Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Deila grein

25/03/2024

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.

Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.

Hagur bænda og neytenda

Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.

Rétt skal vera rétt

Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.

Samstaða frekar en sundrung

Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bókaþjóð fær nýja bókmenntastefnu

Deila grein

23/03/2024

Bókaþjóð fær nýja bókmenntastefnu

Upp, upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og róm­ur með, hug­ur og tunga hjálpi til, herr­ans pínu ég minn­ast vil.

Páska­hátíðin er haf­in þar sem við njót­um sam­vista með fjöl­skyldu og vin­um. Pass­íusálm­arn­ir hafa fylgt þjóðinni í nærri 365 ár og eru meist­ara­verk bæði frá list­rænu og trú­ar­legu sjón­ar­miði og ein af mörg­um birt­ing­ar­mynd­um þess ríka bók­mennta­arfs sem Ísland býr að. Bók­mennt­ir eru samofn­ar sögu þjóðar­inn­ar eins og við þekkj­um. Þannig er bók­mennta­arf­ur Íslend­inga okk­ar merk­asta fram­lag til heims­menn­ing­ar en hand­rita­safn Árna Magnús­son­ar er til dæm­is á verðveislu­skrá UNESCO.

Á und­an­förn­um árum hafa verið stig­in stór skref til þess að efla um­gjörð menn­ing­ar og skap­andi greina á Íslandi. Fyrsta heild­stæða kvik­mynda­stefn­an fyr­ir Ísland leit dags­ins ljós árið 2020 og síðan þá hef­ur mynd­list­ar­stefna, tón­list­ar­stefna, stefna í mál­efn­um hönn­un­ar og arki­tekt­úrs verið gefn­ar út og hrint í fram­kvæmd. Unnið er að stefnu í mál­efn­um sviðslista og gær samþykkti rík­is­stjórn til­lögu mína um nýja bók­mennta­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030. Nýrri bók­mennta­stefnu er ætlað að hlúa enn bet­ur að bók­mennta­menn­ingu okk­ar til framtíðar. Í stefn­unni er birt framtíðar­sýn fyr­ir mála­flokk­inn og jafn­framt þrjú meg­in­mark­mið sem aðgerðirn­ar skulu styðja við. Meg­in­mark­miðin snú­ast um fjöl­breytta út­gáfu á ís­lensku til að treysta stöðu ís­lenskr­ar tungu í sam­fé­lag­inu; um auk­inn og bætt­an lest­ur, ekki síst meðal ungra les­enda; og hvatn­ing til bóka­sam­fé­lags­ins um ný­sköp­un sem taki mið af tækniþróun og örum sam­fé­lags­breyt­ing­um.

Aðgerðaáætl­un­in hef­ur að geyma 19 aðgerðir sem skipt er upp í fjóra flokka: Um­gjörð og stuðning­ur; Börn og ung­menni; Menn­ing­ar­arf­ur, rann­sókn­ir og miðlun; og Ný­sköp­un og sjálf­bærni. Aðgerðirn­ar leggja ekki síst áherslu á börn og ung­menni ann­ars veg­ar og ís­lenska tungu hins veg­ar en víða er komið við.

Ein stærsta aðgerðin sem boðuð er í áætl­un­inni snýst um end­ur­skoðun á því reglu­verki og þeirri um­gjörð sem hið op­in­bera hef­ur komið upp í tengsl­um við bók­mennt­ir og ís­lenskt mál. Þar eru und­ir lög um stöðu ís­lenskr­ar tungu og ís­lensks tákn­máls, lög um bók­mennt­ir, lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku, bóka­safna­lög o.fl. Í þeirri end­ur­skoðun er brýnt að hugað verði að breyttu lands­lagi tungu og bóka vegna til­komu gervi­greind­ar, mál­tækni, streym­isveitna og annarr­ar tækni sem er í hraðri þróun þessi miss­er­in.

