„Við í Framsókn höfum lengi talað fyrir því að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni eða a.m.k. reikna með öðrum hætti en nú er gert. Fyrir mér er þetta sanngirnismál. Þetta er réttlætismál. Við þurfum að reikna þetta með réttum hætti þannig að það gagnist heimilum landsins eins og á að gera,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins.
„Þetta er kannski ekki rót vandans en þetta er hluti af vandanum. Við sjáum það núna og það er erfitt, ég hef sagt það áður og segi það aftur, að setja sig í spor Grindvíkinga sem er nú gert að yfirgefa heimili sín, sem er griðastaður fjölskyldna og fólks í þessu samfélagi, en að öllum líkindum mun þessi atburðarás sem við sjáum á Reykjanesi núna auka enn frekar þrýsting á húsnæðismarkaðinn.
Við verðum að bera gæfu til þess að byggja meira en við höfum gert hingað til þannig að við náum að uppfylla þá þörf sem fram undan er,“ sagði Ágúst Bjarni.
Staðan á Reykjanesi hefur áhrif varðandi væntanlegt byggingarland á sveitarfélögin á svæðinu. Lausnin felst í að stjórnvöld, ríki og sveitarfélög setjist niður og vinni að því hvernig við ætlum að byggja upp, byggja nægilegt magn íbúða.
„Nú hins vegar í tíð hæstv. innviðaráðherra er loks áætlun til staðar, en áætlun er ekki nóg. Umhverfið verður að vera með þeim hætti að hægt sé að byggja þannig að uppbygging sé raunverulega tryggð. Það gerist ekki, eins og ég segi, með óvissu á uppbyggingarsvæði, með háa vexti og hörðum lánþegaskilyrðum hjá Seðlabanka. Þetta er samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélaga og annarra hagaðila og þetta er vandamál og verkefni sem við þurfum að leysa í sameiningu,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.
Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Við í Framsókn höfum lengi talað fyrir því að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni eða a.m.k. reikna með öðrum hætti en nú er gert. Fyrir mér er þetta sanngirnismál. Þetta er réttlætismál. Við þurfum að reikna þetta með réttum hætti þannig að það gagnist heimilum landsins eins og á að gera. Þetta er kannski ekki rót vandans en þetta er hluti af vandanum. Við sjáum það núna og það er erfitt, ég hef sagt það áður og segi það aftur, að setja sig í spor Grindvíkinga sem er nú gert að yfirgefa heimili sín, sem er griðastaður fjölskyldna og fólks í þessu samfélagi, en að öllum líkindum mun þessi atburðarás sem við sjáum á Reykjanesi núna auka enn frekar þrýsting á húsnæðismarkaðinn. Við verðum að bera gæfu til þess að byggja meira en við höfum gert hingað til þannig að við náum að uppfylla þá þörf sem fram undan er.
Að þessu sögðu þá gerir þetta líka annað, þessi staða sem er uppi á Reykjanesi hefur auðvitað áhrif á alla framtíðarsýn sem sveitarfélögin á þessu svæði hafa varðandi væntanlegt byggingarland. Það er vinna sem stjórnvöld, ríki og sveitarfélög þurfa nú að setjast niður við og huga að því hvernig við ætlum að byggja upp, byggja nægilegt magn íbúða til framtíðar á þessu svæði vegna þess að þetta breytir augljóslega stöðunni. Nú hins vegar í tíð hæstv. innviðaráðherra er loks áætlun til staðar, en áætlun er ekki nóg. Umhverfið verður að vera með þeim hætti að hægt sé að byggja þannig að uppbygging sé raunverulega tryggð. Það gerist ekki, eins og ég segi, með óvissu á uppbyggingarsvæði, með háa vexti og hörðum lánþegaskilyrðum hjá Seðlabanka. Þetta er samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélaga og annarra hagaðila og þetta er vandamál og verkefni sem við þurfum að leysa í sameiningu.“

25/01/2024
„Mun það þýða að 18 ára einstaklingur geti boðið sig fram til forseta?“Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, sagði í störfum þingsins aldur ekki vera hæfniviðmið og eins eigi það ekki að liggja til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni. Fór hún síðan yfir álitamál ef samþykkt yrði að fella á brott 35 ára aldurstakmarkið um kjörgengi til forseta. Hún hefur lagt til á Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskránni að 35 ára aldurstakmarkið verði fellt á brott.
Sú breyting varðar ákvæði sem er svohljóðandi í dag: „Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.“
„Mun það þýða að 18 ára einstaklingur geti boðið sig fram til forseta? Já. Mun það þýða að 18 ára einstaklingur verði forseti? Nei, þetta ákvæði eitt og sér myndi ekkert gera það. Til þess að verða forseti þurfa einstaklingar að fara í gegnum kosningabaráttu þar sem þau þurfa að sýna fram á hæfni, reynslu og jafnvel menntun til að geta sinnt þessu embætti og verið landi og þjóð til sóma,“ sagði Lilja Rannveig.
Sagði hún okkur sem kjósendur gera ríkar kröfur til forseta lýðveldsins, þó svo þær séu ekki endilega meitlaðar í stein. „Aldur er ekki hæfniviðmið og það á ekki að leggja það til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni. Með aldrinum kemur lífsreynsla og það er alveg eðlilegt að áætla að þeir sem eru eldri séu reynslumeiri.“
„En fjölbreytni samfélagsins er mikil og þar af leiðandi ætti það ekki að vera meginregla að hafa náð ákveðnum aldri til að öðlast ákveðin réttindi eða til að gegna ákveðnum skyldum eftir að einstaklingur er samkvæmt lögum og alþjóðasáttmálum orðinn fullorðinn.
Ég fæ ekki séð að nóttina sem einstaklingur verður 35 ára verði hann mun hæfari og lífsreyndari en þegar hann var 34 ára. En ég skal glöð láta ykkur vita 2031 þegar ég hef náð þeim aldri hvort ég skipti um skoðun,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.
Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:
„Hæstv. forseti. Í gær lagði ég fram frumvarp ásamt fjórum öðrum þingmönnum Framsóknar um breytingu á stjórnarskránni. Sú breyting varðar ákvæði sem er svohljóðandi í dag, með leyfi forseta:
„Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.“
Í því frumvarpi sem við leggjum fram gerum við það að tillögu okkar að 35 ára aldurstakmarkið verði fellt á brott. Mun það þýða 18 ára einstaklingur geti boðið sig fram til forseta? Já. Mun það þýða að 18 ára einstaklingur verði forseti? Nei, þetta ákvæði eitt og sér myndi ekkert gera það. Til þess að verða forseti þurfa einstaklingar að fara í gegnum kosningabaráttu þar sem þau þurfa að sýna fram á hæfni, reynslu og jafnvel menntun til að geta sinnt þessu embætti og verið landi og þjóð til sóma. Við sem kjósendur gerum kröfur til forseta þó að þær séu ekki endilega skrifaðar í stjórnarskrána. Aldur er ekki hæfniviðmið og það á ekki að leggja það til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni. Með aldrinum kemur lífsreynsla og það er alveg eðlilegt að áætla að þeir sem eru eldri séu reynslumeiri. En fjölbreytni samfélagsins er mikil og þar af leiðandi ætti það ekki að vera meginregla að hafa náð ákveðnum aldri til að öðlast ákveðin réttindi eða til að gegna ákveðnum skyldum eftir að einstaklingur er samkvæmt lögum og alþjóðasáttmálum orðinn fullorðinn. Ég fæ ekki séð að nóttina sem einstaklingur verður 35 ára verði hann mun hæfari og lífsreyndari en þegar hann var 34 ára. En ég skal glöð láta ykkur vita 2031 þegar ég hef náð þeim aldri hvort ég skipti um skoðun.“

25/01/2024
Sterkt samfélag nær utan um GrindavíkMeð vakningu þeirra náttúruafla sem búa í iðrum jarðar á Reykjanesi blasir við nýr veruleiki fyrir kynslóðir okkar tíma á suðvesturhorni landsins. Með eldgosinu í Geldingadölum við Fagradalsfjall hinn 19. mars 2021 hófst nýtt eldgosatímabil á Reykjanesskaganum sem átti sér undanfara með jarðskjálftahrinum allt frá árinu 2019. Líkt og við þekkjum er helsta verkefni samfélagsins að ná utan þá stöðu sem skapast hefur í Grindavík vegna eldgossins og styðja við Grindvíkinga. Síðustu áratugi hefur íslenska hagkerfið skapað mikil verðmæti og því er ljóst að við sem samfélag náum utan um þá áskorun sem blasir við. Hins vegar skiptir efnahagsstjórn miklu máli um hvort vel takist til!
Jarðhræringar
Að mati vísindamanna er á Reykjanesinu að finna sex eldstöðvakerfi sé Hengilskerfið talið með, en hin kerfin á Reykjanesinu eru frá vestri til austurs; Reykjaneskerfið, Eldvörp/Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvíkurkerfið og Brennisteinsfjallakerfið. Hafa þessi kerfi mótað hið ægifagra langslag sem birtist okkur á Reykjanesinu og setur einkennandi svip á landshornið. Samkvæmt gögnum og rannsóknum sem líta aftur til síðustu 3.500 ára hafa vísindamenn getið sér til um að gosskeið hafi staðið í um 400-500 ár, með 600-800 ára goshléum þar á milli, þó svo að goshlé í stöku eldstöðvakerfi vari að meðaltali í um 1.000 ár. Sem dæmi um hversu lifandi svæðið getur orðið hafa vísindamenn meðal annars bent á að gosvirkni geti flust milli eldstöðvakerfa með 30-150 ára millibili sé miðað við síðasta gosskeið á svæðinu. Að frátalinni þeirri goshrinu sem hófst árið 2021 hefur ein meiri háttar goshrina átt sér stað á Reykjanesi frá landnámi sem hófst með Bláfjallaeldum um árið 950 og lauk með Reykjaneseldum árið 1240, en þar á milli gaus í Krýsuvíkurkerfinu með Krýsuvíkureldum en einu hraunin sem hafa nálgast höfuðborgarsvæðið á sögulegum tíma runnu einmitt úr Krýsuvíkurkerfinu og standa sunnan við Hafnarfjörð.
Húsnæðisaðgerðir ríkisstjórnarinnar fyrir Grindvíkinga
Ljóst er að eldgosið í Grindavík hinn 14. janúar síðastliðinn gjörbreytti stöðu mála í bænum. Það var landsmönnum öllum mikið áfall að sjá seinni gossprungu opnast sunnan þeirra varnargarða sem risið höfðu ofan við bæinn og horfa á hraun renna yfir íbúðarhús í bænum. Í kjölfarið virtist staðfest að ekki yrði búið í bænum næstu mánuði og misseri og hófu því stjórnvöld að framlengja gildandi aðgerðir ásamt því að kynna nýjar aðgerðir sem ætlað er að tryggja öryggi Grindvíkinga þegar kemur að húsnæði, afkomu og verðmætum. Með þeim mun ríkið skapa forsendur fyrir Grindvíkinga til að koma sér upp öruggu heimili til lengri tíma á eigin forsendum. Samhliða þessu ætla stjórnvöld að tryggja framboð á varanlegu húsnæði með ýmsu móti, þar á meðal með uppbyggingu á húsnæði á tilteknum svæðum, með kaupum á samtals 260 íbúðum í gegnum íbúðafélögin Bríeti og Bjarg. Þá verður lagt fram frumvarp á næstu dögum sem unnið hefur verið að í menningar- og viðskiptaráðuneytinu og snýr að þrengingu skilyrða varðandi almenna skammtímaútleigu íbúða og er ætlað að stuðla að auknu framboði á íbúðarhúsnæði. Sérstakur húsnæðisstuðningur verður jafnframt framlengdur til loka júní ásamt því að verða útvíkkaður til að styðja betur fjárhagslega við fólk. Aldrei hefur verið jafnbrýnt að stórauka framboð af húsnæði á Íslandi.
