Categories
Greinar

Hinsegin í útlöndum

Deila grein

06/08/2016

Hinsegin í útlöndum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Á morgun göngum við til gleði. Ísland hefur um árabil verið í hópi forysturíkja hvað varðar virðingu fyrir mannréttindum hinsegin fólks.

Árangursrík barátta gegn hvers konar fordómum og mismunun á grundvelli kynhneigðar og kyngervis hefur aukið fjölbreytileika í þjóðfélaginu.

Víða um heim er það þó svo að hinsegin fólk er ofsótt og nýtur ekki grundvallarmannréttinda. Í sumum ríkjum er samkynhneigð álitin glæpur og stjórnvöld hika ekki við að skerða frelsi og réttindi hinsegin fólks. Í fjölmörgum ríkjum hafa lagalegar og samfélagslegar breytingar átt sér stað að undanförnu sem bætt hafa stöðu hinsegin fólks en hatursglæpir á borð við nýlega árás í Orlando sýna að víða er mikið verk óunnið.

Íslensk stjórnvöld beita sér fyrir mannréttindum hinsegin fólks í tvíhliða samskiptum við önnur lönd og á vettvangi alþjóðastofnana. Stundum er á brattann að sækja en í góðu samstarfi við Norðurlönd og aðra má finna leiðir til þess að knýja fram úrbætur. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland gagnrýnt mannréttindabrot og bent á skuldbindingar ríkja til að vernda og virða mannréttindi allra. Þá eru réttarbætur hinsegin fólks ávallt á dagskrá í samskiptum við stjórnvöld ríkja þar sem úrbóta er þörf.

Glöggt er gests augað og með alþjóðlegu samstarfi gefst einnig kostur á úrbótum heima fyrir. Þannig veitir ný skýrsla stjórnvalda til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna góða yfirsýn um stöðu mála hérlendis og þann árangur sem náðst hefur, en einnig aðhald þar sem gera má betur. Á haustmánuðum munu stjórnvöld svo njóta liðsinnis Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE til að efla þekkingu og störf gegn hatursglæpum í íslensku þjóðfélagi.

Saman viljum við stuðla að því að réttur milljóna hinsegin fólks verði virtur í hvívetna og mannlíf í sinni fjölbreyttustu mynd fái blómstrað.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. ágúst 2016.

Categories
Greinar

Landið allt í byggð!

Deila grein

28/07/2016

Landið allt í byggð!

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraEinn af þeim málaflokkum sem ég er að takast á við þessa dagana eru byggðamál. Þrátt fyrir góðan vilja hefur ekki tekist með fullnægjandi hætti að sporna við þeim raunveruleika að sumar byggðir í landinu þurfi stanslaust að standa í baráttu við að verja sinn hlut og berjast gegn því að þjónusta minnki og að fólki fækki.

Skattkerfið
Þessu þarf að breyta. Við Íslendingar erum hinsvegar ekki eina þjóðin sem glímir við þennan vanda. Um allan heim hefur þessi þróun átt sér stað og því ekki úr vegi að líta á hvaða úrræði hafa gagnast vel þar.

Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefur skattkerfinu verið beitt til þess að styrkja byggðir og skapa þannig jákvæða hvata fyrir fólk að setjast að á dreifbýlum svæðum og hefur árangurinn af þessum aðgerðum verið góður. Það er okkur lífsnauðsynlegt að hringinn í kringum landið sé blómleg byggð og það er ekki bara tilfinning heldur einnig þjóðhagslega mikilvæg aðgerð.

Í ljósi þess hef ég því sett af stað vinnu sem miðar að því að skoða hvernig beita megi skattkerfinu með það að augnarmiði að styrkja byggðir landsins. Byggðastofnun leiðir þá vinnu.

Þetta er í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkana sem innihélt sérstakan kafla um byggðamál og þar er lögð rík áhersla á að ná árangri í byggðamálum.

Opinber störf
Á seinustu árum hefur orðið mikil þróun er varðar möguleika til þess að störf geti verið án staðsetningar þökk sé tækniframförum og breyttum viðhorfum. Þetta gefur opinberum stofnunum svigrúm til þess að dreifa sínum starfsmönnum um landið þar sem starfsmenn geta valið sér sína starfsstöð og hafa nokkrar stofnanir gert það með góðum árangri. Það er ekkert lögmál að opinber störf skuli geirnegld á höfuðborgarsvæðið. Aðalmarkmið ríkisins hlýtur þó alltaf að vera að tryggja góða innviði svo mismunandi svæði á landinu séu samkeppnishæf og fjölbreytt atvinnulíf geti dafnað.

Byggðaáætlun
Um áramótin hófst svo vinna við að móta nýja byggðaáætlun til næstu sjö ára. Unnið er eftir nýjum lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir sem samþykkt voru á Alþingi sl. sumar. Við gerð byggðaáætlunar er haft viðamikið samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga. Þar að auki getur almenningur sent inn tillögur á heimasíðu Byggðastofnunar. Með þessu næst yfirsýn yfir aðgerðir í byggðamálum þvert á stjórnsýsluna og áhersluatriði heimamanna fá að njóta sín.

