Categories
Forsíðuborði Fréttir

Elsa Lára nýr skrifstofustjóri þingflokks

Deila grein

12/01/2018

Elsa Lára nýr skrifstofustjóri þingflokks

Elsa Lára Arnardóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarmanna.
Hún starfaði sem þingmaður Framsóknarflokksins á árunum 2013-2017 en gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu, við síðustu Alþingiskosningar. Sem þingmaður sat hún í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, var varaformaður velferðarnefndar, sat í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Auk þessa var hún formaður Íslandsdeildar þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.
Elsa Lára er menntaður grunnskólakennari en hefur jafnframt stundað nám í Forystu og stjórnun í háskólanum á Bifröst.
Elsa Lára mun hefja störf á næstu dögum og við bjóðum hana velkomna til starfa.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

35. FLOKKSÞING FRAMSÓKNARMANNA

Deila grein

08/01/2018

35. FLOKKSÞING FRAMSÓKNARMANNA

35. FLOKKSÞING FRAMSÓKNARMANNA verður haldið dagana 9.-11. mars 2018 í Gullhömrum í Reykjavík.

Framsóknarflokkurinn heldur reglulegt flokksþing sem haustfundur miðstjórnar boðar til, eigi sjaldnar en annað hvert ár og skal það að jafnaði haldið fyrri hluta árs.
FLOKKSÞING FRAMSÓKNARMANNA ákveður meginstefnu flokksins í landsmálum, setur flokknum lög og hefur æðsta vald í málefnum hans. Á flokksþingi skal kjósa formann Framsóknarflokksins og skal hann jafnframt vera formaður miðstjórnar flokksins. Þá skal á flokksþingi kjósa varaformann, ritara og tvo skoðunarmenn reikninga. Einnig skal kjósa tvo meðstjórnendur í laganefnd og tvo til vara. Ennfremur skal kjósa tvo meðstjórnendur siðanefndar og tvo til vara.
Hvert flokksfélag hefur rétt til að senda einn fulltrúa með atkvæðisrétt á flokksþing fyrir hverja 15 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala skal miðast við félagatal eins og það liggur fyrir á skrifstofu flokksins 30 dögum fyrir flokksþing, þó að teknu tilliti til gr. 2.4. Um fyrirkomulag kosninga fulltrúa fer eftir lögum einstakra aðildarfélaga. Aðildarfélög skulu tilkynna val sitt á fulltrúum á flokksþing til skrifstofu flokksins eigi síðar en viku áður en flokksþing er sett. Allir félagsmenn í flokknum hafa rétt til að sækja flokksþing og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.
Miðstjórnarmenn eiga sæti á flokksþingi með atkvæðisrétti.
Mikilvægar dagsetningar:
7. febrúar – viðmiðunardagur fulltrúatölu á flokksþingi
22. febrúar – skil á tillögum til lagabreytinga til skrifstofu
2. mars – skil á kjörbréfum til skrifstofu
Categories
Forsíðuborði Fréttir

Auglýst starf skrifstofustjóra þingflokks

Deila grein

22/12/2017

Auglýst starf skrifstofustjóra þingflokks

Framsóknarflokkurinn óskar eftir að ráða skrifstofustjóra þingflokks í 100% stöðu. Leitað er að ábyrgum og kraftmiklum einstaklingi sem er tilbúinn til að takast á við fjölbreytt starf og sveigjanlegan vinnutíma. Áhersla er lögð á að viðkomandi hafi þekkingu á stefnu og starfi Framsóknarflokksins og Alþingis. Búa yfir framúrskarandi skipulags- og samskiptahæfni, vera sjálfstæður í vinnubrögðum með gott vald á skrifuðu máli og hafa brennandi áhuga á pólitík. Viðkomandi hefur starfsaðstöðu á Alþingi og eftir atvikum á skrifstofu flokksins.
Starfssvið:

Aðstoðar þingflokksformann við utanumhald og skipulag. Sinnir daglegum störfum með þingflokki, aðstoðar þingmenn við vinnslu mála. Skrifar fundargerðir þingflokks.