Bók­mennta­stefn­an er gerð í mik­illi sam­vinnu við hags­munaaðila sem lögðu til grund­völl­inn í stefn­unni og aðgerðunum. Það er viðeig­andi að bókaþjóðin Ísland fái nýja bók­mennta­stefnu sem mun leggja grunn­inn að enn metnaðarfyllra menn­ing­ar­lífi hér á landi. Ég óska öll­um gleðilegra páska.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2024.

Categories
Fréttir

„Skattkerfinu þarf að beita í þágu brothættra byggða“

Deila grein

22/03/2024

„Skattkerfinu þarf að beita í þágu brothættra byggða“

Kristinn Rúnar Tryggvason, varaþingmaður, sagði í störfum þingsins að líklegast væri einhvern farið að gruna að byggðamál væru sér ofarlega í huga eftir setuna á Alþingi.

„Grímsstaðir á Fjöllum eru gott dæmi um hversu mikið byggðir skipta máli. Þær eru taldar í hundruðum björgunarferðirnar sem ábúendur þar hafa farið, langoftast í veðri þar sem flestir myndu kjósa að halda sig inni. Þau eru mörg lífin sem ábúendur þar hafa bjargað. Það er nefnilega þannig að ábúendur í dreifðustu byggðunum eru í senn björgunarsveitarmenn, landverðir og oft á tíðum gestgjafar,“ sagði Kristinn Rúnar.

Sagði hann verkefnið „Brothættar byggðir“ vera skref í rétta átt, en þar sem ástandið sé verst muni það ekki neinu breyta. Fara verði í átak í að verja byggðir sem tæpast standa auk þess að styðja við landbúnað sem er oftast hryggjarstykkið í þeim byggðum.

„Skattkerfinu þarf að beita í þágu brothættra byggða til að laða að fólk og fyrirtæki rétt eins og gert er í kringum okkur, bæði í Noregi og innan ESB. Það er víða vandamál að fá heilbrigðisstarfsfólk, skólastjórnendur og kennara á fámennustu svæðin. Eftirgjöf á námslánum og skattaívilnanir fyrir fólk og fyrirtæki gætu hjálpað í þessu stóra hagsmunamáli okkar allra. Fólk leitar tækifæranna og stjórnvöld geta stuðlað að því að þau séu til staðar víðar en á suðvesturhorninu. Ásamt þessu þarf að jafna kostnað við það að búa í dreifðari svæðum, þar með talið raforkukostnað, kostnað við að sækja heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu og jafnvel menningu. Allt þetta er fyrir tilstilli stjórnvalda,“ sagði Kristinn Rúnar að lokum.


Ræða Kristins Rúnars í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Byggðamál eru mér ofarlega í huga eins og einhvern er líklega farið að gruna eftir veru mína hér. Grímsstaðir á Fjöllum eru gott dæmi um hversu mikið byggðir skipta máli. Þær eru taldar í hundruðum björgunarferðirnar sem ábúendur þar hafa farið, langoftast í veðri þar sem flestir myndu kjósa að halda sig inni. Þau eru mörg lífin sem ábúendur þar hafa bjargað. Það er nefnilega þannig að ábúendur í dreifðustu byggðunum eru í senn björgunarsveitarmenn, landverðir og oft á tíðum gestgjafar.

Verkefnið Brothættar byggðir hefur verið starfrækt um nokkurt skeið og er vissulega skref í rétta átt. Það kemur hins vegar of seint þar sem ástandið er verst og er ýmsum annmörkum háð. Nú þarf að gera átak í að verja þær byggðir sem tæpast standa auk þess að styðja við landbúnað sem er oftast hryggjarstykkið í þeim byggðum. Skattkerfinu þarf að beita í þágu brothættra byggða til að laða að fólk og fyrirtæki rétt eins og gert er í kringum okkur, bæði í Noregi og innan ESB. Það er víða vandamál að fá heilbrigðisstarfsfólk, skólastjórnendur og kennara á fámennustu svæðin. Eftirgjöf á námslánum og skattaívilnanir fyrir fólk og fyrirtæki gætu hjálpað í þessu stóra hagsmunamáli okkar allra. Fólk leitar tækifæranna og stjórnvöld geta stuðlað að því að þau séu til staðar víðar en á suðvesturhorninu. Ásamt þessu þarf að jafna kostnað við það að búa í dreifðari svæðum, þar með talið raforkukostnað, kostnað við að sækja heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu og jafnvel menningu. Allt þetta er fyrir tilstilli stjórnvalda.“

