Categories
Greinar

Öryggissamvinna með djúpar rætur

Deila grein

12/12/2016

Öryggissamvinna með djúpar rætur

lilja____vef_500x500Beggja vegna Atlantshafsins ríkir nokkur óvissa í alþjóðamálum. Aðeins eru fáeinar vikur þar til nýr forseti tekur við embætti í Bandaríkjunum og í Evrópu mun fyrirhuguð útganga Breta úr Evrópusambandinu reyna á samstarf ESB-ríkjanna. Fram undan eru kosningar í nokkrum af áhrifamestu löndum Evrópu; Þýskalandi, Frakklandi og Hollandi, og enn er ekki útséð með eftirmál valdaránstilraunarinnar í Tyrklandi sl. sumar. Nýverið sagði forsætisráðherra Ítalíu af sér, eftir að þjóðin hafnaði í atkvæðagreiðslu stjórnarskrárbreytingum sem hefðu aukið vald ríkisstjórnarinnar á kostnað forseta og öldungadeildar þingsins.

Við aðstæður eins og þessar er mikilvægt að samskipti milli ríkja byggi á traustum grunni. Atlantshafsbandalagið er slíkur grunnur, sem staðið hefur af sér pólitíska sviptivinda í nær 70 ár. Bandalagið er hornsteinn vestrænnar öryggis- og varnarsamvinnu auk þess sem pólitískt vægi þess hefur aukist undanfarin ár, ekki síst vegna þeirra áskorana sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir.

Bandaríkin bjargföst

Í vikunni funduðu utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsríkjanna í Brussel. Þetta var fyrsti ráðherrafundurinn eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og úrslitin voru kollegum mínum ofarlega í huga. Í kosningabaráttunni vestra vöknuðu spurningar um viðhorf nýrra valdhafa í Washington til stefnu Atlantshafsbandalagsins og á fundinum í Brussel var því horft til John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með nokkurri eftirvæntingu.

Að vanda talaði Kerry skýrt og sagði Bandaríkin bjargföst í skuldbindingum sínum gagnvart Atlantshafsbandalaginu og bandamönnum sínum. Tengslin yfir Atlantshafið væru sterk og samstaða mikilvægari nú en oftast áður, sökum versnandi öryggishorfa í Evrópu og á jaðri hennar á umliðnum árum. Frank Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, talaði á svipuðum nótum en fundurinn var að líkindum einnig hans síðasti. Aðrir tóku undir og samhljómurinn meðal fundarmanna var sterkur: Atlantshafsbandalagið væri sterkt og þótt aðildarríkin 28 væru ólík um margt stæðu þau sameinuð gegn utanaðkomandi öryggisógnum og styddu varnir hvert annars. Öryggissamvinnan ætti djúpar rætur í stjórnkerfum aðildarríkjanna og fyrirséðar breytingar í hópi leiðtoga áhrifamikilla þjóða breyttu ekki eðli samstarfsins. Um það er ég sannfærð.

Evrópa leggi meira af mörkum

Hitt er ljóst að aukinn þrýstingur er á Evrópuríkin að leggja meira til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins. Sá þrýstingur er ekki nýr af nálinni heldur hefur um langt skeið verið að aukast, enda standa Bandaríkin undir um 70% af sameiginlegri varnargetu Atlantshafsbandalagsins. Öllum er ljóst að sú skipting er ekki réttlát og á síðustu árum hafa Evrópuríkin hækkað framlög sín til varnarmála og aukið viðbúnað og varnir, ekki síst hjá vinaþjóðum okkar í Eystrasaltinu sem eiga landamæri að Rússlandi. Norður-Atlantshafið og nærumhverfi Íslands er einnig hluti af hinu breytta öryggisumhverfi í Evrópu.

Norðurlandaríkin treysta böndin

Samstarf Norðurlandaríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála hefur farið mjög vaxandi og samvinna Finnlands og Svíþjóðar við Atlantshafsbandalagið eykst jöfnum skrefum. Vart er nú fundað í bandalaginu á ráðherrastigi án þess að kollegum mínum frá þessum vina- og nágrannaþjóðum sé boðið. Finnland og Svíþjóð eru meðal nánustu samstarfsríkja Atlantshafsbandalagsins og leggja ríkulega til aðgerða þess og verkefna. Á ráðherrafundinum í Brussel ræddum við þær sameiginlegu áskoranir sem að okkur steðja, svo sem netöryggi, öryggismál á hafi og aðgerðir til að koma á stöðugleika og friði.

Þá hefur varnarsamstarf Norðurlandaríkjanna undir formerkjum NORDEFCO vaxið mjög á umliðnum árum og hafa Svíar og Finnar, líkt og Ísland, treyst tvíhliða samskipti sín við Bandaríkin með tvíhliða yfirlýsingum um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Það á einnig við um Noreg, sem nýlega tilkynnti um tímabundna viðveru bandarísks herafla á norskri grund.

Ísland axlar ábyrgð

Framlag Íslands og þátttaka í störfum Atlantshafsbandalagsins er ávallt með borgaralegum formerkjum, enda hefur Ísland hvorki vilja né burði til að halda úti her. Borgaralegir sérfræðingar á vegum Íslands, hvort heldur er í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel eða á vettvangi í Afganistan, hafa getið sér gott orð fyrir dugnað og fagmennsku. Nú um stundir er um tugur Íslendinga að störfum fyrir Atlantshafsbandalagið og sinnir fjölbreyttum störfum á borð við jafnréttisráðgjöf, upplýsingamiðlun og áætlanagerð. Það er tvöföldun á framlagi okkar frá árinu 2014.

Hið sama gildir um starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem annast varnartengd verkefni, meðal annars í tengslum við loftrýmisgæslu og æfingar, og annast rekstur á samræmdu loftvarnarkerfi Atlantshafsbandalagsins hér á landi sem jafnframt eykur öryggi borgaralegs flugs í námunda við Ísland.

Á fjárlögum yfirstandandi árs var í fyrsta skipti samþykkt sérstakt varnarframlag til samstöðuaðgerða bandalagsins og í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í vikunni er áfram gert ráð fyrir auknum framlögum til varnarmála. Það er í fullu samræmi við skuldbindingar okkar um að axla aukna ábyrgð í öryggis- og varnarmálum.

Áskoranir samtímans kalla á heildstæða nálgun í öryggismálum og því markaði samþykkt Alþingis á þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland fyrr á þessu ári sannkölluð tímamót. Þjóðaröryggisstefnan tekur jafnt til virkrar utanríkisstefnu, almannaöryggis og varnarstefnu fyrir Ísland og leggur út af þeim grundvallargildum sem okkur eru kærust – virðingu fyrir lýðræðinu, réttarríkinu og mannréttindum – þeim sömu og Atlantshafsbandalagið hvílir á.

Ísland er hlekkur í keðju þjóða sem treysta hver á aðra og standa saman að öryggi og stöðugleika. Það er skylda okkar að standa vaktina með bandamönnum okkar – beggja vegna Atlantsála.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2016. 

Categories
Greinar

Verkefnin í bráð og lengd

Deila grein

02/12/2016

Verkefnin í bráð og lengd

sigurduringi_vef_500x500Á þriðjudag kemur Alþingi saman. Tvö brýnustu verkefnin sem bíða úrlausnar í desember eru afgreiðsla fjárlagafrumvarps og að lögbinda jöfnun lífeyrisréttinda. Æskilegt er að ríkisstjórn með meirihluta þingmanna standi að baki þessum málum og tryggi framgang þeirra.

Það eru meira en 65 ár síðan starfsstjórn lagði fram fjárlagafrumvarp. Aðstæður sem hafa skapast eftir kosningarnar í október gera þessa óvenjulegu ráðstöfun nauðsynlega. Fjárlagafrumvarpið grundvallast á fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt. Að auki er tekið mið af samþykktum lögum og ákvörðunum ríkisstjórnar eftir samþykkt fjármálaáætlunar, svo sem hækkun almannatrygginga. Staða ríkisfjármála er góð en miklar áskoranir eru framundan og áhættuþættir margir.

Jöfnun lífeyrisréttinda snýst um samræmt og sveigjanlegra lífeyriskerfi til framtíðar. Allt launafólk mun þá njóta sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Jöfnun lífeyrisréttinda er forsenda áframhaldandi vinnu aðila vinnumarkaðarins að nýju vinnumarkaðslíkani (SALEK). Ríkið getur borið kostnað af jöfnun lífeyrisréttinda á þessu ári, þökk sé stöðugleikaframlögum sem færð eru ríkissjóði til tekna á þessu ári. Á næsta ári myndi kostnaðurinn leiða til mikils hallareksturs hjá ríkinu og því afar brýnt að Alþingi nái að afgreiða málið fyrir áramót. Að því leyti má segja að það reyni nú á Alþingi með nýjum hætti við óvenjulegar aðstæður.

Auðnist okkur stjórnmálamönnum að vinna saman að lausn þessa vanda erum við vel í stakk búin um áramót til að takast á við langtímaáskoranir. Þær eru einkum tvær; að tryggja efnahagslegan stöðugleika og byggja upp og treysta innviði. Stjórnmálamenn eiga ekki að láta pólitíska óvissu raska því starfi.

Efnahagslegur stöðugleiki verður ekki tryggður nema með sameiginlegu átaki stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Það þarf að stilla saman vinnumarkaðinn, opinber fjármál og peningastefnu Seðlabankans. Við þurfum að tryggja að launahækkanir verði ekki umfram getu þjóðarbúsins til að rísa undir þeim. Við þurfum að tryggja að opinber fjármál séu varfærin og magni ekki hagsveiflur. Og við þurfum að endurskoða peningastefnu Seðlabankans.

Nauðsynlegt er að ráðast í uppbyggingu innviða. Til dæmis í heilbrigðisþjónustu, menntamálum, samgöngum og ferðaþjónustu. Þetta er brýnt verkefni á nýju kjörtímabili. Það leysist hvorki af sjálfu sér né á augabragði. Við þurfum að byggja upp innviði í öruggum skrefum eftir því sem fjárhagsleg geta leyfir. Verkefni næstu ríkisstjórnar verður að auka fé til innviðauppbyggingar samhliða því að bæta nýtingu þeirra miklu fjármuna sem nú þegar fara til þeirra. Ég vona að okkur sem sitjum á Alþingi og falin eru þessi mikilvægu verkefni til úrlausnar auðnist að gera það í sátt og samvinnu, öllum til heilla.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2016.

Categories
Greinar

Hvert stefna stjórnmálin?

Deila grein

16/11/2016

Hvert stefna stjórnmálin?

sigmundur_vef_500x500Frá því að ég hóf, nokkuð óvænt, þátttöku í pólitík hefur mér orðið tíðrætt um eðli stjórnmála og hvað betur mætti fara í þeim efnum. Stundum hef ég vitnað til orða sem Winston Churchill lét falla í breska þinginu tveimur árum eftir seinni heimsstyrjöldina: „Sagt hefur verið að lýðræði sé versta stjórnkerfið fyrir utan öll hin sem reynd hafa verið við og við.“

Lýðræði hefur vissulega aldrei verið gallalaust en síðustu misseri hafa þær miklu grundvallarbreytingar sem eru að verða á stjórnmálum á Vesturlöndum verið mér hugleiknar. Auk þess að flytja allmörg erindi um þessa þróun á undanförnum árum skrifaði ég grein fyrir erlend blöð síðastliðið vor en birti hana svo á heimasíðu minni nýverið. Viðfangsefnið líka útgangspunkturinn í ræðum mínum á miðstjórnarfundi og flokks- þingi Framsóknarmanna. Ástæðan er sú að ég er eindregið þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn og -flokkar verði að gera sér grein fyrir þessari þróun og eiga svör við henni ef ekki á að fara illa.

Trump
Stærsta afleiðing þessara miklu breytinga til þessa er kjör Donalds Trumps sem forseta Bandaríkjanna. Nokkuð sem flestir virtust telja óhugsandi þar til aðfaranótt síðastliðins miðvikudags.

Afskipti Trumps af stjórnmálum hafa verið óviðurkvæmileg frá því að hann gekk til liðs við hóp fólks sem krafðist þess að Obama forseti sannaði að hann hefði fæðst í Bandaríkjunum. Sami hópur hélt því svo fram að enginn kannaðist við að forsetinn hefði verið nemandi í Columbia-háskóla auk annarra tilrauna til að gera hann tortryggilegan. Allt var þetta pólitík á sérlega lágu plani. Síðan þá hefur Trump sagt ýmislegt sem ekki hefur verið til þess fallið að lyfta stjórnmálaumræðu á hærra plan. Óþarfi er að rekja það hér, enda búið að gera því öllu góð skil í fjölmiðlum undanfarna mánuði og ræða það margfalt meira en nokkuð sem við kemur æðstu stjórn Bandaríkjanna.

Augljóslega er ég ekki einn um að hafa efasemdir um framgöngu Donalds Trumps en mikilvægt er að átta sig á því að það er gagnslaust að ætla að skýra niðurstöðu forsetakosninganna með því að Bandaríkin séu full af heimsku fólki, byssuóðum rasistum og einangrunarsinnum. Það eru Bandaríkjamenn almennt ekki, hvorki kjósendur Demókrata né Repú- blikana. Langflestir þeirra sem kusu Trump gerðu það ekki vegna, heldur þrátt fyrir, framgöngu hans og talsmáta. Kjósendur Trumps töldu hann einu vonina um að hrist yrði upp í kerfi sem er hætt að virka sem skyldi fyrir almenning.

Ekki hjálpaði það heldur til að framboð fulltrúa miðju- og vinstrimanna var fjármagnað af „Íslandsvinum“ á borð við fjárfestingabankann Goldman Sachs og hópi vogunarsjóðastjóra með George Soros í fararbroddi.

Þetta gerist ekki að ástæðulausu
Sú sögulega breyting sem við verðum nú vitni að kom ekki til að ástæðulausu. Stjórnmálamenn á Vesturlöndum voru margir orðnir of meðvirkir með þróuninni, of líkir innbyrðis og of einsleitir í nálgun sinni. Óskrifaðar rétthugsunarreglur voru orðnar allsráðandi um það með hvaða hætti stjórnmálamenn ættu að haga sér og tjá sig. Hægt var að gefa sér fyrirfram hverju stjórnmálamenn myndu svara nánast hvaða spurningu sem þeir voru spurðir, hvort sem þeir skilgreindu sig til vinstri eða hægri.

Rökræða um grundvallaratriði og leitin að nýjum og frumlegum hugmyndum hafði látið undan fyrir óttanum við að vera umdeildur, segja eitthvað sem félli ekki að rétthugsuninni eða storkaði ráð- andi kerfi, jafnvel bara óttanum við að segja eitthvað sem gæti þurft að útskýra. Í staðinn reiddu menn sig á frasa um sjálfsagða hluti sem enginn gat verið á móti og storkuðu þannig engum en vöktu heldur enga umræðu og engar nýjar hugsanir.

Á sama tíma var „kerfinu“ í auknum mæli eftirlátið að stjórna. Embættismenn, stofnanir og innvígðir sérfræðingar kerfisins, auk ytri kerfa eins og fjármálageirans og samtaka á vinnumarkaði, lögðu línurnar og gera enn.

Stöðugt er dregið úr valdi kjörinna fulltrúa almennings og það fært annað en ábyrgðin þó skilin eftir hjá pólitíkusunum. Úr því verður hættuleg skekkja, vald án ábyrgðar og ábyrgð án valds. Það sem er þó verst er að með því er valdið tekið af almenningi og fært til ólýðræðislegs kerfis. Kerfisræði tekur við af lýðræði.

Þessu er almenningur á Vesturlöndum að átta sig á, meðvitað og ómeðvitað, og um leið átta menn sig á því að hið ráðandi kerfi er í takmörkuðum tengslum við almenning. Kerfið telur það fremur vera hlutverk sitt að segja fólki hvernig hlutirnir þurfi og eigi að vera en að hlusta á og lúta vilja almennings. Fyrir vikið er þeim stjórnmálamönnum og flokkum sem láta þetta viðgangast refsað, eins og eðlilegt er. Hættan er þó sú að ef hefðbundnir stjórnmálamenn og flokkar bregðast ekki við muni aðeins öfgamenn gera það.

Hvað er til ráða?
Hefðbundnir stjórnmálaflokkar þurfa að rifja upp hlutverk sitt. Þeir þurfa að geta rætt mál sem almenningur lætur sig varða. Flokkarnir þurfa að bjóða upp á lausnir á því hvernig hægt sé að laga gallað fjármálakerfi, þeir þurfa að þora að ræða viðkvæm en stór mál eins og innflytjendamál. Flokkar þurfa að geta rætt umdeild mál og vera reiðubúnir að verja hagsmuni ólíkra hópa samfélagsins. Þora að ræða bæði kosti og galla stórra breytinga á borð við alþjóðavæðingu, benda á að henni fylgi miklir kostir en líka gallar. Hún eigi t.d. ekki að þýða undirboð á vinnumarkaði eða undirboð á vörum eins og matvöru (af hverju leyfa menn sér að kalla það sérhagsmunagæslu ef reynt er að bæta starfsaðstæður bænda en ekki ef það sama er gert fyrir há- skólakennara?).

Flokkarnir þurfa svo eftir rökræðu byggða á staðreyndum að þora að taka afstöðu. Hvernig má það t.d. vera að enginn flokkur á Íslandi þorir að segja að hann vilji ganga í Evrópusambandið, jafnvel ekki flokkar sem voru stofnaðir út á það eitt? Í staðinn er talað í kringum hlutina með innihaldslausum frösum.

Umfram allt þurfa stjórnmálaflokkar að endurheimta kjark. Þora að standa fyrir eitthvað þótt því fylgi að vera umdeildir. Stjórnmálamenn vinna beinlínis við að vera umdeildir. Það er hlutverk þeirra að gefa fólki val og láta það finna að valið skipti máli.

Augljóslega þurfa menn svo oft að geta miðlað málum til að ná meirihluta en svo kölluð samræðustjórnmál eru í raun ekki annað en samsæri stjórnmálamanna gegn kjósendum. Ef það á að vera hlutverk stjórnmálamanna að sameinast helst allir um lægsta samnefnarann í hverju máli er lýð- ræðislegur vilji fyrir borð borinn og á meðan fer kerfið sínu fram. Það er hættuleg og ólýðræðisleg þróun.

Síðar mun ég fjalla um þær miklu hindranir sem stjórnmálamenn og flokkar mæta við það að takast á við kerfið og hvernig bregðast megi við þeim. Auk þess mun ég svo fjalla um þau stóru álitaefni sem bíða okkar Íslendinga og leggja til lausnir.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember 2016.

Categories
Greinar

Róttæk en ábyrg stjórnmál skila árangri

Deila grein

29/10/2016

Róttæk en ábyrg stjórnmál skila árangri

lilja____vef_500x500Rétt eins og metnaðarfullt fólk, fyrirtæki og félög vilja metnaðarfull samfélög sífellt bæta sig. Ísland er slíkt samfélag, sem þjóðin hefur mótað með dugnaði, framfaratrú og metnaði.

Samkvæmt mælikvörðum alþjóðastofnana af ýmsu tagi er Ísland í fremstu röð, í samanburði við önnur samfélög. Þar viljum við vissulega vera, en föllum vonandi aldrei í þá gryfju að halda að öll samfélagsverkefni hafi verið leyst. Við viljum gera betur og halda áfram að bæta líf hvert annars. Við viljum nýta svigrúmið sem skapast hefur á undanförnum árum til að færa ýmislegt til betri vegar; huga betur að öldruðum, bæta heilbrigðisþjónustu og styrkja innviðina.

Í þeirri vinnu eigum við að horfa til þess sem vel hefur tekist. Styðjast við aðferðir sem hafa virkað, en ávallt leita að skapandi lausnum. Þannig vill Framsóknarflokkurinn vinna eins og nýleg dæmi sanna. Við erum í senn róttækur flokkur og ábyrgur flokkur, með skýra sýn á hvernig við bætum samfélagið og efnahagslífið. Við hikum ekki við að fara óhefðbundnar leiðir og fáum til liðs við okkur færustu sérfræðinga hverju sinni, í stað þess að þykjast vita allt best sjálf. Þannig hefur okkur tekist að leysa flókin verkefni og þannig munum við áfram ná árangri fyrir Ísland.

Vinna, vöxtur, velferð
Við trúum því, að fjölbreytt atvinnulíf og útflutningur á vörum og þjónustu sé forsenda velferðar í landinu. Við viljum veg allra atvinnugreina sem mestan, en fögnum sérstaklega þeim ótrúlega árangri sem náðst hefur á sviði nýsköpunar og skapandi greina. Við viljum skapa verðmæt störf og tryggja að menntakerfið standist samanburð við það sem best gerist í heiminum. Við viljum bæta kjör meðaltekjufólks, lækka tekjuskatt og einfalda skattkerfið. Við viljum stuðla að góðri heilsu þjóðarinnar og byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á aðgengilegum stað.

Hagsmunir Íslands í öndvegi
Framsóknarflokkurinn hefur farið með utanríkismál í fimmtán ár af síðasta 21 ári. Markmiðið hefur allan þann tíma verið skýrt: að tryggja hagsmuni Íslands og stuðla þannig að velsæld heima fyrir. Við viljum eiga góð samskipti við aðrar þjóðir, en halda sjálfstæði okkar. Við viljum eiga gagnkvæm viðskipti við aðrar þjóðir og skapa gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Við höfum trú á Íslandi. Við vitum að efnahagsstjórn í fámennu landi er krefjandi, en reynslan sýnir að árangurinn getur verið góður. Við trúum á dugnað, fagmennsku og elju, en ekki töfralausnir. Við trúum því að vextir geti lækkað með ábyrgri hagstjórn.

Við stöndum á krossgötum
Með skýrri sýn og markvissri stefnu hefur orðið alger viðsnúningur á Íslandi á síðustu árum undir forystu Framsóknarflokksins. Orð og efndir hafa farið saman og fyrir vikið stöndum við á traustum grunni til að bæta samfélagið enn frekar. Framtíð Íslands er björt ef rétt er á málum haldið.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. október 2016.

Categories
Greinar

Tryggjum stöðugleika

Deila grein

28/10/2016

Tryggjum stöðugleika

160218-Sigurður Ingi JóhannssonUndanfarin ár hafa verið viðburðarík. Margt hefur breyst til hins betra í samfélaginu vegna víðtækra aðgerða sem ráðist var í á kjörtímabilinu, heimilum og þjóð til heilla. Þar fóru saman orð og efndir. Ber þar hæst Leiðréttinguna, afléttingu hafta og uppgjör slitabúa fallinna banka. Allt mál sem skiptu gríðarlegu máli fyrir velferð þjóðarinnar. Má fullyrða að efnahagslegt sjálfstæði okkar hafi verið endurheimt; við stóðum fast á rétti okkur þótt hart hafi verið að okkur sótt. Til þess þurfti kjark og óhefðbundnar leiðir.

Framsóknarmenn hræðast ekki að taka á erfiðum málum. Við setjum okkur skýr markmið og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að ná í áfangastað. Framsóknarflokkurinn fagnar nú 100 ára afmæli en markmið hans hefur alltaf verið það sama; að bæta lífskjör allra sem hér búa.

Lægri skatta á meðaltekjur
Nú taka við ný verkefni. Við þurfum að efla enn frekar mátt hins almenna launamanns með því að lækka skatta á meðaltekjur. Við þurfum að endurskoða peningamálastefnuna því vextir eru of háir á Íslandi. Þeir voru háir í aðdraganda bankahrunsins, rétt eftir það og eru enn. Þessi tvö mál munu skila heimilum og atvinnulífi miklum ávinningi.
En til þess að koma þeim á rekspöl þurfum við að halda áfram á braut framfara og ábyrgrar stjórnunar í efnahagsmálum og með því tryggja stöðugleika. Það gengur vel og nú er ekki rétti tíminn fyrir kollsteypu. Val kjósenda stendur um áframhaldandi trausta efnahagsstjórn og kraftmikið atvinnulíf öllum til heilla, eða endurnýjaða vinstri stjórn með stuðningi Pírata.

Manngildi ofar auðgildi
Fyrsta hreina vinstri stjórnin klauf þjóðina í herðar niður með umsókn að Evrópusambandinu og margt bendir til þess að nú eigi að endurtaka þann leik. Manngildi ofar auðgildi er leiðarstef Framsóknarflokksins. Því verður haldið til haga. Ég hvet kjósendur til að kjósa með sínum hagsmunum.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. október 2016.

Categories
Greinar

Ísland ljóstengt

Deila grein

27/10/2016

Ísland ljóstengt

einar-freyr-elinarsonLjóstenging allra landssvæða hefur verið eitt af áhersluatriðum í stefnu Framsóknarflokksins um árabil.

Gott fjarskiptanet um land allt er hornsteinn nútímasamfélags og styrkir samkeppnisstöðu landsins. Útbreiðsla góðra nettenginga er því ein af meginforsendum ákvörðunar um búsetu og hefur því verulega áhrif á þróun byggðar. Framsóknarflokkurinn vill byggja upp fjölbreytt atvinnulíf um land allt, og þar spilar ferðaþjónustan stórt hlutverk. Stór og smá fyrirtæki þurfa að geta treyst á góða nettengingu og síðast en ekki síst, hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni.

Auka fjármuni til verkefnsins
Á liðnu kjörtímabili var farið í landsátak, undir forystu Framsóknarflokksins, um uppbyggingu ljósleiðaranets sem ber heitið „Íslands ljóstengt“. Markmið verkefnsins var að gera áætlun um að ljóstengja allt landið. Starfshópurinn lauk sínu starfi í vor og kynnti verkefnið. Á fjárlögum 2016 var gert ráð fyrir 500 milljónum til verkefnisins á árinu. Þeir fjármunir eru ekki nægir ef við ætlum að ná markmiðum okkar að ljóstengja allt landið, innan fárra ára. Við verðum að bæta fjármunum í þetta verkefni svo við náum að ljúka því sem fyrst. Miklir hagsmunir eru í húfi.

Fámennari svæði
Huga þarf sérstaklega að þeim svæðum þar sem kostnaður við tengingar er mun dýrari en í þéttbýli m.a. vegna landfræðilegra aðstæðna, dreifbýlis og fámennis. Í því skyni þarf að auka fjármagn í verkefnasjóðinn „Ísland ljóstengt“ og koma þannig í veg fyrir að slík svæði dragist aftur úr. Einnig þarf að hraða uppbyggingu farsímakerfa. Svæði sem enn eru langt á eftir í fjarskiptum skulu vera í forgangi uppbyggingar.

Tækifæri fyrir unga fólkið
Til þess að samfélög þrífist verður að eiga sér stað nýliðun og til þess að ungt fólk vilji setjast að vítt og breitt um landið þurfa innviðir og þjónusta að vera í takt við samtímann. Ungt fólk vill geta stundað fjarnám, til þess þarf nettengingu. Ungt fólk vill hafa fjölbreytta starfsmöguleika, þeir aukast gríðarlega með góðri nettengingu. Ungt fólk vill búa í dreifbýlinu og byggja upp fyrirtæki, til þess þarf net og aðgang að þrífösuðu rafmagni.

Framsóknarflokkurinn vill halda áfram að beita sér í þessum þjóðþrifamálum.

Framsókn fyrir fólkið. X-B.

Einar Freyr Elínarson skipar 4.sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

Birtist á sunnlenska.is þann 27. október 2016.

Categories
Greinar

Vinátta í verki

Deila grein

27/10/2016

Vinátta í verki

Tuttugu og fimm ár eru í dag liðin frá sögulegum fundi í Reykjavík, þar sem stjórnmálasamband Íslands við Eystrasaltsríkin var formlega skjalfest. Fáeinum dögum áður hafði Ísland orðið fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháens eftir að löndin höfðu sagt sig úr sambandi Sovétríkjanna. Athöfnin fór fram í Höfða, þar sem leiðtogar stórveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, höfðu setið fimm árum fyrr og lagt grunninn að endalokum kalda stríðsins. Þetta voru tímar sögulegra umbreytinga.

Endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna átti sér nokkurn aðdraganda, samhliða því sem innviðir Sovétríkjanna veiktust. Vilji íbúa við Eystrasalt var ótvíræður eins og sást þegar tvær milljónir manna tókust í hendur og mynduðu nærri 700 kílómetra langa keðju milli höfuðborganna þriggja, Tallinn, Riga og Vilnius – tákn um órofa samstöðu – í ágúst 1989. Íslenskir ráðamenn fylgdust náið með þróuninni og ræktuðu vel tengslin við löndin þrjú. Þegar þjóðirnar lýstu yfir sjálfstæði hver á eftir annarri haustið 1991 stóð Ísland þétt við bakið á þeim og ævarandi vinátta var innsigluð.

Eystrasaltsríkjunum hefur vegnað vel. Öll breyttu hagskipan sinni, úr miðstýrðum áætlunarbúskap í átt að markaðsbúskap með sterk tengsl við Norðurlöndin og hafa á skömmum tíma skapað umtalsverða hagsæld. Þjóðartekjur á mann hafa aukist mikið, tekjudreifing er nokkuð jöfn, aðhald í ríkisfjármálum er mikið og skilyrði til fjárfestinga góð. Umskiptin eru til vitnis um mikilvægi þess, að ríki ráði sínum örlögum sjálf.

Samband Íslands við Eistland, Lettland og Litháen er einstakt. Í höfuðborgum landanna þriggja eru margar götur og torg kennd við Ísland og á vettvangi stjórnmálanna störfum við vel saman, til dæmis innan Atlantshafsbandalagsins og Eystrasaltsráðsins þar sem Ísland fer nú með forystu. Ríkin eru öll aðilar að NB8, samstarfsvettvangi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, og raunar vill svo til að í dag funda utanríkisráðherrar landanna átta í Riga í Lettlandi. Þótt málefni líðandi stundar verði þar til umræðu er ljóst að dagurinn gefur tilefni til að horfa um öxl og fagna þeim árangri sem hefur náðst.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. ágúst 2016.

Categories
Greinar

Forgangsmál – staða eldri borgara

Deila grein

27/10/2016

Forgangsmál – staða eldri borgara

lilja____vef_500x500Málefni aldraðra standa upp úr í þessari kosningabaráttu. Ég hef farið víða í kosningabaráttunni, gengið í hús í Breiðholtinu og fundað út um allan bæ. Málefni eldri borgara koma upp í nánast öllum samtölum. Hvort sem það tengist lífeyrismálum, húsnæðismálum eða heilbrigðisþjónustu. Frásagnir fjölda fólks hafa komið við mig. Það hefur opnað augu mín enn frekar fyrir því að stærsta mál þessara kosninga eru þeir málaflokkar sem snúa að öldruðum.

Eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að leiðrétta þá skerðingu sem eldri borgarar höfðu orðið fyrir. Lífeyrisréttindi hafa einnig verið aukin og margt hefur áunnist á kjörtímabilinu. Þessar breytingar sem kynntar voru nýverið leiða til mikillar hækkunar á bótum almannatrygginga á næstu tveimur árum. Til dæmis munu bætur eldri borgara sem býr einn og hefur engar aðrar tekjur hækka um 22% á næstu tveimur árum. Hins vegar er það svo að fjöldi fólks býr við bág kjör og kvíðir framtíðinni. Þetta er sorglegt og sér í lagi þar sem þetta er fólkið sem hefur byggt landið okkar upp og veitt okkur þeim sem yngri eru tækifæri sem þau gátu ekki látið sig dreyma um.

Á þessu kjörtímabili voru stóru málin leiðrétting húsnæðislána og losun fjármagnshafta. Í báðum tilfellum var lagt upp með vel skilgreind markmið og áætlun teiknuð upp um hvernig væri hægt að ná þeim. Ég legg til að sama aðferðafræði verði viðhöfð til að ná mun betur utan um stöðu eldri borgara. Ég legg til að okkar helstu sérfræðingar í þessum málaflokki verði kallaðir til verks með það að markmiði að bæta stöðu eldri borgara. Í fyrsta lagi þarf að auka kaupmátt þeirra sem verst standa, í öðru lagi þarf að fara með skipulegri hætti í húsnæðismál aldraðra, og í þriðja lagi þarf að halda áfram að auka fé í hjúkrunarrými. Allt þetta er gerlegt ef viljinn er fyrir hendi. Ég hef viljann og mun beita mér fyrir því á næsta kjörtímabili, að þessi mál fái þá athygli sem nauðsynleg er.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. október 2016.

Categories
Greinar

Er eitthvað að óttast við faglegt mat?

Deila grein

27/10/2016

Er eitthvað að óttast við faglegt mat?

lilja____vef_500x500Meirihluti Íslendinga vill að nýtt þjóðarsjúkrahús verði byggt á besta stað, þar sem aðgengi er gott og framkvæmdir trufla ekki sjúklinga, starfsfólk og íbúa. Af því má leiða að meirihluti landsmanna vilji hlífa sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki við ærandi hávaða frá loftpressum, jarðvegssprengingum, umferð steypubíla og annarra stórvirkra vinnutækja. Að meirihluti þjóðarinnar vilji vissu fyrir því, að faglegar forsendur liggi til grundvallar ákvörðun um staðsetningu þjóðarsjúkrahússins.
Þótt fyrirhuguð framkvæmd sé ein sú stærsta sem Íslendingar hafa tekist á hendur eru forsendur fyrir núverandi staðarvali hæpnar. Raunar hefur aldrei farið fram ítarlegt faglegt mat á öðrum kostum en spítalalóðinni við Hringbraut og lóð Borgarspítalans við Fossvog. Upphaflega þótti síðarnefndi kosturinn langtum betri en síðar varð Hringbrautin ofan á, enda væri þá ráðist í miklar skipulags- og vegaframkvæmdir til að tryggja gott aðgengi að spítalanum. Nú er ljóst að þær framkvæmdir verða ekki að veruleika. Aðrar mikilvægar forsendur hafa líka breyst, t.d. spár um fjölda þeirra sem þurfa þjónustu. Þá bendir ýmislegt til að Alþingi hafi ekki fengið trúverðugar áætlanir um alla verkþætti og því þurfi að yfirfara fjárhagsáætlanir sem liggja til grundvallar verkefninu. Samt er því haldið til streitu, að framtíðarsjúkrahús þjóðarinnar skuli staðsett í þéttri íbúabyggð í miðborg Reykjavíkur og hvergi annars staðar.
Ofsafengin viðbrögð
Óskin um faglega úttekt á bestu mögulegu staðsetningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús hefur kallað fram mjög sterk viðbrögð hjá hagsmunaaðilum sem vilja lagfæra gamla Landspítalann við Hringbraut, byggja fjölda nýbygginga og tengja sjúkrahúsþyrpingu í miðbænum saman með flóknu neti tengibygginga og undirganga. Tólf síðna kynningarrit var sent með Fréttablaðinu inn á heimili landsmanna í vikunni, á kostnað hins opinbera, og í Morgunblaði gærdagsins bregst Þorkell Sigurlaugsson, varaformaður landssamtakanna Spítalinn okkar, harkalega við óskum um faglega úttekt á málinu. Viðbrögðin komu reyndar ekki á óvart, því hugmyndum um faglega nálgun hefur ítrekað verið mætt af mikilli hörku og þeir gjarnan taldir skemmdarvargar sem vilja skoða málið.
Okkar hugmynd er einföld: Að hópur færustu erlendra og óháðra sérfræðinga geri faglega úttekt og skili stjórnvöldum tillögum að staðarvali fyrir 30. apríl 2017. Á meðan haldi framkvæmdir áfram við Hringbraut samkvæmt áætlun, enda geti þær sannarlega nýst þótt framtíðarsjúkrahúsinu verði fundinn annar staður. Ef Hringbraut verður metinn heppilegasti staðurinn hafa engar tafir orðið á framkvæmdum. Ef ekki getum við afstýrt hroðalegum og dýrum mistökum. Vandséð er að opnun nýs sjúkrahúss myndi tefjast, þar sem framkvæmdir á opnu og aðgengilegu svæði eru bæði fljótlegri og ódýrari en innan um sjúklinga og íbúa í Þingholtunum.
Hinn fullkomni spítali
Ég vil að Íslendingar eignist fullkomið þjóðarsjúkrahús. Heildstæða og nútímalega byggingu þar sem byggt er frá grunni samkvæmt þörfum þjóðarinnar en ekki úreltum forsendum. Ég vil byggja miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðgengi er gott, samgönguæðar koma saman og ónæði fyrir almenning á framkvæmdatíma er lágmarkað. Ég vil að fjárveitingar til verkefnisins nýtist sem best og horft sé til framtíðar, t.d. varðandi mögulega stækkunarþörf sjúkrahússins. Verði niðurstaða óháðra sérfræðinga sú að best sé að byggja við Hringbraut mun ég una henni. Viðbrögð Hringbrautarmanna við áherslum Framsóknarflokksins gefa hins vegar til kynna að þeir óttist niðurstöðuna.
Lilja Alfreðsdóttir 
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. október 2016.
Categories
Greinar

Kröfuhafar sleikja útum

Deila grein

26/10/2016

Kröfuhafar sleikja útum

160218-Þorsteinn SæmundssonEitt helsta baráttumál Framsóknar fyrir þessar kosningar er breytt stefna í vaxtamálum. Ljóst er að núverandi peningastefna er ekki að virka með ofurháum stýrivöxtum sem enginn hagnast á nema fjármagnseigendur. Þar fara fremstir í flokki erlendir fjárfestar sem komið hafa hér fyrir kvikum krónum sem þeir munu fara með úr landi aftur fyrr en varir og um leið og það hentar þeim. Fyrir utan að vera einn mesti dragbítur á heimkomu Íslendinga sem búa erlendis býður hávaxtastefnan upp á að áhættufjárfestar hrúgi inn í landið milljarðatugum til að hagnast á vaxtamismun. Svo vel virkar núverandi vaxtastefna fyrir áhættufjárfesta að þeir sem eiga s.k. aflandskrónur hér kæra sig ekki um að fara vegna þess gróða sem þeir hafa af dvölinni. Þvert á móti hafa þeir enn bætt í. Krónuútboðið í vor var til að losna við um 230 milljarða í krónueignum. Það mistókst af framangreindum ástæðum. Auk þeirrar krónueigna sem hér hafa verið í höftum hafa streymt inn í landið rúmlega 70 milljarðar á síðustu 15 mánuðum. Alþingi þurfti að bregðast við í vor og setja lög um bindiskyldu og bindingu erlendra eigna til að koma í veg fyrir að holskefla erlends fjármagns riði hér yfir.

Það er fróðlegt og nauðsynlegt að rifja upp hverjir það eru sem hafa varað ítrekað við þessu ástandi undanfarin tæp fjögur ár. Þingmenn Framsóknar eru þeir einu sem haft hafa uppi gagnrýni á stýrivaxtastefnu Seðlabankans. Þingmenn Framsóknar eru þeir einu sem bent hafa á þann skaða sem hávaxtastefnan veldur fólki og fyrirtækjum í landinu. Framsókn er eini flokkurinn sem nú á sæti á þingi sem hefur baráttuna gegn hávaxtastefnunni í kosningaáherslum sínum. Það er hægt að taka undir með Vilhjálmi Birgissyni verkalýðsforingja þegar hann undrast að enginn svokallaðra félagshyggjuflokka hefur svo mikið sem minnst á vaxtaokrið hvort sem er á Alþingi eða nú í aðdraganda kosninga.

Ljóst er að eigendur aflandskróna hugsa sér gott til glóðarinnar nú þegar hætta er á að vinstri stjórn verði mynduð eftir kosningar. Þeir muna þá sæludaga á síðasta kjörtímabili þegar þáverandi stjórnvöld voru titrandi á beinunum gagnvart erlendu valdi. Sem betur fer komst hér á stjórn undir forystu Framsóknarflokksins sem lengst af hafði staðið einn gegn valdi kröfuhafa. Það er því í þágu erlendra kröfuhafa að draga úr áhrifamætti Framsóknar því þeir vita hverjir eru líklegastir til að standa upp í hárinu á þeim og hverjir eru líklegastir til að guggna undan kröfum og hótunum. Ítrekaðar heilsíðuauglýsingar sem eru nánast dónaskapur við lýðveldið Ísland eru upptakturinn að þeirri baráttu sem kröfuhafar eru nú að undirbúa. Það skiptir Ísland öllu máli að flokkur sem stendur í lappirnar gagnvart kröfuhöfum sé sterkur og áhrifamikill í stjórnmálum. Það skiptir því öllu máli að stuðningur við Framsóknarflokkinn í þessum kosningum verði ótvíræður.

Þorsteinn Sæmundsson.

Greinin birtist á Visir.is 26. október 2016.