Umsóknafrestur til 5. janúar 2018. Upplýsingar veitir Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður og Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Samstarf um sterkara samfélag

Deila grein

30/11/2017

Samstarf um sterkara samfélag

Í nýrri ríkisstjórn munu flokkar sem spanna hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri freista þess að slá nýjan tón, einhenda sér í þau lykilverkefni sem koma Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna.
Á Íslandi er staðan í þjóðfélagsmálum um margt óvenjuleg. Tekist hefur að ná jafnvægi í ríkisfjármálum en þegar horft er til innviða samfélagsins og nýrra viðfangsefna blasa við brýn og umfangsmikil verkefni. Efnahagur á landsvísu hefur vænkast hratt undanfarin ár en gæta þarf að jafnvægi með þjóðinni og tækifærum allra sem landið byggja.
Stefna þarf að stöðugleika til lengri tíma og auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. Frá efnahagshruninu hefur náðst margvíslegur árangur en enn skortir á þá félagslegu sátt sem þjóðin hefur lengi kallað eftir. Að henni þarf að vinna. Um leið þarf að bregðast við örum þjóðfélagsbreytingum og breyttri sýn á samfélagið á ótal sviðum en líka ójöfnuði og umróti á heimsvísu.
Hægt er að lesa stjórnarsáttmálann í heild sinni í PDF-skjalinu hér neðst. Hann inniheldur um hundrað aðgerðir og áherslumál nýrrar ríkisstjórnar.
Á meðal þeirra eru:
● Efling Alþingis er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarflokkanna. Sjálfstæði þingsins verður styrkt, meðal annars með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka.
● Í þágu aukins samráðs og breiðari samstöðu verða þverpólitískir hópar settir á fót um nokkur veigamikil verkefni, svo sem stofnun miðhálendisþjóðgarðs, mótun orkustefnu og nýsköpunarstefnu og endurskoðun stjórnarskrárinnar.
● Heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum og allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu. Átak verður gert í uppbyggingu hjúkrunarrýma, heilbrigðisstefna fyrir Ísland fullunnin, dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga og geðheilbrigðisáætlun hrint í framkvæmd.
● Hafin verður stórsókn í menntamálum. Stefnt verður að því að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020. Iðnnám og verk- og starfsnám verður eflt. Framhaldsskólum verður tryggt fjármagn og frelsi til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaganna. Brugðist verður við yfirvofandi kennaraskorti í samstarfi við sveitarfélögin.
● Uppbyggingu í vegamálum verður hraðað, bæði nýframkvæmdum og viðhaldi. Stutt verður við borgarlínu. Ljósleiðaravæðingu landsins verður lokið 2020, afhendingaröryggi raforku aukið og átak gert í fráveitumálum í samstarfi við sveitarfélög. Sóknaráætlanir landshlutanna verða styrktar.
● Lögð verður áhersla á ábyrg ríkisfjármál og efnahagslegan stöðugleika. Til að styðja við farsæla niðurstöðu kjarasamninga hyggst ríkisstjórnin leggja áherslu á lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi. Þá er það einnig forgangsmál á kjörtímabilinu að lækka tryggingagjald.
● Áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verða lögð til hliðar. Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður í 22% samhliða því að skattstofn fjármagnstekna verður tekinn til endurskoðunar. Kolefnisgjöld verða hækkuð um 50% fyrst um sinn. Virðisaukaskattur af bókum verður afnuminn.
● Farið verður í endurskipulagningu á fjármálakerfinu og markviss skref tekin til að afnema verðtrygginguna á neytendalánum. Leitað verður leiða til að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Gerð verður hvítbók um framtíðarsýn fyrir íslenskan fjármálamarkað og hún lögð fyrir Alþingi.
● Unnið verður með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði. Innleidd verða ákvæði um keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, unnið gegn kynbundnum launamun, félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki og vinnueftirlit eflt.
● Stuðlað verður að bættu aðgengi landsmanna að öruggu húsnæði með eflingu stuðningskerfa, samræmdri stefnumörkun í uppbyggingu félagslegs húsnæðis og auknu gagnsæi á leigumarkaði. Þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn verður lækkaður. Skoðaðir verða möguleikar á að nýta lífeyrissparnað til þessa.
● Markviss skref verða tekin á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum og samhliða hugað að mótvægisaðgerðum í þágu ungs fólks og tekjulágra.
● Frítekjumark atvinnutekna aldraðra verður hækkað í hundrað þúsund krónur strax um næstu áramót. Gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþega verður uppfærð til að lækka kostnað þessara hópa. Samráð verður haft við heildarsamtök örorkulífeyrisþega um umbætur á almannatryggingakerfinu í þeirra þágu.
● Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.
● Í loftslagsmálum verður stefnt að því að gera betur en Parísarsamkomulagið segir til um. Stefnt verður að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040 og 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Loftslagsráð verður sett á laggirnar og aðgerðaáætlun um samdrátt í losun verður tímasett og fjármögnuð.
● Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og ráðast í átak í uppbyggingu hjúkrunarrýma.
● Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Lögð verður áhersla á nýsköpun og vöruþróun í landbúnaði til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem felast í áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Innleiddir verða sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita.
● Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs, leggja þarf áfram áherslu á sjálfbæra auðlindanýtingu og efla hafrannsóknir. Veiðigjald á að tryggja þjóðinni réttlátan hlut í arðinum af auðlindinni ásamt því að endurspegla afkomu greinarinnar. Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna.
● Mörkuð verður langtímastefna í ferðaþjónustu í samvinnu við hagsmunaaðila. Stutt verður við rannsóknir í greininni og innviðauppbyggingu.
● Heildstæð nýsköpunarstefna fyrir Ísland verður mótuð í samstarfi við fulltrúa stjórnmálaflokka og í nánu samráði við atvinnulífið og vísindasamfélagið. Hún verður samþætt við framtíðarsýn í menntamálum, frá leikskóla til háskóla, í samráði við skólasamfélagið.
● Umhverfi fyrir rannsóknir og þróun á að vera framúrskarandi. Fyrirkomulag endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar verður endurskoðað í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum.
● Aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota verður framfylgt og hún fjármögnuð að fullu. Innviðir réttarvörslukerfisins verða efldir til að styrkja stöðu brotaþola innan þess og efla og samhæfa þjónustu við brotaþola á landsvísu, ekki síst í heilbrigðiskerfinu. Lagaumhverfi kynferðisbrota verður rýnt með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda kynferðisbrota.
● Ísland á að vera í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Í því skyni verður sett metnaðarfull ný löggjöf um kynrænt sjálfræði.
Stjórnarsáttmáli.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Yfirlitsræða formanns á haustfundi miðstjórnar 2017

