Categories
Fréttir

Finnum bestu lausnirnar hverju sinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt – í krafti grænnar nýsköpunar

Deila grein

12/12/2021

Finnum bestu lausnirnar hverju sinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt – í krafti grænnar nýsköpunar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttiralþingismaður, var með jómfrúrræðu sína í fyrstu umræðu fjárlaga 2022 á Alþingi í síðustu viku.

Hafdís Hrönn sagði ógrynni tækifæra til staðar til að bæta samkeppnisstöðu Íslands á hinum ýmsu sviðum og þá sérstaklega á sviði þekkingar og nýsköpunar. „Fjárfesting í nýsköpun er ekki bara fjárfesting í nýsköpun; fjárfesting í loftslagsmálum, fjárfesting í heilbrigðiskerfinu, fjárfesting í landbúnaði, fjárfesting í sjávarútvegi, fjárfesting í hraðari orkuskiptum hér á landi. Með því að styðja við nýsköpun, hugverkaiðnað og skapandi greinar erum við að fjárfesta í samfélaginu öllu, fjárfesta í fólki.“

Minnti hún á að þess konar áherslur séu í takt við áherslur er Framsóknarflokkurinn lagði upp með í aðdraganda síðustu kosninga. Athygli vakti er framleiðandinn og streymisveitandinn HBO lýsti yfir áhuga á því að framleiða kvikmyndir og sjónvarpsþætti á Íslandi, að því gefnu að kosningaloforð Framsóknar yrðu að veruleika. Þetta kom fram í bréfi frá HBO til formanns og varaformanns Framsóknar.

„Við sem þjóð eigum að geta verið fremst meðal jafningja með skilvirku kerfi og hvötum sem stuðla að auknum áhuga og fjölgun verkefna til landsins. Ég bind miklar vonir við þann árangur sem fæst með hvötum sem þessum. Sköpun nýrra og fjölbreyttra starfa veitir okkur tækifæri til framtíðar. Samhliða þurfum við að efla kvikmyndanám og kennslu á háskólastigi með auknum stuðningi í fjárlögum. Íslendingar hafa sýnt sig og sannað á heimsvísu á þessu sviði og við getum skarað fram úr, enn frekar,“ sagði Hafdís Hrönn.

***

„Virðulegur forseti. Ég stend hér stolt og auðmjúk við flutning minnar fyrstu ræðu á Alþingi, jómfrúrræðu. Ég er fyrst og fremst þakklát fyrir það tækifæri sem ég fæ til að standa hér í dag, það er alls ekki sjálfgefið. Talandi um tækifæri: Hér á landi höfum við ógrynni tækifæra til að bæta samkeppnisstöðu Íslands á hinum ýmsu sviðum og þá sérstaklega á sviði þekkingar og nýsköpunar. Nýsköpun stuðlar að framförum með nýjum hugmyndum, verklagi og uppgötvunum. Nýsköpun er mikilvægur þáttur í allri framþróun. Það kemur til með að skipta efnahag Íslands öllu máli að við verðum ekki eftirbátar annarra þjóða sem við berum okkur saman við þegar kemur að atvinnusköpun, hugverkaiðnaði, nýsköpun á sviði orkumála og skapandi greina og í því felast tækifæri sem við eigum að grípa. Fjárfesting í nýsköpun er ekki bara fjárfesting í nýsköpun; fjárfesting í loftslagsmálum, fjárfesting í heilbrigðiskerfinu, fjárfesting í landbúnaði, fjárfesting í sjávarútvegi, fjárfesting í hraðari orkuskiptum hér á landi. Með því að styðja við nýsköpun, hugverkaiðnað og skapandi greinar erum við að fjárfesta í samfélaginu öllu, fjárfesta í fólki.

Við höfum öll fylgst með þeirri sérstöðu sem landið hefur þegar kemur að framleiðslu á afþreyingarefni, t.d. kvikmyndaframleiðslu. Erlendir kvikmyndaframleiðendur keppast við að taka upp og framleiða efni hér á landi, skiljanlega, enda er landið okkar ótrúlegt sjónarspil. Þetta er ekki einungis glæsileg landkynning sem styður hraustlega við íslenska ferðaþjónustu heldur geta þær tekjur sem við höfum af þessu reynst umtalsverðar. Að auki leiðir þetta til nýrra fjölbreyttra og afleiddra starfa sem við sem samfélag þurfum að líta til. Þessu tek ég fagnandi. Það er því einstaklega ánægjulegt að sjá í fjárlögum skref stigið í átt að því að auka endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi. Með slíkri aðgerð getum við bætt samkeppnisstöðu og sérstöðu okkar í alþjóðlegu samhengi og búið til tækifæri til framtíðar í sívaxandi geira. Við getum skipað okkur á bekk með ríkjum á borð við Írland og Spán þar sem kvikmyndaframleiðsla hefur gífurlega jákvæð áhrif á ríkistekjur. Íslensk kvikmyndaframleiðsla hefur verið að færa út kvíarnar síðastliðin ár og við eigum sérfræðinga í fremstu röð á öllum sviðum tengdum kvikmyndaframleiðslu, m.a. tónskáld, leikstjóra, klippara, leikara, og af því hefur íslenskt samfélag notið góðs, íslenskur efnahagur notið góðs af. Með auknum stuðningi er hægt að stuðla að frekari vexti og uppbyggingu á spennandi iðnaði. Við sem þjóð eigum að geta verið fremst meðal jafningja með skilvirku kerfi og hvötum sem stuðla að auknum áhuga og fjölgun verkefna til landsins. Ég bind miklar vonir við þann árangur sem fæst með hvötum sem þessum. Sköpun nýrra og fjölbreyttra starfa veitir okkur tækifæri til framtíðar. Samhliða þurfum við að efla kvikmyndanám og kennslu á háskólastigi með auknum stuðningi í fjárlögum. Íslendingar hafa sýnt sig og sannað á heimsvísu á þessu sviði og við getum skarað fram úr, enn frekar.

Þessar áherslur slá í takt við það sem Framsóknarflokkurinn lagði upp með í aðdraganda kosninga og kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum og endurspeglast í fjárlögum næsta árs. Þetta hefur heldur betur vakið athygli erlendis. Hinn risastóri framleiðandi og streymisveitandi HBO hefur nú þegar lýst yfir áhuga á því að framleiða kvikmyndir og sjónvarpsþætti á Íslandi verði umrædd áform að veruleika. Þessu lýsti afþreyingarrisinn yfir í bréfi sem stílað var á formann og varaformann Framsóknar: Verkefni frá framleiðendum á borð við HBO eru með þeim stærstu sem bjóðast í kvikmyndageiranum. Tekjurnar geta því orðið verulegar með tilheyrandi atvinnusköpun og sérþekkingu sem myndast í kringum slík verkefni. Þetta er fögur framtíðarsýn um uppbyggingu nýrra starfa og jafnvel upphafið að nýrri og öflugri stoð í íslensku atvinnulífi.

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að skapa atvinnu verðum við að auka þátt nýsköpunar og ef við gerum það sköpum við störf og þau skapa hagvöxt. Með hagvexti vöxum við út úr aukinni skuldsetningu sem skapast hefur í kjölfarið á heimsfaraldri sem geisað hefur í tæp tvö ár. Við getum þar með bætt enn frekar velferð samfélagsins. Þetta endurspeglast í þeim fjárlögum sem hér eru til umræðu, að við vöxum út úr því ástandi sem skapast hefur í Covid í krafti grænnar nýsköpunar.