Eitt af þeim atriðum sem við leggjum áherslu á er að íbúar landsins alls njóti sömu tækifæra hvað varðar aðgengi að opinberri grunnþjónustu. Þar er um að ræða helstu svið opinberrar þjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngur, fjarskipti, löggæslu og menningu.

Að lokum
Það er okkur lífsnauðsynlegt sem þjóð að standa saman að uppbyggingu og framförum. Við verðum því að sameinast um að ráðast í aðgerðir sem tryggja að íbúar um land allt fái notið þeirrar þjónustu sem kröfur eru gerðar um í nútímasamfélagi.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist á www.feykir.is 25. júní 2016.

Categories
Greinar

Það sem ekki má bíða

Deila grein

26/07/2016

Það sem ekki má bíða

Sigmundur-davíðÞað er sama til hvaða mælikvarða er litið. Á þremur árum hefur ríkisstjórn Íslands náð árangri sem er einstakur í samanburði við önnur þróuð ríki. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér.

Ég hef áður bent á hversu mikilvægt er að halda því til haga að þegar viðraðar voru hugmyndir um að flýta kosningum var það háð því að fyrst tækist að klára mikilvæg verkefni ríkisstjórnarinnar.

Áætlunin

Þegar ríkisstjórnin var mynduð gerðum við samning til fjögurra ára. Eins og ég hef áður lýst unnum við eftir heildaráætlun um hvernig við gætum náð markmiðum okkar á þessum fjórum árum. Áætlunin, fjögurra ára planið, skiptist í megindráttum í tvennt. Fyrri áfanginn snerist um hvernig taka ætti á þeim stóra vanda sem beið okkar, seinni hlutinn um hvernig standa ætti að sókninni og uppbyggingunni sem svo ætti, og þyrfti, að taka við. Fyrri hlutinn snerist um að takast á við vandamál, seinni hlutinn um að nýta tækifæri.

Til að leysa vandamálin þurfti að mínu mati að blanda saman erfiðum en margreyndum aðgerðum annars vegar og óhefðbundnum og róttækum aðgerðum hins vegar. Það þurfti til dæmis einbeittan vilja til að hætta skuldasöfnun og reka ríkissjóð með afgangi öll ár kjörtímabilsins samhliða því að innleiða hvata til fjárfestingar og verðmætasköpunar. En ríkisstjórnin þurfti líka að vera reiðubúin til að ráðast í aðgerðir sem engin stjórnvöld nokkurs staðar höfðu nokkurn tíma reynt, hluti á borð við almenna skuldaleiðréttingu og aðgerðir til að fá kröfuhafa bankanna til að afsala sér hundruðum milljarða króna samhliða afnámi fjármagnshafta – hluti sem sagðir voru óraunhæfur popúlismi, skýjaborgir, og ólögmæt eignaupptaka svo nefnd séu dæmi um hófstilltari hluta gagnrýninnar sem við kvað.

Árangurinn

Þrátt fyrir þetta var ég bjartsýnn. Ég hafði trú á verkefninu. Ég var sannfærður um að þetta væri allt hægt og efaðist ekki um tækifæri landsins. En þrátt fyrir að ég hafi verið bjartsýnn við upphaf vinnunnar gekk hún betur en jafnvel ég þorði að vona.

Það gerðist á hinn bóginn ekki af sjálfu sér, síður en svo. Lagabreytingar til að örva verðmætasköpun og aðhaldssöm fjárlög kölluðu á stöðuga og oft á tíðum harða gagnrýni síðustu fjóra mánuði hvers árs. Það var þó ekkert miðað við stríðið sem leiddi af áformum um að láta vogunarsjóði og aðra kröfuhafa föllnu bankanna borga fyrir losun gjaldeyrishafta og endurreisn efnahagslífsins, eins og ég mun greina betur frá síðar. Þeir sem fylgjast með stjórnmálum muna þó væntanlega eftir dæmum um það sem á gekk í þeim slag, slag þar sem vogunarsjóðirnir vörðu á skömmum tíma 20 milljörðum króna í hagsmunagæslu.

Afrakstur vinnunnar birtist í vel yfir 1.000 milljarða króna viðsnúningi á stöðu ríkisins, líklega nær 1.500 milljörðum. Breytingin fyrir samfélagið í heild er enn meiri. Enn hefur ekki verið bent á annan eins efnahagslegan viðsnúning í seinni tíma hagsögu. Lee Buchheit kallaði enda þann þátt sem sneri að losun hafta og fjárútlátum kröfuhafa einstakan í fjármálasögu heimsins.

Framhaldið

Við erum því einstaklega vel í stakk búin til að framfylgja seinni hluta áætlunarinnar, betur en nokkur hefði trúað, og það verðum við að gera. Þótt lengst af hafi gengið vel að framfylgja stjórnarsáttmálanum eru nokkur mikilvæg verkefni ókláruð. Það eru verkefni sem teljast til seinni hluta fjögurra ára plansins. Nú eru forsendur til að klára þau öll og ótækt að gera það ekki.

Sum þessara verkefna snúast um aðkallandi framhald vinnu við það sem kalla mætti endurbætur á reglunum sem samfélagið starfar eftir. Önnur snúa að fjárfestingu og því að nýta hinn mikla efnahagslega árangur til uppbyggingar.

Leiðrétting fyrir eldri borgara

Um síðustu áramót gáfum við fyrirheit um að áfram yrði lögð áhersla á að bæta kjör eldri borgara og tryggja að efnahagslegur árangur skilaði sér í bættum lífskjörum lífeyrisþega. Samhliða því stóð til að endurskoða örorkubætur og raunar bótakerfið í heild. Pétursnefndin svo kallaða (kennd við Pétur H. Blöndal og síðar undir forystu Þorsteins Sæmundssonar) hefur skilað af sér tillögum um mikilvægar úrbætur í lífeyriskerfinu. Það er óhugsandi fyrir ríkisstjórn sem náð hefur þeim árangri sem við höfum skilað á síðast liðnum þremur árum að vanrækja að skila þeim árangri áfram til fólksins sem byggði upp samfélagið sem við njótum nú góðs af.

Búsetujafnrétti

Frá upphafi hef ég lagt áherslu á að eitt af mikilvægustu verkefnum þessarar ríkisstjórnar væri að vinna að umfangsmiklum úrbótum á því sem nefna má búsetujafnrétti. Reyndar snýst það um meira en jafnrétti landsmanna óháð búsetu. Það snýst um að tryggja að árangur Íslendinga nýtist landinu öllu svo að landið allt nýtist við að ná árangri fyrir Íslendinga.

Í þjóðhátíðardagsræðu var ég afdráttarlaus um að úrbætur í þessu efni væru forgangsmál á seinni hluta kjörtímabilsins. Ég útskýrði að við stæðum á þeim tímamótum að ekki væri forsvaranlegt að bíða lengur með að vinna að bættum fjarskiptum um allt land, einkum ljósleiðaravæðingu, samgöngubótum, endurreisn heilbrigðis- og menntakerfisins á landsbyggðinni auk þess að tryggja forsendur fyrir eðlilegri atvinnusköpun. Hið síðastnefnda snýst um að stjórnvöld skapi þær aðstæður að ný störf verði til um allt land, bæði hjá hinu opinbera og með einkarekstri.

Þessi ríkisstjórn verður að skila áþreifanlegum árangri fyrir byggðir landsins. Klári hún það ekki mun önnur ríkisstjórn ekki gera það. Skaðinn af því að vanrækja stærstan hluta landsins yrði mikill fyrir landið allt.

Aðrir innviðir

Óþarfi er að telja upp þá fjölmörgu mikilvægu innviði landsins sem nauðsynlegt er að halda áfram að bæta nú þegar við höfum efni á því og tækifæri til þess. Á mörgum sviðum höfum við þó ekki aðeins tækifæri til að setja meiri peninga í verkefnin, við getum líka leyft okkur að hugsa upp á nýtt með hvaða hætti við stöndum að uppbyggingunni. Það á ekki hvað síst við á sviði heilbrigðismála.

Fjármálakerfið og verðtrygging

Loks nefni ég mikilvægi þess að ríkisstjórnin hverfi ekki frá því gríðarmikilvæga verkefni að laga fjármálakerfið á Íslandi og losa samfélagið úr viðjum verðtryggingar. Samhliða því þarf að gera ungu fólki auðveldara og ódýrara að taka óverðtryggð lán og eignast húsnæði. Allt er þetta hægt enda hefur það verið í undirbúningi í þrjú ár. Sá undirbúningur fólst í því að búa til forsendurnar (ríkið hefur t.a.m. yfirtekið fjármálakerfið að mestu leyti) og svo að hanna bestu leiðina. Það er allt til reiðu. Fjögurra ára planið hefur gengið upp til þessa. Nú er viljinn allt sem þarf til að klára það.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. júlí 2016.

Categories
Greinar

Sanngjarnan stuðning frekar en skuldir

Deila grein

19/07/2016

Sanngjarnan stuðning frekar en skuldir

Eygló HarðardóttirFyrir stuttu hafði fjölskyldufaðir með fjögur börn á framfæri samband við mig. Þau hjónin voru með 600 þús. kr. ráðstöfunartekjur á mánuði og bjuggu í hóflegu húsnæði. Hann hafði verið að fara yfir fjármál fjölskyldunnar og sá enga leið færa aðra en að endurfjármagna og lengja í húsnæðislánum fjölskyldunnar til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði þeirra.

Á þessu kjörtímabili hef ég lagt áherslu á að auka stuðning við fjölskyldur. Því hef ég barist fyrir því að húsnæðisstuðningur í gegnum húsaleigu- og vaxtabótakerfi, yrði sameinaður í eitt húsnæðisbótakerfi þar sem byggt yrði á efnahag fjölskyldunnar frekar en að umbuna þeim sem geta tekið sem hæst lán líkt og vaxtabótakerfið gerir. Því miður náðist ekki samstaða um það og lög um nýtt húsnæðisbótakerfi sem taka gildi um áramótin taka aðeins til leigjenda en ekki allra heimila. Þar er þó stuðningur við fjölskyldur með lágar og meðaltekjur aukinn verulega.

Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ, bendir á að vaxtabætur hafa rýrnað mikið frá árinu 2013. Vaxtabætur lækkuðu um 25 prósent á árinu 2015 og þeim sem fá þær fækkaði um 21prósent. Sömuleiðis fækkar þeim sem fá barnabætur greiddar. Í fjármálaáætlun fjármálaráðherra til næstu fimm ára er boðað að draga eigi enn frekar úr barnabótum og vaxtabótum. Slík forgangsröðun fjármálaráðuneytisins var ástæða þess að ég setti alvarlega fyrirvara við þessa áætlun þegar hún var samþykkt í ríkisstjórn.

Ég tel því mikilvægt að opna umræðu um að færa stuðning við heimili landsins yfir til velferðarráðuneytisins, þar sem velferð frekar en skattar er í fyrirrúmi. Sameina ætti vaxtabætur nýju húsnæðisbótakerfi og taka stuðning við barnafjölskyldur til gagngerrar endurskoðunar. Þar hefur verkalýðshreyfingin bent á tillögur um barnatryggingar þar sem barnalífeyrir almannatrygginga og barnabætur yrðu sameinaðar.

Ísland á að vera fjölskylduvænt samfélag þar sem veita á fólki sanngjarnan stuðning, en ekki þvinga það til skuldsetningar.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. júlí 2016.

Categories
Greinar

Glataðir snillingar

Deila grein

16/07/2016

Glataðir snillingar

Karl_SRGBFæreyski rithöfundurinn William Heinesen skrifaði fyrir margt löngu sögu sem nefndist „Glataðir snillingar“ í íslenskri þýðingu.

Oft hefur þessi titill komið upp í hugann þegar ég hef hlustað á snillinga hinnar íslensku þjóðfélagsumræðu. Ekki það að ég telji þá glataða, miklu frekar snillinga. Slíkt fólk tjáir sig daglega á samfélagsmiðlum, sumir úr ræðustól Alþingis.  Þetta er fólk sem hefur ekki bara skoðanir, heldur líka réttu skoðanirnar. Það verður gjarnan pirrað og reitt ef aðrir eru með efasemdir. Þetta er fólk sem vill stjórna og veit betur.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins fyrir nokkru sagði að tilhneigingin væri sú að að hinir stjórnlyndu teldu sig gjarnan eiga meira erindi í stjórnmál og opinbera umræðu en aðrir, enda grundvöllur stefnunnar ekki síst sá að telja sig vita betur en almenningur hvað honum er fyrir bestu. Þetta valdi því að viðhorf stjórnlyndis fái mikið vægi í umræðunni.

Það er mikið til í þessu. Sjálfur hef ég ekki hundsvit á fjölmörgum þeirra mála sem rædd hafa verið á þingi. Í þeim tilvikum hef ég reynt að halda mig til hlés í stað þess að blaðra ábyrgðarlaust út í loftið. Þannig hef ég valið fá, en það sem ég tel vera góð mál, og barist fyrir þeim. Þar get ég nefnt baráttu gegn skattaundanskotum og kennitöluflakki,  að geðheilbrigði barna og ungmenna sé bætt, að stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra o.sv.frv.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um að þessi mál hafa ekki verið samþykkt, nema að heilbrigðisráðherra taldi tilvalið að taka geðheilbrigðishugmyndina inn í langtímaáætlun sína. Það var gott. Öðrum málum hefur samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, ekki haft áhuga á – frelsi einstaklingsins til að haga sér eins og hann vill er ofar öllu öðru í hugmyndafræði þess flokks. Þess vegna er ekki vilji til að taka á skattaundanskotum og kennitöluflakki. Þá er lítill áhugi þar innandyra á embætti umboðsmanns aldraðra – vegna þess að það myndi þýða enn eina stofnunina. Það vegur þyngra en notagildi hennar.

Ég lít á mig sem talsmann einstaklingsfrelsis. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga. Hagsmunir fjöldans eru alltaf mikilvægari en einstaklingsins.

Það líður að kosningum. Enn og aftur er enginn skortur á þeim sem vilja leiðbeina okkur hinum sem hafa villst af leið. Ég dáist innst inni af þeim sem vita betur. Þeim sem telja sig vita best hvernig náunginn á að lifa lífinu – hvað honum sé fyrir bestu. Það er ekki öllum gefið.

Sú hugsun hlýtur að vera áleitin hvort ekki sé rétt að hleypa þessu fólki að.

Allavega gengur ekki að hafa glataða snillinga í þingsal.

Karl Garðarsson

Greinin birtist á www.blog.pressan.is/karlg 15. júní 2016.

Categories
Greinar

Jöfn kjör kynjanna

Deila grein

05/07/2016

Jöfn kjör kynjanna

SGMAnna-Kolbrun-ArnadottirNúna er til umsagnar á heimasíðu velferðarráðuneytisins drög að frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á almannatryggingum. Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar sem unnið hefur verið að um árabil.

Áhugavert er að skoða áhrif frumvarpsins á kynin en undirritaðar vilja benda sérstaklega á jafnréttismarkmið frumvarpsins sem miða að því að jafna stöðu kynjanna og tækifæri með auknu efnahagslegu jafnræði. Það þýðir að markmiðin ná til efnahagslegs jafnræðis kynjanna, jafnrar félagslegrar virkni og sjálfstæðis ásamt jöfnum tækifærum til góðrar heilsu.

Ein af þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir er að stærra hlutfall þjóðarinnar mun eiga rétt á lífeyrisgreiðslum. Því er nauðsynlegt að hækka lífeyristökualdurinn í áföngum í 70 ár. Í þessum drögum er tekið á því en meðfram þessari breytingu verður sveigjanleiki við starfslok aukinn og hvati skapaður til þess að einstaklingar geti haldið áfram á vinnumarkaði allt eftir getu hvers og eins.

Einnig er ætlunin að einfalda kerfið; sameina bótaflokka og fækka, afnema frítekjumörk og einfalda útreikninga. Þessar breytingar snerta sérstaklega konur þar sem bæta á kjör þeirra sem hafa áunnið sér lítinn eða engan rétt í lögbundna lífeyrissjóðakerfinu og þurfa því að reiða sig á almannatryggingakerfið hvað varðar framfærslu á efri árum. Með þessari breytingu verður fest í sessi lágmarksfjárhæð sem uppbótin tryggir þeim sem lægstar tekjur hafa og bætir þar með kjör þeirra.

Það er nefnilega þannig að þetta snertir konur sem eru nú 56% ellilífeyrisþega og því er ánægjulegt að í frumvarpinu eru breytingar sem ætlað er að auka réttindi þeirra þar sem staðreyndin hefur lengi verið að konur hafa lakari rétt til framfærslu en karlar. Að þessu sögðu er rétt að benda á að karlar í sömu stöðu munu njóta sambærilegra breytinga en þar sem konur eiga almennt minni rétt í lífeyrissjóðakerfinu má ætla að breytingarnar komi þeim til góða í meiri mæli og dragi úr mun á kjörum kynjanna.

Það er því með sanni hægt að segja að með þessu frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra til breytinga á lögum um almannatryggingar, sé stigið ákveðið og mikilvægt skref í þá átt að jafna stöðu kynjanna, í því felast möguleikar til félagslegrar virkni, sjálfstæði og góðrar heilsu og vert er að þakka fyrir það.

Anna Kolbrún Árnadóttir og Sunna Gunnars Marteinsdóttir

Greinin birtist á www.visir.is 1. júlí 2016.

Categories
Greinar

Mikilvæg endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni kynnt

Deila grein

29/06/2016

Mikilvæg endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni kynnt

Eygló HarðardóttirVerulegar breytingar á almannatryggingakerfinu eru áformaðar eins og sjá má í drögum að frumvarpi sem birt hafa verið til umsagnar á vef velferðarráðuneytisins.

Allt frá árinu 2005 hefur verið unnið að heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar og ófáar nefndir og verkefnahópar komið að þeirri vinnu. Haustið 2013 skipaði ég nefnd undir forystu þingmannanna Péturs Blöndal heitins og Þorsteins Sæmundssonar og eru frumvarpsdrögin byggð á vinnu þeirrar nefndar.
Helstu markmið fyrirhugaðra breytinga eru að einfalda og skýra almannatryggingakerfið, bæta samspil þess við lífeyrissjóðina og auka stuðning við þann hóp aldraðra sem hefur lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga. Horft er til þess að styðja aldraða til sjálfsbjargar og hvetja til atvinnuþátttöku.

Aukinn sveigjanleiki við starfslok
Markmiðið er einnig að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna hækkandi hlutfalls eldri borgara af mannfjölda og lengingar meðalævinnar. Lagt er til að auka sveigjanleika við starfslok og upphaf lífeyristöku og skapa þannig hvata fyrir aldraða til áframhaldandi atvinnuþátttöku eftir vilja og getu hvers og eins. Auk þessa verði lífeyristökualdur hækkaður í skrefum um þrjú ár á næstu 24 árum.

Aukinn sveigjanleiki felur í sér tillögu um heimild fólks til að fresta lífeyristöku allt til áttræðs og möguleika á að flýta lífeyristöku hjá almannatryggingum til 65 ára aldurs. Miðað er við að lífeyrisþegar fái hærri lífeyri ef lífeyristöku er frestað, en lægri lífeyri ef lífeyristöku er flýtt. Til lengri tíma er stefnt að því að lífeyrisþegum verði gert kleift að taka hálfan ellilífeyri frá lífeyrissjóði en fresta töku hins helmingsins sem hækkar þá í samræmi við reglur sjóðsins. Samhliða geti fólk tekið hálfan ellilífeyri frá almannatryggingum.

Einfaldara kerfi og færri bótaflokkar
Lagt er til að bótaflokkarnir grunnlífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót til framfærslu verði sameinaðir í einn bótaflokk; þ.e. ellilífeyri. Frítekjumörk verða afnumin og mun fjárhæð ellilífeyris almannatrygginga lækka um sama hlutfall, eða 45%, vegna tekna frá öðrum en almannatryggingum, en í dag er þetta hlutfall mismunandi eftir tegund tekna. Áfram er gert ráð fyrir að ákveðnar tegundir tekna, s.s. greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, verði undanskildar við útreikning á tekjuviðmiðinu.

Jákvæð efnahagsleg áhrif
Áætlað er að kostnaður þessara breytinga á almannatryggingakerfinu nemi 5,3 milljörðum króna fyrsta árið. Greiningarfyrirtækið Analytica lagði mat á efnahagsleg áhrif breytinganna. Niðurstaðan er sú að breytingarnar hafi á heildina litið jákvæð efnahagsleg áhrif. Gera megi ráð fyrir að hækkun á lífeyristökualdri leiði til fjölgunar fólks á vinnumarkaði og auki þannig með beinum hætti framleiðslu og auknar skatttekjur. Þá megi reikna með að sveigjanleg starfslok stuðli að hagkvæmara fyrirkomulagi framleiðslu sem geti aukið hana enn frekar.

Sú kynslóð kvenna sem nú er á lífeyrisaldri hefur frekar en karlar gert hlé á atvinnuþátttöku sinni á vinnualdri, t.d. vegna fjölskylduábyrgðar, á almennt minni réttindi í lífeyrissjóðum, hefur búið við kynbundinn launamun þorra starfsævinnar og treystir því frekar á almannatryggingakerfið sér til framfærslu. Lagðar eru til breytingar í því skyni að auka réttindi allra þeirra sem hafa áunnið sér lítinn eða jafnvel engan rétt í lífeyrissjóðakerfinu vegna lítillar atvinnuþátttöku, jafnt karla sem kvenna, en konur munu hagnast meira á því en karlar vegna lægri tekna. Gangi þessar breytingar eftir er áætlað að tæplega 68% aukinna útgjalda muni fara til kvenna en um 32% til karla.

Samstarfsverkefni um starfsendurhæfingu og innleiðingu starfsgetumats
Í niðurstöðu nefndarinnar um endurskoðun almannatrygginga var samstaða um breytingar á bótakerfi aldraðra en ágreiningur um breytingar sem snúa að öryrkjum. Því er lagt til að komið verði á fót tilraunaverkefni um starfsendurhæfingu og innleiðingu starfsgetumats í samstarfi ríkis, sveitarfélaga, samtaka aðila vinnumarkaðarins og helstu hagsmunasamtaka fólks með skerta starfsgetu í þeim tilgangi að efla atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu.

Afnám vasapeningakerfis á öldrunarheimilum
Í frumvarpsdrögunum er lögð til sérstök heimild til að hefja tilraunaverkefni um breytt fyrirkomulag greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum um afnám gildandi vasapeningakerfis. Þetta hefur lengi verið baráttumál samtaka aldraðra, en með því myndu íbúar á þessum heimilum halda lífeyrisgreiðslum sínum og greiða milliliðalaust fyrir veru sína á heimilunum að undanskildum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Ég hvet fólk til að kynna sér efni frumvarpsins sem er aðgengilegt á vefnum www.vel.is og koma athugasemdum á framfæri, en umsagnarfrestur er til 31. júlí næstkomandi.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júní 2016.

Categories
Greinar

Loftslagsvænn landbúnaður

Deila grein

23/06/2016

Loftslagsvænn landbúnaður

sigrunmagnusdottir-vefmyndÁ dögunum skrifuðu undirrituð og Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) á Hvanneyri, undir tvo samninga um verkefni sem eru hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Annar samningurinn snýr að því að fá yfirlit og upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu koldíoxíðs í gróðri og jarðvegi. Hinn samningurinn lýtur að útreikningum á kolefnislosun í landbúnaði. Upplýsingar og gögn frá þessum verkefnum munu gagnast við gerð vegvísis, þar sem stefna og markmið um að útfæra minnkun í losun frá landbúnaði er mótuð í samvinnu við Bændasamtökin.

Það skiptir miklu máli að bæta tölulegar upplýsingar varðandi þátt landbúnaðar og landnotkunar í kolefnislosun og -bindingu hér á landi. Samningarnir við LBHÍ eru þýðingarmikið skref í því að auka vísindaþekkingu innan skólans á þessu sviði um leið og þeir styrkja þessa mikilvægu stoð í stefnu Íslands í loftslagsmálum.

Samvinna
Sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er til þriggja ára og samanstendur af 16 fjölbreyttum verkefnum sem unnin verða í samstarfi við atvinnulífið og stofnanir. Ekki hefur áður verið lagt jafn mikið fé til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum hérlendis. Sóknaráætlunin miðar að því að virkja atvinnulíf og stofnanir því loftslagsmál tengjast nær öllum atvinnugreinum. Því þarf samstillt átak til að takast á við þær áskoranir sem eru samfara þeim auk þess sem loftslagsmál hafa gríðarleg áhrif á efnahagslífið.

Mikilvægt er að allir beri ábyrgð í loftlagsmálum, en mikil vakning hefur orðið í samfélaginu um að finna raunhæfar lausnir. Til að vel megi takast og standa undir væntingum þeirra kynslóða sem á eftir okkur koma þarf því að örva og virkja samfélagið, fyrirtæki sem og einstaklinga til þátttöku og aukinnar vitundar. Sóknaráætlunin tekur mið af þess konar samvinnu og má nefna eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu, átak gegn matarsóun, vegvísi í sjávarútvegi, endurheimt votlendis og loftslagsvænan landbúnað.

Kolefnisútreikningar
Landbúnaður og landnotkun hefur vissulega áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda en þar eru jafnframt tækifæri til að binda koldíoxíð úr andrúmslofti með skógrækt, landgræðslu og fleiri aðgerðum. Nauðsynlegt er að fá betri kortlagningu og útreikninga á hvernig losunin dreifist innan geirans og hvar tækifæri í bindingu liggja svo markmið og áætlanir um samdrátt í losun nái fram að ganga.

Bestu vörslumenn landsins
Bændur gegna miklu hlutverki varðandi endurheimt landgæða og hafa verið ötulir talsmenn þess að græða landið frá fjöru til fjalla. Ríkisstjórnin hefur veitt aukið fjármagn til skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis. Fyrr í vor setti ég af stað verkefni um endurheimt votlendis í samræmi við sóknaráætlun í loftslagsmálum og fól Landgræðslu ríkisins framkvæmdina. Verkefnin verða unnin í náinni samvinnu við landeigendur en margir sjá aukna möguleika fyrir svæði sem ekki eru nýtt til búskapar og geta með endurheimt haft aukið útivistargildi, m.a. í fjölbreyttara fuglalífi og fiskgengd.

Þá er skógrækt viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Margir bændur eiga land sem ekki nýtist við búskapinn og gæti hentað vel til skógræktar. Með skógræktaráætlun skapast möguleikar á nýrri skógarauðlind og sjálfbærni í nýtingu lands samhliða bættri ímynd.

Minna kolefnisfótspor
Framundan eru áskoranir í loftslagsmálum sem þarf að mæta með breyttu og jákvæðu hugarfari. Fjöldi þeirra 175 ríkja sem skrifuðu undir Parísarsamkomulagið styrkir okkur í þeirri trú að þjóðir heims hafi tekið ákvörðun um að hefjast handa við að sporna gegn loftslagsbreytingum. Tillaga um fullgildingu samningsins af Íslands hálfu verður lögð fram á Alþingi að loknu sumarfríi – efndir munu fylgja orðum. Markmiðum Íslands verður fylgt eftir, kolefnisfótsporið þarf að minnka og mun stefna Íslands í loftslagsmálum leiða okkur að loftslagsvænum lausnum og nýsköpun.

Sigrún Magnúsdóttir

Grein birtist í Fréttablaðinu 23. júní 2016.

Categories
Greinar

Ísland njóti bestu kjara

Deila grein

23/06/2016

Ísland njóti bestu kjara

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Bretar ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag hvort þeir yfirgefi Evrópusambandið eða verði þar áfram. Viðhorfskannanir gefa til kynna að úrslitin verði tvísýn og þjóðin virðist skiptast í tvo jafn stóra hópa, þar sem annar vill aukið efnahagspólitískt sjálfstæði en hinn halda Evrópusamstarfinu áfram.

Bretland er eitt mikilvægasta viðskiptaland Íslands. Íslendingar fluttu út vörur og þjónustu til Bretlands fyrir meira en 120 milljarða króna á síðasta ári. Á móti fluttum við inn vörur og þjónustu frá Bretlandi fyrir 90 milljarða. Bretar eru um 19% erlendra ferðamanna á Íslandi og eru fjölmennastir í hópi þeirra sem sækja okkur heim. Flugferðir milli landanna voru um 6.400 talsins á síðasta ári og um 2.200 Íslendingar eru skráðir með lögheimili í Bretlandi.

Grundvallast á EES–samningnum
Samskipti Íslands og Bretlands grundvallast að miklu leyti á EES-samningnum. Hann kveður á um frelsi í viðskiptum og fjárfestingum, frjálsa búsetu fólks og samstarf á ýmsum sviðum. Samningurinn helst óbreyttur ef Bretar velja sér áframhaldandi veru í Evrópusambandinu. Ef Bretar segja skilið við sambandið munu þeir þurfa að semja um viðskiptakjör og ýmis samskipti sín við aðrar þjóðir, þar með taldar aðildarþjóðir EES-samningsins. Engar breytingar yrðu þó á samskiptum Íslands og Bretlands í a.m.k. tvö ár frá ákvörðun um úrsögn, samkvæmt sáttmálum ESB. Með samhljóða ákvörðun allra aðildarríkjanna má lengja þann tíma.

Í startholunum
Íslensk stjórnvöld hafa fylgst náið með þróun mála undanfarna mánuði og búið sig undir niðurstöðuna, hver sem hún kann að verða. Í báðum tilvikum er markmiðið það sama; að tryggja festu og stöðugleika í samskiptum landanna, að viðskiptakjör verði framvegis a.m.k. jafn góð og hingað til og frelsi íbúanna til ferða og búsetu í hvoru landi fyrir sig haldist óbreytt. Leiðirnar að því markmiði hafa verið kortlagðar og við erum í startholunum, ef á þarf að halda.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Grein birtist í Fréttablaðinu 23. júní.

Categories
Greinar

19. júní – „betur má ef duga skal“

Deila grein

19/06/2016

19. júní – „betur má ef duga skal“

Anna-Kolbrun-ArnadottirÞað er við hæfi að líta um öxl á þessum degi. Árið 1911 samþykkti Alþingi með miklum meirihluta frumvarp um algert jafnrétti kynjanna til skólagöngu, námsstyrkja og embætta. Árið 1915, 19. júní, staðfesti konungur stjórnarskrána með réttindum kvenna, sem þær síðan hafa haft. Þessu ber að fagna og minnast, jafnvel rúmum 100 árum seinna. Í dag mun Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra afhenda styrki úr Jafnréttissjóði Íslands en sjóðurinn var stofnaður árið 2015, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna.
Ísland er vissulega í fararbroddi á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði, en betur má ef duga skal. Nú nýlega birtist mynd af Þjóðhagsráði Íslands en í ráðinu sitja sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands. Vissulega getur það reynst flókið að huga að kynjajafnrétti í slíku ráði en þó ætti það ekki að vera svo flókið ef betur er að gáð. Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sitja í ráðinu stöðu sinnar vegna, en svo er tiltekið að forsvarsmenn SA, SÍS og SÍ eigi sæti í ráðinu og þar er vel hægt, ef vilji er fyrir hendi, að huga að kynjajafnrétti þar sem stjórnir þessara samtaka og stofnana eru skipaðar bæði körlum og konum. Að þessu sögðu er hægt að horfa til þeirra viðbragða við skipan ráðsins sem birtust í samfélaginu og óhætt er að draga þá ályktun að okkur hefur miðað áfram, fólk tók eftir þessari skökku mynd og benti á hið augljósa, að Þjóðhagsráð ætti að sjálfsögðu að vera skipað körlum og konum.

Um leið og við minnumst dagsins innanlands er gott að við hugum einnig að konum utan landsteinanna. Það eru enn verkefni sem við þurfum að vinna að, alltaf þarf að standa jafnréttisvaktina og við þurfum að beita öllum tiltækum ráðum. Við þurfum að líta til annarra landa og sjá hvernig við getum verið sú fyrirmynd sem við viljum vera. Við lesum um konur á flótta, konur sem eru eru barnshafandi og dreymir um að fæða börn sín inn í sanngjarnan heim en talið er að 12% kvenna sem ferðast yfir Miðjarðarhafið séu með barni. Margar eru með börn á brjósti eða ferðast með ungabörn með sér. Gríðarleg aukning hefur orðið á mæðradauða á meðal flóttakvenna síðastliðin ár. Þær hætta lifi sínu til að eiga börn sín í friðsælum aðstæðum og leita meðal annars til Evrópu. Þær ferðast fótgangandi oft að næturlagi í afskekktum héruðum fjarri lögreglu, á óupplýstum leiðum og ómalbikuðum vegum, halda til í niðurníddum lestum á nóttunni, eiga ekki í nein hús venda og búa við stöðugt öryggisleysi.
Margar konur eiga því börn sín á flótta og í flóttamannabúðum.
Konur eins og við.

Innilega til hamingu með daginn – höldum áfram að vera þær fyrirmyndir sem formæður okkar allra voru.

Anna Kolbrún Árnadóttir, Formaður Landssambands Framsóknarkvenna.