Categories
Fréttir

Hönnunarsjóður stækkar

Deila grein

16/01/2023

Hönnunarsjóður stækkar

Framlög til Hönnunarsjóðs nema alls 80 milljónum kr. árið 2023 og hækka um 30 milljónir kr. frá fyrra ári. Stefnumótun í málefnum hönnunar og arkitektúrs verður kynnt á næstu vikum.

„Við viljum auka slagkraft og áhrif Hönnunarsjóðs sem er mikilvægur liður í að efla verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs hér á landi. Fyrir tilstilli framlaga sjóðsins hefur mörgum spennandi nýskapandi verkefnum verið hrint í framkvæmd og þau hjól halda mörg áfram að snúast af krafti. Styrkur úr Hönnunarsjóði er mikilvæg lyftistöng og viðurkenning, og oft fyrsta skref að einhverju stærra,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Hlutverk Hönnunarsjóðs er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf. Sjóðurinn styrkir einnig kynningar- og markaðsstarf hér á landi og erlendis með það að markmiði að auka útflutning. Opið er fyrir umsóknir í sjóðinn en umsóknafrestur vegna fyrri úthlutunar hans er til 7. febrúar nk.

Sjá nánar á vef Hönnunarsjóðs.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Gott að eldast

Deila grein

13/01/2023

Gott að eldast

Breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar eru ein af stóru áskorunum íslensks samfélags. Fjöldi eldra fólks eykst og hlutfall aldraðra af heildarmannfjölda fer ört hækkandi á næstu árum og áratugum. Kröfur eldra fólks til þjónustu hafa að sama skapi breyst verulega frá því sem áður var.

Því er þörf er á breyttum viðhorfum í þjónustu við eldra fólk með áherslu á aldursvænt, heilsueflandi og styðjandi samfélag. Af þessu tilefni mælti undirrituð fyrir þingsályktunartillögu í haust um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Tillögu sem gengur út á að safna saman markvissum, samræmdum og tímanlegum upplýsingum um líðan, stöðu og velferð eldra fólks á hverjum tíma.

Markmiðið með þessari gagnaöflun er að geta mælt aðstæður eldra fólks svo hægt sé að marka stefnu til framtíðar, vinna að aðgerðaáætlun og úthluta fjármagni á rétta staði. Ánægjulegt er að segja frá því að vel var tekið undir þessa tillögu og hún hefur verið færð inn í annað og stærra verkefni.

Aðgerðaáætlun til fjögurra ára

Þær fréttir bárust í desember að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra hefðu sett af stað vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.

Tillaga stjórnvalda birtist á samráðsgátt stjórnvalda 19. desember sl. og hófst þá opið samráð. Þar segir að aðgerðaáætluninni sé ætlað að vera leiðarvísir fyrir stjórnvöld til að skapa skýra framtíðarsýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildarstefnu sem felur í sér að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru, að ábyrgð á þjónustuþáttum milli aðila sé skýr og að gráum svæðum verði útrýmt.

Um er að ræða aðgerðaráætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk og er markmiðið að tryggja að eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Þá segir að mikilvægt sé að þjónustan sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi. Farið verður samhliða í þróunarverkefni og prófanir sem nýtast munu til ákvarðanatöku um framtíðarfyrirkomulag þjónustu við eldra fólk.

Nú er því komin af stað heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk þar sem lögð verður áhersla á þjónustukeðjuna, það er; hjúkrunarheimilin, sérhæfða heimaþjónustu og endurhæfingu, dagþjálfun, heimaþjónustu félags- og heilbrigðisþjónustu ásamt þjónustu sveitarfélaga til þess að hámarka virkni.

Ólíkar þarfir

Ég fagna þessari vinnu enda skiptir það verulegu máli að huga að með allra besta móti að eldra fólki hér á landi. Hér er verið að fara af stað með verkefni í sama anda og farsæld í þágu barna þar sem einstaklingurinn er þungamiðjan sem verkefnið og velferðarkerfið snýst um.

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur, það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum. Það er mikilvægt að geta mætt einstaklingum á þeim stað þar sem þeir eru og þróa úrræði til þess að mæta mismunandi þörfum eldra fólks. Markmiðið ætti ávallt að vera að bæta lífsgæði ásamt því að viðhalda færni og virkni einstaklingsins en forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stóran þátt í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar.

Það er virkilega ánægjulegt að sjá þetta verkefni sé farið af stað enda, hér er um að ræða eitt af stóru áherslumálum okkar í Framsókn fyrir síðustu kosningar. Vinna er hafin af fullum krafti og breytingar munu strax fara að skila sér með margvíslegum hætti.

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. janúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Öflugt í­þrótta­starf eftir heims­far­aldur

Deila grein

11/01/2023

Öflugt í­þrótta­starf eftir heims­far­aldur

Íþróttir eru gríðarlega mikilvægar þegar kemur að uppeldi barna og unglinga og forvarnargildi þeirra er margsannað. Íþróttafélög um allt land halda úti ómetanlegu starfi sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Þegar Covid-19 faraldurinn reis sem hæst stóð íþróttahreyfingin hins vegar frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum sem höfðu veruleg áhrif á starf íþróttafélaga um allt land.

Af þessum sökum lagði ég fram tillögur þess efnis að ráðist yrði í aðgerðir til að koma til móts við íþrótta- og æskulýðsfélög landsins vegna þeirrar röskunar sem Covid-19 faraldurinn hefur valdið á starf þeirra.

Nú í byrjun árs er mennta- og barnamálaráðuneytið að ljúka greiðslum á síðustu styrkjum til íþróttahreyfingarinnar til að bæta upp það tekjutap sem hún varð fyrir vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. Lokagreiðslan nemur alls 450 milljónum króna. Sambærileg úthlutun að upphæð 450 milljónir króna átti sér stað vorið 2020 og önnur úthlutun að upphæð 300 milljónir króna í árslok sama ár. Þá fengu íþróttafélög rúmlega 1,6 milljarða króna í gegnum úrræði Vinnumálastofnunar. Að auki var 100 milljónum sérstaklega úthlutað á fjáraukalögum 2021 til íþrótta- og tómstundafélaga vegna viðburða sem féllu utan framangreindra styrkja og sérstakra verkefna sem talin voru brýn fyrir starfsemi viðkomandi félaga. Alls nemur stuðningurinn því tæpum þremur milljörðum króna vítt og breitt innan hreyfingarinnar.

Markmiðið með stuðningnum var að gera íþróttafélögum kleift að brúa það gat sem myndaðist þegar allt starf féll niður vegna samkomutakmarkana og að tryggja að sem minnstar raskanir yrðu á íþróttaiðkun barna til lengri tíma litið. Stjórnvöld þurftu að stíga fast til jarðar svo að starfsemi íþróttafélaga myndi ekki leggjast af og að viðspyrnan yrði sem best eftir faraldurinn. Það tókst. Við búum áfram við öflugt íþróttastarf sem þakka má elju starfsfólks og þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem koma að starfi íþróttahreyfingarinnar á hverjum degi. Áfram Ísland.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. janúar 2023.

Categories
Fréttir

Áfram öflugt íþróttastarf með stuðningi stjórnvalda

Deila grein

11/01/2023

Áfram öflugt íþróttastarf með stuðningi stjórnvalda

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur úthlutað 450 milljónum króna til íþróttahreyfingarinnar vegna tekjutaps af völdum heimsfaraldurs. Um er að ræða lokaúthlutun stjórnvalda með það að markmiði að viðhalda öflugu íþróttastarfi hér á landi.

Úthlutunin byggir á tillögum vinnuhóps Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands út frá skilyrðum mennta- og barnamálaráðuneytisins. Skilyrði stuðnings var tekjutap við það að fella tímabundið niður starfsemi og/eða kostnaðarauki vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Opnað var fyrir umsóknir í sumar.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Heimsfaraldur hafði hvað mestu áhrif á íþrótta- og æskulýðsstarf hér á landi. Sóttvarnaaðgerðir leiddu ýmist til kostnaðarauka eða tekjutaps við það að fella niður viðburði. Standa þarf vörð um þetta mikilvæga starf. Með stuðningnum nú lýkur mótvægisaðgerðum stjórnvalda og stendur íþróttahreyfingin sterk eftir fordæmalaust mótlæti.“