Virðulegi forseti. Ég fer full vonar inn í þetta kjörtímabil og það er mín einlæga von að við getum haldið áfram að eiga í víðtæku samtali við samfélagið um þær breytingar sem ráðast skal í á kjörtímabilinu og með því fundið bestu lausnina hverju sinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt.“

Categories
Fréttir

„Vinna, vöxtur, velferð“

Deila grein

12/12/2021

„Vinna, vöxtur, velferð“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, var með jómfrúrræðu sína í fyrstu umræðu fjárlaga 2022 á Alþingi í síðustu viku. Í ræðu sinni fór hann yfir að stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar væri ítarlegt skjal sem einkennist af bjartsýni varðandi þau tækifæri sem væru til staðar

Fjárlagafrumvarpið endurspegli vel markmið ríkisstjórnarinnar og að vel ígrundaðar og kröftugar efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafi gefist vel fram að þessu. Vel hafi spilast úr fordæmalausu stöðu sem þjóðin stæði öll frammi fyrir.

„Við höfum sagt að það sé mikilvægt að einstaklingurinn sé ávallt hjartað í kerfinu og við sjáum það vel á markmiðum og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, bæði á því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir og frá síðasta kjörtímabili. Framlög til velferðarmála hafa vaxið hvað mest í krónum talið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála nema 37% af 220 milljarða kr. útgjaldaaukningu frá 2017 en félags- og tryggingamál eru næststærsti hluti eða 26%. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála aukist um 16,3 milljarða. Geðheilbrigðismál fá aukið rými og utan um þann málaflokk þarf sérstaklega að taka. Ég treysti nýjum heilbrigðisráðherra vel til þeirra verkefna sem og annarra,“ sagði Ágúst Bjarni.

Ágúst Bjarni sagði að atvinnuleysi væri á niðurleið og væri komið niður í um 5%, glöggt merki þess að atvinnulífið er að taka við sér enda öflugt atvinnulíf forsenda velferðar og framfara.

***

„Hæstv. forseti. Ég stend hér stoltur og fullur þakklætis og auðmýktar fyrir tækifærið að fá að vinna að góðum málum í þágu samfélagsins alls hér á hinu háa Alþingi. Í upphafi ræðu minnar vil ég minnast í stuttu máli á stjórnarsáttmálann sem er ítarlegt skjal sem bæði einkennist af bjartsýni varðandi þau tækifæri sem til staðar eru og bjartsýni um að við getum áfram bætt samfélagið og lagfært það sem þarf að laga. Við ræðum hér í því samhengi frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022. Ég tel að fjárlagafrumvarpið endurspegli vel markmið ríkisstjórnarinnar. Ljóst er að staðan er betri í efnahagsmálum en gert var ráð fyrir í fjárlögum líðandi árs. Það er vel að efnahagsbatinn hafi reynst meiri en spár gerðu ráð fyrir og áfram er útlit fyrir nokkuð sterkan vöxt árið 2022. Ég leyfi mér að fullyrða að vel ígrundaðar og kröftugar efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafi gefist vel í þessum ólgusjó alheimsfaraldurs og skýra að stórum hluta hve vel hefur spilast úr þessari fordæmalausu stöðu sem þjóðin öll stendur enn frammi fyrir. Ég þekki það vel úr störfum mínum sem sveitarstjórnarmaður að þau ýmsu úrræði sem gripið var til af hálfu stjórnvalda og stóðu til boða skiptu sköpum. Má þar nefna hlutabótaleiðina eða hlutastarfaleiðina, tekjutengdar atvinnuleysisbætur, Allir vinna, vinnumarkaðsátakið Hefjum störf, stuðning til íþróttafélaga og sérstakan stuðning til tekjulágra heimila sem hafði og hefur það markmið að jafna tækifæri barna til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir að svo verði áfram.

Hér er bæði um að ræða óbeinan stuðning til sveitarfélaga í gegnum þessi úrræði og beinan stuðning til fólks. Ég hef nefnt ýmis úrræði en við þau mætti bæta fjölda annarra úrræða í gegnum faraldurinn. Það má því segja heilt yfir að það hafi gefið góða raun að beita ríkisfjármálunum af krafti. Atvinnuleysi er á niðurleið og er komið í um 5%. Það er glöggt merki þess að atvinnulífið er að taka við sér, sem eru góðar fréttir. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar og framfara. Auka þarf verðmætasköpun og gefa fyrirtækjum nauðsynlegt svigrúm til að sækja fram, fjárfesta í tækjum og tólum, til að auka samkeppnishæfni þeirra og ekki síður til að ráða fólk til starfa að nýju. Slíkt treystir ríkisfjármálin á ný og gefur okkur sem þjóð tækifæri til að vaxa og dafna til frekari velsældar. Þetta er stærsta verkefni okkar í upphafi nýs kjörtímabils og áfram inn í framtíðina. Vinna, vöxtur, velferð, virðulegur forseti.

Við höfum sagt að það sé mikilvægt að einstaklingurinn sé ávallt hjartað í kerfinu og við sjáum það vel á markmiðum og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, bæði á því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir og frá síðasta kjörtímabili. Framlög til velferðarmála hafa vaxið hvað mest í krónum talið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála nema 37% af 220 milljarða kr. útgjaldaaukningu frá 2017 en félags- og tryggingamál eru næststærsti hluti eða 26%. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála aukist um 16,3 milljarða. Geðheilbrigðismál fá aukið rými og utan um þann málaflokk þarf sérstaklega að taka. Ég treysti nýjum heilbrigðisráðherra vel til þeirra verkefna sem og annarra.

Einnig fagna ég því að frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað í 200.000 kr. á mánuði um næstu áramót og þar með tvöfaldað. Stigin hafa verið ákveðin skref í barnabótakerfinu til að bæta hag lágtekjufólks og lægri millitekjuhópa. Það er vel og við þurfum að vera sammála um að létta þeim róðurinn sem þyngstar byrðar bera.

Til viðbótar má nefna að útgjöld vegna félags-, húsnæðis- og tryggingamála hækka um 8,1 milljarð árið 2022 og vegur þar m.a. þyngst kostnaður vegna lengingar fæðingarorlofs í 12 mánuði, um 1,1 milljarð. Þetta er jafnréttismál.

Stærsta einstaka fjárfestingarverkefni í fjárlagafrumvarpinu er bygging nýs Landspítala en gert er ráð fyrir að verja til þess 14 milljörðum kr. árið 2022. Þá er gert ráð fyrir 10,4 milljörðum í endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, 31,5 milljörðum í samgöngumannvirki, 5,2 milljörðum í byggingu hjúkrunarheimila og 1,5 milljörðum í Stafrænt Ísland, svo að dæmi séu tekin. Það er því ljóst að við munum áfram byggja upp af krafti, styrkja innviði, byggja upp greiðar, öruggar og hagkvæmar samgöngur, styðja við menntun, nýsköpun og öflugt heilbrigðiskerfi enn frekar. Fjárlagafrumvarpið hér ber merki þess, eins og fram hefur komið.

Hæstv. forseti. Talandi um húsnæðismarkaðinn og lóðaframboð, og þá er ég kannski sérstaklega að horfa til okkar á höfuðborgarsvæðinu: Ég tel að við séum að stíga gott skref og þarft með því að setja á fót sérstakt innviðaráðuneyti sem m.a. hefur það að markmiði að samþykkja skipulagsáætlanir sveitarfélaga og svæðisskipulagsstefnu til að ná betri nýtingu á innviðum og annarri þjónustu og fá mun betri yfirsýn yfir framboð á lóðum og húsnæði, bæði í nútíð og framtíð. Þetta styður við alla stjórnsýslu skipulagsmála. Að mínu mati er staðan talsvert snúin hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem við vinnum samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. Þar inni má finna vaxtarmörk, þ.e. hversu mikið sveitarfélögin geta í raun þanið sig út. Þetta verður nefnilega að fara saman í allri umræðu, bæði þegar kemur að þéttingu byggðar og nýbyggingarsvæðum.

