Categories
Fréttir

Hvers vegna veggjöld?

Deila grein

11/12/2018

Hvers vegna veggjöld?

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var spurður í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær hvort að hann hafi skipt um skoðun á veggjöldum.
Sigurður Ingi sagði í svari sínu að hann vildi árétta það sem hann hafi þurft að segja nokkuð oft. „Fyrir ári sagði ég að það væru engin vegtollahlið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég hefði talað gegn þeim, þeir væru ekki í stjórnarsáttmálanum og þar af leiðandi ekki á minni dagskrá. Það breytir því hins vegar ekki að veggjöld hafa alltaf komið til greina. Hvalfjarðarganga-módelið hefur t.d. gengið mjög vel og lauk núna með farsælum hætti þar sem við hættum gjaldtöku, eftir því sem menn höfðu sagt hér á Alþingi. Það var sagt að þessi lög ættu að standa í 20 ár og þegar gjaldtökunni væri lokið yrði göngunum skilað til þjóðarinnar. Við það stóðum við,“ sagði Sigurður Ingi.

Hvers vegna veggjöld?
Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, í orkuskiptum, „höfum við orðið þess fullviss að tekjur ríkisins af bensín- og dísilgjöldum munu fara hratt lækkandi næstu ár. Þær tekjur munu ekki duga fyrir þeim vegaframkvæmdum sem við almennt sættum okkur við. Eru í dag einhverjir 17-18 milljarðar, lækka um 25-50% til ársins 2025 samkvæmt spám og gætu þess vegna verið orðnir að einhverjum 9 milljörðum árið 2025 — og ég held að enginn sætti sig við það,“ sagði Sigurður Ingi.
„Varðandi tímapressuna veit hv. þingmaður (Björn Leví Gunnarsson), sem er áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, að það hefur verið mikil vinna í allt haust. Þessi áform voru upphaflega kynnt í samgönguáætluninni. Það var talað um að vel kæmi til greina að skoða aðra þætti eins og þá sem verið hafa til skoðunar í nefndinni. Ég veit að í samtölum við alla gesti, sem hafa verið fjölmargir, og á fjölmörgum nefndarfundum og í viðræðum í nefndinni hefur slíkt komið fram og þetta samtal átt sér stað. Ef það gengur upp að ná að ljúka þessu núna væri það frábært vegna þess að fjögurra ára áætlunin er að renna út í lok þessa árs. Það er mjög mikilvægt fyrir Vegagerðina að hafa svolítinn fyrirsjáanleika í áætlunum sínum og hönnun og útboðum, m.a. til að ná fram eins mikilli hagræðingu í rekstri og útboðum og hægt er,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.

Categories
Fréttir

Veiðigjald

Deila grein

10/12/2018

Veiðigjald

Eðlilega hafa verið miklar umræður um veiðigjöldin á Alþingi. En stefnt er að því að afkomutengja veiðigjöld og hafa álagningu eins nálægt í tíma og hægt er. Minnihlutinn sakar ríkisstjórnina um að blekkja þingið, enga sátt og segir stöðu greinarinnar ekki alvarlega.
Markmiðið með veiðigjaldinu er að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu. Að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.
Með frumvarpinu er lagt til að:

  • settur verði nýr reiknistofn veiðigjalds sem verði byggður á afkomu við veiðar hvers nytjastofns,
  • veiðigjald verði 33% af reiknistofni,
  • reglur um frítekjumark veiðigjalds verði óbreyttar,
  • veiðigjald verði ákveðið fyrir almanaksár,
  • stjórnsýslu veiðigjalds verði breytt og dregið verði úr töf við meðferð upplýsinga.

Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi verði um 6–8 milljarðar kr. á ári næstu þrjú árin. Árlegur kostnaður vegna framkvæmdar laganna er áætlaður um 42,5 milljónir kr. Að auki fellur til um 46,1 milljóna kr. stofnkostnaður sem dreifist á árin 2018–2020 og gert er ráð fyrir að þeim kostnaði verði mætt innan útgjaldaramma málefnasviðs 5 í fjármálaáætlun (Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla).
Samkvæmt gildandi lögum er reiknistofn veiðigjaldsins ákvarðaður á grundvelli hagnaðar fyrir skatt (EBT) í sjávarútvegi samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu, reiknað annars vegar fyrir botnfisk og hins vegar fyrir uppsjávarfisk. Vegna tímatafar við útgáfu skýrslunnar er með þessu byggt á a.m.k. tveggja ára gömlum upplýsingum. Við ákvörðun veiðigjalds sumarið 2017 var þannig byggt á skýrslunni Hagur veiða og vinnslu 2015, sem kom út 20. janúar 2017 (og var endurskoðuð 29. júní 2017). Með því er reiknistofninn verulega háður gengissveiflum, ekki aðeins hvað snertir sölutekjur heldur einnig árlegt endurmat á lánum eða eignum þar sem bókhaldslegur gengishagnaður (eða tap) er hluti gjaldstofnsins og getur leitt til breytinga sem illa samræmast rekstrarafkomu á þeim tíma. Hér má benda á mikla hækkun hagnaðar (EBT) í fiskveiðum frá árinu 2014 þegar hann var álitinn um 15 milljarðar kr. til ársins 2015 þegar hann var álitinn um 31 milljarður kr. Stóran hluta þessa mátti rekja til áhrifa gengisbreytinga á fjármagnsstofn. Þetta gat síðan af sér mikla hækkun veiðigjalds á fiskveiðiárinu 2017–2018 sem ekki samrýmdist nýjustu fáanlegu upplýsingum um rekstrarafkomu sjávarútvegsins á sama tíma, svo sem rakið var hér að framan.
Með frumvarpinu er lagt til að reiknistofn veiðigjalds endurspegli væntanlega afkomu við veiðar (fyrir skatt) á komandi veiðigjaldsári (almanaksári). Þá er jafnframt lagt til að ekki verði lengur byggt á Hagtíðindum við útreikninga. Þess í stað verði byggt einvörðungu á gögnum úr skattframtölum eigenda fiskiskipa auk skýrslna til Fiskistofu um afla og aflaverðmæti. Reiknistofn frumvarpsins er mun gegnsærri og auðskiljanlegri en reiknistofn gildandi laga þar sem annars vegar eru sóttar upplýsingar um hagnað í birtar töflur Hagstofu Íslands og hins vegar öllum kostnaði jafnað niður samkvæmt svonefndum afkomuígildum, sem um er fjallað ítarlega í skýringum við gildandi lög. Ekki er þörf á slíkri tveggja skrefa aðferð lengur en niðurjöfnun kostnaðarþátta er reist á vegnu hlutfalli aflaverðmætis hverrar tegundar við veiðar hvers fiskiskips.
„Þá vil ég draga fram mikilvægi þess að hafa í huga þá áherslu sem er í lögum um fiskveiðistjórn, að tryggja og treysta atvinnu og byggð í landinu. Eins það sem fram kemur í 20. gr. þeirra laga varðandi þá sem fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt þeim lögum eða landa afla, að fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks skuli greiða veiðigjöld svo sem í lögum um veiðigjöld greinir. Þetta er það sem við erum að ræða, virðulegi forseti, og hefur mikið verið rætt á umliðnum misserum, að gjaldið þurfi að afkomutengja og byggjast á afkomutölum nær rauntíma. Í frumvarpinu sem við ræðum, frumvarpi til laga um veiðigjöld, er þeim sjónarmiðum sannarlega mætt,“ sagði Willum Þór Þórsson, alþingismaður, í ræðu í fyrstu umræðu.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks segir:
Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar.
„Þeim sjónarmiðum er klárlega mætt í frumvarpinu,“ sagði Willum Þór.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir, í fyrstu umræðu um veiðigjaldið á Alþingi, að verið væri að að koma til móts við umsagnir og gagnrýni á fyrra frumvarp sem lagt var fram í s.l. vetur. „Þarna er verið að horfa eins og hægt er til hverrar útgerðar og kannski ekki hægt að gera þetta einstaklingsmiðaðra en þetta, því að það skiptir verulegu máli. Eins og í flestum atvinnugreinum eru útgerðin og sjávarútvegsfyrirtækin misjafnlega byggð upp og eru kannski ekki öll jöfn í þeirri skiptingu sem hefur verið, enda er óbreytt álagning veiðigjalds röng miðað við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja í dag,“ sagði Halla Signý.
„Óeðlilega hátt veiðigjald getur dregið úr starfsemi fyrirtækja og samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðlegum markaði. Slík þróun getur haft neikvæð áhrif á þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi og sveitarfélög sérstaklega, sem byggja afkomu sína að stórum hluta á tekjum í sjávarútvegi. Þá getur hátt veiðigjald ýtt undir frekari fækkun sjálfstæðra atvinnurekenda í sjávarútvegi, en aflahlutdeildarhöfum hefur fækkað ört á síðustu árum, eða um tæp 60% á 12 árum.
Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa ekki mótmælt því að greiða gjald af auðlindinni enda hreyfðu þau ekki mótmælum þegar vel gekk. En gjaldið verður náttúrlega að vera sanngjarnt og taka mið af afkomu nær í tíma og fleiri þáttum í rekstri eins og tíðkast með afslætti vegna vaxta og framkvæmda. Þjóðin græðir nú ekki á afgjöldum af auðlindinni sem kostar okkur rótgróin fyrirtæki,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta“

