svæðinu hafi öll getu til að taka þátt í þeirri nauðsyn­legu upp­bygg­ingu sem fram und­an er. Það þarf að stíga var­leg skref til baka þegar kem­ur að lánþega­skil­yrðum með lækk­andi vöxt­um, sér­stak­lega með fyrstu kaup­end­ur í huga, en hátt vaxta­stig og treg­leiki á fast­eigna­markaði vegna lánþega­skil­yrða get­ur dregið úr fram­kvæmd­ar­vilja. Síðast en ekki síst þarf að halda áfram að styðja áfram við þau úrræði sem stjórn­völd hafa komið fram með á síðustu árum, s.s. al­menna íbúðakerfið og hlut­deild­ar­lána­kerfið.

Við erum að ná ár­angri

Í nýj­ustu verðbólgu­mæl­ingu Hag­stof­unn­ar lækkaði verðbólg­an niður í 5,1%, það lægsta í 3 ár. Dregið hef­ur úr hækk­un á hús­næði en verðbólga án hús­næðis mæl­ist 2,8% ann­an mánuðinn í röð. Síðasta vaxta­ákvörðun Seðlabank­ans til lækk­un­ar var já­kvætt skref og end­ur­spegl­ar að þær aðgerðir sem við höf­um gripið til í rík­is­fjár­mál­un­um og þeir lang­tíma­kjara­samn­ing­ar sem gerðir voru á vinnu­markaði eru að skila sér. Viðfangs­efnið fram und­an er að tryggja að þessi þróun haldi áfram, enda er lækk­un verðbólgu og vaxta stærsta hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja í land­inu. Við erum að ná ár­angri og við hvik­um hvergi frá því verk­efni að ná enn frek­ari ár­angri í þess­um efn­um.

Lilja Dögg Alfeðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Framsókn í farsæld

Deila grein

01/11/2024

Framsókn í farsæld

Nú eftir dramatísk stjórnarslit er blásið til kosninga til Alþingis eftir þriggja ára kjörtímabil. Við í Framsókn göngum til kosninga af jákvæðni og bjartsýni. Jákvæð af því að við höfum góða sögu að segja. Bjartsýn því við sjáum að við erum á réttri leið út úr efnahagslægð síðustu missera og áfalla. Við höldum áfram og segjum; „þetta er allt að koma!“ Það er vegna þess að við höfum verkfæri og hæfni til að standa við þau orð.

Það er ánægjulegt að sjá þann fjölda fólks sem vill bjóða sig fram til forystu á Alþingi, fólk alls staðar að með misjafnar skoðanir finnur sér farveg og færri komast að en vilja. Allt tal um minnkandi virðingu og áhrif Alþingis hverfur í húmið. Framsókn leggur af stað í baráttuna nú sem fyrr með reynslumikið fólk í framvarðasveit.

Litið um öxl

Framsókn hefur setið við ríkisstjórnarborðið í sjö ár, sem hafa verið viðburðarík í lífi þjóðarinnar. Heimsfaraldur ríkti um tíma, eldsumbrot hófust á Reykjanesskaga og stríð braust út í Evrópu. Heimsfaraldur og stríð hafa mikil áhrif á milljóna þjóðir í heiminum, hvað þá okkur, fámennið í norðri.

Auk þess höfum við upplifað að heilt samfélag þurfti að flýja heimkynni sín. Þegar það gerðist fyrir 50 árum í Vestmannaeyjum hafði það mikil áhrif á efnahag landsins, enda voru stoðir efnahagslífsins mun færri og fólkið færra. Þrátt fyrir allt þetta erum við að sjá þjóðarskútuna rétta af og áfram höldum í átt að bata. Lækkandi verðbólga og lækkandi vextir eru staðreynd, og  það er í allra þágu, einstaklinga, fjölskyldna og atvinnulífsins í landinu.

Horft til framtíðar með ungmenni í forgrunni

Framsókn getur réttilega bent á mörg umbótamál sem okkur hefur tekist að hrinda í framkvæmd og byggt verður á í framtíðinni. Ráðherrum okkar hefur tekist að setja mark okkar á mörg framfaramál í þágu almennings.

Málefni ungmenna eru ofarlega á baugi, þar er grunnurinn. Farsældarlög barnamálaráðherra Ásmundar Einars eru óumdeilanleg og innleiðingaferli þeirra er þegar hafið um allt land. Búast má við miklum framförum í þjónustu við börn í kjölfar hennar. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið. Hér er um að ræða hugmyndir um að þjónusta við börn verði sniðin með það í huga að nálgast hvert barn með þarfir þess og réttindi í huga. Samvinna aðila sem koma að farsæld barna á eftir að borga sig fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið sjálft. Til að ná hámarksábata með breytingunni þarf að auka forvarnir og snemmbæran stuðning.

Sem hluti af innleiðingaferlinu var gerður tímamótasamningur um svæðisbundin farsældarráð í öllum sveitarfélögum landsins. Með þeim samningi hafa öll sveitarfélög skuldbundið sig til þess að taka þátt í þessu starfi. Farsældin vinnur í takti við endurreisn þjónustustofnunar menntakerfisins með nýrri Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem starfar í þágu barna og ungmenna. Þetta stóra verkefni er aðeins eitt þeirra verka sem við í Framsókn höfum framkvæmt síðustu ár, og eins og alltaf þá leggjum við okkar verk í dóm kjósenda.

Framsókn mætir á keppnisvöllinn með verkin að vopni.

Halla Signý Kristjánsdóttir, er alþingismaður Framsóknar í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 31. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Þess vegna talar ChatGPT ís­lensku

Deila grein

01/11/2024

Þess vegna talar ChatGPT ís­lensku

Ég er fullviss um að tæknin muni á næstu árum færa okkur lausnir við ýmsum vandamálum sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag í dag. Ísland hefur staðið sterkt á ýmsum sviðum tækniþróunar og þar hefur þróun í máltækni staðið upp úr. Sá árangur sem við höfum náð fyrir tungumálið okkar í heimi tækninnar hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana og veitir Ísland öðrum fámennum málsvæðum nú innblástur. Ýmsar þjóðir sem eru í svipaðri stöðu og við vorum í fyrir nokkrum árum, leita reglulega til okkar og stærstu tæknifyrirtæki heims hafa heillast af starfi okkar og innleitt þær lausnir sem við höfum þróað í sína tækni.

Þess vegna er hægt að nota ChatGPT á íslensku í dag. Þess vegna eru lausnir Microsoft svo góðar á íslensku og þess vegna eru flest helstu forrit sem Íslendingar nota daglega aðgengileg á íslensku viðmóti.

Og við höfum verið að gefa í. Annarri máltækniáætlun var hrint af stað í ráðuneyti mínu fyrir nokkrum vikum og undir henni verður gríðarlegur kraftur settur í hagnýtingu íslenskrar máltækni, meðal annars með styrkjum fyrir íslensk fyrirtæki sem vilja nýta sér þá tækni og áhersla lögð á að koma íslenskunni að í fleiri erlendum lausnum.

Tækni sem þýðir og talsetur barnaefni með eins röddum og í upphaflegri útgáfu þess er rétt handan við hornið. Fleiri tæknilausnir sem auðvelda innflytjendum að læra íslensku eiga eftir að koma út. Nýjustu lausnir frá Microsoft og Google og fleiri tæknirisum verða aðgengilegar á íslensku. iPhone-síminn þinn mun á endanum geta talað íslensku. Ég er viss um það. En þetta gerist hins vegar ekki af sjálfu sér.

Uppbygging í gervigreind verður að byggja á máltækni

Máltækniþróun á Íslandi hefur gengið frábærlega og vakið athygli víða um heim. Við eigum að byggja framtíðartækniþróun í gervigreind á Íslandi á þeim frábæra grunni, enda er tungumálið og máltækni orðið aðaláhersluefni í gervigreindarþróun eftir tilkomu risamállíkana.

Við verðum að tryggja áframhaldandi þróun í íslenskri máltækni og gervigreind og að málaflokkar þessir tali saman. Þetta er eitt helsta áherslumál máltækniáætlunar þar er kynnt sú sýn að Ísland verði að koma á fót öflugri einingu, helst í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs, sem færi með málefni bæði gervigreindar og máltækni. Slík eining myndi vinna stöðugt að eflingu þessara greina á Íslandi, tryggja nýsköpun innan þeirra, hagnýtar rannsóknir háskóla sem gagnast íslenskum fyrirtækjum og framsókn í tækniiðnaðinum sem verður leiðandi iðnaður næstu áratugi.

Lögðum til nýja miðstöð gervigreindar og máltækni

Ísland hefur alla burði til að standa undir slíku starfi. Græn orka og náttúrulegar aðstæður eru fullkomnar fyrir framleiðslu á reikniafli, sem getur umbylt tækniiðnaði og rannsóknarstarfi á Íslandi. Íslenskt hugvit og tækni geta staðið stolt á meðal fremstu þjóða heims og efling þessi verður reist á grundvelli menningar og tungumáls Íslendinga.

Við höfum lagt til að ráðast í samstarf við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið um að gera þessa framtíðarsýn að veruleika og ég vonast til að við getum hafið þessa uppbyggingu sem fyrst. Mín von er að slík gervigreindar- og máltæknimiðstöð verði rekin í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs með ekki ósvipuðu fyrirkomulagi og Íslandsstofa. Hægt væri að sameina ýmsar smærri stofnanir og einingar í máltækni, gervigreind og nýsköpun undir einum hatti og auka hagræði í málaflokkunum báðum á sama tíma og starf innan þeirra verður eflt. Tilkoma gervigreindar- og máltæknimiðstöðvar Íslands verður lykilatriði til að tryggja velferð og hagvöxt á Íslandi komandi áratugi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. nóvember 2024.

Categories
Fréttir

Verðbólgan lækkar!

Deila grein

30/10/2024

Verðbólgan lækkar!

„Nýjustu fréttir af lækkun verðbólgu samkvæmt mælingu Hagstofunnar eru í góðu samræmi við þær áherslur sem ég kynnti við framsögu fjárlaga á haustdögum. Þar var megin áherslan lögð á að skapa aðstæður fyrir lækkun verðbólgu og í kjölfarið vaxta, til að varðveita efnahagslegan stöðugleika. Um er að ræða eitt allra brýnasta mál allra heimila og fyrirtækja á Íslandi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

Það er mikill kraftur í íslensku samfélagi og hagvöxtur hefur verið um 5% að jafnaði á ári og uppsafnaður hagvöxtur frá árinu 2019 nemur um 11% og er óvíða meiri en hér á landi. Þannig höfum við skapað viðnámsþrótt gagnvart áföllum og styrkt stöðu íslensk samfélags.

Atvinnuþátttaka á Íslandi er í dag í hæstu hæðum og jákvæð þróun kaupmáttar meðal samanburðarríkja okkar og hafa kjör þeirra efnaminni vaxið hlutfallslega mest í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar.

Áskorun okkar er enn sú sama að ná niður verðbólgu og vöxtum og það er jákvætt að við sjáum til lands, dregið hefur úr spennu á vinnumarkaði án þess að komið hafi til markverðrar aukningar atvinnuleysis. Lækkun verðbólgu skapar skilyrði fyrir lækkun vaxta samhliða áframhaldandi sterkri stöðu á vinnumarkaði og stöðugu gengi krónunnar.

Sterkt atvinnulíf og mikil atvinnuþátttaka er grunnur að lífsgæðum okkar hér á Íslandi. Við munum sjá árangurinn af því erfiði sem samfélagið hefur tekið á sig síðustu misseri.

Enn lækkar verðbólgan. Nú er hún komin í 5,1% sem er það lægsta sem við höfum séð í þrjú ár. Dregið hefur úr hækkun á…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Miðvikudagur, 30. október 2024
Categories
Fréttir Greinar

Sjálfbærni er þjóðaröryggismál

Deila grein

29/10/2024

Sjálfbærni er þjóðaröryggismál

Við hjá Framsókn stöndum fyrir því að nýta okkar náttúruauðlindir á ábyrgan hátt og byggja undir sjálfbæra framtíð fyrir land og þjóð. Sjálfbærni snýst um að vera sjálfum okkur nóg, hvort sem það er í matvælaframleiðslu, orkumálum eða annarri verðmætasköpun. Með sjálfbærnistefnu fylgir mikil ábyrgð, sérstaklega þegar kemur að því að fullnýta þá orku sem við eigum þegar til – til að tryggja þjóðaröryggi okkar.

Það er mikilvægt að við nýtum alla orkuna sem er tiltæk. Ef við sjáum gufustróka rísa frá virkjunum eða jarðhitavökva dælt niður við 120°C, vitum við að við erum ekki að fullnýta orkuna. Við viljum sjá nýtingu og nýsköpun handan hefðbundinnar orkunýtingar og horfa til orkugjafa eins og sólar- og vindorku til viðbótar við jarðhita og vatnsafl. Það er lykilatriði fyrir þjóðaröryggi.

Landbúnaður er okkur mikilvæg atvinnugrein og sjálfbærni í landbúnaði skiptir sköpum til framtíðar og styrkir stoðir öflugrar matvælaframleiðslu hér á landi í síbreytilegum heimi. Með því að stuðla að enn frekari sjálfbærni í landbúnaði getum við byggt traustari grunn að sjálfstæði þjóðarinnar. Ætlum í því samhengi að taka sjávarútveginn til fyrirmyndar, sem nær að nýta allt að 90% af hráefnum sínum. Með stuðningi við nýsköpun og hringrásarhagkerfi í landbúnaði getum við stuðlað að atvinnuþróun í öllum landshlutum og aukið verðmætasköpun í heimabyggð.

Það er löngu kominn tími til að efla stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni. Á Suðurnesjum er til dæmis ekki til staðar neitt frumkvöðlasetur eða stuðningsaðstaða fyrir nýsköpun. Við hjá Framsókn teljum að þetta þurfi að breytast. Við eigum að setja spurningamerki við sjálfbærni þess að auðlindir séu fluttar úr landi. Við verðum að styðja með öflugum hætti við verðmætasköpun hér á landi og nýta þær auðlindir sem við eigum yfir að ráða með sjálfbærum hætti.

Við erum í dauðafæri og höfum allar forsendur til að skapa sjálfbært Ísland. Við í Framsókn ætlum að vera leiðandi í þeirri vegferð með öflugu stuðningsnet fyrir nýsköpun og atvinnuuppbyggingu víðsvegar um landið. Sjálfbærni er þjóðaröryggismál, og nú er kominn tími til að setja landsbyggðina í forgang, byggja undir verðmætasköpun og öryggi allra landsmanna.

Fida Abu Libdeh, frambjóðandi Framsóknar í Suðurkjördæmi og skipar fjórða sæti.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Á skóflunni

Deila grein

29/10/2024

Á skóflunni

Fram­sókn kynnti lista sína um allt land um liðna helgi. Þá skip­ar öfl­ugt og vinnu­samt fólk með mikla reynslu og ólík­an bak­grunn sem vill láta gott af sér leiða fyr­ir sam­fé­lagið. Að sama skapi er ánægju­legt að sjá nýtt fólk bæt­ast í hóp­inn og efla flokk­inn enn frek­ar, en mik­il ásókn var í að kom­ast á lista flokks­ins fyr­ir kom­andi kosn­ing­ar til að veita sam­vinnu­stefn­unni braut­ar­gengi.

Það er heiður að fá að starfa fyr­ir Ísland á þess­um vett­vangi, en því fylg­ir einnig mik­il ábyrgð. Í 108 ár hef­ur Fram­sókn, elsti stjórn­mála­flokk­ur lands­ins, lagt sitt af mörk­um við að stýra land­inu og auka hér lífs­gæði. Það er ekki sjálf­gefið að stjórn­mála­afl nái svo háum aldri. Að baki hon­um ligg­ur þrot­laus vinna grasrót­ar og kjör­inna full­trúa flokks­ins í gegn­um ára­tug­ina, sem hafa haldið stefnu flokks­ins á lofti. Kosn­ing­ar eft­ir kosn­ing­ar hafa kjós­end­ur treyst flokkn­um til góðra verka fyr­ir land og þjóð, enda þekk­ir þjóðin Fram­sókn og Fram­sókn þekk­ir þjóðina.

Í því meiri­hluta­sam­starfi sem liðið er ein­blíndi flokk­ur­inn á verk­efn­in sem voru fram und­an frek­ar en að taka þátt í op­in­ber­um erj­um milli annarra flokka. Fyr­ir kom­andi kosn­ing­ar mun­um við halda áfram að tala fyr­ir þeim brýnu verk­efn­um sem vinna þarf að á næstu miss­er­um, enda skipta þau máli fyr­ir þjóðina. Þar ber fyrst að nefna lækk­un verðbólgu og vaxta, sem er stærsta ein­staka hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja. Það voru já­kvæð teikn á lofti er Seðlabank­inn lækkaði stýri­vexti með síðustu ákvörðun sinni. Al­gjört grund­vall­ar­mál er að búa svo um hnút­ana að sú þróun haldi áfram en verði ekki taf­in vegna ein­hverra loft­fim­leika í stjórn­mál­un­um. Samþykkt ábyrgra fjár­laga, líkt og þeirra sem liggja fyr­ir þing­inu, er lyk­il­atriði. Í þeim er ráðist í aukna for­gangs­röðun í op­in­ber­um fjár­mál­um sem kall­ast á við aðgerðir stjórn­valda í þágu lang­tíma­kjara­samn­inga á vinnu­markaði. Á sama tíma og unnið er að því að ná auknu jafn­vægi í rekstri rík­is­ins með halla­laus­um rekstri og að skulda­hlut­föll verði lækkuð enn frek­ar verður að tryggja að hið op­in­bera geti áfram fjár­fest í fólki og innviðum um allt land með ábyrg­um og skyn­sam­leg­um hætti.

Nú þegar 32 dag­ar eru til kosn­inga ligg­ur fyr­ir að mikið líf á eft­ir að fær­ast í leik­inn. Það skemmti­leg­asta við stjórn­mál­in er sam­talið við kjós­end­ur í land­inu um verk okk­ar og framtíðar­sýn. Margt gott hef­ur áunn­ist á und­an­förn­um árum, og ýmis tæki­færi eru til þess að gera bet­ur. Þannig er gang­ur lífs­ins. Við höf­um ekki veigrað okk­ur við því að vera á skófl­unni og vinna vinn­una af full­um krafti til þess að bæta sam­fé­lagið okk­ar, enda eiga stjórn­mál að snú­ast um það. Við í Fram­sókn erum klár í bát­ana og hlökk­um til kom­andi vikna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Út­lendingar í eigin landi

Deila grein

29/10/2024

Út­lendingar í eigin landi

Undanfarna mánuði hafa málefni útlendinga verið mikið í deiglunni og heilu stjórnmálaflokkarnir blásið þennan heildar málaflokk sem vandamál. Það er nýnæmi í stjórnmálaumræðu á Íslandi að flokkar ætla að keyra kosningabaráttu út frá þessari umræðu. Miðflokkurinn nær þarna nokkru flugi og nýstofnaður Lýðveldisflokkur ætlar sérstaklega að kasta veiðifærum sínum á þessi mið. Það er sama hver beitan er, allt er gert í þeirri von að kjósendur bíti á agnið. Sjálfstæðisflokkurinn sér þarna tækifæri og ekki kemur heldur Flokkur Fólksins á óvart.

Við eigum að varast það að frambjóðendur til Alþingis nýta sér upplýsingaóreiðu og afvegaleiða umræðuna til að næla sér í atkvæði, grugga vatnið og henda svo færinu út. Við þurfum átta okkur á að t.d. innflytjendur og hælisleitendur eru tveir ólíkir hópar, þó svo að sumir vilja samsama þá tvo í einn stóran hóp og gera hann tortryggilegan. Að stunda slíka pólitík hefur neikvæð áhrif á alla sem eru af erlendu bergi brotnu. Þar erum við að tala um fólk sem kemur hingað til lands til að vinna, borga skatta og taka virkan þátt í samfélaginu og börn þeirra, sem hafa jafnvel búið hér allt sitt líf.

Að ná atkvæðum með upplýsingaóreiðu og að búa til ímyndaðan óvin þjóðar er vafasamur heiður sem fæst á kostnað fólks sem kemur hingað í góðri trú og stuðlar að velmegun samfélags.

Vöxtur og velferð

Íslenska hagkerfið hefur á undanförnum árum og áratugum sýnt fram á að það þarf á erlendu vinnuafli að halda til að mæta vaxandi þörfum atvinnulífsins. Þetta hefur ekki síst komið fram í greinum eins og ferðaþjónustu, byggingariðnaði, heilbrigðisþjónustu og landbúnaði, þar sem umframeftirspurn eftir vinnuafli hefur verið við líði hér á landi. Við þurfum fjölbreytni og sveigjanleika á vinnumarkaði til að viðhalda hagvexti og efnahagslegum stöðugleika.

Ein helsta ástæða þess að Ísland treystir á erlent vinnuafl er að fjölgun landsmanna nær ekki að fylgja hraða vaxandi atvinnugreina. Við búum í litlu landi með takmörkuðum mannfjölda, og vinnuafl innanlands hefur ekki dugað til að fullnægja þörfum margra atvinnugreina. Erlendir starfsmenn hafa því komið til landsins til að fylla þau störf sem annars væru ómönnuð, og þar með stuðlað að áframhaldandi hagvexti og framþróun. Árið 2004 voru erlendir ríkisborgar hér á landi 7% af mannfjölda en í dag eru það 21%. Það var á ofanverðri síðustu öld sem það jókst að fólk fór að flytja hingað til lands til að vinna aðallega við íslenskan sjávarútveg. Alveg síðan hefur hlutfall íbúa sem eru að erlendu bergi brotnir hefur aukist jafn og þétt um landið. Til dæmis á Vestfjörðum er þriðja kynslóð þeirra að vaxa úr grasi og taka virkan þátt í okkar samfélagi og atvinnulífi.

Aukin samkeppnishæfni okkar

Erlent vinnuafl hefur einnig haft mikil áhrif á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Það hefur gefið fyrirtækjum tækifæri til að auka framleiðslugetu sína og svara eftirspurn á mörgum sviðum. Án erlends vinnuafls gæti íslenskt hagkerfi staðið frammi fyrir alvarlegri stöðnun, þar sem fyrirtæki myndu ekki geta nýtt tækifærin sem fylgja vaxandi ferðaþjónustu og vexti á öðrum sviðum.

Rétt skal vera rétt

Við megum ekki láta afvegaleiða okkur í umræðunni. Við verðum að vera vakandi fyrir auknum rasisma og þá eru öll þjóðarbrot undir. Helsta þrætueplið er hælisleitendakerfið, sem hefur vaxið og mikilvægt er að ná jafnvægi í því. Við í ríkisstjórninni höfum náð fram lagabreytingum sem styrkja lagaumhverfið og stuðla að því að innviðir okkar ráði við aukið magn hælisleitenda. Við erum hluti af alþjóðlegum samningum eins og flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og Ísland gerðist aðili að Dyflinnarsamningnum árið 2001.

Fjöldi samþykktra umsókna hælisleitenda hér á landi hefur lengst af verið undir evrópumeðaltali, en sú aukning sem hefur orðið á síðustu árum er að langstærstum hluta frá Úkraínu og Venesúela. Rétt ber að nefna að um er að ræða hópa sem allir flokkar á Alþingi samþykktu að taka skilyrðislaust á móti. Við höfum þó náð talsverðum breytingum á heildarsýn í málefnum útlendinga og síðan þá hefur dregið verulega úr samþykktum á umsóknum hælisleitenda.

Rykinu blásið upp

Það er ástæða til að óttast að nú í kosningabaráttunni verði rykinu blásið upp og útlendingaandúð muni vaxa. Við horfum hneyksluð til Bandaríkjanna, þar sem umræður um sama málefni fá óhindrað að lifa í kosningabaráttunni um Hvíta Húsið.. Þar er ekki hikað við að beita röngum staðhæfingum eins og gæludýraáti og aukinni glæpatíðni til að sópa til sín atkvæðum á kostnað allra innflytjenda. Slík barátta hugnast okkur í Framsókn ekki.

Sýnum skynsemi og lítum okkur nær. Hvar eru útlendingar að þvælast fyrir á þessu landi? Er það í innsta hring fjölskyldna okkar eða á hjúkrunarheimilum þar sem þeir annast foreldra okkar?

Kjósum með fjölbreytileikanum og munum að hann ber heilu landsvæðin uppi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, situr í þriðja sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. október 2024.

Categories
Fréttir

Meðmælasöfnun Framsóknar

Deila grein

27/10/2024

Meðmælasöfnun Framsóknar

Við viljum minna á söfnun meðmælenda með framboðslistum Framsóknar – þið skráið ykkur inn með rafrænum skilríkum á hlekkinn hér að neðan og xB er að sjálfsögðu málið!

HLEKKUR Á MEÐMÆLENDASÖFNUN FRAMSÓKNAR

Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Norðaustur samþykktur

Deila grein

26/10/2024

Framboðslisti Framsóknar í Norðaustur samþykktur

Kjördæmissamband Framsóknar í Norðausturkjördæmi (KFNA) hefur samþykkt framboðslista Framsóknarflokksins í Norðaustur á fjölmennu kjördæmisþingi á Hótel Seli, Mývatnssveit, rétt í þessu.

Listinn samanstendur af Framsóknarfólki með mikla reynslu og þekkingu vítt og breitt um kjördæmið.

Í fyrsta sæti er Ingibjörg Ólöf Isaksen, alþingismaður, Akureyri

Í öðru sæti er Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður og bóndi, Grýtubakkahreppi

Í þriðja sæti er Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, Múlaþingi.

Í fjórða sæti er Skúli Bragi Geirdal, verkefnisstjóri Fjölmiðlanefndar, Akureyri.

Í fimmta sæti er Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bóndi og bæjarfulltrúi, Fjarðarbyggð.

,,Ég er stolt af því að fá að leiða þennan öfluga lista okkar Framsóknarfólks í kjördæminu. Við byggjum á góðri reynslu, dýrmætum mannauð og breiðri þekkingu á kjördæminu öllu. Við höfum átt í góðu samtali við fólkið í kjördæminu og göngum full tilhlökkunar til samtals við kjósendur, enda eru tækifærin mörg og fjölbreytt. Við viljum halda áfram að efla heilbrigðisþjónustu um land allt, vinna að orkuöryggi, húsnæðismálum og ekki síst að vinna að lækkun vaxta og verðbólgu fyrir fólkið í landinu. Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur í flóknu samstarfi á síðustu árum og hlökkum til samtalsins næstu vikna,“ sagði Ingibjörg Isaksen, oddviti listans og alþingismaður.  

Listi Framsóknar í Norðausturkjördæmi í heild sinni:

  1. Ingibjörg Ólöf Isaksen, alþingismaður, Akureyri.
  2. Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, Grýtubakkahreppi.
  3. Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, Múlaþingi.
  4. Skúli Bragi Geirdal, verkefnisstjóri Fjölmiðlanefndar, Akureyri.
  5. Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bóndi og bæjarfulltrúi, Fjarðabyggð.
  6. Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi, Norðurþing.
  7. Ásdís Helga Bjarnadóttir, yfirverkefnastjóri, Múlaþingi.
  8. Jón K. Ólafsson, forstöðumaður, Fjallabyggð. 
  9. Eiður Pétursson, vélfræðingur, Norðurþingi.
  10. Halldóra Magnúsdóttir, kennari, Eyjafjarðarsveit.
  11. Elís Pétur Elísson, framkvæmdastjóri, Fjarðarbyggð.
  12. Kristjana Louise Friðbjarnardóttir, starfsmaður á hjúkrunarheimili,  Vopnafirði.
  13. Eggert Stefánsson, bóndi, Langanesbyggð.
  14. Patrycja Maria Reimus, námsráðgjafi, Þingeyjarsveit.
  15. Halldóra Hauksdóttir, lögmaður, Akureyri.
  16. Monika Margrét Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, Dalvíkurbyggð.
  17. Snæbjörn Sigurðson, verkefnastjóri,  Akureyri.
  18. Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, ritari, Múlaþingi.
  19. Egill Olgeirsson, ellilífeyrisþegi, Norðurþingi.
  20. Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, Fjarðarbyggð.