Ef við horfum á vaxtarmörkin í dag er okkur þröngur stakkur sniðinn. Árið er 2021 og heil 19 ár í árið 2040 með allri væntri uppbyggingu á þeim tíma. Þarna verðum við sem samfélag að horfa inn á við og segja að mögulega þurfi að taka þetta allt saman til endurskoðunar, íbúum til heilla, og rétta kúrsinn, eins og oft er sagt. Hér erum við auðvitað komin í sveitarstjórnarmál en þetta tengist allt þessu nýja ráðuneyti sveitarstjórna og skipulagsmála. Þetta snýst um skilvirkni.

Það sem ég hef nefnt hér að ofan hefur nefnilega áhrif á húsnæðismarkaðinn og húsnæðisverð sem hækkað hefur mikið á síðustu árum. Líklega myndu einhverjir segja þá hækkun að mörgu leyti og að miklu leyti komna til vegna skorts á lóðum og þar með á uppbyggingu húsnæðis.

Virðulegur forseti. Sumir kjósa alltaf að horfa á glasið hálftómt en ég kýs hins vegar að vera bjartsýnn, sem ég er nú almennt, og horfa á glasið hálffullt. Staðan er nokkuð góð og það er bjart fram undan.“

Categories
Fréttir

Frístundahús og bílskúrar þurfa ekki lengur byggingarleyfi

Deila grein

09/12/2021

Frístundahús og bílskúrar þurfa ekki lengur byggingarleyfi

Með síðustu breytingu á byggingarreglugerðinni um nýtt flokkunarkerfi þýðir að bygging einfaldari mannvirkja mun ekki lengur vera háð útgáfu byggingarleyfis, heldur nægir að hafa svokallaða byggingarheimild sem draga mun úr flækjustigi í byggingariðnaðinum. OECD gagnrýndi kerfið við leyfisveitingar í mannvirkjagerð í samkeppnismati sínu á íslenskum byggingariðnaði sem kynnt var á síðasta ári. Reglugerðin er viðbrögð við þeirri gagnrýni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra:
„Ég tel þetta vera mikilvægt skref á þeirri leið sem við höfum markað um að einfalda verulega alla stjórnsýslu og leyfisveitingar. Það hefur verið kallað eftir því lengi að minnka óþarfa flækjustig í einföldum framkvæmdum.

Við þurfum að nýta skynsamlega þá fjármuni sem við leggjum í eftirlit með mannvirkjum frekar en að senda fólk út og suður í að afla leyfa til að reisa einfalda skjólveggi eða girðingar.

Ég tel að með sameiningu stjórnsýslu húsnæðis-, skipulags- og byggingarmála í einu ráðuneyti, sem nú er að verða að veruleika, verði hægt að stíga fleiri skref til að einfalda leyfisveitingar, auka stafræna upplýsingagjöf og þannig lækka húsnæðisverð, sem skiptir höfuðmáli fyrir almenning.“

Breytingin nú er einungis fyrsta skrefið af nokkrum sem stigin verða á næstunni til að stytta og einfalda leyfisveitingar vegna byggingaframkvæmda. Markmiðið er að stytta verulega byggingartíma og með því sporna gegn óhóflegum verðsveiflum á húsnæðismarkaði.

Nýja flokkunarkerfið þýðir að bygging einfaldari mannvirkja mun ekki lengur vera háð útgáfu byggingarleyfis, heldur nægir að hafa svokallaða byggingarheimild sem mun draga verulega úr flækjustigi í slíkum framkvæmdum. Breytingin er í takt við áform um einföldun stjórnsýslu byggingamála sem fram koma í nýjum stjórnarsáttmála.
Framundan er frekari endurskoðun m.a. með hliðsjón af tillögum OECD sem gagnrýndi fyrra kerfi leyfisveitinga í mannvirkjagerð í samkeppnismati sínu á íslenskum byggingariðnaði á síðasta ári.

Categories
Fréttir

„Aukin tækifæri eru í orkuskiptum með grænni orku“

Deila grein

03/12/2021

„Aukin tækifæri eru í orkuskiptum með grænni orku“

Ingibjörg Ólöf Isaksen, alþingismaður, sagði vinnumarkaðsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og hraður viðsnúningur hagkerfisins hafa tryggt að atvinnuleysi hefur dregist hraðar saman en við þorðum að vona, á Alþingi í gær í fyrstu umræðu fjárlaga 2022. „Við megum þó ekki slaka á því að enn er hætta á langtímaatvinnuleysi. Því er mikilvægt að huga að umgjörð vinnumarkaðarins. Niðurstaða kjarasamninga mun ráða miklu um þróun efnahagsmála næstu árin. Tryggja þarf að atvinnuleysi og verðbólga verði ekki að vandamáli, en verðbólguspár gera ráð fyrir aukinni bjartsýni.“

„Sterk staða ríkissjóðs á síðasta kjörtímabili og hagstæðar aðstæður í efnahagslífinu voru nýttar í styrkingu velferðarkerfa og viðamikla innviðauppbyggingu ásamt því að leggja sérstaka áherslu á rannsóknir og efnahagsmál,“ sagði Ingibjörg Ólöf.

„Hugmyndafræði sjálfbærni og réttlátra umskipta og aukinnar samkeppnishæfni verður leiðarstef ríkisstjórnarinnar í yfirstandandi umbreytingum vegna loftslagsvárinnar og tæknibreytinga sem hafa áhrif á öllum sviðum samfélagsins. Aukin tækifæri eru í orkuskiptum með grænni orku. Við eigum að nýta okkur þau tækifæri og tryggja með því stefnu stjórnvalda um að Ísland verði lágkolefnishagkerfi,“ sagði Ingibjörg Ólöf í jómfrúrræðu sinni á Alþingi í gær í umræðu um fjárlög 2022.

***

„Virðulegi forseti. Ég stend hér stolt, auðmjúk og þakklát fyrir að fá það tækifæri að flytja jómfrúrræðu mína hér á hinu háa Alþingi. Það er ekki sjálfgefið að fá tækifæri til að vinna að góðum málum í þágu samfélagsins alls.

Í málum jafn ítarlegum og tæknilega flóknum og fjárlögum er auðvelt að gleyma sér í einstaka tölum og liðum. Það sem skiptir mestu máli er heildarmyndin, að geta séð skóginn fyrir trjánum. Hvernig lítur heildin út? Fjárlagafrumvarpið gefur okkur von til þess að vera bjartsýn eftir öldugang undanfarinna mánaða og efnivið til frekari vinnu. Við yfirferð fjárlagafrumvarpsins kemur skýrt í ljós að efnahagshorfur hafa batnað til muna frá framlagningu síðasta fjárlagafrumvarps. Afkoma og skuldahorfur ríkissjóðs hafa batnað og tekjur eru áætlaðar meiri en í fjármálaáætlun.

Það er ekki sjálfgefið að vera á þessum stað eftir heimsfaraldur sem sett hefur flestar þjóðir í erfiða stöðu. Það er í raun leitun að annarri þjóð sem stendur jafn traustum fótum og við hér á Íslandi.

Stjórn ríkisfjármála byggir á traustum grunni og þau eru ábyrg og metnaðarfull. Opinber fjármál síðustu mánaða hafa mótast af efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins en eðlilegt er að halli hafi verið á ríkissjóði vegna samdráttar og aukinna útgjalda. Hallinn hefði hins vegar verið umtalsvert meiri hefði ekki verið ráðist í viðspyrnuaðgerðir, því að líkt og við sjáum nú skiluðu þær góðum árangri.

Vinnumarkaðsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og hraður viðsnúningur hagkerfisins hafa tryggt að atvinnuleysi hefur dregist hraðar saman en við þorðum að vona. Við megum þó ekki slaka á því að enn er hætta á langtímaatvinnuleysi. Því er mikilvægt að huga að umgjörð vinnumarkaðarins. Niðurstaða kjarasamninga mun ráða miklu um þróun efnahagsmála næstu árin. Tryggja þarf að atvinnuleysi og verðbólga verði ekki að vandamáli, en verðbólguspár gera ráð fyrir aukinni bjartsýni.

Sterk staða ríkissjóðs á síðasta kjörtímabili og hagstæðar aðstæður í efnahagslífinu voru nýttar í styrkingu velferðarkerfa og viðamikla innviðauppbyggingu ásamt því að leggja sérstaka áherslu á rannsóknir og efnahagsmál.

En áfram skal halda. Hæstv. ríkisstjórn ætlar að stuðla að heilbrigðu samfélagi. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram aukin áhersla á heilbrigðismál. Það hefur sannast að styrkur velferðar er ekki síst mældur í sterku og samkeppnishæfu heilbrigðiskerfi. Það er mikilvægt að við tryggjum öflugu, blönduðu heilbrigðiskerfi viðeigandi aðbúnað. Þannig tryggjum við að okkar verðmæti og hæfi mannauður sem býr yfir þekkingu á sviði heilbrigðismála þjóni samfélaginu sem best. Okkur ber að nýta öll þau úrræði sem við búum að í heilbrigðiskerfinu og með samvinnu og skynsemi ríkis og einkaaðila náum við árangri.

Á næsta ári verður m.a. aukið framlag til Landspítalans og opna á sex hágæslurými, 30 ný endurhæfingarrými og koma á fót sérstakri farsóttardeild í Fossvogi til að bregðast við faraldrinum. Auka á fjárframlög til Sjúkratrygginga og gert er ráð fyrir aukningu framlaga til heilsugæslunnar. Þá hækka fjárframlög til geðheilbrigðismála, en einungis tímabundið.

Mikil umræða hefur verið um stöðu hjúkrunarheimila í landinu. Því er ánægjulegt að auka eigi við fjármagn til byggingar hjúkrunarheimila og fara í endurbætur á eldri rýmum. Þjóðin er að eldast og mikilvægt að við höfum framtíðarsýn í þjónustu við eldra fólkið okkar. Við þurfum að búa svo um hnútana að fólk geti búið heima sem lengst með reisn, öryggi og þjónustu sem það getur treyst á. Við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að leysa rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna. Þeirri áskorun þarf að mæta með krafti og með hagsýni og skynsemi að leiðarljósi.

Stefna ríkisstjórnarinnar á komandi kjörtímabili er að bæta hag eldri borgara. Fyrsta skrefið er að hækka frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega í 200.000 kr. á mánuði um næstu áramót. Þeirri aðgerð hefur lengi verið kallað eftir og ánægjulegt að sjá hana verða að veruleika.

Til að jafna tækifæri til atvinnu í landinu verður áfram haldið með þrífösun rafmagns með áherslu á dreifingu og afhendingaröryggi raforku í dreifbýli. Þá verður ýtt undir verkefnið Störf án staðsetningar, m.a. með því að skapa aðstæður og þróa áfram hugmyndafræðina.

Hugmyndafræði sjálfbærni og réttlátra umskipta og aukinnar samkeppnishæfni verður leiðarstef ríkisstjórnarinnar í yfirstandandi umbreytingum vegna loftslagsvárinnar og tæknibreytinga sem hafa áhrif á öllum sviðum samfélagsins. Aukin tækifæri eru í orkuskiptum með grænni orku. Við eigum að nýta okkur þau tækifæri og tryggja með því stefnu stjórnvalda um að Ísland verði lágkolefnishagkerfi.

Áfram verður lögð áhersla á uppbyggingu greiðra, öruggra og hagkvæmra samgangna. Á síðasta kjörtímabili var mikil vinna unnin í samgöngumálum og haldið verður áfram með þá vinnu.

Það tæki eflaust allan ræðutíma minn að telja upp mikilvægar framkvæmdir sem farið verður í og það er jákvætt merki. En við getum tekið framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng sem dæmi um mikilvægar aðgerðir sem brýnt er að klára sem fyrst.

Markmiðið er að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi. Til að það geti orðið að veruleika þarf að bæta starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt, m.a. með jafnrétti í sveitarstjórnum, efla þær og skapa aukna vitund um mikilvægi fjölbreyttra sjónarmiða innan þeirra.

Endurskoða á tekjustofna sveitarfélaga með það að markmiði að auka sjálfbærni sveitarfélaga, hækka framlög í jöfnunarsjóð og auka stuðning úr sjóðnum til sameiningar sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Við erum að hefja nýtt kjörtímabil. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að tryggja gott líf og góð búsetuskilyrði fyrir allt fólkið í landinu óháð stöðu og efnahag. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2022 er upptakturinn að því sem koma skal.“

Categories
Fréttir

„Ný græn störf um land allt“

Deila grein

02/12/2021

„Ný græn störf um land allt“

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana fóru fram á Alþingi í gær. Ræðumenn Framsóknar voru Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Willum Þór Þórsson.

Sigurður Ingi ræddi þá uppstokkun í Stjórnarráðinu er komi fram í stjórnarsáttmálanum, en hún sé til komin til að endurspegla betur framtíðina og verkefnin sem þurfi að leysa. Hraðar tæknibreytingar munu hafa áhrif á líf og störf fólks og mikilvægt sé að nýta tækifærin sem skapist í breyttum heimi.

„Áhersla er lögð á menntun, tækni og nýsköpun í nýjum jafnt sem rótgrónum atvinnugreinum, á nýsköpun í stjórnsýslu, skapandi greinar og menningu, allt með það að markmiði að skapa ný og græn störf um land allt. Afkoma ríkissjóðs er staðfesting þess að viðbrögð ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili við áhrifum heimsfaraldursins á heilsu og efnahag þjóðarinnar voru bæði rétt og skynsamleg. Afkoman sýnir okkur að það pólitíska jafnvægi sem ríkir á Íslandi er mikilvægt og á þessu jafnvægi getum við byggt frekari sókn til aukinna lífsgæða allra landsmanna, um allt land,“ sagði Sigurður Ingi.

„Við erum að hefja nýja sókn. Við leggjum upp með bjartsýni á framtíðina, bjartsýni á kraftinn sem býr í þjóðinni. Það er einlæg trú mín að samstarf þessara þriggja flokka, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, flokka sem já, spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapi jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara. Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er sáttmáli um að græn réttlát framtíð sé grundvöllur aukinna lífsgæða um land allt,“ sagði Sigurður Ingi.

Lilja Dögg fór yfir að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar gefi góð fyrirheit um að umgjörð menningar og lista. „Kvikmyndagerð er mikilvæg íslensku atvinnu- og menningarlífi. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis verður styrkt og við ætlum að hækka endurgreiðslur til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi,“ sagði Lilja Dögg.

„Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Við viljum að Ísland sé leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu,“ sagði Lilja Dögg.

Willum Þór sagði það vera forgangsmál ríkisstjórnarinnar að snúa vörn í sókn, að styrkja og efla gott heilbrigðiskerfi. „Það hefur sannast að styrkur velferðar er ekki síst mældur í sterku og samkeppnishæfu heilbrigðiskerfi. Viljann á þeirri vegferð nú og til framtíðar má vel lesa í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þegar við horfum til raunaukningar framlaga til rekstrar og til fjárfestinga, en stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýs Landspítala,“ sagði Willum Þór.

