Categories
Fréttir

Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum

Deila grein

18/05/2016

Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum

Eygló HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum tilfjögurra ára. Þetta er í sjötta sinn sem slík áætlun er lögð fram en markmið hennar er að tilgreina þau verkefni sem brýnust eru talin á sviði kynjajafnréttis.
Framkvæmdaáætlunin er lögð fram samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Skal ráðherra leggja hana fram að fengnum tillögum ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs, auk þess sem hliðsjón skal höfð af umræðum á jafnréttisþingi. Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum skal fela í sér verkefni sem ætlað er að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi.
Jafnréttisþing var haldið í fjórða skipti 25. nóvember 2015. Tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016–2019 fylgir skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2013–2015 sem lögð var fyrir jafnréttisþingið.
Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö kafla og er þar kynnt 21 verkefni sem áætlað er að framkvæma á gildistíma hennar. Er þessu fyrirkomulagi ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun stjórnvalda á sviði jafnréttismála birtist með skýrum hætti í framkvæmdaáætluninni.
Í framkvæmdaáætluninni er fjallað um samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla ákvörðunartöku og stefnumótun í stjórnkerfinu í samræmi við jafnréttislög og áherslu á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Gerð er tillaga um úttekt á jafnréttislögum og stjórnsýslu jafnréttismála þar sem kannað verði hvort markmið núgildandi laga og stjórnsýslu jafnréttismála sé í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi.
Miðað er við að á gildistíma áætlunarinnar verði áfram unnið að framkvæmd og eftirfylgni þeirra verkefna sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynja og árangur þeirra metinn. Lögð er áhersla á innleiðingu jafnlaunastaðalsins ÍST-85:2012 og að fram fari markvisst kynningarstarf á vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglugerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins. Í framkvæmdaáætluninni er í fyrsta skipti sérstakur kafli um karla og jafnrétti. Markmiðiðið er að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi og kanna hvernig öll stefnumótun á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Heilbrigðisstofnanir á strjálbýlum svæðum

Deila grein

18/05/2016

Heilbrigðisstofnanir á strjálbýlum svæðum

Hjálmar Bogi Hafliðason„Hæstv. forseti. Ég fann í fórum mínum þriggja ára gamla ræðu sem mér fannst ástæða til að dusta rykið af, eins og prestar gera. Víða í hinum ýmsu byggðum landsins er skortur á læknum. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Öll viljum við hafa greiðan aðgang að læknisþjónustu og langar mig aftur að benda á ákveðna lausn á því máli.
Á aðalfundi Læknafélags Íslands árið 2012 var ályktað um dreifbýlislækningar, eða héraðslækningar eins og sumir læknar vilja tala um. Í þeirri ályktun var skorað á heilbrigðisráðherra og stendur, með leyfi forseta:
„… að binda í reglugerð heimild til þess að læknir með sérfræðileyfi geti fengið viðurkennda undirsérgreinina dreifbýlislækningar“ og að skilgreina um leið hvað í því felst.
Fram kemur í greinargerð með ályktuninni að lítil endurnýjun hafi átt sér stað meðal heimilislækna í hinum ýmsu byggðum. Jafnframt sé starf læknis í dreifbýli eða héraði að mörgu leyti frábrugðið læknisstarfinu á mölinni. Fámennið veldur einnig því að vaktabyrði er almennt meiri á strjálbýlum svæðum og fjölbreyttari vandamál sem upp koma á vöktum. Á sama tíma eru minni möguleikar á félagslegum og ekki síst faglegum stuðningi kollega í læknastéttinni.
Það kom einmitt fram á fundi á Akureyri fyrir skömmu. Læknar og forsvarsmenn heilbrigðisstofnana frá strjálbýlum, norðlægum svæðum í Noregi, Kanada, Svíþjóð og Skotlandi ásamt Íslandi komu þar saman. Þar flutti erindi Roger Strasser, rektor Northern Ontario School of Medicine í Kanada. Hann sagði meðal annars að heilbrigðisstofnanir á strjálbýlum svæðum verði að taka frumkvæði til þess að leysa úr vanda við að fá heilbrigðisstarfsfólk til starfa.
Roger Strasser segir, með leyfi forseta: „Mikilvægast er að taka stjórnina og láta hlutina ganga upp fyrir okkur við okkar aðstæður.“
Síðan árið 2003 hefur Sjúkrahúsið á Akureyri tekið formlega þátt í menntun lækna. Nú er lag að taka upp nýja námsgrein enda Ísland strjálbýlt land. Nám í dreifbýlislækningum er nefnilega víða viðurkennt. Ég sé fyrir mér uppbyggingu og styrkingu Háskólans á Akureyri í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri vegna þessa og um leið uppbyggingu og styrkingu heilbrigðisstofnana víða um land.
Það er lykilatriði að taka frumkvæði í þessum málum og sýna ábyrgð öllum til heilla alltaf og alls staðar.“
Hjálmar Bogi Hafliðason í störfum þingsins 12.05.2016.

