Categories
Fréttir

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins

Deila grein

17/12/2016

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, í Þjóðleikhúsinu 16. desember 2016.
****
Kæra framsóknarfólk – ágæta samkoma.
Saga Framsóknarflokksins er löng og í dag fögnum við 100 ára afmæli flokksins sem stofnaður var 16. desember 1916. Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur á sér lengri sögu.
Eins og vænta má hafa verkefnin verið mörg og misjöfn og verið í takt við þau baráttumál sem íslenska þjóðin hefur þurft að takast á við í þennan tíma. Höfum það í huga að 1916 var Ísland ekki sjálfstætt ríki – baráttuhugur aldamótakynslóðarinnar var farinn að skila árangri og frelsiskyndlar hugsjónamanna loguðu skært – ekki síst hjá ungmennafélögum og samvinnufélögum sem að verulegu leyti kusu Framsóknarflokkinn sem málsvara sinn. Við höfðum eignast Stjórnarráð, Háskóla og okkar eigið skipafélag og stutt var í sjálfstæðið.
Eins og vænta mátti var ekki alltaf einhugur meðal landsmanna um leiðir þótt markmiðin væru oftast þau sömu. Framsóknarflokkurinn haslaði sér völl á miðju stjórnmálanna – ekki af því að þar væri helst atkvæða að leita – heldur vegna þess að veröldin er ekki í svörtu og hvítu. Eindregnar skoðanir til hægri og vinstri hafa aldrei heillað Framsóknarfólk, né nokkuð í þá veru að afsala sjálfstæði landsins og réttindum í hendur annarra þjóða.
Fyrir stefnu sína var oft vegið að flokknum – hann sagður opinn í báða enda – stefna hans væri miðjumoð og allt þar fram eftir götunum. Þetta má alveg hafa í huga í dag þegar flokkar keppast við að skilgreina sig á miðjunni í þeirri von að þar sé helst fylgis að vænta. Hér er ekki tími til að rekja nákvæmlega sögu flokksins, en Framsóknarflokkurinn hefur átt því láni að fagna að hafa alltaf haft á að skipa dugmiklum stjórnendum – forystufólki sem markað hefur spor í Íslandssöguna.
Góðir gestir.
Framsóknarflokkurinn átti erindi við þjóðina fyrir hundrað árum  og hann á enn  erindi við þjóðina. Baráttan fyrir félagslegu jafnrétti, þar sem hverjum manni er gert kleift að njóta sín í félagi manna, mun alltaf verða til staðar og á því sviði vitnar sagan um að Framsóknarflokkurinn stendur heill að störfum. Vissan um að samvinna manna skili okkur betur fram á veg, en hver fyrir sig, er grunnstefið í okkar starfi sem og einkunnarorðin sígildu; manngildi ofar auðgildi.
Samfylgd með þjóðinni í hundrað ár segir sína sögu. Kannski fyrst og fremst þá, að Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð verið mikilsvert afl á vettvangi íslenskra stjórnmála. Framsóknarflokkurinn hefur notið trausts landsmanna og sannað gildi sitt og það sem hann stendur fyrir.
Árin frá stofnun flokksins hafa verið, hvert með sínu sniði, áhugaverð. Áskoranir verið margvíslegar og sigrarnir margir.  Okkur, sem uppi erum núna og lifum og hrærumst í augnablikinu, finnst kannski að merkilegustu tímar allra tíma, séu einmitt núna. En saga lands og þjóðar á 20. öldinni, er saga gríðarlegra breytinga í heiminum öllum. Sama hvar drepið er niður fæti.