Deila grein

21/11/2017

Yfirlitsræða formanns á haustfundi miðstjórnar 2017

Yfirlitsræða Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins á haustfundi miðstjórnar, að Laugarbakka í Miðfirði, 17.-18. nóvember 2017.
„Kæru vinir,
Á fundi sem þessum, á haustfundi Miðstjórnar Framsóknarflokksins fjöllum við sérstaklega um félagsstarf flokksins. Hér þurfa raddir ykkar að heyrast, hvernig við getum breytt og bætt það sem betur mætti fara í okkar flokki, í félögum og kjördæmissamböndum. Hver rödd skiptir máli og hvert og eitt sjónarmið og tillögur um hvað má betur fara eru ævinlega vel þegnar. Þegar starfið í grasrótinni er sterkt er flokkurinn sterkastur og þá náum við baráttumálum okkar í gegn. Rödd og áhrif Framsóknarmanna í rúm hundrað ár sannar það.
Við vitum að við erum sterk sem heild og á síðustu vikum hefur okkur auðnast að ganga í takt á ný. Saman sigldum við í gegnum djúpan öldudal en við bárum gæfu til að rísa upp. Við máttum sjá á eftir ýmsum. Fólki sem flokkurinn hafði treyst og trúað fyrir ýmsum trúnaðarstörfum, fólki sem valdi að yfirgefa okkar trausta og gamalgróna flokk. Góðum og almennum flokksmönnum.
En ánægjulegt var að sjá að nýtt fólk bættist í flokkinn. Sumir sem höfðu hoppað af vagninum síðustu ár, en einnig kom inn nýtt fólk sem fann samleið með okkur við þessar aðstæður. Skarðið sem varð í röðum okkar minnkar óðum. Með öflugu starfi inná við í flokknum og út á við í sveitarstjórnum og landsmálum munum við fylla það aftur og meira til, með góðri samvinnu okkar á milli. Máttur hinna mörgu er afl sem enginn stenst.
Kosningabaráttan var snörp og skemmtileg. Hún var fyrsta skrefið í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Frambjóðendur okkar hringinn í kringum landið fundu fyrir jákvæðni, gleði og trú á hlutverki og gildum flokksins. Við uppskárum í takt við þau viðbrögð og urðum þriðji stærsti þingflokkurinn. Rétt hugarfar skilaði okkur sigri, en eins og einn góður Íslandsvinur okkar sagði „með réttu hugarfari getur þú alltaf unnið“.
Á bak við slíkan sigur liggur ómæld og óeigingjörn vinna frá sterku baklandi sem vann að því að styrkja og treysta kjarnann. Fyrir það vil ég þakka sérstaklega. Hvort sem verkefnin voru að hringja og tala við fólk, skipuleggja og taka þátt í viðburðum, taka á móti fólki á kosningaskrifstofum eða baka kökur, eða hvað annað, þá er hvert og eitt þeirra mikilvægt og styrkir liðsheildina. Allt ykkar framlag skilaði sér margfalt til baka, í atkvæðum frá kjósendum sem vita að við höfum kjark, þor og samheldni til að ráðast í erfið verkefni sem hafa varanleg áhrif á líf og kjör þjóðar.
Án ykkar hefðum við ekki náð þessum stórkostlega sigri. Sú mikla samstaða sem varð til meðal okkar er ómetanleg. Það er í gegnum slíka samkennd og skilning sem við verðum sterkari. Þannig öðlumst við traust sem við munum áfram byggja okkar hugsjónir á sem öflugt og stöðugt afl á miðjunni.
Sigurinn í kosningunum er eitt, hitt er endurreisn flokksins. Samvinnan, samheldnin, gleðin og þá um leið sköpunarkrafturinn er komin miklu lengra en nokkurn gat grunað. Það er, kæru vinir, sætasti sigurinn, og hann eigum við öll saman.
Þingflokkur Framsóknar er nú skipaður átta þingmönnum, fimm konum og þremur körlum. Þó konum hafi fækkað á þingi í kjölfar kosninga þá er ánægjulegt að sjá að staða kvenna er sterkust í okkar flokki. Vinna að jafnræði, og þar með jafnrétti, í hundrað ár hefur skilað sér.
Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá kröftugt starf hjá unga fólkinu í flokknum. Þar eru framsýnir og öflugir einstaklingar sem vinna að því að því að byggja upp og búa í haginn fyrir framtíðina. Það er sannarlega hvatning fyrir okkur hin að sjá að mikið af nýju og ungu fólki hefur bæst við í flokkinn. Kosningavökurnar vöktu mína athygli, ég man ekki fyrr eftir þvílíkum fjölda, þar var hvert sæti skipað af skapandi ungum einstaklingum sem munu taka fullan þátt í því að móta framtíðina. Þar stóðu þau sig eins og sannar hetjur.
Kosningarnar í haust, voru mikil áskorun fyrir flokkinn. Á þessum haustfundi er mikilvægt að við leyfum okkur að njóta með stolti þeirrar ríkulegu uppskeru sem við náðum. Við þurfum að hlúa að jarðveginum og rétt næring skiptir sköpum til að við getum haldið áfram að vaxa og dafna. Gleðjumst því yfir góðum árangri og að hafa endurheimt traust kjósenda okkar.
