Categories
Fréttir

Heilbrigðisáætlun taki tillit til þátta eins og samgangna og fjarlægðar milli milli byggðarlaga

Deila grein

02/02/2017

Heilbrigðisáætlun taki tillit til þátta eins og samgangna og fjarlægðar milli milli byggðarlaga

elsa_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Í gær flutti ég forgangsþingmál okkar Framsóknarmanna en það var þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun. Góðar umræður voru um málið og langar mig að nota þetta tækifæri hér og nú til að þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt. Tillagan er nú komin til hv. velferðarnefndar og vona ég sem 1. flutningsmaður málsins að allir þingmenn leggist á eitt við að koma málinu áfram. Ég bind einnig miklar vonir við að hæstv. heilbrigðisráðherra muni vinna þessa heildstæðu tillögu áfram í vinnu sinni við stefnumótun í heilbrigðismálum, það fari ekki fyrir þessari áætlun eins og of mörgum að þær dagi uppi eftir samþykktir hv. þingmanna.
Markmið tillögunnar er að hæstv. heilbrigðisráðherra vinni heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlunina skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum því að það er það sem þekkir til aðstæðna, sóknarfæra og þess sem betur má fara í kerfinu. Mikilvægt er að fagfólk komi víða að af landinu því að aðstæður geta verið mismunandi í okkar annars ágæta heilbrigðiskerfi eftir því hvort um er að ræða heilsugæslu á landsbyggðinni eða t.d. Landspítalann. Við gerð heilbrigðisáætlunar skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægðar milli byggðarlaga. Það er nauðsynlegt því að sameinaðar heilbrigðisstofnanir eru víða um landið, þær sinna sumar heilu landsfjórðungunum og oft er um erfiðan veg að fara milli starfsstöðva stofnana.
Við gerð heilbrigðisáætlunar skal einnig taka tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða svo eitthvað sé nefnt. Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri sé í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þannig álaginu á Landspítalanum.
Ég hvet hv. þingmenn til að hjálpa okkur Framsóknarmönnum með þetta mikilvæga mál. Við þurfum að svara: Hver er framtíðarsýn stjórnmálamanna og fagfólks í greininni? Hvert ætlum við að stefna? Viljum við efla heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eða ætlum við okkur að leysa vandann með einkavæðingu eða auknum einkarekstri? Þetta eru stórar spurningar en taka þarf ákvörðun og kominn er tími til.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 1. febrúar 2017. 

Categories
Fréttir

Minna fúsk meiri fagmennsku

Deila grein

02/02/2017

Minna fúsk meiri fagmennsku

silja_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Við stöndum á tímamótum, ekki bara hér á litla Íslandi heldur heimurinn allur. Við tölum um ný stjórnmál, inn með samtalið og út með það sem sumir vilja kalla „gamaldags karlapólitík“, minna fúsk og meiri fagmennsku og allt það.
Hæstv. forseti. Ég get vel tekið undir sumar þessar fullyrðingar og ég er ótrúlega upp með mér og ánægð yfir því trausti sem mér er sýnt með því að fá að starfa að framtíðarþróun lands okkar, fá að leggja mitt af mörkum til að gera gott land enn betra. Þess vegna veldur það mér meiri háttar vonbrigðum að þeir flokkar sem nú sitja saman í ríkisstjórn og kenna sig við frjálslyndi, samræðustjórnmál og fleiri fína frasa hagi sér ekki í samræmi við það sem þeir segjast vilja vera og gera. Hvað á það að þýða að þingmenn Sjálfstæðisflokksins sitji sem formenn í sex af átta fastanefndum Alþingis, fulltrúi Bjartrar framtíðar í einni og fulltrúi Viðreisnar í annarri? Hvað á það að þýða að stjórnmálaflokkar sem sitja í mjög veiku lýðræðislegu umboði með aðeins eins manns meiri hluta einoki formannssæti í öllum nefndum þingsins?
Slíkt á ekkert skylt við samráð og samtal. Ég vona að menn sjái sóma sinn í því að bæta úr þessu. Ef menn vilja í alvörunni aukna samvinnu skulu þeir sýna það í verki með því að láta formannssæti eftir til minni hlutans á þinginu. Eða eru þingmenn stjórnarflokkanna kannski bara sáttir við þetta fyrirkomulag?
Forseti. Hv. þingmenn. Veikur meiri hluti verður enn veikari með þessu áframhaldi. Þetta er ekki góð byrjun hjá nýrri ríkisstjórn. Ég spái því að hún verði ekki langlíf með þessu áframhaldi.”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 1. febrúar 2017.

Categories
Fréttir

Ráðherra virðist ætla að styrkja stöðu verslunarinnar

Deila grein

02/02/2017

Ráðherra virðist ætla að styrkja stöðu verslunarinnar

flickr-Þórunn Egilsdóttir,,Hæstv. forseti. Íslenskur landbúnaður hefur verið stoð íslensks samfélags í gegnum tíðina, verið grunnur byggða um allt land og er í raun hryggjarstykkið í flestum byggðum landsins. Á síðasta kjörtímabili var farið í mikla vinnu við endurskoðun búvörusamninga, vinnu sem vissulega var tímabær því að við erum að fara inn í tíma sem krefjast róttækra breytinga á landbúnaði á Íslandi.
Samkvæmt tillögu atvinnuveganefndar var settur á fót samráðshópur sem fékk skýra starfslýsingu og átti m.a. að skoða markmið samninganna, loftslags- og umhverfismál, upplýsingagjöf til neytenda, upprunamerkingar og síðast en ekki síst samkeppnismál og starfsumhverfi.
Þessi hópur var hluti af sáttaferli sem menn litu á sem leið til heildrænnar og málefnalegrar nálgunar. Nú berast þær fréttir að hæstv. landbúnaðarráðherra sé byrjaður að taka til. Auðvitað þurfa menn að koma sér fyrir á nýjum stöðum og setja mark sitt á ný embætti en mér er hulin ráðgáta hvers vegna ráðherra kýs að skipta út þremur af fimm ráðherraskipuðum fulltrúum. Hvergi hef ég séð skýringu á því. Hvers vegna ekki bara öllum? Leyndust kannski í hópnum einstaklingar of hliðhollir bændum? Spyr sú sem ekki veit.
Nú boðar hæstv. ráðherra frumvarp um breytingar á búvörulögum strax á vormánuðum. Þar á að endurskoða úthlutun tollkvóta og undanþágur frá ákvæðum samkeppnislaga. Getur verið að þetta renni í gegnum alla þingflokka stjórnarinnar?
Þá velti ég fyrir mér hvert hlutverk fulltrúa atvinnurekenda er í hópnum. Hver er aðkoma heildsala að samningum bænda og ríkisins?
Hæstv. forseti. Fljótt á litið virðist ráðherra vera að styrkja stöðu verslunarinnar sem á enga aðkomu að samningunum. Samningurinn er við bændur og þeim ber samkvæmt honum að framleiða matvöru að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Fulltrúar bænda leggja áherslu á mikilvægi þess að sátt náist um íslenskan landbúnað. Það er okkur öllum mikilvægt. Útspil ráðherra virðist ekki vera lóð á þá vogarskál.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 1. febrúar 2017. 

Categories
Fréttir

Heilbrigðisáætlun fyrir Ísland

Deila grein

01/02/2017

Heilbrigðisáætlun fyrir Ísland

elsa_vef_500x500Elsa Lára Arnardóttir alþingismaður Framsóknar mælti fyrir tillögu um heilbrigðisáætlun fyrir Ísland á Alþingi í gær.
Tillagan hefur það að markmiði að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Lagt er til að áætlunin verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt verði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt.
Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Heilbrigðisáætlun verði lögð fyrir Alþingi í desember 2017.
Í umræðunni í þingsal kom fram þverpólitísk samstaða um áætlunina og var málinu vísað til velferðarnefndar að umræðu lokinni.
Elsa Lára Arnardóttir mælir fyrir heilbrigðisáætlun á þingfundi 31. janúar 2017. 

Categories
Fréttir

Forgangsmál að afgreiða heilbrigðisáætlun

Deila grein

27/01/2017

Forgangsmál að afgreiða heilbrigðisáætlun

elsa_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða annað af forgangsmálum okkar Framsóknarmanna á þessum þingvetri en það er heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.
Markmið tillögunnar er að fela hæstv. heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun og hún verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Þar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt verði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt.
Við gerð áætlunar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri sé í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Heilbrigðisáætlunin skuli vera lögð fyrir Alþingi í desember 2017.
Í síðustu kosningabaráttu töluðu allir eða flestallir flokkar um að heilbrigðismálin ættu að vera efst á forgangslista stjórnmálanna eftir kosningar. Nú sjáum við þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar og ef litið er á þingmálaskrá hæstv. heilbrigðisráðherra sést engin heilbrigðisáætlun á þeim lista. Það er einstaklega undarlegt þar sem hv. þingmenn Bjartrar framtíðar á síðasta kjörtímabili gagnrýndu þáverandi stjórnarflokka fyrir stefnuleysi í málaflokknum. Það er einnig einstaklega undarlegt því að undanfarin mörg ár hefur vantað stefnumótun í þennan málaflokk. Það hefur m.a. landlæknir fjallað um í fréttum og annars staðar. Einnig kom það fram í þingskjali sem ég lagði fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra á síðasta kjörtímabili að stefnumótun vantaði í málaflokkinn en unnið væri að drögum. Þau drög komu aldrei fyrir Alþingi.
Ég vona að þingmenn í öllum stjórnmálaflokkum leggi okkur Framsóknarmönnum lið við að koma þessu mikilvæga máli í gegnum Alþingi.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 26. janúar 2017. 

Categories
Fréttir

25% stjórnin

Deila grein

25/01/2017

25% stjórnin

sigurduringi_vef_500x500,,Frú forseti. Góðir landsmenn. Ný ríkisstjórn hefur tekið við á Íslandi og er rétt að óska henni velfarnaðar í þeim verkefnum sem fyrir liggja og snúa að heill og velferð þjóðarinnar. Sem betur fer tekur stjórnin við góðu búi. Það góða bú varð til á vakt Framsóknarflokksins. Viðreisn kom þar hvergi nærri og ég man ekki til þess að viðhengi hennar, Björt framtíð, hafi lagt mikið til málanna við endurreisn íslensks efnahagslífs. Þó minnist ég þess að fyrrverandi formaður þess flokks lagði fram tillögu til þingsályktunar „um seinkun klukkunnar og bjartari morgna“.
Tvö veigamikil atriði urðu til þess að hlutir fóru að ganga betur á Íslandi eftir að kjörtímabili fyrstu hreinu vinstri stjórnarinnar lauk, bæði mál sem Framsóknarflokkurinn setti á oddinn fyrir kosningarnar 2013. Hið fyrra var hin almenna aðgerð til að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán sem bætti eiginfjárstöðu margra heimila stórkostlega. Er nú svo komið að skuldsetning íslenskra heimila er með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndum — en var áður hæst allra. Hitt er losun hafta sem virðist ætla að takast eins vel og björtustu vonir stóðu til. Þessi tvö risastóru mál lögðu m.a. grunninn að aukinni hagsæld á Íslandi. Það er ágætt fyrir nýja ríkisstjórn að hafa það í huga. Sérstaklega ættu þeir að hugsa sinn gang sem töldu Íslandi best borgið með því að greiða skuldir óreiðumanna í útlöndum, Icesave, og með því að ganga í Evrópusambandið, hið brennandi hús eins og jafnaðarmaðurinn Jón Baldvin Hannibalsson orðaði það víst. Það er munur á þeim sem vildu rétta íslenskum heimilum hjálparhönd með leiðréttingunni og sækja fé sérstaklega til þess og hinum sem endilega vildu að ríkissjóður greiddi tugmilljarða til að þóknast útlendum kröfuhöfum. Það má eiginlega teljast með nokkrum ólíkindum að slíkir höfðingjar skuli nú stjórna landinu. En vonandi hafa þeir lært af sinni villu.
En hvað um það, nú er daginn farið að lengja og því verða morgnarnir bjartari þó að ekki hafi verið hróflað við klukkunni. Og það mun birta til í ýmsum skilningi ef rétt verður á málum haldið. Í þeim efnum er ekki nóg að fara með hendingar úr skrifum genginna snillinga þó að þeir séu úr Grímsnesinu. Það þarf meira að koma til.
Hæstv. forsætisráðherra varð hér áðan tíðrætt um jafnvægi. Jafnvægi væri annað leiðarstef nýrrar ríkisstjórnar. Samkvæmt ræðu hæstv. forsætisráðherra er mikilvægt að það þurfi að vera jafnvægi í þjóðfélagsgerðinni. Það er rétt hjá honum, ég er sammála því mati. Í kafla í ræðu hans má lesa eftirfarandi, með leyfi forseta:
„Sterkar vísbendingar eru um að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram þau hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif.“
Það var og. Það sem hæstv. forsætisráðherra á líklega við hér er að það sé tilfinning margra að tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé ekki eins gott og það gæti verið. Það kemur á óvart að forsætisráðherra skuli líta svo á að skortur á aðgengi að heilbrigðisþjónustu skuli byggjast á hughrifum. Ég held að það sé lítil stemning fyrir svona ályktunum, ekki síst hjá því ágæta fólki sem býr úti á landi og hefur ekki eins góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og þó þeir hafa sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þegar forsætisráðherra ræðir um jafnvægi væri gott að hafa í huga jafnvægi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. En ég vil líka taka fram að ég tel enga sérstaka ástæðu til að ætla að það sé honum hulið, þvert á móti.
Virðulegi forseti. Stuðningur við ríkisstjórnina meðal landsmanna hefur nú verið mældur og er fjórðungur ánægður með hana. Þeir sem eru mjög ánægðir eru innan við 10%. Það sem vekur nokkra athygli þegar rýnt er í niðurstöðu Maskínu, sem gerði könnunina, er að ríkisstjórnin nýtur mikillar hylli hjá þeim sem háar tekjur hafa. Þar er hlutfall ánægðra um þriðjungur. Og enn hækkar hlutfall ánægðra þegar hópurinn sem telur sig hafa hærri tekjur en meðaltekjur heimila í landinu er veginn. Þar er ánægjan um 40%. Þetta er í sjálfu sér ekkert vandamál en segir okkur kannski eitthvað um þá skírskotun sem hin nýja stjórn hefur. Og af því að forsætisráðherra var að tala um jafnvægi í ræðu sinni vil ég hvetja hann og ríkisstjórn hans til að huga sérstaklega að þessu.
Það var ekki augljóst eftir kosningar hvernig ríkisstjórn yrði mynduð, svokallað flækjustig var hátt, aðallega vegna þess að ýmsir höfðu verið með ótímabærar og stórkarlalegar yfirlýsingar fyrir kosningar og jafnvel eftir. Ég vil þó segja hér að ég tel, og er þess raunar fullviss, að aðrir möguleikar hafi verið uppi á borðum. Hægt hefði verið að mynda annars konar stjórn sem hefði mun breiðari pólitíska skírskotun en sú hægri stjórn sem var mynduð undir stjórn og forystu þeirra Engeyjarfrænda. Forsætisráðherra er mætavel kunnugt um það. En sá á kvölina sem á völina og 25% ánægja er niðurstaðan með það val. En það sem er liðið er liðið. Framtíðin er það sem mestu máli skiptir. Nú er bara að vona að þær traustu undirstöður sem lagðar voru fyrir efnahagslegar framfarir og hagsæld á tíma síðustu ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins haldi.
Ágætu landsmenn. Svo sem fram hefur komið er nauðsynlegt að ráðast í uppbyggingu innviða, t.d. í heilbrigðisþjónustu, menntamálum, samgöngum og ferðaþjónustu svo nokkuð af því helsta sé upp talið. Við þurfum að byggja upp innviði í öruggum skrefum eftir því sem er fjárhagslega skynsamlegt. Verkefni okkar er að auka fé til innviðauppbyggingarinnar samhliða því að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem nú þegar fara til þessara málaflokka.
Mér fannst ýmislegt vanta í stefnuræðu forsætisráðherra og saknaði þess raunar líka í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Mér fannst vanta framsýni í atvinnumál, m.a. um hvernig hægt er að byggja upp öflugt atvinnulíf hringinn í kringum landið, t.d. á grunni menntunar, nýsköpunar, lífhagkerfisins þar sem eru óendanlegir sóknarmöguleikar.
Vinna, vöxtur og velferð, manngildi ofar auðgildi eru einkunnarorð okkar Framsóknarmanna. Til þess að búa til góða velferð verður að vera traust atvinna hringinn í kringum landið, fyrir alla landsmenn. Það er ekki ástæða til að örvænta um framtíð Íslands. Nú sem fyrr höfum við úr miklu að spila og enginn á að þurfa að líða skort. Við munum væntanlega fá meira af því sama á næstu árum. Verðbólga verður lág, hagvöxtur mun halda áfram, kaupmáttur launa mun vonandi styrkjast enn frekar. En það mun koma að því að um hægist. Því er mikilvægt að tryggja hagsmuni okkar sem þjóðar til framtíðar. Það verður best gert í sátt. Fólk má ekki fá þá tilfinningu að sumir séu jafnari en aðrir, vegna ákvarðana sem teknar eru á vettvangi stjórnvalda. Stjórnmálamenn eiga að vera þjónar fólksins, ekki herrar. — Góðar stundir.”
Sigurður Ingi Jóhannsson í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017.

Categories
Fréttir

Lítill stuðningur við ríkisstjórnina er vitnisburður um að það vanti samfélagslega sátt

Deila grein

25/01/2017

Lítill stuðningur við ríkisstjórnina er vitnisburður um að það vanti samfélagslega sátt

lilja____vef_500x500,,Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið afar vel. Lánshæfi ríkissjóðs hefur hækkað í A-flokk, m.a. vegna lækkandi skulda ríkissjóðs, mikils innstreymis gjaldeyris og góðrar ytri stöðu þjóðarbúsins. Þá hafa stöðugleikaframlög slitabúanna gert það að verkum að heildartekjur ríkissjóðs eru við 1.000 milljarða á fjárlögum síðasta árs. Ég er því ekki alveg viss um að þetta tengist nýlegri skipan hæstv. fjármála-og efnahagsráðherra eins og hann virðist jafnvel halda því að hækkun lánshæfismats ríkissjóðs er langhlaup og hann er bara nýbúinn að hefja störf.
Algjör grundvallarbreyting hefur orðið frá fyrri tímum þar sem hrein erlend staða þjóðarbúsins er nú jákvæð í fyrsta sinn síðan mælingar hófust. Seðlabankinn hefur brugðist við þessu mikla innflæði með auknum kaupum á gjaldeyri. Gjaldeyrisforðinn er orðinn rúm 40% af landsframleiðslu, en kostnaður við hann að sama skapi er umtalsverður. Eitt stærsta verkefni hagstjórnarinnar verður að bregðast við þeim breytingum sem hafa átt sér stað á viðskiptajöfnuðinum.
Góðir landsmenn. Einn liður í því væri að setja á laggirnar stöðugleikasjóð Íslands. Slíkur sjóður hefði það eitt af meginmarkmiðum að stuðla að sveiflujöfnun í hagkerfinu. Þjóðir sem eru ríkar að auðlindum líkt og Ísland hafa sett upp svipaða sjóði til að ná betur utan um hagstjórnina. Norski olíusjóðurinn er eitt besta dæmið um slíkan sjóð.
Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um stofnun sjóðs með svipað hlutverk. Til að mynda er getið um slíkan sjóð í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og tel ég það vera afar jákvætt. Almennt er gengið út frá því að auðlindagjöld standi undir sjóðnum, bæði stofnframlagi og vexti hans. Slíkt er vissulega mögulegt en það tæki langan tíma að byggja upp myndarlegan höfuðstól til ávöxtunar. Skilvirkara væri að nota hluta af stöðugleikaframlögunum sem höfuðstól stöðugleikasjóðsins, kaupa upp hluta af gjaldeyrisforða Seðlabankans og stækka sjóðinn svo smám saman með tekjum af auðlindum landsins, þ.e. sjávarútvegi, orkugeiranum og ferðaþjónustu.
Ég held að flestum landsmönnum sé ljóst að efnahagslegri endurreisn sé vel á veg á komið. Hins vegar hefur vantað upp á samfélagslega sátt í þjóðfélaginu. Má segja að lítill stuðningur við ríkisstjórnina sé vitnisburður um slíkt. Okkur stjórnmálamönnunum ber að hlusta gaumgæfilega eftir því hver voru skilaboðin í síðustu kosningum.
Góðir landsmenn. Við í Framsóknarflokknum teljum að brýnasta verkefnið fram undan sé að fjármunum sé forgangsraðað í þágu heilbrigðismála. Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Við viljum fjárfesta enn frekar í innviðum kerfisins og stíga markviss skref svo allir fái notið góðrar þjónustu án tillits til efnahags. Við munum því leggja til á þingi að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heildstæða heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlun skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum þar sem m.a. þarf að taka tillit til þeirra miklu tækniframfara sem eru að eiga sér stað í heilbrigðismálum. Við viljum að Ísland sé þar fremst í flokki og geti boðið upp á eina tæknivæddustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Þjóðin kallar eftir því að heilbrigðismálum sé sinnt betur og við verðum að axla þá ábyrgð.
Samkeppnishæfi Íslands skiptir okkur öll máli. Einn liður í því er að menntakerfi okkar undirbúi framtíð þjóðarinnar. Í alþjóðlegum samanburði hafa skólarnir okkar verið að gefa eftir. Við verðum að bregðast við þeirri þróun. Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og framtíðin byggir á styrk þess. Við í Framsóknarflokknum leggjum ríka áherslu á að efla menntun í landinu með jöfnum tækifærum og hagsmunum þjóðarinnar að leiðarljósi. Við viljum fjárfesta í menntakerfinu þannig að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins árið 2020.
Góðir landsmenn. Vandi fylgir vegsemd hverri. Kjöraðstæður eru í íslensku efnahagslífi og mikilvægt að rétt sé haldið á málum. Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri til að gera vel og forgangsraða vel. Brýnt er að þingið vinni vel saman að góðum málum.
Ég óska nýrri ríkisstjórn velferðar og tel að henni farnist best með virku og öguðu aðhaldi frá minni hlutanum. — Eigið góðar stundir.”
Lilja Dögg Alfreðsdóttir í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017. 

Categories
Fréttir

Hvers vegna tók forsætisráðherrann Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð

Deila grein

25/01/2017

Hvers vegna tók forsætisráðherrann Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð

sigmundur_vef_500x500,,Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Nú höfum við lesið stjórnarsáttmálann. Við höfum hlustað á stefnuræðuna. En við erum engu nær um það til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð. Var það bara vegna þess að hún var talin ívið skárri kostur en áframhaldandi óvissuástand, áframhaldandi stjórnarkreppa, sem fylgdi hinum undarlegustu kosningum síðari áratuga? Hver eru markmiðin, ég tala nú ekki um aðferðirnar? Við vitum það ekki og erum engu nær eftir umræðuna í kvöld.

Það var mjög lýsandi að þegar nýr forsætisráðherra var spurður að því í fjölmiðlum fyrir fáeinum dögum hvaða mál stæðu upp úr hjá nýrri ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar þá kom honum ekki annað til hugar en að nefna ríkisfjármálaáætlun, það væri líklega ríkisfjármálaáætlun sem stæði upp úr. Þetta er lögbundið plagg sem fjármálaráðherra leggur fram á hverju ári og það stendur upp úr hjá þessari ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar. Ráðherrann hefði allt eins getað fylgt þessu eftir með því að segja að svo yrði líklega kosið í nefndir og síðan mætti vænta þess að það yrðu eldhúsdagsumræður einhvern tíma undir lokin. Það væri það sem stæði upp úr. Ekkert nýtt, engin stefna, engin sýn.

Þegar ríkisstjórn tók við árið 2013 var til staðar sýn en ekki aðeins sýn heldur líka stefna um það hvernig menn ætluðu að hrinda þeirri sýn í framkvæmd. Það var strax hafist handa við undirbúning og einungis sex mánuðum eftir að ríkisstjórnin tók við var ráðist í framkvæmd á risastórum breytingum. Hér segja menn okkur, svona í bland við einhverja frasa, að fyrsta árið fari í að meta stöðuna, meta heilbrigðiskerfið, peningastefnuna, kalla til fjölflokkasamráð, og líklega fjölþjóðlegt samráð líka, og svo sjái menn hvað komi út úr því.

En auðvitað ættum við að gleðjast, virðulegur forseti, yfir því sem er kannski einna mikilvægast við myndun þessarar ríkisstjórnar og það er að tvíhöfða flokkurinn Viðreisn/BF skuli hafa gefið eftir nánast öll megináhersluatriði sín úr kosningabaráttunni þegar stjórnin var mynduð, a.m.k. á pappírnum. En hvað gerist á bakvið tjöldin? Formaður Viðreisnar/BF er alræmdur plottari að eigin mati. Hann tekur að sér að plotta, ekki einungis fyrir sjálfan sig heldur aðra líka. Hvaða plott bjó að baki þegar þessi ríkisstjórn var mynduð? Hvert var viðeigandi plott, svo ég noti orð formanns Viðreisnar, þegar ríkisstjórnin var mynduð? Hvað þurfti t.d. Sjálfstæðisflokkurinn að gefa eftir til þess að endurheimta Viðreisn og fylgitungl þess flokks og fá þá til fylgilags við sig?

Reyndar vakti athygli mína að nýr fjármálaráðherra sá ástæðu til að setja ofan í við nýjan forsætisráðherra þegar á kynningarfundi þar sem verið var að kynna ríkisstjórnina og sagði honum að hann ætti að passa sig að eyða ekki of miklu úr kassanum sem hann myndi halda utan um. Það er kannski ekki svo skrýtið því að ég hef aldrei áður heyrt formann Sjálfstæðisflokksins státa sig sérstaklega af því hversu mikið honum hafi tekist að auka útgjöld ríkissjóðs milli ára. Það held ég að hafi ekki gerst áður í sögu þess annars ágæta flokks fyrr en nú.

En hvað með allt hitt? Hvað með kröfur samtaka sem urðu til undir nöfnum á borð við Áfram Icesave og Já ESB? Hvert verður viðeigandi plott í samstarfi við þá flokka? Hvert verður viðeigandi plott þegar kemur að því að fara í gegnum hvers konar fjármálakerfi við ætlum að hafa í landinu, endurmeta það? Hvert verður viðeigandi plott í samskiptum við Evrópusambandið?

Nýr forsætisráðherra tók reyndar Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð. Hvers vegna gerði hann það? Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Hvað ætlar nýr forsætisráðherra sér með Seðlabankann? Það var reyndar nefnt að skoða ætti peningastefnuna, en hvernig? Sjálfstæðisflokkurinn vill, held ég, sjálfstæða peningastefnu, annar stjórnmálaflokkur myntráð og sá þriðji ganga í ESB og leysa málin þannig. Hvernig verður þetta leyst og hvernig verður tekist á við okurvextina og verðtrygginguna?

Að sögn vann núverandi forsætisráðherra að því árum saman, eða frá því snemma á síðasta kjörtímabili, að meta í fjármálaráðuneytinu hvernig staðið yrði að því að vinna sig út úr kerfi verðtryggingar. Skyldu þau blöð og sú vinna hafa fylgt í kössunum þegar flutt var úr Arnarhvoli í Stjórnarráðið eða skyldi sú vinna öll hafa farið í pappírstætarann? Það verður tíminn að leiða í ljós, virðulegi forseti. Tími minn er nánast á þrotum svo áform mín um að hrósa nokkrum ráðherrum — ekki mörgum — eru þar með farin út um þúfur í bili, en það vinnst tími til þess síðar.

Aðalatriðið er þetta: Með örfáum undantekningum er þetta ríkisstjórn með óljósa sýn, takmarkaða stefnu og engar leiðir til að hrinda henni í framkvæmd. En á meðan þessir flokkar eru í ríkisstjórn verðum við líklega að vonast til þess að það verði þannig áfram.”

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 24. janúar 2017.

Categories
Fréttir

Upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs

Deila grein

24/01/2017

Upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs

elsa_vef_500x500Elsa Lára Arnardóttir, alþingismaður Framsóknar, hefur lagt fram þingmál er varðar samræmda vísitölu neysluverðs.
Í tillögunni segir að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs.
Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu með helstu niðurstöðum eigi síðar en í september 2017.

Heimild: www.althingi.is 

Categories
Fréttir

Elsti stjórnmálaflokkur landsins

Deila grein

20/12/2016

Elsti stjórnmálaflokkur landsins

flickr-Þórunn Egilsdóttir,,Hæstv. forseti. Framsóknarflokkurinn á afmæli á morgun og því fögnum við Framsóknarmenn með veglegri hátíð í Þjóðleikhúsinu og hátíðum víða um land næstu daga. Þangað eru að sjálfsögðu allir velkomnir. Framsóknarflokkurinn er 100 ára, hefur starfað með þjóðinni í 100 ár, heila öld. Það er í sjálfu sér ekki langur tími, svona í eilífðinni, en vissulega langur tími í pólitík. Framsóknarflokkurinn, elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins, hefur átt aðild að ríkisstjórn í 62 ár. Eðli málsins samkvæmt höfum við komið mörgum framfaramálum til leiðar og haft afgerandi áhrif á þróun samfélagsins sem breyttist á þessum tíma úr einföldu bændasamfélagi í tæknivætt nútímasamfélag með rödd meðal þjóða heimsins. Auðvitað gerðum við þetta ekki ein því að stjórnmálin snúast um samvinnu og samtal. Gildi samvinnustefnunnar falla aldrei úr gildi.
Upphaf flokksins má rekja til Seyðisfjarðar haustið 1916. Þá voru þingmenn af Norður- og Austurlandi á leið til þings sem hafði verið kallað saman í desember því að þá átti, líkt og nú, að mynda ríkisstjórn. En skipunum seinkaði og menn höfðu tíma til að ráða ráðum sínum og ákváðu þingmennirnir að stofna þingflokk. Þegar þeir komu loks til Reykjavíkur höfðu þeir samband við fleiri þingmenn og úr varð að stofnendur flokksins urðu alls átta. Fyrsta fundargerð hins nýja flokks var bókuð 16. desember 1916 og telst það því stofndagur hans.
Stofnanir flokksins standa á gömlum merg. Á öðru flokksþingi Framsóknarflokksins árið 1931 var miðstjórn og framkvæmdaráð stofnað, árið 1933 voru flokksfélögin orðin 52. Samband ungra Framsóknarmanna var stofnað 1938 og Landssamband Framsóknarkvenna var stofnað 1981. Þetta er dýrmætt. Við höfum ramma til að starfa eftir, getum leitað í söguna, um allt land höfum við sterka grasrót sem byggir á gömlum merg, fólk sem hefur hugsjónir og vill vinna að þeim. Það eru forréttindi að fá að starfa í slíkum flokki.
Hæstv. forseti. Verkefni stjórnmálanna er að vinna að framfaramálum hvers tíma, hafa áhrif og vinna samfélaginu gagn. Það ætlum við Framsóknarmenn að gera áfram og hlökkum til.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 15. desember 2016.