Hvað gerðist í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokksins sem settist að völdum árið 1927 undir forystu Tryggva Þórhallssonar, sem lýst var sem mótunarmanni Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar? Meðal helstu verka var að stórauka stuðning við landbúnað, ný jarðræktarlög voru sett, Búnaðarbankinn var stofnaður og samgöngur stórbættar. Ríkisfyrirtæki voru stofnuð og má þar nefna, Síldarbræðslu ríkisins á Siglufirði, Skipaútgerð ríkisins, Landsmiðjuna, Ríkisútvarpið, Gutenberg ríkisprentsmiðjuna, og Útvegsbanka Íslands. Landhelgisgæslan var efld og hafin bygging Þjóðleikhússins, hvar við nú erum saman komin.
Menntamál hafa ætíð verið flokknum hugleikin. Enda segir svo í Stefnuskrá til bráðabirgða fyrir Framsóknarflokkinn sem samþykkt var 12. janúar 1917:
„Alþýðumenntunina, sem flokkurinn telur hyrningarstein allra þjóðþrifa, vill
hann stefnumarka og styðja, einkum með aukinni kennaramenntun og eflingu
ungmennaskóla í sveitum og lýðskólum fyrir karla og konur í landsfjórðungi
hverjum. Hina æðri menntun vill flokkurinn einnig láta til sín taka og halda hinu vísindalega merki Íslands hátt á lofti …“
Vandséð er að annar flokkur hafi unnið meira átak í skólamálum en unnið var undir forystu flokksins, á tímum Jónasar, þegar héraðsskólar landsins risu hver á fætur öðrum og gáfu þúsundum landsmanna kost á góðri menntun. Og var ekki Framsóknarflokkurinn í forystu um eflingu Háskóla Íslands og stofnun Háskólans á Akureyri? Jú, svo sannarlega.
Það er því sérlega gaman að geta þess að í dag samþykkti forysta flokksins að setja á stofn sérstakan starfshóp sem falið verður að skrifa menntastefnu. Það er verðugt verkefni sem verður undir forystu Sæunnar Stefánsdóttur.
Góðir gestir
Það er hægt að deila um marga hluti, en það verður ekki deilt um hlutdeild Framsóknarflokksins í uppbyggingu Íslands á undanförnum 100 árum. Það var unnið af heiðarleik og festu undir merkjum samvinnu. Og verkefninu, að búa til betra og vænlegra samfélag, lýkur aldrei.
Og enn stöndum við frammi fyrir áskorunum. Ný ríkisstjórn að loknum kosningum í október hefur ekki enn verið mynduð, önnur staða er uppi á Alþingi en við höfum átt að venjast. Úrslit kosninganna eru vísbending um að mynduð verði ríkisstjórn með breiða skírskotun til hægri og vinstri. Milli jaðranna vinstri og hægri í stjórnmálum er miðjan, þungamiðjan. Þar erum við og þar verðum við.
Ágætu framsóknarmenn!
Í umróti innan flokksins í ár, var mér falin sú ábyrgð að setjast í sæti formanns. Fyrir það er ég þakklátur og segi það eitt að þið megið trúa því að ég mun hvergi hvika og leggja allt það fram til að gera veg flokksins okkar sem mestan til hagsbóta fyrir land og þjóð.
„Maðurinn einn er ei nema hálfur – með öðrum er hann meiri en hann sjálfur“ sagði þjóðskáldið okkar Einar Benediktsson. Til að ná árangri er ómögulegt nema hafa samhent fólk á bæði borð og ég veit að svo er. Saman munum við enn og aftur sýna og sanna að Framsóknarflokkurinn er burðarás íslenskra stjórnmála.
Saga Framsóknarflokksins staðfestir að við höfum gengið götuna til góðs. Megi svo verða næstu hundrað ár.
Til hamingju með daginn og megi þið njóta þessa afmælisfagnaðar.

Categories
Fréttir

Bæta þarf veginn um Kjalarnes

Deila grein

14/12/2016

Bæta þarf veginn um Kjalarnes

elsa_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Flest ef ekki öll viljum við bættar samgöngur og víða er mikilla úrbóta þörf, hvort sem það er á hringveginum eða annars staðar. Í því kjördæmi sem ég starfa hefur verið mikið ákall um bættar vegasamgöngur á Vestfjörðum enda löngu kominn tími til. Flestir ef ekki allir þingmenn kjördæmisins hafa staðið saman í þeirri baráttu að bregðast við því ákalli. Núna loksins glittir í að verulegar samgönguumbætur á Vestfjörðum verði að veruleika, en hins vegar er mikið ákall um bættar samgöngur á landinu öllu og get ég vel skilið það.

Í þessari stuttu ræðu langar mig að ræða vegarkafla sem er reyndar ekki oft í umræðunni, það er vegurinn um Kjalarnes. Nauðsynlegt er að tryggja að mikilvægar vegaumbætur um Kjalarnes fari af stað ekki síðar en árið 2018, en gert er ráð fyrir þeim framkvæmdum í samgönguáætlun sem hæstv. innanríkisráðherra lagði fram á Alþingi og samþykkt var fyrir nokkrum vikum. Dag hvern fara um 6 þúsund bílar um Kjalarnes. Stór hluti þeirra sem fara um Kjalarnesið er fólk sem fer daglega til og frá vinnu og býr í sveitarfélögum norðan megin ganganna. Ég og margir þessara aðila höfum verulegar áhyggjur af stöðunni og umferðaröryggi þeirra sem fara þennan veg. Nú er það svo að komnar eru mjög djúpar rásir í veginn. Í miklu vatnsveðri eins og hefur verið í haust og vetur eru þessar rásir mjög varasamar. Þeir sem fara um veginn í slíku veðri verða helst að keyra út í vegarkanti til að hafa almennilega stjórn á bílnum. Einnig er það svo að á of stórum köflum vegarins vantar merkingar og jafnframt er leiðin mjög dimm. Skyggni getur verið erfitt og liggur oft við slysum í þeim umferðarþunga sem er þarna dag hvern.

Ég vil nýta þetta stutta tækifæri hér í störfum þingsins og minna á mikilvægi þessa þó að ég geri mér fulla grein fyrir því að víða sé þörfin mikil.”

Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 13. desember 2016. 

Categories
Fréttir

Menntakerfið er okkar fjöregg

Deila grein

14/12/2016

Menntakerfið er okkar fjöregg

silja_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Okkur verður tíðrætt um heilbrigðismál og samgöngumál í umræðunni um fjárlög, en í þessari stuttu ræðu minni í dag langar mig til að tala um menntakerfið. Menntakerfið er okkar fjöregg og að því verðum við að hlúa betur en við höfum gert hin síðari ár. Góð menntun er lykill okkar að framtíðinni og í raun gulls ígildi. Við segjum þetta nánast daglega við börnin okkar, hvetjum þau til að gera betur í skólanum, höldum reglulega „leiðinlega“ fyrirlestra um gildi menntunar, að það skipti máli að klára eitthvert nám til að eiga betri framtíðarmöguleika á vinnumarkaði. Á sama tíma getum við ekki leyft skólunum okkar að drabbast niður og kennurum að flýja starf sitt vegna lakra kjara. Við verðum að sýna í verki að góð menntun skipti okkur öll máli.

Þjóðhagslega skiptir gott menntunarstig verulegu máli og hefur jafnvel úrslitaþýðingu hvað varðar samkeppnisforskot okkar á alþjóðlegum markaði. Það er áhyggjuefni hversu illa grunnskólabörn okkar koma út úr mælingum. Þau dragast aftur úr jafnöldrum sínum í samanburðarlöndum. Ég vil þó nota tækifærið hér til að óska grunnskólum Reykjanesbæjar sérstaklega til hamingju með miklar framfarir í samræmdum prófum. Þann góða árangur má þakka samræmdu átaki heimila og skóla í Reykjanesbæ, þannig að góðir hlutir eru nú líka að gerast í skólakerfinu.

En góðir skólar verða ekki til án góðra kennara. Kjarabarátta grunnskólakennara er einnig á erfiðum stað og ekki fyrirséð hvar hún endar. Í því samhengi verðum við að ræða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Við getum ekki fært stóra og dýra málaflokka yfir til sveitarfélaga, eins og grunnskóla og málefni fatlaðra, án þess að endurskoðun á tekjuskiptingu fari fram á sama tíma. Þar höfum við ekki staðið okkur.”

Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 13. desember 2016.

Categories
Fréttir

Afmælishátíð Framsóknarmanna

Deila grein

13/12/2016

Afmælishátíð Framsóknarmanna

Afmælishátíð Framsóknarmanna verður haldin í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 16. desember á 100 ára afmæli Framsóknarflokksins og hefst kl. 18.00.
Plakat

Categories
Fréttir

Pistill frá ritara

Deila grein

01/12/2016

Pistill frá ritara

jon-bjorn-hakonarsonKæru félagar!
Ég vill byrja á því að þakka ykkur öllum kærlega fyrir ykkar framlag til nýliðinnar kosningarbaráttu fyrir flokkinn okkar. Þrátt fyrir að úrslit þeirra hafi ekki verið eins og við hefðum helst kosið fyrir flokkinn þá er það þannig að slíkt á bara að efla okkur og hvetja til frekari dáða og horfa til framtíðar. Þannig hefur Framsóknarflokkurinn alltaf gert í hundrað ára sögu sinni.
Þann 16. desember næstkomandi höldum við einmitt upp á þau merku tímamót þegar flokkurinn okkar fagnar formlega 100 ára afmæli sínu. Slíkt er einstakt í sögu flokks og þjóðar að stjórnmálaflokkur nái slíkum áfanga og sé enn meginstoð í lýðræðislegu kerfi lands-og sveitarstjórna á Íslandi. Hafi fylgt þjóðinni í gegnum tíma mikilli umbrota í sögu hennar og verið við stjórnvölinn stóran hluta þess tíma og tekið þátt í að leggja þannig grunn að því góða samfélagi sem við eigum hér á Íslandi. Slíkt hefði ekki verið hægt nema fyrir þann mikla félagsauð sem Framsóknarflokkurinn hefur alltaf átt í sínum flokksmönnum sem staðið hafa með flokknum sínum í gegnum þykkt og þunnt. Það er máttur hinna mörgu.
Þessum tímamótum ætlum við að fagna þann 16.desember næstkomandi annarsvegar með hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu og hinsvegar leitum við nú til ykkar, flokksmanna, með að gera þessa helgi 16.-18.desember sem glæsilegasta. Er það ósk okkar í forystu flokksins að félögin og kjördæmasamböndin um allt land taki höndum saman og haldi upp á 100 ára afmælið heima í sínum héröðum og landsfjórðungum. Þekkjandi þann kraft sem býr í framsóknarfólki veit ég að slíkt verður gert með glæsibrag. Skrifstofa flokksins er boðinn og búinn til aðstoðar og vona ég að samkomurnar verði sem flestar.
Megi svo aðventan verða ykkur öllum notalegur og góður tími í aðdraganda jóla.
Bestu kveðjur,
Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins

Categories
Fréttir

Opnað fyrir umsóknir um húsnæðisbætur

Deila grein

23/11/2016

Opnað fyrir umsóknir um húsnæðisbætur

husbot-isVinnumálastofnun opnaði 21. nóvember sl. Greiðslustofu húsnæðisbóta og upplýsinga- og umsóknarvefinn www.husbot.is  þar sem leigjendur geta sótt um húsnæðisbætur samkvæmt nýjum lögum um húsnæðisbætur sem taka gildi 1. janúar 2017.
Lög nr. 75/2006 um húsnæðisbætur voru samþykkti á Alþingi sl. sumar og taka gildi 1. janúar næstkomandi. Á sama tíma falla úr gildi lög um húsaleigubætur og hlutverk sveitarfélaganna varðandi útgreiðslu húsnæðisstuðnings til leigjenda flyst til Greiðslustofu húsnæðisbóta.
Markmið laga um húsnæðisbætur  er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum.
Vinnumálastofnun annast framkvæmd húsnæðisbótakerfisins sem er fjármagnað að fullu úr ríkissjóði. Við útreikning húsnæðisbóta er tekið mið af fjölda heimilismanna óháð aldri, leigufjárhæð, öllum tekjum og nettó eign, þ.e. eignum að frádregnum skuldum.
Inni á nýja vefnum www.husbot.is er að finna allar upplýsingar sem varða húsnæðisbætur og umsóknarferlið sjálft auk þess sem þar er að finna reiknivél sem hjálpar leigjendum að átta sig á upphæð mögulegra húsnæðisbóta.
Fyrstu greiðslur samkvæmt lögum um húsnæðisbætur verða greiddar út 1. febrúar 2017.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is 

Categories
Fréttir

EFTA ríkin vinni nánar saman

Deila grein

23/11/2016

EFTA ríkin vinni nánar saman

iceland-liechtenstein2Samskipti EFTA-ríkjanna og Bretlands voru þungamiðjan í umræðum á ráðherrafundi EFTA sem haldin var í Genf fyrr í vikunni. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra stýrði fundinum, en Ísland leiðir starf EFTA um þessar mundir. Ráðherrarnir ákváðu að vinna nánar saman svo hagsmunir EFTA-ríkjanna verði tryggðir við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, Brexit.  Ísland mun hafa frumkvæði að því að boða til fundar á næstu vikum, þar sem viðbrögð EFTA-ríkjanna við Brexit verði undirbúin enn frekar.
,,Útganga Breta úr Evrópusambandinu er bæði söguleg og flókin í framkvæmd. Við þurfum að fylgjast mjög vandlega með þróun mála og vera viðbúin, sama hvernig Bretar ákveða að haga sinni útgöngu. Það er mikilvægt að EFTA-ríkin séu samstíga og láti ekki ólíka hagsmuni eða samkeppni sín á milli hafa áhrif á samstarfið. Það er líka mikilvægt að EFTA standi vörð um fríverslun í heiminum, ekki síst í ljósi umræðunnar sem átti sér stað samhliða forsetakosningunum í Bandaríkjunum nýverið. Fyrir Ísland eru samskiptin og viðskiptin við Bretland eitt allra mikilvægasta utanríkismálið. Við munum leggja okkur öll fram við að gæta hagsmuna Íslands,” segir Lilja Alfreðsdóttir.
Fleiri fríverslunarsamningar í farvatninu
Á fundinum var farið yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Víetnam, Malasíu og Indónesíu og því fagnað sérstaklega að viðræður um gerð fríverslunarsamnings við Indland væru hafnar á nýjan leik og að nýlega hefðu hafist viðræður við Ekvador. Þá var mikil ánægja á fundinum með fyrirhugaðar fríverslunarviðræður EFTA og viðskiptabandalag Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela (kallað Mercosur) sem eiga að hefjast á næsta ári.
Ráðherrarnir fóru einnig yfir stöðu viðræðna um endurskoðun og uppfærslu gildandi samninga við Mexíkó og komandi viðræður við Síle. Varðandi aðra slíka samninga ítrekuðu ráðherrarnir áhuga EFTA ríkjanna að hefja á ný viðræður við Tyrkland og að hefja viðræður við Tollabandalag Suður Afríkuríkja (SACU). Jafnframt var lögð áhersla á mikilvægi þess að áfram væri leitað leiða til að hefja viðræður um endurskoðun fríverslunarsamnings EFTA og Kanada. Utanríkisráðherra stýrði einnig fundi EFTA ráðherranna með Þingmannanefnd EFTA þar sem fjallað var um stöðu mála varðandi fríverslunarviðræður EFTA ásamt því að farið var yfir þróun mála í samskiptum Bretlands og ESB.
Fríverslunarnet EFTA samanstendur af 27 samningum við 38 ríki og svæði. Tólf prósent af heildarútflutningi EFTA ríkja fer til þessara ríkja á meðan 7,5% innflutnings kemur frá þeim. Fundinn sátu auk Lilju; Johann Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Monica Mæland viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is 

Categories
Fréttir

Happdrætti Framsóknar í Reykjavík

Deila grein

21/11/2016

Happdrætti Framsóknar í Reykjavík

reykjavik-happadraetti
 
Vinningsnúmerin eru:
136. – WOW – Ferð fyrir tvo til Kaupmannahafnar
419. – Recon – Inneign
497. – Hótel Glymur – Gisting fyrir tvo með kvöldverði
177. – Dún og fiður – sængur og koddar
444. – Herralagerinn, inneign
480. – Klaustur Icelandair Hotels – Gisting fyrir 2 með kvöldverði
412. – Notrulus – Spa meðferð
221. – Ginseng.is – Inneign
493. – Snyrtivöruverslun Glæsibær – Snyrtiaskja
575. – Esjufell – Gjafakarfa.
192. – Esjufell – Gjafakarfa.
Vinninga skal vitja hjá Stefáni Björnssyni, stefanbjo@solidclouds.com

Categories
Fréttir

Græn nýsköpun lykill að árangri

Deila grein

17/11/2016

Græn nýsköpun lykill að árangri

??????????????
Nú er kominn tími til að efna loforð Parísarsamningsins í loftslagsmálum, sagði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í ræðu sinni í gær á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Marrakech í Marokkó. Allir þyrftu þar að leggja lóð á vogarskálarnar: stjórnvöld, atvinnulíf, vísindaheimurinn og almenningur. Nýsköpun í loftslagsvænni tækni og lausnum væri nauðsynleg til að ná settu marki.
Fundurinn í Marrakech er fyrsti alþjóðlegi ráðherrafundurinn um loftslagsmál eftir að Parísarsamningurinn gekk í gildi 4. nóvember sl. Um 110 ríki, þar á meðal Ísland, hafa fullgilt samninginn.
Sigrún Magnúsdóttir sagði að hrein orka væri mikilvæg og þörf á hnattrænu átaki í nýtingu endurnýjanlegrar orku. Hún nefndi tilraunaverkefni Orkuveitu Reykjavíkur o.fl. á Hellisheiði, þar sem koldíoxíði er dælt í jarðlög, þar sem það breytist í steindir og binst til frambúðar í jarðlögum. Þar væri gróðurhúsalofttegundum breytt í grjót, en einnig væri mikilvægt að binda kolefni í trjám og jarðvegi með skógrækt og aðgerðum gegn landeyðingu.
Sigrún Magnúsdóttir gerði áhrif loftslagsbreytinga á hafið að umtalsefni og fagnaði aukinni athygli á þann þátt í loftslagsumræðunni. Hreinni skipatækni væri hluti af lausninni og mikilvægt að hlúa að henni á Íslandi og á heimsvísu.
Auk loftslagsvænni tækni væri nauðsynlegt að huga að daglegu lífi, svo sem með að draga úr matarsóun, til að ná settu marki. Jafnrétti kynjanna og virk þátttaka kvenna væri nauðsynleg til að ná árangri í loftslagsmálum.
Ræða ráðherra í heild (á ensku) (pdf-skjal).

 Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, átti m.a. tvíhliða fund með Paulu Bennett, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sótt fundi ráðherra og aðra viðburði á aðildarríkjaþinginu í Marrakech og átti m.a. tvíhliða fund með Paulu Bennett, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands. Þar kom fram að aðstæður í ríkjunum væru að mörgu leyti líkar hvað loftslagsmál varðar. Bæði ríkin nýta jarðhita og hafa hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku, bæði horfa til lausna varðandi losun frá landbúnaði og landnotkun og bæði hafa samþykkt að berjast gegn niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti. Samþykkt var að koma á samvinnu varðandi loftslagsvænar lausnir í landbúnaði og ræða frekar annað samstarf í loftslagsmálum.

Íslenskar kynningar um hafið og niðurdælingu koldíoxíðs

Sérstök dagskrá var tileinkuð umræðu um afleiðingar loftslagsbreytinga á hafið á sérstökum degi hafsins (Oceans Action Day), þar sem fulltrúi utanríkisráðuneytisins flutti erindi um mikilvægi uppbyggingar á þekkingu og tækni í ríkjum sem byggja afkomu sína á hafinu.
Ísland hélt tvo kynningarviðburði á norrænum bás á ráðstefnunni í Marrakech þar sem annars vegar var fjallað um hafið og hins vegar um jarðhita.
Á viðburði um hafið kynnti fulltrúi sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hið mikilvæga hlutverk skólans við að byggja upp þekkingu á loftslagsvænni sjávarútvegi. Fulltrúar frá Seychelles-eyjum og Máritíus ræddu nýsköpun og tækifæri sem tengjast hafinu, en þessi tvö eyríki eru meðal þeirra ríkja sem þegar takast á við alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga á hafið.
Fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur kynntu alþjóðlegt verkefni um bindingu á jarðhitagasi í grjót við Hellisheiðarvirkjun. Samstarfið leiddi til þróunar á nýrri aðferð sem er til muna hraðvirkari og ódýrari en hefðbundnar aðferðir og er unnt að nýta víðsvegar um heim. Verkefnið hefur vakið mikla athygli í vísindaheiminum og loftslagsumræðunni.
Fundirnir voru vel sóttir. Hægt er að sjá kynningarfundina á eftirfarandi vefsíðu:
https://www.norden.org/en/theme/new-nordic-climate-solutions/cop22/events/troll-turned-to-stone-innovation-in-geothermal-energy-ministry-of-foreign-affairs-iceland
https://www.norden.org/en/theme/new-nordic-climate-solutions/cop22/events/one-earth-one-ocean-ministry-of-foreign-affairs-iceland

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun Suðvesturkjördæmis

Deila grein

15/11/2016

Stjórnmálaályktun Suðvesturkjördæmis

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, haldið í Kópavogi 13. nóvember 2016 ályktar eftirfarandi:
Árangur í efnahagsmálum
Kjördæmisþingið lýsir ánægju með hinn mikla árangur sem náðist í efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili, ekki síst í lækkun skulda einstaklinga og þjóðarbúsins. Skuldir heimilanna hafa ekki verið lægri síðan árið 2003.
Kaupmáttur launa hefur hækkað um rúmlega 20% á kjörtímabilinu og hefur aldrei verið meiri. Störfum hefur fjölgað um rúmlega 15.000 og atvinnuleysi er með lægsta móti. Fólkið í landinu mun senn njóta að fullu losunar haftanna.
Framsóknarflokkurinn vill að millistéttin og hinir tekjulægri hafi meira á milli handanna. Neðsta skattþrep verði lækkað verulega og skattkerfið verði vinnuhvetjandi.
Mikill árangur í húsnæðismálum
Kjördæmisþingið fagnar þeim árangri sem náðst hefur í húsnæðismálum á kjörtímabilinu. Samþykkt hafa verið ný lög um almennar íbúðir, lög um húsnæðisbætur, lög um húsnæðissamvinnufélög, lög um fasteignalán, húsaleigulög og lög um Fyrstu fasteign. Þá hefur átt sér stað algjör viðsnúningur í rekstri Íbúðalánasjóðs sem gerir hann reiðubúinn að takast á við öll þau verkefni sem honum hafa verið falin.
Mikill árangur er af Leiðréttingunni þar sem skuldir heimilanna eru nú með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndunum. Fyrsta fasteign er rökrétt framhald af Leiðréttingunni. Aðgerðin auðveldar fólki að eignast þak yfir höfuðið og hvetur til töku óverðtryggðra lána.
Fyrstu skrefin í afnámi verðtryggingar hafa verið stigin í samræmi við tillögur verðtryggingarnefndar og húsnæðisöryggi landsmanna aukið til framtíðar.
Risaskref í þágu lífeyrisþega
Kjördæmisþingið lýsir yfir ánægju með samþykkt nýrra laga um almannatryggingar þar sem lífeyrir var hækkaður verulega. Lífeyriskerfi aldraðra var einfaldað, sveigjanleiki aukinn, skerðing krónu á móti krónu afnumin og lágmarkslífeyrir til samræmis við lágmarkslaun á vinnumarkaði.
Mikilvægt er að heildarendurskoðuninni verði lokið á kjörtímabilinu í þágu allra lífeyrisþega.
Efling opinberrar þjónustu
Innviðir samfélagsins og opinber þjónusta urðu fyrir skakkaföllum í kjölfar hrunsins árið 2008. Nú, þegar tekist hefur að reisa við fjárhag ríkisins, þarf að leggja mikla áherslu á eflingu opinberrar þjónustu. Einkum á þetta við um heilbrigðisþjónustu, menntakerfið og löggæslu.
Kjördæmisþingið lýsir vilja til þess að nýr Landspítali verði byggður á Vífilsstöðum.
Samgöngumál
Vegakerfið hefur látið á sjá síðustu ár og kemur þar aðallega tvennt til, annars vegar afleiðingar hrunsins og hins vegar aukin umferð vegna mikils hagvaxtar og fjölgunar ferðamanna. Gera þarf átak til að bæta vegakerfið, enda eru slíkar umbætur mjög arðsamar.
Sérstaka áherslu þarf að leggja á samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu, en vandræðaástand hefur skapast vegna vanrækslu sveitarstjórna þar, við skipulagningu og uppbyggingu samgönguæða. Segja má að sumar mikilvægustu samgönguæðar séu nánast ófærar klukkutímum saman á degi hverjum. Miklar umferðartafir valda ómældum kostnaði í þjóðfélaginu og gífurlegri mengun vegna bifreiða sem komast vart áfram og menga því margfalt meira en eðlilegt væri. Á þetta ekki síst við um Hringbraut og Miklubraut sem leiðir til efasemda um skynsemi þeirrar ákvörðunar að byggja nýjan Landspítala þar.
Kjördæmisþingið leggur mikla áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni og bendir í því sambandi á skyldur Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar við landsmenn, að hún segi sig ekki frá höfuðborgarhlutverkinu með því að þrengja að flugvellinum eða loka honum.
Umhverfismál
Leggja þarf kapp á aðgerðir til að uppfylla fyrirheit Íslands um aðgerðir í loftslagsmálum. Í því skyni þarf m.a. að flýta rafbílavæðingu og bæta dreifingu rafmagns um landið, bæði til að gera rafbíla nýtilega um allt land og einnig til að geta boðið skipum í höfn upp á rafmagn frá landi.