Afkoma og verðmæti varin
Stjórnvöld hafa einnig lagt kapp á að tryggja afkomuöryggi Grindvíkinga og stuðla að verðmætabjörgun eigna. Launastuðningur til þeirra sem ekki geta sótt atvinnu í bænum vegna ástandsins verður framlengdur til loka júní, og lengur ef þörf krefur. Þá hefur áhersla verið lögð á, eftir því sem aðstæður leyfa, að komast hjá verðmætatjóni. Það verður áfram unnið að því að gera Grindvíkingum kleift að bjarga verðmætum í samvinnu við helstu viðbragðsaðila. Í því samhengi er vert að nefna að unnið er að samstarfi við flutningafyrirtæki til að styðja við þá Grindvíkinga sem ekki hafa tök á að sækja verðmæti á eigin spýtur ásamt því að aðstoða fólk við að fá öruggt geymsluhúsnæði til að geyma innbú og önnur verðmæti eins og þarf. Atvinnulífið í Grindavík er merkilega fjölbreytt og viðamikið og skiptir máli í utanríkisviðskiptum landsins. Stærstu atvinnugreinarnar snúa að ferðaþjónustu og sjávarútvegi, en ýmsar tegundir greina hafa náð að koma sér vel fyrir, auk starfa á vegum sveitarfélagsins og hins opinbera. Það verður mikilvægt að tryggja að þau verðmæti sem sköpuð hafa verið í Grindavík verði áfram til að styðja við þjóðarbúið. Það hefur gengið betur en á horfðist varðandi sjávarútveginn, þar sem samstarf og samstaða í greininni hefur komið til góða við að bjarga verðmætum. Gengi ferðaþjónustunnar hefur verið misjafnt. Lokun Grindavíkur hefur komið þungt niður á minni fyrirtækjum. Eitt öflugasta fyrirtækið á svæðinu, Bláa lónið, hefur búið við mikla óvissu vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Afar brýnt er að klára áhættumat almannavarna á svæðinu til að draga úr þeirri óvissu. Bláa lónið er sá ferðamannastaður sem hefur einna mest aðdráttarafl fyrir þá sem heimsækja landið. Tæplega 900 manns starfa hjá Bláa lóninu og afleidd eru störf afar mikilvæg fyrir Reykjanesið og alla ferðaþjónustuna.
Mótvægisaðgerðir skipta öllu um efnahagsframvinduna
Það er meira en að segja það að koma heilu byggðarlagi fyrir í nýju húsnæði, en það hefur ekki staðið á ríkisstjórninni að gera sitt besta í þeim efnum. Hins vegar er afar brýnt að gæta að þjóðhagslegum stærðum þegar horft er fram á veginn. Glíman við verðbólguna hefur verið ein helsta áskorunin frá því að heimsfaraldri lauk. Leikurinn í þeirri baráttu hefur verið að snúast í rétta átt á allra síðustu vikum og mánuðum. Húsnæðisliðurinn er afar þungur í verðbólgumælingum hér á landi. Á síðasta áratug hefur óvíða verið jafn mikill efnahagslegur uppgangur eins og á Íslandi. Vegna hins opna vinnumarkaðar hefur framboðsvandinn í hagkerfinu á síðustu misserum einna helst birst á vettvangi húsnæðismarkaðar. Það er því mikilvægt að öllum árum sé róið að því að styrkja framboðshliðina á húsnæðismarkaði, hvort sem það er á sviði framboðs lóða eða byggingargerðar. Húsnæðismarkaðnum verður þó ekki breytt á einni nóttu og má væntanlega búast við tímabundnum þrýstingi, en mikilvægt verður að taka á framboðshliðinni sem allra fyrst til hagsbóta fyrir framtíðina. Stjórnvöld þurfa jafnframt að horfa til húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs, t.d. með samanburði á fyrirkomulagi hans í nágrannalöndunum. Þessi umræða hefur verið uppi á borðum hér á landi í nær 20 ár og því tímabært að skoða það nánar með framtíðina í huga. Hér er ekki verið að tala um að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs heldur að láta hann verða samanburðarhæfari. Vera kann að einnig þurfi að grípa til annarra þjóðhagsvarúðartækja til að draga úr spennu á húsnæðismarkaði, líkt og var gert á Nýja-Sjálandi eftir stóra jarðskjálftann í Christchurch árið 2011.
Á síðustu viku hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í daglegum samskiptum við íbúa í Grindavík. Það sem einkennir hópinn er dugnaður, samkennd, þrautseigja og viljinn til að ráða sínum örlögum sjálfur. Á þessari stundu er óljóst hver framtíð Grindavíkur verður og verður það í höndum okkar færasta vísindafólks að meta aðstæður af kostgæfni og taka svo upplýsta ákvörðun í samvinnu við íbúa og fyrirtækin. Þrátt fyrir alla þá óvissu sem einkennir stöðuna, þá er eitt ljóst, en það er að stjórnvöld standa með Grindvíkingum og munu málefni þeirra áfram njóta forgangs við ríkisstjórnarborðið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. janúar 2024.

24/01/2024
Staðan á Íslandi er grafalvarleg – öryggi og orkuöflun er í húfi í nýjum raunveruleikaIngibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, var málshefjandi í sérstakri umræðu um orkumál á Alþingi og var umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til andsvara.
„Orkumál og orkuöryggi þjóðarinnar hefur fengið mikla umfjöllun undanfarnar vikur sem reyndar kemur ekki til af hinu góða. Staðan á Íslandi er grafalvarleg. Kyrrstaða hefur ríkt um árabil og niðurstaðan er sú að orkuöryggi okkar er ógnað. Sú sorglega staða að við sjáum okkur knúin til þess að leggja fram frumvarp til að tryggja heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum forgang að raforku og horfum á fyrirtæki neyðast til að brenna olíu vegna skerðingar raforku til að halda daglegri starfsemi sinni er með öllu óásættanleg,“ sagði Ingibjörg.
Fór hún í máli sínu yfir að skerðing raforku kosti ríkissjóð, atvinnulífið og alls samfélagið talsverðar fjárhæðir. Eins væri mögulega hægt að spyrja sig hvort að upp sé kominn forsendubrestur varðandi samninga fyrirtækja vegna ótryggrar orku. En slíkir samningar eru mikilvægir til að fullnýta kerfið. Á móti kemur að gera verði ráð fyrir skerðingum, hefur þeim fjölgað og vara í lengri tíma en áður. Fyrirséð er að þeim fjölgi enn frekar á næstu árum.
„Orkuöflun undanfarin ár hefur ekki verið næg þrátt fyrir ábendingar sérfræðinga um yfirvofandi orkuskort og þrátt fyrir áskoranir í loftslagsmálum, fólksfjölgun og fjölgun ferðamanna og aukna framleiðni fyrirtækja,“ sagði Ingibjörg.
Aflaukning í kerfinu hefur numið um 384 MW á 16 ára tímabili, það nemur um 24 MW á ári.
„Ljóst er að stórauka þarf orkuöflun ef við ætlum að tryggja orkuöryggi hér á landi og ná okkar markmiðum í loftslagsmálum.“
„Eldsumbrot á Reykjanesskaga sýna okkur hvað náttúruhamfarir geta haft alvarlegar afleiðingar. Þar var og er Svartsengi í raunverulegri hættu vegna nálægðar við eldsumbrotin. Þaðan fær Reykjanesið heitt vatn og orku eða um 30.000 manns og þá er ekki talin atvinnustarfsemin sem þetta getur haft áhrif á.
Orkuöryggi, orkuöflun og flutningskerfið er í húfi í nýjum raunveruleika.
„Ítrekað hefur verið bent á mikilvægi þess að koma upp hringtengingu hér á landi, m.a. svo hægt sé með góðum hætti að flytja orku á milli landsvæða, nýta virkjanir betur og minnka sóun. Það sem hefur tekið áratugi þarf núna að taka mánuði eða örfá ár án þess þó að gefa nokkurn afslátt af þeim umhverfisþáttum er tengjast leyfisveitingum. Við hugum vissulega að vernd náttúrunnar en sagan hefur sýnt sig að vernd og nýting getur farið saman,“ sagði Ingibjörg.
Nefndi Ingibjörg að Landsnet sé að ráðast í framkvæmdir við flutningslínu frá Akureyri til Grundartanga og hún sé í forgangi. En flókið ferli muni taka langan tíma.
„Það er grundvallaratriði að þessari framkvæmd verði flýtt eins og unnt er, enda um þjóðaröryggi að ræða. Í fyrra hefði línan komið í veg fyrir skerðingar sem kostuðu þjóðarbúið um 5 milljarða. Vatnsstaða lóna var með þeim hætti á þeim tíma að aflaukning hefði verið á við eina Hvammsvirkjun. Þarna er hægt að auka aflið í kerfinu án þess að ráðast í virkjunarframkvæmdir,“ sagði Ingibjörg.
„Rammaáætlun 3 var samþykkt í upphafi þessa kjörtímabils en í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar var bent á mikilvægi þess að endurskoða rammaáætlun og þar með verndun heilu vatnasviðanna. Það þarf að nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast hér og alls ekki útiloka virkjunarmöguleika til framtíðar. Þegar kostur er settur í verndarflokk í rammaáætlun er allt vatnasviðið verndað. Það hefur í för með sér að fleiri kostir á sama svæði sem gætu komið til greina komast ekki inn í rammaáætlunarferlið. Þetta útilokar kosti sem geta verið hagkvæmir en við vitum öll að vatnsföll á Íslandi eru ekki óþrjótandi. Mögulega þarf að skoða fleiri þætti þegar ákvörðun er tekin varðandi orkukosti, þætti er varða orkuöryggi, köld svæði og markmið ríkisstjórnar hverju sinni.“
„En það er afar ánægjulegt að sjá kollega mína hér á þingi loksins kveikja á perunni og átta sig á þeirri stöðu sem við erum í. Ég bind vonir við að yfirlýsingar þingmanna og heilu þingflokkanna séu ekki orðin tóm enda er ljóst að margir þessara þingmanna þurfa að taka U-beygju á sinni afstöðu, t.d. hvað varðar friðun og regluverk. Við þurfum að setja okkur markmið um hve mikillar orku við ætlum að afla til framtíðar og aðgerðaáætlun er lýtur að því hvernig við ætlum að afla hennar.
Ég vil nýta hér tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hversu mikillar orku hann telur okkur þurfa að afla til framtíðar og hvort ráðherra hafi sett upp aðgerðaáætlun til að afla þeirrar orku. Eins vil ég spyrja ráðherra hvort hann telji að í ljósi yfirvofandi orkuskorts sé þörf á frekari aðgerðum ríkisstjórnarinnar umfram sameiningu stofnana og ef svo er, hverjar þær eru,“ sagði Ingibjörg að lokum.

23/01/2024
Sjaldnast ekki annar valkostur en að ferðast til og frá flugvelli á bílLíneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi fyrirhuguð bílastæðagjöld á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum í störfum þingsins. Áformin áttu að koma framkvæmda nú um næstu mánaðarmót, en hefur verið frestað. Telur hún mikilvægt að áformin verði skoðuð, m.a. í tengslum við byggðastefnu og loftslagsmál.
„Hvaða áhrif hafa bílastæðagjöld á þessum stöðum, t.d. á aðgengi og kostnað við heilbrigðisþjónustu og nám?,“ sagði Líneik Anna.
Ræddi Líneik Anna að það hafi fengist viðurkenning með tilkomu loftbrúarinnar að innanlandsflug sé liður í almenningssamgöngum. Þannig sé tryggður aðgangur þeirra sem búa fjarri höfuðborginni að ýmiss konar sérfræðiþjónustu og menningarviðburðum.
„Í flestum tilfellum hafa þeir sem þurfa að nota flugvöllinn ekki annan valkost en að ferðast til og frá flugvelli á bíl. Ef bílastæðagjöldum verður bætt ofan á kostnaðinn vakna spurningar um hvort Sjúkratryggingar muni endurgreiða viðbótina. Verður bætt í ferðasjóð ÍSÍ eða verður bætt í Loftbrúna?,“ sagði Línek Anna að lokum
Ræða Líneikar Önnur í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Þingfundir þessa árs hefjast við þær aðstæður að hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum vegna þeirra náttúruhamfara sem þar ganga yfir. Öll veltum við fyrir okkur leiðum til að styðja við samfélagið, fjölskyldur og einstaklinga í þeim miklu breytingum á daglegu lífi sem þau standa öll frammi fyrir og vil ég senda mínar bestu óskir til allra Grindvíkinga. Við þurfum þétta samvinnu um allt samfélagið næstu daga og mánuði við að útfæra leiðir sem draga úr óvissunni og gott er að finna þann mikla vilja til samvinnu sem er hér á þinginu og í samfélaginu öllu varðandi þau málefni sem við þurfum að greiða úr.
En nú langar mig að koma inn á fyrirhuguð bílastæðagjöld á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum, áform sem áttu að koma til framkvæmda 1. febrúar en hefur verið frestað. Ég legg mikla áherslu á að áformin verði þá skoðuð í víðara samhengi, m.a. í tengslum við byggðastefnu og loftslagsmál. Hvaða áhrif hafa bílastæðagjöld á þessum stöðum, t.d. á aðgengi og kostnað við heilbrigðisþjónustu og nám? Innanlandsflug er mikilvægur liður í samgöngukerfi landsins og í því felst aðgangur þeirra sem búa fjarri höfuðborginni að ýmiss konar sérfræðiþjónustu og menningarviðburðum. Innanlandsflug er liður í almenningssamgöngum og á því fékkst nokkur viðurkenning með tilkomu loftbrúarinnar. Í flestum tilfellum hafa þeir sem þurfa að nota flugvöllinn ekki annan valkost en að ferðast til og frá flugvelli á bíl. Ef bílastæðagjöldum verður bætt ofan á kostnaðinn vakna spurningar um hvort Sjúkratryggingar muni endurgreiða viðbótina. Verður bætt í ferðasjóð ÍSÍ eða verður bætt í loftbrúna?“
Óvissu vegna íbúðarhúsnæðis eytt

22/01/2024
Óvissu vegna íbúðarhúsnæðis eyttRíkisstjórnin hefur í dag kynnt áform um aðgerðir sem miða að því að skapa forsendur fyrir öruggari framtíð fyrir Grindvíkinga og eyða þeirri óvissu sem hefur verið vegna fordæmalausra aðstæðna. Aðgerðirnar snúa að því að gera Grindvíkingum kleift að koma sér upp öruggu heimili, tryggja örugga afkomu og aðstoð við að bjarga verðmætum.