Categories
Fréttir

Af hverju eru vextirnir hærri hér á landi

Deila grein

18/05/2016

Af hverju eru vextirnir hærri hér á landi

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Af hverju eru vextir hér á landi miklu hærri en til dæmis annars staðar á Norðurlöndunum? Það er meðal annars vegna þess að hér er verðtryggt lánafyrirkomulag á íbúðalánum. Algengasta aðferð við árangursmat er að meta árangur út frá settum markmiðum. Ef við notum þá aðferð við mat á árangri Seðlabankans við að framfylgja peningastefnu má segja að Seðlabankanum hafi tekist vel til, náð toppárangri. Þar er meginmarkmið að halda verðlagi stöðugu og að mæld verðbólga sé alltaf undir 2,5%. Það hefur nú tekist í rúmlega tvö ár og er lengsta samfellda verðstöðugleikatímabil frá því að þessi markmiðsaðferð var tekin upp árið 2001.
Þrátt fyrir þennan markverða árangur verðstöðugleika er það staðreynd að vaxtastig hér er himinhátt í öllum samanburði. Það er sá kostnaður sem heimilin og atvinnulífið bera. Þessi árangur er heimilum og atvinnulífi of dýru verði keyptur. Það er ekki sú framtíðarsýn sem við eigum að bjóða, að við fjármögnum uppsveifluna og rembumst á móti með að viðhalda verðstöðugleika hverju sinni. Sem dæmi þá eru nafnvextir á íbúðalánum í Noregi, með sína sjálfstæðu mynt, á bilinu 1–2%. Munurinn er gríðarlegur en hann þarf ekki að vera svo mikill.
Á opnum fundi með efnahags- og viðskiptanefnd viðurkenndi seðlabankastjóri að stýrivextir bíta ekki sem skyldi hér á landi vegna þess að stór hluti húsnæðislána heimilanna er verðtryggður og tekur mið af neysluvísitölu mældri af Hagstofunni en ekki stýrivöxtum Seðlabankans. Mér finnst þetta stórmerkilegt. Það blasir við að vaxtaokrið er ekki álagning bankanna heldur verðtryggt raunvaxtagólf Seðlabankans. Þessu kerfi verður að breyta. Þessu lánafyrirkomulagi verðtryggingar og vaxta á uppreiknaðan höfuðstól verður að breyta. Kjörtímabilið er ekki búið og það er enn þá tími til að breyta þessu.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 12.05.2016.