Categories
Fréttir

„Skilyrðin eru enn innflutningnum í hag“

Deila grein

22/03/2024

„Skilyrðin eru enn innflutningnum í hag“

Halldóra K. Hauksdóttir, varaþingmaður, ræddi í störfum þingsins það framfaraskref að gera afurðastöðvum möguleika á að sameinast, ná fram hagræða og þannig að lækka framleiðslukostnað.

„Sívaxandi innflutningur matvæla frá erlendum stórverksmiðjum hefur skapað íslenskum landbúnaði erfiðar aðstæður í geira sem hafði takmörkuð tækifæri til frekari hagræðingar ef markmiðið á enn að vera að viðhalda ákveðnum gæðum og starfa í samræmi við reglur og staðla,“ sagði Halldóra.

Samkeppnin er við útlönd

„Nú þegar er verið að flytja inn meira að segja lambakjöt til Íslands og í auknum mæli verða neytendur varir við notkun á erlendum afurðum í hefðbundnum íslenskum matvælum.

Hvernig getum við brugðist við þessum aðstæðum? Jú, með því að gera innlendum aðilum kleift að sameinast, hagræða í sinni starfsemi og með því að lækka framleiðslukostnað og um leið verð í þágu þeirra og neytenda.“

Búvörulögum hefur verið breytt svo að framleiðendafélögum og afurðastöðvum í kjötiðnaði verði heimilt að sameinast og eiga með sér aukið samstarf.

„Í þessu felst almenn undanþága frá samkeppnislögum sem nær til sameininga og jafnframt samninga milli framleiðendafélaga varðandi verkaskiptingu og aðrar aðgerðir sem miða að því að halda kostnaði niðri. Þessar breytingar voru nauðsynlegar til að bregðast við döprum rekstrargrundvelli innlendrar kjötframleiðslu og stuðla að jöfnun samkeppnisskilyrða kjötafurðastöðva við innflutninginn. Skilyrðin eru enn innflutningnum í hag en ef stjórnvöld halda þessari vegferð áfram þá getum við horft áfram veginn bjartsýnni en áður,“ sagði Halldóra að lokum.


Ræða Halldóru í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í gær var stigið mikið framfaraskref í þágu innlendrar matvælaframleiðslu. Skrefið var stigið hér í þessum sal. Sívaxandi innflutningur matvæla frá erlendum stórverksmiðjum hefur skapað íslenskum landbúnaði erfiðar aðstæður í geira sem hafði takmörkuð tækifæri til frekari hagræðingar ef markmiðið á enn að vera að viðhalda ákveðnum gæðum og starfa í samræmi við reglur og staðla. Samkeppnin hefur nefnilega færst frá því að vera milli íslenskra bænda sem fylgja sömu stöðlum yfir í að vera íslenskir bændur á móti evrópskri framleiðslu þar sem lögmálin eru allt önnur. Nú þegar er verið að flytja inn meira að segja lambakjöt til Íslands og í auknum mæli verða neytendur varir við notkun á erlendum afurðum í hefðbundnum íslenskum matvælum.

Hvernig getum við brugðist við þessum aðstæðum? Jú, með því að gera innlendum aðilum kleift að sameinast, hagræða í sinni starfsemi og með því að lækka framleiðslukostnað og um leið verð í þágu þeirra og neytenda. Í gær var framfaraskref stigið í þá áttina. Búvörulögum var breytt á þann veg að framleiðendafélögum og afurðastöðvum í kjötiðnaði var gert heimilt að sameinast og eiga með sér aukið samstarf. Í þessu felst almenn undanþága frá samkeppnislögum sem nær til sameininga og jafnframt samninga milli framleiðendafélaga varðandi verkaskiptingu og aðrar aðgerðir sem miða að því að halda kostnaði niðri. Þessar breytingar voru nauðsynlegar til að bregðast við döprum rekstrargrundvelli innlendrar kjötframleiðslu og stuðla að jöfnun samkeppnisskilyrða kjötafurðastöðva við innflutninginn. Skilyrðin eru enn innflutningnum í hag en ef stjórnvöld halda þessari vegferð áfram þá getum við horft áfram veginn bjartsýnni en áður.“

