Categories
Fréttir

Þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum

Deila grein

03/02/2022

Þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi notkun á blóðsykurslækkandi lyfjum í störfum þingsins á Alþingi. Fleiri og fleiri einstaklingar eru að greinast með sykursýki 2 og eru lyf notuð í auknum mæli til að meðhöndla sykursýki 2 og hefur fjöldi notenda nærri tvöfaldast frá árinu 2015. Þá voru þeir nærri 9.000 en eru orðnir meira en 16.000 árið 2021.

„Allt of oft erum við að bregðast við afleiðingum í stað þess að einbeita okkur frekar að forvörnum. Rannsóknir sýna okkur að fjölgun sykursjúkra hér á landi er sambærileg Bandaríkjunum fyrir 20 árum síðan. Innlendar rannsóknir hafa einnig sýnt að aukning á sykursýki dreifist yfir allan aldur fullorðinna og eykst hjá báðum kynjum,“ sagði Ingibjörg.

„Lyf og inngrip með skurðaðgerðum mega ekki vera fyrsti valkostur. Við þurfum að mæta fólki af virðingu og fordómaleysi og veita þeim þá þjónustu og stuðning sem það þarf til að ná markmiðum sínum. Þá þurfum við sem þjóð að líta í eigin barm. Hvað er það sem veldur því að þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum? Það er mikilvægt að heilsuefling og bætt lýðheilsa fái stuðning frá stjórnvöldum og heilbrigðisþjónustan, þá sérstaklega heilsugæslan, taki áfram virkan þátt í því starfi,“ sagði Ingibjörg.

Categories
Fréttir

Opið prófkjör Framsóknar á Akureyri

Deila grein

01/02/2022

Opið prófkjör Framsóknar á Akureyri

Fram fer opið prófkjör Framsóknar á Akureyri við val á framboðslista flokksins til sveitarstjórnarkosninganna í maí. Ákvörðun var tekin á fjölmennum félagsfundi Framsóknarfélaganna á Akureyri og mun prófkjörið fara fram laugardaginn 12. mars.

Búast má við líflegri baráttu um fyrstu sætin enda stefnir í mikla endurnýjun í bæjarstjórn Akureyrarbæjar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, gefur ekki kost á sér í vor og Ingibjörg Ólöf Isaksen hefur sem kunnugt er horfið til þingstarfa sem fyrsti þingmaður kjördæmisins.

„Við höfum orðið vör við mikinn áhuga á störfum og stefnu Framsóknarflokksins og með prófkjörinu viljum við opna flokksstarfið fyrir bæjarbúum,“ segir Sigfús Karlsson, formaður fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna á Akureyri og nágrennis.

Kosið verður um fimm efstu sætin og eru allir Akureyringar hvattir til að taka þátt í lýðræðislegu vali á sínum eigin bæjarfulltrúum enda er sú ákvörðun best komin nú í höndum bæjarbúa.

Categories
Fréttir

Mikill samfélagslegur ábati af lagningu Sundabrautar

Deila grein

27/01/2022

Mikill samfélagslegur ábati af lagningu Sundabrautar

Niðurstöður félagshagfræðilegrar greiningar eru að lagning Sundabrautar er metin þjóðhagslega hagkvæm og feli í sér í mikinn samfélagslegan ávinning, hvort sem hún verði lögð með brú eða göngum.

„Þessar niðurstöður staðfesta þá sannfæringu mína að Sundabraut mun hafa gríðarlega þýðingu fyrir samgöngur og mun umbylta umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Sundabraut mun dreifa álagi, leysa umferðarhnúta og styrkja öryggisleiðir. Sundabrautin mun auk þess stytta vegalendir fyrir alla þá sem ferðast innan og til og frá höfuðborgarsvæðinu – óháð ferðamáta. Með þessa greiningu í farteskinu getum við nú brett upp ermar og hafist handa við að undirbúa framkvæmdir sem hafist geti innan fárra ára,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, af þessu tilefni.

Í heild nemur þjóðhagslegur ábati 186-236 milljörðum króna, eftir útfærslu Sundabrautar með brú eða göngum. Mestur ábati felist hvort tveggja í minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu. Heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150 þús. km á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar. 

Tímasparnaður og styttri vegalengdir leiða einnig til færri slysa, minni útblásturs gróðurhúsalofttegunda, minni umferðarhávaða og minni mengunar. Jákvæð áhrif þessa eru talin nema á milli 21,5 og 22,6 milljörðum króna yfir allt 30 ára greiningartímabilið. Ítarlegri greiningar á hljóðvist, umferðaröryggi og áhrifum á umhverfið verða gerðar á næstu stigum verkefnisins. 

Gerð var sérstök næmnigreining á helstu forsendum til að skoða hvort hagkvæmni Sundabrautar breyttist verulega ef forsendur yrði aðrar. Skoðaðar voru m.a. breytingar á stofnkostnaði, tímavirði, umferðarmagni o.s.frv. Niðurstöður næmnigreiningar breyta hvorki röðun valkosta né því hvort að Sundabraut sé metin samfélagslega hagkvæm. Í öllum tilfellum er Sundabrú með planvegamótum með mesta samfélagslegan ábata.

Í samræmi við lög um samvinnuverkefni og samgönguáætlun frá árinu 2020 er gert ráð fyrir að fjármagna framkvæmdir við Sundabraut með gjaldtöku af umferð, sem hefjist þegar Sundabraut er tekin í notkun og ljúki innan 30 ára. 

Næstu skref – umhverfismat, skipulag og samráð

Vinnu starfshóps um Sundabraut, sem hóf störf í júní 2020, er nú formlega lokið. Vegagerðin vinnur að undirbúningi á mati á umhverfisáhrifum og rannsóknum í samstarfi við Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir. Þá vinnur Reykjavíkurborg að undirbúningi nauðsynlegra skipulagsbreytinga.

Gert er ráð fyrir að mat á umhverfisáhrifum og nauðsynlegar skipulagsbreytingar taki 2 til 3 ár, frekari rannsóknir og hönnun 2 ár og útboðsferli stórrar framkvæmdar um 1-2 ár. Þessa verkhluta má vinna að einhverju leyti samhliða og miðar allur undirbúningur við að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist árið 2026 og að Sundabraut frá Sæbraut að Kjalarnesi verði lokið árið 2031.

Víðtækt samráð er jafnframt fram undan við íbúa í nærumhverfinu, hagsmunaaðila og fyrirtæki á svæðinu ásamt því að vinna þarf að samkomulagi ríkis og Faxaflóahafna varðandi nauðsynlegar aðgerðir sem gera þarf á svæðum Faxaflóahafna í Sundahöfn. 

Categories
Fréttir

Salan á Mílu ógnar ekki þjóðaröryggi Íslands – en sala á grunninnviðum er ekki áhættulaus

Deila grein

20/01/2022

Salan á Mílu ógnar ekki þjóðaröryggi Íslands – en sala á grunninnviðum er ekki áhættulaus

Franskur sjóðsstýringarfyrirtækið Ardian France SA hefur keypt Mílu af Símanum. Stjórnvöld hafa til skoðunar og mats á því hvort áform um fjárfestingu á tilteknum sviðum geti ógnað tilteknum grundvallarhagsmunum ríkisins og almennings þegar íslenskt einkafyrirtæki selur erlendum aðila undirfyrirtæki sem er samfélagslega mikilvægt.

Stjórnvöld fóru í viðræður við Símann sem seljanda Mílu, Ardian sem kaupanda Mílu, sem og við Mílu. Það leiddi til samkomulags um tilteknar kvaðir vegna þjóðhagslega mikilvægra fjarskiptaneta Mílu. Samkomulagið er í takt við upplegg og áherslur ríkisstjórnarinnar í viðræðunum og er samningurinn staðfestur af ríkisstjórninni. Jafnframt fór fram rýni á grundvelli laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og var kallað eftir upplýsingum um eigendur og helstu lykilstarfsmenn Ardian.

Ardian er franskt sjóðastýringarfyrirtæki með u.þ.b. 120 milljarða dala í stýringu. Fjárfestar í þeim sjóðum Ardian sem hér eiga í hlut eru 190 talsins og þar er einkum um að ræða alþjóðlega stofnanafjárfesta. Fjárfestarnir, sem eru að meginstefnu til lífeyrissjóðir og vátryggingafélög, eiga ekki að hafa áhrif á einstaka fjárfestingarsjóði Ardian og niðurstaðan var að ekki sé tilefni til að stöðva viðskiptin. Salan er hins vegar til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, sagði í sérstakri umræðu á Alþingi um sala Símans á Mílu til erlendra fjárfesta þurfi að sæta eftirfylgni stjórnvalda og byggja á skýru verklagi og ferlum um upplýsingamiðlun og reglubundnu endurmati, hver svo sem kaupandinn er, hvort sem hann er innlendur eða erlendur.

„Hins vegar er sala á grunninnviðum, eins og kerfi Mílu, ekki áhættulaus.“

Fyrir liggur að einkafyrirtæki er að selja erlendum aðila undirfyrirtæki. Stjórnvöld eru með til skoðunar og mats á því hvort áform um fjárfestingu á tilteknum sviðum geti ógnað tilteknum grundvallarhagsmunum ríkisins og almennings.

„Félagið Míla er samfélagslega mikilvægt og heldur utan um þá grunninnviði sem eru þjóðhagslega mikilvægir. Fjarskipti verða sífellt nauðsynlegri liður nútímasamfélags. Það er ekki bara að ná í næsta mann eða geta unnið heiman frá sér heldur er þjóðaröryggi undir. Þeir innviðir sem til þarf eru mikilvægir í því sambandi og sá grunnur sem nútímasamfélagið og atvinnulíf okkar stendur á. Tilgangur Mílu er að byggja upp, viðhalda og reka innviði fjarskiptaþjónustu um allt land. Félagið snertir því okkur öll. Kerfi Mílu eru grunnur að fjölþættri fjarskiptaþjónustu,“ sagði Halla Signý.

„Við erum með lög í landinu sem tryggja staðsetningu kjarnabúnaðar á sviði fjarskipta hérlendis. Það er gert með vísan til þjóðaröryggishagsmuna og í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er kveðið á um að tryggja skuli vernd grunnvirkja og núverandi starfsemi Mílu lýtur nú þegar ákvæðum laga er varða öryggishagsmuni,“ sagði Halla Signý.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, fór og yfir málið í sömu umræðu og sagði söluna hafa verið til umfjöllunar hjá þjóðaröryggisráði.

„Þeirri skoðun er ekki lokið en af aðgengilegum gögnum get ég ekki séð að salan ógni þjóðaröryggi Íslands. Í nýjum lögum um Fjarskiptastofu eru ríkar heimildir til eftirlits sem og skilyrði um að allur búnaður þurfi að vera framleiddur af ríkjum sem Ísland á í öryggissamstarfi við, eða ríkjum innan EES,“ sagði Hafdís Hrönn.

Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er tryggð vernd grunnvirkja og hægt að lögbinda staðsetningu kjarnabúnaðar á sviði fjarskipta í landinu.

Eftirfylgni stjórnvalda með framkvæmd samkomulagsins verður að byggjast á skýru verklagi og ferlum um upplýsingamiðlun, nauðsynlegt samstarf og reglubundið endurmat með tilliti til mikilvægis þjóðaröryggishagsmuna.