Brúa bil fyrir íbúa án þess að slá samfélagið af

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði að hingað til hefðu stjórnvöld verið í skammtímaúrræðum meðan vonir stóðu til að um skammtímavanda væri að ræða. Þær leiðir sem var farið í fyrr í vetur verða framlengdar. Einnig verður unnið að því að fjölga þeim íbúðum og húsum sem standa Grindvíkingum til boða.
Hann sagði að með því að ríkið eyddi óvissu Grindvíkinga gæfist þeim færi á að kaupa sér eigin húsnæði ef þeir vildu. Enn sé stór áskorun fram undan hvað varði greiðsluskjól og húsaskjól.
„Annars vegar eru við þess vegna að bæta í þær íbúðir sem leigufélagið Bríet er að kaupa og stækka þann hluta. Við erum að skoða aðrar leiðir sem geta komið til álita til meðallangs tíma eins og koma upp bráðabirgðahúsnæði fyrir einstaklinga þar sem væri hægt að koma fyrir þó nokkuð mörgum húseiningum. Það er líka áfram til skoðunar að flytja hér inn húseiningar til að auka hér framboð á markaði.“
Sigurður Ingi segir að um leið og það sé hægt að eyða óvissunni hjá íbúum þá geti það fólk farið út á markaðinn og keypt sér hús með því eigið fé það sem það á. „Með þessum hætti erum við að brúa bil fyrir fólkið án þess að slá af heilt samfélag. Og samfélagið sjálft þarf svolítið að taka þessa umræðu.“
Hann segir að bæjarfulltrúar Grindavíkur hafi verið jákvæðir gagnvart þessari nálgun.
„Við segjum líka að það geti vel komið til álita, ef hamfararnar halda áfram eða stækka, þá hreinlega þurfi hreinlega að taka hina ákvörðunina seinna.“
Frá því að atburðarásin sem enn er í gangi í Grindavík hófst þann 10. nóvember sl. hefur ríkisstjórnin fylgst grannt með stöðu mála. Í ljósi umfangs verkefnisins og áhrifa þess á hagkerfið, hefur ríkisstjórnin fundað með fjölmörgum aðilum í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Auk þess að funda með íbúum bæjarins og bæjarstjórn hefur ríkisstjórnin fundað með Veðurstofu Íslands, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, Seðlabanka Íslands, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun auk fjölda jarðvísindafólks og sérfræðinga innan og utan Stjórnarráðsins. Fyrr í dag funduðu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra með bæjarstjórn Grindavíkur um þá ákvörðun sem nú er greint frá. Þá funduðu þau einnig með forystufólki allra flokka á Alþingi.
Liðin er rétt rúm vika frá því við sáum hraun flæða inn í byggðina í Grindavík. Það var hrikalegt að sjá. Sú leið sem…
Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Mánudagur, 22. janúar 2024
Markmið aðgerðanna eru eftirfarandi:
Örugg heimili
Ríkið mun skapa forsendur fyrir Grindvíkinga til að koma sér upp öruggu heimili á eigin forsendum. Ríkið mun gefa Grindvíkingum kost á að leysa út þá fjármuni sem bundnir eru í íbúðarhúsnæði þeirra auk þess að grípa til aðgerða til að tryggja framboð á íbúðarhúsnæði fyrir Grindvíkinga.
- Óvissu vegna íbúðarhúsnæðis eytt: Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er í Grindavík og þeirrar óvissu sem ríkir um búsetu í bænum á næstunni hefur ríkisstjórnin ákveðið að bjóða upp á að einstaklingar geti nýtt fjármuni sem nú eru bundnir í húsnæði þar til fjármögnunar nýrra heimila, óski þeir eftir því.
- Framboð á húsnæði: Unnið verður markvisst að því að tryggja framboð á varanlegu húsnæði fyrir Grindvíkinga. Í því felst meðal annars að ríkið mun ráðast í uppbyggingu á húsnæði á tilteknum svæðum auk þess að skapa forsendur sem tryggja Grindvíkingum forgang að húsnæði. Einnig er unnið að því að þrengja skilyrði varðandi skammtímaútleigu íbúða.
- Skammtíma húsnæði: Áfram verður unnið að því að tryggja Grindvíkingum húsnæði þar til þeir geta komið sér fyrir í varanlegu húsnæði. Bríet mun kaupa 50 íbúðir til viðbótar við þær 80 sem keyptar voru í desember og þær 70 sem unnið er að kaupum að þessa dagana. Jafnframt vinnur Bjarg íbúðafélag að því að kaupa 60 íbúðir fyrir Grindvíkinga í samræmi við samstarfsyfirlýsingu frá 24. nóvember. Í heild hefur ríkið þannig keypt 260 íbúðir frá upphafi tímabilsins.
- Húsnæðislán hjá lífeyrissjóðum: Ríkið mun taka á sig greiðslu vaxta og verðbóta af húsnæðislánum í Grindavík hjá þeim sem kjósa að selja ekki húsnæði sitt til samræmis við aðgerðir bankanna.
Örugg afkoma
Ríkið mun halda áfram að tryggja Grindvíkingum örugga afkomu með húsnæðisstuðningi.
- Framfærsla: Afkoma þeirra sem ekki geta sótt atvinnu í Grindavík vegna aðstæðna verður áfram tryggð með framlengingu á stuðningi við greiðslu launa frá ríkinu auk framlags í lífeyrissjóð. Þetta fyrirkomulag verður í gildi til loka júní og verður endurskoðað og framlengt eftir því sem þörf krefur.
- Húsnæðisstuðningur: Sértækur húsnæðisstuðningur við Grindvíkinga verður uppfærður og framlengdur til loka júní. Stuðningurinn mun nú miða við fjölda heimilisfólks og verður allt að 90% af kostnaði við leigu í stað 75% áður til að ná betur utan um allan kostnað sem fellur til vegna leigu á húsnæði.
Örugg verðmæti
Frá því í nóvember hafa viðbragðsaðilar nýtt öll tiltæk ráð við að bjarga eins miklum verðmætum og hægt er frá skemmdum. Unnið verður áfram að því að Grindvíkingar geti fengið aðgengi og aðstoð við að bjarga verðmætum og innbúi frá heimilum sínum og koma í örugga geymslu.
- Aðgengi: Áfram verður unnið með almannavörnum, bæjaryfirvöldum og viðbragðsaðilum að gera Grindvíkingum kleift að nálgast heimili sín til þess að sækja innbú og verðmæti þegar aðstæður leyfa.
- Flutningar: Stjórnvöld eru að undirbúa samstarf við fyrirtæki sem sérhæfa sig í flutningum sem geta veitt aðstoð til þeirra Grindvíkinga sem ekki hafa tök á að annast slíkt sjálf við sækja verðmæti.
- Geymslur: Unnið er að því að veita Grindvíkingum aðstoð við að fá aðgang að öruggu geymsluhúsnæði þar sem hægt er að geyma verðmæti og innbú á meðan þörf krefur.
Framkvæmd aðgerða
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar miðast við að útfærsla aðgerða og nauðsynleg lagafrumvörp muni liggja fyrir eigi síðar en snemma í febrúar að afloknu samráði við Grindvíkinga og aðra hagaðila. Áfram verður unnið náið með bæjarstjórn Grindavíkur að öllum þessum viðfangsefnum og einnig stutt við starfsemi sveitarfélagsins við þessar erfiðu aðstæður. Undirbúningur, greiningarvinna og samtöl við hagaðila er þegar hafin.
Sett verður á laggirnar samráðsnefnd með fulltrúum allra flokka á Alþingi undir forystu fjármála- og efnahagsráðherra þar sem farið verður yfir ólíkar leiðir og útfærslur til að ná þessum markmiðum.

20/01/2024
Talsmaður nýrra skatta, eða sanngirni?Undanfarið hefur mér verið tíðrætt um svokallaðan hvalrekaskatt. Að setja á tímabundinn skatt, við þær óvenjulegar aðstæður sem nú eru uppi, á hagnað fjármálafyrirtækja sem sömuleiðis er tilkominn vegna óvenjulegra aðstæðna. Fyrir þetta hef ég fengið hvatningu, en líka gagnrýni þar sem ég er hluti af stjórnarmeirihluta og stjórnarþingmaður og þannig hafi ég þetta á mínu valdi. Ég hef líka verið kallaður popúlisti. Ég skil þetta allt saman, þrátt fyrir að vera einlægt ósammála því síðasta.
Ég ætla mér ekki að fara í vörn enda stend ég staðfastur með því sem ég segi. Hins vegar held ég að flestir þeir sem til mín þekkja viti vel að ég er ekki talsmaður óþarflega hárra skatta eða óþarfa skatta almennt. Aðrir hafa séð um það. Þetta geta allir séð sem skoða fyrri verk mín og okkar. Ég get sérstaklega bent á tíma minn sem formaður bæjarráðs í Hafnarfirði á síðasta kjörtímabili þar sem við vorum í góðu meirihlutasamstarfi. Það tímabil lækkuðum við til að mynda skatta á fyrirtæki umtalsvert og héldum sköttum á fólki hóflegum. Það sést vel þegar litið er til þess að lítil sem engin eftirspurn hafði verið eftir atvinnulóðum í bænum, en eftir 17 punkta lækkun á fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði, þar sem við fórum úr 1,57 í 1,40, sóttu í Hafnarfjörð öflug fyrirtæki með tilheyrandi auknum umsvifum í bæjarfélaginu. Ég hef gagnrýnt sveitarfélög fyrir of miklar gjaldskrárhækkanir um áramótin við núverandi aðstæður. Hafa þau efni á því að „afsala“ sér þeim tekjum? Nei, í rauninni ekki þar sem hér hafa verið gerðar auknar kröfur um þjónustu án þess að tekjustofnar sveitarfélaga hafi breikkað. Hafa þau efni á því að vera með háa vexti á sínum lánum? Nei, það hafa þau svo sannarlega ekki, þar sem sveitarfélög eru mörg hver þegar of skuldug og hver prósenta í hærri vöxtum hefur þar umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur sveitarfélaga.
Það sem ég er hér að segja er þetta; það er verkefni allra að ná niður verðbólgu og vöxtum og styðja viðkvæma hópa. Geta bankar létt undir með fólki, já. Geta sveitarfélög og ríki lagt hönd á plóg, já. Geta önnur fyrirtæki tekið þátt með því að sleppa því að setja allar hækkanir beint út í verðlag – svarið hér er líka já og þar skiptir engu hvort um sé að ræða fyrirtæki á almennum eða opinberum markaði. Þetta gerum við einungis öll saman ef vel á að takast til og ná markmiðinu.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Greinin birtist fyrst á visir.is 20. janúar 2024.

18/01/2024
1,7 milljarða tekjur ferðaþjónustunnar á dagFerðaþjónustuvikan stendur yfir þessa dagana en markmið hennar er að auka vitund um mikilvægi ferðaþjónustu og efla samstarf og fagmennsku í greininni með fróðlegri og skemmtilegri dagskrá. Íslenskri ferðaþjónustu hefur vaxið fiskur um hrygg frá upphafi síðasta áratugar. Þannig hefur fjöldi erlendra ferðamanna vaxið úr tæpum 460 þúsund árið 2010 í rúmar 2,2 milljónir á síðasta ári. Ferðaþjónustan hefur verið að ná aftur styrk sínum, eftir áföll síðustu ára. Síðasta ár var næststærsta árið í ferðaþjónustu hér á landi, en stærsta árið var 2018 þegar rúmar 2,3 milljónir heimsóttu landið. Samhliða hefur ferðaþjónustan orðið að þeim burðarási í íslensku efnahagslífi sem skapar mestar gjaldeyristekjur. Þannig skapaði greinin 448 milljarða í gjaldeyristekjur árið 2022 en heildarneysla innlendra og erlendra ferðamanna hér á landi sama ár nam 635 milljörðum kr., sem gerir um 1,7 milljarða í tekjur á dag, en hlutur beggja hópa hefur vaxið mikið.
Sá mikli gjaldeyrisstraumur sem ferðaþjónustan skapar skiptir lítið, opið hagkerfi eins og okkar gríðarlegu máli. Hann styður við gengi krónunnar og stuðlar þannig að lægri verðbólgu en ella ásamt því að þjóna sem öryggissjóður ef stór og óvænt áföll eiga sér stað sem haft geta neikvæð áhrif á gjaldeyrisöflun. Umturnun varð á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins með tilkomu og vexti ferðaþjónustunnar, sem skapar stöðugan straum gjaldeyristekna, vel á annan milljarð króna á degi hverjum. Það má meðal annars greina í stöðu gjaldeyrisvarðaforða Seðlabankans og vaxandi eignum lífeyrissjóða á erlendri grundu.
Ferðaþjónustan hefur að sama skapi bætt búsetuskilyrði í landinu öllu, en um er að ræða stærstu sjálfsprottnu byggðaaðgerð Íslandssögunnar. Hærra atvinnustig hringinn um landið sem og stóraukið framboð af þjónustu í afþreyingu, gistingu, mat og drykk eða aðgengi að náttúruperlum er eitthvað sem íbúar landsins jafnt sem erlendir gestir njóta góðs af. Vissulega hafa fylgt vaxtarverkir þeim öra vexti sem var á fyrri árum í komu erlendra ferðamanna til landsins. Hins vegar hefur mjög margt áunnist á síðustu árum í að byggja upp nauðsynlega innviði til að taka á móti þessum aukna fjölda.
Fjölmörg sóknartækifæri eru til staðar til þess að gera enn betur í þessum efnum til að stuðla að sjálfbærum vexti. Í menningar- og viðskiptaráðuneytinu er unnið af fullum krafti að gerð nýrrar ferðaþjónustustefnu til ársins 2030 ásamt aðgerðaáætlun. Meginstefið í henni er að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf í sátt við land og þjóð. Við viljum styrkja umgjörð ferðaþjónustunnar og skapa henni betri skilyrði til að vaxa og dafna í takt við fyrrnefnda framtíðarsýn. Ferðaþjónustuvikan er einmitt góður vitnisburður um þann árangur, kraft og viðnámsþrótt sem einkennir íslenska ferðaþjónustu. Ég óska greininni til hamingju með vikuna og hlakka til að kynna mér alla þá fjölbreytni sem ferðaþjónustan hefur að geyma á Mannamóti ferðaþjónustunnar sem fram fer í Kórnum í Kópavogi í dag.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. janúar 2024.

16/01/2024
Einar Þorsteinsson nýr borgarstjóri Reykjavíkur16. janúar 2024 markar stór tímamót í sögu Framsóknar í Reykjavík. Í dag fóru fram stólaskipti í Ráðhúsinu þegar Einar Þorsteinsson tók við embætti borgarstjóra fyrstur Framsóknarmanna. Til gamans má geta að fyrir 100 árum var Framsóknarfélag Reykjavíkur stofnað, það er því vel við hæfi að Framsóknarfélag Reykjavíkur fagni stórafmælinu með þessum hætti.
Einar leiddi lista Framsóknar í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum 14. maí 2022. Þar vann Framsókn stóran kosningasigur með tæp 19% atkvæða og fóru úr engum í fjóra borgarfulltrúa. Framsókn myndaði meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn eftir kosningarnar. Þá var einnig gert samkomulag að þáverandi borgarstjóri Dagur B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson myndu skipta milli sín embætti borgarstjóra á kjörtímabilinu.
Björg Magnúsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður borgarstjóra. Hún starfaði áður hjá Ríkisútvarpinu og gerði garðinn frægan í þáttunum Kappsmál. Björg brennur fyrir fjölskyldumálum og borgarmálum. Hana langar að leggja sitt af mörkum til að styðja við blómlegt stjórnmálastarf Framsóknar í Reykjavík.
Þá hefur Unnur Þöll Benediktsdóttir verið ráðin framkvæmdastjóri borgarstjórnarhóps Framsóknar. Unnur Þöll var kosningastjóri í borgarstjórnarkosningum 2022 auk þess er hún varaborgarfulltrúi og fyrrum formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. Hún starfaði einnig sem starfsmaður þingflokks Framsóknar um tíma. Unnur Þöll hefur lengi verið virk í starfi flokksins og því reynslumikil tenging inn í grasrótina.
Framsókn óskar Einari velgengni í nýju embætti og hvetur hans lið í Reykjavíkurborg til áframhaldandi góðra verka.
Hér að neðan má finna ræðu Einars sem hann flutti við borgarstjóraskiptin:
Forseti, ágæta borgarstjórn.
Ég vil byrja ræðu mína á því að þakka fráfarandi borgarstjóra fyrir vel unnin störf í þágu borgarbúa. Fáir hafa sýnt Reykjavík jafn mikla ræktarsemi og Dagur B Eggertsson sem setið hefur í borgarstjórn frá árinu 2002 og sem borgarstjóri í rúman áratug.
Ég vil þakka borgarstjórn fyrir traustið sem mér hefur verið sýnt með þessari atkvæðagreiðslu í dag. Ég finn sannarlega til þeirrar miklu ábyrgðar sem mér er falin með þessu starfi og ég hlakka til þess að þjóna borgarbúum úr stóli borgarstjóra Reykjavíkur.
Þegar ég tók þá ákvörðun í febrúar 2022 að bjóða mig fram til borgarstjórnar þá gerði ég mér kannski ekki alveg grein fyrir því út í hvað ég var að fara. Að stíga inn á vettvang stjórnmálanna er enda alltaf óvissuferð – en hún getur leitt mann á fallegar slóðir. Að fara í kosningabaráttu, ræða við íbúana, finna hvernig hjörtun slá og heyra hvað brennur á fólki er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert og ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem kjósendur sýndu Framsókn í síðustu kosningum. Sá stuðningur við Framsókn birtist hér í dag.
Nú eru 18 mánuðir liðnir frá því að við hófum þetta kjörtímabil. Og ég ætla ekki að halda því fram að það hafi allt verið dans á rósum. Áskoranirnar eru margar og þannig verður það áfram. Við höfum verið í stanslausri hagræðingu frá því að þessi meirihluti tók við og við verðum í henni áfram enda er markmiðið að skila afgangi á næsta ári – en það gerist ekki nema við höldum áfram þétt um budduna.
En hagræðing er ekki bara hagræðingarinnar vegna. Við erum hér öll inni með það sameiginlega markmið að vilja bæta þjónustuna við íbúa. En við munum ekki ná almennilegum árangri í því að bæta þjónustuna nema að reksturinn sé sjálfbær.
Forseti – Ég vil nefna aðeins samstarfið hér í borginni. Ég held að á þessu kjörtímabili hafi verið meiri sátt og meiri samvinna þvert á flokka í ráðum og nefndum borgarinnar en á síðasta kjörtímabili og ég tel að borgarbúum þætti ánægjulegt að sjá þá breytingu endurspeglast með enn sterkari hætti hér í borgarstjórnarsalnum.
Hér eru reynslumiklir borgarfulltrúar í bland við nýtt fólk, öll með ólíkan bakgrunn, þekkingu og reynslu og í þessum hópi býr mikill mannauður – og öll höfum við umboð frá kjósendum. Ég held að borgarbúar vilji að við vinnum saman og ég mun sem borgarstjóri leitast við að ná sátt um mál.
Ég ætla ekki að fara að rekja öll þau áherslumál sem ég vil setja á oddinn á þessum tveimur og hálfu ári sem eftir eru af þessu kjörtímabili enda er þessi fundur ekki til þess ætlaður. En mig langar að nefna nokkur mál sem ég held að við getum öll, þvert á flokka, unnið saman að.
Við getum hjálpast að við að greiða fyrir húsnæðisuppbyggingu – sem er eitt mikilvægasta hagsmunamál Reykvíkinga og reyndar þjóðarinnar allrar í dag. Þar þurfum við að stíga með ákveðnari hætti inn í málaflokkinn, leita nýrra leiða til þess að rjúfa kyrrstöðuna sem ríkt hefur undanfarin misseri aðallega vegna vaxtastigs og mikillar verðbólgu.
En svo vil ég minnast á börnin og framtíð þeirra. Leik- og grunnskólastarf borgarinnar er eitt okkar allra mikilvægasta verkefni. Við þurfum að styðja við skólastarfið með ákvörðunum okkar, en ég held að það skipti líka miklu máli að tala fallega um það metnaðarfulla starf sem er unnið á hverjum einasta degi.
Við getum verið sanngjörn við börnin og foreldrana í borginni þegar við ræðum um PISA, og við þurfum að sýna kennurum og skólafólki virðingu og þakklæti fyrir þeirra krefjandi starf – því ég held að kennarastarfið hafi aldrei verið meira krefjandi en nú um stundir þegar bakgrunnur nemenda verður sífellt fjölbreyttari.
Munum líka að Reykjavík er dásamleg borg. Hún er höfuðborg Íslands og við getum verið stolt af öllu því góða sem við eigum saman, Reykvíkingar. Okkar dásamlega menningar og íþróttastarfsemi, grænu svæðin, samfélag eldri borgara, lifandi næturlíf, öflug fyrirtæki, háskólasamfélag og blómlegt mannlíf í öllum hverfum.
Og vinnustaðurinn Reykjavík er afar mikilvægur – og þegar við ræðum um starfsmannafjölda og vinnandi hendur í samhengi við rekstur borgainnar, þá er rétt að hafa vakandi auga fyrir aðhaldi – en höfum þá í huga að langflestar eru þessar vinnandi hendur að veita þjónustu. Þær eru að leiða lítil börn á leikskólum, skrifa með tússpenna á töflu í kennslustofu, aðstoða fatlaðan einstakling við daglegt líf, moka snjó eða hirða sorp. Verum ánægð með það sem við erum að gera um leið og við erum metnaðarfull í að gera enn betur.
Beinum sjónum okkar að málefnum dagsins í dag. Það er vissulega afar mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn – en munum að framtíðin er ekki bara eftir 10-20 eða 30 ár. Framtíðin er líka á morgun.
Forseti, aftur. Ég þakka borgarstjórn fyrir traustið og hlakka til samstarfsins við borgarstjórn.
Ljósmynd: Róbert Reynisson

15/01/2024
„Það er ekki nóg að mæta út á Leifsstöð og rétta fram blómvönd“Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.
Markmið tillögunnar er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum. Með því hafa fyrirtæki bæði aukinn sveigjanleika til þess að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna og aukinn hvata til þess. Tillagan er í samræmi við íþróttastefnu stjórnvalda sem var lögð fram árið 2019.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðenda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.“
„Keppnis- og afreksíþróttafólk á oft og tíðum erfitt með að fá vinnu við hæfi samhliða sinni íþróttaþátttöku vegna þess — og það þekki ég ágætlega þrátt fyrir að hafa ekki verið afreksmaður sjálfur, en hafandi verið sveitarstjórnarfulltrúi og þurft að taka á málum sem þessum — að fyrirtæki veigra sér við því að ráða starfsmenn sem þurfa að vera mikið frá vinnu vegna tíðra æfinga og keppnisferða,“ sagði Ágúst Bjarni.
Keppnisíþróttafólk er þá í þeirri stöðu að velja hvort það eigi halda áfram æfingum og keppni, með óvissa framfærslu sína eða hreinlega að hætta keppni, enda þurfa einhverjir mögulega að sjá fyrir fjölskyldu.
„Með takmörkuðum tekjum nær íþróttafólk auk þess ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur, rétt til þess eða fæðingarorlofs,“ sagði Ágúst Bjarni
Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur sett af stað ákveðna vinnu í gang til að styrkja alla umgjörð í kringum afreksíþróttastarf.
„En það breytir því ekki að við erum með aðra hlið á peningnum sem þessi tillagan gengur aðallega út á, að það sé hvati hjá fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og öðrum að ráða til liðs við sig þessa einstaklinga. Það skiptir mjög miklu máli að mínu mati að þessi hvati sé til staðar,“ sagði Ágúst Bjarni.
„Ég myndi halda að það væri mjög jákvætt fyrir flest fyrirtæki að fá slíka einstaklinga til liðs við sig. Það er alveg sama hvert er litið, hvernig þessir einstaklingar borða, æfa og slíkt, það er ákveðin einbeiting og fókus sem kemur með slíku fólki sem ég myndi halda að væri til bóta eins og ég hef áður sagt,“ sagði Ágúst Bjarni.
„Það er nú þannig að ef einhvern tíma næst samstaða í samfélaginu okkar þá er það þegar okkar fólki gengur vel á alþjóðavettvangi og það er í raun sama í hvaða íþróttagrein það er, það myndast einhvern veginn alltaf ákveðið stolt, alveg sama hver á í hlut, af fólkinu okkar og við erum mjög glöð öll sem eitt að taka á móti fólki og fagna því og lyfta því upp þegar vel gengur. En það er ekki nóg að mæta út á Leifsstöð og rétta fram blómvönd. Það verður að tryggja þessu fólki nauðsynlega og góða umgjörð til að styrkja það í því verkefni sínu að ná árangri á alþjóðavettvangi og það hafi getu og burði til þess að standa til jafns við mótaðilann, ef svo má segja, fólk annars staðar í heiminum sem er að keppa í sömu greinum, það geti staðið þeim einstaklingum jafnfætis,“ sagði Ágúst Bjarni.