Deila grein

08/12/2018

„Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta“

Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar kom upp í ræðustól Alþingis í atkvæðagreiðslu í 3. umræðu fjárlaga, um tillögu um að heimila fjármála- og efnahagsráðherra að leggja Íslandspósti ohf. til lánsheimild og hlutafé. Var þungt í hinum dagfarsprúða formanni, eins og sjá má á upptöku hér að neðan.

„Ætlar fólk virkilega að láta þetta fyrirtæki að sigla sinn sjó,“ spurði Wilum Þór þingheim. Og sagði svo í framhaldi, „það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta.“ Og bætti við: „Hvar er ábyrgðin? Þetta er í almannaeigu.“
Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar segir: Ráðherrum ber að upplýsa bæði fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um framgang fjárhagslegrar endurskipulagningar og útfærslu á framtíðar rekstrarfyrirkomulag áður en nýttar eru þær lána- og framlagsheimildir sem hér er gerð tillaga um.
„Hvað þýðir þetta,“ spurði Willum Þór.
„Það er verið að fara í gegnum reksturinn, skera upp reksturinn. Það er verið að verja verðmætin í þessu fyrirtæki,“ sagði Willum Þór Þórsson.

Categories
Fréttir

Eiga pening fyrir gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli

Deila grein

06/12/2018

Eiga pening fyrir gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli

Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður, ræddi samgöngumálin í störfum þingsins í gær, miðvikudag.
„Samgöngumálin hafa verið í brennidepli þessa vikuna og síðast í gær kom út skýrsla starfshóps sem fjallaði um innanlandsflug og rekstur flugvalla með hliðsjón af áherslum ríkisstjórnarinnar undir forystu hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar. Aðgerðirnar sem hópurinn leggur til koma að mínu mati til með að leysa ýmsan vanda sem við hefur verið að etja, til að mynda varðandi millilandaflug, með því að varaflugvöllunum í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum er gefið aukið vægi. Það gefur væntingar um að þær framkvæmdir sem eru nauðsynlegar við þá velli fari af stað. Það mun styrkja vellina til að veita þá þjónustu og það öryggi sem þeir eiga að standa fyrir,“ sagði Ásgerður.
„Ég vil einnig minna á mikilvægi þess að opna fyrir umferð lítilla og meðalstórra flugvéla til og frá landinu um Hornafjarðarflugvöll sem er bæði stuðningur við svæðið varðandi ferðaþjónustuna og svo mikið flugöryggisatriði fyrir vélar, til að mynda í ferjuflugi.
Innanlandsflugið á að vera einn liður í almenningssamgöngunum og er hluti af þessari skýrslu. Sú staðreynd að það sé hægt að fá flugfar til og frá landinu í gegnum Keflavíkurflugvöll fyrir sama verð og almennt fargjald aðra leiðina til Hornafjarðar, Ísafjarðar eða Egilsstaða er ekki boðlegt ástand. Því fagna ég innilega fyrir hönd landsbyggðarinnar að hin svokallaða skoska leið eða útfærsla af henni sé komin í vinnslu og lagt til að það fyrirkomulag taki gildi árið 2020. Aðgengi að þjónustu sem er stöðugt gerð miðlægari á höfuðborgarsvæðinu á að vera sjálfsagt fyrir alla landsmenn.
Til viðbótar má telja að leikhús allra landsmanna, t.d. Þjóðleikhúsið, hljómsveit allra landsmanna, Sinfóníuhljómsveitin, og flugvöllur allra landsmanna, aðalvöllurinn, Keflavíkurflugvöllur, sé á leið hér um og það er gott að við getum átt smápening fyrir gjaldeyri þegar við komum á Keflavíkurflugvöll.“
Ásgerður K. Gylfadóttir varaþingmaður í störfum þingsins 5. desember 2018.