Það hefur áður verið sagt, og skal hér endurtekið; Framsókn hefur ætíð vegnað best þegar framsóknarfólk stendur saman. Og gleymum því ekki, það á að vera gaman að vera í Framsókn! Og þegar Framsókn vegnar vel – gengur þjóðfélaginu vel.
Ágætu félagar,
Framsóknarflokkurinn er miðjuflokkur. Við getum unnið með flokkum frá hægri til vinstri, leitt ólíka aðila saman og skapað pólitískan stöðugleika. Fólk kaus Framsókn af ýmsum ástæðum, en margir töluðu um að ástæðan væri að það treystir okkur og veit fyrir hvað við stöndum.
Og hver er staðan á Íslandi? Efnahagsaðstæður eru almennt góðar, lífskjör eru með því besta sem þekkist, við búum við öryggi og lífslíkur Íslendinga eru með þeim hæstu í Evrópu. Samkvæmt flestum mælikvörðum stöndum við vel, en okkur hefur ekki auðnast að ná stöðugleika á hinu pólitíska sviði. Að því þurfum við að vinna.
Kjósendur kalla eftir því að kjörnir fulltrúar vinni saman af einurð og heilindum svo hægt sé að viðhalda stöðugleika í landinu. Óstöðugt stjórnmálaástand hefur umfangsmikil áhrif og kemur niður á okkur öllum. Fyrir utan beinan kostnað sem kosningar hafa í för með sér þá er öllu alvarlegri sá óbeini kostnaður sem hlýst af óstöðugu stjórnarfari. Skortur á stefnu og stöðugleika verður til þess að ákvarðanir eru settar á bið sem getur orðið til þess að hagvöxtur dragist saman til lengri tíma með neikvæðum áhrifum á lífskjör í landinu.
Kæru miðstjórnarmenn,
Framsóknarflokkurinn hefur átt samleið með þjóðinni í heila öld, vaxið og tekið breytingum í takt við áherslur á hverjum tíma. Hann er eins og við þekkjum byggður á traustum grunni á þeim gildum og hugsjónum sem við sem flokkur höfum valið að starfa eftir. Gildin skilgreina hver við erum og hvert við stefnum og eru leiðarljós og hvatning til góðra verka þar sem við erum stöðugt að leita eftir hvernig við getum unnið að umbótum á samfélaginu. Lausnir viðfangsefnanna eru byggðar á samvinnu og jöfnuði til að bæta hag allra, en ekki hinna fáu.
Það er því mikilvægt að við sem störfum í flokknum þekkjum fyrir hvað hann stendur, hvert hann stefnir og segjum frá því. Ekki bara okkar á milli, heldur ekki síst út á við. Okkar hlutverk er að standa vörð um grunngildi Framsóknarflokksins og hvetja til umræðu byggða á þeim, þar sem borin er virðing gagnvart samborgunum og velferð þeirra sett í öndvegi. Manngildi ofar auðgildi með sanngirni að leiðarljósi eru grunnstef í öllu okkar starfi. Út frá þeim grunni byggjum við sterkt og kröftugt samfélag. Samfélag með einni öflugri millistétt byggða á síauknum jöfnuði í landinu en um leið verða tækifæri einstaklingsins betri til að dafna.
Sú þróun um heim allan, að æ færri aðilar eigi jafnmikið og fátækari helmingur mannkyns er því ógnvægleg og andstætt hugmyndum okkar um jöfnuð. En sterk millistétt er forsenda efnahagslegra framfara og ber uppi samfélagslega grunnþjónustu.
Áskoranir framtíðarinnar eru því margvíslegar og skipa loftslagsmálin þar stóran sess. Okkur mannfólkinu fjölgar og setur það aukinn þrýsting á auðlindir. Okkar stærsta auðlind er hafið í kringum landið, en þar er súrnun sjávar raunveruleg ógn. Við verðum að taka aðvaranir okkar færustu vísindamanna alvarlega. Til að stemma stigu við aukinni losun gróðurhúsalofttegunda þarf að styðja betur við áframhaldandi tækniþróun. Í því geta falist ný tækifæri fyrir atvinnulífið með nýsköpun og nýtingu endurnýjanlegrar orku.
Þeir sem stofnuðu flokkinn fyrir rúmlega hundrað árum síðan höfðu þá sýn sem er okkur sýnileg í dag en þóttu þá framsæknar lausnir. Á þeim tíma þurfti að berjast fyrir jákvæðari byggðaþróun og uppbyggingu landsins alls. Enn er þörf fyrir flokk sem berst fyrir uppbyggingu alls landsins og styður við jákvæða byggðaþróun. Það hefur verið og er enn eitt aðalverkefni Framsóknarflokksins.
Við höfum sagt að afloknum kosningum að mynda þyrfti trausta ríkisstjórn sem stuðli að pólitískum, félagslegum og efnahagslegum stöðugleika. Ríkisstjórn með breiða skírskotun frá hægri til vinstri yfir miðjuna. Framundan eru stór verkefni sem við sem þjóð þurfum að sameinast um. Þess vegna höfum við lagt á það áherslu í stjórnarmyndunarviðræðunum að eiga samtal við aðila vinnumarkaðarins, landlækni og fleiri til að ramma inn grundvöll að frekari samtali milli flokkanna og um þau stóru og mikilvægu verkefni.