Categories
Fréttir

Stöðugleiki í stýrivöxtum Seðlabankans

Deila grein

18/05/2016

Stöðugleiki í stýrivöxtum Seðlabankans

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Það ríkir öfundsvert ástand á Íslandi, finnst mörgum sem búa ekki við sama hagvöxt og við, sem ekki búa við sama litla atvinnuleysið og við, sem ekki búa við sama verðstöðugleika og við. Það er mjög athyglisvert sem fram kemur í útgáfu Seðlabankans í gær að almenningur nýtir það góða svigrúm sem hér er til að lækka skuldir sínar og til að fylgja eftir, eins og Seðlabankinn segir, með leyfi forseta, „árangursríkri skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar“.
Stöðugleikinn á Íslandi birtist líka í öðrum myndum. Hann birtist m.a. í því að sama hvað á gengur er stöðugleiki í stýrivöxtum Seðlabankans, sem eru allt of háir. Í frétt á mbl.is gaf yfirhagfræðingur Seðlabankans skýringu á því hvers vegna stýrivextir á Íslandi væru hærri en annars staðar. Hann sagði, með leyfi forseta að „verðbólguvæntingar hefðu þráfaldlega verið yfir markmiði hér á landi í gegnum tíðina“.
Það segir ekkert um nútímann. En málið er að verðbólguvæntingar á Íslandi eru helstar þær að verðbólga þarf að lækka og mun lækka m.a. vegna þess að kaupmenn hafa ekki sinnt þeirri siðferðislegu skyldu sinni að skila að fullu lækkun gjalda sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.
Hér segir líka að verðbólga hafi verið undir markmiði hér í tvö ár og að önnur iðnríki glími við allt annan vanda en Seðlabankinn. Þar sé vandamálið að reyna að ýta undir verðbólgu, eins og hér segir. Ef við berum okkur saman við Svíþjóð er hækkun á húsnæðisverði þar líklega enn meiri en hér. Þar er verðbólga með svipuðum hætti og hér, að teknu tilliti til þess að húsnæðiskostnaður er þar ekki inni, eins og víða er í OECD. Til þess að burðast við að laga þetta ástand í Svíþjóð eru menn með -0,5% stýrivexti.
Nú verð ég að spyrja enn einu sinni: Hvað kann seðlabankastjóri Íslands sem seðlabankastjóri Svíþjóðar kann ekki?“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 12.05.2016.

Categories
Fréttir

Gunnar Bragi mælir fyrir breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum

Deila grein

18/05/2016

Gunnar Bragi mælir fyrir breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraGunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mælti í dag fyrir breytingum á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum en þessar breytingar eru forsenda nýgerðra búvörusamninga.

Í framsöguræðunni sagði Gunnar Bragi að samningarnir mörkuðu tímamót – þetta væri í fyrsta skipti sem samið er um alla búvörusamninga og búnaðarlagasamning í einu. Það þyrfti að breyta núverandi kerfi, auðvelda nýliðun í stétt bænda og gera stuðningsformin almennari og minna háð einstökum búgreinum til að opna möguleika á nýtingu nýrra tækifæra.

Helstu markmið samninganna væru að stuðla að aukinni framleiðslu búvara og bæta samkeppnishæfni landbúnaðarins og afkomu bænda. Þannig væri tryggt fjölbreytt framboð heilnæmra gæðaafurða á sanngjörnu verði til neytenda og fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar aukið.

Í samningnum eru aukin framlög til aðlögunar að lífrænni framleiðslu og tekinn verður upp stuðningur við mat á gróðurauðlindum, geitfjárrækt, fjárfestingastuðningi í svínarækt og stuðning við framleiðslu skógarafurða. Þá væri mikilsvert að efla landbúnað sem atvinnugrein í dreifðum byggðum og stuðla að sjálfbærri landnýtingu. Á samningstímabilinu er gert ráð fyrir endurskoðun samninganna tvisvar, þ.e. árin 2019 og 2023.

Samningarnir voru undirritaðir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands 19. febrúar sl. af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis.

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is

Categories
Fréttir

Þingflokki Framsóknarmanna færð falleg gjöf

Deila grein

18/05/2016

Þingflokki Framsóknarmanna færð falleg gjöf

Þingflokkur Framsóknarmanna fékk góðan flokksmann í heimsókn í síðustu viku. En Hallgrímur Pétursson, útskurðarmeistari, frá Árhvammi í Suður-Þingeyjasýslu, færði þingflokknum að gjöf íslenska skjaldarmerkið og gjöfinni fylgdu þessi góðu orð:
Að ofan halda um skjöldinn vörð
ógurlegi drekinn og örninn.
Til hliðanna nautið og jötunn á jörð
jöfn er öll landsins vörnin.
 
13151409_10208540873192292_5664611837749132255_nIMG_658013174070_10208540873272294_3988780724892060337_n
 

Categories
Fréttir

Betra eftirlit með ferðaþjónustu

Deila grein

17/05/2016

Betra eftirlit með ferðaþjónustu

Jóhanna María - fyrir vef„Hæstv. forseti. Nú eru aðeins tveir dagar frá því að við ræddum í þessum sal öryggi ferðamanna. Færst hefur í aukana að fyrirtæki hvetji ferðamenn til að ferðast um Ísland yfir vetrartímann á bílum sem hafa jafnvel svefnaðstöðu en eru ekki búnir undir fjallvegi, mikinn snjó eða þá miklu hálku og það veðravíti sem oft verið getur hér á landi. Það er lítið um aðstöðu fyrir þá sem ferðast um á slíkum bílum til að stoppa næturlangt. Fyrir valinu verða því oft afleggjarar, bæði heim að bæjum og inn á tún, og plön, m.a. við útsýnisstaði og á almennum ferðamannastöðum.
Það er mjög alvarlegt að svo virðist sem þessir ferðamenn fái mjög villandi upplýsingar frá þeim sem skipuleggja þessar ferðir. Það kemur oft í hlut hins almenna borgara að þurfa að leiðrétta þann misskilning en stundum þurfa menn að vísa þessu fólki burt af landareign sinni og útskýra fyrir því að ekki megi vaða um eignarland, keyra um tún o.s.frv.
Það snertir öryggi ferðamanna að gefa þeim réttar upplýsingar þegar þeir koma til landsins; gefa þeim upplýsingar um þá aðstöðu sem býðst og útskýra fyrir þeim þau lög sem eiga við. Þetta er dæmi um að við erum að missa yfirsýnina yfir þá miklu ferðamennsku sem orðin er á Íslandi. Rökin með ferðamennsku eins og ég nefni hér, á þessum bílum, hafa verið þau að hótel séu oft uppbókuð, en við þurfum þá að gæta þess að þessir aðilar séu ekki á ferð við aðstæður sem við Íslendingar mundum jafnvel ekki leggja út í.
Ég tel að við þurfum að setja á fót betra eftirlit með þeirri ferðaþjónustu sem verið er að koma af stað og þeirri nýsköpun sem í gangi er. Þó að það sé gott að skapa atvinnu þá megum við ekki leggja líf fólks að veði.“
Jóhanna María Sigmundsdóttir í störfum þingsins 12.05.2016.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi og Lilja Dögg á leiðtogafundi Norður­land­anna og Banda­ríkj­anna

Deila grein

14/05/2016

Sigurður Ingi og Lilja Dögg á leiðtogafundi Norður­land­anna og Banda­ríkj­anna

Sigurður Ingi JóhannssonSig­urður Ingi Jó­hanns­son for­sæt­is­ráðherra og Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra sátu í dag leiðtoga­fund Norður­land­anna og Banda­ríkj­anna í Hvíta hús­inu í boði Baracks Obama for­seta Banda­ríkj­anna.

Categories
Fréttir

Lilja ávarpar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

Deila grein

12/05/2016

Lilja ávarpar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

Lilja Dögg Alfreðsdóttir-sþLilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra ávarpaði í dag öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, en haldinn var opinn fundur í ráðinu um öfgahyggju og hryðjuverk. Í máli sínu lagði ráðherra áherslu á samvinnu og heildstæða nálgun í baráttunni gegn öfgaöflum. Sagði ráðherra engar einfaldar lausnir í boði, en mikilvægt væri að ráðast að rótum vandans. „Ég benti ennfremur sérstaklega á samfélagsmiðla sem hryðjuverkasamtök á borð við ISIL notast við, en Youtube hefur t.a.m. lokað 14 milljón myndbanda á síðustu tveimur árum og Twitter lokað fyrir rúmlega 2000 áskrifta á síðustu mánuðum sem rekja má til samtakanna,” segir Lilja.
Utanríkisráðherra átti fund með Jan Eliasson, varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og voru jafnréttismál, loftslagsmál, umbætur á starfsemi stofnunarinnar og tilnefning nýs framkvæmdastjóra, sem nú er í ferli, meðal annars til umfjöllunar. Á fundi með Lakshmi Puri, varaframkvæmdastjóra UN Women, áréttaði Lilja áframhaldandi stuðning Íslands við stofnunina, en Ísland er meðal helstu framlagaríkja UN Women og er stofnunin meðal fjögurra helstu samstarfsaðila á sviði þróunarsamvinnu. Þá átti ráðherra fund með Richard Wright, yfirmanni svæðisskrifstofu Palestínuflóttamannaaðstoðar SÞ, UNRWA, í New York, og fékk kynningu á starfsemi stofnunarinnar sem Ísland hefur stutt við bakið á en hún starfar m.a. í Jórdaníu, Líbanon, á Gaza og Vesturbakkanum.
Lilja flutti einnig lokaorð á málþingi um mikilvægi þátttöku kvenna í friðarviðræðum og sáttaumleitunum, en Norðurlöndin hafa hrundið af stað átaki um að fjölga konumsem taka virkan þátt í friðarviðræðum og uppbyggingu á alþjóðavettangi og styrkja stöðu kvenna meðal sáttasemjara í stríðshrjáðum löndum. Sagði Lilja konur ekki einungis eiga skýlausan rétt á að taka þátt í friðarumleitunum sem helmingur mannkyns, heldur hefðu þær mikilsverða þekkingu og hæfni fram að færa. Einnig sagði ráðherra mikilvægt að brjóta niður múra í jafnréttisbaráttunni og fá karlmenn til að taka þátt í umræðunni um jafnan hlut kynja, en Ísland hefur á undanliðnum mánuðum staðið fyrir svokölluðum Rakarastofuráðstefnum hjá Sameinuðu þjóðunum og Atlantshafsbandalaginu í því augnamiði.
„Tölurnar tala sínu máli. Á síðustu tveimur áratugum hafa konur einungis skrifað undir 4% friðarsamninga og konur leitt samningaviðræður í 9% tilvika. Hér virðist dropinn ekki hola steininn. Sérstaka hugarfarsbreytingu þarf til og ég bind vonir við að átak Norðurlandanna beri árangur”, segir Lilja.
Ræða utanríkisráðherra í öryggisráði SÞ

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

32 milljónir króna í styrki til atvinnumála kvenna

Deila grein

11/05/2016

32 milljónir króna í styrki til atvinnumála kvenna

Eygló HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra úthlutaði nýlega 32 milljónum króna í styrki til atvinnumála kvenna. Alls hlutu 33 verkefni styrk í samræmi við niðurstöðu ráðgjafarnefndar sem mat umsóknirnar en alls bárust 219 umsóknir um styrki til verkefna hvaðanæva af landinu.
Verkefnin voru fjölbreytt að venju. Má  þar nefna fórnarfóðringu fyrir jarðhitaborholur, þróun vistvænna umbúða í stað plasts og ræktun stofnfruma með nýjum aðferðum. Þessi verkefni hlutu 3 milljónir króna hvert. Af fleiri verkefnum má nefna framleiðslu á lífrænni ánamaðkamold, gerð viðskiptaáætlunar fyrir útgáfu á pólsk- íslensku tímariti, og gerð viðskiptaáætlunar fyrir fræðslu- og fjölskylduspilið Fuglafár.
Með styrkjum sem þessum er stuðlað að aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu en fjölmörg ný fyrirtæki hafa litið dagsins ljós sem skapa störf, samfélaginu til hagsbóta.  Einnig er styrkveiting sem þessi mikil hvatning fyrir þær sem er ekki síður mikilvæg þegar á hólminn er komið.
dpjfnmwu
Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá árinu 1991 og eru ætlaðir konum sem vinna að góðum viðskiptahugmyndum og verkefnum. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í eigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun. Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum.  Unnt er að sækja um styrki til gerðar viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is