„Heilbrigðiskerfið verður að geta þjónað hverjum og einum innan skilgreinds biðtíma. Einstaklingurinn og þjónustan við hann eru í fyrirrúmi. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að lögð sé aukin áhersla á forvarnir, lýðheilsu og geðheilbrigðismál. Það verða forgangsmál okkar á þessu kjörtímabili, að þróa heilbrigðiskerfið í takt við framtíðina,“ sagði Willum Þór.

Ræður ráðherra Framsóknar má lesa hér að neðan.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar:

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Til hamingju með 1. desember, fullveldisdaginn. Ég vil byrja á því að óska þingmönnum, sérstaklega nýjum þingmönnum, til hamingju með að hafa tekið sæti á hinu háa Alþingi. Það er mikill heiður að fá að sitja í þessum sal og fá tækifæri til að hafa áhrif til góðs í samfélaginu okkar. Það eru miklar skyldur lagðar á herðar okkar sem hér störfum í þágu lands og þjóðar. Okkar verkefni er að leiða þjóðina til aukinna lífsgæða á öllum sviðum. Okkar verkefni er að takast á við framtíðina.

Við í Framsókn lögðum mikla áherslu á bjartsýni og gleði í okkar kosningabaráttu. Við lögðum áherslu á það að fjárfesta í fólki, en það er lykillinn að sköpun lífsgæða og nýrra tækifæra á landinu okkar. Þess sér skýrt stað í nýjum stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Í stjórnarsáttmálanum eru loftslagsmálin áberandi enda er loftslagsváin það verkefni sem brýnast er í heiminum í dag og næstu ár og áratugi. Fólk hefur áhyggjur og það á sérstaklega við um unga fólkið sem sér framtíð sinni ógnað. Heiminum verður hins vegar ekki bjargað með því hafa áhyggjur. Óttinn getur haft lamandi áhrif. Þess vegna er sá tónn sem sleginn er í nýjum stjórnarsáttmála tónn vonar og bjartsýni. Við ætlum að nýta þær einstöku aðstæður sem við búum við hér á Íslandi, þá þekkingu sem við höfum á endurnýjanlegum orkugjöfum og þann kraft sem býr í fólki og atvinnulífinu til að leysa þau verkefni sem að okkur snúa og gefa öðrum verkfæri til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Við leggjum áherslu á að orkuskiptin eru sameiginlegir hagsmunir og að þeim verði náð með jöfnuði og réttlæti að leiðarljósi.

Sú mikla uppstokkun sem verður í Stjórnarráðinu er gerð til að endurspegla betur framtíðina og þau verkefni sem hún færir okkur. Við erum að ganga í gegnum miklar tæknibreytingar sem munu breyta og hafa verið að breyta lífi okkar og störfum. Breytingarnar eru hraðar og nauðsynlegt er að skapa aðstæður fyrir fólk og fyrirtæki til að nýta þau tækifæri sem skapast í breyttum heimi. Að samtvinna húsnæðis- og skipulagsmál við samgönguáætlun í sama ráðuneyti og sveitarstjórnar- og byggðamál til að mynda getur til skapað tækifæri til að finna betri og skilvirkari lausnir.

Áhersla er lögð á menntun, tækni og nýsköpun í nýjum jafnt sem rótgrónum atvinnugreinum, á nýsköpun í stjórnsýslu, skapandi greinar og menningu, allt með það að markmiði að skapa ný og græn störf um land allt. Afkoma ríkissjóðs er staðfesting þess að viðbrögð ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili við áhrifum heimsfaraldursins á heilsu og efnahag þjóðarinnar voru bæði rétt og skynsamleg. Afkoman sýnir okkur að það pólitíska jafnvægi sem ríkir á Íslandi er mikilvægt og á þessu jafnvægi getum við byggt frekari sókn til aukinna lífsgæða allra landsmanna, um allt land.

Eitt af stóru verkefnum ríkisstjórnarinnar verður að stuðla að uppbyggingu atvinnutækifæra hringinn í kringum landið til að fólk eigi aukna möguleika á því að velja sér þann stað þar sem það vill búa. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.“

Þessi orð marka að mörgu leyti tímamót í viðhorfi til starfa hjá ríkinu. Hér er ekki talað um störf án staðsetningar sem sérstakt atriði heldur er hugsuninni snúið við. Sérstaklega þarf að rökstyðja að störf séu staðbundin. Þetta er stórt mál. Einnig ætlum við að styðja við klasasamstarf hins opinbera og einkaaðila til að búa til starfsaðstöðu á lykilstöðum á landinu, en fyrsta verkefnið af þessu tagi er að hefjast á Selfossi og minni verkefni eru til um land allt.

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Við erum að hefja nýja sókn. Við leggjum upp með bjartsýni á framtíðina, bjartsýni á kraftinn sem býr í þjóðinni. Það er einlæg trú mín að samstarf þessara þriggja flokka, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, flokka sem já, spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapi jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara. Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er sáttmáli um að græn réttlát framtíð sé grundvöllur aukinna lífsgæða um land allt.

***

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála- viðskipta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar:

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við fögnum fullveldisafmælinu í dag og getum verið stolt af því hversu langt Ísland hefur náð á þessum rúmum 100 árum. Einnig er degi tónlistar fagnað í dag. Engin orð fanga mikilvægi íslenskrar tónlistar, bæði fyrir sjálfsmynd og menningu þjóðarinnar. Í henni er einhver ólýsanlegur strengur sem höfðar ekki bara til okkar sjálfra heldur tónlistarunnenda um allan heim. Íslenskt tónlistarfólk hefur náð ótrúlegum árangri á fjölmörgum sviðum tónlistar og fyrir vikið er tónlist orðin ein af okkar mikilvægustu útflutningsgreinum.

Í kvöld langar mig til að fjalla um menningu, listir og ferðaþjónustu og hvernig ég tel að það sé einstakt tækifæri fólgið í hinu nýja ráðuneyti menningar og viðskipta, en hátt í 30.000 manns starfa við menningu, skapandi greinar og ferðaþjónustu og búa til gríðarleg útflutningsverðmæti.

Virðulegur forseti. Þjóðir heims hafa mismikil áhrif á söguna og leið þjóða á borð við Ísland er í gegnum hið mjúka vald, þ.e. að hafa áhrif í gegnum menningu og listir. Ljóst er að íslenskt listafólk hefur verið okkar bestu sendiherrar. Hildur Guðnadóttir, Ragnar Kjartansson, Erna Ómarsdóttir, Laufey Lín, Björk, Friðrik Þór og Arnaldur. Indriðason eru dæmi um slíka sendiherra. Því var það löngu tímabært að þjóðin eignaðist ráðuneyti sem beinir meira sjónum að menningu, listum og skapandi greinum en hingað til ásamt því að hlúa vel að ferðaþjónustu. Stór þáttur í aðdráttarafli Íslands er fólginn í sterku lista- og menningarlífi og brýnt er að hlúa að íslenskri frumsköpun.

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar gefur góð fyrirheit um að umgjörð menningar og lista verði studd enn frekar og langar mig að nefna nokkrar aðgerðir í þeim efnum. Kvikmyndagerð er mikilvæg íslensku atvinnu- og menningarlífi. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis verður styrkt og við ætlum að hækka endurgreiðslur til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi.

Tónlistarmiðstöð verður sett á laggirnar og verður ein af hornsteinum íslensks tónlistarlífs. Það er grundvallaratriði að styðja betur við tónlistina á Íslandi. Þess má geta að virði umfjöllunar um íslenska tónlist á alþjóðavettvangi nam um 7 milljörðum kr. árið 2020.

Myndlistarstefna verður kláruð á næsta ári og verður hrint í framkvæmd á kjörtímabilinu. Það er tímabært að myndlistin njóti aukins vægis í takt við aðrar listgreinar. Íslenskt myndlistarlíf er einkar framsækið og hefur hlotið lof og viðurkenningar erlendis og því verðum við að gera betur þar. Samtímamyndlist á endalaust erindi. Segja má að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé býsna heit fyrir myndlistinni þar sem fyrsta ríkisstjórnin var kynnt á Listasafni Íslands og sú síðari á Kjarvalsstöðum.