Categories
Fréttir Greinar

Ís­lenska páska­lambið

Deila grein

22/03/2024

Ís­lenska páska­lambið

Í gær voru samþykktar breytingar á búvörulögum, um er að ræða að breytingar sem skipta verulegu máli fyrir íslenskan landbúnað. Þeim er ætlað að styðja við endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu. Með þessum breytingum eru afurðastöðvum í kjötiðnaði veitt heimild til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu að því er varðar framleiðslu einstakra kjötafurða og hafa með sér annars konar samstarf. Samkvæmt frumvarpinu þá er það tryggt að samkeppniseftirlitið fer með eftirlit með framkvæmdinni. Niðurstaðan er að nú er hægt að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.

Samkeppni

Íslenskar landbúnaðarvörur eiga í gríðarlegri og stigvaxandi samkeppni við innfluttar vörur. Það er því mikilvægt að fundin verði samvinnugrundvöllur matvælaframleiðenda hér á landi til að bregðast við breyttri stöðu. Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar. Árið 2004 var starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins gerbreytt með breytingu á 71. gr. búvörulaga. Sú breyting veitti afmarkaða undanþágu til afurðarstöðva í mjólkuriðnaði frá gildissviði samkeppnislaga. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur orðið mikil nýsköpun og stórfelld hagræðing í söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurvara. Nú er komið að kjötinu.

Úrtölurödd

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur brugðist við með stóryrðum og myrkri og boðar heimsósóma fyrir íslenska bændur og íslenska neytendur. Segir hér verið að raska samningsstöðu bænda gagnvart viðsemjendum sínum. Það er rétt að það komi fram að framleiðendur eru tryggðir í fjórða kafla búvörulaga sem fjallar um verðskráningu á búvörum. Þar eru framleiðendur með lagalega stoð fyrir að verðlagsnefnd hafi heimild til þess að ákveða lágmarksverð til bænda á afurðum þeirra. Þá erum við hér að ganga mun skemur en Noregur, þar hafa verið samþykktar undanþágur fyrir stórar afurðastöðvar frá banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Ef Noregur getur sérsniðið undanþágu fyrir norskan landbúnað þá getur Ísland sérsniðið undanþágu fyrir íslenskan landbúnað sem tekur mið af aðstæðum hér á landi.

Það má heyra það á viðbrögðum bænda og samtökum þeirra að þetta er það sem beðið hefur verið eftir og nú er fagnað um allt land. Þeir láta ekki úrtölur tala úr þeim kjarkinn við að berjast fyrir bættum kjörum.

Framsókn með forystu

Framsókn hefur ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, og hefur lagt til þessar breytingar allt frá árinu 2018, loksins náum við meirihluta fyrir þessum mikilvægubreytingum, Því það er þó naumur meirihluti sem vill í alvöru vernda íslenska landbúnaðinn. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum við einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytni atvinnulífsins.

Framsókn hefur tryggt að íslenska páskalambið rennur ljúflega niður í ár.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Akureyri – næsta borg Íslands

Deila grein

21/03/2024

Akureyri – næsta borg Íslands

Áhrifasvæði Akureyrar er stórt en það nær um allan Eyjafjörð og að einhverju marki austur til Húsavíkur og Mývatnssveitar. Svæðið hefur vaxið hratt á síðustu árum og nú búa þar um 8% þjóðarinnar. Vöxturinn hefur verið með svipuðum hætti og á höfuðborgarsvæðinu enda hafa sveitarfélögin í nágrenni Akureyrar einnig verið í miklum vexti og mikilvægi sterkra byggða í nágrenninu er gífurlegt, því þær styrkja Akureyri og hlutverk hennar enn frekar.