Categories
Fréttir

„Ég treysti þér, máttuga mold“

Deila grein

06/12/2018

„Ég treysti þér, máttuga mold“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, minnti þingheim á alþjóðlegan dag jarðvegs í gær, miðvikudag.
„Jarðvegur er það sem allt líf nærist á og jarðvegur er mjög mikilvæg náttúruauðlind og hann er ekki hægt að endurnýta,“ sagði Halla Signý.
Ég treysti þér, máttuga mold.
Ég er maður, sem gekk út að sá.
Ég valdi mér nótt, ég valdi mér logn,
þegar vor yfir dalnum lá.
– orti Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld frá Kirkjubóli
Guðmundur Ingi Kristjánsson sem var bóndi og skildi þá hringrás sem lífið er. Okkur ber skylda að yrkja og varðveita jörðina og skila henni til komandi kynslóða.
Frjómoldin er aðeins þunn skel á yfirborði jarðar. Í henni nærum við meginhluta matvælaframleiðslu heimsins. En jarðarbúum fjölgar hratt og því miður er þessi mikilvæga auðlind jarðar að hopa og verða eyðimerkurmyndun að bráð.
Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga sem hvetur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðherra að gera tillögu til breytinga á lögum eða reglugerðum sem miða að því að koma á fót hvatakerfi þannig að landeigendur hafi ávinning af því að græða upp land og stöðva jarðvegsrof með uppskeru af túnum sem nýtist ekki í fóður.
Í loftslagsstefnu Íslands er það eitt af forgangsmálum að huga að landgræðslu eins og segir í aðgerðaáætlun fyrir árin 2018-2030, með leyfi forseta:
„Fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.“
Þar er nefnt sérstaklega að endurheimt votlendis sé veigamikill þáttur í að draga úr losun og að hægt sé að binda kolefni úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt. Íslenskir bændur hafa sýnt landgræðslu og kolefnisbindingu mikinn áhuga. Landssamtök sauðfjárbænda hafa sett sér aðgerðaáætlun þar sem stefnt er að því að sauðfjárrækt skuli verða kolefnisjöfnuð fyrir árið 2027. Liður í því er landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis. Landgræðsla ríkisins hefur unnið markvisst að því að efla grasrótarstarf í landgræðslu og gróðurvernd og flytja verkefni frá landgræðslunni heim í héruðin undir samvinnuverkefninu Bændur græða landið. Það er dæmi um slíkt framtak.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður í störfum þingsins 5. desember 2018.

Categories
Fréttir

Fjarskiptaáætlun – fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir

Deila grein

05/12/2018

Fjarskiptaáætlun – fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mælti fyrir tveimur þingsályktunartillögum um fjarskiptaáætlun á Alþingi í dag, annars vegar stefnu í fjarskiptum til fimmtán ára og hins vegar aðgerðaáætlun til fimm ára. Ráðherra segir grunntón í áherslum og aðgerðum áætlunarinnar vera traust og öryggi.
Ný fjarskiptaáætlun felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og markmið í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands fyrir árin 2019–2033 en aðgerðaáætlunin nær til tímabilsins 2019-2023.
Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að fjarskiptaáætlanir sem gerðar voru árin 2005 og 2012 hafi varðað farsæla þróun á sviði fjarskipta sem hafi komið Íslandi í fyrsta sæti í fjarskiptum og upplýsingatækni árið 2017 að mati Alþjóðafjarskiptasambandsins. Þriðju fjarskiptaáætluninni væri ætlað að fleyta þjóðinni enn lengra þannig að við héldum stöðu okkar sem eitt af forystulöndum heims í innviðum fjarskipta.
Í áætluninni er horft til umtalsverðrar og fyrirsjáanlegrar tækniþróunar, endurskoðunar á fyrirliggjandi stefnum og sameiningu stefna í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands. Einnig er tekið mið af samþættingu allra stefna og áætlana sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins.
Fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir
Sigurður Ingi fjallaði um fjölmargar áskoranir fyrir þjóðir heims sem felast í fjórðu iðnbyltingunni þar sem fjarskipti, upplýsingatækni, netöryggi og gervigreind leika lykilhlutverk. „Birtingarmynd þeirra breytinga sem við nú þegar stöndum frammi fyrir er m.a. stórstígar framfarir í tækni, aukin sjálfvirkni, ör þróun í stafrænum samskiptum, síbreytilegt viðskiptamódel markaðsaðila og örar breytingar á regluverki ESB. Einnig má benda á að ríki heims standa nú frammi fyrir vaxandi ógnum á Netinu og þurfa Íslendingar að bregðast við þeim af alvöru. Hvað varðar póstþjónustuna má benda á að það er stór áskorun að takast á við hraða fækkun bréfasendinga og vöxt í verslun á Netinu með tilheyrandi pakkasendingum innanlands og milli landa. Þá vil ég nefna í þessu sambandi að ein allra mikilvægasta grunnskrá landsins, þjóðskráin, þarfnast endurnýjunar til að svara þeim kröfum sem m.a. Alþingi og almenningur gerir til hennar,“ sagði ráðherra í framsöguræðu sinni.
Þrjú stór viðfangsefni í áætluninni eru háð skilyrði um sérstaka viðbótar fjárveitingu að mati ráðherra. Í fyrsta lagi innleiðing á NIS tilskipun sem er grundvöllur brýnna umbóta í netöryggismálum þjóðarinnar. Í öðru lagi fjármögnun á mögulegum kostnaði ríkisins við að tryggja lágmarks póstþjónustu. Og loks í þriðja lagi sérstök ljósleiðaraverkefni eins og þriðji fjarskiptasæstrengurinn til Evrópu, hringtenging ljósleiðara á Austfjörðum auk útbóta við að tryggja betur öryggi mikilvægra fjarskiptainnviða. Ráðherra minnti á að landsátakið Ísland ljóstengt væri þegar fjármagnað en það verkefni hafi reynst ákaflega árangursríkt verkefni til að koma háhraðatengingum út í hinar dreifðu byggðir.
Ör endurskoðun mikilvæg
Þingsályktunartillögur um fjarskiptaáætlun voru samdar í samræmi við stefnu ríkisstjórnar, áherslur ráðherra, aðrar áætlanir hins opinbera og niðurstöður opins samráðs.
Samkvæmt lögum skal stefna í fjarskiptum og tilheyrandi aðgerðaáætlun endurskoðuð eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Ráðherra segir reglulega og öra endurskoðun mikilvæga þar sem þróun í málaflokkum sem fjarskiptaáætlun nær til taki hröðum breytingum. Árlega verður gerð grein fyrir framvindu markmiða og verkefna fjarskiptaáætlunar.
Þingsályktunartillaga um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019-2033
Þingsályktunartillaga um fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019-2023

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ“

Deila grein

05/12/2018

„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ“

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, fer yfir helstu atriði í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2019 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2020-2022, í yfirlýsingu í gær. Sveitarfélagið mun ná undir lögboðið 150% skuldaviðmið fyrr en upphafleg aðlögunaráætlun gerði ráð fyrir. Aðlögunaráætlun fyrir árin 2017 til 2022 gerði ráð fyrir að skuldaviðmiðið næði 150% árið 2022.
„Aukning er til nýframkvæmda í skólum og undirbúningur hafinn að byggingu nýs hjúkrunarheimilis. Álögur á íbúa eru lækkaðar eins og kostur er. Horfið hefur verið frá hækkuðu útsvari og nú greiða íbúar Reykjanesbæjar sömu prósentu í útsvar og íbúar flestra annara sveitarfélaga á Íslandi. Þá er ráðgerð lækkun á fasteignaskatti í gjaldskrá úr 0,46% í 0,36% til þess að mæta hækkuðu fasteignamati,“ segir Jóhann Friðrik.
Aðhald í rekstri, hagstæð ytri skilyrði, auknar tekjur og breyttar reglur um útreikning skuldaviðmiðs eru meðal þess sem valdi því að hraðar gangi að nálgast skuldaviðmiðið, samt hefur náðst að forgangsraða til velferðar-og fræðslumála í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2019.
„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ,“ segir Jóhann Friðrik Friðriksson.

Categories
Fréttir

Hvað getur unnist af klasastarfi?

Deila grein

04/12/2018

Hvað getur unnist af klasastarfi?

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, er flutningsmaður að tillögu til þingsályktunar á Alþingi um mótun klasastefnu.
Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan feli í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir. Stefnan verði unnin í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs sem er í gildi 2017–2019 þar sem markmið nýrrar klasastefnu verði að ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar á markvissari hátt en hingað til, að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs, efla nýsköpun, efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina og þjóðarinnar og efla hagsæld. Enn fremur er lagt til að ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2019.
„Ég tel slíka stefnumótun getað skilað miklum ávinningi fyrir atvinnulífið, nýsköpun og ekki síst þegar við skoðum uppbyggingu atvinnu í tengslum við nýtingu auðlinda um landið gervallt og markvissari nýtingu fjölmargra sjóða sem ætlað er að efla rannsóknir og nýsköpun, hvort sem um ræðir vísindamenn innan menntageirans eða verkefnadrifna sjóði. Við getum kallað það innlegg í markvissari byggðastefnu,“ sagði Willum Þór.

Fjárfesting í þekkingarsköpun leiði til betri skilnings á samfélagslegum áskorunum
„Samfélög í dag standa frammi fyrir flóknum, hnattrænum áskorunum á sviði t.d. umhverfis, loftslags, heilsu, orku, fæðu, fólksflutninga og öryggis. Mikilvægt er að fjárfesting í þekkingarsköpun leiði til betri skilnings á samfélagslegum áskorunum og vísi veginn í átt til árangursríkra lausna. Slíkar lausnir krefjast oft umfangsmikils samstarfs þvert á fræðigreinar og á milli háskóla, stofnana og fyrirtækja. Til að ný þekking nýtist samfélaginu verður hún að hafa áhrif til breytinga, t.d. í stefnu stjórnvalda, með lagasetningu, með breyttu verklagi fyrirtækja og stofnana eða með breyttri hegðun fólks. Í samfélagslegum áskorunum felst töluverð óvissa því erfitt er að segja fyrir um áhrif þeirra og hvernig best sé að bregðast við. Skýr framtíðarsýn og markviss fjárfesting í þekkingu eykur möguleikana jákvæðum árangri og farsælli aðlögun að breyttum aðstæðum,“ sagði Willum Þór og vitnaði í ritið Stefna- og aðgerðaráætlun, Vísinda- og tækniráðs 2017-2019.
„Tillagan sem við ræðum, um opinbera klasastefnu, styður vel þær áherslur sem koma fram í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs um vel ígrundaða stefnumótun og mikilvægi slíkrar stefnumörkunar þar sem upplýsingavinnsla og hagtölugerð er forsenda vandaðrar stefnumótunar og til aukins skilnings á rannsóknar- og nýsköpunarkerfinu, auknum sveigjanleika þess til að fylgja árangri eftir og markvissari ákvörðunartöku stjórnvalda, stofnana eins og háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja,“ sagði Willum Þór.
Hvað getur unnist af klasastarfi?
„Við höfum þrisvar sinnum haldið risastórar alþjóðlegar ráðstefnur sem hafa farið stækkandi og sem dæmi er alþjóðlega jarðvarmaráðstefnan sem haldin var í Hörpu 2016 um fjölnýtingu jarðvarmans. Hún er mjög gott dæmi um hvað getur sprottið á slíkum vettvangi og í samvinnu fyrirtækja í milli og stofnana og fræðasamfélags. Á ráðstefnunni voru fyrirlesarar á borð við Michael Porter. Þar voru 1.000 gestir frá 40 þjóðum að deila þekkingunni. Með ráðstefnunni hefur Íslandi eða íslenska jarðvarmaklasanum tekist að byggja Ísland upp sem helsta umræðuvettvang jarðvarma og endurnýjanlegrar orku á heimsvísu. Okkur tókst síðan í kjölfarið að fá alheimsráðstefnuna, sem er haldin á fimm ára fresti, í samkeppni við lönd eins og Chile, Þýskaland, Holland, Kenýa, Filippseyjar og Bandaríkin. Sú ráðstefna fer fram hér 2020. Ef hið opinbera markar ekki stefnu og tekur ekki þátt í verkefnum eins og því förum við á mis við tækifæri og hætta er á, ef slíkur stuðningur og skuldbinding er ekki fyrir hendi, að slík verkefni fjari út. Þetta er dæmi um það sem getur unnist í klasavinnu þar sem þekking kemur saman úr mörgum áttum, úr fræðasamfélagi, frá stofnunum, hinu opinbera, úr atvinnulífinu,“ sagði Willum Þór Þórsson.

Categories
Fréttir

Umhverfisvernd og dýravelferð við opinber innkaup á matvöru

Deila grein

03/12/2018

Umhverfisvernd og dýravelferð við opinber innkaup á matvöru

Þórunn Egilsdóttir, formaður Þingflokks Framsóknarmanna, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um vistvæn opinber innkaup á matvöru á dögunum á Alþingi. Fram kom í inngangsorðum Þórunnar „að miklu varðar að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda, notkun skaðlegra hormóna og eiturefna, ofnotkun sýklalyfja sem leiðir af sér fjölónæmar bakteríur og önnur skaðleg áhrif á umhverfið og velferð dýra við framleiðslu og flutning matvöru. Ríki og sveitarfélög geta haft veruleg áhrif þar á með því að hafa umhverfisvernd og dýravelferð að leiðarljósi við innkaup á matvöru. Til dæmis má ætla að hátt í 150.000 manns – nemendur, starfsfólk hjá hinu opinbera, vistmenn á dvalar- og öldrunarheimilum og fleiri – eigi reglulega kost á að borða í mötuneytum á vegum hins opinbera. Ef miðað er við að tveir þriðju þeirra neyti þess kosts er um 100.000 manns að ræða,“ sagði Þórunn.
Þórunn lagði áherslu á mikilvægi þess „að ávallt verði tekið tillit til umhverfisverndar og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru.“ Ríki og sveitarfélög geta stuðlað að vistvænni matvælaframleiðslu enda viðurkennt að nýta megi opinber innkaup til að vinna að umhverfisvernd og velferð dýra.
„Við búum hér yfir gríðarlegum gæðum“
Markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2014 kallar á breiðan stuðning við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og atvinnugreinar í viðleitni þeirra til að setja sér markmið í loftslagsmálum. Allar stærri opinberar áætlanir þarf nú að meta út frá loftslagsmarkmiðum.
Skýrsla um kolefnisspor garðyrkjunnar, sem unnin var fyrir samband garðyrkjubænda, leiðir í ljós að íslensk garðyrkja hefur mest forskot þegar afurð er flutt inn með flugi. Það að flytja salat til landsins kostar rúmlega þrefalt meira kolefni en allt ferlið á Íslandi og er hlutfall íslenska kolefnissporsins um 26% af því innflutta.
„Allt skiptir þetta máli í stóra samhenginu þegar talið berst að umhverfismálum. Til gamans langar mig til að benda á að Danir, sem eru framarlega í þessum málum, eru svo hrifnir af íslenska grænmetinu að þeir vilja það helst af því að ræktunaraðferðirnar hér á landi og hreinleiki vatnsins er langt umfram það sem þekkist annars staðar. Við búum hér yfir gríðarlegum gæðum,“ sagði Þórunn.

Neytendastefna sauðfjárbænda
Í neytendastefnu sauðfjárbænda til ársins 2027 er gert ráð fyrir að búið verði að kolefnisjafna íslenska sauðfjárrækt fyrir þann tíma og að allar íslenskar sauðfjárafurðir verði vottaðar með lágmarksumhverfisspori fyrir 2027. Íslenskt sauðfé er nú þegar alið án hormóna og vaxtarhvetjandi lyfja og erfðabreytt fóður hefur verið bannað. Notkun á sýklalyfjum er með því minnsta sem þekkist í heiminum.
Ríkið er drifkraftur nýsköpunar og til sjálfbærrar þróunar
„Opinber innkaup ríkisins eru umtalsverður hluti af hagkerfinu og því skiptir máli hvernig þeim er hagað. Með hlutdeild sinni á matvælamarkaði getur ríkið haft áhrif á þróun á markaði og verið drifkraftur nýsköpunar og lagt mikið af mörkum til sjálfbærrar þróunar. Metnaður hins opinbera á að felast í því að gefa börnum, öldruðum og öðrum þeim er hið opinbera matreiðir fyrir, lystuga og heilnæma máltíð,“ sagði Þórunn.
„Íslenskur landbúnaður og íslensk landbúnaðarframleiðsla stendur mjög framarlega og það hefur verið mikið kappsmál hjá mínum flokki, Framsóknarflokknum, okkur Framsóknarmönnum, að fylgja þessum málum eftir. Ég hef trú á því að við stöndum með pálmann í höndunum ef við byggjum á þessum grunni,“ sagði Þórunn.
Í ríkisstjórnarsáttmálnum semgir að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og tryggja eigi áframhaldandi samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðamörkuðum. Einnig kemur fram að nýta beri tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi, þróa lífhagkerfið enn frekar og stuðla að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurða og byggðafestu.
„Það er gríðarlega mikið og stórt mál í öllum byggðamálum, að við séum með öflugt atvinnulíf um allt land og við séum að nýta auðlindina okkar, landið, til að framleiða heilnæm matvæli,“ sagði Þórunn Egilsdóttir.

Categories
Fréttir

Stjórnarsamstarfið eins árs í dag

Deila grein

30/11/2018

Stjórnarsamstarfið eins árs í dag

Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er eins árs í dag.
Ríkisstjórnin var mynduð í kringum metnaðarfull og framsýn markmið um velferð, mannréttindi og loftslagsmál, eflingu Alþingis og aukið þverpólitískt samráð, stórsókn í uppbyggingu á innviðum um allt land og eflingu heilbrigðis- og menntakerfa og fagnar þeim árangri sem náðst hefur fyrir samfélagið á liðnu ári.

  • Nú þegar eitt ár er liðið af kjörtímabili ríkisstjórnarinnar er 171 verkefni af 183 verkefnum í stjórnarsáttmála í vinnslu eða þeim lokið.
  • Ríkisstjórnin hefur lagt fram tvenn fjárlög á starfsárinu og aukið framlög til samfélagslegra verkefna og innviða verulega, eða samtals um 90 milljarða.
  • Frumvarp hefur verið lagt fram um lækkun tryggingagjalds um 0,5% og markvissri lækkun skulda hefur verið haldið áfram. Nema þær nú rétt rúmlega 30% af landsframleiðslu en hrein staða ríkissjóðs er um 653 ma.kr., eða sem nemur um 23% af vergri landsframleiðslu.
  • Unnið er að stofnun Þjóðarsjóðs til að mæta áhrifum verulegra efnahagslegra áfalla.
  • Framlög til umhverfismála hafa aldrei verið hærri en nú. Metnaðarfull aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefur verið kynnt og unnið er að fyrstu skrefunum; orkuskiptum í samgöngum og aukinni kolefnisbindingu.
  • Uppbygging meðferðarkjarna nýs Landspítala er hafin og áhersla lögð á að styrkja heilsugæsluna um allt land. Fyrstu skref hafa verið stigin til þess að draga úr kostnaði fólks við að sækja sér læknisþjónustu og þeirri vinnu verður haldið áfram út kjörtímabilið.
  • Þverpólitísk nefnd vinnur nú að undirbúningi að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands auk þess sem ráðist hefur verið í stórátak við uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum með áherslu á friðlýst svæði.
  • Framlög til menntamála hafa stóraukist og nú stendur yfir vinna við gerð menntastefnu.
  • Istanbúl-sáttmálinn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum var fullgiltur, aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota er fullfjármögnuð og stýrihópur um heildstæðar úrbætur gegn kynferðislegu ofbeldi var settur á fót og starfar af fullum krafti.
  • Stuðningur við nýsköpun og rannsóknir hefur enn verið efldur, nú síðast með tvöföldun hámarksupphæða endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarverkefna fyrirtækja. Jafnframt er unnið að nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem er lykilatriði fyrir framtíð samfélagsins og fjölbreyttari stoðir efnahagslífsins. Unnið er að endurskoðun á starfsumhverfi vísinda og rannsókna og von á frumvarpi um heilindi í vísindarannsóknum.
  • Framtíðarnefnd hefur verið sett á fót á vegum ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Nefndinni er ætlað að fjalla um helstu tækifæri og ógnanir Íslands í framtíðinni m.t.t. langtímabreytinga á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegra breytinga og þeirra hröðu umskipta sem eru í vændum með síaukinni sjálfvirkni og tæknibreytingum.
  • Sérstök áhersla hefur verið lögð á samráð við aðila vinnumarkaðarins allt frá stjórnarmyndunarviðræðum þessarar ríkisstjórnar.
  • Atvinnuleysisbætur og greiðslur úr ábyrgðarsjóði launa voru hækkaðar í vor.
  • Í þeim fjárlögum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi er lagt til að barnabætur hækki um 16% á milli ára og þar með fjölgar þeim sem eiga rétt á barnabótum um rúmlega 2.200.
  • Nýtt dómstig tók til starfa, löggæsla hefur verið styrkt og í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er gert ráð fyrir endurnýjun þyrlukosts Landhelgisgæslunnar. Hagsmunagæsla vegna EES-samstarfsins hefur verið styrkt og mikilvæg skref hafa verið stigin til að innleiða stafræna stjórnsýslu og auka aðgengi og bæta þjónustu við almenning og nýta almannafé betur.
  • Framlög til nýframkvæmda og viðhalds hafa verið stóraukin til að tryggja umferðaröryggi sem best. Með sérstöku fjárframlagi til vegamála var brugðist við brýnum viðhaldsverkefnum og uppsöfnuðum vanda undanfarinna ára. Áform eru um að flýta uppbyggingu tiltekinna mannvirkja.
  • Á árinu hefur áhersla verið lögð á málefni barna, umhverfi barnaverndar verður endurskoðað og á næsta ári verður í fyrsta sinn haldið Barnaþing með þátttöku barna hvaðanæva af landinu og ungmennaráð í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna var sett á fót. Máltækniáætlun er nú loksins fjármögnuð enda eitt mikilvægasta tækið til að styðja við íslenska tungu á tækniöld.

Heimild: stjornarradid.is