Styrkir til íþróttafélaga og deilda við lokaúthlutun nú voru veittir fyrir kostnaðarauka og tekjutap frá júlímánuði 2021 til og með febrúar 2022. Styrkir til íþróttahéraða og sérsambanda voru fyrir lengra tímabil eða frá miðju ári 2020 til og með febrúar 2022 og voru um 70% af lokaúthlutun. Þá gafst æskulýðsfélögum sem og öðrum samtökum með samning við mennta- og barnamálaráðuneytið kostur á að sækja um stuðning vegna tímabilsins frá júlímánuði 2021 til og með febrúar 2022 á sömu forsendum.

Sambærileg úthlutun á 450 m.kr. átti sér stað vorið 2020 og á 300 m.kr. í árslok sama ár. Þá fengu íþróttafélög 1.638 m.kr. á grundvelli laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs. Að auki runnu 100 m.kr. árið 2021 til íþrótta- og tómstundafélaga vegna viðburða sem féllu utan við framangreind úthlutunartímabil og til sérstakra verkefna sem talin voru brýn fyrir starfsemi viðkomandi félaga.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Rannsóknasetur í byggða- og sveitarstjórnarmálum

Deila grein

11/01/2023

Rannsóknasetur í byggða- og sveitarstjórnarmálum

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst hafa undirritað samning um stofnun rannsóknaseturs í byggða- og sveitarstjórnarmálum. Með samningnum styður ráðuneytið við uppbyggingu og rekstur setursins, sem starfrækt verður af Háskólanum á Bifröst.

Markmið samningsins er að efla jákvæða byggðaþróun og styrkja sveitarstjórnarstigið á Íslandi með markvissum rannsóknum sem stuðla að hlutlægri og faglegri umræðu og leiða til betri stefnumótunar og ákvarðanatöku. Jafnframt að efla nám og fræðslu um byggða- og sveitarstjórnarmál.

„Öflugar rannsóknir eru mikilvægar til að hægt sé að gera enn betur í málefnum byggða og sveitarstjórna. Rannsóknir leggja grunninn að betri áætlunum og markvissari aðgerðum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Margrét þakkaði það traust sem Háskólanum á Bifröst væri sýnt. Hún sagði að skólinn myndi leggja áherslu á að skapa þverfaglegan og opinn samstarfsvettvang um byggða- og sveitarstjórnarmál með sérstaka áherslu á samstarf við ráðuneytið, Byggðastofnun, Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.

Samningurinn gildi til þriggja ára eða til ársloka 2025. Árlegt framlag ráðuneytisins verður 12 m.kr. sem kemur annars vegar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hins vegar í gegnum byggðaáætlun.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Síðdegisvaktin kom saman í gær

Deila grein

11/01/2023

Síðdegisvaktin kom saman í gær

Það var góður hópur sem kom saman í gær til að fara yfir stöðuna á nýju ári. Hópurinn kallast síðdegisvaktin enda hefur hann staðið sína plikt síðdegis á kosningaskrifstofu Framsókn nú í tvennum kosningum í röð, alþingiskosningunum 2021 og borgarstjórnarkosningunum 2022.

Hópinn skipa, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Hulda Finnlaugsdóttir, Dagbjört Höskuldsdóttir, Inga Þyrí Kjartansdóttir, Sigrún Magnúsdóttir og Bragi Ingólfsson. Rétt er að taka fram að fleiri aðilar hafa komið að starfi hópsins og verða þeir vonandi festir á filmu á næsta fundi.

Farið var yfir mjög góðan kynningarfund, í byrjun síðasta mánaðar, þar sem kynnt voru drög að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk. Nafn verkefnisins er: Gott að eldast.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi félags- og vinnumarkaðsráðherra fóru þar yfir að fólk eigi að geta látið sig hlakka til efri áranna og síðustu áratugir ævinnar eigi að vera meðal þeirra allra bestu. Markmiðið sé að trygga eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Þórunn fór vel yfir þetta allt.

Í samráðsgátt eru nú drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk 2023-2027 og er umsagnarfrestur er 23. janúar. Aðgerðaáætlunin byggir á fimm stoðum, þ.e. samþættingu þjónustu, virkni, upplýsingu, þróun og heimili. Meginþungi aðgerða liggur í þróunarverkefnum þar sem samþætting og nýsköpun og prófanir munu nýtast til ákvarðanatöku um framtíðarskipulag þjónustu við elda fólk. Þar að auki verður ráðist í aðgerðir sem hverfast um sveigjanleika í þjónustu, heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu, og betri aðgang að ráðgjöf og upplýsingum.

Ingibjörg Isaksen alþingismaður hefur lagt fram á Alþingi tilllögu til þingsályktunar um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Þetta er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum. Þá þarf samfélagið einnig að vera tilbúið til þess að takast á við sístækkandi hóp eldra fólks með það að markmiði að koma til móts við þeirra þarfir. Svo hægt sé að greina stöðu eldra fólks með markvissum og skilvirkum hætti er nauðsynlegt að hafa við höndina rétt tól og tæki.

Categories
Fréttir Greinar

Brúin milli heimsálfanna

Deila grein

10/01/2023

Brúin milli heimsálfanna

Winst­on Churchill, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, hitti nagl­ann á höfuðið þegar hann sagði að hver sá sem hef­ur yf­ir­ráð yfir Íslandi held­ur á byssu miðaðri á Eng­land, Am­er­íku og Kan­ada. Þannig kjarnaði hann hernaðarlegt mik­il­vægi Íslands út frá land­fræðilegri legu þess. Þessi skoðun hef­ur staðist tím­ans tönn og skip­ar land­fræðileg lega lands­ins enn mik­il­væg­an þátt í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um í heims­hlut­an­um.

Á und­an­förn­um ára­tug­um hef­ur Íslend­ing­um tek­ist að nýta legu lands­ins sér sjálf­um sem og er­lend­um ferðalöng­um enn frek­ar til fram­drátt­ar. Ný­verið kynnti ég mér starf­semi ISA­VIA á Kefla­vík­ur­flug­velli, mann­virki sem hef­ur þjónað sí­vax­andi ör­ygg­is- og efna­hags­leg­um til­gangi fyr­ir Ísland.

Það hef­ur tals­vert vatn runnið til sjáv­ar frá því Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar var opnuð árið 1987, þá 23 þúsund fer­metr­ar að stærð sem um fóru 750 þúsund farþegar. Frá opn­un henn­ar hafa um­svif alþjóðaflugs auk­ist veru­lega sam­hliða því að ís­lensk flug­fé­lög hafa nýtt sér land­fræðilega legu lands­ins til þess að byggja upp viðskiptalíkön sín. Tengimiðstöðin Kefla­vík þjón­ar nú millj­ón­um farþega sem ferðast yfir hafið með viðkomu í Leifs­stöð, en í ár í gert ráð fyr­ir að 7,8 millj­ón­ir fari um flug­völl­inn. Þétt net áfangastaða og auk­in flugtíðni til og frá Kefla­vík hef­ur opnað Íslend­ing­um nýja mögu­leika í leik og starfi. Þannig er flogið til 75 áfangastaða frá Kefla­vík. Til sam­an­b­urðar eru 127 skráðir frá Kast­rup-flug­velli í Kaup­manna­höfn.

Greiðar sam­göng­ur líkt og þess­ar og ná­lægð við lyk­il­markaði þar sem kaup­mátt­ur er sterk­ur skipta sam­keppn­is­hæfni landa miklu máli og skapa skil­yrði fyr­ir góðan ár­ang­ur í ut­an­rík­is­versl­un. Íslenskt efna­hags­líf hef­ur ekki farið var­hluta af þessu, næg­ir þar að nefna að ferðaþjón­usta hef­ur á til­tölu­lega skömm­um tíma orðið að þeirri at­vinnu­grein sem skap­ar mest­ar gjald­eyris­tekj­ur fyr­ir þjóðarbúið. Fjöl­mörg tæki­færi fylgja því að styðja áfram við alþjóðaflugið og skapa ný tæki­færi, til að mynda með auknu frakt­flugi til, frá og í gegn­um Ísland.

Stjórn­völd gera sér grein fyr­ir þýðingu þess að hlúa vel að alþjóðaflugi. Stór­ar fjár­fest­ing­ar í flug­vall­ar­innviðum und­ir­strika það. Þannig standa um­fangs­mikl­ar fram­kvæmd­ir yfir á Kefla­vík­ur­flug­velli en um­fang þeirra mun nema um 100 millj­örðum króna. Þá er unnið að stækk­un flug­stöðvar­inn­ar á Ak­ur­eyri, meðal ann­ars með milli­landa­flug í huga. End­ur­bæt­ur hafa einnig átt sér stað á Eg­ilsstaðaflug­velli en árið 2021 var nýtt mal­bik lagt á flug­braut­ina og unnið er að til­lög­um um stækk­un flug­hlaðs og lagn­ingu ak­brauta. Einnig hef­ur fjár­mun­um verið varið í styðja flug­fé­lög til að þróa og markaðssetja beint flug til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða sem skilað hef­ur góðum ár­angri og mun skipta máli fyr­ir at­vinnu­líf og íbúa þeirra svæða.

Það hef­ur þjónað hags­mun­um lands­ins vel að vera brú­in milli Evr­ópu og Norður-Am­er­íku. Við þurf­um að halda áfram að nýta þau tæki­færi sem land­fræðileg lega lands­ins skap­ar okk­ur og byggja þannig und­ir enn betri lífs­kjör á land­inu okk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. janúar 2023.

Categories
Fréttir

Breytingar hjá Framsókn

Deila grein

06/01/2023

Breytingar hjá Framsókn

Teitur Erlingsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Framsóknar tímabundið eftir að Helgi Haukur Hauksson sem gengt hefur starfinu til síðustu 5 ára sagði því lausu um áramótin. Helgi verður Teit innan handar fyrst um sinn til að koma honum inn í starfið. Teitur er með BA. próf í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst. Teitur hefur á undaförnum árum starfað í verkefnum fyrir Framsókn ásamt því að hafa unnið fyrir Háskólann á Bifröst, Kvikmyndaskóla Íslands o.fl. aðila. Teitur er 27 ára og er í sambúð með Urði Björgu Gísladóttur heyrnafræðingi og búsettur í Kópavogi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar:

„Á þessum tímamótum vil ég þakka Helga Hauki fyrir vel unnin störf í þágu Framsóknar og gott samstarf á undanförnum árum. Hann hefur leitt kosningabaráttu flokksins í gegnum þrennar kosningar þar sem flokkurinn náði góðum árangri og kann ég honum bestu þakkir fyrir það. Þó svo Helgi sé hættur sem framkvæmdastjóri veit ég að Framsókn á áfram eftir að njóta krafta hans í flokksstarfinu. Á sama tíma vil ég bjóða Teit velkominn til starfa og hlakka til að vinna með honum.“

Helgi Haukur Hauksson, fráfarandi framkvæmdastjóri:

„Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef unnið með undanfarin ár fyrir samstarfið. Þetta hefur verið skemmtilegur tími og ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að starfa með mikið af frábæru fólki að skemmtilegum verkefnum. Áramót marka oft tímamót eða jafnvel nýtt upphaf og nú langar mig að söðla um, breyta til og fara að gera eitthvað annað. Þessi ákvörðun var einföld en ég tel að núna sé rétti tímapunkturinn til að hleypa öðrum að. Einnig spila fjölskylduaðstæður inn í ákvörðun mína og ætla ég að gefa fjölskyldunni meiri tíma í mínu lífi.“

Categories
Fréttir

Tímamótasamkomulag ríkis og borgar um húsnæðisuppbyggingu

Deila grein

06/01/2023

Tímamótasamkomulag ríkis og borgar um húsnæðisuppbyggingu

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu í dag samkomulag um aukið framboð á íbúðarhúsnæði í Reykjavík á tímabilinu 2023-2032 og fjármögnun á uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og félagslegu húsnæði.

Markmið samkomulagsins er að auka framboð á nýjum íbúðum til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins á næstu 10 árum. Leitast verður við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta og húsnæðisöryggi fyrir alla félagshópa.

Sigurður Ingi Jóhannsson: „Það er afar ánægjulegt að Reykjavík hafi riðið á vaðið og skuldbundið sig til að stuðla að hraðri uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á næstu árum, en fram undan er stöðug uppbygging um allt land. Samningurinn er sá fyrsti í röðinni og jafnframt sá stærsti og hann mun stuðla að jafnvægi og breytingum á húsnæðismarkaði. Þar skiptir mestu að auka framboð í almenna íbúðakerfinu þar sem ríki og Reykjavíkurborg munu koma sameiginlega að borðinu með niðurgreiðslu íbúða með stofnframlögum og hlutdeildarlánum fyrir fólk undir ákveðnum tekju- og eignarmörkum.“

Markmiðið er að í Reykjavík verði byggðar um 16 þúsund íbúðir á næstu 10 árum, með áherslu á kröftuga uppbyggingu á fyrri hluta tímabilsins. Stefnt er að því að byggja allt að 2 þúsund íbúðir á ári á næstu 5 árum eða á meðan verið er að mæta uppsafnaðri þörf og skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði. Ofangreind markmið eru í takti við rammasamning ríkis og sveitarfélaga um að byggja þurfi 35 þúsund íbúðir á landsvísu á fyrrgreindu tímabili, til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf.

Dagur B. Eggertsson: „Þessi samningur er gríðarlega mikilvæg tímamót og fagnaðarefni. Ég hef lengi talað fyrir því að það þurfi húsnæðissáttmála til að ná jafnvægi og heildarsýn á húsnæðismarkaði og því er mikilvægt að önnur sveitarfélög fylgi nú í kjölfarið og af sama metnaði. Markmiðið er öflug uppbygging og húsnæðisöryggi fyrir þær fjölbreyttu þarfir sem við þurfum að mæta. Fyrir Reykjavík er það sértakt fagnaðarefni að samstaða sé um að borgin verði leiðandi í húsnæðisuppbyggingu næsta áratuginn.”

Fylgiskjöl:

    1. Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum, dagsettur 12. Júlí, 2022.

    2. Húsnæðisáætlun Reykjavíkur 2022, ásamt viðaukum, dagsett nóv. 2022 og minnisblaði, dagsett 6. desember 2022.

    3. Samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Reykjavík

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Stuðningur við sálfræðiþjónustu SÁÁ

Deila grein

04/01/2023

Stuðningur við sálfræðiþjónustu SÁÁ

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur undirritað samning við SÁÁ. Samningnum er ætlað að styðja við starfsemi SÁÁ með eflingu þjónustu við börn eftir mikinn álagstíma vegna heimsfaraldurs COVID-19, bæta þjónustu fyrir börn sem búa við fíknisjúkdóm náinna aðstandenda og stytta bið eftir þjónustunni.

Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda að auka snemmtækan stuðning við börn og barnafjölskyldur í samræmi við lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

„Til að stuðla að farsæld barna nægir ekki að einblína eingöngu á þau sjálf heldur þarf að líta til þess umhverfis sem börn alast upp í. Vandi aðstandenda getur orðið að vanda barna með einum eða öðrum hætti ef ekki er hugað að börnunum og fjölskyldum þeirra í víðara samhengi með skilvirkum og snemmtækum stuðningi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Verkefnin sem styrkt eru samkvæmt samningnum eru:

  • Ráðinn verði sálfræðingur til eins árs til að sinna sálfræðiþjónustu til barna skjólstæðinga SÁÁ.
  • Foreldrar sem leggjast inn á Vog, eða fá göngudeildarþjónustu, fái kynningu á sálfræðiþjónustu barna og þeim sem eiga börn á aldrinum 8-18 ára verði boðið að skrá barn/systkini í þjónustu SÁÁ.
  • Sálfræðiþjónusta til barna verði veitt samhliða áfengis- og vímuefnameðferð foreldra eða samhliða því að fjölskylda er á námskeiði í fjölskyldudeild. Þjónustuþörf skal metin í upphafi en hægt verði að bjóða börnum upp á allt að átta viðtöl hjá sálfræðingi. Börn verði metin í upphafi og lok meðferðar með gagnreyndum mælitækjum með tilliti til andlegrar líðan og sjálfsmyndar til að meta árangur.

Heimild: stjr.is