Categories
Fréttir

Minnisblað um efnahagsleg sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærum

Deila grein

18/08/2020

Minnisblað um efnahagsleg sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærum

Hér að neðan fer minnisblað um efnahagsleg sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærum sem lagt var fram í ríkisstjórn:

Minnisblaðið er unnið að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á sóttvarnaráðstöfunum á landamærum. Minnisblaðið fylgir í kjölfar greinargerðar um efnahagsleg sjónarmið við losun ferðatakmarkana frá því í júní 2020. Þá þótti hvorki rétt að opna né loka landamærum algjörlega heldur beita skimun til að lágmarka eftir fremsta megni líkur á að smit bærust til landsins og leiddu til harðra sóttvarnaaðgerða. Skýrt var frá upphafi að þær ákvarðanir þyrftu að vera í stöðugri endurskoðun í ljósi þeirrar þekkingar sem aflast og vegna þess að faraldurinn tekur sífelldum breytingum.

Niðurstöður

  • Í ljósi stöðu faraldursins alþjóðlega og hérlendis er þjóðhagslega hagkvæmt að skima á landamærum, í þeim skilningi að skimunin virðist svara kostnaði þar sem stórt hlutfall smitaðra er greindur og þeir sem ferðast valda samfélagslegum kostnaði vegna smithættu. Landamæraskimunin hefur auk þess fælingarmátt gagnvart einstaklingum sem vita að þeir kunna að bera veiruna. Ferðalangar ættu að greiða allan kostnað við skimun.
  • Ef gera á breytingar á landamæraskimun nú virðast hin hagrænu rök frekar hníga að því að herða en losa kröfur. Ef of langt er gengið í þeim efnum er einfaldara að vinda ofan af þeim ákvörðunum en að hemja útbreitt smit. Hvort rétta leiðin við smitvarnir á landamærum sé að hefja skimun allra sem hingað koma ásamt sértækri gjaldtöku og stífari kröfum fyrir þá sem hafa sterk samfélagsleg tengsl hér, hefja almenna tvöfalda skimun með sóttkví eða beiting einhverra annarra úrræða ræðst fyrst og fremst að sóttvarnarsjónarmiðum við núverandi aðstæður. Mikilvægt er að skýrt sé við hvaða aðstæður hægt verður að létta ráðstöfunum.
  • Að öllu jöfnu hníga rík hagfræðileg rök að því að þeir sem leggja í ferðalög greiði sérstaklega fyrir þann samfélagslega kostnað sem af þeim hljótast við núverandi aðstæður til viðbótar við greiðslu fyrir kostnað af landamæraskimun.

Samantekt

  • Í grundvallaratriðum hafa forsendur ekki breyst frá því greinargerð um efnahagsleg sjónarmið við sóttvarnaraðgerðir á landamærum var birt í júní. Enn er með öllu óvíst hvenær faraldurinn gengur yfir og hvenær bóluefni verður aðgengilegt. Þó er enn ljósara nú en fyrr að faraldurinn verður viðvarandi á heimsvísu þar til bóluefni kemst í almenna dreifingu. Sú reynsla sem hefur byggst upp í sumar er hins vegar gagnleg við að meta skynsamleg viðbrögð. Við túlkun þeirra upplýsinga ber þó að hafa í huga að faraldurinn er síbreytilegur bæði hérlendis og erlendis.
  • Við núverandi aðstæður heimsfaraldurs felst bæði ábati og kostnaður í því að létta á ferðatakmörkunum. Ábatinn birtist með augljósustum hætti í tekjum ferðaþjónustunnar en ekki er við því að búast að ferðamenn sæki landið heim í teljandi mæli séu þeir krafðir um smitgát eða sóttkví í marga daga eftir komu til landsins. Ferðatakmarkanir hér á landi og erlendis eru þó langt frá því að vera eini ráðandi þátturinn um fjölda ferðamanna því ferðavilji fer ekki síður eftir stöðu faraldursins hér á landi og erlendis.
  • Ábati af opnum landamærum felst einnig – og ekki síst – í því að viðhalda og skapa ný viðskiptatengsl, tryggja frjálst flæði vinnuafls og þeim útflutningsmöguleikum sem felast í þéttriðnu flutningsneti, bæði til og frá landinu. Þessi ábati er þó líklega minni á meðan faraldur geisar á helstu markaðssvæðum. Einnig felst samfélagslegur ábati í því að sá fjöldi Íslendinga sem býr erlendis geti komið til landsins og að einstaklingar geti ferðast erlendis.
  • Frá þjóðhagslegu sjónarhorni hafa minni ferðalög landsmanna erlendis þó þann kost að flytja a.m.k. hluta af erlendri neyslu Íslendinga til landsins sem styður við innlend efnahagsumsvif. Reynsla undanfarinna vikna bendir til þess að tilflutningur neyslu sé síst minni en vænta mátti fyrir. Ekki er þó ljóst hvort að sá stuðningur sem hagkerfið hefur fengið af flutningi neyslu til landsins reynist viðvarandi eftir sumarið.
  • Svo lengi sem einhverjar líkur eru á því að smitaðir ferðalangar komist inn í landið felst ekki aðeins ábati heldur einnig kostnaður af ferðalögum á milli landa. Hann kemur fram í aukinni tíðni harðari sóttvarnaaðgerða, veikindum og hugsanlegum dauðsföllum auk tapaðra vinnustunda vegna sóttkvía. Við það bætist óefnislegur kostnaður vegna ótta og minna ferða- og athafnafrelsis innanlands. Kostnaður einstaklinga við ferðalög ætti að endurspegla þessa áhættu.
  • Reynsla Íslands og annarra eyríkja bendir til að það sé líklega ekki hægt að koma algjörlega í veg fyrir að veiran berist til landsins. Aðgerðir á landamærum geta þó haft veruleg áhrif. Efnahagsleg áhrif ólíkra aðgerða á landamærunum ráðast ekki síst af því hversu mikið þær draga úr líkunum á því að veiran berist til landsins, að hún dreifist hér og að smit leiði til harðra sóttvarnaaðgerða. Svör við þessum grundvallarspurningum eru frekar í fórum sérfræðinga í smitsjúkdómum en hagfræðinga. Þó má leiða af því líkur að fjórðungur þeirra sem var með veiruna við komuna til landsins hafa ekki greinst við fyrstu skimun. Af fjórum hópsýkingum í sumar hefur svo ein endað í faraldri.
  • Ákvörðun um sóttvarnaráðstafanir á landamærum verður að byggja á fjölþættu hagsmunamati, sem einskorðast ekki við efnahagslega greiningu, og endurspegla þá grundvallaróvissu sem er um þróun faraldursins. Nú er ljóst að eftirspurn er meðal ferðamanna og Íslendinga að ferðast til og frá landinu. Reynslan sýnir einnig að þessum ferðalögum fylgir áhætta sem mikilvægt er að lágmarka og að skimun á landamærum hefur dregið verulega úr mögulegum samfélagslegum kostnaði ferðalaga milli landa þótt hún sé áfram nokkur nema frekar verði að gert. 

Meginmál

Efnahagslegur ávinningur er almennt af opnum landmærum. Íslenska hagkerfið er háð utanríkisverslun og íslenskur vinnumarkaður er þéttofinn þeim evrópska, enda búa hér um 50.000 erlendir ríkisborgarar og þúsundir Íslendinga búa utan landsteinanna. Auknar tengingar við útlönd stuðla að hagsæld; einangrun til lengdar hefur í för með sér margvíslegan kostnað. Efnahagslegur ávinningur af tíðum og fjölbreyttum samgöngum er þó líklega minni við núverandi aðstæður þar sem víðtækar sóttvarnaaðgerðir eru í öllum okkar helstu viðskiptalöndum.

Efnahagslegur kostnaður af smitum, ótta við smit og sóttvarnaráðstöfunum er verulegur. Kostnaðurinn felst að miklu leyti í tekjutapi vegna minni umsvifa. Einnig fylgir því beinn kostnaður að aðlagast smithættu, vegna sóttkvía og ekki síst vegna veikinda og dauðsfalla en langtímaáhrif af því að veikjast af COVID-19 eru enn óþekkt. Niðurstaða rannsóknar í Bandaríkjunum var sú að samfélagslegur kostnaður af hverju COVID-19 smiti væri jafnvirði um 40 milljóna króna á núverandi gengi.

Efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna á ársgrundvelli. Mun meiri kostnaður er af almennum sóttvarnaaðgerðum, svo sem samkomubanni, en sértækum aðgerðum á borð við smitrakningu og sóttkví. Þegar faraldurinn stóð sem hæst var kortavelta Íslendinga innanlands um 10 milljörðum króna minni á mánuði en hún hefði verið án faraldursins eða sem samsvarar um 4% af landsframleiðslu hvers mánaðar. Í mörgum Evrópulöndum þar sem beitt var harðari aðgerðum en á Íslandi dróst landsframleiðsla saman um 10-20% á öðrum ársfjórðungi.

Óefnislegur kostnaður af því að faraldurinn geisi er einnig verulegur. Það er til dæmis lýjandi að þurfa að búa við ótta við að veikjast, að lúta sóttvarnareglum í langan tíma og geta ekki hitt vini og vandamenn. Margir væru tilbúnir að greiða háar fjárhæðir fyrir að komast hjá þessu ef það væri mögulegt. Við stefnumótun ber að taka tillit til þessa kostnaðar ekki síður en beina efnahagslega kostnaðarins.

Fá smit, jafnvel aðeins eitt, geta haft í för með sér mikinn kostnað. Ástæðan er sú að einstaka smit sem ekki reynist unnt að rekja geta dreifst með veldisvexti nema gripið sé til kostnaðarsamra ráðstafana. Þannig eru um 700 manns í sóttkví þegar þetta er skrifað og stór hluti þeirra vegna smita sem líklega má rekja til eins smitaðs einstaklings sem kom til landsins. Kostnaður samfélagsins vegna þeirra sóttkvía sem hefur þurft að beita í sumar hleypur líklega á hundruðum milljóna króna.

Kostnaður af faraldrinum og sóttvarnaaðgerðum dreifist ekki jafnt og ræðst m.a. af starfstétt, aldri og kyni. Ríkissjóður hefur hlutverki að gegna við að dreifa þessum kostnaði og hefu r gert það m.a. með hlutabótum, greiðslum launa í sóttkví, verulega auknum útgjöldum til menntakerfisins auk hefðbundinna atvinnuleysisbóta.

Í sumar hefur innlend eftirspurn tekið hraðar við sér en búist var við í fyrstu. Árangur í sóttvörnum skiptir þar miklu máli. Vísbendingar eru um að einkaneysla hafi verið mun sterkari á 2. ársfjórðungi en talið var fyrr í sumar. Batinn í innlendri eftirspurn hefur vegið þungt á móti samdrætti í útfluttri ferðaþjónustu. Að hluta til er þessi hagstæða þróun vegna hagstjórnaraðgerða en einnig vegna þess að fyrr í sumar gat verslun og þjónusta átt sér stað án smithættu. Loks hefur stór hluti þeirrar neyslu Íslendinga sem hefði ella átt sér stað erlendis flust til landsins. Í júní var kortavelta Íslendinga erlendis 9 mö.kr minni en í fyrra en innanlands var hún 13 mö.kr meiri. Ekkert bendir til annars en að neysla landsmanna erlendis haldi áfram að flytjast til landsins á meðan ferðalög eru takmörkunum háð, þótt enn sé erfitt að spá fyrir um hve mikill hluti hennar kemur fram í aukinni neyslu innanlands og hve stórum hluta er varið í sparnað.

Frá 15. júní hafa um 70 þúsund ferðamenn komið til landsins. Því til viðbótar hafa komið um landamærin 45 þúsund íslenskir ríkisborgarar. Upplýsingar úr þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands benda til þess að framlag hvers ferðamanns til hagkerfisins geti legið á bilinu 100 til 120 þúsund. Því má áætla að þeir ferðamenn sem hafa sótt landið heim undanfarna tæpa tvo mánuði hafi lagt um 8 ma.kr. til efnahagslífsins á þeim tíma, en júní, júlí og ágúst eru mikilvægustu mánuðirnir fyrir íslenska ferðaþjónustu. Til samanburðar getur útbreiðsla faraldursins ásamt hörðum sóttvarnaráðstöfunum dregið úr neyslu innlendra aðila um 10 ma.kr. á mánuði, líkt og greint er frá að framan.

Það er forsenda fyrir komum ferðamanna til Íslands að landamærin séu tiltölulega opin, en einnig að stjórn hafi náðst á faraldrinum hérlendis og í heimalandi ferðamanna. Við núverandi aðstæður heimsfaraldurs felst bæði ábati og kostnaður í því að létta á ferðatakmörkunum. Ábatinn birtist með augljósustum hætti í tekjum ferðaþjónustunnar en ekki er við því að búast að ferðamenn sæki landið heim í teljandi mæli séu þeir krafðir um smitgát eða sóttkví í marga daga eftir komu til landsins. Má t.a.m. líta til þess að ríflega helmingur ferðamanna dvelur hér á landi í fimm nætur eða skemur en víst má telja að jafnvel þeir sem hyggjast dvelja hér lengur hugsi sig tvisvar um séu þeir krafnir um smitgát eða sóttkví. Ferðatakmarkanir hér á landi og erlendis eru þó langt frá því að vera eini ráðandi þátturinn um fjölda ferðamanna því ferðavilji fer ekki síður eftir stöðu faraldursins hér á landi og erlendis.

Óvissa um horfur í ferðaþjónustu á heimsvísu næstu mánuði er alger. Ógerningur er að spá fyrir um komur ferðamanna þegar aðstæður geta breyst verulega milli daga og því ekki gerð tilraun til þess hér. Ef hins vegar gert er ráð fyrir óbreyttum aðstæðum út árið má nota komur ferðamanna í júlí ásamt árstíðasveiflu í fjölda ferðamanna árið 2019 til að framreikna fjölda ferðamanna það sem eftir lifir árs. Slík æfing bendir til þess að fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja landið það sem eftir lifir árs gæti legið á bilinu 165 til 200 þúsund. Reynist nauðsynlegt að beita harðari sóttvarnaráðstöfunum til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar sem draga verulega úr eða koma í veg fyrir komur ferðamanna gæti þjóðarbúið orðið af 20-24 mö.kr til ársloka vegna minni umsvifa í ferðaþjónustu. Þá störfuðu um 28 þúsund einstaklingar í einkennandi greinum ferðaþjónustu á síðasta ári, sem ætla má að verði fyrir beinum áhrifum af hörðum sóttvarnaaðgerðum. Hafa ber í huga í fyrsta lagi að alger óvissa um fjölda ferðamanna næstu mánuði leiðir af sér mikla óvissu um framangreint mat og í öðru lagi að ábati þjóðarbúsins af opnum landamærum er víðtækari en svo að hann megi aðeins rekja til ferðaþjónustu. Þá ber einnig að líta til þess að Íslendingar hafa flutt til landsins neyslu sem ella hefði átt sér stað erlendis. Þannig vó 13 ma.kr. vöxtur í kortaveltu Íslendinga hér á landi í júní samanborið við sama mánuð í fyrra að hluta á móti 23 ma.kr. samdrætti í veltu erlendra ferðamanna hér á landi yfir sama tímabil.

Landamæraskimun dregur verulega úr líkunum á því að smitaðir ferðamenn komi inn í landið, en þrátt fyrir það eru vísbendingar um að einhver fjöldi smitaðra ferðalanga hafi komist hingað. Með landamæraskimun næst í fyrsta lagi að bera kennsl á stóran hluta þeirra sem koma smitaðir með flugi til landsins, en greinst hafa um 40 smit á landamærum og er hlutfall smitaðra um 0,05%. Í öðru lagi er ólíklegra að einstaklingar sem eru líklega sýktir leggi í ferðalag til landsins þar sem þeir eiga í hættu á að lenda í sóttkví. Í um mánuð hefur tiltekinn hópur þurft að undirgangast tvöfalda skimun, þ.e. sýnatöku við landamæri og aftur nokkrum dögum síðar. Í þessum hópi hafa nú 14 greinst í fyrri sýnatökunni (0,2%) en 2 í seinni sýnatökunni (0,02%). Með öðrum orðum eru vísbendingar um að flestir þeir smituðu greinist strax við landamærin en að einhverjir komist smitaðir inn í landið. Leiða má að því líkur að svo sé einnig hjá þeim hópi sem þarf aðeins að undirgangast landamæraskimun, þ.e. fólki frá lágáhættusvæðum og þeim sem dvelja hér skemur en í 10 daga. Ekki má draga of víðtækar ályktanir af þessum tölum þar sem þess má vænta að hlutfall smitaðra ferðamanna sé mjög háð stöðu faraldursins í upprunalandi þeirra og hún tekur sífelldum breytingum. 

Landamæraskimun er líklega til þess fallin að minnka verulega líkur á útbreiðslu veirunnar þrátt fyrir að hlutfall smitaðra á landamærunum sé lágt. Sem fyrr segir er hlutfall einstaklinga sem bera virkt smit við komuna til landsins aðeins um 0,05% af fjölda skimaðra á landamærunum. Það er þó við því að búast að einstaklingar sem koma til landsins vitandi að þeir verða skimaðir og sæta sóttkví reynist þeir smitaðir séu ólíklegri en aðrir til að hafa virkt smit. Landamæraskimun verður því varla hætt með vísan í tölfræði um fá smit við landamærin, enda fá smit líklega bein afleiðing fyrirkomulags sóttvarna á landamærum. Má þannig reikna með að hlutfall smitaðra frá tilteknu ríki vaxi um leið og skimun er aflögð á farþega frá viðkomandi ríki. Þess utan fylgir því í einhverjum tilvikum lítill kostnaður fyrir ferðamenn að einfaldlega fljúga til landsins frá ríkjum sem eru undanþegin skimun jafnvel þótt þeir séu ekki búsettir þar.

Svo lengi sem einhver hætta er á því að fólk sem kemur erlendis frá smiti út frá sér felst efnahagslegur kostnaður í komum fólks til landsins. Þessi kostnaður er óviss og háður aðstæðum. Væntur kostnaður á hvern ferðalanga er háður hættunni á því að þeir séu smitaðir, hættunni á því að þeir smiti aðra innanlands og hversu líklegt er að þau smit kalli á víðtækar sóttvarnaaðgerðir. Efnahagslegur kostnaður af smithættu vegna ferðalaga til landsins fer meðal annars eftir stöðu faraldursins hér á landi. Ef á annað borð er búið að ná stjórn á faraldrinum innanlands og sóttvarnaaðgerðum hefur verið aflétt getur kostnaður af völdum smithættu við ferðalög til landsins verið meiri en ella.

Reynsla erlendis frá bendir til að þó ferðatakmarkanir geti dregið verulega úr hættunni á smitum milli landa geti þær ekki komið alveg í veg fyrir hana. Í Færeyjum og Nýja-Sjálandi hafa þannig nýlega komið upp smit eftir að tekist hafði að svo gott sem útrýma veirunni. Allir sem koma til Færeyja þurfa að undirgangast landamæraskimun en þar virðist engu að síður vera kominn af stað talsverður faraldur eftir margar vikur þar sem fá sem engin smit greindust. Í Nýja-Sjálandi hefur enn harðari ferðatakmörkunum verið beitt en þar greindust innanlandssmit fyrr í mánuðinum í fyrsta sinn í 102 daga.

Frá hagfræðilegu sjónarmiði væri eðlilegt að farþegar til landsins greiði gjald til að koma til móts við samfélagslegan kostnað vegna hættu á að smit berist til landsins. Skimun við landamæri minnkar smithættuna og þar með kostnað af hennar völdum. Eðlilegt er að ferðalangar greiði sjálfir að fullu fyrir beinan kostnað af landamæraskimun. Að auki hníga hagræn rök til þess að gjald sé lagt á komur farþega til að koma til móts við þann samfélagslega kostnað sem fylgir hættu á að smit berist til landsins við núverandi aðstæður og endurspeglast ekki í verðlagningu ferðalaga á markaði, en of lágt verð leiðir til óhagkvæmrar áhættutöku sem slíku gjaldi er falið að leiðrétta. Markmið gjaldsins er því hliðstætt markmiði kolefnisgjalds sem ætlað er að draga úr kolefnisútblæstri fremur en að fjármagna ríkissjóð. Eins og áður segir er vandkvæðum bundið að meta þennan samfélagslega kostnað sem er breytilegur eftir stöðu faraldursins. Hann gæti þó verið umtalsverður í samanburði við t.d. flugverð og meðaltekjur þjóðarbúsins af hverjum ferðamanni. Ekki er að merkja mun á komum ferðamanna síðan þeir þurftu sjálfir að greiða fyrir skimunina. Hins vegar benda komur ferðamanna í júlí til þess að samdrátturinn frá þeim ríkjum sem hafa verið undanþegin skimun sé minni en í fjölda ferðamanna frá öðrum ríkjum. Slíkur samanburður er þó verulega vandasamur þar sem fjölmargir þættir spila inn í ákvörðun einstaklinga um að hefja ferðalög um þessar mundir, s.s. efnahagur, staða faraldurs í heimalandi, fjarlægð frá áfangastað o.fl.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

„Störfin heim!“

Deila grein

17/07/2020

„Störfin heim!“

„Það er gamaldags að hugsa sem svo að hið opinbera geti ekki rekið stofnanir og þjónustu úti á landi til jafns við höfuðborgarsvæðið. Úti á landi býr mikill mannauður sem getur vel sinnt þeim verkefnum sem þeim er falið af hinu opinbera. Aukinn fjölbreytileiki starfa eflir landsbyggðina og byggir upp sterkari samfélög,“ segir Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar, í grein á visir.is, „Störfin heim!“.

„Það er ákvörðun að halda byggð í landinu. Til þess að svo megi vera þarf að huga að samgöngum, menntun, menningu og síðast en ekki síst að fjölbreytt tækifæri á atvinnumarkaði séu til staðar,“ segir Ingibjörg Ólöf.

Í Bítinu á Bylgjunni í morgun sagði Ingibjörg Ólöf:

„Við þurfum að færa okkur til nútímans og ég tel það gríðarlega mikilvægt. Við sáum það í kóvinu, þar sem kom í ljós að fólk gat unnið heiman frá sér, og að við getum hugsað þetta lengra. Við eigum að nýta okkur þekkinguna og tæknina og fara í það markvisst að flytja opinber störf út á land.“

Það ætti að ganga enn lengra!

„Það ætti reyndar að mínu mati að ganga enn lengra og miða við það að opinber störf væru almennt frekar úti á landi en í höfuðborginni þar sem fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri eru á höfuðborgarsvæðinu en víða úti á landi,“ segir Ingibjörg Ólöf.

„Við viljum öll sjá blómlega byggð í landinu, við getum öll verið sammála um það. Og til að svo megi verða þurfum við að breyta til, við þurfum að efla landsbyggðina og þá m.a. að fjölga atvinnutækifærum. En við erum að sjá það allt of oft að unga fólkið okkar fer til Reykjavíkur eða erlendis að mennta sig. Það vill síðan koma til baka í sína heimabyggð en hefur ekki haft tækifæri til þess þar sem það er engin atvinna til staðar fyrir það við hæfi,“ segir Ingibjörg Ólöf í Bítinu.

Categories
Fréttir

„Allir umsækjendur með stúdentspróf muni fá jákvætt svar um skólavist“

Deila grein

10/07/2020

„Allir umsækjendur með stúdentspróf muni fá jákvætt svar um skólavist“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, ítrekar í færslu á facebook í dag sýn fyrri orð „að ríkisstjórnin væri búin að tryggja framhalds- og háskólum nægt fjármagn til að mæta metaðsókn í skólana“.

Háskólaráð Háskólans á Akureyri samþykkti á fundi sínum í morgun að allir umsækjendur með stúdentspróf muni fá jákvætt svar um skólavist fyrir lok dags í dag, 10. júlí 2020.

„Háskólinn á Akureyri gegnir lykilhlutverki við að tryggja jafnrétti til náms. Þessi frétt er mér mikið fagnaðarefni og staðfesting á að þrautseigja og samvinna skila árangri.

Það var engin tilviljun að ég fagnaði því sérstaklega í eldhúsdagsræðu að ríkisstjórnin væri búin að tryggja framhalds- og háskólum nægt fjármagn til að mæta metaðsókn í skólana.

Í tilfelli HA var þó fleira sem þurfti að skýra og nú hefur það verið gert.

Rúmlega 60% nemenda HA búa utan höfuðborgarsvæðisins og hafa rannsóknir sýnt að nemendur sem ljúka námi í heimabyggð eru mun líklegri til að starfa þar fimm árum eftir brautskráningu. Námsframboð HA skiptir landsbyggðina miklu máli, á næstu árum þarf líka að tryggja að þar verði í boði tæknifræðinám og nám í íslensku fyrir innflytjendur,“ segir Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Dómsmálaráðherra verður að bregðast við

Deila grein

09/07/2020

Dómsmálaráðherra verður að bregðast við

„Þarna sýnist mér eitt kerfi hafa reiknað út sparnað út frá mjög þröngu sjónarhorni, hvorki er horft á samlegð með verkefnum lögreglunnar, né þörfina fyrir möguleika á afplánun á norðurlandi,“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í færslu á Facebook í gær.

En fram er komin óánægja með ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að loka fangelsinu á Akureyri.

Allir fangar sem dvalið hafa í fangelsinu á Akureyri voru fluttir í önnur úrræði í vor. Með því átti að spara peninga en til stóð að opna aftur í september. Það var svo tilkynnt í gær að af því verður ekki.

„Ég tel dómsmálaráðherra þurfa að láta fara fram ítarlegri skoðun á heildaráhrifum þessarar breytinga,“ segir Líneik Anna.

Þjónustun sem þarna hefur verið veitt skiptir máli við að skapa tækifæri til betrunar í fangelsiskerfinu, né þörfina fyrir möguleika á afplánun á norðurlandi (þó minnihluti fanga sé þaðan hefur það sýnt sig að slíkt getur skipt miklu fyrir fjölskyldur fanga).

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og formaður þingflokks Framsóknarmanna, segir í færslu í Facebook að eitthvað finnist sér mikið skakkt við þessa ákvörðun Fangelsinsmálastofnunar.

„Eitthvað finns mér nú mikið skakkt við þessa ákvörðun. Hún samrýmist ekki stefnu stjórnvalda um að fjölga störfum á landsbyggðinni.

Samlegðaráhrif lögreglunnar á Norðurlandi og fangelsisins á Akureyri hafa alltaf verið mikil. Það samstarf er mikilvægt, öll störf eru dýrmæt og þjónustan er mikils virði fyrir samfélagið.

Við þurfum meira samtal og samvinnu til að glata ekki yfirsýnni þegar ákvarðanir sem þessar eru teknar.

Heildarmyndin þarf að vera skýr svo sjá megi fyrir öll áhrif ákvarðana,“ segir Þórunn.

Categories
Fréttir

Náttúrustofur

Deila grein

01/07/2020

Náttúrustofur

„Dropinn holar steininn, en á mánudag samþykkti Alþingi tillögu mína um Náttúrustofur“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í yfirlýsingu á Facebook í dag.

„Með henni er umhverfis- og auðlindaráðherra falið að koma á fót starfshópi til að meta reynsluna af starfi náttúrustofa og kanna hvort hagkvæmt sé að náttúrustofur taki formlega að sér fleiri svæðisbundin verkefni en þær hafa nú með höndum.

Starfshópnum verði falið að móta leiðir til að styrkja samstarf náttúrustofa og stofnana ríkisins í þeim tilgangi að nýta fjármagn til þekkingaröflunar og vöktunar á náttúru landsins sem best og til að auka skilvirkni í samstarfi um náttúruvernd,“ segir Líneik Anna.

Líneik Anna þakkar þakkar meðflutningsmönnum sínum í gegnum tíðina og samstarfsfólki í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Categories
Fréttir

Stóra stökkið í samgöngum

Deila grein

30/06/2020

Stóra stökkið í samgöngum

Alþingi samþykkti í gær fimm ára samgönguáætlun 2020-2024, samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034 og samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir á síðasta fundi fyrir þingfrestun. Þessu til viðbótar voru samþykkt lög um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

„Nýsamþykkt samgönguáætlun sem nær til áranna 2020-2034 er stórt stökk í samgöngum á Íslandi. Þetta er ein mikilvægasta áætlun sem ríkið stendur að enda er samgöngukerfið, vegakerfið, flugvellir og hafnir, líklega stærsta eign íslenska ríkisins, metið á tæpa 900 milljarða króna. Aldrei áður hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til samgangna og gert er í þessari áætlun sem á eftir að skila sér í öruggari og greiðari umferð um allt land,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, í færslu á Facebook í gær.

Sigurður Ingi sagði við atkvæðagreiðsluna í gær vilja þakka þingheimi fyrir að fara í gegnum þetta flókna og mikla úrlausnarefni. „Við erum að leggja af stað með sókn í samgöngumálum og atvinnusköpun,“ sagði Sigurður Ingi. Jafnframt þakkaði hann nefndarmönnum samgöngunefndar Alþingis þeirra mikla framlag.

Stóra byggðastefnan

„Í nágrannalöndum okkar er stundum talað um stóru byggðastefnuna þegar rætt er um samgönguáætlanir landanna. Í samgönguáætlun felast enda gríðarlega miklir hagsmunir fyrir samfélögin vítt og breytt um landið. Efnahagslegir hagsmunir eru líka mjög miklir því allar styttingar á leiðum innan og milli svæða fela í sér þjóðhagslegan sparnað,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi segir samgönguáætlunina marka tímamót, en nú hefur verið mörkuð fyrsta flugstefna stjórnvalda enda þótt flug á Íslandi hafi átt aldarafmæli á síðasta ári. Þá mun „Skoska-leiðin“, baráttumál Framsóknar um að taka upp niðurgreiðslu á flugi innanlands fyrir íbúa á landsbyggðinni, verða að veruleika. „Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslur á ferðum sínum með flugi. Þetta er mikilvægt skref í því að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annar staðar en á suðvesturhorninu“.

Samvinnuverkefni í samgöngum

„Samhliða samgönguáætlun voru líka samþykkt lög um samvinnuverkefni í samgöngum sem byggja á Hvalfjarðargangamódelinu. Þau verkefni sem falla undir löggjöfina eru ný brú yfir Ölfusá ofan Selfoss, láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall, ný brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi, önnur göng undir Hvalfjörð og hin langþráða Sundabraut. Allt eru þetta verkefni sem fela í sér verulega styttingu leiða og aukið öryggi en þeir sem vilja ekki nýta sér þessi mannvirki geta áfram farið aðra leið en munu þá verða af þeim ávinningi, fjárhagslegum og varðandi öryggi,“ sagði Sigurður Ingi.

Samgönguinnviðir á höfuðborgarsvæðinu

Alþingi samþykkti og stofnun hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðisins. Hlutafélaginu er ætlað að halda utan um fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum og hrinda þeirri uppbyggingu í framkvæmd, þ.m.t. innviðum almenningssamgangna, til 15 ára.

„Hér er stigið stærsta skref sem stigið hefur verið í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Byggja þær framkvæmdir á samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var í fyrra. Með honum var höggvið á þann hnút sem hefur verið í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og komið hafði í veg fyrir alvöru uppbyggingu á svæðinu. Sáttmálinn markar tímamót sem mun skila sér í greiðari samgöngum, hvort sem litið er á fjölskyldubílinn, almenningssamgöngur eða gangandi og hjólandi umferð,“ segir Sigurður Ingi.

Vegna þessa er áætlað beint heildarframlag ríkisins 45 milljarðar kr. að lágmarki til og með 2033. Bein framlög sveitarfélaganna verða samtals einn milljarður kr. á ári eða 15 milljarðar kr. á tímabilinu, þ.e. til og með 2033. Samkvæmt samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir að flýti- og umferðargjöld verði tekin upp með sérstakri lagasetningu til að standa undir hluta af fjármögnun verkefnisins eða um 60 (nettó) milljarðar kr. Er gjöldunum ætlað að standa straum af stofnframkvæmdum, fjármögnun og afleiddum kostnaði. Aðrir fjármögnunarkostir verða þó einnig skoðaðir samhliða orkuskiptum og endurskoðuð skattlagning á ökutæki og eldsneyti, enda raski það ekki fjármögnun framkvæmdaáætlunar.

Categories
Fréttir

Kaupandi lands búi á Íslandi

Deila grein

29/06/2020

Kaupandi lands búi á Íslandi

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, ræddi frumvarp forsætisráðherra um nýtingu og ráðstöfun landeigna á Alþingi í dag. Fram kom í ræðu hennar að ríkisstjórnin hafi frá upphafi kjörtímabilsins verið skýr með afstöðu sína. Stjórnarsáttmálinn kveður á um að setja skilyrði við kaup á landi sem taka mið af stefnu stjórnvalda um þróun byggðar, landnýtingu og umgengni um auðlindir. 

Silja Dögg fór yfir að Framsóknarflokkurinn geri þá kröfu „að kaupandi lands búi á Íslandi, að kaupandi hafi búið á Íslandi í a.m.k. fimm ár eða hafi starfsemi í landinu, þ.e. hafi bein tengsl  við landið. Að mati okkar Framsóknarmanna þarf tilgangur jarðakaupa að vera skýr. Margskonar markmið sem styrkja búsetu og samfélög gætu fallið þar undir, s.s. búfjárrækt, uppbygging gróðurauðlindar, landfrek atvinnustarfsemi eða nýsköpun byggð á sérstöðu viðkomandi jarðar eins og menningarverðmætum eða náttúru. Aðalatriði er eins og fyrr segir, að tilgangur jarðnýtingar liggi fyrir. Það er einnig algert lykilatriði að sveitarfélög og ríkisvald fái aðkomu að ráðstöfun landsins. Regluverkið þarf að vera það sveigjanlegt svo hægt sé að bregðast við ólíkum aðstæðum í byggðarlögum og landshlutum“.

Silja Dögg fór yfir helstu breytingar á gildandi lögum og þær viðbætur sem birtast í framlögðu frumvarpi forsætisráðherra. Sagði hún m.a. að ráðherra fái heimild til að veita aðilum frá ríkjum utan EES leyfi til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign ef þeir uppfylla ekki skilyrði laganna um íslenskan ríkisborgararétt eða skilyrði um lögheimili hér á landi. Þá gæti ráðherra veitt einstaklingi eða lögaðila utan EES, heimild til að öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteign til beinna nota í atvinnustarfsemi. Verði þetta frumvarp að lögum fær ráðherra einnig heimilað einstaklingi, sem hefur sterk tengsl við Ísland, s.s. vegna hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, að eignast hér fasteign“.

Þá er lögð til „breyting á þinglýsingalögum þess efnis að upplýsingar um kaupverð eignar verði meðal skilyrða fyrir þinglýsingu afsals nema skýrt komi fram að ekkert endurgjald komi fyrir hina seldu eign. Þá er lagt til að í lög um skráningu og mat fasteigna komi ákvæði um landeignaskrá, sem er hluti fasteignaskrár og inniheldur m.a. upplýsingar um eignarmörk lands í samræmdum kortagrunni. Ákvæðinu er ætlað að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frekari uppbyggingu landeignaskrár Þjóðskrár Íslands“.

„Það sem snýr að breytingum á jarðarlögum í frumvarpinu, eru m.a. að markmiðsákvæði laganna verði fyllra og ítarlegra en nú og innihaldi markmið um landnýtingu í samræmi við skilgreind markmið, þ.á.m. um að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði nýtt í því skyni. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum um lögbýli þannig að þau verði einungis stofnuð til starfsemi á sviði landbúnaðar eins og hann er skilgreindur í lögunum,“ sagði Silja Dögg.

Silja Dögg segir að gerð landeignaskrár sé lykilatriði, hún sé forsenda þess að hægt sé að uppfæra fasteignamat í dreifbýli.

„Það er tími til kominn að löggjafinn setji skýrari ramma um landakaup og ræði jafnframt hvort það sé eðlilegt að vatnsréttindi fylgi landsréttindum. Hér eru erlendir fjárfestar að fjárfesta fyrir á fimmta milljarð í vatnsverksmiðjum. Þeir eru að fjárfesta í vatnsréttindum og vatnsauðlindinni. Ég er ekki viss um að það þjóni hagsmunum Íslands til lengri tíma.

Við höfum ekki enn sett regluverk um kaup á landi og endurskoðað þar með þá löggjöf sem sett var fyrir 16 árum. Þá voru allar gáttir opnaðar, sem var ekki til bóta. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.

Það frumvarp sem við ræðum nú, tekur ekki á öllum þeim þáttum í jarðamálum, sem gera þarf breytingar á. En frumvarpið er tvímælalaust skref í rétta á, eins og ég hef þegar farið yfir,“ sagði Silja Dögg.

Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður: Silja Dögg Gunnarsdóttir

Deila grein

25/06/2020

Eldhúsdagsumræður: Silja Dögg Gunnarsdóttir

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í vikunni að erfiðan en afar lærdómsríkan þingvetur væri á enda, verkefni urðu allt önnur en gert var ráð fyrir og að treysta hafi þurft á hyggjuvit, innsæi, vísindi og umfram allt hlusta vel eftir þörfum samfélagsins.

„Ríkisstjórnin steig inn í aðkallandi verkefni af fullum þunga. Farið var í fjölmargar aðgerðir til að treysta stöðu heimila landsins. Margir lögðu hönd á plóg í þessum erfiðu verkefnum. Ég vil þakka landsmönnum öllum fyrir samstöðuna og æðruleysið á þessum erfiðu tímum, ekki síst okkar frábæru listamönnum sem gerðu okkur lífið léttara, léttu lund okkar með söng og gleði á fjölmörgum síðkvöldum,“ sagði Silja Dögg.

Silja Dögg fór yfir afgreiðslu þingsins á nýjum menntasjóði námsmanna og að hann muni hafa gríðarlegar kjarabætur í för með sér fyrir námsmenn. „Hæstv. menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, er þriðji menntamálaráðherrann sem gerir atlögu að því að breyta lögum um menntasjóð. Allt er þegar þrennt er og því fögnum við. Fyrirmyndin er norræn og meginbreytingin felst í að kerfið verður tvískipt, þ.e. sjálfbær lánahluti og svo styrkjakerfi sem ríkið fjármagnar. Þá geta námsmenn sem ljúka námi innan tilskilins tíma fengið 30% niðurfellingu á höfuðstól námsláns og foreldrar fá styrk með hverju barni. Námslánin verða greidd út mánaðarlega, og hægt verður að velja um verðtryggð eða óverðtryggð lán. Og síðast en ekki síst verður ábyrgðamannakerfið fellt úr gildi“.

Silja Dögg ræddi einnig frumvarp til laga um jarðir. „Markmið frumvarpsins er að styrkja löggjöf um jarðir, land og aðrar fasteignir með breytingum á lagaákvæðum um eignarráð og nýtingu fasteigna, þ.m.t. jarða, og um opinbera skráningu á atriðum viðkomandi landa og fasteigna. Frumvarpið er í samræmi við eitt af áherslumálum þingflokks Framsóknar sem er þingsályktunartillaga hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur um aðgerðaáætlun í jarðamálum, en frumvarpið gengur þó ekki jafnlangt og ályktunin. Því eru tvímælalaust frekari sóknarfæri í þessum málaflokki. Landeignaskráning verður t.d. að vera í lagi ef við ætlum okkur að ná almennilega utan um jarðamál á Íslandi. Það er afar flókið verkefni en er m.a. grundvöllur þess að hægt verði að uppfæra fasteignamat í dreifbýli. Það verður að segjast að þessi skráningarmál eru í algjörum ólestri hjá okkur.

„Úrbætur í orkuöryggi og raforkudreifingu sem og sterkari lagaumgjörð um jarðir og auðlindir ættu að vera í algjörum forgangi hjá okkur hér. Framsækni í þeim málaflokkum mun treysta velsæld þjóðarinnar til framtíðar. Góðar stundir,“ sagði Silja Dögg að lokum.

Ræða Silju Daggar í heild sinni:

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Sérkennilegur, erfiður en afar lærdómsríkur þingvetur er senn á enda. Verkefni ársins 2020 urðu allt önnur en fólk gerði ráð fyrir. Kófið skall á og þá breyttist allt. Fordæmin fyrir slíku ástandi voru engin. Menn þurftu að treysta á hyggjuvit, innsæi, vísindin og umfram allt hlusta vel eftir þörfum samfélagsins og þróun á alþjóðlegum vettvangi. Ríkisstjórnin steig inn í aðkallandi verkefni af fullum þunga. Farið var í fjölmargar aðgerðir til að treysta stöðu heimila landsins. Margir lögðu hönd á plóg í þessum erfiðu verkefnum. Ég vil þakka landsmönnum öllum fyrir samstöðuna og æðruleysið á þessum erfiðu tímum, ekki síst okkar frábæru listamönnum sem gerðu okkur lífið léttara, léttu lund okkar með söng og gleði á fjölmörgum síðkvöldum.

Ágætu Íslendingar. Nýr menntasjóður námsmanna er eitt af þeim stóru verkefnum sem Alþingi afgreiddi á þessum þingvetri. Um er að ræða kerfisbreytingu sem mun hafa gríðarlegar kjarabætur í för með sér fyrir námsmenn. Lögin taka gildi 1. júlí nk. Hæstv. menntamálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir er þriðji menntamálaráðherrann sem gerir atlögu að því að breyta lögum um menntasjóð. Allt er þegar þrennt er og því fögnum við. Fyrirmyndin er norræn og meginbreytingin felst í að kerfið verður tvískipt, þ.e. sjálfbær lánahluti og svo styrkjakerfi sem ríkið fjármagnar. Þá geta námsmenn sem ljúka námi innan tilskilins tíma fengið 30% niðurfellingu á höfuðstól námsláns og foreldrar fá styrk með hverju barni. Námslánin verða greidd út mánaðarlega, og hægt verður að velja um verðtryggð eða óverðtryggð lán. Og síðast en ekki síst verður ábyrgðamannakerfið fellt úr gildi. Því munu margir fagna. Rúmlega 90% lánþega munu koma betur eða jafn vel út úr nýja kerfinu. Allir flokkar, utan eins, samþykktu lög um nýjan menntasjóð. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á það, í viðbrögðum við Covid-19, að fólk hafi kost á að fara í nám. Því var afar ánægjulegt að sjá frétt í gær um að ríkisstjórnin væri búin að tryggja framhalds- og háskólum nægt fjármagn til að mæta metaðsókn í skólana.

Annað stórt mál sem stendur til að Alþingi afgreiði á þessu vorþingi eru lög um jarðir. Um ræðir frumvarp frá hæstv. forsætisráðherra. Markmið frumvarpsins er að styrkja löggjöf um jarðir, land og aðrar fasteignir með breytingum á lagaákvæðum um eignarráð og nýtingu fasteigna, þ.m.t. jarða, og um opinbera skráningu á atriðum viðkomandi landa og fasteigna. Frumvarpið er í samræmi við eitt af áherslumálum þingflokks Framsóknar sem er þingsályktunartillaga hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur um aðgerðaáætlun í jarðarmálum, en frumvarpið gengur þó ekki jafnlangt og ályktunin. Því eru tvímælalaust frekari sóknarfæri í þessum málaflokki. Landeignaskráning verður t.d. að vera í lagi ef við ætlum okkur að ná almennilega utan um jarðarmál á Íslandi. Það er afar flókið verkefni en er m.a. grundvöllur þess að hægt verði að uppfæra fasteignamat í dreifbýli. Það verður að segjast að þessi skráningarmál eru í algjörum ólestri hjá okkur.

Kæru landsmenn. Ég ætlaði nú að segja ýmislegt fleira en tími minn er á þrotum. En að lokum vil ég segja: Úrbætur í orkuöryggi og raforkudreifingu sem og sterkari lagaumgjörð um jarðir og auðlindir ættu að vera í algjörum forgangi hjá okkur hér. Framsækni í þeim málaflokkum mun treysta velsæld þjóðarinnar til framtíðar. Góðar stundir.

Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður: Willum Þór Þórsson

Deila grein

25/06/2020

Eldhúsdagsumræður: Willum Þór Þórsson

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í vikunni að þingveturinn hafi byrjað „með hefðbundnu sniði og framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir þetta ár. Þar var verkefnið að mæta hægari efnahagsumsvifum, stuðla áfram að framförum og bættum lífsgæðum. Við höfum staðið skynsamlega að ríkisfjármálum undanfarin ár og skuldastaðan er góð í alþjóðlegum samanburði. Styrk staða ríkisfjármála gaf okkur svo sannarlega tækifæri til þess að veita þá efnahagslegu viðspyrnu sem þá blasti við að væri nauðsynleg. Engan óraði þó fyrir því hvað við áttum í vændum“.

„Í gildandi fjárlögum þessa árs eru álögur lækkaðar á heimili og fyrirtæki með lækkun tekjuskatts á einstaklinga og lækkun tryggingargjalds. Sótt er fram á fjölmörgum sviðum með auknum framlögum til heilbrigðismála. Stuðningur er aukinn við húsnæðismál tekjulægri hópa, fyrstu kaupendur og landsbyggð, aukin framlög til menntamála og fjármögnun nýs menntasjóðs er tryggð. Fjármagn er aukið til nýsköpunar og rannsókna og mikill kraftur settur í að efla opinbera fjárfestingu og sérstakt átak í samgönguverkefnum.

En þingið hafði vart lokið við að samþykkja fjárlög fyrir 2020 þegar kófið skall á með tilheyrandi samfélagslegum usla og efnahagslegum skaða, hér á landi og á heimsvísu, miklum og snöggum samdrætti og gríðarlegri óvissu. Ég ætla ekki að rekja áhrif og afleiðingar þess hér eða setja á það einhverja mælistiku en faraldurinn hefur snert okkur öll, fjölskyldur, vini og ættingja, störf okkar og okkar daglega líf,“ sagði Willum Þór.

Sagði Willum Þór að núverandi aðstæður kalli á samstöðu, samtakamátt og að við þurfum á því að halda að sýna hvað í okkur býr. Í meðbyr virðist allt ganga vel, allir að gera góða hluti en nú reynir á og að við sýnum þjóðareinkenni.

„Við slíkar aðstæður, sem einkennast af mikilli óvissu, gefst ekki mikill tími til að ígrunda ákvarðanir, hvað þá að hika, heldur þarf að bregðast hratt við og mæta þeim aðstæðum sem slíkum sem hafa skapast og gera það af öryggi og festu,“ sagði Willum Þór.

„Ráðstafanir sem samþykktar voru í fjárlögum fyrir þetta ár standa óhaggaðar. Þar að auki höfum við nú gripið til fjölmargra ráðstafana til þess að verja efnahag heimila og fyrirtækja, styrkja rekstur og veita skjól. Markmiðið er að ríkissjóður dempi höggið af Covid-niðursveiflunni og dragi úr efnahagslegum afleiðingum þess eins og kostur. Vonandi ber okkur gæfa til að mæta þeim efnahagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir af sömu auðmýkt og samstöðu og við höfum sýnt á sviði sóttvarna. Það er ekki bara mín ósk heldur er það ávallt vænlegra til árangurs.

Mikilvægast er þó að aðgerðirnar sem farið er í skili árangri. Samvinna er ekki bara æskileg heldur oftast lykill að því að ná tilsettum markmiðum. Markmiðið er að fjármagnið skili sér til þeirra og fyrir þá sem því er ætlað. Með upplýsingagjöf, gagnsæi og samtímaeftirliti eigum við að geta tryggt það.“

„Um leið og það er ásetningur okkar að nýta sterka stöðu ríkissjóðs til þess að vinna okkur í gegnum þessar hremmingar er mikilvægt að horfa til lengri tíma og gæta að sjálfbærni ríkisfjármála. Tryggjum að við séum ávallt í þeirri stöðu að geta brugðist við áföllum, að við getum fjármagnað tímabundinn halla þegar það á við án þess að velta skuldum á komandi kynslóðir — því sannarlega erum við öll ríkissjóður,“ sagði Willum Þór að lokum.

Ræða Willum Þórs Þórssonar í heild sinni:

 

<iframe scrolling=’no’ frameborder=’0′ type=’text/html’ style=’border:0;overflow:hidden; width:100%;height:250px’ src=’//vod.althingi.is/player/?type=vod&width=512&height=288&icons=yes&file=20200623T192423&start=6492&duration=408&autoplay=false’ allowTransparency allowfullscreen seamless allow=’autoplay; fullscreen’></iframe>

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Þingveturinn byrjaði með hefðbundnu sniði og framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir þetta ár. Þar var verkefnið að mæta hægari efnahagsumsvifum, stuðla áfram að framförum og bættum lífsgæðum. Við höfum staðið skynsamlega að ríkisfjármálum undanfarin ár og skuldastaðan er góð í alþjóðlegum samanburði. Styrk staða ríkisfjármála gaf okkur svo sannarlega tækifæri til þess að veita þá efnahagslegu viðspyrnu sem þá blasti við að væri nauðsynleg. Engan óraði þó fyrir því hvað við áttum í vændum.

Í gildandi fjárlögum þessa árs eru álögur lækkaðar á heimili og fyrirtæki með lækkun tekjuskatts á einstaklinga og lækkun tryggingagjalds. Sótt er fram á fjölmörgum sviðum með auknum framlögum til heilbrigðismála. Stuðningur er aukinn við húsnæðismál tekjulægri hópa, fyrstu kaupendur og landsbyggð, aukin framlög til menntamála og fjármögnun nýs menntasjóðs er tryggð. Fjármagn er aukið til nýsköpunar og rannsókna og mikill kraftur settur í að efla opinbera fjárfestingu og sérstakt átak í samgönguverkefnum.

En þingið hafði vart lokið við að samþykkja fjárlög fyrir 2020 þegar kófið skall á með tilheyrandi samfélagslegum usla og efnahagslegum skaða, hér á landi og á heimsvísu, miklum og snöggum samdrætti og gríðarlegri óvissu. Ég ætla ekki að rekja áhrif og afleiðingar þess hér eða setja á það einhverja mælistiku en faraldurinn hefur snert okkur öll, fjölskyldur, vini og ættingja, störf okkar og okkar daglega líf.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Slíkar kringumstæður kalla fram samstöðu, vekja með okkur samtakamátt og það er við slíkar aðstæður sem við þurfum á því að halda að sýna hvað í okkur býr. Það kallar gjarnan fram úr hverju við erum gerð. Í meðbyr virðist allt geta gengið upp og allir virðast vera að gera góða hluti en það er við aðstæður eins og þessar sem raunverulega reynir á og laðar gjarnan fram það sem við getum kallað þjóðareinkenni.

Við slíkar aðstæður, sem einkennast af mikilli óvissu, gefst ekki mikill tími til að ígrunda ákvarðanir, hvað þá að hika, heldur þarf að bregðast hratt við og mæta þeim aðstæðum sem slíkum sem hafa skapast og gera það af öryggi og festu.

Á sóttvarnasviðinu er óumdeilt að tekist hefur vel til. Heilbrigðiskerfið hefur sannarlega staðist álagsprófið og samstaðan í samfélaginu öllu þegar kemur að sóttvarnaábyrgð hvers og eins speglast í þeirri vegferð sem hið ágæta slagorð nær svo vel utan um að við erum öll almannavarnir. Verðskuldað hlaut þríeykið viðurkenningu forseta fyrir afburðastörf og auðmýkt þeirra fannst mér einkennandi fyrir þá samstöðu sem nauðsynlegt var að næðist í þessum hluta baráttunnar. Heilbrigðiskerfið með þríeykið í fararbroddi verðskuldar allar góðar þakkir.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Þær ráðstafanir sem samþykktar voru í fjárlögum fyrir þetta ár standa óhaggaðar. Þar að auki höfum við nú gripið til fjölmargra ráðstafana til þess að verja efnahag heimila og fyrirtækja, styrkja rekstur og veita skjól. Markmiðið er að ríkissjóður dempi höggið af Covid-niðursveiflunni og dragi úr efnahagslegum afleiðingum þess eins og kostur. Vonandi ber okkur gæfa til að mæta þeim efnahagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir af sömu auðmýkt og samstöðu og við höfum sýnt á sviði sóttvarna. Það er ekki bara mín ósk heldur er það ávallt vænlegra til árangurs.

Mikilvægast er þó að aðgerðirnar sem farið er í skili árangri. Samvinna er ekki bara æskileg heldur oftast lykill að því að ná tilsettum markmiðum. Markmiðið er að fjármagnið skili sér til þeirra og fyrir þá sem því er ætlað. Með upplýsingagjöf, gagnsæi og samtímaeftirliti eigum við að geta tryggt það.

Um leið og það er ásetningur okkar að nýta sterka stöðu ríkissjóðs til þess að vinna okkur í gegnum þessar hremmingar er mikilvægt að horfa til lengri tíma og gæta að sjálfbærni ríkisfjármála. Tryggjum að við séum ávallt í þeirri stöðu að geta brugðist við áföllum, að við getum fjármagnað tímabundinn halla þegar það á við án þess að velta skuldum á komandi kynslóðir — því sannarlega erum við öll ríkissjóður.

Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður: Líneik Anna Sævarsdóttir

Deila grein

25/06/2020

Eldhúsdagsumræður: Líneik Anna Sævarsdóttir

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í vikunni að sannarlega hafi reynt á samvinnu og útsjónarsemi þjóðarinnar á liðnum mánuðum. Enginn hegði getað spáð því að nú væru Íslendingar þrautþjálfaðir í tilteknum almannavarnarhlutverkum.

Þekking og tækni hafi skipti sköpum eins og okkur Íslendingum hefur tekist síðustu mánuði. Áfram mun „reyna á almannavarnir og úrvinnslu afleiðinga kófsins, vetrarveðra og jarðhræringa, og við það þurfum við samvinnu og útsjónarsemi sem og til að viðhalda störfum, skapa ný störf og tryggja velferð allra landsmanna“.

Líneik Anna sagði tímamót í samgönguframkvæmdum vera fram undan eftir nær áratuga hægagang. Í nýrri samgönguáætlun þar sem verður enn meira fjármagn úr að spila undir forystu Framsóknarflokksins. Unnið sé að m.a. vinnu við rannsóknir, skipulag, hönnun, umhverfismat og samningagerð. „Unnið er að útfærslu á fjölbreyttari leiðum við fjármögnun verkefna og heildarendurskoðun á framtíðarfjármögnun vegakerfisins í ljósi yfirstandandi orkuskipta. Skoska leiðin í fluginu kemur til framkvæmda á árinu, verkefni byggð á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins eru komin í gang og jarðgangaáætlun verður til með greiningu jarðgangakosta og forgangsröðun til lengri tíma“. Ísland er dreifbýlt land og því seint uppiskroppa með samgönguverkefni.

„Skipulag og gerð samgöngumannvirkja ræður miklu um þróun samfélags og byggða. Framkvæmdirnar sem slíkar skapa þúsundir starfa hjá fjölbreyttum hópi fólks víða um land. Fjárfesting og framfarir í samgöngum eru í senn mótvægi gegn samdrætti af völdum kófsins og undirstaða nýrra tækifæra,“ sagði Líneik Anna.

Ræddi Líneik Anna því næst mótvægisaðgerðir vegna kófsins. „Hlutastarfaleiðin hitti í mark en óvissan var mikil þegar þingið samþykkti hana. Rúmlega 37.000 einstaklingar nýttu fyrstu útfærsluna og voru þeir í ráðningarsambandi við tæplega 6.500 launagreiðendur. Samspil hlutastarfaleiðarinnar og launa í sóttkví styrkti allar sóttvarnaaðgerðir og gerði mörgum mögulegt að hlýða Víði. Auk aðgerða sem snúa að atvinnulífinu hefur verið ráðist í fjölbreyttar félagslegar aðgerðir,“ sagði Líneik Anna.

Sagði Líneik Anna stjórnvöld verða „að leggja áherslu á hvata til þeirra sem búa yfir frumkvöðlakrafti og sjálfsbjargarviðleitni til að fjölga störfum“. Stjórnvöld hafi sett í gang úrræði til að viðhalda atvinnu, en „í framhaldinu þarf að styðja enn betur við hugkvæmni atvinnurekenda, smárra sem stórra, til að skapa ný störf. Nýsköpun, yfirfærsla á þekkingu og bætt nýting auðlinda og hráefna eykur verðmæti. Það þarf fjölbreyttan stuðning þar sem ekki er eingöngu horft á nýnæmi verkefna, heldur einnig litið til fjölgunar starfa í hefðbundnum atvinnugreinum og verðmætaaukningar í samfélaginu“.

Lykilákvörðun við að auka aðsókn að starfs- og tækninámi sé tillaga mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, um að tryggja fjármagn vegna aukinnar aðsóknar í framhalds- og háskóla í haust. Lykilatriði til að skapa ný ný störf.

„Fjórða iðnbyltingin, rafræn stjórnsýsla, fjarvinna og fjarnám, gefa okkur frábær verkfæri. Við verðum að tryggja að búseta á Íslandi verði valkostur fyrir fólk sem vill eiga kost á störfum hvar sem er í heiminum. Við þurfum líka oftar að spyrja okkur hvernig hægt sé að nýta fjarvinnu til þess að styrkja starfsemi innan lands,“ sagði Líneik Anna.

„Ég hef lagt áherslu á bætta lagaumgjörð um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi, ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Tilgangurinn er að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum og skapa fleiri möguleika til heilsársbúsetu í dreifbýli, sjálfbærrar landnýtingar, nýsköpunar og matvælaframleiðslu. Það er því sérstaklega ánægjulegt að nú eru til afgreiðslu mál sem styrkja þessa umgjörð, m.a. með gerð landeignaskrár, auknu gagnsæi við eigendaskipti jarða og aukinni minnihlutavernd í veiðifélögum,“ sagði Líneik Anna.

Sagði Líneik Anna að „vinna undir forystu félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um umbætur í málefnum barna mun skila sér með afgerandi hætti á haustþingi. Þá verða frumvörp sem eru afurðir úr þverpólitískri vinnu og víðtæku samráði lögð fram. Áherslan verður á samþættingu allrar þjónustu við börn og fjölskyldur og snemmtækan stuðning, ásamt forvörnum sem er ætlað að auka seiglu einstaklinga í lífsins ólgusjó. Breytingar á fæðingarorlofinu eru þegar hafnar“.

„Við Framsóknarfólk erum frjálslynt félagshyggjufólk sem vill vinna að stöðugum umbótum og leysa viðfangsefnin á grunni samvinnu og jafnaðar. Vinna okkar á Alþingi á að sameina krafta og hvetja til framþróunar á öllum sviðum, árangurinn mælist í ávinningi samfélagsins,“ sagði Líneik Anna að lokum.

<iframe scrolling=’no‘ frameborder=’0‘ type=’text/html‘ style=’border:0;overflow:hiddenwidth:70%;height:350px‘ src=’//vod.althingi.is/player/?type=vod&width=512&height=288&icons=yes&file=20200623T192423&start=2874&duration=482&autoplay=false‘ allowTransparency allowfullscreen seamless allow=’autoplayfullscreen’></iframe>

***

Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur í heild sinni:

Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Við þinglok að loknum sumarsólstöðum ársins 2020 ígrundum við hér verk liðinna mánaða og hugum að næstu viðfangsefnum. Undanfarið hefur sannarlega reynt á samvinnu og útsjónarsemi í fjölbreyttum verkefnum og störfum um allt land. Ég fullyrði að fyrir ári síðan hefði ekkert okkar spáð því að nú værum við orðin þrautþjálfuð í tilteknu almannavarnarhlutverkum.

Við lifum áhugaverða, krefjandi og lærdómsríka tíma en aldrei í sögunni hafa verið til staðar önnur eins tækifæri og núna til að takast á við ógnir náttúrunnar með þekkingu og tækni. Það hefur sýnt sig að það skiptir sköpum að nota þekkinguna vel, eins og okkur Íslendingum hefur tekist síðustu mánuði. Við vitum að áfram mun reyna á almannavarnir og úrvinnslu afleiðinga kófsins, vetrarveðra og jarðhræringa, og við það þurfum við samvinnu og útsjónarsemi sem og til að viðhalda störfum, skapa ný störf og tryggja velferð allra landsmanna.

Umfangsmestu verkefnin í mínum ranni síðustu mánuði tengjast samgöngum. Þessi misserin eru tímamót í samgönguframkvæmdum sem eru aftur komnar á skrið eftir nær áratugar hægagang. Samgönguáætlun var síðast afgreidd fyrir rúmu ári en nú erum við að afgreiða uppfærða áætlun þar sem úr enn meira fjármagni er að spila og verkefni eru nánar útfærð.

Það er mikil gerjun í verkefnum tengdum samgöngum undir forystu Framsóknarflokksins og margir boltar á lofti, m.a. vinna við rannsóknir, skipulag, hönnun, umhverfismat og samningagerð. Unnið er að útfærslu á fjölbreyttari leiðum við fjármögnun verkefna og heildarendurskoðun á framtíðarfjármögnun vegakerfisins í ljósi yfirstandandi orkuskipta. Skoska leiðin í fluginu kemur til framkvæmda á árinu, verkefni byggð á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins eru komin í gang og jarðgangaáætlun verður til með greiningu jarðgangakosta og forgangsröðun til lengri tíma.

Við verðum seint uppiskroppa með samgönguverkefni í jafn dreifbýlu landi og Ísland er. Hugsið ykkur, á næstu 15 árum er ætlunin að fækka einbreiðum brúm á þjóðvegi 1 um meira en 30.

Skipulag og gerð samgöngumannvirkja ræður miklu um þróun samfélags og byggða. Framkvæmdirnar sem slíkar skapa þúsundir starfa hjá fjölbreyttum hópi fólks víða um land. Fjárfesting og framfarir í samgöngum eru í senn mótvægi gegn samdrætti af völdum kófsins og undirstaða nýrra tækifæra.

Vinna við útfærslu fjölbreyttra mótvægisaðgerða kófsins hefur verið umfangsmikið verkefni sem fjöldi fólks hefur lagt sig fram um að leysa.

Hlutastarfaleiðin hitti í mark en óvissan var mikil þegar þingið samþykkti hana. Rúmlega 37.000 einstaklingar nýttu fyrstu útfærsluna og voru þeir í ráðningarsambandi við tæplega 6.500 launagreiðendur. Samspil hlutastarfaleiðarinnar og launa í sóttkví styrkti allar sóttvarnaaðgerðir og gerði mörgum mögulegt að hlýða Víði. Auk aðgerða sem snúa að atvinnulífinu hefur verið ráðist í fjölbreyttar félagslegar aðgerðir.

Á næstunni þurfa stjórnvöld að leggja áherslu á hvata til þeirra sem búa yfir frumkvöðlakrafti og sjálfsbjargarviðleitni til að fjölga störfum. Stjórnvöld hafa þegar sett í gang úrræði til að viðhalda atvinnu og í framhaldinu þarf að styðja enn betur við hugkvæmni atvinnurekenda, smárra sem stórra, til að skapa ný störf. Nýsköpun, yfirfærsla á þekkingu og bætt nýting auðlinda og hráefna eykur verðmæti. Það þarf fjölbreyttan stuðning þar sem ekki er eingöngu horft á nýnæmi verkefna, heldur einnig litið til fjölgunar starfa í hefðbundnum atvinnugreinum og verðmætaaukingar í samfélaginu.

Aukin aðsókn að starfs- og tækninámi skapar einmitt tækifæri í samspili við ný störf. Í þessu samhengi er tillaga mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að tryggja fjármagn til að mæta aukinni aðsókn í framhalds- og háskóla í haust lykilákvörðun.

Mikilvægt er að taka meðvitaða ákvörðun um að viðhalda og auka þessa færni enn frekar. En það er ekki nóg. Það þarf líka að tryggja að reglur vinnumarkaðarins og opinberra kerfa styðji við sveigjanleikann. Fjórða iðnbyltingin, rafræn stjórnsýsla, fjarvinna og fjarnám, gefa okkur frábær verkfæri. Við verðum að tryggja að búseta á Íslandi verði valkostur fyrir fólk sem vill eiga kost á störfum hvar sem er í heiminum. Við þurfum líka oftar að spyrja okkur hvernig hægt sé að nýta fjarvinnu til þess að styrkja starfsemi innan lands.

Ég hef lagt áherslu á bætta lagaumgjörð um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi, ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Tilgangurinn er að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum og skapa fleiri möguleika til heilsársbúsetu í dreifbýli, sjálfbærrar landnýtingar, nýsköpunar og matvælaframleiðslu. Það er því sérstaklega ánægjulegt að nú eru til afgreiðslu mál sem styrkja þessa umgjörð, m.a. með gerð landeignaskrár, auknu gagnsæi við eigendaskipti jarða og aukinni minnihlutavernd í veiðifélögum.

Miklir almannahagsmunir felast í ráðstöfun og meðferð lands og sömu reglur geta ekki gilt um kaup og sölu á landi og önnur fasteignakaup. Það þarf frekari umbætur og eitt af því er bætt skipulag landnotkunar í dreifbýli. Þar legg ég áherslu á að gæta besta ræktarlandsins til að nýta í matvæla- og fóðurframleiðslu. Einnig er hægt að skapa verðmæti með verndun lands, endurheimt vistkerfa og kolefnisbindingu. Við þurfum ekki að velja á milli kolefnisbindingar með skógrækt, endurheimtar votlendis eða landgræðslu. Við eigum að sinna þessu öllu en vanda val á landi fyrir mismunandi verkefni.

Vinna undir forystu félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um umbætur í málefnum barna mun skila sér með afgerandi hætti á haustþingi. Þá verða frumvörp sem eru afurðir úr þverpólitískri vinnu og víðtæku samráði lögð fram. Áherslan verður á samþættingu allrar þjónustu við börn og fjölskyldur og snemmtækan stuðning, ásamt forvörnum sem er ætlað að auka seiglu einstaklinga í lífsins ólgusjó. Breytingar á fæðingarorlofinu eru þegar hafnar.

Virðulegi forseti og ágætu landsmenn. Við getum ekki leyft okkur að hafa eitt mál á dagskrá, viðfangsefnin eiga að vera margþætt, þar sem bæði er horft fram á veginn og brugðist við áskorunum samtímans. Ef við vöndum okkur þarf sjaldnar að horfa í baksýnisspegilinn. Við Framsóknarfólk erum frjálslynt félagshyggjufólk sem vill vinna að stöðugum umbótum og leysa viðfangsefnin á grunni samvinnu og jafnaðar. Vinna okkar á Alþingi á að sameina krafta og hvetja til framþróunar á öllum sviðum, árangurinn mælist í ávinningi samfélagsins.

Áfram veginn og góðar stundir.