Akureyri státar af sterku og fjölbreyttu atvinnulífi og mikilli þekkingarstarfsemi og er það ekki síst þeim mannauði sem þarna býr að þakka. Mikil gróska hefur einnig verið í menningartengdri starfsemi á svæðinu og sér ekki fyrir endann á þeim vexti, sem er vel. Við finnum það vel sem búum á svæðinu hversu mikið fjölbreytt menningarstarfsemi styrkir samfélagið og eflir lífsgæði.

Akureyri og nærsvæði hennar býr einnig við öflugar alþjóðlegar tengingar sem greiða bæði fyrir fólks- og vöruflutningum. Enn frekari tengingum hefur verið komið á undanförnum tveimur árum, bæði með tilkomu Niceair sem var og hét og svo með auknum samningum við stærri erlend flugfélög svo sem EasyJet sem hefur tvímælalaust eflt ferðaþjónustu á öllu svæðinu sem heldur enn áfram að styrkjast.

Nýr tónn í umræðu um byggðamál

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá árinu 2021 kom fram að mótuð yrði stefna um að skilgreina frekar svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni. Nú er búið að skila svokallaðri Borgarstefnu og sem íbúi á Akureyri og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis fagna ég tillögunum sem þar koma fram, en í stefnunni leggur starfshópurinn til að Akureyri verði næsta borg á Íslandi. Þannig verði Akureyri sérstakt byggðastig milli höfuðborgar og stærri þéttbýliskjarna á landsbyggðunum og fái þar af leiðandi aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið og hvað varðar almenna þjónustu við landshlutann í heild. Með öðru borgarsvæði er möguleiki á dreifðari byggð í landinu, þar sem búseta á áhrifasvæði borga eflist, rétt eins og þekkist frá höfuðborgarsvæðinu.

Eitt af áherslumálum í sóknaráætlun Norðurlands eystra fyrir árin 2020-2024 var, að mótuð yrði Borgarstefna fyrir Akureyri og að svæðisbundið hlutverk bæjarins yrði skilgreint betur, sem stærsta þéttbýlisins utan stórhöfuðborgarsvæðisins. Þessi umræða er því ekki ný af nálinni og hefur skotið upp kollinum nokkrum sinnum á síðustu árum. Mikill metnaður hefur verið lagður í að bærinn okkar verði gerður að borg og því afar jákvætt að þau markmið séu þarna komin í ákveðinn farveg. Með þessum tillögum er verið að slá nýjan tón í umræðunni um byggðamál og því ber að fagna.

Svæðisborgin Akureyri

Samhliða vinnu við mótun Akureyrar sem svæðisborgar þarf áhrifasvæðið að þróast í takt sem mun skila sér í öflugra og stærra atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæðis. Í dag er mikið um að íbúar í sveitarfélögum utan Akureyrar sæki atvinnu eða aðra þjónustu til Akureyrar og hefur sá fjöldi vaxið mikið á síðustu árum. Þá þarf einnig að líta sérstaklega til stöðu samgangna í landshlutanum og frekari uppbyggingu vega. Sér í lagi þeirra sem spila sérstakt hlutverk í styttingu vegalengda á milli atvinnu- og skólasvæða en það er mikilvægur hlekkur í keðjuna hvað varðar áframhaldandi vöxt svæðisins í heild.

Við þurfum áfram að vinna ötulum höndum að eflingu og stækkun áhrifasvæðisins í góðri samvinnu milli ríkis, Akureyris og nærliggjandi sveitarfélaga.

Því þetta er jú sannkallað samvinnuverkefni.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 20. mars 2024.

Categories
Fréttir

„Staðreyndin er sú að án bóndans er enginn matur“

Deila grein

20/03/2024

„Staðreyndin er sú að án bóndans er enginn matur“

Kristinn Rúnar Tryggvason, varaþingmaður, fór í störfum þingsins yfir stöðu íslensks landbúnaðar.