Án þess að ég geti farið nánar út í innihald viðræðnanna þá hefur þeim miðað vel áfram. Við viljum gera þetta vel og erum því að vanda okkur. Ef allt gengur upp þá verður boðað til miðstjórnarfundar um miðja næstu viku. Meira um það síðar.
En fyrir hvað stendur Framsóknarflokkurinn árið 2017? Grunngildi okkar standa alltaf með okkur en þar til viðbótar voru áherslur okkar í kosningabaráttunni þær að efla grunnþjónustuna um allt land. Til þess að bæta samfélagið og byggja upp kerfi sem ríkisvaldið ber ábyrgð á ásamt því að hlúa að undirstöðuatvinnugreinum hringinn í kringum landið. Markmið okkar er að tryggja að allir geti sótt sér menntun óháð búsetu, aldri og stöðu sem stuðli að bættum lífskjörum og dragi úr áhrifum stéttarskiptingar.
Það er okkar stjórnmálamannanna að berjast fyrir þeim forsendum sem þarf til að fjölga og halda í störf hringinn í kringum landið. Berjast fyrir bættum atvinnutækifærum, samgöngum, öflugri fjarskiptum og þétta heilbrigðisþjónustu úti á landi.
Það er hluti af okkar sjálfstæði og efnahagslegu öryggi að innlendar náttúruauðlindir lúti íslenskri stjórn. Landið okkar er ríkt af endurnýjanlegum auðlindum og þær leggja grunn að okkar efnahagslega sjálfstæði. Í ljósi þess er mikilvægt að þær séu nýttar á skynsaman og sjálfbæran hátt, en ekki fyrir einsleita hópa eða útvalda.
Þessi mál endurspegla það sem við stöndum fyrir og tel ég vænlegast til árangurs að styðjast við þau stef sem Framsóknarflokkurinn grundvallast á og forðast öfgar til hægri og vinstri.
Landsmenn vilja fjölbreytta þjónustu í takt við þarfir á hverjum tíma óháð búsetu, og aðgengi má ekki takmarka út frá efnahag fólks.
Til að takast á við áskoranir framtíðarinnar er lykilatriði að menntun sé fjölbreytt og ýtt sé undir nýsköpun þannig að okkar stærsta auðlind, mannauðurinn, fái að njóta sín.
Við höfum áorkað mörgu og eigum að vera stolt af þeim árangri sem náðst hefur og verið til hagsbóta fyrir fjölda heimila í landinu. Árangur kemur ekki af sjálfu sér. Árangur næst með samstöðu, samvinnu, mikilli vinnu, úthaldi, fórnum og ekki síst þeirri hugsjón og ástríðu sem sameinar okkur sem flokk.
Framundan eru sveitarstjórnarkosningar. Mikilvægt er að skapa sem mestan samhljóm á milli ríkis og sveitarfélaga. Uppbygging innviða og grunnþjónustu ræðst ekki síst af góðu samstarfi þeirra á milli. Mikilvægt er að Framsóknarflokkurinn haldi áfram að vinna af krafti til að tryggja góðan framgang í sveitarstjórnarkosningunum. Eins og kom fram í gær þá eigum við um hundrað sveitarstjórnarfulltrúa um land allt, það er mannauður sem byggja má á.
Til að undirbúa komandi sveitarstjórnarkosningar þá þurfum við að setja af stað vel skipulagða málefnavinnu. Það eflir innra starf flokksins og ólík sjónarmið koma fram.
Flokksþingið okkar er á næsta ári. Mikilvægt er að vel takist til og undirbúningur verði góður svo slá megi öflugan upptakt með spennandi málefnum og umræðum sem býr okkur sem best fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Félögin vítt og breitt um landið þurfa að halda áfram að virkja sína kraftmiklu, jákvæðu og hugmyndaríku einstaklinga svo að sem flestir í grasrótinni komi sínum hugsjónum að.
Hvetjum okkar fólk til þátttöku og notum tímann til að efla grasrótarstarfið þannig að við höldum áfram að eflast og styrkjast. Þannig getum við nálgast fólk með því að benda á hvað skiptir máli í hverju samfélagi svo hver og einn sjái og finni að um trúverðug mál sé að ræða sem skipta samfélagið máli.
Þá getum við fengið þingmenn á fundi til að koma með innlegg og sitja fyrir svörum úr sal. Hver fundur þarf að hafa markmið um að skila einhverri afurð sem við vinnum síðan út frá.
Því langar mig að segja að lokum, tökum nú höndum saman og höldum áfram að efla starf flokksins. Nýtum tímann vel svo að við getum haldið áfram að vinna að okkar góðu málum.
Ég þakka kærlega fyrir frábæra mætingu, þátttöku og skemmtilega samveru um leið og ég bið miðstjórn leyfis að fara fyrr vegna viðræðnanna. Góðar stundir.“

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Stjórnmálaályktun frá 17. Kjördæmisþingi KFSV

Deila grein

08/11/2017

Stjórnmálaályktun frá 17. Kjördæmisþingi KFSV

17. Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið í Kópavogi 5. nóvember 2017 fagnar niðurstöðu kosninganna 28. október síðastliðinn. Spár gerðu flestar ráð fyrir miklu fylgistapi Framsóknarflokksins frá 2016, en með jákvæðni, samstöðu og baráttugleði að vopni tókst að snúa þeirri þróun við og halda sama þingsætafjölda og áður.
Kosningabaráttan tókst vel og gefur Framsóknarflokknum tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar til dæmis í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor. Þar þarf að nýta þennan meðbyr til að bjóða fram B-lista í sem flestum
sveitarfélögum í Suðvesturkjördæmi.

Kjördæmisþingið telur mikilvægt að helstu áherslumál flokksins nái fram að ganga á kjörtímabilinu sem nú fer í hönd og hvetur forystuna til að fylgja þeim fast eftir í viðræðum við aðra flokka um ríkisstjórnarsamstarf.
Þar má nefna möguleika á að nýta lífeyrisiðgjald til kaupa á fyrstu íbúð, afborgunarhlé á námslánum af sama tilefni, bann við verðtryggingu á nýjum neytenda- og íbúðalánum og að húsnæðiskostnaður falli út úr vísitölu neysluverðs.
Ennfremur hugmyndir um samfélagsbanka, átak í uppbygginu innviða í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamálum sem og hugverka- og þekkingariðnaðar. Þá er minnt á stefnumál um uppbyggingu þjónustu- og hjúkrunaríbúða fyrir aldraðra, afnám skerðinga á atvinnutekjur lífeyrisþega, minni greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu, að byggja þurfi upp geðheilbrigðiskerfið og að ráðast í þjóðarátak gegn ofbeldi.
Categories
Forsíðuborði Fréttir

Kærar þakkir

Deila grein

01/11/2017

Kærar þakkir

Nýliðin kosningabarátta var stutt og snörp sem var að mörgu leyti mjög gott. Baráttan var gefandi og skemmtileg allt fram á síðustu stundu. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir þann stuðning og traust sem kjósendur hafa sýnt okkar öflugu frambjóðendum. Á bak við slíkan sigur liggur ómæld og óeigingjörn vinna frá sterku baklandi sem vann nótt sem dag að því að styrkja og treysta kjarnann. Á brattann var að sækja allt fram á síðustu stundu en ómetanleg er sú mikla samstaða sem varð til meðal okkar, alls staðar á landinu. Það er ekki sjálfgefið að slík samvinna og samkennd verði til svona skömmum tíma.
Uppbygging er hafin
Ég vil þakka öllum þeim sem lögðu fram óeigingjarna vinnu og settu svip sinn á kosningabaráttuna, en hún var fyrsta skrefið í þeirri uppbyggingu sem framundan er hjá flokknum. Hvort sem verkefnin voru að hringja og tala við fólk, skipuleggja og taka þátt í viðburðum, taka á móti fólki á kosningaskrifstofunni eða baka kökur, þá er hvert og eitt þeirra mikilvægt og styrkir liðsheildina. Þá vil ég þakka fyrir góðar móttökur frá öllum þeim sem tóku á móti okkar frambjóðendum og sýndu málefnum okkar áhuga. Það var einkar ánægjulegt að sjá hve mikið af nýju og kraftmiklu fólki bættist við í okkar góða hóp, sérstaklega ungt fólk. Því vil ég þakka skýrri málefnalegri sýn.
Ganga þarf rösklega til verks. Leysa þarf húsnæðismálin fyrir unga jafnt sem aldna, efla heilbrigðismálin, menntamálin og samgöngur vítt og breitt um landið. Við munum fylgja málefnum okkar eftir af miklum krafti og leggja okkar af mörkum til stöðugs stjórnarfars og bættra lífskjara um allt land. Samhliða málefnalegum áherslum þá er krafa kjósenda okkar um að stjórnmálamenn axli meiri ábyrgð. Menn þurfa að þora að treysta, finna leiðir í erfiðum málum og vinna saman af heiðarleika. Hlutverk okkar stjórnmálamanna er jafnframt að hlusta, skilja og virða. Þannig öðlumst við traust. Getum við ekki öll verið sammála um það?
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins
 
 
 

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Máttur hinna mörgu

Deila grein

27/10/2017

Máttur hinna mörgu

Kæru vinir og flokksfélagar um land allt, mér finnst vel við hæfi að setja einkunnarorð samvinnumanna sem yfirskrift þessa pistils því í þeim speglast grunnstef Samvinnuhreyfingarinnar og Framsóknarflokksins að virkja samtakamátt fólks til góðra verka og um leið að fjöldinn njóti afrakstursins með jöfnuð að leiðarljósi.
Og þrátt fyrir að ýmislegt hafi breyst í samfélaginu þá falla aldrei þessi lífsgildi úr tísku og gott ef ekki er að byggjast upp frekari eftirspurn eftir þeim nú í dag þegar óstöðuleiki í stjórnmálum er helsta vandamál okkar góða lands.
Þá komu þessi einkunnarorð ekki síður upp í huga mér þegar kosningarbaráttan, sem nú er á endasprettinum, hófst og enn einu sinni sá maður hvar auður Framsóknarflokksins lá þegar þið, félagsmenn hans, tókuð höndum saman um allt land og gengu til verka fyrir flokkinn og framboðslista hans, hugsjónir og stefnumál. Það var máttur hinna mörgu.

Líka það að þrátt fyrir að margt sé búið að vera okkur mótdrægt nú á þessum síðasta mánuði þá hefur verið svo einstakt að finna hversu góður andi er innan flokksins, aldrei uppgjöf, og gleði í störfum allra sem lagt hafa á sig ómælda vinnu um allt land til að vinna flokknum okkar fylgi og koma okkar flottu frambjóðendum á framfæri í komandi kosningum. Þetta er máttur hinna mörgu.
Og nú tökum við endasprettinn saman fram á laugardaginn kemur, 28.október, og berjumst fyrir flokkinn okkar og tryggjum honum góða kosningu og færum þannig stöðugleika aftur inn í stjórnmálin að nýju því þegar Framsóknarflokkurinn er sterkur þá er íslenskt samfélag sterkt líka. Við höfum góð stefnumál, sterka frambjóðendur og rætur sem eru orðnar rúmlega aldargamlar og standa í félagshyggjujarðvegi. Slíkar rætur standa af sér ágjöf um stund og halda áfram að gefa af sér ríkulega uppskeru inn í framtíðina. Um það veit ég að við erum öll sammála.
Framsóknar- og baráttukveðjur,
Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins
Categories
Forsíðuborði Fréttir

Ásmundur Einar leiðir í Norðvesturkjördæmi

Deila grein

09/10/2017

Ásmundur Einar leiðir í Norðvesturkjördæmi

Um helgina fór fram tvöfalt kjördæmisþing Framsóknarflokksins á Bifröst í Borgarfirði. Þar var samþykkt að Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi alþingismaður, muni skipa efsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í næstu alþingiskosningum.
Halla Signý Kristjánsdóttir, fjármálastjóri í Bolungarvík, situr í öðru sæti listans og Stefán Vagn Stefánsson, bæjarfulltrúi og yfirlögregluþjónn, á Sauðárkróki, í því þriðja.
Annars er listi Framsóknar í Norðvesturkjördæmi svona:
1. Ásmundur Einar Daðason, Borgarnesi
2. Halla Signý Kristjánsdóttir, Bolungarvík
3. Stefán Vagn Stefánsson, Sauðárkrókur
4. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Borgarbyggð
5. Guðveig Anna Eyglóardóttir, Borgarnesi
6. Lilja Sigurðardóttir, Patreksfjörður
7. Þorgils Magnússon, Blönduósi
8. Eydís Bára Jóhannsdóttir, Hvammstanga
9. Einar Guðmann Örnólfsson, Borgarbyggð
10. Jón Árnason, Patreksfirði
11. Heiðrún Sandra Grettisdóttir, Dalabyggð
12. Gauti Geirsson, Ísafirði
13. Kristín Erla Guðmundsdóttir, Borgarnesi
14. Jóhanna María Sigmundsdóttir, Borgarbyggð
15. Elsa Lára Arnardóttir, Akranes
16. Elín Sigurðardóttir, Stykkishólmi

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Sigurður Ingi leiðir í Suðurkjördæmi

Deila grein

07/10/2017

Sigurður Ingi leiðir í Suðurkjördæmi

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, formaður Framsóknarflokksins, alþingismaður og fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, leiðir lista Fram­sókn­ar­flokks­ins í Suður­kjör­dæmi í næstu alþing­is­kosn­ing­um. Þetta var samþykkt á fjöl­menn­u kjördæmisþingi í fé­lags­heim­il­inu Hvoli á Hvolsvelli í dag.
Glæsi­leg­ur listi sem ég hef mikla trú á. Ég myndi segja að reynsla og þor væri það sem ein­kenndi okk­ar lista. Við erum til­bú­in að tak­ast á við verk­efn­in framund­an og þær áskor­an­ir sem bíða okk­ar. Verk­efn­in eru ærin,“ sagði Sig­urður Ingi Jó­hanns­son.
Listi Fram­sókn­ar­flokks­ins Suður­kjör­dæmi:

  1. Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, alþing­ismaður og frv. for­sæt­is­ráðherra
  2. Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, alþing­ismaður
  3. Ásgerður K. Gylfa­dótt­ir, bæj­ar­full­trúi og hjúkr­un­ar­stjóri
  4. Jó­hann Friðrik Friðriks­son, lýðheilsu­fræðing­ur
  5. Sæ­björg Erl­ings­dótt­ir, sál­fræðinemi
  6. Inga Jara Jóns­dótt­ir, nemi
  7. Pálmi Sæv­ar Þórðar­son, bif­véla­virki
  8. Sandra Rán Ásgríms­dótt­ir, verk­fræðing­ur
  9. Lára Skær­ings­dótt­ir, grunn­skóla­kenn­ari
  10. Her­dís Þórðardótt­ir, inn­kaupa­stjóri
  11. Stefán Geirs­son, bóndi
  12. Jón H. Sig­urðsson, lög­reglu­full­trúi
  13. Hrönn Guðmunds­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri
  14. Ármann Friðriks­son, nemi
  15. Val­geir Ómar Jóns­son, sagn­fræðing­ur
  16. Sigrún Þór­ar­ins­dótt­ir, bóndi
  17. Jó­hann­es Giss­ur­ar­son, bóndi
  18. Jón­geir H. Hlina­son, bæj­ar­full­trúi og hag­fræðing­ur
  19. Har­ald­ur Ein­ars­son, fyrrv. alþing­ismaður
  20. Páll Jó­hann Páls­son, fyrrv. alþing­ismaður