„Með nýframlögðu frumvarpi um breytingu á lögum um fjarskipti og lögum um fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri tel ég að við getum tryggt betur öryggi fjarskiptanets Íslendinga með góðum hætti. Mikilvægt er að enginn vafi leiki á því að öryggi grunninnviða fjarskipta á Íslandi sé með öllu tryggt til hlítar því að það skiptir miklu máli að þingið taki umræðuna og ég þakka fyrir að fá tækifæri til að koma að fyrrgreindum sjónarmiðum,“ sagði Hafdís Hrönn.

Categories
Fréttir

„Mikilvægt skref til að jafna aðstöðumuninn“

Deila grein

20/01/2022

„Mikilvægt skref til að jafna aðstöðumuninn“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti athygli á í störfum þingsins að frá áramótum muni Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í ferðakostnaði vegna ítrekaðra ferða einstaklinga í fyrirbyggjandi meðferð sem ætlað er að koma í veg fyrir illkynja sjúkdóma. Hrósaði hún þeim einstaklingum og samtökum sem hafa barist fyrir úrbótum í þessum efnum en jafnframt stjórnvöldum fyrir að hafa brugðist við. 

„Það er samt óásættanlegt að hver og einn einstaklingur þurfi að berjast fyrir sínum rétti eða að breytingar bíði þar til einhver sem hefur orku til fer í að berjast fyrir framförum,“ sagði Líneik Anna.

„Á síðasta þingi vakti ég ítrekað athygli á aðstöðumun fólks eftir búsetu ef það ber meinvaldandi BRCA-gen og nýtir sér fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu í samræmi við ráðleggingar þar um. Kostnaður vegna tíðra ferða í tengslum við eftirlit vegna BRCA og aðgerða getur orðið gríðarlegur fyrir hvern einstakling. Til dæmis má gera ráð fyrir 8–20 ferðum í tengslum við áhættuminnkandi aðgerðir. Bara ferðakostnaðurinn getur þá orðið hálf til ein milljón. Ferðir geta líka orðið fleiri og þar fyrir utan er það dvalarkostnaðurinn,“ sagði Líneik Anna.

Sagði hún nauðsynlegt að reglur um endurgreiðslu ferðakostnaðar þeirra sem búsettir eru á landsbyggðinni og þurfa að sækja sérhæfða heilbrigðisþjónustu til höfuðborgarsvæðisins séu endurskoðaðar jafnóðum samhliða þróun þjónustunnar. 

„Það getur ekki verið að fólk á landsbyggðinni eigi að vera í þeirri stöðu að taka ákvarðanir um nýtingu á heilbrigðisþjónustu í ljósi ferðakostnaðar og fjárhagsstöðu. Hér var stigið mikilvægt skref til að jafna aðstöðumuninn með breytingu á reglugerð. Því ber að fagna. Höldum áfram á sömu braut,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Raforka til garðyrkjubænda

Deila grein

18/01/2022

Raforka til garðyrkjubænda

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, spurði landbúnaðarráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi hvort að hafin væri vinna við að bæta fyrirsjáanleika í raforkuverði til að einfalda garðyrkjubændum áætlunargerð og framleiðslu á afurðum sínum? 

„Hver er staðan á framfylgd þeirra tillagna sem lagðar voru í hendur ráðherra eftir vinnu starfshópsins? Ef vinna er ekki hafin er spurning mín: Hvenær megum við búast við því að ráðherra hefji og jafnvel klári þá vinnu sem lagt er upp með í skýrslu starfshópsins?“

Hafdís Hrönn fór yfir að um mitt ár 2018 hafi verið skipaður starfshópur til að meta hvort að taka mætti til frekari skoðunar raforkumálefni garðyrkjubænda. Farið yrði yfir þróun raforkukostnaðar garðyrkjubænda og greina tækifæri til þróunar og nýsköpunar innan atvinnugreinarinnar. 

„Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til ráðuneytisins um mitt ár 2019 en það virðist lítið hafa skilað sér í kjölfarið á því. Landbúnaðurinn spilar mikilvægt og margþætt hlutverk í íslensku samfélagi en er að mörgu leyti vannýtt auðlind. Mikilvægi landbúnaðarins virðist hins vegar ekki endurspeglast í stuðningi við greinina eða starfsumhverfi hennar. Þetta á m.a. við hjá garðyrkjubændum en þungt rekstrarumhverfi þeirra gerir þeim erfitt fyrir,“ sagði Hafdís Hrönn.

Taldi Hafdís Hrönn það mikilvægt að Íslendingar standi vörð um fæðu- og matvælaöryggi með dyggum stuðningi við innlenda matvælaframleiðslu, sama í hverju hún felst. 

„Meðal þeirra aðgerða sem við verðum að fara í er að jafna stöðu garðyrkjubænda óháð staðsetningu. Það er því augljóst að við þurfum að byrja á því að stuðla að meiri fyrirsjáanleika í raforkuverði. Með þessu er hægt að standa vörð um íslenska garðyrkjubændur og innlenda matvælaframleiðslu. Þannig tel ég að við tryggjum frjóan jarðveg fyrir heila starfsstétt til að vaxa og dafna,“ sagði Hafdís Hrönn.

Landbúnaðarráðherra svaraði svo til að „fyrirkomulagið um greiðslur til framleiðenda fer eftir búvörusamningum, þ.e. samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða. Samkomulag um breytingar á þeim samningi var undirritað 14. maí 2020 en með samkomulaginu var í fyrsta lagi bætt við framlag til garðyrkjunnar, það eru 200 milljónir á ári, frá og með árinu 2020 og út gildistíma samningsins og þar af var 70 milljónum bætt við árlega til greiðslu sérstaklega vegna raforku. Samkvæmt samningnum renna því um 385 millj. kr., uppfært árlega, til greiðslu vegna raforku og ylræktendum voru tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar, samanber þetta samkomulag. Framlög samkvæmt fjárlögum greiðast til framleiðenda miðað við notkun á raforku til gróðurhúsalýsingar. Með vísun til þess þá eru þessum framleiðendum í raun og veru tryggðar beingreiðslur til niðurgreiðslu í því skyni að stuðla að betra starfsumhverfi greinarinnar.“

Hafdís Hrönn minnti á að ekki mætti „sofna á verðinum. Aðstæður garðyrkjubænda má bæta töluvert, og þá sérstaklega hvað varðar kostnað vegna raforkukostnaðar. Það er einstaklega ánægjulegt að heyra ráðherra segja að hún hyggist leggjast í frekari aðgerðir sem stuðla að því bæta raforkumál garðyrkjubænda og að tryggja framtíð þessarar starfsstéttar. Garðyrkjubændur, sem stuðla meðal annarra að matvælaöryggi þjóðarinnar, eiga það skilið frá okkur.“

Categories
Fréttir

Uppstilling samþykkt samhljóða hjá Framsókn í Reykjavík

Deila grein

17/01/2022

Uppstilling samþykkt samhljóða hjá Framsókn í Reykjavík

Framsókn í Reykjavík mun notast við uppstillingu sem aðferð við val á framboðslista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Tillaga þess efnis var samþykkt samhljóða á fjölmennu kjördæmaþingi Framsóknar í Reykjavik sem fór fram rafrænt fyrir áramót.

Kjörnefnd og nýjum borgarmálahópi Framsóknar var falið að hefja undirbúning fyrir kosningabaráttu í Reykjavík. Ráðgert er að tillaga að uppstillingu á framboðslista flokksins í Reykjavík verði kynnt og borin upp til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna eigi síðar en í mars næstkomandi.

Þingið samþykkti einnig tillögu þess efnis um að koma á fót hverfafélögum í hverfum Reykjavíkur. Ráðin eru hugsuð sem vettvangur fyrir íbúa hverfanna til skoðanaskipta og málefnavinnu í borgar- og landsmálum.

„Það er ánægjulegt að finna fyrir þeim mikla áhuga sem ríkir á grasrótarstarfi Framsóknar í Reykjavík. Endurspeglast það meðal annars í þörfinni fyrir ný hverfaráð innan flokksstarfsins sem verða stofnsett á næstu vikum. Flokkurinn hefur alla tíð látið sig mikilvæg mál varða fyrir borgarbúa og eru ótvíræð sóknarfæri fyrir flokkinn í komandi borgarstjórnarkosningum,“ segja Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, ráðherrar og þingmenn Framsóknar í Reykjavík, í sameiginlegri tilkynningu eftir þingið.

Categories
Fréttir

Listasjóðir hækka árið 2022 – menning vex!

Deila grein

30/12/2021

Listasjóðir hækka árið 2022 – menning vex!

Framlög til verkefnasjóða og styrkja á sviði menningar, að meðtöldum launasjóðum listamanna, munu nema um 3,3 milljörðum króna á fjárlögum næsta árs. Til samanburðar námu framlög til þeirra um 1,9 milljarði árið 2017. Nemur hækkunin um 72%. Fóru framlögin mest í 3,9 milljarða árið 2020 vegna tímabundins framlags í máltækniverkefni fyrir íslensku í stafrænum heimi sem áætlað er að klárist á næsta ári.

„Menning og listir eru uppspretta öflugs samfélags en undanfarin ár höfum við markvisst unnið að sterkari umgjörð í þeim málaflokkum með góðum árangri. Á næsta ári munum við halda áfram á sömu braut en menningarmálin munu meðal annars fá nýtt heimili í nýju ráðuneyti, ný myndlistastefna fyrir Ísland verður kynnt, vinna við nýja tónlistarstefnu hefjast og ný sviðlistamiðstöð hefja starfsemi sína. Fjárframlög til sjóða á sviði menningar halda áfram að vaxa sem mun ótvírætt skila sér til baka til samfélagsins. Aukningin er í takt við stjórnarsáttmálann, þar sem tekið er skýrt fram að við ætlum að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs. Heimsfaraldurinn hefur haft óhjákvæmilegar afleiðingar fyrir menninguna okkar, en við ætlum að halda áfram að hlúa að henni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra.

Á næsta ári mun aukning til Myndlistasjóðs nema 43,2 m.kr, til sjóðs vegna starfsemi atvinnuleikhópa 42,5 m.kr og aukning til tónlistarsjóða nema 18 m.kr. Þá verður 100 m.kr varið til hækkunar á starfslaunum listamanna.

Categories
Fréttir

Rekstrargrunnur hjúkrunarheimila styrktur varanlega um milljarð króna

Deila grein

29/12/2021

Rekstrargrunnur hjúkrunarheimila styrktur varanlega um milljarð króna

Rekstrargrunnur hjúkrunarheimila verður styrktur varanlega um 1,0 milljarð króna með fjárlögum næsta árs sem samþykkt voru á Alþingi í gær. Að auki er í fjárlögunum gert ráð fyrir 1,2 milljarða króna framlagi sem jafnframt er varanlegt, til að mæta auknum launakostnaði sem stafar af styttri vinnutíma vaktavinnufólks.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segir það mikilvægt skref að fjárlaganefnd og Alþingi hafi nú ákveðið að renna styrkari stoðum undir rekstur hjúkrunarheimilanna. Vinnuhópur skipaður fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Sambandi sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu fjallaði fyrr á þessu ári um aukna fjárþörf hjúkrunarheimila og hve miklu þyrfti að bæta inn í rekstrargrunninn til að tryggja rekstur.

„Þessi hækkun á rekstrargrunninum um einn milljarð króna er í samræmi við niðurstöðu vinnuhópsins. Það er því óhætt að segja að breið samstaða sé um þessa auknu fjármuni sem tvímælalaust skapa hjúkrunarheimilunum betri stöðu og gera þeim betur kleift að veita íbúum sínum góða þjónustu,“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Categories
Fréttir

Finnum bestu lausnirnar hverju sinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt – í krafti grænnar nýsköpunar

Deila grein

12/12/2021

Finnum bestu lausnirnar hverju sinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt – í krafti grænnar nýsköpunar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttiralþingismaður, var með jómfrúrræðu sína í fyrstu umræðu fjárlaga 2022 á Alþingi í síðustu viku.

Hafdís Hrönn sagði ógrynni tækifæra til staðar til að bæta samkeppnisstöðu Íslands á hinum ýmsu sviðum og þá sérstaklega á sviði þekkingar og nýsköpunar. „Fjárfesting í nýsköpun er ekki bara fjárfesting í nýsköpun; fjárfesting í loftslagsmálum, fjárfesting í heilbrigðiskerfinu, fjárfesting í landbúnaði, fjárfesting í sjávarútvegi, fjárfesting í hraðari orkuskiptum hér á landi. Með því að styðja við nýsköpun, hugverkaiðnað og skapandi greinar erum við að fjárfesta í samfélaginu öllu, fjárfesta í fólki.“

Minnti hún á að þess konar áherslur séu í takt við áherslur er Framsóknarflokkurinn lagði upp með í aðdraganda síðustu kosninga. Athygli vakti er framleiðandinn og streymisveitandinn HBO lýsti yfir áhuga á því að framleiða kvikmyndir og sjónvarpsþætti á Íslandi, að því gefnu að kosningaloforð Framsóknar yrðu að veruleika. Þetta kom fram í bréfi frá HBO til formanns og varaformanns Framsóknar.

„Við sem þjóð eigum að geta verið fremst meðal jafningja með skilvirku kerfi og hvötum sem stuðla að auknum áhuga og fjölgun verkefna til landsins. Ég bind miklar vonir við þann árangur sem fæst með hvötum sem þessum. Sköpun nýrra og fjölbreyttra starfa veitir okkur tækifæri til framtíðar. Samhliða þurfum við að efla kvikmyndanám og kennslu á háskólastigi með auknum stuðningi í fjárlögum. Íslendingar hafa sýnt sig og sannað á heimsvísu á þessu sviði og við getum skarað fram úr, enn frekar,“ sagði Hafdís Hrönn.

***

„Virðulegur forseti. Ég stend hér stolt og auðmjúk við flutning minnar fyrstu ræðu á Alþingi, jómfrúrræðu. Ég er fyrst og fremst þakklát fyrir það tækifæri sem ég fæ til að standa hér í dag, það er alls ekki sjálfgefið. Talandi um tækifæri: Hér á landi höfum við ógrynni tækifæra til að bæta samkeppnisstöðu Íslands á hinum ýmsu sviðum og þá sérstaklega á sviði þekkingar og nýsköpunar. Nýsköpun stuðlar að framförum með nýjum hugmyndum, verklagi og uppgötvunum. Nýsköpun er mikilvægur þáttur í allri framþróun. Það kemur til með að skipta efnahag Íslands öllu máli að við verðum ekki eftirbátar annarra þjóða sem við berum okkur saman við þegar kemur að atvinnusköpun, hugverkaiðnaði, nýsköpun á sviði orkumála og skapandi greina og í því felast tækifæri sem við eigum að grípa. Fjárfesting í nýsköpun er ekki bara fjárfesting í nýsköpun; fjárfesting í loftslagsmálum, fjárfesting í heilbrigðiskerfinu, fjárfesting í landbúnaði, fjárfesting í sjávarútvegi, fjárfesting í hraðari orkuskiptum hér á landi. Með því að styðja við nýsköpun, hugverkaiðnað og skapandi greinar erum við að fjárfesta í samfélaginu öllu, fjárfesta í fólki.

Við höfum öll fylgst með þeirri sérstöðu sem landið hefur þegar kemur að framleiðslu á afþreyingarefni, t.d. kvikmyndaframleiðslu. Erlendir kvikmyndaframleiðendur keppast við að taka upp og framleiða efni hér á landi, skiljanlega, enda er landið okkar ótrúlegt sjónarspil. Þetta er ekki einungis glæsileg landkynning sem styður hraustlega við íslenska ferðaþjónustu heldur geta þær tekjur sem við höfum af þessu reynst umtalsverðar. Að auki leiðir þetta til nýrra fjölbreyttra og afleiddra starfa sem við sem samfélag þurfum að líta til. Þessu tek ég fagnandi. Það er því einstaklega ánægjulegt að sjá í fjárlögum skref stigið í átt að því að auka endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi. Með slíkri aðgerð getum við bætt samkeppnisstöðu og sérstöðu okkar í alþjóðlegu samhengi og búið til tækifæri til framtíðar í sívaxandi geira. Við getum skipað okkur á bekk með ríkjum á borð við Írland og Spán þar sem kvikmyndaframleiðsla hefur gífurlega jákvæð áhrif á ríkistekjur. Íslensk kvikmyndaframleiðsla hefur verið að færa út kvíarnar síðastliðin ár og við eigum sérfræðinga í fremstu röð á öllum sviðum tengdum kvikmyndaframleiðslu, m.a. tónskáld, leikstjóra, klippara, leikara, og af því hefur íslenskt samfélag notið góðs, íslenskur efnahagur notið góðs af. Með auknum stuðningi er hægt að stuðla að frekari vexti og uppbyggingu á spennandi iðnaði. Við sem þjóð eigum að geta verið fremst meðal jafningja með skilvirku kerfi og hvötum sem stuðla að auknum áhuga og fjölgun verkefna til landsins. Ég bind miklar vonir við þann árangur sem fæst með hvötum sem þessum. Sköpun nýrra og fjölbreyttra starfa veitir okkur tækifæri til framtíðar. Samhliða þurfum við að efla kvikmyndanám og kennslu á háskólastigi með auknum stuðningi í fjárlögum. Íslendingar hafa sýnt sig og sannað á heimsvísu á þessu sviði og við getum skarað fram úr, enn frekar.

Þessar áherslur slá í takt við það sem Framsóknarflokkurinn lagði upp með í aðdraganda kosninga og kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum og endurspeglast í fjárlögum næsta árs. Þetta hefur heldur betur vakið athygli erlendis. Hinn risastóri framleiðandi og streymisveitandi HBO hefur nú þegar lýst yfir áhuga á því að framleiða kvikmyndir og sjónvarpsþætti á Íslandi verði umrædd áform að veruleika. Þessu lýsti afþreyingarrisinn yfir í bréfi sem stílað var á formann og varaformann Framsóknar: Verkefni frá framleiðendum á borð við HBO eru með þeim stærstu sem bjóðast í kvikmyndageiranum. Tekjurnar geta því orðið verulegar með tilheyrandi atvinnusköpun og sérþekkingu sem myndast í kringum slík verkefni. Þetta er fögur framtíðarsýn um uppbyggingu nýrra starfa og jafnvel upphafið að nýrri og öflugri stoð í íslensku atvinnulífi.

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að skapa atvinnu verðum við að auka þátt nýsköpunar og ef við gerum það sköpum við störf og þau skapa hagvöxt. Með hagvexti vöxum við út úr aukinni skuldsetningu sem skapast hefur í kjölfarið á heimsfaraldri sem geisað hefur í tæp tvö ár. Við getum þar með bætt enn frekar velferð samfélagsins. Þetta endurspeglast í þeim fjárlögum sem hér eru til umræðu, að við vöxum út úr því ástandi sem skapast hefur í Covid í krafti grænnar nýsköpunar.

Virðulegi forseti. Ég fer full vonar inn í þetta kjörtímabil og það er mín einlæga von að við getum haldið áfram að eiga í víðtæku samtali við samfélagið um þær breytingar sem ráðast skal í á kjörtímabilinu og með því fundið bestu lausnina hverju sinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt.“