Categories
Fréttir

Aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna

Deila grein

11/06/2019

Aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur lagt fram á Alþingi „Aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna“. Í tillögunni segir að með samþykkt Alþingis á ályktuninni er ríkisstjórninni falið að hrinda í framkvæmd 17 atriðum er miða að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þingsályktunartillagan er lögð fram í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
Meðal atriða í aðgerðaráætluninni er að innleiða viðbótartryggingar gagnvart innfluttu kalkúnakjöti, kjúklingakjöti og eggjum og að óskað verði eftir viðbótartryggingum vegna innflutts svínakjöts og nautakjöts. Dreifing alifuglakjöts verður og bönnuð nema sýnt sé fram á að ekki hafi greinst kampýlóbakter.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimilaði Íslandi í upphafi ársins að beita viðbótartryggingum er felst í að framleiðandi eða sendandi vörunnar til landsins taki sýni úr sérhverri sendingu á kjúklinga- og kalkúnakjöti og úr eggjum sem verða rannsökuð með tilliti til salmonellu.

  • Heimilt verður að gera kröfu að vottorð um sýnatöku og rannsókn fylgi hverri sendingu af framangreindum afurðum.

Sambærilegt kerfi viðbótartrygginga er einnig til staðar vegna svínakjöts og nautakjöts en Noregur, Finnland og Svíþjóð hafa þegar fengið slíkar viðbótartryggingar. Takist ekki að fá slíkar viðbótartryggingar er því beint til ráðherra að grípa til ráðstafana sem komi í veg fyrir dreifingu á salmonellusmituðu kjöti á markaði til að verja lýðheilsu – að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.

  • Setti verði í lög að óheimilt sé að dreifa ómeðhöndluðum sláturafurðum alifuglakjöts á markaði nema sýnt sé fram á að kjötið sé frá eldishópum sem ekki eru sýktir af kampýlóbakter.

Aðgerðaráætlunin kveður á um að sett verði á fót áhættumatsnefnd og er hlutverk hennar að veita og hafa umsjón með framkvæmd vísindalegs áhættumats á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru og er ætlað að stuðla að bættri áhættustjórnun og vera til ráðgjafar í tengslum við stefnumótun yfirvalda í fyrrgreindum málaflokkum. Gengið verði frá skipan áhættumatsnefndar fyrir 1. júlí 2019. Seinni hluti ársins verði nýttur til að skipuleggja starf nefndarinnar, kostnaðarmeta það og tryggja nauðsynlegar fjárveitingar frá og með árinu 2020.
Átak verði gert til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi og að tryggð verði skjótari innleiðing reglugerða Evrópusambandsins þegar stöðva þarf innflutning á tilteknum vörum með skömmum fyrirvara. Innleidd verði reglugerð (EB) nr. 206/2009 um innflutning dýraafurða til einkaneyslu. Með henni verða sett skýr ákvæði um hvaða vörur og afurðir farþegar mega taka með sér á milli landa og í hvaða magni og jafnframt hertar reglur um innflutning kjöt- og mjólkurafurða farþega frá löndum utan EES og þeim verður almennt óheimilt að flytja þessar afurðir með sér til landsins.
Ísland ætlar að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga og á grundvelli lýðheilsusjónarmiða munu íslensk stjórnvöld stefna að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þessu er ætlað að náð m.a. með:

  • banni við dreifingu tiltekinna sýklalyfjaónæmra baktería í matvælum að undangenginni greiningu á stöðunni,
  • uppsetningu eftirlits og í samræmi við opinbera stefnu í aðgerðum gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

Mikilvægt er að kallaðir séu til færustu sérfræðingar í því skyni að móta aðgerðir sem miði að því að lágmarka áhættu sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skili Alþingi skýrslu um framgang þeirrar stefnu fyrir 1. mars 2020. Þar skulu mismunandi valkostir við framangreinda stefnu reifaðir og sett fram tímasett aðgerðaáætlun um næstu skref, m.a. hvenær bann verður sett við dreifingu matvæla sem innihalda tilteknar sýklalyfjaónæmar bakteríur. Fyrir 1. október 2020 verði settar reglur, á grundvelli framangreindrar vinnu, um það hvernig þessum markmiðum verður best náð.
Auka þarf sýnatökur á markaði og efla innviði til að geta sinnt betur þjónustu- og vísindarannsóknum, ráðgjöf og eftirliti í tengslum við sýklalyfjaónæmi. Þannig þarf sem fyrst að stofna sýklalyfjaónæmissjóð sem hefur það hlutverk m.a. að fjármagna auknar rannsóknir.

  • Byggja upp þekkingu sem þarf til að sýna fram á sérstöðu íslenskrar framleiðslu með tilliti til sýklalyfjaónæmis.
  • Þróa þarf fljótvirkar og ódýrar aðferðir til að greina sýklalyfjaónæmi í matvælum, en það er forsenda þess að lágmarka áhættu sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum.
  • Á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar er samvinna um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi.

Opinberum eftirlitsaðilum verði tryggð heimild til að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn banni við dreifingu alifuglakjöts án sönnunar fyrir því að ekki hafi greinst í því kampýlóbakter. Þannig verði lögð áhersla á ábyrgð matvælafyrirtækja á því að tryggja að matvæli á markaði séu örugg.
Tryggð verði aukin fræðsla til ferðamanna um innflutning afurða úr dýraríkinu.  Talið er að hætta sé á að sjúkdómsvaldar flytjist til landsins með matvælum og klæðnaði ferðafólks. Sú hætta er þegar til staðar og því mikilvægt að farþegar til landsins fái fræðslu um góða sjúkdómastöðu íslenskra búfjárstofna og hversu viðkvæmir þeir eru fyrir nýju smiti. Fjármagn verði sett í átak og þannig sé brýnt fyrir fólki sem hingað kemur, jafnt Íslendingum sem erlendum ferðamönnum, hvað beri að varast varðandi matvæli og klæðnað svo sem alþekkt er í löndum sem hafa hliðstæðar áherslur að þessu leyti.
Til að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu er lagt til að settur verði á fót sjóður með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Talið er að með sameiningu sjóðanna megi efla og styrkja nýsköpunar- og þróunarumhverfi atvinnugreinanna. Til að ná því markmiði verður aukið fjármagn sett í slíkan sjóð. Tryggt verði að hlutfallsleg skipting fjármagns til þessara atvinnugreina verði með sambærilegum hætti og nú er.
Innleidd verði innkaupastefna opinberra aðila á matvælum en ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila. Markmið stefnunnar er að tryggja neytendum matvæli úr heilnæmum afurðum með tilliti til framleiðsluhátta og umhverfisáhrifa. Innkaupastefnan tekur mið af því að opinber innkaup matvæla stuðli að minnkun kolefnisspors við framleiðslu og flutning. Stefnunni verði í kjölfarið vísað til ráðherranefndar um matvælastefnu sem hafi það hlutverk að innleiða stefnuna.
Mótuð verði matvælastefna fyrir Ísland og hefur verkefnisstjórn þegar hafið vinnu sína. Tilgangur stefnunnar er að draga fram þær áherslur stjórnvalda að Ísland eigi að verða leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum ásamt því að móta framtíðarsýn, markmið og tillögur að aðgerðaáætlun til að innleiða í íslenskt atvinnulíf og stjórnkerfi. Mikilvægt er að ná til og virkja hagsmunaaðila og samtök á sem flestum sviðum í þeirri vinnu sem fram undan er og forsenda þess er m.a. að þeir ráðherrar sem fara með stjórnarmálefni sem snerta verkefnið komi með virkum hætti að mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Því hefur verið skipuð sérstök ráðherranefnd til að fjalla um matvælastefnu Íslands undir forustu forsætisráðherra.
Ráðist verði í átak um betri merkingar matvæla. Aðilar samkomulagsins eru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu, Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins. Markmið átaksins er að tryggja rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif matvæla.
Könnuð verði þróun tollverndar og greind staða íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
Tekið verði til skoðunar að setja á fót sérstakan tryggingasjóð vegna tjóns sem framleiðendur geta orðið fyrir vegna búfjársjúkdóma þar sem að litið verði til nágrannaríkjanna og mögulegra úrræða innan Evrópusambandsins og þeirra úrræða sem nú þegar eru í boði fyrir bændur sem verða fyrir tjóni af völdum búfjársjúkdóma.
Ráðist verði í átak um aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins. Að fjórum mánuðum liðnum verði tekin afstaða til hvernig framgangur eftirlitsins hefur verið. Komi í ljós miklar brotalamir á eftirliti er mikilvægt að fyrirkomulag þess verði endurskoðað frá grunni. Þar verði lögð sérstök áhersla á sýnatökur og að skoða vottorð vegna salmonellu og kampýlóbakter og tíðni skyndiskoðana aukin samhliða því. Með þeim hætti verði áreiðanleiki framangreindra þátta treystur. Þá verði Matvælastofnun falið að útfæra leiðbeiningar fyrir innflytjendur um þau vottorð og skírteini sem þurfa að vera til staðar fyrir innflutning matvæla.
Fyrir Alþingi á liggja skýrsla um framgang áætlunarinnar fyrir 1. nóvember 2019 og hún kynnt atvinnuveganefnd.

(Ljósmynd: Rakel Guðmundsdóttir)

Categories
Fréttir

Var raun afbrigðilegt hvað fjöldann varðar

Deila grein

07/06/2019

Var raun afbrigðilegt hvað fjöldann varðar

Silja Dögg Gunnardóttir, alþingismaður, segir í yfirlýsingu í dag að þegar rýnt sé í tölur um fjölda erlendra ferðamanna í maí mánuði s.l. sé hann svipaður og í maí 2016. „Það eru hins vegar árin 2017/2018 sem skera sig úr og eru í raun afbrigðileg hvað fjöldann varðar. Við erum t.d. að fá helmingi fleiri gesti í maí 2019 en við fengum í maí 2014 og þá vorum við nokkuð ánægð með stöðuna,“ sagir Silja Dögg.
„Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið mjög hraður – jafnvel of hraður. Ég tel í raun að það sé jákvætt að nú hægist aðeins á vextinum. Þá fáum við tíma til að byggja betur undir þennan mikilvæga atvinnuveg; þ.e. samfélagslega innviði, bæta umgjörð laga og reglna sem og gæðastýringar innan greinarinnar.
Við viljum að gestir okkar upplifi landið okkar á jákvæðan hátt og samfélagið verður að bera gestafjöldann með góðu móti.“

Categories
Fréttir

Opið og framsækið samfélag nýtir hæfileika allra sem hér búa

Deila grein

06/06/2019

Opið og framsækið samfélag nýtir hæfileika allra sem hér búa

Niðurstöður alþjóðlegu menntakönnunarinnar PISA staðfesta að staða barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku þarf að bæta og hlúa þarf mun betur að námsframvindu þeirra. Staðfest er að skólasókn innflytjenda í framhaldsskóla er minni en annarra nemenda og að vísbendingar um brottfall þeirra sé algengara meðal þeirra og aðsókn í háskóla minni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, skrifar grein í Fréttablaðið 27. maí s.l. þar sem hún fer yfir mikilvægi þess að stjórnvöld leggi nú sérstaka áherslu á að efla íslenskuna á sem flestum sviðum. Ungmennum, með annað móðurmál en íslensku, þarf að hjálpa sérstaklega með tungumálið og er enda óneitanlega stærsta áskorun þeirra.
„Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis og inniheldur hún heildstæða aðgerðaáætlun í 22 liðum. Í henni er meðal annars lagt til að þeir sem búsettir eru á Íslandi og hafa annað móðurmál en íslensku, börn jafnt sem fullorðnir, fái viðeigandi og jafngild tækifæri til íslenskunáms og stuðning í samræmi við þarfir sínar,“ segir Lilja Dögg.
Skipaður hefur verið starfshópur sem er ætlað að móta heildarstefnu í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku. „Einnig höfum við þegar gripið til beinna aðgerða til að bæta þjónustu með því að þrefalda framlög til sérstakrar íslenskukennslu.“
„Við erum opið og framsækið samfélag sem vill nýta hæfileika allra þeirra sem búa hér. Í sameiningu og samvinnu munum við vinna að umbótum á menntakerfinu, til heilla fyrir samfélagið allt.“

Categories
Fréttir

„Tímamót fyrir neytendur og matvælaframleiðendur“

Deila grein

06/06/2019

„Tímamót fyrir neytendur og matvælaframleiðendur“

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður, gerði í ræðu, í störfum þingsins í gær, að umtalsefni aðgerðaáætlun er miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu.
Aðgerðaráætlunin er fram komin samhliða frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
„Í mínum huga er hér um að ræða mikil tímamót fyrir neytendur og matvælaframleiðendur. Í 5. lið aðgerðaáætlunarinnar segir, með leyfi forseta:
„Ísland ætlar að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga og á grundvelli lýðheilsusjónarmiða munu íslensk stjórnvöld stefna að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þessu skal náð m.a. með banni við dreifingu tiltekinna sýklalyfjaónæmra baktería í matvælum að undangenginni greiningu á stöðunni, uppsetningu eftirlits og í samræmi við opinbera stefnu í aðgerðum gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería,““ sagði Þórarinn Ingi.
Ræða Þórarins Inga Péturssonar, varaþingmanns, á Alþingi 4. júní 2019.

Categories
Fréttir

Það sem er mikilvægast í matvælaframleiðslu heimsins í dag – heilbrigði búfjár og heilnæmi matvæla

Deila grein

06/06/2019

Það sem er mikilvægast í matvælaframleiðslu heimsins í dag – heilbrigði búfjár og heilnæmi matvæla

„Það er margsannað að notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Það skapar okkur algjöra sérstöðu sem við viljum standa vörð um af fullum krafti. Það var því mikill áfangi fyrir Framsókn þegar ríkisstjórnin tilkynnti í dag að stefnt væri að banni við dreifingu matvæla sem sýkt er af ákveðnum tegundum sýklalyfjaónæmra baktería.“ Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjónarráðherra og formaður Framsóknar, í grein á bbl.is 29. maí s.l.
„Íslenskur landbúnaður hefur ætíð staðið hjarta mínu nærri. Ég hef í gegnum tíðina, bæði í störfum mínum í stjórnmálum og ekki síður sem dýralæknir, séð þann mikla metnað sem íslenskir bændur hafa sýnt í störfum sínum. Sá metnaður hefur gert það að verkum að Íslendingar eru í einstakri stöðu þegar kemur að gæðum íslenskra afurða. Það sem er mikilvægast í matvælaframleiðslu heimsins í dag er heilbrigði búfjár og heilnæmi matvæla. Vísindamenn hafa sagt að ef ekkert verður að gert verði sýklalyfjaónæmi heilsufarsfaraldur á næstu áratugum sem lýsir sér til dæmis að því að spáð er að fleiri muni látast af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050 en látist af völdum krabbameins.“
Hagsmunir neytenda og bænda fara saman
Í grein sinni rekur Sigurður Ingi að í vetur hafi orðið umskipti í umræðunni um innflutning á hráu kjöti. Framsókn hafi náð að vekja vitund almennings um gæði og sérstöðu íslensks landbúnaðar, með góðum stuðningi bænda og neytenda. „Það er enda ljóst að hagsmunir bænda og neytenda fara saman í þessu máli þótt margir hafi lagt mikið á sig í áróðrinum um að það séu hagsmunir neytenda að innflutningur á matvælum sé óheftur.“
Hafinn er undirbúningur þar sem byggt er vísindalega undir sérstöðu íslensks landbúnaðar með það að markmiði að bann verði komið á dreifingu matvæla með sýklalyfjaónæmum bakteríum fyrsta október 2021. Þetta hefur ekki einungis áhrif á kjöt heldur öll matvæli.
Mikilvæg atriði í því sambandi má finna í nýrri aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna og eru framsókn fyrir íslenskan landbúnað:

  • Ætlað er að efla matvælaöryggi, vernd búfjárstofna og samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar.
  • Bann við dreifingu fersks alifuglakjöts nema að sýnt sé fram á að það sé ekki mengað af kampýlóbakter (sama regla og gildir um innlenda framleiðslu í dag).
  • Búið er að sækja um viðbótartryggingar vegna salmonellu fyrir alifugla, svína og nautakjöt.
  • Matvælaeftirlit verður eflt í þágu neytendaverndar og tekið til sérstakrar skoðunar hvernig því verði best fyrir komið.
  • Merkingar matvæla verða bættar.
  • Fræðsla til ferðamanna aukin og reglur um innflutning til einkaneyslu hertar.
  • Unnið verður af krafti að mótun matvælastefnu og innleiðingar nýrrar innkaupastefnu ríkisins m.a. með stuðningi ráðherranefndar undir forystu forsætisráðherra.
  • Stuðningur við nýsköpun í innlendri matvælaframleiðslu verður efldur verulega samhliða með nýjum sjóði sem byggi á grunni núverandi nýsköpunarsjóða í landbúnaði og sjávarútvegi.

Fjölmörg önnur verkefni eru í áætluninni.
„Við í Framsókn viljum þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur í baráttunni sem við sjáum nú verða að veruleika í öflugri framsókn gegn sýklalyfjaónæmi.“

Categories
Fréttir

„Það sést ekki á mér að ég drekki Kristal“

Deila grein

05/06/2019

„Það sést ekki á mér að ég drekki Kristal“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir breytingar á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar í störfum þingsins á Alþingi í dag. Sagði hún að verið væri að stíga skref til mikilla réttarbóta fyrir öryrkja. „Markmiðið er að draga úr áhrifum annarra tekna en bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri fyrir framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og afnema þar með það sem kallað er í daglegu tali króna á móti krónu skerðing,“ sagði Halla Signý.
Öryrkjum hefur fjölgað undanfarin ár af margvíslegum ástæðum. Halla Signý hefur kallað eftir með þingsálylktun á Alþingi að heilbrigðisyfirvöld beiti sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt, þessum þögla sjúkdómi. Mikilvægt sé að styrkja greiningarferlið og boðið sé upp á heildræna meðferð, byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna. Vill hún að viðurkennt sé að vefjagit sé stór þáttur í að fólk á öllum aldri detti út af vinnumarkaði. Sjúklingar einangrast á heimilum sínum með verkjasjúkdóma sem geri hann óvirkan, bæði á vinnumarkaði og sem þátttakanda í samfélaginu.
„Í einni auglýsingu segir að það sjáist hverjir drekka Kristal. Þeir sem eru með vefjagigt bera það ekki utan á sér. Þessi þingsályktunartillaga fær sennilega bíða úrlausnar á næsta þingi en vonandi nær hún þá í gegn. Það virðist vera stærri og mikilvægari mál, virðulegi forseti, sem þurfa að taka tíma hér á Alþingi, t.d. þurfa sumir þingmenn tíma til að upplýsa þjóðina um hvaða vá liggur fyrir henni ef Alþingi samþykkir að byggja undir sjálfstæði Orkustofnunar. Það sér ekki fyrir endann á þeirri ógn.
Það sést ekki á mér að ég drekki Kristal en vonandi ber ég með mér fyrir hvað ég stend,“ sagði Halla Signý.

 Ræða Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, alþingismanns, í störfum þingsins á Alþingi 5. júní 2019.

Categories
Fréttir

Menntun í matvælaframleiðslu – vá fyrir dyrum?

Deila grein

05/06/2019

Menntun í matvælaframleiðslu – vá fyrir dyrum?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi mikilvægi menntunar fyrir matvælaframleiðslu í landinu í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„Í morgun hlustaði ég á umfjöllun þar sem kallað var eftir fleiri nemendum í næringar- og matvælafræði en hlutfallslega færri mennta sig á því sviði hér en í löndunum í kringum okkur. Auk þekkingar á matvælafræði er undirstaða matvælaframleiðslu alltaf þekkingu á náttúrunni og náttúrulegum ferlum, svo sem úr líffræði og jarðfræði. Í búfræði fléttast svo saman þekking á náttúrunni, sjálfbærri landnýtingu og matvælaframleiðslu,“ sagði Líneik Anna.
Rakti Líneik Anna að nemum á sviði landbúnaðar og meistara- og doktorsnemum í landbúnaðarfræðum hafi fækkað stórlega. Þessari þróun sé mikilvægt að snúa við og að tryggt sé að á Íslandi séu til fræðimenn til að byggja á til framtíðar, með þekkingu á íslenskum aðstæðum og tengja hana aðþjóðlegri þekkingu. Fjöldinn allur af verkefnum er í landbúnaðarfræðum, en samt hafi fastráðnum vísindamönnum fækkað.
„Það vill svo til að sami menntunargrunnur er líka mjög mikilvægur fyrir þekkingu á allri sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og umhverfisvernd, bæði fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð við hamfarahlýnun byggja á þekkingu,“ sagði Líneik Anna.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, í störfum þingins á Alþingi 5. júní 2019.

Categories
Fréttir

Myndi refsa íslenskum matvælaframleiðendum fyrir að framleiða hágæða matvæli

Deila grein

05/06/2019

Myndi refsa íslenskum matvælaframleiðendum fyrir að framleiða hágæða matvæli

Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur kynnt að Ísland stefndi fyrst ríkja að banni á dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum. „Þetta hefur verið mikið baráttumál Framsóknar eins og fólk hefur eflaust tekið eftir.
Í febrúar héldum við fjölmennan opinn fund þar sem Lance Price, prófessor við Washington háskóla og Karl G. Kristinsson prófessor við Háskóla Íslands og yfirlækni við sýklafræðideild Landspítalans fjölluðu um þá ógn sem heiminum stafar af sýklalyfjaónæmi.
Spár vísindamanna sýna að ef ekki er brugðist við af mikilli festu þá muni um 10 milljónir deyja af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050, fleiri en af völdum krabbameins,“ þetta kemur fram í grein Sigurðar Ingi Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á frettabladid.is 29. maí s.l.
„Þessi framsókn Íslands gegn sýklalyfjaónæmi er tengd því sem oft er kallað hráa-kjöts-málið. Við í Framsókn höfum lagt gríðarlega áherslu á það í vinnu við þingsályktun og lagafrumvarp að tryggja það að lýðheilsa þjóðarinnar og heilbrigði dýra séu eins og best verður á kosið og að íslenskur landbúnaður keppi á jafnréttisgrundvelli við innflutt matvæli.
Við höfum óttast að óheftur innflutningur matvæla frá svæðum með stórum verksmiðjubúum þar sem dýraheilbrigði er fyrir borð borið myndi refsa íslenskum matvælaframleiðendum fyrir að framleiða hágæða matvæli og einfaldlega knýja þá til að draga úr gæðum í framleiðslu. Með þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið er íslenskur landbúnaður í sókn en ekki vörn.
Þess ber að geta að bann við sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum nær ekki aðeins til kjöts heldur einnig annarra matvæla, svo sem grænmetis,“ segir Sigurður Ingi.

Categories
Fréttir

Rækt­um góð sam­skipti við aðrar þjóðir

Deila grein

04/06/2019

Rækt­um góð sam­skipti við aðrar þjóðir

„Það er jákvætt hversu margir velja að læra erlendis. Við eigum að hvetja ungt fólk til að afla sér þekk­ing­ar sem víðast og skapa því viðeig­andi um­gjörð sem ger­ir því það kleift. Í störf­um mín­um sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra legg ég mikla áherslu á að styrkja ís­lenskt mennta­kerfi, til dæm­is með því að bæta starfs­um­hverfi kenn­ara, en ekki síður að við horf­um út í heim og rækt­um góð sam­skipti við aðrar þjóðir á sviði mennta-, vís­inda- og menn­ing­ar­mála. Und­an­farið hafa náðst ánægju­leg­ir áfang­ar á þeirri veg­ferð sem fjölga tæki­fær­um okk­ar er­lend­is.“ Þetta skrifar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í grein er birtist í Morgunblaðinu 18. maí s.l.
Tímamótasamingur um aukið sam­starf í mennta­mál­um á milli Íslands og Kína var undirritaður í opinberri heimsókn Lilju Alfreðsdóttur þar í landi. Með samningunum er stuðlað að gagn­kvæmri viður­kenn­ingu á námi milli land­anna. „Kína hef­ur gert hliðstæða samn­inga við rúm­lega 50 önn­ur ríki, þar á meðal við hin nor­rænu lönd­in. Rúm­lega 30 kín­versk­ir náms­menn stunda nú nám á Íslandi en um 30 Íslend­ing­ar stunda nám í Kína á ári hverju en ís­lensk­ir há­skól­ar eiga þegar í marg­vís­legu sam­starfi við kín­verska há­skóla,“ segir Lilja Dögg.

Categories
Fréttir

Fjölskyldur munu gegna risastóru hlutverki

Deila grein

04/06/2019

Fjölskyldur munu gegna risastóru hlutverki

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, minnti okkur á alþjóðlegan dag fjölskyldunnar í grein í Fréttablaðinu 15. maí s.l. En Sameinuðu þjóðirnar tileinka á hverju ári 15. maí málefnum „fjölskyldunnar“. „Ástæðan er sú að þótt fjölskyldur séu jafn ólíkar og þær eru margar eru þær grunnstoð samfélagsins og erfitt að finna aðra einingu innan þess sem gegnir jafn þýðingarmiklu og flóknu hlutverki,“ segir Ásmundur Einar.
„Í ár leggja Sameinuðu þjóðirnar sérstaka áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum en undanfarið hafa loftslagsbreytingar af mannavöldum verið í brennidepli. Stór verkefni eru fram undan til að Ísland nái markmiðum sínum í þeim efnum og ljóst að þeim verður ekki náð nema með átaki samfélagsins í heild. Þar hefur ekki skort þátttöku íslenskra barna og unglinga sem meðal annars hafa skipulagt loftslagsverkföll á Austurvelli og víðar um landið síðustu mánuði. Þrátt fyrir að kolefnisfótspor hverrar fjölskyldu sé lítið í stóra samhenginu er ljóst að fjölskyldur landsins munu í sameiningu gegna risastóru hlutverki í baráttunni fram undan,“ segir Ásmundur Einar.