Góðir landsmenn. Bókaþjóðin stendur undir nafni en útgefnum bókum hefur fjölgað um 36% á síðustu fjórum árum. Opinber stuðningur við útgáfu bóka hefur aukið úrvalið fyrir lesendur á öllum aldri. Þessi stuðningur er liður í fjölþættum aðgerðum stjórnvalda til að efla íslenskuna og bæta læsi. Við megum ekki gleyma því að handritin voru ein af fyrstu útflutningsafurðum íslensku þjóðarinnar á 14. öld og er ég sannfærð um að Snorri Sturluson væri bara býsna ánægður með stöðu mála.

Við ætlum að gera betur í hönnun. Íslenskir hönnuðir eru í fremstu röð og ég hvet einstaklinga og fyrirtæki til að huga að því alla daga að hafa íslenska hönnun í sínu umhverfi. Því var það sérstakt ánægjuefni þegar forseti Íslands ákvað að íslensk hönnun myndi prýða Bessastaði.

Ný sviðslistamiðstöð mun hefja störf á nýju ári og verður mjög mikilvæg fyrir sviðslistir í landinu. Hún mun koma til með að styðja við greinina og koma henni enn betur á framfæri hérlendis og erlendis. Að auki verður styrkt betur við starfslauna- og verkefnasjóði listamanna.

Góðir landsmenn. Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Við viljum að Ísland sé leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu.

Í lokin langar mig til að vitna í ræðu Péturs Gunnarssonar rithöfundar sem flutti á 80 ára afmæli Bandalags íslenskra listamanna, en þar rifjaði hann upp að BÍL hafi verið stofnað á tíu ára afmæli fullveldisins og frumherjar BÍL voru þess fullvissir að án blómlegrar menningar væri fullveldið orðin tóm. Hugmyndasmiðurinn að stofnun BÍL, Jón Leifs tónskáld, líkti því við landvarnir og sagði að ef stjórnvöld veittu þótt ekki væri nema broti af því sem aðrar þjóðir kostuðu til landvarna væri björninn unninn. Og einn úr hópi þeirra, Halldór Laxness, komst svo að orði: Gildi þjóðar fer eftir menningu hennar.

Þess vegna leggur ríkisstjórnin sérstaka áherslu á hugvit til framtíðar.

Kæru landsmenn. Það eru spennandi tímar fram undan þar sem fjölmörg tækifæri blasa við hugrakkri þjóð. — Góðar stundir.

***

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra:

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Til hamingju með fullveldisdaginn. Það er auðmjúkur maður sem hér stendur og flytur eldhúsdagsræðu sem ráðherra í fyrsta sinn. Málaflokkur heilbrigðisþjónustu er stór í öllu samhengi. Frábært starfsfólk heilbrigðisráðuneytisins hefur tekið vel á móti mér í vikunni. Verkefnin eru ærin. Heilbrigðismálin eru og ættu að vera okkur öllum ofarlega í huga, enda heilsan ein okkar dýrmætasta eign. Heimsfaraldurinn hefur í raun minnt okkur rækilega á þá staðreynd. Við slíkar aðstæður kjarnast oft hlutirnir. Við höfum reynt styrkinn í heilbrigðiskerfinu og baráttuviljann sem hefur komið bersýnilega í ljós og verða afrek heilbrigðisstarfsfólks seint fullþökkuð.

Á hinn bóginn hefur hið mikla álag, aukaálag, sem fylgir slíkum aðstæðum einnig afhjúpað undirliggjandi veikleika í kerfinu. En það gefur um leið tækifæri til að bregðast markvissar við. Það er forgangsmál þessarar ríkisstjórnar að snúa vörn í sókn, að styrkja og efla gott heilbrigðiskerfi, því að það hefur sannast að styrkur velferðar er ekki síst mældur í sterku og samkeppnishæfu heilbrigðiskerfi. Viljann á þeirri vegferð nú og til framtíðar má vel lesa í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þegar við horfum til raunaukningar framlaga til rekstrar og til fjárfestinga, en stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýs Landspítala. Starfið sem fram fer hvern einasta dag í heilbrigðiskerfinu, þar sem kraftaverk eru í raun unnin, er þó ávallt í forgrunni. Og áfram er unnið að því að byggja undir fjármögnun rekstrar og með aðgerðum að bæta aðbúnað og auka viðbragðsgetu kerfisins. Ég nefni hágæslurými, 30 ný endurhæfingarrými og farsóttardeild Landspítala í Fossvogi. Mikilvægt er að styrkja og efla gjörgæsludeildir og bráðamóttöku Landspítala og horfa til þess að það verði eftirsóknarvert að sinna störfum í heilbrigðisþjónustu.

Kæru landsmenn. Við verðum hins vegar að muna að horfa á heilbrigðiskerfið og heilbrigði þjóðarinnar í stærra samhengi. Það er grundvallarréttlætismál að aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu sé tryggður. Heilbrigðiskerfið verður að geta þjónað hverjum og einum innan skilgreinds biðtíma. Einstaklingurinn og þjónustan við hann eru í fyrirrúmi. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að lögð sé aukin áhersla á forvarnir, lýðheilsu og geðheilbrigðismál. Það verða forgangsmál okkar á þessu kjörtímabili, að þróa heilbrigðiskerfið í takt við framtíðina. Lærdómur síðustu missera, þar sem okkur hefur tekist að lágmarka skaðleg áhrif af stærstu áskorun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir lengi, hlýtur að vera sá að samvinna og samstaða skiptir öllu máli og er forsenda árangurs. — Góðar stundir.

Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (síða)

Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (PDF)

Categories
Fréttir

Ný ríkisstjórn með hag fólks að markmiði

Deila grein

28/11/2021

Ný ríkisstjórn með hag fólks að markmiði

Sáttmáli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fjallar um sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar. Í honum birtast leiðarstef okkar um efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða.

Við tökumst á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði. Við trúum því að velsæld verði best tryggð með traustum efnahag, jöfnum tækifærum og aðgerðum í þágu nýsköpunar, umhverfis og loftslags. Skipan ráðuneyta tekur mið af þessari sameiginlegu sýn nýrrar ríkisstjórnar. Við viljum skapa sátt um nýtingu auðlinda. Við leggjum áherslu á baráttuna við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu. Um leið er það verkefni okkar að búa íslenskt samfélag undir aukna tæknivæðingu auk þess að tryggja áframhaldandi lífskjarasókn allra kynslóða.

Áhersla verður lögð á jafnvægi efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Markmið síðasta kjörtímabils var að byggja upp traust í samfélaginu og efla innviði ásamt því að tryggja pólitískan, félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. Samhliða því verkefni tókst samfélagið allt á við heimsfaraldur og efnahagskreppu, þar sem árangurinn byggðist á styrkleikum og samtakamætti þjóðarinnar. Lærdómurinn er ekki síst sá að það er mikilvægt að búa í haginn þegar vel árar, sterkir innviðir eru nauðsynlegir og að saman getum við leyst flókin verkefni.

Íslenskt samfélag er nú í kjörstöðu til þess að horfa til framtíðar og sækja fram í þágu vaxandi velsældar. Samstarf þessara þriggja flokka, sem spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapar jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara.

Við tökumst á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði. Við trúum því að velsæld verði best tryggð með traustum efnahag, jöfnum tækifærum og aðgerðum í þágu nýsköpunar, umhverfis og loftslags.

Skipting starfa ráðherra er með eftirfarandi hætti:

  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
  • Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra
  • Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
  • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra
  • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra
  • Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra
  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
  • Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra
  • Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra

Í tengslum við myndun ríkisstjórnarinnar verða gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins auk þess sem ráðherrum fjölgar um einn og verða tólf. Ráðuneytum verður fjölgað úr tíu í tólf og verkefni færð milli ráðuneyta.

Ný ráðuneyti munu taka til starfa um eða eftir áramót. Skipan ráðuneyta verður eftirfarandi:

Forsætisráðuneyti

Helstu breytingar eru þær að mannréttindamál færast til ráðuneytisins frá dómsmálaráðuneytinu.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins eru óbreytt.

Innviðaráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða í aðalatriðum þau sömu og verkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Þá færast húsnæðis- og mannvirkjamál til ráðuneytisins frá félagsmálaráðuneytinu og skipulagsmál frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Verkefni nýs ráðuneytis byggja að mestu á grunni þeirra verkefna sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sinnti í síðustu ríkisstjórn en skógrækt og landgræðsla færast til ráðuneytisins frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða að mestu þau sömu og hafa verið hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en orkumál og auðlindanýting færast til ráðuneytisins frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Utanríkisráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða í aðalatriðum þau sömu.

Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins byggja á grunni þeirra verkefna sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra sinntu í síðustu ríkisstjórn, þ.á m. menningarmál sem færast frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Mennta- og barnamálaráðuneyti

Helstu verkefni ráðuneytisins verða málefni skóla, íþrótta- og æskulýðsmála og málefni barna.

Félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins eru að mestu þau sömu og verið hafa hjá félagsmálaráðuneytinu en þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd færist yfir í ráðuneytið frá dómsmálaráðuneytinu.

Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti

Helstu verkefni nýs ráðuneytis verða málefni vísinda- og rannsókna, þ. á m. háskóla, iðnaðar og nýsköpunar og fjarskiptamál. Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verður með aðsetur í mennta- og menningarmálaráðuneyti þar til hið nýja ráðuneyti tekur til starfa.

Innanríkisráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða í aðalatriðum þau sömu og dómsmálaráðuneytið hefur.

Heilbrigðisráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins eru óbreytt.

Í stjórnarsáttmálanum birtist sameiginlegt leiðarstef flokkanna um efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða. Þá er í sáttmálanum að finna verkefnalista með rúmlega 200 verkefnum á fjölbreyttum sviðum samfélagsins.

Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (síða)

Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (PDF)

Categories
Fréttir

Ágætu félagar!

Deila grein

19/11/2021

Ágætu félagar!

Haustfundur miðstjórnar hafði verið ákveðinn helgina 4.-5. desember næstkomandi af landsstjórn flokksins. Þegar ákvörðunin var tekin fyrr í haust vorum við í þokkalegri stöðu gagnvart veirunni og allt leit út fyrir að hægt yrði að halda fundinn vel innan samkomutakmarkana. Það leit út fyrir að við gætum hist, rætt málin og fagnað góðum kosningasigri. 

Hins vegar hefur veiran enn og aftur gert okkur lífið leitt og enn hefur verið hert á sóttvarnartakmörkunum og ekki fyrirsjáanlegt að því linni á næstu vikum. Nú er aftur komið 50 manna hámark á fjöldatakmarkanir og ljóst að miðstjórnarfundur passar ekki í þann ramma. 

Því var ákveðið á fundi landsstjórnar í gær að slá af hinn hefðbundna haustfund miðstjórnar. Engu að síður má búast við því að boðað verði til miðstjórnarfundar þegar stjórnarmyndunarviðræður klárast. Þá gefst tækifæri til þess að ræða málin og vonandi greiða atkvæði um stjórnarsáttmála. Boðað verður til þess fundar með styttri fyrirvara en hefðbundið er fyrir miðstjórnarfundi í samræmi við lög Framsóknar. Mun sá fundur verða haldinn rafrænt á netinu í ljósi samkomutakmarkana. Landsstjórn mun funda fljótlega aftur og gera tillögu að dagsetningu flokksþings á nýju ári sem lögð verður fyrir þann miðstjórnarfund til afgreiðslu.

Við vonumst því til að sjá þá sem flesta miðstjórnarfulltrúa, þó á skjá verði, á þeim fundi sem haldinn verður vonandi fljótlega og óskandi getum við sem fyrst hvatt þessa veiru niður í eitt skiptið enn og farið að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er.

Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknar og formaður landsstjórnar.

Categories
Fréttir

Unnur Þöll nýr formaður SUF

Deila grein

27/10/2021

Unnur Þöll nýr formaður SUF

46. Sambandsþing Samband ungra Framsóknarmanna (SUF) var haldið 8.-10. október á Hótel Sel í Mývatnssveit. Hópur ungmenna sótti þingið og tók þátt í málefnavinnu. Mikið var rætt um velgengni Framsóknar í alþingiskosningunum ásamt aðdraganda næstu kosninga, sveitarstjórnarkosninga. Hæst bar til tíðinda að nýr formaður tók við af Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur, sem nú er orðin þingmaður Framsóknar.

Það hefur verið áhersla SUF að koma ungu fólki ofarlega á lista í kosningum og munu þau halda því áfram. Það skilaði sér í þremur ungum þingmönnum fyrir Framsókn og tveimur ungum varaþingmönnum. Ungu þingmenn Framsóknar eru: Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Suðurkjördæmi, Ágúst Bjarni Garðarsson, Suðvesturkjördæmi og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Norðvesturkjördæmi, en hún hefur sinnt formennsku SUF síðastliðin þrjú ár.

Formannsskipti

Unnur Þöll Benediktsdóttir var kosin nýr formaður SUF. Hún hefur tekið virkan þátt í starfi Framsóknar í þrjú ár og sat í sjöunda sæti lista flokksins í Reykjavík Norður sem Ásmundur Einar Daðason leiddi. Hún kemur frá Hvolsvelli í Rangárvallasýslu en býr í dag í Reykjavík þar sem hún stundar meistaranám í öldrunarfræði. Samhliða náminu hefur Unnur verið í félagslegu frumkvöðulsstarfi þar sem hún, ásamt kollegum sínum er að skapa úrræði fyrir eldra fólk sem á að draga úr einmanaleika, efla félagstengsl og styrkja heilahreysti. Unnur hefur brennandi áhuga fyrir velferðarmálum, má þar nefna málefni hinsegin fólks, geðheilbrigðismál og málefni eldra fólks en málefnum ungs fatlaðs fólks standa henni kærust því sjálf er Unnur daufblind þ.e. lögblind og heyrnarskert. Eftir því sem við best vitum er það í fyrsta sinn sem fatlaður einstaklingur gegnir embætti formanns í ungliðahreyfingu stjórnmálaflokks.

„Það er mikill heiður að taka við formennsku SUF í því ástandi sem fráfarandi formaður skilur við. Ég vil halda áfram þeirri góðu vinnu sem Lilja Rannveig hefur byggt upp síðustu þrjú ár. Þetta er fyrst og fremst tækifæri fyrir ungt fólk að hafa áhrif á samfélagið sitt og Framsókn er sá flokkur sem hefur sýnt það í verki, að raddir unga fólksins eru raddir sem þau hlusta á. Ég lít líka á þetta sem tækifæri fyrir mig að vera fyrirmynd fyrir annað ungt og fatlað fólk og mun nýta mína reynslu og sérþekkingu til góðs,“ segir Unnur Þöll.

Einnig var kosið um nýja stjórn og varastjórn:

Stjórn:
Ágúst Guðjónsson
Birgitta Birgisdóttir
Bjarney Anna Þórsdóttir
Daði Geir Samúelsson

Davíð Fannar Sigurðsson
Davíð Peters
Gunnar Ásgrímsson
Jóhann Frímann K Arinbjarnarson

Kristín Hermannsdóttir
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir
Mikael Jens Halldórsson
Urður Björg Gísladóttir

Varastjórn:
Árni Gísli Magnússon
Baldur Björnsson
Díana Íva Gunnarsdóttir
Eggert Thorberg

Einar Gauti Jóhannsson
Ívar Atli Sigurjónsson
Kjartan Helgi Ólafsson
Leifur Ingi Eysteinsson

Sæþór Már Hinriksson
Sigurdís Katla Jónsdóttir
Enrique Snær Llorens
Þórdís Eva Rúnarsdóttir

Categories
Fréttir

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Deila grein

21/10/2021

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Landstjórn Framsóknar hefur samþykkt að boða til haustfundar miðstjórnar helgina 4.-5. desember á Bifröst í Norðurárdal. Fundurinn hefst kl. 10:00 á laugardagsmorgun og stendur fram á seinnipart sunnudags. Kvöldverðarhóf verður á laugardagskvöldinu.

Hægt verður að fá gistingu á Hótel Bifröst og Hótel Hamri og mun rúta ganga frá Borgarnesi og upp á Bifröst fyrir og eftir kvöldverðarhófið á laugardagskvöldinu.

Hægt er að panta gistingu á Hótel Hamar í síma 433 6600 og segjast vera að bóka vegna Framsóknar. Til að bóka á Hótel Bifröst á að smella hér á tilboðið með bókunarkóða.

Upplýsingar um gistinguna:

Hótel Hamar (sími 4336600):

  • Gisting með morgunverði laugardaginn 4. des.  18.000 kr. (sama verð á eins og tveggja manna)
  • Aukanótt með morgunverði föstudaginn 3. des. 12.000 kr. ( sama verð á eins og tveggja manna)

Hótel Bifröst:

Smella hér á tilboðið með bókunarkóða:

  • Gisting með morgunverði 14.500 kr. fyrir tveggjamanna herbergi
  • Gisting með morgunverði 12.500 kr. fyrir einsmanns herbergi

Við hvetjum fólk til að panta sem fyrst til þess að hægt sé að bregðast við ef tryggja þarf fleiri herbergi.

Aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.

***

Á haustfundi skal taka félagsstarf flokksins á komandi starfsári sérstaklega til umræðu. Fastanefndir miðstjórnar munu flytja skýrslu um störf sín og jafnframt skulu miðstjórnarmenn kjósa úr sínum hópi til eins árs í senn:

a) fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara og

b) fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.

Fræðslu- og kynningarnefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. a-lið gr. 10.4. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með framkvæmd kynningar- og fræðslumála Framsóknarflokksins.

Málefnanefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. b-lið gr. 10.5. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með málefnastarfi og stefnumótunarvinnu Framsóknarflokksins.

Miðstjórnarmenn eru hvattir til að gefa kost á sér í þessar nefndir og senda framboð á netfangið framsokn@framsokn.is.

Landsstjórn Framsóknar

Categories
Fréttir

Framsókn sigurvegari kosninganna – 34.501 atkvæði eða 17,3%

Deila grein

27/09/2021

Framsókn sigurvegari kosninganna – 34.501 atkvæði eða 17,3%

Framsókn er óumdeildur sigurvegari alþingiskosninganna s.l. laugardag. Flokkurinn bætir við sig fimm þingmönnum og verða þá alls 13 alþingismenn í þingflokki Framsóknarmanna á Alþingi á komandi kjörtímabili. Það er besta niðurstaða Framsóknar í kosningum frá árinu 2013.

Að lokinni talningu í öllum kjördæmum var ljóst að Framsókn hafði hlotið 34.501 (17,3%) atkvæði og bætti sig um 6,6 prósentustig frá alþingiskosningunum 2017. Framsókn er núna með fyrsta þingmann bæði í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og fékk til að mynda þingmann í báðum Reykjavíkurkjördæmunum.

Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna. Við erum að bæta mjög miklu fylgi við okkur og við erum ótrúlega þakklát fyrir það.“ – Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Ágúst Bjarni Garðarsson, nýkjörinn alþingismaður, sem skipaði annað sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, telur aukið fylgi flokksins meðal annars mega rekja til starfa flokksins í barna- og samgöngumálum.  „Flokkurinn hefur verið að fjárfesta í innviðum og fólki, en um leið sýna aðhald í rekstri og ég held að fólk almennt sé að kalla eftir stöðugleika í þjóðfélaginu okkar.“

Þetta var alltaf markmiðið en þetta kom vissulega á óvart. Ég er ótrúlega spennt og auðmjúk fyrir þessu tækifæri að fá að vinna að sameiginlegum markmiðum okkar allra á þessum vettvangi.“ – Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, er skipaði þriðja sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi.

Heimild: Kosningasaga.

Reykjavík

Framsókn fékk kjörna alþingismenn í báðum Reykjavíkurkjördæmunum en vert að geta þess að síðast fékk flokkurinn kjörin þingmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður árið 2013. Þetta er sérlega góður árangur í Reykjavík. Í Reykjavík suður fékk flokkurinn 4.077 (11,5%) atkvæði. Í Reykjavík norður fékk flokkurinn 4.329 (12,3%) atkvæði. Alþingismenn Framsóknar í Reykjavík eru: 

  • Lilja Dögg Alfreðsdóttir (Reykjavík suður)
  • Ásmundur Einar Daðason (Reykjavík norður)

Suðvesturkjördæmi

Framsókn fékk tvo alþingismenn kjörna í Suðvesturkjördæmi þar sem Willum Þór Þórsson hefur leitt frá árinu 2017. Flokkurinn fékk 8.520 (14,5%) atkvæði og er næststærsti flokkurinn í kjördæminu. Gaman að geta þess að Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar, er annar alþingismaðurinn er Framsóknarfólk í Hafnarfirði fær kjörinn á Alþingi. Eygló Þóra Harðardóttir, fyrrv. alþingismaður og ráðherra var fyrsti fulltrúinn, kjörin í alþingiskosningunum 2016. Alþingismenn Framsóknar í Suðvestur eru: 

  • Willum Þór Þórsson
  • Ágúst Bjarni Garðarsson

Norðvesturkjördæmi

Framsókn er sigurvegari kosninganna í Norðvesturkjördæmi. Flokkurinn bætir við sig þingmanni og nær inn þremur mönnum. Flokkurinn fékk 4.448 (25,8) atkvæði og á fyrsta þingmann kjördæmisins, Stefán Vagn Stefánsson. Alþingismenn Framsóknar í Norðvestur eru:

  • Stefán Vagn Stefánsson
  • Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir
  • Halla Signý Kristjánsdóttir

Norðausturkjördæmi

Framsókn er sigurvegari kosninganna í Norðausturkjördæmi. Flokkurinn bætir við sig þingmanni og nær inn þremur mönnum. Flokkurinn fékk 6.016 (25,6%) atkvæði og er Ingibjörg Ólöf Isaksen, oddviti flokksins, fyrsti þingmaður kjördæmisins. Alþingismenn Framsóknar í Norðaustur eru:

  • Ingibjörg Ólöf Isaksen
  • Líneik Anna Sævarsdóttir
  • Þórarinn Ingi Pétursson

Suðurkjördæmi

Framsókn er næststærsti flokkurinn í Suðurkjördæmi og bætir við sig þingmanni og nær inn þremur mönnum. Flokkurinn fékk 7.111 (23,9%) atkvæði og er 186 atkvæðum frá því að eiga fyrsta þingmann kjördæmisins. Alþingismenn Framsóknar í Suður eru:

  • Sigurður Ingi Jóhannsson
  • Jóhann Friðrik Friðriksson
  • Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir