Categories
Fréttir

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Deila grein

27/09/2018

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Sig­urður Ingi Jó­hann­es­son, sveit­ar­stjórn­ar og sam­göngu­málaráðherra, vill að far­in verði blönduð leið hvata og skil­yrða við sam­ein­ingu sveit­ar­fé­laga á Íslandi. Í ræðu Sigurðar Inga við upp­haf Landsþings Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga sagði hann það ljóst að marg­ar áskor­an­ir sem sveit­ar­fé­lög­in standa frammi fyr­ir séu af þeirri stærðargráðu og hraða að fyr­ir sum fá­menn sveit­ar­fé­lög verði þær óyf­ir­stíg­an­leg­ar.
Glærur með ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Ræða Sigurður Inga Jóhannssonar á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 2018:

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Ávarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga; landsþingsfulltrúar; aðrir gestir.

Ég vil byrja á því að óska sveitarstjórnarfólki til hamingju með kjörið í kosningunum í vor.
Það er í senn heiður og mikil áskorun að veljast til forystu í sínu sveitarfélagi. Íbúar hafa væntingar um að vel takist til við stjórn sveitarfélagsins síns og að það vaxi og dafni á komandi árum.
Sjálfur sat ég í sveitarstjórn Hrunamannahrepps í 15 ár og þar af sjö ár sem oddviti þannig að ég þekki vel þessa ábyrgð sem þið eru að takast á hendur.
Vissulega fer mikill tími í þessi störf, sem væri hægt að nýta með fjölskyldu og í ýmislegt annað, en ekki vildi ég vera án þessarar reynslu
Áhugaverðast er þó að vinna að framfaramálum með öllu því góða fólki sem starfar á þessum vettvangi, hvort sem það eru aðrir kjörnir fulltrúar, starfsmenn sveitarfélagsins og ekki síst íbúarnir sjálfir.
Störf kjörinna fulltrúa
Það er því ánægjulegt að sjá allan þann mikla fjölda fólks sem býður sig fram til ábyrgðar í sveitarstjórnum landsins.
Mikil endurnýjun  var í röðum kjörinna fulltrúa í vor. Rannsóknir sýna að tæp 60 % kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa snúa ekki til baka að loknum kosningum – og hefur hlutfallið farið hækkandi.
Endurnýjun er í sjálfu sér eðlileg og af hinu góða, en þegar um eða yfir helmingur kjörinna fulltrúa velur að halda ekki áfram í aðdraganda hverra kosninga þarf að staldra við – Kannski er réttara að kalla þetta brottfall frekar en endurnýjun.
Kannanir benda til þess að aukið álag, flóknari verkefni og að einhverju leyti lág þóknun skýri þessa stöðu.
Þá kann að vera að óvægin umræða á samfélagsmiðlun fæli fólk frá því að bjóða sig fram til slíkra starfa.
Þetta þarf að skoða og mun ég við tækifæri taka málið upp við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Meðal annars þarf að meta hvort þörf er á að bæta kjör og vinnuskilyrði kjörinna fulltrúa frá því sem nú er.
Við getum hins vegar glaðst yfir því að hlutur kvenna í sveitarstjórnum hefur aukist, en þær eru nú 47% kjörinna. Þá fáum við góðar fréttir af því að fleiri konur hafi tekið við sem bæjar- og sveitarstjórar en var á síðasta kjörtímabili.
Við Íslendingar erum fyrirmynd annarra þjóð þegar kemur að stöðu og viðhorfum í jafnréttismálum og framlag ykkar, kæra sveitarstjórnarfólk, skiptir miklu máli fyrir jafnréttisstarfið í landinu.
Þróun sveitarstjórnarstigsins
Þegar við lítum yfir farinn veg þá getum við sagt að þróunin í málefnum sveitarfélaga hafi verið jákvæð.
Sveitarstjórnarstigið gegnir þýðingarmiklu hlutverki fyrir samfélagið allt. Sveitarfélögin hafa stjórnarskrárvarinn rétt til að ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ráðstafa eigin tekjustofnum.
Þessi réttur hefur verið á hávegum hafður á Íslandi.
Sveitarfélögum hefur ekki verið gert að sameinast líkt og t.d. í Danmörku og Noregi – íbúarnir hafa sjálfir haft það í sínum höndum hvort þeir vilja að sveitarfélagið sameinist nágrannasveitarfélagi eða ekki.
Tekjustofnar sveitarfélaga eru þannig samsettir að í norrænum samanburði er hlutfall eiginfjármögnunar mun hærra hér á landi. Þá er horft til þess hve hátt hlutfall útsvar og fasteignaskattar eru í heildartekjum þeirra – og hve lágt hlutfall kemur í gegnum jöfnunarkerfi.
Hlutdeild Jöfnunarsjóðs í heildatekjum sveitarfélaga er t.d. um 13% –  en er allt að 50% sambærilegu kerfi í Noregi. Útsvarið og fasteignaskattar samanlagt eru á hinn bóginn um 70% hér.
Eðlileg umræða og skoðanaskipti fer fram um það hvort tekjustofnar séu nægjanlegir frá einum tíma til annars – en sem betur fer hafa ríki og sveitarfélög náð að semja sig til niðurstöðu í flestum slíkum álitamálum.
Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga hefur líka tekið breytingum. Verkefni hafa færst til sveitarfélaga á umliðnum árum – markmiðið er að tryggja að ákvarðanir séu teknar sem næst þeim sem þjónustunnar njóta.
Yfirfærsla grunnskólans árið 1996 og málefna fatlaðs fólks 2011 var mjög mikilvæg leið til að efla og styrkja sveitarstjórnarstigið hér á landi.
Þetta hefur leitt til þess að hlutur sveitarfélaganna í opinberum búskap hefur vaxið, tekjur sveitarfélaga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu var innan við 7,5 prósent 1980 en er nú komið vel yfir 12 og hálft prósent.
Við erum þó fjarri því að ná þeirri hlutdeild sem sveitarfélög á Norðurlöndum hafa í þessum sambandi. Það skýrist að einhverju leyti af því að þar er fylkin eru einnig talin með sveitarstjórnarstiginu – hið svokallaða þriðja stjórnsýslustigi.
Það er vilji fyrir því að halda áfram á þessari braut. Öldrunarmál og rekstur framhaldsskóla hafa t.d. verið nefnd sem ákjósanleg verkefni sveitarfélaga. Með því móti væri hægt að samþætta sambærileg verkefni á einu stjórnsýslustigi, nýta betur fé skattborgaranna og umfram allt – bæta þjónustuna.
Þá er vert að nefna að margvíslegar umbætur voru innleiddar með sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi í ársbyrjun 2012. Fjármálakafli laganna tók gagngerum breytingum m.a. með tilkomu nýrra fjármálareglna. Ennfremur voru ákvæði laganna um byggðasamlög og samstarfsverkefni bættur til að auka gengsæi og skýrleika varðandi framsal á valdheimildum sveitarstjórna.
Ég tel að samstarf ríkis og sveitarfélaga sé í föstum og góðum skorðum. Lögin kveða á um reglulegt samráð sveitarstjórnarráðherra og fjármálaráðherra með stjórn sambandsins.
Svokölluð Jónsmessunefnd fundirbýr fundina og fjallar jafnframt um þau mál sem efst eru á baugi í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hverju sinni.
Ríkisstjórnin er líka meðvituð um um mikilvægi sveitarfélaganna – í stefnuyfirlýsingu hennar er lýst yfir vilja til að auka samráð við sveitarfélögin um verkefni þeirra og fjárhagsleg samskipti.
Vinna er þegar hafin við að skilgreina hlutverk landshlutasamtaka og styrk sveitarfélaga til að rísa undir nauðsynlegri þjónustu.
Þá vill ríkisstjórnin treysta enn betur samráð og stuðning við ykkur er varðar uppbyggingu innviða, byggðaþróun og fjármálaleg samskipti.
Áskoranir sem sveitarstjórnarstigið stendur frammi fyrir
En – ágæta sveitarstjórnarfólk – þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun stendur sveitarstjórnarstigið frammi fyrir margvíslegum áskorunum sem við þurfum að ræða og taka afstöðu til – hvernig ætlum að bregðast við.
Í fyrsta lagi gera íbúarnir eðlilega kröfu um góða þjónustu á öllum sviðum. Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem nefnd á vegum ráðuneytisins vann kalla íbúar sveitarfélaga eftir góðri þjónustu og góðu mannlífi en virðast minna uppteknir af því hver veitir þjónustuna.
Í öðru lagi hafa komið til ný lagafyrirmæli sem leggja auknar kröfur á stjórnsýslu sveitarfélaga. Ég hef nefnt sveitarstjórnarlögin, sem hafa aukið kröfur um formfestu og aga í stjórnsýslu og fjármáum sveitarfélaga.
Ný lög um opinber fjármál gera ráð fyrir miklu meiri samhæfingu og samstillingu en áður og eftir því sem hlutur sveitarfélaganna í opinberum búskap stækkar vex þörfin fyrir samráð á þessu sviði.
Upplýsingalögum gera einnig ríkar kröfur um aðgengi almennings að gögnum og upplýsingum.
Þá eru verið að innleiða nýja löggjöf á sviði persónuverndar sem leggur miklar og að einhverju leyti nýjar skyldur á opinbera aðila. Sveitarfélögin fara ekki varhluta af þeim breytingum og eru að gera viðeigandi ráðstafanir til að mæta þeim skyldum.
Í þriðja lagi eru allskonar áskoranir tengdar breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Meðallíftími lengist og við erum virkari lengur en áður í félagslífi og samfélaginu öllu.
Erlendir ríkisborgarar og innflytjendur eru nú hærra hlutfall þjóðarinnar en áður.
Þá hefur þéttbýlismyndun gengið hratt fyrir sig, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, við sjáum einnig byggðalögin allt þar í kring vaxa með miklum hraða.
Nýrri byggðaáætlun er hins vegar er ætlað að jafna tækifæri allra landsmanna óháð búsetu.
Í fjórða lagi stöndum við frammi fyrir miklum umbyltingum í tækni.
Rafræn stjórnsýsla riður sér til rúms og fjórða iðnbyltingin er hafin og fer á ógnarhraða þar sem gervigreind, sjálfkeyrandi bílar, drónar eru meðal orðin hluti af daglegu lífi
Þetta allt er að gerast NÚNA.
Í nýrri samgönguáætlun er t.d. verið að leitast við að ná utan um þau tækifæri sem nútíma tækni býður upp á í dag og næstu árin.
Að lokum vil ég nefna umhverfis- og loftlagsmál, þar eru risaverkefni framundan. Sveitarfélögin eru og verða lykilaðilar í að vinna að sjálfbærum lausnum á öllum sviðum.
Ríkisstjórn Íslands samþykkti nýlega tillögur verkefnastjórnar um forgangsröðun á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þið ætlið á þessu landsþingi að ákveða aðkomu sveitarfélaganna að verkefninu, en virk þátttaka ykkar er gríðarlega mikilvæg.
Þannig að áskoranirnar eru margar og stórar.
Stærð og geta sveitarfélaganna
Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að mörg sveitarfélaganna eru fámenn. Og sú spurning gerist áleitnari hvort þau séu nægjanlega vel í stakk búin til að takast á við þessarar áskoranir.
Meira en helmingur sveitarfélaga er með færri en eittþúsund íbúa, það er að segja 39, og 25 sveitarfélög hafa færri en 500 íbúa – ríflega þriðjungur!
Verkefnisstjórn um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga, sem skilaði áliti sínu og tillögum á síðasta ári – sem verður rædd hér á landsþinginu – komst að þeirri niðurstöðu að sveitarfélögin væru of fámenn. Það viðhorf hafi einnig komið fram í samtölum verkefnisstjórnar við sveitarstjórnarfólk um land allt.
Mikill tími og fjármunir fara í rekstur sveitarfélaga og of lítið er aflögu til stefnumótunar og til að móta framtíðarsýn fyrir sveitarfélögin. Það var mat verkefnisstjórnar að núverandi sveitarstjórnarskipan sé að hluta til haldið við með samstarfi á milli sveitarfélaga, með samningum um samvinnu, byggðasamlögum eða á vettvangi landshlutasamtaka. Núverandi uppbygging Jöfnunarsjóðs komi þar einnig við sögu.
Ég get tekið undir þetta.
Ráðuneytið hefur skoðað þessi mál sérstaklega og kallað eftir öllum samningum sem hvert og eitt sveitarfélag gerir við önnur sveitarfélög um samrekstur verkefna. Markmiðið er að afla heildstæðra upplýsinga um þá samstarfssamninga sem starfað er eftir og leggja mat á hversu vel þeir samræmast kröfum sem gerðar eru til slíkra samninga.
Þessi athugun leiðir einnig í ljós ákveðið munstur þegar hver landshluti er tekin fyrir með hliðsjón af því hvaða sveitarfélög innan landshlutans vinnan saman.
Tökum Suðurland sem dæmi – mitt góða svæði sem ég þekki vel. Þar vinna sveitarfélögin mikið saman í formi byggðasamlaga er. Samstarfið fylgir oft á tíðum hinum gömlu sýslumörkum, þ.e. Árnessýsla, Rangárvallasýsla og Vestur-Skaftafellssýsla, en Sveitarfélagið Hornafjörður og Vestmannaeyjar skera sig þó úr hvað þetta varðar. Svo fer auðvitað einnig fram samstarf einstakra sveitarfélaga innan sýslumarkanna og á milli þeirra.
Þetta samstarf gengur allt ljómandi vel – segja menn – en er það alltaf svo?
Stóra spurningin er – Viljum við hafa þetta svona?
Verkefnisstjórn um stöðu og framtíð sveitarfélaga komst amk. að þeirri niðurstöðu að fjöldi samninga um samvinnu og fjöldi byggðasamlaga undirstriki nauðsyn þess að fækka og stækka sveitarfélög, m.a. til þess að auka gagnsæi og tryggja lýðræðislegt umboð kjörinna fulltrúa gagnvart íbúum.
En hvað viljum við, kæra sveitarstjórnarfólk, gera? Hvernig sjáum við þetta fyrir okkur eftir 10 eða 15 ár.
Frekari umbætur – efling sveitarstjórnarstigsins
Við getum byrjað á því að velta fyrir okkur valkostum og taka umræðuna þaðan.
Fyrsti valkostur væri t.d. að gera ekki neitt – láta þetta bara gerast af sjálfu sér.
Það má alveg segja að árangur hafi náðst hvað fjölda sveitarfélaga varðar – þau voru um 200 árið 1990 en eru núna 72. En hættan er sú að sveitarfélögin þróist með ólíkum hætti, stefnulítið og geta þeirra til að sinna verkefnum og skyldum verði afar ólík.
Annar valkostur væri sá að halda áfram þessum reglulegu átaksverkefnum – þar sem stjórnvöld bjóða fram einhverja fjármuni og setja skilyrði um að tillögur verði settar fram í sveitarfélögum og um þær kosið.
Það var gert árið 1994 og aftur 2005 – en enginn sérstakur árangur held ég megi segja, kannski einhver óbein áhrif.
Verkefnisstjórnin benti á að komin ákveðin þreyta í slík átaksverkefni, þau skapi alltaf einhverja úlfúð í héraði og þá sé betra að fá ákvörðunina að ofan.
Þriðji valkosturinn væri að setja lög sem ákveða sveitarfélagaskipanina. Það væri t.d. hægt að setja ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga í sveitarstjórnarlög, t.d. eittþúsund líkt og frumvarp sem Kristján Möller þáverandi sveitarstjórnarráðherra kynnti í ríkisstjórn árið 2009.
Eistland fór t.d. þessa leið, það voru sett lög og sveitarfélögin höfðu eitt og hálft ár til að ná markmiðum um lágmarkíbúafjölda. Ég kynnti mér nýlega þeirra mál og hitti m.a. formann sambands sveitarfélaga þar – hann fullyrti að þegar allt væri um garð gengið hefði þetta bara verið hið besta mál.
Fjórði valkosturinn gæti verið sá að bú til þriðja stjórnsýslustigið – líkt og Finnar eru að gera um þessar mundir.
Þar hafa menn ákveðið að hverfa frá þeirri stefnum að sameina sveitarfélögin með frjálsum kosningum en færa þess í stað meginþorra verkefna þeirra til hinna nýju landshlutabundnu stjórnsýslueininga.
Sveitarfélögin missa um 60% tekjum sínum – en fá að vera í friði með þau verkefni sem skilin eru eftir.
Ég held þó að fæstir hér inni séu spenntir fyrir þessum valkosti.
Fimmti valkosturinn væri sá að fara blandaða leið, og þá væri ég að horfa á annan og þriðja valkost.
Byrja á átaki þar sem sveitarfélög hafa tiltekin tíma, segjum fjögur til átta ár til að ná tilteknum markmiðum í frjálsum sameiningum.
Samhliða yrði veittur rausnarlegur stuðningur úr Jöfnunarsjóði við sameiningar og til  endurskipulagningu á stjórnsýslu og skuldalækkunar. Ég gæti séð það fyrir mér að allt að 15 milljarðar færu í slíkan stuðning á tímabilinu – að Jöfnunarsjóður legði verkefninu til milljarð á ári í 15 ár.
Ef til vill næðist einnig samstaða um einhverja með fjármögnun ríkisins.
Eftir að þessu fjögurra til átta ára tímabili lyki tæki hins vegar gildi nýtt ákvæði sveitarstjórnarlaga um lágmarksíbúafjölda. Þau sveitarfélög sem ekki hefðu nýtt tímann til að ná settu markmiði þyrftu þar með að sameinast nágrannasveitarfélagi til að uppfylla skilyrði laganna um íbúafjölda.
Ekki kæmi til íbúakosninga um sameiningar frá þeim tíma – heldur yrði um skyldubundna sameiningu að ræða – líkt og verkefnisstjórnin lagði til.
Ég verð að segja að þetta er sú leið sem mér hugnast best – en ég hlakka til að heyra ykkar sjónarmið.
Tekjustofnar og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga
Samhliða þessum breytingum þyrftum við einnig að huga að ýmsum útbótum á tekjustofnakerfinu.
Málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa verið til umræðu í langan tíma án þess að heildaruppstokkun á kerfinu hafi farið fram. Menn hafa bent á að núverandi skipulag sjóðsins hamli sameiningum og dragi þannig úr hvata til umbóta. Bent er á að sjóðurinn ívilni litlum sveitarfélögum á kostnað stærri, og að sveitarfélög sem nýta ekki útsvarsheimildir að fullu fái það bætt úr Jöfnunarsjóði.
Ég hef kynnt mér tillögur um breytingar á þessu kerfi. Þær ganga út á að byrja með einfalda aðlögun á gildandi regluverki og í framhaldinu, t.d. þegar liggur nánar fyrir um sameiningarmál sé hægt að taka stærra skref.
Þessi leið hugnast mér ágætlega en vil gjarnan hlusta á ykkar sjónarmið.
Þessi vinna heldur því áfram, en ég vil undirstrika að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegnir mikilvægu hlutverki við það að jafna aðstöðu sveitarfélaga og tryggja að þau geti sinnt sínum lögbundnu verkefnum óháð stærð og staðsetningu.
Byggðaleg þýðing sjóðsins er einnig mikil og ég sem ráðherra byggðamála hlýt að minna okkur á að allar breytingar sem verðar gerðar þurfa að hafa slík sjónarmið að leiðarljósi.
Hvað aðra tekjustofna varðar þá er það vilji ríkisstjórnarinnar að færa gistináttagjaldið til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu. Gjaldið skilar nú um 1,4 milljarði í ríkissjóð og það væri þá sú fjárhæð sem við erum að tala um að óbreyttum lögum.
Það er síðan sérstök umræða hvernig fjármagninu verður skipt á milli sveitarfélaga. Þar eru ýmsar leiðir færar, t.d. að horfa til þess hvar tekjurnar verða til. Það er þó ekki bara þar sem sveitarfélög verða fyrir útgjöldum vegna mikils fjölda ferðamanna, ferðamenn fara víða um og uppbygging innviða og þjónustu er í gangi um allt land. Því dugar sú leið ekki ein og sér – við þurfum að mínu mati að horfa á blandaða leið þar.
Að endingu nefna það réttlætismál að jafna þarf betur tekjur sem sveitarfélög hafa af mannvirkjum sem nýtt eru til orkuframleiðslu og dreifingar. Á þessu sviði eru margvísleg mannvirki ekki metin fasteignamati eða undanþegin álagningum meðan lagðir eru fasteignaskattar á önnur. Þau sveitarfélög sem eru svo lánsöm að stöðvarhúsið lendir á þeirra svæði fá góðar tekjur en hin ekkert.
Þetta þekkið þið vel og ég held að við getum öll verið sammála um að það er réttlætismál að gera breytingar á lögum um skráningu og mat fasteigna hvað þetta varðar. Þjóðskrá Íslands hefur unnið fyrir ráðuneytið nokkrar sviðsmyndir sem sýna hvernig hægt væri að ná slíkum markmiðum. Það væri síðan samningsatriði hve tekjuauki sveitarfélaga gæti orðið við slíka breytingu.
Ég hef ákveðið að skipa starfshóp með fulltrúum ykkar og fleiri aðilum til að vinna áfram með þær hugmyndir sem liggja á borðinu og móta tillögur í þessa veru.
Stefnumótun í sveitarstjórnarmálum – Lokaorð
Ágætu landsþingsfulltrúar.
Verkefnishópurinn um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga lagði til að stjórnvöld marki skýra langtímastefnu fyrir sveitarfélög til allt að 20 ára þar sem allt er undir, byggðamál, samgöngumál og fjármál sveitarfélaga. Kallað var eftir nýrri nálgun; horft verði til sveitarfélaga út frá þeirri þjónustu sem þau eru að veita og sem þeim er ætlað að veita, hún kortlögð og útfærð meðal annars með tilliti til landfræðilegra og lýðfræðilegra þátta.
Ég er hjartanlega sammála þessari áherslu og hef þegar tekið fyrsta skrefið. Með nýjum lögum sem Alþingi samþykkti í júní síðastliðinn verða áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála samræmdar.
Við í samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytinu leyfum okkur að halda því fram að með þessum breytingum sé verið að marka nýja hugsun í opinberri stefnumótun.
Við setjum fram skýra framtíðarsýn fyrir okkar málaflokka.
Sveitarstjórnarstigið er þar ekki undanskilið því nú er lögbundið að taka saman í eina áætlun stefnumörkun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Ráðherra málaflokksins skal leggur að minnsta kosti á þriggja ára festi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði.
Það er því kærkomið, við upphaf þessar vinnu, að fá tækifæri til að hitta ykkur hér á Akureyri, heyra sjónarmið og áherslur ykkar um það sem gæti orðið efni og inntak stefnumörkunar til framtíðar fyrir sveitarstjórnarstigið.
Ég veit að sjónarmiðin verða ólík og áherslurnar mismunandi. En verkefnið er skýrt – við ætlum saman að móta eina stefnu fyrir íslensk sveitarfélög, fyrir framtíðin.
Ég er sammála mati verkefnisstjórnar um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga, að jarðvegur sé til breytinga á sveitarstjórnarstiginu sem nauðsynlegt er að gefa gaum og nýta.
„Framtíðin er hér“ er yfirskrift þessa landsþings – Ég segi: Framtíðin er núna.
Kæru landsþingsfulltrúar. Ég hlakka til samtalsins við ykkur og samstarfsins – mínar dyr í ráðuneytinu standa alltaf opnar fyrir ykkur.
Ég vil að endingu þakka Halldóri Halldórssyni kærlega fyrir hans góðu störfu í þágu Sambands íslenskra sveitarfélaga og óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi.
Gangi ykkur vel í störfum ykkar.

Categories
Fréttir

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á 149. löggjafarþingi

Deila grein

12/09/2018

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á 149. löggjafarþingi

Virðulegi forseti, góðir landsmenn.
Samfélagið er á fleygiferð. Þannig viljum við líka hafa það. Án breytinga verður stöðnun og engin framþróun. Tækni- og upplýsingabyltingin á eftir að breyta því hvernig við lifum, högum störfum okkar og menntun. Störfin munu breytast og færast til, óháð landamærum. Miklu skiptir að samfélagið sé undir það búið að taka á móti tækifærum framtíðarinnar, en þar vega þættir eins og menntun og nýsköpun þungt svo stöðugt megi auka verðmætasköpun og bæta lífskjör.
Markmiðið er skýrt hjá ríkisstjórninni. Að koma Íslandi í fremstu röð og efla samkeppnishæfni á sem flestum sviðum. Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytt atvinnulíf til að styrkja gjaldeyrisöflun, draga úr sveiflum og tryggja fyrirsjáanleika í afkomu heimila og fyrirtækja. Framsækin ferðaþjónusta, traustur sjávarútvegur og íslenskt hugvit eru þar mikilvægir drifkraftar tækifæra í komandi framtíð.
Fordæmalaus vöxtur hefur verið í flugsamgöngum en framlag þessara atvinnugreinar til vergrar landsframleiðslu skipta orðið miklu sem lifibrauð og eru margfeldisáhrifin umtalsverð. Nú er farin af stað vinna við að móta fyrstu flugstefnu á Íslandi sem mun taka á öllum þáttum er varða flugstarfsemi hér á landi.
Kæru landsmenn.
Þrátt fyrir góðæri og mikinn uppgang þá eru ákveðnir hópar í samfélaginu sem ekki njóta ávaxta þess til fulls. Við eigum ekki að sætta okkur við það. Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri fyrir alla þannig að allir njóti aukins kaupmáttar og verðmætasköpunar.
Í nýútkominni skýrslu varar Gylfi Zoëga við því að mikið launaskrið geti gert ferðaþjónustuna ósamkeppnishæfa þegar til lengri tíma er litið sem leiði til verri lífskjara. Orðrétt segir: „Verði það að veruleika mætti segja að Íslendingar hefðu farið eins illa að ráði sínu og þegar þeir ofnýttu fiskistofnana á liðnum áratugum. Í hagsögunni yrði ferðaþjónustan þá einungis enn eitt „síldarævintýrið“.
Jöfn tækifæri fyrir alla krefst samvinnu og heiðarlegs samtals þar sem sameiginlegar lausnir eru fundnar svo verðmætasköpunin skiptist jafnar sem stuðlar jafnframt að pólitískum stöðugleika sem kjósendur báðu um fyrir ári síðan.
Stefna í húsnæðismálum, kjararáð, launaþróun, atvinnuleysistryggingar, stefna í menntamálum, samspil launa, bóta, skatta og ráðstöfunartekna eru áherslur sem hafa verið á dagskrá ríkisstjórnarinnar, aðila vinnumarkaðsins og forsvarsmanna Sambands sveitarfélaga. sl. níu mánuði eða frá því að ríkisstjórnin var mynduð. Viðræðurnar hafa m.a. skilað því að Kjararáð var lagt niður, atvinnuleysisbætur og ábyrgðarsjóður launa hafa hækkað. Slíkir fundir eru mikilvægt veganesti til að hlusta eftir áherslum verkalýðshreyfingarinnar og í því samtali að huga sérstaklega að lægri tekjuhópum. Að því vinnur ríkisstjórnin.
Til marks um það er boðuð veruleg hækkun á barnabótum og hækkun á persónuafslætti í fjárlagafrumvarpi sem kemur lægri tekjuhópum vel.
Húsnæðismál eru eitt af stóru málunum. Fasteignaverð er hátt, allt of hátt fyrir suma, sem skýrist einna helst af of litlu framboði húsnæðis fyrir tekjuminni hópa. Afleiðingar þess smitast út til allra heimila í landinu í formi hærri húsnæðiskostnaðar vegna vísitölutengingar. Félagsmálaráðherra hefur talað skýrt um að bregðast verði við húsnæðisvandanum í samráði við sveitarfélög.
Þá er það áhyggjuefni að vaxtamunur í íslenskum bönkum sé fyrir utan eðlilegra marka, samanborið við Norðurlöndin.
Virðulegi forseti
Verkefnin eru mörg sem setið hafa á hakanum síðustu ár. Ríkisstjórnin er að styrkja mennta-, samgöngu-, velferðar- og heilbrigðismál. Samkeppnishæfni þjóðar byggir á því að þessir grunnþættir séu skilvirkir og standist alþjóðlegan samanburð.
Í fyrstu fjárlögum þessara ríkisstjórnar var verulega bætt í og í fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í gær má sjá að enn er sótt fram.
Góðar samgöngur eru forsenda blómlegs mannlífs í landinu en rík áhersla er á að auka viðhald á vegakerfinu enda hefur þörfin aldrei verið meiri en nú. Ljóst er að mikið verk er óunnið við að byggja upp samgöngukerfið og færa til ásættanlegs horf. Fjármagn hefur verið stóraukið en í ár fara 12 milljarðar til viðhalds og lagfæringa samanborið við 5,5 milljarða 2016. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum.
Samgönguáætlun sem verður lögð fram í næstu viku mun taka mið af fjármálaáætlun og verkefnunum forgangsraðað út frá umferðaröryggi og þróun undanfarinna ára.
Þá er verið að skoða útfærslur á því hvernig hægt er að stórauka þá upphæð sem rynni til nýrra framkvæmda vegakerfisins með sérstöku notendagjaldi af einstökum mannvirkjum svo þau verði að veruleika.
Góðir landsmenn
Aðgerðaráætlun loftslagsmála hefur verið kynnt til næstu 12 ára. Þar verða allir að láta til sín taka og leggja sitt af mörkum. Meðal aðgerða eru orkuskipti en á næstum árum mun rafbílum fjölga stórkostlega sem flýtir fyrir orkuskiptum og uppfyllir um leið metnaðarfull loftlagsmarkmið. Ánægjulegt er að loftlagsmarkmið og efnahagslegir hvatar fara saman. Ódýrara er að reka rafmagnsbíla, jafnframt er það jákvætt að skipta út aðfluttri orku fyrir hreina innlenda orku. Til þess þarf að tryggja aðgengi að orku fyrir rafknúin ökutæki um land allt.
Fyrir mér er brýnt að íbúar víðs vegar um landið hafi jöfn tækifæri en sumir hverjir hafa mátt þola mikla óvissu í sínum rekstri. Þannig eru mál sauðfjárbænda enn óleyst. Í þeirri vinnu sem nú stendur yfir verður að tryggja að horft sé til sveiflujöfnunarverkfæra til að jafna eftirspurn og framboð. Ávinningurinn er samfélagslegur og liggur í beinum og óbeinum störfum víðs vegar um landið.
Þá hefur þróun á eignarhaldi jarða breyst hratt allra síðustu ár sem hefur eðlilega valdið miklum áhyggjum. Í því sambandi er ekki óeðlilegt að horfa til Norðurlandana m.t.t að setja skilyrði fyrir kaupum á bújörðum.
Framþróun á næstu áratugum veltur á því hversu vel okkur tekst til við að auka á fjölbreytni í atvinnulífi. Samfélag okkar er framsækið, starfar á grunni samvinnu og stendur vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Það er mikilvægt fyrir okkur sem hér störfum að leggja okkur fram við að sjá og skynja heildarmyndina til að taka ákvörðun út frá hagsmunum þjóðarinnar, til skemmri og lengri tíma. Til að finna skynsamlegustu leiðina hefur reynslan kennt mér að það er mikilvægast að hlusta.
Góðar stundir.

Categories
Fréttir

SEF hefur vetrarstarfið

Deila grein

05/09/2018

SEF hefur vetrarstarfið

Samband eldri Framsóknarmanna (SEF) er að hefja vetrarstarf sitt á næstu dögum. Mikilvægt verður að virkja eldri félagsmenn í spennandi starf sem framundan er í góðu samstarfi við kjörna fulltrúa flokksins um land allt. Víðsvegar er úrbóta þörf og mikilvægt að ná utan um verkefni er þarfnast úrlausna sem fyrst.
Mikilvægi þess að losna við skerðingar á tekjum eldri borgara hefur verið ofarlega á baugi í umræðunni og aldursfordómar sem fólk mætir ekki síst á vinnumarkaði. Skoða þarf alvarlega að aldursviðmið fyrir töku á ellilífeyri verði ekki hækkað frá því sem nú er enda ljóst að fólk eftir fimmtugt á iðulega í erfiðleikum með að fá vinnu. Fólk á þessum aldri sem hefur menntun, reynslu, getu og vilja til að vinna fær það ekki vegna aldursfordóma. Eins hefur verið rætt um að með sama hætti og jafnað er kynjahlutföll þá gæti reynst mikilvægt að jafna aldursbil hjá ríkinu.
SEF hélt aðalfund sinn snemmsumars og var Drífa Sigfúsdóttir kjörin formaður sambandsins. Aðrir í stjórn eru:
Ólafur Hjálmarsson, Hafnarfirði
Kristinn Snævar Jónsson, Reykjavík
Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir, Garðabæ
Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir, Akureyri
Varastjórn:
Vilhjálmur Sörli Pétursson, Árborg
Þórey Anna Matthíasdóttir, Hafnarfirði
Jóngeir H. Hlinason, Vogum
Loks eru fulltrúar úr öllum kjördæmum í trúnaðarráði SEF.

Categories
Fréttir

Ingi Tryggvason látinn

Deila grein

28/08/2018

Ingi Tryggvason látinn

Ingi Tryggvason, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins er látinn. Ingi lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík 22. ágúst, 97 ára að aldri.
Ingi var alþingismaður Norðurlands eystra 1974–1978, en hafði verið varaþingmaður Norðurlands eystra mars 1972, janúar–febrúar og nóvember 1973 og maí 1974.
Ingi var fæddur á Litlu-Laugum í Reykjadal 14. febrúar 1921. Foreldrar hans voru Tryggvi Sigtryggsson bóndi á Laugabóli í Reykjadal og Unnur Sigurjónsdóttir. Eiginkona Inga var Anna Septíma Þorsteinsdóttir kennari og húsmóðir. Synir Inga og Önnu eru: Haukur Þór, Tryggvi, Þorsteinn Helgi, Steingrímur og Unnsteinn. Sambýliskona Inga síðustu árin var Unnur Kolbeinsdóttir.
Ingi tók kennarapróf KÍ 1942 og sótti kennaranámskeið í Askov á Jótlandi 1946. Hann nam í kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn 1946–1947 og í The Polytechnic School of Modern Languages í Lundúnum 1947–1948.
Kennari í Lundarreykjadal 1942–1943, við barnaskólann á Eskifirði 1943–1944, skólastjóri barnaskólans í Grenivík 1944–1945, kennari við Héraðsskólann á Laugum 1945–1946 og 1949–1970 og við Gagnfræðaskólann á Siglufirði 1948–1949. Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykdæla 1952–1974. Bóndi á Kárhóli í Reykjadal 1955–1986. Ferðaþjónustubóndi á Narfastöðum í Reykjadal frá 1988.
Ingi var í stjórn Sparisjóðs Reykdæla 1952–1982. Í hreppsnefnd Reykdælahrepps 1966–1974. Í stjórn Sambands íslenskra sparisjóða 1967–1981. Í stjórn Stéttarsambands bænda 1969–1987, formaður stjórnarinnar frá 1981. Skipaður 1971 í endurskoðunarnefnd laga um framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Í Sexmannanefnd — verðlagsnefnd landbúnaðarins 1972–1987. Í skólanefnd Héraðsskólans á Laugum 1974–1982, formaður 1974–1978. Í tryggingaráði 1974–1978. Í stjórn Landverndar 1975–1981. Í Framleiðsluráði landbúnaðarins 1976–1987, formaður þess frá 1980. Forstöðumaður ullar- og skinnaverkefnis Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins 1978–1980. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1978. Stjórnarformaður Grænmetisverslunar landbúnaðarins 1980–1987. Í stjórn Norrænu bændasamtakanna 1981–1987. Í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins 1982–1990 og í stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins 1982–1988.
Við Framsóknarmenn minnumst alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti og vottum aðstandendum innilega samúð.

Categories
Fréttir

Sumarlokun flokksskrifstofu

Deila grein

14/07/2018

Sumarlokun flokksskrifstofu

Skrifstofa Framsóknar verður lokuð vegna sumarleyfa starfsmanna frá og með 16. júlí til og með 8. ágúst.
Opnum aftur fimmtudaginn 9. ágúst.
Hægt er að senda erindi og fyrirspurnir á netfangið, framsokn@framsokn.is.
Framsóknarflokkurinn

Categories
Fréttir

Þinglok

Deila grein

13/06/2018

Þinglok

Eitt að okkar kosningaloforðum fyrir Alþingiskosningarnar sl. haust var að húsnæðisliðurinn yrði tekinn út úr vísitölunni. Jafnframt að samstarf yrði aukið á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um hvernig hægt er að stuðla að lækkun vaxta til að mynda við kjarasamningsgerð.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnnar segir að fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella. Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvístölunnar.
Þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram þingsályktunartillögu í lok janúar um upptöku samræmdar vísitölu neysluverðs. Einkar ánægjulegt var að sjá að allur þingheimur samþykkti tillöguna okkar. Flutningsmenn voru Willum Þór Þórsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.
Þá kom í síðustu viku út skýrsla peningastefnunefndar þar sem lagt er til að fjarlægja húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs því hann hafi alvarleg áhrif á húsnæðismarkaðinn. Gott er að finna faglegan rökstuðning sérfræðinga með þeirri tillögu.
Verðbólga hér á landi hefur verið há. Verðbólgumæling, þar sem stuðst er við vísitölu neysluverðs, sýnir jafnan hærri verðbólgu en ef stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs.
Framsóknarflokkurinn hefur barist fyrir þessu máli í mörg ár og því er ánægjulegt að sjá að  hagfræðingar og verkalýðshreyfingin séu komin á vagninn með okkur. Við höfðum undirbúið þetta mál, talað um fyrir því, unnið að því og þess vegna fengum við þingsályktunartillöguna afgreidda í 8.maí sl. Enginn greiddi atkvæði á móti.
Við erum að vinna samkvæmt stefnu Framsóknar, við erum að vinna samkvæmt stjórnarsáttmálanum og við erum að vinna samkvæmt þeirri þingályktun sem við lögðum fram með Willum Þór Þórsson í broddi fylkingar og þingheimur samþykkti.
Af öðrum málum sem bar hæst á Alþingi má nefna að ein metnaðarfyllsta Byggðaáætlun fyrir næstu árin var samþykkt, sem felur í sér raunhæfar aðgerðir til styrkingar byggða. Byggðaáætlunin hafði verið í undirbúningi sl. tvö ár þar sem stefna og kosningaloforð Framsóknarflokksins komu skýrt fram.
Í stjórnarsáttmálanum má sjá fjöldamörg mál sem endurspegla markmið, stefnu og gildi Framsóknarflokksins. Á næsta þingvetri munum við sjá mikilvæg mál koma fram sem unnið er af fullum krafti. Uppbyggingin grunnstoða samfélagsins er hafin eins og við lofuðum fyrir kosningar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Categories
Fréttir

Ungir framsóknarmenn halda upp á 80 ára afmæli

Deila grein

12/06/2018

Ungir framsóknarmenn halda upp á 80 ára afmæli

Samband ungra Framsóknarmanna (SUF) fagnar 80 ára starfsafmæli þann 13. júní n.k. en í tilefni afmælisins var blásið til  hátíðar í Menntaskólanum að Laugarvatni um nýliðna helgi. Fjölmenni sótti viðburðinn enda ekki á hverjum degi sem að ungliðahreyfing nær jafn háum starfsaldri. Meðal gesta voru þingmenn, ráðherrar, fyrrum formenn SUF og fulltrúar Nordiska Centerungdomens Förbund, regnhlífahreyfingar ungra miðjumanna á Norðurlöndum.
SUF var stofnað þann 13. júní 1938 í Héraðskólanum á Laugarvatni, þar var kjörin fyrsta stjórn sambandsins skipuð fulltrúum úr öllum kjördæmum landsins. Í gegnum árin hefur sambandið komið víða við og margir fyrrum formenn þess síðar orðið þingmenn, ráðherrar eða gegnt öðrum ábyrgðarstöðum í samfélaginu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokkinn var meðal þeirra sem ávarpaði samkomuna á Laugarvatni og þá tók einnig til máls Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra. Bæði þökkuðu SUF ómældan stuðning í síðustu kosningabaráttum og vinnusemina sem býr í unga fólki flokksins. Emma Tcheng, ritari NCF bar þá góðar kveðjur frá norrænum systursamtökum og Helena Ólafsdóttir, þjálfari kvennaliðs ÍA talaði um liðsheildina og mikilvægi þess að setja sér markmið til að ná árangri.
„Það skiptir verulegu máli að hlúa að ungliðastarfi innan stjórnmálaflokka. Þetta er frábær vettvangur til þess að taka þátt félagsstörfum og auka lýðræðisvitund sína. Helgin var vel heppnuð í alla staði, góð mæting og ég er bjartsýn fyrir komandi árum í starfi sambandsins“, sagði Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður SUF.
Auk hátíðardagskrár í Menntaskólanum að Laugarvatni var svokölluð Steingrímsþúfa heimsótt þar sem að SUF tók flag í fóstur fyrir 30 árum síðan en þar stendur nú blómlegur lundur. Gróðursett var tré til merkis um áframhaldandi vöxt í starfi sambandsins og ávarpaði Gissur Pétursson, fyrrum formaður SUF, viðstadda og reifaði sögu þúfunnar.
 

 
Mynd 1: Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður SUF
Mynd 2: Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra
Mynd 3: Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra
Mynd 4: Helena Ólafsdóttir, þjálfari kvennaliðs ÍA og markþjálfi
Mynd 5: Fyrrum formenn SUF, frá vinstri: Sandra Rán Ásgrímsdóttir, Páll Marís Pálsson, Hafþór Eide Hafþórsson, Einar Kristján Jónsson, Gissur Pétursson, Guðjón Ólafur Jónsson og Siv Friðleifsdóttir

Categories
Fréttir

Eldhúsdagur – almennar stjórnmálaumræður á Alþingi

Deila grein

06/06/2018

Eldhúsdagur – almennar stjórnmálaumræður á Alþingi

Umræðurnar skiptust í þrjár umferðir og hafði hver þingflokkur átta mínútur í fyrstu umferð, fimm mínútur í annarri og fimm mínútur síðustu umferð.
Ræðumenn Framsóknarflokksins voru Willum Þór Þórsson, 9. þm. Suðvesturkjördæmis í fyrstu umferð, Þórunn Egilsdóttir, 4. þm. Norðausturkjördæmis, í annarri og í þriðju Ásgerður K. Gylfadóttir, 7. þm. Suðurkjördæmis.
Willum Þór Þórsson, 9. þm. Suðvesturkjördæmis

Þórunn Egilsdóttir, 4. þm. Norðausturkjördæmis

Ásgerður K. Gylfadóttir, 7. þm. Suðurkjördæmis

Categories
Fréttir

Um Vatnajökulsþjóðgarð

Deila grein

31/05/2018

Um Vatnajökulsþjóðgarð

Virðulegur forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni málefni Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann er einn af mikilvægustu seglum ferðaþjónustunnar á Íslandi og sækir stór hluti þeirra ferðamanna sem koma til landsins þjóðgarðinn heim. Stjórnunar- og verndaráætlun garðsins hafa verið í endurskoðun og atvinnustefna í mótun frá árinu 2013. Ný drög stjórnunar- og verndaráætlunar ná hins vegar ekki til Breiðamerkursands sem tekinn var inn í þjóðgarðinn með jörðinni Felli árið 2017. Því er engin áætlun í gangi á því svæði og enn síður atvinnustefna, sem þó er ekki vanþörf á.

Ég vil því benda á að atvinnustarfsemi og verndun svæðisins sem flestir gestir heimsækja er í ólestri og er nauðsynlegt að ríkið bregðist við með afgerandi hætti með því að vinna að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand og móta atvinnustefnu hið fyrsta með meginmarkmið Vatnajökulsþjóðgarðs að leiðarljósi.
Þriðja meginmarkmiðið hljóðar svona, með leyfi forseta:
„Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leitast við, með stefnu sinni, ákvörðunum og í framkvæmd, að ýta undir að gæði og sérstaða þjóðgarðsins séu nýtt til frekari eflingar atvinnu og búsetu á svæðinu, til nýsköpunar í atvinnulífi, til listsköpunar og miðlunar á menningu svæðisins.“
En það er mikilvægt að undirstrika að væntingar til garðsins hafa verið og eru enn þá miklar. Fjölmargar fjölskyldur hafa á undanförnum árum lagt út í miklar fjárfestingar við að byggja upp fyrirtæki í afþreyingu fyrir ferðamenn, auk þeirra sem byggt hafa upp gisti- og veitingaþjónustu. Þessi litlu og viðkvæmu fyrirtæki gera út á jöklagöngur við Breiðamerkursand yfir veturinn þar sem stórbrotnir íshellar myndast. Nú skiptir máli að standa við þau orð að atvinnulíf geti þrifist á grunni náttúruverndar og efla þannig byggð á nærsvæðinu. Ef það mistekst í Vatnajökulsþjóðgarði má spá því að erfiðara verði fyrir ríkisvaldið að eiga í samstarfi við sveitarfélög um verndun annarra svæða.
Ásgerður Gylfadóttir, í störfum þingsins 29. maí 2018.

Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Reykjavík

Deila grein

09/05/2018

Framboðslisti Framsóknar í Reykjavík

Framboðslisti Framsóknarflokksins í Reykjavík hefur verið lagður fram. Fyrsta sætið skipar Ingvar Mar Jónsson, flugstjóri. Annað sætið skipar Snædís Karlsdóttir, lögfræðingar, og það þriðja Ásthildur Lóa Þórisdóttir, kennari.
„Framsóknarflokkurinn í Reykjavík ætlar að forgangsraða í þágu menntunar og gera kennarastarfið eftirsótt á ný. Hann vill raunhæfar lausnir í samgöngumálum sem borgarbúar finna strax fyrir. Að bifreiðum verður greidd leið um núverandi gatnakerfi með því að gera aðra valkosti fýsilega fyrir þá sem geta nýtt sér fjölbreyttan ferðamáta“, segir Ingvar Mar Jónsson, oddviti framboðs Framsóknar í Reykjavík.
Framboðslisti Framsóknar í Reykjavík:

  1. Ingvar Mar Jónsson, flugstjóri
  2. Snædís Karlsdóttir, lögfræðingur
  3. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, kennari
  4. Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, grunnskólakennari
  5. Sandra Óskarsdóttir, kennaranemi
  6. Bergþór Smári Pálmason Sighvats, nemi
  7. Jón Ingi Gíslason, grunnskólakennari
  8. Guðmundur Hlynur Gylfason, framkvæmdastjóri
  9. Sverrir Steinn Stefánsson, verkfræðinemi
  10. Birna Kristín Svavarsdóttir, hjúkrunarfræðingur
  11. Alex Björn Bulow Stefánsson, háskólanemi
  12. Finnlaugur Pétur Helgason, bílstjóri
  13. Aðalsteinn Haukur Sverrisson, framkvæmdastjóri
  14. Matthildur Birgisdóttir, grunnskólakennari
  15. Höskuldur Örn Arnarson, sjávarútvegsfræðingur
  16. Guðmundur Kristinn Kristinsson, bílstjóri
  17. Guðrún Þóra Bjarnadóttir, grunnskólakennari
  18. Björn Ívar Björnsson, háskólanemi
  19. Guðrún Loly Jónsdóttir, leiðbeinandi í leikskóla
  20. Helga Rún Viktorsdóttir, heimspekingur
  21. Agnes Veronika Hauksdóttir, leikskólakennari
  22. Baldur Bjarnason, flugstjóri
  23. Þórður Viggó Guðjohnsen, viðskiptafræðingur
  24. Ásgeir Harðarson, sölumaður
  25. Aðalheiður Lilja Hlynsdóttir, grunnskólakennari
  26. Heiðrún Hafný Hafsteinsdóttir, sérfræðingur
  27. Hildur Júlíusdóttir, lífeindafræðingur
  28. Þór Símon Ragnarsson, fyrrverandi útibússtjóri
  29. Indiana Óskarsdóttir, stuðningsfulltrúi
  30. Sara Heiðrún Fawcett, kennaranemi
  31. Jóhanna Olga Hreiðarsdóttir, mannauðs- og gæðastjóri
  32. Tanja Rún Kristmannsdóttir, hjúkrunarnemi
  33. Bragi Ingólfsson, eftirlaunaþegi
  34. Sigríður Nanna Jónsdóttir, flugfreyja
  35. Nína B. Ottósdóttir, flugfreyja
  36. Pétur Þormar, næturvörður
  37. Stefán Þór Björnsson, viðskiptafræðingur
  38. Fannar Sigurðsson, borari
  39. Jón Finnbogason, vörustjóri
  40. Gerður Hauksdóttir, þjónustufulltrúi
  41. Kjartan Þór Ragnarsson, framhaldsskólakennari
  42. Anna Rakel Aðalsteinsdóttir, grunnskólakennari
  43. Jón Karl Snorrason, fyrrverandi flugstjóri
  44. Griselia Gíslason, skólaliði
  45. Alfreð Þór Þorsteinsson, fyrrverandi borgarfulltrúi
  46. Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur