Categories
Fréttir

Við erum í stóru málunum

Deila grein

06/06/2017

Við erum í stóru málunum

Þingflokkur Framsóknarmanna hefur verið mjög iðinn það sem af er. Það má í raun segja að við höfum haldið áfram frá þeim tíma sem við sátum og fórum fyrir ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili – við erum í stóru málunum. Málum sem skipta landsmenn miklu máli, hvort sem litið er til mála sem snerta einstaklinginn beint eða óbeint, t.d. salan á ARION banka og salan á landi ríkisins á Vífilsstöðum.
Hér má sjá megnið af þeim málum sem komið hafa frá þingflokknum.

Þingsályktanir, sérstakar umræður og annað sem snertir heimilin, ríkið og neytendur:

Við höfum lagt fram með þingsályktun um að Landsvirkjun verði að fullu og öllu leyti í eigu ríkisins.
Ein stærsta og gjöfulasta auðlind íslensku þjóðarinnar eru fallvötn hennar og sú orka sem úr þeim má vinna. Þótt nýting auðlindarinnar hafi á köflum verið umdeild er það hafið yfir vafa virkjanir á vegum Landsvirkjunar hafa skilað og munu skila eiganda sínum háum fjárhæðum.
Við höfum lagt fram þingsályktun um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga.
Með þingsályktun þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að skipa starfshóp sem kanni möguleikann á skiptingu útsvarstekna milli tveggja sveitarfélaga. Nokkuð er um að einstaklingar eigi frístundahús eða jörð, án þess að þar sé stundaður búskapur, í öðru sveitarfélagi en lögheimili er. Útsvarstekjur einstaklings renna til þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili og þar með renna engar útsvarstekjur til sveitarfélagsins þar sem frístundahús eða jörð viðkomandi er staðsett.
Við höfum lagt fram þingsályktun um vexti og gengi krónunnar.
Flutningsmenn telja það mikilvægt að skýrt og greinilega verði gerð grein fyrir sambandi stýrivaxta Seðlabanka Íslands og vaxtastigs ríkisskuldabréfa í íslenskri krónu. Vaxtakostnaður ríkissjóðs sem hlutfall af heildartekjum hans er hár í alþjóðlegum samanburði og því vert að skilja til hlítar allar hugsanlegar ástæður þess.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um nýtingu forkaupsréttar vegna sölunnar á Arion banka.
Með samþykki kröfuhafa fallinna fjármálafyrirtækja á svokölluðum stöðugleikaskilyrðum féllust þau á að afhenda íslenska ríkinu eignir sem væru nægjanlega miklar til að það gerði stjórnvöldum kleift að aflétta fjármagnshöftum án þess að stefna greiðslujöfnuði í voða.
Við höfum lagt fram þingsályktun um flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.
Umræða um flutning stofnunarinnar í hentugt og rúmgott húsnæði á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem rekið yrði af Landhelgisgæslu Íslands, sbr. samning frá 30. júlí 2014 milli utanríkisráðherra og innanríkisráðherra um að ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæsla Íslands annist tiltekin verkefni samkvæmt varnarmálalögum nr. 34/2008, hefur staðið um nokkurra missera skeið.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.
Með tillögu þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að móta eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Þróun síðustu ár hefur verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð og það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.
Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga voru margir á þeirri skoðun að bæta þyrfti heilbrigðiskerfið á Íslandi og voru Framsóknarmenn þeirra á meðal. Sérstaklega var rætt um mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fjármagn til málaflokksins, eins og gert var á síðasta kjörtímabili undir stjórn Framsóknarflokksins.
Við höfum lagt fram þingsályktun um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs.
Hér á landi Hefur verið stuðst við vísitölu neysluverðs (VNV) sem mælikvarða á verðbólgu og til útreiknings á verðtryggingu síðan árið 1995. Í Evrópusambandsríkjunum er hins vegar stuðst við svokallaða samræmda vísitölu neysluverðs (SVN) en tilgangur hennar er m.a. að tryggja samræmda verðbólgumælingu í þeim ríkjum þar sem evra er gjaldmiðill.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um skattaafslátt vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu.
Fyrir liggur að í danska skattkerfinu fá allir afslátt ef þeir þurfa að ferðast tiltekna vegalengd vegna vinnu óháð því hvort ferðast er á bifreið, hjóli eða með almenningssamgöngum. Mat flutningsmanna er að það að láta skattafsláttinn ná til fleiri samgöngumáta en bifreiða sé til þess fallið að hvetja fólk til að kynna sér nýja samgöngumáta, auk þess sem það getur skapað þrýsting á byggðarkjarna að koma upp góðum og öflugum almenningssamgöngum milli sveitarfélaga.
Við höfum lagt fram þingsályktun um opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.
Með þingsályktun þessari er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra falið að beita sér fyrir því að NA/SV-flugbraut Reykjavíkurflugvallar (06/24), sem einnig hefur verið kölluð neyðarbrautin, verði opnuð á ný en henni var lokað í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 9. júní 2016 í máli íslenska ríkisins gegn Reykjavíkurborg (mál nr. 268/2016).
Við höfum lagt fram frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof (fæðingarhjálp).
Nokkrum hópi fólks stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingarhjálp í heimabyggð og þarf því að dveljast fjarri heimili sínu fyrir fæðingu til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp þegar að fæðingu kemur.
Við höfum lagt fram þingsályktun um fjarfundi á vegum ráðuneyta og notkun fjarfundabúnaðar.
Á 145. löggjafarþingi voru lagðar fram átta fyrirspurnir til ráðherra þáverandi ríkisstjórnar (693.–700. mál) sem vörðuðu fundahöld ráðuneytanna með starfsmönnum sínum og undirstofnana sem eru á landsbyggðinni, notkun fjarfundabúnaðar á slíkum fundum, tæknilega þjálfun starfsmanna á slíkan búnað og fleiri tengd atriði. Af svörum við fyrirspurnunum má ráða að sinn er siður í hverju ráðuneyti þegar kemur að fjarfundum og notkun búnaðar til slíkra funda.
Við höfum lagt fram þingsályktun um styttingu biðlista á kvennadeildum.
Upplýsingar eru um að um 300 konur bíði eftir því að komast í aðgerð á kvennadeild Landspítala og biðtíminn geti verið allt að þrjú ár. Aðgerðirnar sem hér um ræðir eru einkum vegna blöðrusigs, ristilsigs, legsigs og þvagleka.
Við höfum lagt fram þingsályktun um endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur.
Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði falið að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur.
Við höfum lagt fram þingsályktun um auðlindir og auðlindagjöld.
Í tillögu þessari er lagt til að forsætisráðherra feli starfshópi að kanna hvort innheimta skuli afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda og þá af hvaða auðlindum. Einnig er lagt til að starfshópurinn leggi fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds og geri grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða. Þá verði teknar saman upplýsingar um hvernig gjaldtöku sé háttað í nágrannaríkjunum, einkum á Norðurlöndunum.
Við höfum lagt fram þingsályktun um samstarf Íslands og Bretlands samhliða úrsagnarferli Bretlands úr Evrópusambandinu.
Þessi tillaga skýrir sig sjálf.
Við höfum lagt fram þingsályktun um rétt barna til að vita um uppruna sinn.
Með henni er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að undirbúa lagabreytingu sem tryggir að börn sem getin eru með tæknifrjóvgun og gjafaeggi og/eða gjafasæði eigi rétt á upplýsingum um uppruna sinn.
Við höfum lagt fram þingsályktun um mótun klasastefnu.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan skuli fela í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir.
Við höfum lagt fram frumvarp um málefni aldraðra (akstursþjónusta).
Aldraðir skulu eiga kost á akstursþjónustu á vegum sveitarfélags sem miðar að því að þeir geti farið allra sinna ferða á þann hátt sem þeir kjósa og á þeim tíma sem þeir velja gegn viðráðanlegu gjaldi.
Við höfum lagt fram frumvarp um atvinnuleysistryggingar (bótaréttur fanga).
Nú hefur maður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. setið í gæsluvarðhaldi, eða afplánað refsivist og stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun til samræmis við lög um fullnustu refsinga, og skal hann þá teljast tryggður samkvæmt lögum þessum eins og hann hefði verið í launaðri vinnu á sama tímabili, enda uppfylli hann önnur skilyrði til þess að teljast tryggður samkvæmt lögum þessum.
Við höfum lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (fánatími).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna til að rýmka þann tíma sem fáninn má vera við hún og auka þannig almenna notkun hans. Lagt er til að efnisákvæði um fánatíma færist í lögin og reglugerð ráðherra lúti því einungis að fánadögum.
Við höfum lagt fram frumvarp um brottnám líffæra (ætlað samþykki).
Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á 2. gr. laganna að miðað verði við „ætlað samþykki“, þ.e. gert verði ráð fyrir að hinn látni hefði verið samþykkur brottnámi líffæris eða lífræns efnis að sér látnum nema tilefni sé til að ætla annað.
Við höfum átt frumkvæði af sérstökum umræðum um:

  • matvælaöryggi og matvælaframleiðslu.
  • greiðsluþátttöku sjúklinga.
  • stöðuna í ferðamálum – leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.
  • áherslur í skipulagi haf og standsvæða.
  • matvælaframleiðslu og loftslagsmál.
  • söluna/gjöfina á Vífilsstöðum.

Annað

Við höfum lagt áherslu á stofnun stöðugleikasjóðs til að bregðast við sveiflum í íslensku hagkerfi.
Við höfum talað fyrir komugjöldum og verið er að vinna að nánar útlistun á gjaldtöku ferðamanna.
 
Þórunn Egilsdóttir,
þingflokksformaður Framsóknarmanna

Categories
Fréttir

Mesta hækkunin kom til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar

Deila grein

30/05/2017

Mesta hækkunin kom til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar

,,Hæstv. forseti. Á síðasta kjörtímabili var unnið að kerfisbreytingu er varðar kjör eldri borgara. Í þeirri kerfisbreytingu var krónu á móti krónu skerðingu hætt og mismunandi flokkar ellilífeyris sameinaðir. Markmið þeirrar kerfisbreytingar var að einfalda almannatryggingakerfið og bæta kjör aldraðra. Í þeim kerfisbreytingum var sérstaklega horft til þeirra sem lægri hafa tekjurnar. Samkvæmt athugun ráðuneytisins á afleiðingum kerfisbreytinganna kemur fram að flestallir eldri borgarar hækkuðu í launum við breytingarnar. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var hækkunin á bilinu 10–24% um síðustu áramót.
Mesta hækkunin kom til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Það kemur hins vegar fram í athugun ráðuneytisins að tvær hæstu tekjutíundirnar lækkuðu við þessar kerfisbreytingar. Þar er um að ræða hópa sem hafa um 470 þúsund og hærra í önnur laun. Á síðasta kjörtímabili náðum við ekki sama árangri hvað varðar kjör öryrkja og er það miður. Ekki náðist mikilvæg sátt um kerfisbreytingar, en halda þarf áfram í samvinnu milli Öryrkjabandalagsins og ráðuneytisins og finna lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við. Heildaraukning til málaflokksins á síðasta kjörtímabili, á þremur og hálfu ári, voru rúmir 40 milljarðar. Það er hins vegar umhugsunarefni að samkvæmt ríkisfjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar til næstu fimm ára er heildaraukning til málefna aldraðra og öryrkja tæpir 26 milljarðar. Þarna er mismunurinn rúmir 14 milljarðar, en inni í því eru áætlaðar kerfisbreytingar vegna málefna öryrkja upp á 2,7 milljarða. Samkvæmt útreikningum vegna kerfisbreytinganna á síðasta kjörtímabili var áætlað að kerfisbreytingin væri upp á tæpa 5 milljarða. Hér vantar talsvert upp á.
Eflaust hefðum við mátt gera betur í þessum málaflokki á síðasta kjörtímabili. Eins og áður segir fóru rúmir 40 milljarðar til málaflokksins á þremur og hálfu (Forseti hringir.) ári, en núna á fimm ára tímabili til næstu fimm ára eru það 26 milljarðar. Það er verulega umhugsunarvert.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins, 30. maí 2017

Categories
Fréttir

,,Ef þú veist ekki hvert þú vilt fara þá er alveg sama hvaða leið þú velur"

Deila grein

30/05/2017

,,Ef þú veist ekki hvert þú vilt fara þá er alveg sama hvaða leið þú velur"

,,Hæstv. forseti. Almennar stjórnmálaumræður, eldhúsdagsumræður, fóru fram hér á Alþingi í gær. Mér finnast þær alltaf áhugaverðar og þær draga sannarlega fram störf þingsins hér við þinglok, stöðuna í stjórnmálunum og verk hæstv. ríkisstjórnar ekki síst. Hér er sannarlega aukin hagsæld, bætt afkoma atvinnulífs, stóraukinn kaupmáttur og stöðugleiki. En á hvaða vegferð er hæstv. núverandi ríkisstjórn við þessar aðstæður? Í Undralandi sagði kötturinn eitthvað á þessa leið við Lísu þegar hún spurði til vegar: „Ef þú veist ekki hvert þú vilt fara þá er alveg sama hvaða leið þú velur.“ Hæstv. ríkisstjórn virðist stödd þar.
Hagsældin umtalaða kemur ekki beinlínis til af verkum núverandi hæstv. ríkisstjórnar heldur miklu fremur vegna afgerandi aðgerða síðustu hæstv. ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins. Vandasöm úrlausnarefni voru leyst af síðustu hæstv. ríkisstjórn með þrautseigju og útsjónarsemi og gjörbreytti skuldastöðu heimila og stöðu þjóðarbúsins. Þeim möguleikum sem við höfum núna til að byggja hér upp innviði, heilbrigðis-, samgöngu-, velferðar- og menntamála. En hvaða leið ætlar þessi hæstv. ríkisstjórn að velja? Það er vandséð. Helst eru þar hugmyndir um að skera niður til framhaldsskólanna, draga úr framlögum til háskólanna, einkavæða í heilbrigðiskerfinu, hækka skatta á atvinnugrein í vexti og tala í kross með og gegn gjaldmiðlinum.
Hér var á síðasta kjörtímabili lagður grunnur að þeirri kjörstöðu sem við í raun erum í til að fara í miklu betri uppbyggingu grunninnviða og með auknum félagslegum áherslum á að efla almenna velferð. Það er ekki auðvelt, virðulegi forseti, en á stjórnarheimilinu virðist skorta alla samstöðu til þess.”
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins, 30. maí 2017

Categories
Fréttir

Lækkum kostnað sjúklinga

Deila grein

30/05/2017

Lækkum kostnað sjúklinga

Á síðasta kjörtímabili náðist gríðarlega mikilvægur áfangi í þverpólitískri sátt innan velferðarnefndar Alþingis. Sáttin var byggð á lögum um sjúkratryggingar sem höfðu það meginmarkmið að lækka kostnað langveikra einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Það var gríðarlega mikilvægt þar sem mjög hár heilbrigðiskostnaður var mörgum langveikum einstaklingum erfiður.
Öll þekkjum við fréttir af einstaklingum sem hafa þurft að borga mörg hundruð þúsund krónur vegna læknismeðferðar og hefur það, að veikjast alvarlega, sett fjárhag margra þessara einstaklinga í uppnám. Þessi sátt var um að hámarksgreiðslur einstaklinga í heilbrigðiskerfinu yrðu ekki meiri en 50 þúsund á ári en ekki meiri en 33 þúsund á ári fyrir börn, aldraða og öryrkja. Það var því mikið gleðiefni þegar þessi þverpólitíska sátt tókst innan velferðarnefndar en í upphafi var gert ráð fyrir 95,200 hámarksþaki á ári. Þá upphæð gátu nefndarmenn í velferðarnefnd ekki sætt sig við.
Þessi lög tóku gildi þann 1. maí s.l. og nú standast ekki samþykktir þingsins. Lögin eru á þann veg að hámarksþakið er nú 70 þúsund á ári en 46 þúsund á ári fyrir börn, aldraða og öryrkja. Hér er því ekki um að ræða þær upphæðir sem þverpólitísk sátt náðist um innan velferðarnefndar og ekki heldur í samræmi við samþykkt Alþingis sumarið 2016. Það er með öllu óásættanlegt.
Nauðsynlegt er að hámarksþak sjúkratryggðra í heilbrigðiskerfinu verði til samræmis við þá þverpólitísku sátt sem náðist í vinnslu velferðarnefndar og með samþykkt Alþings sumarið 2016. Okkur framsóknarmönnum finnst mikilvægt að næstu skref í átt að betra og sanngjarnara greiðsluþátttökukerfi verði ákveðin í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi.
Þar þarf að setja fram raunhæfa, tímasetta áætlun um hvernig tannlækningar, sálfræðikostnaður og aukinn stuðningur vegna ferðakostnaðar sjúklinga verði felldur undir greiðsluþátttökukerfið. Auk þessa leggjum við framsóknarmenn áherslu á að tímasett verði hvenær greiðsluþátttökukerfi lyfja – og heilbrigðiskostnaðar renni saman í eitt sanngjarnara kerfi. Allar þessar aðgerðir þurfa að vera kostnaðargreindar og að fullu fjármagnaðar.
Elsa Lára Arnardóttir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Silja Dögg Gunnarsdóttir

Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður #3

Deila grein

30/05/2017

Eldhúsdagsumræður #3

,,Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Undanfarinn þingvetur hefur verið afar tíðindalítill frá því að hæstv. ríkisstjórn tók við völdum. Hins vegar hefur þessi tími verið afar áhugaverður hvað varðar ágreining innan hæstv. ríkisstjórnar um ýmis áherslumál ríkisstjórnarflokkanna. Má þar meðal annars nefna ágreining um stærsta mál hæstv. fjármálaráðherra, ríkisfjármálaáætlunina, og þau áform sem þar voru um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu.
Ríkisfjármálaáætlun felur í sér afar lítið svigrúm til innviðauppbyggingar. Þar er stofnkostnaði og rekstrarkostnaði víða blandað saman, sérstaklega þegar kemur að heilbrigðismálum. Það gefur skakka mynd af raunaukningu til málanna. Þetta er alls ekki í samræmi við loforð ríkisstjórnarflokkanna né áherslur í aðdraganda alþingiskosninga. Allir flokkar töluðu um mikilvægi innviðauppbyggingar en hana er ekki að finna í umræddri ríkisfjármálaáætlun.
Hvernig stendur á því að 13 milljarða vantar til að klára byggingu á nýjum Landspítala? Og hvernig stendur á því að 7 milljarða vantar til að klára endurnýjun á eldri deildum spítalans? Hér er ekki að sjá að hæstv. ríkisstjórn sé að standa við gefin loforð um að bæta aðbúnað starfsfólks og sjúklinga á Landspítala þar sem svo virðist sem fjármunir fylgi ekki settum markmiðum.
Það sama má segja um framlög til heilsugæslunnar. Þar eru gefnar upp villandi upplýsingar af raunaukningu til málaflokksins. Það er því ekki hægt að sjá hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar að styrkja heilsugæsluna um land allt sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Stór hluti af fjármagni til málaflokksins fer í byggingu á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.
Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Við Framsóknarmenn bendum á leiðir til innviðauppbyggingar. Minnkum aðhaldskröfu ríkisfjármálaáætlunar til samræmis við fyrri áætlun og drögum úr niðurgreiðslu skulda. Ráðumst í framkvæmdir, sérstaklega á svæðum þar sem þenslan er lítil.
Góðir landsmenn. Undanfarið hefur samfélagið kallað eftir bættu heilbrigðiskerfi og var það áberandi í aðdraganda síðustu kosninga. Ákall samfélagsins sýnir fram á mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fé til málaflokksins með markvissum hætti. Forgangsmál Framsóknarmanna á þessu þingi var að unnin væri heilbrigðisáætlun. Þessi áætlun var lögð fram þar sem enga heilbrigðisáætlun var að finna á þingmálaskrá hæstv. ríkisstjórnar. Samkvæmt heilbrigðisáætluninni skal skýra verkferla innan kerfisins og skilgreina hvaða aðilar eigi að veita þjónustu. Koma skal fram hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og/eða æskilegt.
Heilbrigðisáætlunin skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt skal tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu með utanspítalaþjónustu. Taka skal tillit til forvarna, lýðheilsu, íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða. Í áætluninni skal koma fram hvort og hvaða sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þannig álagi af okkar góða sjúkrahúsi, Landspítala.
Við gerð heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar að af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur. Fjármálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti skulu koma að vinnu heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í helbrigðisgreinum.
Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Annað af forgangsmálum okkar Framsóknarmanna var tillaga um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs en það mál virðist hafa sofnað í hv. efnahagsnefnd Alþingis. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir heimili landsins. Tillagan snýst um að taka húsnæðisliðinn út úr útreikningum vísitölunnar og samkvæmt fréttum í dag er tólf mánaða verðbólga nú 1,7% en hún væri neikvæð um 2,6 prósentustig ef stuðst væri við samræmda vísitölu neysluverðs.
Góðir landsmenn. Auk þessa höfum við Framsóknarmenn lagt áherslu á að lækka enn frekar greiðsluþátttökukerfi sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og koma til móts við þá sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu fjarri heimabyggð. Við munum halda áfram á þessari vegferð og við hlökkum til að berjast áfram fyrir góðum málum.
Að lokum vil ég óska ykkur öllum velfarnaðar. — Góðar stundir og hafið það gott í sumar.”
Elsa Lára Arnardóttir í almennum stjórnmálaumræðum, 29. maí 2017

Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður #2

Deila grein

30/05/2017

Eldhúsdagsumræður #2

,,Hæstv. forseti. Ágætu landsmenn. Það er rétt á þessum tímapunkti að líta um öxl og horfa yfir farinn veg. Að mörgu leyti er ástandið bærilegt, en höfum við gengið götuna til góðs, höfum við nýtt okkur tækifærin með forsvaranlegum hætti?
Ný ríkisstjórn boðaði ný vinnubrögð, aukið samstarf meiri hluta við minni hluta, stórfellt átak í heilbrigðismálum, skólamálum, samgöngum og ég veit ekki hvað. Reyndar gekk formaður Viðreisnar svo langt í umbótahjalinu að hann vildi setja á stofn starfshóp um bætt vinnubrögð á Alþingi. Í ljósi reynslunnar verður það að skoðast eins og hvert annað gamanmál sem frá hæstv. ráðherra kemur.
Stjórnarsáttmáli einnar mestu hægri stjórnar lýðveldissögunnar var síðan kynntur um miðjan janúar á þessu ári. Hvað er þar að finna? Heldur lítið. Þar hafa frasasmiðir fengið að valsa um lyklaborðið, það á að skoða hitt og þetta. Loforð virðast vera orðin að áherslum. Af þeirri ástæðu er áhugavert við lok þessa þings að skoða hvar stjórnarflokkarnir ganga í takt. Misræmi í málflutningi ráðherra og þingmanna er slíkt að ímynda má sér að ekki sé neitt gaman í þeirra bekk, eins og pilturinn sagði.
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra deila í erlendum fjölmiðlum. Formaður utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra deila ítrekað um stefnu Íslands í utanríkismálum sem trauðla er til þess fallið að auka traust á alþjóðlegum vettvangi. Nefnd um peningastefnu hefur verið sett á laggirnar og þar er lagt upp með krónuna sem framtíðargjaldmiðil landsins, en því er fjármálaráðherra ósammála eins og alkunna er.
Sáttanefnd í sjávarútvegsmálum var sett á laggirnar og enginn veit hvað út úr því kemur. Í stuttu máli þýðir þetta að engar afgerandi kerfisbreytingar verða líkt og Viðreisn lofaði fyrir kosningar.
Hæstv. samgönguráðherra virðist svo á leiðinni fram einhverja einstefnugötu. Hann fór vægast sagt sérstökum höndum um samgönguáætlun þar sem hann virtist ætla að sniðganga þingið með því að forgangsraða verkefnum bara sisona einn og óstuddur. Duglegur að vanda, hæstv. ráðherra, en þetta þurfum við að vinna saman.
Um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu hér á landi ríkir engin sátt, ekki hér inni, ekki innan stjórnarinnar og ekki innan atvinnugreinarinnar. Ástæðan er að hækkun á þessum tímapunkti kemur verst út fyrir landsbyggðina. Halda menn virkilega að hið sama gildi um stórar hótelkeðjur í höfuðborginni og lítið gistiheimili á landsbyggðinni? Ég hlýt að spyrja: Hvert er þessi ríkisstjórn að fara?
Frú forseti. Almannahagsmunir ofar sérhagsmunum, skrifar fjármálaráðherra í nýrri grein. Þetta hljómar fallega og um þetta held ég að allir séu sammála. Veruleikinn er hins vegar ekki alltaf svona einfaldur. Eru það ekki almannahagsmunir að halda landinu í byggð? Við Framsóknarmenn höfum bent á leiðir til þess með því að nota t.d. skattkerfið til að jafna aðstöðumun. Þetta létum við kanna við gerð síðustu byggðaáætlunar sem var svo gott sem klár í janúar en hefur ekki enn sést í þinginu. Eru það sérhagsmunir í Noregi og Svíþjóð þar sem stjórnvöld beita ýmsum hvötum í því verkefni að halda löndum sínum í byggð, m.a. skattalegum hvötum, þ.e. að þeir sem búa á köldum svæðum, dreifbýli, borga lægri skatta en þeir sem búa nær höfuðborginni?
Til að matvælaframleiðsla á Íslandi blómstri er mikilvægt að halda landinu í byggð. Það gerist svo sannarlega ekki af sjálfu sér. Við þurfum að hugsa lengra en núverandi ríkisstjórn gerir. Þess vegna höfum við Framsóknarmenn m.a. lagt fram þingsályktunartillögu um stefnu vegna ríkisjarða. Meðferð þeirra og nýting er atvinnugreininni mikilvæg og er liður í byggðafestu.
Þá höfum við líka lagt fram tillögur að auknum tekjum til sveitarfélaga en þau kalla stíft eftir sterkari tekjugrunni. Á síðasta kjörtímabili var lögfest að ríkið, sveitarfélög og höfuðborg skuli í sameiningu vinna að mótun byggðastefnu og sóknaráætlana. Ég er sannfærð um að lögin muni stuðla að markvissari uppbyggingu landsins en þá þarf áætlunin að koma fram og við bíðum eftir því.
Í ljósi þess hve illa gengur að setja mál fram hjá hæstv. ríkisstjórn höfum við Framsóknarmenn lagt fram fjöldamargar prýðisgóðar hugmyndir og leiðir til úrbóta. Strax í upphafi lögðum við fram heilbrigðisáætlun því að ákall eftir henni var og er mikið. Heilbrigðisþjónusta og menntamál eru mikilvægir þættir í jafnrétti til búsetu. Að þessum þáttum hefur ekki verið hugað nægilega vel. — Gleðilegt sumar og góðar stundir.”
Þórunn Egilsdóttir í almennum stjórnmálaumræðum 29. maí 2017

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Eldhúsdagsumræður #1

Deila grein

30/05/2017

Eldhúsdagsumræður #1

,,Hæstv. forseti. Góðir landsmenn.
Þegar farið er yfir það í fljótheitum hvert við stefnum sem þjóðfélag er ekki alveg augljóst hver niðurstaðan er. Það kann að vera að stjórnarmeirihlutinn sé með það á hreinu en ég stórefast um að svo sé. Mig langar að nefna nokkur dæmi:
Á að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og taka gjald af ferðamönnum — eða ekki? Er verið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna — eða ekki? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fjármagna uppbyggingu samgangna, veggjöld eða ekki? Hversu mikið ætlar ríkisstjórnin að einkavæða í skólakerfinu? Gjaldmiðilsmál; króna eða ekki króna? Hvernig á fjármálakerfið að vera?
Þetta eru bara nokkur dæmi um það sem ríkisstjórnin hefur verið að fást við á undanförnum mánuðum en enginn virðist vita hvert beri að stefna. Og reyndar er það ekki bara svo, heldur virðist sem einstaka ráðherra virðist ekki hafa hugmynd um hvert hann stefnir.
Ég leyfi mér sérstaklega að nefna hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann kemur af fjöllum þegar rætt er um að verið sé að einkavæða í heilbrigðisþjónustunni, segir lögin óskýr og þar fram eftir götunum. En hver er hans pólitíski vilji? Hvert telur hann heppilegt að stefna? Mér vitanlega hefur það ekki komið fram með skýrum hætti. Það sem hann hefur þó sagt um þetta kom fram í viðtali við ráðherra á dögunum. Þar sagði hann að það væri ekki endilega plottað um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þar höfum við það. Hann aftekur ekki með öllu að sú sé raunin.
Ég held að það gæti verið ágætt fyrir ráðherra að reyna að átta sig á því fyrr en síðar hvort eitthvað sé að gerast á hans vakt sem hann kærir sig ekki um. Það getur varla talist ofrausn af hálfu manns sem talar um ný vinnubrögð að samtal um aukið einkaframtak í heilbrigðisþjónustu sé tekið við þjóðina, þótt í litlu væri.
Frú forseti. Sé gengið til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn þarf að hafa afl til að standa í lappirnar. Slíkt afl hefur mér sýnst að viðhengin tvö, Björt framtíð og Viðreisn, hafi ekki. Viðreisn er útibú frá Sjálfstæðisflokknum, Björt framtíð virðist svo vera orðin útibú frá Viðreisn. Og í 11 manna ríkisstjórn sitja sex Sjálfstæðismenn, sem sagt meiri hluti við ríkisstjórnarborðið. Fyrir ekki svo löngu síðan voru níu af þeim sem eru ráðherrar nú í Sjálfstæðisflokknum.
Þótt ekki sé langt liðið á kjörtímabilið virðist ljóst að hver stefnir í sína átt og það leiðir hugann að gjaldmiðilsmálum, öllu heldur því stefnuleysi sem virðist ríkja. Krónan er framtíðargjaldmiðill Íslands, segir forsætisráðherra. Fjármálaráðherrann talar krónuna hins vegar niður hvenær sem færi gefst. Það er merkilegt að upplifa það að fjármálaráðherra landsins skuli vera svo taktlaus að tala niður gjaldmiðil þjóðarinnar á erlendum sem innlendum vettvangi. Það má vera að ófyndin framsetning hans í ástarjátningu til evrunnar sé fyndin í þröngum hópi Viðreisnar, en ég hygg þó að fleiri séu undrandi á þessari framkomu.
Frú forseti. Það er eitthvað bogið við það, í fullri alvöru, að fjármálaráðherra skuli reyna eftir fremsta megni að koma hér á myntráði sem líklega á að ljúka með upptöku evru. Hann segist áhyggjufullur vegna styrkingar krónunnar en gerir ekkert, hreint ekki neitt, enda veit hann sem er að liður í því að koma hér á myntráði og svipta íslensk stjórnvöld ráðum á eigin mynt verður auðveldara því minna sem hann aðhefst.
Það verður að segjast alveg eins og er, frú forseti, að það virðist vera lítill dugur í hæstv. forsætisráðherra þegar kemur að þessum efnum eða það væri gaman að fá svar við því frá hæstv. ráðherra, þótt ekki verði það í kvöld, hvort hann sé sammála fjármálaráðherra um að best sé að gera ekki neitt, taka upp myntráð og fórna forræði á eigin mynt. Ætlar ríkisstjórnin að marka sér einhverja stefnu í þessum málum? Jú, sett er á laggirnar nefnd um endurskoðun peningastefnu. Hvort mun hún fylgja stefnu forsætisráðherra eða fjármálaráðherra?
Á meðan stjórnarherrar fljóta sofandi að feigðarósi boðar Seðlabankinn að hann sé hættur reglulegum kaupum á gjaldeyri. Hafi verið þörf á að kaupa gjaldeyri fram til þessa er alveg augljóst að þörfin er meiri nú en nokkru sinni.
Fram hefur komið í fréttum að svo virðist sem vaxtamunarviðskipti séu að ná sér á strik á ný og ég veit fyrir víst að það setur hroll að mörgum við þær fréttir, enda höfðu þau viðskipti örugglega mikið um það að segja hversu illa fór haustið 2008. Síðasta ríkisstjórn var með ákveðin úrræði til að bregðast við þess háttar viðskiptum.
Frú forseti. Ég tel að hér verði að gera mun meira og reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að fjármagn flæði óhindrað til landsins með tilheyrandi áhættu fyrir þjóðarbúið. Ef það er eitthvað sem læra má af bankahruninu 2008 er það það að mikið innstreymi af erlendu fé til vaxtamunarviðskipta mun alltaf koma okkur í koll. Enn og aftur eru það allt of háir vextir sem virðast vera undirrót vandans.
Á hvaða vegferð er fjármálakerfið á vakt núverandi ríkisstjórnar? Engri sérstakri, held ég að lýsi því best.
Á dögunum komu hingað áhugasamir erlendir kaupmenn og sögðust hafa keypt Arion banka. Úr herbúðum ríkisstjórnarinnar heyrðust fagnaðaróp og hér sagðir alvörufjárfestar á ferð sem væru að veðja með Íslandi en ekki á móti, þetta væru tímamót, mikil tímamót. Í hvaða skilningi eru það tímamót að erlendir vogunarsjóðir, sumir með vafasama og glæpsamlega fortíð, skuli vilja eignast hér banka og reka? Er mönnum ekki sjálfrátt? Og hefur ríkisstjórnin sett það niður fyrir sér hvernig fjármálakerfið á Íslandi á að vera? Hefur ríkisstjórnin einhverja hugmynd um það eða á að láta „markaðinn“ um þetta eins og fleira?
Það er í raun merkilegt til þess að hugsa að almenningur og ríkið skuli hafa verið nógu góð til að taka á sig stóran skell við hrun bankanna en svo virðist ríkisstjórninni standa á sama hvernig fjármálakerfið eigi að líta út.
Og meira af afrekum ríkisstjórnarinnar. Menntamálaráðherra er að einkavæða framhaldsskóla án umræðu á Alþingi. Þegar upp komst harmaði hann ótímabæra umræðu um breytingarnar fyrirhuguðu, það voru hans viðbrögð, sem sagt að einhver skyldi vilja ræða hvort færa skyldi Ármúlaskóla inn í einkarekstur. Það voru alveg ótrúlega furðuleg viðbrögð. Hvenær átti að ræða og hverjir máttu ræða breytinguna? Allt gerist þetta á vakt ríkisstjórnar sem boðað hefur ný og vandaðri vinnubrögð og minna fúsk.
Hér er rétt að staldra við og spyrja: Hvert ætlar ríkisstjórnin með menntakerfið? Eigum við að ræða það eða er bannað að ræða það? Ótímabært?
Frú forseti. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er eins og hún er. Eins og á öllum tímum vantar sífellt meira fé. En ríkisstjórnin virðist ekki ætla að bregðast við vegna skorts á uppbyggingu innviða. Enn vantar milljarða króna í heilbrigðiskerfið, samgöngur og menntamálin, svo aðeins sé minnst á það sem hæst ber. Helst er að skilja að ríkisstjórnin vilji hraða einkavæðingu í þessum geirum. Hennar áætlun virðist vera að láta fólkið bara greiða meira fyrir þjónustuna fyrst það endilega þarf á henni að halda.
Málflutningur samgönguráðherra er náttúrulega sá sem best passar í þessum efnum þegar hann segir: Ef þið viljið meira skuluð þið borga meira, og það fyrir þjónustu sem ég hygg að flestir séu sammála um að ríkið eigi að greiða og að menn séu með sköttum og gjöldum af eldsneyti búnir að greiða í ríkissjóð nú þegar.
Góðir landsmenn. Það er til önnur leið, leiðin sem er kennd við blandað hagkerfi. Stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í dag er að lækka vexti og stuðla að mjúkri lendingu hagkerfisins. Til þess eru til úrræði, til að mynda stofnun stöðugleikasjóðs sem myndi nýtast sem eitt hagstjórnartækið til viðbótar þeim sem fyrir eru, endurskoðun peningastefnu sem hafi það m.a. að markmiði að gengið sé stöðugt, vextir sambærilegir við önnur lönd. Það er hægt að setja á gjaldtöku í ferðaþjónustu, komu- eða brottfarargjöld og breyta gistináttagjaldi. Það er skynsamlegt að fjárfesta í innviðum víða um land þar sem engin þensla er án þess að blása í þenslubóluna.
Okkur ber að varðveita og byggja upp velferðarkerfi í landinu sem ríkisvaldið ber ábyrgð á sem byggir á traustum atvinnugreinum, nýjum sem gömlum. Við eigum að tryggja að samfélagið reki sams konar heilbrigðiskerfi fyrir alla. Heilsufar er ekki markaðsvara. Sama gildir um menntun. Jafnrétti til náms þarf að ríkja. Við eigum að nýta allar okkar auðlindir með sjálfbærum hætti og m.a. þannig koma að liði við loftslagsmálin. Það er til önnur leið en ríkisstjórnin er að fara, það er leið skynseminnar. Þá leið viljum við Framsóknarmenn fara. Þakka þeim sem á hlýddu. — Gleðilegt sumar.”
Sigurður Ingi Jóhannsson í almennum stjórnmálaumræðum 29. maí 2017

Categories
Fréttir

Um væntanlegar tillögur ráðherranefndar um húsnæðismál

Deila grein

26/05/2017

Um væntanlegar tillögur ráðherranefndar um húsnæðismál

,,Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að ræða fréttir sem komið hafa um að tillögur ráðherranefndar um húsnæðismál séu væntanlegar og verði vonandi kynntar núna á næstu dögum. Í fréttinni kom fram að eitt af því sem væri til skoðunar væri að ganga til samninga við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu varðandi lóðir. Ég fagna því að það standi til, því að fyrir liggur beiðni frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík og Kópavogi um að kaupa lóðir til þess að byggja á. Í því sambandi hafa eftirfarandi staðir verið nefndir: Keldur, Keldnaholt, Langhelgisgæslureiturinn og lóðin í kringum Veðurstofu Íslands. Nefnt hefur verið að Kópavogsbær kaupi land á Vatnsendahæð og jafnframt hefur verið nefndur reitur í kringum Sjómannaskólann, Borgarspítalann og svo á Suðurgötu/Hringbraut.
Ég vil líka hvetja ríkisstjórnina til að skoða hvort möguleiki sé á að setjast aftur niður með sveitarfélögum varðandi Vífilsstaðalandið og Skerjafjörðinn til þess að tryggja að þessar lóðir verði raunverulega nýttar til þess að byggja á íbúðarhúsnæði. Að þar verði ekki bara horft til þess að fá sem hæst markaðsverð heldur hafi einstaklingar tækifæri, ekki bara stórir verktakar, heldur líka einstaklingar, til þess að byggja.
Í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur talað um sjálfa sig sem jafnréttisríkisstjórn vænti ég þess að fjármálaráðherra og fleiri ætli að mæta á EM í sumar í Hollandi, þar sem kvennalandslið okkar mun eflaust standa sig jafn vel og það hefur gert í undanförnum keppnum. Þar mætti um leið skoða sérstaklega sveitarfélag sem heitir Almere Poort sem hefur einmitt staðið sig mjög vel í því að tryggja fjölbreytni og mikið framboð af lóðum og stuðlað að því að einstaklingar eða litlir verktakar, geti í auknum mæli byggt íbúðarhúsnæði á fjölbreyttan máta. Ég (Forseti hringir.) efast ekki um að jafnréttismálaráðherrann hefði sjálfur áhuga á að mæta þangað, því að mér skilst að hann hafi nú þó nokkra reynslu af því að byggja sjálfur.”
Eygló Harðardóttir í störfum þingsins, 26. maí 2017

Categories
Fréttir

Uppsagnir sjúkraflutningamanna við HSN taka gildi í kvöld!

Deila grein

26/05/2017

Uppsagnir sjúkraflutningamanna við HSN taka gildi í kvöld!

,,Hæstv. forseti. Í kvöld taka uppsagnir sjúkraflutningamanna við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi gildi ef samningar takast ekki um bætt kjör þessa aðila sem eru í hlutastörfum. Ef af þessu verður er komin upp mjög alvarleg staða í heilbrigðisþjónustu á starfssvæði heilbrigðisstofnunarinnar. Byggðaráð Blönduósbæjar hefur skorað á velferðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið að ljúka gerð kjarasamninga við þessa aðila og að samningar verði í samræmi við þá skuldbindingu og ábyrgð sem í starfinu felst. Einnig er skorað á framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands að samræma launakjör hlutastarfandi sjúkraflutningamanna innan starfssvæðis heilbrigðisstofnunarinnar en sjúkraflutningamenn á Blönduósi telja sig ekki hafa setið við sama borð og aðrir sjúkraflutningamenn innan heilbrigðisstofnunarinnar.
Einnig bendir byggðaráðið á að hlutastarfandi sjúkraflutningamenn á starfssvæði heilbrigðisstofnunar eru 23 talsins en þeir eru á Blönduósi, Dalvík, Raufarhöfn og Þórshöfn og hluti sjúkraflutningamanna á Húsavík. Jafnframt kemur fram að hluti af kröfum hlutastarfandi sjúkraflutningamanna á Blönduósi er að þeir telja að ósamræmi sé á milli launa hlutastarfandi sjúkraflutningamanna innan starfssvæðis heilbrigðisstofnunarinnar.
Ég tek undir áskorun byggðaráðs Blönduósbæjar og hvet hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem situr hér í salnum núna og hæstv. velferðarráðherra að ganga til verksins og ná viðunandi samningum við þá sjúkraflutningamenn sem hér um ræðir. Það er afar mikilvægt að þessir samningar takist, hér er um að ræða öryggi sjúklinga og þeirra sem búa á starfssvæðinu sem þessar uppsagnir sjúkraflutningamannanna munu ná til ef af verður.
Það er staðreynd að heilbrigðisþjónusta hefur dregist saman víða á landsbyggðinni á undanförnum árum og í mörgum tilfellum þurfa íbúar að reiða sig á þjónustu sjúkraflutningamanna og það er með öllu ólíðandi að staða sem þessi komi upp. Ég ætla því að nota tækifærið hér í störfum þingsins enn og aftur og minna á mikilvægi þess að forgangsmál okkar Framsóknarmanna um heilbrigðisáætlun nái fram að ganga. Við verðum að skilgreina hvaða þjónusta skuli vera í boði á heilbrigðisstofnunum víða um landið og vinna í samræmi við það. Þessi (Forseti hringir.) tillaga bíður eingöngu atkvæðagreiðslu hér í þinginu og öll umræða um málið hefur nú þegar farið fram þannig að ég hvet til þess að málið fari að koma til atkvæðagreiðslu.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins, 26. maí 2017

Categories
Fréttir

Þang og þari

Deila grein

26/05/2017

Þang og þari

,,Hæstv. forseti. Komið er út úr atvinnuveganefnd frumvarp um umgengni nytjastofna sjávar, eða þang- og þarafrumvarpið, þó ekki í breiðri sátt, því miður. Þessu frumvarpi var í lok síðasta kjörtímabils ýtt út af borðinu á elleftu stundu. Meginverkefni frumvarpsins er að Hafrannsóknastofnun verði falið að stunda rannsóknir á sjávargróðri og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um nýtingu, þ.e. öflun þangs og þara verði felld undir eftirlit samkvæmt fiskveiðistjórnarlöggjöfinni. Móttaka þangs til vinnslu frá afmörkuðum svæðum verði háð leyfi og lagt verið veiðigjald á landaðan afla þangs og þara. Að auki verði metinn endurvöxtur eftir nýtingu og hversu mikið sé unnt að taka af þessum tegundum í fjörðum í heild og eftir svæðum þannig að nýtingin sé sjálfbær.
Við kynningu á drögunum að frumvarpinu kom fram sú gagnrýni að ekki væru sett fram nein meginsjónarmið er lytu að vernd líffræðilegrar fjölbreytni sjálfbærrar nýtingar. Áþekk sjónarmið voru sett fram frá öðrum aðila þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að meta áhrif þangsláttar á vistkerfið í heild, m.a. á krabbadýr, botndýr, fugla, fiska, spendýr o.fl. Þá komu fram áhyggjur um hvaða áhrif þangsláttur hefði á vöxt grásleppuseiða og annarra seiðategunda.
Auvitað skal taka undir mikilvægi þess að gæta að áhrifum nýtingar á vistkerfið. Frumvarpið felur ekki í sér neina rýmkun á heimildum einstaklinga og lögaðila til að hefja starfsemi á þessu sviði. Hér er um að ræða rótgróna atvinnustarfsemi til síðustu 40 ára sem fram að þessu hefur verið talin í góðri sátt við náttúruna. Eins verður að skoða þetta frumvarp í ljósi þessi að engar reglur eru um þessa nýtingu í dag. Með frumvarpinu eru gefin skýr skilaboð um að eftirlit þurfi að fara fram með nýtingunni samtímis því að rannsóknir verði efldar og sett hámarksviðmiðun á einstökum svæðum.”
Sigurður Páll Jónsson í störfum þingsins, 26. maí 2017