„Svo virðist vera að staða bænda í allri Evrópu hafi verið virt að vettugi í of langan tíma og að þessari sögulegu og bráðnauðsynlegu starfsstétt hafi lengi verið tekið sem sjálfsögðum hlut. Staðreyndin er sú að án bóndans er enginn matur.

Sagði hann landbúnaðinn og fæðuöryggi þjóðar varða alla landsmenn. Þar undir eru neytendamál, lýðheilsumál og byggðamál.

„Það er nauðsynlegt að við horfum til hagsmuna okkar Íslendinga í þessum málum og styrkjum veikar stoðir innlendrar landbúnaðarframleiðslu. Þrotlaus vinna bænda er ekki sjálfgefin. Innlend framleiðsla hefur hvorki stærðina né burði til að viðhalda samkeppni við erlenda verksmiðjuframleiðslu sem fylgir ekki sömu reglum og stöðlum og lögð er á starfsemina hér á landi, t.d. hvað varðar sýklalyfjaónæmi,“ sagði Kristinn Rúnar.

Matvælaainnflutningur hefur stóraukist og haft lamandi áhrif á innlenda framleiðslu.

„Tollvernd Íslands í þessu samhengi þarfnast úrbóta sem allra fyrst. Þar eigum við langt í land. Aukin tollvernd og endurskoðun verðlagsgrunnsins myndi jafna aðstöðu milli innlendrar og erlendrar matvælaframleiðslu sem þjónar bæði hagsmunum bænda og neytenda. Að auki er nauðsynlegt að eftirlit með innfluttum vörum verði eflt til muna.“

„Það gengur ekki að vara komi hingað flokkuð inn sem hakkefni þegar um mun dýrari vöru er að ræða. Tollasamningur okkar við ESB þarfnast endurskoðunar en markmið hans á að vera að skapa íslenskum landbúnaði eðlileg og sambærileg samkeppnisskilyrði gagnvart erlendum stórverksmiðjum sem hann etur kappi við. Það er nánast ómögulegt að keppa við slíkar verksmiðjur þar sem allt önnur lögmál gilda.“

„Ég lýk máli mínu með því að endurtaka að ef það er enginn bóndi þá er enginn matur,“ sagði Kristinn Rúnar að lokum.


Ræða Kristins Rúnars í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

„Íslenskt staðfest“

Deila grein

20/03/2024

„Íslenskt staðfest“

„Í gær fann ég mikinn áhuga þingheims á að ræða meira um íslenskan landbúnað þegar búvörulög voru hér til umræðu. Því vil ég nýta tækifærið og ræða um upprunamerki fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir, „Íslenskt staðfest“,“ sagði Halldóra K. Hauksdóttir, varaþingmaður, í störfum þingsins.

„Á nýafstöðnu búnaðarþingi kom fram að ýmsir furðuðu sig á því hvers vegna afurðastöðvar og bændur væru ekki búnir að taka þessar merkingar upp almennt. Staðreyndin er sú að því fylgir talsverður kostnaður, enn annar kostnaðarliðurinn sem lagður er beint á bændur sjálfa. Það eru margir bændur sem kjósa að selja vöru sína beint og fara þannig ekki í gegnum afurðastöð eða sölusamtök.“

„Til þess að merkið verði almennt og til þess að jafna stöðu á milli bænda, óháð því hvernig varan er markaðssett, finnst mér eðlilegt að stjórnvöld kæmu að kostnaði við rekstur þessa upprunamerkis því að það er ekki síður hugsað fyrir neytendur en bændur. Það er eðlileg krafa neytenda í dag að þekkja uppruna vörunnar og hvernig staðið er að framleiðslu hennar,“ sagði Halldóra.

Áætlað er að kostnaður við eftirlit og rekstur merkisins verði um 70–100 milljónir á ári. „[Þ]að er meira en bændur eru tilbúnir að taka einir á sig.“

„Ég hef þó trú á því að með aðkomu stjórnvalda tækju bændur almennt þátt í verkefninu sem uppfylla skilyrðin um að matvaran eigi íslenskan uppruna. Í sögulegu samhengi hafa fáar ef einhverjar starfsgreinar leikið jafn mikilvægt hlutverk í samfélaginu. Þrotlausri vinnu íslenskra bænda hefur verið tekið sem sjálfsögðum hlut í of langan tíma. Það er löngu orðið tímabært að bændur hljóti þá virðingu og þann stuðning sem þeir eiga skilið. Stuðningur af þessu tagi væri mikilvægt skref í þá átt, því að stjórnvöld og samfélagið allt verður að horfast í augu við það að án bónda verður enginn matur,“sagði Halldóra að lokum.

Ræða Halldóru í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Hringferð formanns Framsóknar

Deila grein

20/03/2024

Hringferð formanns Framsóknar

Fyrstu fundirnir á hringferð formanns Framsóknar, Sigurðar Inga Jóhannssonar, voru haldnir á Akranesi og í Borgarnesi í gær, þriðjudag. Á fundunum voru umræður um samgöngur, þjóðlendur, landbúnað, íslenska tungu, fjarskipti, íslensku krónuna, sjávarútveg, orkumál og langtíma kjarasamningar.

„Átti frábært og gefandi samtal við Skagamenn um Sundabraut, Kjalarnes, íslenska tungu, fjármögnun vegakerfisins, leigubíla, fjarskipti, íslensku krónuna, sjávarútveg, orkumál og þau miklu tíðindi sem langtímakjarasamningar eru,“ sagði Sigurður Ingi að loknum fundinum á Akranesi.

Fyrsta fundi á hringferð minni var að ljúka á Akranesi. Átti frábært og gefandi samtal við Skagamenn um Sundabraut,…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Þriðjudagur, 19. mars 2024

Næstu fundir formanns:

Þriðjudagur 2. apríl:
Hornafirði ‒ kl. 20:00

Miðvikudagur 3. apríl:
Djúpavogi ‒ kl. 12:00
Egilsstöðum ‒ kl. 17:00
Norðfirði ‒ kl. 20:00

Fimmtudagur 4. apríl:
Vopnafirði ‒ kl. 12:00
Húsavík ‒ kl. 17:00
Akureyri ‒ kl. 20:00

Mánudagur 8. apríl:
Ísafirði ‒ kl. 20:00

Þriðjudagur 9. apríl:
Blönduósi ‒ kl. 12:00
Sauðárkróki ‒ kl. 20:00

Fimmtudagur 11. apríl:
Vík ‒ kl. 12.00
Hella ‒ kl. 17.00
Hvolsvelli ‒ kl. 20.00

„Öðrum fundi á hringferð minni var að ljúka í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þangað voru mættir Borgfirðingar og nærsveitamenn og áttu góð og oft hressileg samtöl um til dæmis samgöngur, þjóðlendur, fiskeldi, kjarasamninga, landbúnað, tengingu Vestur- og Suðurlands, Sundabraut, kolefnisspor á villigötum, framboðshvetjandi aðgerðir á húsnæðismarkaði og reiðvegi,“ sagði Sigurður Ingi að loknum fundinum í Borgarnesi.

Öðrum fundi á hringferð minni var að ljúka í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þangað voru mættir Borgfirðingar og…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Þriðjudagur, 19. mars 2024
Categories
Fréttir

Fjölgun opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu er stærsta byggðaaðgerðin sem ráðist hefur verið í

Deila grein

19/03/2024

Fjölgun opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu er stærsta byggðaaðgerðin sem ráðist hefur verið í

Kristinn Rúnar Tryggvason, varaþingmaður, flutti jómfrúarræðu sína á Alþingi í dag, undir liðnum störf þingsins. Ræddi hann byggðamál og byggðaðgerðir og nátengt atriði, landbúnaðarmál, í ræðu sinni. Rakti hann að aukinn fólksfjöldi kalli á stærri íbúasvæði, en benti réttilega á að þróunin á Íslandi sé ýktari en gerist og gengur í nágrannarlöndum.

„Hér eru nærri 80% landsmanna á stórhöfuðborgarsvæðinu á meðan sambærilegar tölur fyrir nágrannalöndin eru 25–40%. Það er margt sem skýrir þessa þróun. Í áratugi hefur nánast öll stjórnsýsla verið byggð upp hér á þessu svæði með öllum þeim margfeldisáhrifum sem því fylgir. Atvinnutækifæri og þjónusta eru því fjölbreyttari og laða að. Þá eru opinber störf langflest á þessu svæði. Þetta eru stærstu byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í,“ sagði Kristinn Rúnar.

Sagðist hann ekki þurfa að tíunda hér á Alþingi hversu mikilvægt það væri að halda landinu sem mest í byggð. Það væri til lítils að fara um landið ef innviðirnir væru engir, en þeir væru þó víða í algeru lágmarki.

Landbúnaður og byggðamál eru nátengd

„Nýleg skýrsla sýnir að streita, þunglyndi og depurð er meiri en gengur og gerist hjá samanburðarhópum meðal íslenskra bænda. Fyrir utan vinnuálag og fjárhagsáhyggjur upplifa bændur sig í sífelldri vörn, ekki bara hvað varðar innflutning og tollamál, heldur er einnig neikvæð umræða og árásir af hálfu hins opinbera þar sem land er tekið af bændum á mjög hæpnum forsendum, ýmist í nafni þjóðlendumála eða landgræðslunnar,“ sagði Kristinn Rúnar og hélt svo áfram, „[s]íðan er ráðist á heilu búgreinarnar, m.a. héðan úr þessum sal, með ótrúlegum stóryrðum og af vanþekkingu.“

„Ég skora á alla sem hér vinna að snúa nú bökum saman og styðja við byggð og landbúnað í landinu. Þar sem ég sé fram á talsvert frí frá þingstörfum treysti ég á að þið berjist fyrir þessum málum, landi og þjóð til heilla“ sagði Kristinn Rúnar að lokum.


Ræða Kristins Rúnars í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að byggð þróist og borgarsvæðið stækki með auknum fólksfjölda. En þróunin á Íslandi er ýktari en gerist og gengur í kringum okkur. Hér eru nærri 80% landsmanna á stórhöfuðborgarsvæðinu á meðan sambærilegar tölur fyrir nágrannalöndin eru 25–40%. Það er margt sem skýrir þessa þróun. Í áratugi hefur nánast öll stjórnsýsla verið byggð upp hér á þessu svæði með öllum þeim margfeldisáhrifum sem því fylgir. Atvinnutækifæri og þjónusta eru því fjölbreyttari og laða að. Þá eru opinber störf langflest á þessu svæði. Þetta eru stærstu byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í.

Það er hins vegar mikið í húfi að halda landinu sem mest í byggð. Ég þarf ekki að tíunda það hér hvers vegna. Ég nefni þó ferðaþjónustuna. Það væri ekki vænlegt að fara um landið ef engir innviðir væru þar fyrir hendi og eru þeir nú víða í algeru lágmarki. Landbúnaður og byggðamál eru nátengd. Nýleg skýrsla sýnir að streita, þunglyndi og depurð er meiri en gengur og gerist hjá samanburðarhópum meðal íslenskra bænda. Fyrir utan vinnuálag og fjárhagsáhyggjur upplifa bændur sig í sífelldri vörn, ekki bara hvað varðar innflutning og tollamál, heldur er einnig neikvæð umræða og árásir af hálfu hins opinbera þar sem land er tekið af bændum á mjög hæpnum forsendum, ýmist í nafni þjóðlendumála eða landgræðslunnar. Síðan er ráðist á heilu búgreinarnar, m.a. héðan úr þessum sal, með ótrúlegum stóryrðum og af vanþekkingu.

Ég skora á alla sem hér vinna að snúa nú bökum saman og styðja við byggð og landbúnað í landinu. Þar sem ég sé fram á talsvert frí frá þingstörfum treysti ég á að þið berjist fyrir þessum málum, landi og þjóð til heilla.“